þriðjudagur, desember 31, 2013

Áramót

Oft hef ég mælt með vefritinu Knúz og ekki minnkar ánægja mín við lestur áramótaannáls Knúzzins. Hann er skrifaður af Elvu Björk Sverrisdóttur, Gísla Ásgeirssyni, Höllu Sverrisdóttur, Hildi Lilliendahl, Líf Magneudóttur, Maríu Hjálmtýsdóttur, Sigríði Guðmarsdóttur, Steinunni Rögnvaldsdóttur og Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur. Þau hafa sparað mér tíma sem ég annars hefði eytt í að rifja upp atburði ársins og reyna að berja saman áramótapistil. Auk þessa tímasparnaðar sem ég er þakklát fyrir er annáll Knúzzins vel skrifaður og vel heppnaður í alla staði. Lesið hann hér.

Eitt af því sem Knúzið rifjar upp (en ég hafði alveg gleymt að skrifa um) er veiting jafnréttisverðlauna Stígamóta. Þar fékk Knúzið og aðstandendur þess viðurkenningu fyrir þá vitundarvakningu um jafnrétti og ofbeldismál sem miðillinn hefur unnið að. Að auki fengu viðurkenningu Erna Agnarsdóttir og María Haraldsdóttir sem afhjúpuðu kynferðisbrot Karl Vignis, og umsjónarmenn Kastljóss einnig fyrir umfjöllun þeirra um málið. Aðrir sem hlutu viðurkenningu Stígamóta voru Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unicef, Theodóra Þórarinsdóttir, starfsmaður Stígamóta, og forvarnarátakið Fáðu já.(Héðan og héðan.) Allt er þetta verðskuldað. Best af öllu er nú samt að Stígamót skuli veita þessi verðlaun og vera til yfirleitt.

En úr því áramótaannáll Knúzzins sparaði mér allan þennan tíma og erfiði get ég snúið mér að öðru, því nú heyri ég að nágrannar mínir eru farnir að skjóta upp flugeldum. Flugeldar geta verið hættulegir og karlmenn á öllum aldri eru í aðaláhættuhópnum, eins og segir hér. Þeir fara óvarlega, fylgja ekki leiðbeiningum og nota ekki hlífðargleraugu. Gunnar Már Zoega augnlæknir kann ráð við þessu. Hann veit sem er að ákaflega sjaldgæft er að konur slasist vegna flugelda og þessvegna biðlar Gunnar Már til mæðra og eiginkvenna skotglaðra karlmanna.

„Kvenþjóðin er í lykilhlutverki að passa upp á okkur vil ég segja. Fylgjast með táningunum sínum dagana fyrir og eftir gamlársdag og síðan hugsa um eldri karlpeninginn á gamlárskvöld og sjá til þess að hann sé í skotheldu ástandi og það sé allt í lagi með þá þegar þeir byrja á þessu.“
Þarna sýnir Gunnar Már mikla kænsku. Hann veit að það þýðir ekkert að ávarpa karlmenn beint. Ef það er gert og þeir beðnir um að breyta hegðun sinni (hvað þá ef karlmenn eru beðnir um að hafa áhrif á aðra karlmenn) þá verður allt vitlaust. Það er alveg bannað að móðga karlmenn með því að segja beint við þá að hegðun þeirra sé skaðleg. Þetta veit augnlæknirinn, einsog við reyndar öll.

Ég bið lesendur síðunnar um að fara varlega í kvöld, með eða án flugelda/áfengis/karlmanna.

Efnisorð: ,

laugardagur, desember 28, 2013

Íþróttafréttamenn sem hata konur

Samtök íþróttafréttamanna hafa sýnt fávitaskap sinn í verki, enn einu sinni. Þeir gátu auðvitað ekki valið Anítu Hinriksdóttur, sem íþróttamann ársins, þó hún hafi orðið heimsmeistari, Evrópumeistari og Norðurlandameistari á árinu. Nei, þeir völdu enn einn helvítis fótboltagaurinn. Hvað er að þessum fávitum? Hvernig getur hvað-það-var-sem -hann-gerði komist í hálfkvisti við afrek Anítu?

En auðvitað kemur þetta ekki á óvart, Gísli málbein, sem oft hefur skrifað um kjör íþróttamanns ársins var búinn að segja
„rökfastir íþróttafréttamenn geta auðvitað dregið fram einhverjar röksemdir fyrir því að láta fulltrúa karlalandsliðsins fá eldhúskollinn, því liðið komst næstum á HM og í hugum einhverra hlýtur það að taka alvöru árangri fram.“

Ég þóttist líka vita að Aníta yrði sniðgengin þegar ég skrifaði þetta og þetta:
„Ég spái því að það muni heldur ekki þvælast fyrir íþróttafréttamönnum um næstu áramót að réttlæta það að velja ekki Anítu sem íþróttamann ársins, þrátt fyrir afrek hennar. Þeir munu segja að hún sé of ung, það sé ekki venja að láta neinn undir 18 ára aldri fá titilinn — og velja þess í stað karlmann sem keppt hefur í boltaíþrótt.“

En þið þarna íþróttafréttamenn: hvernig væri að koma okkur á óvart einusinni, vera ekki svona fáránlega fyrirsjáanlegir í karlrembunni, ha?

FÁVITAR.


Efnisorð: , ,

fimmtudagur, desember 26, 2013

Hryllilegur dauðdagi á Gaza

Um daginn sá ég hræðilegt myndband um misþyrmingar á nautgripum á Gaza undir yfirskini fórnarhátíðarinnar Eid al Adha (e. Festival of Sacrifice). Ég hlífi ykkur við að tengja beint á þann hrylling.

Ég hélt alltaf að þegar dýrum er fórnað í nafni trúarinnar þá sé farið vel með dýrin fram að dauðastundinni, þeim þakkað fyrir sitt framlag eða eitthvað svoleiðis — en nei, það er sparkað í þau, skotið í hnén á þeim, stungið í augu þeirra, þeim hrint, og veslings dýrin í stuttu máli sagt notuð til að fá útrás fyrir alla þá grimmd sem í mannskepnunni býr. Eða skulum við segja karlmönnum; það var engin kona viðstödd. Það fór ekki framhjá mér.

Það sem ég sá í þessu skelfilega myndbandi varð til þess að mér er héreftir slétt sama hvað verður um karlmenn sem búa á Gaza, þeir hafa alveg misst minn stuðning (sem hefur verið vegna yfirburða og þjósnaskapar Ísraelsstjórnar en ekki með eða á móti öðrumhvorum trúarhópnum sem slíkum). Ég segi eins og Mörður Valgarðsson héreftir: „Þeir einir munu vera, að ég hirði aldrei þó að drepist.“

Útflutningur á lifandi dýrum til annarra landa mikið hitamál í Ástralíu eftir að ítrekað hefur komið í ljós að meðferð dýranna er hræðileg. Í þessari 6,5 mínútna löngu samantekt áströlsku dýraverndarsamtakanna Animals Australia á þeim málum sem samtökin unnu með 2013 eru sýndar glefur úr myndbandinu sem ég sá.

Samantektin er sannarlega ekki þægileg en það er hollt fyrir okkur að horfa á hana, það má ekki hunsa illa meðferð á dýrum, hvar sem hún fer fram. Hvort sem það er verksmiðjubúskapur eins og sá sem tíðkast hér á landi rétt eins og í Ástralíu, eða þegar dýrum er viljandi misþyrmt.

Árni Stefán Árnason skrifar mikinn reiðilestur um dýravernd á Íslandi þar sem hann sýnir þetta myndband áströlsku dýraverndarsamtakanna. Hann segir dýraverndarmál á Íslandi í vondum málum ef ekki í vondum höndum. Mig langar ekki að taka afstöðu í innanbúðarátökum dýraverndarsamtaka, af hvaða ástæðum sem þau eru. En mér þykir nokkuð ósanngjarnt að ætlast til að allt það fólk sem hefur áhuga á dýravernd gerist vegan, eins og mér virðist Árni Stefán gera kröfu um; neyti engra dýraafurða, ekki einu sinni eggja eða osta. Það er hægt að vera kjötæta en vera á móti verksmiðjubúskap og annarri illri meðferð á dýrum. En það er samt gott að Árni Stefán sem skrifar á víðlesinn miðil vekur athygli á dýravernd, því að öll berum við — sem neytendur, kjósendur og sem dýrategund — ábyrgð á því hvernig komið er fram við varnarlaus dýr.

