laugardagur, apríl 30, 2011

Skrímslið Stígamót sem nærist á nauðgunum og ýtir undir þær

Páll Scheving Ingvarsson, formaður þjóðhátíðarnefndar Vestmannaeyja segir að samtökin Stígamót nærist á vandamáli, þ.e.a.s. nauðgunum.
„Það er ljótt að segja það, en ég segi það samt - það er eins og samtökin nærist á því að vandamálið sé til staðar og það reynir frekar að ýta undir það heldur en hitt.“

Formaður þjóðhátíðarnefndar tók þannig til orða að vandinn virtist vera meiri á útihátíðum þar sem starfsmenn Stígamóta eru.

Þetta er varla svaravert.

Þannig að í stað þess að eyða orku í að skrifa hér langan pistil þar sem þessi skítahugsunarháttur er greindur ofan í kjölinn þá bendi ég á pistil sem ég skrifaði í ágúst 2006, að nýafstaðinni verslunarmannahelgi.

Fyrir þau sem ekki nenna að elta tengilinn og lesa alla færsluna þá er hér til hagræðis smá bútur með helstu atriðum:

Um nokkurra ára skeið voru Stígamótakonur með aðstöðu á Þjóðhátíð og gerðu fjölmiðlar veru þeirra ávallt nokkur skil. Sem varð til þess að almenningur allur fékk að vita — sem almenningur allur vissi svosem fyrir — að á hverri Þjóðhátíð er konum nauðgað. Þetta varð hinsvegar til þess að skyndilega þurfti ekkert á Stígamótakonum að halda í Eyjum og aðstoð þeirra var afþökkuð. Lækkaði þá auðvitað talan sem fjölmiðlar tiltóku sem tilkynnt nauðgunarmál. Það að fjöldi kvenna leitar til Stígamóta allt árið vegna þeirra árása sem þær verða fyrir um verslunarmannahelgina er ekki gert að umtalsefni, nema þegar Stígamót taka það fram.

Stígamót eru orðin ógurleg grýla hjá mótshöldurum og þeir gera allt til að koma í veg fyrir að konur geti notfært sér aðstoð þeirra á staðnum, það er ekki þeirra vandamál hvað þær gera svo seinna því þá er ekki verið að fjalla um verslunarmannahelgina sem slíka.


Þessi tónn hjá formanni þjóðhátíðarnefndar er því ekkert nýr, en hann er jafn ógeðfelldur fyrir því.

Svo er enn og aftur spurning hvernig stendur á því að karlmenn stíga ítrekað fram á vettvang til að lýsa slíkum skoðunum á nauðgunarmálum. Nú ættu þeir allir að vita betur — en það er eins og þeir forherðist bara.

Efnisorð: , ,

föstudagur, apríl 29, 2011

Stutt og sársaukalítið (þó ekki væri nema miðað við öll hin ósköpin)

Enda þótt ég hafi oft og iðulega kvartað undan beinum útsendingum frá ýmiskonar boltaleikjum þá ætla ég ekki að segja styggðaryrði um útsendinguna* frá brúðkaupi þarnæsta kóngs Bretlands og þeirrar konu sem á að ala af sér þarþarnæsta kóng (eða drottningu). Hinsvegar finnst mér rétt að spyrja sisvona útí loftið** hvort ekki sé ástæða til — svona úrþvíað nægur peningur er til í beinar útsendingar — að sýna opnunartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu?

Þetta verður enginn smá viðburður. Í fyrsta lagi hefur undirbúningur að tónlistarhúsi staðið áratugum saman,*** í öðru lagi fær hin sextíu ára gamla sinfóníuhljómsveit í fyrsta skipti almennilegt húsnæði til að halda tónleika,**** og í þriðja lagi er dagskrá hljómsveitarinnar glæsileg og ekki sakar að hinn rómaði Vladimir Ashkenazy heldur um tónsprotann.

Dagskrá:
Þorkell Sigurbjörnsson: Velkomin Harpa
Edvard Grieg: Píanókonsert — einleikari: Víkingur Heiðar Ólafsson
Ludwig van Beethoven: Sinfónía nr. 9


Burtséð frá því hvort fólk hafi áhuga á dagskránni, stjórnandanum, einleikaranum eða sinfóníuhljómsveitinni yfirleitt, þá er full ástæða til að sjónvarpa þessari athöfn inná hvert heimili, þó ekki væri nema til að sýna okkur skattborgurum og útsvarsgreiðendum hvað við erum að fá fyrir peningana.

