mánudagur, mars 28, 2011

Siðblinda, yfirlit

Í janúar í fyrra skrifaði ég um siðblindu og svo aftur í janúar á þessu ári þar sem ég vísaði í fyrri skrif þar um en þó aðallega í skrif Hörpu Hreinsdóttur. Reyndar var færsluröð hennar um siðblindu tilefni þess að ég skrifaði færsluna fyrir sléttum tveimur mánuðum en nú hefur Harpa tilkynnt að þó endalaust sé hægt að skrifa um þetta áhugaverða efni láti hún nú staðar numið. Pistlar hennar urðu fimmtán talsins og eru hver öðrum fróðlegri. Þá má alla finna hér hjá Hörpu, auk þess sem hún hefur sett þá alla á einn stað á vefinn siðblinda.com, en ég skrifaði líka útdrætti um hvern þeirra í upptalningu minni í janúarfærslunni og hef uppfært hana jafnóðum síðan.

Ég lýsi yfir aðdáun á þessu framtaki Hörpu og er nokkuð viss um að oft verður vísað til skrifa hennar um siðblindu.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,

sunnudagur, mars 20, 2011

Opið bréf til nöldurmenninganna

Ég er nú frekar hissa en hneyksluð á bréfinu sem þið nöldurmenningarnir skrifuðuð þar sem þið heimtuðuð að Egill Helgason yrði rekinn, gerður upptækur, gerður gjaldþrota, rekinn að heiman og meinað að hitta barnið sitt, lágmark. En ég þóttist sjá það sem ég held að geti hafa verið undirliggjandi meining hjá ykkur, þó þið hafið líklega ekki áttað ykkur á því, að það sé gagnrýnivert hve hallar á konur í Kiljunni. En ég segi nú bara svona. Ætla samt aðeins að ræða það hér.

Ég vil benda ykkur á að Kolbrún Bergþórsdóttir er glæsilegur fulltrúi kvenna í þættinum og allt þar til þessi Þorgerður E. ruddist inn í þáttinn var Kolbrún alveg nægileg sönnun þess að Egill talar við konur og vill heyra skoðanir þeirra á bókmenntum. Svo er hún líka með heppilegar skoðanir; er algerlega á móti pólitískri rétthugsun og feministakjaftæði, eins og konum ber. Þessvegna kom hún auðvitað í þáttinn upphaflega og verður þar lengi enn. Ég efast hinsvegar um að Þorgerður E. verði lengi, mér skilst að hún sé bókmenntafræðingur, en þeir eru bara til óþurftar þegar fjallað er um bækur. (Eins og kunnugt er þarf Egill Helgason enga formlega menntun til að stýra menningarþætti í Ríkissjónvarpinu en þið öfundið hann greinilega af því og það þarf ekki að taka það fram hve augljóst það er að bókmenntafræðingana í hópi ykkar nöldurmenningana langar til að taka yfir þáttinn. ).

Ég las á afturgöngubloggi Ernu Erlings að henni finnst að Egill gæti alveg hangið á bókasöfnum að tala við konur. Mér finnst það arfaslæm hugmynd. Ef það á eitthvað að vera að vesenast í kringum áður lesnar bækur þá þarf þeim að fylgja gamall neftóbakskall sem segir fylleríssögur af látnu fólki, jafnvel núlifandi fólki sem flutt er í böndum í lögreglubíl. Auk þess að vera smekklegt og viðeigandi innlegg þá er það alvöru krassandi stöff sem á heima í menningarþætti en ekki eitthvað stofnanalið sem veit ekkert um fólk nema það sem stendur á bókasafnskortinu þess.

Það er líka ekki eins og það sé fólk á hverju strái sem þekkir til skálda fyrri tíma eins og hann þarna maðurinn sem er sífellt með fingurna í nefinu á sér, mest af því fólki er ólæst, ótalandi og ekkert vit í því. Hver myndi tildæmis vilja hafa gamla kéllingu eins og Vilbjörgu Dagbjartsdóttur þátt eftir þátt að segja sögur af fólki sem hún hefur þekkt? Enginn! Enda efast ég um að hún hafi gamlar drykkjusögur og slúður á takteinunum — ö, ég meina öfugt — sko konur slúðra svo mikið meira en kallar þannig að það yrði bara óþolandi að heyra gömlum kjaftasögum dreift yfir landslýð trekk í trekk.

En þið töluðuð mikið um tölfræði í bréfinu og öllu því sem þið hafið skrifað eftir það. Finnst ykkur í alvöru að konum yrði greiði gerður ef það ætti að hætta að tala um bækur eftir kalla í þættinum? Því það er það sem þið farið fram á. Það má auðvitað ekki tala við fleiri konur til að bæta upp á móti því hve fáar þeirra eru í bókmenntasögunni, þið hljótið að skilja það. Egill er maður hefðarinnar og þessvegna passar hann uppá að hlutfall þeirra kvenna sem talað er við í Kiljunni um þeirra eigin bækur eða annarra og bókmenntir almennt, sé alveg í hnífjöfnu hlutfalli við útgefnar bækur kvenna á 18. öld á Bretlandi. Eða mér finnst það allavega líklegt, við eitthvað hlýtur hann að miða, svona vandaður maður.

Svo verð ég aðeins að fá að minnast á það sem blasir við: Konur eru ekkert sérstaklega gefnar fyrir bækur, bókmenntir eða umfjöllun um bókmenntir. Þið, sem eruð nú svona upptekin af tölfræði, ættuð að vita það. Þær eru bara mikið minna fyrir allt svona menningarstúss (enda eru þær svo takmarkaðar eitthvað og óspennandi) og þessvegna er alger óþarfi að vera eitthvað að pota konum í virðulegan menningarþátt sem þær horfa svo ekkert á (sama má segja um Silfur Egils; konur hafa engan áhuga á pólitík). Eru þær líka ekki svo skotnar í neftóbakskarlinum, ég man ekki betur en Egill hafi sagt okkur það? Þannig að konur eru bara sáttar og verið þið þá ekkert að þykjast hafa vit fyrir þeim.