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, desember 24, 2013

Jólaguðspjallið

Danska sjónvarpið sýndi í kvöld athyglisverða heimildamynd. Hún fjallaði um hjónaband Richards og Mildredar Loving, en samkvæmt lögum Virginíuríkis þar sem þau voru fædd og búsett, var hjónabandið ólöglegt því hann var hvítur en hún ekki. Hún var að hálfu leyti svört og hálfu leyti indjáni en þó þau höfðu alist upp á sömu þúfunni, voru þau talin af of ólíkum uppruna til að mega eigast. Þau giftu sig í Washington DC árið 1958 þar sem blönduð hjónabönd voru lögleg, en þegar þau sneru aftur til Virginíu voru þau handtekin og hjónaband þeirra úrskurðað ólöglegt. Þau fengu skilorðsbundinn fangelsisdóm með því skilyrði að þau færu úr Virginíu. Þau fluttu til Washington DC en þrifust þar illa, voru óvön borgarlífi og Mildred gat ekki hugsað sér að ala upp börn (þau eignuðust þrjú) fjarri fjölskyldu sinni. Þau gátu ekki heimsótt Virginíu nema sitt í hvoru lagi því annars áttu þau á hættu að vera handtekin.

Árið 1963 skrifaði Mildred til Roberts Kennedy, sem þá var dómsmálaráðherra og þegar orðinn þekttur fyrir afskipti sín af réttindabaráttu blökkumanna, en hann benti henni á Samtök um borgaraleg réttindi Bandaríkjamanna (ACLU). Með aðstoð samtakanna fóru Loving hjónin í mál við Virginíuríki og endaði málið loks hjá hæstarétti Bandaríkjanna árið 1967. Þar var þeim dæmt í vil, eða öllu heldur kvað dómurinn á um að það væri ólöglegt að meina fólki af sitthvorum kynþætti að ganga í hjónaband. Þarmeð gátu Loving hjónin flutt heim. Þetta varð einnig til þess að þau fjórtán ríki (sem öll tilheyrðu Suðurríkjunum) sem enn höfðu lög sem bönnuðu blönduð hjónabönd urðu að breyta þeim.* Alabama þrjóskaðist lengst við, felldi ekki lögin úr gildi fyrr en árið 2000.

Þetta hljómar allt mjög forneskjulegt. En um allan heim, og ekki síst í Bandaríkjunum, er enn verið að rífast um hver má giftast hverjum; um rétt samkynhneigðra til að giftast. Það er enn ólöglegt víða og þar sem það hefur verið leyft með lögum hefur lögunum sumstaðar verið snúið við (einnig á Indlandi). Rétt eins og í tilviki Loving hjónanna sem fóru til annars ríkis til að gifta sig, þá var hægt að svipta þau öllum réttindum þegar heim var komið og reka þau á flótta undan réttvísinni eingöngu vegna þess að þau elskuðu manneskju sem að annarra mati var rangur aðili.

Og allt er þetta réttlætt í nafni trúarinnar.

Dómarinn í Virginíu var svosem ekkert að vitna í Biblíuna beint, en hann þóttist nú samt vita um ætlun guðs síns þegar hann sagði þetta:

„Almáttugur Guð skapaði kynþættina hvíta, svarta, gula, malajíska og rauða, og hann setti þá hvern á sína heimsálfu. Ef ekki hefði verið fyrir íhlutun í þetta fyrirkomulag yrðu engin svona hjónabönd. Sú staðreynd að hann aðskildi kynþættina sýnir að hann ætlaðist ekki til að kynþættirnir blönduðust.“**
(Þetta er svo satt og rétt að það þýðir ekkert að tefla fram vísindalegum rökum gegn orðum dómarans, tildæmis allsekki þróunarkenningunni eða landrekskenningunni. Eða bara almennri skynsemi. Reyni það ekki einusinni.)

