fimmtudagur, júlí 31, 2014

Um borg og bý

Ein af þeim fjölmörgu ógnum sem steðja að lífríkinu — og þar með mannkyninu — er gríðarleg fækkun býflugna. Þá er átt við býflugur (e. honeybee) eins og þær sem eru ræktaðar til að fá hunangið þeirra, en einnig mun hafa borið á fækkun hungangsflugna, feitu, loðnu ættingja þeirra sem áður voru oft kallaðar randaflugur en í síðari tíð hunangflugur eða humlur (e. bumblebees). Af humlum eru þrjár tegundir hér á landi, ég náði ekki að greina af hverri þeirra hunangsflugan var sem spókaði sig á handleggnum á mér í dag, en hún var svo vinaleg að ég gat rétt stillt mig um að klappa henni. (Hér eru býflugur og hunangsflugur bornar saman (á ensku) en einnig má lesa um þær á Vísindavefnum.)

Nú er hafin býflugnarækt á Íslandi (það hefði ég eftilvill aldrei frétt nema vegna þess að hellingur af býflugum urðu strandaglópar á finnskum flugvelli á leið sinni til Íslands, þær áttu pantað flugfar en enduðu á að fá bílfar). En auk þess sem býflugur framleiða hunang sem mannfólk sækist eftir, þá eru býflugurnar — einsog hunangsflugurnar — mikilvægar fyrir lífríkið því þær frjóvga jú blóm og plöntur. Fólk sem fer í berjamó ætti sannarlega að vilja að hunangsflugur dafni en auðvitað ættu allar manneskjur að vilja að efla viðgang býflugna. Við mannfólkið ættum því að stilla okkur um að eitra í görðum sem og annarstaðar í náttúrunni, en talið er að skordýraeitur eigi þátt í fækkun býflugna í heiminum, og jafnvel gætum við gengið svo langt að reyna að auðvelda þessum röndóttu dugnaðarforkum náttúrunnar fæðuöflunina.

Flugur af býflugnaætt eru sólgnar í sum blóm umfram önnur og þessvegna er ekki úr vegi að kynna sér hvaða plöntur laða þær að sér (fólk sem hatar býflugur getur þá forðast að rækta þessar plöntur — og fer þá umsvifalaust á lista yfir fólk sem ber ábyrgð á dauða lífríkisins!).

Hér má semsagt lesa matseðil iðnu býflugunnar.

Athygli skal vakin á því að fíflar af ýmsum gerðum eru í uppáhaldi, sóleyjar komast líka á lista, og er því ástæða til þess að benda fólki á að hætta þeim ósið að reyna að uppræta þessi indælu gulu blóm sem spretta á túnum alveg óumbeðið. Jafnframt ætti að draga úr grasslætti á umferðareyjum og öðrum grasflötum inni í bæjum, svo að bý og humlur hafi úr nóg að moða í fíflabreiðum.

Áfram bý!

Efnisorð: , ,

föstudagur, júlí 25, 2014

Það er komin ný lögga í bæinn

Fyrirvaralaust er tilkynnt um nýjan lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort Hanna Birna hafi verið að setja þæga manneskju í starfið sem muni skila réttri niðurstöðu ef til kemur að rannsaka þurfi lekann úr innanríkisráðuneytinu nánar, eða hvort ráðningin sé vinsældaleit innanríkisráðherrans sem slær tvær flugur í einu höggi: ræður konu sem að auki hefur stýrt einhverju jákvæðasta og besta framtaki sem sést hefur hjá lögregluembætti hér á landi.

