laugardagur, febrúar 28, 2015

Febrúar er stystur mánaða

Þótt febrúar sé stystur mánaða þá er ekki þar með sagt að það hafi verið tíðindalítið í mánuðinum eða fólk hafi almennt verið sammála um alla hluti, nema þá kannski veðrið. Hér er mörgu misjöfnu hrúgað saman á einn stað og lesendur hvattir til að lesa pistlana sem vísað er á, þeir eru þess virði þótt hér séu bara birt brot. Byrjum á Eiríki og mönnunum á myndunum.

Eiríkur Guðmundsson flutti fyrirtaks pistil í Víðsjá og lagði út af tveimur þekktum ljósmyndum;
„önnur tekin þegar nýbúið var að einkavæða bankana, og sýnir Finn Ingólfsson undir stýri, við hlið hans situr athafnamaðurinn Ólafur Ólafsson, þarna eru menn búnir að gera góðan díl árið 2001. Hin myndin var tekin á örlagastund í íslenska bankahruninu haustið 2008, og sýnir Davíð Oddson þáverandi seðlabankastjóra undir stýri, við hlið hans í framsætinu situr Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra. Í fljótu bragði og af þessari lýsingu gæti maður ætlað að þetta væru í sjálfu sér ekki merkilegar myndir, fjórir karlar í jakkafötum í tveimur bílum á leiðinni guð má vita hvert, þetta er hvunndagslegt, en myndirnar eru athyglisverðar eigi að síður“.

Í framhaldi af því er vert að minnast á að í mánuðinum var enn og aftur rætt um hið fræga símtal Geirs og Davíðs um lánið til Kaupþings kortéri fyrir hrun, lánið uppá 500 milljóna evra sem gufaði upp í money heaven. Davíð hefur nú sagt sína (pottþétt sönnu) hlið á símtalinu, vitandi að Geir leggst þversum fyrir aðgang að upptökunni sem gæti frætt almenning um ekki bara hver stakk uppá hverju við hvern og hver sagði alltíkei, heldur hvernig í ósköpunum þeir komust að því að þetta væri skynsamlegur leikur í stöðunni. Af öllum þeim sem ræddu símtalið kom Bergþóra Gísladóttir með bestu samlíkinguna.

Alveg þessu ótengt, þá skrifaði Egill Helgason ágæta sögu um þegar Blair varð ritstjóri Guardian og „brátt fór að bera á því í ritstjórnargreinum að hann hafði hugsað ritstjórastöðuna sem pall til að verja sjálfan sig“.

Ennfremur skrifaði Jón Sigurður Eyjólfsson, eins og margir aðrir í febrúar, um kaup á bankagögnum til að komast að stórtækum skattsvikum. Fjölluðu bakþankar hans um kaup eða ekki kaup, en þó aðallega afstöðu Heimdellinga sem leggjast gegn kaupunum. Vert að lesa, þó ekki væri nema til að sjá Heimdellingum líkt við íranska klerka.

ISIS bætti á lista sinn yfir illvirki sem þeir fremja. Þeir taka Talibanana sér til fyrirmyndar en þeir eyðilögðu fornar höggmyndir í Afganistan í aldarbyrjun, ISIS réðst í mánuðinum á árþúsunda gamlar höggmyndir í Írak. Óafturkræf skemmdarverk þeirra sem eru of heimskir til að skilja hugtakið menningarsaga.

Álíka gleði mína vakti frétt um afmælisveislu Roberts Mugabe forseta Simbabve sem ku vera haldin í dag. Veislan kostar stórfé og er gríðarlega íburðarmikil sem eitt og sér er nógu fáránlegt í þessu öðru fátækasta ríki heims, en að auki á að slátra og éta antílópur, tvo fíla, vísunda og ljón. Þetta er yfirgengilegt hneyksli.

Og meðan ég er á dýraverndunarnótunum ber að geta þess að með nýju dýraverndarlögunum verða ýmsar jákvæðar breytingar á aðbúnaði dýra sem nú er verið að hnykkja á með reglugerðum. Goggstýfing alifugla verður úr sögunni, færri kjúklingar verða á hvern fermetra og og notkun hefðbundinna búra fyrir varphænur verður bönnuð að sjö árum liðnum. Þetta mætti auðvitað allt gerast hraðar en þetta er allt í rétta átt.

Upp komst að 12% barna eru ekki bólusett því foreldrar þeirra eru of heimskir til að skilja mikilvægi bólusetninga en trúa þess í stað gamalli lygasögu um að bólusetning valdi einhverfu. Um langa hríð hefur fólk með þessa heimskulegu skoðun vaðið uppi í athugasemdakerfum en fengu nú loksins að finna til tevatnsins úr öllum áttum og ætti þá líklega að vera búið að uppræta þvæluna. Til öryggis verður þó líklega að setja með einhverjum hætti í lög að skylda sé að bólusetja öll börn. Þangað til að ágætt mótefni að lesa fínan pistil Sifjar Sigmarsdóttur (sem reyndar minnist á hvíta nashyrninga sem eru við það að útrýmast vegna þeirrar hjátrúar að nashyrningshorn séu nothæf til lækninga). Sif segir:
„Hópar foreldra virðast telja bólusetningar barna sinna vettvang til einhvers konar sjálfstjáningar. Að bólusetja eða ekki bólusetja er allt í einu orðin einhver spurning um frjóa og sjálfstæða hugsun, tækifæri til að synda á móti straumnum, ekki vera hjarðdýr. Fólk með tíu Iittala-kertastjaka í gluggakistunni sinni í sama lit og nágranninn grípur skyndilega tækifærið til að vera öðruvísi …“

Talandi um lækningar, eða öllu heldur óskylt mál. Alveg burtséð frá því hvaða skoðun fólk hefur á skipulagstillögu um breytingar á ásýnd Landmannalauga með því að færa tjöld og bíla úr augsýn þeirra sem lauga sig, þá er fáránlega sterkur leikur hjá Ferðafélagi Íslands að gera Tómas Guðbjörnsson að talsmanni sínum gegn þessum tillögum. Það er vonlaust að ætla að vera ósammála læknatómasi um eitt eða neitt. Hann ætlar að bjarga þessum Landmannalaugum.

Þetta er að breytast í læknaróman svei mér þá, en aðeins meira um lækningar, og þó. Rétt eins og búið er að afhjúpa heimsku bólusetningafrelsisfólksins hafa rammskakkir talsmenn kannabisneyslu verið upplýstir um gagnsleysi kannabisolíu sem þeir hafa reynt að trúa í gegnum bláa móðu að lækni krabbamein (jæja þeir eru allavega ekki ábyrgir fyrir nashyrningadrápi á meðan). Það er reyndar mikill áróður rekinn fyrir því að leyfa kannabis í öllum myndum (sem er efni í sérpistil) og ein röksemdin á semsagt að vera að það sé alveg bráðhollt. En svar lækna við læknamætti kannabisolíunnar var alveg kýrskýrt:
„Þetta er í raun gríðarlega alvarlegt þegar maður kemur fram og segir að olía sem hann framleiðir lækni ekki bara öll krabbamein heldur einnig bara fjölmarga sjúkdóma, það er svo yfirgengilegt að maður á í raun ekki orð.“

Mér fannst margt yfirgengilegt í febrúar (reyni þó að stilla mig um að ræða veðrið) og þar á meðal blaðagrein sem virðulegur háskólakennari sá ástæðu til að skrifa um misskilning á skemmtistað til að vekja athygli á hvað konur séu trylltar í að saka saklausa menn um glæpi. Hann er ekki ókunnugur málaflokknum. Fyrir einu og hálfu ári hafði sami kennari gagnrýnt feminista fyrir að hlutast til um ráðningu Jóns Baldvins Hannibalssonar hjá Háskóla Íslands. Háskólakennarinn sagði feministana haldna kvalalosta, gægjufíkn og yfirdrifnum hefndarþorsta. Nú finnur háskólakennarinn aftur hjá sér þörf til að taka afstöðu gegn konum sem kvarta. Hann skrifaði þó pistilinn eflaust bara af frásagnarþörf því varla er hann rekinn áfram af hefndarþorsta.

Svo lauk eldgosinu.

Efnisorð: , , , , , , ,

miðvikudagur, febrúar 25, 2015

Viðskiptaráð: Einkavæðing, taka tvö (hvað getur klikkað?)

Það vakti nokkra athygli um daginn að Viðskiptaráð birti skýrslu sem heitir „Hið opinbera: tími til breytinga“ þar sem lagt var til að selja „opinber fyrirtæki fyrir 800 milljarða króna og helminga þannig opinberar skuldir“. Framkvæmdastjóri þess segir
„Við sjáum fátt því til fyrirstöðu að fara að selja eignarhlut í Landsbankanum og að hefja undirbúning á að minnsta kosti hluta á eignarhlut í Landsvirkjun.“
Skýrslur Viðskiptaráðs hafa reyndar áður vakið athygli, sérstaklega sú frá árinu 2006 þar sem mótuð er framtíðarsýn til 2015:
„Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.“
Þetta sama Viðskiptaráð hreykti sér af því að á árunum fram að hruni hefði ráðið fengið um 95% af stefnumálum sínum framkvæmd af ríkisstjórnum Íslands. Og síðan — með öllum þessum fínu ráðstöfunum — varð hrun. En Viðskiptaráð vill semsagt taka annan snúning. Það er mikilvægt að gefa því gaum í ljósi sögunnar.


