þriðjudagur, júní 30, 2015

Júníuppgjör

Hér á eftir eru nokkrir pistlar og fréttir júnímánaðar sem ekki gafst kostur á að fjalla um jafnóðum.

Skagfirska efnahagssvæðið
Ásta Svavarsdóttir skrifaði opið bréf til Inga Freys Vilhjálmssonar og svarar þar spurningum sem hann velti upp í fróðlegri grein um Skagfirska efnahagssvæðið. Hann segir þar að „efnahagslífi, stjórnmálalífi, viðskiptalífi og kannski öðrum þáttum mannlegs lífs í Skagafirði sé stýrt að hluta af fámennum hagsmunahópi sem stjórnar Kaupfélagi Skagfirðinga.“

Ingi Freyr segir að þegar hann hefur „hringt í einhverja einstaklinga í Skagafirðinum til að reyna að fá upplýsingar um tiltekin mál, til dæmis samkeppnisstöðu í sölu á matvöru, hef ég fengið það á tilfinninguna að íbúarnir séu hræddir við að tala um viðkomandi mál. En við hvað eru þeir hræddir?“ Því svarar Ásta.


Viðbrögð við játningu
Játning Ársæls Níelssonar þar sem hann viðurkennir af fyrra bragði að vera kynferðisbrotamaður – og ekki síður viðbrögð lesenda við játningu hans er umfjöllunarefni ónefnds höfundar sem segir að með þessum viðbrögðum hafi enn frekar verið fest í sessi sú hugmynd
„að menn sem brjóta gegn konum en eru þó ekki skrýmsli séu í raun misskildar hetjur og eigi skilið annan séns. Að hann eigi skilið fyrirgefningu. Þrýstingurinn á þolendur að fyrirgefa verður þá yfirgnæfandi, því fyrst hann kom svona fram, á hann það þá ekki skilið? Er hann ekki næs gaur? Hann beitti þig ofbeldi, en ætlarðu ekki bara að gleyma því núna? HANN SAGÐI SORRÍ! Með þessu höfum við í raun tekið allan þrýsting af ofbeldismönnum og fært það aftur yfir á þolendur.“

Fjárkúgunartilraunin
Fjárkúgunarmálið hefur enn ekki farið fyrir dómstóla og Kjarninn velti fyrir sér hvort það hefði meiri eftirmála fyrir systurnar heldur en fyrir karlinn sem ætlaði að sprengja sprengju við heimili þáverandi forsætisráðherra en gerði sprengjutilraun við Stjórnarráðið í staðinn, og slapp án ákæru. Ennfremur heldur Kjarninn því fram að fjárkúgunarmálinu sé ekki lokið fyrr en tveimur spurningum er svarað:
„Í fyrsta lagi, hvert var tæmandi innihald þeirrar hótunar sem sett var fram í kúgunarbréfinu og í öðru lagi, hverjir fjármögnuðu kaup Björns Inga á DV í fyrrahaust? Á meðan að þessum spurningum er ósvarað verður þessu einkennilega, og um margt sorglega, máli ekki lokið.”

Óþörfu orði troðið inn
„Ríkissaksóknari gefur út ákæru á hendur piltunum fimm fyrir meinta hópnauðgun.“ Þetta var fyrirsögn Vísis enda þótt að ríkissaksóknari hljóti að hafa kært ungu mennina fyrir nauðgun en ekki meinta nauðgun. Ganga fjölmiðlar ekki fullangt til að sýna hlutleysi (og forðast málshöfðun) með því að bæta inn fyrirvaranum „meintur“ þegar talað er um nauðgunarkæru?


Pyntingar eða veiðisport?
Guðmundur Guðmundsson, líffræðingur og laganemi skrifaði pistil um það hátterni stangveiðimanna að veiða og sleppa.
„Það er enginn sómi í því né heldur ætti það að vera skemmtun fólks að ginna fisk með flugu eða öðru agni til þess eins að draga hann á kjaftinum um öll vötn. Þegar fiskurinn hefur að lokum verið dreginn upp á grynningar, særður, uppgefinn og úttaugaður, er hann sporðtekinn og lyft upp úr vatninu til að festa megi afrekið á mynd.“

Sjómenn – þó ekki allir sjómenn
Anna Kristjáns skrifaði um sjómannslíf - Hildi Lilliendahl til varnar.


Hvassvindahraun
Rögnunefndin skilaði niðurstöðu sem lægir engar öldur, enda mátti nefndin ekki skoða Keflavíkurflugvöll sem valkost, en valdi þess í stað Hvassahraun sem er á leiðinni til Keflavíkur. Tveir flugmenn hafa talað gegn þeirri hugmynd. Annar þeirra jafnvígur á þyrlur og flugvélar Landhelgisgæslunnar, hinn er Ómar Ragnarsson sem er þess fullviss um að Hvassahraun sé afleitur staður.
„Vindmælingar niðri við jörð segja ekki alla söguna, því að hættulegasta ókyrrðin er eðli málsins samkvæmt ofar, í aðfluginu og ekki hvað síst í fráfluginu þegar flogið er í átt að Reykjanesfjallgarðinum.“

SDV
Sigmundur Davíð tryggði sér loksins taumlausa aðdáun allra landsmanna með hófstilltu smáviðtali í fjölmiðli, sem tengist honum ekkert, en fékk óvart mikla dreifingu þann dag sem geðþekkt andlit forsætisráðherrans blasti við. Nei annars, Gunnar Hólmsteinn Ársælsson stjórnmálafræðingur skrifaði öllu raunveruleikatengdari pistil um þetta.