Markmiðið verkefnis Lögreglunnar á Suðurnesjum hefur verið að bæta rannsóknir í málum er varða heimilisofbeldi með markvissari fyrstu viðbrögðum lögreglu, fækka ítrekunarbrotum, bæta tölfræðivinnslu, aðstoða þolendur og gerendur markvisst, nýta betur úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili og að mál ná fleiri málum í gegnum refsivörslukerfið (úr frétt). Rúna í Stigamótum hefur hrósað Suðurnesjalögreglunni sérstaklega fyrir þetta framtak og sagt:

„Stígamótum líst vel á frumkvæði lögreglunnar á Suðurnesjum en þar ber þolandi heimilisofbeldis neyðarhnapp þar sem hætta er á að brotamaður brjóti nálgunarbann … Þetta er einfaldlega sýnikennsla í því hvað hægt er að gera í íslenska kerfinu ef forgangsröðunin er rétt og ef viljinn er fyrir hendi … Á Suðurnesjum hafa þau líka verið að framfylgja lögum sem kveða á um það að ef ofbeldismenn haga sér ekki skikkanlega þá er þeim vísað af heimilum. Lög gera einmitt ráð fyrir því að svona sé þetta gert en því hefur bara ekki verið framfylgt.“

Nú hafa Suðurnesjamenn misst Sigríði Björk Guðjónsdóttur sem stóð fyrir þessu framtaki og fá annan lögreglustjóra. (Ekki eru býttin góð — þangað fer Þvagleggur sjálfur — ekki verður það til að auka vinsældir Hönnu Birnu). En Sigríður Björk hefur þegar tilkynnt að hún vilji „sjá einhverjar af þeim áherslum sem við höfum staðið fyrir á Suðurnesjum í höfuðborginni, eins og áherslur á heimilisofbeldi.“

Það er vonandi að einmitt þessi ástæða hafi orðið til þess að Hanna Birna hafi (þrátt fyrir efasemdir um heilindi hennar í þessu máli sem öðru) handvalið Sigríði Björk í embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Og ég vona sannarlega að Sigríður Björk haldi áfram á þeirri braut sem hún markaði á Suðurnesjum.


Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, júlí 22, 2014

Ef ég sé með trefilinn

Þetta er nú ljóta ástandið þarna í Palestínu.

Ekki eru allir sammála um hvort það breyti neinu ef Ísland slítur stjórnmálasambandi við Ísrael en eitthvað hljótum við samt að geta gert.

Ég legg til að við sendum Illuga Gunnarsson með trefil um hálsinn.

sunnudagur, júlí 20, 2014

Thelma og Louise

Danska sjónvarpið sýndi Thelmu & Louise í dag. Ég hafði ekki séð myndina lengi en það er endalaust hægt að horfa á hana. Margt hefur verið rætt og gagnrýnt og er endirinn líklega margumræddastur. En ég ætla ekki að tala um hann hér.

Líklega hefur allt áhugafólk um kvikmyndir og feminisma séð Thelmu & Louise. Fyrir þær sem eiga það eftir er samt rétt að vara við einni senu í myndinni. Aðdragandinn að henni er sá að vinkonurnar Thelma og Louise ætla í bústað yfir helgi, Thelma án leyfis stjórnsama hálfvitans sem hún er gift, en Louise vegna þess að hún var að rífast við kærastann (sem reynist svo vera alveg prýðilegur þegar á reynir síðar í myndinni). Á leiðinni stoppa þær á dansstað því Thelmu langar að njóta frelsisins. Þær eru varla komnar inn þegar á þær svífur maður sem reynir við Thelmu (hann heitir Harlan) og eftir að hafa hellt í sig áfengi fer hún á dansgólfið með honum. Louise dansar líka við einhvern mann og allir skemmta sér vel. En eftir að hafa hringsnúist í dansinum verður Thelmu illt og Harlan fylgir henni út á bílaplan þar sem hún ælir. (Grunur leikur á að hann hafi einmitt hringsnúið henni ótæpilega til þess að geta farið út með hana.) Hann ætlar svo að kyssa hana en hún vill það ekki og þegar hún neitar áleitni hans ítrekað lemur hann hana og er alveg við það að nauðga henni þegar Louise skerst í leikinn. Hún hefur byssu þannig að Harlan verður að sleppa Thelmu, sem er blóðug og grátandi, en segir að þau hafi bara verið að skemmta sér. Thelma segir honum að í framtíðinni skuli hann átta sig á því að þegar kona grætur sé hún ekki að skemmta sér en Harlan tekur ekki tali heldur segir að hann hefði átt að klára það sem hann byrjaði á og lætur ýmis fúkyrði fjúka. Við það missir Louise stjórn á sér og skýtur hann til bana.

