mánudagur, maí 31, 2010

Einu sinni var land sem nú er horfið

Bíafra var ríki í vestur Afríku sem nú er horfið af landakortinu. Það stóð enda stutt, um tvö og hálft ár eða frá maí 1967 til janúar 1970.

Forsaga málsins er sú að Nígería fékk sjálfstæði frá Bretum 1960. Nýlenduherrarnir höfðu dregið landamæri Nígeríu með reglustiku og tóku ekki tillit til þess að í norðri bjuggu múslimar en í suðri voru menn ýmist kristnir eða trúðu á stokka og steina. Eftir að Nígería fékk sjálfstæði vildu margir skipta landinu útfrá ættbálkum í stað reglustikuskiptingarinnar og Igbo menn í suðaustri — en þar eru olíulindirnar — lögðust í hernað og drápu m.a. forsætisráðherrann og þrjátíu aðra. Þessu var svarað af hörku. Eftir samningaumleitanir klufu suðausturbúarnir sig svo frá Nígeríu og tilkynntu um stofnun sjálfstæðs ríkis, Bíafra. Landið var bæði landfræðilega og pólitískt einangrað en Bretland, Bandaríkin og Sovétríkin studdu Nígeríu.*

Í júní 1969 stöðvaði Nígería alla aðstoð Rauða krossins við Bíafra, leyfði svo lyfjadreifingu en aðeins afar takmarkaða mataraðstoð.** Höfuðpaur Bíaframanna bað þá Sameinuðu þjóðirnar um að hafa milligöngu um vopnahlé og flúði svo land þegar hann sá að allt var tapað. Rúmlega milljón manns hafði dáið í vopnaviðskiptum eða úr sulti. Nígería var aftur orðið eitt land.*** Bíafra hvarf af landakortinu.

Ég rifja sögu Bíafra upp nú því mér sýnist Ísraelsmenn vera á sömu buxunum og stjórnvöld í Nígeríu meðan á stríði þeirra við Bíaframenn stóð. Það á að svelta Palestínumenn inni og neita þeim um utanaðkomandi aðstoð hvað sem það kostar.

Áður hafa Ísraelar byggt múr til að loka Palestínumenn af, sbr. Berlínarmúrinn og beita ekki síðri aðskilnaðarstefnu en apartheit var í Suður-Afríku svo það virðist líklega rökrétt framhald að reyna að þurrka Palestínu af landakortinu eins og Bíafra. Og nota til þess sömu meðöl.

Alþjóðasamfélagið hefur margsinnis baðað út öllum öngum þegar Ísraelar hafa gengið fram af öllu siðuðu fólki með framferði sínu gagnvart Palestínumönnum. En meðan Bandaríkin bakkar Ísrael upp og neitar að taka af skarið til að stöðva þessi ósköp (nei, ég er ekki að tala um hervald, heldur að hætta að styðja þá til illvirkja) þá kemst Ísrael endalaust upp með þennan skepnuskap gagnvart Palestínu.

Ég fór ekki á fyrirlestur Susan Abulhawa í Þjóðmenningarhúsinu í gær en ég heyrði brot af viðtali við hana í Speglinum. Þar talaði hún um að hún vildi að Ísraelar og Palestínumenn byggju saman í fjölmenningarríki — eins og var á þessu landsvæði þar til Sameinuðu þjóðirnar ákváðu í samviskubitskasti vegna Helfararinnar að leyfa gyðingum að stofna ríki þar. Susan Abulhawa er allsekki að tala um að reka Ísraelsmenn brott eða að Palestínumenn fái öllu að ráða, heldur að þeir sem þarna búa og hafa búið alla sína ævi reyni að lifa í sátt og samlyndi þar sem allir eru jafnréttháir. Aðskilnaðarstefna Ísraelsmanna, hvað þá landtökubyggðirnar og nú síðast árásin á skip sem færa áttu íbúum Gaza vistir, eru skelfileg framkoma fólks við annað fólk.

Það hafa auðvitað komið fram margar hugmyndir og tilraunir til sátta milli Ísraela og Palestínumanna, engin hefur virkað hingað til. Kannski lýkur þessu ekkert fyrr en síðasti Palestínumaðurinn er dauður.

___
* Það er auðvitað bara illgirni að benda á að þessi ríki tóku afstöðu vegna þess að olía var í spilinu.

** Uppúr þessu voru svo samtökin Læknar án landamæra stofnuð af heilbrigðisstarfsfólki sem hafði orðið vitni að hörmungunum og fannst Rauði krossinn hafa verið of hlýðinn við nígerísk yfirvöld.

*** Alla tíð síðan hafa verið skærur milli múslima og Igbo manna (sem eru að mestu leyti kristnir) og sumir telja enn að betra sé að þeir síðarnefndu fái að skilja sig frá Nígeríu.

Viðbót: Í fréttaskýringu Sigríðar Víðis Jónsdóttur kemur ágætlega fram hvernig ástandið er í Palestínu.

Efnisorð: ,

laugardagur, maí 29, 2010

Í dag mun ég kjósa

Frá því að ég fékk aldur til að kjósa hef ég alltaf hugsað mig vel um hvaða flokkur fengi atkvæði mitt. Alltaf hafa það þó verið vinstri sinnaðir flokkar sem hafa höfðað til mín og valið hefur því staðið milli Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista og síðar Samfylkingar og Vinstri grænna. Í borgarmálum var þetta einfaldara um skeið: þá kom R-listinn einn til greina enda þótt mér væri nánast flökurt að greiða þannig Framsóknarflokknum atkvæði mitt. Til þess að gera upp hug minn las ég stefnuskrár en rifjaði jafnframt upp eftir bestu getu (en kjósendur og ég þarmeðtalin hafa eins og kunnugt er lélegt minni) hvernig þessir flokkar hefðu staðið sig og við stefnumál sín síðasta kjörtímabil.

Listarnir sem bjóða fram í Reykjavík eru Besti flokkurinn, Framboð um heiðarleika og almannaheill, Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, Reykjavíkurframboðið, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri hreyfingin grænt framboð.

Besti flokkurinn — listabókstafur Æ. Hér er ekki hægt að meta fyrri störf í sveitarstjórn en þá verður að líta til ferils oddvitans og annarra sem á listanum eru. Ég hef áður líst frati á þetta framboð enda virðist það tengjast frjálshyggju en aðallega finnst mér fáránlegt af kjósendum að henda atkvæði sínu í eitthvað svona bull því það er engin stefna sett fram og því engin leið að vita hvað Jón Gnarr og félagar hans mun gera á einstökum nefndarfundum annað en láta sér leiðast fundirnir sjálfir. Aldrei myndi ég ráða mann í vinnu sem lýsti frati á starfsvettvanginn, hefði óþol gagnvart því sem gera á í vinnunni (sitja fundi) og talaði um tilvonandi samstarfsfólk sitt sem leiðinlegt.