Sjaldan bregður mær vana sínum
Ég hef áður nefnt frábæra ræðu Jóns Kalmans en eitt af því sem gerði hana skemmtilega voru nokkuð föst skot á núverandi forseta. Sembeturfer var umræddur forseti ekki viðstaddur, hann var nefnilega í útlöndum að nudda sér upp við auðmenn í útlöndum. Stundin skrifaði um stjórn Goldman Sachs bankans, sem var sá félagsskapur sem Ólafi Ragnari þóknaðist að þessu sinni.


Efnisorð: , , , , , , , ,

sunnudagur, júní 28, 2015

Konur í áhrifastöðum

Eitt er það sem er vert að nefna í tilefni af því að hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði samkynja hjónaböndum í hag. Niðurstaða hæstaréttardómaranna níu* var ekki samhljóma og skiptust atkvæði þeirra þannig:

Karlmenn 4-2 á móti
Konur 3-0 með

Á þessu sést með afgerandi hætti að það skiptir gríðarlegu máli að hafa konur í áhrifastöðum.

Það er því vel við hæfi að í kvöld verður haldið uppá það að Íslendingar báru gæfu til þess að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta sinn fyrir 35 árum.

— Ræðan sem Jón Kalman hélt á Arnarhóli var frábær.


___
* Þess má geta að Clarence Thomas, sem er af sumum talinn íhaldssamastur þeirra allra (aðrir nefna Antonin Scalia í það hlutverk), er einn þeirra sem kaus gegn því að öllum ríkjum bæri að sjá til þess að samkynja pör gætu gengið í hjónaband. Mörgum er enn í minni þegar hann var ásakaður um kynferðislega áreitni í garð Anitu Hill. Það er Clarence Thomas sem situr fýlulegur lengst til vinstri á myndinni, svona sem mótvægi við Ruth Bader Ginsburg (sem er 82 ára kvenréttindakona og ofurtöffari) á hinum endanum. Á milli þeirra sitja, talið frá vinstri: Antonin Scalia og John Roberts dómsforseti sem situr fyrir miðju, svo kemur Anthony Kennedy sem er oddamaðurinn; íhald sem stundum hallar sér að frjálslyndari armi dómsins, eins og í þetta skiptið. Í efri röð eru Sonia Sotomayor, Stephen Breyer, Samuel Alito og loks Elena Kagan. Augljóst er af (fótosjoppuðum) skikkjunum hver þeirra styðja réttindi samkynhneigðra.
[Myndinni fylgdi texti sem ég hannesaði.]

Efnisorð: ,

föstudagur, júní 26, 2015

Jákvæðniskast

Þá sjaldan að jákvæðar fréttir berast er það ljúf skylda að deila þeim með öðrum.

Jákvæðnitaugin tók kipp í síðustu viku þegar ég las frétt um ræðu sem Hermann Jónsson hélt. Hann hefur sett sér það markmið að verða besti pabbi í heimi.
„Á hverjum degi vinn ég að því að ná því markmiði, að verða besti pabbi í heimi. Það er háleitt markmið sem krefst mikillar vinnu en í mínum huga er það þess virði.“

Hann sagðist hafa þurft að skilgreina markmiðið og komst að því að hann væri ekki að ala upp barn heldur fullorðna manneskju. „Það sem ég meina með því er að allt sem ég geri á meðan barnið elst upp mun hafa áhrif á hvernig manneskja barnið mitt verður þegar það hefur vaxið úr grasi.“


Hann skapaði því ímynd af þeirri manneskju sem hann vildi að barnið sitt yrði. Hann sagðist hafa gert það með því að líta á sjálfan sig og þurft að átta sig á því hvað hann gerði sjálfur vel og hvað ekki. „Eina manneskjan sem ég get í raun stjórnað er ég sjálfur en ég get haft áhrif á börnin mín. Með því að vera góð fyrirmynd sendi ég skýr skilaboð til barnanna minna,“ sagði Hermann.


Hann sagði bestu leiðina til að koma þessu skilaboðum til barnanna sinna í gegnum eigin hegðun. „Ég komst að því að ég yrði að lifa lífi mínu eftir einni reglu: Allt sem ég geri eru bein skilaboð til barnanna minna. Ef ég vil að börnin mín drekki ekki, þá drekk ég ekki. Ef ég vil að börnin mín reyki ekki, þá reyki ég ekki.“
Mikið er ánægjulegt að heyra um fólk sem vandar sig svona við barnauppeldið. Það mættu fleiri átta sig á að allt sem foreldrarnir gera hefur áhrif á hvernig manneskja barnið þeirra verður í framtíðinni.

Nokkru síðar las ég pistil eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur kynningarstjóra og upplýsingafulltrúa UNICEF á Íslandi þar sem hún flutti mjög jákvæðar fréttir af alþjóðavettvangi. Meðal annars þessar.
Leiðtogar vopnaðra hópa í Mið-Afríkulýðveldinu höfðu samþykkt að sleppa öllum barnahermönnum og börnum sem tengdust hópunum: Mörgum þúsundum! Þeir höfðu líka samþykkt að hætta alfarið að nýskrá börn inn í herflokkana. UNICEF hafði yfirumsjón með samkomulaginu og hafði lengi unnið að þessu.

Suður-Súdan, eitt fátækasta ríki heims, hafði fullgilt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hann er grunnurinn undir allt sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, gerir. Núna höfðu öll ríki Sameinuðu þjóðanna nema Bandaríkin fullgilt þennan stórmerkilega sáttmála.

