föstudagur, október 31, 2014

Hvorki fyrirmynd né skoðanasystir

Fyrir nokkrum árum kom út umdeild þýdd bók. Og núna kemur út umdeild þýdd bók. Önnur bókin er stefnuskrá konu sem vildi útrýma karlkyninu, hin er um barnaníðing. Sumir túlkuðu útgáfu SORA: Manifestós (2009) sem yfirlýsingu þýðandans og allra íslenskra feminista þess eðlis að þær væru sammála boðskap bókarinnar og vildu drepa alla karla. Spurning hvort útgáfa Lolitu teljist þá yfirlýsing þýðandans og allra þýðenda almenn um að þeir séu hlynntir barnaníði? Ég efast um það, eins og ég er nú lítið hrifin af Lolitu.

Af og til skella einhverjir andfeministar þeim fullyrðingum að feministar nánast starfi eftir forskrift Valerie Solanas sem skrifaði SORI: Manifestó (e. SCUM Manifesto, 1967). Það er vægast sagt furðuleg staðhæfing.
Valerie Solanas var haldin ofsóknargeðklofa og hafði átt erfiða ævi. Þegar hún skaut Andy Warhol (og aðra nærstadda) var það ekki uppfylling draums um að útrýma karlmönnum heldur var það vegna ranghugmynda hennar um að Warhol stjórnaði henni og útaf leikriti sem hún hafði skrifað en hann las ekki handritið og þóttist hafa týnt því. (Hún hafði líka ætlað að skjóta bókaútgefanda sem hafði ætlað að gefa út önnur ritverk hennar, en fann hann ekki. Hún taldi hann hafa náð valdi yfir öllum hugverkum sínum þegar þau skrifuðu undir útgáfusamninginn; þetta las ég allt á Wikipediu.) Skotárásin átti ekki að vera upphafið að stríði gegn karlmönnum eða neitt í þá áttina. Bókin afturá móti gæti verið geðveikisórar eða hún gæti verið háðsádeila.

Ég keypti SORA fljótlega eftir að bókin kom út á íslensku en hafði aldrei lesið hana á frummálinu. (Og hef enn ekki lesið sænsku bókina Drömfakulteten eftir Söru Stridsberg, frá 2006 sem fjallar um Valerie Solanas einsog sagt er frá á Druslubókasíðunni). Þegar ég fletti bókinni fyrst bar mig niður í þennan reiðilestur og fannst hann fyndinn:

„Nokkur dæmi um andstyggilegustu og skaðlegustu manngerðirnar eru: nauðgarar, stjórnmálamenn og allir sem eru í þeirra þjónustu (starfsmenn kosningaherferða, meðlimir stjórnmálaflokka o.s.frv.), vondir söngvarar og tónlistarmenn; stjórnarformenn; fyrirvinnur; leigusalar, eigendur kámugra skeiða og veitingastaða sem spila lyftutónlist; vísindamenn sem stuðla að dauða og eyðileggingu eða vinna fyrir einkafyrirtæki (nokkurn veginn allir vísindamenn); lygarar og loddarar; plötusnúðar; karlmenn sem troða sér á nokkurn hátt upp á hvaða ókunnugu konu sem er; fasteignasalar; verðbréfasalar; karlmenn sem tala þegar þeir hafa ekkert að segja; karlmenn sem hanga aðgerðarlausir á götum úti og valda sjónmengun með nærveru sinni; svikarar; falslistamenn; sóðar; ritþjófar; karlmenn sem skaða konur á nokkurn hátt; allir karlar í auglýsingabransanum; sálfræðingar og geðlæknar; óheiðarlegir rithöfundar; blaðamenn; ritstjórar, útgefendur o.s.frv.; ritskoðaðar hins opinbera lífs og einkalífsins; allir hermenn, líka þeir sem gegna herskyldu (Lyndon B. Johnson og McNamara gefa skipanirnar, en hermennirnir framkvæma þær) og sérstaklega flugmennirnir (skyldi sprengjunni verða varpað verður það ekki Lyndon B. Johnson sem varpar henni, heldur flugmaður). Ef hegðun karlmanns fellur bæði í góða og vonda flokkinn verður gert heildarmat á einstaklingnum til að ákvarða hvort hegðun hans sé almennt góð eða vond“ (s. 55-56).
Þessir eru semsagt allir á „dauðalista SORA“.

Það sem er fyndið við þetta (svo ég útskýri fyrir þeim sem halda að ég sé sammála og hlæi dátt af tilhugsuninni um aftökurnar) er í fyrsta lagi þessi sundurliðun á mörgum stéttum sem eru keimlíkar (afhverju sagði hún ekki bara 'handbendi kapítalismanns í stað þess að telja upp fasteignasala, auglýsingamenn o.s.frv.) og í öðru lagi að hún skuli setja svona fremur ólíkar stéttir á sama listann — hvaða hatur er þetta á plötusnúðum? Og eigendur kámugra skeiða, er það stór hópur og skaðlegur?

Restin af bókinni reyndist ekki jafn fyndinn (þó er fyndin tillagan um að flæma strætóbílstjóra og leigubílstjóra frá starfi og gefa þess í stað almenningi ókeypis lestarmiða, s. 52), aðallega er þetta þvælukennt rugl um að karlar séu ófullkomnar konur. „Þar sem hann þráir að vera kona reynir hann að vera alltaf innan um konur, enda það næsta sem hann kemst því að vera kvenkyns“ (s. 18). Áður segir:
„Áhrifin sem faðirinn hefur á drengi eru að gera úr þeim „karlmenn“, það er að segja, að bæla niður alla tilhneigingu til að vera þolandi og hommi og alla löngun til að vera kvenkyns. Allir drengir vilja líkjast móður sinni, vera hún, verða eitt með henni, en pabbi bannar það; hann er móðirin, hann fær að renna saman við hana“ (s. 13).
Valerie Solanas hafði greinilega lesið Freud en sneri reðuröfundinni upp í „píkuöfund“ (s. 5), og má ekki á milli sjá hvor kenningin er verri. Eins og sjá má af blaðsíðutölunum las ég bókina afturábak sem ég held að sé alveg við hæfi. (Eyja M. Brynjarsdóttir og Anna Dröfn Ágústsdóttir sem lásu bókina örugglega í réttri röð hafa skrifað um hana hér (Eyja) og hér (Anna). Og hér má lesa kafla úr bókinni.)

Það er alveg hægt að taka undir helling af gagnrýni bókarinnar á karlveldið og ýmsa kúgun þess. Og reiðina sem skín af hverri blaðsíðu er auðvelt að skilja og þegar maður veit að Valerie þurfti að framfleyta mér með vændi eftir að hafa farið að heiman 15 ára þá er óbeit hennar á körlum og að þeir séu fullir af „yfirþyrmandi, alltumlykjandi kynhvöt“ (sbr. 4) skiljanleg. En lausnin sem Valerie Solanas stingur uppá (útrýming karla), er fjarri því að vera eitthvað sem hvorki ég né neinn feministi sem ég þekki eða hef heyrt um getur tekið undir. Kannski eru til feministar sem eru sammála hverju orði og lýsa yfir ánægju sinni með útrýmingaráætlunina, en það er þá ekki á ábyrgð annarra feminista.

Í mínum augum er bókin háðsádeila með vænum skammti af réttlátri reiði, skrifuð af manneskju í miklu andlegu ójafnvægi. En þetta er ekki stefnuyfirlýsing róttækra feminista.


___
Viðbót, löngu síðar: SORI var bók vikunnar í samnefndum þætti Ríkisútvarpsins 19. febrúar 2017. Þar las Kristín Svava Tómasdóttir þýðandi bókarinnar örlítið en aðalefni þáttarins var viðtal
Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur við Sjón og Soffíu Auði Birgisdóttur. Viðtalið er afar gott og viðhorf Sjóns einstaklega skemmtileg. Hlusta hér!

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, október 29, 2014

Daglegt áreiti sem verður hversdagslegt en aldrei ásættanlegt

Myndband af konu sem gengur um stræti New York borgar og verður fyrir áreiti frá fjölda karlmanna hefur vakið athygli. Flestu fólki þykir óþægilegt að sjá myndbandið og finnst óþolandi að konan geti ekki gengið um óáreitt. En svo virðist sem slík afhjúpun á hegðun karlmanna veki upp álíka úlfúð og þegar tekin eru saman ummæli karla um konur og birt undir heitinu Karlar sem hata konur. Samkvæmt frétt Vísis hefur rignt óbótaskömmum yfir konuna á netinu (hvort sem hún nú les umsagnirnar um sjálfa sig eða ekki) og henni er hótað öllu illu. Við könnumst við það líka.

Myndbandið minnti mig á breska vefsíðu sem var sett upp í apríl 2012 og heitir Everyday Sexism. Konur voru hvattar til að senda inn sögur af kynferðislegu áreiti eða mismunun sem þær urðu fyrir, öllum þessum litlu athugasemdum um útlit, nettu niðurlægingunni og óumbeðna káfinu. Þessum hversdagslegu upplifunum kvenna sem eru ekki beinlínis tilefni til að kæra til lögreglu en gera konum lífið leitt. Og sögum rigndi inn. Flestar voru stuttar og hnitmiðaðar oft komu þær gegnum Twitter, sumar langar og sögðu einn atburð í smáatriðum eða margir atburðir voru sendir inn í einni textahrúgu. Erfitt var að fylgjast með hvaðan sögurnar voru, stundum var það tekið fram en oftar ekki. (Ég sé að búið er að bera kennsl á sögur frá 18 löndum, miðað við flöggin sem eru efst á forsíðu: Frakkland, Þýskaland, Holland, Portúgal, Rússland, Spánn, Bretland, Bandaríkin, Kanada, Nýja Sjáland, Austurríki, Argentína, Ítalía, Ástralía, Brasilía, Suður-Afríka, Danmörk, Moldóvía, og auk þess sögur kvenna sem eru flóttamenn). Ég fylgdist með næstum frá byrjun og ætlaði að lesa allar sögurnar en áður en varði bárust þær svo ört í pósthólfið mitt að ég náði ekki að lesa nema lítið brot (veit ekki hve margar), nokkrar á dag en ólesnu sögunum fjölgaði þar til ég gafst upp.

Wikipedia segir að í desember í fyrra hafi sögurnar verið orðnar 50 þúsund. Eitthvað hefur hægt á streymi af sögum inn á síðuna, sú síðasta barst fyrir rúmum mánuði, en sem stendur á ég ólesnar 27.258 sögur í pósthólfinu mínu. Ég hyggst eyða þeim öllum þegar ég hef gert örstutta grein fyrir helstu niðurstöðum mínum útfrá þeim sögum sem ég þó las.

Götuáreiti eins og það sem sýnt var í myndbandinu frá New York er gríðarlegt vandamál víða um heim. Á Íslandi kemur veðráttan líklega í veg fyrir að slíkt áreiti hafi orðið vinsæl dægradvöl karlmanna, þótt þeir leggi sitt af mörkum á björtum sumarnóttum þegar þeir eru drukknir. En margar breskar konur (og frá fleiri löndum hugsanlega, ekki tóku allar fram hvaðan þær væru) sögðu að þær hefðu allt frá barnsaldri sætt stöðugum athugasemdum, hrópað væri að þeim og þær niðurlægðar á ýmsa lund, jafnvel káfað á þeim. Þetta gerðist þegar þær gengu í skólann í merktum skólabúning svo ekki fór á milli mála að þær voru börn. Ekki minnkaði áreitið þegar þær eltust, og sögðu konur að karlar í byggingarvinnu væru atkvæðamestir í að hrópa á konur en einnig voru karlkyns ökumenn drjúgir að skrúfa niður rúðuna til að æpa kynferðislegar athugasemdir á konur, jafnvel hjólamenn sáu sig knúna til að nota tækifærið til að ausa kynferðislegum svívirðingum yfir konur þegar þeir geystust hjá. Konurnar voru reiðar yfir þessari hegðun karlanna en vanmáttugar að stöðva þá nema í undantekningartilvikum.
„Á heimleið í dag, 6 blístur, 2 bílflaut og eitt skipti reynt að káfa á mér.“ (Jessica, 17.2.2013)
Vitnisburðir um þessa hegðun karla komu frá ótal konum þannig að það eru ekki bara ofurglæstar konur eða konur sem klæða sig sjúklega glennulega sem bjóða uppá þetta (einsog sagt er), heldur er nóg að vera kona á almannafæri til að karlmenn upphefji raust sína. Og konurnar, hvort sem þær voru fullorðnar eða voru að segja frá því sem kom fyrir þær á barnsaldri, fengu iðulega þau svör frá ættngjum sínum og vinum ef þær sögðu frá hve illa þeim liði með þetta, að þær ættu að vera ánægðar með að þykja aðlaðandi. (Konur sem ekki þykja nógu aðlaðandi í augum karla urðu líka fyrir áreiti á götum úti en það var þá í formi ókvæðisorða sem dynja á þeim þar sem útliti þeirra var hallmælt.) En eins og ein konan sagði:
„Ég var ráðvillt og mér fannst þetta óþægilegt og niðurlægjandi, en líðan mín var ekki bara einhver aukaverkun af því sem hann sagði og gerði, heldur var tilgangur hans að láta mér líða þannig.“ (Eleanor, 19.3.2013)
Í lestum virðist vinsælt hjá körlum að káfa á konum, glápa á þær, gera þeim ýmis tilboð. Það er ekki eins vinsælt hjá konunum sem fyrir því verða, þær eru kannski á leiðinni í vinnuna og eiga von á að þurfa að þola þessa hegðun tvisvar á dag alla starfsævina. Það er ekki beinlínis upplífgandi.

