sunnudagur, desember 31, 2017

Svona var árið 2017

Hér birtist loks langþráður annáll erlendra og innlendra atburða, eftir brigðulu minni og með alltof mörgum krækjum í fréttir sem enginn nennir að lesa en tók óratíma að finna og koma fyrir.

ERLENT

Byrjum létt og skemmtilega.

Sænskur víkingur, sem grafinn var upp fyrir nærri 130 árum eftir að hafa legið í gröf sinni í þúsund ár, reyndist vera kona. Nú þurfa kannski fornleifafræðingar að dna greina fleiri líkamsleifar úr víkingagröfum, í stað þess að ganga sjálfkrafa út frá því að alltaf sé um karlmenn að ræða séu sverð í grennd.

Japanskt fyrirtæki hefur ákveðið „að veita starfsmönnum sem ekki reykja sex launaða frídaga aukalega á ári. Með því vilja þeir jafna út þann tíma sem reykingamenn verja í pásu á degi hverjum.“ Þetta mættu fleiri fyrirtæki og stofnanir gera, hvort sem starfsfólkið reykir tóbak eða notar rafrettur.

Sádi-Arabar láta sér yfirleitt nægja að styðja (les: fjármagna) stríð (t.d. í Sýrlandi þar sem þeirra menn berjast gegn stjórnarher en ekki endilega gegn ISIS) en hafa verið virkir þáttakendur í hernaðarbandalagi gegn Jemen. Heima fyrir eru þeir hinsvegar í einhverskonar framfaragír: hafa leyft konum að keyra bíla og hyggjast leyfa rekstur kvikmyndahúsa. Kannski er það til þess að geta séð bíómyndina (þegar hún verður gerð) um forsætisráherra Líbanons, sem þeir héldu líklega nauðugum, og neyddu hann til að segja af sér. Þegar hann komst aftur heim hristi hann af sér þessa afsögn og er barasta forsætisráðherra aftur sama hvað Sádar segja. Meiriháttar furðulegt mál en verður kannski skemmtileg bíómynd.

Appelsínugula viðrinið í Hvíta húsinu

Trump hefur verið helsta fréttaefni heims, held ég að hljóti að vera. Ég nenni ekki að telja upp alla hans óþolandi ókosti eða allt það sem hann hefur ruglað og bullað. En í fréttum er það talið upp að „árið hefur einkennst af rannsókn Alríkislögreglunnar á tengslum hans við Rússa og afskiptum Rússa af forsetakosningunum, og deilunum við Norður-Kóreu.“ Þessar deilur geta endað með kjarnorkustríði.

Til að bæta gráu ofan á svart ákvað Trump sér til dægrastyttingar að kasta sprengju á ófriðarbálið fyrir botni Miðjarðarhafs með því að þjónkast Ísraelsmönnum sem vilja hafa Jerúsalem sem sína einkahöfuðborg.

Gegn fólki

Ríflega 15.000 manns létust af völdum skotsára í Bandaríkjunum á árinu, og eru þá ekki taldir þeir sem notuðu byssu til að fremja sjálfsmorð, sem eru 22.000 manns árlega. Skotárásir eru fáránlega tíðar. Á gamlársdag gekk maður berserksgang með riffil í Colorado (hvar Columbine fjöldamorðin voru framin árið 1999), skaut sjö manns, þar af fimm löggur og eina þeirra til bana. Svo var byssumaðurinn auðvitað sjálfur drepinn. Viðeigandi endir á árinu, finnst sjálfsagt byssusamtökunum NRA.

Þjóðernissinnar og allrahanda rasistar komu saman í Charlottesville að mótmæla því að minnismerkjum, sem upphefja hetjur Suðurríkjanna sem börðust fyrir réttinum til að halda þræla, væri steypt af stalli. Það var andstyggileg samkoma sem endaði með dauða manneskju sem var komin til að andæfa rasistunum. Appelsínugula viðrinið í Hvíta húsinu hallmælti ekki rasistasvínunum því hann vildi ekki styggja kjósendur sína, rasistana.

