föstudagur, maí 25, 2007

Stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins

Allt sem ég hef að segja um nýju ríkisstjórnina hefur komið fram annarstaðar, ég hef ekkert nýtt fram að færa. Samt, svona til að halda því til haga, þá finnst mér þetta:

Frábært að Jóhanna Sigurðardóttir sé aftur orðin félagsmálaráðherra.

Frábært að Samfylkingin skuli hafa jafnmargar konur og karla í ríkisstjórn.

Frábært að Þórunn Sveinbjarnardóttir sé orðin ráðherra.

Súrt að Ágúst Ólafur skuli ekki hafa fengið dómstólaráðherrastólinn, óþolandi að Björn Bjarna skuli sitja þar áfram.

Frábært að Ingibjörg Sólrún skuli vera orðin ráðherra. Skil hinsvegar ekkert í að hún skuli ekki hafa náð að semja um stólaskipti þannig að hún myndi setjast í stól forsætisráðherra á tímabilinu.

Sorglegt, en ekki óvænt, hve 'fáar hæfar konur' eru í Sjálfstæðisflokknum. Gott að Guðfinna Bjarnadóttir lét það heyrast að hún hefði sóst eftir að verða ráðherra, það er þá ekki hægt að segja um hana að 'konur bara vilja ekki ábyrgð.'

Ömurlegt að frjálshyggjuguttinn sé orðinn heilbrigðisráðherra. Hann mun örugglega einkavæða heilbrigðiskerfið til helvítis, ef ekki beinlínis selja vinum sínum spítalana, eins og gert var við bankana hér um árið.

Hef áhyggjur af að stóriðju- og virkjanastefnan haldi áfram óáreitt og að jafnréttismálin verði bara orðin tóm, enda málefnasamningurinn allur eitthvað loðinn um þau mál. Kannski tekst Samfylkingunni að halda aftur af frjálshyggjuöflunum í Sjálfstæðisflokknum og hafa góð áhrif þannig að þetta verði bara ekkert svo slæmt. En ég hef mínar efasemdir.

Efnisorð: