sunnudagur, mars 29, 2009

Goð og meinvættir

Nokkur ummæli og brot úr ræðum sem ég vildi gjarnan hafa sagt sjálf eða fundið fyrst en læt mér nægja að stela frá öðrum. Hef ekki einu sinni neinu gáfulegu við þetta að bæta, þetta segir sig sjálft.

Einhver varpaði þessari spurningu fram þegar var verið að tala um það sem Pétur Blöndal sagði um fé án hirðis: Hver á að gæta hirðisins?

Önnur ummæli: Með óheftum kapítalisma koma óheftir kapítalistar.

Barack Obama var frábær í þætti Jay Leno þegar hann var að útskýra ofurlaun og aðgerðir í efnahagsmálum. Honum tókst að útskýra málin á einfaldan hátt og höfða til réttlætiskenndar áhorfenda. Það er ekki skrítið að hann hafi hrifið kjósendur.

En aðalræðumenn vikunnar* að mínu mati eru tveir þingmenn sem hafa löngum setið sinn á hvorum enda skalans rétt og rangt.

Ögmundur Jónasson í umræðu um einkavæðingu bankanna 1999:

„Banki er ekki bara fyrirtæki sem veitir þjónustu, banki er ekki aðeins stofnun sem lánar peninga, þannig er vissulega hægt að nota banka og það sem má nota, má einnig misnota. Banki getur nefnilega veitt eigendum sínum áhrif og völd. Ef sömu aðilarnir og taka þátt í samkeppni á markaði eiga og stjórna einnig fjármálastofnunum landsins gefur augaleið að sú hætta er fyrir hendi í ríkari mæli en nú er að þeir verði notaðir til að veita eigendum sínum fyrirgreiðslu til að auðgast. [...] Á sumum var helst að skilja --- jafnvel í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar --- að ef hagkerfin væru látin leika lausum hala og þar ríkti frjáls samkeppni þá yrði allt gott. Staðreyndin er sú að frjálsa samkeppni þarf að tryggja með lagalegum ramma. Það þarf að tryggja samkeppnina með umgjörð. Annars leitar allt, bæði peningarnir og valdið, á einn stað eða fáa, til einokunar og fákeppni. [...] Af þessum sökum höfum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sagt þrennt.

Í fyrsta lagi höfum við sagt: Förum varlega í sakirnar. Reynum að ná sátt um markalínur á milli hins opinbera annars vegar og markaðar hins vegar. Förum rækilega yfir hagkvæmnisþætti einkavæðingar. Spyrjum hver hagnist þegar upp er staðið, skattgreiðandinn, notandinn, neytandinn eða nýir eigendur. Út á þetta gekk þáltill. sem við fluttum fyrst í vor og aftur núna í haust.

Í öðru lagi: Í þeim tilvikum sem ríkisstjórn og meiri hluti Alþingis er staðráðinn í því að selja stofnanir eða fyrirtæki viljum við að búinn verði til lagarammi sem stuðlar að dreifðri eignaraðild og spornar gegn samþjöppun á peningum og þar með valdi. Þess vegna fluttum við sérstakt lagafrv. um dreifða eignaraðild fjármálastofnana þar sem eignarhlutur færi ekki yfir 8%.“

Sigurður Kári var afturámóti í klappliði græðgisvæðingarinnar, og sagði þetta árið 2004:

„Ég er einnig þeirrar skoðunar, af því ég er að fjalla almennt um einkavæðingu, að einkavæðing ríkisviðskiptabankanna hafi verið einn merkasti áfanginn í efnahagssögu okkar á síðustu árum. [...] Hverjum hefði dottið í hug þegar bankarnir voru einkavæddir að þeir mundu vaxa og dafna á svo undraskömmum tíma sem raun hefur orðið á og væru orðin fyrirtæki af þeirri stærðargráðu sem standast erlendum bönkum og fjármálafyrirtækjum fyllilega snúning í alþjóðlegri samkeppni á fjármálamarkaði? Þetta er frábær þróun, hv. þingmaður, Ögmundur Jónasson. [...]

Samkeppni á fjármálamarkaði hefur heldur aldrei verið meiri og hún hefur skilað sér sem vítamínsprauta fyrir íslenskt atvinnulíf og bætt hag neytenda, þar á meðal láglaunafólks. Besta dæmið um það eru nýkynnt húsnæðislán bankanna á betri vaxtakjörum en áður hafa þekkst á Íslandi og gera má ráð fyrir að þau húsnæðislán og vaxtakjör sem bankarnir eru að bjóða núna spari íslenskum neytendum 7–8 milljarða í formi lægri vaxtagreiðslna. [...]

Ég minni hv. þm. líka á það að ávinningur skattgreiðenda af einkavæðingu síðustu ára hefur verið gríðarlegur. [...] Nú er staðan hins vegar þannig að þessir bankar eru sterkar fjármálastofnanir eins og ég vísaði til áðan samanber frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag að þetta eru sterkar fjármálastofnanir sem þurfa ekki á neinni fyrirgreiðslu frá opinberum aðilum að halda og sýnir og sannar hversu vel einkavæðingin hefur tekist.“

Hvor ræðan hefur nú elst betur?