Hægri öfgamenn hafa víðar náð að treysta sig í sessi en í Bandaríkjunum, með tilheyrandi þjóðernishyggju og andúð á flóttamönnum. Nú síðast komst stjórnmálaflokkur sem er arftaki nasista til valda í Austurríki. Ekki eins og þeir viti ekki hvað það þýðir þar.
Flokkurinn hefur reyndar áður komist þar til valda (nei ég á ekki við á Hitlerstímanum) því hann var í samsteypustjórn fyrir 17 árum. Í stað þess að hafa verið kveðinn niður þá er hann bara enn spriklandi frískur. Þvílíkt.

Allt þetta og meira til sýnir að það er ennþá til fólk sem aðhyllist kynþáttahyggju og sem telur sig betri en aðra sökum litarháttar, trúar eða uppruna. Svo ekki sé minnst á kyn eða kynhneigð. Þessi hluti mannkyns virðist jafnramt enn þeirrar skoðunar að eðlilegt og sjálfsagt sé að nýta sér aðstæður (t.d. fátækt, kunnáttuleysi, undirskipun vegna kyns eða uppruna) eða jafnvel neyð annarra til að kreista útúr þeim ódýrt vinnuafl eða hreinlega halda sem þræla. Þetta gerist að því er virðist um allan heim, og að einhverjum mæli hér á landi. Nýlega fór franska stjórnin fram á umræður í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um þrælasölu í Líbíu eftir að bandaríska sjónvarpsstöðin CNN birti myndband sem sýndi þar uppboð á þrælum. Dapurlegt er að þrælahald og þrælauppboð tíðkist enn á vorum dögum.

Enn ein ömurleg aðferð við að níðast á fólki er að hleypa ekki fólki heim af spítala ef það getur ekki borgað spítalareikninginn.
„Hundruðum þúsunda sjúklinga víða um heim er haldið í sjúkrarúmum gegn vilja þeirra víða um heim á ári hverju vegna þess að þau hafa ekki ráð á því að greiða fyrir læknisaðstoðina. Margir sjúklinganna eru nýbakaðar mæður og hvítvoðungar þeirra. Flest ríkjanna sem beita slíkum ráðum gegn sjúklingum sínum eru í Afríku sunnan Sahara og í Asíu. Þar eru sjúklingar hlekkjaðir við rúmin, þeir sveltir og píndir. Víða eru sjúklingar neyddir til kynmaka gegn reiðufé fyrir sjúkrahússreikningum.

Verst bitnar þetta á fátækum sjúklingum, og þá sérstaklega fátækum mæðrum. Á sex vikna tímabili í fyrra gat yfir helmingur mæðra á einni heilbrigðisstofnun í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó ekki greitt reikninga sína og þurfti því að dvelja lengur á sjúkrahúsinu. Margar þeirra urðu að sætta sig við að vera þar mánuðum saman. Þá tekur skýrslan til ástandið á sjúkrahúsi í Nairobi, höfuðborg Kenía, þar sem konur hafi setið uppi með reikninga að andvirði um 200 þúsund króna. Til þess að greiða af þeim hafi læknar neytt þær til kynmaka við sig og greitt þeim andvirði um 300 króna í hvert skipti.“ (RÚV)

Ótrúlegt ástand hefur skapast í Mjanmar og Bangladess eftir að stjórnvöld og her Mjanmar réðust gegn þjóðflokki Róhingja í Rakhine-héraði. Talað er um þjóðernishreinsanir, eða jafnvel þjóðarmorð. 600 þúsund Róhingjar flýðu yfir til Bangladess, sem er engan veginn í stakk búið að taka við slíkum fólksfjölda. Sameinuðu þjóðirnar telja þetta langversta flóttamannavandamál í heiminum í dag. Jafn ömurlegt og framkoman við þetta veslings fólk er, eru vonbrigðin með Aung San Suu Kyi leiðtogaMjanmar og friðarverðlaunahafa Nóbels, gríðarleg. Hvernig getur hún látið þetta viðgangast? Hún neitar hreinlega að ræða þetta.

