þriðjudagur, mars 31, 2015

Margvíslegt í mars

Sól tér sortna
Á vorjafndægri var sólmyrkvi og fyrsta skóflustungan var tekin á lóð Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð „og markar þetta tímamót í trúar og menningarsögu norður-Evrópu því þar mun rísa fyrsta höfuðhof álfunnar í hartnær eittþúsund ár“. Það er skemmtilegt útaf fyrir sig, en það er athyglisvert að enginn stjórnmálaflokkur hefur barist gegn þessu, og engar síður eru helgaðar því mikilvæga málefni að úthrópa ásatrúarmenn fyrir að hafa fengið gjafalóð. Ég sagði ekki múkk frekar en aðrir og er þó verulega ósátt við þessa staðsetningu, enda finnst mér vera komið alveg nóg af steinsteypu á og við Öskjuhlíð.

Ég á því bágt með að samgleðjast ásatrúarmönnum enda þótt ég sé að öðru leyti sátt við að þeir hampi þessum menningararfi (annað mál ef þeir fara að troða þessu uppá börn eða skipta sér af löggjöf landsins, en ég held reyndar að á því sé lítil hætta).

GBS/ESB
Þorsteini Pálssyni, þeim orðvara manni, blöskraði svo utanríkisfúsk Gunnars Braga Sveinssonar að hann sagði að það væri engu líkara en „ríkisstjórnin hefði útvistað utanríkismálunum til leikskólans á Grænuborg“.

Brjóstabyltingin
Ungar konur beruðu brjóst sín og sitt sýndist hverjum. Laufey Ólafsdóttir hefur svarað gagnrýni á þennan sjálfsprottna gjörning án upphrópana í ágætri Knúzgrein, en annars er ég hrifnust af afstöðu Þórhildar Þorleifsdóttur sem sagði að það væri of snemmt að hafa skoðun á þessu. Tek einnig undir þessi orð Þórhildar:
„Aftur á móti fannst mér gaman að sjá ungu konurnar ganga saman fram svona sterkar og það er vonandi að þessi jákvæði andi hjá þessum sterku, djörfu, ungu konum verði hvatning til frekari verka. Áfram stelpur!“

Útrétta sáttarhöndin
Ríkisstjórnin ákvað að vera ekkert að semja við stéttarfélög heldur koma í veg fyrir verkföll með því að hóta lögsókn. Þetta er nú aldeilis samningsvilji.

Skoðanabræður Dominique Strauss-Kahn eru víða
Í dag bárust svo fréttir frá Frakklandi þess efnis að öldungadeild franska þingsins hefði komið í veg fyrir að sænska leiðin yrði tekin upp í vændismálum. Það voru ekki góðar fréttir.


Efnisorð: , , , , , , , ,

sunnudagur, mars 29, 2015

Sjá

Í góðu veðri er tilvalið að dvelja sem minnst utandyra heldur bregða sér á myndlistarsýningar einsog ég gerði í dag. Skal nú hvatt til slíkrar iðju, og bent á tvær góðar sýningar sem feministar ættu ekki að láta framhjá sér fara.

Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg sýnir myndlist listakvenna í tilefni af hundrað ár eru liðin frá því að konur, fertugar og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi í alþingiskosningum. Sýningin, sem er í báðum sölunum á efstu hæðinni, heitir Konur stíga fram — svipmyndir 30 kvenna í íslenskri myndlist. Listakonurnar eru fæddar á tímabilinu 1823-1940 og sumar þeirra lítt þekktar, aðrar heimsfrægar og verkin eru fjölbreytt eftir því. Þetta er áhugaverð og fróðleg sýning sem allar konur þurfa að sjá (mega taka karla með sér, ég spurði).

Í Ásmundarsafni við Sigtún er sýning sem nefnist Vatnsberinn-Fjall+kona og er hún einn af fjölmörgum viðburðum sem Reykjavíkurborg stendur fyrir í tilefni afmælis kosningarréttarins.

Áður en ég fór á sýninguna áttaði ég mig reyndar ekki á hvernig Vatnsberinn tengdist kosningaafmælinu eða kvennabaráttu yfirleitt. Málið skýrðist því Vatnsberinn, sem Ásmundur Sveinsson gerði árið 1937, mun vera vatnskerling. Þetta hefði ég átt að muna frá því að Jón Karl Helgason skrifaði um höggmyndina þegar til stóð að færa hana í miðborgina þar sem hún stendur nú. En fram að því að ég las grein Jóns Karls (og greinilega eftir það í minnisleysi mínu) datt mér aldrei í hug að þetta væri kona. Voru þó konur vatnsberar í Reykjavík einsog meira segja ég vissi.

Annað sem ég vissi ekki (eða vissi einhverntímann og gleymdi aftur) var að Vatnsberinn varð „kyndilmerki á veggspjaldi kvennafrídagsins í Reykjavík 1975“ (hinsvegar mundi ég eftir Venusarstyttunni úr Lýsiströtu sem Rauðsokkur báru á 1. maí 1970). Það er því ekkert skrítið að Vatnsberinn skuli nú vera þungamiðja sýningar sem tengd er kvenréttindum.

Á sýningunni er hnífjafnt kynjahlutfall því þar eru listaverk eftir fjórar konur og þrjá karla auk verka Ásmundar Sveinssonar. Það er þó ekki kynjahlutfallið sem gerir sýninguna góða, heldur er hún fjölbreytt, fróðleg og bráðskemmtileg. Ég mæli með heimsókn í Ásmundarsafn.


Efnisorð: ,

föstudagur, mars 27, 2015

Hlustað í þykjustunni á eitthvað skylduræknispíp

Um daginn las ég frétt um hvalveiðar sem var ekkert um hvali. Þess í stað var rætt um samskipti Bandaríkjanna og Íslands vegna hvalveiða, en Bandaríkin hafa beitt pólitískum þrýstingi til að reyna að stöðva veiðarnar. Í fréttinni er rætt við Geir H Haarde núverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum (það er óþægilegt), Guðmund Árna Stefánsson fyrrverandi sendiherra, og Birgi Ármannsson formann utanríkismálanefndar (það má ekki minna vera en tala við þrjá karlmenn) um samskipti ríkjanna og þetta deilumál sem hvalveiðarnar eru.