Þeir sem andæfa hjónaböndum samkynhneigðra finna klásúlu í Biblíunni sinni sem fordæmir kynlíf milli karla. En þó ekkert segi um samkynhneigðar konur þá fordæma þeir ástir millum kvenna, enda þykjast þeir vita um ætlun guðs síns í því efni líka. Sumir segja reyndar að það sé í lagi að vera samkynhneigður ef ekkert kynlíf er stundað, en það spinna þeir upp því það stendur heldur ekki í Biblíunni að sælir séu samkynhneigðir svo framarlega sem þeir eru skírlífir.

Trúin er skálkaskjól fyrir fordómafullt fólk sem trúir á yfirburði hvíta mannsins og niðurnjörvuð hlutverk karla og kvenna. Það ýmist finnur í trúarritum eða ímyndar sér hvað guðinn sinn myndi segja við því að karlar séu með körlum og konur séu með konum, og fólk með ólíkan hörundslit eigi ekki að blanda blóði. Það er rasísk og hómófóbísk afstaða. Mörg trúarrit, þar á meðal Biblían, styðja hana, og æstustu trúmennirnir prjóna svo við það sem á vantar. Þegar trúmennirnir sitja í dómarasæti, eða eru ráðamenn í ríkisstjórnum, þá er voðinn vís. En það er staðan sem ótal margir samkynhneigðir standa frammi fyrir víða um heim. Þeim er ekki bara bannað að giftast, heldur tjá sig, sýna sig og hreinlega vera til. Lagaleg réttindi fólks eru skert og það er jafnvel í lífshættu vegna þess að stjórnvöld gefa veiðileyfi á það vegna kynhneigðar þess. Það er hræðileg þróun, og alltaf réttlætt með vísun í trú. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan og ofsatrúarmenn í Bandaríkjunum — sem að auki stunda trúboð í Afríkuríkjum, s.s. Úganda — eiga þar stóran hlut að máli.

Ekkert skil ég í þeim sem vilja eiga eitthvað sameiginlegt með þeim.


___
* Þegar Loving hjónin giftust voru blönduð hjónabönd bönnuð í 24 ríkjum Bandaríkjanna.
**Eigin þýðing, enska textann má finna hér. Dómarinn nefnir malaískt fólk, og á þá við fólk frá Malasíu, en til hennar teljast: Indónesía, Filippseyjar, Singapúr, Brúnei, Austur-Tímor og Austur-Malasía.

Efnisorð: , ,

laugardagur, desember 14, 2013

Nafnleynd er alltaf mikilvæg í barnaverndarmálum

Mér finnst eins og ég verði að segja eitthvað um málið sem Ragnar Þór Pétursson lenti í og rakti fyrir skömmu. Af frásögn Ragnars að dæma hefur yfirstjórn skólamála í Reykjavík rannsakað áburð á hendur honum með mjög undarlegum hætti og leynt hann rannsóknargögnum. Hann er af öllu að dæma saklaus af því sem á hann var borið — barnaníði — en auðvitað hlýtur að vera óþægilegt að vita að fjöldi fólks í barnaverndarnefndum um land allt veit að hann var til rannsóknar. Barnaverndarnefndarfólk á auðvitað að gæta trúnaðar en það er eflaust erfitt fyrir Ragnar að treysta þagmælsku þeirra og því opinberar hann málið. Ragnar hefur á bloggsíðu sinni dekkað að mestu það sem ég hef að segja um málið, svo ég get bara sagt sammála eða ósammála.
„Það á aldrei, aldrei, aldrei að hunsa grun um ofbeldi gegn börnum. Slík mál á að rannsaka vel og vandlega.“
Gæti ekki verið meira sammála.
„En einmitt vegna þess að maður á að taka slík mál alvarlega á að sjálfsögðu að reyna að hindra það að fólk noti slík mál til að svala illsku sinni og heift. Og það á að rannsaka mál vel – ekki illa.“
Sammála.
„Mig langar að þakka þeim sem trúa á mig – en um leið langar mig að biðja þá um að hafa í huga að svona má ekki hugsa um kynferðisofbeldi. Það eru börn úti í samfélaginu okkar sem eru beitt ofbeldi af mönnum sem engin trúir neinu illu upp á. Barnaníðingar eins og aðrir ofbeldismenn geta litið út fyrir að vera dásamlegt fólk en eru svo bölvuð skrímsli. Kynferðisofbeldismál mega aldrei snúast um að safna í lið þeirra sem trúa meintum geranda og hinum sem trúa meintum þolanda. Það er nógu erfitt að fá raunverulega glæpamenn dæmda þótt við hlöðum okkur ekki upp samfélagslegum varnarveggjum fyrir þá sem verða fyrir sökum.“
Þetta er frábær punktur hjá Ragnari og mikilvæg skilaboð til þeirra sem standa með þeim sem sakaðir eru um kynferðisbrot — jafnvel þegar þeir eru vinsælir kennarar.