Ríkissjónvarpið — sem telur ekki eftir sér að sýna brúðkaup þarnæsta þjóðhöfðingja erlends ríkis heilan dag og boltaleiki dag eftir dag vikum saman — ætti að sjá sóma sinn í að sýna opnunartónleikana. Það tekur fljótt af, þetta er bara ein kvöldstund.

___
* Fólk sem hefur miklar mætur á kóngafólki er eitthvað svo meinlaust og krúttlegt að ég hef ekki brjóst í mér að gagnrýna það.
** Kannski að ég skrifi Páli Magnússsyni líka og böggi hann örlítið, svona úr því að ég er nýlega búin að dást að því framtaki að skrifa fjölmiðlum.
*** Samtök um tónlistarhús voru stofnuð árið 1983.
**** Íslenska óperan verður líka í Hörpu, og er líka í fyrsta sinn að fá almennilegt húsnæði, en hún kemur hinsvegar ekki við sögu á opnunartónleikunum.

Viðbót: Í Fréttablaðinu 30. apríl stendur að sýnt verði frá opnunarhátíðinni í beinni útsendingu á RÚV. Ég hafði heyrt að ekki yrði sýnt frá opnunartónleikunum en ekki af þessari opnunarhátíð, sem haldin er rúmlega viku síðar. Ég vissi ekki um hana. En í stað þess að láta pistilinn hér að ofan hverfa þá skal ég þá bara reyna að vera þakklát fyrir þó það að opnunarhátíðin verði sýnd í Sjónvarpinu, enda þó ég hefði svo mikið frekar viljað sjá opnunartónleikana.
— Eftir stendur þó sú gagnrýni að menningarviðburðir eru afar sjaldan sýndir í beinni útsendingu í Sjónvarpinu.
Viðbót enn síðar: Dagskrárstjóri RÚV segir að Sjónvarpið hafi ekki fengið leyfi til að sjónvarpa beint frá opnunartónleikunum. Tónleikar verða þó endurteknir með sömu dagskrá og verða þeir teknir upp og sýndir í Sjónvarpinu. Gott.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, apríl 28, 2011

Steinn. Glerhús.

Það var sérkennileg málsvörn hjá formanni Sambands íslenskra loðdýrabænda sem skrifaði grein vegna „rangfærslna“ samtakanna Velbú. Hann segir að sú fullyrðing að minkar á Íslandi séu haldnir í mjög litlum búrum standist ekki nema menn sjálfir „gefa sér hvað er stórt og hvað er lítið.“ Talsmaðurinn passar sig samt vandlega á að nefna ekki hver stærð búranna er.

Þetta er þó ekki aðalástæða þess að mér finnst að talsmaður loðdýraræktenda hefði átt að fá einhvern til að lesa yfir öxlina á sér og gefa sér ráðleggingar um málsvörnina, heldur þessi orð hans í lok greinarinnar:

„Það er afar einföld leið til að búa til „sannleika" með því að hamra stöðugt á sömu hlutunum. Þetta tókst ákveðnum aðilum í Evrópu á síðari hluta þriðja áratugarins og fyrrihluta þess fjórða. Slíkar fullyrðingar voru engum til bóta og til lítils sóma.“

Það er nógu slæmt að láta sér detta í hug að ásaka fólk sem berst fyrir bættum aðbúnaði dýra fyrir að beita sömu aðferðum og nasistar, en það versnar heldur þegar litið er til þess sem sami maður skrifar í dálkinn við hliðina um aftökuaðferðina sem notuð er á minkana:

„Það er rangt sem fram kemur hjá Vel-búi að minkar hér á landi séu oftast aflífaðir með útblæstri frá vélum. Það gera nokkrir en flestir nota sérstaklega útbúið gas.“

Regla númer eitt: Ekki líkja fólki við nasista þegar þú stundar að drepa aðrar lífverur með gasi.