Alveg frá upphafi hefur verið ljóst að enginn er eins hæfur að stjórna þessum eina bókmenntaþætti sem er í Sjónvarpinu og vitað var að hann yrði sanngjarn á allan hátt. Engu venjulegu fólki dettur í hug að gagnrýna Egil Helgason. Kunniði ekkert að skammast ykkar?

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, mars 19, 2011

Skólabarnastríðið

Ekki öfunda ég borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar þessa dagana. Ég held að allir nema kjósendur Besta flokksins hafi gert sér grein fyrir að fjárhagsstaðan væri þannig að eitthvað róttækt þyrfti að gera en sú aðferð að lækka einmitt framlög til menntamála (tónlistarskólar) og sameina leikskóla virkar einstaklega illa á fólk, sérstaklega það fólk sem á börn í þessum skólum. Líklega hefði verið betra að skrúfa útsvarið í topp hjá öllum borgarbúum frekar en sýna niðurskurðinn svo greinilega í málefnum barna. Þá er nú sanngjarnara að við tökum þetta öll á okkur, jafn ósanngjarnt og allt þetta ástand nú annars er.

Það má þó ekki gleyma því að þetta ástand er afleiðing góðærisins, útrásarvíkinganna, bankasukksins, virkjanabrjálæðisins og frjálshyggjunnar. Jafn lítið hrifin af Besta flokknum og ég er, þá er ástandið ekki honum að kenna. Ekki frekar en ríkisstjórninni sem nú situr.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, mars 17, 2011

Stóra bóla og svartidauði

Mér leikur forvitni á að vita hvort hæstaréttarlögmennirnir sjö hafi notið liðsinnis almannatengils þegar þeir tóku þá ákvörðun að birta greinar þar sem þær mæla gegn því að Icesave-samningarnir verði samþykktir. Eða fundu þeir uppá því sjálfir að hafa þær svona stuttar? Hvortheldur er, þá virðist sem markhópurinn sé vera sá hluti kjósenda sem leggur ekki í eða nennir ekki að lesa langa texta. Þessvegna eru greinarstubbarnir dverganna sjö svona stuttir (svo ég segi ekki asnalegir), alveg andstætt við heilsíðugrein Hallgríms Helgasonar þar sem hann ræðir siðferðilegu hliðina á því að borga Icesave, setur það upp sem réttlætismál sem Íslendingar myndu taka undir væru þeir í sporum Breta (og Hollendinga).

Hallgrímur skrifar svo langan texta að hann hristir af sér alla þá sem eru fegnir greinarstúfum dverganna sjö vegna þess að þeir nenna ekki að lesa neinar langlokur. Þó er grein Hallgríms betur skrifuð. En sú grein höfðar til þeirra sem leggja í langan lestur og hafa gaman af orðaleikjum, en fyrst og fremst höfðar hún til þeirra sem eru sammála Hallgrími um að við neyðumst til, sanngirninnar vegna, að borga helvítis Icesave skuldina sem við sitjum uppi með í boði Landsbankans, Björgólfs eldri og Björgólfs Thors, Kjartans Gunnarssonar og gullétandi bankastjóranna Halldórs Kristjánssonar og Sigurjóns Árnasonar. En auðvitað er það ekkert sanngjarnt að við borgum, nema að því leyti að við erum kjósendur í því landi þar sem þessum fjárglæframönnum var gefinn laus taumurinn og látið óáreitt þegar þeir stálu fé af útlendingum sem í sakleysi sínu lögðu peninga inná Icesave reikninga í Bretlandi og Hollandi.

En jæja, ekki langar mig til að skrifa eða hugsa meir um Icesave. Aldrei framar. Það er bara ekki eins og það sé svo auðvelt að sleppa undan því.

Mér sýnist reyndar að ríkisstjórnin, eða alþingi, sé sammála um það að langa ekki til að skrifa um Iceasave. Utankjörstaðafundur byrjaði í gær og fólk er byrjað að kjósa af eða á, nei eða já, en upplýsingar um málið sem verið er að kjósa um liggja þó ekki fyrir, eins og þó mun vera skylda fyrir slíkar kosningar. Jú, það er hægt að afla sér allra þessara upplýsinga á netinu en bæklingur sem bera á í öll hús er enn óskrifaður, hvað þá að fólk sem kýs utankjörstaðar næstu daga og jafnvel vikur hafi hann undir höndum til að geta kynnt sér málið (ekki eru allir landsmenn nettengdir). Stjórnvöld virðast hættulega nærri því að klúðra þessum kosningum líka. Það væri nú ekki á það bætandi eftir stjórnlagaþingsógildinguna.

Og úr því að ég er farin að skrifa um mál sem ég nenni ekki að lesa eða skrifa um: ESB. Ég sniðgeng allar greinar og leiðara sem skrifaðir eru með ESB eða á móti. Ég nenni ekki að heyra á það minnst fyrr en aðildarviðræðurnar eru búnar og við fáum að vita hvað er í boði og hverju við þurfum að fórna til að ganga í þann fína klúbb. Og þá er einsgott að stjórnvöld standi sig í kynningunni fyrir kosningarnar um inngönguna, því ekki nenni ég að hlusta á áróður þeirra sem eru æstir með eða æstir á móti. Enn síður um það mál en um Icesave, þar er þó fyndna og læsa fólkið á sama máli og ég.

