föstudagur, mars 30, 2012

Sjálfstæðisflokksfávitar IV

Ég er ekki ein þeirra sem taldi brýnasta úrlausnarefnið að breyta stjórnarskránni en styð samt að það sé gert. En það er óþolandi hvernig Sjálfstæðismenn hafa hegðað sér undanfarna daga í þinginu. Tókst auðvitað með málþófi sínu að koma í veg fyrir að málið yrði klárað í tíma. Þar tókst þeim að vinna áfangasigur í því máli, eflaust eru þeir kampakátir með það. Það sem þeir eru þó ekki síst að gera er að eyðileggja fyrir ríkisstjórninni bara til að geta sagt að hún hafi ekki staðið loforð sitt um að stjórnarskránni yrði breytt. Það er ein ástæða þess að þeir þvælast fyrir öllum málum. Tefja tímann til að geta svo bent á að „ríkisstjórnin dragi lappirnar“.

Svo lýsa þeir yfir inn á milli að þeir „styðji auðvitað öll góð mál“, en eru í raun að nota gömlu taktíkina að vera á móti öllum málum jafnvel þótt þeir séu sammála þeim.

Ef einhver safnar saman upplýsingum og kallar möppuna Konur sem hata Sjálfstæðismenn, bætið mér endilega við.

Efnisorð:

fimmtudagur, mars 29, 2012

Dómur ekki sama og lögreglurannsókn

Og enn er ástæða til að endurbirta gamla færslu. Eða vísa á hana. Þarna skrifa ég um konu sem kærði karlmann fyrir nauðgun og áður en þrjár vikur eru liðnar dregur hún kæruna til baka og játar að hafa spunnið hana upp. Þessar þrjár vikur hafa eflaust verið erfiðar fyrir karlmanninn sem hún kærði, en það er fráleitt að beita þessu máli sem röksemd fyrir því að sífellt sé verið að sakfella saklausa menn fyrir nauðgun. Þessi maður var ekki sakfelldur, málið var enn í rannsókn. Og slík mál taka afar langan tíma í rannsókn eins og reyndar oft hefur verið gagnrýnt.

Ég læt aðra um að sálgreina það fólk sem er í herferð gegn konum sem kæra nauðgun. Hún er ofar mínum skilningi.

Efnisorð:

þriðjudagur, mars 27, 2012

Kynlíf löglegt, nauðganir ekki

Hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að lagafrumvarp um nauðganir muni gera kynlíf ólöglegt er mér óskiljanlegt. Hvernig er hægt að rugla saman kynlífi og nauðgun? Þekkir fólk sem svona talar ekki muninn?

Ég held að það sé ástæða til að endurbirta fimm ára gamlan pistil.

Kynlíf er jákvætt

Fólki sem þykir kynlíf gott, fallegt og skemmtilegt, er óskiljanlegt hvernig hægt er að rugla saman nauðgun og kynlífi, vændi og kynlífi eða klámi og kynlífi.

Klám, vændi og nauðganir eru andstæða alls þess sem er fallegt, gott og skemmtilegt.

Efnisorð: ,

laugardagur, mars 24, 2012

Endurheimt votlendis í Vatnsmýri

Nú er verið að endurbæta Vatnsmýrina, endurheimta votlendið og búa í haginn fyrir endur og aðra fugla svo þeir geti hreiðrað þar um sig. Ég er reyndar svo tortryggin að það hvarflaði að mér að þetta væri smjörklípa af hálfu Reykjavíkurborgar svo við hættum að agnúast útí Landspítalabyggingarmartröðina, en svo kemur í ljós að það var starfsfólk Norræna hússins sem átti hugmyndina að því að laga Vatnsmýrina í þágu fugla. Þar er greinilega gott fólk.

Um talsvert skeið hefur horft til vandræða með fuglalíf við Tjörnina. Áður verptu þeir í í Vatnsmýrinni en síðustu árin hafa fáir ungar komist á legg.* „Það er löngu tímabært að taka til á svæðinu, hjálpa fuglunum sem lífga svo skemmtilega upp á miðborgina og gera svæðið að raunverulegum griðastað fugla, gróðurs og vatnalífvera,“ segir Þuríður Helga Kristjánsdóttir, verkefnastjóri hjá Norræna húsinu.
Auk þess að tryggja fuglum Tjarnarinnar öruggt varpland stendur til að nota Vatnsmýrina til að „auka áhuga og þekkingu almennings á náttúrusvæðum innan og utan borgarinnar“. Ekki veitir af. Það er reyndar með ólíkindum að „upp úr tjörnunum í Vatnsmýrinni hefur verið mokað mold, grjóti og múrbrotum líklega úr gömlum braggabotnum enda voru eitt sinn öskuhaugar í mýrinni.“

„Það hefur verið farið illa með þetta friðland hér hefur verið lagt uppgreftri úr tjörnum og húsgrunnum og það hefur hækkað yfirborð landsins sem hefur þurrkað mýrina,“ segir Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði við Háskóla Íslands.

Þuríður Helga segir að ætlunin sé að gera svæðið að fyrirmynd fyrir endurheimt votlendis. Hún er þeirrar skoðunar að ráða þurfi eftirlitsmann við Tjörnina eins og var hér á árum áður, svokallaðan andapabba.**

„Gangi áformin eftir vonast menn til þess að duggönd, skúfönd, og gargönd, til viðbótar við stokköndina fari að verpa á ný í Vatnsmýrinni. Einnig fleiri fuglar eins og hrossagaukur, stelkur og þúfutittlingur.“

Þetta er nú með því jákvæðara sem ég hef lengi heyrt.