Thelma og Louise bruna burt í áfalli yfir þessum atburðum, annarri var næstum nauðgað en hin drap mann. Thelma vill fara til lögreglunnar og segja alla söguna en Louise bendir henni höstuglega á að hundrað manns hafi séð hana í örmum mannsins allt kvöldið á dansgólfinu, og enginn muni trúa þeim. Louise klykkir út með að segja „við búum ekki í þannig veröld“.

Myndin var gerð 1991 en ennþá búum við ekki í þannig veröld að konum sé trúað að þær hafi orðið fyrir nauðgun (eða nauðgunartilraun) hafi þær sést vera hupplegar við manninn áður en hann lét til skarar skríða. Nýlega var karlmaður sýknaður af nauðgun sem hann var kærður fyrir en til hans og fórnarlambsins hafði sést þar sem þau voru að kyssast fyrir framan tjald á Þjóðhátíð og fóru svo saman inn í tjaldið.* Að stelpa fari sjálfviljug inn í tjald með strák þýðir auðvitað að eftir það er ekki hægt að nauðga henni, að mati íslenska dómsvaldsins, rétt einsog lögreglan í Arkansas hefði ekki tekið Thelmu trúanlega ef hún hefði sagt þeim hvað Harlan gerði.

Ferð Thelmu og Louise breytist í fjögurra daga ferðalag á flótta um suðvesturríki Bandaríkjanna og áhorfendur sjá fjóra kallskúnka sem þær eiga í höggi við. Áður hefur eiginmaður Thelmu verið nefndur og samskiptum hennar við nauðgarann, en hún kynnist einnig strák sem hún sefur hjá. Hún treystir enn öllum sem hún hittir en þessi stelur af þeim öllum peningunum þeirra (sparifé Louise) og sýnir þannig að honum er algerlega sama um velferð hennar. Á vegi þeirra Louise verður einnig trukkabílstjóri sem þær rekast á aftur og aftur á ferð sinni. Hann er ógeðslegur á allan hátt og sýnir þeim kynferðislega tilburði í hvert sinn sem þær sjá hann. Þær enda á að gefa honum kost á að biðjast afsökunar eftir að hafa sagt honum hvað hegðun hans sé ógeðfelld, en einsog Harlan rífur hann kjaft þó þær séu vopnaðar byssum. Þær skjóta því 18 hjóla trukkinn í tætlur og er það einhverjar ánægjulegustu málalyktir sem sést hafa á hvíta tjaldinu.

Svo ég endurtaki: við búum enn í óbreyttum heimi. Það eru enn til karlar sem vilja að konur þeirra séu þeim undirgefnar, það eru enn karlar sem nauðga, það eru enn karlar sem skeyta engu um velferð kvenna, það eru enn karlar sem áreita konur sem hafa ekkert til þess unnið annað en vera til.

Og ég sem hélt að karlmenn myndu sjá að sér eftir að hafa séð Thelmu & Louise.


___

* Ég minntist ekkert á þetta mál þegar sýknudómur féll því mér fannst þetta vera ósköp venjubundin afgreiðsla dómskerfis á nauðgunarmáli að það tæki því ekki að ræða þetta mál líka. En Ingimar Karl Helgason skrifaði um það og kom með mjög áhugaverðan punkt. Hann sagði: „Ég hef engar forsendur til þess að meta sekt eða sakleysi í þessu máli. Mér finnst hins vegar magnað að sú sem verður fyrir ofbeldi og kærir skuli í reynd verða sú sem réttað er yfir. Það er eitthvað rangt við þetta.
Það blasir við að það þarf að bæta þetta ferli. Það er ekki í lagi að setja þolendur ofbeldis á sakamannabekk.“

Efnisorð: , , ,

laugardagur, júlí 12, 2014

Með kveðju, hundraðkallinn


Hvað er hann líka að rífa kjaft, er hann ekki löngu dauður?