Fyrst eftir hrunið hrópuðu margir í örvæntingu að enginn hefði séð í hvað stefndi og enginn hefði varað við því að bankarnir væru að hrynja. Allir hefðu verið ánægðir með það sem var að gerast og héldu því fram að allir hefðu verið ánægðir með það sem var að gerast og enginn gagnrýnt neitt. Margoft var reynt að benda því fólki á að vissulega hefði verið varað við bankahruni (þeir sem það gerðu voru aðallega útlendingar sem ekki þótti mark á takandi) og ítrekað var varað við skaðsemi frjálshyggjunnar og einkavæðingarstefnunnar. Eins og svo kom í ljós.

Þannig að nú tók ég saman nokkrar greinar (og stytti og þjappa saman að hentugleika) þar sem er varað við því að fara að ráðleggingum Viðskiptaráðs. Eflaust eru fleiri sem hafa lagt orð í belg en ég læt þetta nægja, bara svona til að hafa fyrir sjálfa mig á einum stað þegar næst verður hrópað „en það sagði enginn að frjálshyggjuleið Viðskiptaráðs gæti endað með ósköpum“.

Stefán Ólafsson skrifar, í kjölfar þessarar nýju skýrslu, um Viðskiptaþing sem hann kallar hina árlegu revíu Viðskiptaráðs. Hann segir að fyrir hrun hafi þessar samkomur verið vinsælar.
„Menn töldu að spekingar Viðskiptaráðs hefðu höndlað sannleikann og mændu upp í nasir þeirra. Sannleikur þeirra reyndist vera einföld útgáfa af bandarískri nýfrjálshyggju og ræningjakapítalisma.

Viðskiptaráð hældi sér af því að á árunum fram að hruni hefði ráðið fengið um 95% af stefnumálum sínum framkvæmd af ríkisstjórnum Íslands.

Nú heimta Viðskiptaráðsmenn á ný að Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur verði seld ódýrt til braskara í einkageiranum. Þeir eru meira að segja búnir að verðleggja góssið sjálfir!

Viðskiptaráð vill einnig að ríkið selji alla aðra fýsilega starfsemi sem það hefur á sinni könnu og leggur meðal annars til að heilbrigðisþjónustu, menntun og störfum sýslumanna verði úthýst til braskara í Viðskiptaráði. Næsti bær við er úthýsing löggæslunnar og ríkisstjórnarinnar.

Stefán bendir á að „eftir þá reynslu sem þjóðin fékk af hrunadansinum þá væri það vitfirring að fylgja ráðum Viðskiptaráðs nú. Hrein og klár vitfirring. Viðskiptaráðsmenn ættu að hafa hægt um sig eftir reynsluna af stefnu þeirra sem færði okkur hrunið. Þeir hafa ekkert lært af reynslunni.“
Og Stefán spyr, skiljanlega nokkuð áhyggjufullur: „Er búið að útvista ríkisstjórninni til Viðskiptaráðs?“

Ögmundur Jónasson skrifar einnig um fyrri og síðari tilraun Viðskiptaráðs:
„Á tíunda áratug síðustu aldar og upphafsárum nýrrar aldar var Viðskiptaráð og forveri þess, Verslunarráðið, óhemju duglegt. Þetta var í aðdraganda hrunsins. Ætli nokkur stofnun, nema ef vera skyldi Samtök banka og fjármálafyrirtækja, hafi verið eins dugleg í baráttunni fyrir „einfaldara Íslandi“ einsog það hét þegar talað var fyrir afnámi alls þess sem þótti setja markaðsviðskiptum hömlur.“

Hafist var handa um lagabreytingar í framangreindum anda, reynt var að skerða réttindi opinberra starfsmanna þannig að kostnaðarminna yrði að reka þá og síðast en ekki síst var farið að selja/gefa ríkiseignir, banka og orkustofnanir því allt átti að verða betra á markaði en hjá hinu opinbera. Meira að segja varð það bannorð að ríki og sveitarfélög ættu húsnæðið undir starfsemi sína heldur bæri að selja það og leigja síðan af nýjum eigendum. Samkvæmt forskriftinni átti þetta að verða miklu betra. Varnaðarorðum var engu sinnt.

En nú stígur Viðskiptaráðið aftur fram eins og ekkert hafi í skorist með glænýrri áskorun en um leið svo gamalkunnri: Ríki og sveitarfélög eiga að selja eignir fyrir 800 milljarða, hefja á sölu Landsvirkjunar og Landsbankans, eina ríkisbankans, auka þarf framleiðni í umönnunargeiranum og hjá lögreglunni.“

Guðmundur Andri Thorsson skrifar pistil um dómana yfir Kaupþingsmönnum („Það er fráleitt að láta eins og mannréttindi hafi verið brotin á mönnum fyrir þá sök að rétta yfir þeim fyrir markaðsmisnotkun og sýndarviðskipti sem urðu til þess að gjaldeyrisvarasjóður íslensku þjóðarinnar gufaði upp í Money-heaven.“) og trúna á að „Markaðurinn væri óbrigðull og óskeikull, Forsjónin sjálf.“ Lokaorð hans eru:
„Og næst þegar samþykktir koma frá Viðskiptaþingi skulum við ekki leyfa þeim að verða að ríkjandi kenningu heldur láta okkur þær að kenningu verða.“

Einkavæðing Landsvirkjunar er nógu mikið áhyggjuefni, enn verra væri auðvitað ef frjálshyggjumönnum tækist að koma í kring helsta áhugamáli sínu: að rústa heilbrigðiskerfinu til að geta einkavætt það. Í skýrslu Viðskiptaráðs segir á bls. 41:
„Mörg af stærstu tækifærunum til að auka hagkvæmni í opinberri þjónustu með auknum einkarekstri má finna í heilbrigðiskerfinu.“

Svandís Svavarsdóttir hefur skrifað tvær greinar um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins (fyrri grein, seinni grein) og tekið málið upp á þingi. Hún byrjar á að rekja að „í yfirlýsingu milli ríkisstjórnarinnar og Læknafélags Íslands vegna nýfenginna kjarasamninga hafði verið laumað inn setningu um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu“. (Ég skrifaði um yfirlýsinguna hér.) Hún bendir á að einkavæðing sé dýrari fyrir skattgreiðendur, og nefnir Bandaríkin sem dæmi, sjúklingar fái verri þjónustu, laun starfsfólks séu lakari – nema stjórnenda sem fleyti rjómann ofan af — en eigendurnir græði og sendi jafnvel gróðann í skattaskjól. Grundvallarspurning Svandísar er einmitt þessi:
„En til hvers og fyrir hvern er verið að leggja til aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu? Hver ætli hagnist á því?“

Katrín Jakobsdóttir ræddi einnig einkavæðinguna í grein og benti á að
„Rannsóknir hafa sýnt að félagslega rekin heilbrigðiskerfi tryggja besta aðgengið að þjónustunni, besta lýðheilsu og eru fjárhagslega hagkvæmust. Einu rökin fyrir því að auka vægi einkarekstrar er pólitísk hugmyndafræði … Góð heilbrigðisþjónusta er samfélagsleg verðmæti sem við eigum að eiga saman. Hún á ekki að vera gróðavegur einkaaðila á kostnað annarra í samfélaginu.“

Á meðan sat Viðskiptaráð og skrifaði skýrslu.
„Til að slíkar umbætur nái fram að ganga þurfa langtímasjónarmið að ráða ferðinni í stað skammtímalausna. Í því ljósi er nauðsynlegt að leiðtogar í stjórnmálum, stjórnsýslu, atvinnulífi og félagasamtökum veiti þessum umbótum forystu í meiri mæli en áður hefur verið gert“ (bls. 56).

Með aðra eins djöfulsins snillinga og eru í ríkisstjórn er full ástæða til að hafa áhyggjur af einkavæðingarstefnu Viðskiptaráðs.

Efnisorð: , , , ,

mánudagur, febrúar 23, 2015

Fávitar í trúarumræðu

Um daginn þegar Jón Gnarr skrifaði um þá skoðun sína að guð væri ekki til uppskar hann miklar skammir. Fyrir utan logandi athugasemdakerfi skrifuðu prestar í vígamóð gegn honum og virtust aðallega hafa flækt lesskilninginn rækilega í lokaorðum Jóns (þessum sem mér þóttu skemmtileg) því þar hafði hann notað orðið typpi. Slíkt orð er auðvitað að mati prestanna ótækt að nota í pistli um trú og guð en þeir brugðust við með því að einblína á orðnotkunina og nota orðið margfalt oftar en Jón hafði gert. Hvort sem það nú var til að stríða þeim enn fremur eða raunverulega til að lægja öldurnar skrifaði Jón Gnarr annan pistil og þegar þetta er talið eru komnar 264 athugasemdir við hana á Vísi en fyrri pistillinn með typpissamlíkingunni uppskar 262 athugasemdir.
„Trú getur verið ágæt til persónulegra nota. Soldið eins og typpi. Það er gott að vera ánægður með það og finnast það flottasta og besta typpi í heimi. Það má bæði hafa gagn og gaman af því. En ekki tala mikið um það við ókunnuga eða troða því uppá fólk. Ekki skrifa lög með því. Og mikilvægast af öllu: ekki hugsa með því.“
Jón Gnarr þýðir þarna tilvitnun úr ensku sem er vel þekkt. Mér sýnist að þarna noti Jón tilvitnunina til að vísa í heiftúðugar umræður um hvort Reykjavíkurborg megi koma í veg fyrir trúarinnrætingu skólabarna. Hann sé jafnvel að tæpa á kynferðisbrotum innan kirkjunnar. En samt held ég að hann meini aðallega að fólk eigi ekki að vera fávitar í trúarumræðu, sbr. enski frasinn „don't be a dick“.