Efnisorð:

miðvikudagur, apríl 27, 2011

Forskrift bréfa: svona á að gera þetta

Nú er komið að dagskrárliðnum stolið efni. Það er reyndar kirfilega merkt höfundi sínum og ég hyggst sýna því eins mikinn sóma og mér er unnt, en stytta það þó örlítið. Hér að neðan má semsagt lesa bréf Hildar Lilliendahl til fréttamiðilsins Vísis, sem hún sendir af gefnu tilefni. Hún hefur áður skrifað um meint orðalag nauðgunarfrétta en nú hefur hún lagst í eftirtektarverð bréfaskrif. (Auk þess má lesa á bloggi Hildar tvö önnur bréf hennar, þar af annað til höfundar ritgerðar um hina leyndu þjáningu búfjár. Þó ég sé sammála henni um að þakkarvert sé að vekja athygli á því málefni sé ég ekki ástæðu til að birta það bréf hér enda allt annars eðlis en hin.) En hér eru semsagt hin hárbeittu og hárréttu bréf:

~~~~~~~
Kæri Vísir.
Í dag birtir þú frétt þar sem fjallað var um mann sem nýlega var KÆRÐUR FYRIR MEINT KYNFERÐISBROT.

Ég ímynda mér að kona hafi gengið inn á lögreglustöð og sagt: „Ég hefi orðið fyrir meintri árás. Gæti ég fengið að kæra hana?“ Eða hvað? Var það ekki það sem gerðist? Þér til upplýsingar: það hefur aldrei nokkur maður verið kærður fyrir meint brot. Hugulsemi þín gagnvart kynferðisbrotamönnum er gengin of langt.

~~~~~~~
Kæri Vísir.
Í dag birtir þú frétt þar sem þú segir menn vera grunaða um nauðgun. Í fyrirsögn. Þú ítrekar það í upphafi meginmáls að þeir séu grunaðir. Svo segir þú atvikið EIGA AÐ HAFA ÁTT SÉR STAÐ.Sama dag birtirðu frétt um líkamsárás. Í orðalagi þeirrar fréttar er ekki að sjá að nokkur vafi leiki á að brotið hafi verið framið.Eins og sjá má var þarna ráðist á menn. Án vafa. Fréttin sem ekki birtist var svohljóðandi:
Fjórir grímuklæddir menn eiga að hafa ráðist á tvo menn í Fischersundi í Reykjavík um eitt leytið í nótt vopnaðir barefli. Mennirnir segjast hafa stökkt meintum árásarmönnum á flótta og komið sér sjálfir á slysadeild til aðhlynningar og látið lögreglu vita.

Einn meintu árásarmannanna mun hafa verið með hokkígrímu fyrir andlitinu og annar á að hafa verið vopnaður rörstöng. Lögreglan segir að talið sé að meintu árásarmennirnir séu í kring um tvítugt.

Ég hef reynt að benda á þennan ömurlega tvískinnung og þessa augljósu samúð með kynferðisbrotamönnum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Og það bara mjög nýlega og mjög víða. Ég sleppi Facebook, Twitter og Barnalandi og öðru slíku og læt nægja að benda á greinar eftir mig um nákvæmlega þetta hér á mínu eigin bloggi, á Smugunni og í Grapevine.

