þriðjudagur, ágúst 31, 2010

Sveitarstjórnarmál

Skásta ástandið þessa dagana er á Selfossi, ég meina Árborg. Þar skömmuðust sveitarstjórnarmenn sín til að hætta við að heimta að allir kettir væru fangar nema stutta stund dag hvern þegar þeir væru dregnir út í bandi. Létu sér reyndar ekki segjast fyrr en Dýralæknafélagið ávítaði þá fyrir skepnuskap.

Í Keflavík (eða Reykjanesbæ eins og enginn kallar það) hefur Árni Sigfússon selt allt dótið og leigir það svo fyrir sveitarfélagið aftur — enda verður starfsemin að fara fram nema í einhverju húsnæði. Græðir eflaust vel á öllu saman sjálfur (og vinir hans og frændur) en þegar honum er vinsamlega bent á að hann hefði átt að láta vita að sveitarfélagið væri að fara á hausinn þá var hann svo sannfærður um að það væri risið álver í túnfætinum hjá honum að hann tók ekki eftir að það var ekki farið að hala inn peninga því það á eftir að búa til höfnina, reisa álver og meirasegja fá rafmagn til að knýja það orku — en við öll hin höfðum alveg tekið eftir því að álverið mundi ekkert rísa nema öruggt væri að yrði virkjað og svo lagðar línur. Hann og iðnaðarráðherra virðast eina fólkið sem ekki hefur áttað sig (má segja ljóskubrandara hérna?) á möguleikanum á að aldrei fáist orka og að aldrei verði reist álver. Og að í ríkisstjórn er flokkur sem hefur það bara ekkert á dagskrá að hvetja til virkjana, álvera eða lagningu raflína yfir vatnsból höfuðborgarinnar.

Í Reykjavík* þarf að hækka hitaveitureikninginn og rafmagnsreikninginn til allra. Það var nú aldeilis skemmtilegur endir á virkjana- og útrásarstemningunni sem hefur ríkt í glæstum höfuðstöðvum Orkuveitunnar undanfarin ár. Kannski verður þannig ástand næstu vetur að fólk króknar í íbúðum sínum og finnst ekki fyrr en mörgum vikum síðar. Þá mun nú ekki veita af að hafa eins og einn léttan grínara í borgarstjórastólnum til að hjálpa okkur við að sjá húmorinn í því.

___
* Enn hefur nafni Reykjavíkur ekki verið breytt, kannski kemur að því ef sveitarfélögin fjölmörgu á höfuðborgarsvæðinu sameinast. Þá liggur beinast við að kalla hana Gullbringuborg — afleiðingin verður þá reyndar líklega sú að Bjöggi Thor gerir tilkall til borgarstjórastólsins.

Efnisorð: , , , ,

föstudagur, ágúst 27, 2010

Nýtingarréttur á konum að hætti SUS

Samband ungra sjálfstæðismanna hefur ákveðið að veita Brynjari Níelssyni, hæstaréttarlögmanni og formanni Lögmannafélagsins, [...] svonefnd Frelsisverðlaun sambandins í ár. Verðlaunin fær Brynjar fyrir að vera ötull baráttumaður gegn pólitískum rétttrúnaði, líkt og það er orðað í tilkynningu SUS.

Frelsisverðlaunin eru veitt árlega til einstaklings og samtaka sem að mati forystu ungra sjálfstæðismanna hafa unnið frelsishugsjóninni gagn með störfum sínum og hugmyndabaráttu.

„Brynjar Níelsson hefur verið ötull baráttumaður gegn pólitískum rétttrúnaði og hefur staðið vörð um grunngildi réttarríkisins í opinberri umræðu. Þá hefur hann sýnt mikið hugrekki í baráttu gagnvart fólki, sem stjórnmálastéttin þorir ekki að andmæla af ótta við óvinsældir.“


Pólitískur rétttrúnaður er, samkvæmt Sambandi ungra sjálfstæðismanna, að vera á móti hverskonar sölu á konum og að þær séu hverjum karlmanni sem vill til handargagns, burtséð frá vilja kvennanna sjálfra.

Þvílíkt kvenhatur sem skín af þessum ungu sjálfstæðismönnum.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, ágúst 25, 2010

Litli sóknarpresturinn

Ég var nánast með yfirlýsingar um það hérna fyrir einsog tveimur færslum síðan að ég ætlaði ekki að skipta mér af uppnáminu innan kirkjunnar því mér kæmi það ekki við og það hreyfði ekki við mér. En svo get ég auðvitað ekki orða bundist og ætla þó að segja fátt. Vil bara benda á stórgóða samantekt Hörpu Hreinsdóttur um ástandið innan kirkjunnar árið 1996, ásakanirnar á hendur þáverandi biskupi og hvernig núverandi biskup átti þar hlut að máli, sá hinn sami og nú þvælir fram og til baka með afstöðu sína en er margorðinn uppvís að þvi að reyna að þagga málið niður. Illugi Jökulsson ræddi um þetta í Kastljósi kvöldsins, hann var þar ekki eins beittur og í pistlinum á bloggi sínu. Illugi staldrar þar meðal annars við orð Karls í viðtali í Fréttablaðinu sem urðu einmitt til þess að augu mín stóðu á stilkum yfir hræsninni. Karl sagðist nefnilega ekki hafa haft nein áhrif á árið 1996 því hann hafi þá bara verið lítill sóknarprestur.

Um þessa tilraun Karls til að skjóta sér undan ábyrgð á málinu segir Illugi:

„En fyrst þegar hér er komið sögu í viðtalinu í Fréttablaðinu, þá bítur Karl Sigurbjörnsson hausinn af skömminni, þegar hann freistar þess að útskýra hvað hann hafi lítið vitað og lítið getað gert.

"Ég var bara lítill sóknarprestur," segir hann.