Geir segir aðspurður um afstöðu Bandaríkjamanna til hvalveiða Íslendinga að bandarískum embættismönnum beri skylda til að taka hvalveiðimálið reglulega til umræðu á fundum en „Íslensk stjórnvöld standa hins vegar föst á okkar rétti varðandi hvalveiðar“. (Nú á okkur að finnast hann vera að standa sig fyrir hönd þjóðarinnar.) Í sama streng taka Birgir Ármannsson og Guðmundur Árni. Sá síðastnefndi segir:
„Sá skoðanamunur kom ekki í veg fyrir eðlileg samskipti fulltrúa íslensku utanríkisþjónustunnar við embættis- og ráðamenn í Bandaríkjunum, né við aðra bandaríska aðila sem samskipti voru höfð við vegna íslenskra hagsmuna.“

Þetta er athyglisvert og má kannski skoða þetta betur með því að leika sér svolítið með textann.

Prófið að skipta út eftirtöldum orðum:
„Bandaríkin“ fyrir „vestræn lýðræðisríki“
„Ísland“ fyrir „Kína“
„hvalveiðar“ fyrir „mannréttindabrot“

Það er frekar augljóst hvaða leik íslensk stjórnvöld eru að leika. Og jafn augljóst hvernig Kína kemst upp með mannréttindabrot sín þrátt fyrir fordæmingu umheimsins. Það virkar semsagt þannig að vestrænar þjóðir koma mótmælum og gagnrýni á framfæri á öllum fundum með Kína, þeir segja eitthvað bla bla á móti — og svo er hægt að snúa sér að viðskiptunum.

Þetta virkar svo vel að Ísland leikur Kína í hvalveiðimálinu.

Ég fyllist stolti.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, mars 25, 2015

Mikilvægi þess að hafa hjartað á réttum stað

Mér var dillað þegar ég heyrði að aðeins fimmtungur lækna vill hafa Landspítalann við Hringbraut. Það er ekki amalegur liðsauki fyrir okkur sem ekki viljum fyrirhugað steypuskrímsli á lóðinni.

Það var reyndar aðeins talað við einn lækni í fréttum og kannski vafasamt að ætla öllum hinum að hafa sömu rök fyrir því að vilja að spítalinn verði annarstaðar. En sá læknir sagði semsagt að samgöngur að Landspítalanum á núverandi stað séu í lamasessi og betra væri að reisa nýja spítalann annarstaðar — hann nefndi við Vífilsstaði. Ekki veit ég með þá staðsetningu (ég er hlynntari Fossvogi) en sannarlega er stutt frá Vífilsstöðum á Keflavíkurveginn og þar með til Keflavíkurflugvallar. Eða á hjartað að slá í Vatnsmýrinni fjarri öllum læknum, og tuttugu mínútna akstur suður í Garðabæ?

Efnisorð: ,

þriðjudagur, mars 24, 2015

Lof og last

LOF
Lof fær Samfylkingin fyrir að taka sér loksins tak í umhverfismálum og hafna olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Agnes Löve hefur öðruvísi sýn á elliárin en almennt er ætlast til einsog lesa má í skemmtilegu viðtali.

Guðmundur Andri fær lof fyrir að kæta lesendur sína með því að kalla Davíð Oddsson „smækkunarstjóra Sjálfstæðisflokksins“.

Ronda Rousey er bardagaíþróttakona og „margir vilja sjá hana slást við karlmenn“. Hún telur sig geta unnið alla karlana í sínum þyngdarflokki en ætlar hinsvegar hreint ekki að keppa við karlmenn. Hún segist ekki ætla að taka þátt í slíku því það ætti aldrei að stilla hlutunum upp þannig að því sé fagnað að karlmaður lemji konu. Það er lofsvert af henni að taka þessa afstöðu. Það er gott að hún kemur því á framfæri við aðdáendur sína að það er ekki skemmtiatriði að karlmaður berji konu (sama þótt hún stæði upp sem sigurvegari að lokum) og þarmeð að taka ekki þátt í því að það sé álitið sjálfsagt að karlar gangi í skrokk á konum.


LAST

Ríkisstjórnin. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna. Það myndi æra óstöðuga að telja upp allt þeirra pólitíska lastalíf.

Samfylkingarfólkið sem trylltist yfir því að formaðurinn fékk mótframboð. Það gerir varla annað en fæla burt stuðningsmenn Sigríðar Ingibjargar (og jafnvel hana sjálfa) ef það þykir goðgá að hafa aðra skoðun á hver eigi að leiða flokkinn.

Dalvíkurbyggð fyrir að íhuga að leggja landsvæði undir niðurrif og bræðslu úreltra skipa. Haukur Hauksson dregur upp vægast sagt slæma mynd af slíkri starfsemi og hvað hún geti haft í för með sér. Þar á meðal:
„Gert er ráð fyrir að hingað komi árlega um það bil 60 úrelt skip til niðurrifs. Það er eins gott að þau haldist á floti meðan þau bíða niðurrifs. Hver ber ábyrgðina á hugsanlegu mengunarslysi ef slíkt gerist? 

Allur togarafloti Íslendinga telst um 50 skip, svo menn átti sig á magninu. Hvað fylgir þessum skipum þegar þau eru dregin að landi og opnuð? Ómælt magn af botngróðri og sjávardýrum, sveppum og jarðvegspöddum? Hvernig höndla menn það? Þá sleppa rotturnar í land, fegnar frelsinu. Við komu til landsins gerir tollurinn athugasemd við ósoðnar pulsur eða notaða veiðistöng. Hvaða matarúrgangar, mengaður fatnaður og annað slíkt skyldi leynast í yfirgefnu skipi? Skip er ekki bara stál.

Hvað með öll spilliefnin, svo sem olíu, glussa, rafgeymasýrur og tugi annarra spilliefna? Í flestum eldri skipum voru innréttingarnar úr asbesti (vegna brunahættu). Hvernig á að höndla það og hvar á að urða öll þessi spilliefni sem eru í tonnum talin og á hvers kostnað?“
Haukur á reyndar lof skilið fyrir að vekja athygli á þessu og vara við þessari starfsemi.