Ofan á flóttamannavandann í heiminum bætist við að
„mannkyn stríðir um þessar mundir við meira hungur og matvælaskort en það hefur gert áratugum saman. 30 milljónir manna í fjórum ríkjum hafa ekkert mataröryggi og milljónir manna eru á barmi hungursneyðar eða lifa nú þegar við sára neyð.
Í Sómalíu, Suður-Súdan, Jemen og norðausturhluta Nígeríu er sár matvælaskortur. Þegar hefur verið lýst yfir hungursneyð í Suður-Súdan þar sem allt að 100 þúsund manns eru við dauðans dyr af hungri og útlit fyrir að á sjöttu milljón manna líði hungursneyð á næstu mánuðum.“

„Síðustu tölur sýna að nærri 30 milljónir manna búa við alvarlegan fæðuskort, það er síðasta stig fyrir hungursneyð. Þar af eru 20 milljónir á barmi hungursneyðar eða búa þegar við hungursneyð.“ Þar af svelta milljónir barna í Jemen, þar deyja börn á sex til tíu mínútna fresti.“ (RÚV)

Vond veröld sem var
Hér koma jákvæðar fréttir: ISIS hefur misst tangarhald sitt á Írak og Sýrlandi. Enn er innanlandsófriður en ISIS kemur þar ekki nærri.

ISIS eða Íslamska ríkið missti bæði höfuðvígi sín, borgina Mósúl í Írak (töpuðu þar fyrir Íraksstjórn), og líka Raqqa í Sýrlandi, auk olíulinda og fleiri mikilvægra landsvæða. Í stuttu máli sagt hefur ISIS tapað stríðinu: Kalífadæmið í Sýrlandi og Írak er fallið. Hinsvegar er ISIS ekki bundið við landsvæði og á sér enn stuðningsmenn víða um heim, og hefur látið til sín taka í Afganistan „þar sem það heldur afar litlu landsvæði og hefur brugðið á það ráð að beita skæruhernaði. Á milli 1.000 og 5.000 ISIS-liðar eru eftir í landinu“.

Það hefur allsekki verið nægilega talað um að Kúrdar hafa verið einkar duglegir að berja á ISIS. Kúrdar styðja uppreisnarmenn í Sýrlandi (sýrlenska lýðveldisherinn) og þeir með stuðningi bandaríska flughersins náðu „al-Omar olíulindunum, stærsta olíuvinnslusvæði Sýrlands úr höndum vígamanna Íslamska ríkisins. Kúrdaherinn náði einnig í nóvember Raqqa, höfuðstöðvum Íslamska ríkisins í Sýrlandi, eftir bardaga sem stóðu í fjóra mánuði.“ (RÚV)

Kúrdar eru stundum sagðir vera stærsta landlausa þjóð heims en þeir eru um 35 milljónir. Flestir búa í Tyrklandi, en milljónir búa einnig í Íran, Írak og Sýrlandi. Oft hafa þeir mætt ofsóknum. Nú vilja þeir sjálfstæði. „Kúrdar í Írakska Kúrdistan gengu til kosninga um sjálfstæði í septemberlok og samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta að lýsa yfir sjálfstæði. Írakar álíta kosningarnar ólöglegar og hafa ekki viljað ræða við Kúrda um stofnun sjálfstæðs ríkis þeirra.“ Það gæti verið ætlun Kúrda að skila ekki landsvæðunum sem þeir unnu af Íslamska ríkinu. Það hljómar næstum sem réttlát sigurlaun.

INNLENT

Sá Íslendingur sem stóð sig líklega best á erlendu íþróttamóti (ég fylgist ekki nægilega vel með íþróttum til að fullyrða neitt) var Júlían J. K. Jóhannsson sem keppti á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem fram fór í Plzno í Póllandi. Júlían fékk gullið í í réttstöðulyftu í plús 120 kg flokki. Í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu lyfti Júlían samanlagt 1060 kg og það skilaði honum í þriðja sæti í heildarstigakeppninni. Hann fékk því bæði gull og brons á HM.
(RÚV)

Guðmundar- og Geirfinnsmál komust í fréttir á árinu. Endurupptökunefnd féllst í febrúar á að dómur Hæstaréttar frá árinu 1980 skyldi tekinn upp að því er varðaði fimm sakborninga af sex. Endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur var hafnað.

Tvær heimildarmyndir voru sýndar í Ríkissjónvarpinu um Guðmundar- og Geirfinnsmálið í sömu vikunni í september. Fyrri myndin var sýnd mánudaginn 11. september (en sama dag hafði úrskurðarnefnd um upplýsingamál sagt að dómsmálaráðuneytinu gert að veita aðgang að gögnum um Robert Downey, og umræða næstu daga snerist um þau) en sú síðari fimmtudagskvöldið 14. september — nokkrum klukkutímum áður en ríkisstjórnin sprakk. Guðmundar- og Geirfinnsmál gleymdust því alveg, eins og rakið var hér á blogginu.