Mig grunar að Jón Gnarr hafi haft fleira í hyggju en ræða trúboð skólabarna eða benda fólki almennt á að vera ekki fávitar í fyrri pistli sínum. Ef það er rétt að hann sé að íhuga forsetaframboð þá getur verið að hann hafi annarsvegar verið að þreifa fyrir sér með því að láta verulega reyna á vinsældir sínar með því að kasta smá sprengju og láta síðan gera könnun um hve margir kjósendur myndu kjósa hann, en hinsvegar viljað gera hreint fyrir sínum dyrum.

Núverandi forseti fór þá leið þegar hann bauð sig fyrst fram til forseta að þykjast alltíeinu vera kristinn en framað því hafði almenningur allur vitað að hann var trúlaus eða púkkaði ekki uppá þjóðkirkjuna. Á þeim tíma var ekki eins mikil umræða um trú og trúleysi og hann hefur talið öruggara að fá atkvæði trúfólks til að komast í forsetaembættið. Og hefur síðan setið heiðríkjulegur undir allskyns guðshjali við opinberar athafnir. Jón Gnarr afturámóti hefur ekki bara verið trúlaus, leitað að guði og komist að þeirri niðurstöðu að hann er ekki til (semsagt aftur orðið trúlaus) heldur ætlar hann að vera með þá afstöðu sína uppi á borði. Hafi kjósendur haldið að hann væri trúaður, eða fylgst nógu vel með á einhverjum tímapunkti til að hafa tekið eftir því að hann varð kaþólskur um tíma, þá tók fyrri grein Jóns af allan vafa um að hann telst ekki til guðstrúarmanna. Þá vita kjósendur það og geta kosið samkvæmt því (ef það skiptir máli fyrir þá) en jafnframt hefur Jón Gnarr komið sjálfum sér í þá stöðu að geta ekki hræsnað sig í embætti einsog núverandi forseti gerði. Þrátt fyrir allt mitt álit á Jóni Gnarr þá finnst mér þetta heiðarleg og góð afstaða, að því gefnu að ég hafi yfirleitt rétt fyrir mér um að hann sé að þreifa fyrir sér með forsetaframboð.

Greinaskrif Jóns Gnarr hristu ekki bara uppí prestum og öðrum kristlingum heldur virðist Vantrú hafa stokkið á umræðuvagninn með sérlega vel heppnuðu skemmtiatriði. Vantrú gaf út þá tilkynningu að félagið hygðist skrá alla Íslendinga í félagið frá og með næstu mánaðamótum. Í ályktun félagsins segir:

„Þú, kæri lesandi, verður því meðlimur í Vantrú, fjölmennasta félagi landsins, nema þú skráir þig sérstaklega úr félaginu. Fólk sem eignast börn eftir mánaðarmótin 1. mars þarf ekki að hafa áhyggjur af því að börnin þeirra missi af því að verða hluti af þessu lifandi samfélagi, þar sem að við munum skrá börn sjálfkrafa í Vantrú, óháð skráningu foreldra og án vitundar eða samþykkis þeirra. Sem er að sjálfsögðu langbesta leiðin. Og sanngjörn.“
Eins augljós háðsádeila og þetta er á trúfélagaskráningu þá sem hér tíðkast, að börn séu við fæðingu skráð í trúfélag móður sinnar (sem var skráð í trúfélag móður sinnar) og fólk þurfi að hafa fyrir því að skrá sig úr trúfélaginu — aðferð sem hefur gert það að verkum að langstærstur hluti Íslendinga er skráður í þjóðkirkjuna, án þess þó að hafa endilega viljað vera þar meðlimur — þá fór grínið framhjá mörgum. Samt var tekið fram í upphafi fréttarinnar á Vísi að ályktunina megi túlka „sem háðsádeilu á trúskráningum á Íslandi“. En það stoppaði ekki virka í athugasemdum.

Ég hélt reyndar lengi vel meðan ég flissaði mig gegnum athugasemdakerfið að megnið af athugasemdunum (242 við síðustu mælingu) væru frá Vantrúarfélögum sjálfum, minnug sérlega vel heppnaðs aprílgabbs Knúzzins hér um árið þar sem hver feministinn á fætur öðrum steig fram og trompaðist í athugasemdakerfinu (sem nú er týnt og tröllum gefið) í þeim augljósa tilgangi að stigmagna skemmtunina. Orðalag og fyrri kynni mín af sumum þeirra sem þar tóku til máls færði mér þó heim sanninn um að mörgum var fúlasta alvara. En Vantrúarskemmtunin stóð ekki lengi því nú undir kvöld birti Vísir frétt þar sem sagt er frá því að Vantrú hafi borist tilkynning um lögsókn frá lögmanni auk fjölda úrsagna úr þessari meintu skráningu í félagið. Semsagt, fólk trúði þessu í hrönnum en áttaði sig ekkert á að um háðsádeilu að ræða (jafnvel þótt það hafi verið tekið fram í upphaflegu fréttinni) hvað þá að ádeilan hafi snúið að þeirra heittelskuðu (en lítt sóttu) þjóðkirkju.

Þetta segir auðvitað mikið um lélegan lesskilning ginningarfíflanna og enn meira um algjöran skort þeirra á skilningi á því hvernig trúfélagaskráning þjóðkirkjunnar blasir við þeim sem vilja ekki vera þar skráðir meðlimir.

Efnisorð:

sunnudagur, febrúar 22, 2015

Allt er betra í útlöndum (allavega veðrið)

Íslenska aðferðin við að losna við kvabb
Eitthvað voru kunnugleg vinnubrögð borgarstjórnar að leyfa Valsmönnum að byrja að byggja á flugvallarsvæðinu í stað þess að bíða eftir niðurstöðu Rögnunefndarinnar. Þetta er svipuð aðferð og hefur verið notuð þegar byrjað er á tilraunaborunum eða álíka jarðraski áður en úrskurður fellur um hvort vernda eigi landsvæði, og þá er sagt „úps, of seint, við erum komnir svo langt að það er ekki hægt að hætta við“. Þetta eru ómerkileg vinnubrögð hjá borgarstjórn.

Það var eflaust peninga- og tímasparandi að fá Brynjar Níelsson til að skoða ásakanir Víglundar Þorsteinssonar og úrskurða um réttmæti þeirra, en býður jafnframt uppá gagnrýni þeirra sem eru ósammála niðurstöðunni. Ég er ekki ósátt við niðurstöðuna sem slíka en tel að þó að Brynjar sé auðvitað ekki að hlífa Steingrími Joð og Jóhönnu þá er hann þar í flokki staddur þar sem menn draga ávallt taum lögfræðinga og bankamanna. Þessvegna hefði frekar átt að stofna nefnd og rannsaka þetta almennilega ef á annað borð átti að sinna þessu kvabbi Víglundar.

Bretar til fyrirmyndar
Bresk yfirvöld ætla að banna Bretum að reykja í bílum ef börn eru með í för. Frumvarp þess efnis var samþykkt með miklum meirihluta á breska þinginu í gær. Lögin taka gildi í október en þeim er ætlað að vernda börn fyrir óbeinum reykingum.

Sem minnir mig á. Eitt sinn gisti ég í heimahúsi í höfuðborg Bretlands og sá mér til nokkurrar skelfingar að kirkja var handan götunnar. Bjóst ég við að ekki yrði svefnfriður á sunnudögum vegna hávaða, eins og víða er raunin í Reykjavík. Mér var sagt að ég hefði ekkert að óttast því bannað væri að hringja kirkjuklukkum í íbúðarhverfum (hvort sem það var nú rétt eða ekki, það var ekki innfæddur íbúi sem sagði mér þetta). Ég fékk því að sofa út í friði enda eru frí til þess gerð. Nú sé ég á frétt sem segir að í Reykjavík berist bara ein kvörtun á ári vegna kirkjuklukkna, sem vekur mér nokkra furðu. Ég verð greinilega að fara að herða mig í símhringingunum og breyta röddinni.

Efnisorð: , ,

föstudagur, febrúar 20, 2015

Bókasafnskettir og kaffihúsahundar

Undanfarið hafa verið miklar deilur milli dýraeigenda og þeirra sem eru með ofnæmi fyrir dýrum um hvort og hvar kettir og hundar mega vera þar sem fólk leitar þjónustu. Hundaeigendur riðu á vaðið með því að fara fram á að hundum verði leyft að sækja kaffihús með eigendum sínum. Einn ágætur hundur að nafni Tinni hefur reynt að hafa áhrif á málið með því að senda Alþingi bréf og láta birta af sér myndir þar sem hann situr einn fyrir utan kaffihús (hann er greinilega að nota tilfinningarökin). Það er erfitt annað en taka undir með Tinna sem virðist vera mesti gæðahundur, eða eigendum Mikka sem finnst hundaeigendur vera ofsóttir. Frakkur köttur í Heimunum beið ekki eftir að fá opinbert leyfi þegar hann fór að venja komur sínar á útibú Borgarbókasafnsins í Sólheimum. Þetta er köttur með heimilisfesti skammt frá en unir sér meðal bóka og bókelsks fólks. Þó kvartaði einhver undan kisa og sagði að vegna ofnæmis síns yrði kötturinn gjörasvovel og vera úti, eins og reyndar lög og reglur kveða á um. Kettir mega heldur ekki að vera á kaffihúsum og ekki alls fyrir löngu varð kaffihús í miðbæ Reykjavíkur að fleygja út vinalegum ketti sem allir gestir — nema þessi eini sem kvartaði — höfðu verið ósköp glaðir með að deila kaffihúsinu með.