Ég er hinsvegar ósammála þeim sem vilja svæla fram þann sem kom með ábendinguna sem varð til þess að Ragnar Þór var rannsakaður. Enda þótt það hljómi líklegt af frásögn Ragnars að viðkomandi hafi hringt af illgirni þá getur líka verið að viðkomandi hafi skilið orð Ragnars (um að hann hefði samúð með barnaníðingum) á þann veg að hann væri hugsanlega barnaníðingur. Og viðkomandi hafi talið sér skylt að láta yfirmenn Ragnars vita, af borgaralegri skyldu og góðum hug. Það er vond tilhugsun að refsa eigi manneskju fyrir slíkt, jafnvel þótt hún hafi rangt fyrir sér. Rétt eins og fjölmiðlar mega ekki gefa upp heimildamenn (því annars hættir fólk að koma til þeirra mikilvægum upplýsingum) þá má það aldrei verða þannig að fólk sem tilkynnir grun sinn um brot á barnaverndarlögum sé svift nafnleynd. Alveg sama þótt einhver hafi misnotað það kerfi til að koma höggi á einhvern.

Það er algjörlega óásættanlegt ef fólk sem tilkynnir grun eða sannfæringu sína um brot á barnaverndarlögum geti átt von á hefnd þess sem hann ásakaði (með réttu eða röngu). Það getur orðið til þess að enginn myndi þora að láta vita af brotum gegn börnum, sannanlegu ofbeldi og vanrækslu. Eins og það hlýtur að vera vont að vera borinn röngum sökum þá er enn verra ef enginn kemur börnum til bjargar þegar það er hægt.fimmtudagur, desember 12, 2013

Kaupþingsdómur

Það ber auðvitað bara vott um yfirdrifinn hefndarþorsta að fyllast sigurgleði þegar fjárglæframennirnir og bankabófarnir í Kaupþingi eru loksins dæmdir í fangelsi. En kannski voru viðbrögð mín bara venjuleg réttlætiskennd, við feministarnir ruglum þessu tvennu gjarnan saman.

En hvað um það, þetta er gleðiefni dagsins.

Hreiðar Már Sigurðsson sætir fangelsi í 5 ár og sex mánuði, Sigurður Einarsson í 5 ára fangelsi, Ólafur Ólafsson 3 ár og 6 mánuði og Magnús Guðmundsson 3 ár. Dómarnir eru allir óskilorðsbundnir.

Sakborningar voru auk þess dæmdir til að greiða málsvarnarlaun, en þau hlaupa á tugum milljóna króna. Hreiðar Már var dæmdur til að greiða, rúmar 33 milljónir króna. Sigurður Einarsson rúmar 13 milljónir og Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson greiða tæpar 20 milljónir hver.


Al-Thani málið rakið.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, desember 10, 2013

En útgerðarmenn fá sínu að halda

Það var aldeilis smekkleg lausn sem ríkisstjórnin fann á vanda Landspítalans, að skera niður „bætur hinna lægst settu, svona til að jafna upp skattaafslátt hinna best settu sem veittur var nánast sama dag og stjórnin tók við völdum. Ekki dugir að skera niður bætur hinna lægst settu á Íslandi, heldur á líka að taka af því fé sem farið hefur í þróunaraðstoð", eins og Kristín Jónsdóttir orðar það.