Til nánari skýringar.
1. Sturlað Reykjavíkurbréf ritstj. Morgunblaðsins (birt hjá DV) þar sem umboðsmaður alþingis er sakaður um bréfaskriftir sem hann ber enga sök á en alnafni hans (eða einhver sem skrifar undir nafninu Tryggvi Gunnarsson) hefur skrifað.

2. Bréf Tryggva Gunnarssonar (birt í frétt RÚV.is) sem ritstj. vill meina að hafi verið stungið undir stól til að verja umboðsmann alþingis (hann væri „friðhelgur“) vegna þess að hann var nefndarmaður í Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008, hvar núverandi ritstj. Morgunblaðins, vinir hans og flokksfélagar fengu ekki háa einkunn.



Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, júlí 08, 2014

Búrkur og níkab, nei takk

Sjaldan hef ég lesið grein á Knúzinu sem ég hef verið jafn innilega ósammála og þeirri sem var birt í dag undir titlinum Franska slæðubannið. Fyrir þau sem ekki þekkja til þá voru sett lög í Frakklandi sem bönnuðu notkun á og níkab slæðum sem ná yfir andlitið allt utan augna. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur staðfest að lögin séu ekki brot á mannréttindalögum.

Höfundur Knúzgreinarinnar lýsir sig hinsvegar ósammála níkab- og búrkubanninu og flokkar það sem afskiptasemi af klæðaburði kvenna. Málið er bara að það eru trúarofstækiskallar sem skikka konur til að klæðast þessum hulinsfatnaði, það er partur af kúgun þeirra á konum. Notkunin er mest í þeim löndum sem kúgun kvenna er á þeim skala sem okkur hryllir við. En þegar þessir karlar koma til Vesturlanda er óþarfi að leyfa þeim að beita þessu kúgunartæki ef hægt er að koma í veg fyrir það. Bann við notkun níkab og búrku ætti að vera tekið upp sem víðast, og við ættum að koma því á sem fyrst. Það er mun betra að byrgja brunninn áður en búrkuklæddar konur fara að sjást hér.

Ég gef lítið fyrir einstaklingshyggjurök þau sem koma fram í Knúzpistlinum og í kæru frönsku konunnar sem fór með málið fyrir Mannréttindadómstólinn á þeim forsendum að hún vildi fá að klæðast níkab og búrku (hún er þá líklega dæmi um hamingjusömu búrkuklæddu konuna). Það er mun mikilvægara að hafa hagsmuni þess fjölda kvenna sem er annars neyddur til að klæðast þannig, og vernda þær gegn þeirri kúgun. Einstaklingshyggjusinnum má alveg finnast það forræðishyggja að láta fjölda kúgaðra hafa meiri rétt en hamingjusaman einstakling sem berst fyrir frelsi sínu til að vera ósýnileg, þeir um það. Ég fagna banni við búrkum og níkab og panta svoleiðis hingað, takk.

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, júlí 04, 2014

Brugðist við Knúzi um fóstureyðingar

Steinunn Rögnvaldsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir skrifuðu pistil á Knúzið þar sem þær ræða um fóstureyðingar og lýsa þeirri ætlun sinni að gefa út bók með reynslusögum kvenna af fóstureyðingum. Þær segja:

„Sem betur fer búum við ekki í samfélagi sem skilgreinir frjóvguð egg sem fóstur, og fóstur sem manneskju sem nýtur sömu réttinda og nýfætt barn eða fullorðin manneskja. En það þarf ekki mikið að breytast til að svo verði. Fjöldahreyfingar og dómsúrskurðir í Bandaríkjunum eru sífellt að grafa undan rétti kvenna til fóstureyðinga. Og vissulega er margt sem greinir að Ísland og Bandaríkin. En það er færra sem greinir okkar félagslega veruleika frá Evrópu. Og þar eru þessar breytingar líka að eiga sér stað.