Eflaust voru flestar sögurnar breskar en Bretland kom allavega mjög illa út, eða öllu heldur breskir karlmenn. Furðu margar sögur voru um samskipti kvenna við fasteignasala sem virtu þær ekki viðlits ef þær skoðuðu íbúðir í fylgd með karlkyns maka sínum. Þeir töluðu bara við karla um svo mikilvæg viðskipti. Einu gilti þó konurnar reyndu hvað þær gátu að lýsa áhuga og koma með spurningar sem máli skipta, þá sneri fasteignasalinn sér bara því einbeittari að karlmanninum og svaraði honum. Sama var uppi á teningnum ætlaði kona sér að kaupa bíl, þá var talað við nærstadda karla og ef konan kom ein í bílakaupahugleiðingum, og þetta átti líka við um fasteignakaup, þá bauð sölumaðurinn konunni að koma seinna „með eiginmanninn með sér“.

Margar margar konur ræddu kynferðislegt áreiti á vinnustöðum. Yfirmenn sem káfuðu og klipu, buðu í glas eftir vinnu til að ræða launahækkanir eða jafnvel helgarferðir, og sögðu þeim hvernig þær ættu að klæða sig til að ganga í augun á þeim eða viðskiptavinunum.

Nauðgunarbrandarar á vinnustað, á netinu þar sem karlkyns vinir senda slíka brandara til vinkvenna sinna, það er áreiti sem margar kvennanna verða fyrir. Margar segja frá nauðgunum og nauðgunartilraunum í fortíð eða nýlega. Og margar segja frá því að þær sem unglingar (sumar þær sem senda inn sögur eru unglingar) verða fyrir gríðarlegum þrýstingi að sofa hjá strákum sem þær vilja ekki sofa hjá eða vilja ekki sofa hjá strax eða ekki með þeim hætti sem strákurinn vill. Og þegar hver einasti strákur sýnir þessa sömu framkomu, og segir stelpum upp sem ekki vilja það sem heimtað er af þeim, þá verða þær mjög fljótt lúnar á þessum sífelldu átökum.

Þetta er auðvitað ekkert bara í útlöndum. Hér í feministaparadísinni (lesist með hæðnisglotti) heyrir sumt af þessu kannski sögunni til (ég sæi íslenska fasteignasala í hrönnum hunsa konur í íbúðaleit) en allsekki allt. Nauðganir, nauðgunarbrandarar, kynferðislegt áreiti á vinnustöðum, káf á skemmtistöðum, þrýstingur um að stunda kynlíf, allt þekkjum við það hér.

Hér einsog annarstaðar eru konur í þjónustustörfum, sérstaklega þær sem starfa á veitingastöðum, útsettar fyrir kynferðislegri áreitni. Þær eru líka endalaust krafðar um að vera glaðlegar með einfaldri skipun: Brostu! Fátt er jafn illa til þess fallið að kalla fram bros eða jákvæðar hugsanir.

Íslenskir karlmenn eru líka allmargir einsog kynbræður þeirra erlendis mjög uppteknir af því að rakka niður hverja þá konu sem talar opinberlega fyrir feminisma og gegn kvennakúgun. Það er að segja þegar þeir eru ekki að segja konum að þær misskilji hvað er kúgun, hvað er ógn. Það viðhorf að konur eigi að taka kynferðislegu áreiti sem hrósi má lesa í athugasemdum við fréttina af myndbandinu frá New York og sýnir að íslenskir karlmenn eru fjarri því að átta sig eitthvað betur á því hvað er óásættanleg hegðun en bandarískir karlmenn — eini munurinn felst í því að þeir hafa ekki tækifæri til þess á ísaköldu landi.

__
Viðbót: Herdís Helgadóttir segir frá viðskiptum sínum við tryggingasölumann sem afsannar orð mín um að slík hegðun karla heyri kannski sögunni til hér á landi.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, október 28, 2014

Drakúla kíkir uppúr kistunni

Það voru svosem ekki nýjar fréttir sem Sigurjón M Egilsson sagði í leiðara Fréttablaðsins í morgun. Það máttu allir vita að þessi stjórn færi leið einkavæðingar.

En Sigurjón virðist hafa þurft að heyra tvo af frjálshyggjuráðherrunum segja það í útvarpsþættinum sínum til að átta sig á hvað héngi á spýtunni.

Hanna Birna innanríkisráðherra sagði að hún sæi „ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtæki eða félög kæmu að uppbyggingu samgöngumannvirkja“. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði að „þrenging á framhaldsskólamenntun þeirra sem eru eldri en tuttugu og fimm ára opnaði á möguleika þess að nýir einkareknir skólar yrðu til“. Bíður Hraðbraut ekki í startholunum eftir að opna skólann aftur? Eða verða hraðbrautir lagðar um hálendið í boði einkaaðila með gjaldhlið?

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var ekki í viðtali hjá Sigurjóni (svo ég viti) en Sigurjón bætir því við frásögnina af hinum ráðherrunum að hann hafi
„opnað á að ríkið feli einkaaðilum stærra hlutverk í heilbrigðisþjónustunni. Hann hefur bent á dæmi, sem hann telur góð, þar sem einkaaðilar hafa annast hluta heilbrigðisþjónustunnar. Til dæmis rekstur heilsugæslustöðva.“

Sigurjón virðist halda að það hafi engin tekið eftir þessu fyrr, það hafi engin umræða farið fram. Það er öðru nær, allt havaríið útaf fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar snýst um þetta. Niðurskurð á opinberri þjónustu. Því við vitum hvað á að taka við.

___
Titill bloggfærslunnar vísar í eldri færslu og var tilvitnun í bók Einars Más Jónssonar, Bréf til Maríu.

Efnisorð: , , , ,

mánudagur, október 27, 2014

Verkfall og vont vatn

Læknar eru komnir í verkfall og mun þetta vera í fyrsta sinn í sögunni sem læknar hér á landi mótmæla kjörum sínum með þessum hætti. Þetta er semsagt ekki rétti tíminn til að verða veik og þá er nú betra að hafa aðgang að náttúrulyfjum og hreinu vatni. Gallinn er sá að víða um veröld er það ekki svo auðvelt.

Ég hef áður skrifað um uppáhaldsfyrirtækið mitt Nestlé. Ég skrifaði tildæmis um þurrmjólkina (eða öllu heldur þurrmjólkurhneykslið) og barnaþrælkun í súkkulaðiframleiðslu. Ekki hugnaðist mér heldur þegar Nestlé bauð í bíó.

Bætist nú enn við listann yfir það sem Nestlé hefur verið að bralla. Eitt af því er að Nestlé hyggst fá einkaleyfi á notkun á fennelplöntunni (Nigella sativa) því hægt er að nota hana til að draga úr fæðuofnæmisviðbrögðum. Mjög ábatasamt fyrir þennan risastóra fæðuframleiðanda.

Lækningarmáttur fennels hefur lengi verið þekktur (það hefur verið notað við ýmsum kvillum á fátækum svæðum í miðausturlöndum og Asíu, meðal annars að stilla uppköst) en nú vill Nestlé, sem þykist hafa uppgötvað þessa eiginleika plöntunnar, sjá til þess að enginn annar geti notað ókeypis eða ódýrar afurðir plöntunnar og yfir hverjum þeim sem hyggst brjóta gegn einkaleyfinu vofir því málsókn. Fennelplantan er vitaskuld náttúruafurð sem ætti ekki að vera hægt að einkavæða. Það ætti enginn að geta hindrað aðra í að nota hana.

Rétt einsog Nestlé hikar ekki við að versla við kakóbaunaframleiðendur sem þrælka börn til vinnu og halda fram gildi þurrmjólkur í fátækum löndum þegar brjóstamjólkin er mun betri kostur, er einkaleyfi á fennelplöntunni eingöngu ætlað í þágu fyrirtækisins en ekki af umhyggjusemi fyrir neytendum.

Hitt ábataverkefnið er vatn, en Nestlé er umsvifamikið í sölu á vatni í flöskum. Nú ætti hverjum manni að þykja það jákvætt að fólk drekki fremur vatn en gosdrykki, þurfi það á annaðborð að vera að þamba úr flöskum, en vatnið sem Nestlé verður sér útum er illa fengið, eins og kemur fram í heimildarmyndinni Bottled Life. Fyrirtækið kaupir sér aðgang (borgar lágt verð en selur átappaða vatnið margfalt dýrar) að vatnsuppsprettum og gjörnýtir þær þannig að íbúar í næsta nágrenni fá ókræsilegar restar eða vatnslindir þeirra þorna upp. Þeim býðst svo að kaupa átappaða vatnið undir merkinu Pure Life. Þetta stundar fyrirtækið víða um heim, frá Pakistan til Maine í Bandaríkjunum.

Um þessa hegðun Nestlé segir Maude Barlow fyrrverandi vatnsráðgjafi Sameinuðu þjóðanna:

„Þegar fyrirtæki á borð við Nestlé segir: Við seljum þér þitt eigið grunnvatn því það kemur ekkert úr krönunum hjá þér lengur og þó svo væri er vatnið ódrekkanlegt þannig að Pure Life er svarið — þá er það ekki bara óábyrgt af fyrirtækinu heldur hreinlega glæpsamlegt.“
Það skal tekið fram að Nestlé selur vatn undir fleiri vörumerkjum en Pure Life. Sjá vatnslista og sjá lista yfir öll vörumerki Nestlé, þau eru fjölmörg. Þar á meðal morgunkorn, kaffi, ís, barnamatur (sjá fyrrgreind skrif mín), sósur, súpur, súputeningar, súkkulaði (sjá skrif mín ), og annað sælgæti.

Nestlé finnst reyndar ekki nóg að gert í vatnsbransanum. Peter Brabeck-Letmathe forstjóri fyrirtækisins hefur sagt að hann vilji einkavæða vatn. Það séu öfgar að líta á aðgang að vatni sem mannréttindi. (Hann hefur síðar dregið þessi orð til baka, eflaust með dyggum stuðningi almannatengla, og sagst hafa meint allt annað.) Rétt eins og Hannes Hólmsteinn og aðrir frjálshyggjumenn er forstjóraóbermið þeirrar skoðunar að það verði að setja verðmiða á alla hluti svo fólk geri sér grein fyrir hvers virði þeir séu. Þegar allir þurfa að borga fyrir vatn skilja þeir fyrst hvað vatn sé okkur mikils virði. Svo verði bara gerðar sérstakar ráðstafanir fyrir þann hluta mannkyns sem ekki hefur aðgang að vatni. — Það er að segja þegar Nestlé er búinn að stela því af þeim.

Hér er reyndar búið að setja upp vatnsverksmiðju í Ölfusinu og aðra stóð til að starfrækja á Stykkishólmi en ekkert varð úr. Nestlé kom nálægt hvorugri mér vitanlega enda hefði þá líklega verið skrúfað fyrir kranana hjá okkur og ætlast til að við keyptum fyrrverandi vatnið okkar á flöskum. Þá værum við í sömu sporum og verst stöddu þjóðir heims: án vatns og læknisaðstoðar.

Í bili höfum við þó vatnið. Vonandi er ekki á dagskrá frjálshyggjustjórnarinnar að einkavæða það líka.