Nú er ég mikill dýravinur og hefði barasta mjög gaman af því að hitta hunda og ketti á bókasöfnum og kaffihúsum (ég hef því miður farið á mis við þá lífsreynslu). En ég hef heldur ekki ofnæmi fyrir neinum loðdýrum og get því trútt um talað. Ég þekki fólk með ofnæmi og það tekur mjög misjafnlega á því. Sumir leggja fæð á dýrin, tauta sífellt um að þau séu skítug og tala einsog helst ætti að úthýsa öllum dýrum og þau eigi sér hvergi tilverurétt. Aðrir forðast dýrin án þess að mikið beri á, sumir láta sprauta sig til að geta umgengist dýr og aðrir ganga alltaf með astmapústið á sér. Enginn sem ég þekki myndi játa að vera manneskjan sem lætur úthýsa kettinum af bókasafninu eða kaffihúsinu, aðallega þó vegna þeirrar félagslegu stöðu sem þvílíkir gleðispillar setja sig í. En það er samt auðvitað ekki eins og fólk með ofnæmi sem kvartar undan dýrum sem eru þar sem þau mega ekki vera hafi fullkomlega rangt fyrir sér. Það er bannað að vera með dýr á þessum stöðum, m.a. til að fólk með ofnæmi eigi ekki á hættu að rekast á þau þegar sótt er bók á bókasafnið eða þegar til stendur að eiga góða stund yfir kaffibolla. Og auðvitað er ofnæmiskast ekki eftirsóknarvert á nokkurn hátt og von að fólk reyni að koma ofnæmisvöldunum burt þaðan sem þeir eiga ekki heima.

En þá kemur spurningin: hvar eiga dýrin heima? Þá er ég ekki að tala um reglur um fjölbýlishús þar sem dýrum er úthýst nema gegn skriflegu leyfi fólks í húsinu — sem setur allt í uppnám í hvert sinn sem nýtt fólk flytur í húsið sem gæti tekið uppá að vilja reka hunda og ketti sem hafa búið þar alla sína ævi út á guð og gaddinn, né heldur ömurlega stöðu leigjenda sem aldrei mega hafa gæludýr. Ég á við: eiga dýrin bara heima í fjósum og fjárhúsum, hlöðum og útundir húsvegg? Eða hafa hundar og kettir sem margir líta á sem ekki bara gæludýr heldur trygga vini og félaga, öðlast þann sess meðal almennings að þeir megi vera þar sem fólk er? Ég get séð alla annmarka á að leyfa köttum að vera á matsölustöðum (mikil vörurýrnun á rjómabirgðum) en þar er auðveldara að hafa taumhald á hundum (og allir hundar eiga að vera í taumi á almannafæri, alltaf). En ég er ekki viss um að það sé hægt að leyfa veitingastöðum að ráða því sjálfir, færi það bara ekki eins og þegar átti að leyfa reykingar á afmörkuðum stöðum svo reyklaust fólk hefði ekki ama af reyknum? Það var þverbrotið með eftirminnilegum hætti. En kannski myndu hvorteðer bara örfáir veitingastaðir hleypa inn hundum hvorteðer, bara nokkur kaffihús. Kannski mætti hafa tilraunatímabil í eitt ár og sjá til hvernig gengi? Þá gætu bæði veitingamenn og kúnnar sagt álit sitt eftir það. Kettir á bókasöfnum, það eru opinberar stofnanir, það er annað mál. Þar verða allir að geta komið.

En það eru dæmi um bókasafnsketti — um einn slíkan í Bandaríkjunum má lesa í dásamlegri bók sem heitir Dewey: Litli bókasafnskötturinn sem sneri öllu á hvolf. Hann bjó í eina almenningsbókasafninu í bænum allt til æviloka, en auðvitað var reynt að losna við hann því hann hlyti að valda astmaköstum.

Fólkið sem hefur ofnæmi fyrir köttum og hundum vill auðvitað helst losna við að hafa þessi dýr nálægt sér. Þó hittir það daglega hunda- og kattaeigendur sem eru þaktir dýrahárum, sem kallar eflaust fram ofnæmisviðbrögð. Við þetta verða þeir sem hafa ofnæmi að sætta sig við, enda þótt þeir sjálfsagt forðist heldur gæludýraeigendur en hitt, ef þeir eru mjög slæmir af ofnæminu. Þessvegna er fremur furðulegt að halda því fram að einn köttur í svo stóru rými sem bókasafn er hafi svo mikil áhrif að hinn ofnæmissjúki sjái sér þann kost vænstan að biðja um að kettinum verði úthýst.

Í bæklingi frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands segir að hér á landi sé tíðni ofnæmis fyrir hundum og köttum er talin u.þ.b. helmingi lægri en á hinum Norðurlöndunum. Á bandarískri síðu sem kölluð er The Asthma Center eru ýmsar upplýsingar um ofnæmisvalda og hvernig á að forðast að fá ofnæmiskast eða bregðast við því. Þar sem er talað um dýraofnæmi er hvergi minnst á bráðaofnæmi, en þegar rætt er um fæðuofnæmi er oft minnst á alvarlegt bráðaofnæmi (severe allergic reaction) og mælt með að ganga með sprautupenna á sér til að bregðast við. Ég ítreka: ekkert slíkt er nefnt á dýraofnæmissíðunni. Hjá íslensku síðunni er talað um bráðaofnæmi og lífshættu vegna latex en ekki vegna dýraofnæmis. Tekið er fram að astmi vegna dýraofnæmis sé yfirleitt vægur – og hvergi talað um sprautupenna eða bráða lífshættu.

Auðvitað hlýtur að vera erfitt að vera með ofnæmi og astma, lýsingarnar á einkennum bera það með sér, en fólk með slíka sjúkdóma þarf alltaf að búast við að mæta sínum ofnæmisvöldum — dýrunum sjálfum eða eigendum þeirra þöktum dýrahárum — og nánast ósanngjarnt að halda að þeir lendi aldrei í þeim aðstæðum.

En þar er örlítið grunsamlegt að láta fjarlægja dýr sem gleður alla hina bókasafnsgestina þegar óþægindin sem manneskjan með ofnæmið hljóta að vera bæði yfirstíganleg og algeng. Mér segir svo hugur að í þessu tilfelli sé um að ræða eina af þessum manneskjum sem yfirfæra pirring sinn yfir því að vera með leiðindaofnæmi yfir á dýrin sem ofnæminu valda og líti á þau sem skítug og ekki húsum hæf. Það er einfaldlega viðhorf sem þarf að breyta.

Svo er aftur annað mál með hunda og óbeit margra á þeim, að það er meira og minna afleiðing af því að hér í borg var bannað að halda hunda áratugum saman, og margar kynslóðir Reykvíkinga ólust upp án þess að sjá hund. Sumir vildi svo ólmir fá sér hund þegar það mátti, án þess þó að hafa nokkra hugmynd um hvernig ætti að ala upp hunda eða áttuðu sig á ábyrgð og skyldum þeim tengdum (hundar í taumi, þreytist ekki á að nefna það). En aðrir hafa enn það viðhorf að hundar eigi að vera í sveitum og sjá ekki hvernig einhver geti átt þá að vinum, eða hafa séð of margar bíómyndir þar sem hundar eru óargadýr sem ráðast á fólk, sjefferhundar sérstaklega. Óttinn við þannig hunda er svo yfirfærður á þá alla. Þarna er aftur viðhorf sem þarf að breyta. En fólk sem er hrætt þegar það mætir hunda á samt rétt á því að geta gengið um án þess að mæta lausum hundum. Það tekur einhverjar kynslóðir að rækta þessa hundafóbíu úr Reykvíkingum en ef vel er farið að óttaslegna fólkinu ætti það fyrir rest að sætta sig við hunda í almannarýminu. Það getur verið að einn og einn slakur hundur á kaffihúsi (hér er ég augljóslega að hugsa um Tinna) stuðli að því að minnka ótta fólks en svo gæti verið að það forðaðist kaffihús vegna hunda. Það væri slæmt, en margir forðast reyndar kaffihús á sumrin vegna geitunga, og það er engin afsökun fyrir að banna þar hunda. Verra er auðvitað ef hrædda fólkið segist hafa ofnæmi til að losna við hundana.

Að öllu þessu sögðu er ég enn á báðum áttum. Vil ekki að fólk ljúgi upp ástæðum til að losna við að hitta einhvern sem þeim er illa við (það gerir maður bara þegar um fjölskylduboð er að ræða), a.m.k. ekki ef það á alltaf að vera til þess að dýrin þurfa að víkja. En ég vil taka tillit til þeirra sem þjást vegna ofnæmis og astma. Og svo man ég eftir blíðu augnaráði Tinna og yndislegu sögunni um Dewey.

Hvar er ríkissáttasemjari þegar á honum þarf að halda?

Efnisorð: ,

mánudagur, febrúar 16, 2015

Foie gras, taka tvö

Fyrir tæpur tveimur mánuðum gerði ég könnun á því hvaða veitingastaðir seldu rétt sem kallast foie gras en uppá íslensku gæsa- og andalifur, og komst að því að því að allavega fjórir veitingastaðir á landinu seldu réttinn (ég lagði ekki á mig að lesa matseðla þeirra allra, enda veit ég ekki nöfn allra veitingastaða landsins). Til upplýsingar fyrir lesendur sem ekki vita hvernig farið er að fita lifur andfuglanna þá eru mjög óhugnanleg myndbönd hér og hér, þeim er nánar lýst í pistlinum sem ég skrifaði undir titli sem lýsir skoðun minni á foie gras.