Efnisorð: , , , , ,

laugardagur, mars 21, 2015

Áfengisiðnaðurinn og kærustuparakokteilar

Um daginn las ég fína grein eftir Hafstein Frey Hafsteinsson heimilislækni sem skrifaði gegn áfengissölu í matvöruverslunum undir titlinum „Ekki setja áfengisiðnaðinn undir stýrið“. Hann telur upp ýmis rök fyrir máli sínu, aðallega þau að bresk stjórnvöld eru í vandræðum með áfengisstefnu sínu en þar í landi er dánartíðni af völdum lifrarsjúkdóma á uppleið. Það sem vakti þó mesta athygli mína er það sem læknirinn segir í ávarpi sínu til þingmanna:
„Það ku mögulega vera búið að telja í meirihluta fyrir samþykki áfengisfrumvarpsins. Þrýstingur áfengisiðnaðarins virðist ætla að bera ykkur ofurliði ef fram fer sem horfir. Kæmi ekki á óvart í rauninni. Það þarf óvenju sterk bök til að standast áhlaup þessa iðnaðar.“
Þessi iðnaður hefur um margra ára skeið fengið íslenska fjölmiðla til að brjóta lög sem segja að bannað sé að auglýsa áfengi. Margfrægar eru bjórauglýsingar þar sem bjórinn er sagður vera léttöl og gott ef ekki áfengislaus, en með því er verið að fara framhjá banninu þótt auglýsendur og fjölmiðlar viðurkenni það ekki. En sumar auglýsingar eru afdráttarlausari, og enn aðrar lúmskari í markaðssetningu vörunnar. Sumar eru hreinlega galnar einsog sú sem var í Mogganum (engar áhyggjur, slóðin er ekki á Moggann). Þar var reyndar ekki áfengið sjálft auglýst, heldur tappatogari sem fermingargjöf, með þessum orðum:
„Vandaður tappatogari endist lengi og nýtist vel. Ganga flestir unglingar í gegnum tímabil þar sem þeir læra að hafa áfengi um hönd, og kemur tappatogari og flöskuoppnari þá í góðar þarfir.“
Það þarf reyndar að vera mjög maríneraður í áfengismenningunni til að þykja eðlilegt að skrifa þennan texta.

Fréttablaðið hefur oft flaggað áfengi við hin ýmsu tilefni á síðum sínum og hefur stundum gefið út blaðkálfa sem eru ein stór áfengisauglýsing frá upphafi til enda. Dæmi um það er sérblaðið „Bjórmenning á Íslandi“ sem fylgdi blaðinu í dag (ábyrgðarmaður blaðsins er Svanur Valgeirsson). Tólf blaðsíður af vörumerkjakynningu fjölmargra bjórtegunda. Á öftustu síðu er auglýsing frá skemmtistað sem ég kannast ekki við að hafi áður auglýst í blöðum. Hálfsíða innan í blaðinu kynnti „félag íslenskra bjóráhugakvenna“ og það rætt að „bjórmenningin hefur hingað til verið dálítið karllæg“. (Mér finnst ekki endilega að það hafi verið ástæða til að bæta þar úr.) En skilaboðin eru þau að það er vinsælt meðal kvenna að drekka bjór — eða verður það með tímanum.

Í febrúar var sérblað látið fylgja Fréttablaðinu vegna einhvers fyrirbæris sem kallast Reykjavík Cocktail Weekend — þar er heilmikil viskíumfjöllun á fyrstu síðu, ekkert léttöl þar á ferðinni. Á sama tíma í fyrra kom líka blað út af sama tilefni. Þá var tekið fram í blaðkálfinum
„Reykjavík Cocktail Weekend og Íslandsmót barþjóna er haldið af Barþjónaklúbbi Íslands, í samstarfi við vínbirgja og veitingastaði í Reykjavík.“
Því auðvitað eru það vínbirgjar og veitingastaðir sem auglýsa ljóst og leynt áfengi af öllum styrkleikum til þess að auka hjá sér söluna. Það eru líka þeir - a.m.k. þeir fyrrnefndu sem ólmir vilja fá að selja áfengi í matvörubúðum og komast þannig nær öllum viðskiptavinum matvöruverslana.

Það var ekki bara í hanastélshelgarblaðinu sem viskí var haft í fyrirrúmi. Í kálfinum Fólk sem gefinn var út daginn fyrir Valentínusardag (ég nota ekki þann dag sem viðmið allajafna, þetta var semsagt 13. febrúar) var trommað upp með „sérhannaðan drykk“ sem kallaður var Valentínusardrykkur. Barþjóninn sem talað var við hafði lengi reynt að fá kærustuna til að drekka viskí og hafði nú fundið uppskrift — sem fylgir sögunni með mynd — sem henni líkaði og „nú getum við drukkið viskí saman sem er mjög skemmtilegt“. Það má vel vera að þetta sé alveg satt, en það vill svo til að viskíframleiðendur hafa um nokkurt skeið lagt talsvert á sig til að stækka hóp viðskiptavina sinna og horfa þá sérstaklega til kvenna. Þessi litla kærustuparasaga, kynnt til leiks daginn fyrir kærustuparadaginn er því einn liður í markaðssetningu viskís fyrir konur.

Fyrir allmörgum áratugum var sett í gang herferð til að fá konur til að reykja, þá voru reykingar sagðar vera til marks um sjálfstæði kvenna. Svona fyrir utan hvað þær voru nú heilsusamlegar. Núna er okkur sagt að við megum til með að ganga í bjórkvenfélag og það sé til viskí við hæfi hverrar konu.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, mars 19, 2015

Fylgisaukning Pírata

Píratar eru hissa og glaðir yfir hástökki sínu í vinsældakosningum, þeir mælast með mesta fylgi allra flokka. Ég er afturámóti forviða og allt annað en glöð.

Ég hef ekki farið dult með skoðun mína á Pírötum yfirleitt, jafnréttisstefnu þeirra, eða einstökum meðlimum flokksins (Ingi Karl Sigríðarson var um hríð í framboði). Mér er tildæmis algjörlega óskiljanlegt að einhver vilji hafa Jón Þór Ólafsson sem sinn fulltrúa á þingi, nú eða Helga Hrafn Gunnarsson. Sá síðarnefndi er jafnvel álitinn vera ástæða þess að fylgi Pírata hefur aukist svo mjög, og þá fyrir framgöngu sína á þingi. Ég hef ekki mikið fylgst með henni en sá Helga Hrafn þó tala um andskotans sandkassaleik, og fannst honum ratast satt á munn. Annað sem hann hefur sagt gegnum tíðina fær ekki eins mikinn hljómgrunn hjá mér. Hann er tildæmis hlynntur vændi og klámi og hatast út í feminista.

