miðvikudagur, september 30, 2015

Septemberuppgjör

Hitt og þetta hefur verið bloggskríbentnum hugleikið í septembermánuði en ekki orðið að sérstökum pistli eða eingöngu verið minnst á í framhjáhlaupi. Skal nú bætt úr því.

Fæðingarorlof feðra
„Frá hruni hefur það verið árleg frétt að færri feður taki fæðingarorlof en áður. Um fimmtungur feðra barna fæddra árið 2014 ákváðu að taka ekki fæðingarorlof.“ Þannig hefst leiðari Fanneyjar Birnu Jónsdóttur. Hún skýrir frá því að fæðingarorlofssjóður standi illa og ræðir þetta mál allt frá ýmsum hliðum. Undir lok leiðarans segir hún svo:
„Á sama tíma og nauðsynlegt er að veita meiri fjármuni til fæðingarorlofssjóðsins, sem og að hækka þakið, verður þó að benda á að markmið fæðingarorlofslaganna er ekki það að foreldrar geti haldið uppi fyrri lífsstíl á launum frá sjóðnum. Víða annars staðar í heiminum er fyrirhyggjusemi nauðsynleg áður en tekin er ákvörðun um að eignast barn, sem líklegast er ein fjárhagslega dýrasta ákvörðun í lífi hvers foreldris. Þó að ljóst sé að gera verði betur við nýbakaða foreldra verða þeir einnig að sníða sér stakk eftir vexti.“
Þetta finnst mér góður punktur sem mætti ræða oftar. Auðvitað er til fólk sem virkilega hefur ekki efni á neinum fjárhagslegum dýfum, en það á varla við um allan þennan fjölda. Líklegasta skýringin er samt sú að þessir karlmenn hafi bara engan áhuga á að vera heima í feðraorlofi en beri fyrir sig fjárhagslegum ástæðum.

Kampavínsklúbbar og vændi
Greiningardeild ríkislögreglustjóra segir vændi vera að aukast á höfuðborgarsvæðinu. Vísbendingar eru um að mansal tengist kynlífsþjónustu á kampavínsklúbbunum.
„Ýmislegt bendir til að vændisþjónusta þrífist í kringum þessa staði, sem séu að minnsta kosti fimm talsins á höfuðborgarsvæðinu. Í skýrslunni segir að oft sé þar um erlendar stúlkur að ræða. Ekki sé þó vitað með vissu hvort þær séu fluttar nauðugar til landsins eða hindraðar í að ferðast um frjálsar.“
Ætli kampavínsklúbbaeigendur séu allir ekki allir komnir í Amnesty?


Samviskufrelsi
Orðið samviskufrelsi er aldrei notað nema þegar verið er að réttlæta hómófóbíska presta. Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður VG á hrós skilið fyrir að leggja fram fyrirspurn á þingi um þjónustu presta og mismunun á grundvelli kynhneigðar, og koma þessu ríkisstyrkta óréttlæti og mismunun á dagskrá.


Sniðgangan sem hvarf
Snubbótt tilraun borgarstjórnar Reykjavíkur til að sniðganga vörur frá Ísrael var eingöngu lýst með orðinu „sniðgönguklúður“ í pistli hér á bloggsíðunni en ekki stóð til að víkja sér undan því að taka afstöðu í málinu. Hugmyndin var góð, útfærslan var kannski ekki eins góð (þó leikur grunur á að það sé eftiráskýring, og sömuleiðis sú fullyrðing að aðeins hafi átt að sniðganga vörur frá hernumdu svæðunum).
(Þess má geta að sniðgangan hafði þær afleiðingar að íslenskur bjór var tekinn úr sölu í búð í Bandaríkjunum. Ég grét hástöfum þegar ég frétti það.)

Það var hinsvegar pínlegt að sjá borgarstjórn draga þessa ákvörðun til baka undir hótunum síonista sem sögðust ætla að sniðganga Reykjavík og jafnvel Ísland og íslenskar vörur. Eða eins og Hrafn Jónsson sagði:
„Viðskiptaþvinganir Ísraela á Íslendingum eru annars ágætt dæmi um mátt viðskiptaþvingana yfir höfuð.“
Það voru reyndar fleiri sem reyndu – og tókst – að hafa áhrif á borgarstjórnarmeirihlutann.

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, áframsendi Degi bréf frá Eggerti Dagbjartssyni, einum af þeim fjárfestum sem koma að byggingu Marriott-hótels við Hörpu, sem lýst hafði áhyggjum af viðbrögðum við ákvörðun borgarstjórnar.

Eitt er nú að þessi Eggert hafi talið að sniðgangan hefði áhrif á viðhorf fjárfesta (hann talaði sérstaklega um að hann vonaði að þeir fréttu ekki af sniðgöngu borgarstjórnar, en skrifaði bréfið á ensku og sendi þeim eflaust afrit, því varla talar hann við Höskuld á því tungumáli nema menn séu að fara eftir 2007 hugmyndum fyrrum bankastjóra Landsbankans um að taka alfarið upp ensku). Hitt ruglið er að bankastjóri Arion banka hafi séð ástæðu til að áframsenda bréf Eggerts til borgarstjórans. En bréfið – ofan á skammir frá ríkisstjórninni vegna fyrirhugaðrar sniðgöngu síonista — virkaði og Dagur ákvað að hætta við sniðgönguna (breyta henni í öðruvísi sniðgöngu en í raun hætta því sem var verið að skamma hann fyrir).

Ingi Vilhjálmsson gaf borgarstjórn þessa einkunn eftir viðsnúninginn:
„Í staðinn fyrir að sýna að meirihlutinn standi fyrir eigin prinsipp í verki með því að senda Ísraelsstjórn dálítinn diplómatískan selbita á innlendum og alþjóðlegum vettvangi þá hefur þessi meirihluti sýnt að hann stendur ekki við eigin ákvarðanir og lætur fjármagnsöfl og einkahagsmuni úr viðskiptalífinu stýra ákvörðunum sínum. Í staðinn fyrir að hafa búið til fordæmi fyrir aðrar þjóðir og borgir hefur meirihlutinn í Reykjavíkurborg orðið að aðhlátursefni fyrir vingulsháttinn.“
En bréfaskriftum var ekki alveg lokið. Agnar Kr. Þorsteinsson skrifaði opið bréf til Höskuldar og spurði hann um utanríkisstefnu Arion banka.
„Ef aftur á móti bankinn er ekki með pólitíska stefnu þá átt þú sem bankastjóri ekki að reyna að vera að þrýsta á stjórnmálamenn í nafni bankans né aðrir innan bankans. Fyrirtæki og sérstaklega ekki fjármálafyrirtæki í ljósi skaðans sem þau hafa valdið Íslandi, íslenskum almenningi og umheiminum, eiga ekki að vera að hafa afskipti af stjórnmálum né hafa rétt á því að beita sér gegn mannréttindabaráttu líkt og Arion-banki varð uppvís að með þessu bréfi þínu enda eru fyrirtæki dauð fyrirbæri en ekki manneskjur og hafa því ekki stjórnmálaskoðanir.”
Bréf Agnars er ógurlega góð lesning sem enginn má missa af.