Efnisorð: , ,

föstudagur, október 24, 2014

Þegar niðurstaðan er óvænt verða andstæðingarnir kjaftstopp

Andfeministar hafa hamast gegn því sem stundum er kallað jákvæð mismunun, sértækar aðgerðir eða kynjakvóti eftir því sem við á þegar átt er við tímabundnar aðgerðir til að jafna stöðu kvenna í stjórnmálum eða á vinnumarkaði. Þeir vilja halda í gömlu aðferðina að ef karl og kona sækja um sama starfið þá er karlinn alltaf ráðinn. Skiptir þá engu menntun, reynsla konunnar eða önnur hæfni sem stundum er meiri en karlsins. Með því móti fá konur ekki störf sem áður voru einokuð af körlum eða eftirsóknarverð störf, þær komast ekki til metorða. Þessvegna hefur verið brugðið á það ráð að komi sú staða upp að sæki karl og kona um starf og bæði reynast jafnhæf þá skal ráða konuna. Með tímanum ætti kynjahlutfallið þannig að jafnast út og vonandi kemur að því að fjöldi kvenna og karla í ákveðnum starfstéttum eða stöðum er jafn.

Þegar verður misbrestur á þessu og karlinn er ráðinn enda þótt konan sé hæfari (og jafnvel þótt fáar eða engar konur eru í þessu eða sambærilegu starfi), hefur konan þess kost að kæra ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála. Þegar svo kærunefndin ályktar sem svo að ráða hefði átt konununa þá bregðast allrahanda karlrembur og aðrir andfeministar illa við. Talað er um forréttindafeminisma og ég veit ekki hvað og hvað.

Nema hvað. Í gær var sagt frá því að ríkislögreglustjóri hafi brotið lög um jafnan rétt kvenna og karla þegar hann skipaði konu í starf lögreglufulltrúa hjá Lögregluskóla ríkisins. Konan sem var ráðin var nefnilega minna hæf (miðað við hvað ætlast var til samkvæmt auglýsingu) en þrír aðrir umsækjendur sem allir voru karlar. Einn karlanna kærði til kærunefndar jafnréttismála. Og sú vonda kærunefnd, sem að sögn andfeminista sífellt hyglir óhæfum konum, kvað semsagt upp þann úrskurð að ríkislögreglustjóri hefði brotið jafnréttislög.

Þegar þetta er ritað eru komnar fjórtán athugasemdir við fréttina um úrskurð kærunefndar jafnréttismála. Tvær athugasemdanna eru eftir konu, hinar tólf eftir karla. Enginn þeirra lýsir yfir fögnuði með að kærunefndin skuli úrskurða karli í vil. Enginn. Mesta púðrið fer í að hnýta í Hönnu Birnu innanríkisráðherra, en það var frænka hennar sem var ráðin og eru flestir á því að um klíkuskap hafi verið að ræða. (Ég efast svosem ekkert um það heldur og ekki dreg ég taum Hönnu Birnu í neinu máli, það má gagnrýna hana að vild mín vegna.) Það er auðvitað skiljanlegt að gagnrýna enn eina klíkuráðninguna, en þó er því alveg sleppt að gagnrýna ríkislögreglustjóra sem er karlmaður fyrir að ráða frænkuna. Ég skil vel neikvæðnina útí Hönnu Birnu en mér finnst samt merkilegt að enginn karlanna (eða þessi eina kona sem var reyndar að gagnrýna klíkuskapinn en ekki Hönnu Birnu) skuli hafa tekið eftir því að þarna er dæmt karli í vil þegar kona var ráðin. Mörgum karlmanninum sem áður hefur gagnrýnt allt sem heitir jafnréttis-eitthvað ætti að hafa brugðið nóg í brún til að tjá sig um þessa „stefnubreytingu“ eða jafnvel fagna henni. (Þetta er auðvitað engin stefnubreyting, það stóð aldrei til að taka konu fram yfir karl ef hún væri ekki hæfari honum eða jafnhæf.)

Ég á auðvitað ekkert að vera að hnýta í þetta viðbragðsleysi og hefði heldur ekki átt að eyða tíma mínum í að leita uppi þær síður sem hafa verið stofnaðar sérstaklega til höfuðs feminisma, bara til að skoða skort þeirra á viðbrögðum. En á þeim var auðvitað ekki von því úrskurðurinn gengur þvert á skoðanir andfeminista á úrskurðarnefndinni.

Kannski ætti ég heldur ekki að gagnrýna andfeministana en benda fremur úrskurðarnefndinni að fara að ráðum Sifjar Sigmarsdóttur og klæðast bikiní þegar skorið er úr um kærumál og niðurstaðan opinberuð. Þá uppskæri hún kannski viðeigandi lófaklapp.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, október 23, 2014

Ástæður andstöðu við áfengisfrumvarpið

Óvænt niðurstaða skoðanakönnunar Fréttablaðsins á viðhorfi landsmanna til sölu áfengis í matvöruverslunum blasti við á forsíðu blaðsins í dag. Ég hélt svei mér þá að almenningur allur væri hlynntari þessu. En eins og sagði á forsíðunni þá eru nærri 70% á móti. (Nánar tiltekið 62% svo prósentufólkið fái nú réttar upplýsingar, hin prósentin eru óákveðin eða svara ekki, þau ná tölunni samtals uppí 67%).

Ég held samt að það séu ekkert allir á móti sölu áfengis í matvöruverslunum af sömu ástæðu. Mér hefur heyrst að það séu einkum þessar ástæður (ekki taldar upp í mikilvægisröð) og jafnvel fleiri.

1. Úrval áfengis (bjórs, léttvína, sterks áfengis*) verði minna heldur en í ÁTVR því matvöruverslanirnar muni einbeita sér að vörumerkjum sem seljast mest. Í litlum búðum úti á landi verði úrvalið beinlínis fátæklegt.
2. Minna úrval leiði til þess að litlu innlendu bjórframleiðendurnir komi ekki vöru sinni á framfæri.
3. Verð á áfengi muni hækka.
4. Aukið aðgengi auki drykkju. Það verði of einfalt að kippa umhugsunarlaust með sér bjór eða flösku í matvörubúðinni í stað þess að þurfa að taka um það ákvörðun að fara í ríkið.
5. Aukin drykkja skapi heilsufarsvandamál.
6. Aukin drykkja skapi félagsleg vandamál.
7. Þetta sé enn eitt dæmið um einkavinavæðingu, nú eigi að færa ágóða ÁTVR til einkaaðila sem eru innmúraðir og innvígðir í Sjálfstæðisflokkinn.
8. Einkaaðilar eigi nú að græða óhindrað á drykkjunni en samfélagið eigi að greiða kostnað og tap samfélagsins.**

Ég er sammála síðustu tveimur liðunum en af fyrstu þremur hef ég engar áhyggjur. Ég deili hinsvegar áhyggjum með þeim sem óttast að aukið aðgengi að áfengi auki drykkjuna. Landlæknir og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) eru sama sinnis:

„Aðgerðirnar gætu leitt til aukinnar neyslu áfengis og aukins samfélagslegs kostnaðar“, segir á vef landlæknis. Ennfremur segir að stýring á aðgengi að áfengi sé algeng leið til að takmarka áfengisneyslu. Niðurstöður rannsókna bendi til að einkasala ríkisins á áfengi dragi úr neyslu og tjóni sem af henni hlýst og ef einkasölunni sé aflétt aukist heildarneysla áfengis.***
Flestallir Íslendingar hafa séð eða upplifað áhrif ofdrykkju einstaklings á fjölskyldu hans, og finnst ekki góð tilhugsun að fólk sem á við drykkjuvanda að stríða geti ekki farið útí búð án þess að rekast á freistingar.

Sigurður Viktor Úlfarsson orðar þetta ágætlega í athugasemd við grein Pawels Bartoszek.

„Rannsóknir sýna að tveir hópar, ungt fólk og þeir sem eiga í erfiðleikum með áfengi munu auka neyslu sína ef komið verður með áfengið til þeirra þar sem þau eru að gera eitthvað allt annað t.d. að kaupa í matinn. Þetta er sá hópur sem stendur höllustum fæti gagnvart áfenginu og aukin neysla þessa tiltekna hóps hefði umtalsverð áhrif á hann og fólkið í kringum hann. Því miður samanstendur þessi hópur af þúsundum, jafnvel tugþúsundum einstaklinga. Neikvæðu afleiðingar breytingarinnar vega því þyngra að mínu mati en jákvæðu afleiðingarnar sem eru þægindin að geta keypt sér bjór eða vín með steikinni.“
Pawel er afturámóti frjálshyggjumaður mikill og finnst ómerkilegt að saka fólk um græðgi og að færa kaupmönnum arðinn. Hann vill bara ekki höft og bönn og blæs á „lýðheilsurökin“.

Arnar Sigurðsson er enn harðari frjálshyggjumaður og hefur árum saman skrifað um það hugðarefni sitt að gefa sölu á áfengi frjálsa. Hann hefur lítið álit á fyrirbæri eins og landlækni og skilur ekki samhengið milli aukins aðgengis og aukinnar drykkju.

„Undarlegar áherslur virðast stjórna starfsemi landlæknisembættisins. Embættið hefur tekið einarða afstöðu gegn viðskiptafrelsi með áfengi rétt eins og slíkt geti haft eitthvað með vandamál tengd ofneyslu að gera.“
Það er best að hafa sem fæst orð um þetta útspil. En eflaust halda skoðanabræður (eða hlaupatíkur) frjálshyggjupostulans á Alþingi áfram að berjast fyrir sölu áfengis í matvörubúðum (og síðar vilja þeir auðvitað leyfa einstaklingum að opna eigin vínbúðir, eins og vinir Pawels vilja gera) og hugsanlega tekst þeim jafnvel að koma frumvarpinu í gegn. En það er þá í andstöðu við vilja 70% þjóðarinnar.


___
* Það er lítið rætt um að í frumvarpinu er lagt til að sterkt áfengi verði líka selt í matvöruverslunum (til að drekka með steikinni?) en það verði bara ekki eins aðgengilegt og létta vínið og bjórinn. „Í a-lið 22. gr. er þá nýjung að finna að lagt er til að sterkt áfengi, áfengi sem er að rúmmáli meira en 22% af hreinum vínanda, skuli geyma afmarkað frá annarri söluvöru á bak við afgreiðsluborð eða í sérrými innan verslunar. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að slíkt áfengi megi ekki sjást, eins og á við um tóbak, heldur að það verði aðeins afhent yfir búðarborð eða að viðskiptavinir þurfi að fara inn í afmarkað rými til þess að nálgast það.“ Í frumvarpinu er líka tiltekið hvar megi ekki selja áfengi en þar hefur alveg gleymst að geta bensínstöðva. Hvort þetta er handvömm eða til stendur að leyfa bensínstöðvabjór veit ég ekki.
** Þetta er umorðun á athugasemd Ásdísar Jónsdóttur (sem er uppáhalds) við eina fréttina um áfengisfrumvarpið.
*** Morguninn eftir að þetta var ritað birtist ágætur leiðari Óla Kristjáns Ármannssonar þar sem farið var yfir rök gegn auknu frjálsræði í áfengissölu. Þar var meðal annars vitnað í prófessor David Nutt. Lengri útgáfa tilvitnunarinnar er svona:
„Prófessor Nutt hefur sterkar skoðanir á því hvort áfengi eigi að leyfa að selja í matvöruverslunum, eins og nú er til umræðu á Íslandi. Hann telur reynslu landa af því að hafa ríkiseinokun á sölunni hafa reynst vel. Í dag segir hann, er hægt að kaupa bjór í matvöruverslunum í Bretlandi fyrir minna en ein flaska af vatni kostar. Afleiðingarnar hafa orðið mjög alvarlegar frá heilsufarslegu sjónarmiði. Aukin neysla hefur valdið miklum skaða. Nú er áfengisneysla ein algengasta dauðaorsök karla á aldrinum sextán ára til fimmtugs. Mitt ráð til Íslendinga er: ekki selja áfengi utan ríkiseinkasölunnar, segir prófessor David Nutt.“ Leiðarinn dregur fram eina hlið málsins sem vert er að hafa í huga:
„En svo getur líka verið að einhverjum henti að halda á lofti í umræðunni málum, sem í raun eru engin mál, á meðan keyrðar eru í gegn, án allrar umræðu, ákvarðanir á borð við að loka framhaldsskólum landsins fyrir fólki yfir ákveðnum aldri eða að vélbyssuvæða almenna lögreglumenn.“

Efnisorð: ,

miðvikudagur, október 22, 2014

Vopnavæðing og verkfall

Það verður víst að bíða eitthvað áfram eftir því að niðurstaða komist í vopnavæðingarmál lögreglunnar og þar með hvort hríðskotabyssurnar séu 150 eða 200, hvort þær eru keyptar eða fengust gefins frá norska hernum eða norsku lögreglunni — og það sem mestu máli skiptir: hver leyfði eða fyrirskipaði þessa vopnavæðingu. Við þessi sem viljum búa í (tiltölulega) friðsælu og herlausu landi, þar sem lögreglan sé að öllu jöfnu óvopnuð, þurfum að fá endanleg og rétt svör við þessu, ekki útúrsnúninga, mótsagnir og skæting.

