sunnudagur, maí 31, 2015

Lestrarátak maímánaðar

Margar ágætar greinar og pistlar hafa birst undanfarið. Þessar eru helstar og er mælt með að fólk lesi þær sér til fróðleiks og ánægju.


Líkamsvirðing
Sigrún Daníelsdóttir skrifaði líkamsvirðingapistil sem fjallar um tvískinnung snyrtivörufyrirtækja sem virðast bæði vinna gegn staðalmyndum og græða á þeim. Einnig ræðir hún hvort gagnrýni á þessi fyrirtæki sé baráttu fyrir líkamsvirðingu til góðs. Afar áhugavert og hægt að skipta oft um skoðun meðan á lestri stendur.

Gagnrýnin umræða
Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifaði fína hugvekju um gagnrýna umræðu.
„Ef fjölmiðlar eru ófrjálsir og starfa undir boðvaldi ríkisvalds eða hafa víðtæka eigendavernd að viðmiði ritstjórnar, þá getur umræðan ekki verið frjáls, leiðréttingarferlinu seinkar eða mistökin festast í sessi. Það verður viðkomandi samfélagi fjötur um fót um ókomin ár … Gagnrýnin umræða á oftast á brattann að sækja. Mörgum finnst eðlilegra að halda áfram, horfa lítt til baka, vera ekki sífellt að nöldra. Valdhafar segja gjarnan að gagnrýni á framvindu landsmálanna beri vott um neikvæði og bölsýni, menn eigi að vera bjartsýnir á framtíðina.“

Bankabónusar
Ingi Freyr Vilhjálmsson og Þórður Snær Júlíusson hafa hvor um sig skrifað um bankabónusa. Þórður Snær skrifar um bónusa hjá viðskiptabönkunum þremur, en Ingi Freyr um ALMC sem áður hét Straumur Burðarás og segir hann að þarna sé um að ræða að „gamalt fjármálafyrirtæki sem hefur misst bankaleyfið er að borga út bónusa til starfsmanna sinna“, og það litla 3.4 milljarða króna.

Þetta eru reyndar frekar fréttaskýringar og heldur harðar undir tönn en vert að skoða þær samt. Eftirfarandi er úr grein Þórðar Snæs.

„Kaupaaukakerfi voru reyndar innleidd að nýju í bankanna fyrir nokkrum árum síðan. Samkvæmt lögum sem nú eru í gildi mega bónusar starfsmanna fjármálafyrirtækja vera 25 prósent af föstum árslaunum þeirra. … En mikið vill meira.

Nú liggur fyrir frumvarp um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Í minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér í lok apríl vegna þessa kom fram að ráðuneytið teldi það að „skaðlausu“ að veita fjármálafyrirtækjum heimild til að greiða bónusa sem væru allt að 50 prósent af árslaunum starfsmanna. Þá mætti einnig skoða að smærri fjármálafyrirtækjum yrði gert kleift að greiða enn hærri kaupauka til starfsmanna, til dæmis 100 prósent af árslaunum, heldur en stóru viðskiptabönkunum.
Samtök fjármálafyrirtækja skiluðu umsögn um frumvarpið þar sem fram kom að takmörkun á bónusgreiðslum væri íþyngjandi að þeirra mati. Samtökin lögðu til að evrópskur lagarammi yrði fullnýttur og fjármálafyrirtækjum gert kleift að greiða starfsmönnum sínum á bilinu 100 til 200 prósenta af árslaunum í kaupauka.“

Þórður skrifar að auki um laun í bankageiranum og kynjaskiptingu launanna.
„Meðaltal heildarlauna allra stétta á sama tímabili hafa farið úr 431 þúsund krónum í 555 þúsund krónur. Þau hafa hækkað um 28,8 prósent og því ljóst að launaskriðið í fjármálageiranum hefur verið langt umfram það sem gerist annarsstaðar.
Og þetta er karllæg stétt sem tekur svona mikið til sín. Í tölum frá Hagstofunni, sem voru birtar á mánudag, kemur fram að óleiðréttur launamunur kynjanna er hvergi meiri en í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, eða 37,5 prósent, og hann hækkaði á milli ára. Til samanburðar þá er var hann 18,3 prósent hjá öllum starfsstéttum á árinu 2014 og lækkaði umtalsvert á því ári.“
Mig grunar sterklega að það séu konurnar í gjaldkerastörfunum sem halda niðri meðallaununum.

Kynjakvótar
Í framhaldi af því er vert að vekja athygli á grein eftir Pál Harðarson forstjóra Nasdaq sem skrifar um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins. Ég veit ekki hvar Páll er staddur í baráttu fyrir kynjajafnrétti eða hvort hann skrifar þetta til að fegra ímynd fjármálageirans (svona er ég nú tortryggin), en það er samt ánægjulegt að maður í hans stöðu skrifi þetta á vettvangi fjármálafólks.

„Lög um kynjakvóta voru visst neyðarúrræði, ætluð sem tímabundin aðgerð til að stuðla að breytingum til framtíðar. Komandi kynslóðum mun sennilegast finnast skrýtið ef konur sjást ekki í stjórnum fyrirtækja. Vonandi mun það gilda um önnur stjórnunarstörf innan fyrirtækja – og að við sjáum miklar breytingar þar líka þegar fram í sækir. Hér verður vitund, umræða og þá ekki síst sameiginlegur áhugi karla og kvenna að stuðla að þeim breytingum sem þörf er á.“

HfHuk?
Til að létta stemninguna þá er hér vísað á skrif Þórunnar Hrefnu Sigurjónsdóttur um hunda, ketti og Hitler. Engum sögum fer af hvernig hundafólki líkar úttektin eða hvernig á að flokka fólk sem á bæði hunda og ketti. En pistillinn er skemmtilegur.

Mannréttindi, menntun og innihaldsríkt líf
Í grein sem Ólafur Páll Jónsson heimspekingur skrifar um menntun og mannréttindi er fjallað um Malölu, menntun og túlkasjóðinn — sem er einhver tómasti sjóður sem sögur fara af. Hann vitnar hér í Snædísi Rán Hjartardóttur:
„... tal um forgangsröðun [vegna framlaga í túlkasjóð er] mjög vafasamt þar sem bakkabræður einir myndu panta sér túlka til þess eins að fá túlka (ekki til að láta túlka fyrir sig, bara hafa þá hjá sér). Það er ekki neins að ákveða hverjir eiga rétt á túlkun umfram aðra, það má aðeins skipuleggja þjónustuna þannig að allir sem þurfa fái sinn sanngjarna skerf. Hvað fjármunina varðar þá er spurningin frekar hvernig við skiptum samfélagslegum gæðum milli okkar, hvort vegur meira þjónusta sem stuðlar að eðlilegri og sjálfsagðri þáttöku í samfélaginu eða munaður sem hugsanlega á rétt á sér en er kannski ekki nauðsynlegur. Ég segi bara fyrir mig að ég er ekki tilbúin að lifa í búri þar sem allar pant­anir til Samskiptamiðstöðvar lenda í einhverri forgangsröð sem á víst eftir að valda því að ég eigi bara rétt á sumum útgáfum af samskiptum við annað fólk!“

Að vekja athygli á þingmannalánum
Þorvaldur Gylfason skrifaði frábæran og mjög tvíræðan pistil um greinarmerkjapælingar (þarfar mjög) en ‘dæmið’ sem hann tvítekur í upphafi pistilsins hlýtur þó að vera megintilgangur skrifanna. Og honum komið svona skemmtilega lúmskt til skila. En ætli einhver blaðamaður taki Þorvald á orðinu og rannsaki hvort þingmennirnir hafi gert upp skuldir sínar við bankana eða hvort þeir séu enn að reka erindi þeirra á þingi?Þá er lokið upptalningu á lesefni og nú verða sagðar íþróttafréttir.

Aníta Hinriks sló enn eitt Íslandsmet sem engin önnur kona hafði náð að slá áratugum saman. Hún hefur nú slegið sjö Íslandsmet fullorðinna (fær samt ekki að verða Íþróttamaður ársins, enda bara stelpa).

Eygló Ósk Gústafsdóttir er búin að tryggja sér þátttökurétt á næstu Ólympíuleikum og hefur síðan verið að dunda sér við að setja Íslandsmet og Norðurlandamet í sundi ótt og títt.

Fanney Hauksdóttir er ung og efnileg íþróttakona. Hún hefur unnið til gullverðlauna á heimsmeistaramóti unglinga í kraftlyftingum árin 2014 og 2015. Að auki sló hún heimsmet á síðara mótinu.

Lýkur þar með maímánuði.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,

laugardagur, maí 30, 2015

Hitnar undir körlum

Fjöldi kvenna segir nú opinskátt frá kynferðisofbeldi sem þær hafa sætt. Fyrst í lokuðum hóp sem er eingöngu fyrir konur, svo einnig á Twitter, og fjölmiðlar fylgjast með. Konurnar sýna þarna mikinn kjark og þrátt fyrir einstaka ósmekklegheit nettrölla þá er mikill samhugur og stuðningur við þetta stóra skref sem þær stíga. (Gerendurnir eru þó ekki nafngreindir.) Sumum ummælum þeirra er af ýmsum ástæðum tíst oftar en einu sinni, þar af einu sem segir að ekki megi gleyma öllum karlmönnunum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Á sama tíma komst í hámæli að karlmaður beitti barnsmóður sína ofbeldi bæði á fæðingardeildinni og eftir að hún var nýkomin heim með tvíbura sem hún eignaðist með keisaraskurði. Nú er verið að ræða verkferla varðandi tilkynningar um heimilisofbeldi, tíðni ofbeldis gagnvart barnshafandi konum — en að öllum líkindum verða tuttugu prósent kvenna fyrir ofbeldi á meðgöngu af hálfu barnsföður síns — og þá óhugnanlegu staðreynd að karlmenn hafa barið börn úr konum, meðal annars í frétt sem birtist á Vísi.