Meiri Áslaug
Var ég annars nokkuð búin að skrifa það hér að Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði við samstarfsfólk sitt í borgarstjórn: „Þið teljið að þið séuð ekki nasistar af því þið séuð góða fólkið“. Og átti við að allir þeir sem ekki kaupa vörur frá Ísrael séu nasistar að ofsækja gyðinga. Síðan þá hefur hún margsinnis beitt nasistastimplinum, eins og áður hefur verið rætt.
(Yfirskriftin er röng: það þarf minna af Áslaugu.)


Efnisorð: , , , , , , ,

þriðjudagur, september 29, 2015

Lifandi verur flokkuð sem matvæli

Sérkennilegt er að Matvælastofnun hafi á hendi eftirlit með dýraheilbrigði og dýravelferð. Það er augljóslega fáránlegt þegar um gæludýr er að ræða: hunda, ketti, páfagauka og hamstra, en það er einfaldlega ömurlegt að flokka lifandi dýr sem matvæli, líka þau sem enda á að verða étin.

Ef stofnanir sem sinna fólki hétu bara eftir gagnsemi þeirra sem þangað sækja héti Landspítalinn líklega Lappað uppá skattgreiðendur.

Það hlýtur að vera hægt að flytja dýravelferðarmál undir annan hatt eða kalla þessa stofnun eitthvað annað.

Efnisorð:

sunnudagur, september 27, 2015

Dritbruni, legusár og soltin dýr

Ríkisútvarpið hefur undanfarna daga flutt fréttir af dýravelferð. Matvælastofnun fór í fyrra í eftirlitsferðir á svínabú, nautabú og fylgdist með kjúklingum sem sendir voru til slátrunar. Niðurstöðurnar voru í öllum tilvikum hræðilegar, en um leið staðfesting á öllu því sem áður hefur verið sagt um verksmiðjubúskap. Það eina sem kemur á óvart er meðferðin á nautgripunum (og kannski umdeilanlegt hvort hægt er að kalla nautgriparækt verksmiðjubúskap hér á landi), sem öfugt við það sem maður hefði haldið, eru sumir hverjir vannærðir vegna aðstæðna sinna.

En þetta er semsagt úr fréttunum, tekið saman á einn stað þeim til fróðleiks sem eru að velta fyrir sér þessu með sniðgöngur, og hvort þær virki betur í nærumhverfinu.

Ill meðferð á gyltum á svínabúum
„Matvælastofnun hefur farið fram á að gyltum á íslenskum svínabúum verði slátrað vegna slæmra legusára. Legusár fundust á gyltum á öllum búum sem heimsótt voru í fyrra. Allt að önnur hver gylta var með sár.

Á íslenskum svínabúum eru gyltur hafðar á básum í mun meira mæli en í nágrannalöndunum. Samkvæmt nýrri reglugerð er bannað að hafa þær á básum nema á fengitíma og í kringum got, en svínaræktendur fá allt að tíu ára aðlögunartíma.

Þóra Jónasdóttir, dýralæknir dýravelferðar hjá Matvælastofnun, segir að í fyrra hafi Matvælastofnun farið í eftirlit á níu af ellefu svínabúum á landinu sem halda gyltur. Legusár hafi fundist á gyltum á öllum þessum búum. Á milli 15% og 50% gyltna á hverju búi hafi haft legusár.“

Nautgripir svelta
„Dæmi eru um að nautgripir á íslenskum búum séu vanfóðraðir því þeir þurfa að keppa við stærri nautgripi um æti. Þetta, ásamt þrengslum, for, bleytu og óhreinindum, er meðal alvarlegra athugasemda sem Matvælastofnun gerði við velferð nautgripa á nærri 30 bæjum í fyrra.“

Sársaukafullur dritbruni
„Fimmti hver kjúklingur sem Matvælastofnun skoðaði í sláturhúsum á Suðvesturlandi í fyrra var með brunasár á fótum. Þéttsetnum húsum með blautu gólfi er helst um að kenna.

Kjúklingar, sem eru ræktaðir til kjötframleiðslu, ala ævina yfirleitt í þéttsetnum húsum. Ef troðningurinn er of mikill, og undirlagið þess vegna blautt, geta fuglarnir fengið sársaukafull brunasár neðan á fæturna, svonefndan dritbruna. Þvagsýra í driti kjúklinganna hefur líka slæm áhrif. Sárin eru flokkuð í væg og alvarleg brunasár.

Matvælastofnun skoðaði í fyrra fætur kjúklinga í úrtaki sem komu til slátrunar á Suðvesturlandi. Þóra Jónasdóttir segir að brunasár hafi fundist á rúmlega 20% kjúklinganna. Þar af hafi 2-3% haft alvarleg brunasár.“

Eina vonarskíman í þessu eru dýravelferðarlögin, en með þeim „fékk Matvælastofnun auknar heimildir en áður til að fylgja málum eftir, ef ekki er farið að tilmælum stofnunarinnar. Til dæmis má beita sektum áður en gengið er svo langt að taka dýrin af eigendunum. Þóra segir að Matvælastofnun sé hins vegar ekki enn byrjuð að beita þessum nýju úrræðum. Mikil vinna sé nú lögð í að koma þeim í notkun. Hún segir að stofnunin geti farið að beita þeim fljótlega.“

Ekkert af þessu kemur Dýraverndunarsambandinu á óvart.
„Dýraverndarsamband Íslands hefur skilgreint þauleldi sem verksmiðjubúskap þar sem velferð dýra er fórnað fyrir hámörkun nytja, og þetta er gott dæmi um það. Við erum auðvitað bara fegin að það kemur fram, en við erum hins vegar viss um að legusár eru ekki ný,“ segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndunarsambands Íslands.

Reyndar hefur verið sýnt svo oft framá erlendis að verksmiðjubúskap fylgir ill meðferð á skepnum. Það má jafnvel halda því fram að verksmiðjubúskapur byggi á slíku skeytingarleysi um velferð dýra að hægt sé að tala um skipulagða grimmd.