Drottinn minn dýri! Ef Karl Sigurbjörnsson var eitthvað árið 1996, þá var það EKKI "bara lítill sóknarprestur".

Karl Sigurbjörnsson var þá sóknarprestur í Hallgrímskirkju. Það er nú í fyrsta lagi eitt mesta virðingarembætti kirkjunnar í Reykjavík. Hann var þar fyrir utan sonur Sigurbjörns Einarssonar biskups sem hafði að vísu látið af embætti fyrir aldurs sakir árið 1981, en hafði ennþá gríðarlegt áhrifavald innan kirkjunnar.

Sigurbjörn var kennimaður ágætur og mikil virðing fyrir honum borin meðal almennings, en hann var líka strangur valdamaður innan kirkjunnar. Og þar gerðist áreiðanlega fátt án þess að hann vissi af því. Enda hefur komið í ljós að Sigurbirni var sagt frá ásökunum á hendur Ólafi Skúlasyni á sínum tíma, en kaus að gera ekkert með þær upplýsingar.

Sigurbjörn átti þrjá syni sem urðu prestar innan íslensku ríkiskirkjunnar, og það vissu allir frá því skömmu eftir 1980 að Karl Sigurbjörnsson yrði fulltrúi ættarinnar í biskupskjöri þegar fram liðu stundir. Ekki einu sinni reyna að neita því! Þegar komið var fram á árið 1996 - þegar mál Ólafs Skúlasonar kom upp - þá var svo komið að það var næsta víst að Karl yrði næsti biskup.

Það var kannski ekki alveg 100 prósent víst, en svona 95.

Karl var því eins fjarri því að vera "bara lítill sóknarprestur" og hugsast gat. Hann var ættarlaukur mestu valdaættar ríkiskirkjunnar - og fulltrúi valdablokkar sem allir vissu að myndi seilast aftur til valda fyrr en síðar.


Illugi rekur, eins og Harpa, þöggunaraðferðir Karls biskups, og fer fram á það, eins og hann gerði reyndar líka í Kastljósinu, að Karl segi af sér.* Margt fólk krafðist afsagnar Ólafs biskups á sínum tíma en hann tregðaðist við og hætti svo á eigin forsendum og sárnaði mörgu kirkjunnar fólki að hann skyldi ekki sjá sóma sinn í að víkja til þess að koma á friði heldur léti eigið egó í fyrsta sæti.**

Núverandi biskup þykist auðvitað ekkert hafa stórt egó heldur skýlir sér bakvið svo brotna sjálfsmynd að við eigum helst að vorkenna honum, aumingja litla sóknarprestinum sem nú standa öll spjót á.

Hann hættir örugglega ekkert en það verður fróðlegt að sjá hvort fylgismenn hans reyna enn að bera í bætifláka fyrir hann, eins og áður var gert í hinu ógeðslega máli fyrirrennara hans.

___
* Hlutverk Karls í að reyna að þagga niður í konunum var öllum ljóst árið 1996 og tómt mál um að tala að reyna að ljúga sig útúr því núna, sama hvað margar (misvísandi) yfirlýsingar hann gefur út dag hvern.
** Þetta ég-hætti-ekki þrjóskukast var svo endurtekið síðar af Seðlabankastjóra og ýmsum pólitíkusum sem, eins og Steinunn Valdís Óskarsdóttir benti á, láta stoltið þvælast fyrir sér.

Efnisorð:

mánudagur, ágúst 23, 2010

Bara til að vera viss

Þegar ég átti erindi í stóreflis byggingu við Borgartún nýlega sá ég að þar er einnig Lögfræðistofa Reykjavíkur til húsa. Meðan ég beið eftir lyftunni velti ég fyrir mér hvað ég myndi til bragðs taka ef ég mætti Sveini Andra Sveinssyni, yrði honum jafnvel samferða í lyftunni. Það setti að mér ugg en ég þóttist viss um að til öryggis yrði ég að æpa hátt og snjallt — og helst hafa að því vitni — að ég vildi ekki kynlíf með honum. Kannski bæta við nokkrum „Nei, nei, nei!“ svona til að koma boðunum til skila.

Ekki að ég haldi að Sveinn Andri sé líklegur til að nauðga konum, slíkt dettur mér auðvitað aldrei í hug um nokkurn karlmann, en miðað við hvernig hann tók til varna fyrir Hótel Sögu nauðgarann* um árið þá virðist ljóst Sveinn Andri telur að kona sem er samferða karlmanni nokkurn spöl, niður stiga (eða í lyftu?) er þarmeð búin að gefa út þau skilaboð að hann megi vaða inn í líkama hennar við fyrsta tækifæri — nema hún taki annað fram.

Þessvegna ætlaði ég að æpa á Svein Andra.

___
* Fyrir lesendur sem eru óvanir að lesa þetta blogg eða skilja ekki óbeit mína á þessum tiltekna lögmanni bendi ég á gamla bloggfærslu hans sjálfs um Hótel Sögu nauðgunina, en hann stofnaði bloggsíðu til að „taka upp hanskann“ fyrir nauðgarann.
Fjölmargar fréttir og bloggfærslur má lesa um Hótel Sögu nauðgunina (margar frá því að nauðgarinn var sýknaður í héraðsdómi og svo líka þegar hann var lýstur sekur í Hæstarétti og flýði land í kjölfarið) og ég valdi þá sem kom fyrst upp í Google til að vísa á, þar kemur líka ýmislegt fróðlegt fram í athugasemdakerfinu, til dæmis eru ræddar svipaðar aðfarir Jóns Steinars Gunnlaugssonar við að verja nauðgara í fjölmiðlum. Sjálf skrifaði ég bloggfærslur um þetta mál (og lýsti forvarnar-öskrinu) en Hótel Sögu nauðgunin varð Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur kveikjan að bókinni Á mannamáli.

Efnisorð:

sunnudagur, ágúst 22, 2010

Hér glataðist engin virðing

Rétt eins og ég var alin upp í að treysta lögreglunni var ég alin upp í kristinni trú. Ég var skírð og fermd, mér var kennt að biðja bænirnar mínar og ég fór meira segja nokkrum sinnum í sunnudagaskóla og fékk hinar eftirsóttu biblíumyndir. Foreldrar mínir eru þó ekkert sérlega trúaðir heldur voru bara einfaldlega að gera það sem allir hinir foreldrarnir gerðu og tíðkaðist þá og tíðkast sennilega enn á flestum heimilum þar sem meðal-Íslendingurinn elur upp börn sín.

Einhverntímann heyrði ég svo um fólk sem ekki trúði á guð og fannst það afar forvitnileg afstaða. Ég fór þá að skoða mína eigin „barnatrú“ og las t.a.m. biblíuna spjaldanna á milli* og komst að mjög afgerandi niðurstöðu: Það er ekkert í biblíunni sem rökstyður að til sé guð. Síðan hef ég lesið ýmsar aðrar bækur um trú og trúarbrögð og sannfærist alltaf betur um að guðir, goð og trú á slík fyrirbæri var skýring sem menn bjuggu sér til vegna þess að þeir voru að reyna að skilja uppruna sinn (þ.e. hvernig heimurinn varð til og mennirnir í honum), hvernig náttúruöflin virkuðu og til að sætta sig við dauðann.** En nú er ég komin útfyrir efnið. Ég ætlaði í stuttu máli að útskýra afhverju ég er ekki trúuð, er ekki kristin og sagði mig úr þjóðkirkjunni þegar ég hafði aldur til, því ég er ósammála grunnhugmyndinni.

Vegna þess að trú og kirkja skipta mig engu máli, æsi ég mig ekki yfir nýjum og gömlum afhjúpunum á brotum presta og yfirhylmingum kirkjunnar en annað er líklega hægt að segja um það fólk sem er í þjóðkirkjunni af trúarástæðum.*** Mér þykja kynferðisbrotamál auðvitað alltaf ógeðsleg og óréttlætanleg (og þarf varla að taka það fram að ég studdi konurnar sem ásökuðu Ólaf Skúlason á sínum tíma) en þjóðkirkjan er ekki að valda mér neinum vonbrigðum því ég hef í raun aldrei litið á hana sem eitthvað sem skipti máli í samfélaginu.**** Að því leytinu er afstaða mín til kirkjunnar og lögreglunnar gjörólík; kirkjan skiptir engu máli í mínu lífi en ég gæti átt líf mitt undir að lögreglan bregðist rétt við.

____
* Það er reyndar lygi að ég hafi lesið alla biblíuna; ég sleppti Sálmunum.
** Dauðinn var gerður léttbærari með því að ímynda sér líf handan dauðans eða einhverkonar upprisu hérna megin.
*** Fólk ætti auðvitað frekar að leita til sálfræðinga, geðlækna og annarra sérhæfðra ráðgjafa en ekki presta, en það fólk sem þó leitar til kirkjunnar af einhverjum ástæðum á auðvitað rétt á að því sé trúað segi það frá því að brotið hafi verið á sér. Það ætti ekki að ýta slíkum ásökunum útaf borðinu bara útaf því að það er prestur sem er ásakaður. En líklega er það rétt sem Illugi Jökulsson segir, að vegna þess að fólk ber virðingu fyrir prestum er ólíklegra að það leggi fram kæru.
**** Aftur lýg ég; ég lít svo á að trúarstofnanir séu til skaða í samfélaginu. Fyrir ellefta september 2001 fannst mér þær meinlausar en eftir trúarofstækið sem síðan hefur verið áberandi og eitrað mannlíf um allan hnöttinn, er mér meinilla við alla trúarsöfnuði, hvaða nafni sem þeir nefnast.

Efnisorð: , ,

laugardagur, ágúst 21, 2010

Traust og virðing sem glataðist

Á mínu æskuheimili var mér kennt að bera virðingu fyrir lögreglunni. Löggan stýrði umferðinni og sá til þess að ekki væri ekið á börn á leiðinni í skólann, elti uppi þjófa og passaði að enginn kæmist upp með að vera vondur. Allt í mínu umhverfi stuðlaði að því að láta mér finnast lögregluþjónar (eins og löggur hétu fullu nafni í þá daga) væru góðu mennirnir sem hægt væri að treysta á.

Ég var rétt skriðin á unglingsaldur þegar ég fór að sjá dæmi um hið gagnstæða og eftir því sem leið á unglingsárin sá ég bæði sjálf og heyrði um framkomu lögreglunnar sem miðaði nánast alltaf að því að hræða eða meiða fólk sem átti í útistöðum við hana af einhverjum ástæðum. Allt frá mótmælafundum til hraðaksturs; alltaf virtist vera tilefni til að taka á fólki með hörku.

Ég var þó enn með nokkra trú á vilja lögreglunnar til að framfylgja lögum þegar ég leitaði á náðir hennar eitt sinn og sá þá með eigin augum fáránleg vinnubrögð og mætti ömurlegu viðhorfi. Aldrei síðan hef ég trúað því að hægt sé að leita til löggunnar þó að í einstaka tilvikum hafi mér þótt ástæða til að reyna að merja út einhver skikkanleg viðbrögð.*

Þar sem ég byggi ekki skoðun mína á löggunni eingöngu á eigin reynslu heldur líka á vitnisburði fjölmargra sem ég þekki auk frásagna þeirra sem hafa fengið áheyrn fjölmiðla eða skrifað í blöðin til að segja reynslusögur af lögreglunni — sem spanna allt frá misþyrmingum við handtökur og yfirheyrslur til fyrirlitlegrar framkomu í garð þolenda kynferðisbrota — þá hef ég styrkst í skoðun minni með hverju árinu sem líður. Það má vel vera að markmiðið með hegðun löggunar sé að fólk beri fyrir henni óttablandna virðingu en í mínu tilviki uppskáru þeir bara fyrirlitningu.