Það sem ég rakti ekki í pistlinum var sagan af því þegar ég hringdi á þessa fjóra veitingastaði. Ég tók ekki símtölin upp og get því ekki haft orðrétt eftir rekstrarstjórum, yfirkokkum eða eigendum staðanna (eftir því sem við á, ég man ekki nákvæmlega hver gegndi hvaða starfi hvar) en ég skrifaði hjá mér punkta. Og ef ég les rétt úr skriftinni minni þá voru viðbrögð forsvarsmanna veitingahúsanna á þessa leið.

Veitingastaðurinn Múlaberg í KEA hótelinu á Akureyri
Þetta var tekið fyrir á fundi vegna frétta [um að hamborgarastaður í Reykjavík hefði hætt að selja foie gras], er í athugun.
Viðkomandi var jákvæður á að hætta með réttinn.

Hereford steikhús
Eftir að hafa haldið mikla lofræðu um að foie gras væri ekta franskt lostæti skildist viðmælandanum loks hver tilgangur minn var með símtalinu og varð mjög pirraður. Hann sagðist ekki hafa heyrt umræðuna og aftók að taka réttinn úr sölu.

Hótel Holt
Við seljum mikið af þessu, fólkið vill þetta og yrði fyrir vonbrigðum [ef foie gras yrði tekið af matseðlinum].
Viðkomandi vildi einnig ræða kjúklinga og hvali út frá andstöðu við eldi og veiði, sennilega sér til málsbóta.
Niðurstaða: Ekki verður hætt að selja foie gras.

Snaps
Ætlaði að koma þessu á framfæri [við eigendur/yfirkokk/rekstraraðila, man ekki].
Vildi vita nafn mitt [tortryggnin var gagnkvæm og ég neitaði].

Kopar
Vissu ekki um myndböndin [sem sýna hvernig farið er með fuglana] ætla að skoða málið.
Mjög jákvæð á að endurskoða [hvort rétturinn verði hafður á matseðlinum].
Ánægjulegasta símtalið.


Beið ég nú átekta þar til fyrir nokkrum dögum þegar ég þóttist viss um að nýir matseðlar hlytu að hafa leyst af jóla- og áramótamatseðlana. Niðurstaða mín eftir að hafa skoðað nýju seðlana í von um breytingar er eftirfarandi.

Það olli mér talsverðum vonbrigðum að sjá að Hótel KEA Múlaberg hefur foie gras á matseðlinum sem gildir frá 15. janúar.

Það kom mér ekki á óvart að Hereford er enn með foie gras á matseðlinum.

Heldur ekki hvernig staðan var hjá Hótel Holti, sem kallar nú andalifrina duck liver (sami réttur um jól var sagður innihalda foie de canard).

Snaps selur enn foie gras. Það er svekkjandi. Er þetta ekki hipsterastaður? Eru hipsterar almennt spenntir fyrir dýraafurðum sem eru framleiddar með því að misþyrma dýrum?

En HÚRRA! Kopar hefur ekki foie gras eða neina alifuglalifur á sínum matseðli. Vonandi er það framtíðarstefna þeirra.


Tilkynnist að ég mun aldrei snæða á Snapsi, Hereford, Holtinu eða á Múlabergi á Akureyri. Eg mun leggja hart að þeim sem kunna að spyrja mig um góða veitingastaði að fara ekki þangað.

Kopar hinsvegar, það er staður sem er kominn á dagskrá hjá mér.

Efnisorð: ,

laugardagur, febrúar 14, 2015

Fréttablaðið lítur á fjárglæframenn með augum eigenda sinna

Forsíða Fréttablaðsins daginn eftir að dómur Hæstaréttar féll yfir bankabófunum vakti athygli mína. Þetta var sögulegur dómur og því stórfrétt því þetta er fyrsti refsidómurinn yfir æðstu mönnum í bankakerfinu, hrunvöldunum. Mennirnir sem þóttust mestir eru nú tukthúsmatur. Ef einhverntímann var tilefni til að leggja forsíðuna undir frétt og nota stríðsletur þá var það þarna.

En hvað gerðist? Fréttin um dóminn var sannarlega á forsíðu (þar sem var vísað í meira lesefni inn í blaðinu) en hún fékk hvorki stærra letur né meira pláss en til að mynda forsíðufrétt sem var deginum áður um hugsanlega íbúafjölgun í sveitarfélögum nálægt Grundartanga. Mér fannst þetta svo skrítið að ég taldi hreinlega orðin í hvorri frétt, þó ekki í fyrirsögnunum eða undirfyrirsögnum. Niðurstaðan var þessi:

Íbúasprengja vegna kísilverksmiðju
232 orð
1576 slög (þ.e. stafir og bilin á milli þeirra)
31 lína
Auk þess er fyrirsögn sem er 6 orð eða 53 slög, og undirfyrirsögn 210 slög.

Þungir fangelsisdómar yfir Kaupþingsmönnum
168 orð
1094 slög
19 línur
Inni í þessum tölum er ekki myndatexti (nöfn og þyngd dóma), fyrirsögnin sem er 4 orð eða 42 slög, og undirfyrirsögn sem er 210 slög.

Ég finn bara eina skýringu á þessum skorti á uppslætti á stórfrétt hjá Fréttablaðinu. Hún blasir reyndar við: eigendur blaðsins og tengsl þeirra við fallna banka.

Það er svosem ágætt að fá áminningu um það af og til hverskonar snepil maður er að lesa.


Hinsvegar gerðist það í dag að heil blaðsíða í Fréttablaðinu var mér sérlega þóknanleg og gladdi mig mjög.


Fyrstan skal telja leiðarann eftir Fanneyju Birnu Jónsdóttur um kynbundið ofbeldi og dans fyrir réttlæti á vegum UN Women, samtaka Sameinuðu þjóðanna sem vinna í þágu kvenna og jafnréttis um allan heim. Fínn leiðari, ekki síst lokaorðin:
„Allar konur og allar stúlkur eiga rétt á því að lifa lífi án ofbeldis. Það er ekki róttæk krafa. Það eru grundvallarmannréttindi.“

Þá stórgóð mynd Gunnars (veitekkihverssonar) af Bjarna Ben. Sjón er sögu ríkari.

Síðast en ekki síst (ég tel ekki hjólhýsaauglýsinguna með, hún höfðaði satt að segja ekki til mín) hrikalega góð grein eftir Jón Gnarr (sem ég er ekki alltaf ánægð með og þessvegna kemur þetta skemmtilega á óvart). Þar talar hann um trúleysi sitt, leit að Guði og skoðun hans á trú. Margt á ég sameiginlegt með Jóni samkvæmt þessari frásögn hans, þó ekki klausturvist og eða einlæga leit að trú. Lokaorð hans eru fyndin og höfða til mín sem feminista og trúleysingja.

Það er svo önnur saga að grein Jóns Gnarrs er birt á Vísi og þar þyrpast trúmenn og reyna af misjöfnu viti og engum árangri að véfengja niðurstöður hans. Einn þeirra notaði einhverja þá súrustu aðferð til að reyna að spæla trúleysingja sem ég veit um.
„Hann hefur litið í spegil og séð að ekkert æðra væri til.“

Mikið þykir mér leiðinlegt þegar fólk lítur svo á að það sé stigveldi í heiminum. Efstur sé guðinn þeirra, svo karlmaðurinn, fyrir neðan hann konan. Óæðri mannskepnunni séu svo öll hin dýr jarðarinnar. Sumstaðar en ekki alltaf kemur á undan dýrunum fólk af ‘öðrum kynþætti’, og er þá óæðra hvítum mönnum. Það er líka óskemmtileg tilhugsun. En semsagt, ef guðinn er ekki lengur efstur eða æðstur í huga einhvers þá hlýtur sá trúlausi einstaklingur að líta á sig sem æðstan í heimi. Rétt eins og trúleysi og mikilmennskubrjálæði fylgist að. Stigveldið virðist reyndar vera hin rétta skipan að mati margra, ekki bara trúmanna, sérstaklega gagnvart dýrunum sem eru álitin svo neðarlega í stiganum að vera of ómerkileg til að hafa nokkurn rétt og má fara með þau að vild, en líka vegna þess að það segir til um óæðri stöðu kvenna og fólks með annað litarhaft.

Ekki eru skárri fjárglæframennirnir sem telja sig æðri öðrum í þjóðfélaginu og eigi að vera ósnertanlegur um alla eilífð (eða þeir klaga í mannréttindadómstólinn!). Þá er gott að eiga fjölmiðil til að stýra almenningsálitinu.

Efnisorð: , , , , ,

fimmtudagur, febrúar 12, 2015

Bankabófar bak við lás og slá

Söguleg og gleðileg tíðindi: Dómar hafa loksins fallið yfir Kaupþingsmönnum og þeir dæmdir til fangelsisvistar.

Ég var hæstánægð á sínum tíma þegar sérstakur saksóknari dúndraði Kaupþingsmönnum í gæsluvarðhald og sigaði Interpol á Sigga sem þorði ekki heim. Þessvegna fagnaði ég þegar þeir voru dæmdir í héraði — enda um að gera að gleðjast yfir hverjum áfanga því alls óvíst hvernig færi fyrir málinu á efra dómstigi. En viti menn — Hæstiréttur þyngdi tvo dóma! Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson eiga samkvæmt dómnum sem féll í dag að sitja inni í fjögur og hálft ár hvor. Rétturinn mildaði reyndar dóminn yfir Sigurði Einarssyni en þó ber honum að sitja í fangelsi í fjögur ár, en lét dóminn yfir Hreiðari Má Sigurðssyni standa óhreyfðan: fimm og hálft ár, takk.

