laugardagur, janúar 31, 2015

Uppsóp mánaðarins

Þrátt fyrir að janúar hafi virst óhemju langur vegna veðurfars og færðar hefur mér ekki tekist að blogga um nærri allt sem ég vildi. Því kemur hér örlítil samantekt.

666 milljónir væri nær lagi
Til þess að gæta þess að moskur rísi ekki á óheppilegum stöðum og tryggja þjóðleg gildi hefur forsætisráðherra lesið biskupnum fyrir bréf, sem hún svo sendi til föðurhúsanna, þar sem farið er fram á að ríkið bæti þjóðkirkjunni þá skömm og niðurlægingu að hafa mátt þola niðurskurð eins og hver önnur ríkisstofnun (sem hún auðvitað er ekki nema að því leytinu að hún er á framfæri ríkisins og þarmeð allra skattborgara hvaða trú eða trúleysi sem þeir annars aðhyllast). Verst að það er búið að leggja af ávísanahefti annars hefði Sigmundur Davíð getað haft þetta einfalt og skrifað bara 660 milljóna króna ávísun handa Agnesi, og allir (framsóknarmenn og flugvallarvinir) sáttir.

Framlag til jafnréttisbaráttunnar
Bæjarstjórn Kópavogs kom með nýtt útspil í baráttu kvenna fyrir jöfnum launum. Ef kona kvartar undan launum sínum er karlmaður lækkaður í launum, til að hún skammist sín. Markmiðið er að sjá til þess að engin önnur feti í hennar fótspor. Það hlýtur að vera góður starfsandi hjá bæjarstarfsmönnum eftir að hafa fengið þessi skilaboð.

Þessi er líka mjög hlynntur jafnréttisbaráttunni
Beint uppúr frétt Vísis:
Kardínálinn Raymon Burke heldur því fram að róttækum femínistum sé að kenna um barnagirnd presta innan kaþólsku kirkjunnar. Hann segir að femínistar skapi barnaníðinga, eða kynferðislega truflaða menn sem verði prestar og níðist á börnum.Burke segir að róttækir femínistar hafi neytt kirkjuna til að taka á vandamálum kvenna, á kostnað vandamála karla. Að þeim hafi verið ýtt til hliðar.

 Þess vegna hafi karlmenn alist upp án almennilegrar sjálfsmyndar. Þá hafi þeir orðið háðir klámi, áfengi, eiturlyfjum og öðru.

 Hann segir að sá ruglingur sem róttækir femínistar hafi skapað varðandi kynferði karlmanna hafi leitt til þess að barnaníðingar hafi orðið prestar.
Þess má geta að allmargir andfeministar eru sammála kardínálanum um hræðilegar afleiðingar feminisma, að undanskildu þessu með barnagirndina. En mest eru þeir þó sammála því að karlmenn eigi sérlega bágt og það sé allt feministum að kenna.

Starfslaun listamanna
Listamannalaunum var úthlutað, við álíka fagnaðarlæti og venjulega, en Kristján Guðjónsson skrifaði fína úttekt á sögu þeirra og tilgangi, með hliðsjón af Háborginni – menning, fagurfræði og pólitík í upphafi tuttugustu aldar eftir Ólaf Rastrick, lektor í þjóðfræði.

Úttektin birtist í DV, svo að enn má lesa blaðið hvað sem síðar verður. Mikill galli er þó að Agnar Kr. Þorsteinsson er hættur að blogga hjá DV og hefur fært sig yfir til kvenfjandsamlega Kvennablaðsins.

Bærilegri tilvera minka
Það ber að fagna nýrri reglugerð um velferð minka, þótt auðvitað ætti heldur að setja lög sem bönnuðu minkarækt. Reglugerðin gerir þó þeim minkum sem haldnir eru í búrum lífið bærilegra, þ.e. ef henni er fylgt. Svo er bara að sjá hversu viljugir loðdýraræktendur eru að fara eftir henni. (Ég er hæfilega bjartsýn.)

Svellkátur
Að lokum ein krúttfrétt frá ársbyrjun. Bændur sóttu fé í sjálfheldu á gamlársdag og notuðu snjóþotu til að flytja lambhrút. Hrúturinn sést á myndbandi með fréttinni og þótt hljóðið sé ekki gott finnst mér ég greina „víííí“ gegnum vindgnauðið.

Efnisorð: , , , , , , , , ,

þriðjudagur, janúar 27, 2015

Kallarnir í kerfinu með eigin skoðun á því hvað megi bjóða konum uppá

Fyrir skömmu birti Hildur Fjóla Antonsdóttir skýrslu um rannsókn sem hún vann fyrir Innanríkisráðuneytið um „viðhorf og reynslu fagaðila sem starfa við meðferð nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins“ sem sýnir að konur sem kæra nauðgun mæta afturhaldssömum körlum í kerfinu sem minnkar líkurnar á að mál þeirra fái sanngjarna meðferð fyrir dómi.

Má lesa úr skýrslunni að ein helsta ástæða fyrir því að menn séu sýknaðir af nauðgun er viðhorf dómara til nauðgunar- og kynferðisbrotamála. Helga Vala Helgadóttir lögmaður segist helst mæta úreltum viðhorfum þegar um er að ræða mál er varða ofbeldi í nánum samböndum. Þar séu úrelt viðhorf ríkjandi bæði hjá rannsakendum og dómurum. Persóna dómara og mannleg reynsla þeirra skiptir máli við meðferð þeirra á nauðgunar- og kynferðisbrotamálum, eins og kemur fram hjá Hildi Fjólu, og hlýtur þá einnig að skipta máli ef þeir eru með gamaldags skoðanir á hlutverki kvenna eða eru jafnvel með kvenfjandsamleg viðhorf.

Þá kemur fram að margir „venjulegir menn“ eru kærðir fyrir nauðgun „en sá hópur er hlutfallslega lítill þegar kemur til ákæru“. Málin fara semsagt ekki frá fyrir dóm. En fari mál þeirra fyrir dóm þá njóta þeir sérstakrar velvildar dómaranna, því þeir samsama sig ofbeldismönnunum (ég fullyrði að þetta gera lögreglumenn líka og það sé ein ástæða þess að illa er unnið í nauðgunarmálum og þau leiða ekki til ákæru), þ.e. sjá menn eins og sig — venjulega menn í venjulegu starfi — og dæma þá síður seka, eða dæma þá vægar en þá sem eru útlendingar, dópistar eða hafa brotaferil eða „eiga við félagsleg-, geðræn, eða áfengisvandamál að stríða“. Þeim finnst semsagt annaðhvort ólíklegt að „venjulegir menn“ fremji nauðganir eða finnst glæpurinn ekki svo stórvægilegur miðað við hvað það yrði íþyngjandi fyrir svona næs gæja að sæta refsingu. Þetta kemur svosem ekkert á óvart en ágætt að fá það staðfest með skýrslunni.

Nú hefur Hæstiréttur fellt úr gildi þrjú nálgunarbönn sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafðist gegn mönnum sem höfðu beitt ofbeldi og hótunum gegn konum sem þeir höfðu átt í sambandi við og einn þeirra að auki hefnt sín með því að birta nektarmyndband af konunni á netinu.