Ef þetta væru einstök dæmi (eins og ég vona að eigi við um nautgriparæktunina hér á landi) væri hægt að afsaka það með vankunnáttu eða hugsunarleysi, en til þess eru dæmin of mörg á heimsvísu. Þessar niðurstöður Matvælastofnunar benda eindregið til að íslensk verksmiðjubú séu ekki undantekning frá þeirri reglu. Á öllum íslenskum svínabúum eru gyltur með legusár, það er ekki af hugsunarleysi — heldur afleiðing hugsunarháttar sem setur gróðavon ofar velferð dýranna.

___

Viðbót: Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins 29. september var talað við Tryggva Aðalbjörnsson fréttamann sem hefur fjallað um dýravelferðarmál í ofangreindum fréttum, og áðurnefnda Þóru Jónasdóttur. Einnig voru sýndar myndir af gyltum sem lágu á svo viðurstyggilega þröngum básum að þær gátu sig hvergi hreyft og ekki rétt úr fótunum. Sjón er sögu ríkari, og í þessu tilviki hræðileg sjón.

Efnisorð: ,

laugardagur, september 26, 2015

Meðal jafningja

Hvað ætli meðaláhorfandi sjái um ævina margar bandarískar bíómyndir sem snúast að miklu eða öllu leyti um réttarhöld? Þær eru allmargar enda sívinsælt efni. Í gömlu bíómyndunum voru allir kviðdómendurnir hvítir karlar en í nýrri myndum og sjónvarpsþáttum eru konur og svart fólk einnig í kviðdómi. Dómarinn jafnvel svartur. Þessi breyting gerðist þó ekki af sjálfu sér í raunveruleikanum, hvítir karlar viku ekki si svona sæti, heldur hefur það tekið heilmikið lagaþvarg og mannréttindabaráttu að fylgja þeirri lagareglu að allir eigi rétt á að vera dæmdir af jafningjum sínum (eins og það heitir í bandarískum lögum). Enn ku það gerast að kviðdómur sem eingöngu hvítt fólk situr í dæmi blökkumenn - og þá þykir flestum að ekki sé mikillar sanngirni gætt.

En þetta er í henni Ameríku. Hér á landi þykir áhrifamiklum körlum fullkomlega eðlilegt að karlar séu í næstum öllum sætum dómara við Hæstarétt. Þegar velja á nýjan dómara þykir þeim eðlilegt að það séu eingöngu karlar í dómnefnd — og þeir komast að þeirri niðurstöðu að karlmaður sé best til þess fallinn að bætast í hóp allra hinna. Þá verður kynjahlutfallið í Hæstarétti 9:1 körlum í hag. Hvernig ætli það rími við amerísku lagaregluna um að allir eigi rétt á að vera dæmdir af jafningjum sínum? Hún hefur auðvitað ekkert lagalegt gildi hér (ekki veit ég hvort sambærileg regla er í íslenskum lögum) en er ágætis viðmið samt sem áður. Kannski var það hún sem Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hafði í huga þegar hún benti á nauðsyn þess að auka þekkingu og skilning innan íslenska dómskerfisins á málefnum kynjanna.

„Sú ábending var gerð í tengslum við alvarlegar athugasemdir sem gerðar voru við meðferð kynferðisbrota og kynbundins ofbeldis í íslenska dómskerfinu. Í sömu skýrslu voru athugasemdir gerðar við fæð kvenna í íslenska dómskerfinu. Þegar skýrslan var skrifuð voru konur 2 af 12 dómurum Hæstaréttar. Núna er ein kona dómari af 9 dómurum Hæstaréttar.“
(Úr ályktun tíu kvennasamtaka vegna skipan dómnefndarinnar.)

Meira segja konur í Sjálfstæðisflokknum eru ósáttar við þetta karlveldi í Hæstarétti, og karlanefndina sem valdi karl í embættið. Sú þeirra sem valdamest gæti skipað kvenumsækjandann um dómarastarfið (sem er fyllilega hæf til starfsins) í stöðu dómara Hæstarétt, en þá gerir hún sig um leið afar óvinsæla meðal karlanna. Ekki bara karlanna í nefndinni eða Hæstarétti heldur hjá Lögmannafélagi Íslands — og svo auðvitað öllum karlrembunum í eigin flokki. Ekki myndi ég vilja veðja á hvað Ólöf Nordal gerir í þessari stöðu en vona sannarlega að hún gefi körlunum langt nef.

Hvernig er það annars — ef karlarnir sem eru eða hafa verið hæstaréttardómarar telja sig ofar lögum sem eiga að rétta hlut kvenna — eru þá konur, sem koma fyrir Hæstarétt ekki í talsverðri hættu á að vera álitnar réttlausari en karlmenn í sömu sporum?

Efnisorð: , ,

föstudagur, september 25, 2015

Borgarstjórastóll í sigtinu

Þegar borgarstjórn var sökuð um gyðingahatur tók Áslaug Friðriksdóttir þá fjarstæðu á næsta stig með því að líkja meirihluta borgarstjórnar við nasista. Svo baðst hún reyndar afsökunar á að hafa ekki valið orð sín af meiri kostgæfni og vandað betur til máls síns. Eitt er orðavalið, annað er hugsunin sem liggur að baki. Því Áslaug er nefnilega ekkert búin að sleppa takinu á þessari nasista hugsun. Í dag segir hún í viðtali:
„En það er alveg ástæða til þess að nefna nasista vegna þess að í Evrópu eru nýnasistar að komast til valda. Það er ástæða til að óttast öfgahópa.“
Venjulegt fólk á erfitt með að sjá samasemmerki milli borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík og nýnasistahópa – en Áslaugu er greinilega mikið í mun að ræða nasista, nýja sem gamla, í hvert sinn sem hún ræðir um borgarstjórnarmeirihlutann.

Þessi furðulega rógsherferð Áslaugar er eiginlega bara hlægileg og varla margir sem taka undir með henni. En Áslaug ætlar sér fleira með þessu viðtali en bara rægja borgarstjórnarmeirihlutann með því að líkja honum við nasista. Því Áslaug er með plan.

Í kjölfar sniðgönguklúðursins ályktar Áslaug að borgarstjórnarmeirihlutinn sé svo óvinsæll þessa dagana að nú sé lag að koma fram með hugmyndir sem geta náð kjósendum yfir til Sjálfstæðisflokksins. Beitan er bætt velferðarþjónusta hjá borginni. En þá þarf auðvitað að einkavæða, nema hvað. Og Áslaug ræðir fjálglega um hvað þetta verði nú allt gott þegar einkaaðilar fá að græða svoldið á velferðarþjónustunni og þeir sem hafa efni á geta borgað sig framfyrir röð. Eða nei, hún þegir yfir því, en það felst í hugmyndinni.