Gísli Ásgeirsson tók Helga Hrafn á beinið hjá sér fyrir nokkrum árum (þegar Píratar buðu sig fyrst fram) og birti gömul ummæli hans frá árinu 2007 þar sem Helgi Hrafn sagði m.a.:
„Femínismi og hver sem ennþá kallar sig femínista, fokk jú […] Sérstaklega vil ég skora á Kolbrúnu Halldórs að hoppa upp í óæðri endann á sér fyrir hönd femínista á Íslandi.“

Reyndar er allt það sem Helgi Hrafn sagði við þetta tilefni jafn súrt.
Gísli birtir svo „ég var ungur og vitlaus“ afsökunarbréf Helga Hrafns, sem var þá í framboði og mátti skyndilega ekki vamm sitt vita, gott ef hann var ekki búinn að umbreytast í feminista. Ekki tók hann fram hvort það hafði áhrif á skoðanir hans á klámi og vændi en árið 2007 var hann hrópandi um að hamingjusama hóran væri til, og virtust það eiga að vera rök fyrir því að vændi ætti að vera refsilaust.

Þremur árum síðar var hann enn reiður útí feminista og hafði sterkar skoðanir á klámi sem hann skrifaði um árið 2010:
„Hvað varðar KJAFTÆÐIÐ í þessum anti-klám-þöngulhausum, þá mættu þau leggja sömu orku í að hanna skynsamleg lög sem taka á starfshættum klámbransans rétt eins og hvers annars bransa, og hætta þessu helvítis tuði yfir "niðurlægingu kvenna" og annan eins helberan helvítis þvætting. Kynlíf er ekki niðurlægjandi, jafnvel þegar það er tekið á filmu og í öðru lagi geta hvorki konur né karlað þóst hafa vit á kynhneigðum allra annarra karla eða allra annarra kvenna. Úff, ég verð reiður við að hugsa um íslenska "femínista“.
(Samantekt að hluta til byggð á umræðuþræði á bland.is)

Ég man ekki eftir að hafa meira um feminískar tilhneigingar Helga Hrafns eftir afsökunarbeiðnina sem hann skrifaði aðeins þremur árum eftir að hann tjáir reiði sína í garð íslenskra feminista. Það kom ekki í veg fyrir að hann og aðrir álíka jafnréttissinnaðir Píratar væru kosnir á þing. Nú sýna kannanir enn meira fylgi, það má furðulegt teljast ef feministar eru meðal þeirra sem vilja kjósa flokkinn. Hingað til hafa aðallega ungir karlar (sem eru hlynntir vændi og klámi og hata feminista) verið hlynntir Pírötum, en auðvitað getur verið að eilífur áróður gegn „fjórflokknum“ og einstaka kjaftháttur í pontu höfði til kjósenda, a.m.k. þegar þeir eru spurðir á miðju kjörtímabili. Þeir verða líklega (og vonandi) farnir að hugsa um annað þegar næst verður kosið til þings.

Ekki að ég óski ríkisstjórninni langra og farsælla lífdaga, en ég vona að hún lafi nógu lengi til að Píratar hafi hrist af sér það fylgi sem þeir fengju núna ef kosið væri.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, mars 18, 2015

Stjórnarráðið 10. mars

Verður þriðjudagurinn 10. mars síðar meir talinn marka upphaf mesta átakatíma þessa kjörtímabils? Þann dag var samþykkt í ríkisstjórn að sækja fram með illskiljanlegum bréfasendingum og ekki er ólíklegt að þá hafi einnig verið lagt á ráðin um að sprengja rammann um virkjanaáform. Kannski er þetta liður í stærri áætlun, halda stjórnarandstöðunni og fjölmiðlum uppteknum við að tala um ESB, Þjórsá og Skrokköldu og hvað það nú allt heitir, meðan eitthvað annað er á seyði sem ekki má koma fram í dagsljósið fyrr en of seint verður að bregðast við því. Er verið að útfæra TISA samninginn eða hvernig selja skuli ríkisfyrirtæki til góðvina á spottprís?

En svo getur verið að stjórnarliðum finnist þetta allt saman gott og gilt, og þeim finnist í raun að þetta séu eðlileg vinnubrögð, svona rétt eins og útdeilingar lífsins gæða til náinna ættingja fjármálaráðherrans.

Ætla ekki annars allir að kjósa Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn aftur næst?

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, mars 15, 2015

Íslensk fegurð


Þökk sé nágrönnum sem höfðu ekki rænu á að koma ruslatunnum í skjól fyrir óveðrið í gærmorgun, má nú sjá fræga senu úr kvikmynd í porti við heimili mitt, leikna af dagblaðsopnu.

Mér er fyrirmunað að sjá ljóðrænu fegurðina.

Efnisorð:

föstudagur, mars 13, 2015

Dagur líkamsvirðingar

Á árlegum baráttudegi Samtaka um líkamsvirðingu er ágætt að skoða í hverju líkamsvirðing felst. Hún felst í því að samþykkja að ekki eru allir karlar eins í laginu og að ekki eru allar konur eins í laginu. Líkamsvirðing er að virða alla líkama jafnt, hæðast að engum þeirra og hvetja ekki fólk til að breyta líkama sínum. Síst af öllu að skammast sín fyrir sinn eigin kropp.

Þetta er samt erfiðara en að segja það. Sérstaklega síðasti parturinn. Fólk fer í megranir, ræður sér líkamsræktarþjálfara, sveltir sig, neitar sér um að kaupa föt á þennan ómögulega skrokk, og talar við aðra um hvað hann sé ljótur ýmist í heild eða að hluta. Fólk grípur til ýmissa óvandaðra meðala til að kúga líkamann til að léttast eða verða stæltari, nú síðast komst í fréttir að fólk tekur hormónalyf ætluð fólki með vanvirkan skjaldkirtil. Þetta er gert af einhverri örvæntingarfullri þrá til að líta öðru vísi út, til að geta lyft meira eða hlaupið hraðar og lengra, til að líta út fyrir að vera manneskja með líkama sem getur það sem eigin skrokkur ræður ekki við nema með bellibrögðum.

Ef við bærum virðingu fyrir líkama okkar kæmum við ekki svona fram við hann.

En við dýrkum líkama sem geta. Keppnisíþróttamenn sem meira og minna ganga sjálfir fyrir allskyns fæðubótarefni, ólöglegum og löglegum lyfjum. Frægasti hjólreiðakappinn sem þótti ofurmenni reyndist vera uppdópaður. Allan tímann sem heimsbyggðin dáðist að honum og margir vildu líkjast honum vissi hann sjálfur að það sem hann gerði var ómögulegt nema með því að svindla. Hann eins og margir aðrir íþróttamenn hafa alið á þeirri lyfjamenningu sem nær inn í líkamsræktarstöðvarnar, uppá svið þar sem fitness keppendur spóka sig og á verðlaunapall þar sem menn halda um stund á verðlaunum sem þeir eru síðar sviptir að loknu lyfjaprófi.