„Nálgunarbönnin voru sett á menn sem grunaðir eru um að hafa brotið gegn fyrrverandi sambýliskonum sínum. Lögregla taldi konunum stafa ógn af mönnunum og að ekki væri unnt að vernda friðhelgi þeirra með öðrum og vægari hætti en nálgunarbanni.“

Hæstiréttur fellir hinsvegar úrskurðinn úr gildi á þeim forsendum að í einu málinu vanti gögn um fyrri afbrot mannsins, „í öðru sé hálft ár liðið frá ofbeldinu og ekkert bendi til þess að það endurtaki sig og í því þriðja eru rökin svipuð.“ Það virðist því ljóst vera að „Hæstiréttur skilji ekki alvöru málsins þegar kemur að heimilisofbeldi“.

Afstaða Hæstaréttar til nálgunarbanns er auðvitað alveg í stíl við það sem fram kemur í rannsókn Hildar Fjólu. Þótt einn angi löggæslu og réttarkerfisins taki málstað brotaþola alvarlega, þá er réttur hins venjulega íslenska karlmanns, á öðrum stigum málsins, hærri en eitthvert kerlingavæl.

Reykjavíkurborg ákvað í fyrra í samvinnu við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu að vinna markvisst gegn heimilisofbeldi og öðru kynbundnu ofbeldi. Halldóra Gunnarsdóttir, sérfræðingur Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum, segir að sá möguleiki á að nýta nálgunarbannið hafi verið afar lítið notaður og þetta sé e.t.v. upphafið af því að nota hann í meira mæli „og ef þetta eru viðbrögð hæstaréttar þá er þessi lagaheimild ekki að gagnast.“

Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarlögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins segir að árið 2005 hafi tekið gildi verklagsreglur um heimilisofbeldi en lögreglan hafi ekki unnið eftir þeim að öllu leyti. „Viðhorf lögreglunnar og samfélagsins var stundum að þetta væru einkamálefni fólks.“ Og lögregluembættin létu þess mál bara danka.

Breyting varð á þegar lögreglan á Suðurnesjum undir stjórn Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur hóf að fara eftir verklagsreglunum. Nú er Sigríður Björk orðin lögreglustjóri í fjölmennasta umdæmi landsins, höfuðborgarsvæðinu. Hún er reyndar umdeild um þessar mundir vegna (grunsamlegrar) aðkomu hennar að lekamálinu og allt eins líklegt að hún verði ekki lengi í þessu starfi. Það er miður fyrir þennan málaflokk því Sigríður Björk er líklegust til að koma honum í sæmilegt lag (best væri auðvitað ef heimilisofbeldi yrði úr sögunni) en það má þá allavega vona að eftirrennarar hennar verði ekki svo skyni skroppnir að hætta að vinna í málaflokknum heldur fylgi þeim verkferlum sem greinilega eru komnir í gang hjá embættinu.

Eftir stendur að jafnvel þótt eitt embætti eða ein manneskja kunni og noti rétt viðbrögð og aðferðir þegar upp kemst um heimilisofbeldi og ofsóknir fyrrverandi maka, þá dugir það ekki til ef restin af mannskapnum í kerfinu er föst í gamalli heimsmynd þar sem konum ber að þola allt það sem karlmenn bjóða þeim uppá: barsmíðar, nauðganir, hótanir, hefnd.

Efnisorð: , , , , , , ,

sunnudagur, janúar 25, 2015

Amast við hundrað ára afmæli kvenréttinda

Um leið og ég sá fyrirsögnina „Kvenhyggjufólk gagnrýnt fyrir söguförðun“ á Vísi, hugsaði ég jæja, Jakob Bjarnar mættur á vaktina. Og mikið rétt, það er hann sem skrifar frétt með útgangspunkt í skoðanabróður sinn í stæku feministahatri sem gagnrýnir þá ósvinnu kvenréttindakerlinga að ætla að halda upp á að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Jakob Bjarnar byrjar fréttina á þessum orðum:
„Ríki og sveit ætla að verja verulegum fjármunum til að fagna hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna til þings, en með þeirri áherslu er verið að mála yfir þá staðreynd að karlar fengu þá einnig almennan kosningarétt, óháðan öðru en aldri, um leið og konur, 19. júní 1915. Hátíðarhöldin eru í það minnsta á vafasömum forsendum“
Jakob Bjarnar leggur algerlega að jöfnu „almennan kosningarétt“ karla og þau réttindi sem konur hlutu þennan dag, og telur þetta allt mjög vafasamt. En hann lítur alveg framhjá því að ástæða þess að haldið er sérstaklega upp á kosningarétt kvenna, og að þessi dagur og þetta ártal er mikilvægt, er að fram að þessu höfðu engar konur kjörgengi eða rétt til að kjósa í alþingiskosningum, engin þeirra. Þær gátu kosið í sveitarstjórnarkosningum en ekki á þingi.

Eða eins og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir segir:
„Sögulega staðreyndin er sú að þetta er í fyrsta skipti sem konur fá að kjósa og bjóða sig fram til Alþingis, 12 þúsund konur sem fengu þennan rétt á þessum tímamótum og um það bil 11 hundruð karlar; vinnuvinnumenn sem áður höfðu ekki þennan rétt. Aðeins karlar höfðu hann. Það höfðu engar konur fengið að kjósa til Alþingis áður.“
Mun fleiri konur hefðu fengið þennan rétt ef þeim hefðu ekki verið sett aldurstakmörk. Árið 1915 einskorðaðist kosningaréttur og kjörgengi kvenna til Alþingis við konur 40 ára og eldri. Vinnumenn á sama aldri fengu þá einnig kosningarétt en frá árinu 1903 höfðu þeir einir setið eftir ásamt ólögráða mönnum og þeim sem skulduðu sveitarstyrk, en allir aðrir karlar yfir 25 ára aldri höfðu fengið kosningarétt. Semsagt, árið 1915 voru þá (nánast) allir fullveðja karlar komnir með kosningarétt en aðeins konur fertugar og yfir. Samt halda konur uppá daginn því þetta var mikill og sögulegur sigur.

Er þá ósanngjarnt að sleppa því að nefna karlana? Það hefði að sönnu oftar mátt nefna þá stéttaskiptingu sem lá að baki því að eignamenn höfðu kosningarétt en vinnumenn ekki, eða með öðrum orðum yfirráðum kapítalistanna og réttleysi öreiganna. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir vinnumenn að komast í álnir, og öðlast þannig ýmis réttindi svo sem kosningarétt, en þó gerlegra en fyrir konur sem á þessum tíma áttu ekki hægt með að skipta um kyn og áttu þess engan kost að breyta stöðu sinni.

Barátta verkafólks fyrir bættum kjörum var vart byrjuð á þeim tíma sem kosningaréttur var skammtaður úr hnefa, og engum sögum fer af opinberri baráttu vinnumanna hér á landi fyrir kosningarétti, en kosningaréttur kvenna kom í kjölfar baráttu fyrir kvenréttindum sem hafði staðið í áratugi og var hatrömm á síðustu metrunum (eins og lesa má um í Hinn sanni Íslendingur: þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900-1930, s. 175-241). Þetta var því sigur kvenréttindabaráttunnar sem vert er að halda uppá.

