fimmtudagur, júní 30, 2016

Fyrst F svo umheimurinn

Uppgjör mánaðarins snýst ekki um forsetakosningar (Guðmundur Andri Thorsson var afturámóti með frábæra – og jákvæða – greiningu á forsetaframbjóðendunum sem lengst náðu; fulljákvæður í garð Davíðs þó) eða hitt f-orðið, ekki einu sinni um Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur sem notaði síðasta dag mánaðarins til að viðra siðleysi sitt og tilkynna að úr því að það varðaði ekki beinlínis við lög að gera ekki grein fyrir aflandsfélagaeign sinni þá ætlaði hún sko bara víst að setjast aftur í borgarstjórn. Áfram Framsókn, ekkert stopp. Eða jú, úr því allskonar f ryðjast fram þá er kannski rétt að geta þess að Katrín Pétursdóttir í Lýsi fékk fálkaorðu á 17da júní. Hún hlýtur að hafa fengið fálkaorðuna fyrir frækna framgöngu við uppskipun, en hún er ein yfirmanna Rio Tinto Alcan sem stóð í ströngu við að brjóta verkfall starfsmanna á bak aftur. Sannarlega verðugur orðuhafi.

Allskonar gerðist hinsvegar í útlöndum í júní og verður nú gerð grein fyrir einhverju af því. (Brexit fær hugsanlega sér pistil á næstunni.)

Tyrkland – þrjú börn
Erdogan Tyrkjasoldán hefur hamingjulausnir fyrir konur á hreinu:
„Líf kvenna er ófullkomið án barneigna, og þrjú börn er mátulegur fjöldi fyrir hverja konu … Hver sú kona sem hafnar því að verða móðir og sinna heimili sínu, sagði Erdogan, er ófullkomnuð, hvernig sem henni gengur á framabrautinni.“

Pólland – fóstureyðingar
Erdogan virkar hlægilegur þar til orð hans eru sett í samhengi við önnur afskipti af frjósemi kvenna, eins og lagasetning sem er í uppsiglingu í Póllandi. Konur þar berjast gegn fóstureyðingalöggjöf sem sviptir konur í raun öllum þeim litla rétti sem þær hafa haft til að fara í fóstureyðingu. Í framtíðinni eiga aðeins konur sem eru í bráðri lífshættu kost á að láta rjúfa meðgönguna. Það er hrikalegt.

Börn á flótta, og svo bara versnar það
„Kynferðislegt ofbeldi, vinnuþrælkun og vændi er raunveruleiki hundruða fylgdarlausra flóttabarna sem hafast við í norðanverðu Frakklandi. Glæpahringir nýta sér neyð barnanna og stúlkur þurfa að selja sig oftar en þúsund sinnum til að eiga fyrir ferðinni yfir Ermasundið,“
sagði í frétt Ríkisútvarpsins þar sem vitnað var í nýútkomna skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.
„Það er auðvitað alveg óásættanlegt að þegar hægt væri að flytja börnin yfir sundið með löglegum og einföldum hætti að við neyðumst til að horfa upp á þau fara inn í kæligáma eða annars konar gáma til að reyna að smygla sér yfir sundið. Að ég tali nú ekki um að við þurfum að horfa upp á börn stunda vændi til að koma sér þessa leið og reyna að fá öruggt skjól í Bretlandi,"
segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

Á Kjarnanum birtist stuttur pistill um þennan nöturlega veruleika og lýkur honum á þessum orðum:
„Þegar svona upplýsingar koma fram, hugsa flestir eflaust strax, að við þessu þurfi að bregðast og hreinlega bjarga þessum börnum. Því miður sýnir sagan, að svo einfalt er það ekki oft er alþjóðasamfélagið svifaseint þegar að kemur að þessum málum. Vonandi verður svo ekki í þessu tilfelli, og vonandi verður eftirfylgni þessarar skýrslu kraftmikil þannig að staðan nái eyrum þeirra sem ráða, og eru í stöðu til að gera betur.
Staða eins og þessi er smánarleg fyrir alþjóðasamfélagið og raunar algjörlega ólíðandi.”

Byssuóðir Bandaríkjamenn eru (byssu)óðir
Hvað gerðist eftir skotárásina á Pulse næturklúbbnum í Orlando þar sem rúmlega fimmtíu manns létu lífið? Jú, hlutabréf í fyrirtækjum sem framleiða skotvopn hækkuðu í verði. Að einhverju leyti má rekja gróðavon þeirra sem keyptu hlutaféð til þess að í eitt augnablik leit út fyrir að skotvopnalög yrðu hert (og það yrði svo mikið keypt af byssum áður en þau gengu í gildi) en auðvitað komu Repúblikanar á þingi í veg fyrir það. Höfðu þó þingmenn Demókrata gripið til þess örþrifaráðs að vera í setuverkfalli í þinginu. En allt kom fyrir ekki, frumvarp um hert eftirlit með hverjir mega kaupa hvað komst ekki í gegn. Ekki fylgir sögunni hvort hlutabréfin lækkuðu aftur í verði.

Kröfuhafar: ólíkt hafast þeir að
Jákvæð frétt birtist á vef Ríkisútvarpsins í byrjun mánaðarins. „Grínistinn, samfélagsrýnirinn og sjónvarpsþáttastjórnandinn John Oliver hefur keypt upp kröfur í 9.000 ógreidda læknisreikninga í vanskilum upp á 15 milljónir Bandaríkjadala, ríflega 1,8 milljarða króna. Hann hyggst ekki innheimta þessa reikninga heldur gefa öllum skuldurunum 9.000 upp skuldir sínar. Þessi aðgerð Olivers var liður í harðri gagnrýni hans á nýja og ört vaxandi grein í fjármálalífi Bandaríkjanna og reyndar heimsins alls - brask með skuldir annarra.

Fjöldi fyrirtækja sérhæfir sig í að kaupa vanskilaskuldir sem bankar og innheimtufyrirtæki hafa eða hyggjast afskrifa, fyrir brotabrot af upprunalegri upphæð skuldarinnar. Í framhaldinu fara þessi nýju hrægammafyrirtæki fram gegn skuldurunum af áður óþekktri hörku, óskammfeilni og óheiðarleika. Þetta segir Oliver hinn mesta skítabisness, og það sem meira er, hver sem er virðist geta stundað þetta eftirlitslaust. Þessu til sönnunar stofnaði hann sitt eigið innheimtufyrirtæki. Að hans sögn var það skelfilega einfalt. Hann keypti svo nærri tveggja milljarða vanskilaskuldir sjúklinga við lækna sína fyrir litlar 7,4 milljónir - og felldi þær niður.“
Þetta er óvenjuleg leið til að koma beittri gagnrýni á framfæri, en afar snjöll, og John Oliver til mikils sóma.

Muhammad Ali allur
Uppáhalds músliminn minn sem var jafnframt uppáhalds íþróttamaðurinn minn lést 4. júní, 74 ára að aldri.



Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

þriðjudagur, júní 28, 2016

Er það einhverstaðar í verklýsingu innanríkisráðherra að taka sum málefni ráðuneytis síns fantatökum?

Innanríkisráðherra er yfir kirkjumálum, lögreglunni, útlendingamálum.