Þarna er óhægt um vik að segja að karlar verði líka fyrir ofbeldi þegar þeir séu óléttir, en þeir eru nú ekki af baki dottnir samt, karlarnir í athugasemdakerfinu. Þeir fara nefnilega að tala um fóstureyðingar.

Þær eru margvíslegar, leiðirnar til að dreifa athyglinni frá ofbeldi karla gegn konum.


___

[Viðbót, síðar] Í janúar 2016 skrifar Hrannar Björn Arnarsson um ofbeldi karla gegn konum og þá sérstaklega morð í nánum samböndum. Athugasemdir við greinina eru lýsandi dæmi um undanbrögð karlmanna; þeir fara umsvifalaust að ræða ofbeldi sem konur beita.


Efnisorð: , , , , ,

fimmtudagur, maí 28, 2015

Sögulegar og sorglegar hvalveiðar á fjarlægum slóðum

Norska sjónvarpið hefur undanfarna daga verið að sýna breska sjónvarpsþætti í tveimur hlutum um hvalveiðar tuttugustu aldar — með engri áherslu á Ísland. Þetta voru áhugaverðir þættir sem sögðu sögu og sýndu landsvæði sem ég hafði ekki hugmynd að væri til.

Þættirnir fjalla ekki um tilfinningalíf hvala, svona svo það sé á hreinu. Þvert á móti fá lífsreynslusögur hvalveiðimanna talsvert vægi. Ef eitthvað er þá er þáttagerðarmaðurinn helst til hrifinn af ævintýrinu, uppganginum og karlmennskunni við hvalskurðinn, en er þó greinilega meðvitaður um hvernig heilu hvalategundunum var næstum útrýmt með óheftum hvalveiðum.

Þættirnir hafa einnig verið sýndir á BBC og kynning þeirra á heimasíðu BBC er allítarleg og ég styðst við hana í bland við eigin upprifjun á því sem fyrir augu bar í þáttunum.

Fyrir nokkrum hundruð árum syntu milljónir hvala um heimshöfin, segir í kynningunni á þáttunum. En svo komst mannskepnan að nýta mætti þá til að lýsa hús og götur, gera úr þeim lífstykki, sápur og matvæli. Seint á nítjándu öld var sprengiskutullinn fundinn upp sem varð ásamt öðrum tækninýjungum til þess að auka mjög fjölda veiddra dýra gríðarlega og breytti einnig því hvaða hvali var hægt að veiða. Sumir hvalir sökkva um leið og þeir drepast og var því tilgangslaust að drepa þá en þegar farið var að nota þá aðferð að dæla í þá lofti úr slöngu þá flutu þeir. Það varð til þess að þessi hvalir sem áður voru óveiðanlegir voru nú strádrepnir.

Þættirnir hefjast á Skotlandi en þar voru grindhvalaveiðar stundaðar með sama hætti og í Færeyjum. En svo fækkaði hvalnum — og reyndar allstaðar á Norður-Atlantshafi — og þá færðust veiðarnar sunnar á hnöttinn.

Þáttagerðarmaðurinn glaðbeitti ferðast nú til Falklandseyja og þaðan til fjarlægrar eyjar sem heitir South Georgia sem einnig er breskt yfirráðasvæði. Þar bjó enginn áður en hvalveiðar hófust þar í massavís, og nú er eyjan aftur yfirgefin, en í áratugi voru þar sex hvalveiðistöðvar. Sú stærsta þeirra var í eigu fyrirtækis í Edinborg sem hét eftir stofnanda sínum Christian Salvesen og var það stærsta hvalveiðifélags heims á sínum tíma.

Á þriðja áratug síðustu aldar voru farnar að heyrast varnaðarraddir um að of ört væri gengið á hvalastofna, og gerði Breska nýlendustofnunin út rannsóknarskip til sjávarlíffræðirannsókna í Suður-Íshafinu, með hvali sem meginviðfangsefni.

Um miðjan þriðja áratuginn voru 8.000 hvalir drepnir á ári. Olían var nú ekki lengur notuð til lýsingar heldur í sápu og smjörlíki. En með breyttum skipaflota — tilkomu verksmiðjuskipa — jukust veiðarnar enn, og gekk þá einnig betur að forðast að fara eftir þeim reglum sem þó var reynt að setja um veiðarnar.

Á fjórða áratugnum bættust Japan og Þýskaland í hóp hvalveiðiþjóða og eitt árið náði samanlagður floti allra þeirra sem nú veiddu hvali í Suður-Íshafi að drepa 46.000 dýr.

Fita varð gríðarlega eftirsótt meðan á heimsstyrjöldinni síðari stóð og hvalveiðarnar héldu því ótrauðar áfram þrátt fyrir aðvaranir og svartar skýrslur sjávarlíffræðinga. Alþjóðahvalveiðiráðið var stofnað 1946 og átti að koma í veg fyrir ofveiði en enginn tók mark á því. Tilraunir til að setja kvóta urðu til þess að allir kepptust um að fylla heildarkvótann sjálfir. Það var ekki fyrr en á sjöunda áratugnum sem tókst að takmarka veiðar — en þá voru þær löngu farnar að vera mjög tregar, lengra þurfti að sigla eftir hvalnum og færri dýr veiddust. Raunin var sú að hvalastofnar voru í rúst og sumar tegundir nærri útrýmingu, s.s. steypireyður, sem hefur enn ekki náð sér á strik.

Eftir að hafa horft á þessa sorgarsögu rakta (ég horfði á seinni þáttinn í gær) var eins og hressandi andblær að sjá grein eftir Sóleyju Tómasdóttur forseta borgarstjórnar um stækkun griðasvæðis hvala í Faxaflóanum. Hún bendir á hagsmuni hvalaskoðunarinnar og gallana við að hafa hrefnuveiðibátana alveg ofan í hvalaskoðunarbátunum, og minnir á að borgarstjórn skoraði á ríkisstjórnina í desember síðastliðnum að stækka griðarsvæðið. Hún endar greinina á þessum orðum:
„Nú þegar hvalveiðitímabilið er að hefjast, á sama tíma og ferðamönnum fjölgar ört, er brýnt að árétta þessa ályktun borgarstjórnar. Ég hvet atvinnuvegaráðherra til að stækka griðasvæðið og taka þannig tillit til hvalaskoðunarinnar sem og þeirra sáttmála sem Ísland á aðild að til að tryggja dýravernd og dýravelferð. Þar fara hagsmunir hvala og manna saman.“
Það hefðu sannarlega mátt vera gefin grið og sett upp griðarsvæði í Suður-Íshafinu áður en þar fór allt í óefni. En það er ekki of seint að gera það, því þar veiða Japanir enn, alveg ótrauðir. Helst að Sea Shepherd djöflist í þeim, en þau samtök eru afar illa þokkuð hér á landi, enda eru enn allmargir Íslendingar á bandi Kristjáns Loftssonar og þingmannssonarins sem stundar hrefnuveiðar í Faxaflóanum, og finnst bara allt í lagi með hvalveiðar. Þrátt fyrir allt.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, maí 26, 2015

Veruleikafirring og viðtal

Einar K Guðfinnsson forseti Alþingis tók sig loksins til og frestaði umræðu um rammaáætlun og breytingartillögur meirihlutans. Nú verður því hægt að halda áfram með dagskrána þar sem frá var horfið og virkjunarkostirnir verða ræddir í nefnd en ekki í þingsal. Stjórnarandstaðan vann semsagt þarna áfangasigur, sem er skárra en ekkert.

Ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki sérlega vinsælir þessa dagana, sem von er. Í dag var mótmælt á Austurvelli. Forsprakki mótmælanna sagði að það væru 99 ástæður fyrir byltingu, ekki skal ég efast um það. Skoðanakannanir sýna að fylgi Framsóknarflokksins nálgast frostmark. Sigmundur Davíð segir að það sé vegna þess að þjóðin sé veruleikafirrt. Hver sá sem fylgist með ríkisstjórninni hlýtur að sjá veruleikaafneitun forsætisráðherrans. Sjálfur heldur hann því fram að með breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu (milljarðamæringum sem eiga kvóta verði gefinn makrílkvóti svo þeir geti grætt enn meir), og „lækkun tolla og gjalda“ (lækkun vörugjalds jú en umtalsverð hækkun matarskatts) sé ekki verið að hygla fólki með hærri tekjur. Hrokafull vörn Sigmundar Davíðs fyrir vondum málstað blasir við. Þetta, ofan í hve óskýr hann er í svörum þegar hann ræðir við fjölmiðla, og hvernig hann þrætir fyrir að hafa sagt það sem er til á upptökum að hann sagði, gerir hann einstaklega ótrúverðugan og ógeðfelldan.

Annað var uppi á teningnum hjá einum helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar í hreint ágætu viðtali um helgina. Katrín Jakobsdóttir er skýr í tali þegar hún talar um ríkisstjórnina, sem endranær:

„Í stefnu finnst mér þessi ríkisstjórn hafa gengið fram með mjög skarpri hægri beygju myndi ég segja á mörgum sviðum. Þá er ég að tala um skattapólitíkina,“ segir Katrín og nefnir ákvörðun um að framlengja ekki auðlegðarskatt, lækkun veiðigjalda, fyrirhugað afnám orkuskatts, hækkun matarskatts og fækkun skattrepa.

„Allar þessar skattabreytingar hafa mér þótt slæmar, mjög hægri sinnaðar og til þess fallnar að auka ójöfnuð í samfélaginu.“

Bendir Katrín á að nú séu 70 prósent eigna í eigu ríkustu 10 prósentanna. Auðlegðarskatturinn geri ekkert nema að auka á þennan ójöfnjuð. Þá bitnar matarskatturinn hlutfallslega mest á láglaunafólki á meðan þrepakerfið snúist um að dreifa byrðunum jafnar.

Katrín nefnir einnig djúpstæðan ágreining á milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar í auðlindamálum, sem endurspeglast meðal annars í því máli sem hertekið hefur umræðuna á Alþingi undanfarna daga.