En það eru auðvitað ekkert allir sáttir við kvenréttindi og kvenréttindakonur. Eins og áður segir semur Jakob Bjarnar fréttina uppúr grein sem Einar Steingrímsson skrifaði í vefmiðilinn Kvennablaðið 22. janúar undir titlinum „Hvenær fengu karlar kosningarétt?

Grein Einars gengur útá að það hafi verið þaggað niður hvenær karlar hafi fengið kosningarétt og að feministafrenjur hafi ekki bara stolið afmælinu þeirra heldur og falsað söguna.

En það er nú bar þannig að þegar haldið er upp á einhverja atburði úr mannkynssögunni er yfirleitt miðað við þann dag eða ár sem fyrsta eða stærsta skrefið var tekið. Við munum ártalið 1262 því við lærðum að þá var skrifað undir Gamla sáttmála, en þó skrifuðu Austfirðingar ekki undir hann fyrr en tveimur árum síðar. Það er samt engin sögufölsun að miða við ártalið 1262, hvað þá að vísvitandi sé verið að þagga niður að þá skrifuðu ekki fulltrúar allra landshluta undir. Það er því alger óþarfi af andfeminískum karlmönnum að móðgast yfir því að ekki sé haldið uppá að árið 1915 hafi fleiri karlar en áður fengið að kjósa í Alþingiskosningum, vinnumennirnir voru þeir einu sem eftir voru. Stóra fréttin það ár var hinsvegar sú að konur fengu nú í fyrsta sinn kosningarétt og kjörgengi til Alþingis en engin kona hafði fram að því fengið að kjósa í Alþingiskosningum.

Vilji karlar halda uppá að þeir fengu í fyrsta sinn að kjósa í lýðræðislegum kosningum þá geta þeir miðað við 1843 en þá fengu aðeins efnamiklir karlmenn kosningarétt og kjörgengi. Þeir geta líka miðað við árið 1903 þegar fleiri karlmenn fengu kosningarétt, eða jú árið 1915 þegar vinnumenn yfir fertugu bættust í hópinn. Þá er eftir að telja upp hvenær aldursmörkin lækkuðu fyrir vinnumenn úr 40 niður í 25 (sem var árið 1920), en þá verða þeir að sætta sig við að þann áfanga eiga þeir sameiginlegan með konum, sem máttu frá 1915-1920 ekki kjósa í þingkosningum nema fertugar væru, hvernig sem aðstæðum þeirra var annars háttað. Eftir 1920 hafa konur og karlar notið sama réttar við kosningar til alþingis.

Andfeministar renna einsog krókódílar á blóðlykt þegar kvennabarátta á í hlut og núna reyna þeir að grafa undan hundraðárafmælishaldinu. Hafa þeir þó hingað til almennt samþykkt að réttlátt hafi verið að konur fengju kosningarétt, en nánast öll barátta feminista síðan hafi verið tómt píp og væl yfir engu.

Þessi barátta andfeministanna fer ekki bara fram á Vísi undir stjórn Jakobs Bjarnar heldur á ólíklegum vettvangi: vefmiðli sem ber nafn málgagns Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Hafi einhver haldið að sá vettvangur væri þar með málgagn feminista þá er endanlega búið að slátra þeirri hugmynd. Ekki nóg með að kvenhatursforinginn Einar Steingrímsson vaði þar uppi — eins og eiturpillan spúsa hans — samanber þessa kveingrein hans um hátíðarhöld í tilefni 100 ára kosningaréttar kvenna, heldur hefur nú Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir ritstjóri bætt gráu ofan á svart. Henni þykir við hæfi að gefa til kynna að uppástunga Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um tilhögun hátíðarhaldanna komi til vegna þess að borgarstjórinn sé í pilsvasa kvenna, eða með öðrum orðum: læturðu kéllingar ráða yfir þér auminginn þinn?

Hafi ritstjórinn ætlað að gera Bríeti Bjarnhéðinsdóttur langömmu sinni skömm til, þá tekst henni það fullkomlega með þessu. Það segir svo sitt um lesendahóp Kvennablaðsins hins nýja að ofangreindir pistlar njóta almennrar hylli í athugasemdakerfinu.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, janúar 21, 2015

Gústaf Níelsson gerir meira segja Framsókn skömm til

Fyrst tók ég eftir Gústafs Níelssyni í umræðum um nektarstaði fyrir mörgum árum en hann var áberandi fylgismaður þeirra og bar einnig í bætifláka fyrir vændi — en þvertók auðvitað fyrir að vændi væri stundað á nektarstöðunum (en hann starfaði fyrir einn þeirra). Mér varð þá þegar illa við hann og ekkert sem hann hefur sagt eða gert síðan hefur breytt því áliti. Eigin upprifjun og ábendingar í athugasemdum leiða enda í ljós að hann er (bróðir Brynjars Níelssonar!) hlynntur nautaati auk þess auðvitað að vera hlynntur vændi og að haldnar séu sýningar á nöktum konum fyrir karla. Honum finnst samkynhneigð óeðlileg og hann er ekki bara á móti múslimum heldur hefur hann andúð á útlendingum yfirleitt.

Þetta er úr fjölmiðlagagnrýni frá árinu 2005 þegar Gústaf óð uppi á Útvarpi Sögu:

„Á Útvarpi Sögu er morgunþáttur sem
nefnist Bláhornið en þar lætur Gústaf
Níelsson gamminn geisa með aðstoð
hlustenda. Gústaf getur verið skemmti-
legur en það er ákveðinn galli á hans
ráði að hann hefur slæmt ofnæmi fyr-
ir femínistum og umbreytist í verstu
tegund af karlrembu í hvert sinn sem
málstaður þeirra berst í tal. Honum er
heldur ekki vel við samkynhneigt fólk,
sem hann virðist vilja lækna af „vill-
unni". Nú er komið í ljós að útlending-
ar eru útvarpsmanninum ekki heldur
nægjanlega þóknanlegir.

Gústaf var stórlega misboðið á dög-
unum vegna frétta um að íslensk stjórn-
völd hefðu ákveðið að veita konum frá
Kólumbíu hæli hér á landi. „Allslaust og
ómenntað fólk," þrumaði hann, og bætti við
að alls kyns vandamál myndu fylgja
í kjölfar þessa „innflutnings". Helst var
á honum að skilja að
kólumbíska mafían myndi fylgja kon-
unum til landsins. Hlustendum gafst
síðan tækifæri á að hringja inn í þáttinn
og koma með innlegg í umræðuna. „íslensk
stjórnvöld skulda okkur skýringar,"
brýndi Gústaf fyrir hlustendum […]

Gústaf skellti skuldinni
á femínista, sem hann taldi hafa mis-
notað íslensk stjórnvöld og talaði um
„kerlingagrúppur sem væru að reyna
að bjarga heiminum og flytja inn ein-
stæðar mæður og ekkjur."
Heldur var þetta dapurlegur klukku-
tími á Útvarpi Sögu.“
Gústaf Níelsson er í stuttu máli sagt hómófóbískur rasisti og karlremba sem finnst í lagi að níðast á dýrum. Í raun virðist hann leggja fæð á alla sem ekki er hægt að flokka sem hvítan íhaldssaman kristilegan gagnkynhneigðan karl.