Efnisorð: , ,

mánudagur, mars 14, 2011

Smávaxnar konur í karlmiðuðum heimi

Í sjónvarpsfréttum á laugardagskvöldið vakti ein frétt athygli mína og það var sú sem fjallaði um uppboð Tollstjóra. Það var ekki vegna áhuga míns á uppboðum heldur vegna viðtalsins við konuna sem þar var komin til að taka þátt í uppboðinu. Hún sagði að hún ætti erfitt með að sjá hvað væri í boði vegna þess að hún væri svo lítil. Hún virtist reyndar eina konan á staðnum og í kringum hana mátti sjá karlmennina gnæfa yfir.

Þetta minnti mig á það sem kona ein sagði mér fyrir nokkrum árum síðan. Hún er ekki mikið hærri í loftinu en sú á tolluppboðinu en var þó ekki að segja mér frá þvílíkri uppákomu heldur samskiptum sínum við lækna. Hún þurfti, eins og gengur og gerist, stundum að fá lyf við ýmsum kvillum og einhverju sinni þegar læknir var búinn að sjúkdómsgreina hana og bjóst til að skrifa lyfseðil uppá eina töflu á dag af einhverju tilteknu lyfi, þá spurði hún hann að rælni hvort þetta væri venjulegur skammtur í svona tilfellum. Hann hélt það nú. Hún spurði hann þá aftur hvort allir fengju eina töflu á dag við þessum kvilla, hann svaraði aftur já. Hún spurði þá — og var nú orðin verulega hugsi yfir þessu — hvort tveggja metra og 120 kílóa maður yrði líka settur á þennan sama lyfjaskammt og hún, sem varla stæði útúr hnefa? Læknirinn varð hálfkindarlegur og skrifaði uppá hálfa töflu á dag handa henni.

Í framhaldi af þessari frásögn konunnar fórum við að velta fyrir okkur hvort það hefði kannski engin áhrif á lifrina eða önnur líffæri hversu stór lyfjaskammtur væri miðað við líkamsþyngd. Einhvernveginn fannst okkur líklegra að stór og þungur karlmaður ætti að taka þrjár en smávaxnar konur eina töflu, en kannski hefur lítill lyfjaskammtur miðað við líkamsþyngd alveg nægilega mikil áhrif og stór skammtur ekki skaðleg áhrif. En hversvegna þá ein tafla á dag en ekki þrjár? Eftir hverju er farið? Ég verð að viðurkenna, þar sem ég er nú svo óheppin að vera feministi, að mér datt helst í hug að allir lyfjaskammtar, þ.e.a.s. eins og þeir væru ákvarðaðir af lyfjafyrirtækjum og í framhaldinu læknum, væru miðaðir við meðalmanninn.* Og eins og við öll vitum, þá er meðalmaðurinn karlmaður.

Fyrst þegar bílbelti voru í bílum, voru þau ekki stillanleg. Þau miðuðust við meðalmanninn sem gerði það að verkum að bílbeltið í sumum bíltegundum lá þvert yfir háls smávaxinna kvenna.** Meðalmaðurinn núna er víst eitthvað hærri en hann var fyrir nokkrum áratugum. En smávaxnar konur eru og verða smávaxnar. Samt eru nýju fínu sætin í kvikmyndahúsunum miðuð við meðalmanninn og þar fer ekki vel um smávaxnar konur.*** Í bílaframleiðslu hefur semsagt orðið framfarir en ekki í kvikmyndahúsarekstri.

Ekki virðast hafa orðið framfarir í læknavísindum, sé þessi mælikvarði notaður, en mest finna þó líklega smávaxnar konur til smæðar sinnar í miðjum hóp hávaxinna karlmanna. Það er erfitt að sjá hvað heimurinn býður uppá þegar þeir skyggja á útsýnið.

___
* Þetta á ekki bara við um lyf uppáskrifuð af læknum, heldur þá líka vítamínskammta og líklega þessi frægu átta glös af vatni sem við eigum ÖLL að drekka á dag, hvort sem við erum þrautþjálfaðir íþróttamenn, karlmenn í kyrrsetustörfum sem komnir eru yfir hundrað kíló eða smávaxnar konur sem hreyfa sig hæfilega.
** Bílbelti, rétt eins og sætin í japönskum bílum, voru miðuð við meðal-japana og það var eitthvað nær smávöxnum konum en meðal-evrópubúinn en bílbeltin í Lada Sport miðuðust við hávaxna Borisa.
*** Ég tek fram að ég hef ekki fordóma í garð smávaxinna kvenna þó ég tönnlist á orðunum „smávaxnar konur“. Ef svo er, þá eru það bara litlir fordómar.

Efnisorð: ,

laugardagur, mars 12, 2011

Meira um fjölmiðla, fjármál og dúllubossa

Þegar ég gagnrýndi viðskiptafréttablaðamanninn um daginn þá var það aðallega fyrir orðalag. Í ljós kom að hann og allir hinir fjölmiðlamennirnir sem fjölluðu um ofurlaun bankastjóranna reiknuðu hreinlega vitlaust, en það sást þeim semsagt yfir í æðibunugangnum. Fjölmiðlar hafa þó verið gagnrýndir fyrir að vera of ákafir í að flytja fréttir, helst á undan hinum (skúbba), í stað þess að kryfja málin til mergjar og flytja vandaðar fréttir en ekki bara snöggsoðnar upphrópanir.*