Í nótt sköruðust þessi þrjú svið þegar lögreglan dró útlendinga útúr kirkju sem þeir höfðu leitað skjóls í. Hælisleitendurnir voru þarna í boði sóknarprestsins sem bauð þeim kirkjugrið; lögreglan að boði Útlendingastofnunar. Hvort það var innanhússákvörðun hjá lögreglunni eða sérstök ósk Útlendingastofnunar að senda fautann sem barði viðstadda um leið og hann dró unglingspiltinn miskunnarlaust út, er óvitað. Innanríkisráðherra er yfirmaður löggufautans jafnt sem sóknarprestsins. Með hverjum tekur hún afstöðu – burtséð frá því að hún tekur augljóslega ekki afstöðu með hælisleitendum frá Írak. Var það ekki fyrrverandi formaður flokksins hennar sem kvittaði uppá innrásina þar? Það er eins og mig minni það, en það er auðvitað ekki til siðs hjá innanríkisráðherra að rifja upp orsakir og afleiðingar. Hvað þá að átta sig á hvenær er gengið út fyrir velsæmismörk.

Útlendingastofnun er í aðalhlutverki í öðru andstyggilegu máli – og innanríkisráðherra líka. Fjölmiðlum er nú bannað að taka við hælisleitendur. Reyndar má hreinlega enginn heimsækja þá eða tala við þá, sýna þeim samúð í aðstæðum þeirra eða reyna að stytta þeim stundir á nokkurn hátt. Það er nefnilega svo óheppilegt þegar ‘málsnúmer fá andlit’. Það hefur nefnilega sýnt sig að þá hættir venjulegum íslenskum ríkisborgurum stundum að standa á sama um hælisleitendur. Útlendingastofnun vill að við verðum öll eins og Útlendingastofnun sem stendur á sama um hælisleitendur. Og yfir þetta leggur innanríkisráðuneytið — ráðuneyti Ólafar Nordal — blessun sína.

Þó ég hafi talið upp þrjá málaflokka sem heyra undir innanríkisráðuneytið eru þeir vitaskuld fleiri. Mannréttindi heyra líka undir ráðuneytið. Það er vægast sagt kaldhæðnislegt.

Efnisorð: , , , , ,

sunnudagur, júní 26, 2016

Móri reyndi sig við dagsljósið

Þá er það búið. Fór eins og við var að búast, þótt fyrstu tölur bentu til að úrslitin gætu orðið óvænt. Sem betur fer var Guðni kosinn en ekki Halla — best af öllu var þó að aðeins 13,7 prósent kjósenda kusu Davíð Oddsson. Hann hamraði á reynslu sinni, milli þess sem hann pönkaðist á Guðna og sneri útúr fyrir spyrlum, og hélt að það myndi ganga í kjósendur. En kjósendur hafa einmitt slæma reynslu af Davíð Oddssyni og þessvegna höfnuðu þeir honum.

Það gleður mig mjög að kosningarnar eru afstaðnar og þurfa hvorki að sjá né heyra í Davíð framar.

Hann hefur eytt undanförnum árum í Hádegismóum að endurskrifa Íslandssögu 21. aldarinnar; kannski var framboðið ein tilraun hans til að leiðrétta sinn hlut, nóg setti hann ofan í við fjölmiðlafólk sem vogaði sér að ræða nokkrar staðreyndir við hann. Ekki veit ég hvort kenningin um að hann hafi farið fram til að draga athyglina frá Panamaskjala-umræðunni og bjarga þannig formanni Sjálfstæðisflokknum úr klípunni, sé sönn, en hitt veit ég að ég fyrir mitt leyti hef ekki gleymt því máli og hef ekki hugsað mér annað en draga það (oft) fram í aðdraganda þingkosninganna.

Mér var ómögulegt að fylgjast með öllum viðtölum við forsetaframbjóðendur, en held þó að það hefði ekki farið framhjá mér hafi Davíð verið spurður um upptökuna af samtali hans og Geirs H. Haarde 6. október 2008, sem snerist um 500 milljóna evru þrautavaralán Seðlabankans til Kaupþings, tveimur dögum áður en bankinn féll. Þetta jafngilti þá ríflega 80 milljörðum króna. Aðeins um helmingur lánsins hefur endurheimst, tap skattgreiðenda vegna lánveitingarinnar nemur um 35 milljörðum króna. Geir er hlýðinn við Davíð og leyfir ekki að upptakan sé birt, en Seðlabankinn hefur sagt að lánið hafi ekki verið veitt samkvæmt verklagsreglum bankastjórnar Seðlabankans. Hefði nú ekki verið skemmtilegt ef fjölmiðlar hefðu spurt forsetaframbjóðandann hvort hann væri tilbúinn að létta álögunum af Geir og leyfa kjósendum að heyra samtalið?

Efnisorð: , ,

föstudagur, júní 24, 2016

Forsetakosningar á morgun

Bannað er að vera með áróður á kjörstað og ég ætla að reyna að stilla mig um að það. Í staðinn verða hér tenglar og tilvitnanir í ummæli og góðar greinar um forsetakosningarnar en þó aðallega gegn ákveðnum forsetaframbjóðanda.

Meðan ég pota þessu inn í bloggið horfi ég með öðru auganum á forsetaframbjóðendur í sjónvarpssal. Sá hluti sem hafði fjóra efstu frambjóðendur er búinn (fáránlegt að hafa þau ekki öll saman) og nú stendur yfir sá hluti sem þau sem ekki mælast með tveggja stafa tölu í skoðanakönnunum fá náðarsamlegast að tala.

Að því sögðu er rétt að vara fólk við að fara í drykkjuleiki meðan það horfir á þáttinn. Ætli fólk að drekka sopa, hvað þá heilt staup, í hvert sinn sem Sturla segir ‘verðtrygging’ eða ‘stjórnarskrá’, er bráð áfengiseitrun yfirvofandi.

Hafi fólk sömuleiðis ætlað að skála fyrir Davíð í hvert sinn sem hann talaði um annað sem hann var spurður, skaut á fólk (jafnvel Katrínu Jakobsdóttur sem hann talaði um eins og hún hefði verið í forsetaframboði) eða var yfirhöfuð dónalegur, er mjög líklegt að mælist í þeim áfengi framundir mánaðamót.

Ég býst reyndar fastlega við að margir hafi hellt ótæpilega í sig meðan Guðrún Margrét Pálsdóttir reyndi að svara spurningum um hjónabönd samkynja para og fóstureyðingar, svo pínlegt sem það var að hlusta á hana tafsa og stama. Það mætti reyndar skrifa margt um það atriði, en það bíður betri tíma, enda liggur ekkert á þegar Guðrún Margrét á í hlut, ekki frekar en henni liggur á að klára setningar.

Hefst þá áróðurinn.

Illugi Jökuls skrifaði opið bréf til sægreifanna og ræddi við þá um forsetaframbjóðandann þeirra sem þeir réðu til starfa:
„Og þið réðuð Davíð Oddsson til að stýra áróðursmálgagninu ykkar.
Sjálfur hrunkóngurinn varð ritstjóri eins áhrifamesta fjölmiðils á Íslandi.
Þetta var náttúrlega bara eins og blaut tuska framan í andlit fólks sem ímyndaði sér að eftir hrun væri bæði brýnt og mögulegt að skapa óspilltara Ísland - en þurfti á heiðarlegum fjölmiðlum að halda til þess.[…]
Þið réðuð hann til að prédika yfir þeim sannfærðu. Þið réðuð hann til að stappa stálinu í valdamenn, æðstu embættismenn, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, ykkar fólk!
Þið réðuð hann til að brýna fyrir ykkar mönnum að halda árunni hreinni. Marsera í takt. Lofsyngja sægreifa. Lækka gjöld ykkar. Ráðast af offorsi gegn minnstu tilraunum til að hrófla við ykkur. Hæðast að öllum sem blökuðu við ykkur.
Og það hefur ykkar maður gert skammlaust.[…]
Og nú er ykkar maður kominn í forsetaframboð.
Við skulum hafa sem fæst orð um þá beisklegu baráttu.
En auðvitað er helsta baráttumálið að berjast gegn hugsanlegum breytingum á stjórnarskránni. Það segir sig sjálft.[…]
Þið látið nú hvað eftir annað dreifa Morgunblaðinu ókeypis í öll hús á landinu, og þá bregst ekki að þar er að finna ómerkilegar áróðursgreinar sem ætlað er að níða skóinn af helstu keppinautum ykkar manns.
Heiðarlegu fólki.
Síðast nú í morgun.
Þar sem ábyrgðinni af Icesave er varpað á alla nema Davíð Oddsson. Manninn sem þó ber meiri ábyrgð á málinu en flestir aðrir.
Greinaskrifin í Mogganum vekja margar og leiðar spurningar um siðferðið á bak við svo skefjalausan áróður.
Bæði fyrir frambjóðandann sjálfan, þá starfsmenn Morgunblaðsins sem taka þátt í þessu, og fyrir ykkur sem eigendur blaðsins sem notið það í blygðunarlausum áróðri gegn tilteknum forsetaframbjóðendum.“