Mér þætti vænt um að þið reynduð að minnsta kosti að breiða aðeins betur yfir kvenhatrið, þetta er svo vandræðalega augljóst.

~~~~~~~
Virðingarfyllst,
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir.

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, apríl 26, 2011

Hvarf ekki heldur skrapp í frí

Mér finnst alltaf jafn skrítið að heyra fólk segja að millistéttin á Íslandi sé að þurrkast út, verið sé að eyða millistéttinni, og að hún sé fátæk.* Ég skal ekki efast um að einhverjir einstaklingar innan hennar hafi það helvíti skítt, svona miðað við 2007 lifistandardinn (verra hafa þó öryrkjar það, og áttu þeir þó ekki betri tíð 2007), og sem afleiðingu eigin skuldsetningar, en ég get ekki með nokkru móti séð að allur hópurinn sé á heljarþröm.

Ekki nóg með að önnur hver fjölskylda í kringum mig hafi farið til útlanda um páskana (Flórida kemur sterkt inn vorið 2011) heldur hefur sumt af því fólki farið í allar þær golf- og skíðaferðir sem því virðist detta í hug. Fólk hefur verið að kaupa bíla, tjaldvagna (eða hvað þessir skuldahalar heita) og auðvitað nýja síma og svoleiðis nokk; og þó margt af því stynji undan hækkuðu bensín- og matarverði þá virðist það ekki koma niður á getu þess til að kaupa það sem því sýnist.

Meðan svona margt fólk í millistétt getur leyft sér þetta er varla hægt að tala um að öll millistéttin sé á barmi útrýmingar.

Millistéttin er ekki horfin, hún skrapp bara til Flórida.

___
* Hvaðan kemur annars þessi skyndilega stéttarvitund millistéttarinnar? Ég minnist þess ekki að menn hafi barið sér á brjóst og sagst tilheyra millistétt hér á árunum fyrir hrun; þá þóttust flestir búa í stéttlausu þjóðfélagi þar sem „allir hefðu það svo gott“.

Efnisorð:

laugardagur, apríl 23, 2011

Eitt sumar á landinu bláa

Það eru góð tíðindi að stofnuð hafi verið samtök um dýravelferð. Samtökin ætla að beita sér gegn illri meðferð á dýrum í búskap, þ.á.m. ræktun svína, hænsna og loðdýra. Verksmiðjubúskapur með dýr er einhver ömurlegasta birtingarmynd fyrirlitningar mannkyns á öðrum dýrategundum og það er nauðsynlegt að reyna að sporna sem mest við slíkum iðnaði, bæði með því að taka fyrir einstaka þætti (eins og þröng búr) og með það markmið að verksmiðjuræktun á dýrum verði lögð af.

Undanfarið hafa komið fram upplýsingar um að grísir séu geltir án deyfingar og virðist nú sem taka eigi á því máli. Virðist svo sem þessi nýju samtök, Velbú — samtök um velferð í búskap, eigi heiðurinn af því að í framtíðinni fái grísir deyfingu og að dýralæknir framkvæmi aðgerðina. Það er sannarlega skref í rétta átt.

Meðan svona verksmiðjuframleiðsla er við lýði er lágmark að fólk sem á annað borð vill borða dýrakjöt og dýraafurðir geti ákveðið hvort það vilji kaupa egg úr hænum sem eru lokaðar í búrum, eða kjúklinga- og svínakjöt sem framleitt er með sama hætti, eða hvort eggin séu úr frjálsum hænum og að kjúklingarnir og svínin hafi fengið að sjá dagsbirtu og hreyfa sig eðlilega, jafnvel hafi fengið að fara út stöku sinnum á sinni stuttu ævi. Öll dýr eiga skilið ferskt loft og frjálsræði í hreyfingu, og vera hlíft við að geta af sér afkvæmi þar til líkaminn gefur sig; reynum að koma því þannig fyrir að búskapur þar sem dýr eiga góða ævi sé að minnsta kosti valkostur ef ekki ríkjandi form.

Það er ekki bara bragðið af lambakjötinu sem batnar þegar lömbin hafa fengið að skoppa upp um allar heiðar, heldur er það mannúðlegra að lambið hafi fengið að lifa þó ekki væri nema eitt sumar frjálst.

Efnisorð:

þriðjudagur, apríl 19, 2011

Á nú að fara að banna börnum að horfa á klám og þaraðauki hampa einhverjum kéllingum og ekki einu sinni berrössuðum?