Framboð um heiðarleika og almannaheill — listabókstafur H. Ólafur F. Magnússon vill að Reykjavíkurflugvöllur verði kyrr um aldur og ævi. Það eitt er nóg til að ég myndi ekki kjósa hann. En svo er það allt hitt ...

Framsóknarflokkurinn — listabókstafur B. Ef það verður eitthvað tilefni til að fagna eftir þessar kosningar þá verður það vegna þess að Framsóknarflokkurinn hafi þurrkast út í Reykjavík. Einar er kannski ágætis strákur og það er kannski enginn að meina Einar þegar hann hugsar um spillingarmökkinn sem liggur yfir flokknum, enda þótt Björn Ingi Hrafnsson hafi hlaupið í felur, en Framsókn er bara svo gerspillt og hefur verið það svo lengi að það er langbest að hún leggi upp laupana fyrir fullt og allt, á landsvísu líka.

Frjálslyndi flokkurinn — listabókstafur F. Stefna flokksins er svosem ekkert vond, fyrir utan að þau styðja heimgreiðslur til foreldra og þau vilja halda flugvellinum. Frítt í strætó fyrir alla er auðvitað nauðsynjamál en mun eitt og sér ekki yfirskyggja fortíð og hægri slagsíðu flokksins í mínum huga.

Reykjavíkurframboðið — listabókstafur E. Annar maður á lista er formaður og einn stofnenda Norræna íhaldsflokksins.* Þriðji maður á lista hefur oft og mikið bloggað gegn feministum** en það er einmitt merkileg „tilviljun“ að á lista Reykjavíkurframboðsins eru karlar í fyrstu þremur sætunum. En burtséð frá þessum afar óaðlaðandi frambjóðendum (dýralæknirinn hefði mátt vera ofar en í 12. sæti) þá er stefnan þeirra pínulítið galin. Hún gengur útfrá því sem gefnu að hægt sé að veðsetja óselt byggingarland í Vatnsmýrinni og því verði til nógir peningar til að gera hitt og þetta í borginni. Í fyrsta lagi þá er furðulegt að tala um að taka lán fyrir rekstri borgarinnar sem útgangspunkt í fjármálarekstri hennar. Í öðru lagi þá verður ekkert byggt í Reykjavík næstu árin eða áratugina; það vantar ekki húsnæði heldur er offramboð af því bæði hér og í nærliggjandi sveitarfélögum. Svo byrjar maður ekki að tala um að eyða peningum sem á eftir að fá að láni út á eign sem á eftir að vita hvort einhver vill lána útá ... Þetta er grundvöllur allra rekstraráætlana og stefnu Reykjavíkurframboðsins. Fyrr má nú telja eggin áður en þau eru komin í körfuna.

Samfylkingin — listabókstafur S. Æjá. Nú virðast kjósendur ætla að refsa Samfylkingunni fyrir styrkjamál (Steinunn Valdís sagði aaaaalltof seint af sér og þá bara vegna þess að samflokksmaður hennar nánast krafðist þess í fjölmiðlum) en kannski ekki síst fyrir skipulagsmál í borginni. Það verður ekkert framhjá því litið að í tíð R-listans var verktakalýðræðið á fullri ferð og Samfylkingin hafði skipulagsmál á sinni könnu og Dagur B Eggertsson var formaður skipulagsráðs. Vondar ákvarðanir sem við sitjum uppi með: Hringbrautarhraðbrautin með bensínstöðina við enda Hljómskálagarðsins; HR skrímslið í Nauthólsvíkinni við rætur Öskjuhlíðarinnar; Höfðatorgsturninn sem skyggir á innsiglingaljós Sjómannaskólans svo nokkuð sé nefnt. Auk þess var Landsbankinn/Samson, þ.e.a.s. Björgólfur Guðmundsson, búinn að fá leyfi til að leggja undir sig Laugaveginn og Skuggahverfið þar sem íbúar voru flæmdir burt með því að hús voru látin grotna niður í nágrenninu og allskyns fólki leyft að eyðileggja húsin og friðinn. Hin upphaflega hugmynd um tónlistarhús varð að marghöfða skrímsli sem þjóna átti Landsbanka/Samson/Björgólfi þar sem hótel, ráðstefnusalir og höfuðstöðvar bankans skyggðu á upphaflegan tilgang jafnframt því að leggja undir sig gríðarlegt flæmi við höfnina sem lítur nú út eins og ógróið sár þar sem Faxaskáli stóð áður. Bjakk bjakk og bjakk. Hjálmar Sveinsson, fjórði maður á lista Samfylkingarinnar nú, hefur reyndar barist gegn þessu (og vakið fólk eins og mig til vitundar um verktakalýðræðið) en hann hefði frekar átt að leiða listann —  sem hefði eflaust fengið mun meira fylgi undir forystu hans. Einn og sér nægir Hjálmar ekki til að ég kjósi Samfylkinguna (þó mér hugnist reyndar Björk Vilhelms alltaf vel og Sigrún Elsa hefur staðið sig frábærlega í Orkuveitu-málum og margt annað fólk á listanum er ágætt). Svo hef ég heldur ekki gleymt hve Samfylkingin er ósamkvæm sjálfri sér í náttúruverndarmálum. Nei, ég kýs ekki Samfylkinguna núna.

Sjálfstæðisflokkurinn — listabókstafur D. Það þarf varla að fjölyrða um álit mitt á Sjálfstæðisflokknum, fyrir og eftir hrun. Reyndar hef ég fjölyrt um það svo mörgum sinnum að jaðrar við þráhyggju. Í gær fékk ég svo „persónulegt bréf“ frá Hönnu Birnu, eins og Jenný Anna fékk líka og e.t.v. allar konur í Reykjavík (hef enn ekki heyrt um karlmann sem fékk svona bréf). Þó er ég vandlega merkt hvar sem því verður við komið, að ég vilji ekki fjöldasendingar, markpóst eða annan ruslpóst. Ég hugsa að ég taki það með mér á kjörstað og reki það uppundir trýnið á einhverju Sjálfstæðismenninu þar og heimti afsökunarbeiðni. Auðvitað ættu allir Sjálfstæðismenn alltaf að vera tiltækir með afsökunarbeiðnir fyrir tilvist sinni þannig að það ætti að vera auðsótt. Atkvæði mitt fá þeir ekki. Aldrei.