Ekki það, ég var reið yfir ofurlaunum bankastjóranna og vildi auðvitað að fjölmiðlar fjölluðu um þau, og þó mér finnist 5 milljónir á mánuði auðvitað enn verra en 2,9 sem bankastjóri Arion banka fær,** þá er það svosem ekki eins og lægri talan sé samt ekki margföld lágmarkslaun og atvinnuleysisbætur í landinu, þ.e.a.s það sem öðru fólki er ætlað að lifa af. Í öllu falli eru svona há laun útúr öllu korti, bæði vegna ástandsins í landinu en ekki síður vegna þess að þau benda sterklega til þess að hugsunarhátturinn hafi ekki breyst hjá þeim sem sýsla með peninga annarra. Ég held að Egill Helgason hafi algerlega hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að innan bankanna væri verið að setja í gang þá áætlun að allir stjórnendur og bankaráðsmenn komist á ofurlaun:
„Það er verið að gíra kerfið upp aftur.
Laun bankastjóranna eru keyrð upp um tugi prósenta. Það er ekki af því þeir séu svo klárir, nei, ástæðan er stéttarhagsmunir.
Um leið og bankastjórarnir hækka í launum geta aðrir farið að gera tilkall til svipaðra launa, þetta virkar eins og greiði á móti greiða, bankaráðsmennirnir og stjórnendurnir sem eru aðeins lægra settir en eru á leiðinni upp.“

Svo er séð til þess að hagnaðurinn af bönkunum sé nógu mikill*** því greinilega á að koma upp bónuskerfi sem þeir háttsettustu geti grætt á, alveg eins og fyrir hrun.

En það eru viðbrögð nokkurra ráðherra og þingmanna stjórnaflokkanna sem björguðu Höskuldi bankastjóra og bönkunum frá öllu meiri umfjöllun fjölmiðla því þau sögðu að réttast væri að setja á ofurlaunaskatt**** og Steingrímur sagði að ríkisstjórnin muni grípa inn í ef nýju bankarnir innleiða bónuskerfi og aukasporslur, þá köstuðu fjölmiðlar sér á þá frétt.

Sumir þeirra, eða a.m.k. einstaka fjölmiðlamenn gátu ekki hamið hneykslun sína***** og m.a. var lögð fram sú spurning í skoðanakönnun á Vísi.is hvort „refsa“ ætti fyrir há laun. Það var merkilegt orðalag. Í fyrsta lagi vegna þess að verið er að tala um ofurlaun, í öðru lagi vegna þessarar áherslu á skatta sem refsingu og í þriðja lagi vegna þess að þeir sem setja fram þessa spurningu eru fjölmiðlamenn sem starfa hjá Ingibjörgu og Jóni Ásgeiri. Einhvern þátt eiga þau nú, eða a.m.k. hann, í því hvernig þjóðin fór á kúpuna og eitthvað hafði það með fégræðgi hans að gera.

En Höskuldur bankastjóri, sem bent hefur verið á að hefur ítrekað verið háttsettur í fyrirtækjum sem staðin eru að ólöglegu samráði, er greinilega ekki einn þeirra sem lætur smámuni eins og almenningsálit eða ástandið í landinu á sig fá. Hann svaraði því einu til að honum hefði verið boðin þessi laun. Nú er stutt síðan Öðlingsátakinu lauk (sem ég var misjafnlega hrifin af) en þar stakk einn Öðlingurinn uppá því að karlar afþökkuðu launahækkanir ef þeir kæmust að því að konur á vinnustaðnum væru með lægri laun. Það stæðu nú ekki öll spjót á Höskuldi ef hann hefði farið að þeim ráðum og afþakkað laun sem eru umfram laun konunnar sem er í ábyrgðarmesta starfinu. En nú á hann betur skilið titil sem ritstjóri Fréttablaðsins notaði einmitt þegar hann fjallaði (af mikilli hrifningu) um Öðlingsátakið. Hann er þessi: Eiginhagsmunaseggurinn 2011.

___

* Ef ekki hefði legið svona mikið á hefði leiðari ritstjóra Fréttablaðsins á þriðjudag getað fjallað um alþjóðlegan baráttudag kvenna, en svoleiðis smotterí mátti greinilega bíða. Reyndar var það eingöngu Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sem (starfs síns vegna) skrifaði grein í blaðið þann dag um baráttudag kvenna.

** Höskuldur fékk reyndar 10 milljónir bara fyrir að sækja stimpilkortið sitt.

*** Hagnaður Arion banka á síðasta ári nam tæpum 13 milljörðum og hagnaður Íslandsbanka var um 30 milljarðar króna.

****Ríkisforstjórar virðast líka haldnir sömu hugmyndum um eigið ágæti og réttmæti launa sinna og bankamenn því þeir hafa ýmist látið hjá líða eða hreinlega neitað að lækka laun sín niður í sömu laun og forsætisráðherra. Ríkið á 13% í Arion banka og því ættu launin þar ekki að vera hærri en hjá Jóhönnu. Kannski hefði átt að miða við laun Steingríms, þeim hefði kannski þótt það minna sárt en vera á kvenmannskaupi?
Reyndar ættu forstjórar einkafyrirtækja að sjá sóma sinn í að raka ekki til sín fé, jafnvel þó þeir séu ekki að starfa fyrir ríkið, því eins og við öll erum farin að fatta þá bitnar tap og gjaldþrot fyrirtækja á skattborgurum með einum eða öðrum hætti. Og þó það séu fyrirtæki eins og Össur sem virðist mjög stabílt, þá hefur það fyrirtæki einmitt notið mikillar virðingar og velvildar, og ætti því síst að taka þátt í þessu launakapphlaupi kallanna. En það er auðvitað fáránlegt að halda að kallar sem seilast til valda hafi hagsmuni heildarinnar í huga. Fáránlegt.

***** Kúlulánaþeginn og fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins gvuðar sig líka yfir þessum skattahugmyndum og talar um kommúnisma, svona eins og hennar mat á hve mikið fjármagn ofurlaunamenn hafa á milli handanna komi einhverjum við.