Og svo eru það gleðifréttir dagsins:

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað að samkynja hjónabönd standist stjórnarskrána. Úrskurðurinn hefur í för með sér að öll fylki Bandaríkjanna verða skylduð til gefa saman samkynja pör sem þess óska. Þetta er vægast sagt mikið fagnaðarefni.


Efnisorð: , ,

fimmtudagur, júní 25, 2015

Aðsúgur gerður að Björgólfi Thor

Eins og ég var nú fegin að vera ekki í hópi þeirra fjölmörgu sem áttu hlutabréf í Landsbankanum þegar hann varð gjaldþrota, þá er ég nú hálfsvekkt. Það er nefnilega verið að safna liði til að fara í mál við Björgólf Thor Björgólfsson, þennan sem lenti svo illa í hruninu að hann neyddist til að selja einkaþotuna og snekkjuna (hér er við hæfi að viðhafa mínútu þögn) en er nú (alveg óvart og ekki vegna þess að hann faldi peninga í skattaskjólum) aftur orðin forríkur. Ómar Ragnarsson skrifaði örstutt og hnitmiðað um það:
Björgólfur Thor Björgólfsson átti eina eftirminnilegustu setninguna í mynd Helga Felixsonar um Hrunið.
Hann var spurður: "Hvað varð um allar þessar hundruð milljarða króna?"
Björgólfur svaraði: "Þeir hurfu."
Ef hann yrði spurður núna hvaðan þessar 173 milljarðar, sem hann á núna, hefðu komið, myndi hann þá svara: "Þeir birtust"?
Það getur svosem verið að það séu eintómir (fyrrverandi) atvinnufjárfestar sem eru í þeim hóp sem á harma að hefna eftir hrun Landsbankans, en mig grunar þó að þar sé talsvert um venjulegt fólk, ekki síst fólk á efri árum sem bankastarfsmenn glöptu til að taka út ævisparnaðinn til að kaupa í bankanum. Og myndi vilja vera memm ef það fólk tekur þátt í hópmálsókn á hendur Björgólfi Thor.

Það er samt afar fallegt af Björgólfi Thor að hafa áhyggjur af því að lögmenn ætli að græða á öllu saman. Hann var einmitt fremstur í flokki að vara við hlutabréfakaupum almennings í bönkunum á sínum tíma, svo ekki sé nú minnst á þið-vitið-hvað. Alltaf ber hann hag lítilmagnans fyrir brjósti, blessaður.

Efnisorð:

mánudagur, júní 22, 2015

Viðbrögð við barnsfæðingu

Um daginn vöktu fjölmiðlar athygli á bloggpistli sem ungur karlmaður skrifaði um þunglyndi sitt. Hann lýsir því þar hvernig það litaði allt sitt líf og varð til þess að í stað þess að gleðjast þegar hann sá son sinn í fyrsta sinn fann hann allt aðrar tilfinningar. Hann notar stór orð um þessar tilfinningar, dregur ekkert úr, eins og sést á því að pistillinn heitir „Að hata barnið sitt“.

Nú vil ég byrja á að segja að ég er hlynnt því að fólk segi opinskátt frá erfiðri lífsreynslu, hver sem hún er, og hvort sem það er gert á bloggi, í bók, á Beauty tips eða í viðtölum við fjölmiðla. Það hjálpar þeim sem enn eru að kljást við sjúkdóma eða afleiðingar kynferðisbrota (svo eitthvað sé nefnt) að vita að það er ljós við enda ganganna. Ekki síður eru slíkar frásagnir afar upplýsandi fyrir lesendur sem ekkert þekkja til, og verður þannig (vonandi) til að minnka fordóma í samfélaginu.

Og það vill til að frásögn unga karlmannsins fær góðar undirtektir. Á þeim þremur stöðum sem pistlillinn birtist í heild eða að hluta, þar af á bloggsíðu hans sjálfs, voru undirtektir góðar. Engin einasta neikvæð athugasemd um frásögn hans af því að hata barnið sitt, ekki heldur við viðtal við hann í DV (þar er ein hallærisleg athugasemd). Engar árásir, ekki neitt. Bara allir að óska honum velfarnaðar og hrósa honum fyrir hugrekkið að segja frá baráttunni við þunglyndið. Sem er afar jákvæð afstaða og lofsverð.

Muniði eftir viðtalinu við Sóleyju þar hún sagði frá viðbrögðum sínum við að eignast son? Hún sagði að sér hefði fundist það skrítið og hún hefði verið lengi að jafna sig á því en hún hefði komist að því að það væri ekkert hræðilegt að eiga strák. Hún notaði sannarlega ekki jafn stór orð og ungi karlmaðurinn, en orð hennar voru hent á lofti, skrumskæld og notuð gegn henni. Það sama á ekki við um þennan ágæta hugrakka karlmann sem allir eru velviljaðir gagnvart. Mig grunar reyndar að það sé ekki bara vegna þess að almenningur allur sé orðinn svona fordómalaus. Það er kannski ekki mikil ráðgáta hver orsökin er fyrir hinum hófstilltu viðbrögðum.