„Við erum búin að virkja 50 prósent alls virkjanlegs vatnsafls og jarðvarma og þessi ríkisstjórn virðist ætla bara að auka það hlutfall enn frekar. Hún er ekki einu sinni til í að bíða eftir þessum faglegu ferlum sem þetta fólk samþykkti á sínum tíma í stjórnarandstöðu þegar það voru samþykkt lög um rammaáætlun. Mér finnst þarna vera algjört afturhvarf í atvinnustefnu.“

Síðar í viðtalinu segir Katrín:
„Maður veit heldur ekki hvert þau nákvæmlega eru að fara. Af því að þau eru búin að vera svo rosalega mikið á kafi í fortíðinni í sínum málflutningi, þá veit ég ekki hvernig ríkisstjórnin ætlar að nýta seinni hluta kjörtímabilsins. Hvort hún ætli að halda áfram að vera í einhverjum bakkgír í atvinnumálum, horfa bara á iðnaðaruppbyggingu og orkunýtingu og hvort hún ætli að reyna að slá einhver heimsmet í því, hvort hún ætlar að halda áfram að fletja út skattkerfið. Ég veit ekki hvaða aðra framtíðarsýn þau hafa.“
Í viðtalinu ræðir Katrín einnig um átökin á þingi síðustu daga, skort á markvissri uppbyggingu í ferðaþjónustu, ágreining milli stjórnarflokkanna, fylgi Vinstri grænna, kosningabandalag vinstri flokkanna, hvernig henni lítist á forsetaframboð, Evrópusambandsumræðuna og gjaldeyrishöft. Þrátt fyrir þessa upptalningu er viðtalið skemmtilegt og vel þess virði að lesa það.

Hvert sinn sem Katrín talar vex hún í áliti. Það er eitthvað annað en forsætisviðundrið.

Efnisorð:

sunnudagur, maí 24, 2015

Hvítasunna

Í dag rak ég augun í stærðar skilti sem auglýsir Smáþjóðaleikana sem haldnir verða á næstunni (ef þá ekki verkföllin setja strik í reikninginn). Eins og mér finnst nú óskemmtilegt þegar krotað er á allt sem fyrir verður, þá helltist yfir mig þörf til að breyta ð í f (gerði það ekki) enda er ekki hægt annað en hugsa: smáþjófaleikar.

Það voru samt engir smáþjófar sem ég fór að hugsa um þegar ég sá skiltið heldur stórþjófaleikarnir sem gengu undir nafninu Icesave sem stjórn og stjórar Landsbankans stóðu fyrir hér um árið þegar þeir fengu þessa tæru snilldarhugmynd að láta grandalausa útlendinga moka í fé í bankann undir yfirskini. Fyrir nokkrum dögum gerði Kolbeinn Proppé blaðamaður á Fréttablaðinu mér nefnilega þann óleik að skrifa um Icesave, með tímalínu og öllu (voru ekki annars örugglega allir lesendur bloggsíðunnar búnir að skoða Pantigate tímalínuna? Hún er eiginlega enn betri eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á Írlandi. En nú er ég víst komin útaf sporinu, sem er von, því hvern langar til að velta sér meir uppúr Icesave?). Kolbeinn heldur því semsagt fram að
„Þau sem biðu þess tíma að Icesave-draugurinn vomaði ekki lengur yfir landinu þurfa að bíða aðeins lengur. EFTA-dómstóllinn mun taka afstöðu til þriggja spurninga Breta og Hollendinga í haust. Verði svörin spyrjendum í hag er líklegt að þeir muni reka mál fyrir héraðsdómi.“
Eins og það sé ekki nógu kvíðvænlegt bætir Kolbeinn þessu við:
„niðurstaðan allt eins orðið sú að allt fé sem fer inn í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta í framtíðinni gangi upp í kröfurnar, sem gætu numið allt að 1.000 milljörðum króna. Það þarf ekki að velkjast í vafa um að það væri þungt högg fyrir fjármálakerfið og jafnvel ríkisvaldið.“
Það er auðvitað ljótt af mér að skjóta Kolbein fyrir að vera sendiboða (nær væri að krefjast þess að stjórn og stjórar Landsbankans á tímum Icesave sæti öll bak við lás og slá) — en það er svo auðvelt að missa sig í allskonar bull þegar Icesave ber á góma, maður fer eiginlega að tala tungum. Sem er auðvitað viðeigandi í dag, því á þessum degi fyrir tæpum tvö þúsund árum kom „heilagur andi, þriðja persóna guðdómsins, yfir lærisveinana ellefu svo að þeir fóru að prédika á ókunnum tungum, sem aftur gerði það að verkum að 3.000 manns gengu Kristi á hönd“, með þeim afleiðingum að þessi dagur er þetta formlegur stofndagur kirkjunnar.

Það sem mér finnst áhugaverðast við þennan dag er að hann er eini lögboðni frídagur vegna helgihalds kirkjunnar sem tengist ekki beint fæðingu eða dauða Jesú. Mér finnst skrítið að íslenska þjóðkirkjan skuli ekki hafa fyrir löngu fjarlægt sig þessum degi, enda þótt hann teljist stofndagur kristinnar kirkju, og látið hann hvítasunnumönnum eftir því það eru jú þeir sem hafa sérhæft sig í að tala tungum eins og lærisveinarnir forðum. Ef ég réði einhverju í þjóðkirkjunni myndi ég forðast alla tengingu við hvítasunnumenn — en ég myndi heldur ekki skrifa grein í blöð árið 2015, ef ég væri biskupinn, til að segja að ég teldi það ekki vandamál að 10% presta innan þjóðkirkjunnar eru ekki tilbúnir til að vígja fólk af sama kyni í hjónaband. Það er semsagt ekki svo langt yfir í bókstafstrú hvítasunnumanna.

Í þjóðkirkjunni er líka haldið við sérkennilegri tengingu við gömul viðhorf með því að halda sérstakan kristniboðsdag í nóvember ár hvert. Þá er beðið í kirkjum landsins fyrir kristniboði í fjarlægum löndum og „að fleiri verði kallaðir út á akurinn“. Það er sorglegt útaf fyrir sig að hvíti maðurinn sé enn að stunda trúboð, en ekki síður að svona nýlendutímaviðhorfi sé flaggað árlega í kirkjunni.

Ætli stórþjófarnir íslensku sem og aðrir fjárglæframenn, líti ekki enn á þjóðir heims, Ísland meðtalið, einsog nýlendu sem þeir geta arðrænt.


Efnisorð: ,

laugardagur, maí 23, 2015

Gleðibland

Hússjóður Öryrkjabandalagsins hefur snarsnúist í afstöðu sinni til gæludýrahalds í íbúðum sjóðsins. Nú er sagt:
„Niðurstaðan er sú að við áréttum þær reglur sem þegar hafa verið í þessum húsum en jafnframt er fullur skilningur að fólk vilji halda hundum og köttum,“ og að „gæludýraeigendum verði þó fundnar aðrar íbúðir í eigu sjóðsins, þar sem leyfilegt er að hafa dýr“.
Formaðurinn talar einnig um að „reyna að reyna að finna nýja íbúð fyrir þá aðila sem hafa sett sig í samband við okkur“.

Gleðin yfir því að hússjóðurinn hefur mildast í afstöðu sinni er þó blandin því enn er mörgum spurningum ósvarað. Hvað má gera ráð fyrir að líði langur tími þar til allir núverandi gæludýraeigendur fá nýtt húsnæði? Mega gæludýrin áfram vera á núverandi heimili sínu ef dráttur verður á flutningi eða verður eigendum þeirra gert skylt að losa sig við þau og fá sér svo ný þegar þeir flytja í Brynjuhús þar sem má vera með gæludýr? Hvað ætlar hússtjórnin að gera ef hópur gæludýraeigenda stækkar, eða gildir þessi nýja regla (ef þetta er þá regla) bara við um núverandi eigendur gæludýra sem búa í húsnæði á vegum Öryrkjabandalagsins og hafa þegar sett sig í samband við hússjóðinn?

Enda þótt þessi frétt (sem ekki er að finna á síðu ÖBÍ né hússjóðsins, né heldur fréttir af gæludýramálinu yfirleitt) sé afar takmörkuð þá markar hún að öllum líkindum tímamót í baráttu gæludýraeigenda fyrir að fá að búa með þeim sem þeim sýnist. Því ber að fagna.

Gleðin er afturámóti alveg óblandin nú þegar ljóst er orðið að meirihluti Íra kaus að breyta stjórnarskrá sinni til að leyfa fólki af sama kyni að ganga í hjónaband.

Jafnvel þótt allt hafi stefnt í þessa niðurstöðu var mjótt á munum sumstaðar: í einu kjördæmi munaði bara 33 atkvæðum, og eitt kjördæmi hafnaði hjónavígslu samkynhneigðra þó með litlum mun væri. Alls voru þó 62.1% atkvæða stjórnarskrárbreytingunni í hag á landsvísu, og samkynja pör mega því ganga í hjónaband. Húrra fyrir því!

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, maí 21, 2015

Verkföll og vatnsföll

Sigmundi Davíð tókst með óvæntum hætti að blanda saman tveimur (af þremur) helstu átakamálum vorsins, þegar hann sagði að til þess að bæta mætti kjör almennings yrði að virkja meira.