Þess vegna viljum við byrja að ræða fóstureyðingar aftur í íslensku samhengi.“

Talandi um breytingar í Evrópu, fyrir örfáum mánuðum hafði ég áhyggjur af stefnu norskra stjórnvalda (en veit reyndar ekkert um afdrif frumvarpsins) og skrifaði pistil um það hér.

Ég skrifaði reyndar svo snemma sem árið 2006 um áhyggjur mínar af stöðu fóstureyðinga hér á landi:

„Auk þess sem ég finn til með konum í Bandaríkjunum vegna þessa síversnandi ástands, þá hef ég um hríð haft áhyggjur af því að þrengt yrði að rétti kvenna til fóstureyðinga hér á landi. Sú ríkisstjórn – sem er reyndar nýfarin frá völdum – sem vildi allt gera til að ganga í augun á Bush, þar með talið að skrifa uppá stuðningsyfirlýsingu með stríði, finnst mér allt eins líkleg til að ráðast gegn rétti kvenna. En kannski er hættan liðin hjá eins og ríkisstjórnin. Framsóknarflokkurinn sækir nokkuð fylgi til sérstrúarsafnaða og ofsatrúarfólks eins og þess sem sér um sjónvarpsstöðina Omega og Sjálfstæðisflokkurinn á vís atvæði þar á bæ líka.“

Síðan þetta var skrifað fyrir átta árum hefur Framsóknarflokkurinn sýnt að hann svífst einskis þegar hann er í atkvæðaleit og það má allt eins búast við að hann biðli til sérstrúarsafnaða og ofsatrúarfólks gegn því að herða lög um fóstureyðingar — eða stöðva þær alfarið. Þessvegna tek ég undir áhyggjur Silju Báru og Steinunnar.

Eg hef reyndar skrifað sæmilegan helling um fóstureyðingar, og það er árlegur plagsiður minn að setja tengla á nokkra af pistlum mínum um þetta mál. Þá set ég yfirleitt tengla á eftirfarandi pistla sem flestir voru skrifaðir í júní 2007.

Helstu „röksemdir“ gegn fóstureyðingum - og ég svara hverri og einni röksemd en þær eru t.d. þessar:
- Að verið sé að drepa manneskju
- Að konur eigi að stunda ábyrgt kynlíf og ef þær gera það ekki eigi þær að taka afleiðingunum
- Að konur eigi ekki að stunda kynlíf nema þær vilji eignast börn
- Að konur verði að eignast fleiri börn vegna fólksfækkunar í heimalandi sínu/Evrópu
- Að konur noti fóstureyðingar sem getnaðarvörn
- Að konur fari oft í fóstureyðingu

Fóstureyðingar verða að vera löglegar
Hér minnist ég á það sem Silja Bára og Steinunn nefna, að fóstureyðingar eru hreint ekki frjálsar á Íslandi.

Takmarkanir á réttindum kvenna í Bandaríkjunum (þarna var Bush yngri enn forseti)
Hér velti ég m.a. upp þessari spurningu: Ef upp kæmi eldur á rannsóknarstofu og þú yrðir að velja milli þess að bjarga þriggja ára barni eða petriskál með tíu vikugömlum fósturvísum – hvort myndirðu velja?

Fóstureyðing eða ættleiðing
Það er í þessum pistli sem ég sagði það sem ég hef endurtekið oft síðan, ekki síst í tengslum við umræðu um staðgöngumæðrun:
„Konur eru ekki útungunarvélar. Ekki fyrir guð, eiginmanninn, móður sína (sem langar svo til að verða amma), ríkisstjórnina og lífeyrissjóðina (það vantar fleiri skattgreiðendur) eða ókunnugt barnlaust fólk útí bæ. Þær mega - og eiga að mega - eignast börn ef þær vilja og geta en vera lausar við þá kvöð sýnist þeim svo.“