Við dýrkum líkama sem eru fallegir. Ekki síst þá sem er búið að breyta með skurðaðgerðum og fótósjoppi, gleymum því þó okkur sé margsagt það og -sýnt að þeir líta ekki svona út í rauninni. Litlar stelpur og litlir strákar alast upp við að fólk líti svona út, reyndar ekki mamma og pabbi en þau eru samt að reyna að bæta sig með ýmsu móti, með orkudrykkjum, andlitsförðun, hárlitun og dugnaði í ræktinni, það verða allir að reyna að bæta sig til að halda í við útlitsdýrkunina.

Ef við létum ekki alltaf svona vel að stjórn þá tækist útlitsiðnaðinum ekki að teyma okkur svona á asnaeyrunum.

Ef við vissum ekki svona vel að öldruðum er skákað útí horn á síðasta skeiði ævinnar, við oft á tíðum ömurlegar aðstæður, þá óaði okkur ekki svona við að sýna merki þess að vera að eldast.

Ef við værum ekki svona upptekin af ódauðleikanum þá sættum við kannski okkur við dauðlega, hrörnandi líkama, sem geta minna í dag en í gær.

En það er ljós punktur í þessu öllu saman (þetta var að verða mjög niðurdrepandi) því Samtök um líkamsvirðingu vinna að viðhorfsbreytingu. Húrra fyrir þeim!

Efnisorð:

fimmtudagur, mars 12, 2015

Ekkert af þessu er einkamál

Tvö frumvörp sem lögð hafa verið fyrir þingið fara ákaflega í taugarnar á mér.

Hið fyrra er frumvarpið um sölu áfengis í matvörubúðum. Eða eins og það heitir: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur 
ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, 
með síðari breytingum (smásala áfengis).

Ég skrifaði langan pistil um áfengissölufrumvarpið í haust en vil þó bæta við, fyrir fróðleiksfúsa lesendur, slóðum á athugasemdir Landlæknis, Barnaheilla og stjórnar Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, sem eru einróma um að það sé vond hugmynd að selja áfengi í matvörubúðum. Þeir einu sem eru hlynntir eru frjálshyggjumenn og þeir sem hyggjast græða á því að selja áfengi, fyrir utan kannski fólk sem á við drykkjuvanda að stríða. Þurrir alkar, fólk sem drekkur hóflega (og vill góða þjónustu í Ríkinu), og allt heilbrigðis- og velferðarbatteríið er á móti frumvarpinu.

Samt eru alltaf einhverjir (frjálshyggjuguttar) sem gera grín að „forræðishyggjunni“ og finnst hlægilegt að hafa áhyggjur af áhrifunum sem auðveldari aðgangur að áfengi hefur á börn. Nei, þau verða ekki alkar af því að reka augun í flösku í matvörubúðinni, en með því að sjá vínflöskur eða bjórdósir eins og hverja aðra nauðsynjavöru í hvert sinn sem farið er í búðina er þeim seld sú hugmynd að neysla áfengis sé eitthvað sem enginn getur verið án. Það bætir ekki úr skák að minnihluti allsherjar- og menntamálanefndar, þau Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Willum Þór Þórsson, hefur lagt til að
„þau ákvæði er lúta að banni við áfengisauglýsingum verði endurskoðuð“.
Þarna er nú heldur betur opnað á þann möguleika að áfengi verði auglýst í sjónvarpi og bíóhúsum, en auðvitað bara „óvart“ á sýningum ætluðum börnum og unglingum.

Hitt frumvarpið sem fer í taugarnar á mér snýr að því sem enginn getur verið án (nema rétt á meðan nafnlausar bloggfærslur eru skrifaðar).

Mannanafnafrumvarpið vegur að sérstöðu íslenskrar nafnahefðar. Það er ekki nóg að færa þjóðmenninguna í Stjórnarráðið ef það á að rústa henni á þingi. (Sem ég trúi reyndar ekki að verði gert.) En frumvarpið snýst um að leyfa upptöku ættarnafna og leggja niður mannanafnanefnd svo allir geti klínt hvaða ónefnum sem þeim tekst að kokka upp á börnin sín. Við hin megum svo bara giska á hvernig nöfnin beygjast, ekki verður mannanafnanefnd til að sjá til þess að nöfn fylgi íslenskum beygingarreglum, eða innihaldi stafi sem eru í íslenska stafrófinu.

Mér er sérlega illa við tilhugsunina að taka almennt upp ættarnöfn því ef það er eitthvað sem er séríslenskt í mínum huga þá er það sá siður að kenna börn við föður sinn eða móður. En nýjungagjarnir Íslendingar væru vísir með að taka upp ættarnöfn í stórum stíl (og búa til ýmis ónefni þar) og rústa þessum góða sið á skömmum tíma.

En fari frumvarpið í gegn og allt verður leyfilegt bíð ég spennt eftir að staðgöngumæðrun verði leyfð líka. Þá ætla ég láta einhverja góðviljaða konu ganga með barn fyrir mig, því mig langar að eignast dóttur og nefna hana Böðvar. Ég hlýt að mega það, loksins þegar ég verð frjáls undan allri þessari forræðishyggju.

Enda þótt ég sé sannfærð um að verði þessi frumvörp að lögum hafi þau hvort með sínum hætti skaðleg áhrif, þá á ég erfitt með að trúa að þingið samþykki þau. Leyfi mér samt að hafa áhyggjur. En í dag kom upp grafalvarlegt mál af allt öðrum toga. Þó ekki á þingi. Það er reyndar það sem er alvarlegast við málið, að það fékk ekki þinglega meðferð og var ekki rætt hjá utanríkismálanefnd.

Að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra (og sérlegur sendimaður Skagfirska efnahagssvæðisins) hafi þegjandi og hljóðalaust slitið aðildarviðræðum við Evrópusambandið er auðvitað algjört hneyksli. Afhverju mátti ekki ræða þetta í þinginu og í utanríkismálanefnd? Þykir þeim háu stjórnarherrum svo gott fordæmið sem fyrirrennarar þeirra á valdastóli, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, settu þegar þeir skráðu Ísland á spjöld sögunnar sem stuðningsaðilar við stríð? Þá sniðgengu þeir alveg þingið og utanríkismálanefndina og ákváðu þetta bara sjálfir uppá sitt eindæmi. Einsog svo margt annað.

Það er skammarlegt að ríkissjórn Íslands hafi ekkert lært af sögunni. Og alveg sérstakt áhyggjuefni.