Nú er lag, hugsa frjálshyggjumenn. Málum vinstrapakkið upp sem nasista sem koma í veg fyrir að velferðarkerfið virki. Ef allar okkar óskir rætast segir borgarstjórn af sér og við getum farið að einkavinavæða. Og græða.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, september 24, 2015

Enn ein ástæðan til að vera á móti staðgöngumæðrun

Ég hef skrifað slatta af pistlum um staðgöngumæðrun, þar sem ég lýsi andstöðu minni við að konur gangi með börn fyrir aðra gegn greiðslu eða af greiðasemi, og Knúzið hefur birt nokkra góða sem hafa lýst svipuðum skoðunum.

Viðtal við Guðlaugu Elísabetu Ólafsdóttur í Kastljósi varð síst til að breyta skoðun minni. Hún ætlaði að gefa sér nákomnu fólki barn, og gerði ráð fyrir að hitta barnið oft enda mikill samgangur milli hennar og foreldranna sem ættleiddu barnið og það upp. En svo er lokað á hana. Hún hafði lokið sínu hlutverki. Velgjörðin forsmáð. Auðvitað er svo henni kennt um alltsaman. Eftir stendur hún með tilfinninguna um að hafa misst barn.

Í pistlum mínum hef ég talið til ýmsar ástæður þess að ég er á móti staðgöngumæðrun, en nú finnst mér ástæða til að árétta þetta: Mér finnst grimmdarlegt að fara fram á það við konur að þær gefi frá sér barn sem þær hafa alið undir brjósti.

Það var afar hugrakkt af Guðlaugu Elísabetu að segja sögu sína. Skilaboð hennar eru skýr: hún hvetur konur til að hugsa sig tvisvar um áður en þær ákveða að gerast staðgöngumæður. Það er nauðsynlegt að þessi hlið komi fram áður en frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verður tekið fyrir á þingi.

Efnisorð:

sunnudagur, september 20, 2015

Útlitsviðmið og líkamssmánun

Sigrún Daníelsdóttir hefur barist fyrir líkamsvirðingu í mörg ár og upp á síðkastið hafa birst eftir hana tveir fantagóðir pistlar sem vert er að lesa. Í öðrum þeirra hvetur hún til byltingar og hinum útskýrir hún afhverju barátta gegn fitufordómum er nauðsynleg.
„Kjarni málsins er sá að það er ekki hægt að aðskilja líkamskomplexa og útlitsdýrkun dagsins í dag frá samfélagslegum hugmyndum um fitu. Viðhorf okkar til fitu eru undirrót allra þeirra umhverfisáreita sem eitra líkamsmynd ungs fólks: Megrunaráróður, dýrkun á grönnum og stæltum vexti, matar- og fituþráhyggju og svo mætti áfram telja. Ekkert af þessu væri til ef við litum ekki fitu neikvæðum augum.“
Fita er litin svo neikvæðum augum að margir virðast líta á það sem réttlætanlegt að áreita eða jafnvel ofsækja fólk í yfirþyngd.

Ragen Chastain baráttukona fyrir líkamsvirðingu segir í viðtali frá fitufordómum og áreitni á opinberum vettvangi. Sama segir Ragnheiður M. Kristjónsdóttir. Einnig hefur Markús Máni Gröndal stigið fram og sagt frá grófu einelti sem hann varð fyrir vegna líkamsvaxtar síns, og hvernig áhrif það hefur haft á líf hans.

Þessir vitnisburðir minntu mig ekki lítið á heimildarmynd sem ég sá fyrir margt löngu (og hef þegar skrifað um) þar sem kona nokkur gekk um með mynd- og hljóðupptökutæki og skrásetti þannig viðhorf samborgara sinna til fólks í yfirþyngd.

En svo ég snúi mér aftur að pistlum Sigrúnar Daníelsdóttur þá er þetta úr byltingarpistlinum.
„Það er ævafornt stef að konur séu í eðli sínu syndugar og að syndin sé bundin við hold þeirra. Allt frá dögum Evu hefur erfðasyndin verið tengd við tálkvendið og skækjuna, en í seinni tíð blasir við enn flóknari veruleiki þar sem konum er gert að vera bæði kynþokkafullar og kynlausar í senn. Við erum dæmdar fyrir að vekja losta með útliti okkar, klæðaburði og framkomu, en líka smánaðar ef við uppfyllum ekki samfélagsstaðla um kynþokkafullu konuna. Konur sem eru feitar, gamlar, fatlaðar eða með einhverjum öðrum hætti standa utan við þessa staðalmynd eru gerðar ósýnilegar og ómerkilegar. Það er akkúrat ótti við að tapa þeirri félagslegu stöðu sem fylgir réttu útliti sem er undirrót þeirrar angistar sem grípur margar konur við að eldast eða fitna. Við vitum að hvert kíló og hver hrukka þýðir skref niður á við í félagslega stiganum.

Flóknar útlitskröfur gera það að verkum að fæstar okkar lifa sáttar í eigin skinni. Jafnvel þótt við uppfyllum alla staðla á einum tímapunkti getum við ekki búist við því að halda því til lengdar. Ef sjálfsvirðing okkar og félagsleg staða er bundin við þröngt skilgreind útlitsviðmið erum við dæmdar til ýmist vanlíðunar yfir núverandi ástandi eða kvíða gagnvart framtíðinni. Merki um skömm og kvíða gagnvart eigin holdi sjást yfir allt æviskeið kvenna. Stúlkur allt niður í 5 ára hafa áhyggjur af því að vera feitar og íslenskar rannsóknir sýna að 80% fullorðinna kvenna allt fram undir áttrætt telja sig þurfa að léttast.“
„Karlar verða líka fyrir líkamssmánun og fitufordómum“, bendir Sigrún líka á, enda þótt megintextinn fjalli um útlitskröfur á hendur konum. Og það er augljóst af orðum hennar að dæma — og þeirra sem vitnað er í hér að ofan — hversvegna þörf er á byltingu þar sem við „köstum af okkur hlekkjum útlitskrafna og líkamssmánar“.



Efnisorð:

laugardagur, september 19, 2015

Útsvarsáróður

Útsvar, spurningakeppni sveitarfélaga, hefur farið framhjá mér árum saman en þegar ný þáttaröð var að hefja göngu sína fyrir rúmri viku ákvað ég að vera með frá byrjun. Settist því niður að horfa á Útsvarið og þótti skemmtunin ágæt. Eitt vakti þó furðu mína í fyrsta þættinum, en það var liðurinn ‘orðaruglið’. Niðurstaða orðaruglsins hjá liði Árborgar var sú að ein línan samanstóð af fjórum vodkategundum. Lið Hafnarfjarðar fékk fjórar sígarettutegundir.