Meðan rætt er um vopnavæðinguna og beðið svara, fellur verkfall tónlistarkennara alveg í skuggann. Þó hefur það áhrif á mikinn fjölda fólks. Um 530 félagsmenn í um 80 tónlistarskólum um land allt lögðu niður störf í morgun. Þeir kenna stórum hluta þeirra 15 þúsund nemenda sem sækja tónlistarnám. Verkfallið raskar ekki bara högum barna og foreldra heldur er vegið að einu merkilegasta menningarstarfi sem er unnið á Íslandi. Það að hróður Íslands berist víða vegna grósku í tónlistarlífi verður að miklu leyti rakið til tónlistarskólanna.

Það er ekki fýsilegt að gerast tónlistarkennari þegar kjör stéttarinnar eru léleg. Helga Mikaelsdóttir nemandi í Tónlistarskólanum í Reykjavík skrifaði grein í fyrradag og sagði:
„Ef það á að verða endurnýjun í stétt tónlistarkennara þarf að bæta kjarasamningana til þess að laða fleiri að en fyrst og fremst er kominn tími til að launa núverandi kennurum fyrir þeirra ómetanlega framlag til menntunar, með því að bæta kjör þeirra.“
Gunnar Guðbjörnsson óperusöngvari benti á grein sem birtist í dag að það hafi verið samkomulag um að laun tónlistarkennara fylgdu launaþróun annarra kennara í landinu eru tilboð samninganefnda langt undir samningum við aðra félaga í Kennarasambandi Íslands.

Á sömu síðu og grein Gunnars var stór og áberandi auglýsing frá Íslensku óperunni. Þar birtust lofsamleg ummæli fjölda manns um óperuna Don Carlo eftir Verdi sem frumsýnd var í Hörpu um helgina. Umsagnirnar um Don Carlo hefðu ekki verið svo hástemmdar ef söngvararnir og hljóðfæraleikararnir hefðu ekki notið tónlistarkennslu. Raunar er líklegt að óperan hefði hreint ekki verið sett upp.

Það hefði heldur ekki verið ástæða til að byggja Hörpu yfirleitt ef hér væri ekki blómlegt tónlistarlíf, byggt á menntuðu tónlistarfólki. Sú menntun fer fram í tónlistarskólum.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, október 20, 2014

Reglugerð um velferð hrossa

Það er ánægjulegt að út er komin ný reglugerð um velferð hrossa. Þar er tekið á umdeildum málum eins og notkun tunguméla og andstyggilegri tamningaraðferð þar sem einn fótur hestsins er bundinn upp og hesturinn þreyttur þar til hann beygir sig undir vald manneskjunnar sem pínir hann.

Mér finnst fróðlegt að lesa reglugerðina, bæði vegna þess að þar er nákvæmlega útskýrt hvernig búa á að hestum hvort sem þeir eru á húsi, í gerði, á hestasýningu eða reiðkeppni. Það er meira segja tekið mið af félagslyndi hesta. Ég er afar ánægð með að sérstaklega tekið fram að hávaði skuli takmarkaður en ég hef undrað mig á dúndrandi tónlist þegar sýnt er fra hestasýningum. Öllu verra er að sjá upptalningu á því sem greinilega hefur þekkst sem ill meðferð á hestum. En reglugerðin á að koma í veg fyrir það, eða að hægt sé að refsa fyrir slíkt. Eflaust eru refsingarnar of vægar en það er önnur umræða. Best er þó að reglugerðin tekur gildi nú þegar í stað þess að gefa aðdáendum tunguméla og öðrum dýraníðingum kost á aðlögunartíma sem myndi bitna á hrossunum.

Valin og mikið stytt sýnishorn úr reglugerðinni fara hér á eftir, styttingar eru stundum en ekki alltaf einkenndar með punktalínu.

Úr kafla um meðferð og umsjá

6. grein. Hreyfing og félagslegt atferli.
Húsvist og annað hrossahald skal taka mið af félagslegum og líkamlegum þörfum hrossa. Innréttingar hesthúsa skulu tryggja hrossum næði til að hvílast og nærast án stöðugs áreitis og/eða yfirgangs frá öðrum hrossum. Óheimilt er að hafa hross ein á húsi eða í beitarhólfum. Undanþegnar eru skammtímaráðstafanir, styttri en fimm dagar og tímabundin útiganga stóðhesta, allt að einn mánuður.

7. grein. Meðferð.
Bannað er að beita hross harðýðgi eða annarri illri meðferð. [Í skilgreiningarkafla kemur fram að harðýðgi sé: Gróf valdbeiting, svo sem barsmíðar, þrengja að blóðrás til heila (hengja), snúa hross niður á eyrum, uppgefa hross til dæmis með bindingum eða gefa þeim rafstuð.]

8. grein. Notkun
Knapi ber fulla ábyrgð á hrossum sem hann notar til reiðar eða annarrar vinnu. Eingöngu skal nota heilbrigð hross til reiðar, burðar eða dráttar. Álag á hross má aldrei vera meira en þrek þeirra og annað líkamlegt ástand leyfir. Koma skal í veg fyrir að hross ofkælist eftir notkun. Þess skal gætt að reiðtygi passi vel og notkun þeirra valdi ekki sárum eða öðrum skaða. Umráðamanni hestaleigu og reiðskóla ber að skrá tíðni og tímalengd notkunar á hverju hrossi. Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari hvenær sem þurfa þykir.

9. grein. Tamning, þjálfun, keppni og sýningar.
Ekki má nota búnað eða aðferðir við tamningu, þjálfun, keppni eða sýningar sem valda hrossum skaða eða óþarfa ótta. Óheimilt er að þvinga hross í höfuðburð með búnaði sem gefur ekki eftir eða að uppgefa hross með bindingum eða öðrum þvingunum. Notkun á mélum með tunguboga og vogarafli er bönnuð á stórmótum, hvers kyns keppnum og sýningum [í skilgreiningarkafla er sagt um mél með tunguboga og vogarafli: Öll mél með stöngum og/eða keðju þar sem munnstykkið er þannig gert að hæðarmunur frá neðri kanti á endastykki upp í neðri kant á efsta hluta (miðhluta) er meiri en 0,5 sentimetrar].
Mótshaldari ber ábyrgð á að hljóðstyrkur tónlistar á keppnis- eða sýningarsvæði hrossa fari ekki yfir mörk sem sett eru í c-lið II. viðauka. [Þar segir að hjóðstyrkur skal að jafnaði ekki fara yfir 60 desíbel í hesthúsum og 90 desíbel á hestasýningum.]

10. grein. Fóðrun, beit og brynning.
Hross skulu alla jafna ekki vera grennri en sem nemur reiðhestsholdum (holdastig 3). Að öðrum kosti skulu þau njóta hvíldar og/eða sérstakrar umsjár, fóðrun skal tafarlaust bætt og aðgangur að góðu skjóli tryggður. Holdastig undir 2 telst til illrar meðferðar ... Við mat á holdafari hrossa skal farið eftir viðauka III, um holdastigun.
[Holdastig 3 er skv. skilgreiningu viðaukans svona: Tvö til fjögur öftustu rifbein finnast greinilega við þreifingu en sjást ekki. Yfir þeim er þunnt og laust fitulag (u.þ.b. 1 sentimetri). Lendin er ávöl og hæfilega fyllt. Bakið fyllt og jafnt hryggsúlu. Hárafar slétt og jafnt. Holdastig 2 kallast „verulega aflagður“ og er lýst svona: Flest rifbein finnast greinilega, og þau öftustu sjást. Örlítil fita undir húð yfir fremri rifbeinum. Vöðvar teknir að rýrna, tekið úr makka og lend, hálsinn þunnur. Hryggsúla og herðar sjást vel. Hárafar matt og hrossið vansælt. Holdafar 1,5 er „horaður“, nánari lýsing ekki rakin hér, en þá er mikil hætta að hrossið nái sér ekki að fullu. Holdafar 1 er „grindhoraður“ en þá er heilsutjón varanlegt og heimilt er að aflífa hross í þessu ásigkomulagi.]

11. grein er um heilbrigði og forvarnir. 12. grein umm eigið eftirlit [þar er átt við eftirlit umráðamanns með hrossum í húsi, meðan á þjálfun stendur o.s.frv.]. 13. grein um aðgerðir [tannaðgerðir, geldingar, eyrnamerkingar]. 14. grein er um aflífun.

Næstur er kafli um aðbúnað, en aðbúnaður er samkvæmt skilgreiningarkaflanum: Húsakostur, hrossaskjól, gerði og girðingar.

15. grein. Hesthús.
... Á hesthúsum skulu vera gluggar sem tryggja að öll hross í húsinu njóti dagsbirtu ...
Óheimilt er að hafa hross í stöðugum hávaða og skal hljóðstyrkur í hesthúsi vera innan þeirra marka sem um getur í c-lið viðauka II við reglugerð þessa. [Þar segir að hjóðstyrkur skal að jafnaði ekki fara yfir 60 desíbel í hesthúsum.]

16. grein. Slysavarnir [og eldvarnir í hesthúsum, einnig um girðingar].

17. grein. Gerði.
Undirlag í gerðum skal vera þannig að hross vilji og geti velt sér. [Hér er mikið fellt úr]

18. grein. Útigangur.
... Hross sem ganga úti skulu geta leitað skjóls fyrir veðri og vindum ... Skjólveggir skulu byggðir þannig að þeir valdi ekki slysahættu né hræðslu hjá hrossum. [Bárujárnsgirðing sem hriktir í þegar hvessir er semsagt ekki heppilegt efni í skjólvegg.]

19. grein er um smitvarnir.

Fimmti og síðasti kafli er um refsiákvæði og gildistöku.
20. grein. Viðurlög.
Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Meðferð mála út af brotum á reglugerðinni fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

21. grein. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Vonandi vantar engin mikilvæg atriði í þessa reglugerð, en það sem ég les úr henni er allgott. Megi hún vera hrossum þessa lands til hagsbóta.

Efnisorð:

sunnudagur, október 19, 2014

Óverjandi en hann ver það samt

Mér urðu á þau mistök um daginn að hrósa grein eftir Pírata. Lyklaborðið var varla kólnað þegar Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata hóf upp raust sína til að mótmæla — í nafni tjáningarfrelsisins — að vefsíðu þokkapilta Íslamska ríkisins var lokað. Hann vill að Íslendingar og heimurinn allur geti skoðað síðuna til að kynna sér málstað Íslamska ríkisins.
„þetta snýst ekki um frelsi þeirra til að tjá sig heldur frelsi þitt og mitt til að vera upplýst um samtökin.“
Segir Helgi Hrafn í athugasemd við frétt um málið.

Ég hef einsog ég hef áður rakið, allt aðrar hugmyndir um tjáningarfrelsi. Í mínum huga er það frelsi til að andæfa yfirvaldinu. Hver sem er ætti að mega gagnrýna þjóðhöfðingja, ríkisstjórn og embættismenn án þess að vera refsað fyrir. En flestir — þar á meðal Píratar —virðast þó skilja það svo að þetta frelsi sé frelsi allra til að segja allt um alla, hversu niðrandi sem það er og að auki birta opinberlega allan andskotann hversu viðurstyggilegur hann er og hvaða afleiðingar það hefur fyrir einstaklinga og þjóðfélagshópa, þar með talið áróður þeirra sem stunda mannrán, manndráp, afhausanir, kynlífsþrælahald og stefna að yfirráðum.