Vinstri græn — listabókstafur V. Það sem gerir útslagið með að ég kýs Vinstri græn að þessu sinni er oddviti listans, Sóley Tómasdóttir. Ég hef áður sagt að ég er sammála henni í einu og öllu og nú hefur hún sembeturfer sagt að ekki komi til greina að starfa með Sjálfstæðisflokknum.*** Vinstri græn hafa, eins og kunnugt er, algerlega hreinan skjöld í landsmálum hvað varðar græðgisvæðinguna og hrunið. R-listasamstarfið er ekki alveg eins gott í baksýnisspeglinum, sbr. það sem áður er sagt um skipulagsmál. Annars hefur VG auðvitað haldið uppi merkjum félagshyggju í borgarstjórn sem annarstaðar og ber að þakka það, hér og nú og ævinlega.

Vegna þess að ég hef alltaf, eins og ég sagði hér að ofan, skoðað verk og verkáætlanir vinstri flokkanna, þá hefur enginn einn þeirra átt mitt atkvæði og ég hef aldrei skráð mig í neinn þeirra. Ég hef meirasegja aldrei viljað segja neinum hvað ég hef kosið og hefur það valdið allskonar misskilningi í fjölskyldu minni, mér oft til mikillar skemmtunar. Í fyrsta skipti í síðustu alþingiskosningum gat ég þó tilkynnt fyrirfram og án þess að hugsa mig um að ég myndi kjósa Vinstri hreyfinguna grænt framboð, VG. Nú gat ég í rauninni gert það sama, um leið og ljóst var að Sóley myndi leiða listann í Reykjavík.

Í dag fer ég að kjósa. Ég er vinstri sinnaður feministi og ég kýs Vinstri græn.

__
* Norræni íhaldsflokkurinn segir á heimasíðunni: „Stofnum eigið herlið. Verjum sama hlutfalli þjóðartekna til hermála og hin Norðurlöndin. Sjáum sjálf um okkar öryggisgæslu.“ Og um trúmál segir þetta, orðrétt: „Evangelísk Lútersk trú er okkar ríkistrú. Sú siðfræði sem þessi trú byggir á er sú siðfræði sem þetta þjóðfélag byggir á. Þessa siðfræði á að kenna í öllum grunn-skólum landsins. Við viljum taka á ný upp kennslu í kristnifræði. Allir sæki þetta nám, óháð eigin trú. Engin getur orðið Íslendingur sem ekki þekkir þau gildi sem Íslenska samfélagið byggir á“.

** Dæmi af bloggi hans: Vinstri grænir héldu ársfund sinn og merktu sig rækilega sem öfgafullan femínistaflokk. Þann sama sem fór á límíngunum yfir litlum hópi perra frá útlöndum sem vildu koma hingað í skemmtiferð. ... Sjálfur tel ég margt af því sem teprurnar kalla klám ekki annað en saklausan lystauka fyrir venjulegt fólk með heilbrigða kynlöngun.

*** Ég held reyndar að fyrri orð Sóleyjar um að hún útilokaði ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn hafi átt að vera skilaboð til Samfylkingarinnar um að ekki væri hægt að ganga að því vísu að Vinstri græn færu í samstarf við Samfylkingu nema sú síðarnefnda myndi haga sér. Ég tók þetta a.m.k. ekki mjög nærri mér þó betra hefði verið að sjá ekki þau orð á prenti.

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, maí 26, 2010

Kallógeð sem fremja glæpi með tittlingum eiga ekki rétt á nafnleynd

Jenný Anna hittir naglann á höfuðið þegar hún notar orðalagið glæpir framdir með tittlingum yfir vændiskaup og kynferðisglæpi.

Ég er sammála bæði henni og Höllu Gunnars um að það er verið að hlífa glæpamönnum við því sem vændiskaupalögin snúast um: opinbera niðurlægingu þeirra sem fremja glæpi með tittlingum. En dómarinn við héraðsdóm Reykjavíkur — Arngrímur Ísberg sérlegur verndari vændiskaupenda — hefur semsagt ákveðið að svona glæpamenn verði ekki nafngreindir í dómnum og að engir blaðamenn verði viðstaddir; í stuttu máli sagt, þeir gætu alveg eins fengið bara gíróseðil sendan heim í stað þess að mæta fyrir dómara því þetta mun bara snúast um sektargreiðslu fái þessi dómari að ráða.*

Vonandi sitja blaðaljósmyndarar fyrir þeim við allar dyr héraðsdóms annan júní næstkomandi. Vonandi verða kvennasamtök með mótmæli við eða í dómshúsinu.

Og alveg burtséð frá því hvort það er vegna þess að það sé stjórnmálamaður meðal þeirra ákærðu eða hvort það er einhver frændi minn eða vinnufélagi frænku minnar; þá eigum við öll rétt á að vita hverjir það eru, með nafni og númeri, sem líta á konur sem hluti sem þeir geta keypt til að svala kynlífsfýsnum sínum á. Lalli Johns er nafngreindur í hvert sinn sem hann fær dóm, hver sem er getur flett honum upp og öllum hans tiltækjum og er hann þó bara vesæll smákrimmi. Enginn hefur séð ástæðu til að hlífa ættingjum hans við nafnbirtingu þegar hann og aðrir minniháttar bísar eiga í hlut. Kallógeð sem fremja glæpi með tittlingum eiga ekki rétt á nafnleynd.

___
* Bjarni prestur og Samfylkingarframbjóðandi talar réttilega um ákvörðun dómarans sem „hið langþróaða vald hvítra karla sem um aldir hefur haldið konum undir sér, meðhöndlað náttúruna eftir hentugleikum sínum, viðhaldið bágri stöðu dökkra kynþátta og fyrirlitið samkynhneigða.“ Og bendir á að „dómstólar vinna verk sín í almannarýminu vegna þess að við höfum litið svo á að glæpir séu ekki einkamál þeirra sem fremja þá eða þola þá.“

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, maí 23, 2010

Best að vera á móti boðum og bönnum - nema þeim sem eru í Biblíunni

Það er margt skemmtilegt við Jón Gnarr.* Til dæmis er hann á móti boðum og bönnum — en heldur þó í heiðri bók sem er uppfull af boðum og bönnum. Biblían inniheldur allt frá banni við kynlífi milli tveggja karlmanna til boðorða um að heiðra föður sinn og móður. Ekki að ég nenni að telja það allt upp en sumt af þessu er gæfulegra til eftirbreytni í samfélagi manna og annað ekki. Það er semsagt ekkert að boðum og bönnum séu þau í Biblíunni, að mati Jóns Gnarr.** Það hljóta þá frekar að vera seinni tíma boð og bönn sem hann á við. Þessi sem eru lögfest á alþingi þá líklega og ætluð eru til leiðbeiningar um æskilega og óæskilega hegðun í samfélagi þar sem fólk fái þrifist. Þar eru til dæmis lög um skólaskyldu barna. Boð, semsagt, sem segir að öll börn á vissum aldri eigi að ganga í skóla, hvort sem þeim líkar betur eða verr (og mörgum börnum þykir það nú ekki skemmtileg skylda og vildu líklega helst að skólaganga væri valfrjáls). Kannski eru það svoleiðis boð sem fara í taugarnar á Jóni Gnarr?