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, mars 10, 2011

Skilgreining á mótsögn

Undir yfirskriftinni Siðferðið í Icesave-málinu má sjá orðalagið „siðferðileg skylda“, siðferðileg ábyrgð“ og „siðferðilega rangt“ (tvisvar) í pistli sem sérlegur málsvari Goldfinger og verjandi nauðgara, Brynjar Níelsson skrifar undir. Alls kemur orðið siðferði fyrir fimm sinnum.

Siðferði og Brynjar Níelsson í sömu andránni! Fimm sinnum!

Efnisorð: , , , , ,

þriðjudagur, mars 08, 2011

8. mars

Ég las pistil í erlendu blaði um helgina og var hann skrifaður í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sem er einmitt í dag. Konan sem skrifaði pistilinn nefndi fimm atriði sem hún hafði orðið vitni að á einni viku og nefndi þau sem dæmi umað feminisminn ætti enn nokkuð í land með að hafa náð fullnaðarsigri. Dæmin sem hún nefndi var áreiti á konur á götum úti, þ.e.a.s. þegar byggingaverkamenn æpa á konur sem eiga leið hjá, Silvio Berlusconi, svokallaða vini sína sem sendu henni tölvupósta með kláminnihaldi, niðurlægjandi athugasemd sjónvarpsþáttagerðarmanns um fræga konu, og mann sem kleip sífellt fastar í kinn konu sinnar því hún virtist ekki nógu kát.

Ég hefði kannski ekkert sérstaklega kippt mér upp við þennan pistil. Fyrir utan þetta með að gerð væru hróp að konum á götum úti, sem ég veit ekki til að sé vandamál hér á klakanum, þá kannaðist ég við margt af því sem hún nefndi (og fannst mjög snjallt hjá henni að nefna Berlusconi). En þegar ég las athugasemdahalann við greinina — en lesendur gátu semsagt lagt orð í belg — þá fyrst vaknaði áhugi minn. Karlarnir sögðu, undantekningalítið, að pistlahöfundurinn væri alveg úti á túni og þetta kæmi engri jafnréttisbaráttu við. Henni væri nær að skrifa um heiðursmorð á Indlandi, aðstæður kvenna í Afghanistan eða umskurð í Afríku. Það væru alvöru vandamál sem konur stæðu frammi fyrir og þetta píp í henni væri aumkunarvert. Í sjálfu sér er það rétt, að dæmin sem pistlahöfundur nefndi, blikna við hliðina á því sem konur víða um heim þurfa að þola fyrir þær sakir einar að vera konur. En það sem var líka athyglisvert við þetta var að þessir karlmenn fylgdu uppskrift sem ég hef áður skrifað um og er þekkt meðal feminista sem leyfa sér að skrifa á netið um baráttu kvenna fyrir jafnrétti.

Þegar feministi talar um kvenréttindi eða jafnrétti eða feminisma (hvaða orð sem fólk vill nota í hvert og eitt skipti) þá karlmaður leggur orð í belg þá er það ávallt til að segja þeim að þær séu á villugötum í málflutningi sínum. Til dæmis eigi þær frekar að tala um kúgun kvenna í Írak, Afganistan, Kína, Afríkuríkjum sunnan Sahara, láglaunastörfum … Alveg það sama og karlmennirnir sem skrifuðu á athugasemdahalann við greinina í Guardian gerðu. Þetta á þó bara við um karlmenn sem ekki beinlínis lýsa því yfir að þeir þoli ekki tilhugsunina um jafnrétti. Þeir sem þetta segja telja sjálfa sig vera, og vilja láta líta út fyrir, að þeir séu upplýstir og eiginlega bara mjög jafnréttissinnaðir — en þó ekki svo mjög að þeir geti tekið undir allt þetta rugl sem feministar bera á borð.

Til þess að forðast að nefna bara einhver lítilvæg dæmi eingöngu og svo ég gleymi nú ekki því að víða um heim eiga konur undir högg að sækja vegna kynferðis síns, þá hef ég búið til lista sem nær vonandi að fjalla um margt af því sem konur eiga við að stríða, smátt og stórt. Þar sem ég er bara feministi þá er þetta ekki fullkominn listi og miðast auðvitað við mitt forréttindasjónarhorn sem Íslendings þar að auki, en ég get þá bætt inná hann ef einhver karlmaðurinn bendir mér á hvar ég hef farið villur vega.

FJÖLSKYLDUÁBYRGÐ (ÓLAUNUÐ VINNA)
Konur eiga að ala upp börnin (í guðsótta og góðum siðum) af brjóstvitinu einu því það er þeim eðlislegt að fæða börn og vita hvernig á að koma þeim til þroska. Til þess eiga þær að fórna öllu með bros á vör. Þær eiga jafnframt að sjá um aldraða og sjúka ættingja, hvort sem þær vinna úti eða ekki þá er það alltaf þeirra að sjá um heimsóknir og að tala við lækna og hjúkrunarfólk, sækja um vistun á stofnunum og skutla ættingjum sem og eigin börnum hvert sem þau þurfa að fara hverju sinni. Þær eiga líka að muna eftir öllum afmælum og stórviðburðum og kaupa gjafir eða halda veislur og sjá um allan undibúninginn — og alltaf með bros á vör og kvarta aldrei.