Framsóknarkonurnar í borgarstjórn máttu vita um almenna fordómafulla afstöðu hans en þeim fannst greinilega bara sniðugt að hann væri íslamófóbískur. Þeim hefur líklega fundist hann heppilegur til að hrista uppí þessu „óþarfa mannréttindaráði“. Að þær skyldu sækja þennan illa þefjandi skúnk í annan flokk sýnir kannski best hvað þeim bráðlá á að koma afstöðu hans á framfæri. Líklega hafa þær vonað að fundir mannréttindanefndar leystust upp í rifrildi um grundvallaratriði. Afsökuninni að þær hafi ekki vitað um hómófóbíu hans er best lýst með orðum Sóleyjar Tómasdóttur:
„Þeim var fullkunnugt um afstöðu Gústafs til múslima og fjölmenningar yfir höfuð. Þær sóttust bara eftir rasisma - ekki hómófóbíu. Konur með prinsippin á hreinu!“
Viðbrögð Framsóknarmanna þarf að lesa í því samhengi að þeim hafi ekki síst fundist óhepplegt að leitað sé liðsinnis Sjálfstæðismanna til að manna stöður í stað þess að fá Framsóknarmann í nefndina. Nema að einhverjum innan Framsóknarflokksins hafi fundist loksins nóg komið af skrípalátum og nú væri kominn tími til að hætta að daðra svo augljóslega við útlendingahatur. Það væri farið að snúast um of í höndunum á þeim.

En það verður líka að líta til þess, einsog Þórður Snær Júlíusson bendir á að
„Útlendingaandúðarumræðan sem frambjóðendur Framsóknarflokksins nýttu sér til að komast í borgarstjórn fékk að grassera í meira en sjö mánuði án þess að forysta flokksins hafi brugðist við. Það gerðist fyrst í dag eftir að hommahatari með múslimaóþol var skipaður sem fulltrúi flokksins í Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar. Og það voru allt aðrir forystumenn en formaðurinn sem sáu um þá hörku. Eina sem Sigmundur Davíð hefur sagt er að skipan Gústafs hafi verið mistök.“

Eftir stendur samt sem áður að dómgreind Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur og Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur er greinilega stórlega brengluð. Ekki að það hafi þær hafi sýnt neitt annað fram að þessu en hér fóru þær endanlega út fyrir öll mörk. Ef vanþóknun helstu ráðamanna flokksins er raunveruleg þá ættu þeir að fara fram á að Sveinbjörg og Guðfinna segðu af sér og hleyptu varamönnum inn í borgarstjórn fyrir sig. En þá er það spurningin hvaða gæfulega lið það er ...

Efnisorð: , , , , , , ,

mánudagur, janúar 19, 2015

Sovét-Reykjavík bannar tannburstun og hjálmanotkun barna

Fyrir tæpu ári skrifaði ég um leikskólabörn og endurskinsvesti. Þá furðaði ég mig á því að nánast engin umræða hefði farið fram um að börn væru notuð sem gangandi auglýsingar fyrir tryggingafélög og olíufélög. Í dag er annað uppi á tengingnum, það er mikil umræða um gjafir fyrirtækja til grunnskólabarna.

Vísir birti í dag frétt undir fyrirsögninni „Börn í Reykjavík mega ekki fá tannbursta“, sem mér finnst talsvert gildishlaðin fyrirsögn því hún gefur til kynna að verið sé að níðast á börnunum á einhvern hátt. En semsagt, öllum tíundubekkjum landsins býðst að fá tannbursta, tannkrem og tannþráð (frá ýmsum framleiðendum), en vegna reglna Reykjavíkurborgar um að ekki megi afhenda grunnskólabörnum gjafir á skólatíma, séu á gjöfunum merkingar, tregðast borgin við að leyfa reykvískum unglingum að þiggja þessa gjöf. En í fyrra mun það samt hafa verið gert með leyfi borgarinnar og það sama verður eflaust uppi á teningnum nú. Þarna er auðvitað um talsvert öðruvísi mál að ræða en að láta börnin ganga um merkt fyrirtækjum og þessvegna er sæst á að þetta með tannburstana sé í lagi (það er a.m.k. ekki verið að markaðssetja eina vöru umfram aðra) enda þótt þessi ágæta regla gildi yfirleitt. Hún hljómar semsagt svona:
„Gjafir frá fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum til starfsstaða SFS (Skóla- og frístundasvið) má þiggja ef stjórnandi telur að þær samræmist stefnu SFS og með því skilyrði að ekki sé á þeim auglýsingamerkingar. [..] Starfsstaðir SFS veita ekki leyfi til að dreifa gjöfum sem ætlaðar eru börnum til einkaeignar innan starfsstaðanna á starfstíma þeirra (skólatíma) og er ekki heimilt að veita þriðja aðila leyfi til slíks.“

Nokkrum klukkustundum eftir að þessi frétt birtist (sem er eiginlega engin frétt; það eru reglur sem einhverjum finnst óheppilegar og svo eru reglurnar sveigðar þannig að allir fá tannbursta. Er þá nokkuð vandamál — nema í huga þeirra sem vilja óheftan aðgang að börnum?) og fjallar hún um sömu reglur Reykjavíkurborgar en nú snýst fréttin um reiðhjólahjálma sem Eimskip gefa af góðmennsku sinni: „Grunnskólabörn í Reykjavík mega ekki fá hjálma merkta Eimskipafélaginu“. Kiwanis hefur gefið hjálmana og fv. stjórnarmaður í hjálmanefnd skilur ekkert í þessu.
„Auk hjálmanna hefur börnunum verið gefið buff og bolti, sem einnig eru merktir Eimskipum. Ólafur segist ekki skilja bannið. „Maður skilur ekki sjónarmiðið á bakvið þetta,“ segir hann og bætir við að mikilvægt sé að geta gefið börnunum hjálmana áður en þau fara út í umferðina á vorin. „Við förum fram með þetta sem öryggismál.“
Hann virðist líta á það sem sérstakt öryggismál að hjálmarnir — og þarafleiðandi börnin — séu merkt Eimskipum.

Einnig skrifar Kiwanismaðurinn þetta í athugasemdakerfinu:
„Í vor hefur Kiwanishreifingin gefið 6 ára börnum á Íslandi reiðhjólahjálma í 25 ár.. Fyrir nokkrum árum varð þetta verkefni hreifingarinnar að landsverkefni og hefur líkað vel.
Síðan gerist það er núverandi meirihluti í Reykjavík tók við á sl. kjörtímabili að bannað var að afhenda þessa hjálma í grunnskólum Reykjavíkurborgar.
Eimskipafélag Íslands gefur á hverju ári rúmlega 4.000 hjálma í þetta verkefni og af því að merki þeirra er á kössunum og einnig er bæði bolti og buff í kassanum með hjálminum er þetta bannað.
Allir aðrir skólar á Íslandi leyfa Kiwanishreifingunni að afhenda hjálmana á skólatíma þar sem það er gert. Sumir klúbbar búa til hátíð með lögreglu og fleira og afhenda þannig hjálmana.
Þetta er eitt af ruglinu í borg óttans. Ekki má gefa öryggisatriði fyrir börn þar sem það er stutt af einu af stæðsta fyrirtæki á Íslandi.
Skyldi þetta sama fólk þyggja fé í kosningarsjóði sína frá sömu fyrirtækjum og þau meina að styðja við öryggismál barna ?????
Þetta er meirihluta borgarstjórnar til háborinnar skammar svo og þetta tannbursta mál einnig.“
Mér finnst hinsvegar til skammar að þetta hafi liðist svona lengi og fagna því mjög að „forsjárfasistarnir“ í Reykjavíkurborg hafi sett reglur sem banna markaðssetningu í skólum og að börn séu notuð sem auglýsingaskilti.

