fimmtudagur, mars 15, 2007

Það hefði allt eins getað verið ég

Ég trúi ekki á guðlega forsjón eða mátt örlaganna. Ég held að það sé fyrir algera tilviljun, en ekki vegna þess að ég njóti blessunar máttarvaldanna, að ég fæddist á Íslandi á ofanverðri tuttugustu öld, hef notið ókeypis menntunar og hef það að mörgu leyti andskoti gott. Ég hefði alveg eins getað, fyrir algera tilviljun, fæðst í fátæku landi þar sem einhver hefði boðið mér ‘góða vinnu í útlöndum’ eða jafnvel barið mig í hausinn og dregið mig nauðuga af stað í ferðalag þar sem áfangastaðurinn var vændishús eða einhver klámmyndaframleiðslan.

Ég hefði líka getað alist upp við skelfilegar aðstæður, þar sem barsmíðar og nauðganir voru daglegt brauð og hefði átt þess kost einan, vegna menntunarleysis, brotinnar sjálfsmyndar og fátæktar, að hafa ofan í mig og á með vændi eða vinnu á strippstað eða á einhvern þann hátt sem myndi halda mér kyrfilega niðurlægðri það sem eftir væri. Ég hefði getað verið konan sem endaði í klámmyndinni sem einhver íslenskur strákur rúnkar sér sæll og glaður yfir, óvitandi þess að hann er ekki kóróna sköpunarverksins. (Og líklega hvarflar ekki að honum að HANN hefði getað fæðst kona við slæmar aðstæður).

Þó ég hafi sloppið sjálf, þá rennur mér til rifja hvernig komið er fram við konur heimsins. Ég er nefnilega feministi og kúgun kvenna er mín kúgun. Ég er þær og mér kemur þetta við.

Efnisorð: , , , ,