Efnisorð: ,

laugardagur, júní 20, 2015

Karlmannslaust á kvenréttindadaginn

Kvenréttindadagurinn í gær virðist hafa farið vel fram um allt land. Engar óeirðir eða hópuppsagnir úr feminisma. Þvert á móti stigu valinkunnar kvenréttindakonur á stokk. Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður Kvenréttindafélags Íslands hélt þrumuræðu og Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti sagði meðal annars í sinni ræðu:
„Allir feður og allir bræður vita að dætur þeirra og systur eru jafnklárar og þeir en þeir verða að hafa hugfast að það á ekki aðeins við um þeirra eigin dætur og systur.“
Í gær og dag hef ég legið yfir fjölmiðlum jafnt sem fámiðlum og get hvergi séð neitt um mótmæli eða glitta í skilti eða annað sem bendir til að einhver hafi tekið sig til og minnst þess að vinnumenn fertugir og eldri fengu líka kosningarétt þennan dag fyrir hundrað árum. Hafði þó kvenhatursforinginn Einar Steingrímsson (sem rétt eins og Eva Hauks er handvalinn af ritstjóranum til að viðra skoðanir sínar í Kvennablaðinu) skrifað grein fyrr á árinu þar sem hann lýsti mikilli hneykslun sinni á að vinnumenn hefðu alveg gleymst í ákafanum við að halda á lofti kosningarétti kvenna. Grein Einars gekk útá að það hafi verið þaggað niður hvenær karlar hafi fengið kosningarétt og að feministafrenjur hafi ekki bara stolið afmælinu þeirra heldur og falsað söguna.

Einhvernveginn hafði ég þessvegna haldið að Einar Steingrímsson myndi sjá til þess að haldið yrði uppá kosningarétt karla (eins og hann skilgreinir hann) en auðvitað skrifaði hann greinina eingöngu til að níða niður kvennabaráttuna fremur en af einlægum áhuga fyrir því að minnast þessa áfanga í sögu karla.

En svo má auðvitað vera að 19. janúar 2016 taki öll Kvennablaðshersingin sig til og haldi þá uppá hundrað ára afmæli kosningarétt vinnumanna fertugra og eldri, því samkvæmt ritstjóranum er það réttari dagur en gærdagurinn. Ég bíð spennt eftir að sjá í beinni útsendingu þegar vinnumenn til sveita þyrpast á Austurvöll í janúarveðurblíðunni til að fagna áfanganum.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, júní 18, 2015

Fremst í flokki

Agli Helgasyni þykir mikil goðgá að mótmælt hafi verið á 17. júní. Hann lætur einsog hann sé bara ósáttur vegna þess að mótmælin héldu áfram meðan kórinn söng (sem alveg er hægt að taka undir að hafi verið óþarfi) en aðallega tekur hann upp þykkjuna fyrir forsætisráðherrann sinn.

„Mótmælin beindust þó aðallega gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.“ [Glöggur Egill!]

„Ákveðinn hluti þjóðarinnar þolir hann ekki, er með algjört ofnæmi fyrir honum. Þar fara fremst Stundin og Gunnar Smári Egilsson.“

Mér finnst framhjá mér gengið.

Efnisorð:

þriðjudagur, júní 16, 2015

Makríll fyrir miðsumarsbil

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vill fyrir alla muni koma makrílfrumvarpinu í gegnum þingið í stað þess að fresta því til hausts enda þótt þá gæfist nægur tími til að breyta því og bæta og ræða það í þaula. Svo ekki að liggja mikið á frumvarpinu því enginn makríll veiðist eða sést, hefði maður haldið.

En það að er reyndar ekki skrítið að Sigurður Ingi vilji skella kvóta á makríl og byrja að gefa hann útvöldum, jafnvel þótt ekkert veiðist. Þetta snýst nefnilega ekki bara um veiddan fisk, heldur skiptir mestu máli fyrir útgerðarmennina að fá kvóta sem þeir svo geta veðsett. Þessvegna liggur á, það þarf að fara að eyða þessum peningum.

Efnisorð:

sunnudagur, júní 14, 2015

He

Hæhó jibbíjeiið er eftir tvo daga. Þá eru margar blöðrur blásnar upp og mikið kandífloss étið. Hið síðarnefnda er óskiljanlegt, enda er kandífloss eitthvað undarlegasta sælgæti sem um getur. Hinsvegar er þetta með blöðrurnar og þá sérstaklega helíumfylltu blöðrurnar sem er verra mál.

Fyrir nokkru skrifuðu Ásdís Ólafsdóttir líffræðingur og Snjólaug Ólafsdóttir umhverfisverkfræðingur áhugaverða hugvekju um til hvers helíum er notað og ætti að vera notað.
„Helíumfylltar blöðrur hafa löngum glatt bæði börn og fullorðna við ýmis tilefni s.s. á 17. júní og til skreytinga í veislum. Sú stundarskemmtun sem blöðrurnar veita getur þó dregið dilk á eftir sér, nokkuð sem við höfundar þessarar greinar, viljum benda á.

Helíum er sennilega þekktast sem partíblöðrugas og óvíst að allir átti sig á mikilvægi gassins til annarra nota. Nú í seinni tíð hefur borið á helíumskorti.“
Ásdís og Snjólaug ræða hvar helíumið er helst að finna, en helíum er ekki framleitt bara fyrir blöðrur heldur er það frumefni (He) sem finnst í jarðgasi. Það er ekki óþrjótandi auðlind.
„Aðalnotkun helíums í heiminum er sem kælivökvi á segulómunartæki (MRI-skanna) á sjúkrahúsum en einnig er það notað sem kælimiðill við framleiðslu hálfleiðara og í kjarnaofnum svo dæmi séu tekin. Enn er ekki vitað hvernig skipta eigi efninu út fyrir aðra kælimiðla. Önnur notkun helíums er t.d. í loftbelgi til mælinga svo sem við háloftaveðurmælingar, við framleiðslu á ljósleiðara, á rannsóknarstofum, í eldsneytistönkum geimflauga og í innöndunargasi t.d. í súrefnistönkum kafara. Helíum er því notað í margvíslegum tilgangi til að styðja við lífsmáta okkar og afleiðingar af skorti efnisins munu valda verulegum vandræðum. Af ofangreindu má sjá að vert er að velja rétta notkun á helíumauðlindinni.“
Auk þess valda blöðrurnar sjálfar skaða því flestar enda þær í sjónum og skaða dýralíf, og er það einnig rætt í greininni.

Í stuttu máli sagt: helíum er ekki óþrjótandi auðlind og það skiptir máli hvernig það er notað. Helíumfylltar blöðrur í afmælisboð eða á 17. júní ganga á helíumbirgðir sem betur eru nýttar í annað.


___

Ágæt viðbót.

Efnisorð: ,

föstudagur, júní 12, 2015

Fjármálaráðherra vill ekki hækka laun kvennastétta og hefur til þess ýmsar ástæður

Aldrei stóð til að semja við hjúkrunarfræðinga, geislafræðinga, lífeindafræðinga, náttúrufræðinga og ljósmæður(eða aðra í BHM), og nú að setja lög á vinnudeilurnar í stað þess að leiða þær til lykta með samningum. Skiljanlega er gríðarleg óánægja með þetta hjá þessum starfstéttum. Ég get alveg tekið undir þær ályktanir að vegna þess að um kvennastéttir sé að ræða sé enginn vilji hjá ríkisvaldinu til að hækka laun þeirra neitt sérlega mikið, enda eiga konur auðvitað helst að vinna kauplaust og lifa á hugsjóninni einni saman.

En það er líka önnur skýring sem ég aðhyllist líka (ég er svo fjölhæf að ég get haft margar skoðanir á einu máli) og sú tengist því að hjúkrunarfræðingar hafa verið að segja upp vegna þessarar vonlausu stöðu í kjaramálum. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að góðir og gegnir Sjálfstæðismenn eru að setja á laggirnar einkarekið fyrirtæki á sviði lækninga og heimahjúkrunar í Ármúla. Og þar bjóðast hjúkrunarfræðingum (og jafnvel fleiri stéttum) eflaust betri kjör en á Landspítalanum (en þó ekki svo góð að arður eigendanna verði ekki umtalsverður), og þannig er hægt að slá tvær flugur í einu höggi: veikja opinbera heilbrigðiskerfið með því að flæma burt menntað, hæft og nauðsynlegt starfsfólk, og lokka það til að styrkja stöðu einkareknu heilbrigðisþjónustunnar. Frjálshyggjudraumur í dós.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, júní 11, 2015

Þöggunartilburðir á Kvennablaðinu

Áðan var mér sá ógreiði gerður að senda mér slóð á Kvennablaðið þar sem lesa mátti pistil eftir Evu Hauksdóttur. Þegar Kvennablaðið hóf göngu sína hélt ég í 2 mínútur að þetta yrði fínn feminískur vettvangur en þegar ég komst að því að þessi stæki andfeministi væri þar innsti koppur í búri runnu á mig tvær grímur. Þá sjaldan ég rek þar inn nefið (og held fyrir það á meðan) verð ég alltaf jafn bit. Jújú, þarna er allskonar sem eftilvill væri áhugavert ef ekki væri fyrir lesendahópinn sem birtist í athugasemdakerfinu: kallar sem örugglega læsu ekki blað með þessu nafni nema afþví að þeir eru áhangendur Evu.

Eitt sinn þegar ég svipaðist um á Kvennablaðinu (eftir að hafa lesið e-ð sem e-r vísaði mér á) rakst ég grein eftir unga konu sem skrifar ágætis pistil um feminisma, og hún var bara aðallega að þakka fyrir að feminismi hafi verið til og veitt henni ýmis réttindi. En fólkið í athugasemdakerfinu, með Evu í broddi fylkingar - átti ekki til orð af hneykslun. Alveg forboðið auðvitað – í fjölmiðli sem kennir sig við málgagn Bríetar Bjarnhéðinsdóttur — að vera ánægð með feminisma. (Ég hef áður skrifað um andfeminisima í Kvennablaðinu.)

Í þessari sömu ferð inn á hið kvenréttindafjandsamlega Kvennablað fann ég fleira. Og ef eitthvað var ömurlegra en viðbrögð Evu og jákórsins við greininni (sem ég ræddi hér að ofan) þá eru það athugasemdir þeirra við grein sem fyrsta árs nemi í framhaldsskóla hafði vogað sér að skrifa. Hún hafði gerst sek um að tala jákvætt um feminisma og fékk ekki bara Evu heldur líka hinn rökfasta Kristinn Theódórsson til að ráðast gegn sér. Það var þá andstæðingurinn sem þau völdu sér, 17 ára krakki!

En þó þöggunartilburðir Evu sýni sig þarna berlega þá koma þeir enn betur í ljós í þeim dæmalausa pistli sem hún skrifar í Kvennablaðið í dag. Þar rakkar hún niður og hæðist að brjóstabyltingunni, frásögnum kvenna á Beauty tips um kynferðisofbeldi, og því að konur (og sumir karlar) skuli opinbera með prófílmynd að þær þekki þolendur kynferðisofbeldis eða hafi sjálfar orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Oft hef ég verið gáttuð á Evu og hvernig hún hikar ekki við að ráðast gegn fólki í mannréttindabaráttu, en þessi hæðnislega árás á þolendur ýmiskonar ofbeldis og kynferðisbrota, er svo illkvittin og andstyggileg að það er varla hægt að finna yfir það orð.