Í þættinum í gær fékk svo Reykjanesbær að leysa úr orðarugli sem innihélt nöfn á íslenskum bjórum.

Semsagt: í fjölskylduþætti í sjónvarpi allra landsmanna voru óbeinar auglýsingar fyrir vodka, sígarettur og bjór (eða flokkast þetta kannski undir beinar auglýsingar?). Ég hefði haldið slíkt væri kolólöglegt, fyrir utan smekkleysuna að hafa þetta fyrir börnum, því ekki nóg með að Útsvarið þyki sjónvarpsefni fyrir alla fjölskylduna heldur eru ávallt börn í sjónvarpssal þegar þátturinn er sýndur.

Ekki veit ég hvort spurningahöfundarnir eru svo forstokkaðir frjálshyggjumenn að þetta er þeirra framlag til aukins frjálsræðis í sölu áfengis- og fíkniefna, eða hvort þau fá borgað sérstaklega fyrir að auglýsa þessar áfengis- og tóbakstegundir. Hver sem ástæðan er þá þykir mér stórfurðulegt ef haldið verður áfram í þessum dúr.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, september 16, 2015

Ungfrú Ungverjaland

Af einhverjum annarlegum ástæðum finnst ungversku stjórninni eðlilegt að hindra för flóttamanna sem önnur Evrópulönd hafa lýst sig reiðubúin að taka á móti. Í ofanálag er farið hraksmánarlega með flóttamenninna í Ungverjalandi og meðferðin á þeim fer versnandi, ef eitthvað er.

Í viðleitni minni við að reyna að muna að Ungverjar eru ekki allir pakk (eflaust skammast margir þeirra sín fyrir hegðun stjórnvalda og hafa ekki látið telja sér trú um að ástæða sé til útlendingaótta) þá fór ég að rifja upp brottflutta Ungverja og afkomendur þeirra. Þegar nasistar hertóku Ungverjaland fluttu þeir 550.000 gyðinga í fangabúðir. Það var megnið af gyðingum landsins en þó tókst allmörgum að flýja frá meginlandi Evrópu. Furðu margir, eða afkomendur þeirra, urðu heimsfrægir skemmtikraftar og skulu nú nokkrir taldir upp.

Faðir Mark Knopfler gítarleikara var gyðingur sem flúði frá Ungverjalandi 1939.

Rachel Weisz leikkona á foreldra sem eru gyðingar, faðir hennar ungverskur en móðirin austurrísk. Þau flúðu undan nasistum til Bretlands áður en heimsstyrjöldin braust út.

Gabor systurnar Magda, Zsa Zsa og Eva fæddust í Búdapest. Sú elsta fluttist til Bandaríkjanna árið 1939 en hinar systurnar flúðu ásamt móður sinni þegar nasistar hertóku Ungverjaland 1944. Þær systur urðu frægar leikkonur en ekki síður fyrir fjölmörg hjónabönd sín.

Snillingurinn Stephen Fry er kominn af ungverskum gyðingum í móðurætt, afi hans og amma fluttu til Bretlands á millistríðsárunum en allmargir ættingjar móður hans týndu lífi í fangabúðum nasista.

Móðir Drew Barrymore fæddist í flóttamannabúðum fyrir Ungverja í Þýskalandi eftir stríð.

Þetta eru bara örfáir af þeim ungversku gyðingum eða afkomendur ungverskra gyðinga sem urðu að yfirgefa heimkynni sín vegna uppgangs eða hernáms nasista. Gyðingar flúðu Ungverjaland rétt eins og önnur Evrópulönd vegna ofsókna löngu fyrir þann tíma (og sumir einfaldlega vegna möguleika á betra lífi eins og gengur) og meðal þeirra eru Harry Houdini, Bela Lugosi sem lék Drakúla og Johnny Weissmuller sem lék Tarzan. Hvar væri heimsbyggðin án tarsanöskursins?

Ungverskur almenningur og stjórnvöld vita auðvitað um alla þá sem þurftu að flýja ofsóknir nasista (seinni tíma flótti og flutningar eru ekki tekin með í reikninginn hér). Sú vitneskja að stór hluti þjóðarinnar hafi hrakist á brott — og verið tekið opnum örmum annarstaðar ætti líka að vekja Ungverja til meðvitundar um hve öfugsnúið viðhorf ungverskra stjórnvalda er. Það má reikna með að margir Ungverjar séu hreyknir af hinum brottfluttu og hve góðum árangri margir náðu í starfi (listinn yfir tónlistarmenn, vísindamenn o.fl. er langur). Það er því auðvitað enn óskiljanlegra að líta á flóttamennina sem ógn eða hreinlega óværu sem er hrekja skal burt, í stað þess að líta á mannauðinn.

Þess má geta að Zsa Zsa Gabor sem varð Ungfrú Ungverjaland 1936, er enn á lífi, 98 ára gömul.


___
[Viðbót] Zsa Zsa Gabor lést 18. desember 2016, tæpum tveimur mánuðum fyrir 100 ára afmælið.

Efnisorð: ,

mánudagur, september 14, 2015

„Við kærum okkur ekki um að vera notaðar sem skálkaskjól“

Þegar rætt er um komu flóttamanna hingað til lands heyrast margar raddir sem eru ósáttar við þá tilhugsun. Helst er borið við að fjöldinn megi ekki vera of mikill en sumum virðist jafnvel finnast eðlilegasti hlutur í heimi að hleypa ekki einum einasta flóttamanni hingað.

Ýmsu er borið við, kristilegu gildin eru í hættu, fólkið muni ekki aðlagast, þetta sé dulbúin innrás Íslamska ríkisins, og þaðanaf langsóttari skýringar. Sumir vilja bara bjóða hingað handvöldum hópi kristinna Sýrlendinga (hugsunin hlýtur að vera sú að þeir sem trúa á sama jesúsinn og þjóðkirkjufólkið hljóti að eiga auðveldara með að aðlagast, og hljóta þarafleiðandi að vilja kæsta skötu á Þorláksmessu og fagna kókakólalestinni), og aðrir vilja bara einstæðar mæður hingað, og enn aðrir vilja bara munaðarlaus börn. Einstæðar mæður eins og kunnugt er hafa engar stjórnmálaskoðanir og geta því ekki verið með uppsteyt eins og karlarnir sem eru síður velkomnir (þeir gætu tekið uppá að barna alhvítar íslenskar konur, en andstaðan er líka vegna þess að þeir kúga konur (öfugt við fólkið sem vill hafa fulla stjórn á þeim ef þær koma)), og blessaða munaðarleysingjana er auðvitað hægt að ala upp í guðsótta og góðum siðum. Reyndar hefur Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, bent á að ættleiðingar milli landa sé þrautalending enda sé hefð fyrir því að ættingjar taki að sér börnin. Eða með öðrum orðum: það er ekki í boði að ættleiða sýrlensk börn.