Af bönnum er nóg í samfélagi sem byggir á lögum og reglum, eflaust flestum óþörfum að mati Jóns Gnarr. Til að mynda eru lög sem banna kynlíf fullorðinna með smábörnum.

Eða fór ég kannski yfir strikið núna? Er ógeðslegt af mér að tala um kynferðisofbeldi á börnum í einhverju gríni? Finnst lesendum að það verði að hlífa börnum við að hafa hræðilegustu atburði sem geta hent þau í flimtingum?*** Fóru lesendur núna alltíeinu að hugsa - ja —  hugsa um börnin ? Það vitið þið nú að má ekki, það er eitthvað svo Sóleyjar Tómasdótturlegt. Eins og við vitum þá var Sóley svo ósmekkleg að draga framtíð barna í borginni inní umræðu um sveitarstjórnarkosningar. Þið vitið, sveitarstjórnir sem hafa grunnskóla og leikskóla á sínum snærum. Nei, uss, fáránlegt.

Legg til að fyrsta mál Besta flokksins verði að leggja niður grunnskóla og leikskóla. Bara svona til að sýna Sóleyju fram á hvað hún hafi verið hallærisleg og ófyndin.
____
* Mér fannst Jón Gnarr mjög fyndinn þegar ég sá hann flytja Ég var einu sinni nörd uppistandið. Þarsem ég hef aldrei verið áskrifandi Stöðvar 2 hef ég ekki séð vaktar-þættina og get því ekki einu sinni giskað á hvort mér þættu þeir fyndnir. (Fannst samt alltaf skrítið hvað gert var lítið úr menntuðu fólki, því eftir því sem mér er sagt er eitt aðalpersónueinkenni persónunnar sem Jón Gnarr lék að hann var mikið menntaður og þarafleiðandi óþolandi). En af því sem ég heyrði um Bjarnfreðarson og and-feminismann sem einkennir þá mynd þá er alveg öruggt að ég eyði ekki tíma mínum í að horfa á slíkt.

** Eftir að ég skrifaði þessa færslu las ég að Jón Gnarr afneitar nú kaþólskri trú. Það er gott. Punkturinn hjá mér var samt sem áður að gagnrýna frjálshyggjudekur hans, sbr. það sem hann segir í viðtalinu í Grapevine um nektardansstaði og klám: „Hvað kemur það mér við ef einhver kýs að eyða tíma sínum í nektarklúbbum eða hanga á netinu í leit að klámi?“ — Svona talar bara maður sem er sama um stöðu kvenna í samfélaginu.

*** Kynferðisofbeldi gegn börnum er ekki bannað í Biblíunni. En það er reyndar ekki markmið mitt með þessari bloggfærslu að fjalla um hvað stendur eða stendur ekki í Biblíunni eða hverju af því Jón Gnarr finnst eðlilegt að hlýða. Heldur er punkturinn hjá mér þessi: Boð og bönn eru nauðsynleg í samfélagi manna því fólk er gallað, breyskt, klikkað, brenglað og gerir mistök. Til leiðbeiningar þarf reglur og þaraðauki einhverskonar refsingu til að fæla sem flesta frá því að valda skaða á samfélagi. Muniði skaða á samfélagi? Það gerðist tildæmis vegna þess að reglur voru aflagðar eða aflagaðar og verulega breyskir einstaklingar (pent orðalag) notuðu tækifærið. Boð og bönn virka ekki alltaf, en þau fæla flesta frá skaðlegu athæfi.

Efnisorð: , , , , , ,

laugardagur, maí 22, 2010

Hætta að styrkja „einkarekna“ háskóla frekar en sameina þá

Félag prófessora við Háskóla Íslands vill sameiningu háskóla vegna þess að það muni spara samfélaginu 2 milljarða króna. Þessu mótmæla framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Háskólans í Reykjavík — en ekki skólastjórnendur — vegna þess að „samtök í atvinnulífinu hafa lengi stutt uppbyggingu menntunar á framhalds- og háskólastigi hér á landi og gegnt lykilhlutverki í þeim árangri sem náðst hefur á undanförnum árum“. Já, það er nú líka þessi fíni árangur! Viðskiptafræðinemarnir og lögfræðinemarnir alveg brilleruðu þegar út í atvinnulífið var komið.

Og ekki hafa kennararnir verið skornir við nögl: „Eftir að Sigurjón Árnason lét af störfum sem bankastjóri Landsbankans og hafði fengið 70 milljóna króna lán hjá eigin lífeyrissjóði tók hann að sér stundakennslu við Háskólann í Reykjavík. Sigurjón kenndi námskeiðið Inngangur að fjármálaverkfræði fyrir fyrsta árs nemendur í BS-námi í fjármálaverkfræði.“ Stundakennarar í HR hafa einmitt verið „úr atvinnulífinu“ þannig að þarna má líklega segja að börnin læri það sem fyrir þeim er haft.

Reyndar er ég sammála þessum forstokkuðu saltstólpum atvinnulífsins um að það eigi ekki að sameina háskólana. En þó ekki af sömu ástæðum og þeir. Heldur vil ég að ríkið hætti að styrkja háskólana, nema auðvitað Háskóla Íslands, þar sem allir hafa sömu möguleika til menntunar því innritunargjald er vægt* og það sama fyrir allar deildir.

Ég hef reyndar skrifað um það áður og vil því ítreka:
Á sviði menntamála vil ég að hætt verði að styrkja (a.m.k. í eins miklum mæli og verið hefur) þá háskóla sem eingöngu hafa það að markmiði að unga út lögfræðingum og viðskiptafræðingum (sem allir hafa að sínu helsta markmiði að græða sem mest). Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, svo og Hugvísindadeild og Menntavísindasvið (eða hvað nú Kennaraháskólinn er kallaður) fái hæstu framlögin. Boðið verði upp á námsstyrki, en ekki námslán (nema til þeirra sem ætla í viðskiptafræði og lögfræði**).

