föstudagur, júlí 23, 2010

Nestlé ber ekki velferð barna fyrir brjósti

Ægilega krúttleg bíómynd er nú sýnd í bíóum og heitir hún Babies. Ég hef ekki séð myndina en séð stiklur úr henni og það er ljóst að klakinn þiðnar af jafnvel forhertustu mannkynsafneiturum eins og mér við að sjá þó ekki sé nema 2 og hálfa mínútu af þessu krúttsnúlleríi. Afturámóti þykir mér ekkert krúttlegt við það að Nestlé „kynni“ þessa mynd og bjóði barnshafandi konum á sýningar í því skyni að afla sér viðskiptavildar.* Ég hef áður skrifað um Nestlé og þurrmjólkina** sem valdið hefur barnadauða víða um lönd. Í bloggfærslunni orða ég það svona: „Nestlé er, í stuttu máli sagt, fyrirtæki sem vílar ekki fyrir sér að drepa kornabörn.“ En hér og nú setur Nestlé upp sparisvipinn og segir: Allir elska börnin.

Ég leyfi mér að efast um ást Nestlé fyrirtækisins á börnum.

___
* Gerber „býður“ einnig til sýningarinnar en það er eitt vörumerkja Nestlé, einsog fram kemur í bloggfærslunni sem ég vísa til. Þar er einnig að finna yfirlit um þau fyrirtæki sem eru í eigu Nestlé.
** Þurrmjólk er einnig kölluð mjólkurduft og barnamjólk.

Efnisorð: ,

sunnudagur, júlí 18, 2010

Fallnir og slasaðir við virkjanaframkvæmdir

Rúmlega 1700 vinnuslys hafa orðið við Kárahnjúkavirkjun.

Í frétt Ríkisútvarpsins segir að
Á annað hundrað eru enn óvinnufærir eftir að hafa orðið fyrir vinnuslysi við Kárahnjúka. Rúmlega 1700 vinnuslys voru tilkynnt á svæðinu frá því framkvæmdir hófust við virkjunina árið 2002, þar til í fyrra. Flestir þeirra sem slösuðust unnu hjá verktakafyrirtækinu Impregilo eða rúmlega 86 %.
Tæpur fimmtungur þeirra sem slösuðust voru meðal yngstu starfsmannanna en flestir eða 37 %, voru á aldrinum 30 til 39 ára. 27 % slasaðra voru 40 til 49 ára. 10 þeirra sem slösuðust urðu fyrir óbætanlegu líkamstjóni, 122 beinbrotnuðu, 49 urðu fyrir eitrun og 35 brenndust, en fjórir létu lífið.


Tveir hafa líka dáið við gerð Hellisheiðarvirkjanarinnar auk þess sem nokkrir hafa slasast. Þeir sem dóu voru útlendingar, eins og tveir þeirra sem fórnuðu lífinu við Kárahnjúka.

Fjöldi vinnuslysa hafa einnig orðið við álverið og járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga.

Mörgum þeirra sem þykja virkjanir og álver helsta lausn allra vandamála þykir þetta líklega óþarfa fréttir, enda yfirleitt útlendingar að slasast og deyja. Verði fleiri virkjanir reistar þá verður nú líklega samið við fínu Kínverjana sem voru hér að hitta Landsvirkjana og þeir munu auðvitað gera það að skilyrði að fá að senda hingað Kínverja aftur, eins og við Kárahnjúka. Ekki gengur að ráða innlent vinnuafl sem er allt meira og minna í verkalýðsfélögum sem heimta að farið sé að lögum um vinnutíma, öryggisbúnað og gott ef ekki lágmarkslaun. Slíkt er hægt að sniðganga með því að ráða erlent vinnuafl, eins og gert hefur verið hingað til.

Reyndar vilja virkjunarsinnar nú að Íslendingar fái vinnu við þessar virkjanir og álver enda muni það leysa allt atvinnuleysi.* Spurning hvort fólki verði gert að afsala sér öllum réttindum taki það slíka vinnu.

Voða er annars súrt að Ríkisútvarpið sé að draga upp svona leiðinlegar tölur um mannfall og slysfarir þegar svona fín uppgripavinna er í uppsiglingu.