Í athugasemdakerfi við grein Jóns Trausta Reynissonar segir Reynir Eggertsson m.a.:
„Hjá forseta Íslands liggur undirskriftalisti tugþúsunda Íslendinga sem krefjast þess að hann vísi öllum breytingum á lögum um nýtingu auðlindarinnar til þjóðarinnar. Meirihluti á þingi hefur ekki enn treyst sér til að samþykkja þessi lög og senda til forseta af ótta við að hann vísi þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta vitum við. Óskastaða LÍÚ er að fá á Bessastaði ,,traustan" liðsmann sem kærir sig kollóttan um einhverjar undirskriftasafnanir; þ.e. mann sem ,,lætur ekki hræra í sér" heldur tekur eigin ákvarðanir. Slíkan forseta þarf á Bessastaði áður en kemur að væntanlegum haustkosningum þannig að lögfesta megi kvótakerfið endanlega í sessi og afgreiða stærsta rán Íslandssögunar frá. ,,Eftir það mega kosningar koma fyrir mér", syngur þá eignastéttin. Það verður stórmerkilegt að fylgjst með svörum forsetaframbjóðandans DO við spurningum um þjóðaratkvæði um kvótakerfið, eða hversu hann brygðist við fyrirhugaðri lagasetningu.“
Annarstaðar segir Reynir Eggertsson svo þetta:
„Framboð Davíðs er neyðarráðstöfun LÍU því þeir þurfa nauðsynlega að fá ,,traustan" mann á Bessastaði fyrir haustkosningarnar svo núverandi meirihluti þings geti samþykkt áætlaðar breytingarnar á kvötalögunum og sent til forseta ,,sem lætur ekki hræra í sér" með einhverjum undirskriftasöfnunum og undirritar í snatri endanlega stærsta rán Íslandssögunnar: ránið á nýtingarrétti fiskveiðiauðlindarinnar. Varist Trójuhestinn eða aðrar glíkar ,,gjafir Grikkja" og þeirra líka.“‬

Hér er svo grein Jóns Trausta Reynissonar, þar er margt sem ekki má gleyma þegar forsetaframbjóðandinn Davíð Oddsson er til umræðu, t.d. þetta:
„Tímaritið Time taldi [Davíð] upp sem einn af 25 mönnum sem báru mesta ábyrgð á efnahagskreppunni 2008. … taldi sig mikilvægan til að standa vaktina vegna reynslu sinnar og getu, en þegar hann stóð vaktina í Seðlabankanum fór bankinn á hausinn. Eftir bankahrunið, þremur árum eftir að hann tók við stöðunni, stökk hann með stýrivextina fram og til baka, snarlækkaði þá úr 15,5% í 12% en hækkaði þá aftur um 6 prósentustig á tveggja vikna tímabili. Hann tilkynnti líka um 620 milljarða króna lán frá Rússlandi eftir samskipti við Vladimir Pútín, en lánið stóðst síðan ekki, líklega sem betur fer, því hver vill skulda Pútín 620 milljarða? Það er að segja annar en Davíð, sem reyndi það fyrir okkar hönd, og gagnrýnir svo fyrri ríkisstjórn fyrir að reyna að semja um skuldir við breska og hollenska sparifjáreigendur. … baðst ekki afsökunar á því að seðlabanki þjóðarinnar fór í þrot þegar hann bar ábyrgð á honum - heldur fór í staðinn að endurskrifa söguna, gagnrýna aðra og bauð sig síðan fram sem forseti […] lét gera sjálfan sig að Seðlabankastjóra þannig að Seðlabankinn missti stöðu sína sem óháð aðhald við ríkjandi ríkisstjórn.”
Ingi Freyr Vilhjálmsson:
„Enginn einn einstaklingur á Íslandi ber eins mikla ábyrgð á efnahagshruninu sem varð á Íslandi árið 2008 og Davíð Oddsson […]Samfélagið sem hrundi 2008 var mannfélagið sem Davíð hafði lagt grunninn að og byggt upp með nær óhefta markaðshyggju sem leiðarstef þegar hann var forsætisráðherra á árunum 1991 til 2004. Á þessum tíma einkavæddu hann og Halldór Ásgrímsson - formannsræðið í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum á þessum tíma var nær algjört - ríkisbankana upp í hendurnar á pólitískum vildarvinum flokkanna og hófu bankarnir í kjölfarið gengdarlausar lántökur erlendis.
Þessi útlánasöfnun bankanna, og annnarra fjármálafyrirtækja á Íslandi, leiddi til þess að skuldir íslenska bankakerfisins urðu tólfföld landsframleiðsla og af því að það samræmdist ekki hugmyndum stjórnvalda og ríkisstjórnar Davíðs þá var fjármálaeftirlitið á Íslandi ekki styrkt og bætt samhliða vexti bankakerfisins. Bankakerfið á Íslandi var nær eftirlitslaust og af því það var ekki vilji til að veita því almennilegt og gagnrýnið aðhald þá fór sem fór.
[…]
Spurningin er: Hversu dýr verður Davíð allur? Og þá er ekki bara átt við beint fjárhagslegt tjón heldur siðferðilegt tjón, lýðræðislegt tjón, stjórnmálalegt tjón, orðsporslegt tjón; tjón af því að hafa þennan valdasjúka fulltrúa sérhagsmunafla í mögulega valdamesta, pólitíska embætti landsins í fjögur ár eða jafnvel lengur. Davíð hefur nú þegar valdið Íslandi djúpum og langvinnum pólitískum skaða.“
Svo má líka orða þetta í styttra máli eins og Sveinn nokkur Hansson gerði í athugasemd við fyrstu fréttir af framboði Davíðs:
‪Maðurinn sem setti seðlabankann á hausinn vill verða forseti.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
‪Maðurinn sem skapaði allar aðstæður fyrir hrunið vill verða forseti.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
‪Maðurinn sem samþykkti Írsksstríðið vill verða forseti.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
‪Maðurinn sem er talinn einn af 25 helstu gerendum í hruninu vill verða forseti.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
‪Maðurinn sem gaf vildarvinum sínum Landsbankann vill verða forseti.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
‪Endilega kjósum Davíð Oddson til að opinbera og staðfesta endanlega heimsku og siðblindu þessarar þjóðar.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
‪Til hamingju Ísland.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
Fyrirsögn Sunnu Kristínar Hilmarsdóttur segir líka margt um feril Davíðs: „Davíðs saga Oddssonar: Einkavæðingin, Íraksstríðið, Big Mac og Bermúdaskál“. Fleira er reyndar tínt til, svosem ummæli hans um fegurðardrottningar.