___
* Ein ástæða þess að fáir ungar hafa komist á legg kann að hafa verið að það hefur ekki verið greið leið milli Vatnsmýrarinnar og Tjarnarinnar, en það ku hafa gleymst að setja ræsi undir Hringbrautina nýju þegar hún var lögð hér um árið.
** Eftirlitsmaðurinn var kallaður andapabbi en líklega má allt eins ráða andamömmu. Af hvoru kyninu sem eftirlitsmaðurinn er þá er starfsheitið krúttlegt og skemmtilegt.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, mars 22, 2012

Stígamót sem skotmark andfeminista og nauðgaraverjenda

Ég hef fátt að segja um þá umræðu sem nú fer fram og á upptök sín hjá mjög sérkennilega innréttuðu fólki, svo ég segi ekki illgjörnu. Aðallega er ég orðlaus en svo hefur ágætt fólk lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að svara árásum þessa illa innrætta fólks á Stígamót og því hefur verið auðvelt að sitja þegjandi (þrátt fyrir hækkaðan blóðþrýsting).

Einhvernveginn finnst mér fólk sem ræðst á Stígamót vera allt eins líklegt til að brjóta rúður í barnaspítala Hringsins, svo furðulegt finnst mér valið á skotmarki. Á Stígamótum hafa margar konur (og börn og karlmenn) komið niðurbrotnar og sumar í sjálfsvígshugleiðingum. Á Stígamótum mæta þær skilningi og þolinmæði og fá hjálp til að byggja sig upp. En þeir sem eru í liði með nauðgurum líta greinilega á Stígamót sem samansafn óvina sem ber að gera tortryggilega.

Hér á eftir fara örfá ummæli þeirra sem hafa undanfarið staðið í deilum við Stígamótahatandi nauðgaraverjendur* (og staðið sig vel), þarna koma fram mikilvægir punktar.


„Hvað Stígamót varðar að þær séu að blása upp vandann þá er langt frá því að allir þolendur kynferðisofbeldis leiti þangað. Af þeim ellefu konum sem ég þekki sem allar urðu fyrir grófu ofbeldi mismiklu þó leitaði aðeins ein þeirra til stígamóta, ekkert af þessum nauðunum var kærð. Og trúir einhver mér núna að ég sé að segja satt, nei ég á ekki von á því, það vantar allar sannanir, lögregluskýrslur, DNA, áverkavottorð, játningar. ákærur, dóm í héraði og Hæstaréttardóma, og hefði stór hluti þessara mála endað með dómi? Kannski eitt, með séráliti Jóns Steinars?“
(Hafþór Jóhannsson)

„(Þau) virdast vera i herferd gegn jafnrettisbarrattu kvenna, og gegn fornarlombum kynferdisofbeldis. Thau nota hvert taekifaeri sem gefst til ad gera litid ur jafnrettisbarattunni.“
(Margrét Valdimarsdóttir)

„Hvaða ástæðu hefur þú til að halda þessum hræðilegum hlutum fram um "stelpur" og Stígamótakonur? Stelpur fara ekki í Stígamót bara vegna þess að þær sjá eftir því að hafa sofið hjá strákum (það er þreytt mýta feðraveldisins sem mér finnst ótrúlegt að þú skulir trúa á) og starfsfólk Stígamóta er ekki illa innrætt, þvert á móti, ég get fullvissað þig um þetta tvennt! Það er erfitt að fá fórnarlömb kynferðisofbeldis til að taka það skref að fara í Stígamót og þegar þau loksins fara má strax sjá batamerki. Þetta er ótrúlega göfugt og þarft starf sem er unnið þarna. Kynferðisofbeldi er mun algengara en almennt hefur verið talið vegna þess að það hefur alltaf verið þaggað niður, fórnarlömb skammast sín og halda að það sem kom fyrir sé þeim sjálfum að kenna og segja ekki frá. Þetta er nýbyrjað að breytast og þess vegna eru fleiri og fleiri brot að koma í sviðsljósið.“
(Hildur Guðbjörnsdóttir)


„Þið byrjið á því að kasta rýrð á skýrslu Stígamóta og þeirra skilgreiningu með því að gera þá kröfu að Stígamót skilgreini kynferðisofbeldi með nákvæmlega sama hætti og löggjafarvaldið (eða lögreglan, eða dómsvaldið, eftir því sem best á við).

Stígamót eiga alveg að geta sett fram sína eigin tölfræði á eigin forsendum, út frá eigin empírísku niðurstöðum. Samtökin gera ágætlega grein fyrir þeim. Það virðist svo alltént ekki skorta gagnrýnendurnar. Þetta er væntanlega ritrýndasta skýrsla norðan Alpafjalla.

Með þessum hætti gæti ég alveg eins gert athugasemd við ykkar skoðanir á innflytjendamálum (af því að ég lesið pistlana ykkar) af því að þær eru ekki fyllilega samrýmanlegar þeim sem Útlendingastofnun hefur.“
(Arnaldur Grétarsson)

„Það er svo gaman að sjá hvað fólk heldur að Stígamótakonur séu skemmtilegar að það nenni að mæta til okkar og uppdikta sögur um kynferðisofbeldi sem það hefur jafnvel haft "góða reynslu" af, en við skrumskælum sem kynferðisofbeldi. Fólkið sem leitar á Stígamót skilgreinir sjálft sitt ofbeldi, ekki við. Ég efast um að manneskja nenni að leita til okkar jafnvel árum saman af misskilningi eða af því að henni liði illa yfir einhverju lélegu kynlífi.“
(Anna Bentína Hermansen)

Ég skrifaði pistil fyrir margt löngu um mál þar sem nauðgari var sýknaður af að hafa nauðgað 14 ára stúlku. Niðurlag hans rímar talsvert við orð Önnu Bentínu, en það er svona:

„Það er ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að komast í hóp þeirra kvenna sem hafa verið nauðgað. Ekki veit ég um neina konu sem er sársvekkt yfir að hafa ekki verið gestur á Stígamótum. Engin kona sem ég þekki óskar sér þess að komast í sýnistöku á Neyðarmóttökunni eða skýrslutöku hjá lögreglunni.