Helstu andstæðingar fóstureyðinga — karlmenn
Það kom mér ekki á óvart að bæði við pistil Silju Báru og Steinunnar á Knúzinu, og í frétt Vísis um pistilinn, ryðjast fram karlar sem leynt og ljóst agnúast út í þennan rétt kvenna. Í þessum pistli segi ég að „þeir eru ósáttir við að ráða ekki alfarið yfir lífi og athöfnum kvenna. “

Fóstureyðingar valda (ekki) ævilangri sektarkennd
Hér tala ég um það sem bók Silju Báru og Steinunnar mun fjalla um: viðhorf kvenna sem hafa farið í fóstureyðingu. Ég sagði reyndar bara „sólskinssögur“ en líklega munu fleiri hliðar málsins koma fram í bókinni.

Allskonar konur fara í fóstureyðingu
Hér er annar pistill um konur sem fara í fóstureyðingu, viðhorf þeirra og hverjar þær eru:
„Þú þekkir líklega líka fjölda kvenna sem hafa farið í svona aðgerð, jafnvel þó þér hafi ekki verið sagt frá því.“

Helstu andstæðingar fóstureyðinga — kaþólikkar
Hér fjalla ég sérstaklega um kaþólikka en segi jafnframt að „fjöldi ofsatrúarmanna bæði hér og í Bandaríkjunum úr ýmsum trúfélögum eru þeim innilega sammála. “ Pistillinn er reyndar skrifaður í tíð fyrri páfa og er að því leytinu úreltur.

Fóstureyðing — þegar guð drepur saklaus börn í móðurkviði
Hér fjalla ég um mismunandi viðhorf til fósturláts og fóstureyðinga.
„Málið virðist síður snúast um að allir fósturvísar eigi að verða að barni en meira um að konur eiga að hafa samviskubit vegna kynlífs sem þær stunda og hugsanlegra afleiðinga þess.“

Eru fóstureyðingar réttlætanlegri þegar barnið gæti orðið fatlað?
Hér skrifa ég gegn snemmómskoðun.

Fóstur finna ekki til sársauka
Um rannsókn sem gerð var „og niðurstaðan er sú að sex mánaða fóstur finna ekki sársauka.“

Börn að ala upp börn
Örlítið annað sjónarhorn á umræðuna, rætt um fjölmarga ókosti þess að unglingsstelpur eignist börn. Tek samt fram að „mér finnst ekki að nokkur kona eigi að fara í fóstureyðingu fyrir þrýsting annarra, hversu gömul eða ung hún er. Mér finnst bara ekki heldur að það eigi að líta á það sem sjálfsagðan hlut að hver sem er valdi móðurhlutverkinu.“ Í pistlinum minnnist ég einnig á konu sem skrifað hefur gegn fóstureyðingum en síðan þetta var hefur hún stigið fram sem andfeministi svo það er allt í stíl hjá henni.

Þetta eru helstu pistlarnir, en reyndar má finna allt sem ég hef skrifað um fóstureyðingar með því að styðja ofurlétt á orðið fóstureyðingar þar sem það kemur fyrir hér fyrir neðan undir upptalingu á efnisorðum. Eða skoða það hér.

Efnisorð: , , , , , ,

fimmtudagur, júlí 03, 2014

Er nauðsynlegt að skjóta þá oft?