Indriði Þorláksson segir þetta vera veruleikafirringu því aðeins 1% þjóðartekna komi frá stóriðjunni.
„Orkuauðlindir landsins að frátöldum jarðhita til upphitunar eru nánast þýðingarlausar fyrir íslenskt efnahagslíf. Það stafar af þeirri stefnu núverandi stjórnvalda að beina arðinum af þeim í vasa þeirra sem auðlindirnar nýta. Þessi stefna kemur víða fram. Móast er við að setja virkt auðlindaákvæði í stjórnarskrá, skattar á hagnað fyrirtækjanna voru lækkaðir, álverunum veitt trygging fyrir því að flytja hagnað skattfrjálsan úr landi, niðurfelling orkuskatts á álfyrirtæki gerð að forgangsmáli, veiðigjöld voru lækkuð og til stendur að gefa makrílkvótann. Það kemur því ekki á óvart að alþingismaður útgerðareigenda taki undir þessa fjarstæðu.“
Indriði nefnir þarna þriðja deilumálið, makrílinn. Hin eru vitaskuld kjaradeilur og rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Soffía Sigurðardóttir skrifar áhugaverða grein um Skrokköldu sem hún segir að sé þúfan sem á að velta af stað hlassi með miklum framkvæmdum á hálendinu: Hágönguvirkjunum, Sprengisandslínu og Sprengisandsvegi.
„Jarðgufuvirkjanir við Hágöngulón, vatnsaflsvirkjun við Skrokköldu, Sprengisandslína og uppbyggður vegur yfir Sprengisand, eru óaðskiljanlegar framkvæmdir. Engin ein þeirra verður án hinna, þar er allt eða ekkert.“

Nú skal ég ekki efast um að virkjanaóðir stjórnarflokkarnir vilja virkja allt sem rennur (mínus umhverfisráðherra sem dregur lappirnar gagnvart sumum „virkjanakostunum“ sem þröngva á í gegnum þingið, en gefur þó ekkert upp um hvort hún fylgi eigin sannfæringu eða flokkslínunni þegar að atkvæðagreiðslu í þingsal kemur), og örugglega hefði Jón Gunnarsson ekki orðið einn um að vera glaður ef stjórnarandstaðan hefði látið frumvarpið umyrðalaust renna í gegnum þingið. En hann var ekki svo heppinn því um rammann eru heiftúðugar deilur á þingi, sem von er, og stjórnarandstaðan gerir hvað hún getur til að koma í veg fyrir að málið verði klárað - og kemur um leið í veg fyrir frumvarp ríkisstjórnarinnar um að gefa makrílkvóta hægri vinstri.

Hinsvegar getur verið að rammafrumvarpið sé gildra sem veiða á stjórnarandstöðuna í, því fyrr eða síðar verður samið um þinglok og hvaða mál verða kláruð og hver verða látin víkja. Þá gæti farið svo að stjórnarandstöðunni verði boðinn sá samningur að ramminn verði látinn óáreittur gegn því að makrílfrumvarpið komist í gegn (eða einhver enn annar hroði). Og hafi þetta allt verið plott frá upphafi því vitað er að stjórnarandstaðan myndi A) hefja málþóf til að koma í veg fyrir að vatnsföll sem áður átti að sjá til með séu skyndilega orðin virkjanakostir , og B) semja um næstum hvað sem er til að losna við þessar virkjanahugmyndir útaf borðinu. Það ríður því á fyrir stjórnarandstöðuna að standa fast á sínu og ganga ekki að óásættanlegum samningum, og helst auðvitað koma í veg fyrir að ríkisstjórnin komist neitt áfram með þessi vondu mál.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, maí 18, 2015

Enn verkföll

Hér um daginn þegar ég tók saman yfirlit um verkföll þá gerði ég það fyrst og fremst fyrir sjálfa mig því ég átti erfitt með að henda reiður á hvaða stéttir væru í verkföllum, hverjar ætluðu í verkfall og hvað hver vinnustöðvun stæði lengi. Ég birti fyrra yfirlitið 23. apríl og hið síðara 1. maí. Til stóð að endurtaka leikinn vikulega en þegar Fréttablaðið tók uppá því 6. maí að tileinka verkfallsaðgerðum heila síðu og hefur endurtekið leikinn flesta daga vikunnar þá sá ég ekki lengur ástæðu til að halda þessu pjakki mínu áfram.

En svona fyrir þau sem ekki lesa Fréttablaðið (ég lái ykkur það ekki enda þótt ég sé býsna ánægð með þetta framtak blaðsins, eða svona að mestu leyti, sjá síðar) og hafið ekki rekist á listann yfir verkfallsaðgerðir í gangi á Vísi, sem er ekkert sérlega læsilegur þar, þá ætlaði ég hér að vísa á hverja síðu Fréttablaðsins fyrir sig en það hefur ekki gengið. Ég athuga með það síðar, ef ég á annað borð endurtek þennan leik að stela úr Vísi/Frbl. til endurbirtingar hér.

En á þessum síðum eru einnig viðtöl og ýmis fróðleikur í tölum um verkföllin. Ég átti reyndar afar erfitt með viðtalið við Gunnar Bergmann hrefnuútgerðarmanni en veiðar liggja niðri vegna verkfalls dýralækna. Fram til þessa er þetta eina jákvæða dæmið um áhrif verkfallanna sem ég hef heyrt um. Eða átti kannski einhver að hafa samúð með hrefnuútgerðarmanninum? Er ekki nóg að pabbi hans berjist fyrir hagsmunum hans á þingi?

Hér er staðan orðrétt eins og hún var birt í blaðinu á fimmtudag, en ég uppfærði þó fjölda þeirra daga sem verkfall hefur staðið yfir. Daginn eftir frestaði Starfsgreinasambandið verkföllum sem áttu að hefjast á morgun en í staðinn hefjast þau eftir tíu daga hafi ekkert verið að gert.

Verkfallsaðgerðir í gangi
Bandalag háskólamanna (BHM)
Ótímabundið verkfall hjá hluta aðildarfélaga stendur enn yfir.
Í dag er 42. dagur í verkfalli fimm þeirra:

1. Félag geislafræðinga
Hefur meðal annars áhrif á starfsemi Landspítalans. Ekki er hægt að framkvæma margvíslegar rannsóknir sem krefjast röntgenmyndatöku.

2. Félag lífeindafræðinga
Áhrif á framkvæmd rannsókna á Landspítalanum. Lífeindafræðingar starfa á rannsóknastofum sjúkrahúsa og fyrirtækja í erfðagreiningu og lyfjaiðnaði, auk stofnana sem þjóna landbúnaði.

3. Félag íslenskra náttúrufræðinga á Landspítala
Koma að frumu- og sameindalíffræði, eðlis- og efnafræði, lífeðlis- og lífefnafræði, erfðafræði og líftækni, örveru- og veirufræði, ónæmisfræði, blóðbankafræði, vefjafræði, meinafræði, faraldsfræði, tölfræði og kerfislíffræði.

4. Ljósmæðrafélag Íslands á Landspítala | þri., mið. og fim.
Raskar starfi kvennadeildar, en undanþágur hafa verið veittar, svo sem vegna keisaraskurðaðgerða.

5. Stéttarfélag lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu
Ekki er hægt að ganga frá alls kyns opinberum skiptum, gjaldþrota- eða skiptum dánarbúa, skilnuðum, hjónavígslum og fleiri hlutum.

Ljósmæðrafélag Íslands á Sjúkrahúsinu á Akureyri
Ótímabundið verkfall hófst 9. apríl. Verkfall á mánudögum og fimmtudögum. Aðgerðir eru því á 40. degi.

Hafa verið í verkfalli frá 20. apríl, í 29 daga
1. Félag íslenskra náttúrufræðinga á Matvælastofnun Meðal annars áhrif á eftirlit með plöntuheilbrigði, matvælaöryggi og neytendavernd.

2. Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði á Matvælastofnun Raskar margvíslegu eftirliti og rannsóknum.

3. Dýralæknafélag Íslands Stórfelld áhrif á matvælaframleiðslu. Uppáskrift dýralækna og eftirlit þarf við slátrun og einnig vegna innflutnings.


Fréttir dagsins í dag
Fundur BHM og samninganefndar ríkisins hjá Ríkissáttasemjara í dag var árangurslaus. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar.

Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins samþykkti í dag boðun ótímabundins verkfalls hjá Fjársýslu ríkisins.
Verkfallið á að hefjast 2. júní.

Það er því miður fátt sem bendir til að þessu ástandi fari að ljúka.

Efnisorð:

laugardagur, maí 16, 2015

Pantigate og þjóðaratkvæðagreiðslan

Írar ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu 22. maí næstkomandi. Um tvennt verður kosið, annarsvegar um að lækka aldurstakmörk til forsetaframboðs úr 35 í 21 ár, og hinsvegar um hvort samkynhneigðir fái að ganga í hjónaband.

Samkynja pörum á Írlandi hefur verið heimilt að staðfesta samvist sína á borgaralegan hátt frá árinu 2010. En rétt eins og hér á landi er það álitið jafnréttismál að samkynja pör geti gengið í hjónaband, og í nóvember 2013 ákvað írska þingið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Pantigate
Í fyrra gekk á netinu upptaka úr írsku leikhúsi þar sem dragdrottningin Panti Bliss steig á svið að lokinni leiksýningu og hélt ræðu. Umfjöllunarefnið var hómófbóbía, og ræðan var bæði átakanleg og hnyttin. Hér má sjá Noble Call ræðuna hafirðu ekki séð hana fyrr eða vilt sjá hana aftur (og aftur). Ég vissi það ekki fyrr en nýlega að ræðan var flutt sem innlegg í miklar umræður sem hófust eftir sjónvarpsþátt og eftirleik hans, hefur þetta fár verið kallað einu nafni Pantigate en sagan sú hófst í janúar og stóð fram í apríl á síðasta ári.

Þetta byrjaði allt með því að 11. janúar 2014 var Rory O'Neill (sem er einnig þekktur sem dragdrottningin Panti Bliss) gestur í laugardagsþættinum (e. Saturday Night Show) á ríkissjónvarpsstöðinni RTÉ sem stjórnað er af Brendan O'Connor. Þegar Rory O'Neill segir frá reynslu sinni af því að vera samkynhneigður á Írlandi spyr Brendan hann hvort hann geti nefnt dæmi um fólk sem hafi viðhorf andstætt samkynhneigðum. Rory nafngreinir kaþólsku dálkahöfundana Breda O'Brien og John Waters auk Iona stofnunarinnar (sem virðist ekki hafa aðra starfsemi en halda á lofti íhaldssömum kaþólskum viðhorfum).