Kannski þekki ég bara ekki réttu konurnar. Kannski eru Stígamót með æsileg skemmtikvöld sem aðeins útvaldar (nauðgaðar) komast inná og allt til vinnandi að komast þar inn – jafnvel að ljúga óhæfuverkum uppá einhvern sakleysingjann. Eða kannski útdeilir Neyðarmóttakan VIP-pössum þannig að konur sem segja að sér hafi verið nauðgað komist fram fyrir röð við skemmtistaði. Kannski er starfræktur klúbbur þar sem konur sitja og segja skemmtilegustu lygasögurnar við dynjandi undirtektir undirförulla feminista. Ferðavinningar í boði fyrir þær sem koma alsaklausum hjartahreinum dúllustrákum bak við lás og slá. Aldrei að vita.“

___
* Fyrir fólk sem ekki þekkir þessa umræðu og veit ekki hverjir þessir Stígamótahatandi nauðgaraverjendur eru, þá er það nokkuð ljóst í umræðuþræðinum á eftir þessari grein. Fólkið sem ég vitna í hér að ofan á við það fólk þegar það segir „þið“ og „þú“, en ég tók nöfn þeirra út, nóg er skömm þeirra samt.

Efnisorð:

þriðjudagur, mars 20, 2012

Vanþróað viðhorf mengað af rasisma

Þrátt fyrir að hafa oft heitið sjálfri mér að hætta að lesa dv.is þá hefur mér ekki tekist að hætta því. Ummælin í athugasemdakerfinu eru iðulega svo viðbjóðsleg og sýna svo mikið mannhatur að mér verður illt. En svo kemur fyrir, eins og í dag, að þar er skrifuð athugasemd sem tekur fram því sem fjallað er um í fréttinni fyrir ofan.

Fréttin fjallar um skoðanir Guðmundar Franklíns Jónssonar á þróunarsamvinnu. Nánar tiltekið þá skömm sem hann hefur á því að reistur hafi verið spítali í Malaví fyrir íslenskt fé. Nú er þessi sami Guðmundur Franklín í forsvari fyrir stjórnmálaflokk sem mér skilst að ætli að bjóða fram í næstu þingkosningum, þannig að það ber að leggja á minnið hvað hann lætur útúr sér um samfélagslega ábyrgð.

Dæmi um ummæli Guðmundar:
„Við erum að loka heilsugæslustöðvum, elliheimilum og sjúkrahúsum um allt land. Læknar og hjúkrunarfólk flýr í stórum stíl, og á meðan erum við að reisa spítala í Malaví....þvílíkt rugl, en mjög passandi að þetta sé í Monkey Bay og Össur ætti að halda sig þar.“

„… eru ekki kommarnir og kratarnir komnir á kreik og reyna að verja mesta ruglríkisbatterí Íslands, Þróunarsamvinnustofnun. ÞÍ verður að leggja niður sem afslöppunarbúðir fyrir afdankaða krata sem hafa verið settir út á akurinn.“

„…þú ert lýðskrumari ef þú heldur því fram að það sé siðferðileg skylda Íslendinga að bjarga heiminum.“

„Það afar mikilvægt að hjálpa öðrum þjóðum með þróunaraðstoð. Sérstaklega þeim þjóðum sem við þekkjum vel til og eru með lýðræðislega stjórnarhætti.“

En frá þessum ósmekklegu ummælum Guðmundar og að stórgóðri athugasemd Agnars Kristjáns Þorsteinssonar, en hann beinir henni ekki síst til þeirra sem lýsa sig sammála Guðmundi í athugasemdakerfinu. Þetta segir Agnar:
„Til þeirra sem gleypa við þessu lýðskrumi Guðmundar Franklíns þá finnst mér þörf að benda ykkur sem fallið í þá gryfju að hefja hér upp sjálfumhvert væl ofdekraðrar þjóðar sem er ein sú feitasta í heimi, á nokkur atriði.

Við eyðum eitthvað um hálft prósent af þjóðarframleiðslu í þróunaraðstoð eða um 1700 milljónir. Þar af fær Malaví um 400 milljónir eða svo, sem eru um 23% af aðstoðinni sé miðað við tölur frá 2009.

Við eyðum um 150 milljörðum í heilbrigðiskerfið okkar sem sem gerir þessa upphæð sem fer í þróunaraðstoð um 0,01% af því sem við eyðum í okkar eigið kerfi.

Bygging spitala þar kostar aðeins brot af því sem það kostar að reka einn slíkan hér heima og skiptir okkur litlu sem engu máli í raun en íbúa þessa lands öllu máli.

Væntanlega munu þessar 400 millur sem fara til Malaví i þróunaraðstoð á ári, ekki slaga upp í brjóstastækkanir, botoxaðgerðir, þunglyndislyf og sálfræðihjálp handa þessari ofdekruðu vælukjóaþjóð.

Við erum ein af ríkustu þjóðum veraldar þrátt fyirr allt saman þar sem velflestir borgararnir hafa þak yfir höfðinu, rafmagn, hita, hreint vatn, erum velflest læs og skrifandi, góðar samgöngur, mat, gemsa, Internet o.fl. sem er þveröfugt við borgara Malaví sem er eitt fátækasta land heims, og hvað þeir hafa aðgang að.

Hættið þessu væli því, horfið aðeins upp úr þessu og lítið aðeins í kringum ykkur á gnægtirnar sem sjást hér á landi áður en þið farið að drulla yfir það að verið sé að hjálpa okkar minnstu bræðrum annars staðar í heiminum.

Ef þið getið það ekki þá vona ég að Internetið verði tekið af ykkur og þið send með næsta flugi til Malaví þar sem ykkur er ætlað að búa við fátæktrarmörk í eitt ár eða svo.“

Ég er reyndar ekki svo illgjörn að vilja taka netið af neinum en sannarlega hefði sumt fólk gott af að reyna að setja sig í spor annarra. En líklega tekst því ekki að líta nægilega lengi uppúr snjallsímanum sínum til þess.