Svo eru það þeir sem segja að öryrkjar og aldraðir séu illa settir (rétt) og að það muni bitna á þeim ef hingað flytjist fullt af fólki sem liggur á bótakerfinu um ómunatíð. Það er kannski skiljanlegt að öryrkjar og aldraðir séu uggandi um stöðu sína — eða þangað til þeir muna eftir því að útgerðin borgar minna en hún gæti til samfélagsins, að Þjóðkirkjunni er ætlað aukið fé á fjárlögum, og að til stendur að lækka skatta sem þýðir enn lægri upphæðir til samneyslunnar. Það eru til nægir peningar til skiptanna en þessi ríkisstjórn hefur ákveðið hverjir eiga að fá stærsta skerfinn, og það eru ekki þeir sem eru á bótum. Koma flóttamanna breytir þar engu til eða frá, og tekur ekkert frá bótaþegum.

Þeir sem halda því fram að koma flóttamanna kasti öryrkjum og öldruðum í dýpsta pytt örbirgðar eru ekki með hagsmuni öryrkja og aldraðra í huga heldur er þetta yfirskinsáhyggjur rasista (og kannski einstaka eigingjarnra einstaklingshyggjumanna) sem og stjórnmálamanna sem vilja höfða til rasista.

En vopnin voru slegin úr höndum þeirra þegar fatlaðar konur í Tabú og stýrihópi Kvennahreyfingar ÖBÍ um móttöku flóttafólks gáfu út yfirlýsingu þar sem þær lýstu frati á þessar afsakanir.

„Stjórnvöld, sérstaklega talsmenn þessa sjónarhorns, hafa ekki lagt sig sérstaklega fram við að fjárfesta í lífi okkar hingað til og finnst lítið til mannréttinda okkar koma. Því er óskiljanlegt hvers vegna þeim er annt um okkur allt í einu núna. Það þarf heldur ekki mikið hugmyndaflug í fjármálum til þess að sjá að það er auðveldlega hægt að reka samfélög án þess að brjóta á mannréttindum nokkurs hóps.

Þar að auki er staða okkar ekki þess eðlis að hægt sé að bera hana saman við stöðu flóttafólks. Við erum ekki að finnast dánar í flutningabílum né að drukkna í Miðjarðarhafinu. Að líkja lífi okkar saman er í besta falli fullkomlegt skilningsleysi á lífi okkar og flóttafólks.

Að lokum leggjum við þunga áherslu á að mannréttindabrot gagnvart okkur, sem vissulega eru gróf á Íslandi, séu ekki notuð sem afsökun eða ástæða fyrir því að taka meðvitaða ákvörðun um að brjóta á öðrum hópum með aðgerðarleysi. Við kærum okkur ekki um að vera notaðar sem skálkaskjól fyrir huglaust stjórnmálafólk.

Við skorum á stjórnvöld að taka á móti flóttafólki strax og að það verði gert með tilliti til reynsluheims flóttafólks og af virðingu við sögu þess. Jafnframt að lögð verði sérstök áhersla á að aðstoða jaðarsettari hópa flóttafólks, t.d. fatlað fólk, einkum konur og börn, þar sem það er í enn viðkvæmari stöðu hvað varðar ofbeldi og dauðsföll í stríðsátökum og á flótta.“

HEYR, HEYR!



Efnisorð: , , , , , ,

laugardagur, september 12, 2015

Vonbrigði og vonarglæta

Sjaldan hefur álit mitt á einni manneskju hrapað jafn hratt og þegar ég las viðtalið við Björk Vilhelmsdóttur fráfarandi borgarfulltrúa.

Mér finnst algjörlega óásættanlegt hvernig hún talar um fólk sem hefur orðið fyrir áföllum í lífinu, og vont þótti mér að lesa að hún er „til í að borga fyrir sálfræðinga á hverri einustu heilsugæslustöð“ en bara ef sálfræðingarnir meini fólki að „velta sér uppúr þessu“. Mér finnst hún tala mjög niður til þeirra sem þurfa fjárhagsaðstoð, og það kom mér í opna skjöldu að manneskja af vinstri væng stjórnmálanna skuli hlynnt skilyrðingum á fjárhagsstoð — að svelta fólk til vinnu.

Ég tók fyrir margt löngu saman umræður um fólk sem þiggur bætur (þetta var þegar atvinnuleysi var mun meira en nú er, en á þó enn við) og einhverntímann skrifaði ég líka pistil í tilefni af því að Sjálfstæðismenn í velferðarráði Reykjavíkur (þá vissi ég ekki að Björk var sammála þeim) gagnrýndu hækkun á fjárhagsaðstoð til þeirra sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum.

Annað viðtal í Fréttablaðinu, degi á eftir hinu, vakti líka athygli mína, þótt í því kæmi ekkert á óvart. Þar er talað við tvo atvinnurekendur sem barma sér ógurlega yfir að fá ekki fólk í vinnu, og taka sérstaklega fram hvað þeim komi á óvart að enginn skuli vilja vinna hjá þeim því enn sé „mælanlegt atvinnuleysi“. Atvinnuleysistölur eru einnig taldar upp í upphafi fréttarinnar svo það er greinilega verið að stilla þessu upp á þann hátt að það sé til fullt af fólki sem er atvinnulaust sem vill þó ekki vinna hjá þessum mönnum.

Tvennt er þó ekki upplýst í fréttinni: hvaða laun eu í boði (semsagt hvort þau séu svo léleg að enginn geti lifað af þeim) og tengsl annars vinnuveitandans við eigendur Fréttablaðsins. En kannski er það bara smámunasemi hjá mér að finnast það skrítið að það sé ekki tekið fram að viðmælandi blaðsins sé sonur Ingibjargar Pálmadóttur. (Mér finnst líka alltaf skrítið þegar verið er að hampa rapparanum Gísla Pálma á síðum blaðsins eða á Vísi, og það ekki tekið fram að hann er bróðursonur Ingibjargar, en það er kannski bara ég. Og ég er komin langt út fyrir efnið.)

