fimmtudagur, maí 03, 2007

Framfyrir röðina

Málefni aldraðra og öryrkja verða gjarnan kosningamál, aðallega vegna þess hve smánarlega stjórnvöld fara með þessa hópa og hve auðvelt er að fá þau til að lofa breytingum þegar séð er fram á fylgistap vegna frammistöðu í þessum málaflokkum. Ég ætla ekki að rekja hér lífeyrismál eða búsetumál en tala frekar um hvers vegna ég held að þessir hópar verða alltaf útundan í samfélaginu.

Stundum tala enskumælandi fatlaðir einstaklingar um að fólk, sem ekki er fatlað, sé 'tímabundið ófatlað' eða 'ófatlað um stundarsakir'. Með því er bent á að hvert og eitt okkar, sem ekki erum fötluð, getum orðið fötluð vegna slysa, sjúkdóma eða öldrunar. Við gætum semsagt orðið hreyfihömluð, sjónskert, eða orðið fyrir annarri skerðingu sem hefði áhrif á líf okkar. Þetta veldur líka því að við þessi, 'ófötluðu um stundarsakir', eigum erfitt með að horfast í augu við fatlaða (bókstaflega; margir líta undan þegar fatlaður einstaklingur er í námunda við þá) eða setja okkur í spor þeirra - því við hræðumst það svo mjög að lenda í þeirra sporum. Við getum ekki ímyndað okkur hvernig það er að þurfa að sætta sig við að komast ekki allra sinna ferða hjálparlaust, þurfa aðstoð við margar ef ekki allar athafnir daglegs lífs og njóta ekki þeirra kjara og samfélagsstöðu sem við höfum núna. Það, að við viljum ekki hugsa um þetta, verður svo til þess að samhygð okkar er ýtt til hliðar og við nánast útilokum tilhugsunina um 'þetta fólk'. Það er því ekki von að við setjum málefni þeirra í öndvegi, hvorki við þessi sem erum ekki fötluð né eigum nána ættingja sem eru fatlaðir eða þá ráðamenn.

Stundum er sagt að ef ráðamenn ættu fötluð börn eða aðra nána ættingja, þá myndu hlutirnir breytast í málefnum fatlaðra. Eða ef þeir eða þeirra ættingjar ættu við heilsubrest að stríða, þá myndi vera stokkað uppí heilbrigðiskerfinu - eða málefnum aldraðra ef þeir ættu aldraða ættingja. Þetta held ég að sé ekki rétt. Ráðherrar og alþingismenn hafa ekki og munu ekki þurfa að sæta reglum um innlagnir, forgangsröðun eða lífeyrismál, sem almenningur allur er ofurseldur. Ráðamenn þjóðarinnar og þeirra nánustu ættingjar eru alltaf teknir fram yfir alla biðlista og þurfa því aldrei að finna á eigin skinni hvernig það er að bíða eftir aðgerð árum saman eða að komast að á stofnun við hæfi. Það vita allir sem á slíkum stofnunum vinna eða hjá þeim stofnunum sem sjá um úthlutanir dvalarstaða, að ráðherrar og alþingismenn, svo og háttsettir embættismenn, hringja iðulega og gefa fyrirskipanir um að þessi og þessi (ættingi þeirra eða þeirra sem þeir vilja gera greiða) þurfi að komast að strax. Eftir þessu er undantekningalaust farið.

Það eru því ekki ráðherrar sem þurfa að taka sér frí frá vinnu til að sitja yfir aldraðri móður sem ekki kemst á hjúkrunarheimili eða alþingismenn sem lenda aftast á biðlista eftir að komast í hjartaaðgerð, hvað þá að liggja á göngum sjúkrahúsa dögum saman, heldur sauðsvartur almúginn. Ráðamenn þjóðarinnar hafa engan áhuga á að setja sig í þau spor og fjarlægjast þannig jafnframt raunveruleikann sem blasir við stórum hluta þjóðarinnar. Þeir ætla ekki sjálfir að verða fatlaðir eða aldraðir, en fari svo passa þeir sig sannarlega á að þeir og þeirra nánustu fá bestu meðferð.

Þau sem eru ósammála um að kerfið vinni ráðamönnum þess í hag er bent á mál tengdadóttur framsóknarráðherrans. Málið var tekið fyrr fyrir en nokkurra annarra (fór í gegn á tíu dögum) og hún fékk ríkisborgararétt eftir mun styttri dvöl á landinu en aðrir. Ég hef reyndar þá skoðun að innflytjendalögin séu of ströng (rétt eins og mér finnst málefnum fatlaðra og aldraðra afar illa sinnt) en það afsakar ekki að einstaklingum sé kippt fram fyrir röð vegna tengsla þeirra við ráðamenn þjóðarinnar.

Ríkið, það er ég, sagði kóngurinn. Reglurnar og biðraðirnar, það eru hinir, segja ráðamenn.

Efnisorð: , , ,