fimmtudagur, ágúst 30, 2012

Allt öðruvísi skíthælar

Það er kostulegt að fylgjast með hverjum skítbuxanum á fætur öðrum hóta málsókn fyrir að hafa lent í lögreglurannsókn. Allt frá Agli Gillz Einarssyni til Steinars Aubertssonar, með viðkomu í útrásarvíkingum og Vítisenglum eru þeir sárhneykslaðir fyrir að vera bendlaðir við glæpi sem taka fram að þeim þyki alveg hreint hræðilegir. Þeir eru jú skíthælar en ekki skíthælar sem gera svona.

Þetta er nú meiri yfirdrepsskapurinn.

þriðjudagur, ágúst 28, 2012

Að þiggja fjárhagsaðstoð og uppskera fyrirlitningu

Ég hef séð feminista gagnrýnda fyrir að tala um að vændiskonur selji líkama sinn eða selji aðgang að sér. Samkvæmt því virðist vera gríðarlega niðrandi að tala um sölu í þessu samhengi.

Sama fólk leyfir sér hinsvegar að kalla vændiskonur niðrandi nöfnum (dæmi hér, hér og hér). Og nú segir sama fólk (aðdróttunin á auðvitað við um Evu Hauks, hafi það farið framhjá einhverjum) að þeir sem eru á framfæri sveitarfélaga séu aumingjar. Sá fjöldi atvinnulausra sem þarf hugsanlega að leita á náðir sveitarfélags síns um næstu áramót er þá semsagt að „leggjast á spena“.

Ég á seint eftir að skilja það viðhorf sem liggur að baki svona orðanotkun, sérstaklega þegar feministar eru vændir um fyrirlitningu á vændiskonum fyrir að nota kurteislegt orðalag um þær og starf þeirra.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, ágúst 26, 2012

Dekkjaskipti kynjanna

Fyrir mörgum árum var kunningi minn farþegi í rútu ásamt samstarfsmönnum sínum, eintómum karlmönnum, í vinnustaðadjammferð. Þegar sprakk á rútunni bað bílstjórinn, karlmaður á miðjum aldri, farþegana að aðstoða sig við að skipta um dekk. Þetta þótti viðstöddum fjarstæðukennd hugmynd og hlógu stórkarlalega. Bílstjórinn var hjartveikur og treysti sér ekki í að lyfta rútudekki, og þegar hann hafði útskýrt það voru loks einhverjir sem sáu sóma sinn í að skipta um dekk fyrir hann.

Fyrir álíka mörgum árum var ég ásamt vinkonu minni á ferð í húðarrigningu þegar sprakk að framan hjá mér. Þegar ég var nærri hálfnuð að skipta um dekk stöðvaði lögreglubíll fyrir aftan mig og út steig lögga sem spurði hvort hann gæti aðstoðað.* Enda þótt ég hafi margsinnis verið í þeim aðstæðum að lögregluhjálp hefði verið vel þegin (og stundum beðið um hana og ekki fengið) þá fannst mér þetta fjarstæðukennt tilboð. Leit ég ekki út fyrir að geta þetta sjálf? Stóð ég ráðalaus útvið vegarkant og veifaði á hjálp? Ef svo hefði verið hefði auðvitað öðru máli gegnt. En löggan gerði umsvifalaust ráð fyrir að kona væri ófær um að sinna jafn einföldu verki og að skipta um dekk á fólksbíl.

Það er stór munur á því að treysta sér ekki í eitthvert verk, s.s. dekkjaskipti, heilsu sinnar vegna eða vegna vankunnáttu** eða líta svo á að karlmenn geti alltaf og við allar aðstæður skipt um dekk og konur geti aldrei við neinar kringumstæður gert það. Biðji fólk um hjálp á hinsvegar að vera sjálfsagt að veita hana.

Mér finnst ekkert fallegt við gamlar kreddur um hlutverk kynjanna.

En svo ég botni nú söguna um lögguna sem bauð mér aðstoð sína í rigningunni, þá svaraði ég honum svona: þú gætir lánað mér regnstakk.

___
* Þetta var í íbúðargötu og ég var ekki fyrir neinum, svo að ástæðan fyrir hjálpseminni var ekki sú að ég teppti umferð.
** Sumt fólk kann ekki að skipta um dekk (þó hélt ég að allir lærðu það í ökunáminu) frekar en önnur verk sem það hefur ekki unnið áður, þá er ekki skrítið að það þurfi einhverskonar aðstoð í fyrsta sinn. ( Einar Karl benti á bloggfærslu þar sem t.d. má sjá karlmenn sem ætla að skipta um dekk og þurfa að lesa leiðbeiningabæklinginn með bílnum því þeir vita ekkert hvað þeir eru að gera.) Svo er til fólk sem er óhandlagið og hefur sannreynt að það getur ekki unnið ákveðið verk, gerir t.d. gat á stærð við hamarshaus á vegginn þegar það ætlar að hengja upp mynd; þá er lítið annað að gera en biðja um hjálp í næsta sinn frekar en eyðileggja húsið. Úr því að ég er farin að vitna í þessa grein (sem er reyndar tilefni skrifa minna) þá kom mér á óvart að hún var ekki grín. Mér hafði ekki dottið annað í hug en að þetta væri ádeila á forn kynhlutverk.

Efnisorð:

laugardagur, ágúst 25, 2012

Leiðum að líkjast

Mér skilst að óskað sé eftir áliti feminista á viðtali sem Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson tók við Steinunni Gunnlaugsdóttur* þar sem þau ræddu um listaverk Steinunnar sem er „afrakstur greiningar á þeirri bylgju femínisma sem verið hefur áberandi á Íslandi síðustu árin og átti sér ákveðin vendipunkt fyrir tæpu ári þegar Stóra Systir, áður óþekkt orwellísk samtök vændisandstæðinga.“ Viðtalið gengur annars útá að að dissa Stóru systur sem eitthvert borgarlegt teprudæmi með kristilegum undirtóni. Það er fáránlegra mat en orð fá lýst.

Álit mitt fylgir hér á eftir. Fyrst vil ég reyndar nota voða vonda rökvillu og ráðast á þau bæði, Snorra og Steinunni. Reyndar hef ég ekki alltaf séð ástæðu til að ráðast á þau, áður var ég í því liði sem varði þau.** Það var meðan þau voru í hópi níumenninganna sem voru ákærð fyrir árás á alþingi. Þegar málið fór fyrir dóm runnu á mig tvær grímur því þau tvö, Steinunn og Snorri Páll, höfðu fengið Brynjar Níelsson til að verja sig. Ég reyndi eftir fremsta megni að ímynda mér að þau vissu bara ekkert um hann og hans skoðanir, og hefðu valið hann eftir ábendingu annarra. Samt fannst mér mjög óþægilegt að vera á bandi fólks sem fékk alþekktan nauðgaraverjanda og hatursmann feminista til að tala máli sínu.

En nú virðist mér sem það hafi ekki verið óvart sem þau völdu Brynjar. Því af þessu viðtali að dæma ber ekki mikið á milli skoðana hans á vændi og nektardansstöðum og dálæti á Geira í Goldfinger.
„Steinunn: Þegar Geiri dó fannst mér ég þurfa að heiðra minningu hans. Hann er sterkari táknmynd í þessu sambandi því í hugum fólks er opinbera persónan Geiri frekar tengdur vændi og vöruvæðingu kvenlíkamans. Þótt fígúran Gillz hafi kannski verið krossfestur er Egill Einarsson enn á lífi og því varð Geiri fyrir valinu.

Snorri Páll: Hann var gagnrýndur fyrir að græða á hlutgervingu kvenna með því að gera út konur sem neysluvörur fyrir karlmenn.

Steinunn: En konur og karlar eru alls staðar og stöðugt hlut- og vörugerð. Sú tilhneiging hefur tekið sér bólfestu í ríkjandi menningu og hugum okkar og er því ekki bundin við eina atvinnugrein eða örfáar.

Snorri Páll: Hvað þá um meinta neyð kvenna sem dansa á súlustöðum?

Steinunn: Mér finnst hrokafult að gera sjálfkrafa ráð fyrir því að þær séu meiri fórnarlömb en aðrir sem þurfa að vinna fyrir sínu daglega brauði. Ég þoli ekki þegar talað er um konur sem fórnarlömb heimsins.“

Ég þarf varla að útskýra í smáatriðum hve ósammála ég er þessu og hve mjög mér mislíkar hve lítið er gert úr þeirri kúgun sem konur um allan heim mega þola. Mér þykir ömurlegt þegar að fólk vill ekki fordæma vonda og niðurlægjandi vinnu (hvort sem það er vændi eða önnur vinna) á þeim forsendum að öll vinna sé jafnvond.

Annars nenni ég ekki að tína til fleiri dæmi. Álit mitt liggur fyrir: mér finnst Snorri Páll og Steinunn afhjúpa sig sem álíka illgjarnt pakk og Brynjar Níelsson og Eva Hauksdóttir.

___
* Útdrátt úr viðtalinu má lesa hér.
** Ég man ekki til að ég hafi varið þau eða níumenningana hér á blogginu, en það gerði ég á öðrum vettvangi.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, ágúst 23, 2012

Snarklikkaður en sakhæfur

Á morgun verður kveðinn upp dómur yfir kristna rasistanum og hægrisinnaða andfeministanum Anders Behring Breivik. Sekt hans er augljós: hann myrti 77 manns og slasaði 240, fyrst í sprengjuárás og svo með byssu að vopni þar sem hann sallaði unglinga niður augliti til auglitis.

Deilt hefur verið um hvort Breivik sé geðveikur eða ekki. Hann er auðvitað snarklikkaður en sú greining er aðeins á færi almennings, geðlæknar nota víst aðra flokkunaraðferð. Mér þykir líklegt að Breivik verði úrskurðaður sakhæfur og dæmdur til eins langrar fangelsisvistar og norsk lög leyfa. En kannski má halda honum lengur á réttargeðdeild heldur en í fangelsi, ef svo er þá skil ég vel ef hann verður sagður ósakhæfur og lokaður þar inni. Sannarlega á þessi maður aldrei aftur að fá að vera úti á meðal fólks.

Breivik á sér eflaust marga skoðanabræður sem hata tilhugsunina um fjölmenningarsamfélag og álíta hvíta karlmanninn öllum öðrum æðri. Hann sagði reyndar í stefnuyfirlýsingu sinni (þessari 1500 blaðsíðna löngu) að Hitler hefði skemmt málstað rasista með því að ganga fram af fólki með útrýmingarbúðunum. Nú hefur Breivik sjálfur talsvert skemmt fyrir skoðanabræðrum sínum sem líklega hafa sumir áttað sig á að það eru takmörk fyrir hve hægt er langt að ganga. Almenningsálitið snýst þeim sannarlega ekki í vil með morðum á almennum borgurum, hvað þá unglingum.

Morðin í Osló og Útey dugðu samt ekki til þess að skoðanabræður Breiviks skiptu um skoðun (þó baráttuaðferðirnar séu aðrar). Það sést best á andfeministunum sem hér á landi eru enn að reyna að brjóta feminismann á bak aftur — sem er eitt markmið Breiviks.

Það er spurning hvaða greiningu andfeministarnir fengju.

___
Viðbót: Breivik var úrskurðaður sakhæfur og var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hann verður í öryggisgæslu sem þýðir að þegar refsivist lýkur er hægt að framlengja gæsluna fimm ár í senn til æviloka. Hann mun því aldrei aftur ganga laus.
(Ég breytti fyrirsögninni í samræmi við dóminn og bætti tölu slasaðra við textann.)

Efnisorð: , , , , ,

laugardagur, ágúst 18, 2012

Gömul karlremba segir frá

Eins og kunnugt er þykir fjölmiðlafólki fátt áhugaverðara en annað fjölmiðlafólk og þessvegna er Jónas Haraldsson er tekinn í smá viðtal í Fréttablaðinu í dag í tilefni af afmæli sínu. Jónas þessi er ritstjóri Fréttatímans, snepils sem ég hef forboðið að komi inn fyrir dyr heima hjá mér.

Meðan ég þó las Fréttatímann fóru pistlar Jónasar verulega í taugarnar á mér. Ég man ekki hvort ég klippti einhverja þeirra út til að geta vísað í þá (og ekki ætla ég inná vef blaðsins) þannig að líklega get ég ekki birt hér beinar tilvitnanir. Er ekki annars nóg að þeir hafi farið í taugarnar á mér, þarf ég nokkuð að koma með sannanir? Það vill til að Jónas segir sjálfur undan og ofan af efni pistla sinna í viðtalinu í dag: „Þessi pistlar snúast dálítið um samskipti kynjanna og yfirleitt hefur konan betur á endanum.“

Frá mínum bæjardyrum séð eru þessir pistlar argasta afturhald. Þeir snúast um að Jónas, sem fulltrúi karla á miðjum aldri, sé vonlaus í öllu sem viðkemur heimilishaldi: þvottum, eldamennsku, innkaupum, þrifum, undirbúningi jólanna og hvað það nú allt er.* Konan þarf sífellt að leiðbeina honum, setja ofaní við hann og redda hlutum fyrir horn sem hann er búinn að klúðra. Svo er hann bara sæll í sinni fávisku og athafnaleysi, með þessa líka ágætu konu sem sér um allt fyrir hann. Þetta stef má líka sjá í fjölmörgum sjónvarpsþáttaröðum sem fjalla um heimska eiginmanninn og (grönnu fallegu) eiginkonuna sem er í stökustu vandræðum með þetta ofvaxna barn en elskar hann samt og getur ekki án hans verið.**

Þegar Jónas var ungur maður var kvennahreyfingunni að vaxa fiskur um hrygg. Meðan konur af hans kynslóð menntuðu sig, ruddust út á vinnumarkaðinn og börðust fyrir jafnrétti, virðist hann (og nú tala ég ekki um hann einan heldur sem fulltrúa sinnar kynslóðar) hafa einbeitt sér að því að vera stikkfrí inni á heimilinu. Ég hef heyrt um karlmenn af þessari kynslóð sem öxluðu fjölskyldulíf og heimilishald til jafns við sambýliskonur sínar (eða næstum því), það voru semsagt til karlmenn sem vildu ekki feta í fótspor feðra sinna heldur vildu öðruvísi tilveru sem ekki fólst í því að vera gestir á eigin heimili. En svo voru greinilega til menn eins og Jónas. Og eins og það sé ekki nógu slæmt þá finnst honum það bara fyndið, gerir það að skemmtiefni hve vonlaus hann sé á heimilinu og konan þurfi að hugsa fyrir hann.

Jónas er auðvitað of gamall og hallærislegur til að vera fyrirmynd ungra karlmanna, en því miður hafa sumir þeirra tekið upp ósiðina eftir honum. Þeim fer þó fækkandi og verður ekki saknað. Ekki frekar en ég sakna pistlanna hans Jónasar.

___
* Nú hef ég örugglega talið upp eitthvað sem hann er snillingur í, ég lærði ekki pistlana utanað. Ef ég finn einhvern þeirra þá breyti ég eftilvill textanum, svo Jónas fari nú ekki í mál við mig.
** Sumir karlar sem vilja jafnrétti hafa gagnrýnt þessa karlímynd sjónvarpsþáttanna og segja þetta vera niðurlægjandi fyrir karla, því hún sýni karla sem heimska og óhæfa. Þeir líta alveg framhjá því að sjónvarpsþáttakarlarnir fá allt sem þeir vilja án þess að leggja neitt á sig. Mörgum karlmönnum þykir það örugglega meira eftirsóknarvert en niðurlægjandi. Ofangreindur Jónas lætur a.m.k. vel af sinni tilveru.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, ágúst 15, 2012

Ökuþórur og umferðaröryggi þeirra

Í góða veðrinu í sumar fór skyndilega að bera á litlum rafknúnum farartækjum sem geysast hljóðlaust um allar trissur. Það sem er skemmtilegt við rafknúnu vespurnar er að mörgum þeirra er stýrt af stelpum. Áður fyrr voru strákar á skellinöðrum þeir einu sem óku vélknúnu ökutæki áður en bílprófsaldri er náð en nú má sjá fjölda stelpna þeysa um á sínum eigin forsendum. Þær eru greinilega komnar af því stigi að sitja og bíða eftir að einhver strákur komi og sæki þær, heldur fara bara sjálfar þangað sem þeim sýnist, þegar þeim sýnist. Það þykir mér ánægjuleg þróun.

Það er ekki eins skemmtilegt að sjá þegar allt uppí þrjár stelpur eru saman á einni vespu, þaraf ein aftaná og ein til fóta, allar hjálmlausar. Það fer um mig að sjá svo kæruleysislega farið með líf sitt og heilsu. Ekki skánar það þegar rafmagnsvespurnar geysast um göngu- og hjólastíga borgarinnar og skjóta öðrum vegfarendum skelk í bringu þegar þær birtast hljóðlaust aftanað fólki.* En meðan lög og reglugerðir ná ekki yfir þessi farartæki þá er allt umferðaröryggi látið lönd og leið af handhöfum tækjanna, svona eins og slys geti ekki orðið ef enginn hefur bannað gáleysislega notkun.

Þessvegna vil ég, þrátt fyrir þá ánægju sem vespurnar greinilega veita hinum ungu og bjartsýnu ökuþórum, að settar verði reglur um hver megi nota þessi tæki, hvernig og hvar.(Mynd fengin af Flick my life en sjálf hef ég séð annað hjól með annað og jafn fjölmennt föruneyti.)
___
* Viðbót: Ekki skánar ástandið á göngu- og hjólastígunum við að ökumönnum skellinaðra og jafnvel fjórhjóla þykir nú sem þeir geti líka notað stígana, og bætist þá hávaða- og hljóðmengun ofan á slysahættuna.

Efnisorð:

mánudagur, ágúst 13, 2012

Vændi og mansal þrífst vegna karlmanna

Nú er því haldið fram að sænska leiðin svokallaða hafi haft öfug áhrif við það sem til var ætlast, vændi og mansal aukist bara. Þetta er svipuð röksemdafærsla og Páll Scheving reyndi um árið með Stígamót sem svoleiðis spönuðu saklausa karlmenn uppí að nauðga öllu sem fyrir varð: að það sé vegna laga gegn vændiskaupum að kenna sem vandamálið grasserar. Það mætti kannski að skoða hve algengt vændi, mansal og nauðganir eru í öðrum ríkjum — þar sem á annað borð er fylgst almennilega með því — heldur en láta eins og slíkt aukist við það að reynt sé að sporna við slíkri meðferð á konum.

Norðurlöndin, Ísland þarmeðtalið, eru í fararbroddi í jafnréttismálum í heiminum. Þar er mesta kvenfrelsið, mesta félagslega réttlætið. En eins og við vitum öll þá er ekki þarmeð sagt að allt sé fullkomið, síður en svo. Langt er í land með það. Eins og Stieg Larsson benti á í bókum sínum og sjá mátti í myndum gerðum eftir þeim og einnig í Lilya 4 ever, þá eru karlmenn sem eru aldir upp í fyrirmyndarríki Svía ekki undanskildir því að vilja umfram allt svala hvötum sínum á konum og skiptir þá engu vilji kvennanna sjálfra. Þetta eiga þeir sameiginlegt körlum allra landa. Norðurlandabúar eru ekkert betri en aðrir.

Lög gegn vændi eru skref í rétta átt en vændi verður líklega til meðan enn eru karlar sem hafa geð á að stunda kynlíf með konum sem vilja þá ekki. Nauðganir fylgja sömu lögmálum. Mansal, sem er sérlega hörmuleg útgáfa vændis, er stundað af þeim sem vilja 'uppfylla kröfur markaðarins' um tiltækar vændiskonur. En þar sem konur almennt og yfirleitt vilja ekkert stunda vændi og þarafleiðandi fást fáar til verka, þá er konum rænt eða þær lokkaðar til að flytjast milli landa (eða í næstu borg) þar sem þær eru neyddar til starfa. Karlarnir sem kaupa aðgang að þeim láta sér þetta í léttu rúmi liggja og því heldur mansalið áfram.

Karlar sem búa í löndum þar sem sænska leiðin hefur verið farin virðast vera algerlega tilbúnir að lenda í klóm lögreglunnar (ekki að löggan nenni að standa í að halda uppi lögum og reglu í þessum málum, a.m.k. ekki hér á landi) bara ef þeir fá að ríða enn einni ókunnugri konunni í viðbót. Alveg sama hvernig á því stendur að hún er í vændi, alveg sama hvernig henni líður á meðan, alveg sama um hana yfirleitt. Lögin hafa ekkert með afstöðu þeirra til kvenna að gera.

Rétt eins og með nauðganir þá er stendur uppá karlmenn að stöðva vændi og mansal. Ef karlmenn hætta að sækjast eftir vændi þá verður ekkert vændi. En meðan þeir heimta nýtt og nýtt kjöt, þá verður þeim skaffað það, með góðu eða illu.

___
Viðbót: Þóra Kristín Ásgeirsdóttir Smuguritstjóri skrifar fínan pistil um málið.

Efnisorð: , ,

laugardagur, ágúst 11, 2012

Karlar sem hata klám

Á dagskrá útvarps um daginn var ágætur þáttur sem bar yfirskriftina Karlar sem hata klám. Þar töluðu Stefán Máni, rithöfundur; Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur og Thomas Brorsen Smidt, nemi í kynjafræði. Það er afar mikilvægt að karlmenn sem fíla ekki klám stígi fram og láti þá skoðun sína í ljós á opinberum vettvangi. Það er ekki síður jákvætt að þekktur, tattúveraður spennusagnahöfundur komi fram með slíka afstöðu (reyndar ekki í fyrsta sinn).

Það hefur verið gríðarleg áhersla á það í samfélaginu að allir karlmenn horfi á klám og allir karlmenn fíli klám. Klám sé gríðarlega sjálfsagt og eðlilegt. Hver sá — eða ölluheldur hver sú — sem andæfir því er öfgafeministi og á allt illt skilið. Við þekkjum ræðuna.

Þess þá heldur eiga þessir karlmenn, Stefán Máni, Ólafur Páll og Thomas, þakkir skildar fyrir að stíga fram fyrir skjöldu og segja frá andúð sinni á klámi.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, ágúst 08, 2012

Koss á kinn fyrir vin minn

Ríkissjónvarpið hefur undanfarið sýnt frá Ólympíuleikunum á sérstakri rás, auk þess sem reyndar er líka sýnt í Sjónvarpinu. Mér finnst þessi íslenska ólympíurás mikil og góð tíðindi. Spái því og vona að í framtíðinni verði allar beinar útsendingar þar. Þá er hægt að halda úti almennri dagskrá í Sjónvarpinu, truflunarlaust frá endalausum kappleikjum.

Án þess að ég ætli að fara að játa á mig íþróttaáhorf á ólympískum skala þá rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég gjuggaði á útsendingar um helgina, hvernig verðlaunaafhendingar fara fram. Það hafði reyndar orðið einhver breyting á þeim, óvenju margar konur afhenda verðlaun á leikunum í London (ég man ekki eftir að hafa séð það fyrr) og hinar sígildu blómastúlkur sem rétta verðlaunahöfum blómvendi eftir að borði með brons, silfri og gulli hefur verið hengdur um hálsa, virðast fyrir bí. Nú eru ungir piltar (hugsanlega ekki alltaf) sem halda á bakka með blómunum en annar tveggja þeirra sem eru fulltrúar íþróttasamtaka og ólympíunefndar afhendir blómin.

Svo ég raði þessu í rétta tímaröð: verðlaunahafi stígur á pall og bíður átekta, manneskja sem er ýmist úr ólympíunefndinni eða frá allsherjarsamtökum þeirrar íþróttagreinar sem verið er að veita verðlaun fyrir, hengir borða með medalíu um háls íþróttamannins og óskar honum eða henni til hamingju með handbandi. Þá stígur fram hin manneskjan sem er frá allsherjarsamtökunum eða ólympíunefndinni (alltaf eitt stk. af hvoru) og teygir sig eftir afturkreistingslega blómvendinum á bakkanum sem ungi pilturinn heldur á og réttir verðlaunahafanum og svo er lúkan kreist.

Eða þannig hefur það verið þegar ég hef horft á Ólympíurásina. Það hefur þó komið fyrir að gamlir taktar frá fyrri tíð hafa sést. Þá er það gamall kall frá ólympíunefndinni sem er að hengja verðlaun um hálsinn á ungum konum. Og hann kyssir þær á kinnina. Þetta átti til dæmis við um þegar veitt voru verðlaun fyrir kúluvarp kvenna í fyrradag. Þá var það reyndar 'blómamaðurinn' sem kyssti (held að hann hafi samt verið frá ólympíunefndinni). Áður tíðkast undantekningalaust, ekki bara á Ólympíuleikum heldur íþróttamótum almennt, að kallar sem afhentu verðlaun kysstu konurnar sem fengu verðlaunin (konur kyssa þær stundum þegar þær afhenda verðlaunin, en þessi pistill er ekki um það). En á þessum Ólympíuleikum virðist þetta meira og minna vera geðþóttaákvarðanir þeirra sem afhenda verðlaunin og blómin. Áður virtist það vera regla.

Það hefur því eitthvað rofað til í hausum einhverra, kannski skipuleggjendanna,* því þetta, að allar konur sem stíga á verðlaunapall megi eiga von á því að einhver gamall skúnkur kyssi þær, er ekkert nema mismunun. Því þeir kyssa aldrei karlmenn sem hljóta verðlaun. Þegar körlum eru veitt verðlaun þá beygja þeir sig lítillega á verðlaunapallinum til að fá borðann með verðlaunapeningnum um hálsinn, og rétta sig svo upp aftur til að taka í höndina á nefndarmanninum. Enginn virðist sjá neitt athugavert við þetta. Þó er þarna verið að mismuna konum sem þurfa að sæta því að einhverjir kallar eru að kyssa þær án þess að þær geti með góðu móti komið sér hjá því.** Karlar á verðlaunapalli losna undan þessu. Líklega væri það ekki fyrr en íþróttakarl þægi koss af karli sem fólk áttaði sig á að þessir kossar eru óviðeigandi.

Já, ég sagði mismunun. Mismunun sem konur verða fyrir er af mörgu tagi. Hún er ekki öll jafn alvarleg en hvert lítið atvik eða hegðunarmynstur leggur lóð á vogarskálar kynjamisréttis. Þeir sem mismuna kynjunum sjá þó ekki alltaf hegðun sína, eða ekki jafn skýrt og ólympíunefndin ætti að gera, því hún hefur jú upptökur og beinar útsendingar frá verðlaunaafhendingunum.

Þetta á auðvitað ekki bara við um verðlaunapalla og íþróttamót. Oft má sjá þetta í veislum, á götum úti, á veitingastöðum. Karlmaður sér kunningjahjón sín nálgast, hann heilsar konunni með kossi á kinnina en manni hennar með handabandi eða með því að nikka til hans, mesta lagi slá á bakið á honum. Þó eru þeir kannski aldavinir. Öllum virðist þykja þetta sjálfsagt. Jafnt íþróttamönnum sem áhorfendum heima í stofu virðist finnast sjálfsagt að konur á verðlaunapalli megi eiga von á að fá koss frá bláókunnugum gömlum kalli. Samt er það ekki sjálfsagðara en svo að það yrði rekið upp ramakvein ef einhver kallskúnkurinn ræki testósterónbólgnum karlkyns spretthlaupara koss á kinn.

Annað hvort kyssirðu alla á kinnina eða sleppir kossunum. Ef þú heilsar fólki eða óskar því til hamingju á mismunandi hátt eftir því hvort kynið á í hlut (en ekki eftir því hve náið þú þekkir fólkið), já, þá ertu að styðja við kynjamisréttið í heiminum.

___
* Bretar eiga mikið hrós fyrir hve fjölmenningarlegir leikarnir eru og sjást til dæmis konur með slæður við verðlaunaafhendingarnar, og svo hrista þeir líka uppí kynjahlutverkunum sbr. blómaberandi strákarnir.
** Sumar íþróttakonur rétta kirfilega úr sér áður en kossinn smellur og ota fram lúkunni í staðinn, þannig slapp ein þeirra við að Sebastian Coe kyssti hana á heimsmeistaramóti í fyrra, hann kyssti hinar eftir sem áður.

Efnisorð: ,

mánudagur, ágúst 06, 2012

Bleiki fíllinn, þrjár kærur komnar

Það er alveg rétt hjá Guðrúnu í Stígamótum að þær þrjár konur sem kærðu til lögreglu eru að öllum líkindum ekki þær einu sem var nauðgað á þjóðhátíð um helgina. Enda koma fjölmargar konur árlega til Stígamóta sem aldrei hafa kært. Það eru því enn ekki öll kurl komin til grafar.

Hvernig var það annars á þjóðhátíð þetta árið, var ekkert tjald á staðnum eða einhver vettvangur fyrir konur þar sem þær gátu talað um kynferðisofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir, svona svipað og þegar Stígamót voru á staðnum? Áttu konur kannski bara annaðhvort að kæra eða þegja? Ég verð að viðurkenna að mig grunar að með því að hafa enga slíka aðstöðu hafi markvisst verið að lækka töluna sem fjömiðlum yrði gefin um 'konur sem var nauðgað á þjóðhátíð'. Það var greinilega þannig niðurstaða sem átti að fást þegar þjóðhátíðarnefnd losaði sig við Stígamót.

Eftirlitsmyndavélavæðingin er gott skref í rétta átt en myndavélarnar ná ekki inn í hvert tjald. Það er heldur ekki nóg að geta borið kennsl á nauðgara og aðra ofbeldismenn og neglt niður ferðir þeirra eftirá, betra væri að koma í veg fyrir að glæpir séu framdir. Átakið bleiki fíllinn átti að ná til þessara manna en virðist ekki hafa gert það. Líklega var farið of seint af stað. Við feministar erum með áróður gegn nauðgunum allt árið og dugir ekki til. Nokkrar vikur fyrir verslunarmannahelgi nægja ekki til að breyta hugsunarhætti og hegðunarmynstri nauðgara.

Páli Scheving tókst ekki að breyta sínum hugsunarhætti og nú hefur hann hrökklast burt úr formannssæti þjóðhátíðarnefndar. Það voru þó góð tíðindi.

Efnisorð: ,

sunnudagur, ágúst 05, 2012

Biblíulestur jafngildir ekki trúarþörf

Bergþóra Gísladóttir skrifar ansi skemmtilegt bókablogg. Hún les bækur á fleiri tungumálum en ég skil og skrifar því um bækur sem ég hef aldrei heyrt um og á engan kost á að lesa fyrr en þær eru þýddar á íslensku. Sumar bækur sem hún skrifar um hef ég þó lesið og hef gaman af að bera saman álit okkar, eins og ég geri þegar ég les Druslubókabloggið.

Bergþóra er sannkallaður lestrarhestur eins og einu sinni var sagt um fólk sem er fíkið í bóklestur. Um áramótin ákvað hún að lesa alla biblíuna á þessu ári og þó hún lesi greinilega ýmsar bækur aðrar meðfram biblíulestrinum er hún nú komin „inn í texta Jeremía“, semsagt búin með rúmlega 760 bls.

Um miðjan apríl skrifaði Bergþóra þetta:
„Ég hafði óljóst minni um það að Gamla Testamentið væri grimmt á köflum. En fyrr má nú vera ósköpin. Bókin er eins og sambland af Fornaldarsögum Norðurlanda og Sturlunga. Hún líkist Fornaldarsögunum hvað varðar ýkjurnar og Sturlungu um grimmd og sóðaleg dráp.“

Og núna segir hún:
„Því lengra sem ég les í Ritningunni því meira undrandi verð ég á því að þetta skuli enn í dag vera litið á þetta sem undirstöðu trúarbragða sæmilega siðmenntaðra manna. Sem betur fer hefur Guð aldrei talað til mín og ég veit að ef það ætti sér stað væri ég snarlega sett á viðeigandi lyf.“

Þetta rímar alveg við mína skoðun og upplifun af biblíulestri. Ég las reyndar biblíuna sem unglingur, eins og Bergþóra segir í athugasemdahalanum við bloggfærslu sína að hún hafi gert, þó vildi hún lesa hana aftur. Ég tek til mín sneiðina og hyggst setja það á dagskrá hjá mér fyrr en síðar að lesa biblíuna aftur (og þá Sálmana líka). Efast reyndar stórlega um að ég skipti um skoðun á fyrirbærinu og enn síður á ég von á að finna guð, því ekki var hann þar í fyrra sinnið.