Tekið skal fram að megnið af því sem hér fer á eftir kemur af vefsíðu um Pantigate sem Chrissy Curtin skrifaði og myndskreytti. Atburðir eru raktir í tímaröð og gera lesendur margt vitlausara en sökkva sér niður í síðuna og skoða myndböndin og myndskreytingarnar. En fyrir þau sem ekki vilja hvika frá þessari bloggsíðu eða finnst þægilegra að fá styttri útgáfuna á því ástkæra ylhýra þá eru hér helstu atriði.


14. janúar
Eftir kvartanir frá félögum Iona stofnunarinnar og John Waters vegna ærumeiðinga í laugardagsþættinum fjarlægir RTÉ upptöku af sjónvarpsþættinum af vef sínum.
Í þessu sambandi skiptir máli að John Waters var einnig á þessum tíma meðlimur útvarpsréttarnefndar sem kölluð er BAI (e. Broadcasting Authority of Ireland).

15. janúar
Ritskoðuð útgáfa þáttarins birtist á vef RTÉ.

RTÉ skipar öðrum vefsíðum að fjarlægja öll myndbönd og útskrifuð handrit af viðtalinu.

Fréttabann er á fjölmiðla svo þaðan heyrist ekkert um málið, en stuðningur við Panti eykst á netinu og þar fer fram öll umræðan og gagnrýni á ritskoðun RTÉ.

Uppákoman í laugardagsþættinum fær nafnið Pantigate.

16. og 20. janúar Rory O’Neill fær hótanir um lögsókn frá John Waters og Iona félögum.

23. janúar
John Waters hættir hjá BAI, og er þar með frjáls að því að fara í mál við Rory O'Neill.

Ríkissjónvarpsstöðin RTÉ greiðir bætur til John Waters, Breda O'Brien og félaga í Iona stofnuninni en ekki er skýrt opinberlega frá upphæð bótanna.

25. janúar
Brendan O'Connor les opinbera afsökunarbeiðni í laugardagsþættinum fyrir hönd RTÉ.

30. janúar
Kvartanir hrúgast yfir RTÉ og BAI í kjölfar afsökunarbeiðninnar í laugardagsþættinum.

Averil Power öldungardeildaþingmaður fer fram á að Pat Rabbitte ráðherra samskiptamála ræði bótagreiðsluna og afsökunarbeiðnina.

Á sama fundi tekur Jim Walsh öldungardeildaþingmaður málstað Iona stofnunarinnar.

Í liði með Panti (e. Team Panti) barmmerki eru seld til stuðnings Pantigate.

1. febrúar
Skýrt er frá því að bótagreiðslan hafi verið alls 85.000 evra, eða um 12.5 milljónir íslenskra króna.

Panti Bliss flytur Noble Call ræðu sína í Abbey leikhúsinu í Dublin, í lok síðustu leiksýningarinnar á The Risen People eftir James Plunkett. Í ræðunni segir hún frá reynslu sinni af hómófóbíu á Írlandi og hvernig orðið hómófóbískur hefur verið þaggað niður í umræðum um LGBT málefni.

Á sama tíma er umræða um hómófóbíu, notkun orðsins hómófóbíu og hjónabönd samkynhneigðra í laugardagsþættinum.

Noble Call ræðan fer sem eldur um sinu og horft er á hana rúmlega 100.000 sinnum á YouTube á tæpum tveimur dögum.

2. febrúar
Mótmæli gegn hómófóbíu á vegum LGBT samtaka. fyrir utan Gaiety leikhúsið í Dublin. 2000 manns mæta til að sýna stuðing sinn. The Irish Times segir ranglega að stuðningsmennirnir hafi verið 750 að tölu. Þess má geta að Breda O'Brien og John Waters voru á þessum tíma bæði dálkahöfundar hjá blaðinu, en hann er síðan hættur.

Fréttir um að óánægju með bótagreiðslurnar sé eingöngu meðal lítils hóps á netinu verða til þess að Chris Tierney hönnuður og ljósmyndari gerir ljósmyndaseríuna Sendið skilaboð til RTÉ og Iona til að sýna fram á að þetta mál varði almenning.

4. febrúar
Stuðningur við ræðu Panti streymir inn: Graham Norton, Madonna, RuPaul, Dara O'Briain og Stephen Fry tvíta og senda tölvupóst.

6. febrúar
Umræða í neðri deild þingsins, þingmenn lýsa skoðunum sínum á bótagreiðslunum.

7. febrúar
Panti kemur fram í fréttum Channel 4 til að tala um Noble Call ræðu sína og hómófóbíu á Írlandi.

2. mars
Panti fær boð um að fara til New York til að taka þátt í skrúðgöngunni Dagur heilags Patriks fyrir alla.

9. mars
Pet Shop Boys gefa út lag sem er að uppistöðu Noble Call ræðan og heitir það The Best Gay Possible – Oppressive Dance Mix.

28. mars
John Waters hættir að skrifa fyrir Irish Times.

20. apríl
Rory O’Neill/Panti Bliss fær tilfnefningu til þriggja Stolt Írlands (e. Pride of Ireland) verðlauna: fyrir ævistarf, hugrekki og sérstaka viðurkenningu.

Öldurnar lægði nú eftir þetta einstaka mál sem hófst með því að Panti Bliss notaði orðið hómófóbía og ríkissjónvarpið ástundaði ritskoðun og greiddi móðguðum hatursmönnum samkynhneigðra skaðabætur.

En í desember 2014 var tilkynnt hver væri maður ársins – og það var Panti Bliss. Stephen Fry afhenti henni viðurkenninguna — sem var sjónvarpað á RTÉ.


Þjóðaratkvæðagreiðslan
Í febrúar á þessu ári var svo tilkynnt að þjóðaratkvæðagreiðslan um hvort samkynhneigðir fái að ganga í hjónaband færi fram 22. maí og eftir því sem nær dregur hafa fólk og stofnanir lýst yfir andstöðu eða stuðningi við tillöguna. Mjög líklegt er að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði samkynhneigðum í vil, það sýna skoðanakannanir, en víðtækur stuðningur er við málið í þjóðfélaginu enda þótt alltaf séu einhverjir sérvitringar og trúsöfnuðir á móti því að samkynhneigðir fái þessi réttindi á við aðra. (Eftirfarandi samantekt er í boði Wikipedia.)

Allir fjórir stóru stjórnmálaflokkarnir tala fyrir málinu, bæði þeir sem eru í stjórn og stjórnarandstöðu. Minni flokkarnir eru því einnig hlynntir.

Ráðstefna kaþólskra presta er á móti, og hefur dreift bæklingum til allra sókna. Meþódistakirkjan hefur lýst því yfir að hún styðji hefðbundið hjónaband karls og konu. Church of Ireland (sem er einhverskonar afleggjari frá ensku biskupakirkjunni) tekur ekki afstöðu en hvetur meðlimi sína til að kjósa samkvæmt eigin sannfæringu.

Tvennskonar samtök múslima og einn angi öldungakirkju fóru fram á „samviskufrelsi“ einstaklinga og fyrirtækja (sbr. samviskufrelsi íslenskra presta sem heimilar þeim að neita samkynja pörum um hjónavígslu á grundvelli eigin samvisku) sem þýðir í raun að það mætti neita samkynja pörum um ýmisskonar þjónustu og afgreiðslu. Sú tillaga hlaut ekki hljómgrunn.

Aftur á móti lýsti Islamic Centre því yfir að aldrei ætti að mismuna fólki og að viðhorf sumra múslima gagnvart samkynhneigðum væri ósamrýmanlegt mannúð og mildi Íslam, og hvatti múslima til að nota stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að kjósa eftir eigin sannfæringu. Fyrrverandi erkidjákni biskupakirkjunnar talaði á svipuðum nótum og sagði að nú væri tækifæri til að sýna samkynhneigðum að þeir væru metnir að verðleikum.

Mæður og feður skipta máli, heitir hópur sem hefur barist gegn ættleiðingum og stjúpættleiðingum samkynhneigðra, og hrinti hann af stað herferð fyrir því að kjósa nei. Sama sinnis er Öldungardeildarkirkjan og Iona stofnunin. Nú í maí voru stofnuð samtök sem vilja verja (hefðbundið) hjónaband en stofnfundur var fámennur og sagði talsmaður samtakanna að það væri vegna þess að fólk sem vildi segja nei þyrði ekki að láta í sér heyra.

Allskyns góðgerðarstofnanir í þágu barna hvetja fólk hinsvegar til að kjósa já við samkynja hjónaböndum. Sömuleiðis verkalýðsfélög, félög hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og lækna. Feministafélög og lögmannasamtök hafa einnig lýst yfir stuðningi.

Það lítur allt út fyrir að samkynja pör fái samþykki írsku þjóðarinnar til að ganga í hjónaband. Það er þó ekki endilega ávísun á að hómófóbía hverfi, því miður. En vonandi verður kjörsókn góð næstkomandi föstudag — og megi betri málstaðurinn sigra!

Efnisorð: , , ,

föstudagur, maí 15, 2015

Afkróað

Það var einstaklega góð hugmynd að leyfa sjónvarpsáhorfendum að fylgjast með sauðburði í beinni útsendingu. Ég sá margar ær bera, sumar tveimur eða jafnvel þremur lömbum, og hafði áhyggjur af lömbunum þegar þau ýmist fengu ekki nægilega athygli frá móður sinni, eða vöfruðu um garða án þess að rata aftur í króna þar sem móðirin beið áhyggjufull eftir týnda sauðnum.

Ég var ekki ein um að horfa spennt á allt þetta drama því með því að ýta á þartilgerðan takka á fjarstýringunni mátti sjá tvít frá fólki sem einnig eyddi deginum (kvöldinu, nóttinni og morgninum) í beint frá burði útsendinguna. Flestir notendur Twitter voru á léttu nótunum eða lýstu áhyggjum yfir erfiðum burði, lömbum og líðan ánna. Nokkrir skemmtu sér við að tala um löngun til að kveikja upp í grillinu, sem mér fannst ekki heppilegur húmor mitt í allri dramatíkinni.