Efnisorð: , , , , , ,

laugardagur, mars 17, 2012

Við eigum að berjast

Það er helvíti fín grein eftir Hrafnhildi Ragnarsdóttur hér. Þar fjallar hún um markaðsvæðingu kvenlíkamans og hvaða afleiðingu hún hefur.

Lokaorð hennar eru þessi.

„Við sem samfélag eigum að endurheimta opinber rými og krefjast þess að ófyrirleitnum og skaðlegum skilaboðum sé ekki stöðugt beint að yfir helmingi samfélagsþegnanna. Við eigum að stöðva klámiðnaðinn sem misnotar og eyðileggur stúlkur og konur og hvetur menn til að beita konur ofbeldi. Við eigum að berjast gegn auglýsendum og fyrirtækjum sem hlutgera konur eða auglýsa skaðlegar vörur fyrir konur. Við eigum að berjast gegn auglýsendum og fyrirtækjum sem selja stúlkur og konur. Við eigum að brjóta niður ofurvald auglýsenda og stórfyrirtækja á lífum okkar, viðhorfum og lífsgildum og hanna okkar eigin.“

Það er ekki hægt annað en taka undir þetta.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, mars 15, 2012

Nafnbirting nauðgunarþola í Fréttatímanum

Fréttatíminn barst mér í hendur nú rétt áðan. Þegar ég hafði lesið forsíðufrétt og svo nánari umfjöllun inni í blaðinu um sama mál lagði ég frá mér blaðið og teygði mig í símann. En Fréttatíminn er bara með sjálfvirkan símsvara á kvöldin, það er enginn til að svara fyrir fréttina. Einsog mig langar til að það sé á þessu skýring. En þetta er semsagt málið:

Fréttin er um árás glæpahyskis á konu, þar sem henni var hótað, hún var beitt líkamlegu ofbeldi og hún var beitt kynferðisofbeldi.

Í Fréttatímanum er konan nafngreind. Þolandinn. Fórnarlambið. Brotaþolinn.

Eru þeir þarna á Fréttatímanum gengnir af göflunum — eða hefur konan kannski verið nafngreind í öðrum fjölmiðlum, og blaðið bara að gera 'eins og hinir'? Eða er þetta bara nýi stíllinn, tekinn upp eftir Pressunni?

Djöfuls óþverraskapur.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, mars 13, 2012

Klám og nauðganir í samböndum

Á Stöð 2 var í gær fjallað um kynferðisofbeldi í samböndum unglinga. Talað var við unga stúlku* sem hafði verið í sambandi við pilt (aldur hans kom ekki fram svo ég tæki eftir, líklega hefur hann verið á svipuðum aldri) og hann horfði mikið á klám og því ofbeldisfyllra klám eftir því sem á leið sambandið sem stóð í fjögur ár. Á þeim tíma virðist hann jafnframt hafa gert kröfu á stelpuna að hún tæki þátt í kynlífi af svipuðu tagi og því sem hann þekkti úr kláminu. Stelpan hefur nú leitað sér hjálpar hjá Stígamótum. Það er ömurlegt að ungar stelpur lendi í svipuðum aðstæðum og hún var og að hugsanlega séu einhverjar (jafnvel margar) í sömu sporum núna.

Þessi umfjöllun Stöðvar 2 rifjaði upp fyrir mér lista sem ég birti á blogginu fyrir mörgum árum. Ég rakst á hann á einhverri bandarískri vefsíðu eða bloggi og fannst hann eiga erindi við íslenska unglinga.** Talsverð áhersla er á að ölvun sé engin afsökun fyrir því að hafa 'kynmök' þar sem ekki er öruggt að stelpan sé viljugur þátttakandi.***

Liður númer 14 virðist eiga við um hið hræðilega samband sem fjallað var um í þættinum. (Assange hefði betur kynnt sér lið 20 og 26.)

Sannarlega vantar meiri jafnréttisfræðslu en þessi listi er líka ágætt umhugsunarefni fyrir stráka.

1. Þú ert nauðgari ef þú hellir stelpu fulla og hefur við hana einhverskonar kynmök.

2. Þú ert nauðgari ef þú rekst á fulla stelpu og hefur kynmök við hana.

3. Þú ert nauðgari ef þú drekkur þig fullan og hefur kynmök við stelpu. Ástand þitt er engin afsökun.

4. Ef þið eruð bæði full gætirðu samt verið nauðgari.

5. Ef hún ælir og drepst til skiptist, þá ertu nauðgari.

6. Ef hún er sofandi og þú hefur kynmök við hana, þá ertu nauðgari.

7. Ef hún er meðvitundarlaus og þú hefur við hana kynmök, þá ertu nauðgari.

8. Ef hún er meðvitundarlaus eða á einhvern hátt ófær um að segja „Já“, þá ertu nauðgari.

9. Ef þú gefur henni dóp eða einhver lyf til að sljóvga hana, þá ertu nauðgari.

10. Ef þú rekst á stelpu sem er undir áhrifum lyfja og hefur við hana einhverskonar kynmök, þá ertu nauðgari.

11. Ef þú hefur ekki fyrir því að spyrja hana leyfis og hún segir hvorki „Já“ né „Nei“, þá gætirðu verið nauðgari.

12. Þú ert nauðgari ef þú suðar í henni um að stunda kynlíf með þér. Takist þér að knýja fram „Já“ hjá þreyttu fórnarlambi þýðir það ekki að það sé ekki nauðgun. Þú ert nauðgari.

13. Þú ert nauðgari ef þú reynir að snúa neitun hennar upp í jáyrði með því að ‘kjafta hana til’. Hún er ekki að reyna að láta þig ganga á eftir sér. Þú ert samt nauðgari.

14. Þú ert nauðgari ef þú reynir með kænskubrögðum að fá hana til að samþykkja kynmök sem hún annars vildi ekki. Ef þú segir: „Ef þú elskaðir mig myndirðu gera X“, þá ertu nauðgari. Ef þú segir: „Allir aðrir gera þetta“, þá ertu nauðgari.