Nú í árslok skilaði Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari vegna endurupptöku Guðmundar- og Gerfinnsmála, heilu kassastæðunum af gögnum, u.þ.b. 18 þúsund síðum, til Hæstaréttar. Davíð Þór segir að „Það sem gerist næst er að ég fæ frest til að skila greinargerð þar sem fram kemur hvaða kröfur ég geri í málinu og í framhaldi af því fá verjendurnir frest. Þegar það er komið og málið þykir tilbúið til flutnings þá verður það sett á dagskrá Hæstaréttar.“ Það er vonandi að Sjónvarpið sýni heimildarmyndirnar aftur þegar dregur til tíðinda í málinu.

Náttúran
Umhverfismál hafa verið í brennidepli eins og oft áður.

Friðlýsing Jökulsárlóns var sannarlega jákvætt framtak hjá Björtu Ólafsdóttur „en með friðlýsingunni er svæðið fellt inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Með þessu nær þjóðgarðurinn nú frá hæsta tindi landsins og niður að fjöru.“

Það er einnig mikið fagnaðarefni að friðland Þjórsárvera var fjórfaldað að stærð. Enda er „mikilvægt að verja friðlandið í Þjórsárverum fyrir ágengni komandi virkjana“.


Endalausar skaðræðisfréttir bárust af starfsemi United Silicon kísilverksmiðjunnar í Helguvík sem spúði mengun yfir Keflavík. Umhverfisstofnun endaði á að stöðva starfsemina og verksmiðjan er komin í greiðslustöðvun. Eitthvað er þó rætt um að selja hana í hendur nýrra kaupenda — framlengir það ekki bara mengunarástandið?

Til stendur að virkja í Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum. Lækna-Tómas berst gegn virkjuninni, ég skrifaði um það, en hér í frétt RÚV má sjá kort og myndir sem sýnir almennilega hvar þetta er og hvaða landsvæði liggur undir. Skoðið!

Fyrirhugað er einnig að reisa 9,8 megavatta virkjun í Svartá í Bárðardal. Fjölmargir einstaklingar, stofnanir og samtök hafa gert athugasemdir við það, sem kom sveitarstjóra Þingeyjarsveitar mjög á óvart. Alltaf allir svo hissa á náttúruverndarsjónarmiðum.


Fiskeldi hefur verið mikið rætt á árinu. Bloggið hefur tekið afstöðu gegn laxeldi í sjókvíum og var hér gerð tilraun til að ná utan um umræðuna en hún hefur haldið áfram lengi eftir það. Svo bárust þær fréttir í lok árs að — einsog venjulega — eru öll varnaðarorð hunsuð og gefið er leyfi fyrir að stórauka sjókvíaeldið.
„Umhverfisstofnun hefur veitt Fjarðalaxi og Arctic Sea Farm starfs- og rekstrarleyfi fyrir fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði. Fjarðalaxi er heimilt að framleiða allt að 10.700 tonnum og Arctic Sea Farm 6.800 tonnum.“
Samt höfðu „Sýnatökur Náttúrustofu Vestfjarða síðastliðinn vetur bentu til mikillar uppsöfnunar lífræns úrgangs sem bærist með straumum inn fjörðinn.“
„Í ljósi frétta af mengun frá því sjókvíaeldi sem hefur verið í Patreksfirði vekur útgáfa á nýjum leyfum fyrir stórauknu eldi óneitanlega furðu,“ segur Jón Kaldal, hjá Icelandic Wildlife Fund. „Samkvæmt þeim fréttum leiddi úttekt Náttúrustofu Vestfjarða í ljós að mengun frá laxeldiskvíunum hlóðst ekki aðeins upp í nágrenni eldiskvíanna og eyddi lífi botndýra þar, heldur hefur mengunina líka rekið inn fjörðinn og safnast þar saman. Þetta hlýtur að vera mikið áhyggjuefni.“ 