Efnisorð: , , , , , , ,

sunnudagur, mars 08, 2015

8. mars

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna er full ástæða til að skoða stöðu kvenna annarstaðar í heiminum. Það er ekki síður ástæða til að skoða stöðu kvenna hér á landi. Annað útilokar ekki hitt. Andfeministum finnst að íslenskar konur hafi ekki yfir neinu að kvarta miðað við hvernig farið er með konur í fjarlægum útlöndum, og það má alveg taka undir það. En rétt eins og við gagnrýnum íslenskt lögreglu- og dómsvald (ekki bara í málum sem snúa að konum heldur almennt), pólitíkina og efumst jafnvel um að lýðræðið virki, enda þótt í öðrum ríkjum sé stríðsástand, ógnarstjórn, lögregluofbeldi og léleg lífskjör, þá getum við og eigum að vilja bæta stöðu kvenna á Íslandi. Til þess þarf viðhorfsbreytingu, því lög og reglur duga ekki alltaf til, við sjáum það best á því að konur fá upp til hópa enn ekki sömu laun og karlar* í sambærilegum störfum.

Við getum ekki hætt okkar jafnréttisbaráttu þó konur annarstaðar í heiminum hafi af ýmsum ástæðum setið eftir, vonandi náum við með fordæmi okkar að ryðja brautina fyrir þær líka. En það er ekki þar með sagt að við þurfum að láta allt yfir okkur ganga þangað til öll þjóðríki veita konum full réttindi, ekki frekar en lýðræði er lagt af þar til allar þjóðir taka upp lýðræði. Og við hættum ekki að gagnrýna lýðræðið á Íslandi þótt önnur lönd búi ekki við lýðræði, við hættum ekki að líta á lýðræði sem besta kostinn þótt okkar lýðræði sé enn gagnrýnisvert.

Íslenskar konur eiga skilið — og auðvitað allar konur í heiminum — að vera metnar sem manneskjur og njóta virðingar sem slíkar. Við eigum ekki að þurfa að sæta mismunun í starfsráðningum eða í launum. Við eigum skilið að vera lausar undan þeirri ógn sem kynferðislegt ofbeldi er. Við eigum að geta verið óhultar fyrir hverskyns ofbeldi heima hjá okkur. Við eigum skilið að geta verið óhræddar við að slíta sambandi án þess að vera refsað fyrir með myndbirtingum, ofbeldi eða dauða.

Það er hægt að telja upp langan lista yfir það sem konur hér á landi og annarstaðar eiga við að stríða, en þarf eitthvað að tíunda það frekar? Geta íslenskir karlar ekki bara hætt að bíða eftir að indverskir karlar hætti að nauðga konum og drepa þær eða sádi-arabar hleypi konum í ökumannssætið, og farið að koma fram við okkur eins og við séum fullgildar manneskjur?

___
* Alþingi samþykkti árið 1961 lög um launajöfnuð kvenna og karla. Samkvæmt nýjustu útreikningum eru 54 ár síðan.

Efnisorð: , , , , ,

laugardagur, mars 07, 2015

Inn út, inn inn út

Mér finnst ljótt að ljúga að veiku fólki, hvað þá ef það er dauðvona, í því skyni að hafa af því fé. Þykjast geta læknað sjúkdóma sem læknavísindin standa á gati yfir, en líka að þykjast geta læknað jafnvel, skjótar eða sársaukalausar en læknavísindin. Sumt af því fólki sem leitar á náðir skottulækna er sér fullmeðvitað um hæpnar forsendur en er til í að láta slag standa, annað trúir öllu sem því er lofað eins og nýju neti. Það er síðarnefndi hópurinn sem er líklegri til að hafna læknavísindunum, stundum bara vegna þess að það leggur of mikið traust á kuklarana en stundum vegna þess að það trúir líka samsæriskenningum um að lyfjafyrirtæki og læknar vilji umfram allt pína fólk með lyfjum og meðferðum (sbr. bólusetningar barna) sem ekki geri neitt meira gagn en aðferðir kuklaranna.

Ekki ætla ég svosem að verja gróðafíkn lyfjafyrirtækja (mér nægir að sjá fyrir mér eiganda Actavis) og alveg trúi ég ýmsu misjöfnu uppá einstaka lækna (sbr. skapabarmaaðgerðir og önnur fjárplógsstarfsemi lýtalækna), en svona almennt og yfirleitt held ég að læknar og lyfjafyrirtæki miði að því að lækna sjúkdóma. Ég held líka að margir þeirra sem leggja stund á allskyns „óhefðbundnar lækningar“ séu ekki viljandi að svindla á neinum (þótt einhverjir séu siðlausir eða hreinlega siðblindir) heldur trúi í allri einlægni að þeir séu með efni eða tæki sem hjálpar veiku fólki. En það er auðvitað munur á því að ætla að hjálpa manneskju með vægan sjúkdóm eða að vera svo veruleikafirrtur að bjóða dauðvona manneskju lækningu, hversu mjög sem kuklarann langar að hjálpa.

En úr því að Kastljósið afhjúpaði þessa loddara með svo eftirminnilegum hætti, mætti ég þá biðja um óskalag?

Vinsamlega fjallið með álíka ítarlegum hætti um fólk sem þykist vera í sambandi við dáið fólk eða geta sagt fyrir um framtíðina. Ég er að tala um miðla, lækningamiðla auðvitað, en líka spámiðla og spákonur. Þar er nú aldeilis hópur sem græðir á tá og fingri á trúgirni þeirra sem eru í vanda í einkalífinu, eiga við sálræna eða líkamlega erfiðleika að stríða, eða hafa misst ástvini. En það merkilega er að þessum loddurum er iðulega hampað í fjölmiðlum (t.d. Þórhalli miðli og Sigríði Klingenberg spákonu) í stað þess að vera stillt upp til sýnis með starfsemi sína eins og gert var í Kastljósþættinum.

Svo væri athugandi fyrir skattrannsóknarstjóra að rannsaka bókhald þeirra sem bjóða óhefðbundnar lækningar, með eða án pendúls, og þeirra sem þykjast spá fyrir um framtíð fólks og telja því trú um líðan framliðinna ættingja. Mér segir svo hugur að það fé sem þessu fólki græðist sé ekki allt talið fram og fari því ekki í sameiginlegan sjóð landsmanna, þennan sem á meðal annars að reka Landspítalann.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, mars 05, 2015

Spýtt í sárið

Á því góða ári 2007 skrifaði ég pistil um umgengni þar sem ég minntist meðal annars á munnvatnsframleiðslu karlmanna. Mér fannst þá og finnst enn furðulegt hvað karlmenn virðast framleiða mikið munnvatn, mun meira en konur, og skildi hvorki þá né nú hvernig á því stendur að karlmenn sem iðka fótbolta hrækja meir en þeir sem stunda aðrar íþróttir.