15. Ef þú hótar henni eða hagar þér á þann hátt að henni stendur ógn af þér, þá ertu nauðgari. Ef þú æsir þig og verður hávær og pirraður meðan þú reynir að ‘kjafta hana inná’ að hafa við þig kynmök, þá ertu nauðgari.

16. Þú ert nauðgari ef þú hættir ekki strax að káfa á henni þegar hún segir „Nei“. Þú ert nauðgari ef þú hættir en byrjar aftur 10 mínútum seinna og hún lætur að lokum undan.

17. Þú ert nauðgari ef þú leyfir henni ekki að sofa í friði heldur vekur hana upp á kortérs fresti til að biðja um kynmök. Að meina einhverjum um svefn flokkast undir pyntingar og þú ert nauðgari.

18. Ef þið eruð í keleríi og þið eruð nakin og þú ert búinn að sleikja hana en hún vill ekki meira og þú hefur samt við hana samfarir, þá ertu nauðgari.

19. Ef þið eruð í miðjum samförum og hún segir „Stopp“ eða „Nei“ – sama á hvaða tímapunkti - og þú hættir ekki, þá ertu nauðgari.

20. Ef hún sagði „Já“ við því að hafa við þig samfarir, en með því skilyrði að þú notaðir smokk og hann rifnar og þú heldur áfram, þá ertu nauðgari.

21. Ef þú hittir hana í partýi og hún sagðist vera að leita sér að bólfélaga fyrir nóttina en segist svo vera hætt við og þú heldur áfram, þá ertu nauðgari.

22. Ef hún skiptir um skoðun á einhverjum tímapunkti af einhverri ástæðu og þú hættir ekki strax eða reynir ‘kjafta hana til’, þá ertu nauðgari.

23. Ef hún segir „Nei“, þá ertu nauðgari – enda þótt þú hafir ekki slegið hana.

24. Þó þú sért ekki með hníf eða annað vopn, þá ertu samt nauðgari, ef hún hefur neitað.

25. Þó þú sért vinur hennar eða kærasti geturðu samt verið nauðgari.

26. Ef þið höfðuð samfarir kvöldið áður og þú beitir hana þrýstingi til að stunda kynlíf í morgunsárið, þó hún hafi ekki viljað það, þá ertu nauðgari.

27. Ef þið hafið haft samfarir hundrað sinnum en hún vill það ekki í hundraðasta og fyrsta skiptið, þá ertu nauðgari.

28. Ef þú notar fingur þína, tungu, eða kynfæri á endaþarm hennar, kynfæri eða munn, án hennar samþykkis, þá ert þú nauðgari.

29. Stelpum ber ekki skylda til að stunda kynlíf með þér.

30. Sama hvað þú eyðir miklum peningum í hana, það gefur þér aldrei rétt til neinskonar kynmaka.

31. Þó klæðnaður hennar undirstriki brjóstaskoruna eða fótleggina, hefurðu ekki rétt á kynmökum með henni.

32. Þó hún ‘æsi þig’, hefurðu ekki rétt á kynmökum með henni.

33. Ef hún hefur átt samfarir við hvern einasta náunga í 10 kílómetra radíus en neitar þér og þú hefur samt kynmök við hana, þá ertu nauðgari.

34. Fatnaður hennar er engin afsökun fyrir að nauðga henni. Klæðleysi hennar er ekki ástæða til að nauðga henni. Þó hún væri í g-strengnum einum fata er það hvorki ástæða né afsökun fyrir að nauðga henni, né heldur hefurðu nokkurn rétt til þess.

35. Ef þú verður vitni að nauðgun án þess að kalla á lögregluna, þá ertu jafn slæmur og nauðgarinn, og ert líklega nauðgari sjálfur.

36. Ef þú berst ekki gegn nauðgunum, þá ertu samþykkur þeim.

37. Ef þú trúir ekki stelpu þegar hún segir að sér hafi verið nauðgað, þá ertu að hvetja til nauðgana.

38. Ef þú ákveður að vera áfram vinur stráks sem hefur nauðgað stelpu, þá ertu að hvetja til nauðgana.

39. Þó þú játir fyrir yfirvöldum eða einhverjum öðrum að þú hafir nauðgað stelpu, þá ertu ekki þar með allt í einu orðinn góði gæinn. Þú verður það aldrei aftur, heldur ertu nauðgari.

40. Ef þú hefur ‘bara’ nauðgað einni stelpu, þá ertu samt nauðgari

Svona er listinn, en inngang og lokaorð má lesa í upprunalegu færslunni hér.
___
* Einnig var talað við Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur jafnréttiskennara í Borgarholtsskóla og líka móður stelpunnar. Viðtölin við þær og stelpuna voru mjög áhugaverð. Mér finnst þó að Stöð 2 hefði mátt leggja sig betur fram um að dylja útlit mæðgnanna og breyta röddum þeirra, þær hljóta að hafa verið auðþekktar öllum sem á annað borð þekkja þær. Umfjöllunina og viðtölin má sjá hér. Það er þó réttast að gera einsog Stöð 2 og vara við þeim myndum sem fylgja umfjölluninni.

** Í upphafi, þegar ég byrjaði að blogga, hafði ég oft í huga að einhverjir unglingar gætu rekist á bloggið þegar þeir væru að leita sér að upplýsiingum um kynlíf, klám, nauðganir, fóstureyðingar og þess háttar mál sem unglingar vilja gjarnan eða hafa þörf fyrir að afla sér upplýsinga um. Ekki að ég hafi haldið að ég væri færust um að fræða þau um þessi mál en ég vildi sannarlega kynna þeim annað sjónarhorn en þeir hugsanlega rækjust á annarstaðar. Þessvegna þýddi ég stundum efni eins og þennan lista. Annar listi sem ég þýddi og birti er „hegðunarreglur fyrir karlmenn til að koma í veg fyrir nauðganir“. Það er galli að ég skuli ekki hafa sett tengla á upprunalega textann (og man ekki lengur hvaðan hann er) en í þá daga var talsvert meira maus að setja tengla og ég hirti því lítt um það. Þar að auki er ég ekki launaður blaðamaður og þetta er prívatblogg þannig að skylda mín í þeim efnum er minni en þeirra sem t.d. skrifa á lífstílsmiðlana. Engu að síður er langt síðan ég fór að reyna að setja tengla eins oft og ég get.
(Þess má geta að ekki líður sú vika að ekki komi nokkrir inná síðuna hjá mér í leit að lesefni um fóstureyðingar. Þá er ég voða fegin að hafa skrifað ítarlega um þær.)