Þá víkur sögunni að ástandinu í henni Reykjavík

Skólphreinsun Reykvíkinga var ekki bara biluð í þrjár vikur heldur var þagað yfir því allan þann tíma, meðan fólk stundaði sjósund og buslaði við Nauthólsvík. Það er eins og Heilbrigðiseftirlitið, Veitur og stjórnendur borgarinnar hafi ekki heyrt um almennar kröfur um gagnsæi og opna stjórnsýslu. Til að bæta gráu ofan á svart kom í ljós að skólphreinsistöðvarnar hafa barasta aldrei gert neitt meira en sigta mesta ógeðið frá því að subbast út í sjó, í stað þeirrar hreinsunar sem almenningur (a.m.k. sú sem þetta skrifar) gerði ráð fyrir að færi fram í þessum svokölluðu hreinsistöðvum. Annarstaðar á landinu er ástandið ekkert skárra, fjórðungur landsmanna bjó ekki við neina ‘hreinsun’. Það er eins og við séum stödd á einhverri allt annarri öld, nútímann hafi ekki skolað upp á skólpmengaðar fjörur okkar.

Húsnæðismál á höfuðborgarsvæðinu og þá aðallega í Reykjavík eru í ferlegu standi: fáránlega margar íbúðir leigðar túristum, fáránlega mörg hótel og gististaðir í miðborginni. Afleiðingarnar m.a. húsnæðisskortur, himinhá leiga og fasteignaverð í hæstu hæðum.

Verktakalýðræðið (þetta sem Hjálmar Sveins talaði gegn áður en hann var kosinn í borgarstjórn) er allsráðandi. Háhýsi, og aðrar byggingar sem að stærð og útliti skemma útsýni eða eyðileggja götumyndir eru útum allt eða fyrirhugaðar. Gleróskapnaðurinn við Laugaveg 4 er gott dæmi, stórhýsin við Lækjargötu annað. Landspítalalóðin er enn eitt slysið í bígerð.

#Höfum hátt

Hér verður ekki farið í það flókna verkefni að útskýra allt málið í kringum uppreista æru kynferðisbrotamanna sem endaði með því að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar fór frá völdum eftir að komist hafði upp að pabbi hans tengdist málunum og að Bjarni og Sigríður Andersen dómsmálaráðherra höfðu vitað það um hríð.

Þolendur kynferðisbrotamannsins Róberts Árna Hreiðarssonar, sem nú kallar sig Robert Downey, þær Anna Katrín Snorradóttir, Glódís Tara Fannarsdóttir, Halla Ólöf Jónsdóttir og Nína Rún Bergsdóttir stigu fram undir merkjum #höfumhátt eftir umfjöllun í fjölmiðlum um uppreist æru kynferðisbrotamanna. Faðir Nínu, leikarinn Bergur Þór Ingólfsson, fór mikinn í baráttu sinni fyrir svörum frá yfirvöldum.“ Sem endaði semsagt með stjórnarslitum. En ekki bara það heldur afhjúpaðist þjóðinni að mektarmenn í samfélaginu hafa um það samtryggingu að hylma yfir glæpi ógeðslegra kynferðisglæpamanna svo þeir geti óáreittir valsað um í samfélaginu og jafnvel valið sér ný fórnarlömb. Reiði okkar allra var mikil og réttlát.

#metoo

Í Bandaríkjunum var kvennaníðingurinn Harvey Weinstein afhjúpaður og í kjölfarið hafa konur úr öllum heimshornum sagt frá kynferðislegri áreitni, kynferðislegu ofbeldi og mismunun undir myllumerkinu ég líka #metoo.
„Eftir að umræðan um #metoo komst í hámæli fóru konur á Íslandi að segja sögur sínar opinberlega, þó flestar nafnlausar. Konur í stjórnmálum riðu á vaðið og sendu frá sér áskorun þann 24. nóvember síðastliðinn. Síðan þá hefur fjöldi starfsstétta gefið út yfirlýsingar þar sem kynferðislegu áreiti, ofbeldi og mismunun er mótmælt. Nú hafa rúmlega 4.700 konur úr ýmsum starfsstéttum skrifað undir áskorun þar sem þær setja fram kröfur sínar og deilt með þjóðinni 543 sögum. Hver og ein saga lýsir reynslu konu sem þurft hefur að takast á við áreiti, ofbeldi eða mismunun vegna kyns síns.“ (Kjarninn)
Konur í fjölmiðlum
Konur í flugi
Konur í heilbrigðisþjónustu
Konur í læknastétt
Konur í menntakerfinu
Konur í stjórnmálum
Konur í sviðslistum og kvikmyndagerð
Konur í tækni-, upplýsinga-, og hugbúnaðariðnaði
Konur í tónlist
Konur í verkalýðshreyfingunni (áskorun eingöngu)
Konur í vísindum
Konur úr réttarvörslukerfinu