Verra var þó að fólk sem neytir engra dýra eða dýraafurða notaði tækifærið til að hamra enn frekar á þeirri staðreynd að bændur halda sauðfé til þess að framleiða kjöt. Öll kjötneysla var reyndar dregin fram við þetta tilefni og áhorfendum, sem voru í krúttkasti yfir sætu lömbunum, var núið því um nasir að þeir væru hræsnarar og vont fólk. Þetta fannst mér gríðarlegur óþarfi. Ég tek það fram að ég dáist að fólki sem er vegan, mér finnst það að borða aldrei dýr eða dýraafurðir af samviskuástæðum einstaklega virðingarverð afstaða. En þetta fólk sem tjáði sig á twitter, gat ekki valið sér verri stund til að afla vegan málstaðnum fylgi heldur en að reyna að eyðileggja þá ánægju sem margir áhorfendur fundu til fyrir framan sjónvarpið, sumir að sjá íslenskt sauðfé „í návígi“ í fyrsta sinn, og flestir alsælir með að horfa á sauðburðinn. Talsmenn vegan lífstíls gerðu sjálfum sér og málstað sínum einstaklega mikinn ógreiða með þessu. Þeir hefðu getað farið í alla fjölmiðla og beitt öllum brögðum strax á morgun til að benda fólki á hvað yrði um litlu lömbin, en í staðinn voru þeir pirrandi, og ég fyrir mitt leyti fann til andúðar á þeim.

Enn verra álit hef ég á fólkinu sem hefur stillt gæludýraeigendum upp við vegg og hótar þeim að missa húsnæðið ef þeir ekki losa sig við gæludýrin. Í dag rann út fresturinn sem Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins, gaf öryrkjum sem búa í fjölbýlishúsum í eigu ÖBÍ til að losa sig við dýrin. Fyrir tveimur dögum sagði Garðar Sverrisson formaður stjórnar Brynju hússjóðs að hann ætli að framfylgja gæludýrabanninu en það verði þó enginn borinn út alveg á næstunni því íbúarnir muni fá aðvaranir og svo aðrar aðvaranir á næstu vikum á mánuðum áður en húsaleigusamningi þeirra verður sagt upp. Miðað við þau orð stjórnarformannsins þá hefst það ferli núna og íbúarnir geta engst um í vanlíðan yfir þessum hræðilegu valkostum lengi enn.

Ég hélt ekki að ég ætti eftir að skammast útí Örykjabandalagið. En í þessu máli finnst mér sem ráðamenn þar séu alveg lausir við nokkra samkennd með fólki sem margt hvert býr við félagslega einangrun vegna fötlunar sinnar og hefur bætt sér hana upp með því að mynda tilfinningasamband við dýr. Að ætla að rjúfa þau tengsl, jafnvel með þeim afleiðingum að lóga verður dýrinu, er ótrúlega grimmileg aðför að fólki sem á bókstaflega ekki í önnur hús að venda. Eina leiðin til að koma í veg fyrir þann skaða er að Brynja hússjóður hætti við þessa vanhugsuðu aðgerð, og leyfi fólkinu að hafa dýrin hjá sér. Það mætti örugglega umstafla í húsunum svo að gæludýraeigendur séu ekki í sama stigagangi og fólk með ofnæmi. Það bara getur ekki verið að eina lausnin sé að svipta skjólstæðinga Öryrkjabandalagsins dýrunum sínum.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, maí 12, 2015

JVJ

Þegar ég hrúgaði inn fóstureyðingapistlum mínum varð mér meira en lítið hugsað til Jóns Vals Jenssonar þegar ég setti inn þá sem sneru að helstu andstæðingum fóstureyðinga: karlmönnum og kaþólikkum. Ákvað í kjölfarið að kíkja á bloggið hans (hann er reyndar með tvö blogg undir eigin nafni og svo a.m.k. eitt beinlínis gegn fóstureyðingum auk þess að vera þátttakandi á bloggi um „kristinn þjóðarflokk“* og kaþólska vefritinu kirkja.net) og lét af því verða í gær.

Fyrsti pistillinn (sá nýjasti þann daginn) var um innsetningu svissneska listamannsins Christoph Büchel á Feneyjatvíæringnum, en hann hefur sett upp mosku í aflóga kirkju, feneyskum yfirvöldum til talverðrar armæðu og kaþólikkanum Jóni Vali til gríðarlegrar hneykslunar. Jón Valur fer mikinn og hefur skrifað þrjá pistla til höfuðs moskunni í Feneyjum, auðvitað aðallega vegna þess að verkið er framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins en ekki síst vegna gríðarlegrar óbeitar á íslam og múslimum. Hann segir m.a.
„Ríkisvaldinu ber skv. stjórnarskránni að styðja og vernda Þjóðkirkjuna, en ekki islamstrú. Hvernig í ósköpunum tókst Illuga Gunnarssyni að snúa þessu við með því að leggja því lið sitt með okkar tugum milljóna króna að fjármagna uppsetningu þessarar mosku í miðaldakirkju? Og áttaði hann sig ekki á því, að þetta er fjarri því að verða fellt undir skilgreiningu listar-atburðar og listsýningar þegar ekkert nema staðsetningin skilur þetta fyrirbæri frá öðrum moskum heimsins og starfsháttum þeirra? Og það er ekki að undra, að Sverrir Agnarssonfagnar þessu fyrirbæri sem hann telur að "leiði til líflegrar starfsemi múslima um heim allan" -- ekki til útbreiðslu listar, heldur Múhameðstrúar!“
Og:
„Þetta er í raun mál, sem ríkisstjórn Íslands ætti að sjá sóma sinn í að afturkalla -- yfir tuttugu milljóna (28 milljóna eða meira?) framlag íslenzka ríkisins í þessa ögrun við Feneyinga! … Já, glæfralegt mál er þetta af hálfu okkar fávísu bjartsýnisglópa. Þeir auka ekki réttlætið í heiminum eða álit á hyggindum Íslendinga með þessari þarflausu ögrun, þessu hneyksli.“
Hann hefur einnig skrifað álíka á hitt bloggið.

Jón Valur er reyndar ekki einn um að hatast útí moskuframlag Íslands suður þar því þeir eru fleiri karlmennirnir sem eru skoðanabræður Jóns Vals í þessu máli, eins og hann telur upp hér:
„Ágætir Moggabloggarar, m.a. Valdimar H Jóhannesson, Jón Magnússon hrl., dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur, Ágúst H. Bjarnason verkfræðingur, Ívar Pálsson viðskiptafr., Halldór Egill Guðnason og Gunnar Th. Gunnarsson, hafa gagnrýnt þetta mál …“
Það eru ekki allir sem myndu vilja vera í þessum félagsskap.

Ég mæli sterklega með því að fólk lesi a.m.k. innlegg Jóns Magnúsonar fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins í málið þar sem hann fer mikinn. Ruglið alveg yfirgengilegt. Og ekki eru allir þeir sem skrifa athugasemdir við hans pistil eða Jóns Vals neitt skárri. En þetta segir Jón Magnússon:
„Listamaðurinn hefur m.a, í listsköpun lýst aðdáun á sjálfsmorðsfluginu á tvíburaturnana í New York 11. september. Það var því að vonum að íslenska listaelítan sem sér um Feneyjatvíæringinn skuli hafa valið hann til að koma íslömskum áróðri á framfæri í Feneyjum á kostnað íslenskra skattgreiðenda á forsendum listar.“
Ómar Ragnarsson (sem ég tel að sé ekki á sama máli og ofangreindir karlar) spyr Jón Magnússon út í þetta í athugasemdakerfinu, og Jón svarar:
„Ómar hann gerði það í gjörningi í London árið 2007 það koma fram upplýsingar um það á fésbókarsíðunni minni. En þar stóð hann að gjörningi sem að fregnum að dæma fól í sér aðdáun á sjálfsmorðsárásinni en auk þess dreifði þessi snillingur riti Adolfs Hitlers "Mein Kamp" í arabískri þýðingu. Greinilega reginsnillingur. Eðlilegt að listaelítan fyndi engan innlendan málara sem stæði honum á sporði.“
Þetta lepur Jón Valur svo upp eftir honum:
„Listamaðurinn svissneski er nú ekki betur innréttaður en svo, að hann er í hópi örfárra utan alræmdra öfgahreyfinga, sem hafa lýst aðdáun sinni á stærsta einstaka höfuðglæp þessarar aldar, árásinni á Tvíburaturnana 11. september 2001.·“
Í athugasemdum við þessa fullyrðingu Jóns Vals varpar Ómar Bjarki Kristjánsson ljósi á innsetninguna (ekki gjörninginn) Simply Botiful sem Jónarnir túlka svona sérkennilega. Úr lýsingu ÓBK:
„… í mjög, mjög stuttu máli, þá byrjar sýningin að komið er inní rými stútfullu af rafmagnstækjum og dóti og úr þessu herbergi eru ýmsar dyr, m.a. leynileg op sem ekki er gott að finna í fyrstu, og eitt af þeim er niður í rými sem ákveðin teppi eru á gólfi með myndum með tilvísunum í 9/11 og útfrá þessu er hægt að finna annað rými, - sem leiðir inní algjört myrkur. Eg vel er leitað í myrkrinu, að sumra sögn, er þar hægt að finna lítill klefa þar sem Biblían liggur á stól, ef itið var hærra uppá vegginn mátti sjá þar myndir af fáklæddum konum. Og þetta var einn hluti. Hvað þetta nákvæmlega þýddi hjá Buchel er alltaf túlkunaratriði, en að túlka það sem aðdáun hans á 9/11 er náttúrulega bull í hæstarréttarlögmanninum.“
Ekki kemur fram hjá ÓBK hvort hann sá þessa sýningu í Lundúnum árið 2007, en hér má lesa krítik á hana á ensku í bresku tímariti um samtímalist. Sá sem skrifar er einn ritstjóra tímaritsins og hann virðist hvorki líta svo á að listamaðurinn hafi verið að styðja málstað þeirra sem aðhyllast nasisma eða hryðjuverk í nafni íslam. En kannski hefur hann bara ekki skilið þetta eins vel og Jónarnir víðsýnu.