Ég var satt að segja ekkert búin að kynna mér fjölmiðlalögin sem voru sett í síðustu viku og var því ekki búin að mynda mér skoðun á þeim. Þessvegna var ég mjög ánægð með að sjá fréttaskýringu um lögin í Fréttablaðinu og las hana af athygli. Blaðamaðurinn sem hana skrifar tekur fram að úttekt hans sé ekki tæmandi og ég get því ekki vitað hvað mér finnst um það sem hann sleppti en það sem hann fjallar um og er í lögunum líst mér vel á.

Það væri helst þetta með evrópska efnið sem sjónvarpsstöðvarnar eiga nú að sýna sem oftast og þá sérstaklega þegar tiltekið er að hluti þess verði að vera frá sjálfstæðum framleiðendum, sem gæti þvælst fyrir sjónvarpsstöðvum sem sýna aðallega eða eingöngu bandarískar hasarmyndir og froðuþætti ýmiskonar, en að öðru leyti skil ég ekki alveg afhverju fjölmiðlar eru svona á móti þessum lögum. Nema þeim þyki mjög nauðsynlegt að demba yfir börn efni „sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám og tilefnislaust ofbeldi“? Hömlur á því að beina auglýsingum sérstaklega að börnum, og þaraf auglýsingum um óholl matvæli, þykja mér nú meira frábærar en gagnrýnisverðar.

Þannig að ég er bara sátt með nýju fjölmiðlalögin, svona miðað við það sem kom fram í þessari fréttaskýringu.

Ég sannfærðist svo endanlega um ágæti þeirra þegar ég las, nokkrum blaðsíðum aftar, gagnrýni Jakobs Bjarnar Grétarssonar á lögin. Jakob Bjarnar er líklega einhver harðasti fylgjandi vændis, kláms og annarar verslunar með konur og hatast mjög út í feminista af þeim sökum. Það er vandfundin sú umræða á netinu um málefni strippstaða, útgerð vændiskvenna (en Jakob skrifaði sögu Catalinu svona sem sönnun fyrir tilvist hamingjusömu hórunnar) eða um feminisma almennt þar sem Jakob ryðst ekki inn á vettvanginn til að lýsa harmi sínum yfir forræðishyggju feminista og þeirri ósvinnu að konur megi ekki ganga kaupum og sölum. Jakob Bjarnar hefur svo oft varið málstað Geira í Goldfinger að ég er nokkuð viss um að hann er launaður starfsmaður hans við þessi skrif öllsömul. Jæja, nema hvað, Jakob er auðvitað á móti fjölmiðlalögunum, ekki síst vegna þessarar klásúlu:

„Til að fylgjast með framvindu jafnréttismála getur fjölmiðlanefnd óskað eftir upplýsingum frá fjölmiðlaþjónustuveitendum um greiningu starfsfólks eftir kyni og stöðu (starfsheitum). Þá getur fjölmiðlanefnd óskað eftir samstarfi við fjölmiðlaþjónustuveitendur um upplýsingar um birtingarmyndir kynjanna, þ.e. hlutfall kvenna og karla í fréttum, bæði viðmælendur og fréttamenn, hlutfall kynjanna í unnu dagskrárefni o.fl. Hér getur einnig verið um að ræða upplýsingar um hvernig fjölmiðlaþjónustuveitendur vinna gegn staðalímyndum kynjanna og efla stöðu kvenna á og í fjölmiðlum."


Þetta finnst Jakobi Bjarnari alveg síðasta sort.

Betri meðmæli fást ekki með fjölmiðlalögunum.

Efnisorð: , , , ,

mánudagur, apríl 18, 2011

Nöfn og áfangastaður

Fyrr á árinu nöldraði ég yfir því að notað væri orðalagið „að draga þátttakendur eða vinningshafa út“ í stað þess að tala um að draga nafn fólks út (úr hatti eða potti). Benti ég máli mínu til sönnunar á flenniauglýsingu þar sem nánast var hótað að draga lítil börn út og senda þau til óskilgreindra útlanda. Þegar ég sá svo auglýsinguna ganga aftur í blaði nú um helgina hvessti ég augun — og komst að því mér til mikillar undrunar að búið er að breyta orðalaginu.

Það hafa greinilega fleiri en ég látið þetta fara í taugarnar á sér.


Efnisorð:

föstudagur, apríl 15, 2011

Hugsjónir kljúfa ei hægri