___
* Umþaðbil 13.000 manns eru atvinnulaus og eru auðvitað æst í að vinna í álveri og geta unnið slíka vinnu og þá næg vinna fyrir allan þann fjölda.

Efnisorð: , ,

föstudagur, júlí 16, 2010

Litli dýravinurinn

Enn er ég að hlusta á Andrarímur því þann ágæta þátt má enn finna á hlaðvarpi Ríkisútvarpsins. Þar las Guðmundur Andri upp stutta klausu sem heitir Dýranna meðhöndlan og hljómar svona:
Varla getum vér deyft hjá oss þá hugsjón, að fyrri en keðjan þrýtur við hásæti hins eilífa, hljóti enn þá að finnast þúsund lifandi verur, að baki hverra maðurinn stendur eins langt og rjúpan að baki veiðimannsins. Vei oss, ef þessir máttkari vildu fylgja því dæmi, er vér gefum þeim!

Þetta skrifaði Jónas Hallgrímsson. Rjúpan var honum hugfólgin eins og sjá má í ljóðinu Óhræsið en ekki síður miskunnarleysi mannanna. Og í þessari klausu veltir hann fyrir sér ef við mennirnir þyrftum að berjast gegn ofureflinu eins og rjúpan og hvort okkur þætti þá leikurinn sanngjarn.

Fleiri skáld hafa haft velferð dýranna (og atferli mannanna) í huga og af þeim sem skrifuðu svo að skar í barnshjartað voru Þorsteinn Erlingsson, höfundur Litla dýravinarins, og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Sá síðarnefndi ber einn og óstuddur ábyrgð á því að mér hefur alltaf verið heldur illa við presta en þótt vænt um hrafninn.

Ekki hef ég reynt að feta í fótspor skáldanna nema að því leytinu að sýna hug minn til dýranna í verki og reyna að koma fólki í skilning um að dýr séu ekki til að drepa, meiða eða til að nota sem leikföng. Mér svíður grimmd þeirra sem stunda skotveiðar sér til skemmtunar, berja hestana og kasta gæludýrum útá guð og gaddinn þegar þau eru ekki nógu krúttleg lengur eða verða of frek til fóðursins. Mig svíður líka skilningsleysi þeirra sem yppta bara öxlum yfir svona framferði eða eru á móti gæludýrum eða jafnvel dýrum almennt. Ég skil reyndar bara allsekki fólk sem ekki eru dýravinir.

Sjálfri þykir mér vænt um allar skepnur, nema karlmenn.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, júlí 13, 2010

Tilvitnun dagsins

Hin ástralska fræðikona og feministi Germaine Greer komst einu sinni einhvernveginn svona að orði um þann haturshug sem karlar bera til kvenna:

Konur hafa ekki grun um hve mikið karlmenn hata þær.

Efnisorð: ,

mánudagur, júlí 12, 2010

Hundar og kettir á bannlista lítilmenna

Mér hefur fundist það skrítinn siður hjá mörgu fólki, að hlaupa með smávægileg vandræði sín og önnur einkamál í fjölmiðla. Bæði vegna þess að mér finnst mér ekki koma við þó einhver klippi eða klippi ekki tré sem slúta yfir í garð nágrannans og svo finnst mér að fólk eigi að geta leyst sín mál (eða staðið í sínu einkastríði við ættingja, nágranna, vinnuveitendur o.s.frv.) án þess að þurfa að kalla til fjölmiðla. Ég veit ekki hvort þetta fólk er svona athyglissjúkt eða hvort það heldur að vitneskja almennings um þessi mál verði til að breyta úrslitum þeirra.

Nú er ég afturámóti búin að skipta algerlega um skoðun.

Mér finnst fullkomlega réttmætt að almenningur sé látinn fylgjast með því að einhver lítilmenni séu að reyna að koma í veg fyrir að fötluð kona fái að hafa leiðsöguhundinn sinn hjá sér. Líklega er það vegna þess að fjölmiðlar voru látnir vita sem málið er þó komið á það stig að húsfund átti að halda í kvöld um málið og reyna að tala þessar tvær hræður til sem ekki vilja hund í húsið. Ef svo fer að hundahatararnir* gefa eftir og leyfa hundinn, þá er það líklega fyrst og fremst vegna samfélagslegs þrýstings og vegna þess að þeir hafa áttað sig á að öllu venjulega innrættu fólki finnst afstaða þeirra óafsakanleg og þeir verði að endurskoða hana. Eitthvað hefur farið úrskeiðis í uppeldi þessa fólks úrþví að það hefur tileinkað sér svona mannfjandsamlegt viðhorf og nú þarf greinilega samfélagið til að beina þeim á rétta braut.

Það þyrfti líka að hnippa í sveitastjórnarfulltrúa í Árborg og Kópavogi þar sem þeir eru greinilega orðnir svo firrtir að þeir halda að hægt sé að venja alla ketti — unga kettlinga sem roskna ketti sem alltaf hafa farið eigin leiðir — á að hreyfa sig einungis utandyra bundnir í ól.

Látum nú vera að verið sé að hlaupa eftir steinsteypufólkinu í Kársnesinu en eru íbúar Árborgar ekki í betri tengslum við sveitina allt í kring um sig en svo að þeir vita ekkert um dýr? Það er hrein illmennska að láta dýr sem alla tíð hefur verið frjálst alltíeinu skýringarlaust vera lokað inni megnið af sólarhringnum og fá aðeins að fara út í bandi. Mega ekki lengur klifra uppí tré eða sitja langtímum saman í góðu skjóli og fylgjast með mannlífi og kattaferðum. Að banna útigöngu katta sem alla sína ævi hafa vanist útiveru með frjálsri aðferð er eins og að loka dýr, sem fæðst hefur í náttúrunni, inni í dýragarði. Það þykir ekki lengur góð meðferð á dýrum, hafi það ekki frést hingað upp á þetta sker.

___
* Það getur auðvitað verið að nýju nágrannar daufblindu konunnar hati ekki hunda en séu annaðhvort haldnir ofsahræðslu eða bráðu ofnæmi — en andskotinn hafi það, þeir hljóta að geta reynt að þrauka þegar um leiðsöguhund er að ræða.

Efnisorð: ,

sunnudagur, júlí 11, 2010

Freyja fælir feminista frá

Ég hef fylgst með umræðum um Freyjuauglýsingu undanfarna daga en ekki vitað um hvað málið snerist.* En nú hef ég loks séð blogg Tinnu þar sem auglýsingin er sýnd og bréfið sem sent var til sælgætisgerðarinnar Freyju er birt, bréfið sem varð til þess að auglýsingin var dregin til baka. Húrra fyrir því.

Mér finnst samt merkilegt að Freyja skuli hafa látið gera þessa auglýsingu. Lærðu menn þar á bæ ekkert af Freyjudraums-auglýsingunni hér um árið? Ég sé það á athugasemdum*** við auglýsinga- og bréfabirtinguna á bloggi Tinnu að það eru fleiri en ég sem hætti að kaupa Freyjusælgæti í framhaldi af þeirri auglýsingaherferð. Ætli fækkun viðskiptavina sé alltaf helsta markmiðið hjá Freyju eða er álitið að öll umfjöllun sé betri en engin? Þá misreikna þeir okkur feministana.

___
* Líklega hefur auglýsingin birst í Fréttablaðinu þessa daga sem ég sá það ekki. Svo skilst mér líka að hún hafi verið í Sjónvarpinu en á það hef ég ekki horft vegna þess að í því hefur bara verið fótbolti. Já, og áfengisauglýsingar. Það er nú líklega efni í sérfærslu en ég getsvosem sagt mína skoðun á þeim í einni setningu: Nóg er nú áfengisbölið þó ríkisfjölmiðill græði ekki peninga á að leyfa framleiðendum og dreifingaraðilum áfengis að birta auglýsingar um áfengisdrykkju einsog hún sé ekkert skaðleg en bara skemmtileg.

**Ég get því miður ekki hætt að versla við Freyju núna því fyrir mörgum árum hætti ég að kaupa sælgæti frá þeimvegna auglýsingarinnar þar sem það að vera meðal naktra kvenlíkama var sagt vera „góður draumur“. Tek það þó fram að ég er ekki Ásgerður sem geri svipaða athugasemd við færslu Tinnu.

*** Ein athugasemdin vakti athygli mína. Þar er á ferð einhver „Katrín S“ sem er lítt hrifin af framtaki Tinnu og segir: „Ósköp lifirðu vernduðu lífi og viðkvæmu ef þú telur þetta það besta sem þú getur eytt tíma þínum í. Þessi auglýsing var eins meinleysisleg og hægt er að hugsa sér ... ... en sumir virðast líta á sig sem sjálfskipaða löggæslumenn, hvers takmark sé að sjúga alla gleði úr umhverfinu. Hér á mínum vinnustað (sem er fjölmennur) er allavega ekki fagnað með þér; frekar að það sé hlegið að þér fyrir barnaskapinn!“ Mér þykir þetta fróðlegt því „Katrín S“ vísar á síðu Reykjavíkurborgar í athugasemdinni. En samkvæmt starfsmannaskrá þar eru þrjár konur sem heita Katrín S þar (s-ið er ýmist millinafn eða föðurnafn). Þær gegna þessum störfum: verkefnastjóri hjá velferðarsviði, sálfræðingur hjá þjónustumiðstöð Vesturbæjar og sú síðasta er daggæsluráðgjafi í þjónustumiðstöð Breiðholts. Samkvæmt orðum „Katrínar S“ er á einhverjum þessara vinnustaða hlegið að feministum fyrir barnaskap þegar þær gagnrýna auglýsingar um kosti þess að vera hrein mey. Fróðlegt væri að vita hvort „Katrín S“ sé í rauninni einhver þessara starfsmanna (kannski sálfræðingurinn?!), mig grunar reyndar ekki. Líklegra er að þetta sé Jakob Bjarnar eða einhver álíka sjálfskipaður (eða launaður) gæslumaður karlveldisins, a.m.k. einn frjálshyggjuguttanna sem eru svo ákveðnir í að konur séu markaðsvara.

Efnisorð: , ,

laugardagur, júlí 10, 2010

Danir eru bara kéllingar

Alþjóðleg vinnumiðlun lét gera rannsókn í 25 löndum og leiddi hún í ljós að Danir hafa miklu minni áhuga á því að komast í stjórnunarstöðu en fólk í öðrum löndum.* Í Noregi og Svíþjóð hafði fólk litlu meiri áhuga á stöðuhækkunum. Norðurlandabúar, samkvæmt þessu, eru því nokkuð sammála um að stjórnunarstörf séu ekki eftirsóknarverð.

Fulltrúar vinnumiðlunarinnar segja að Norðurlandabúar hafi ekki eins mikla þörf fyrir stöðuhækkun og fólk í löndum þar sem laun eru lægri, atvinnuleysi meira og velferðarkerfið lélegra.

Mín kenning er afturámóti sú að fólk í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hafi áttað sig á því að tími með fjölskyldu og vinum, heilsufar og lífsgæði almennt séu best tryggð með því að vinna hóflega langan vinnudag og hafa ekki áhyggjur af starfinu utan vinnutíma. Flestum öðrum þykja þessar þjóðir einmitt afslappaðar og tiltölulega glaðar — auk þess sem það sé auðvitað mikil lífsgæði að búa við traust velferðarkerfi og heilbrigðisþjónustu.

Konum hefur oft verið legið á hálsi fyrir einmitt þetta: að setja einkalíf sitt (fjölskyldu/vini) og heilsufar (tími fyrir andlega og líkamlega heilsurækt) ofar á lista yfir eftirsóknarverð gæði heldur en vinnuna. En sæki þær ekki um stjórnunarstöður er það túlkað sem svo að konur séu ekki til stjórnunarstarfa fallnar eða þori ekki. En rétt eins og það eru auðvitað til Danir sem kæra sig alveg um að verða stjórnendur, þá er fjöldi kvenna sem vill alveg leggja þau leiðindi á sig.** Þær sem þó sækja um eru litnar hornauga og svo fá þær auðvitað síður toppstöðurnar. En auðvitað ættu þær konur sem vilja stöðuhækkun eða stjórnunarstarf að vera álitnar jafn góðar til að gegna stjórnunarstöðum eins og karlmennirnir sem sækja um. En þar er mikill misbrestur á; karlmenn fá frekar skólastjórastarf, framkvæmdastjórastarf, forstjórastarf, bankastjórastarf, biskupsembætti ... og svo mætti lengi telja.