Síðar í sama athugasemdaþræði við fréttina um lokun vefsíðu Íslamska ríkisins kemur Helgi Hrafn með margþvælda klisju, þessa um einstaklingsábyrgðina.
„Enginn hefur verið neyddur til að skoða þessa síðu og ef þú vilt ekki skoða hana, einfaldlega ekki skoða hana. Ef þú vilt ekki að börnin þín skoði hana, blokkaðu hana á netinu þínu (það eru leiðbeiningar til þess hjá öllum helstu internet-fyrirtækjum).“
Áherslan er á að „þú“ bregðist við sem einstaklingur ef þú hefur eitthvað á móti einhverju. Hugtakið samfélag tekið út úr myndinni, samfélag má ekki bregðast við. Ef einhverjir einstaklingar hafa ekki rænu á að stoppa börnin sín eða uppfræða þau, þá skiptir engu máli hvað verður um þau börn, þeim er bara nær að eiga svona lélega foreldra. Fjöldi ungra karlmanna hefur lagt land undir fót til að berjast með Íslamska ríkinu. Kannski eiga þeir allir lélega foreldra, en kannski hafa þeir heillast af áróðri vígamannanna. Það er áróðurinn sem var verið að reyna að skrúfa niður í. Auðvitað spratt síðan upp aftur en það var samt einstaklega sérkennilegt af þingmanni Pírata að sýna „aðferð til þess að komast inn á lokaða vefsíðu Ríkis íslams“.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, október 18, 2014

Ef þú ert ekki fyrstur er hún notuð vara

Þessi auglýsing var birt fyrir aðeins tólf árum. Viðhorf margra karla til kvenna hafa ekki breyst, og sannarlega hafa asnalegar og karlrembulegar auglýsingar ekki hætt að birtast. En ég held samt að enginn, hversu illa hann er haldinn af kvenfyrirlitningu, myndi halda í dag að það væri vænlegt að auglýsa notaða bíla til sölu með þessum hætti.Myndatexti: Væri þér sama þó þú værir ekki fyrstur?
Settu öryggið á oddinn — renndu við og veldu úr spennandi framboði af notuðum gæðabílum

Efnisorð:

fimmtudagur, október 16, 2014

Ameríkanseringin

Ég man þá tíð að við hlógum að Ameríkönum. Þeir voru svo ógurlega feitir, með hamborgararassa! Þeir voru svo heimskir, vissu ekkert hvar Evrópa var og vissu varla hver var forseti landsins. Þetta kom fram í könnunum og í sjónvarpsþætti Jay Leno gerði hann útá heimsku vegfarenda sem vissu sjaldnast neitt um neitt. Og svo voru Ameríkanar alltaf að fara í mál yfir öllu og engu. Ef þeir settu köttinn í örbylgjuofn heimtuðu þeir skaðabætur af örbylgjuofnaframleiðandanum fyrir að vara sig ekki við að kötturinn gæti drepist (flökkusagan er alveg örugglega amerísk líka). Til þess að forðast skaðabætur settu framleiðendur sportbíla miða á mælaborðið sem sagði að ef þessum bíl væri ekið hratt væri hætta á slysi. Eflaust var það eftir eitthvert skaðabótamálið sem þeir sáu framá að svona hallærisleg tilkynning væri betri en standa í sífelldum dómsmálum og greiða skrilljónir í skaðabætur í hvert sinn sem einhver aulinn klessti bílinn sinn. Líklega eru allar þessar furðulegu viðvaranir sem lesa má á umbúðum (sbr. plastpoka að þeir séu ekki leikföng fyrir börn: hélt það í alvöru einhver?) afleiðing af því að Ameríkani fór í skaðabótamál.

Við höfum ekki lengur efni á að hlæja að Ameríkönum. Of hátt hlutfall íslensku þjóðarinnar mælist sem of þung til að við getum gagnrýnt vaxtarlag annarra. Íslendingar eru síst betur upplýstir en Kanarnir, eins og sjá mátti í þættinum Áttan þar sem tekin voru viðtöl við unglinga sem vissu ekkert hver væri forseti eða forsætisráðherra eða neitt annað. Ekki bæta 'virkir í athugasemdum' úr skák hvað það varðar. Varla er þó fólk að verða sér úti um aukakíló (þótt segja megi að við höfum tekið upp mataræði og neysluskammta eftir amerískri fyrirmynd)eða ræktar með sér fávisku bara til að verða einsog Ameríkanarnir. Aftur á móti virðist sem fjölgun skaðabótamála eigi sér beina fyrirmynd frá Ameríku.

Ég held að nýjasta fréttin af furðulegu skaðabótamáli sé um Svein Andra Sveinsson lögmann sem fékk sér lögmann til að krefjast 10 milljóna af DV fyrir að fjalla um einkalíf sitt, og ef hann (hér er átt við fyrri lögmanninn) fær ekki borgað ætlar hann að höfða dómsmál. (Spurning auðvitað hvort DV borgar eða Sveinn Andri heldur fast við kröfuna nú þegar DV hefur nýja stjórn og eigendur).

Meðlimir (eða „meintir“ meðlimir) glæpasamtaka hafa farið í skaðabótamál fyrir „ólögmæta handtöku“, meiðyrði um að þeir séu tengdir glæpasamtökum, eða fyrir að sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um aðild að glæp.

Gunnar í Krossinum fór í meiðyrðamál — ekki við konurnar sem ásökuðu hann um kynferðisofbeldi heldur talskonur þeirra.

Og Gillz fór í meiðyrðamál vegna þess sem sagt var um hann á netinu. Sjálfur hafði sagt svívirðilega hluti um nafngreindar konur sem þó fóru ekki í mál við neinn af hans fjölmörgum en öllum jafnlélegum karakterum.

Sömuleiðis fór fjölskyldan í Aratúni (sem allir myndu vilja hafa að nágrönnum) í mál við allt og alla sem sögðu eitthvað um þau á netinu. Það er nefnilega í lagi að hegða sér eins og fáviti, það má bara enginn segja að þú hagir þér eins og fáviti. Eða það virðist vera skilningur þeirra.

Stundum verður ekkert úr málsókninni heldur eru eintómar hótanir. Oft sér þetta fólk fjárvon í því að lögsækja einhvern fyrir að segja eitthvað um það, eða ef það hefur átt í útistöðum við lögregluna að lögsækja hana eða ríkið ef ekki tekst að sanna sök þeirra. Aðallega er þetta þó þöggunartaktík.

Augljóslega þykir mér ekki mikið koma til ofangreindra eða þeirrar áráttu að fara í mál við allt og alla. En þegar ég heyri um þessar kærur allar verð ég sífellt ánægðari með að skrifa undir nafnleynd. Annars gæti Framsóknarflokkurinn í heild sinni og Sjálfstæðisflokkurinn sömuleiðis rúið mig inn að skinninu, og þyrftu ekki fjárlög til.

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, október 14, 2014

Ef þú klárar ekki stúdentinn núna þá áttu aldrei afturkvæmt í skóla

Menntaskólinn í Hamrahlíð leggur niður öldungadeild skólans um næstu áramót. Þetta eru mikil tíðindi því MH var fyrsti skólinn til að setja á fót öldungadeild. Og þörfin var brýn.

Vera fjallaði um öldungadeildir í 1. tbl. 1986 enda hafa þær haft mikil áhrif á möguleika kvenna til menntunar.

„Árið 1972 lét Menntaskólinn við Hamrahlíð þau boð út ganga, að nú gæfist kostur á því að lesa til stúdentsprófs í kvöldskóla í áföngum eftir þeim hraða sem hverjum og einum hentaði og það sem meira var — ekki voru gerðar neinar forkröfur nema þær að menn þurftu að vera orðnir 21 árs. Kvöldskólinn var kallaður öldungadeild. Nú varð uppi fótur og fit. Önnurnar, Siggumar, Stínurnar og hvað þær nú hétu allar saman, langþreyttar ræstingakonur, skrifstofustúlkur, bankastarfsmenn, virðulegar húsmæður á fertugs, fimmtugs, sextugs, já jafnvel sjötugs aldri mættu til leiks í stórum hópum, svo að engan, sem að fyrirtækinu stóð hafði órað fyrir slíkum undirtektum. Skólayfirvöld urðu að útvega bæði fleiri kennara og fleiri skólastofur en ráð hafði verið fyrir gert. Síðan hefur ekkert lát verið á aðsókninni. Í ár [þ.e. 1986] eru t.a.m. um 600 manns skráð í öldungadeildina en á 9. hundrað í dagskólann og á undanförnum árum hefur milli 60 og 90 manns útskrifast árlega. Mikill meirihluti þeirraeru konur, ef marka má tölurnar frá skólaárinu 1983/84 þegar 64 voru útskrifaðir úr öldungadeild MH þar af 46 konur.“

Fram að þessu hafði ekki verið annað í boði fyrir fólk sem ekki hafði klárað gagnfræðaskólann eða hætti eftir landspróf eða eftir stutta viðveru í menntaskóla en að halda áfram að vinna. Konur sem voru heimavinnandi sátu uppi með enga menntun og áttu ekki hægt um vik að komast inn á vinnumarkað þó börnin væru orðin stálpuð.
„Einstaka sjálfstæð og huguð sál settist á skólabekk með börnum sínum, í kennaraskóla, leik- eða myndlistarskóla, fóstruskóla o.s.frv. En það var undantekning. Háskólinn var harðlokaður þar sem stúdentsprófið vantaði. Menntunaþránni var fullnægt með hinum ótrúlegustu námskeiðum, sem fremur voru til ánægju en gagns, a.m.k. hvað starfsmöguleika og framhaldsmenntun varðaði.“

Með tilkomu öldungadeildarinnar stóðu þeim nú allir vegir færir. Og konurnar þyrptust í námið. Að loknu langþráðu stúdentsprófi sem stundum tók mörg ár með vinnu létu margar ekki þar við sitja heldur fóru í Háskólann. Þær komu líka allstaðar að af landinu því fljótlega spruttu upp öldungadeildir við mennta- og fjölbrautarskóla á Akranesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, Flensborg í Hafnarfirði og í Breiðholti. Kvöldskólinn í þeim síðastnefnda er enn í fullum gangi að því að best er vitað (ekki gafst tími til að skoða stöðuna í öllum skólunum) en við Menntaskólann í Hamrahlíð hefur nemendum fækkað mjög. Þörfin er líklega minni nú en þegar heilu kynslóðirnar af konum (og körlum) hrúguðust inn í skólana af uppsafnaðri þörf. Alltaf verður þó eitthvað af fólki sem er ómenntað en langar til að bæta úr því („brottfallsnemendurnir“ sem allir þykjast hafa áhyggjur af) og því er sú stefna ríkisstjórnarinnar að hætta að borga með nemendum yfir 25 ára aldri hrikalegur dómur yfir öldungadeildum, eins og sést á því að „rekstrargrundvöllur kvöldnámsins í MH er algerlega brostinn og skólanum er nauðugur einn kostur að hætta þeirri starfsemi“ (úr tilkynningu rektors).

Aðrir eru einnig uggandi vegna niðurskurðarins.

Stjórnarandstöðuþingmenn Norðausturkjördæmis segja þetta vera árás á litla framhaldsskóla úti á landi. „Þetta hefur mikil samfélagsleg áhrif þar sem litlu skólarnir úti á landi þurfa að hafa mikið fyrir tilvist sinni. Þeir halda nemendum í heimabyggð, menningarlífið blómstrar, verslun og þjónusta styrkist og störfin, eins og ég sagði áðan, verða til fyrir háskólamenntað fólk,“ sagði Bjarkey Gunnarsdóttir þingmaður VG.

Formaður félags framhaldsskólakennara bendir á að í fjárlagafrumvarpinu „er talað um að megináhersla verði lögð á að mæta óskum nemenda undir 25 ára um skólavist. Meðalaldur nemenda á starfsnámsbrautum er hins vegar 25,2 ár.“

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands frá árinu 2005 „hafði 31% Íslendinga á aldrinum 25–64 ára ekki lokið formlegu námi umfram skyldunám en heildarfjöldi þessa aldurshóps voru 150.400. Það lætur því nærri að 45 þúsund Íslendingar á þessum aldri hafi aðeins lokið grunnskólanámi árið 2005 en 60 þúsund manns hafi lokið framhaldsskóla eða viðbótarnámi og önnur 45 þúsund manns hafi háskólapróf.“ Margt af þessu fólki sem ekki hefur lokið formlegu námi umfram skyldunám gæti enn átt eftir að vilja bæta við sig menntun.(Tilvitnun í ræðu Katrínar Jakobsdóttur þáverandi menntamálaráðherra).

Það gæti orðið liðin tíð að segja reynslusögu af því að setjast á skólabekk á fullorðinsaldri, en slíka sögu sagði Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir hjúkrunarfræðingur sem er í meistaranámi í heilbrigðisvísindum en hún hóf nám í Fjölbrautarskólanum við Ármúla þegar hún var 32 ára og þriggja barna móðir.