Það er semsagt loksins að rætast sem útlendingar hafa lengi haft fyrir satt: íslensku bankabófarnir fara í fangelsi.

Nema auðvitað að forseti vor, hinn háæruverðugi Ólafur Ragnar, náði piltana. Hvernig er það annars, er Sigurður Einarsson fyrsti fálkaorðuhafinn til að fá fangelsisdóm?

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, febrúar 10, 2015

Hinir ósnertanlegu

Gögn um eignir íslenskra skattsvikara í skattaskjólum eru til. Íslenska ríkið getur keypt þau og notað til að höfða mál gegn skattsvikurum og krafið þá um háar fjárhæðir sem kæmu sannarlega rekstri hins sameiginlega sjóðs landsmanna vel, þessum sem stendur undir heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, vegakerfinu og þessháttar nauðsynjum. Skattsvikararnir höfðu auðvitað engin áform um að taka þátt í að reka samfélagið og þybbast því við. Eða láta öllu heldur þeirra mann í fjármálaráðuneytinu þvælast fyrir málinu.

Fólk sem hefur tjáð sig um skattaskjólsmálið (t.d. Árni Páll Árnason, Birgitta Jónsdóttir og Illugi Jökulsson) er á einu máli um að þar afhjúpi ættarlaukur Engeyjarættarinnar sig í hagsmunagæslunni fyrir sitt fólk, þ.e.a.s. fólk af sinni auðmannastétt og jafnvel beinlínis fyrir nákomna ættingja sína (fyrir það þrætir Bjarni). Faðir hans Benedikt Sveinsson og föðurbróðir Einar Sveinsson eru og hafa verið umsvifamiklir í íslensku viðskiptalífi eins og það er ekki bara ættarauðurinn í húfi (og það mannorð sem er í hávegum haft hjá rétta fólkinu) heldur hreinlega föðurarfur Bjarna Benediktssonar: peningarnir sem hann erfir að föður sínum látnum. Sérhagsmunagæslan gerist ekki stækari. En svo getur auðvitað verið að pabbinn og frændinn (eða Bjarni sjálfur) eigi ekkert í skattaskjólum og þeirra sé því ekkert getið í skattsvikaragögnunum (frekar en þeir komu nálægt Sjóvá og Vafningi eða byggingaframkvæmdum í Makaó hinumegin á hnettinum, sjá skrif Soffíu Sigurðardóttur og Láru Hönnu, eða bara Wikipediu um Vafningssnúninginn) en eftir stendur að fjármálaráðherrann hefur síst af öllu hagsmuni íslenska ríkisins í huga, eða íslensks almennings sem þarf og vill öflugt heilbrigðiskerfi, menntakerfi og samgöngur, sem fjármagnað er með skattfé þeirra sem á annað borð telja undanbragðalaust fram tekjur sínar og eignir.

Á meðan fjármálaráðherra kastar sér eins og ljón á veginn sem liggur að skattaskjólsgögnunum sem geta flett ofan af vinum hans og vandamönnum, er annað uppi á teningnum á hinum enda pólitíska litrófsins. Þar er samstaða sýnd með þeim lægst launuðu. Öfugt við Bjarna Benediktsson stendur Katrín Jakobsdóttir með þeim lægstlaunuðu í landinu og hún styður kröfu Starfsgreinasambandsins um að lágmarkslaun í landinu miðist við 300 þúsund. (Mér finnst reyndar alltaf talsvert varasamt að festa lágmarkslaun við ákveðna upphæð og að semja um krónutöluhækkanir launa, enda þótt launin hækki þá jafnvel veglega getur sá árangur horfið í einni svipan aukist verðbólgan umtalsvert eða gengið falli, eins og hugsanlegt er að gerist verði gjaldeyrishöftin afnumin. Þá er betra að semja um prósentuhækkanir eða hlutfall af launum t.a.m. alþingismanna.) Katrín hefur einnig sagt að lægstu launin dugi ekki til framfærslu og undir það taka flokksfélagar hennar og benda á að „í góðu samfélagi verður fólk að geta lifað af dagvinnulaunum sínum“. Einnig er bent á að aukin kostnaðarþátttaka í heilbrigðis- og menntakerfinu, hefur einnig áhrif á kjör almennings.

Þarna skilur auðvitað milli félagshyggjuaflanna og frjálshyggjumanna, því það eru hinir síðarnefndu sem eru á móti sköttunum sem eru notaðir til að fjármagna heilbrigðis- og menntakerfið. Ég segi því enn og aftur: það skiptir máli hvaða stjórnmálastefnu er fylgt í landinu. Frjálshyggjan hyglir þeim ríku og lætur aðra afskiptalausa, lækkar skatta á sitt fólk og gerir þeim kleift að koma undan sem mestu fé til að þurfa ekki að leggja í púkkið með almúganum. Á meðan vilja vinstri menn, fólk með sömu stjórnmálaskoðanir og Katrín Jakobsdóttir, að við leggjum öll í púkkið svo að við eigum öll aðgang að sömu gæðunum. Bjarni er hinsvegar á harðahlaupum að forða skoðanabræðrum sínum og stuðningsmönnum undan réttvísinni — og vill bjóða þeim sakaruppgjöf ef svo illa fer að upp um þá kemst. Hann ætlar með öðrum orðum að sjá til þess að enginn snerti við þeim.

Þá kemur til kasta þingmanna VG sem „hyggjast leggja fram þingsályktunartillögu um heimild til skattrannsóknarstjóra til kaupa á erlendum gögnum um skattaundanskot íslenskra borgara“ og segja að „um sé að ræða réttlætismál sem varðar hagsmuni ríkissjóðs og þar með allra landsmanna. Haldið er til haga því meginsjónarmiði að álagðir skattar tilheyri samfélaginu með réttu en skattsvik ávallt ranglát.“ Þau vilja að Alþingi samþykki að tryggja fjárheimild til kaupanna — það verður verulega áhugavert að sjá svör þingmanna stjórnarflokkanna við því ákalli.


Efnisorð: , , ,

föstudagur, febrúar 06, 2015

Launalausa prósentið

Síðasti pistill fjallaði um misskiptingu auðæfa í heiminum og ríkasta prósentið. Nú er komið að því að skoða hvernig þeir hafa það sem eiga minnst en vinna þó baki brotnu.

Um allan heim vinnur fólk fyrir lúsarlaun fyrir erfiðisvinnu. Vinnan er óþrifaleg, hættuleg eða fer svo illa með líkamann að lífslíkur minnka til muna í bráð og lengd. Oft neyðist fólk til að vinna þessa vinnu vegna þess að enga aðra vinnu er að hafa þar sem það býr, eða vegna ólæsis og annars menntunarskorts og því verður fólk að sætta sig að taka þeirri vinnu sem býðst, jafnvel þótt nærri ómögulegt sé að lifa af laununum. Það er skammarlegt að vinnuveitendur skuli ekki greiða fólki mannsæmandi laun fyrir vinnu sína, hvað þá þegar um erfiðisvinnufólk er að ræða.

Þetta á til dæmis við um fólkið sem vinnur við að sækja brennistein í gíg eldfjallsins Kawah-Ijen á eynni Jövu í Indónesíu. Vinnuaðstæður eru (eins og sjá má á myndum) ryk og brennisteinsgufur, bratt fjall, 70-90 kíló á bakinu, löng ganga, alls um 12 kílómetrar á dag. Þrátt fyrir hættulegar aðstæður og erfiðisvinnu fá námuverkamennirnir aðeins 13 bandaríkjadali (u.þ.b. 1.700 krónur) á dag í laun.

Enn verri kjör og enn verri meðferð mega þrælar þola. Það sem átt er við með nútíma þrælum á bæði við um fólk sem er beinlínis rænt, hlekkjað og selt til að vinna launalaust, og einnig fólk sem ræður sig í vinnu fjarri heimahögum en þegar þangað er komið er það lokað inni eða ekki frjálst ferða sinna og vinnur langan vinnudag við vondar aðstæður, stundum fyrir örlítil laun en fær iðulega ekki annað en lélegt húsaskjól og mat sem oft er þó skorinn við nögl.

Dæmi um þetta eru of mörg til að telja þau upp og spanna margar atvinnugreinar (fataiðnaður kemur þó skjótt upp í hugann) og allar byggðar heimsálfur. En ég nefni þó þessi til glöggvunar.

Þrælar eru notaðir á tælenskum rækjuveiðiskipum sem selja afurðirnar til helstu verslanakeðja heims. Þrælarnir eru pískaðir áfram, þeir pyntaðir og myrtir. Þeir eru látnir vinna allt að tuttugu tíma á sólarhring, barðir reglulega, pyntaðir og myrtir. Margir þrælanna eru frá Búrma og Taílandi. Nokkrir sögðust hafa greitt milligöngum fyrir að útvega sér vinnu í verksmiðjum í Taílandi. Þess í stað voru þeir seldir í þrældóm.