Lýsi svo yfir að Ögmundur komst í goðatölu hjá mér fyrir að afþakka ráðherralaun.

___
* Nei, hér verður ekki vísað til hroðans sem vall uppúr þessum með Jesúkomplexana. Mér verður of ómótt.

Efnisorð: , ,

laugardagur, mars 28, 2009

Það má skjóta hvali en ekki svona skríl?

Það kemur mér á óvart að sjá allt þetta fólk á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Ég hefði haldið að hann yrði mun fámennari. Ég er líka hissa á að sjá að enginn hylur andlit sitt á myndum eða þegar fréttir eru sýndar þaðan, ég hefði haldið að fólk skammaðist sín fyrir að vera þarna.

En ég varð svosem líka hissa á því að prófkjörsbarátta Sjálfstæðismanna fór fram í fjölmiðlum eins og þeir héldu að landsmenn hefðu áhuga á að vita hverjir það væru sem teldu sig þess verða að fara á þing. Furðulegast af öllu þykir mér þó að „endurskoðunin“ í flokknum felist í því að segja að nú sé runnið af kallinum í brúnni og því engin ástæða til annars en halda áfram á fullu stími í sömu átt.

Þeir ætla að halda í frjálshyggjuna. Þeir ætla að halda í sama fólkið. Þeir ætla að reyna að komast aftur í þá stöðu að tryggja völd og auðævi þeirra sem höfðu þau alla síðustu öld (fjölskyldurnar fjórtán) og þeirra sem keyrðu þjóðfélagið í kaf undir lófataki þeirra sem finnst hámarksgróði fallegasta hugsjón í heimi.

Og svo er til fólk sem ætlar að kjósa þetta. Það er alltaf til nóg af fólki sem hugsar bara um eigin hagsmuni: vill græða á daginn og grilla á kvöldin og hugsa ekki of mikið um lífsins vandamál.

Bleh.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, mars 17, 2009

Gegn vændi, mansali og nektardansi

Loksins á að vinna gegn mansali. Loksins komst vændisfrumvarpið til umræðu á þingi í dag. Ég varð óskaplega glöð þegar ég sá sómafólk stíga í pontu og tala um þetta frumvarp og allt á einn veg: að það verði að stöðva vændiskaupendur. Og svo á að þyngja dóma í nauðgunarmálum.* Og banna nektardans.

Skrifa um þetta í skynsamlegri röð og reglu þegar ég næ áttum og jafna mig á að allt þetta hafi gerst á einum degi.

Þangað til fylgist ég með því hvernig málinu farnast á vef alþingis, þar er þó enn ekki hægt að sjá hver voru á mælendaskrá, en ég missti af megninu af umræðunum. Þau sem ég heyrði tala voru meðal flutningsmanna frumvarpsins, sem eru: Atli Gíslason, Ágúst Ólafur Ágústsson, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Þuríður Backman, Katrín Júlíusdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Eygló Harðardóttir og Helga Sigrún Harðardóttir. Þetta er uppáhaldsfólk hjá mér þessa dagana.

___
* Þyngingin felst í því að lágmarksrefsing við nauðgun sé tvö ár í fangelsi í stað eins árs. Hámarksrefsing verði sem fyrr 16 ár. Flutningsmenn þessa frumvarps eru Atli Gíslason og Þuríður Backman.

Efnisorð: , , , ,

mánudagur, mars 16, 2009

Talið fram

Í reit 5.5. á skattframtalinu mínu, þar sem á að telja fram aðrar skuldir, skrifaði ég: Heildarskuldir íslenska þjóðarbúsins deilt með 319.368.

Ég gat þvímiður ekki haft upphæðina nákvæmari eða skrifað niðurstöðutölu í reit 168 um eftirstöðvar skulda. Enda þótt hagfræðingar* hafi keppst við að kasta fram tölum sem ýmist auka bjartsýni eða magna þunglyndi, þá er ég nánast engu nær um hve mikið íslenska þjóðin skuldar og þaðanafsíður hver minn hlutur er. En veit þó að ég er ein af þessum 319.368 sem þarf að borga skuldina.

___
* Það eru ekki bara hagfræðingar sem reyna að giska á skuldirnar. Eva Joly sagði að hvert mannsbarn á Íslandi skuldaði 45 milljónir, en hvað veit hún svosem, ekki bara útlendingur heldur norsari í þokkabót, gott ef ekki kvenmaður.

Efnisorð:

föstudagur, mars 13, 2009

Kynjakvóti er eina sanngjarna kvótakerfið

Áhersla feminista á að konur séu jafnmargar körlum í stjórnum, ráðum og nefndum er oft misskilin.* Þeir sem skilja ekki afhverju þetta skiptir máli vilja líklega ekki jafnrétti yfirleitt en séu einhverjir sem einlæglega vilja jafnrétti kynjanna en átta sig ekki á hvaða leiðir á að fara eða hversvegna sumar kröfur feminista eru háværari en aðrar þá skal það með glöðu geði útskýrt hér.

