LOF
Skógræktarfélag Reykjavíkur fær hrós fyrir að hvetja Reykjavíkurborg til að
höfða einkamál á hendur þeim íbúum Rituhóla sem gerðust trjámorðingjar í útsýnisskyni.
Sömuleiðis fær
Umhverfisstofnun hrós fyrir að
kæra þyrlufyrirtæki fyrir að lenda í Dyrhólaey án leyfis og á varptíma. (Það mætti reyndar setja allskyns hömlur á umferð þyrla yfir ferðamannastöðum auk þess að vernda dýr fyrir þessum hávaðabelgjum.)
Steinunn Stefánsdóttir hefur fundið sér verðugan starfsvettvang hjá
KRFÍ. Húrra fyrir því.
Lof fær
Halla Sverrisdóttir fyrir að kafa ofan í
fóstureyðingamál í Tyrklandi en fjölmiðlar hér á landi höfðu látið að því liggja að mótmælin þar væru aðallega vegna þess að til stæði að fella tré í almenningsgarði (ég stóð heilshugar með mótmælendum í því sambandi, en samstaða mín minnkar sannarlega ekki við þessar upplýsingar).
Lof fær
Berglind Elfarsdóttir fyrir að
neita að taka þátt í múgæsingu nágranna sinna gegn heimili fyrir drengi í vanda.
Það var skemmtilegt þegar sænskir karlkyns
lestarstarfsmenn komust að því að pils eru þægilegur klæðnaður. (Svo er aftur á móti umhugsunarvert afhverju körlunum var í kjölfarið leyft að ganga í
stuttbuxum. Var það svo þeir þyrftu ekki að 'líttillækka sig' með því að fara í pils i sumarhitanum?)
Gott er að vita að
réttindi samkynhneigðra í Bandaríkjunum séu að aukast. Og lofsvert er að
Obama hefur mælt fyrir um að breytingarnar gangi hratt og vel fyrir sig í stjórnkerfinu.
Wendy Davis þingmaður í Texas tókst með einskonu málþófi að koma í veg fyrir lög sem áttu að þrengja rétt kvenna til
fóstureyðinga. (Gallinn er reyndar sá að frumvarpið verður tekið aftur fyrir, enda ófært að láta einhverjar kéllingar hlutast til um fóstureyðingar.)
LAST
Hæstiréttur segir að það sé
í lagi að keyra ofurölvi með barn í bíl vegna þess að bílstjórinn hafði ekki „
ásetning til að stofna lífi eða heilsu annarra manna í augljósan háska“. (Svo er alltaf sannfærandi að segjast hafa drukkið eftir að akstri var lokið en áður en löggan kom).
Fávitinn sem fældi
viljandi og með frekju hesta undan börnum. Hvernig stendur á að löggan hefur ekki haft uppi á honum og kært hann fyrir tilraun til manndráps? (Kannski vegna þess að dómarar munu komast að þeirri niðurstöðu að hann hafi ekki ætlað að stofna lífi og heilsu annarra í augljósan háska?)
Hrægammafyrirtækið Drómi.
Enn einu sinni kemur í ljós að íslenskum karlmönnum er ekki treystandi fyrir byssu. Skotið er á
erni og fálka — sem eru friðaðir fuglar — í stórum stíl.
Fréttablaðið fær skömm í hattinn fyrir að dreifa blaðaukanum '
sumardrykkir' sem er ekkert annað en þráðbein auglýsing fyrir áfenga drykki.
GLEÐILEG TÍÐINDI SEM SNERUST UPP Í ANDHVERFU SÍNA
Fyrsta
ættleiðing samkynhneigðs pars á Íslandi. Það var hægt að samgleðjast sjónvarpsmanninum í örskotsstund — eða þar til hann lýsti vilja sínum til að
notfæra sér neyð fátækra indverskra kvenna.
Efnisorð: alþjóðamál, dómar, dýravernd, feminismi, fóstureyðingar, hrunið, karlmenn, Lof og last, löggan, mannréttindi, staðgöngumæðrun, sveitastjórnarmál, umhverfismál