Nú hefur Sigmundur Davíð forsætisráðherra þrætt fyrir að lækka eigi barnabæturnar enda þótt Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segi að sú leið verði farin. Annar hvor ráðherrann hlýtur að vera að ljúga, en í Danmörku „er það litið alvarlegum augum ef upp kemst að ráðherrar segi ekki satt.“

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, heldur því líka fram að barnabætur verði lækkaðar, auk þess sem hún er auðvitað kampakát yfir að þróunaraðstoð verði skorin niður (hér má lesa smápistil um hvernig Þróunarsamvinnustofnun ver fé), og hún segir stærilát að fólk eigi að finna að nú sé komin önnur stjórn. „Við vinnum þetta á þann hátt að landsmenn allir finna það að það sé búið að skipta um ríkisstjórn.“ Þau umskipti eru ekki til góðs, enda fær núverandi ríkisstjórn þá einkunn að hún sé „allt frá stofnun lýðveldisins er þetta ógeðslegasta ríkisstjórnin.“ Og er þó rétt að byrja.

En í dag lagði Katrín Jakobsdóttir fram fram breytingatillögur Vinstri grænna við fjárlagafrumvarpið, sem byggja á allt annarri hugsun. Illugi Jökulsson les þetta úr tillögum VG: „í fljótu bragði fela þær fyrst og fremst í sér að hætta við að lækka gjöld og skatta á sægreifa og auðkýfinga.“ Eitthvað hljómar það nú betur en ráðast gegn barnafólki og fátæku fólki í útlöndum.

Katrín segir að „við teljum í raun og veru að Alþingi hafi raunhæfan valkost við þá niðurskurðarstefnu sem ríkisstjórnin hefur markað. Okkar tillögur snúast um að hefja uppbyggingu á almannaþjónustu í þágu fólksins í landinu og afla þá tekna, til að mynda með því að hækka á ný sérstakt veiðigjald og virðisaukaskatt á hótelgistingu.“

„Við gerum ekki ráð fyrir lækkun barna- og vaxtabóta og við gerum raunar ráð fyrir því að efla fæðingarorlofssjóð og við gerum ráð fyrir því líka að efla og bæta í þróunarsjóðina. Þannig að eins og þú heyrir bera okkar tillögur vott um aðra pólitík og aðra forgangsröðun,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Þessi ólíka forgangsröðun sýnir best muninn á vinstri ríkisstjórninni sem sat þar til í vor og frjálshyggjustjórninni sem tekin er við. Ég er ekki í neinum vafa hvor stefnan er betri, og hvora ríkisstjórnina ég vildi hafa við völd.

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, desember 03, 2013

Dagar mikilla tíðinda

Undanfarnir dagar hafa verið mikilla tíðinda. Á laugardag kynnti ríkisstjórnin skuldaniðurfærsluna og það hefði sannarlega þurft að eyða mörgum dögum og dálksentimetrum í að ræða hana, kosti hennar og galla. Ég er auðvitað í liði þeirra sem er á móti henni bara til að vera á móti, en finnst nú samt að það séu réttmætar athugasemdir að benda á að bankaskatturinn er ekki í hendi og „leiðréttingin“ eigi eftir að hljóta þinglega meðferð og samþykki. Hagsmunasamtök heimilanna eru hæfilega ánægð með tillögurnar „eins langt og þær ná“ og vara við að ríkissjóður taki þessa áhættu. Það eru því engin húrrahróp úr þeirri áttinni.

Í leiðréttingartillögum kemur fram að lánþegum er ætlað að taka út séreignalífeyrissparnað sinn til að greiða inná höfuðstólinn en eru þá bara að nota sína eigin peninga og það kallast varla skuldaniðurfærsla, auk þess sem láglaunafólk er líklega ekki upp til hópa með séreignasparnað svo að sú leið gagnast ekki öllum. Þá efast ég stórlega um að 'leiðréttingin' komi 80% heimila til góða, hvað með fólk sem tók húsnæðislán í óverðtryggðum erlendum gjaldeyri?