*** Nauðgarar segjast oft hafa verið of fullir til að taka eftir að fórnarlamb þeirra sagði nei, barðist á móti, eða var stjarft af skelfingu, þessvegna er lögð áhersla á það að vera ekki að sækjast eftir kynmökum undir áhrifum áfengis. Sé svo stelpan full á auðvitað ekki að notfæra sér það. Þetta þarf að segja unglingum (og jafnvel eldra fólki).

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, mars 11, 2012

Um öfuga sönnunarbyrði, taka tvö

Þegar lögð var fram kæra á hendur Agli Gillzenegger Einarssyni stukku skrilljón nauðgaraverjendur fram. Þeir héldu því fram að verið væri að ljúga uppá hann. Höfðu þó ekkert fyrir sér í því annað en eigin sannfæringu.* Æptu þessir nauðgaraverjendur — og ég kalla þá það vegna þess að þeir ákváðu að verja mann sem sakaður er um nauðgun burtséð frá sannleikanum í málinu — að hann væri saklaus uns sekt sannaðist. Þar með veðjuðu þeir auðvitað á að hann yrði ekki dæmdur sekur: enda fara fáar kærur fyrir dómstóla og af þeim enda fáar með því að karlmenn séu dæmdir sekir. Fyrir því liggja ýmsar ástæður en neitun nauðgarans vegur verulega þungt.

En semsagt, í umræðum um sekt eða sakleysi manns sem fæstir vita hvort sé sekur eða saklaus, þá ofbauð nokkrum feministum þessar upphrópanir um 'saklaus uns sekt er sönnuð'. Þær bentu á að það væri ekki alltaf þannig. Þar með voru þær ekki að kalla eftir því að dómstólar færu að draga menn inn af götunni og dæma þá fyrir engar sakir, heldur að í umræðunni, þeirri umræðu sem fór fram um þetta tiltekna mál, væri fáránlegt að tilkynna að maðurinn væri saklaus. Vel gæti verið að hann væri sekur, og það gæti farið svo að hann færi ekki fyrir dóm og að hann yrði ekki dæmdur sekur. Þar fyrir utan gæti hann verið sekur af þeim glæp að hafa framið nauðgun enda þótt það yrði aldrei sannað á hann og hann slyppi við dóm.

Aldrei skildi ég ábendingar feminista um að 'saklaus uns sekt er sönnuð' ætti við um þetta mál (og svosem öðrum nauðgunarmálum: ekki síst í öllum þeim málum sem aldrei eru kærð. Þar sleppa nauðganir við dóm en eru þó þrælsekir), öðruvísi en ég skýri hér á undan. Aldrei datt mér í hug að þær væru að heimta að sönnunarbyrðinni væri snúið við.

Svo er önnur og sorglegri saga hve mjög sumu fólki er í mun að halda því á lofti að konur séu unnvörpum að kæra saklausa karlmenn fyrir nauðgun. Þeir sem taka undir það segja svo í hinu orðinu að þeir vilji endilega að menn séu kærðir/dæmdir fyrir alvöru nauðganir — en málið er bara að þeir trúa yfirleitt ekki að framdar séu nauðganir nema stórsjái á fórnarlambinu og vitni séu að atburðinum. Allt hitt er bara uppspuni og lygi.

Að halda því fram að það sé svo alvarlegt að saka karlmenn um nauðgun því þeir verði útskúfaðir úr mannlegu samfélagi — það á bara við um Steingrím Njálsson (og hann nauðgar ungum drengjum). Dæmi um hið gagnstæða er t.a.m. sorgarsagan frá Húsavík þarsem fórnarlamb nauðgara var hrakið úr bænum en hann studdur opinberlega af bæjarbúum. Fjölmörg dæmi eru einnig úr vinahópum og fjölskyldum þar sem afstaða er tekin með nauðgaranum, þar verður ekki séð að um útskúfun sé að ræða. Oft er einmitt brotaþolanum álasað fyrir að segja frá, níða góðan dreng.

En semsagt, það var ekki verið að heimta að sönnunarbyrði yrði snúið við heldur benda á að umræðan væri á þann veg að enginn mætti segja neitt um þessa nauðgunarkæru (nema til að bera blak af Agli og níða niður stelpuna sem kærði) og að Egill væri saklaus nema takist að sanna annað.

Það þarf heldur ekki að breyta sönnunarbyrði,** aðrar leiðir eru til að reyna að rétta hlut þeirra sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi. Í fyrsta lagi mætti laga íslensk lög að engilsaxneskum (en við fylgjum germanskri hefð þar sem ákæruvaldið verður að kynferðismökin eða samræðið hafa verið knúið áfram með ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung). Í engilsaxneskum rétti eru ofbeldi eða hótanir ekki þáttur í skilgreiningu á naugunarhugtakinu, heldur er nauðgun skilgreind þar út frá hugtakinu samþykki. Frumvarp Atla Gíslasonar og Þuríðar Backman sem þau lögðu fram 2008 gekk út á að gera skort á samþykki að þungamiðju kynferðisbrota***

Í öðru lagi mætti taka meira og oftar mark á sálfræðimati og vitnisburði starfsfólks á neyðarmóttöku um ástand brotaþola við skoðun. Jón Steinar Gunnlaugsson, æviráðinn hæstaréttardómari og þar áður verjandi flestra þeirra nauðgara sem lentu fyrir rétti, er reyndar á móti því að mark sé tekið á sálfræðingum, enda finnst honum auðvitað nóg að nauðgarinn segist bara ekkert hafa nauðgað fórnarlambi sínu og ef lífssýni segja annað þá er þeirri vörn borið við að hún hafi viljað 'kynmökin'. Þannig hafa nú margir sloppið, með fulltingi Jóns Steinars (og Brynjars Níelssonar og Sveins Andra Sveinssonar).