En að athugasemdahalanum hjá Bergþóru. Þar sér hún sig greinilega knúna til að lýsa yfir að hún hafi haft ágæta þekkingu á biblíunni áður en hún hóf lesturinn, því það virðist hafa farið framhjá lesendum hennar að þetta er vel lesin kona. Inn í athugasemdakerfið hafa ruðst kallar sem eru í misjafnlega föðurlegum tón að segja henni til. Þeir segja að hún lesi bókina í vitlausri röð (hún átti semsagt ekki að byrja á byrjuninni!) og að hún eigi frekar að lesa kabbalah fræðin svo hún skilji allt hið leynda í biblíunni. Svo er greinilega gert ráð fyrir að hún, og þá líklega allir aðrir sem taka sér þessa bók í hönd, sé í 'andlegri leit', gott ef ekki gríðarlegri trúarþörf. Mikið að þeir vilja ekki að fólk taki inntökupróf til að lesa biblíuna.

Enn staðfestist fyrir mér hve skynsamleg ákvörðun það var að hafa athugasemdakerfið hjá mér lokað.

Efnisorð: ,

föstudagur, ágúst 03, 2012

Bleiki fíllinn, dagur eitt

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig átakinu bleiki fíllinn reiðir af í Vestmannaeyjum um helgina. Kannski virkar það betur að íþróttafélag (forvarnarhópur ÍBV) beini þeim tilmælum til karlmanna að nauðga ekki, heldur en þegar feministar segja það. Kannski munar það hreinlega öllu. Ef nú alltíenu enginn karlmaður nauðgar á þjóðhátíð þá er það frábært og þá skal ég hrósa ÍBV og þeirra framtaki í hástert.
Ef samþykkið vantar, er það nauðgun.

Ef það hefur ekki heyrst skýrt já, þá er það nauðgun.

Vill nokkur vera nauðgari?

Við viljum með þessu opna umræðuna, nauðgun er ofbeldisglæpur sem hefur grafalvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir fórnarlambið og ekkert réttlætir slíkt. Til að rjúfa þessa samfélagslegu þöggun viljum við fá karlmenn til að tala við aðra karlmenn um "bleika fílinn".

Svo mælir forvarnarhópur ÍBV.

Mér finnst samt að það megi ekki gleymast að þetta tiltæki ÍBV er viðleitni til að snúa vörn í sókn eftir að formaður þjóðhátíðar-nefndar hélt fram þeirri svívirðu að Stígamót ykju á vandann (nauðganir væru þeim að kenna) og því væri ómögulegt að hafa Stígamót á þjóðhátíð. Hann var dyggilega studdur af Eyjamönnum en uppskar verðskuldaða fordæmingu feminista og annars siðaðs fólks. Það varð til þess að einhver í Eyjum hefur rankað við sér og áttað sig á að eitthvað varð að gera. Niðurstaðan var átakið bleiki fíllinn.

En eitt verður að leiðrétta. Það er ekki fyrst núna verið að „opna umræðuna“ og ekki fyrst núna sem karlmenn tala við karlmenn um nauðganir. Áður en bleiki fíllinn kom til sögunnar voru Stígamót fyrst til að vekja athygli á vandanum og koma fórnarlömbum nauðgara til hjálpar á útihátíðum, þ.á m. þjóðhátíð. Karlahópur Femínistafélags Íslands hefur um árabil verið með átakið Karlmenn segja nei við nauðgunum fyrir verslunarmannahelgina. Aðrir feministar hafa í ræðu og riti lagt sitt fram til að fræða karla um nauðganir (við litlar undirtektir ef ekki skammir og svívirðingar). Ef þessir aðilar hefðu ekki opnað umræðuna, vakið athygli á nauðgunum og nauðgurum þá væri bleiki fíllinn ekki nú umtalaður á þjóðhátíð.

Burtséð frá því, þá óska ég þess innilega að átakið bleiki fíllinn virki. Það er mál að nauðgunum linni á þjóðhátíð.

Efnisorð: , ,