Einhverntímann hafði ég þá kenningu að í lögguna færu strákar sem langaði að vera í endalausum löggu og bófahasar. Sumir sem voru á góðri leið með að verða krimmar sneru við blaðinu, ekki vegna þess að þeim hefði hryllt við að fremja glæpi heldur vegna þess að þá langaði ekki í fangelsisvistina sem alltaf vofir yfir slíkum starfsframa, og í staðinn tóku sér stöðu löggumegin í bófahasarnum. Starfsvalið hafi semsagt ekkert með réttlætiskennd að gera,** hvað þá samúð með fórnarlömbum glæpa af ýmsu tagi, sérstaklega séu fórnarlömbin af öðru kyni (kynhneigð, litarhætti o.s.frv.). Skilningurinn og viljinn til skilnings er þá lítill sem enginn.

Og svo eru hreinlega sumir í löggunni hrottar og sadistar og við ákveðin tilefni sést það betur en önnur s.s. í mótmælum eða við skýrslutökur af fólki sem þeim er illa við af einhverri ástæðu.

Ég nenni ekki rekja frekar ástæður mínar fyrir því að fyrirlíta lögguna. En ég vildi bara koma því á framfæri að ég fæddist ekki með þá skoðun að löggur væru svín, heldur komst ég á þá skoðun eftir að hafa fylgst með störfum þeirra.

___
*Sbr. þegar ég hringdi á lögguna fyrir fulla kallinn með gatið á hausnum. Ég afþakkaði reyndar aðstoð þeirra þegar til kom enda sá slasaði stokkinn í burtu.
** Í löggunni eru auðvitað ekki allir jafn slæmir. Innámilli eru eflaust gæðablóð en þau eru sannarlega ekki áberandi.

Efnisorð:

þriðjudagur, ágúst 17, 2010

Löggur og drukknar konur

Þegar ég las ummæli Björgvins Björgvinssonar yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar þá var ég viss um að þetta væri enn eitt skiptið þar sem fólk væri að lenda illa í DV og beið eftir því að löggan kæmi fram í fjölmiðlum og segði orð sín rangtúlkuð. En í staðinn rak Ragna hann úr starfi eftir að hafa rétt honum penna til að skrifa undir afsagnarbréfið sem hún hafði skrifað upp fyrir hann svo hann mætti þykjast hafa séð sóma sinn í að segja af sér.

Í millitíðinni — frá því að ég las ummæli löggunnar og þar til hann var rekinn með skít og skömm — fylgdist ég stóreyg með umræðunni. Flest fólk virtist vera hissa á því að miðaldra karlmaður í vel skilgreindu kallastarfi (með nokkrum konum til skreytingar inná milli) hefði samúð með nauðgurum! Var ég ein um að finnast vera ekkert undrandi á hugsunarhætti hans? Ég veit ekki um marga kalla sem ekki bera í bætifláka fyrir nauðgara á einn eða annan hátt. Flestir finna alltaf sök hjá konunni sem er nauðgað og helst virðast þeir alltaf halda að konur misskilji svona hluti og ljúgi restinni. Það að þessi tiltekni kall er lögga* segir ekkert til um hugsunarhátt hans almennt; hann er auðvitað ekkert skárri en hjá öðrum köllum enda þótt þessi hafi verið sendur á einhver námskeið. Eini feillinn hjá þessum löggukalli var sá að segja skoðun sína upphátt — allir hinir skoðanabræður** hans halda vinnunni með því að þegja yfir soranum í hausnum á sér.

En útafþví að þessi tiltekni kall hafði nú yfirumsjón með kynferðisbrotum og það er nauðsynlegt að telja fórnarlömbum nauðgara trú um að þeim verði vel tekið hjá löggunni og ef þær kæri þá geti það leitt til þess að nauðgarinn fari í fangelsi*** og þessvegna tók Ragna sig til og rak löggufíflið. En auðvitað er lágmark að menn í hans stöðu séu ekki beinlínis opinberlega að fæla fólk frá því að kæra, nóg er nú samt. Stígamót hafa alla tíð bent á að svona viðhorf megi ekki vera uppi hjá löggunni, nú er Ragna þó búin að gefa þau skilaboð að svonalagað verði ekki liðið.

Sjálfri finnst mér ekki alveg skipta máli hvort kona er drukkin eða edrú þegar henni er nauðgað — það er nauðgarinn sem nauðgar henni, edrú eða fullur. Annars skrifaði ég um áhyggjur mínar af drukknum konum fyrir margt löngu og heitir sá pistill „Konur verða aldrei óhultar fyrr en karlar hætta að nauðga.“

Löggur og aðrir sem vilja ræða ofneyslu áfengis ættu að gera það algerlega án tenginga við nauðganir, því áfengis- eða vímuefnaneysla fórnarlambanna hefur ekkert með þetta að gera. Eða gæti ég farið á skemmtistað, bláedrú, og valsað ein inná klósett í 100% vissu um að ég væri örugg? Eða hefur öryggi mitt eitthvað með karlmennina á staðnum að gera? Um það snýst málið.
___
* Hann er auðvitað áfram lögga því þó Ragna hafi rekið hann úr yfirmannsdjobbi þá er samtrygging löggumanna sterk og þeir eru tilbúnir með þægilega innivinnu fyrir vini sína sama hvað þeir gera af sér. Menn hafa nú fengið varðstjórastöðu útá annað eins og meira. [Sjá svo seinni tíma viðbót hér neðar].
** Á ráðstefnu Stígamóta 9. mars síðastliðinn var slatti af löggum í salnum og ég man ekki betur en þeim hafi verið klappað lof í lófa fyrir að vera þar mættir með víðsýni sína. Ætli þessi ágæti Björgvin Björgvinsson hafi setið þar í góðum hópi starfsfélaga sinna — hugsandi sitt?
*** Nauðgarar lenda sjaldan í fangelsi, ja nema það séu Pólverjar, þeir fá þyngri dóma en Íslendingar sem yfirleitt sleppa því þeir hafa frítt veiðileyfi á konur en stundum fá þeir skilorð ef þeir eru voða óheppnir.