Ef konur verða jafnmargar körlum í ríkisstjórn, stjórnum fyrirtækja, frjálsra félagasamtaka og banka, ráðum stjórnmálaflokka og nefndum á vegum ríkisins og sveitarstjórna:

- þá komast fleiri sjónarmið að heldur en bara sjónarmið karla. Margir karlar eru svo vanir því að vera eingöngu með aðra karla í ráðum um hin ýmsu mál og átta sig ekki á að þeir horfa allir frá sama sjónarhólnum. Jafnvel gæti farið svo að önnur stefna yrði tekin í ýmsum málum (hér hef ég t.d. í huga það sem sagt hefur verið um áhættusækni karla sem eina orsök þess hve illa fór í fjármálum þjóðarinnar en sagt hefur verið að konur séu varkárari og hefðu hugsanlega staðið á bremsunni hefðu þær verið nógu margar til að rödd þeirra hefði heyrst).

- þá alast börn upp við að konur og karlar séu jafn ráðagóð og dugleg að stjórna og láta sér ekki detta annað í hug en að bæði kynin ráði jafnt.

- þá þarf ekki lengur þessi eina kona í stjórninni eða nefndinni að standa frammi fyrir tveimur valkostum og báðum vondum: að halda fram kvenlegum sjónarmiðum og verða óvinsæl fyrir vikið eða þá að vera bara sammála strákunum og kjósa eins og þeir við atkvæðagreiðslur - sem einu leiðina til að komast áfram í stjórnmálum eða í fyrirtækinu eða halda sæti sínu í flokknum (einsog hefur örugglega alltof oft gerst, enda má engin við margnum).

Það kemur mér á óvart að þegar stjórnmálaflokkarnir velja fólk til setu í stjórnlaganefnd þá sé bara ein kona fulltrúi síns flokks, og allir hinir flokkarnir hafi valið karlmann sem sinn fulltrúa, þaraf valdi Sjálfstæðisflokkurinn fjóra karlmenn fyrir sína hönd.** Ég hélt að það væru lög og starfsreglur og hvaðþaðnúheitir sem giltu núorðið á Alþingi um val í nefndir, þar væri jafnréttissjónarmiðum framfylgt. Eða dreymdi mig það bara í bjartsýni minni og hélt að það hefði orðið að raunveruleika í tíð hinnar feminísku ríkisstjórnar? Ef svo er þá krefst ég þess að ég fái drauma mína uppfyllta.


___
* Þetta á líka við um framboðslista stjórnmálaflokka. Það er bæði rangt kjósenda þess flokks vegna, kvennanna sem bjóða sig fram og allra hinna í þjóðfélaginu að stjórnmálaflokkar sjái ekki til þess að jafn margar konur og karlar komist fyrir hönd flokksins á þing eða í sveitarstjórn.
** Afhverju hafa Vinstri græn einn fulltrúa en Sjálfstæðisflokkurinn fjóra? Er virkilega bara farið eftir stærð flokkanna á þingi? Væri ekki nær að það væru tveir frá öllum flokkum?

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, mars 12, 2009

Sagt til syndanna

Það hlýtur að hafa verið skrýtin stemning á viðskiptaþingi í dag. Ekki nóg með að Viðskiptaráð viti upp á sig skömmina af að hafa með ráðum og dáð hvatt til þess ástands sem leiddi til bankahrunsins og því asnalegt að hittast og láta eins og þarna sé komið saman fólk sem einhverju máli skipti lengur, heldur var þetta hyski húðskammað eins og krakkar sem hafa verið staðnir að því að hnupla pening fyrir nammi sem þeir svo ætluðu að gefa hinum krökkunum til að verða vinsælli á leikvellinum.

En það hlýtur líka að hafa verið unaðslegt að sjá smettin á þeim þegar helsti boðberi réttlætis á Íslandi til margra ára, stóð í pontu og las þeim pistilinn. Og þeir þurftu að hlusta því hún er forsætisráðherrann og þó þeir hefðu ekki virt hana viðlits fyrir nokkrum mánuðum þá neyðast þeir til að sitja undir þeirri yfirhalningu sem þeir áttu svo sannarlega skilda.

Ég skrifaði ekkert á 8. mars um alþjóðabaráttudag kvenna. En ég vil trúa því að þann dag hafi Jóhanna samið ræðuna sína.

Og svo bað hún Breiðavíkurdrengina afsökunar fyrir hönd stjórnvalda.

Það er varla að hægt sé að trúa því að loksins sé þjóðin búin að eignast almennilegan forsætisráðherra.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, mars 11, 2009

Tilgangur fléttulista

Steinunn Stefánsdóttir skrifar enn einn snilldar leiðarann í Fréttablaðinu í dag. Hann er skrifaður í tilefni af því að í einu prófkjörinu voru karlar færðir upp á framboðslista vegna þess að þar voru svo margar konur, og var það kallað fléttulisti. Steinunn útskýrar afar vel afhverju þetta er fáránlegt:

„Þegar vopnin snúast í höndunum
Skipan á lista stjórnmálaflokka fyrir komandi þingkosningar stendur nú sem hæst. Flokkarnir hafa mismunandi hátt á skipan listanna en forval eða prófkjör eru þó víðast haldin.