Konur — eins og Danir— geta alveg og vilja alveg verða stjórnendur. Þær sem það vilja ekki eru auðvitað svo alveg ágætar eins og þær eru, rétt eins og Danir.

___
* 68% Dana höfðu engan áhuga á að verða stjórnendur, segir í Fréttablaðinu sem er nú aftur farið að berast heim í hús, alveg óumbeðið.
** Gagnstætt Borg illmennunum í sjónvarpsþættinum Star Trek sem allir hafa sameiginlega vitund, þá eru konur ekki allar eins, né hugsa þær allar eins. Ágæt vinkona mín orðar það svona: „Konur eru ekki Borgverjar.“

Efnisorð:

þriðjudagur, júlí 06, 2010

Allt jafn réttdræpt?

Fréttablaðið hefur ekki borist innum póstlúguna hjá mér í umþaðbil viku og ég get ekki sagt að ég sakni þess sérstaklega. Fann mér bara eitthvað annað til að lesa með morgunmatnum. Sýnist reyndar á þeim forsíðum blaðsins sem hafa blasað við mér hér og þar, og fréttum á Vísi.is að blaðið sé uppfullt af áróðri fyrir hvalveiðum og gegn kattahaldi.* Sérkennileg ritstjórnarstefna.

___
* Ef marka má þessar fréttir þá ráðast illvígir kettir á allt sem fyrir verður og í Kópavogi, hvar Geiri í Goldfinger er enn með rekstur á nektardansstað, stendur til að herða reglur um kattahald. Kannski flokkast þetta undir gúrkufréttir en ég hélt bara ekki að það hefði komið nein gúrkutíð eftir október 2008.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, júlí 04, 2010

Konur halda hagkerfinu gangandi með gloss á vör

Fyrirsögnin „Hvað kostar útlitið?“ á forsíðu Eyjunnar vakti athygli mína og þegar smellt var á fyrirsögnina lenti lesandi á síðu frá Íslandsbanka. Þó ég sé mér afar meðvituð um að „bankanum þínum er sama um þig“ og að eftir bankahrunið eru bankarnir komnir í „nú skulum við fara vel með aurana okkar“ gírinn (sem er líka voða vinalegur en byggður á sama ímyndarsmíðamódeli og „við hjálpum þér að græða rosalega“ auglýsingarnar áður) þá ákvað ég nú samt að lesa pistilinn til enda. Í honum er búið að sundurliða kostnaðinn við að „halda okkur glæsilegum“, þ.e.a.s. hve mikið það kostar að kaupa snyrtivörur og þjónustu snyrtistofa, nuddstofa og hársnyrtistofa. Þegar þeim hrollvekjandi lestri er lokið eru talin upp ráð til að spara. Þau felast í að kaupa tól og tæki (plokkara, naglaklippur) og gera sem mest af þessu sjálfar heima. Skilaboðin eru semsé þessi: „Margt er hægt að gera sjálf til að halda sér glæsilegri án þess að stíga inn á stofur til fagaðila.

Það eina sem samkvæmt pistlahöfundi er alger óþarfi, er að fara í brúnkumeðferð. „Að mínu mati er það algjörlega óþarfur kostnaðarliður... Ég mæli með íslensku sumarsólinni með góðri sólarvörn og að vera sátt við hvítan húðlit á veturna. Þá heyrir þessi kostnaðarliður sögunni til.“ Allt annað virðist nauðsynlegt, jafnvel álímdar gervineglur (sem á fullu verði kosta 81.500 kr. á ári).

Ég vil ekki gera lítið úr puntþörfinni, en ég dreg samt í efa að hún sé svo mögnuð að ekki dugi að vera með greitt hárið í hreinum fötum. Okkur hefur hinsvegar verið talin trú um að allt hitt sé nauðsynlegt líka. Samt voru gelneglur ekki til fyrr en fyrir nokkrum árum, fram að því hafði mannkynið fjölgað sér án þeirra, og margar konur náð hárri elli og lifað sáttar með neglurnar óáreittar nema af handþvottum (í mesta lagi).