Það var bara í gær sem ég var að hlusta á útvarpsviðtal við Rannveigu Grétarsdóttur framkvæmdastjóra hvalaskoðunarfyrirtæksins Eldingar um hvalveiðar Íslendinga [Sjónmálsþátturinn er frá 25. júní, viðtalið við Rannveigu hefst á 25:40 mínútu og er til 36:12, en kynning á því hefst 22:22]. Í dag er svo forsíðufrétt Fréttablaðsins að „niðurstöður yfirstandandi rannsókna á dauðatíma langreyðar og hrefnu verða ekki gerðar opinberar er þeim lýkur.“ Það má semsagt ekki segja frá því hvað tekur langan tíma að murka lífið úr hvölum, við gætum fyllst óhugnaði. Nú vill svo til að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra bar nýlega saman hvalveiðar Íslendinga og dauðarefsingar í Bandaríkjunum (og var semsagt að skamma Bandaríkjamenn fyrir að agnúast útí hvalveiðiflísina okkar í stað þess að skoða rafmagnsstólabjálka í eigin auga). Það er auðvitað gott að íslenskur ráðherra skuli gagnrýna aftökur Bandaríkjamanna, en kannski ekki viðeigandi af þessu tilefni. Samt var það góð samlíking að tvennu leyti. A) Hvortveggja er fordæmt af siðuðum þjóðum, B) Hræðilegar fréttir um langt dauðastríð þeirra dauðadæmdu verður alltaf að hafa í huga þegar reynt er að halda því fram að það séu notaðar mannúðlegar aðferðir við að taka fólk af lífi — eða hvali.

Fyrir tæpu ári var heill Víðsjárþáttur lagður undir hvali og voru meðal annars spiluð brot úr þætti Páls Heiðars Jónssonar, „Hvalasögu“ frá 1978, þar sem farið er í bátsferð með Hval 7 en þar koma fram þeir Friðbert Elí Gíslason skipstjóri og Gísli Benjamínsson, 1. stýrimaður. Páll Heiðar fylgist með eltingarleik við búrhval sem þó komst ekki að koma skoti á (búrhvalir voru veiddir hér við land til 1983) en hlustendur heyra tvær langreyðar skotnar (hér er líklega ástæða til að vara hlustendur við, og jafnvel lesendur líka). Fyrri langreyðurin drapst ekki við fyrsta skot [það reið af á 34:45 mínútu] og „hvalurinn tók á sprett svona á að giska 500 metra og dró þungan stálvírinn á eftir sér … Þeir hlóðu byssuna á ný og voru tilbúnir að umskjóta, þ.e.a.s. skjóta lausum skutli“ [til að koma í hann sprengjunni].

PHJ spyr [37:38]: „Næsta skot á að drepa hann, semsagt?“ „Það vona ég“, svarar skipstjórinn, og segir svo:
„Þau eru örfá skotin sem ég hef orðið að tvískjóta í sumar, eða örfáir hvalir sem ég hef orðið að … Þeir hafa venjulega dáið bara við fyrsta skotið, það er helst ef maður er að taks séns á löngu færi sem að húkkast svona í þá.“
Svo segir útvarpsmaður: „Hann streitist ennþá við“. „Já, hann gerir það, það er dáldið líf í honum.“
Seinna skotið ríður svo af [38:55] og PHJ segir (það er klippt inní):
„Átökin fyrir framan skipið fóru minnkandi eftir því sem sjórinn varð blóðlitaðri. Ef grannt er hlustað má heyra blástur dýrsins … og brátt fjarar lífið út. Umskotið mun hafa hitt svo að segja beint í hjartastað og hafa sprungið þar … Og nú er þessi drottning hafsins reyrð kyrfilega föst á sporðinum upp við skipshliðina.“
[lýsingu á fyrsta skoti lýkur 39:47].

Næsti hvalur deyr í fyrsta skoti, en alls er getið um að Hvalur 7 hafi veitt þrjár langreyðar [sem þeir kalla finnhval] í þessari veiðiferð.

Erfitt er að átta sig á hvað dauðastríð hvalsins sem fyrstur var veiddur tók í raun langan tíma [fyrsta skot ríður af 34:45 og næsta 38:55] því á atburðarrásinni er gert hlé þar sem útvarpsmaðurinn lýsir því sem gerðist og er þá greinilega ekki á vettvangi. Hvort það verður til þess að dauðastríð dýrsins virðist lengra í þættinum eða það virðist mun styttra er óljóst. Það er þó borðleggjandi að hvalurinn dó ekki við fyrsta skot heldur tók á sprett en var dreginn á sárinu með vír að skipinu þar sem hann barðist um þar til seinna skotið dró hann til dauða.