Við skipan sumra lista hefur verið valið að nota kynjakvóta til að tryggja sem jafnast hlutfall kynja á listunum. Beiting kynjakvóta er umdeild. Andstæðingar hans taka jafnvel svo djúpt í árinni að segja að kynjakvóti sé andstæður jafnrétti meðan fylgjendur kalla hann jákvæða mismunun sem nauðsynlegt sé að beita uns jafnræði ríki með kynjunum.

Meðan staðan er þannig að mikill meirihluti þingmanna er karlar er hlutverk kynjakvótans að jafna hlutföll milli kynja. Það gerir hann eingöngu með því að virka aðeins á annan veginn, þ.e. með því að beita honum aðeins konum í vil þegar hann er notaður við uppröðun á lista til þingkosninga. Þegar kynjakvótinn er farinn að lyfta körlum upp á listum þá vinnur hann þvert gegn markmiði sínu.

Verulega hallar á hlut kvenna á Alþingi. Það væri því eingöngu verjandi að beita kynjakvóta í báðar áttir í því tilviki að allir flokkar og framboð byndust samtökum um að hafa jafnt hlutfall kynja á listum sínum. Meðan skipan framboðslista er hins vegar þannig að þau þingsæti sem öruggust teljast eru að talsverðum meirihluta skipuð körlum þá fer verulega vel á því að á einum og einum framboðslista sé þessu öfugt farið.

Vinstri græn í Reykjavík geta þannig verið stolt af því að bjóða fram lista þar sem konur skipa flest þau sæti sem talin eru örugg þingsæti. Þessir framboðslistar eru raunverulegt framlag til þess að jafna kynjahlutfallið á Alþingi.

Ýmsum öðrum aðferðum en kynjakvóta má beita til að leitast við að jafna hlut kynjanna á framboðslistum. Þannig hefur verið sýnt fram á að konum vegnar yfirleitt betur í prófkjörum þar sem skýrar reglur gilda um að frambjóðendur megi verja litlu sem engu fé í kosningabaráttuna. Ýmsum þeim sem uppsigað er við kynjakvóta gæti hugnast sú leið betur.

Hlutur þingkvenna af landsbyggðinni er sérstakt áhyggjuefni. Á sitjandi þingi kemur einungis fjórðungur þingkvenna af landsbyggðinni. Skipan þeirra lista sem þegar hafa verið birtir gefa ekki tilefni til sérstakrar bjartsýni um að þetta hlutfall breytist verulega. Sérstök ástæða ætti því að vera til að beita markvissum aðgerðum til að auka hlut þingkvenna af landsbyggðinni.

Ljóst er að enn vantar talsvert upp á að staða karla og kvenna sé með þeim hætti að kynjahlutfall á Alþingi verði jafnt án þess að hjálparmeðul séu notuð. Þangað til er nauðsynlegt að beita jákvæðri mismunun óhikað.

Sé kynjakvóta beitt er mikilvægt að horfast í augu við það hvers vegna það er gert og láta hann vinna með markmiði sínu en ekki gegn því.“

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, mars 10, 2009

Sjálfstæðisflokksfávitar

Áður en ég fór að sofa í gær varð mér það á að stilla sjónvarpið á alþingisrásina. Stóð þá Þorgerður Katrín í pontu, nánast rangeygð af þreytu, röflandi útí eitt til þess að stjórnlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar kæmist ekki á dagskrá. Ég fylltist megnu ógeði enda minnir hún mig alltaf á Davíð Oddsson. Lengi framan af ferli sínum hljómaði hún eins og stærri og ljóshærðari útgáfa af Davíð, það gekk uppúr henni frjálshyggjuþvælan ekki síður en honum og öðrum fylgifiskum hans.

Það örlaði á því í kringum bankahrunið að hún væri ekki alltaf 100% sammála Davíð (og vera má að hún hafi sýnt takta í þá átt áður en ég hafði ekki orðið vör við það) enda þá komin í slíka valdastöðu að hún þurfti kannski ekki lengur að segja já og amen við öllu sem frá honum kom. Líklega hefði hún aldrei komist svo langt ef hún hefði ekki spilað með strákunum og notað þeirra talsmáta.* En hún hljómar svosem ekkert öðruvísi núna.

Sjálfstæðismenn hafa svo haldið áfram að hegða sér eins og fávitar og finnst þeir örugglega voða sniðugir að halda uppi því sem var einu sinni kallað málþóf en flokkast nú undir vísvitandi skemmdarverk.