En í athugasemdum við tannburstafréttina og hjálmafréttina virðast flestir á þeirri skoðun að það sé bara sjálfsagt, og vanda borgaryfirvöldum ekki kveðjurnar, sbr. „forsjárfasistar“ og „Djöfulsins pappírspésar og ferhyrningar sem stoppa svona af!!!“ og spurt „Er þetta ekki einhver ofurviðkvæmni?“ Sumir setja á lengri ræður:
„Þessi fjandans forræðishyggja Samfylkingarinnar er farin að fara í taugarnar á mér. Samfó treystir ekki foreldrum til að meta hvað er rétt og rangt - það er bara til Samfó-Rétt og Samfó-Rangt. Þessi Sovétbúskapur Samfylkingarinnar og hinna flokkanna sem sleikja tærnar á Samfó ættu að hætta í pólitík.“
Best er auðvitað þessi klassíska yfirlýsing:
„Þetta er farið að fara aðeins út í öfgar og vitleysu. Það má ekkert orðið é. get svo svarið það. Hvað verður það næst?“
Sovét-Ísland?

Það er annars merkilegt að Vísir lætur alla gagnrýnina snúa að Reykjavíkurborg í stað þess að setja spurningarmerki við öll hin sveitarfélögin sem láta stórfyrirtæki nota sig og börnin. Nær væri að sveitarfélögin fylgdu góðu fordæmi höfuðborgarinnar. Börn eru ekki auglýsingaskilti — eða ættu ekki að vera það.

Efnisorð: , ,

laugardagur, janúar 17, 2015

Yfirlýsing með vilja hverra?

Loksins er hægt að varpa öndinni léttar því læknar hafa samþykkt kjarasamningana sem ríkið gerði annarsvegar við Læknafélag Íslands og hinsvegar við Skurðlæknafélag Íslands. Öllum þeim sjúklingum og aðstandendum þeirra sem hafa þjáðst eða haft áhyggjur af skertri heilbrigðisþjónustu hlýtur að vera stórlega létt.

Ég hef verið að skoða fréttir af kjarasamningunum en hef ekki enn séð minnst á hvort læknar fengu að greiða atkvæði með eða á móti yfirlýsingunni sem stjórnvöld auglýstu svo glaðbeitt að fulltrúar þessara tveggja stéttarfélaga lækna hefðu skrifað undir. Yfirlýsing sú er í átta liðum og þrír ráðherrar skrifuðu undir hana fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Semsagt ekki einkaflipp einhvers ráðherra heldur eindreginn vilji ríkisstjórnarforystunnar.

Það hljómar ýmislegt ágætlega í yfirlýsingunni, bara það að til standi að byggja heilbrigðiskerfið markvisst upp er jákvætt og líka að það verði gert í samráði við lækna. Samræmd sjúkraskrá hljómar einnig vel. Við fyrstu sýn virðist sem það eigi að endurreisa heilbrigðiskerfið svo það verði jafngott og á hinum Norðurlöndunum en þegar nánar er að gáð er bara átt við stjórnun heilbrigðiskerfisins, sem er ekki alveg það sama:

„Stýring innan heilbrigðiskerfisins þarf að vera sambærileg við það besta sem þekkist á öðrum Norðurlöndum.“
Guðbjartur Hannesson fyrrverandi heilbrigðisráðherra virðist tildæmis hafa misst af þessu með stýringuna því „honum lýst ágætlega á þau fyrirheit sem gefin eru í yfirlýsingunni um uppbygginguna og að Ísland verði sambærilegt við það besta á Norðurlöndunum“.

Kannski er fleira í yfirlýsingunni sem lítur ekki eins vel út við nánari skoðun. En það eru mörg viðvörunarljós sem blikka þegar kemur að meira og minna augljósri einkavæðingarstefnu sem þarna er kynnt. Sérstaklega má þar nefna sjöunda lið yfirlýsingarinnar sem hljómar svona:

„Fram fari heildstæð skoðun á skipulagi, uppbyggingu og fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Opna þarf möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum sem byggja á virkri þjónustu- og verkefnastýringu, skýrum gæðakröfum samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi.“
Það er reyndar ekki útskýrt gagnvart hverjum jafnræðið í greiðslum á að vera: sjúklingum eða læknum. Við þekkjum það úr menntakerfinu að einkareknir háskólar fá jafnmikið frá ríkinu og Háskóli Íslands en rukka nemendur að auki um há skólagjöld þannig að einkaskólarnir standa mun betur að vígi en Háskóli Íslands. Sú leið grefur auðvitað mjög undan ríkisrekstrinum, hvort sem það er í menntakerfinu eða heilbrigðiskerfinu, en það er auðvitað helsta keppikefli frjálshyggjunnar.

Almenningur er hinsvegar ekki jafn hrifinn. Það er nefnilega svo að „mikil samstaða er meðal Íslendinga um að hið opinbera eigi fyrst og fremst að fjármagna heilbrigðisþjónustuna.“ Þá hefur komið í ljós beggja megin Atlantsála að „heilbrigðisþjónusta verður brotakenndari og skilar minni árangri þegar einkarekstur breiðist út í félagslegu heilbrigðiskerfi eins og er hér á landi“.

Þrátt fyrir það svífur frjálshyggjuandi yfir viljayfirlýsingunni sem fulltrúar lækna skrifuðu undir.

Þegar ég sá yfirlýsinguna kom mér frjálshyggjan ekki á óvart, enda stækir frjálshyggjumenn í ríkisstjórn. En ég fór hinsvegar að velta fyrir mér öllum samningafundunum sem læknar sátu áður og meðan verkfallið stóð yfir. Hvenær var farið að leggja drög að þessari yfirlýsingu? Og hver átti upptökin að henni? Mér finnst augljós læknafingraför sumstaðar, sérstaklega í síðasta liðnum þar sem kveður á um sambærileg launakjör og vaktafyrirkomulag og á Norðurlöndum. Annarstaðar þykir mér bera augljósara höfundareinkenni Bjarna Ben og hans nóta (sbr. liður sjö hér að ofan).

En hversu fúsir gengu læknar að þessu? Eru þeir upp til hópa æstir í að hér verði tvöfalt heilbrigðiskerfi, eitt fyrir efnafólk og annað fyrir skrílinn, eða jafnvel sáttir við að ríkisreksturinn verði lagður af að mestu? Eða þrjóskuðust þeir við og vildu bara tala um kaup og kjör á samningafundunum en voru neyddir til að gangast við þeim afarkostum að skrifa uppá það sem gæti orðið rústun heilbrigðiskerfisins? Var það þessvegna sem gekk svona hrikalega illa að semja?

Í stuttu máli sagt: voru læknar svínbeygðir til að skrifa undir stefnu ríkisstjórnarinnar eða stungu þeir uppá þessu sjálfir gegn betri launum?