Viðbót (sem rímar mjög við fyrstu neðanmálsgreinina hér að ofan): Aðeins örfáum dögum eftir að Björgvin var rekinn úr stöðu yfirmanns kynferðisbrota sýna samstarfsmenn honum stuðning sinn í verki með því að láta hann vera í forsvari í morðrannsókn. Þetta kallar maður almennilega vini!

Efnisorð: , ,

mánudagur, ágúst 16, 2010

Þýðingarmistök

Í síðustu færslu fjallaði ég um auglýsingu og þau sem fylgdu tenglinum og skoðuðu auglýsinguna sáu e.t.v. konu leggja nafn sitt við snyrtivöruna sem um ræddi. Þessi kona er ólíklegur bandamaður minn en þó fór það svo þegar ég las bloggið hennar nýlega að ég var afar sammála henni (í nákvæmlega einni færslu, ekki öllum hinum!) um orðskrípið sem notað er um kynfæri kvenna.

Fyrir nokkrum árum var leikrit Evu Ensler The Vagina Monologues þýtt á íslensku og hefur síðan verið sýnt árlega á vegum V-dags samtakanna. Ég hef séð þetta verk tvisvar, þaraf var ég dregin í seinna skiptið af konu sem sótti það fast að ég kæmi með sér. Mig langaði ekkert sérstaklega að sjá verkið aftur, það var áhrifamikið að sjá það einu sinni en það var sumt sem truflaði mig gríðarlega og olli því hrifning mín var takmörkuð. Og það var semsagt orðið „píka“.

Verk Evu Ensler fjallar um kynferðisofbeldi gegn konum, kynfræðslu, kynlífsreynslu, skömm, ótta, gleði og ástríður, svo eitthvað sé nefnt. En líka um nöfnin sem skellt hefur verið á kynfæri kvenna. Á ensku eru nánast öll algengustu nöfnin skammaryrði og það sama á við um íslensku. Það er að segja, þegar talað er illa um konu eða hreytt ónotum í hana er oft skellt saman við heiti á kynfærum hennar: „helvítis píkan“ eða „helvítis tussan þín“. Ég lýsi eftir fólki sem ekki hefur heyrt þessi tvö orð notuð í þessu samhengi.

Á ensku er semsagt það sama uppi, þar eru önnur orð sömu merkingar notuð. En í ensku máli er til orðið „vagina“ sem þýðir leggöng og það orð valdi Eva Ensler sem nafn yfir kynfæri kvenna almennt (bæði ytri og innri kynfæri þó leggöng sjáist yfirleitt ekki nema við sérstakar aðstæður). Það orð er líka sárameinlaust frá upphafi; það hefur aldrei tíðkast að öskra á neina konu „you damned vagina!“ En íslenski þýðandinn valdi orðið píka og þó hefur píka haft neikvæða tengingu afar lengi* og hefur verið notað í niðrandi merkingu.**

Framað því að ég sá Píkusögur á sviði hafði ég aldrei heyrt þetta orð nema sem skammaryrði og til að níða niður einhverja konu. Ég sat því nánast stjörf þegar ég áttaði mig á því að héreftir væri mér og öðrum konum ætlað að tala um þessa annars ágætu uppsprettu ánægju þessu ónefni og heyra alltaf „helvítis pí ...“ glymja fyrir eyrunum á okkur á meðan.

Ekki hefur slík notkun orðsins minnkað svo ég viti til; ég heyri iðulega bæði karla og konur nota orðið í niðrandi skyni og gnísti þá tönnum og reyni svo að fá þau til að vinsamlega gera upp við sig hvort þau vilji að þetta orð sé skammaryrði eða nothæft um kynfæri kvenna. Þetta hefur auðvitað ekkert verið vinsælt tuð og ég var farin að halda að ég væri ein á báti með þessa skoðun mína — eða þar mér barst liðsstyrkur úr óvæntri átt. Á blogginu hennar Tobbu Marínós las ég semsagt samhljóm með skoðunum mínum, þó ekki væri nema um þetta atriði.***

Ég hef lengi ætlað að skrifa um vandræði mín með að samþykkja notkun orðsins píka og var með Tobbu-bloggið bakvið eyrað þegar svo kom upp málið með tölvupóst náungans sem er í vinnu hjá menntamálaráðuneytinu. Þá blöskraði mér endanlega. Ekki bara yfir ömurlegu orðbragðinu sem er honum til skammar og ömurlegt að menn láti sér svona um munn fara í vinnutengdum pósti, heldur ekki síður umræðunum í kjölfarið á bloggum og athugasemdakerfum. Nánast hver einasti karlmaður náði að setja orðið tussa inní bloggfærslur um hin aðskiljanlegustu málefni og virtust skemmta sér hið besta við að hafa nú fengið „leyfi“ til að nota þetta niðrandi orð um kynfæri kvenna hvar og hvenær sem er. Síðan Píkusögur voru fyrst settar á fjalirnar hér á landi hefur orðið píka fengið þessa sömu stöðu í huga karlmanna; þeir sletta þessu orði hvar og hvenær sem er. Nú geta þeir sagt píka og tussa til skiptis, alsælir. Á sama tíma eru konur að berjast við að reyna að nota þetta orð sem ýmist er notað í gríni, þegar þær eru skammaðar eða þegar talað er illa um konur; þetta orð eiga þær sjálfar að nota af virðingu um sína viðkvæmustu líkamsparta. Það er erfitt þegar níðið er enn til staðar.