[hér voru blótsyrði]

Mig langar bæði og langar ekki að skrifa meira um Þorgerði Katrínu. Tengsl hennar við trúfélag sem bannfærir níu ára fórnarlamb nauðgunar fyrir að fara í fóstureyðingu, ferðir hennar til Kína á kostnað skattgreiðenda ásamt forríka siðspillta bankaeiginmanninum í kjöfarið á svindlibraskinu þeirra. En þetta er hvorteðer eitthvað sem er alþekkt og engar nýjar upplýsingar í því. Og það eru svosem engar fréttir að ég hatist útí einstaka meðlimi Sjálfstæðisflokksins heldur.

Ég þurfti bara að fá smá útrás.


___
* Ekki að það hvarfli að mér að hún hafi aðrar skoðanir en skylduskoðanir Sjálfstæðisflokksins, en það er magnað að heyra áherslur hennar í ræðustól, hún tileinkaði sér sannarlega ræðustíl Davíðs.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, mars 08, 2009

Áhyggjulaust ævikvöld

Tvennt kom mér mest á óvart þegar farið var að grafa í rústunum eftir bankahrunið. Annarsvegar að heyra að fiskveiðikvótinn væri veðsettur í þýskum banka - mér hefur fundist kvótakerfið ósanngjarnt* auk þess sem það hefur lagt byggðir landsins í eyði - en aldrei hafði hvarflað að mér að hann væri veðsettur og hvað þá útfyrir landið. Það hljómar vægast sagt eins og landráð í mínum eyrum, því hvað ef bankinn ákveður að innheimta veðið - eða selur öðrum það sem innheimtir það og á þar með allan fisk, veiddan sem óveiddan á Íslandsmiðum um ókomin ár?

Hitt, sem kom mér illilega á óvart var að heyra um brask lífeyrissjóðanna. Mig rámar í sögur um að einhverjir þeirra hafi keypt hlutabréf í Decode á sínum tíma og gott ef einhverjir þeirra fóru ekki á hausinn. Einhver hefði nú haldið að af því hefði verið dreginn lærdómur. En nei, þeir virðast hafa verið í allskyns meira og minna vafasömum fjárfestingum, ekki bara hér á landi heldur í útlöndum líka.** Og ég bara skil það ekki.

Ég hélt að tilgangur lífeyrissjóða væri að fólk borgaði þangað hluta af laununum sínum alla ævi og við starflok - hvort sem það væri vegna aldurs, sjúkdóma eða slysa - fengi fólk greitt úr sjóðnum til þess að geta framfleytt sér. Til þess að peningarnir væru öruggir hjá sjóðnum væru þeir geymdir í einhverju mjög öruggu og tryggu, sem ég sé einhvernveginn alltaf fyrir mér sem litla krúttlega sparisjóðsbók með lítilli ávöxtun. Og ég sá fyrir mér gamla gráhærða konu sem dundaði sér við að færa bókhald sjóðsins og fylgjast af umhyggju með að sjóðurinn væri á sínum stað þegar til þyrfti að taka.*** En raunin er semsagt önnur.

Lífeyrissjóðir eru með yfirmenn sem líta ekki á sig sem vörslumenn fyrir innistæður almennings heldur áhættufjárfesta. Sem slíkir þurfa þeir (eða þurftu 2007) að aka um á dýrum jeppum sem vinnan skaffaði þeim, auk ofurlauna. Svo sátu þeir í stjórnum bankanna eða voru í miklu samkrulli við þá og fjárfestingafyrirtæki og litu á sig sem hluta af því glæpagengi fremur en menn í embætti sem krefðist ráðdeildarsemi, áhættufælni og trausts.

Í Silfri Egils var maður sem hefur skoðað þessi lífeyrissjóðamál (aðallega VR heyrðist mér) og þó mér fyndist hann ekki nægilega skýr þá var ágætt hjá honum að nafngreina menn og benda á að það virtist sem menn í stjórn lífeyrissjóða hefðu átt maka og ættingja (og örugglega vini) innan t.d. Kaupþings og því algerlega ljóst að þar var samkrullið þannig að Kaupþing átti hagsmuna að gæta í VR og VR átti hagmuna að gæta í Kaupþingi. En enginn hirti um hagsmuni lífeyrissjóðsfélaga.

Lífeyrissjóðsgreiðslur hafa lengi verið til skammar.**** Lífeyrissjóðir - og skylduaðild að þeim - voru stofnaðir til þess að fólk gæti átt sæmileg elliár án þess að lifa við fátækt. Með því að starfsmenn eða yfirmenn lífeyrissjóða líti á þá sem tækifæri til að hagnast persónulega (auk þess að leika sér með stóru strákunum í að veðja peningunum hingað og þangað til að sjá til hvernig tekst og ef illa fer þá bara úps, gengur betur næst, ha strákar, hehe) þá tapa sjóðirnir fé - fyrir utan það þegar fjárfestingarnar klikka og sjóðurinn tapar hreinlega peningum, sbr. Decode (og samkvæmt Silfri Egils hafa lífeyrissjóðirnir tapað miklu í bankahruninu þó þeir viðurkenni það ekki). Almenningur - sem er skikkaður til að borga í lífeyrissjóð - á betra skilið en að svona kújónar véli með peningana.