Á VINNUMARKAÐI
Konur eru svo vanar að stjana undir aðra möglunarlaust að þær eru upplagðar í að vinna í þjónustustörfum svo sem eins og í verslunum og á símaskiptiborðum. Þær eru með svo nettar hendur og fima fingur að þær eru eins og skapaðar til að vinna á færiböndum í fiskvinnslu, á saumastofum eða við aðra nákvæmnisvinnu, óþarft að borga þeim vel eða neitt eftir aðstæðum og því landi sem þær þræla í. Þær eru svo þrifnar og snyrtilegar af náttúrunnar hendi að þeim fer vel að skúra skrúbba og bóna fyrir sér ríkara fólk og svo í fyrirtækjum - og eru reknar þaðan fyrstar allra. Konur fá lægri laun vegna þess að þær eru alltaf að skreppa úr vinnunni til að sinna fjölskyldunni eða hreinlega mæta ekki mánuðum saman vegna þess að þær eru alltaf að eignast börn. Af sömu ástæðu tekur því ekki að ráða þær í störf með ábyrgð nema einstaka konur en passa verður að þær séu þá ekki of margar. Þær fá ekki að vera með í karlamenningunni því þær skilja ekki húmorinn en stundum er þó í lagi að leyfa þeim að heyra hve karlarnir eru fyndnir bara til að sanna að konur eru fýlugjarnar í meira lagi og taka allt svo nærri sér. Svo eru þær lélegir stjórnendur og lélegir yfirmenn og bara lélegir starfkraftar. Í atvinnuleysi er hugað að því að skapa störf fyrir karla („mannaflsfrekar framkvæmdir“, þ.e.a.s. vegagerð og smíði virkjana) en konum sagt upp því þær mega hvorteðer missa sín.

MENNTUN
Eftir því sem konur mennta sig meira skiptir menntun minna máli. Þegar konur höfðu flestar bara grunnskólamenntun þurfti stúdentspróf til að fá almennilega vinnu. Nú þurfa þær lágmark masterspróf til að eiga séns í starf sem minna menntaðir karlmenn sinna í hrönnum. Konur þurfa að vera með háskólapróf í tölvunarfræðum en karlar bara vera sniðugir til að fá vinnu hjá forritunarfyrirtækjum. Konur sækja í nám þar sem karlar hafa verið í meirihluta en karlar sækja ekki í nám sem merkt er 'kvennastarf' s.s. hjúkrunarfræði eða leikskólakennaranám. Víða í heiminum fá konur litla sem enga menntun, fá ekki að ganga í skóla, eru ekki læsar því það þykir tilgangslaust, þær séu bara til að ala börn. Séu þær menntaðar fá þær ekki vinnu því ætlast er til að konur sinni fjölskyldu og óhugsandi er að þær ráði við neitt annað. Þar sem ástandið er verst mega þær hvorki starfa sem læknar né mega kvensjúklingar fara til læknis sem er ekki er kona og fá þá konur enga læknisaðstoð.

Á HEIMILINU
Heimilið er á verksviði konunnar en karlinn „hjálpar til“ og þá er konan yfirleitt verkstjórinn því karlar vinna ekki heimilisstörf af sjálfsdáðum. Konan sér því um allt það sem þarf að gera daglega alla daga allan ársins hring: sækja vatn í brunninn ef þannig háttar til, tiltektir, þrif og þvotta, innkaup og eldamennsku, frágang í eldhúsi og þar fram eftir götunum, burtséð frá því hve langan vinnudag hún vinnur úti í bæ eða hversu mikið hún þarf að sinna börnum og búaliði. Í sumarfríum flyst þetta hlutverk hennar með henni í hjólhýsið, tjaldið, hótelíbúðina eða sumarbústaðinn.

OFBELDI
Konur eru nánast alltaf beittar ofbeldi af hálfu karla. Konur eru nánast alltaf beittar ofbeldi af hálfu karla sem þær þekkja. Í sumum löndum og trúarbrögðum er það ekki refsivert eða talið siðferðilega ámælisvert að beita konur ofbeldi. Í sumum löndum eru konar grýttar til dauða eða hýddar fyrir „hórdómsbrot“, þ.e. ef þær eru álitnar hafa haldið framhjá eða stundað kynlíf utan hjónabands. Sýru er hent í andlit kvenna vilji þær ekki þýðast karl sem girnist þær. Aðrar eru skotnar, kyrktar eða barðar til bana fyrir engar sakir aðrar en að vera konur.

KYNFERÐISLEGT OFBELDI
Konur verða fyrir káfi utan klæða sem innan. Konum er nauðgað. Konum er hótað nauðgun. Konur verða fyrir sifjaspellum, þ.e.a.s. ættingi þeirra (bróðir, frændi, faðir, afi) eða sá sem sér um uppeldi (stjúpi) notar þær með ýmsum hætti til að fá kynferðislega útrás. Konum er nauðgað á útihátíðum, á skemmtistöðum, í bílum, á götum úti, í partýjum, í kirkjugörðum, á stofnunum, á sambýlum, í heimahúsum, úti í skógi, heima hjá sér (konum er nauðgað hvar sem tækifæri gefst til og því er þessi upptalning ekki tæmandi). Konum er nauðgað af eiginmönnum þeirra, stjúpum, feðrum, bræðrum, frændum, eiginmanni vinkonu þeirra eða systur, frænda vinar síns, kennurum, læknum, leigubílstjórum, eiginmanni sínum, vinum eiginmannsins, fyrrverandi kærasta, ókunnugum mönnum á förnum vegi, vinum til margra ára, hermönnum, fangavörðum, dópsalanum sínum, löggunni, nágrönnum, stráknum sem þær eru skotnar í (þessi upptalning er ekki tæmandi því ekki hefur fundist sú starfstétt karla þar sem ekki er nauðgara að finna, né virðist vera til þau tengsl milli konu og karls — skyldleiki eða kunningsskapur — sem hindra karla í að nauðga ef þeim sýnist).

KYNFERÐISLEGT ÁREITI
Konur verða fyrir áreiti karlmanna sem ýmist gera athugasemdir við útlit þeirra, segja þeim hvort og þá hvernig þær séu kynþokkafullar eða stinga uppá kynlífsathöfnum með þeim. Konur verða fyrir áreiti karla sem káfa á þeim, strjúkast viljandi utan í þær, klípa þær, kreista eða króa af í mannþröng eða upp við vegg til að gera eitthvað af framantöldu eða einfaldlega til að láta konuna vita að hann geti gert eitthvað af framantöldu í krafti líkamsburða sinna. Konur verða fyrir kynferðislegu áreiti á vinnustöðum, í skólanum, í strætó, í lestum, í verslunum, á skemmtistöðum og á götum úti. Í stuttu máli: allstaðar.