Sem betur fer er fjöldi fólks í athugasemdakerfinu sem kann henni litlar þakkir fyrir framtakið og lætur hana heyra það. Ég leggst því ekki í langar útlistanir á eintaka atriðum pistils Evu, og spara mér því mörg stóryrðin. Reyndar er það að einhverju leyti gott að Eva skrifaði þennan pistil, svo ógeðfelldur sem hann er, því hann afhjúpar (enn einu sinni) innræti hennar með þeim hætti að engu fólki með snefil af sómatilfinningu er stætt á því að fylgja henni að málum.

Eitt skyldu þó lesendur Kvennablaðsins vita. Steinunn Ólína ritstjóri handvaldi Evu Hauksdóttir til að skrifa fyrir sig. Viðhorf hennar koma ritstjóranum ekkert á óvart.

Efnisorð: ,

mánudagur, júní 08, 2015

Mundu svo að brosa

Í desember síðastliðnum vöktu stéttarfélög víða um heim athygli á
„vinnuaðbúnaði hótelþerna og beindu kastljósinu að þessum erfiðu störfum sem unnin eru daglega á milljónum hótela um allan heim. Markmiðið með þessar alþjóðaherferð er að opna augu hótelgesta fyrir þessum störfum en um leið þrýsta á atvinnurekendur að bæta starfsaðbúnað og starfskjör þeirra sem sinna hótelþrifum.

Á bakvið lúxusinnréttingar og glæsilega ásýnd hótela leynast oft á tíðum hættulegar vinnuaðstæður og mikið vinnuálag þar sem illa launað starfsfólk lyftir þungum dýnum, flytur húsgögn, þurrkar af gólfum og innréttingum, þrífur margskonar óhreinindi og salerni. Við þessi þrif notar starfsfólk oft hættuleg hreinsiefni, eru undir mikilli tímapressu og síðast en ekki síst verða þeir oft fyrir margskonar áreitni frá hótelgestum.“
Þetta er úr grein eftir Drífu Snædal, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambands Íslands og Hörpu Ólafsdóttur, forstöðumanns kjaramálasviðs Eflingar. Ég man ekki til þess að greinin hafi vakið mikla athygli, en það err ágætt að draga hana fram í dagsljósið núna í ljósi greinar sem birt var í Fréttablaðinu í dag og kynningar á niðurstöðu rannsóknar um kynferðislega áreitni sem unnin var fyrir Starfsgreinasambandið og Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum.

Greinin í Frbl. var skrifuð af stjórn Norrænna samtaka starfsfólks í hótel-, veitinga- og ferðaþjónustugreinum og þar segir að
„Kynferðisleg áreitni er því miður daglegt brauð fyrir starfsfólk í hótel- og veitingagreinum á Norðurlöndunum. Alltof margir upplifa áreitni frá káfandi gestum, kynferðislegan undirtón í samskiptum og almenna karlrembu. Þetta kemur fram í mörgum könnunum sem norræn stéttarfélög innan ferðaþjónustugreina hafa gert meðal félagsmanna sinna. Þessi áreitni kemur frá samstarfsfólki, yfirmönnum og viðskiptavinum.“
Niðurstaða rannsóknar Steinunnar Rögnvaldsdóttur (fyrir SFS og RIKK), var í stíl við þetta:
„Öryggi fólks sem starfar við þjónustustörf; á veitingastöðum, í ferðaþjónustu og á hótelum er ógnað. Önnur hver kona og fjórði hver karlmaður sem vinnur þjónustustörf hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í tengslum við störf sín“.
Í grein stjórnar Norrænu samtakanna er svo þessi þarfa áminning:
„Atvinnurekendum ber að tryggja starfsumhverfi sem er laust við ofbeldi og kynferðislega áreitni. Við sem viðskiptavinir höfum einnig mikla ábyrgð og okkur ber að hegða okkur vel gagnvart þeim sem þjónusta okkur.“
Drífa og Harpa skrifuðu einnig í grein sinni um alþjóðaherferðina um tiltekið mál sem sneri að framkomu hótelgests við hótelþernu. Hið fræga mál þegar „Dominique Strauss-Kahn, fyrrum forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, var handtekinn fyrir kynferðislegt áreiti gagnvart hótelþernu á lúxushóteli í New York“. (Ég hef einnig skrifað um það mál, m.a. hér og hér).

Það má því ljóst vera að kynferðisleg áreitni við hótelþernur er alþjóðlegt vandamál, og kannanir hér á landi og á öðrum Norðurlöndum sýna að annað starfsfólk í þjónustustörfum, á veitingastöðum, í ferðaþjónustu og á hótelum verður fyrir kynferðislegu áreiti sem veldur því vanlíðan og það flýr jafnvel úr starfi. En, eins og bent var á hér að ofan, þá eru það fyrst og fremst viðskiptavinirnir, frægir sem ófrægir, sem þurfa að láta af óviðeigandi háttalagi við fólk sem er bara að vinna vinnuna sína.

Vonandi verður það árviss viðburður að vakin verði athygli á vinnuaðbúnaði hótelþerna - og helst þeirra sem starfa í öðrum þjónustustörfum líka. Líklega yrði tekið betur eftir slíkri herferð næst.

Efnisorð: , ,

föstudagur, júní 05, 2015

Hvað finnst umræddum?