Ég hef nú ekki einu sinni geð á að fara að tala um séreignalífeyrissparnaðinn eða viðbótarlífeyrissjóðsparnaðinn eða hvað það nú er kallað. Það er nú meiri svikamyllan.

___
* Mér finnst ekki ósanngjarnt að takmarka fiskveiðiheimildir - það má auðvitað ekki ganga svo á fiskistofna að þeir séu kláraðir - heldur felst ósanngirnin í því að völdum aðilum var afhentur kvótinn í byrjun og þeir máttu braska með hann. Í hvert sinn sem kvóti (þ.e. bátur sem hafði kvóta) var seldur frá byggðalagi tapaðist atvinna og í mörgum tilfellum brast á fólksflótti í kjölfarið en jafnframt sat alltaf einhver hluti fólksins uppi með óseljanlegar húseignir hvort sem það fór frá staðnum eða ekki.

** Ég áttaði mig fyrst á þessu þegar ég heyrði uppástungur þess efnis að lífeyrissjóðir ættu að „koma heim“ með peninga sem þeir hefðu fjárfest í útlöndum og þá til að rétta bankana við. Í fyrsta lagi, hvað voru þeir að gera í útlöndum með peningana og í hverju voru þeir að fjárfesta þar? Vopnaframleiðslu? Veit það einhver? Og í öðru lagi, afhverju í ósköpunum ætti að fórna lífeyrissparnaði almennings til að rétta við bankana, er ekki nóg sem við munum borga samt í gegnum skattana okkar og tapaðar innistæður og hækkandi skuldir?

*** Í fyrirtæki sem ég vann hjá fyrir mörgum árum var sérstakur lífeyrissjóður og þar vann einmitt svona kona. Hún gæti þó hafa verið með einhverja kalla yfir sér sem rökuðu inn peningum á því að vera yfirmenn sjóðsins, án þess að ég vissi það. En sá lífeyrissjóður - og þetta veit ég bara vegna þess ég fæ afogtil sent yfirlit um „gríðarlega“ inneign mína - hefur margsinnis runnið saman við aðra lífeyrissjóði og skipt um nafn í hvert sinn, með þeim afleiðingum að ég er alltaf jafn hissa þegar ég fæ yfirlitið og kannast ekkert við að hafa verið í lífeyrissjóði með þessu (nýja) nafni.

**** Faðir minn fær rúmar þrjú þúsund krónur á mánuði í lífeyri. Sjóðurinn sem hann greiddi í áratugum saman varð gjaldþrota (líklega á Decode) og þetta er afraksturinn.

___
Viðbót: Daginn eftir að ég skrifaði þetta þegar Straumur-Burðarás, sem mun vera nafn á fjárfestingabanka, fór á hausinn, fyrstur slíkra eftir stóra bankahrunið í október 2008. Lífeyrissjóðirnir hafa verið svo ansi forsjálir að fjárfesta í honum ... Listi yfir hlutafjáreign þeirra má lesa með því að fylgja tengli neðst á moggasíðunni en svo er líka búið að taka þetta saman hjá frjálshyggjufávitunum á „frjálsa fréttaskýringavefnum.“

Efnisorð: , , , , ,

laugardagur, mars 07, 2009

Bannað að kjafta frá köllunum

Karlaklúbburinn vann sigur í Hæstarétti í gær. Geiri í Goldfinger - með Sjálfstæðismanninn Svein Andra Sveinsson nauðgaraverjanda til fulltingis - vann meiðyrðamál* gegn blaðamanni sem talaði við konu sem hafði unnið hjá Geira. Konan sagði frá ýmsu misjöfnu (það er misjafnt vegna þess hve misjafnlega karlaklúbburinn og feministar líta það) semviðgengst í veldi Geira. Dómari í málinu var svo frændi Davíðs Oddssonar, enn einn dómurinn gegn konum sem kemur frá þeim frændgarði.

Þorbjörn Broddason benti á í viðtali við RÚV* að með því að blaðamenn væru saksóttir fyrir viðtöl sem þeir taka, þá sé verið að koma í veg fyrir að fólk komi frásögnum sínum á framfæri, sé það ekki vel pennafært sjálft. Vændiskonur, stripparar og aðrar konur sem hafa orðið fyrir barðinu á klámiðnaðinum eru því meira og minna þaggaðar með þessum dómi. Og það er auðvitað tilgangurinn.

__
* Geiri í Goldfinger á endalausa peninga til að eyða í málsókn. Og þetta verður auðvitað til að fæla fólk frá að segja sannleikann um hann.

** Þetta er slóðin á fréttina á vef RÚV en ég heyrði hann segja þetta í kvöldfréttatímanum í Sjónvarpinu. Auk þess má lesa um þetta hjá Friðriki Þór/Lillo.