Sú tilhugsun ein, að það sé enn von til að komast í nám þó fólk sé komið á fullorðinsaldur, hefur verið vonarljós í lífi margra sem svo loksins koma því við að setjast á skólabekk. Hið opna skólasamfélag þar sem tvítugir nýstúdentar sitja við hlið miðaldra kvenna með lífsreynslu í bunkum og hver sér námsefnið útfrá sinni lífsreynslu, er gott og eftirsóknarvert. Það er synd og skömm að ríkisstjórnin ætli nú að einskorða menntunarmöguleika við þá nemendur sem klárað geta stúdentsnám á þremur árum, skella sér strax í arðbært nám í háskóla, og storma svo útí atvinnulífið til að hamast á hjóli atvinnulífsins.

Einu sinni var markmiðið að koma á einsetnum skóla, nú á að gera hann einsleitan.

Efnisorð: ,

sunnudagur, október 12, 2014

Bleiki liturinn til bjargar

Fyrir nokkrum dögum (7. þessa mánaðar) komst þyrluflug með túrista að gosstöðvunum í fréttirnar. Þyrluflugmaðurinn hafði lent við hraunjaðarinn og hleypt fólkinu út, enda þótt almenningi sé stranglega bannað að þvælast þarna. Þarna er rennandi hraun, eiturgas og aldrei að vita hvar opnast nýr gígur. Ef rýma þarf svæðið í skyndi er alveg nóg fyrir björgunarsveitir að þurfa að hjálpa þeim burt sem hafa leyfi til að vera þar en vonlaust að eiga að giska á hvar einhver þyrla hafi hugsanlega lent eða fjallaferðajeppi stoppað og leyft túristum að spóka sig. Enda var þetta gönuhlaup harðlega átalið. Þó eru til þeir sem finnst að allt sé falt fyrir peninga og ef ríku fólki langar til að gera hættulega og bannaða hluti gegn gjaldi þá eigi bara að láta það eftir þeim. Því fólki finnst kannski bara gott á björgunarsveitirnar að hætta lífinu til að bjarga forríku vitleysingunum og þyrluflugmanninum þeirra ef illa fer. Og líklega treysti flugmaðurinn á slíka björgun, ja eða fyrirtækið sem sendi hann.

Þyrlufyrirtækið sór af sér að selja ferðir þar sem þyrlum væri lent við gosið, enda þótt myndir sem sýna annað hafi verið notaðar til að skreyta vefsíðu fyrirtækisins og sagði að flugmaðurinn hefði tekið þetta upp hjá sjálfum sér, hann verður þó ekki rekinn. (Ferðaþjónustur með jeppaferðir á hálendið sverja líka alltaf af sér að neinn á þeirra vegum aki utanvega, samt segja túristarnir sem fara með þeim aðra sögu.*) Allt er þetta nokkur álitshnekkir fyrir þyrlufyrirtækið. Þar til nú.

Í dag birtist þessi fína frétt á Vísi um að þyrlufyrirtækið taki þátt í Bleikum október, árveknis-og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands: „Mun Krabbameinsfélagið njóta góðs af sölu Reykjavík Helicopters í mánuðinum en ákveðinn hluti hennar mun renna til söfnunarinnar.“ Það er ekki Krabbameinsfélagið sem sendir inn fréttatilkynninguna, heldur þyrlufyrirtækið sjálft. Í leiðinni notar það tækifærið og auglýsir sérstakar „bleikar“ útsýnisferðir um nágrenni Reykjavíkur. Þyrlan í baksýn er bleikmáluð.

Nú veit ég auðvitað ekkert um hvenær þessi ákvörðun var tekin eða hvað langan tíma tekur að heilsprauta þyrlu, en ég veit að það er kominn 12. október og mig grunar að fyrirtæki sem hafi ætlað að vera með í bleiku herferðinni í október hafa líklega flest löngu ákveðið það og reynt að vera með frá mánaðarmótum.** Mig grunar semsé, verandi nú tortryggin og illa innrætt, að hér sé verið að bjarga ímynd fyrirtækisins með „bleikþvotti“. Bleikþvottur er „birtingarmynd þeirrar jákvæðu ímyndar sem fyrirtæki getur öðlast með því að tengja sig málstaðnum,“ sagði Helga Þórey Jónsdóttir í Knúzgrein í fyrra,*** og spyr
„hvaða áhrif hefur það á fyrirtæki á samkeppnismarkaði að tengja ímynd sína við lækningu á hræðilegum sjúkdómum í hagnaðarskyni? Tengja sig við von kvenna um bata og lengra líf?“

Það kemur í ljós. Kannski tekst þyrlufyrirtækinu með þessari bleiku ímyndarsköpun að tengja sig við lífsvon í stað lífshættu í huga einhverra. Ég er ekki sannfærð.

___
*[viðbót:] Við þetta má bæta að þeir sem selja torfæruhjólamönnum ferðir um hálendið hafa einnig gerst uppvísir að því að bjóða uppá utanvegaakstur. Sjá frétt um ferð á vegum Arctic Rider og myndband utanvegartúristanna.

**[viðbót:]Um miðjan október voru Eimskip og Samskip kærð fyrir ólöglegt samráð. Rannsókn hófst í fyrra. Samkvæmt kærunni hafa fyrirtækin skipt á milli sín viðskiptum við fyrirtæki og heilu landshlutana. Á bleika deginum, tveimur dögum eftir að ákæran varð fréttaefni, veitti Eimskip Krabbameinsfélaginu styrk. En sú tímasetning er nú örugglega bara tilviljun.
*** Auk Helgu Þóreyjar hafði Hilma Gunnarsdóttir Druslubókardama einnig skrifað gagnrýni á bleika krabbameinsátakið, og hvet ég lesendur til að lesa greinar Hilmu og Helgu Þóreyjar.

Efnisorð: ,

laugardagur, október 11, 2014

Óheppilegt.is

Það var nú aldeilis gott að brugðist var fljótt við og lokað fyrir vefsíðu íslömsku vígamannanna í ISIS sem notaði íslenska lénið .is í algjörri óþökk íslenskra ráðamanna og líklega allrar þjóðarinnar. Því eins og maðurinn sagði: „Ég held að þetta hljóti að teljast óheppilegt fyrir okkur Íslendinga.“

Svo er afturámóti spurning hvaðan ISIS fékk þessa hugmynd?


#sakleysiðuppmálað

Efnisorð: ,

föstudagur, október 10, 2014

Kornung kvenréttindakona hlýtur nóbelsverðlaun

Nóbelsnefndin tilkynnti í dag að friðarverðlaun Nóbels fengju að þessu sinni tvær manneskjur. Fyrst ber að nefna Kailash Satyarth sem er indverskur og berst „fyrir réttindum barna, sem oft verða að eyða æskuárunum við vinnu fremur en nám“. Malala Yousafzai er öllu þekktari á vesturlöndum eftir að talibanar skutu hana þegar hún var á leið heim úr skóla í Pakistan. Þá var hún fimmtán ára en hafði frá ellefu ára aldri barist opinberlega fyrir rétti kvenna til menntunar, en talibanar bönnuðu stúlkum og konum að ganga í skóla. Síðan þá hefur hún eflst í baráttunni heldur en hitt. Nú er hún sautján ára og yngsta manneskja sögunnar til að hljóta friðarverðlaun Nóbels.

„Í báðum tilvikum, bæði hjá Malala og Satyarthi, er áherslan á rétt barna til menntunar, hvort sem þau eru órétti beitt vegna vinnu eða trúarofstækis. Með því að veita Malölu verðlaunin nú er líka á vissan hátt verið að bæta fyrir að hún fékk þau ekki í fyrra heldur stofnun, sem ekki var byrjuð að vinna vinnuna sína. Nú var henni spáð verðlaununum, sérstaklega vegna framgangs íslamskra öfgahreyfinga eins og Íslamska ríkisins og Boko Haram og baráttu þeirra gegn mannréttindum, þar á meðal gegn réttindum kvenna. Malala er rakin andstæða slíkra hópa.“
(úr frétt á rúv.is)

Friðarverðlaunahafar hafa ekki alltaf þótt verðugir verðlaunanna, en víst er að í ár tókst vel með valið. Samtök íþróttamanna hefðu auðvitað sagt að Malala væri of ung, hún væri enn bara unglingur, en meira segja Nóbelsverðlaunanefndin féll ekki í þá gryfju.
Efnisorð: , , , , ,

fimmtudagur, október 09, 2014

Ekki óvænt en samt svekkjandi

Það var auðvitað óþarfi af mér að dylgja um sekt og sakleysi Landsbankastjórans fyrrverandi í síðustu færslu, hann verður auðvitað sýknaður. Frjálshyggjustefna þáverandi stjórnvalda (sem því miður eru aftur komin við völd) var búin að liðka til í regluverkinu svo það mátti nánast allt, þessvegna brutu fjárglæframenn líklega ekki lög í neinum svipuðum mæli og skaðinn af gjörðum þeirra. En það er auðvitað svekkjandi fái þeir sýknudóma (og teljist því saklausir um alla eilífð í hugum þeirra sem hugsa allt útfrá saklaus uns sekt sannast).

Það eru fleiri dómsmál en yfir banksterum og í dag voru birtar fréttir um dóma sem vöktu kannski ekki beint undrun (enda löng reynsla af því að sjá ömurlegar dómaniðurstöður) en voru samt svekkjandi þó af ólíkri ástæðu væri.

Fyrst má nefna dóma yfir níumenningunum sem ákærðir voru fyrir mótmæli í Gálgahrauni. Þau voru öll dæmd sek og á hvert um sig að borga 100þúsund í sekt og málskostnað að auki sem er 150þús hjá hverju fyrir sig. Í sjálfu sér er það ekki upphæðin — þó flest fólk muni alveg um 250þúsund — heldur að fólk sem mótmælir friðsamlega sé dregið fyrir dómstóla og lýst sekir menn, sem er ömurlega svekkjandi.

Hinn dómurinn sem var ekki óvæntur en þó svekkjandi: karlmaður sem var sakaður um nauðgun var sýknaður í héraðsdómi í desember í fyrra. Ég get nánast skrifað upp orðrétt það sem ég skrifaði um Hótel Sögu nauðgunina, en þar var nauðgarinn fyrst sýknaður í héraðsdómi og svo (eftir ýmsar vendingar) dæmdur sekur í Hæstarétti. Og þá sagði ég eftir að hann hafði verið sýknaður:

„Sé litið á dóminn má lesa þar enn ein skilaboðin um að konum sé réttnauðgað hvar sem til þeirra næst. Kona sem er þaraðauki drukkin, sem þaraðauki á kurteisleg orðaskipti við ókunnuga karlmenn … Og eins og ekkert sé, er líka gefið til kynna, að konur sem þó vilja skyndikynni með ókunnugum karlmönnum … séu einmitt þær sem svo bresta í grát að þeim loknum …“

Við þetta má bæta að stúlkan í dómnum hafði farið heim með manni sem hún svaf sjálfviljug hjá, en þegar hún ætlaði að fara rakst hún á frænda hans í íbúðinni, að hans sögn vildi hún kynlíf með honum líka, en hún afturámóti segir að hann hafi nauðgað sér. Nú er það auðvitað alveg til í dæminu að konur vilja skyndikynni og jafnvel kynlíf með fleirum en einum sama kvöldið — en eru það þá sömu konurnar sem fara grátandi til vinkvenna sinna og segja að sér hafi verið nauðgað? Ef konan stundar kynlíf af fúsum og frjálsum vilja er varla tilefni til að gráta eða kæra.

En nei, það er vandlega gefið í skyn í dómnum og frétt Vísis (þarsem athugasemdakerfið er opið og þarmeð veiðileyfi á stelpuna*), að stelpa sem sefur hjá einum gaur hlýtur að vilja þann næsta líka. Ef hún þekkir þann fyrri lítið (en hefur þó myndað sér þá skoðun á honum að hún vilji sofa hjá honum og fer heim með honum til þess) hefur hún enga ástæðu til að neita þeim seinni (enda þótt hún hafi ekki haft neinn umþóttunartíma heldur var drifin inní svefnherbergi). Það að seinni strákurinn grobbar sig af að hafa stundað kynlíf með henni í einu orðinu og þrætir fyrir það í næsta, það er talið honum til tekna, sérstaklega þetta með grobbið. Svona einsog karlmenn sem hafa nauðgað hafi aldrei sagt frá því sem grobbsögu þar sem stelpan auðvitað vildi það.

Já og svo er það líka notað gegn stelpunni að hún á að hafa farið að skemmta sér næstu helgi. Hvað hafa nú aftur verið birt mörg viðtöl og greinar eftir konur sem segja að eftir nauðgun hafi þær reynt að deyfa sig með áfengi, jafnvel árum saman.

En nei, þessi dómur er auðvitað bara í stíl við svo marga marga aðra dóma þar sem kona sem kærir er vegin og léttvæg fundin. Það er samt alltaf svekkjandi.