Nokkrum dögum eftir að kynferðisbrotasögur innan Beauty tips hópsins komust í hámæli, og stelpur höfðu óhikað sagt sögu sína í fjölmiðlum, fór ég að hugsa um hvort það væru einhver viðtökuskilyrði fyrir þessum sögum. Eða með öðrum orðum: hvernig er stemningin meðal nauðgara landsins þessa dagana?

Miðað við hvernig karlmenn bregðast oftast við þegar þeir eru ásakaðir um nauðgun þá má búast við að allmargir menn sem hafa nauðgað líti allsekki á sig sem nauðgara en aðrir vita reyndar alveg hvað þeir gerðu en þræta samt. En nú sitja þessir menn hugsanlega við tölvuna og rekast á frásagnir stelpna sem þeir voru einhverntímann í samskiptum við í lengri eða skemmri tíma, og þær segja frá nauðgun og hvernig áhrif nauðgunin hafði á líf þeirra og nánast beinum orðum (yfirleitt án þess þó að nafngreina neinn) hver nauðgaði þeim. Og hvað gerist þá? Bregður þeim þegar þeir átta sig á að þeir falla undir skilgreininguna nauðgari? Horfast þeir í augu við það, skammast sín og iðrast? Eða fara þeir í Gillzenegger gírinn og réttlæta hvert það skref sem leiddi til þess að einn aðili málsins kom niðurbrotinn frá samskiptunum? Fara þeir jafnvel í herferð meðal vina og kunningja til að ‘leiðrétta’ söguna og segja að stelpan sem hafði verið svo kjörkuð að segja sögu sína sé hrikaleg drusla sem ekkert mark sé á takandi, eða jafnvel geðveik? Eða getur verið að einhverjir þeirra læri af þessu að þeir þurfi að endurskoða hvernig þeir koma fram við konur, átta sig á að líkami kvenna er ekki leikvöllur þeim til skemmtunar (jafnvel þótt klámmyndir líti svo á), og sjá að þeir hafi ekki skilyrðislausan rétt til að fá kynhvöt sinni fullnægt.

Ég fékk einhver svör við þessum vangaveltum þegar ég las viðtal við Eyrúnu Eyþórsdóttur lögreglufulltrúa í kynferðisafbrotadeild lögreglunnar. Hún segir að karlmenn hafi brotnað niður í skýrslutöku, við það að átta sig á því að þeir hafi brotið gegn konum kynferðislega. Stundum átti karlmenn sig ekki sjálfir á því að þeir hafi í raun framið nauðgun.
„Ég tek fram að með þessu er ég ekki að firra karlmenn ábyrgð. En við megum ekki horfa framhjá þeirri staðreynd að margir karlmenn, sem beita ofbeldi, taka ekki meðvitaða ákvörðun um að gera það. Mín tilfinning er að þetta tengist þeirri hugmyndafræði að karlmenn hafi einhvers konar umráðarétt yfir konulíkamanum, sem virðist svo rótgróin í hugum margra karla að þeir átta sig stundum ekki á því sjálfir. Ég hef verið með mál þar sem menn hafa brotið gegn konum án þess að gera sér grein fyrir því. Þeir hafa svo algjörlega brotnað niður í skýrslutöku þegar þeir heyra lýsingar konunnar á atburðinum. Oft virðast þeir ganga út frá því að ef það kemur ekki skýrt nei - ekki var sparkað eða lamið - hafi samþykki legið í loftinu.“
Eyrún segir einnig að stjórnvöld verði að setja aukinn kraft í rannsóknir á því hvers vegna svo margir karlmenn beita konur ofbeldi.

Það er auðvitað mikilvægt að fá það á hreint en ég get svosem stungið uppá nokkrum svörum: kvenfyrirlitning, klám, en þó aðallega rótgróinn hugsun karla um yfirráð sín yfir konum og að þær séu til að þjóna körlum kynferðislega, með öðrum orðum: karlveldið holdi klætt.

En svo ég komi nú aftur að þessu sem ég fékk þó svar við í viðtalinu, þá þykir mér áhugavert að sumir karlmenn brotni niður þegar þeir átti sig á hvað þeir hafi gert. Það eru þá semsagt líkur til þess að einhverjir sem þekkja sjálfan sig af lýsingum kvenna sem segja frá kynferðisbrotum átti sig á að þótt þeir hafi verið sáttir við hvernig samskiptum þeirra hafi verið háttað glími konan við alvarlegar afleiðingar hegðunar þeirra.

Svo eru auðvitað þeir sem lesa þessar lýsingar og hlaupa til og fá sér lögmann. Þeir þrír karlmenn sem hafa leitað til til Vilhjálms H. Vilhjálmssonar (sem er einnig lögmaður Egils Gillzeneggers Einarssonar), vegna þess að þeir voru kallaðir kynferðisbrotamenn á Beauty tips síðunni eru greinilega ekki týpurnar sem kikna undan lýsingum fórnarlamba.*

Ég er ekki ein um að hafa verið að velta viðhorfi kynferðisbrotamanna fyrir mér því Birta Björnsdóttir skrifaði um það áhrifamikinn bakþankapistil:
„Ótrúlegur fjöldi kvenna hefur á undanförnum dögum greint frá kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir á lífsleiðinni. Fjöldinn er þvílíkur að mann setur hljóðan við að renna yfir Facebook-síðuna Beauty tips þar sem þessi bylting á sér stað undir merkjunum #þöggun og #konurtala. Og ekkert lát virðist vera á, enn voru að bætast við frásagnir síðdegis í gær. 