Enda þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi hingað til verið málsvari allra atvinnurekenda þá er afstaðan til ESB helsta orsök klofnings flokksins sem varð augljós í Icesave umræðunni. Klofningur Sjálfstæðisflokksins stafar af togstreitu milli ESB-hatandi kvótaeigenda í Landssambandi íslenskra útvegsmanna annarsvegar, sem eru studdir af Mogganum, en þeir óttast að ekki sé hægt að fella gengi þegar það þykir henta og þá ekki síður reglugerðir Evrópusambandsins og svo auðvitað fiskiskip annarra þjóða. Hinsvegar eru innan Sjálfstæðisflokks þeir sem vilja ganga í ESB, aðallega vegna upptöku evrunnar og eru það þeir sem reka verslunar- og þjónustufyrirtæki margskonar.

Bjarni Ben veðjaði á síðari hópinn, kannski vegna þess að útvegsmenn eru illa þokkaðir fyrir allt kvótabraskið, og mælti því fyrir samningaleið Icesave málsins sem myndi þá að öllum líkindum liðka fyrir ESB aðild. En helsti fjölmiðill LÍU með ritstj. í stafni stýrði hatrammri áróðursherferð gegn Icesave samningnum, ESB viðræðum og öllum þeim sem leggja nafn sitt við slíkt og hinir fjölmiðlarnir sem styðja Davíð heilshugar, ÍNN og Útvarp Saga, lögðust á árarnar þá var þeim hluta almennings sem hefur alla sína visku úr þeim miðlum sá kostur vænstur að segja nei við Icesave samningnum, enda búið að telja þeim trú um að annað væri landráð. Einhverstaðar á leiðinni var því líka komið á framfæri að það fólk sem kysi „já“ væri með einhverjum hætti að segja „já við Icesave“ eins og það hefði sérstaklega lagt blessun sína yfir opnun netbankaútibúa Landsbankans í Bretlandi og Hollandi og því Gullna hliði sem Icesave reikningarnir reyndust vera að „money heaven“ þar sem innistæður þarlendra hurfu til feðra sinna.

Nú bíður Bjarna Ben það hlutverk — sem ekki er sérlega líklegt að honum takist þrátt fyrir vantrauststillöguna sem hann bar á ríkisstjórnarflokkanna sem hann fylgdi að málum í aðdraganda kosninganna fyrr í mánuðinum — að reyna að sætta sjónarmið verslunar og þjónustu við sjónarmið kvótaeigenda undir þeim formerkjum að allir eigi þeir þó það sameiginlegt að hata vinstri stjórnir, forræðishyggjuna og skortinn á óheftum markaðsviðskiptum. Líklega þéttast raðirnar fljótlega um það, enda eru þessir aðilar alltaf fyrst og fremst með hagnað í huga og markaðshlutdeild, ja nema þeir sem stjórna bakvið tjöldin, þeir vilja fyrst og fremst bara stjórna því það fer þeim svo vel.

Klofningurinn innan Vinstri grænna er af öðrum toga. Fólk sem aðhyllist sósíalisma, kommúnisma, félagshyggju eða hvað öll þessi afbrigði vinstri flokka og hreyfinga eru kölluð, er fólk með hugsjónir. Hugsjónir sem byggja á ósk eftir samfélagi þar sem ójöfnuður og misskipting gæða eru óþekkt, þar sem hver og einn á sama rétt og sama aðgengi að menntun, heilsugæslu, húsnæði, atvinnu og lífsgæðum. Vinstri græn hafa þaraðauki lagt áherslu á umhverfisvernd og feminisma (feminismi er vitaskuld partur af því að vilja ekki ójöfnuð og misskiptingu gæða) og hefur verið í fararbroddi hvað það fyrrnefnda varðar hér á landi, en Samfylkingin er lítill eftirbátur VG í feminiskum áherslum enda þótt umhverfisvernd hafi fyrir löngu verið afskrifuð, eða strax eftir að loforðið um Fagra Ísland var svikið og enn er mikill vilji innan Samfylkingarinnar til að hotta á stórvirkjanaklárinn. En það er þetta með hugsjónirnar, það er erfitt að bakka með þær eða leggja þær til hliðar til þess að greiða fyrir öðrum málum. Margar vinstri hreyfingar gegnum tíðina hafa einmitt klofnað og splundrast í frumeindir sínar vegna þess að fólk var ófært um málamiðlanir vegna þess að það taldi sig vera að svíkja hugsjónir sínar með því að taka slíkt í mál.