___
* Viðbót: svo virðist sem athugasemdakerfinu hafi verið lokað um það leyti sem bloggfærslan var birt, eftir að hafa verið opið allan daginn.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, október 08, 2014

Er selt inná þennan sirkus?

Er ekki hægt að hafa beina útsendingu frá réttarhöldum yfir Sigurjóni Þ Árnasyni fyrrum Landsbankastjóra? Það væri hægt að nota Alþingisrásina í það, og yrði ágæt tilbreyting frá því að fylgjast með þruglinu þar á bæ. Þá er nú skemmtilegra að sjá gullætuna Sigurjón líkja sér við venjulegt fjölskyldufólk. Blásaklaust fjölskyldufólk þar að auki.(Myndin tengist ekki efni bloggfærslunnar beint)

Þykist Sigurjón vita eitthvað um venjulegt fjölskyldufólk, hvað það brallar og hvernig því líður?

Það er reyndar til fjölskyldufólk um allt land, og jafnvel í öðrum löndum, sem þarf enn að líða fyrir það sem Landsbankinn undir stjórn Sigurjóns var að bralla, en það má líklega ekki minnast á það, nóg hefur blessaður sakleysinginn þurft að kveljast samt. Verjandinn hans hefur meira segja sagt að Sigurjón hafi sætt andlegum pyntingum með öllum þessum ásökunum.

Merkilegt annars að ég finn ekkert um eldræðu Sigurjóns hina síðari á vef DV í dag, og hefði ég þó haldið að þar á bæ þætti hún uppsláttarefni. En kannski hefur nýi eigandi DV, þessi sem situr Sigurjóni á hægri hönd og skrifar um andlegar pyntingar, eitthvað með það að gera. Vefur Ríkisútvarpsins og Vísir hafa sannarlega ekki látið sitt eftir liggja í umfjöllun um þetta skuespil. En nú er gott fyrir Sigurjón að Sigurður G hafi komið DV í þá stöðu að geta ekki fjallað um mál sem varðar eigendur þess (ef það er þá ástæðan fyrir þögninni en ekki beinlínis bann á fréttaflutning af hálfu stjórnar DV). En nú er ég kannski að gera Sigurði upp vondar sakir, hann er eflaust gæðablóð og vonandi ver hann blásaklausa fjölskyldumanninn frítt enda vofir gjaldþrot yfir hinum ákærða að hans eigin sögn verði hann sakfelldur (ætli hann sé búinn að týna reikningsnúmerum í bæði aflandseyjum og skattaskjóli?).

Það er gott hjá Sigurjóni að fylgjast með tískunni og láta sér vaxa skegg. Hann er kúl á skyrtunni og sniðugt hjá honum að mæta með IKEA pokann. Einu skiptin sem hann skýtur verulega yfir markið er þetta smáatriði með sakleysið og venjulega fjölskyldumanninn.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, október 07, 2014

Já en hvað sagði Illugi svona slæmt sem ekki var þegar skrifað í heilagri ritningu?

Þegar ég hlustaði á Frjálsar hendur Illuga Jökulssonar þar sem hann fjallaði um skrítnar sögur úr biblíunni áttaði ég mig ekki á efni þáttanna gætu vakið upp úlfúð. Ég er líklega of mikill trúleysingi til að láta mér einusinni koma slíkt til hugar, fyrir mér var þetta bara fyrst og fremst fróðlegt og skemmtilegt, eins og þættir Illuga almennt eru. Hann endursagði sögur sem ég mundi ekkert eftir þó ég hafi fyrir margt löngu lesið biblíuna spjaldanna á milli. Það sem situr þó helst í minninu eru sögurnar sem ég hef margheyrt síðan, þessar algengustu sem sífellt eru sagðar eða vitnað til í bókum og bíómyndum (og svo sú uppgötvun að þar væri engan guð að finna, og þarmeð gerðist ég sannfærður trúleysingi*).

Þannig að ég var öll ein eyru og gleymdi alveg að gera ráð fyrir hinum hlustendunum, þessum sem ýmist hafa aldrei lesið biblíuna (sem á við um fáránlega margt kristið fólk) eða gjörþekkja hana (einsog guðfræðingar) en vilja bara hampa heppilegum dæmisögum og jákvæðum boðskap Jesú, en ekkert skoða allar mótsagnirnar eða ógeðið. Og á því kýli afneitunarinnar stakk Illugi með þessum þáttum.


Hér fylgir endursögn mín á þáttunum tveim sem aðgengilegir eru á Hlaðvarpi (en bara annar þeirra fannst á Sarpi). Ég set hlekki á ritningarstaðina eftir bestu getu (afsakið grautarlegar tilvísanir), það er líka hægt að fletta sjálf hér eða hér, en eflaust er ágætt að fletta í bókinni sjálfri meðan hlustað er á Illuga. Mín bók, og þær sem ég vísa í á netinu virðast reyndar ekki alveg samhljóða þeirri útgáfu sem Illugi notar. En hefst þá lesturinn.

Fyrri þáttur Illuga, Skrítnar sögur úr Biblíunni (eða má ég vona fyrsti af mörgum?) frumfluttur 21. september.

Skrítna og ógeðfellda sagan sem þátturinn byrjar á, um gestrisnina í Gíbeu, reynist vera úr Dómarabókinni, 19. kafla 1-30 vers (Dm 19.1-30) og er andstyggileg saga, einsog Illugi segir réttilega. Biblían, nánar tiltekið Gamla testamentið, og ég vitna enn í Illuga, segir frá hinum ýmsu ævintýrum hinna tólf ættbálka í Ísrael hinu forna. Og ræðir hann svo um það samsafn sem gamla testamentið er og þá staðreynd að í þeirri bók er sagt frá skefjalausu ofbeldi sem guð sjálfur beitir og er þó mörgum ofbeldissögum að dreifa. Stundum sendir guð mikilmenni til að kippa hlutum í lag. Framhald sögunnar sem þátturinn byrjar á er um refsidóm á ættkvísl Benjamíns (Dm 20 15-48) en Benjamínítar höfðu lengi betur gegn Ísraelsmönnum. En svo snerist taflið við og aðeins sexhundruð Benjamínítar lifðu eftir gereyðinguna, allt karlar. Ættin var því dauðadæmd. En svo fundu Ísraelsmenn leið, drápu alla í heilli borg til að geta hirt eftirlifandi hreinar meyjar handa Benjamínítunum, því ekki gekk að bjóða þeim uppá „notaðar kellingar“ (Dm 21. 1-25). Illugi undrast að þetta séu frásagnir úr Biblíunni sem á að vera okkur einhversskonar siðferðilegur Hvannadalshnjúkur. En höfundarnir segja svona sögur eins og ekkert sé, og það sem fer fram er með vitund og jafnvel vilja guðs almáttugs, sem við eigum að trúa að sé algóður líka, en hann leggur sjálfur á ráðin um önnur og ekki síðri myrkraverk.

Fyrri hluti sögunnar, um gestrisnina í Gíbeu, sem ég hirti ekki um að endursegja, minnti mig mjög á söguna af Sódómu, eða öllu heldur Lot og dætur hans (enda er hún mjög fræg og oft rifjuð upp), og hana rifjar Illugi einmitt upp (Fyrsta Mósebók 19 kafli 1-36 vers). Hann segir lok sögunnar vera sagða frá sjónarhóli Lots sem afsaki gjörðir sínar með því að dætur hans hafi sjálfar viljað það, en það sé algengar afsakanir barnaníðinga og nauðgara. (Það fannst mér mjög gott hjá honum því ég sá nýlega einhverja vitleysinga skrifa um söguna af Lot og vorkenndu honum ógurlega að hafa verið nauðgað af dætrum sínum og engir feministar hefðu fordæmt þær). Það eru semsagt tvær sögur með nokkurra blaðsíðna millibili um svipaða atburði og Illugi ræðir það.

Ekki snúast allar skrítnu sögurnar um ofbeldi og blóðsúthellingar. Illugi fjallar um vitranir Esekíels (Esk 1.kafli, 4. kafli, 37. kafli o.fl.) og ýmsar furður aðrar. Þannig segir frá því í fjórða kafla að guð lagði fyrir Esekíel að hann ætti að neyta brauðs bökuðu í mannaskít. En guð leyfir honum að baka brauðið uppúr kúamykju í staðinn. Í þessu var semsagt miskunn guðs fólgin, segir Illugi.

Og þannig var þessi fyrsti þáttur, hneykslanlegur á margan hátt, en þó aðallega vegna þess að til er fólk sem lítur á biblíuna sem helga bók.

Seinni þáttur, Skrítnar sögur úr Biblíunni, frumfluttur 28. september.

Illugi ræðir plágurnar tíu sem gengu yfir Egyptaland því Faraóinn leyfði ekki Ísraelsmönnum að yfirgefa Egyptaland. Mannfall í plágunum er rakið og bent á að í hvert sinn sem Faraó ætlar að ganga að kröfum guðs og leyfa Ísraelsmönnum að fara, en þá herti guð hjarta hans og honum snerist hugur. Og þá dundi næsta plága yfir. (Plágurnar eru í 2. Mósebók frá 7:1 (þarsem guð segir Móse beinlínis að hann muni herða hjarta Faraós) til og með 2M 12:34.) Síðasta plágan segir Illugi að hafi verið verst, en þá deyddi guð alla frumburði Egyptalands, frumburðir fénaðarins meðtaldir, og það munu hafa verið 500 þúsund manns. Reyndar hafi guð verið enn stórtækari í síðari Kroníkubók þegar hann drap eina milljón Eþíópíumanna (Síðari Kronikubók 14 kafli 9 vers). (Útreikningar Steve Wells á fjölda þeirra sem guð Biblíunnar hefur drepið.)


Illugi undrar sig á að plágurnar hafi verið teknar sem merki um gæsku guðs og að þessum sögum hafi yfirleitt hafi verið trúað.

Önnur Mósebók er næst á dagskrá, fæðing Móse og hjónaband. Einnig fjórði kafli (2M 4:24-26) þar sem sagt er frá árás guðs á Móse og furðulega umskurn sonar hans. Umskurður var fáránlega mikilvægur hjá gyðingum til forna, og kannski enn, sagði Illugi, meirasegja átti að umskera þræla. Og segir til viðbótar að guð hafði ekkert á móti þrælahaldi og talaði um þrælahald sem hinn eðlilegasta hlut. Og sjálfur Jesú hafi aldrei sagt að það væri eitthvað athugavert við þrælahald.

Í síðari konungabók (2. kafla 19-25 versi) er talað um þegar spámaðurinn Elísa lenti í hópi stráka sem stríddu honum á að hafa skalla og skógarbirnir „rifu í sundur fjörtíu og tvo af drengjunum“.

Þá lítur Illugi aftur í Dómarabókina í 3. kapítula,um Ehúð sem drap Móabskóng. (Dómarabókin 3. 16-25.) (Hér er greinilega vísað á aðra útgáfu biblíunnar en Illugi notar). Þetta kallar Illugi saurugt launmorð og segist aldrei hafa heyrt presta leggja útaf þessu.

Meira um forhúð. Fyrri Samúelsbók (1S kafli 18. 17-30), þar sem Sál leggur snöru fyrir Davíð (þann sem drap Golíat) og býður honum dóttur sína ef hann færði sér forhúðir hundrað Filistea, en Davíð auðvitað drap tvöfalt fleiri Filistea, segir Illugi, og rogaðist til konungs með tvöhundruð forhúðir. Illugi bætir því við að engar heimildir séu til um neinn Davíð, sem þó á líka að vera höfundur sálmanna í Nýja testamentinu.

Í Nýja testamentinu ber Illuga niður í Markúsarguðspjall, eftir að hafa rætt um kristsvæðingu fyrstu aldar eftir Krist. Særing þar sem óhreinum öndum er sigað á svín sem svo drukknuðu eftir að hafa kastað sér fyrir björg, en það þykir Illuga ekki góð meðferð á svínum (Markús 5. kafli 1-19). Einnig segir frá því þegar Jesú er ekki mildari í skapi en svo að hann bölvar yfir fíkjutré sem ekki bar fíkjur á þessum árstíma en Jesú langaði í fíkjur. Svo sjá þeir lærisveinarnir tréð eftir að það hafði visnað (Mk 11. 12-14, og Mk 11. 20-22). Allraskrítnasti kaflinn í Markúsarguðspjallinu að mati Illuga er þó handtaka Jesú í Getsemanegarðinum sem endar á að nakinn náungi sem ekki var einn lærisveinanna flýr af vettvangi (Mk 14. 32-52). Ýmislegt gefur Illugi í skyn um það sem betra er að heyra hann sjálfan segja frá.