Það er nefnilega ekki kostur, heldur galli að „frá HR koma nú árlega um 2/3 allra sem útskrifast með tæknimenntun á Íslandi, um helmingur allra viðskiptafræðinga og um þriðjungur allra lögfræðinga“,*** eins og Viðskiptaráðsdúddinn og vinir hans skrifa. Það væri allavega strax skárra að þetta lið menntaði sig alfarið á eigin kostnað og skólinn sem menntar það fái ekki ríkisframlög ofan á skólagjöldin**** til þess svo að ráða snúðasvín til kennslu.

___
* Skráning í nám í Háskóla Íslands kostar kr. 45.000 og er það greitt einu sinni á ári.
** Það er nefnilega ekki svo að ég haldi að gróðærisgreinarnar lögfræði, viðskiptafræði, hagfræði og hvað það nú heitir, hafi heppnast eitthvað betur í Háskóla Íslands, en sá skóli hefur fjölda annarra námsleiða sem vert er að leggja áherslu á og styðja enn betur.
*** Þeir gera reyndar mikið úr tæknimenntuninni í grein sinni, en minnast ekki á hrakfarir lögfræðimenntaðra og viðskiptamenntaðra nemenda og kennara skólans.
**** Skólagjöld í HR eru lægst 154.000 og hæst 812.500 á önn. Þetta er ekki skóli fyrir hvern sem er — en þó borgum við öll til hans.

Viðbót: Óli Kristján Ármansson er sammála mér í leiðara Fréttablaðsins og hefur reiknað þetta allt út. (Líklega er hann dyggur lesandi minn). Hann segir: „Framlag til HR er 2.067 milljónir króna og 329,4 milljónir renna til Háskólans á Bifröst. Það eru 2.396,4 milljónir króna, eða 16 prósent af útgjöldum til háskóla. Með þeirri ákvörðun einni að hætta framlögum til einkaskóla sem innheimta skólagjöld virðist markmiðum næsta árs í sparnaði í Háskólakerfinu náð.“ —  Frjálshyggjupostulinn Ólafur Stephensen vill afturámóti skólagjöld allstaðar, það ráði nú allir við þau.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, maí 20, 2010

Jón Gnarr og trúboð í skólum

Það eru fleiri lítt hrifnir af Besta flokks framboði Jóns Gnarrs en ég. Ármann skrifar beittan pistil sem ég tek hjartanlega undir. Hann beinir þar m.a. orðum sínum til trúlausra kjósenda og ég get ekki stillt mig um að birta þau orð hér.

„Leiðtoginn hefur líka rekið eigin pólitík, í skrifum í Fréttablaðið fyrir nokkrum árum. Gullkorn úr þeim greinum eru þegar tekin að birtast á netinu. Um leið rifjast upp hversu kristileg þau skrif voru og íhaldssöm, ef ekki beinlínis afturhaldssöm. Ekkert ósvipað því sem ýmsir stuðningsmenn Berlusconis gætu skrifað raunar. En þetta var auðvitað bara djók, er það ekki? Listrænn gjörningur. Maður getur ekki gert þær kröfur til listamanna að þeir séu með skýra pólitíska stefnu.

En hvað með frambjóðendur? Ber ekki að taka þá alvarlega? Borgarstjórn ber ábyrgð t.d. á skólakerfinu og þar eru ýmis deilumál uppi sem varða t.d. kristni í skólastarfinu. Er ekki ástæða til að spyrja Besta um það? Hvað ef við viljum ekki Móselögin í öndvegi?“

Kjósendur sem bera hag fjölmenningarlegs samfélags fyrir brjósti mættu einnig íhuga hvernig verja skal atkvæði sínu. Fyrir trúleysingja eins og mig er engin hætta á að atkvæði mitt lendi hjá Besta flokknum.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, maí 18, 2010

Að ráða ekki við að taka ákvarðanir byggðar á hugmyndafræði

Sé eitthvað að marka skoðanakannanir þá mun grínframboð Jóns Gnarr koma 6 manns inn í borgarstjórn Reykjavíkur. Vonandi er ekkert að marka skoðanakannanir.

Það er merkilegur andskoti að fólk — sem þarf að horfast í augu við að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, sem réðu hér öllu alla síðustu öld og allt þar til mjög nýlega, hafi með hugmyndafræði sinni, stjórnsýslu, lagasetningu, einkavinavæðingu, kvótakerfi og með því að gefa bankana vinum sínum handvöldum — hyggist gera upp við fortíð sína sem kjósendur og þarafleiðandi sinn þátt í að halda þessum flokkum við völd, með því að kjósa grínframboð. Í stað þess að skoða hug sinn og leita eftir hvort því finnist ekki tími til kominn til að byggja hér betra þjóðfélag (og það má alveg gera á sveitarstjórnarstiginu) þá finnst því svo erfitt að taka upplýsta ákvörðun byggða á hugmyndafræði og framtíðarsýn að það segir bara „hey, djók“.

Muniði eftir, Gísla Marteini, frjálshyggjuguttanum? Hann komst í borgarstjórn vegna þess að hann var þekktur úr sjónvarpinu. Frábært tilviljun að efsti maður á lista Besta flokksins skuli einmitt vera svona fyndinn gaur úr sjónvarpinu. Bendir eindregið til þess að kjósendur hafi tekið mjög vel ígrundaða ákvörðun.

Nýjasta tískuorð þeirra sem vita ekkert um pólitík er að hafa svo voða mikið á móti 'fjórflokknum'. Þá virðist svarið vera að kasta atkvæði sínu á flokk sem enginn veit hvernig mun bregðast við í ýmsum mikilvægum málum. Hvað þá hvort hann lifir lengur en Borgararhreyfingin sem sprakk á góðseminni einni saman skömmu eftir síðustu alþingiskosningar. Enginn hefur greinilega lært af því skemmtilega 'djóki'.