Efnisorð: , , , , ,

fimmtudagur, mars 05, 2009

Eftirlaunaósóminn afnuminn

Þá er loks búið að afnema eftirlaunaósómann.* Sjálfstæðismenn höfðu ætlað að láta sér nægja að breyta sumu í því en núverandi ríkisstjórn náði að afnema lögin og náðist víst um það sátt meðal þingmanna allra flokka - þó voru grunsamlega margir fjarverandi þegar atvæði voru greidd, flestir þeirra Sjálfstæðismenn.

Sjálfstæðismönnum hugnast heldur ekki frumvarp um breytingar á kosningalögum og eru á móti persónukjöri. Ég hef svosem ekki sterkar skoðanir á kostum persónukjörs - finnst eins og það geti orðið til þess að konum fækki enn á framboðslistum - og veit því ekki hvort þeir hafa eitthvað til síns máls. En þar sem það hafa komið fram svona skýrar óskir hjá þjóðinni um að breyta reglum um kosningar þá finnst flestum að það sé sjálfsagt að verða við því, þar á meðal mér. En ekki Sjálfstæðisflokknum. Þeirra helsta áhugamál virðist vera að tefja fyrir* með því að þræta og rífast yfir öllu sem stjórnin segir og gerir á þingi sem utan. Það er þeirra framlag til endurreisnar þjóðarinnar. Ekki nóg með að þeir hafi ráfað um í reiðileysi mánuðum saman eftir bankahrunið heldur finnst þeim sæmandi að reyna að þvælast fyrir þeim sem þó reyna að láta hendur standa fram úr ermum. Og svo eru þeir náttúrulega í bullandi prófkjörsbaráttu og kosningaham og eru að reyna að ganga í augun á kjósendum með því að vera voða harðir í stjórnarandstöðu og finnast vinstri stjórnin vera að klúðra öllu. Alveg búnir að gleyma staðreyndum málsins.

Mér er auðvitað algerlega hulin ráðgáta að Sjálfstæðismenn eigi sér enn stuðningsmenn og að fólk vilji kjósa þetta yfir sig aftur. En í annars ágætu kaffispjalli við kunningja minn í dag hrökk uppúr honum* eitthvað sem gat ekki bent til annars en að hann væri á þeirri skoðun að Davíð Oddsson ætti helst að snúa aftur til að bjarga málunum. Ég varð orðlaus um stund en hóf svo fremur vonlausa baráttu til að opna augu mannsins. Í ljós kom auðvitað að hann fylgist lítið með - nema hann gat tuggið frasann um að það hafi verið fólkið en ekki frjálshyggjan sem klikkaði - og það hafði farið framhjá honum að það er sama fólkið sem ætlar sér aftur að fara í framboð. Þegar ég spurði hvernig honum þætti ef Bjarni Ben yrði forsætisráðherra þá yppti hann öxlum, en varð hálfskrítinn þegar ég benti á tengsl hans við Engeyjarættina og olíufélag sem hefði trekk í trekk orðið uppvíst af því að svíkja neytendur. Þannig að þessum kunningja mínum finnst í lagi að sama fólkið haldi áfram og stefnan má koma aftur hans vegna. Steingrímur fór hinsvegar mjög í taugarnar á honum, það var alveg augljóst. Ég nennti ekki einu sinni að spyrja hann afhverju.

Ég hefði hinsvegar - hefði ég verið spyrillinn í Kastljósi kvöldsins - spurt Pétur Blöndal hver væri munurinn á kröfu hans og annarra Sjálfstæðismanna að forsetaembættið verði lagt niður - og hinu skefjalausa einelti sem aumingjans litli Davíð Oddsson var beittur af hálfri þjóðinni með Jóhönnu Sigurðardóttur í broddi fylkingar.****

___
* Kató gamli og Valgerður Bjarnadóttir hafa bæði barist gegn spillingu og verið staðföst í málflutningi sínum en Valgerður sá þó allavega sínar tillögur framkvæmdar.

** Hann glopraði þessu ekki útúr sér fyrr en fimm mínútum áður en við ætluðum að kveðjast og því lítill tími til að leiða honum fyrir sjónir helstu staðreyndir lífsins.

*** Reyndar var það Framsóknarþingmaðurinn Höskuldur Þórhallsson - sem mig grunar að sé á launaskrá Sjálfstæðisflokksins - sem náði að tefja brottför Seðlabankastjóra um nokkra daga.

**** Í Fréttablaðinu 6.mars er Hannes Hólmsteinn enn að verja Davíð og talar um valdníðslu Jóhönnu. Þar lepur hann líka upp þá firru að nýi seðlabankastjórinn sé ráðinn vegna pólitískra tengsla þrátt fyrir orð Jóhönnu að þar ætti að sitja einhver sem væri laus við þannig tengsl. Þar átti hún að sjálfsögðu við að viðkomandi mætti ekki vera innvígður og innmúraður í íslenska stjórnmálaflokka, sem hefur sýnt sig að er vægast sagt óheppilegt.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, mars 03, 2009

Svokallaður stuðningur

Tvennt er það sem vekur ógleði í morgunsárið.