Leiðréttingin er minni
en kosningaloforð Framsóknar gengu út á, hvað þá ef miðað er við digurbarkalega gagnrýni Sigmundar Davíðs á allt sem síðasta ríkisstjórn gerði. En kannski er þetta allt saman gott og frábært, engin verðbólga fer af stað og allir verða glaðir. Sigmundur Davíð hefur áður veðjað á ólíklega niðurstöðu (Icesave) og kannski gengur þessi skuldaniðurfærsluleið upp sem hann hefur veðjað á núna. Hann stendur reyndar ekki einn við veðbankann, hann hefur formann Sjálfstæðisflokksins með, en áður hefur formaður þess flokks stutt við kosningaloforð Framsóknar þvert gegn allri skynsemi og fundist að „væntanlegur skaði fyrir samfélagið væri ásættanlegur kostnaður“. Við verðum að vona að það fari ekki eins illa og síðast.

Vodafone gagnalekinn kom svo einsog og sérpöntuð smjörklípa frá Tyrklandi, allir urðu uppteknir af hver sagði hvað við hvern og jesúminn-þvílíkt-orðbragð. Mörgum hlýtur að hafa liðið illa sem sáu aðra smjatta á einkaskilaboðum sínum, og ég lái þeim það ekki, eiginlega er þetta bara allt hið ferlegasta mál. (Það er ekki oft sem ég er sammála Ragnari Þór Péturssyni, en ég tek undir hvert orð í þessum pistli hans.)

Og svo rann upp mánudagsmorgunn, ekki friðsæll og ekki fagur. Hafi Vodafone lekinn verið áfall fyrir marga þá hlýtur sú tilfinning að heyra orðið „skotbardagi“ notað í frétt af innlendum vettvangi að hafa verið jafn vond fyrir okkur öll. Að lögregla hafi skotið mann til bana er áfall, „sakleysi íslenzks samfélags glataðist“, eins og Ólafur Þ. Stephensen orðar það (ég hefði samt í hans sporum sleppt því að nota „fumlaus“ í þessu samhengi). Og aldrei slíku vant ætla ég ekki að álasa lögreglunni. Það var kerfið sem brást. Aðstandendur mannsins sýna mikið æðruleysi með því að vera fyrst og fremst þakklátir fyrir að hann varð engum að bana.

Eftir allar þessar fréttir, allar sögulegar og a.m.k. tvær þeirra verulega vondar (hugsanlega fleiri), er því mikill léttir að geta hlegið. Og það gerði ég þegar ég las frétt um að utanríkisráðuneytið kvarti yfir að ESB hafi einhliða og án fyrirvara hætt samstarfi! Gunnar Bragi Sveinsson hefur auðvitað haldið að ESB ætlaði að borga IPA verkefni eins og ekkert hefði í skorist — 'ekkert' eins og það að hann hafi sjálfur einhliða og án fyrirvara sagt upp aðildarviðræðum við ESB. En nú er hann bara alveg hissa. Þá hló marbendill.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, desember 01, 2013

„Meðan þið talið ekki um þessi mál eða látið eins og áhyggjur okkar séu léttvægar“

Hrafnhildur Ragnarsdóttir skrifaði ágætan pistil í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem vakið hefur upp heift andfeminista. Karlmenn stíga fram í röðum til að segja að vegna þess að þeir séu engir nauðgarar sjálfir komi þeim ekki kynferðisbrot annarra karla við. Þeir sem lesa þessar yfirlýsingar eru allskonar karlar, sumir kynferðisbrotamenn, núverandi og tilvonandi. Það hlýtur að vera huggun fyrir þá að vita að aðrir karlmenn muni aldrei atyrða þá fyrir að viðra kvenfyrirlitningu sína með orði eða æði, að þeir verði ávallt stikkfrí í augum karlkyns vina sinna, vinnufélaga og ættingja.

Margt hef ég hugsað ófagurt meðan ég hef lesið athugasemdirnar við pistil Hrafnhildar og ádeilupistil andfeministans Evu Hauksdóttir, en þegar ég sá þetta fína innlegg Ásu Bjargar í umræðuna ákvað ég að stela því og birta.