Til eru vefsíður þar sem fjallað er um þýðingarmistök. Þar ætti þýðingin á leikritinu The Vagina Monologues að vera skráð vegna orðsins píka.

____
* Ég veit vel að upphaflega var það notað um stúlkur, sbr. pike á norsku og pige á dönsku. En sú notkun nafnsins hafði löngu lagst af fyrir mína tíð en hin er ríkjandi enn.
** Þetta er sambærilegt og ef Eve Ensler hefði ákveðið að velja orðið „pussy“ sem jákvæða orðið yfir kynfæri kvenna.
** Í einu skynsamlegu athugasemdinni við bloggfærslu Tobbu er bent á að Þórdís Elva hafi skrifað um nafngiftir á kynfærum kvenna í bók sinni Á mannamáli. Þá rifjaðist auðvitað upp fyrir mér að það var enn eitt skiptið sem ég ætlaði að skrifa um þetta og jafnframt að Þórdís Elva virðist sammála mér um þetta líka. Við erum semsagt þrjár um þessa skoðun.

Viðbót eftir lestur Fréttablaðsins: Pistill Gerðar Kristnýjar byrjar í dag á orðunum: „Eitt er það uræðuefni sem undarlega oft virðist brenna á konum en það er hvaða nafni beri að nefna kynfæri þeirra.“ Orð í tíma töluð!

Efnisorð: , ,

sunnudagur, ágúst 15, 2010

Bráhárin mjúk og varirnar glossaðar — og þjáningin sem það veldur

Á föstudaginn hringdi ég í verslun sem hafði auglýst með áberandi hætti í Fréttablaðinu snyrtivörur sem, samkvæmt auglýsingunni, eru allra meina bót.* Ég lagði tvær spurningar fyrir konuna sem svaraði í símann, svarið við þeirri fyrri kom mér á óvart, hinni síðari ekki. Fyrst spurði ég hvaða erlenda fyrirtæki framleiddi snyrtivörurnar því mér hafði ekki tekist að finna það á netinu. Tilgangur minn með því að finna framleiðandann var að fá svar við seinni spurningunni, þessari sem ég hafði ekki enn borið upp í símann, en snerist um hvort snyrtivörurnar væru prófaðar á dýrum.

Svarið við því hver framleiðir vörurnar var flókið því margar tegundir af snyrtivörum virðast framleiddar undir sama heitinu og lá við að ég nennti ekki að halda samtalinu áfram því í raun vildi ég bara fá uppgefna vefsíðu til að skoða hvað þar væri sagt um dýratilraunir. En þó hjó ég eftir þessu; Signatures of Nature snyrtivörurnar eru framleiddar — am.k. að hluta — í Ísrael. Fyrir þau sem hyggjast sniðganga ísraelskar vörur** vegna framkomu ísraelskra stjórnvalda í garð Palestínu og vegna árásanna á skip með hjálpargögn, þá eru þetta mikilvægar upplýsingar.

Nema hvað, svarið við seinni spurningunni, „Eru snyrtivörurnar prófaðar á dýrum?“ var afar fyrirsjáanlegt. Konan svaraði — eins og allar aðrar konur í öllum öðrum snyrtivöruverslunum þar sem ég hef borið upp þessa spurningu — með: „Ég veit það ekki.“

Annaðhvort er ég eina manneskjan sem spyr seljendur snyrtivara þessarar spurningar eða þá að sölufólkið er sjálft algerlega áhugalaust um hvort dýr eru pyntuð til að framleiða vöruna.*** Ég skil reyndar ekki konur sem ganga með maskara sem framleiddur er eftir tilraunir á dýrum (ég hef lesið andstyggilegar lýsingar á því hvernig efnasamböndum er klínt í augu á kanínum til að athuga hvernig augað bregst við) ef til eru maskarar frá fyrirtækjum sem ekki stunda dýratilraunir.**** Sama gildir auðvitað með aðrar snyrtivörur, þarmeðtaldar hársnyrtivörur s.s. sjampó. Þessar upplýsingar ætti auðvitað að vera hægt að fá í snyrtivörubúðum og hárgreiðslustofum, á vefsíðum fyrirtækjanna sem framleiða vörurnar og svo auðvitað á umbúðum vörunnar sjálfrar. Fæst fyrirtæki skammast sín fyrir að hlífa dýrum við pyntingum.

Nema þetta sé bara hugsunarleysi og leti, bæði hjá þeim sem selja snyrtivörur og þeim sem kaupa. Sú hugsunarleysi og leti styrkir fyrirtæki sem pynta dýr. Voða er það lítið snyrtilegt.

___
* Nauðsynlegt er að átta sig á, við lestur þessarar færslu, að öll samskipti mín við sölufólk sem snúast um snyrtivörur eru aðeins í þágu feminískra rannsóknarhagsmuna en ekki vegna þess að ég hafi svikið málstaðinn og noti snyrtivörur. Ég er auðvitað vottaður feministi með líkamshárasöfnun að aðaláhugamáli.
** Signatures of Nature vörur eru þegar á lista Íslands-Palestínu yfir vörur frá Ísrael.
*** Ég var einusinni stödd í lyfjaverslun þar sem stóð yfir snyrtivörukynning og ég vatt mér að konunni sem kynnti vöruna og þóttist vera líklegur viðskiptavinur áður en ég spurði hana hvort varan væri prófuð á dýrum. Hún sagðist ekki vita það en þegar ég gerði mig súra í framan og sagði að þá væri ég ekki viss um að ég vildi kaupa þetta þá flýtti hún sér að segja; „Ja, þá er ég viss um að hún er það ekki.“ Þetta svar sannfærði mig reyndar ekki um dýraverndartilhneigingu snyrtivörufyrirtækisins en því meir um að sölufólk er á prósentum og að því er nokkuð sama um hvað það selur bara ef það þýðir meiri aur fyrir það sjálft.
**** Auðvitað getur vel verið að snyrtivörufyrirtæki ljúgi því til að ekki séu stundaðar tilraunir á dýrum eða kaupi allar efnablöndurnar af fyrirtækjum sem stunda slíkar pyntingar en það verður að duga að þau lýsi þessu yfir. Ég kaupi tildæmis sjampó af fyrirtæki sem segist hvorki stunda né fallast á neinar tilraunir á dýrum; ég kaupi það í góðri trú, meira get ég ekki gert.