Nú hefur Illugi Jökulsson skrifað áskorun til KSÍ einmitt útaf þessum hrákaslummum sem knattspyrnumenn skilja eftir sig á fótboltavöllum. Tilefnið er að sonur Illuga fékk sýkingu í sár eftir að hafa lent „með opið brunasárið eftir gervigrasið beint í hrákaslummu einhvers sem nýlega hafði spilað á vellinum“. Að sögn heilbrigðisstarfsfólks eru slíkar sýkingar algengar. Og Illugi beinir þeim tilmælum til KSÍ að fá knattspyrnumenn til að hætta að hrækja og snýta sér á vellina.

Illugi var auðvitað fyrst og fremst að tala útfrá sýkingunni sem sonur hans fékk. En hrákaslummur lenda víðar en á fótboltavöllum. Ég hef ekki svo sjaldan séð karlmenn hrækja í grasið á Austurvelli enda þótt þeir hljóti að vita að börn og hundar leika sér í grasinu og fólk sest þar í sólbað. Hlauparar hrækja líka og snýta þar sem þeir eru staddir, þeir virðast líta á heilu útivistarsvæðin sem sína prívat vasaklúta. Ojbarasta.

Illugi er auðvitað máttugri penni en ég og því er einhver von til þess að áskorun hans verði til þess að knattspyrnumenn breyti hegðun sinni. Þá gæti það kannski gerst í framhaldinu að gusum úr andlitum yrði útrýmt með öllu á almannafæri.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, mars 03, 2015

Hver fer, hversvegna og hver ber ábyrgðina?

Fyrir nokkru spurði ég hvað hefði farið úrskeiðis hjá þeim ungu karlmönnum (og í ljós hefur komið að það eru ekki bara karlmenn) sem hafa flykkst til miðausturlanda til þess að ganga til liðs við íslömsku vígamennina sem kalla sig Íslamska ríkið (ISIS). Það eru líklega til mörg svör við þeirri spurningu, en eitt þeirra sem birtist í ágætri fréttaskýringu Guðsteins Bjarnasonar vakti sérstaka athygli mína. Ég tel vert að birta þann hluta sem snýr að ástæðu þess að um tuttugu þúsund manns hafa gengið til liðs við ISIS, þar af um þrjú þúsund manns frá fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna.
Trúarhiti virðist sjaldan vera raunhæf skýring á því hvers vegna fólk gengur til liðs við öfgahópa eða hryðjuverkasamtök. Liðsmenn þeirra virðast oft hafa afar takmarkaðan skilning á trúarlegum eða öðrum hugmyndafræðilegum forsendum þeirra samtaka sem þeir skipa sér í sveit með. Ýmsir fræðimenn hafa rannsakað raunverulegar ástæður þess að menn leiðast út í slíkt. Hér að neðan eru dæmi um niðurstöður slíkra rannsókna:

- Persónulegur gremjuvaki: Persónulegur harmleikur eða ranglæti sem menn hafa (eða telja sig hafa) orðið fyrir.

- Pólitískur gremjuvaki: Pólitískur harmleikur eða ranglæti sem menn þurfa (eða telja sig þurfa) að bregðast við.

- Tilfinningatengsl: Einstaklingur kemst í samband við öfgasamtök vegna tengsla sinna við einstakling eða einstaklinga innan samtakanna.

- Rótleysi: Einstaklingur missir félagslega staðfestu í lífi sínu, oft vegna áfalla, og verður þá móttækilegur fyrir áhrifum öfgahópa.

- Upphefðarþrá eða spennufíkn: Einstaklingur leitar í hóp þar sem hann nýtur viðurkenningar eða fær útrás fyrir spennufíkn.

- Eitt leiðir af öðru: Einstaklingur missir smám saman fótfestuna eftir að komið er út á hina hálu braut ofbeldis og öfga.

- Hefnd: Einstaklingur er fullur gremju gegn einstaklingi eða hópi sem hann telur bera ábyrgð á ranglæti eða óförum sínum eða annarra.

- Upphefð: Einstaklingur leitast eftir að komast í virðingarstöðu innan hóps og njóta viðurkenningar.

- Sjálfstenging: Einstaklingur reynir að finna sjálfsmynd sinni fótfestu innan hóps með eftirsóknarverðan málstað.

- Spenna: Einstaklingur leitar í öfgahóp vegna fyrirheita eða vona um spennu, ævintýri og frægð.
(sjá alla fréttaskýringuna hér auk vísunar í heimildir)

Það sem mér finnst athyglisverðast við þessar skýringar er að mér finnst einsog ég hafi séð þær notaðar til að útskýra gengjamenningu, nýnasistahópa og fleira í þeim dúr. Og ef maður spáir í það þá hljómar það ekkert ólíkt að finnast eftirsóknarvert að vera í gengi þar sem hópurinn verndar þig, og njóta þess að vera hluti af hóp sem öllum stendur ógn af, eins og nýnasistar eða vígasveitir ISIS.

Guðmundur Andri Thorsson sagði einmitt í pistli:
„Alls konar bulluflokkar eru hluti af mannlegri tilveru, gengi sem hafa aðdráttarafl fyrir unga karlmenn með veika sjálfsmynd. Þeir fá styrk af hópnum, nýja tilfinningu um vald og hlutverk í samfélaginu og jafnvel mannkynssögunni og þeir upplifa þá vímu sem illvirki geta veitt. Svona gengi var í Vogunum þegar ég var strákur þar að alast upp og maður óttaðist þá en ekki hvarflaði að fólki að þeir störfuðu í sérstöku umboði frá mér við innbrot sín og óknytti. Hópar á borð við ISIS eru í grunninn af þessu tagi. Hættulegir og andstyggilegir, en ekki fulltrúar hins almenna múslíma þótt þeir og andstæðingar þeirra sameinist um að reyna að láta líta svo út.“
Rétt einsog líklega verður aldrei hægt að koma í veg fyrir að ungu fólki líði þannig að því finnist skásti kosturinn að ganga til liðs við samtök sem hafa ofbeldi á stefnuskrá sinni, eða kýs að fremja hryðjuverk í landinu sem fóstrar það því það heillast af baráttu ISIS, verður sennilega aldrei hægt að uppræta stækt hatur sumra á múslimum. Öllum múslimum. Er þó reynir allmargt fólk að benda á að það eru ekki allir múslimar eins, að þótt sumir múslimar túlki trúartexta sína þannig að ofbeldi sé réttlætanlegt viðbragð við næstum öllu þá eru aðrir sem eru friðsemdarfólk sem vill engan kúga eða meiða nær eða fjær. Hér er auðvitað gott að nefna Malölu enn eina ferðina, sem sönnun fyrir friðsömum og góðviljuðum múslimum.