Ása Björg skrifar:
„Mér verður oft illt þegar ég les skrif Evu en aldrei þó sem nú. Ég þekki enga kona sem hefur ekki orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi af einhverju tagi.
Ég ætla að fá að endurtaka þetta í stórum stöfum

ÉG ÞEKKI ENGA KONU SEM EKKI HEFUR ORÐIÐ FYRIR KYNFERÐISLEGRI ÁREITNI EÐA OFBELDI AF EINHVERJU TAGI.

Kannski er Eva ein af þessum örfáu heppnu sem ekki hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni og óvelkomnum kynferðislegum tilburðum, hvort er orð, snerting, líkamlegt atlæti eða ofbeldi. Ég samgleðst henni,.Ég vildi gjarnan vera í hennar sporum. Ég óska konum sem ég þekki að vera í hennar sporum... (reyndar líka konum sem ég þekki ekki.)

En ömurlegi sannleikurinn er sá að við erum það ekki og verðum aldrei.

Þýðir þetta að ég hati karlmenn? - Svar mitt er nei, en ég tek ykkur með fyrirvara
Þýðir þetta að ég haldi að karlmenn í heildina geti gert betur - Svar mitt er skilyrðislaust já

Meðan karlmenn eru ekki í liði með okkur þá eru þeir á móti okkur. Afhverju segi ég það?
Jú meðan ég þarf að hugsa mig tvisvar um áður en ég fæ mér í glas á bar, eða fer út úr húsi yfir höfuð.
Meðan ég þarf að horfa í kringum mig þegar ég geng ein heim að næturlagi.
Meðan ég þarf að fylgjast með öðrum konum í kringum mig til að gæta að því að þær séu ekki í vandræðum þá verð ég að líta á það sem svo að þið séuð ekki með mér í liði, annars er ég að bjóða hættunni heim.

Þarna gætuð þið komið sterkir inn, ágætu karlmenn.
Ef þið mynduð gæta allra kvenna eins og um systur ykkar væri að ræða þá væru þessi mál ekki eins mörg, en meðan þið gerið það ekki, meðan þið stöðvið ekki vini ykkar, bræður og frændur þá mun þetta ekki lagast. Meðan þið talið ekki um þessi mál eða látið eins og áhyggjur okkar séu léttvægar þá munum við ekki geta treyst ykkur.

Meðan það er t.d. í lagi að fara með niðurlægjandi gamanmál og grín á kostnað kvenna og meðan farið er með þær sem kynferðislega hluti þá munum við ekki finna fyrir öryggi og þið sem hópur verðið áfram í hinu liðinu.

Ykkur þykir þetta kannski saklaust en viðhorf fólks stjórna gerðum þeirra og meðan það er ástættanleg að líta á kvenfólk sem hluti eða ílát þá munum við halda áfram að hræðast ykkur.

Ætlum við öllum körlum að vera eins? - NEI

Stóra spurningin er hins vegar: hvernig í ósköpunum eigum við að greina á milli ykkar?“

Í athugasemdakerfunum má sjá hvernig nánast allir karlmennirnir gera nákvæmlega þetta: „tala ekki um þessi mál eða láta eins og áhyggjur okkar séu léttvægar“. Þeir segja að sér komi þetta ekki við. Fara svo að tala um eitthvað annað, og snúa blinda auganu að kynferðisbrotum sem [aðrir]karlar fremja á konum. Svei þeim.

Þrátt fyrir þetta eggjar Ása Björg karlmenn enn í öðru innleggi:
„Gangið fram með góðu fordæmi og gerið kynferðislega áreitni og ofbeldi að umtalsefni í hópum karla og lýsið yfir að slík hegðun sé ekki ásættanleg og verði ekki samþykkt.“
Þessi innlegg Ásu Bjargar eru verulega góð.

___
Viðbót: Það er athyglisvert að bera gjörningaveðrið kringum pistil Hrafnhildar saman við pistil Guðna R. Jónassonar frá því fyrir viku þar sem hann ræðir sama mál. Hann uppskar aðeins fjórar neikvæðar athugasemdir. En það er auðvitað ekki sama hver skrifar.

Efnisorð: , ,