Það er ekki nóg með að allir þeir sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eina ferðina enn séu fávitar (það var vitað fyrir); kjósendur Besta flokksins eru fávitar sem munu þurfa að naga sig í handarbökin næstu fjögur árin. Verst að við hin munum líka þurfa taka afleiðingunum — eins og fyrri daginn.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, maí 13, 2010

700 drepnir á innan við fjórum tímum

Í framhaldi af færslu minni í gær um íslenska glæpahunda er vert að fjalla örlítið um byssumenn sem skutu um 700 fugla sér til skemmtunar nú nýlega. Það tók þá ekki nema þrjá fjóra tíma að drepa allt þetta magn og þó hver einasti þeirra væri listaskytta þá efast ég stórlega um að hver einasti fugl hafi drepist við skotið heldur er líklegra að skotin hafi lent tilviljunarkennt á þeim og þeir kvalist þar til mennirnir í gúmmíbátnum hirtu þá upp og drápu þá um síðir.

Ef vefsíða Hins íslenska byssuvinafélagsins væri opin (en ekki harðlæst utanaðkomandi) væri e.t.v. hægt að lesa markmið félagsins þar. Þau eru eflaust háleit og fögur og snúast um virðingu fyrir náttúrunni. Allir gangi alltaf vel um og gæti þess að meiða ekki dýr að þarflausu, aðalmálið sé heilnæm útivera. Svoleiðis fyrrislátt má allavega heyra þegar karlmenn verja áhugamál eins og skotveiði.* Að mínu mati er þetta þó algerlega óverjandi hegðun og glæpsamleg.

Ég held reyndar að blaðamaðurinn hafi verið örlítið sammála mér. Annars hefði hann ekki notað fyrirsögnina Her skotveiðimanna skaut 700 svartfugla.** Þessir karlpungar hegðuðu sér einmitt eins og þrautþjálfaðir atvinnumorðingjar.

___
* Annars er þessum körlum líka lýst þannig að þeir hafi áhuga á „lífsins lystisemdum“ — alveg hljómar það eins og þeir séu súrir núna yfir lokun strippstaðanna.
** Þegar ég var að leita að upplýsingum um Hið íslenska byssuvinafélag sá ég að Mogginn hefur fjallað um skipulagðar drápsferðir þeirra. Þær eru þá baðaðar rómantísku ljósi og látið líta útfyrir að ekkert sé jafn sjarmerandi og karlmenn í morðhug. Jafnframt því sem tekið er fram að svo mikið sé af fugli að það skipti litlu hve margir séu drepnir og svo hafi svartfuglinn verið „nytjaður“ frá aldaöðli.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, maí 12, 2010

Glæpahundar undir manna hendur

Ef það er þetta sem slitastjórn Glitnis hefur verið að dunda sér við, þá er ég bara sallaánægð með hve langan tíma hún tók sér.* Hljómar eins og uppúr handriti að allar eigur Jóns Ásgeirs um allan heim séu í sigtinu. Auðvitað er hann búinn að koma ýmsu (mestu) undan — en samt.

Sömu sögu má segja um sérstaka saksóknarann — sem svo margir hafa gert grín að og hneykslast á honum fyrir seinaganginn — það er helvíti öflugt að dúndra Kaupþingsmönnum í gæsluvarðhald og handtaka þá sem þó drullast til að mæta. Best er auðvitað að hann skuli ekki hika við að siga Interpol á þá sem ekki láta sjá sig. Söngurinn um „aumingja Sigga sem þorir ekki heim“ hljómar undir.

Ég nenni ekkert að draga úr því að það hlakkar í mér að þetta lið sé eftirlýst og verði hundelt þar til yfir lýkur. Ég óttast reyndar að þeir fái slappa dóma, varðhundar valdsins sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur raðað í Hæstarétt munu sjá til þess, auk þess sem lögum og reglum hafði beinlínis verið breytt svo fjármagnið mætti nú ávaxtast sem mest í stað þess að vera svona hirðulaust og sofandi alltaf hreint.

Einn dómur yfir einum glæpamanni féll þó í Hæstarétti í dag og því ber að fagna.

Nauðgarinn Bjarki Már Magnússon mun sitja inni í átta ár, eins og héraðsdómur hafði reyndar dæmt áður. Ég skrifaði langa færslu um hann og afbrot hans í ágúst síðastliðnum þar sem ég ræddi sérstaklega um þá karlmenn sem tóku þátt í að nauðga konunni með honum. Eyði því ekki meira plássi og tíma í þau ógeð hér og nú.

Haldi Hæstiréttur áfram á þessari braut þá má vonandi búast við að aðrir glæpahundar fái líka að kenna til tevatnsins.

___
* Vonandi er álíka góð ástæða fyrir því að ekkert heyrist frá skilanefnd Landsbankans og Björgólfarnir hljóti sömu meðferð hjá þeim og Jón Ásgeir hjá Glitni. Svo ekki sé nú minnst á Sigurjón og alla hina sem voru honum til aðstoðar við hina „tæru snilld“, þ.e. Icesave.

Efnisorð: , , , , , ,

fimmtudagur, maí 06, 2010

Konur eiga ekki að hata líkamsvöxt sinn eða annarra kvenna

Á mínu heimili eru 365 megrunarlausir dagar ár hvert. Þar með er ekki sagt að mér þyki lítið til megrunarlausa dagsins koma, öðru nær; mér finnst gott að sjónum sé beint að megrunariðnaðinum, fegurðarsamkeppnum, tískuiðnaðinum og hverju því sem fær fólk (lesist: konur) til að hata líkama sinn, og reynt að sporna gegn þeim áhrifum.

Rétt eins og fyrsta maí þá get ég vísað á pistil sem ég skrifaði í fyrra um þetta mál. Hann skrifaði ég eftir að hafa lesið viðtal við Sigrúnu, sálfræðinginn sem stendur fyrir megrunarlausa deginum. Reyndar hafði ég lengi ætlað að skrifa um það sem varð svo niðurlagið á pistlinum, þ.e. hvernig konur hafa hafa látið stilla sér uppí lið* eftir því hvaða líkamsvöxt þær hafa og berja svo á konunum í hinu liðinu með uppnefnum og fyrirlitningu.** Hæðst er að þeim bæði á bak og jafnvel uppí opið geðið á þeim. Þær sem eru þungar verða oftar fyrir því en þær léttu, það er ekki spurning, en það má samt ekki á milli sjá hve andstyggilegar nafngiftir hvorum um sig eru gefnar. Þetta skaðar okkur allar.