Og lýkur þar öðrum þætti Illuga sem gerði guðfræðingum svo gramt í geði.


___
* Enn hef ég ekki komið því í verk að lesa biblíuna aftur. Hef þó fylgst með öðrum lesa hana spjaldanna á milli og gefa skýrslu um lesturinn. Úlfar Þormóðsson gaf út heila bók um lestrarreynsluna, sem hann kallaði Þú sem ert á himnum: Rýnt í bresti biblíunnar með guði almáttugum, og Bergþóra Gísladóttir bloggaði þegar hún las alla biblíuna á einu ári. Hér er það sem hún sagði um Esekíel.

[Viðbót:] Illugi var ekki af baki dottinn þrátt fyrir skammirnar. Í Fréttablaðinu og Vísi birtist síðla í október eftir hann grein sem er hluti af greinaflokki sem í blaðinu er kallaður Flækjusaga en á Vísi er flokkaður undir „Lífið“, af einhverjum dularfullum ástæðum. Greinin heitir „Að skrökva upp á sig fjöldamorðum“ og fjallar um margt af því sama og útvarpsþættirnir, og er bráðskemmtileg eins og þeir.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, október 04, 2014

Hver er munurinn á 57.000 og 496.000. Reiknið. Skilið skriflegri úrlausn.

Eftir uppstokkun á dagskrá Ríkistútvarpsins heitir þátturinn Samfélagið í nærmynd bara Samfélagið. Hanna G. Sigurðardóttir og Leifur Hauksson sjá þó ennþá um þáttinn og hann er ennþá jafngóður og áður. Í þætti sem var fluttur 2. október var talað við forstöðumann Stofnunar um fjármálalæsi (en það er lestrarpróf sem ég eins og flestir Íslendingar myndi falla á) og var hann að fjalla um það sem áður hafði komið fram í grein í Kjarnanum, en hana hafði ég ekki lesið enda forðast ég lesefni með súluritum, skífuritum og allrahanda línuritum og fyllist lesblindu þegar mörgum prósentumerkjum er stráð yfir texta. Nema hvað, þetta reyndist allt hið fróðlegasta mál og hér fyrir neðan tek ég saman úr greininni og viðtalinu og birti á þann hátt sem mér þykir einfaldari.

12 þúsund manna hópur var rannsakaður og skipt í fjóra hópa eftir tekjum. Ég sýni niðurstöður fyrir tekjulægsta hópinn og svo tekjuhæsta hópinn.

A) Meðalráðstöfunartekjur lægsta hópsins eru kr. 170.792 á mánuði.
Tekjulægsti hópurinn ver tæpum 24% tekna sinna í matvöruverslunum,
Aðrir útgjaldapóstar eru t.d. eldsneyti, ÁTVR, lyfjaverslanir, raftækjaverslanir o.fl. (alls tíu flokkar verslana).
Þegar tekjulægsti hópurinn hefur greitt þessa neyslu sína á hann tæpar kr. 57.000 aflögu til annarra nota.

B) Meðalráðstöfunartekjur næstlægsta hópsins eru kr. 292.537 á mánuði.

C) Meðalráðstöfunartekjur næsthæsta hópsins eru kr. 407.076 á mánuði.

D) Meðalráðstöfunartekjur tekjuhæsta hópsins eru kr. 699.782 á mánuði.
Þegar tekjuhæsti hópurinn hefur greitt neyslu sína (tíu flokkar verslana) á hann tæpar kr. 496.000. til annarra nota.

Ef tekjulægsti og tekjuhæsti hópurinn er borinn saman þá sést að:
tekjulægsti hópurinn ver tæpum 24% tekna sinna í matvöruverslunum á meðan sá tekjuhæsti ver tæpum 11% tekna sinna þar.
Tekjulægsti hópurinn eyðir 2/3 ráðstöfunartekna sinna í þessa tíu flokka,
en tekjuhæsti hópurinn eyðir tæpum þriðjungi ráðstöfunartekna sinna.
Þegar tekjulægsti hópurinn hefur greitt þessa neyslu sína á hann tæpar kr. 57.000 aflögu til annarra nota á meðan sá tekjuhæsti ræður yfir rúmum kr. 496.000.

Verst með fjármálaólæsið mitt. Annars gæti ég kannski lesið einhverja stéttskiptingu eða misskiptingu auðs útúr þessum tölum.

Því miður var hvorki í greininni né útvarpsþættinum verið að skoða hvernig hækkun á vsk (matarskattur) eða lækkun á vörugjöldum (sykur, raftæki) koma til með að hafa áhrif á ráðstöfunartekjur þessara hópa. Mitt besta gisk er þó að það hafi óveruleg áhrif á tekjuhæsta hópinn en höggvi eitthvað í 57þúsund kallinn hjá þeim tekjulægstu.

Efnisorð: ,

föstudagur, október 03, 2014

Múslimahatarar og aðrir fávitar bera ábyrgð á flutningi ríkisstofnana

Þetta er líklega rétti tíminn til að rifja upp að Framsóknarflokkurinn bauð fram í Reykjavík í síðustu sveitarstjórnarkosningum undir nafninu Framsókn og flugvallarvinir. Nú rær nefnilega ríkisstjórnararmur Framsóknar að því öllum árum að því að treysta Reykjavíkurflugvöll í sessi með því að flytja ríkisstofnanir útá land. Þá munu starfsmenn Fiskistofu (eða a.m.k. þessi eini sem er tilleiðanlegur að flytja norður) starfsmenn nýrrar stofnunar (eða sem heitir hjá ríkisstjórninni nýjar stofnanir, en það er þegar mörgum stofnunum er hrúgað saman ofan í eina tösku og þær sendar útá land, hér t.d. Barnaverndarstofa, Fjölmenningarsetur, réttargæslumenn fatlaðs fólks auk verkefna sem félagsmálaráðuneytið sinnir) og hugsanlega starfsmenn enn fleiri stofnana, vera á sífelldu flugi frá nýju heimkynnunum til höfuðborgarinnar þar sem býr flest af því fólki sem það á að þjónusta.

Það er ekki nóg að þeir sem kusu Framsókn vegna stærstu skuldaleiðréttingar í heimi horfist í augu við fávitaskap sinn — en það er sannarlega þeim að kenna að nú er þessi ríkisstjórn við völd — heldur mættu kjósendur Framsóknar og flugvallavina líka fara að gera sér grein fyrir því að einnig þeir bera ábyrgð á fyrirhuguðum flutningi ríkisstofnana út á ystu nöf.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, október 01, 2014

Angist þeirra sem eru rændir og skilja Framsóknarflokkinn en ekki bændur og hata þetta helvítis feðraveldi

Alltíeinu kominn október og ég sem ætlaði að skrifa um svo margt í september. Lausnin er að hrúga öllu saman í eina bloggfærslu með lítilli fyrirhöfn.

Nokkrir pistlar sem ég mæli með

— Kristín Elfa Guðnadóttir skrifaði pistilinn „Angist mánaðarmótanna“ um aðstæður þeirra sem eiga ekki fyrir mat og þurfa að reiða sig á hjálparstofnanir. Kristín þekkir þessa angist af eigin raun er nú orðin áheyrnarfulltrúi í velferðarráði Reykjavíkurborgar fyrir hönd Pírata (hér er semsagt brugðið á þá nýbreytni að vera ánægð með eitthvað sem einhver Pírati gerir).

— Ágúst Guðmundsson kvikmyndaleikstjóri skrifar um höfundarrétt og stuld á höfundarverkum í pistli sem hann nefnir „Frelsi til að taka eigur annarra“. Ég á erfitt með að skilja fólk sem stelur kvikmyndum eða horfir á stolnar kvikmyndir. Sama gildir auðvitað um tónlist og aðra listsköpun. Hvernig líður þjófsnautunum þegar sá sem stolið hefur verið frá tjáir sig um stuldinn? Þið getið æft ykkur með að lesa pistil Ágústs.

— Sif Sigmarsdóttir skrifaði alveg hreint dásamlega grein um hvernig hún fór að því að skilja Framsóknarflokkinn.

„Ég hef gjarnan litið á Framsóknarflokkinn sem óleysanlega pólitíska Sudoku-þraut. Ég efldist í þeirri skoðun minni við fréttir síðustu vikna. Hærri vaskur á bækur. Flutningur Fiskistofu út á land. Áburðarverksmiðja. En svo komst ég í Stiklað á stóru í sögu mannkyns.

Kæri lesandi, ég boða yður mikinn fögnuð. Hinn alíslenski Framsóknarflokkur vinnur að því hörðum höndum að bjarga jörðinni frá glötun. Hvernig? Jú, með því að snúa þróun mannsins við.“

Það kætir hressir og bætir að lesa grein Sifjar (alveg öfugt við þunglyndið sem steypist yfir mann við tilhugsunina um Framsóknarflokkinn og ríkisstjórnina).

Grein sem ég er sammála sumstaðar en skil ekki rest

— Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifar um landbúnaðarkerfið. Ég hef alltaf hrokkið í vörn þegar talað er illa um bændur útaf styrkjakerfinu og þeir — sem þó virðast ekki ofsælir af sínum hlut — eru ásakaðir um að vera baggi á þjóðarbúinu. Ég er haldin sveitarómantík, vil að hér séu bændur sem halda sauðfé, kýr og hesta (geitur ef vill), heyja ofaní skepnurnar og er annt um bústofninn og góðir við dýrin.

Ég er semsagt ein þeirra sem hef „tilfinningaríka afstöðu til sveitanna“ einsog Þröstur segir.
„Þessi tilfinningatengsl eru ekki til staðar gagnvart nokkurri annarri starfsstétt. Þess vegna eigum við erfitt með að gera greinarmun á landbúnaðarkerfinu og bændum. Gagnrýni á kerfið er tekin sem árás á bændur.“
Það er auðvitað eitthvað skrítið við kerfi þar sem bæði bændur og neytendur koma illa út úr dæminu, og það má gagnrýna. Ég veit ekkert um skattgreiðslur bænda eða þeirra bókhald yfirleitt en mér þótti óneitanlega fyndin setningin sem höfð er eftir fyrrverandi ríksskattstjóra sem sagði:
„Já, fyrsta grein skattslaganna hefur aldrei verið skrifuð. Hún ætti að hljóða: Þrátt fyrir ákvæði laga þessara, skulu þau ekki gilda um bændur.“
Burtséð frá skattalögum þá er landbúnaðarkerfið „tyrfið. Aðeins sérfróðir kunna full skil á gangverki þess.“ Það er þá von að ég hafi aldrei skilið það, en vegna þess að ég skil það ekki nógu vel er ég ekki viss um að ég sé sammála Þresti um að það sé slæmt að um landbúnaðinn gildi sérlög. Sveitarómantíkerinn í mér neitar því að þetta sé einsog hver önnur atvinnugrein. Það sýnist mér vera leið sem leiðir til verksmiðjubúskapar. En hvað veit ég svosem.

Að síðustu:

Leikdómur sem kætti mig ógurlega

— Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar um leiksýningu þar sem sagan sem er sögð fór í taugarnar á honum. Það var nefnilega verið að gagnrýna „þetta helvítis feðraveldi“. Jakobi Bjarnari er svo mikið niðri fyrir að hann notar orðið 'feðraveldi' fimm sinnum í leikdómnum auk þess að nota það í titilinn. Hann gefur leikritinu bara tvær stjörnur í bræði sinni* yfir að annað eins umfjöllunarefni — þessi margsagða og þrautpínda saga — skuli vera borið á borð fyrir áhorfendur. Og svo fellur náðarhöggið (glöggir lesendur kannast við orðalagið): „List sem gerist taglhnýtingur kennivaldsins … er einskis virði.“

_____
* Geðprúðari leikhúsgagnrýnandi sagði um sama leikrit: „Brotnar fjölskyldur hafa svo sannarlega verið efniviður listarinnar, óuppgerð mál þeirra með tilheyrandi flækjum hafa verið endalaus uppspretta rithöfunda og leikskálda í gegnum tíðina.“ Og virðist ekkert hafa farið á taugum yfir að unnið hafi verið með kunnuglegt minni um „hinn alltumlykjandi faðir sem öllu ræður, meira að segja út fyrir gröf og dauða“. En kannski er þessi leikhúsgagnrýnandi bara ekki eins þjakaður af tilhugsuninni um að einhver geti lesið gagnrýni á feðraveldið útúr efni verksins.


Efnisorð: , ,