Nicholas Kristof nefndi Malölu einmitt í grein (sem ég þýddi og birti ) og sagði einnig þetta :
„Skrípamyndin af íslam sem ofbeldissinnaða og óumburðarlynda trú er hryllilega ófullkomin. Munum það að flestir þeirra sem standa uppi í hárinu á ofstækisfullum múslimum eru múslimar sjálfir.“

Ég minni einnig á pistil Gunnars Hrafns Jónassonar þar sem hann segir frá vafasamri guðfræði ISIS sem „enginn viðurkenndur klerkur tekur undir; þvert á móti hafa margir helstu lögspekingar Íslam hakkað túlkanir þeirra í sig“.

II

Hin aðferðin til að reyna að telja múslimahöturum hughvarf er að benda á fjölmörg dæmi þess að yfirlýstir kristnir menn hafa framið sinn skerf af hryðjuverkum, svona til að benda á að íslam er ekki að því leytinu neitt verri en kristni, en þeir sem hatast sem mest útí múslimana virðast flestir halda að kristni gangi og hafi alltaf gengið útá Jesú bróðir besti stemninguna.

Illugi Jökulsson hefur fyrir sitt leyti reynt að benda múslimahöturum uppi á Íslandi á að ofbeldissaga kristinna gegnum tíðina er síst skárri en þeirra íslömsku nú um stundir. Hann hefur tildæmis skrifað um herskáa hryðjuverkamenn sem unnu sín illvirki í nafni kristindóms. Svona til að benda á að „hin kristna heimsmynd“ felist ekki ævinlega í „umburðarlyndi og víðsýni og kærleika“. En í athugasemdakerfunum (greinar Illuga birtast í Vísi jafnframt Fréttablaðinu þótt óneitanlega sé skemmtilegra að lesa þær á prenti) þvælast múslimahatararnir og saka Illuga um að „mæra vini sína múslíma“.

Ég veit ekki með Illuga eða aðra sem reyna að stemma stigu við múslimahatri, en ég fyrir mitt leyti er ekki hrifin af trúarbrögðum yfirleitt eða íslam sérstaklega en mér óar við því að spyrða alla múslima saman og álíta þá óvini mannkyns. Jafnframt finnst mér fáránleg sú krafa að allir múslimar á Íslandi eigi að sverja af sér stuðning við hryðjuverk í hvert sinn sem einhver vitleysingur skýtur á fólk eða Boko Haram eða ISIS fremja hroðaverk sín.

Um áratuga skeið ríkti borgarastyrjöld á Írlandi vegna deilna kaþólikka og mótmælenda um hvort aðskilja ætti Norður-Írland frá Bretlandi. Írski lýðveldisherinn, IRA, sem var kaþólskur vildi aðskilnað, en mótmælendatrúarmenn vildu vera áfram undir bresku krúnunni og nutu því stuðnings bresku stjórnarinnar (og hersins). „Barátta þeirra fyrir aðskilnaði kostaði um 1.800 manns lífið á árunum frá 1969 þangað til friðarsamkomulag tókst árið 1997.“ Og ekki má gleyma Breivik, ljóshærða og bláeyga kristna múslimahataranum, hann drap einn og sjálfur 77 manns. (Um IRA, Breivik og alla hina má lesa í fréttaskýringu Guðsteins Bjarnasonar.)

Meira segja hér uppi á litla Íslandi hefur verið framið hryðjuverk. Það dó enginn eða slasaðist og almennt var litið á það sem smámál, jafnvel svo að lögregla ákærði ekki manninn, sem var alíslenskur í húð og hár. Guðmundur Andri Thorsson rakti það mál (í sömu grein og ég vitnaði í áðan) og sagði:
„Í janúarmánuði árið 2012 kom sem sé maður einn fyrir sprengju við stjórnarráðið snemma morguns en fórst verkið óhönduglega svo að ekki skapaðist teljandi hætta önnur en sú að honum tókst næstum því að kveikja í sjálfum sér. Upphaflega hugðist maðurinn koma sprengjunni fyrir við heimili þáverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Með þessu sprengjubrölti vildi hann leggja áherslu á kröfur sínar um slit á aðildarviðræðum við ESB, endurskoðun á EES-samningnum, að Ísland hætti í Schengen-samstarfinu og breytingar á kvótakerfinu.“
Nú eru íslensk yfirvöld ekki lengur lin í garð hryðjuverkamanna og telja hryðjuverkaógn stafa af ókennilegum mönnum. Því fagna eflaust andstæðingar íslam.

En vilji múslimahatararnir endilega hunsa upptalningar á hryðjuverkum kristinna hvítra karla einna sér eða í hópum, og listann hér í upphafi pistilsins sem rekur ástæðu þess að alltof mörg ungmenni ganga til liðs við íslömsk hryðjuverkasamtök, og halda því fram að allir múslimar á Íslandi eigi sverja að þeir styðji ekki hryðjuverk, þá er kannski ástæða til að benda þeim á nýlega nafngreindan liðsmann ISIS. Hann heitir Mohammed Emwazi og ólst upp í Bretlandi.
„Á æskuárum sínum hafði Mohammed Emwazi gaman af bandarísku sjónvarpsþáttunum Simpsons og dreymdi um að spila knattspyrnu með Manchester United.

Emwazi kom fyrst fyrir í myndbandi ISIS í ágúst síðastliðinn þar sem bandaríski blaðamaðurinn James Foley var tekinn af lífi. Hann á einnig að hafa birst í myndböndum þar sem bandaríski blaðamaðurinn Steven Sotloff, breski hjálparstarfsmaðurinn David Haines, breski leigubílstjórinn Alan Henning og bandaríski hjálparstarfsmaðurinn Abdul-Rahman Kassig voru teknir af lífi.“
Nú hlýtur að standa uppá alla aðdáendur Simpsons og Manchester United að sverja af sér að þeir styðji aftökur ISIS.Efnisorð: , , , , , , , ,