Skipstjóri hvalveiðibátsins tekur fram að þetta gangi yfirleitt fljótar fyrir sig, en viðurkennir um leið að þetta sama sumar hafi þetta gerst oftar en einu sinni, þetta er semsagt ekki óalgengt. Einhverjum þykir það eflaust minniháttar mál hvort það þarf að skjóta þessar stóru skepnur oftar en einu sinni eða hvort það tekur þær fáeinar sekúndur eða margar mínútur (eða allt uppundir hálftíma) að deyja, en getur sá hinn sami sagt það sama um aftökur fanga í Bandaríkjunum, eða er hreinlega allt réttlætanlegt þegar kemur að hvalveiðum?

Í viðtalinu við Rannveigu í Sjónmáli kom fram að Íslendingar rugluðu gjarnan saman veiðum á hrefnu (sem m.a. fara fram á Faxaflóa rétt við nefið á ferðamönnum á hvalaskoðunarbátum og afurðirnar eru seldar innanlands) og veiðum á langreyði (sem Kristján Loftsson stendur að og sendir með miklum tilkostnaði til Japans, en í hvalaskoðunarferðum eru langreyðar ekki skoðaðar (a.m.k. ekki í Faxaflóa) og Íslendingar éta ekki langreyðarkjöt, það eru veiðar á langreyði sem alþjóðasamfélagið gagnrýnir fyrst og fremst vegna útrýmingarhættu). Ég hef líklega gerst sek um að gera ekki greinarmun á þessu tvennu þegar ég skrifa um hvalveiðar, hef aðallega beint spjótum mínum að Kristjáni í Hval og andstöðu alþjóðasamfélagsins gegn hvalveiðum hans en ekki tekið fram að ég er einnig á móti hrefnuveiðum á Faxaflóa, þá ekki síst vegna hvalaskoðunar sem mér finnst að eigi að hafa forgang. Það sem ég hafði líka litið framhjá er að hrefnuveiðar eru aðeins stundaðar af fáum fyrirtækjum og þarna er því, rétt eins og í tilviki Kristjáns í Hval, verið að láta hagsmuni einstakra manna hafa forgang framyfir hagsmuni fjöldans (ferðaþjónustunnar, ímyndar Íslands).

Ennfremur sagði Rannveig frá því að Gunnar Bergmann hrefnuveiðimaður og eigandi útgerðarfélagsins Hrafnreyður ehf. og IP dreifingar ehf. sem sér um sölu og dreifingu hrefnukjöts, er sonur Jóns Gunnarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns atvinnuveganefndar. Jón Gunnarsson hefur því hagsmuni sonar síns í huga þegar hann berst fyrir hvalveiðum og gegn því að hvalveiðum séu sett takmörk á Faxaflóa. Þetta er auðvitað stórpólitískt mál sem sést einnig í því að Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, gerði það að síðasta embættisverki sínu að stækka verulega griðasvæði hvala í Faxaflóa en Sigurður Ingi núverandi ráðherra málaflokksins færði mörkin aftur þannig að hrefnuveiðibátar hafa aftur stærra veiðisvæði, alveg uppvið helsta hvalaskoðunarsvæðið.

En nú eru semsagt Bandaríkjamenn að beita sér gegn langreyðarveiðum Kristjáns Loftssonar og hvalaskoðunarfólk að andæfa hrefnuveiðum sonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Það má hver sem er hafa hvaða skoðun sem er á skynsemi hvala, eða skynsemina í því að friða hvali eða skjóta þá. Ferðaþjónustan hlýtur þó að leggjast á sveif með hvalveiðibanni enda alþjóðasamfélagið á móti hvalveiðum, rétt eins og fullnustu dauðadóma í Bandaríkjunum. Við dýravinirnir viljum auðvitað ekki að nokkur dýr kveljist. En ef þau kveljast, þá eigum við rétt á að vita það til að geta mótmælt öllum hvalveiðum.




Efnisorð: ,