Þegar ég var búin að hlægja eins og hross í haga að þvælunni í Jóni Vali um samtímalist fann ég loks fóstureyðingapistla sem hann hefur nýlega skrifað í tilefni af ályktun KRFÍ um frjálsar fóstureyðingar.
„Greinilega eru femínistar eða rauðsokkur búnar að taka yfir Kvenréttindafélag Íslands sem í dag knýr á um að gera fóstur­deyðingar á Íslandi enn "frjálsari". “
og
„En ekki vill sjálft Kvenréttindafélag Íslands bæta réttarstöðu kynsystra sinna í móðurkviði, heldur býr félagið nú við stjórn yfirtökuhóps á vegum öfgafemínista sem krefjast þess, að fóstureyðingar verði gerðar frjálsar að ósk móður! “

Fyrir þau sem ekki hafa enn áttað sig á hve galinn Jón Valur er og hversu á skjön hann er við allt það sem venjulegu fólki þykir eðlilegt þá segir hann þetta um undirskriftasöfnunina gegn makrílfrumvarpinu:
„Hvaða áhrif hefur það á sam­keppn­is­stöðu íslenzks fiskútflutnings, að áður en fiskurinn er settur á markað, hafi verið klipinn stór hluti af verðmæti hans og settur í ríkissjóð… Mundi þá að því reka, að íslenzkar útgerðir yrðu ekki lengur samkeppnishæfar vegna lýðskrumandi græðgi landkrabba hér í meintan ofurgróða útgerðanna? “

Lýðskrumandi græðgi landkrabba! Það er engu logið á Jón Val Jensson. Hann sér alveg sjálfur um að gera sig hlægilegan.

___
* Þegar lesin er síða „Kristinna stjórnmálasamtaka“ má sjá stæka andúð á félagshyggjuflokkum, múslimum, hjónaböndum samkynhneigðra og samkynhneigð yfirleitt, auk auðvitað andstöðu við fóstureyðingar. Þá er ítrekað lýst yfir stuðningi við Snorra í Betel, sem er félagsmaður í Kristnum stjórnmálasamtökum „eins og fleiri meðlimir Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi“. Á bloggum Jóns Vals er sömu afstöðu til þessara manna og málefna að finna.

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, maí 09, 2015

Fjörtíu ára reynsla af skilyrtum fóstureyðingum

Árið 1975 voru sett lög sem leyfðu fóstureyðingar á Íslandi. Kvenréttindakonur kröfðust þess frá upphafi að fóstureyðingar yrðu frjálsar, þ.e.a.s. að ákvörðunarrétturinn væri í höndum kvennanna sjálfra, ekki heilbrigðisstarfsfólks. En lögin kváðu á um annað og hafa staðið óbreytt í fjörtíu ár. Kvenréttindafélag Íslands hefur nú lagt fram ályktun um frjálsar fóstureyðingar, eins og segir í frétt Ríkisútvarpsins. Þar segir jafnframt að
„Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins, segir að Ísland hafi samþykkt alþjóðasamþykktir um kynfrelsi kvenna og að fóstureyðingar séu frjálsar á Norðurlöndunum. Því ættu þær að vera frjálsar hér. Eins og staðan er í dag þurfi beiðnir að fara fyrir nefnd heilbrigðisstarfsmanna sem geti lagalega séð synjað henni eða óskað eftir frekari rökstuðningi. Hún segir marga misskilja baráttu þeirra, þær vilji ekki breyta tímarammanum og séu sáttar við þau þriggja mánaða mörk sem sett eru í lögunum. Þær vilji eingöngu að konur geti farið í fóstureyðingu án þess að þurfa að fá leyfi frá heilbrigðisstarfsfólki“.
Lögin kveða á um að áður en fóstureyðing fer fram liggi fyrir skriflega rökstudd greinargerð tveggja lækna, eða læknis og félagsráðgjafa sé eingöngu um félagslegar ástæður að ræða.
„Í lögum um fóstureyðingar segir að skylda sé að veita konu sem sækir um aðgerð fræðslu um áhættu og félagslega aðstoð og að sú fræðsla skuli veitt á óhlutdrægan hátt. Þá kemur fram að fóstureyðing sé einungis heimil af ákveðnum félagslegum eða læknisfræðilegum ástæðum. Félagslegu ástæðurnar geta verið fátækt, að skammt sé liðið frá síðasta barnsburði eða að kona geti ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt. Ef ástæðurnar eru aðrar þurfa þær að teljast fyllilega sambærilegar við þær fyrrgreindu.“
Enda þótt beiðnum kvenna um að komast í þessa aðgerð hafi ekki verið synjað í mörg ár, þá er niðurlægjandi að þurfa að ganga milli manna til að sækja um leyfi og þora jafnvel ekki annað en ljúga upp sennilegri ástæðu. Sumar konur óttast að hin rétta ástæða verði ekki tekin gild, þær verði konan sem er synjað um fóstureyðingu. Það ætti að vera nóg að kona óski eftir þessari aðgerð án frekari útskýringa og þar með sé það ákveðið. Auðvitað verður að gefa konum kost á að tala við félagsráðgjafa ef þær vilja en það ætti ekki að vera skylda.

En mér er ljúf skylda að draga enn einu sinni fram nokkra pistla sem ég hef skrifað um fóstureyðingar.

Helstu „röksemdir“ gegn fóstureyðingum - og ég svara hverri og einni röksemd en þær eru t.d. þessar:
- Að verið sé að drepa manneskju
- Að konur eigi að stunda ábyrgt kynlíf og ef þær gera það ekki eigi þær að taka afleiðingunum
- Að konur eigi ekki að stunda kynlíf nema þær vilji eignast börn
- Að konur verði að eignast fleiri börn vegna fólksfækkunar í heimalandi sínu/Evrópu
- Að konur noti fóstureyðingar sem getnaðarvörn
- Að konur fari oft í fóstureyðingu

Fóstureyðingar verða að vera löglegar
Hér minnist ég einmitt á það að fóstureyðingar eru hreint ekki frjálsar á Íslandi.

Takmarkanir á réttindum kvenna í Bandaríkjunum (þarna var Bush yngri enn forseti)
Hér velti ég m.a. upp þessari spurningu: Ef upp kæmi eldur á rannsóknarstofu og þú yrðir að velja milli þess að bjarga þriggja ára barni eða petriskál með tíu vikugömlum fósturvísum – hvort myndirðu velja?

Fóstureyðing eða ættleiðing
Það er í þessum pistli sem ég sagði það sem ég hef endurtekið oft síðan, ekki síst í tengslum við umræðu um staðgöngumæðrun:
„Konur eru ekki útungunarvélar. Ekki fyrir guð, eiginmanninn, móður sína (sem langar svo til að verða amma), ríkisstjórnina og lífeyrissjóðina (það vantar fleiri skattgreiðendur) eða ókunnugt barnlaust fólk útí bæ. Þær mega - og eiga að mega - eignast börn ef þær vilja og geta en vera lausar við þá kvöð sýnist þeim svo.“

Fóstureyðingar valda (ekki) ævilangri sektarkennd
Hér tala ég um viðhorf kvenna sem hafa farið í fóstureyðingu.

Allskonar konur fara í fóstureyðingu
Hér er annar pistill um konur sem fara í fóstureyðingu, viðhorf þeirra og hverjar þær eru:
„Þú þekkir líklega líka fjölda kvenna sem hafa farið í svona aðgerð, jafnvel þó þér hafi ekki verið sagt frá því.“

Helstu andstæðingar fóstureyðinga
Það eru einkum tveir hópar sem eru á móti fóstureyðingum: karlmenn og trúarofstækisfólk.
Helstu andstæðingar fóstureyðinga — karlmenn
Helstu andstæðingar fóstureyðinga — kaþólikkar
Hér fjalla ég sérstaklega um kaþólikka en segi jafnframt að „fjöldi ofsatrúarmanna bæði hér og í Bandaríkjunum úr ýmsum trúfélögum eru þeim innilega sammála.“ Pistillinn er reyndar skrifaður í tíð fyrri páfa og er að því leytinu úreltur.

Fóstureyðing — þegar guð drepur saklaus börn í móðurkviði
Hér fjalla ég um mismunandi viðhorf til fósturláts og fóstureyðinga.
„Málið virðist síður snúast um að allir fósturvísar eigi að verða að barni en meira um að konur eiga að hafa samviskubit vegna kynlífs sem þær stunda og hugsanlegra afleiðinga þess.“

Fóstur finna ekki til sársauka
Um rannsókn sem gerð var „og niðurstaðan er sú að sex mánaða fóstur finna ekki sársauka.“

Börn að ala upp börn
Örlítið annað sjónarhorn á umræðuna, rætt um fjölmarga ókosti þess að unglingsstelpur eignist börn. Tek samt fram að „mér finnst ekki að nokkur kona eigi að fara í fóstureyðingu fyrir þrýsting annarra, hversu gömul eða ung hún er. Mér finnst bara ekki heldur að það eigi að líta á það sem sjálfsagðan hlut að hver sem er valdi móðurhlutverkinu.“

Talandi um börn að ala upp börn.
„Amnesty International berst nú fyrir því að tíu ára gömul stúlka í Paragvæ fái að fara í fóstureyðingu. Samkvæmt lögum í Paragvæ má ekki eyða fóstri nema líf móðurinnar sé í hættu og segja þeir það ekki tilfellið í þessu máli.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona mál kemur upp í rammkaþólsku landi. Kaþólikkarnir einsog aðrir trúarofstækismenn leggja ofuráherslu á „virðingu fyrir lífi“ – en það á alltaf bara við um líf fóstursins. Virðingin fyrir lífi og limum tíu ára stúlku er engin.