Þessvegna er klofningurinn í VG skiljanlegur að því leytinu að hugsjónirnar skipta flokksmenn miklu máli og þá þingmenn einnig. Þau sem ekki vilja málamiðlanir eru virkilega trú sannfæringu sinni um að þeirra leið sé sú rétta. Á móti kemur að eina leiðin til að vinstri stjórn sé við lýði á Íslandi — stjórn sem boðar félagshyggju en hafnar frjálshyggju — er sú að Vinstri græn og Samfylkingin séu saman í stjórn. Og til þess þarf málamiðlanir. VG gekk að skilyrði Samfylkingarinnar um ESB með því fororði að Vinstri græn myndu kjósa gegn aðild ef þeim svo sýndist, og að því gekk Samfylkingin. Við þessi sem erum ekkert hrifin af ESB (en Stefán Pálsson hefur bent á að langflestir innan VG séu á móti ESB, ég er þó ekki flokksbundin þannig að líklega átti hann ekki við mig; né fer ég í Vesturbæjarlaugina eða held með KR) sættum okkur við þetta því betra er að vita hvað aðild myndi þýða fyrir okkur og leyfa almenningi öllum að kjósa en segja þvert nei bara til að segja nei. Þetta virðist þó hafa plagað suma þingmenn VG óskaplega, og það væri svosem í lagi, ef þeir hefðu ekki farið að láta það hafa áhrif á stuðning sinn við ríkisstjórnina og þá stefnu VG að vera í stjórn með hinni ESB sinnuðu Samfylkingu.

Nú hefur margsinnis komið fram að miðað við þann stóra skítahaug sem blasti við þegar núverandi ríkisstjórn tók við, hefur gengið bærilega að reka búskapinn. Sumt úr haugnum virðist vera hægt að nota í áburð, annað til upphitunar. Af hluta hans leggur ennþá óbærilegan fnyk. Hreinsunarstarf stendur enn yfir. Við hin viljum þó halda áfram skítmokstrinum enda þótt ekki sé alltaf þægilegt að verða fyrir slettunum og viðbjóðsgrettan sé umþaðbil að festast á andlitum okkar. Það þarf miklar hugsjónir og háleitar til að geta látið sér sjást yfir skítahauginn eða halda að betra sé að aðrir sjái um að koma honum í lóg.

En þó mér hugnist ekki klofningur eða sundrung flokksins sem ég kaus þá er hugmyndin um klofna hreyfingu vinstrisinna af hugsjónaástæðum þó geðfelldari, þótt slæm sé, en sameinaður Sjálfstæðisflokkur af hagsmunaástæðum.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, apríl 10, 2011

LÍÚ hrósar sigri og ritstj. líka

Sigurvegarar kosninganna eru LÍÚ, Davíð Oddsson, Útvarp Saga og hópur trúgjarnra hópsála sem létu fyrrtöldu aðilana plata sig til að kjósa gegn Icesave samningnum. Nú hrósar LÍÚ happi og kvótakóngar dæsa fegnir yfir því að líklega er ESB aðild úr sögunni (Uffe Ellemann-Jensen hélt líklega að hann væri að senda okkur tóninn þegar hann talaði um ESB en það er sem músík í eyrum LÍÚ að dyrum ESB sé lokað). Aðaleigandi Moggans er kvótaeigandi og Davíð ritstj. gengur erinda hennar en einnig nýtur hann þess að kvelja bæði núverandi formann Sjálfstæðisflokksins og berja á ríkisstjórninni.

LÍÚ og Davíð Oddsson höfðu ekki og hafa aldrei haft hagsmuni þjóðarinnar í fyrirrúmi og furðulegt að stór hluti almennings hafi látið blekkjast af áróðrinum.

Fólk sem er almennt á móti heimskapítalismanum kaus líka gegn Icesave samningnum og það er svosem falleg hugsun en kannski ekki réttur vettvangur. Reyndar þekki ég fólk sem reiknaði sig að nei-niðurstöðu og við því er ekkert að segja þó mér hafi fundist vera galli í útreikningnum (hafandi nú mikið vit á slíku) að líkurnar á að málið endi fyrir dómstólum voru taldar engar. Fyrst og fremst átti auðvitað aldrei að kjósa um þetta furðulega skuldamál sem við fengum í fangið. En það er búið og gert og vonandi að þegar þessu máli loksins lýkur (hvenær sem það nú verður) þá komum við betur út en ég og fleiri sem kusum já höfum reiknað með. Ekki að ég sé að breytast í Pollýönnu en eftir allt ógeðið sem mátti sjá í umræðunni er varla um það að ræða að bæta á hana með bölbænum í garð hins liðsins, jafnvel þótt nafn fyrrverandi forseta hafi verið að ósekju kastað auri af liðsmönnum þess.