Mér finnst niðurlagið á pistlinum vera mikilvægt og endurtek hann hér, svona ef ske kynni að lesendum sé um megn að fylgja tenglinum til að lesa pistilinn í heild sinni:

Konur eru ekki og eiga ekki að vera í stríði við hverjar aðrar. Konur sem telja sig feitar hata ekki grannar konur og konur sem eru grannar hata ekki konur sem telja sig feitar eða eru yfir kjörþyngd (ath. það er ekki það sama að vera yfir kjörþyngd, vera feit og finnast hún vera feit, þrennt ólíkt). Það er hreinlega rangt að líta svo á að konur skiptist í tvö lið. Það eru eflaust ýmsar kenningar til um afhverju þetta hefur þróast svona, að konur telji sig betur settar með því að níða niður líkamsvöxt annarra kvenna, en það er alger óþarfi að halda því áfram. Stoppa hér!

___
* Hér á vel við að tala um að „deila og drottna,“ því enginn græðir á því nema karlveldið (sem drottnar) að við séum ekki saman í liði.
** Mér sýnist að þetta falli undir sjöunda boðorð megrunarlausa dagsins.

Efnisorð: , ,

mánudagur, maí 03, 2010

Pillan í fimmtíu ár

Pillan, P-pillan eða getnaðarvarnarpillan kom fyrst á markað í Bandaríkjunum árið 1960. Hún hafði reyndar verið notuð til að koma skikki á óreglulegar blæðingar frá árinu 1957 en fljótlega áttuðu konur sig á að pillan virkaði sem getnaðarvörn og voru að minnsta kosti hálf milljón kvenna búin að nota hana sem slíka áður en hún hlaut samþykki matvæla- og lyfjaeftirlitsins (FDA) sem getnaðarvarnarpilla. Var sú ákvörðun tilkynnt 9. maí 1960 og gekk í gildi 23. júní sama ár.

Ekki gátu þó konur í öllum ríkjum Bandaríkjanna fengið pilluna fyrr en árið 1965 — og þá bara giftar konur. Ógiftar konur máttu ekki fá pilluna fyrr en 1972, enda uppi deilur um að pillan myndi auka á lauslæti þeirra. Fyrsta Evrópulandið til að leyfa notkun pillunnar var Þýskaland en Frakkar biðu allt til 1967, og eiga þeir þó að vera svo frjálslyndir í kynferðismálum.* Í Japan höfðu menn áhyggjur af því að kynsjúkdómar myndu breiðast út ef smokkurinn væri ekki helsta getnaðarvörnin og leyfðu ekki pilluna fyrr en 1999.

Hér á landi var pillan tekin á lyfjaskrá árið 1967. Stöku kvensjúkdómalæknar höfðu þó ávísað henni áður en þá eingöngu til giftra kvenna.

Pillan olli byltingu í lífi kvenna. Nú gátu þær stjórnað barneignum sínum að vild. Þetta varð til þess að fjölmargar konur gátu beðið með barneignir þar til þær hefðu lokið námi, í stað þess að þurfa að hverfa inná heimilin til að sinna búi og börnum en stóðu svo uppi án menntunar og áttu þarafleiðandi erfiðara með að fá vel launaða vinnu til að framfleyta sér og börnunum. Konur gátu auk þess tekið strikið beint á vinnumarkaðinn og frestað barneignum þar til þær voru búnar að tryggja sig fjárhagslega eða náð þeim árangri sem þær vildu í starfi sínu — nú eða sleppt barneignum alfarið með því að hætta bara allsekkert á pillunni. Þær sem hættu tímabundið á pillunni til að eignast börn gátu byrjað á henni aftur en þurftu ekki að hlaða niður ómegð. Nú eiga konur oftar en áður börn vegna þess að þær vilja eignast börn en ekki vegna þess að þær urðu óvart barnshafandi.

Þessa möguleika hafa konur haft undanfarin fimmtíu ár (ekki þó svo lengi allstaðar) og nýtt til þess ýtrasta. Frelsi konunnar til að stunda kynlíf hvenær sem henni sýnist** án þess að þurfa að hafa áhyggjur af ótímabærum barneignum má ekki vanmeta. Fóstureyðingar væru mun fleiri ef pillunnar nyti ekki við.*** Það er því enginn vafi á að konur eiga pillunni margt að þakka.

Það er svo önnur saga að allt þetta frelsi hefur orðið til þess að konur eru nú að stærstum hluta látnar bera ábyrgð á getnaðarvörnum; fara til læknis, leysa út lyfseðil í apóteki (á eigin kostnað), éta hormónalyfin sín — meðan karlmenn telja sig alveg stikkfrí og sárhneykslast ef þeir eru vinsamlega beðnir að nota smokkinn hvað þá ef kona vill ekki stunda með þeim kynlíf hvar og hvenær sem er.

Nú á konan ávallt að vera tilbúin og hefur enga 'afsökun' fyrir að vilja ekki kynlíf. Verði hún ólétt vegna þess að pillan brást þá er henni kennt um; aldrei dettur karlmanni sem ekki langar í barn með ókunnri konu sem hann sefur hjá eina nótt að hann eigi að nota smokk.**** Nei, hann verður brjálaður ef á að rukka hann um barnsmeðlög útaf því að „hún átti að vera á pillunni.“****** Skiptir þá engu að sumar konur þola pilluna illa eða vilja hreinlega ekki troða hormónalyfjum í sig stóran hluta ævinnar.******* Það er eiginlega ekki lengur valkostur að vera ekki á pillunni.

Pillan hefur því sína kosti og galla eins og flest mannanna verk.
___
* Hér skipta trúarbrögð máli og kaþólikkar hafa haft puttana í tregðu Frakka til að leyfa pilluna. Ítalir leyfðu pilluna ekki fyrr en 1971 enda páfinn æstur gegn henni, eins og margoft hefur komið fram, og enn í dag nota færri ítalskar konur pilluna en aðrar konur í Evrópu. Reyndar nota 80% ítalskra kvenna engar getnaðarvarnir yfirleitt.

**Kynlífsbylting sjöunda áratugarins og kynferðislegt frjálsræði undanfarinna áratuga má rekja til þess að með tilkomu pillunnar gátu konur stundað kynlíf án þess að eiga á hættu að verða barnshafandi.

*** Þó fóstureyðingar séu nauðsynlegur valkostur ef til getnaðar kemur þá er auðvitað mun betra að geta komið í veg fyrir getnað þegar barneignir eru ekki á dagskrá.

**** Útbreiðsla kynsjúkdóma er mikil og virðist ekkert lát verða á, það er auðvitað vegna þess að karlmenn vilja ekki nota smokkinn. Þeim virðist sama um kynsjúkdóma og ekki verða þeir óléttir og ætlast bara til að konan sjái um þetta. Konur verða að auki mun verr fyrir barðinu á kynsjúkdómum en karlar; geta átt í langvinnum veikindum og jafnvel orðið ófrjóar.