Og svo var það hin ágæta grein Bjargar Árnadóttur sem ég hef áður hampað, þar sem hún segir m.a. frá því þegar hún hitti Davíð Oddsson.

Eitt sem virðist hvergi koma fram í allri þessari pistlasúpu (eða mér hefur sést yfir það þegar ég þrælaði mér gegnum skjalasafnið) er að Davíð Oddsson lagði niður Þjóðhagsstofnun með lögum árið 2002, og rökstuddi það m.a. svona í frumvarpinu: „Þá hefur starfsemi fjármálastofnana á þessu sviði eflst verulega með tilkomu greiningardeilda þeirra og margar þeirra gefa út mánaðarlegar skýrslur um efnahagsmál. Þær eiga því stóran þátt í umræðunni. Rannsóknastofnanir háskólanna hafa einnig eflst. Þótt þessir aðilar birti ekki heildstæðar þjóðhagsspár setja þeir fram rökstutt álit á þeim spám sem birtast og ekki ólíklegt að þeir muni í framtíðinni gera eigin spár. Það er því af sem áður var að slíkar upplýsingar verði að sækja til einnar og sömu stofnunar.“ Og var greiningardeildum bankanna látið eftir að fabúlera um efnahagsástandið og stöðugleika bankanna. Rauðu ljósin hefðu blikkað hjá Þjóðhagsstofnun en greiningadeildirnar voru eins og hverjar aðrar markaðsdeildir bankanna og börðu fótastokkinn sem ákafast þegar hylurinn blasti við. Það er annars skemmtilegt að í fréttinni (í Mbl. fyrir tíð ritstj.) þar sem sagt er frá dauðadómnum yfir Þjóðhagsstofnun, er vitnað í sumt af því fólki sem tók að sér hreinsunarstarfið eftir hrunið; þarna eru þau að vara við því að þjóðhagsstofnun verði lögð niður.

En aftur að framboðsþættinum áðan. Guðrún Margrét Pálsdóttir sagði snemma í þættinum eitthvað á þá leið að við eigum að heiðra fólk í stað þess að tala illa um það. Ég vil taka hana á orðinu og legg til að Ástríður Thorarensen verði heiðruð fyrir ótrúlega þolinmæði.


Efnisorð: , , , , ,

þriðjudagur, júní 21, 2016

Dáleiðandi akstur um landið

Þjóðvegur eitt í beinni hægvarps-útsendingu Ríkissjónvarpsins við tónlist Sigur Rósar var indæl upplifun. Ég ætlaði rétt að kíkja á fyrstu mínúturnar í gærkvöld þegar hringferðin var að hefjast en sat sem dáleidd í klukkustund áður en mér tókst að rífa mig frá sjónvarpinu. Kíkti ekkert fyrr en um hádegi í dag þegar mér lánaðist að sjá Mývatn birtast - og hið skemmtilega atkvik þegar bílstjórinn þurfti að snúa við því hann hafði valið rangan veg og var á leið til Húsavíkur en ekki Akureyrar. Síðdegis sá ég Vatnsdalshóla og vissi að þá hlyti RÚV-trukkurinn að vera á ferð um Húnavatnssýslur. Fékk staðfest sem mér finnst alltaf þegar ég keyri þar í gegn; að þær eru endalausar.

Mér fannst í fyrstu sem óþarflega mikið væri rúntað í Reykjavík á lokasprettinum, því mér fannst að útsendingingunni hefði átt að ljúka þegar þjóðveginum sleppti. En svo var endað út við Gróttu í guðdómlegri kvöldsól, það var frábær endir.

Enda þótt fyrirmyndin komi frá Noregi þá finnst mér sem Ríkissjónvarpið hafi, bæði með Beint frá burði og núna með hringferðinni, algjörlega náð að gera þetta rólyndissjónvarp að sínu.

Efnisorð:

mánudagur, júní 20, 2016

10 segi og skrifa

Skemmtilegi fróðlegsmoli dagsins: Vegna þess að ég hef ekki tekið upp eftir Ólafi Ragnari að tala í sífellu um sjálfa mig í þriðju persónu (þótt það hafi eflaust komið fyrir, en hef þó forðast að kalla mig 'forsetinn') þá hef ég frá upphafi bloggskrifa notað hið fagra orð ég 984 sinnum í bloggfærslum, mig 333svar, mér 672svar, og mín 384 sinnum. Í einhverjum tilvikum er að ræða tilvitnun í sjálfhverft fólk, en restin á ég víst alveg sjálf.

Kökuna sem ég bakaði í tilefni 10 ára bloggafmælisins át ég líka sjálf, enda langaði mig mjög mikið í hana, en ég gætti mér ekki hófs og skammast mín svoldið fyrir það. (Æ, nú þarf ég að telja uppá nýtt!)

Annars er ég bara sátt við lífið og bloggtilveruna, og sú vissa mín að lesendur kyrji TÍU ÁR ENN gleður mig mjög.

Til hamingju með mig!

sunnudagur, júní 19, 2016

19. júní lesturinn

Á kvenréttindaginn er hollt að rifja upp að það voru klárar konur sem börðust fyrir kosningarétti kvenna, buðu sig fram í kosningum, settust á þing og í sveitastjórnir, og lögðu fram frumvörp og ályktanir sem breyttu samfélagi okkar til frambúðar. Vigdís var kjörin forseti, Jóhanna varð forsætisráðherra, konur komust í fleirtölu í ráðherrastóla. En þær eru ekki einsdæmi um klárar konur sem hafa áhrif. Sumar klárar konur eru í pólitík, aðrar skrifa pistla eða eru aktivistar af ýmsu tagi.

Hér á eftir fara margvíslegar góðar greinar og spakleg orð kvenna sem birst hafa síðustu mánuði. Margar fleiri konur hafa fjallað um fjölbreytt áhugasvið sín (konur hafa nefnilega áhuga á fleiru en fötum, karlmönnum, kynlífi, stefnumótum og snyrtivörum, enda þótt ‘lífstílsmiðlar’ á borð við Smartland, Bleikt, Pjatt, og hið sykraða systurblað Kvennablaðsins vilji meina annað), en þær sem hér eru nefndar skrifa um allt frá forsetakosningunum til rasisma, með viðkomu í lífeyrissjóðum og Kárahnjúkavirkjun.

Auður Jónsdóttir
Margt skemmtilegt og gott hefur Auður Jónsdóttir skrifað en hér verður aðeins tekið dæmi úr prentútgáfu Fréttatímans frá því í fyrradag. Þar er hún einn álitsgjafa þegar spurt er um áhrifamesta, mikilvægasta, skemmtilegasta eða kostulegasta atburð lýðveldisins. Og Auður byrjar á að ræða auglýsingaherferð Sjálfstæðisflokksins í kosningunum fyrir hrunið undir slagorðum á borð við: Traust efnahagsstjórn. Síðan segir hún:
„Ég held þó að einn kostulegasti og um leið sorglegasti atburðurinn hafi verið þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson heitinn vildu leika sig stóra á heimstaflinu og kvittuðu upp á innrásina í Írak fyrir hönd þjóðarinnar. Þar með var hún gerð ábyrg í einum hræðilegasta og afdrifaríkasta atburði samtímasögunnar sem sér ekki ennþá fyrir endann á. Það tímabil var reyndar allt skrýtið; þessi ár þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn stýrðu okkur bæði inn í heimsátök og Kárahnjúkavirkjun, óafturkræfa eyðileggingu á landi og lífi – sama með hvaða rökum sérfræðingar og vísindamenn mótmæltu þessu tvennu. Ég veit ekki alveg hvaða eyðileggingaröfl knúðu annað eins áfram en það fennir seint yfir þessar ákvarðanir og afleiðingar þeirra.“

Forsetaframboð
Björg Árnadóttir skrifar 17. júní pistil í Kjarnann um forsetaframboð og í þessu broti úr greininni segir frá því þegar hún hitti Davíð Oddsson.
„Þegar ég horfði á eftir honum velti ég fyrir mér af hverju mér finnast þau níu ár sem aðskilja okkur í aldri vera ljósár. Líklega stafar það af háum valdaldri hans. Hann hefur alltaf verið til sýnis opinberlega. Ég var bara barn þegar hann birtist á fjölunum í hlutverki kóngs og síðan hefur hann verið í hlutverki valdsmanns í hverju stykkinu á fætur öðru. Aumingja blessaður maðurinn, hugsaði ég þegar ég horfði á eftir honum hoknum af gömlu valdi, ekki vildi ég skipta við hann um fortíð.