Nú reynir flest vitiborið fólk að hvetja til einhverskonar sátta. Mér líst einna best á það sem Arngrímur Vídalín skrifaði í dag. Ég get tekið undir flest sem hann segir nema þarna allra síðast; eflaust mun ég freistast til að segja „I told you so“, hafi ég tilefni til.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, apríl 07, 2011

Ríkissaksóknari af betri gerðinni

Mér finnst full ástæða til að fagna því að Sigríður J. Friðjónsdóttir hefur verið ráðin í embætti ríkissaksóknara. Augljóslega hefði nánast hver sem er verið betri en Valtýr skúnkur Sigurðsson, en það sem ég hef séð til Sigríðar undanfarin ár,* þá held ég að hún sé fyrirtaksmanneskja og með gott skynbragð á rétt og rangt.

Hún var t.d. ekki meðal þeirra sjö sem lýstu yfir fullum stuðningi við Valtý þegar öll spjót stóðu á honum eftir hrakyrði hans í garð þolenda nauðgana. Ég vona og trúi að hún verði til þess að konur mæti betra viðmóti og að nauðgunarmál fái sanngjarna málsmeðferð hjá embætti ríkissaksóknara í framtíðinni.

___
* Án þess að ég hafi lagt allan feril Sigríðar Friðjónsdóttur á minnið og get því ekki svarið að þar sé ekki eitthvað sem mér gæti mislíkað

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, apríl 06, 2011

Kettir, ísbirnir og börn sem lítillega sér á

Mér finnst hugmynd Jóns Gnarr um að hafa feitasta kött landsins til sýnis fyrir ferðamenn alveg frábær. Í fyrsta lagi er ekkert eins líklegt til að auka ferðamannastraum eins og feitir kettir, það er nú barasta skrifað á blaðsíðu númer eitt í öllum ferðamálafræðibókum.

Í öðru lagi er þetta hugmynd sem má útvíkka á svo margan hátt. Hvernig væri tildæmis að sýna feitasta barn landsins? Mér finnst það liggja beint við úrþví að Jón Gnarr hefur fattað hvað það er sniðugt að sýna hvað getur leitt af vanrækslu, og þá er alveg óþarfi að einskorða sig bara við ketti, fullt af börnum fá lélegt fæði og mikið af því.

En svona til að róa þau sem finnst jaðra við barnaverndarlög að hafa börn til sýnis (feit eða lamin) þá mætti kannski í staðinn sýna uppalendur þeirra, og þá í leiðinni kattareigendur sem er sama um heilbrigði katta sinna og finnst jafnvel fyndið hve erfitt þeir eiga með að hreyfa sig fyrir spiki.

Mér finnst hugmyndin með köttinn og svo auðvitað sú að loka villtan ísbjörn sem er vanur víðáttu og þögn jökulbreiðunnar í búri þar sem æstur krakkamúgur glápir æpandi á hann, vera alveg frábær og sýna Jón Gnarr í eitthvað svo frábæru ljósi. Ég man bara ekki alveg hvað svona fólk er kallað, en mér finnst það fyrsta flokks.

Efnisorð: ,

mánudagur, apríl 04, 2011

Skuldinni skellt á

Ég velti fyrir mér hvort siðareglur og tilkynningaskylda sé til trafala. Nú veit ég svosem ekki hvort prófarkalesarar hafa stofnað samtök sem hafi sett sér siðareglur þar sem kveður á um tilkynningaskyldu — ekki um brot gegn íslenskri tungu heldur ærumeiðingar, hatursáróður og hótanir. Það hlýtur bara að vera. Jafnvel getur verið að prófarkalesarar séu með einskonar neyðarhnapp sem ýtt er á og löggan stökkvi þá strax af stað í handtökur.

Það hlýtur a.m.k. að vera eitthvað sem fælir fólk frá því að leita aðstoðar hjá prófarkalesurum þegar það ætlar að skrifa níð um persónur á netið, skrifa heilu vefsíðurnar gegn fólki sem er ekki nægilega hvítt að þess mati eða hóta fyrrverandi ráðherrum fyrir að hvetja kjósendur til að velja já í Icesave kosningunni.

Sé svo, þá skulda prófarkalesarar okkur afsökunarbeiðni. Það, eða að þeir hafa um tvennt að velja: að börn þeirra verði seld í ánauð í breskar kolanámur eða láta hákarla éta þau.

Efnisorð: , ,