Í fyrri bloggpistlinum sem ég vísa í hér fyrir ofan er einmitt komið inná það, sem Ingibjargarsyninum virðist ekki hafa skilist, að það þurfi að hækka lægstu launin svo fólk fáist til að vinna þau, en ekki að lækka atvinnuleysisbæturnar.

Það er nógu slæmt að auðvaldið vilji kúga fólk til að starfa gegn lágum launum þótt vinstra fólk taki ekki undir. En góðu fréttirnar eru þær að í Bretlandi var Verkamannaflokkurinn að eignast nýjan leiðtoga og hann hefur barist mjög gegn öllum niðurskurði á velferðarkerfinu, og án þess að ég viti það fyrir víst þykist ég viss um að hann er ekki hlynntur skilyrðingu fjárhagsaðstoðar.

Kosning Jeremy Corbyn er vonandi vísbending þess að sósíalískar skoðanir eigi upp á pallborð kjósenda þar í landi og hugsanlega á Vesturlöndum almennt (sbr. framboð Bernie Sanders til forseta í Bandaríkjunum). Sannarlega mættu önnur lönd (nefni engin nöfn) velja sér flokksleiðtoga (minnist ekki á Samfylkinguna) sem beina flokkum sínum á sósíalískar brautir. Þá er bara eftir þetta smáræði: að kjósendur kjósi flokka sem velja fólk framyfir fjármagn.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, september 10, 2015

Lof og last


LOF

Tabú er feminísk hreyfing sem beinir sjónum sínum að margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki. Það er því fagnaðarefni að Tabú hafi opnað nýja og endurbætta vefsíðu.

Katrín vs. Terminator
Mikill fjöldi virtra vísindamanna á sviði gervigreindar hefur skrifað undir áskorun til Sameinuðu þjóðanna um að banna framleiðslu drápsvélmenna. Á sama máli er Katrín Jakobsdóttir sem hyggst leggja fram þingsályktunartillögu um bann við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra vígvéla. Það er gott framtak hjá henni. Svo hélt hún líka frábæra ræðu við setningu Alþingis í vikunni.

LÍ í LÍ
Bragi Björnsson lögmaður setti fram afar góða hugmynd í grein þar sem hann ræddi (þá) fyrirhugaðan flutning aðalstöðva Landsbankans úr Austurstræti. Hann lagði semsé til að
„Landsbankinn af þessu tilefni færði Listasafni Íslands að gjöf listasafn bankans og þær viðbætur er kunna að verða á því um ókomna tíð. Gjöfinni fylgdi sú kvöð að bankanum væri heimilt að sýna hluta safnsins í útibúum og öðru húsnæði bankans, en meginþorri verkanna yrði almenningi til sýnis í gömlu höfuðstöðvunum, sem breytt yrði í listasafn sem bankinn ræki á sinn kostnað.“
Jafnvel enn betri er hugmynd sem Kristín Þorsteinsdóttir setti fram í leiðara, að Listasafn Íslands flytji í gamla Landspítalann að því tilskyldu að spítalinn flytjist burt af svæðinu. Það væri sannarlega fögur umgjörð um höfuðsafn íslenskrar myndlistar.

LAST

Það er algjört hneyksli að konur fái ekki nálgunarbann á eltihrella nema með tilstuðlan fjölmiðla.

Tískuslys
Á forsíðu Fréttablaðsins daginn eftir þingsetningu var tískuúttekt á klæðnaði þingmanna. Hingað til hefur verið mikilvægara umfjöllunarefni fjölmiðla hvað þingmenn láta útúr sér en hvað þeir bera utaná sér. Eitt er að hafa þessa tískuumfjöllun á innsíðum blaðsins (ef það þykir nauðsynlegt að upplýsa lesendur um hvar þingmenn kaupa fötin sín) en sem forsíðuefni var það ótrúlega hallærislegt.

Hin sanna ásýnd rasismans
Það er erfitt að halda því fram að þeir sem eru á móti flóttamönnum séu í raun ekki vont fólk eftir að hafa séð myndskeið af útsendara rasískrar sjónvarpsstöðvar í Ungverjalandi þar sem hún sést ítrekað sparka í flóttamenn, meiða börn. Þvílík illgirni, þvílíkur óþverraskapur.

Fárið í kringum kallafótboltann
Íþróttafréttamenn og aðrir fótboltaáhugamenn stunduðu grimma sögufölsun þegar þeir héldu því fram að íslenska karlalandsliðið í fótbolta hefði verið fyrsta íslenska liðið til að vinna sér inn þátttökurétt á EM í fótbolta. Vinsældir feminista jukust ekkert við að benda á að kvennalandslið hefði oftar en einu sinni keppt á EM. Þegar konurnar unnu sér inn þátttökurétt á mótið var því heldur ekki fagnað með þjóðhátíð á Ingólfstorgi.

Það er ekki til að bæta vitleysuna að heyra æsta fótboltaáhugamenn (og popúlíska stjórnmálamenn sem njóta lítils fylgis) ræða það eins og einhverja nauðsyn að byggja rándýrt íþróttamannvirki sem á meira og minna eftir að standa autt. Og svo er fenginn fótboltakall sem af ítrasta hlutleysi á að reikna út hvort það sé góð fjárfesting. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöðuna og hvort hún verður í stíl við hvernig rekstur Laugardalsvallar hefur gengið.

Í öllum fagnaðarlátunum yfir fótboltaleiknum fór sú staðreynd ekki hátt – allavega ekki miðað við allar yfirlýsingarnar um hvað þetta væri nú allt stórkostlegt — að leiknum lauk með markalausu jafntefli. Hversu ömurleg er þessi íþrótt eiginlega?

Efnisorð: , , , , , , , , ,

sunnudagur, september 06, 2015

Breiðholtsbúgí

Það er væntanlega lýðum ljóst að ég er mjög ósátt við skipulagsmál í Reykjavík. Ber þar hæst óánægju mína með staðarval — en ekki síst steypumagn — Landspítalans, en allskonar niðurrif og tilhliðranir í þágu gírugra verktaka og hótelbyggjenda spila einnig stóra rullu.

Þrátt fyrir þetta er ég ánægð með sumt sem gert hefur verið undanfarið í borginni. Ég er tildæmis nokkuð ánægð með breytinguna á ásýnd Borgartúns, sem áður var gríðarlega niðurdrepandi steypulitaður massi hvert sem litið var (það er eftir sem áður lífshættulegt að ganga fyrir hornið á heimskulega turninum). Eftir að gatan var tekin í gegn hef ég oft átt þar leið um á bíl, en einnig í strætó, hjólandi og fótgangandi (á þartilgerðri gangstétt), og alltaf dásamað þessa breytingu. Hjólreiðabrautir og gangstéttir eru hreinn munaður miðað það sem áður var og líflegir litir á gangstéttarhellum og ljósastaurum gleðja augað. Það má vel vera að það myndist þarna óásættanlegir flöskuhálsar þegar allir skrifstofuþrælarnir fara úr og í vinnu á sama tíma, en fyrir okkur hin sem eigum þarna aðallega leið utan annatíma er þetta með skemmtilegri götum.