Snyrtivöruiðnaðurinn er mikið bákn sem lifir á því að selja konum vörur — og ekki síst að selja konum þá hugmynd að án snyrtivara séu þær óaðlaðandi, sem þýðir auðvitað um leið að enginn almennilegur maður vill þær, þær eignast ekki börn, þær eru útskúfaðar úr vinkvennahópnum (lík börn leika best) og fá hvergi vinnu. Þegar þetta er sett svona upp þá virkar það auðvitað hlægilegt; auðvitað höldum við ekkert að við fáum ekki vinnu eða göngum ekki út ef við eignumst ekki nýjasta varalitinn!* En skilaboð snyrtivöruiðnaðarins eru lúmskari en svo að við sjáum við þeim.

Það er vandfundin sú kona sem les tískutímarit (að staðaldri eða örsjaldan) sem ekki sér eitthvað sem hún vildi gjarnan eignast eða veltir fyrir sér hvort hún myndi líta betur út eða líða betur með útlit sitt ef hún notaði svona háreyðingartæki/ maskara/ meik/ ilmvatn, eða hvað það nú er. Fyrirsæturnar eru auðvitað allar fullkomnar í útliti og sé fræg kona á forsíðunni (það eru alltaf frægar konur á forsíðunni) þá er vandlega talið upp hvaða snyrtivörur hún notar; stundum er hún reyndar „andlit“ einhvers snyrtivörufyrirtækisins. Það rifjast svo upp fyrir okkur næst þegar við sjáum hana í bíómynd eða í sjónvarpsþætti og þegar fréttum af ástarlífi hennar er slegið upp í fjölmiðlum. Allt styður þetta hvert við annað og nánast engin leið að forðast þessar ofursnyrtu konur, jafnvel þó kona sé ekki áskrifandi að Vogue.

Það er því ágætt að sjá, sundurliðað, hve mikið það kostar að hlaupa á eftir þessum auglýsingum og kaupa sér það sem til þarf, og láta framkvæma eitthvað af fegrunarnauðsynjunum á þar til gerðum stofum. Allt í allt um hálf milljón á ári.** Þar sem konur hafa ekki full laun á við karla þá eru þær að nota hlutfallslega mjög mikinn hluta launa sinna í snyrtivörur og þessháttar (karlmenn nota minna af snyrtivörum og hafa hærri laun) þannig að það fé sem konur hafa til ráðstöfunar eftir að hafa eytt í þessar 'nauðsynjar' er mun minna en ráðstöfunartekjur karla. Snyrtivöruiðnaðurinn veikir því fjárhagslega stöðu kvenna. Um þetta fjallaði Bríet, félag ungra feminista, í Galtroppu sem kom út árið 2000. Þann bækling finn ég hvergi hjá mér (er þó viss um að ég átti hann einhverntímann) en í VERU 2:2000 er birt mynd úr honum þar sem útlit uppástrílaðrar konu er verðlagt á svipaðan hátt og í Íslandsbankapistlinum. Þar kemur í ljós að á verðlagi ársins 2000 kostar „náttúruleg fegurð íslenskra kvenna“ eins og hún sést á myndinni 187.600 kr. — að meðtaldri silikon aðgerðinni. Bríet hafði meira um þetta að segja í Galtroppu, ekkert af því hljómaði eins og niðurlag Íslandsbankapistilsins: „Munið, að það að halda útlitinu við er stöðug vinna og maður uppsker það sem maður sáir.“

___

* Einu sinni skrifaði ég pistil þar sem ég setti spurningarmerki við að konur tækju upp hegðun karla; drykkju ótæpilega, keyrðu stóra bíla, svæfu hjá mörgum o.s.frv. Ég sagði þar að það væri ekki þar með sagt að ég fordæmdi þessa hegðun hjá konum, heldur finnst mér að konur þurfi að hugsa sinn gang og átta sig á hverjum hegðun þeirra þjónaði, og hvenær hún gengi gegn þeirra eigin hagsmunum. Sama á við um að kaupa allar þessar snyrtivörur — sem gera ekki annað en styrkja snyrtivöruiðnaðinn sem svarar með því að grafa endalaust undan sjálfstrausti kvenna jafnframt því að eyða of miklu fé af því sem betur væri varið í annað. Og ég vil ítreka það sem ég skrifaði þar í neðanmálsgrein: Sumt af þessu finnst mér sjálfsagt. Annað hef ég gert eða geri en set þó spurningarmerki við hversu jákvætt það sé fyrir kvennabaráttuna í heild.