Ég vildi gjarnan fá svör við þessu.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, janúar 16, 2015

Verðlaunið þessa konu

Tilnefningar til heimsfrægra verðlauna hafa verið mikið í umræðunni af gefnu tilefni. Ekki vil ég gagnrýna það á neinn hátt en vil hinsvegar líka fá að tilnefna prýðilegan kandídat til útlendra verðlauna. Sú sem er vel að öllum verðlaunum komin, ekki síst fyrir síðustu skrif, sín er Sif Sigmarsdóttir. Hún hefur skrifað í Fréttablaðið um nokkurra ára skeið og hafa pistlar hennar verið uppspretta mikillar ánægju á mínu heimili.

Stundum hef ég minnst á pistla Sifjar hér á blogginu enda þótt ég hafi ekki áður skrifað um þá eingöngu (sbr. 1,2,3,4) en alltaf hefur það verið vegna þess að ég er ánægð með þá og hef viljað benda sem flestum á að njóta þeirra. Mun fleiri pistlar eftir Sif en þeir sem ég hrósaði og vísaði á hafa verið góðir (hér er hægt að nálgast þá alla) en í dag var pistill hennar „Je Suis Kalli — leikþáttur í þremur hlutum“ einstaklega vel heppnaður.

Til þessa hef ég ekki hrósað pistlum Sifjar nógsamlega. Nú mælist ég til þess að Sif Sigmarsdóttir fái Pulitzerinn og Nóbelsverðlaunin, lágmark.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, janúar 13, 2015

Pegida í boði Framsóknarflokks og forsætisráðherra

Það eru ekki geðslegar fréttir að „íslensk Facebook síða í nafni Pegida, pólitískra samtaka sem berjast gegn „Íslamvæðingu Vesturlanda“ hefur verið opnuð. Þar er meðal annars birt hvatning um baráttu gegn byggingu mosku í Reykjavík“. Enn ömurlegri er þvælan sem rann uppúr Sjálfstæðisþingmanninum Ásmundi Friðrikssyni sem vill að bakgrunnur allra múslima á Íslandi sé kannaður. Reyndar hafa Sjálfstæðismenn hver um annan þveran hafnað þessari skoðun og lýst andúð á orðum Ásmundar. Líka formaður flokksins.

Það átti ekki við í fyrra þegar Framsókn og flugvallarvinir undir forystu Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur vildu leggja stein í götu moskubyggingar í Reykjavík, þá sagði formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ekki múkk. Gerði hreinlega ekkert til að aftengja sig hatursorðræðu í garð múslima. Síðan ákvað hann að fara ekki í gönguna í París hvar allir forsætisráðherrar Norðurlandanna mættu og breið samstaða var meðal æðstu ráðamanna í vestanverðri Evrópu var um að mæta, og uppdiktaði einhverja þá lélegustu fjarvistarsönnun sem sést hefur. Svaraði svo með sínum endalausa útúrsnúningshroka að yfirleitt væri hann skammaður fyrir að ferðast of mikið.

Viðbragðsleysi Sigmundar Davíðs er sem olía á eld þeirra sem hatast útí múslima á Íslandi. Nú þykir þeim sér óhætt að tengja sig við haturshreyfingar í Evrópu, sem flest fólk hefur skömm á og Angela Merkel kanslari hefur sérstaklega beint sér gegn, enda veit hún eins og aðrir að slíkar haturshreyfingar geta orðið upphaf að ósegjanlegum hörmungum fyrir þá sem eru skotspænir hatursáróðursins. Hún er hinsvegar alvöru leiðtogi, það sama verður ekki sagt um Sigmund Davíð. Honum hæfa best orð Illuga Jökulssonar:

„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson veldur ekki starfi forsætisráðherra.

Hann er stöðugt í tómu klúðri og bregst svo við með varnarhroka, yfirgangi og sjálfhverfri paranoju. Hann veldur ekki starfinu, punktur.“

Efnisorð: , ,

sunnudagur, janúar 11, 2015

Sjaldgæf samstaða á friðsamri samkomu

Viðbrögð Parísarbúa við hryðjuverkunum á miðvikudag voru að þyrpast út á göturnar, hittast og sýna bæði samstöðu og að þeir létu ekki hræða sig. Í dag var svo skipulögð samkoma þar sem þjóðarleiðtogum var boðið að taka þátt, og aftur fylltust götur og torg Parísar og reyndar fleiri borga í Frakklandi.

Ég kveikti á sjónvarpinu í þann mund sem verið var að smala þjóðarleiðtogum upp í rútur (nei, ekki íslenska sjónvarpinu, því fannst auðvitað boltaleikur mikilvægari, en hinar Norðurlandaþjóðirnar voru með beinar útsendingar). Það var góð tilfinning að sjá Ernu Solberg í hópi kuflklæddra karla frá einhverjum Arabaríkjum, þeir að öllum líkindum þjóðhöfðingjar yfir ótal múslimum, það voru múslimar sem frömdu hryðjuverkin í París, og svo hún forsætisráðherra Noregs þar sem kristni hryðjuverkamaðurinn Breivik gekk berserksgang hér um árið. En enginn var kominn til að benda á hverjir væru verri hryðjuverkamenn, kristnir eða múslimar, heldur voru þau öll komin til að sýna samstöðu með frönsku þjóðinni.

Mest var þó sýnt frá mannfjöldanum þar sem fólk veifaði ýmsum þjóðfánum og lagði þannig áherslu á að fólk getur átt uppruna sinn að rekja til lands sem því þykir vænt um enda þótt það hafi sest að í Frakklandi og finni til samstöðu með frönsku þjóðinni, annað þarf ekki að útiloka hitt.

Þegar svo þjóðarleiðtogahópurinn birtist sást ekkert til Arabana (nema þeir hafi verið aftast og ekki lent í mynd) en fremst gengu François Hollande forseti Frakka og Angela Merkel kanslari Þýskalands arm í arm. Hinumegin við Hollande var Ibrahim Boubacar Keïta forseti Malí og þarnæst Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels. Mahmoud Abbas forseti Palestínu leiddi afturámóti Angelu Merkel. Þarna voru því svarnir óvinir sitthvoru megin við þjóðhöfðingja landa sem hafa löngum átt í stríði en hafa grafið stríðsöxina. Auk þess var David Cameron forsætisráðherra Breta þarna líka, en hans þjóð átti öldum saman eitthvað vantalað við Frakka, og enn lengra úti á kantinum voru norrænir núverandi og fyrrverandi forsætisráðherrar. Jens Stoltenberg sannarlega réttur maður á réttum stað þarna, hann sýndi umheiminum hér um árið hvernig mæta má illsku með kærleika. Nú var það Hollande sem gekk um og tvíkyssti og knúsaði hvern þann sem var móttækilegur fyrir atlotum gestgjafans.