Sigmundur Davíð er með sífelldar hótanir sem allar benda til þess að hann ætli að kippa til baka meintum stuðningi sínum við ríkisstjórnina og leiða Framsóknarflokkinn eina ferðina enn í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Hvort hann ætlar sér að gera það að loknum kosningum eða ætlar hreinlega að gera það til þess að koma í veg fyrir kosningar er ekki gott að segja en hann er greinilega ekki á nokkurn hátt óspilltari en hinir Framsóknarmennirnir.

Hin fréttin í Fréttablaðinu sem olli því að ég missti matarlystina á morgunverðinum er um stuðning Alcoa/Rio Tinto við Hjálparstarf kirkjunnar. Ég rak augun í það nýlega að Rauði kross Íslands hefur opnað stuðningsmiðstöð í samvinnu við þjóðkirkjuna og hugsaði með mér að það hlyti að vera til eitthvað í lögum alþjóða Rauða krossinn sem bannaði honum samstarf við trúfélög, enda á Rauði krossinnn að vera sjálfstæður og hlutlaus. Trúlaust fólk eða utan þjóðkirkjunnar ætti ekki að þurfa að þiggja aðstoð kirkjunnar þegar það sækir sér aðstoð RKÍ.

Og nú les ég semsagt að alþjóðlegi álrisinn - eitthvert umdeildasta fyrirtæki Íslandssögunnar - hefur lagt fram fé í Hjálparstarf kirkjunnar. Mynd fylgir fréttinni, enda Alcoa/Rio Tinto að nota sér þetta til framdráttar og skapa sér velvild. Þarf nú fólk sem í neyð sinni leitar hjálpar RKÍ (og þó það vilji jafnvel aðstoð kirkjunnar) að borða mat greiddan af Alcoa? Eða er hjálpastarf kirkjunnar aðskilið frá þessu samkrulli kirkjunnar og RKÍ? En allavega, þau sem þó vilja þiggja aðstoð kirkjunnar átt von á því að þeir sem hata alla gagnrýni á álframleiðslu og virkjanir geti nú nuddað fólki uppúr því að það hafi étið úr lófa Alcoa.

Oj bara.

Efnisorð: , ,

mánudagur, mars 02, 2009

Framboð af undirmálsmönnum og undirmálsmenn í framboði

Ég fór á Bókamarkaðinn eins og sá hluti þjóðarinnar sem var ekki að olnboga sig í biðröðum í Krónunni eða Nettó. Fékk bæði og gaf olnbogaskot í Perlunni en náði þó að fylla fangið af bókum af ýmsu tagi.

Ákveðnu þema var fylgt í innkaupum og voru því eingöngu keyptar bækur eftir unga og miðaldra karla.* Þetta er þjóðfélagshópur sem hefur orðið undir í þjóðfélaginu og nýtur ekki nógu mikils sannmælis - síst á framboðslistum - og því gustukaverk að reyna að rétta hlut þeirra.

__
* Einn dauður karl fylgdi með.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, mars 01, 2009

Dagdrykkjufólki til dýrðar

Það er mikið látið með þá staðreynd að fyrir tuttugu árum var farið að selja bjór á Íslandi. Sjónvarpsfréttir og Fréttaaukinn lagður undir umfjöllun um þetta stórkostlega „afmæli.“

Mig langar að sjá tölur um hve dagdrykkja hefur aukist (fyrir tíð bjórsins þótti drykkja virka daga vera augljóst dæmi um alkahólisma) og aukinn ölvunarakstur. Reyndar er ég sannfærð um að ölvunarakstur er miklu algengari en nokkrar tölur segja til um, löggan er sjaldnast að tékka á slíku nema um helgar, enda þótt bjór sé seldur og drukkinn alla daga. Ekki hef ég hitt nokkurn mann, karl eða konu, sem lítur svo á einn bjór sé nægileg ástæða til að keyra ekki bíl. Margir setja mörkin ekki fyrr en eftir tvo til þrjá bjóra.

Stórfurðulegt líka að í sama fréttatímanum sást ein fréttamaður Sjónvarps fá afgreiddan bjór (og búa sig undir að drekka hann) og önnur graðga í sig hvalkjöti. Eru Sjónvarpsfréttir nú styrktar sérstaklega af bjórinnflytjendum og Kristjáni í Hval, eða hvaða ástæður hafa fréttamenn fyrir því að auglýsa þessar vörur?

Gott hinsvegar að það var rifjað upp að Steingrímur J. Sigfússon var á móti bjórsölu.* Hann fær prik frá mér fyrir það.

___
* Steingrímur J. Sigfússon: „Ég hef til viðbótar pólitískar ástæður fyrir því að ég vil ekki standa að breytingum hvorki í áfengismálum né annarsstaðar sem gera fólkið óvirkara og sljórra gagnvart umhverfi sínu. Það tel ég að stóraukin neysla bjórs, jafnvel þó að eitthvað dragi úr neyslu annarra áfengistegunda, muni gera.“

Efnisorð: ,