Eitt er ljóst og það er að einhverju verður að breyta svo að nauðgarar komist ekki upp með glæpi sína.

___
* Fjöldi fólks trúir því að Egill Gillzenegger Einarsson hafi nauðgað konunni (og er það álit byggt á hatursfullum orðum hans í garð nafngreindra feminista), og vita heldur ekki sannleikann í málinu, hver sem hann svo er.

** Ekki hef ég séð mikla málsvörn fyrir efnahagsbrotamenn og upphrópanir um mannréttindabrot sem gætu verið framin á þeim. Í frétt frá ágúst 2007 sem er horfin af vef RÚV kom fram að í sumum ríkjum Evrópu hafi lögum verið breytt þannig að glæpamenn þurfi að sanna að þeir hafa aflað verðmæta eða peninga með löglegum hætti en ekki með brotum, með það að markmiði að koma á svokallaðri öfugri sönnunarbyrði; það sé sakbornings en ekki ákæruvalds að sanna fyrir rétti að eigna og peninga hafi verið aflað á löglegan hátt.

*** Um kosti og galla engilsaxnesku réttarhefðarinnar er fjallað í bók Þórdísar Á mannamáli en það sem hér er skrifað er orðrétt úr kaflanum Kerfið sem fjallar m.a. um muninn á engilsaxneskum og germönskum réttarhefðum.
[Viðbót löngu síðar]. Atli lagði frumvarpið fram í félagi við aðra alls fimm sinnum. Fyrst á 135. löggjafarþingi 2007–2008, að lokum, og jafn árangurslaust og áður, á 141. löggjafarþingi 2012–2013. Kjarnann í frumvarpinu má lesa í grein eftir Atla frá 2007 sem lesa má hér.

Efnisorð: ,

Saklausu karlmennirnir og konur sem voga sér að komast í uppnám

Ólafur Ragnarsson ·
„Þessi pistill er mjög vel skrifaður hjá Evu og kemur vel að kjarna málsins þegar kemur að öfugri sönnunarbyrði. Það held ég að allir hljóti að vera sammála að ef eitthvað er skelfilegra en glæpurinn sjálfur, er að dæma saklausa manneskju fyrir glæpinn. Ég held að þeir sem hoppa upp í nef sér og hrauna yfir Evu ættu að lesa og ígrunda það sem hún er að segja áður en þeir setjast í dómarasætið í heilagri vandlætingu.“

—  Nei, það eina sem er alvarlegra en nauðgun er morð. Morð. Ekki að hugsanlega einhver verði hugsanlega dæmdur fyrir glæp sem hann ekki framdi (og það er ekki líklegra að vera dæmdur saklaus fyrir nauðgun heldur en vera dæmdur saklaus fyrir morð, eða aðra glæpi). Það er ekki verra að vera sakaður um nauðgun en verða fyrir nauðgun.

Athugasemdin hér að ofan, eftir einhvern Ólaf Ragnarsson er skrifuð í tilefni af enn einni skítasendingunni úr þeirri áttinni þar sem feministum er ávallt ætlað að vilja fangelsa saklausa menn. Sífellt er dregið í efa að konur kæri nauðgun vegna þess að þær verði fyrir nauðgun. Enda eru karlmenn í hrönnum hæstánægðir með þessi skilaboð.

Oskar Steinn · Vinnur hjá Frá A til Ö
„Enn og aftur vekur Eva upp spurningar sem mörgum finnst erfitt að svara :)“

Friðrik Höskuldsson · Navigating Officer hjá Landhelgisgæslan
„Allt of satt, vel gert Eva. Það máttu sannarlega eiga.“

Andri Bergmann · Reykjavík, Iceland
„Rosalega vel skrifaður pistill. Sammála mjög mörgu þarna.“

Ein kona, Katrín, skrifar athugsemdir, og er greinilega mjög mikið niðri fyrir en færir engin rök fyrir máli sínu. Þess vegna hrúgast inn athugasemdir þar sem hún er rökkuð niður — þó hefur hún strax í upphafi sagt að hún hafi orðið fyrir þessháttar ofbeldi sem um er rætt, þ.e.a.s. nauðgun. Fær hún einhverja samúð, skilning? Nei, það er níðst á henni í andskotans athugasemdakerfinu.

Óli Jón Gunnarsson · Kvikmyndaskóli Íslands
„Hoppað þú nú bara í læk Katrín með þessi tilgangslausu skítlegu komment.“

Jóhann Friðrik Unnsteinsson ·
„Hún er allavega ekki ræfill...þú ræðst á manneskjuna Í staðinn fyrir að ræða málið á málefnalegum grundvelli og koma með rök.“


Þessi er auðvitað bestur:
Kristján Birnir Ívansson · Uni. Akureyri
„Spurning hvort Katrin Bjarkadóttir haf gerst sek um eitthvað sem ef er að benda á í skrifum sínum.“

Hún hlýtur auðvitað að vera að ljúga að sér hafi verið nauðgað!

Það hefur enginn lært neitt af þessu myndaalbúmi sem var stillt upp um daginn: að benda fólki á kvenfyrirlitninguna skilaði engu, það hleypti kvenhöturum og öðrum andfeministum bara kappi í kinn. Nauðgaravinir og nauðgaraverjendur fylkja liði ef eitthvað er.

Mig flökrar við þessu hyski.

Efnisorð:

sunnudagur, mars 04, 2012

Tveir fyrirsjáanlegir og annar í framboði

Nýlega tók ég eftir að einhver hafði komið inn á bloggsíðuna hjá mér með því að nota leitarorðin „öfug sönnunarbyrði“. Ég þóttist því vita hvað væri í vændum og beið spennt. En svo sé ég hver það er sem finnst hann hafa komist í feitt.