Fyrir utan aðdáun og hluttekningu til þeirra kvenna sem deilt hafa sögum sínum sat í mér eftir lestur frásagnanna á Beauty tips spurningin hvaða fólk þetta er sem beitir þessu hrottalega ofbeldi. […] En maðurinn sem nauðgaði sambýliskonu sinni [er hann] grunlaus um þá botnlausu vanlíðan sem hann hefur valdið manneskju sem treysti honum?“
Það er nauðsynlegt að draga nauðgara og aðra kynferðisbrotamenn inn í þessa umræðu og þeir verða að fara að horfast í augu við hvaða skaða þeir valda. Meðan þeir leggjast í afneitun eða segja að logið sé uppá þá halda þeir áfram að valda skaða. Þeir og fólkið sem leggst gegn því að konur sem brotið hefur verið gegn skýri frá nöfnum nauðgaranna (ég á ekki bara við um lögmenn á launum heldur almenning sem tjáir sig í ræðu og riti) er með því að forða þeim frá ábyrgð á því sem þeir gerðu. Eg er sammála Elísabetu Ýri Atladóttur sem vill að kynferðisbrotamenn séu gerðir ábyrgir.
„Það er kominn tími til að þolendur fái að njóta vafans og að samfélagið hætti að ætlast til að þolandi beri alla ábyrgð á ekki bara sér og sínum lífsgæðum, heldur hans líka. Réttarkerfið er ekki brotið af ástæðulausu, það finnast engar lausnir fyrir þolendur því samfélagið í heild vill ekki að gerendum sé refsað. Við hrópum að nauðganir séu hræðilegar og nauðgarar eigi verstu refsingar skilið, en kóum svo með þeim þegar þeir þykjast beittir óréttlæti því þolandi sagði sannleikann. Það er auðvelt að fordæma fólk sem þú sérð hvorki né þekkir.“
Ég held að Elísabet Ýr hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún segir að réttarkerfið virki ekki fyrir þolendur því að samfélagið vilji ekki að gerendum sé refsað. Það er samt alveg hrikalegt. En það leiðir líka til þess að fórnarlömb nauðgana og annarra kynferðisbrota sitja uppi með lífsreynslu sem einhverstaðar verður að fá að ræða. Vilji einstaka manneskja láta nafn kvalara síns með sögunni þá er varla hægt að álasa henni fyrir það. Hversvegna ætti að sýna honum tillitssemi?

___
* Viðbót: Morguninn eftir að þetta var skrifað birtist grein á Vísi undir fyrirsögninni „Hverjir eru allir þessir gerendur?“ þar sem blaðamaður leitaðist við að fá innsýn í heim kynferðisbrotamanna. „Blaðamaður hafði samband við marga dæmda kynferðisbrotamenn til að varpa ljósi á málið. Þeir vildu ýmist ekki kannast við brotin sem þeir hlutu dóm fyrir, skelltu á þegar um brotin var rætt eða létu lögmann sinn um að svara fyrirspurnum blaðamanns.“ Þau viðbrögð ein og sér eru upplýsandi um hugarheim þeirra.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, júní 03, 2015

Fyndið framanaf en súrnaði illa á öðrum degi

Fjárkúgunarmálið sem komst í fréttirnar í gær var sprenghlægilegt á allan mögulegan máta. Alveg burtséð frá því hvað það var sem stóð í bréfinu og hversu illa það kæmi sér fyrir Sigmund Davíð, þá ætti það að vera fyrsta regla blaðamanna að koma því á framfæri á vettvangi fjölmiðla en ekki nota það sér til framfærslu. Í öðru lagi þá er fjárkúgun bara aldrei góð hugmynd. Afsökun meðvirku systurinnar var hallærisleg en fréttir dagsins í dag afhjúpuðu að hún var ekki trúverðug heldur.

Fjárkúgunin sem uppljóstrað var um í dag að systurnar hefðu staðið fyrir var afturámóti ekki eins fyndin. Eða jú, það er fyndið að gefa kvittun fyrir peningagreiðslunni og súrrealískt að nota til þess bréfsefni eigin vinnustaðar. En viðbrögð þeirra sem eru virkir í athugasemdum og tvíta voru önnur og andstyggilegri en þegar var bara verið að hlæja að farsa sem innihélt heimaföndrað hótunarbréf til forsætisráðherra og bíltúr til að sækja peningana með formann BÍBB undir stýri.

Fjárkúgunin sem komst í fréttir í dag snýst um að karlmaður greiddi þeim systrum fé til þess að koma í veg fyrir að vera kærður fyrir nauðgun. Alveg burtséð frá ruglinu með að beita fólk fjárkúgun yfirleitt, þá er ekkert í fréttum fjölmiðla sem bendir til að systurnar hafi logið til um nauðgunina. Ef maðurinn er í raun nauðgari og systirin varð fyrir nauðgun þá er það auðvitað grafalvarlegt mál (ef þær eru að ljúga er það auðvitað líka grafalvarlegt). Ég veit ekki hvort lögreglan rannsakar hvort fótur er fyrir nauðgunarásökuninni og hugsanlega fáum við það aldrei að vita. En virkir í athugasemdum eru auðvitað þess fullvissir að engin nauðgun hafi átt sér stað og segja fullum fetum að „falskar nauðgunarkærur eru mjög algengar“. Þeir eru þó í minnihluta sem ræða það, aðallega skemmta þeir sér við að tala um „dýran drátt“ og kalla systurina vændiskonu með misjafnlega ógeðfelldu orðalagi.

Bjakk hvað þetta hætti þá að vera fyndið.

Efnisorð: ,