Efnisorð:

laugardagur, júlí 03, 2010

Sniðganga sniðgengin með samningum

Þó að ég hafi sniðgengið fjölda fyrirtækja þykir mér oft mjög erfitt að hætta að versla við þau. Stundum finnst mér ég vera háð vörunni en líka hefur það komið fyrir að mér sárnar sú framkoma í minn garð (eða annarra kvenna) sem verður til þess að ég treysti mér ekki til að eiga viðskipti við fyrirtækið framar. Ég hef reyndar reynt að forðast þannig aðstæður í lengstu lög. Þegar ég á erindi við einhverskonar verkstæði, þar sem karlmenn ráða ríkjum, reyni ég tildæmis eftir fremsta megni að stíga ekki inn fyrir þröskuldinn. Reyni helst að tala við starfsmennina úti á plani og þurfi ég að fara inn til að borga þá kvíði ég því alltaf að reka augun í nektarmyndardagatal eða álíka sem muni breyta því sem fram að því var vinsamleg samskipti uppí leiðindi.* Ég hef áður skrifað um hve ömurlegar mér þykja svona uppákomur.

Fyrir nokkrum dögum átti ég erindi á verkstæði og þegar ég ætlaði að borga þurfti ég að ganga framhjá opnum dyrum og þar fyrir innan blasti við allsnakin kona á enn einu verkstæðisplakatinu. Ég varð nánast miður mín því ég og fjölskylda mín höfðum átt viðskipti við þetta verkstæði frá upphafi og alltaf fengið góða þjónustu. Nú voru góð ráð dýr. Þegar ég var búin að borga náði ég að hiksta uppúr mér að mér þætti mjög leiðinlegt að hafa rekið augun í þessa nektarmynd** því ég teldi mig vera góðan kúnna og þætti miður að fá í andlitið að litið væri á konur sem skrokka. Ég þurfti sembeturfer ekkert að halda langa ræðu eða útskýra í smáu eða stóru hversvegna ég teldi myndir af nöktum konum óæskilegar eða að ég ætti ekki að þurfa að horfa á þær*** því forstjórinn kinkaði lúpulegur kolli og tautaði „ég veit hvað þú átt við“ og bætti við að hann myndi taka veggspjaldið niður.

Ég varð hálf hvumsa við þessi viðbrögð, hafði átt von á rifrildi og í kjölfarið að ég myndi aldrei eiga viðskipti við verkstæðið hans aftur. Þess í stað fannst mér vera tekið mark á mér, ég vera einhvers virt (eða allavega peningarnir mínir) og fannst í raun við forstjórinn bæði komast vel frá þessu máli. Ég hyggst því ekki sniðganga verkstæðið í framtíðinni.**** Kannski má þakka þetta því að mér hefur farið fram í samskiptatækninni eða kannski eru karlmenn farnir að skilja að konur eru líka viðskiptavinir. Hið fyrrnefnda væri stórt skref fyrir mig en hið síðarnefnda þó líklega stærra skref fyrir samfélagið allt.

___
* Þegar ég hætti að versla við AP varahluti var mynd af nánast naktri konu alveg frammi í afgreiðslunni svo þar var ekki hægt að víkja sér undan því að sjá hana, þau viðskipti enduðu vægast sagt með leiðindum því ég lenti í hávaðarifrildi við starfsmenn vegna myndarinnar sem þeim þótti svo sjálfsögð myndskreyting.
** Ég notaði held ég ekki orðið klám (s.s. klámmynd) né nein blótsyrði meðan á þessu samtali stóð.
*** Þakka má Femínistafélaginu, og hinu þrotlausa starfi þeirra á ýmsum vettvangi, að nú þarf ekki lengur að halda langar ræður yfir karlmönnum sem þykjast ekki skilja hugtakið misrétti; heldur er almenningur allur með helstu baráttumál feminista á hreinu og veit hvað klukkan slær þegar brestur á með ræðuhöldum.
**** Ja, nema ef helvítis klámmyndin hangir þarna enn næst þegar ég kem, þá flokkast það líklega undir forsendubrest.

Efnisorð: , ,