Hinn náunginn sem heldur að hann hafi eitthvað fram að færa er forsetinn, sem nú heldur að almenningur allur taki framboði hans fagnandi.

Hvorugur er neinnar athygli verður.

Efnisorð:

laugardagur, mars 03, 2012

Það má segja það, það má bara ekki benda á það


„hef nu bara eitt að seigja að þú getur ekki ætlast til þess að allir þessir karlar hati konur eg held bara þar að seigja að .þú hatir að vera kona og færð aldrei að ríða og blessuð sahara eyðumork sé i klofinu á þér og ykkur feministum reynið að láta ykkur líða betur með þvi að kenna köllonum um það er frekar sorglegt af ykkur að gera orð þyða ekkkert hatur alltaf sko :D“
Þetta má ekki birta á Facebook. Eða sko, Hermann Knútur Sigtryggsson má segja þetta, en Hildi Lilliendahl er meinað að birta ummæli hans.

Hér afturámóti ræð ég.

Efnisorð: , ,

föstudagur, mars 02, 2012

Innrætið sprettur fram við réttar aðstæður

Einhverntímann var ég að býsnast yfir hve fólk væri orðið dónalegt eftir að gsm símar komu til sögunnar. Fólk sendir sms í gríð og erg meðan viðmælandi þess hinumegin við borðið fær enga athygli. Símhringingar glymja við jarðarfarir og á fundum, í bíói og leikhúsum (ekki er glampinn af símunum betri). Fólk er svo forhert að það svarar jafnvel í símann við slíkar aðstæður, sumir lækka ekki einu sinni róminn.

Viðmælandi minn benti mér þá á að þetta fólk hafi heldur ekki kunnað sig áður en gsm símar komu til sögunnar. Nú hafi það bara fleiri tækifæri til að sýna vankunnáttu sína í félagslegum aðstæðum.

Að sama skapi held ég að menn sem — eins og dæmin sanna — nota svívirðilegt orðbragð á netinu, séu ekki bara svona dónalegir vegna þess að þeir séu að tala á netinu. Facebook gerir þá ekki orðljóta, DV fréttir gerir fólk ekki ofstopafulla í hugsun. Það hefur bara fleiri tækifæri til að sýna ofstopa sinn og svívirðilegt viðhorf til annarra, s.s. feminista.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, mars 01, 2012

Karlar sem geta nú haldið áfram að hata konur

Jæja, hjúkk. Nú þarf ekki lengur að spá í hvað fær karla til að úthella sora yfir konur almennt og feminista sérstaklega, því það fundust ummæli þar sem kona sagði ljóta hluti um konur. Tvenn ummæli, tvær konur. Þar með er búið að afgreiða myndaalbúmið þar sem fjöldinn allur af svívirðingum karla í garð kvenna er birtur.

Nei, það þarf aldrei að ræða það meir því syndug kona kastaði fyrsta steininum og úr glerhúsi í þokkabót (gott ef hún var ekki ósmekklega til fara á lögfræðilegan mælikvarða). Þökk sé þeim sem sáu að í óefni stefndi og að karlar þyrftu eftilvill að líta í eigin barm og kynbræðra sinna og spá í hversvegna þeir kysu að tala svona um og við konur. Nú þurfa þeir barasta ekkert að gera það, komnir með löglega afsökun því hún þarna sko er baharasta ekkert betri sko. Og hefur hún þó verið að benda á samfélagsmein.

Ein birtingarmynd þess samfélagsmeins er orðbragð sem karlmenn viðhafa um konur, um feminista og svo vörnin sem þeir hlaupa í fyrir alla nauðgara og þá sem kærðir eru fyrir nauðgun. Þeim þykir það auðvitað ekki bera vott um andstyggðarhugsunarhátt í garð kvenna að flykkjast sífellt á vettvang þar sem rætt er um nauðganir og þylja möntruna sína um að konur ljúgi nauðgunum uppá karlmenn (ástæður taldar upp) og að margur saklaus maðurinn liggi óvígur eftir slíkar lygaherferðir.

Önnur birtingarmynd er sú að árlega koma hundruð kvenna á neyðarmóttöku vegna nauðgana og undanfarin ár hafa verið framin tvö morð á ári þarsem karlmaður drepur konu. Að sjálfsögðu sjá karlmenn ekkert samhengi milli viðhorfs til kvenna, orðbragðs sem notað er við og um konur og þess að konum er beinlínis nauðgað og að konur eru beinlínis drepnar. Alls óskyld mál auðvitað að þeirra mati, enda allir bara einstaklingar á rangli og ekkert til sem heitir samfélag.

Aldrei fást karlmennirnir sem flykkjast á umræðuþræði til að ræða lygasjúkar konur til að skilja hver þeirra hlutur er í skjaldborginni sem slegin er um karlmenn sem sakaðir eru um nauðgun — sem er auðvitað ekkert annað en stuðningur við nauðganir — og ekki dettur þeim í hug að nær væri að standa með fórnarlambinu, a.m.k. þar til í ljós kemur fyrir dómstólum að stelpugálan var að ljúga eins og allar hinar. Nei, þeim þykir öruggast að standa með sínum mönnum alla leið (samt bannað að kalla þá nauðgaravini). Og svo eru þeir hissa að lenda í myndamöppu með mönnum sem nota ljótt orðbragð, eins og það sé ekki bara önnur birtingarmynd sama hugsunarháttar.

En fínt samt að þurfa ekki að spá í það meir. Komnir með nýja konu í sigtið sem bættist í hóp Sóleyjar Tómasardóttur og Höllu Gunnarsdóttur sem kona sem karlmenn eru stoltir af að hata, gefið hefur verið veiðileyfi á hana. Enda benti hún á sannleika og það má ekki.

Efnisorð: ,