Efnisorð: ,

laugardagur, ágúst 07, 2010

Upphafningu lífstíls auðmenna skortir tilfinnanlega

Eins og lesendur þessarar síðu hafa tekið eftir er ég forfallin snekkjuáhugamaður. Ég veit tegundarheiti á öllum slíkum farkostum, nöfnin sem eigendur þeirra allraflottustu hafa gefið þeim og fylgist grannt með ferðum þeirra um heimsins höf. Þessvegna tók ég andköf af ánægju þegar ein sú allra flottasta kom til Reykjavíkur. Mér til sárra vonbrigða sá ég ekkert um þessa merkilegu heimsókn í fjölmiðlum, það er bara eins og enginn hafi áhuga á stórum snekkjum og stórríkum miðaldra köllum nema ég.

En þó áhugann á snekkjunni sem slíkri vanti eða jafnvel kynþokkagoðinu sem á hana, þá skyldi maður halda að einhverjum fjölmiðlum þætti lífstíllinn sem slíkur áhugaverður. Gætu jafnvel slegið upp heilsíðuumfjöllun um stráklinginn sæta stöku sinnum eða skreytt blað sitt á forsíðu eða baksíðu með upplýsingum um hvaða hönnunarverslanir duttu í lukkupottinn og fengu að handfjatla gullkortið hans. Og það eru auðvitað bara smáatriði; aðalatriðið er auðvitað snekkjan og þyrlurnar og einkaþotan. Það hafa líka alveg verið góðir gæjar hér á landi sem hafa líka átt svona dót en núna eru svo margir eitthvað öfundsjúkir yfir því að þeir mega bara ekkert eiga lengur. Sumir segja meira segja að dótið hafi verið keypt fyrir illa fengið fé og reyna að láta líta út eins og það sé bara einhver flottræfilsháttur að eiga flott dót.

Hefði þetta nú ekki verið upplagt tækifæri fyrir þessa góðu gaura að ýta aðeins við fjölmiðlamönnum (ekkert útafþví að þeir eiga í fjölmiðlum eða eru eitthvað tengdir svoleiðis fólki neitt) og segja þeim að nú sé lag að láta alla vita að það séu alveg góðir og flottir gæjar sem eiga svona flottar græjur og að allir peningarnir séu heiðarlega fengnir og það sé sko allstaðar í heiminum viðurkennd staðreynd að þetta séu skemmtilegustu mennirnir. Það væri tildæmis hægt að blanda Bjögga Thor í málið og segja að hann hafi verið í ógisslega flottu partýi hjá snekkjueigandanum heiðarlega (báðir heiðarlegir, sorrí, hvernig læt ég) og líka þá staðreynd að þegar menn eru á annaðborð svona ríkir þá er það útaf því að þeir kunna að halda partý. Þetta vissi Ármann Þorvaldsson líka og hann var líka svona oft að syngja í sínum partýum eins og snekkjueigandinn síkáti sem spilar á gítar svo að gestirnir geti nú klappað einlæglega fyrir hæfileikum hans. Þetta mætti allt koma fram í íslenskum fjölmiðlum þessa dagana en það er bara eins og það eigi að þagga þessa merku heimsókn í hel!

Eins og þetta hefði nú getað verið góð uppreisn æru fyrir þyrlueigandi, einkaþotufljúgandi og snekkjusiglandi fjármálasnillingana okkar snúllulegu.

Efnisorð:

mánudagur, ágúst 02, 2010

Tímabær hugleiðing um jólabækur

Meðan góðærið geisaði dróst bóksala saman. Arnaldur seldi reyndar vel og nokkrir reyfarahöfundar aðrir en miðað við allt það kaupæði sem almenningur var haldinn þá dróst bóksala afturúr eða stóð í stað í besta falli. Mér fannst þetta ekkert skrítið á sínum tíma, bækur rándýrar og ég hikaði við að kaupa mér nýjustu jólabækurnar og beið frekar eftir að þær kæmu í kilju (sembeturfer koma flestallar bækur líka í kilju). Það kom mér því mjög á óvart fyrstu jólin eftir bankahrun (og síðustu jól líka) þegar í ljós kom að bóksala hafði aukist.

Þá var mér bent á að skýringin væri sú að nú hefði fólk ekki farið til útlanda í verslunarferðir fyrir jólin (engar íslenskar bækur í útlöndum) en þar hefði það keypt jólagjafirnar meðan allir hegðuðu sér eins og auðkýfingar. Að auki hefðu bækur þótt svo fáránlega ódýrar í augum þeirra sem höfðu mikið milli handanna (stolið eða skuldað) að það var hálfgerð skömm að því að gefa svo skítlegar jólagjafir. Svoleiðis fólk gaf auðvitað börnunum sínum nýjustu leikjatölvurnar (sem bættust við fyrri árganga allra leikjatölva sem börnin áttu fyrir), plús tölvuleiki auðvitað og farsíma auk smotterís annars eins og skíðaútbúnaðar. Þeir sem voru minnst nískir við blessuð börnin gáfu þeim snjósleða — vélknúna.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stakk uppá því um daginn að sami virðisaukaskattur yrði lagður á bækur og aðra neysluvöru. Flestum bókmenntaunnendum þykir þetta vond stefna og óttast mjög um framtíð menningar á landinu ef af verður. En kannski verður hærra bókaverð til þess að fólki finnst það kinnroðalaust geta gefið bækur í jólagjöf og það verði jafnvel aftur þannig að börn tilkynni bekkjarsystkinum sínum með stolt í röddinni hve margar bækur þau fengu í jólagjöf og hve margar þeirra þau náðu að lesa yfir jólin.