Auðvitað veit ég vel að Stoltenberg er núna yfirmaður NATO og að sumir þessara þjóðarleiðtoga hafa mun fleiri mannslíf á samviskunni en féllu í París á nýliðnum dögum (það var t.d. svolítið nöturlegt að horfa á andlit Netanyahu þarna í fremstu röð; lífverðirnir hans slepptu ekki af honum hendinni). Og það er réttilega bent á að margir þeirra sem þarna mættu „til að standa með tjáningarfrelsinu“ stjórna löndum þar sem tjáningarfrelsið er fótum troðið af stjórnvöldum. Kannski var þetta alltsaman bara risastór almannatengslasýning, eða bara „við verðum að vera þarna því allir hinir fara“ (nema íslenskir ráðamenn sem eru uppteknari en hinir 50 þjóðarleiðtogarnir, en það var bara ágætt að sjá ekki smettið á þeim þarna og fara að pirrast) en í smástund, meðan þessi friðsamlega samkoma milljóna manna af misjöfnum uppruna sem aðhyllast allar mögulegar trúarskoðanir og enga, þá var hægt að fyllast von um að heimurinn tæki nú kannski sönsum.(mynd héðan)

Efnisorð: ,

fimmtudagur, janúar 08, 2015

Morðárásin á Charlie Hebdo

Enn hefur ekki tekist að hafa hendur í hári árásarmannanna sem drápu tólf manns og særðu ellefu aðra í árás á ritstjórnarskrifstofur háðsádeilublaðsins Charlie Hebdo í París í gær.

Það er hræðilegt að slíkt eigi sér stað. En það skiptir máli að hafa í huga að þótt það hafi að öllum líkindum verið óðir múslímar sem frömdu þessi voðaverk, þá hafa eftirtaldir fordæmt árásina:

— Al-Azhar háskólinn í Kaíró, ein virtasta guðfræðistofnun múslima, hefur fordæmt árásina og sagt að íslam fordæmi hvers kyns ofbeldi.

— Arababandalagið hefur fordæmt árásina.

— Írönsk stjórnvöld fordæma árásina og segja öll hryðjuverk gegn saklausu fólki andstæð kenningum og gildum íslam. Þau árétta þó fyrri gagnrýni sína á birtingu blaðsins á teikningum af Múhameð spámanni árið 2006. Þær teikningar voru fyrst birtar í Jótlandspóstinum árið áður.

— Forystumenn múslima í Frakklandi fordæma árásina í höfuðstöðvum tímaritsins Charlie Hebdo. Í yfirlýsingu frá Franska múslimaráðinu, helstu samtökum múslima í Frakklandi, segir að þetta hafi verið villimannsleg árás á lýðræðið og frelsi fjölmiðla. Ráðið hvetur fólk til að halda ró sinni og múslima að vara sig á áróðri öfgamanna. Nokkur önnur samtök múslima í Frakklandi hafa fordæmt árásina, þar á meðal samtök sem tengjast Bræðralagi múslima.


— Hér heima hefur Ibrahim Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, fordæmt árásina en segist óttast að hún verði notuð gegn múslimum öllum verði það staðfest að um múslima hafi verið að ræða.

Ég fordæmi líka árásina en bendi á það er samt engin ástæða til að fordæma alla múslima. Þeirri fordæmingu væri þá um leið beint að lögreglumanninum Ahmed Merabet sem var myrtur við að verja Charlie Hebdo.

Efnisorð: , ,

mánudagur, janúar 05, 2015

Ríkisútvarpið, efnistökin og þáttagerðarfólkið

Einn af fjölmörgum kostum hlaðvarps Ríkisútvarpsins er sá að þangað er hægt að sækja útvarpsefni sem er tekið að eldast (mætti þó vera hægt að sækja áratugi aftur í tímann) og hlusta á þegar tækifæri gefst eða hlustandinn er rétt innstilltur fyrir nákvæmlega þetta útvarpsefni.

Ríkisútvarpið, eins og allir eiga að vita, er mikill fjársjóður menningarneytandans, tónlistaráhugafólksins og allra þeirra sem hafa áhuga á samtíma sínum og samfélagi, fortíðinni og samhengi hlutanna.

Má ég kannski örlítið minnast á áhyggjur mínar af Ríkisútvarpinu? Ríkisstjórnin, með Framsóknarfólk í broddi fylkingar, ætlar að ganga milli bols og höfuðs á Ríkisútvarpinu, hafi það farið framhjá einhverjum. Og hafi það farið fram hjá einhverjum að þegar er Ríkisútvarpið magurt og tekið af margra ára svelti, þættir hafa þegar verið felldir úr dagskrá og starfsfólki sagt upp; en nú á semsagt að greiða því náðarhöggið.

Það hefur ekki verið talað við rétt fólk, að mati Framsóknar, réttu fólki hefur ekki verið sýnd tilhlýðileg virðing, og svo veður uppi allskonar villutrú sem ekki samrýmist þjóðlegum anda, sem er eins og allir vita: gagnrýnisleysi. Já, gott ef ekki gagnrýnisleysið var gert hlægilegt í Áramótaskaupi Sjónvarpsins, og bara almenningur yfirleitt fyrir að vera ekki farinn af landi brott, þessir ágætu kjósendur ríkisstjórnarflokkanna sem einnig voru svoleiðis harðlega gagnrýndir að það dugði ekkert annað en slökkva á gamla lúna flatskjánum (munur að geta keypt nýjan þegar búið er að fella niður vörugjöldin!) til að losna undan þessari endalausu neikvæðni sem send er úr Útvarpshúsinu linnulaust.

Ekki veit ég hvort öllu efni sem áður var gert af menningarlegum metnaði og samfélagslegri ábyrgð verður hent úr hlaðvarpinu eða látið nægja að skrúfa fyrir sem flesta þætti sem unnir hafa verið í þeim anda. Hvort öllu gömlu og góðu verði hent eða bara séð til þess að ekkert slíkt verði framar til.

Kannski sleppur tónlistin við niðurskurðinn og þættir sem sinna tónlist sérstaklega. Víðsjá — sem er einn af þessum gagnrýnu þáttum — fjallar mikið um tónlist af öllu tagi, ekki síst sígilda tónlist og tekur viðtöl við heimsfræga flytjendur sem og tónlistarskólanemendur, tónskáld og skipuleggjendur tónlistarviðburða. Það er vafamál hvort hlustendur Víðsjár næðu sjálfir að fylgjast svo vel með að þeir vissu um alla þá tónlistarviðburði sem fjallað er um í þættinum, af mikilli þekkingu þáttagerðarmanna jafnt sem viðmælenda. Þekking þáttagerðarmanna, dýpt viðtala og úthugsuð efnistök á reyndar líka við um fleiri listgreinar sem fjallað er um í þættinum t.a.m. leiklist, en þetta með tónlistina hefur orðið mér umhugsunarefni því aldrei verður mér eins ljóst hvað er mikið sprúðlandi tónlistarlíf á Íslandi eins og þegar ég hlusta á Víðsjá, að öllum öðrum þáttum Ríkisútvarpsins ólöstuðum.

Þetta fór ég allt að hugsa þegar ég hlustaði á þátt af hlaðvarpinu sem var hvorki Víðsjá né Samfélagið (sem áður hét Sjónmál; undir báðum nöfnum hafa efnistök og þáttastjórnendur verið með eindæmum góðir) en fjallar um eitt magnaðasta verk tónlistarsögunnar, sjálfan Niflungahringinn eftir Richard Wagner.