En ég vil þakka Davíð hugrekkið að ganga sjálfviljugur fyrir landsdóm og auðvelda þjóðinni uppgjörið við sig. Davíð er af sumum sagður fórnarlamb hatursorðræðu. Það er röng orðnotkun af því að hatursorðræða er faghugtak um þá refsiverðu iðju að kynda undir hatri á minnihlutahópum.
[…]
Sjálf íþyngi ég mér ekki með skoð­unum á eðli Davíðs og sómakennd, framkomu og gjörðum en hjarta mitt veit að Davíð hefur vondan málstað að verja, nýfrjálshyggjuna sem kviknaði eins og engisprettufaraldur og eirir engum jöfnuði. En ég er bjartsýn í sólinni og spyr hve langt sé síðan þessi ósköp dundu yfir. Innan við þrjátíu ár! Og hvað er langt síðan stefnan strandaði með hruni? Innan við tíu ár! Það er stuttur tími í lífi þjóðar. Innan skamms verða þessi þrjátíu ár innan sviga í Íslandssögunni. Við furðum okkur á hvernig þetta gat gerst og setjum á svið söngleik eins og þann um Hundadagana og konung þeirra á landinu bláa.
[…]
Ég hélt að tilgangur Davíðs með framboði sínu væri að gera þjóðinni kleift að fyrirgefa honum. Ég bjóst ekki við að hann sækti sér ráðgjafa í Jötunheima heldur hélt ég að hann fyndi fólk eins og Elísabetu Jökulsdóttur sem gæti samið fyrir hann eftirfarandi ræðu: „Vissulega gerðust hræðilegir atburðir á vakt minni. Ég hef að sjálfsögðu grannskoðað þátt minn í atburðarásinni og dregið af honum lærdóm. Því kem ég ferskur inn í þessa baráttu.“ Með þessum orðum hefði Davíð opnað samtal við þjóðina. Í staðinn sjáum við mann sem segir að helsti kostur sinn sé að við þekkjum galla hans. Eiginkona hans lýsir yfir á forsíðu blaðs að hún hafi aldrei sóst eftir neinu. Er hún að ráðleggja okkur að vera jafn lítilþæg og kjósa Davíð sem hefur upplýst að hann nenni ekki að sinna flugfreyjuhlutverki forseta á alþjóðavettvangi heldur ætli að hanga á Bessastöðum og bjóða þangað fimmta hverjum manni úr símaskránni að skoða sig?“

Elín Björg Jónsdóttir og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir
Hér eru slegnar tvær flugur í einu höggi því Elín Björg, sem er formaður BSRB, skrifar um málþing sem haldið var í maí og bar yfirskriftina „Er einkavæðing í heilbrigðisþjónustu almannahagur?“, og vitnar m.a. í Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur dósent í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Sigurbjörg er afar skelegg og hefur margt og merkilegt sagt og skrifað um stjórnsýslu og spillingu hér á landi. En hér er semsagt verið að ræða einkavæðingu, og Sigurbjörg „sagði skýrt í sínum huga að einkarekstur væri einfaldlega einkavæðing á þjónustu.“ Og Elín heldur áfram og segir:
„Eins og Sigurbjörg nefndi í erindi sínu er mun auðveldara að einkavæða þjónustu heldur en að snúa til baka og láta ríkið sjá um verkefni sem áður voru í höndum einkaaðila. Með einkavæðingunni skapast viðskiptahagsmunir og kröfur um arðgreiðslur fyrir þjónustu sem fjármögnuð er af skattfé. Hættan er sú að þjónustan verði dreifð og brotakennd og að stjórnvöld missi möguleika á að forgangsraða og skipuleggja þjónustuna í þágu almannahagsmuna.

Við getum fengið lánað orðatiltæki frá enskumælandi þjóðum til að auðvelda skilning. Ef eitthvað lítur út eins og önd, syndir eins og önd og hljómar eins og önd eru allar líkur á að það sé önd. Einkarekstur er ekkert annað en einkavæðing undir öðru nafni.“

Viðtal við forsetafrú
Allt bendir til að Eliza Reid verði forsetafrú. Fréttatíminn birti fínt viðtal við hana 4. júní (sem í prentútgáfunni bar heitið „Feministi og engin tískudrós“) þar sem hún sagðist vera „mikill femínisti og gæti ekki hugsað sér að vera bara frú og viðhengi“. Og Eliza segir að hún vilji ekki alltaf vera uppstríluð. „Ég vil heldur ekki að börnin mín fái þá hugmynd að konur megi ekki láta sjá sig utandyra án þess að vera málaðar og uppstrílaðar þannig að ég vil alls ekki gera það að einhverju aðalatriði.“ Feminísk forsetafrú, það er tilhlökkunarefni.

Lára Hanna Einarsdóttir
Í byrjun síðasta mánaðar skrifaði Lára Hanna einn af sínum frábæru pistlum. Þessi fjallar um aflandsfélög, núverandi ríkisstjórnarflokka og þá furðulegu staðreynd að þeir voru kosnir til valda. Pistillinn heitir „Að kyssa vönd og kúga þjóð“, og ég á eflaust eftir að rifja hann upp aftur þegar líður nær þingkosningum.

Maja Loncar
Ungar konur sem komu hingað sem börn flóttamanna hafa stigið fram í fjölmiðlum og nú er Maja Loncar, sem kom hingað sem kvótaflóttamaður frá Króatíu ellefu ára gömul, orðin félagsráðgjafi og hefur rannsakað félagslega aðlögun flóttabarna. Hún segir að mikilvægt sé að styðja vel við flóttabörn, og rökstyður það ítarlega í viðtali sem Viktoría Hermannsdóttir tók við hana fyrr á árinu.

Sif Sigmarsdóttir
Sif hefur ekki birt pistla í Fréttablaðinu í nokkrar vikur (ég hef áhyggjur af brotthvarfi hennar og ég vona að það sé ekki til frambúðar) en í febrúar skrifaði hún um sýndarveröldina sem við erum föst í, og að við erum bara valdlaus tannhjól í mismunandi kerfum:
„Nýir búvörusamningar sem kosta munu skattgreiðendur tugi ef ekki hundruð milljarða næstu tíu árin staðfesta að tilgangur landbúnaðarkerfisins er ekki að þjónusta neytendur heldur öfugt. Við borðum til að viðhalda landbúnaðarkerfinu.

Hótanir forsætisráðherra í garð Háskóla Íslands í kjölfar þess að Háskólaráð ákvað að flytja íþróttakennaraskólann frá Laugarvatni til Reykjavíkur staðfestir að háskóli landsmanna er ekki rekinn til að mennta fólk sem best og með sem hagkvæmustum hætti heldur til að viðhalda mannlífi á afskekktum stöðum. Við hugsum til að tryggja byggð á Laugarvatni.