Reyndar þykja mér tillögur AGS um hækkun virðisaukaskatts á bækur vera vondar og vona að ríkisstjórnin taki þær ekki til greina. Næstum jafn vondar og þær að hækka matarskattinn. Nær væri að fylgja öðrum tillögum AGS (sjóðurinn bauð semsé uppá nokkrar leiðir) sem fjalla um hækkun eldsneytisskatts, fjármagnstekjuskatts, eignaskatts og auðlinda- og umhverfisskatta. Þeir skattar myndu leggjast á þá sem meira mega sín en hækkaður skattur á bækur myndi minnka bóksölu — sem þýðir minni laun til rithöfunda sem aftur myndi leiða til að færri gætu séð sér fært að skrifa bækur — og skerða möguleika fólks á að eignast bækur.

Það var nefnilega allan tímann fólk á Íslandi sem ekki fór til útlanda fyrir jólin og dældi ekki rándýru tækjadóti í sig og börnin. Sumt fólk hafði hreinlega ekki áhuga en ekki má gleyma að fjöldi fólks hafði ekki efni á því og þá heldur ekki á dýrum bókum. Það má ekki alveg svipta þann hluta þjóðarinnar möguleikanum á að eignast góða bók.

___

Ég sé að Fréttablaðið liggur yfir blogginu mínu og hefur í skjóli nætur skrifað frétt um þetta mál. Þar á bæ er reyndar talað um skólabækur sem mér voru ekki efst í huga; í ágústbyrjun hugsa ég um jólin.

Efnisorð: ,

sunnudagur, ágúst 01, 2010

Nýríki Nonni

Orðabókaskýringin á að vera nýríkur er að hafa skyndilega orðið auðugur og berast mikið á. Hér á landi voru aðstæður þannig að kannski þyrfti að bæta við aukaskýringu: Sá sem heldur að hann sé auðugur vegna gríðarlegrar lántöku — hvort sem það er kúlulán, 100% íbúðakaupalán, myntkörfulán eða svimandi yfirdráttur — og hegðar sér því eins og hann hafi fullar hendur fjár og berst mikið á.*

Fólk sem hafði venjuleg laun og var í venjulegu starfi, eða ágætu starfi með ágæt laun, virtist allt fram til október 2008 vera í samkeppni við Jón Ásgeir, Björgólfana og þá alla hina sem sannarlega voru nýríkir, þó auðæfin hafi verið illa fengin og hluti þeirra e.t.v. eingöngu til sem bókhaldsbrella. En stór hluti almennings á Íslandi linnti ekki látum fyrr en hann fór næstum jafn oft til útlanda og þeir sem áttu einkaþotu, keypti sumarbústað og fellihýsi eða hjólhýsi, varð nauðsynlega að búa í einbýlishúsi og hlóð utan á það palli og nuddpottur var þar auðvitað og gasgrill, hvað annað. Farsímarnir endurnýjaðir eins oft og tískusýningar eru haldnar í París og bílaflotinn á hlaðinu var í stöðugri samkeppni við Bentley, Aston Martin, Mercedes Benz og jeppaflota þeirra sem leiddu þjóðina til glötunar.

Já, og vel á minnst, flatskjáirnir. Það voru ekki þeir sem gerðu þjóðina gjaldþrota, en þeir eru einskonar táknmynd þessar græðgi sem allir virtust haldnir; allir keyptu flatskjá (auk alls þess sem að framan er talið). Þessi samkeppni um flottustu húsin, flottustu bílana, dýrustu brúðkaupin, frumlegustu sumarfríin á mest framandi stöðunum sem stór hluti þjóðarinnar var í innbyrðis, þekkist víst ekki meðal siðaðra þjóða þar sem þykir dyggð að berast ekki á, enda stendur siðmenning víðast hvar svo styrkum fótum að fólk hefur ekki (einstaklingar jú, en ekki heilu þjóðirnar) þörf fyrir að sýna ríkidæmi sitt (lesist: skuldastöðu) með svo áberandi hætti.

Flottræfilsháttur Íslendinga er líka áberandi merki um þá minnimáttarkennd sem hefur þjáð okkur sem erum svona nýskriðin úr moldarkofunum og viljum endilega láta vita að við séum þjóð meðal þjóða. Samt auðvitað ekki hvaða þjóða sem er, t.d. ekki Norðurlandanna enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.

Það má vera að það séu ekki margir Íslendingar sem voru í raun nýríkir, þarna um tíma, en restin hegðaði sér sannarlega þannig. Það er fólkið sem ætlar nú í hrönnum að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, enda er þessi vinstri stjórn ekkert nema leiðindin sérstaklega ef miðað er við gósentíðina fram að hruni. Þá var nú gott að lifa og gaman að eyða peningum. Líka þeim sem ekki voru til. Hugsunarháttur græðginnar var líka hugsunarhátturinn sem fékk fólk til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, og Sjálfstæðisflokkurinn var sá sem með hugmyndafræði sinni, einkavinavæðingu og annarri spillingu, auk umtalsverðar vanhæfni til að stýra efnahagsmálum sem olli hruninu. Þeir og fylgismenn þeirra.


____
* Enn mætti bæta við skýringu sem segði: Eftir október 2008 er marga þá nýríku skv. þessari skilgreiningu helst að finna í hópi þeirra sem í algjöru sjokki hættu að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en áttuðu sig svo á sér til mikillar furðu að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna myndi ekki fella niður allar skuldirnar (djös svekkelsi) og hyggjast því kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur.

Efnisorð: , ,