Niflungahringurinn er ekki síst frægur fyrir að vera mikil þolraun því alls tekur hann 14 klukkustundir í flutningi — og reynir þá ekki síst á hlustandann. En í þættinum, sem var í umsjón Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur og Atla Freys Steinþórssonar (hann sá að mestu um að flytja hið talaða mál) var farið yfir efnið á hundavaði og hét þátturinn „Fjórir hræðilegir stundarfjórðungar“ Niflungahringurinn á 60 mínútum. Þessi þáttur fór alveg framhjá mér þegar hann var fluttur í Ríkisútvarpinu fyrir einu og hálfu ári en ég rakst á hann á hlaðvarpinu og hugsaði með mér að nú væri lag, það hlyti að vera hægt að þola Wagner í klukkutíma jafnvel þótt sjálfseyðingarhvöt mín hafi aldrei verið svo mikil að mig hafi langað til að upplifa Niflungahringsflutninginn allan eins og hann kemur af skepnunni. Og mikið rétt, þetta var bara bærilegt. Eða öllu heldur bráðskemmtilegt. Ekki átti ég von á að skella uppúr á þessum fjórum stundarfjórðungum sem ég varði í hlustunina, en það gerði ég þó oftar en einu sinni. Þar skipti mestu kímnigáfa Atla Freys sem lífgaði heldur en ekki uppá hádramatíkina hjá Wagner, en var þó fullur aðdáunar og þekkti greinilega tónverkið afturábak og áfram, tengdi það við fornar bókmenntir og nýjar bíómyndir og var í einu orði sagt (eða tveimur) sannkallaður gleðigjafi.Þessi þáttur hefði aldrei ratað á dagskrá Bylgjunnar eða neinnar annarrar útvarpsstöðvar sem ríkisstjórnin ímyndar sér að muni taka við menningarhlutverki Ríkisútvarpsins. Hann hefði fyrirfram verið sleginn af, ekki hlotið náð fyrir eyrum stjórnenda sem hugsa um auglýsingatekjur og hlustunartölur. Aldrei.

Það er aðeins í metnaðarfullum stofnunum á borð við ríkisrekið almannaútvarp sem hægt er að gera svona þátt, koma honum fyrir í dagskránni þar sem dyggir hlustendur sitja um hann og njóta (á laugardagskvöldi hugsið ykkur, og engar pizzur í boði gegn því að þekkja lagið), og geyma hann svo um ókomna tíð svo sem flestir fái notið hans. Ríkisútvarpið — en ekki markaðsdrifnar útvarpsstöðvar — getur og á að halda úti þáttum sem fjalla af dýpt og þekkingu um samfélagið og menninguna. Líka þegar efnið höfðar til fárra eða strýkur stjórnarherrum andhæris.

Ég hef skömm á ríkisstjórninni fyrir aðförina að Ríkisútvarpinu.

Efnisorð: , ,

laugardagur, janúar 03, 2015

Fyrirsjáanlegt hjá boltaíþróttaáhugakörlunum

Ji hvað ég varð hissa þegar karlmaður sem stundar boltaíþrótt var kjörinn íþróttamaður ársins 2014 af boltaíþróttaáhugakörlunum í Samtökum íþróttfréttamanna. Kom alveg stórkostlega á óvart.

Fyndið samt að kallinn sem hélt ræðu talaði sérstaklega um gagnrýnina sem hefði dunið á þeim og í smástund hélt ég að þeir hefðu í alvöru tekið mark á henni. En svo hélt hann áfram og ég gat ekki betur heyrt [tek það til endurskoðunar ef einhver birtir ræðuna*] en hann segði að þeir sem spila boltaíþróttir ættu möguleika á að lifa af íþróttinni en fólk sem keppti í öðrum greinum væri alltaf uppá mömmu og pabba komið — og þessvegna ætti það ekki séns á að verða íþróttamenn ársins? Semsagt, ef þú leggur rosa mikið á þig en færð ekki samning við boltalið í útlöndum geturðu bara gleymt þessu. Sem eru auðvitað frábær skilaboð til allra annarra íþróttamanna.

Það þýðir samt jafn lítið og venjulega að svekkja sig á þessu vali. Þetta eru og verða fávitar.

___
* Viðbót eftir að hafa lesið bloggfærslu Gísla málbeins: ræðan er hér, ég stend við túlkun mína á henni.

Efnisorð: ,

föstudagur, janúar 02, 2015

Kjör íþróttamanns ársins 2014

Eftir gríðarlega mikla gagnrýni á vali íþróttamanns ársins 2013 þegar hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir var sniðgengin (ekki að valið hafi verið óumdeilt fram að því), hafa Samtök íþróttafréttamanna birt lista yfir tíu íþróttamenn sem fengu flest atkvæði, og nýbreytnin er sú að jafn margar konur og karlar eru á listanum. Þar eru líka jafnmargir boltaíþróttamenn og íþróttamenn sem ekki stunda boltaíþróttir.

Tveir sundmenn eru á listanum en annar þeirra, Jón Margeir Sverrisson stundar íþróttir fatlaðra samkvæmt listanum, en það er að mati íþróttafréttamanna sérstök íþróttagrein. Þess má geta í framhjáhlaupi að Sigrún Huld Hrafnsdóttir sem var mikil sunddrottning var aldrei valin íþróttamaður ársins þrátt fyrir 9 ólympíugull, 2 silfur og nokkur Norðurlanda- og heimsmet. En þar sem hún var fatlaður íþróttamaður kom hún auðvitað aldrei til greina hjá Samtökum ófatlaðra íþróttafréttamanna. Af sömu ástæðum er vonlaust að trúa því að Jón Margeir verði nú fyrir valinu, myndi ég þó fagna kjöri hans.

Enda þótt ég sé nokkuð pottþétt að niðurstaðan á morgun verður, þrátt fyrir hnífjafnt kynskiptan lista, að karlmaður sem stundar boltaíþrótt verði kjörinn íþróttamaður ársins (boltaíþróttamenn hafa fengið titilinn 12 síðustu ár, reyndar var ein kona þar á meðal) þá vil ég endilega fá að koma að þeirri konu sem mér finnst að eigi að fá eldhúskollinn sem gegnir hlutverki ljóta verðlaunagripsins sem fylgir titlinum íþróttamaður ársins. Hún er hinn sundmaðurinn á tíu manna lista Samtaka íþróttafréttamanna.

Eygló Ósk Gústafsdóttir nítján ára sundkona úr Ægi vann nýverið til níu gullverðlauna á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug. Til viðbótar við það setti hún sex Íslandsmet og jafnaði það sjöunda. Eygló keppti á Ólympíuleikunum í Lundúnum 2012 og er nú númer ellefu á heimslistanum og í fimmta sæti í Evrópu. Hún er sannanlega verðug titilsins Íþróttamaður ársins.

Aðeins átta sinnum hafa sundmenn orðið fengið þessa eftirsóttu nafnbót (þar af Örn Arnarson þrisvar) og bara eitt af þeim skiptum fékk sundkona titilinn. Það var Ragnheiður Runólfsdóttir fyrir rúmum tuttugu árum.

Líkurnar á að það endurtaki sig eru afar litlar, svo örlitlar að vilji maður veðja á annað borð þá er happasælla að veðja á einhvern boltamanninn. Eins og alltaf.

Efnisorð: , , , ,