Hörð andstaða Samtaka atvinnulífsins við frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi um styttingu vinnuvikunnar úr 40 klukkustundum í 35 staðfestir að okkur er ekki ætlað að vinna til að lifa, við lifum til að vinna.

Þrjár fyrirsagnir á forsíðu Vísis í einni og sömu klósettferðinni segja allt sem segja þarf: „HB Grandi hagnaðist um 6,5 milljarða“ – „Hagnaður Arion 49 milljarðar í fyrra“ – „Stjórn VÍS vill greiða eigendum 5 milljarða í arð“.

Landbúnaðarkerfið, byggðakerfið, fiskveiðistjórnunarkerfið, bankakerfið, tryggingakerfið, hið kapítalíska kerfi … Við lifum í þeirri trú að þessi kerfi séu til fyrir okkur. Því er hins vegar öfugt farið.“
Svo vitnar Sif heilmikið í þá ágætu kvikmynd Matrix, sbr. lokaorðin: „Kæri lesandi, þú hefðir átt að velja bláu pilluna.“

Eiturefnahernaðurinn
Úrsúla Jüneman hefur skrifað fjölmarga pistla til varnar náttúru Íslands. Hér er grein eftir hana þar sem hún þrengir sjónarhornið niður í húsagarða.
„Enn eru fyrirtæki á ferð sem bjóða garðaúðun til að drepa „allar pöddur“ sem gætu nagað einhver laufblöð. Og enn eru seldir á fullu illgresiseyðir, mosaeyðir og alls konar eyðar sem vinna á óæskilegum gróðri. Að eyða til dæmis lúpínu með eitri er því miður ennþá stundað. Mörg þessara efna eru skaðleg heilsu manna. Roundup (glyphosfat) til dæmis er krabbameinsvaldandi, þótt framleiðendur neiti því. 

Menn sem nota slík efni gera sér ekki grein fyrir því hve viðkvæm vistkerfin eru fyrir inngripi manna. Í vistkerfum tengist allt saman og ef við drepum eina tegund þá hefur það áhrif á margar aðrar tegundir og líka þær sem eru okkur þóknanlegar og gagnlegar.“

Lífeyrissjóðsmál og lífeyrissjóðskóngar
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar í Fréttatímann í gær um Valgerði Thorsteinsdóttur sem missti vinnuna þegar bankarnir hrundu árið 2008. Hún rekur hvernig það kippti stoðunum undan fjárhagslegu sjálfstæði Valgerðar – og ber saman við ofurlaun framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs VR, en það er lífeyrissjóðurinn sem Valgerður borgaði í fram að sjötugu. Laun hans hafa hækkað um 100 prósent síðan hann tók við stöðunni. „Valgerður fær rúmlega 200 þúsund úr lífeyrissjóði og fjörtíu þúsund frá Tryggingastofnun, eftir hálfa öld á vinnumarkaði, þar sem iðgjöldin voru samviskusamlega innt af hendi. Guðmundur [Þ. Þórhallsson] fær því um 16faldan lífeyri hennar í tekjur á mánuði.“ Til þess að láta enda ná saman hyggst Valgerður flytja til Spánar þar sem húsaleiga er mun lægri en hér á landi.

Gjammandi rasistar
Þórunn Ólafsdsóttir hlaut nýlega Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir ötult hjálparstarf í þágu flóttamanna í Grikklandi, segir í prentútgáfu Stundarinnar sem birti facebook færslu Þórunnar um rasisma í nýjasta tölublaði sínu.
„Rasistar á Íslandi eru svolítið eins og smáhundur nágranna míns. Halda að þeir séu hetjur að verja heimili sitt fyrir ágangi innbrotsþjófa eða óboðinna gesta, en eru í raun bara að gjamma út í tómið á eftir venjulegu fólki á leið heim til sín. Sumum finnst þeir krútt og grey, aðrir fyllast ónotatilfinningu vegna ótta við þeirra líka, en flestum finnst þeir bara pirrandi og bíð eftir að mamma þeirra komi og segi þeim að þegja.“


Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

laugardagur, júní 18, 2016

17. júní stóð stutt og var bara fyrir suma

Aldrei hef ég nennt að hlusta á hátíðarræður á Austurvelli á 17. júní. Þarf enda ekki að hafa verið þar til að finnast heimskuleg ákvörðun að girða Austurvöll af fyrir almúganum, svo að aðeins fínir boðsgestir sáu og heyrðu hvað fram fór. Ég held að fæstum þyki það sýna mikla virðingu fyrir almenningi. Fyrir fólk sem hefur haft það til siðs að mæta til að fylgjast með hátíðarhöldunum er þetta algjör vanvirðing.

Um kvöldið gerði ég mér ferð í bæinn til að kíkja á dagskrá kvöldsins, tónleika á Arnarhóli og þvíumlíkt. En nei, dagskrá hafði lokið kl. 18 og ekkert að gerast, utan fólk eins og ég og nokkrir túristar að leita að margrómuðum hátíðarhöldum þjóðhátíðardagsins. Ég taldi að ég gæti gengið að þeim vísum og datt því ekki í hug að lesa dagskrá dagsins, og get því kannski sjálfri mér um kennt.

Afturámóti hef ég hvergi heyrt skýringar á því hversvegna engin kvölddagskrá var (hefur hún kannski ekki verið undanfarin ár; missti ég af þegar hún var lögð niður?) en einhver stakk því að mér að þarna hefði Reykjavíkurborg tryggt aðstandendum Secret Solstice óskipta athygli unga fólksins, og að það væri engin tilviljun að tónlistarhátíðin hefði fengið leyfi til að halda fjögurra daga hátíð í Laugardal á þessum tíma. Ég veit ekki hvort þetta þýðir að einhver einkavinaspilling er í spilunum, eða hvort Reykjavíkurborg er að losa sig undan talsverðum kostnaði við tónleikahald, gæslu, þrif o.þ.h. með þessum hætti. En fúlt er það, að áratugahefðir séu blásnar af skýringarlaust (það ég best veit).

Án þess að mér finnist ræða fjallkonunnar merkilegasti viðburður 17. júní eða ég sé gríðarlega upptekin af því hver gengur í hlutverkið hverju sinni, finnst mér skrítið að hafa hvergi rekist á fréttir um hvaða leikkona las upp ávarp fjallkonunnar (fyrir afmarkaðan en afskaplega vel valinn hóp áhorfenda). Þykir það ekki lengur fréttaefni? Eða kemst ekki ein kvenmannskind fyrir í fréttamiðlum, nú þegar öll athygli þeirra beinist að karlalandsliðinu í fótbolta spila í útlöndum? Og svona úr því ég nenni ekki að fylgjast með skráðri dagskrá: fer því helvíti ekki að ljúka?



Efnisorð: ,

mánudagur, júní 13, 2016

Fjöldamorðin í Orlando

Það var í senn sorglegt og fallegt að sjá fánaborgina við ráðhús Reykjavíkur í dag. Regnbogafáni LGBTQ- fólks, fáni Bandaríkjanna og fáni Reykjavíkur blöktu þar í hálfa stöng til að minnast fórnarlamba skotárásarinnar í Orlando um helgina. Þar létu fimmtíu manns lífið og ríflega fimmtíu til viðbótar særðust þegar óður byssumaður lokaði fólkið inni klukkustundum saman og sallaði það niður með stríðstólum sem hann hafði keypt án nokkurrar fyrirstöðu í landi hinna frjálsu byssueigenda.