LÍKAMI KVENNA
— Konur eru álitnar útungunarvélar sem eiga að ala eiginmanni sínum börn og þá helst syni, í mörgum löndum sæta konur illri meðferð eða eru reknar út á guð og gaddinn eignist þær ekki syni í hjónabandinu. Með nýjustu tækni og vísindi er nú ætlast til að konur framleiði egg fyrir aðrar konur eða gangi jafnvel með börn sem þær fá ekki að vera með á brjósti eða ala upp heldur afhenda strax eftir fæðingu, ýmist tilneyddar, gegn greiðslu eða vegna þess að þær vorkenna barnlausum hjónum.

— Konur eru álitnar spilliefni. Með því einu að í bert hold þeirra sjáist, eða jafnvel hárið, þá spilla þær annars heilbrigðu hugarfari karla og því þarf að hylja sem mest af hörundinu og hárinu. Þær konur sem ganga léttklæddari eru greinilega með því að falbjóða líkama sinn og eiga því allt illt skilið.

— Konur eru kynferðislega óseðjandi. Það þar að stoppa með öllum ráðum, t.d. með því að meina konum um að finna til nautnar í kynlífi. Strangar siðareglur um hvað má og ekki má: sjálfsfróun auðvitað bönnuð, ekkert kynlíf fyrir hjónaband og stelpur látnar sverja skírlífsheit. Svæsnari útgáfan er sú að skera hluta ytri kynfæranna eða bæði snípinn og barmana. Þá er nokkuð öruggt að konur séu ekki mikið fyrir kynlíf eftir það.

— Konur eru álitnar kynlífsmaskínur sem hægt er að setja í gang hvenær sem er og nota hvernig sem er, ekki álitnar hafa eigin vilja eða langanir eða rétt til að segja nei eða þykja ákveðnar kynlífsathafnir óþægilegar eða óæskilegar, eiga að þjóna körlum og öllum þeirra dyntum, eiga að kunna öll trixin í bólinu og vera grannar en ekki horaðar með stór brjóst en ekki lafandi (má gjarnan vera bólstrað með silikoni sem var grætt í með skurðaðgerð) hárlausar nema á hausnum þar sem á að vera sítt (litað) hár og löng þykk augnhár mega ekki fara á þessar ógeðslegu blæðingar of oft því það truflar kynlífið og veldur karlmönnum viðbjóði. Hinn kynferðislegi líkami kvenna gengur kaupum og sölum, með eða án samþykkis konunnar sem í hlut á — og er sýndur í gluggum, í klámmyndum, á ljósmyndum, uppi á sviði, í einkadansi, í aflokuðum herbergjum þar sem karlmaðurinn sem hefur keypt sér aðgang að honum getur gert það sem hann lystir, hvort sem það hefur líkamlegan sársauka, niðurlægingu eða lífshættu í för með sér fyrir konuna. Þessi kynferðislegi líkami er seldur, hæddur, og svívirtur af þeim sem kaupa og skoða og þá sjaldan sem einhverjum dettur í hug að í honum búi persóna þá er henni eignuð öll ljótustu orð og níð sem hugsast getur. Hinn kynferðislegi líkami er ekki talin eign konunnar, heldur eign karla almennt. Þeir fundu upp hugtakið „njóta og nýta“.

Enda þótt einstaka atriði, sem eru talin hér upp að ofan, veki eflaust strax upp þá hugmynd að þau eigi við um Afganistan eða Indland eða ótilgreind Afríkuríki, og það megi til sanns vegar færa að konur þar eigi sérstaklega við þessi vandamál að stríða, þýðir það ekki að þær séu lausar við öll hin vandamálin sem konur á Vesturlöndum eða hér á Íslandi berjast gegn. Konur í „vanþróuðum“ löndum fá líka lægri laun en karlar og sæta líka kynferðisofbeldi, áreitni og svo framvegis. Kúgun kvenna á sér stað um allan heim.

Efnisorð: , , , , ,

laugardagur, mars 05, 2011

Fjölmiðlar og fjármál (og dúlla, alger dúlla)

Í rannsóknarskýrslu Alþingis má lesa gagnrýni á fjölmiðla sem hafi brugðist í aðdraganda bankahrunsins. Margvíslegar ástæður eru gefnar fyrir því og vegur eignarhald fjölmiðlanna þar þyngst á metunum. Síðasta árið eða svo áður en allt fór til fjandans birtu fjölmiðlarnir reyndar skýrslur erlendra sérfræðinga sem sáu hvert stefndi og eru þeir því ekki taldir alslæmir.

Eitt af því sem mér fannst reyndar alltaf fáránlegt við fréttir um fjármál, var hve þær miðuðu við fólk sem hafði áhuga á hlutabréfamarkaði og starfsemi bankanna, en ég taldi á þeim tíma að mér kæmi slíkt ekkert við (ekki gat ég vitað að nokkrum árum síðar kæmi þetta okkur öllum svona mikið við!) og fylgdist því ekkert með þessum fréttum. Ég fylgdist stundum með erlendum fjölmiðlum og þar voru fréttir og greinar um fjármál sem tengdust heimilishaldi og neytendamálum. Ekkert slíkt sást í íslenskum fjölmiðlum, nema í skötulíki og húráðum á borð við að þvo gluggarúður með edikblönduðu vatni.