Kjarninn hefur tekið saman yfirlýsingarnar og sögurnar sem birst hafa. Von er á fleiri áskorunum og sögum frá öðrum starfsstéttum og mun Kjarninn birta þær hér þegar þær verða gerðar opinberar. 

Konurnar sem tóku þátt í #metoo-byltingunni eru manneskjur ársins að mati hlustenda Rásar 2. Sami hópur var einnig valinn maður ársins á Stöð 2.

Ég kaus #metoo sem mann ársins enda þótt mér hafi þótt leitt að geta ekki líka kosið #höfumhátt hópinn. En Bergur Ingólfsson var einn tilnefndur í kjörinu og það var einhvernveginn ekki hægt að haka við nafn hans þegar öll kvennasamstaða #metoo var í boði. Sannarlega hefði ég þó viljað getað hrósað, hampað og verðlaunað Önnu Katrínu, Glódísi Töru, Höllu Ólöfu Jónsdóttur og Nínu Rún — auk Bergs auðvitað. Enda mikilvægt fólk með magnaðan málstað. Helst hefði ég viljað fá að kjósa bæði myllumerkin í einu, það var vont að gera upp á milli.

Eitt athyglisvert gerðist í kjölfar #metoo.

„Egill Einarsson bað þær konur sem hann nafngreindi í umdeildum pistli árið 2007 afsökunar í kvöld. Í færslu sem hann birti á Facebook segist Egill sjá eftir skrifum sínum og að hann hafi þroskast síðan þá. Tilvitnanir í pistla og bækur Egils hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum síðustu daga

„Ég er ekki stoltur af þessum skrifum. Þetta var líka ekki fyndið, bara gróft og særandi. Ég viðurkenni að ég hef oft haft gaman af grófum svörtum húmor, en þetta var ljótt, og ég sé mikið eftir þessu. Ég vil því enn og aftur biðja þessar konur afsökunar sem ég nafngreindi í þessum pistli. Ég veit ekki hvort það er einhver sárabót.“ (Vísir)
Ekkert bendir til þess, nú fremur en áður, að Egill Gillzenegger Einarsson hafi haft samband við konurnar til að biðja þær fyrirgefingar. Ekki er vitað til þess að hann hafi hitt þær eða skrifað þeim, og er þessi útí kosmósið afsökunarbeiðni hans því eiginlega bara algjört ómark. Lyktar af vinsældaleit fremur en iðrun og yfirbót. Og hvar eru afsökunarbeiðnirnar fyrir allt ógeðið sem hann skrifaði í þessum viðurstyggilegu kvenhatursbókum sínum? En samt skal það fært til bókar hér, að Egill Gillz Einarsson skrifaði færslu á Facebook þar sem hann sagðist vera voða sorrí.

Nú er þetta að verða búið

Dregist hefur úr hömlu að birta þennan annál ársins 2017 en það hefur þann kost að hægt hefur verið að bæta við krækjum á yfirlit sem birtust á nýjársdag. Einnig er hægt að hrósa áramótaskaupinu, sem var með miklum ágætum. Atriðið um sjómannaverkfallið fannst mér mjög beitt og gott. Ekkert af því sem þar kom fram kom mér á óvart enda birtist hér á blogginu pistill um nákvæmlega það efni. En gott að skaupið rifja þetta upp, sjálfri fannst mér svo óralangt síðan sjómannaverkfallið stóð að ég hafði nærri gleymt því.

En meðan ég man. Fyrirsögn ársins kom fram í Fréttablaðinu (og þarafleiðandi Vísi) strax 10. janúar 2017. Hún er þessi, og varð ekki toppuð:

Sjálfkeyrandi rúgbrauð



Efnisorð: , , , , , , , ,