****** Sumir karlmenn hneykslast ógurlega á konum sem fara í fóstureyðingu og vilja að þeir fái að ráða því hvort kona fari í slíka aðgerð, vegna þess að þeir eru á móti fóstureyðingum af prinsippástæðum. Ekki dettur þeim samt í hug að nota smokk til að koma í veg fyrir að konan standi frammi fyrir þessum valkostum.

******* Þegar talað er um steranotkun er yfirleitt einblínt á skaðleg áhrif sem hún hefur á karla: kynfæri þeirra, kynhvöt, kyngetu og frjósemi. Þá þykir sannað að karlmenn verði skapbráðari noti þeir testósterón (stera). Allt gerir þetta að verkum að það þykir varhugavert að karlmenn taki stera. — Öðru máli gildir um þegar konur taka hormóna í formi getnaðarvarnarpillunnar. Þá skiptir litlu máli og talið til 'aukaverkana' ef þær finna fyrir aukinni eða minnkaðri kynhvöt, skapsveiflum eða jafnvel fái blóðtappa. Lítið mál þykir að unglingsstúlkur taki pilluna áður en þær hafa tekið út fullan þroska.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, maí 01, 2010

Afhverju hrósum við þeim ekki bara?

Í dag langaði mig, svona í tilefni dagsins, að skrifa vandaða og ítarlega grein um stofnun og tilgang verkalýðsfélaga og hvernig fór að halla undan fæti hjá þeim á tímum frjálshyggjunnar. Leitaði mér fanga á Múrnum (þetta gerði ég líka fyrsta maí í fyrra og mun sjálfsagt endurtaka að ári!), vitandi að þar var skrifað um verkalýðsmál á breiðum grundvelli, og fann svo margt og svo áhugavert að mér féllust hendur að semja eigin texta uppúr því öllu.

Kolbeinn Óttarsson Proppé rakti helstu afrek verkalýðsfélaga í pistli á Múrnum 5. maí 2001 og sagði þá þetta:
„Grunnurinn að velferðarþjóðfélagi nútímans var lagður af verkalýð síðustu aldar. Með þrotlausum átökum við fjármagnseigendur, átökum sem kostaði fólk oftar en ekki vinnuna og aleiguna þar með, átökum sem snerust upphaflega um grundvallarréttindi eins og hvíldartíma, félagafrelsi, samningsfrelsi o.fl., með þessum átökum og fórnfýsi lagði verkalýðsstéttin grunninn að nútímasamfélagi. Heilbrigðis- og menntakerfið, félagsleg réttindi, rétturinn til að hafa eitthvað um eigin laun að segja, allt er þetta árangur þrotlausrar vinnu verkalýðsins og hreyfingar hans.“
En áður hafði hann bent á að: „Þróun í verkalýðsmálum hefur hin síðustu ár orðið í þá átt að draga úr samtakamætti verkafólks með vinnustaðasamningum, bæði einstaklingsbundnum og hópatengdum.“ Og ennfremur sagði Kolbeinn Óttar að:
„Það að standa utan félaga hefur verið dásamað á undanförnum árum sem réttur launþegans, hann eigi ekki að vera neyddur til þess að ganga í verkalýðsfélag. Þetta hefur eingöngu orðið til þess að styrkja stöðu atvinnurekenda sem standa ekki lengur frammi fyrir þeirri ógn að allir starfsmenn fari í verkfall. Samstaðan, sem er eina vopn launafólks gegn atvinnurekendum, hverfur algjörlega engum til gagns nema atvinnurekendum sem þurfa ekki að greiða eins há laun. “

Aðrar góðar greinar skrifuðu m.a. Sverrir Jakobsson, Ármann Jakobsson og Huginn Freyr Þorsteinsson, auk annarra Múrverja.

Þetta er gott lesefni. En mér fannst líka skemmtilegt að lesa (þó á annan hátt) pistil eftir Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, eina af þessum unaðsríku Sjálfstæðiskonum í borgarstjórn sem finnst almenningssamgöngurnar frábærar (fyrir hina) og starfsemi Mæðrastyrksnefndar og Fjölskylduhjálpar yyyyyndisleg (fyrir fólk sem á ekki að borða). Svona nú fyrir utan hvað þeim finnst nauðsynlegt að hafa almennilega golfvelli fyrir atvinnulausa fólkið sem hefur allan þennan frítíma.

Nema hvað, Þorbjörg Helga er að hvetja okkur öll, borgarana sko, til að hrósa leikskólastarfsfólki fyrir gott starf.

Vinnuaðstæður starfsfólks á leikskólum eru nú þannig að þar verður ekkert fólk ráðið enda þótt nú þegar sé undirmannað svo til vandræða horfir ef einhver veikist. Sem þýðir að þá þurfa hinar að sinna fleiri börnum sem er meira vinnuálag og því óheppilegt fyrir bæði starfsfólkið og börnin.

Innkaup á leikskólana hafa verið skorin niður eða skorin við nögl, klósettpappír og eldhúsrúllupappír þarmeðtalinn, föndurvörur ýmiskonar og svo maturinn fyrir börnin og starfsfólkið (sem verður að vera á vinnustaðnum í hádeginu því það þarf að mata börn). Þetta með föndurvörurnar dregur úr skapandi starfi með börnunum, sem starfsfólkið á leikskólunum þarf svo bara að bæta upp með því að ja, syngja?

En til þess að Reykjavíkurborg þurfi ekki að hækka útsvarið* þá er skorið niður á leikskólum.

Jájá, skera bara nógu mikið niður og klappa starfsfólki leikskólanna svo á bakið til að segja þeim hvað þær séu nú duglegar. Sniðugt. Og hlýjar kveðjur svona í tilefni baráttudags verkalýðsins.

Ég ætla skoho að kjósa Sjálfstæðis næst, þau eru svo næs!

___
* Vinstri græn í borgarstjórn segja að eina lausnin við aðsteðjandi vanda sé að hækka útsvarið en Sjálfstæðisflokkurinn hefur það sem megin markmið sitt að útsvarið hækki ekki. Ef útsvarið yrði hækkað mætti bauna því á Sjálfstæðisflokkinn að það væri A) hræsni vegna þess hve mikið er grenjað yfir skattahækkunum ríkisstjórnarinnar, og B) bein afleiðing fáránlegrar meðferðar fjár eins og þegar húsin við Laugaveg 4-6 voru keypt á 600 milljónir, bara til að hafa Ólaf F. góðan. Slíkt má auðvitað aldrei viðurkenna.

Efnisorð: , , ,