Mér fannst semsagt þarna fyrir nokkrum árum að það mættu vera fréttir, fréttaskýringar og greinar sem fjölluðu um eitthvað sem snerti almenning, ekki bara einhver frík í jakkafötum sem fylgdust spennt með sveiflum á Nasdaq og töluðu oftar um Dow Jones en árangur barnanna sinna í skólanum.

Núna, svona eftirá að hyggja, þá er ég reyndar sannfærð um að ef hér hefðu verið neytendaþættir í sjónvarpi (eins og tíðkast hjá ríkissjónvörpum hinna Norðurlandanna) eða sem fastir pistlar í blöðunum þá hefði neytendavitund okkar e.t.v. verið meiri. Þá hefðum almenningur (að því gefnu að það hefði verið rætt og útskýrt í slíkum þáttum) gert sér grein fyrir hvað yfirdráttarlán í raun þýddu, hve mikið óráð það væri að taka 90% eða jafnvel 100% lán til að kaupa stærri íbúð eða einbýlishús og hvað sveiflur á gjaldeyrismörkuðum (svo ekki sé talað um bankahrun!) gætu gert við myntkörfulán. Þá hefði fólk ekki gengið svo grunlaust að gylliboðum bankanna og ekki fjárfest ævisparnaðinn í bönkum sem riðuðu til falls.

En til þess að þetta hefði mátt verða, þ.e.a.s. að fjölmiðlar upplýstu okkur um það sem máli skipti í fjármálum einstaklinga og þar með þjóðarinnar, þá hefðu þeir þurft viljann til þess (sem eigendurnir höfðu bersýnilega ekki) og hæft starfsfólk. Fjölmiðlamenn eru auðvitað misjafnlega glöggir á tölur og annað sem máli skiptir þegar flytja á fréttir af fjármálum og svo hefur þeim kannski ekki fundist smart að vera að tala við almenning um smotterí eins og hvort það eigi að greiða upp lánin sín strax ef það getur eða borga þau á afborgunardag næstu áratugina. Sumum þeirra er líka eflaust fyrirmunað að tala þannig að skiljist; geta ekki útskýrt lykilhugtök á mannamáli.

Í dag birtist á Vísi frétt um að bankastjóradúlla Arion banka sé með 5 milljónir í laun á mánuði. Eftir allt sem hefur verið talað um ofurlaun þá finnst honum þetta sæmandi. Blessaður andskotans maðurinn. En þó það sé fréttnæmt útaf fyrir sig þá finnst mér eiginlega ennþá eftirtektarverðara það sem viðskiptafréttablaðamaðurinn skrifar um þetta mál.

Hann segir: „Bankastjóri Arion banka, Höskuldur H. Ólafsson, fær greiddar fimm milljónir í laun á mánuði og er því með ríflega helmingi hærri laun en forveri sinn, Finnur Sveinbjörnsson, sem var með með tæpar tvær milljónir á mánuði árið 2009.“

Meira segja ég, sem er talnablind, stærfræðistola og skil ekkert sem snýr að peningum, veit að fimm milljónir eru ríflega tvöfalt hærri upphæð en tæpar tvær milljónir. Helmingi hærri laun en tvær milljónir eru þrjár milljónir. Semsagt: „helmingi hærri“ er ekki það sama og tvöfalt hærri. Viðskiptafréttablaðamaðurinn er greinilega ekki upptekinn af slíkum smáatriðum. Helmingur hér og þar, hverju skiptir það. Það bara vill svo til að við eigum helst að geta trúað því að fjölmiðlafólk sé fært um — eða nenni — að tala við okkur á mannamáli og noti grundvallarhugtök á réttan hátt.* Líka þau okkar sem eru soldið vitlaus og skiljum ekki flóknu hugtökin.

En blessaður bankastjórinn, verði honum að laununum sínum. Ljótt að vera eitthvað að öfunda hann, er þetta ekki fjölskyldumaður? Örugglega dýrt að reka heimilið og svona. Ljótt að vera eitthvað að öfunda hann. Svo ber hann líka svo mikla ábyrgð …

___
* Ef marka má frétt DV sem birtist morguninn eftir Vísisfréttina, um launamál bankastjórans dúllulega, þá eru laun hans 4,3 milljónir á mánuði en ekki fimm og fyrrverandi bankastjórinn með 3,2 en ekki tæpar tvær. Dúllubossinn hafi afturámóti tvöfalt hærra kaup en bankastjórar sömdu um í lok árs 2008. Nú veit ég auðvitað ekkert um hvor blaðamaðurinn hefur rétt fyrir sér, en sá á DV skrifar ítarlegri frétt, er með nákvæmari tölur — og notar orðalagið „tvöfalt hærra“. Mér finnst hann þarafleiðandi ívið trúverðugri, og er ég þó nýbúin að kalla DV sorpsnepil. Sé það rétt, sem mér sýnist, að viðskiptafréttablaðamaður Vísis fari frjálslegar með tölulegar upplýsingar, þá hlýtur aftur að vakna svo spurning hvort hann leggi sig allan fram í starfi eða hvort eignarhald fjölmiðilsins (lesist: Jón Ásgeir) sé að þvælast fyrir. Það þykir kannski ekki mjög mikilvægt að fara rétt með upphæðir á þeim bæ.

Viðbót: Ég skrifaði líka um neytendavitund og fjármálalæsi í maí 2009 — en því hafði ég reyndar gleymt þegar ég skrifaði þetta hér að ofan.

Viðbót, löngu síðar: Þegar ég hlustaði á þátt í Ríkisútvarpinu um málfar áttaði ég mig á að það er fullkomlega rétt mál að segja „helmingi hærri“ í merkingunni tvöfalt hærri. Er því nöldur mitt hér að ofan um það atriði byggt á röngum forsendum. Sjá Ég horfist á augu við mistök mín, pistil sem er skrifaður eftir að ég áttaði mig á mistökum mínum.

Efnisorð: , , ,