Fyrir utan það að þetta er mannskæðasta skotárás í Bandaríkjunum til þessa, eru nokkur atriði sem heimsbyggðin ræðir nú.

Sú staðreynd að árásarmaðurinn var afganskur að uppruna, og múslimi í þokkabót, og sagðist ennfremur styðja Íslamska ríkið (Daesh) – enda þótt ekkert bendi til að hann hafi verið á þess vegum.

Óheft byssueign Bandaríkjamanna og að hvaða vitleysing sem er getur keypt sér byssur sem eiga ekkert skylt við vopn til að verjast innbrotsþjófum eða skjóta sér í matinn.

Hatur á samkynhneigðum, sem sumir trúarhópar rækta mjög meðal áhangenda sinna. Phelps fjölskyldan í Bandaríkjunum er ein þeirra (og sú versta), en sumt hvítt fólk, sem kallar sig kristið, fætt og uppalið á Vesturlöndum — og ekki síst karlmenn — kemst í álíka uppám að sjá karlmenn kyssast og fjöldamorðinginn Omar Mateen.

Eins og Magnús Halldórsson kemst að orði í grein á Kjarnanum, þar sem hann ræðir byssueign Bandaríkjamanna ítarlega:
„Brotalöm í byssulöggjöfinni er eitt, en hatursglæpur gegn hinsegin fólki annað. Mikil samstaða hefur skapast meðal hinsegin fólks um allan heim eftir árásina í Orlando. Hún hitti samfélag hinsegin fólks í hjartastað, enda staðir eins og Pulse var, hálfgert athvarf fyrir fólk innan þessa samfélags. Það sækir styrk til fólks í svipuðum aðstæðum. „Pulse var griðarstaður fjölbreyttrar flóru hinsegin fólks, sem sumu hverju hafði verið úthýst af fjölskyldum sínum. Þar fann fólk nýja fjölskyldu, vini, gleði og ást. Árásin er því árás á hjarta hinsegin samfélagsins.“
Mér varð hugsað til hinnar ágætu hljómsveitar Bronski Beat sem gerði ekki bara fjöruga danstónlist heldur voru textarnir baráttutextar sem fjölluðu um líf samkynhneigðra, og án þess að vita neitt um tónlistarstefnu Pulse klúbbsins trúi ég því að lög Bronski Beat hafi oft ómað þar um sali. Lagið Why? á vel við eftir fjöldamorð helgarinnar en samt er finnst mér angurvær stemningin í Small Town Boy höfða meira til mín núna.

Efnisorð: , , , , , ,

föstudagur, júní 10, 2016

Fjölnota safnaðarheimili frjálslyndrar kirkju

Ætli það sé ekki vika síðan ég rakst á túrista sem vildi vita muninn á Fríkirkjunni og öðrum kirkjum landsins. Ég rifjaði upp klofninginn í þjóðkirkjunni útaf einhverju smáræði fyrir hundrað árum en sagði að þetta væri þrátt fyrir það sama trúin og þarna í stóru kirkjunni uppi á holtinu. Bætti svo við að Fríkirkjan væri reyndar framsækin og frjálslynd, og hefði til að mynda blessað samkynja pör meðan enn var ekki leyfilegt að gefa þau saman í lögformlegt hjónaband (og sleppti alveg þætti Þjóðkirkjunnar sem árum saman kom í veg fyrir slík hjónabönd).

Næst get ég svo hnýtt því aftan við, að frjálslyndi og náungakærleikur væri reyndar á því stigi í Fríkirkjunni að þegar trúfélag múslima var á hrakhólum hafi honum verið boðið að nota safnaðarheimili kirkjunnar til bænahalds.

Það er fín viðbót við sögu Fríkirkjusafnaðarins.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, júní 08, 2016

Hvergi skjól

Rúmlega tíu þúsund manns hafa drukknað síðastliðin tvö ár í Miðjarðarhafinu. Margir reyna siglingaleiðina frá Afríkuströndum, aðrir koma frá löndunum fyrir botni Miðjarðarhafsins en eru einnig á leið til Evrópu.

Þær raddir heyrast oft að best sé fyrir flóttamenn að fara ekki langt frá heimalandi sínu (með öðrum orðum: ekki koma til Evrópu). Gallinn er hinsvegar sá að þau lönd sem næst eru Sýrlandi eru ofsetin flóttamönnum. Straumurinn hefur legið úr Sýrlandi í fimm ár; margir eru þó enn á stríðshrjáðum svæðum, og þeir sem hafa lagt á flótta komast ekki (eða vilja ekki) allir úr landi. Nú í vikunni var ráðist á flóttamannabúðir í norðurhluta Sýrlands þar sem 400.000 manns dvelja. Loftárásin var framin af Rússum eða Sýrlandsher og féllu 28 manns, þar á meðal börn.

Handan Atlantshafsins situr prófessor með nemendum sínum og skráir illvirki Assads í Sýrlandi, til að flýta fyrir verði hann sóttur til saka fyrir stríðsglæpi. Prófessorinn fylgist einnig með öðrum stríðandi fylkingum í Sýrlandi, svo sem Daesh samtökunum sem kalla sig Íslamskt ríki. Gögnin telja nú 17 þúsund blaðsíður.
„Einn kafli í ákæruskjalinu er tileinkaður þeim 130 þúsund sem saknað er í Sýrlandi og pyntingunum sem leyniþjónusta Assads hefur beitt. Meðal gagnanna sem Crane hefur rannsakað eru ljósmyndir sem herljósmyndari stjórnarhersins smyglaði út úr landinu árið 2014, á minnislykli sem hann faldi í öðrum skónum. Á lyklinum voru myndir af ellefu þúsund líkum, fimm myndir af hverju þeirra. Þær sýna hvernig fólk hefur verið myrt með markvissum hætti í pyntingaklefum Assads.“
(Arnhildur Hálfdánardóttir fjallaði um drögin að ákæru á hendur Assad í Speglinum,og má hlusta eða lesa allan textann hér.)

Á meðan stríðandi fylkingar í Sýrlandi fremja stríðsglæpi á þeim sem ekki hafa þegar flúið land, og nágrannalöndin eru að sligast undan flóttamannastraumnum, sitja skriffinnar í útlendingastofnunum í Evrópu sveittir við að skrifa ábúðarfullar skýrslur sem sendar eru til fjölmiðla til að útskýra hversvegna tilteknir einstaklingar eða fjölskyldur (eða aðrir óæskilegir útlendingar) geti ekki fengið hæli vegna Dyflinarreglugerðarinnar.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, júní 07, 2016

Enn eykst ást mín á skotveiðimönnum

Geðslegir eru þessir skotveiðimenn sem komu sér fyrir í friðlandinu á Hornströndum til að drepa dýr sem ætlast er til að fái að lifa þar í friði. Umgengnin ofboðsleg og virðingarleysið fyrir náttúrunni jafnt sem lögum landsins algjört.

Einn þeirra, Kristján Vídalín Óskarsson, hefur fengið vilyrði fyrir því að opna villidýrasafn í Mosfellsbæ; þar í bæ þykja villidýraveiðar hans greinilega skemmtilegar og vilja leyfa honum að hafa smá ábata af því að drepa fíla og nashyrninga. Það er þokkalega dómgreindarleysið hjá þeim bæjarfulltrúum sem samþykktu þetta. Kristján og félagar hans hafa áður verið grunaðir um að stunda svona verknaði, svo þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir hegða sér svona, heldur finnst þetta greinilega í lagi.

Svo næst í Kristján til viðtals og þá auðvitað kannast hann ekki við að hafa gert neitt rangt. Og segir að sannleikurinn komi í ljós seinna.