Fyrir ellefu árum drukknuðu tuttugu og þrír Kínverjar við skeljatínslu í Bretlandi. Í ljós kom að fólkið var ekki staðkunnugt og talaði ekki ensku, en allar aðstæður þeirra bentu til að þau hafi verið flutt ólöglega til Bretlands og hneppt í þrældóm. Í ársgamalli grein á vef BBC (á ensku) er fjallað um þennan atburð og sagt að nú séu líklega um 10.000 manns í Bretlandi sem séu þrælar á nútíma mælikvarða.

Síðla árs 2013 réðst breska lögreglan inn í kannabisverksmiðju og kom þá í ljós að víetnamskir karlmenn höfðu verið þar í þrælkunarvinnu. Þeir voru fluttir til Bretlands af glæpagengi gagngert til að hugsa um plönturnar allan sólarhringinn. 40 slíkum kannabisverkssmiðjum er lokað árlega í Bristol. Víetnamar sem neyddir hafa verið til að vinna í þeim eru iðulega ungir að aldri, allt niður í 14 ára.

Þetta var bara sýnishorn. Um allan heim er fólki haldið nauðugu og neytt til vinnu.
„36 milljónir manna búa við þrældóm samkvæmt nýrri skýrslu samtaka sem berjast gegn þrælkun og ánauð. Flestir þrælar eru á Indlandi. 1/2% mannkyns býr við nútímaþrælahald samkvæmt skýrslu Walk Free-samtakanna.

Þá er átt við fólk sem neytt er í þrælkunarvinnu, fórnarlömb mansals, er í skuldaánauð, neytt í hjónaband eða vændi. Þetta er mikil fjölgun frá 2012 þegar 21 milljón var talin búa við þrælahald en skýrsluhöfundar telja að það sé vegna betri aðferðafræði við söfnun gagna frekar en að þrælum hafi fjölgað svo mikið.

Fæstir þrælar eru í Evrópu en Afríka og Asía eiga lengst í land í að útrýma þrælahaldi. Flestir hafa verið hnepptir í ánauð á Indlandi eða 14 milljónir manna. Þar á eftir er Kína með 3 milljónir. Þar á eftir er Pakistan, Uzbekistan og Rússland. Hæsta hlutfallið er í Máritaníu þar sem 4% þjóðarinnar búa við þrældóm.“ (Af vef Ríkisútvarpsins.)
Ekki má gleyma hinum mikla fjölda „farandverkamanna“ sem komu til Íslands í góðærinu, en þar var áberandi hvað illa var farið með þá á Kárahnjúkum. Eða einsog segir í fréttaskýringaröð (grein 1,2,3,4,5,6,7) Fréttablaðsins um mansal:
„Þegar við horfum til dæmis til starfsmannaleiganna sem voru mikið hér í góðærinu þá hefðum við eflaust skoðað það á allt annan hátt ef við hefðum á þeim tíma haft þá vitneskju sem við höfum núna um mansal.“
Virkjanir og íþróttamót virðast soga að sér viðbjóðslega gróðapunga sem einskis svífast til að koma upp steypumannvirkjum sínum. Aðstæður verkamanna sem byggðu hallir og velli í Katar (Qatar) þar sem heimsmeistarmótið í handbolta var haldið – og heimsmeistaramótið í fótbolta verður senn — eru vel kunnar. Hér er þeim lýst á vef Ríkisútvarpsins.
„Aðstæður verkamanna í Katar hafa verið harkalega gagnrýndar og lýst sem nútímaþrælahaldi. Margir hafi ekki fengið laun sín greidd mánuðum saman. Mörg hundruð verkamenn hafa látið lífið í vinnuslysum við byggingu íþróttamannvirkja.
Yfir ein og hálf milljón erlendra verkamanna starfar í Katar. Hlutfall innfluttra verkamanna er hvergi hærra, en þeir eru 94% vinnuaflsins. Flestir koma frá fátækum löndum Asíu, þar af 40% frá Nepal. Margir starfa við byggingu íþróttamannvirkja en auk heimsmeistaramótsins í handbolta sem nú stendur yfir er fjöldi stórmóta framundan í landinu. Þar ber hæst heimsmeistaramótið í fótbolta á 2022.
Breska blaðið Guardian, sem rannsakað hefur aðstæður verkamannana, fullyrðir að þeim sé þrælað út, ein ríkasta þjóð heims misnoti eina þá fátækustu til að búa sig undir vinsælasta íþróttamót í heimi.

Amnesty International segir að komið sé fram við verkamennina eins og dýr. Atvinnurekandinn ráði yfir þeim að nær öllu leyti og vegabréfin séu tekin af þeim. Gistiaðstaðan sé vægast sagt hörmuleg og vinnuslys tíð.

James Lynch hjá Amnesty International veit um dæmi þess að menn hafi ekki fengið greitt mánuðum saman. Einn verkamaður segist hafa unnið stanslaust frá klukkan fjögur að nóttu til klukkan ellefu að kvöldi, án þess að matast.

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga segir að 1400 verkamenn hafi þegar látið lífið í Katar vegna slæmra vinnuaðstæðna og að 4000 verkamenn gætu látið lífið áður en flautað verður til leiks á heimsmeistarmótinu 2022.“
Um þetta er handboltahreyfingunni og fótboltaáhugamönnum allra landa skítsama. Tuttugu stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins í handbolta var boðið, eins og frá öðrum þátttökuþjóðum, og það er eins og enginn þeirra – eða íslenskir fjölmiðlar hafi áttað sig á að þeir eru fengnir þangað til að bera út hróður Katar fyrir fótboltamótið sem verður mun stærra mót. Það er verið að kaupa þá til að auglýsa það sem þeim finnst jákvætt, í því skyni að minnka vægi fréttanna af þrælahaldinu. Og áhugi milljarðamæringanna í Katar sem endilega vilja halda þessi íþróttamót (það er fyrirfram vitað að það er ekki hægt að spila þar fótbolta úti um hásumar vegna hita) er sannarlega furðulegur og hrollvekjandi. Líklega hafa þeir bara svona gaman af því að eyða peningum, enda nóg til frammi.

Láglaunaverkafólkið og þrælarnir eru neðst í virðingarstiga hagkerfisins. Efst trónir auðugasta prósentið og restin af mannkyninu — sjö milljarðar manna — má skipta afganginum milli sín.

Væri nú kjörunum skipt á réttlátari máta, ríkasta prósentið yrði skattað duglega, stjórnmálamenn einbeittu sér að því að efla félagsleg kerfi, bjóða öllum ókeypis menntun og heilbrigðisþjónustu, og það væri skylda að borga þokkaleg lágmarkslaun fyrir erfiðu og óhreinlegu störfin, þyrfti varla að pína neinn til að vinna þau. Eða eru allir bara sáttir með þetta svona?

Efnisorð: , , , , , ,

miðvikudagur, febrúar 04, 2015

Auðugasta prósentið

Það er fáránlegt að 80 auðugustu manneskjurnar í heiminum eiga meiri auðæfi en fátækari helmingur jarðarbúa.

Ríkasta eitt prósent jarðarbúa á nú næstum helming alls auðs mannkyns og í nýrri skýrslu bresku samtakanna Oxfam, sem var kynnt í janúar, er því haldið fram að á næsta ári verði eignir þessa eins prósents orðnar meiri en samanlagðar eigur hinna 99 prósentanna.

Þetta er samt ekkert einskorðað við útlendinga í vondum útlöndum, hér á landi er samþjöppun auðs einnig vandamál.

Fjölmiðlar (t.d. Kjarninn og Vísir) skýrðu frá því að samkvæmt Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra hafi
„tekjuhæstu fimm prósent þjóðarinnar þénað 257,6 milljarða króna árið 2013. Það samsvarar 21,5 prósent af heildartekjum Íslendinga. Sama hlutfall var 17,6 prósent árið 2012. Hlutfallið náði hámarki árið 2007 þegar tekjuhæstu fimm prósentin þénuðu 33,2 prósent af heildartekjum en það fór lækkandi í kjölfar hrunsins. Árið 2012 og 2013 tóku tekjuhæstu 5 prósentin stærri sneið af tekjukökunni.

Sé hópurinn þrengdur enn meira má sjá að tekjuhæsta 0,1 prósentið þénaði sem nemur 2,3 prósentum af heildartekjum þjóðarinnar. Það er langt frá þeim toppi sem hópurinn náði árið 2007, þegar tekjuhæsta 0,1 prósentið þénaði 10,2 prósent allra tekna. Sama er uppi á teningnum hjá þessum hópi og fimm prósent tekjuhæstu þegar kemur að vexti á milli ára. Árin 2012 og 2013 tók hópurinn hærra hlutfall tekna til sín en fyrstu árin eftir hrun. 


Tekjuhæsti 0,1 prósent hópurinn samanstendur af 140 til 200 fjölskyldum, eftir árum.