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, maí 07, 2015

Þau en ekki við

Mér varð starsýnt á forsíðu Stundarinnar í matvörubúðinni þar sem ég stóð í biðröð við kassann. Endaði á að kaupa blaðið í fyrsta sinn. Ekki vegna þess að ég ætli að nota myndirnar af fólkinu á forsíðunni sem skotskífu, heldur vegna þess að mér fannst að það ætti að styrkja útgáfuna (ath. ekki útgerðina) fyrir framtakið.

Kannski er ekki sanngjarnt að birta myndir af þessu fólki til að sýna hverjir það eru sem fá makrílkvótann gefins, það eigi ekki að persónugera vandann. En myndbirtingin auk fyrirsagnarinnar virkar mun sterkar á lesendur en að birta enn eina myndina af Sigurði Inga eða formönnum stjórnarflokkanna sem ætla að endurgjalda margháttaðan stuðning útgerðarmanna (meðal annars þeirra sem prýða forsíðuna) með því að gefa þeim aðgang að makrílnum. Með þessu móti er mergur málsins algjörlega skýr: þau fá, ekki við.
En svona úr því að hér er minnst á þessa nýfengnu auðlind makrílinn, sem ráðamenn virðast ekki hafa áhuga á að skipta réttlátlega eða leigja á sanngjörnu verði, þá er rétt að minnast á orkuauðlindasjóðinn sem Bjarni Ben vill að stofnaður verði, að hætti Norðmanna. Þessi hugmynd hefur margkomið fram í ýmsu formi, eins og Kjarninn rekur, en það er vert að skoða afhverju Bjarni — sem nefnir hvergi fiskveiðiauðlindir í sinni tillögu —  stingur uppá þessu og afhverju núna. Það stendur yfir stríð um hálendi Íslands. Landsvirkjun og Landsnet vilja leggja — eða öllu heldur reisa — raforkulínur yfir Sprengisand. Víðar stendur til að reisa háspennumöstur. Landsnet ætlar t.a.m. að leggja loftlínubákn sem kallast Suðurnesjalína 2, milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar, en þær fyrirætlanir rifjar Margrét Guðnadóttir íbúi á Vatnsleysuströnd upp.

En semsagt, til þess að flytja raforku þarf ekki bara að leggja línur — eða öllu heldur reisa háspennumöstur — heldur virkja. Um virkjanirnar er heldur ekki sátt. En verði hugmynd Bjarna Ben um orkuauðlindasjóð að veruleika (á Illugi Gunnars kannski að stýra honum?), þá er alltaf hægt að veifa þeirri gulrót fyrir framan auðsveipa kjósendur, að til þess að sjóðurinn fitni þurfi að virkja meira. Og meira. Og reisa fullt af háspennumöstrum. Ef þið viljið það ekki þá eruð þið að hafna því að skuldir ríkisins verði greiddar niður og Landspítalinn fær ekki fjármögnun. Það er það sem liggur að baki orðum Bjarna Benediktssonar, en ekki skyndilegur áhugi á að skipta gæðum landsins jafnt milli okkar allra. Ekki frekar en til stendur með makrílkvótann.

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, maí 05, 2015

Kalmansbrýning

Alveg var ég viss um að Jón Kalman væri orðinn vitlaus þegar ég sá yfirskrift greinar hans á Kjarnanum: „Tími Katrínar Jakobsdóttur er runninn upp – hvort sem henni líkar betur eða verr“. Mér fannst augljóst að Jón væri að taka undir óskir þeirra sem vilja fá Katrínu til að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Ekki að Katrín yrði ekki góður forseti, hún yrði góð í því einsog öðru, en það er ekki embætti sem ég get ímyndað mér að hana langi til að sinna, a.m.k. ekki meðan hún hefur áhuga á að starfa í stjórnmálum. En grein Jóns Kalmans reyndist heldur ekkert vera á þeim nótunum, heldur fjallaði hún um sundrungu vinstri flokka. (Einhverntímann skrifaði ég pistil um það sama.) Mér létti mikið og var sammála Jóni í greiningu hans á orsökum sundrungarinnar og afleiðingum.

Það er ekki fyrr en undir lok greinarinnar sem skýrist hvað Jón Kalman á við með að tími Katrínar Jakobsdóttur sé kominn, en þar segir hann:
„Við getum annaðhvort haldið uppteknum hætti, gengið sundruð til næstu kosninga og þannig tryggt áframhaldandi misskiptingu. Eða fylkt okkur á bak við þann eina stjórnmálamann sem hefur getu og vinsældir til að leiða breiðfylkingu í anda R-listans: Katrínu Jakobsdóttur.“
Enda þótt ég vilji hafa Katrínu sem formann VG því sá flokkur höfðar prýðilega til mín þá finnst mér tillaga Jóns Kalmans áhugaverð. Hvort sem breiðfylkingin yrði til þannig að flokksmenn annarra flokka yfirgæfu þá fyrir VG og Katrínu, eða stofnaður yrði nýr flokkur undir forystu Katrínar, þá er brýnt verkefni að „hrifsa samfélagið úr járnklóm hagsmuna, nýfrjálshyggju og lýðskrumara“.

Eftir stendur spurningin hvort Katrín vill eða tekst að mynda breiðfylkingu á vinstri vængnum, og hvort það yrði til þess að loksins tækist að fá vinstri sinnað hugsjónafólk til að sjá heildarmyndina í stað þess að hleypa öllu í uppnám með því að neita málamiðlunum. „Ögmundar-syndromið“ hefur ekki verið farsælt hingað til.

Efnisorð:

laugardagur, maí 02, 2015

Á sama báti

Mikið þykir mér vænt um að lesa þetta í viðtali við Hilmar Hildarson Magnúsarson formann Samtakanna '78.

„Fordómar eru viðvarandi ástand undir yfirborðinu. Ef maður vill sjá þetta, þá sér maður þetta. Svona umræða sýnir að björninn er ekkert unninn. Það koma alltaf bakslög í baráttuna. Konur þekkja það úr kvenréttindabaráttunni, svart fólk úr sinni baráttu og svo framvegis. En í rauninni er þetta einfalt, við viljum bara öll fá að vera til og lifa hamingjusömu lífi en við búum við veruleika þar sem sífellt er verið að traðka á okkur og því búum við ekki við jöfn réttindi og lífsgæði.“

Við feministar höfum fundið sannarlega fundið fyrir bakslaginu í formi linnulausra árása og áróðri fordómafullra afturhaldsseggja af ýmsu tagi. Það er því mikilvægt og þakklátt að fólk sem einnig stendur í mannréttindabaráttu telji okkur upp með þeim eins og við teljum þau með okkur.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, maí 01, 2015

Á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks

Þorvaldur Gylfason skrifaði hreint ágæta grein í gær um hækkun lámarkslauna sem vert er að lesa. Hann ræðir þar stöðuna á vinnumarkaði og bendir á hverjir beri ábyrgð á henni.
„Aukin misskipting sem kristallast í skefjalausri sjálftöku hefur ásamt öðru hleypt illu blóði í kjaraviðræður. Hátekjumenn hafa ítrekað storkað launþegum með lágar tekjur. Nýtt dæmi er þriðjungshækkun stjórnarlauna í HB Granda, sem þiggur enn sem fyrr svo að segja ókeypis aðgang að sameignarauðlindinni í sjónum.

“
Hann nefnir fleiri dæmi, svo sem bónusa í bönkum, og að það hafi verið eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar að afturkalla hækkun veiðigjalda,
„eins og til að auglýsa að nógir séu helvítis peningarnir eins og Fjölnismenn sögðu stundum hver við annan“.

Þorvaldur segir að fyrir launþegum vaki að halda hlut sínum gagnvart hátekjuhópum 
og að nú sé „almennari áhugi en áður á að efla hag þeirra sem bera minnst úr býtum“.

Það er alveg rétt hjá Þorvaldi því ný könnun sýnir að 91,6 prósent aðspurðra eru hlynntir kröfum um að hækka lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði í 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára. Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins segir að þessar niðurstöður staðfesti þann meðbyr sem málstaður SGS hafi í samfélaginu.
„Það er kominn tími til þess að lágmarkslaun dugi fyrir framfærslu og almenningur tekur undir með okkur í þeirri sjálfsögðu kröfu. Það er ánægjulegt að fá staðfestingu á því að við séum á réttri leið og svona afgerandi stuðningur gefur okkur byr undir báða vængi í þeim átökum sem framundan eru. Samtök atvinnulífsins verða að hlýða á kröfur okkar og samfélagsins alls. Það er í þeirra valdi að afstýra erfiðum og langdregnum átökum.“
Allsherjar vinnustöðvun var hjá félagsmönnum Starfsgreinasambandsins í gær (hálfan daginn) en ef svo fer fram sem horfir verður tveggja daga allsherjarverkfall í næstu viku, hafi ekki eitthvað verulega mikið breyst. Verkfallið mun ná til um tíu þúsund starfsmanna. Sá fjöldi bætist ofan á verkfall Bandalags háskólamanna en Félag geislafræðinga, Félag lífeindafræðinga, Ljósmæðrafélag Íslands á Landspítala, Stéttarfélag lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Félag íslenskra náttúrufræðinga á Landspítala og Ljósmæðrafélag Íslands á Sjúkrahúsinu á Akureyri, eru enn í verkfalli.

Með þennan stuðning almennings að baki kröfu verkalýðsfélaganna um lágmarkslaun, og einbeittan ásetning félagsmanna að leggja niður störf þar til ásættanlegir samningar nást, ættu Samtök atvinnulífsins að sjá skynsemina í því að semja fyrr en seinna. Því eins og bankabónusahugmyndir, stjórnarlaun og arðgreiðslur hafa sannað: Nógir eru helvítis peningarnir.

Efnisorð: ,