Það er eins og að hlusta á ráðherra tala.

Raunar var það fyrsta sem ég hugsaði, þegar ég sá þessar ömurlegu fréttir um atferli skotveiðimannanna, að þessir kysu örugglega stjórnarflokkanna. Og væru pottþétt hæstánægðir með framboð Davíðs til forseta. Hann er einmitt pólitíkus eins og svona kallar vilja. Frekir og tillitslausir kallar sem engu eira.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, júní 04, 2016

Loksins beinast spjótin að Björgólfsfeðgum

Stundin í samstarfi við Reykjavík Media hefur birt afhjúpun á aflandsfélagabralli Björgólfsfeðganna. Þetta er alllöng grein en þetta eru í skemmstu máli aðalatriðin, eftir því sem ég kemst næst. (Best er auðvitað að lesa alla greinina á Stundinni.)

Björgólfsfeðgar voru kunnugir Mossack Fonseca frá Rússlandsárum sínum.
„Gögnin um Björgólfsfeðga í Panamaskjölunum ná aftur til ársins 2001 en á þeim tíma voru þeir eigendur bruggverksmiðjunnar Bravo í St. Pétursborg í Rússlandi ásamt Magnúsi Þorsteinssyni. Árið 2002 seldu þeir bruggverksmiðjuna til drykkjarvöruframleiðandans Heineken og í kjölfarið keyptu þeir ráðandi hlut í Landsbanka Íslands og áttu bankann fram að hruni.“

Hér er ágætt að staldra við og rifja upp að þeir feðgar voru handvaldir af Davíð Oddssyni til að eignast Landsbankann og í bankastjórn með Björgólfi eldri sat Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, ásamt fleiri flokksmönnum.

„Í gögnunum um þá Björgólfsfeðga í Panamaskjölunum vekur einna mesta athygli hversu umfangsmiklar lánveitingar til félaga þeim tengdum voru frá Landsbankanum í Lúxemborg. Björgólfsfeðgar keyptu hlut ríkisins í Landsbanka Íslands síðla árs árið 2002, eins og áður segir, og fylgdi dótturfélag Landsbankans í Lúxemborg með í kaupunum. Björgólfsfeðgar voru því eigendur Landsbankans í Lúxemborg sem þeir stunduðu svo mikil lánaviðskipti í gegnum við félög í skattaskjólum. Þrátt fyrir fjölskyldu- og viðskiptatengsl feðganna þá voru þeir ekki skilgreindir sem tengdir aðilar í lánabókum Landsbanka Íslands og hafði þessi þannig áhrif á lántökur þeirra í bankanum að þeir gátu fengið meira fé þar að láni.“
Þegar feðgarnir höfðu ryksugað bankann að innan var farið að koma peningunum skipulega undan þegar syrti í álinn, og þess gætt að ekki væri hægt að rekja slóðina til þeirra.

Hálfsystir Björgólfs Thors og ættleidd (eða stjúp)dóttir Björgólfs eldri gerðist leppur fyrir þá feðga í júlí 2008, þegar þeir hafa líklega séð að stefndi í hrun bankanna, og þá varð Tortólafélagið Ranpod Limited til sem þeir fengu síðan prókúru fyrir. Þann 3. október 2008 „þegar stóru íslensku viðskiptabankarnir þrír voru að hrynja einn af öðrum, hafði félag Bentínu sótt um að opna bankareikning og bankahólf í Sviss hjá breska Barclays bankanum“. 10. nóvember sama ár fengu feðgarnir „prókúruumboð yfir þessu félagi sem skráð var sem eign Bentínu Björgólfsdóttur. Sama dag var undirritað skjal fyrir Ranpod Limited frá Barclays bankanum í Sviss þar sem þeim Björgólfsfeðgum var veitt heimild til að stýra eignum félagsins í bankanum.Yfirskrift skjalsins er „prókúrumboð fyrir eignastýringu fyrir hönd þriðja aðila““.

Ranpor félagið er enn til (systirin/stjúpdóttirin segir svo ekki vera) en skiptastjóri gjaldþrotabús Björgólfs Guðmundssonar fékk ekkert um það að vita, og því var það ekki hluti af uppgjöri þrotabús Björgólfs.
„Þó Björgólfur hafi ekki verið skráður eigandi félagsins þá var hann með prókúrumboð fyrir það og gat ráðstafað eignum þess þar af leiðandi. Félögin sem tengjast Björgólfi í Panamagögnunum eru miklu fleiri en þrjú eða fjögur, þó hann hafi kannski ekki verið skráður sem eigandi þeirra.“

„Skiptum á þrotabúi Björgólfs Guðmundssonar lauk í maí árið 2014. Rúmlega 85 milljarða króna kröfum var lýst í búið og voru um 80 milljóna króna eignir í því. Um er að ræða eitt stærsta gjaldþrot einstaklings í heiminum.“
(Það er greinilega munur að eiga banka, því bankinn sem ég á í viðskiptum við hnippir í mig þegar ég er komin nokkra hundraðkalla yfir á reikningnum mínum. Hvað þá ef skuldirnar væru orðnar þúsund sinnum meiri en eignir mínar.)

Í grein Stundarinnar er sagt frá lánveitingum Landsbankans í Lúxemborg til félaga tengdum feðgunum „og er meðal annars greint frá þeim að hluta í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Rannsóknarnefndin bjó hins vegar yfir afar takmörkuðum upplýsingum um þessar lánveitingar eins og fram kemur í skýrslunni.“ Þar á meðal eru lán upp á samtals um 3,6 milljarða.
„Þessi lán voru aldrei greidd til baka og í Panamaskjölunum er ekki að finna neinar upplýsingar um hvert þessir peningar fóru.“
Þeir skyldu þó ekki hafa farið í startkapítal fyrir Björgólf litla Thor þegar hann var að gíra sig upp í að verða aftur ríkasti maður Íslands?


Efnisorð: ,

föstudagur, júní 03, 2016

Ríkissjónvarpið með yfirburði yfir einakareknu sjónvarpsstöðina

Hinar svokölluðu kappræður forsetaframbjóðenda á Stöð 2 um daginn voru þægilegt sjónvarpsspjall fjögurra af níu frambjóðendum. Hinum var ekki boðið því Stöð 2 telur sig ekki þurfa að kynna alla frambjóðendur til leiks.

Ríkissjónvarpið aftur á móti býður öllum frambjóðendum að mæta í beina útsendingu. Enda full ástæða til að leyfa kjósendum að sjá og heyra alla frambjóðendur en ekki bara suma. Þannig gætir fjölmiðill jafnræðis. Svo kom líka í ljós í kvöld að úr því verður betra sjónvarp.

Allir frambjóðendur fengu spurningu sem var þeim óþægileg (sum þeirra komust betur frá því en önnur). Þeim var leyft að rífast innbyrðis upp að vissu marki, og gera sig að fífli ef það var einbeittur vilji þeirra hvorteðer.

Ég hefði auðvitað viljað sjá saumað að Davíð vegna fortíðar hans, og þá af þáttarstjórnendum en ekki Ástþóri, þótt það væri reyndar prýðileg skemmtun. Ekki síst fyrir þá sök að Ástþór mætti, rétt eins og Davíð ku hafa gert á Eyjuþætti Stöðvar 2, með ótal pappíra sem hann veifaði og notaði í skammarræðu sinni.

Elísabet var algjört æði. Hrikalega er hún skemmtileg, og beitt, og flippuð. Stöð 2 gerði mikil mistök að bjóða henni ekki til sín.

Kappræðurnar í kvöld eru enn ein sönnun þess hve Ríkissjónvarpið er nauðsynlegt.

Efnisorð: , ,