Þetta segir hinsvegar aðeins hálfa söguna því að í gögnunum er hlutafjáreign metin á nafnvirði. Eignir ríkustu Íslendinganna eru því verulega vanmetnar. Þá má gera ráð fyrir enn hærri eignum vegna fasteigna en þær eru metnar á fasteignamatsverði, sem oft á tíðum er mun lægra en markaðsvirði eigna.“

Af þessu tilefni er líka ágætt að rifja upp afar athyglisverðan pistil sem Jóhann Hauksson birti í janúar. Í pistlinum ræðir hann m.a. um fjölskyldurnar fimmtán sem áttu og stjórnuðu landinu hér á árum áður, hvernig gæðum landsins var skipt milli Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna, og nefnir ýmsa fleiri til sögunnar. En svo segir hann:

„Nú, árið 2015, segja mér vel tengdir menn með mikla yfirsýn og reynslu, að píramíðalögun íslenska viðskiptalífsins – og stjórnmálanna – sé enn brattari en á tímum Kolkrabbans og síðar Baugsmanna og Björgólfa. Fjölskyldurnar séu enn færri en áður. Völdin yfir stærstu fyrirtækjunum séu á höndum enn færri einstaklinga (fjölskyldna) en áður. Auk þess lifi gamla helmingaskiptareglan góðu líkamlegu lífi í formönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.“
Jóhann rekur hvernig ríkisstjórnin hyglir sínum en segir svo frá athyglisverðu atriði (sem kom reyndar fram í grein sem hann vísar á), sem almúginn gerir sér ekki grein fyrir varðandi fjármál ríka fólksins og sem honum sjálfum fannst svo ótrúlegt að hann spurðist fyrir hjá ríkisskattstjóra til að fá það staðfest. En niðurstaðan er semsagt sú að „skattlagning félaga vegna tekna þeirra af eignarhlutum í öðrum félögum … er núll prósent!“ Það er von að menn hafi stofnað eignarhaldsfélög út og suður.

Ríka fólkið borgar semsagt ekki skatta af eignarhaldsfélögum sínum og hlutafjáreignin er vanmetin. Ríka fólkið er enn ríkara en við höldum og skattkerfið hyglir því.

Á meðan, á öðrum stað í þjóðfélagsstiganum, búa tvö prósent Íslendinga eða tæplega sex þúsund og tvö hundruð manns, við sára fátækt. Rúm níu prósent landsmanna eru undir lágtekjumörkum og er með minna en hundrað og sjötíu þúsund krónur á mánuði í ráðstöfunartekjur. Þetta er haft eftir Velferðarvaktinni en síðastliðið vor gaf Rauði kross Íslands út skýrslu sem sagði sömu sögu og benti á að þar að auki eigi 13% til viðbótar á hættu að verða fátækir beri eitthvað út af eða aðstæður breytast.

Þetta eru dapurlegar staðreyndir. En hvernig verður þessari þróun snúið við? Hvernig er hægt að minnka bilið svo þeir ríku gíni ekki yfir öllu og verði sífellt ríkari?

Warren Buffett, einn af þessum allra ríkustu mönnum heims, hefur lýst sig fúsan til að borga hærri skatta. Hann borgar aðeins 19% tekjuskatt en starfsfólk hans borgi 33% tekjuskatt. Eftir honum er haft að í gangi sé stéttastríð, en það sé hans stétt, efnastéttin sem standi fyrir stríðinu og það sé rífandi gangur hjá hans liði.

Auðmenn í Frakklandi sendu fyrir nokkrum árum svipaða yfirlýsingu til (þáverandi) ríkisstjórnar sinnar. Hér á landi hefur Kári Stefánsson talað fyrir þessari leið.

Árið 2012 lögðu Sameinuðu þjóðirnar til að að sérstakur skattur yrði settur á milljarðamæringa til að afla fjár handa fátækum ríkjum. Í frétt um málið kemur fram að 1.226 menn í heiminum eigi eignir sem séu metnar á meira en einn milljarð Bandaríkjadala. Þar af séu 425 í Bandaríkjunum, 315 í austanverðri Asíu og Eyjaálfu, 310 í Evrópu, 90 í ríkjum Norður- og Suður-Ameríku, öðrum en Bandaríkjunum, og 86 í Afríku og Mið-Austurlöndum. Samanlagt á þetta fólk jafnvirði 590 þúsund milljarða íslenskra króna.

Það munar um minna.

Hin aðferðin við að að breyta ástandinu er að kjósa öðruvísi.

Það er ekkert vafamál að það skiptir máli hvernig kosið er, hægri stjórnir vilja skattleggja efnafólk minna en vinstri stjórnir. Hér á landi bera kjósendur alla ábyrgð á því að frjálshyggjunni hefur aftur verið hleypt á skeið. Hálaunastefna fyrirtækjanna er grímulaus (en þótti hjákátleg meðan Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra og hélt launum ríkisforstjóra í skefjum með því að leyfa þeim ekki að fá hærri laun en hún), útgerðinni er endalaust hyglað og skattar eru bara hækkaðir á nauðsynjar á borð við mat.

Sjálfstæðisflokkurinn á alltaf sitt fastafylgi sama hvað á gengur, eins geggjað og það nú er, og þar á meðal eru gamalgrónir íhaldsmenn sem eru ekki sérlega hrifnir af frjálshyggju. Það kjósa þó ekki allir bara flokkinn af gömlum vana heldur vegna þess að þeir styðja hálaunastefnu og lága fasteignaskatta. Aukin skattheimta á efnafólk er jafn mikið eitur í þeirra beinum og frjálshyggjumanna. Íhaldsmennirnir í kjósendahópi Sjálfstæðisflokksins eru því samsekir.

Samþjöppun auðs allstaðar í heiminum verður seint skrifuð á Sjálfstæðisflokkinn, en kjósendur hans eiga sér skoðanabræður um allan heim. Það er fólkið sem þarf að líta í eigin barm og íhuga hvort það sé í rauninni eðlilegt að svo fáir eigi öll auðæfi hvers lands og alls heimsins að það sé nánast hægt að nafngreina hvern og einn. Meðan sitji 99% jarðarbúa eftir gapandi af undrun yfir því hvernig þetta fær staðist — eða viðgengist.

Ef þessari þróun — auðsöfnun á fárra hendur — verður ekki snúið við er hætt við að ríkasta prósentið verði fyrr eða síðar að horfast í augu við að enginn má við margnum.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, febrúar 01, 2015

Ýmislegt um pilluna sem einnig er kölluð P-pillan eða getnaðarvarnarpillan

Á vef Ríkisútvarpsins birtist þessi frétt í dag:

„Carl Djerassi er látinn, 91 árs að aldri. Djerassi hefur stundum verið nefndur faðir pillunnar fyrir þátt sinn í rannsóknum sem leiddu til getnaðarvarnarpillunnar. Djerassi sagði síðar að sú uppgötvun hefði haft meiri áhrif á líf kvenna og karla en flestar aðrar vísindauppgötvanir eftirstríðsáranna.“
Það eru orð að sönnu.

Þetta er gott tilefni til að rifja upp að á þessari síðu hefur margoft verið minnst á pilluna, ýmist til að lofa hana eða lasta, stundum í framhjáhlaupi en stundum hefur hún verið meginefni pistla. Oft er verið að ræða fóstureyðingar og kvenfrelsi en eitt af fjölmörgum baráttumálum kvenna um allan heim er rétturinn til að hafa stjórn á frjósemi sinni.

Hér eru pistlarnir í tímaröð auk stuttrar en allsekki tæmandi lýsingar á innihaldi þeirra, hægt er að smella á titlana til að lesa hvern þeirra fyrir sig.


13. ágúst 2009, Allskonar konur fara í fóstureyðingu
Hér er nefnt að kristnir bókstafstrúarmenn, þ.m.t. kaþólikkar, eru andstæðingar fóstureyðinga, kynfræðslu og getnaðarvarna yfirleitt, en þar undir fellur pillan auðvitað, enda telja þeir það skyldu kvenna að eignast sem flest börn. (Neðar á síðunni er minnst á sömu afstöðu bókstafstrúarmanna innan íslam.)

3. maí 2010, Pillan í fimmtíu ár
Hér er farið yfir sögu pillunnar, hvaða lönd voru fyrst og síðust til að heimila sölu getnaðarvarnarpillunnar og takmörkunum á sölunni. Raktir eru kostir og nokkrir af fjölmörgum göllum pillunnar.

19. júní 2010, Feministar eiga þakkir skildar
Hér kemur fram að feministar eiga þátt í því að fræða konur um getnaðarvarnir.

16. október 2010, Karlmenn sem taka ábyrgð á frjósemi sinni
Hér er mælt með að karlar fari í ófrjósemisaðgerð fremur en konur taki getnaðarvarnarpilluna árum saman.

10. nóvember 2010, Við þurfum ekki fleira fólk
Um fólksfjöldastýringu, rasisma og mannfjölda (sjá talningu í rauntíma).

31. júlí 2011, Allir aðrir afneita honum
Hér kemur fram að Anders Behring Breivik vill takmarka aðgang kvenna að kynfræðslu, getnaðarvörnum og fóstureyðingum.

17. nóvember 2011, Ábyrgar herraklippingar
Jón Gnarr ræddi ófrjósemisaðgerðir karla í borgarstjórn og mælti með þeim því að
„getnaðarvarnir eru mjög gjarnan til mikilla óþæginda fyrir konur og eru það jafnan þær sem taka ábyrgð enda eru það þær sem sitja uppi með afleiðingarnar.“
15. desember 2011, Munurinn á smokknum og pillunni
Smokkurinn hefur það umfram pilluna að vera vörn gegn kynsjúkdómum auk þess að vera getnaðarvörn. Skrifað útfrá umræðum um Assange-málið.

8. apríl 2012, Aðgengi unglinga að getnaðarvörnum
Meira um kynsjúkdóma, smokkinn og hina hormónahlöðnu pillu.

10. apríl 2013, Lof og last
Það kemur varla á óvart að Bræðralag múslima í Egyptalandi er á móti getnaðarvörnum kvenna. En eins og fram kemur hér að ofan eiga þeir það sameiginlegt með kristnum körlum á borð við Breivik sem hatar múslima. Það er sterk og sameinandi þörf hjá þeim öllum að vilja hafa stjórn á líkömum kvenna.

Efnisorð: , , , ,