Annað og enn skemmtilegra er sú stefna að setja upp vegglistaverk á blokkir í Breiðholti. Ég hrósa ekki Jóni Gnarr oft en þetta var snilldarhugmynd, og yfirhöfuð var mjög jákvætt hjá honum að auka veg Breiðholts og leggja áherslu á þennan borgarhluta, sem hann gerði tildæmis með því að flytja skrifstofur borgarstjóra tímabundið í menningarmiðstöðina Gerðuberg. (Síðan þá hefur Dagur B. Eggertsson einnig haft starfsstöð sína þar og líka í Árbæ).

Vegglistaverkin, sem sett hafa verið upp í framhaldi af tillögu Jóns Gnarr og samþykkt borgarráðs um fjölgun listaverka í opinberu rými í Breiðholti, eru nú orðin fimm talsins.

Á föstudaginn var afhjúpað vegglistaverkið Frumskógardrottningin eftir Erró við íþróttamiðstöðina við Austurberg (Breiðholtslaug er hluti af íþróttamiðstöðinni) en fyrir sléttu ári var fyrri hluti verksins afhjúpaður en sá heitir Réttlætisgyðjan og er á húsgafli fjölbýlishúss við Álftahóla.

Fyrsta vegglistaverkið í efra Breiðholti var hinsvegar afhjúpað í október 2013 og var það Birtingarmynd eftir Theresu Himmer sem er í Jórufelli. Í júlí í fyrra var röðin komin að Asparfelli en þar er Fjöðrin eftir Söru Riel. Næst kom fyrri hluti Errómyndarinnar en einnig í september það ár var veggmynd eftir Ragnar Kjartansson komin á blokkargafl við Krummahóla. Þá eru ótalin verk eftir vegglistahóp frá frístundamiðstöðinni Miðbergi sem eru staðsett víða í hverfinu t.d. á veggjum frístundamiðstöðvarinnar, á undirgöngum og á húsaveggjum. (Af einhverjum ástæðum eru vegglistaverkin ekki á korti Listasafns Reykjavíkur yfir list í almenningsrými.)

Fyrir fólk sem aldrei á erindi í Breiðholtið er nú full ástæða til að skoða á korti hvernig hægt er að komast á þennan framandi stað. Smyrja síðan nesti og leggja í hann eftir að hafa látið nánustu ættingja vita um þessa hættuför og áætlaða heimkomu. Skoða svo öll vegglistaverkin og gleðjast yfir því sem þó er vel gert í Reykjavík.

Og úr því ég er orðin svona jákvæð þá munar mig ekkert um að tilkynna að ég hef skipt um skoðun á staðarvali Svörtu keilunnar á Austurvelli. Mér finnst hún bara mjög fín þar sem hún er.

Efnisorð: ,

laugardagur, september 05, 2015

Hypatia

* Lesendur athugið að hér á eftir fara ítarlegar morðlýsingar. *

Morðið var framið af fjölda karla sem réðust á konu og hún drógu hana inn í byggingu þar sem hún var flett klæðum og barin til dauða með þakflísum. Síðan var lík hennar sundurlimað og brennt.

Nei, þetta er ekki lýsing á hinum hræðilega dauðdaga Farkhunda Malikzada sem var drepin í Kabúl í Afghanistan í mars á þessu ári. Karlarnir sem myrtu Farkhunda múslimar eins og hún, og þeir börðu hana, fleygðu henni fram af þaki, óku bíl yfir hana, og eftir að hafa grýtt hana kveiktu þeir loks í líkinu.

En morðlýsingin í upphafi á við um morðið á Hýpatíu sem var einnig var framið í marsmánuði en árið 415 (eða 416) e.Kr. í Alexandríu í Egyptalandi. Hýpatía var stærðfræðingur og heimspekingur sem aðhylltist nýplatonisma (var semsagt ekki kristin) sem varð til þess að kristnir karlar réðust á hana, drógu hana inn í kirkju og drápu hana með þessum hrottalega hætti. Það er ansi merkilegt hvað þessar morðsögur báðar eiga margt sameiginlegt, burtséð frá trúarskoðunum múgsins sem framdi morðin.


En þótt svona voðaverk megi ekki gleymast er til önnur og skemmtilegri saga af Hýpatíu. Hún vildi ekki giftast frekar en margar konur mannkynssögunnar sem helguðu sig starfi sínu, en það aftraði þó ekki einum nemanda hennar frá því að verða ástfanginn af henni. Seint gekk að losna við hann.

Hýpatía greip þá til þess ráðs að flæma vonbiðilinn burt með því að vekja athygli hans á því sem karlmönnum allra tíma hefur þótt ógeðslegast við konur: tíðablæðingar. Hún tók saman dulurnar sem hún notaði þegar hún var á túr og kastaði fyrir fætur vonbiðilsins, og lét þau orð falla að svona fylgdi kvenmanninum sem hann væri að eltast við, og það væri nú ekkert fallegt við þetta. Og þá lét hann sér loks segjast, líklega alveg í sjokki. Engum sögum fer af því hvort hann hafði áhuga á kvenfólki eftir þetta eða hvort hann ályktaði að Hýpatía væri eina konan sem væri svona ósmekkleg að fara á túr.

Kannski fannst Hýpatíu sjálfri að tíðablæðingar og allt sem þeim fylgir vera ógeðslegt, en hugsanlega fannst henni það ekki en lét sig hafa að nota þetta vopn til að losna við þennan sauðþráa náunga. Mér finnst þessi aðferð Hýpatíu fyndin enda þótt ég taki einnig undir með íslenskum feministum í miðri túrbyltingu sem líta á tíðablæðingar sem eðlilegar en ekki vopn til að hrella karlmenn.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, september 01, 2015

Margt er líkt með skyldum

Þegar ég var búin að ná úr mér mesta ógeðshrollinum eftir að hafa séð skopmyndina alræmdu sem birtist í Mogganum í dag (en ég sá í öðrum fjölmiðlum; mæli sérstaklega með grein Kjarnans um ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins sem hefur tekið afstöðu gegn flóttamönnum), staldraði ég við orðalag textans. „Helferðartúrismi ákallar hin blæðandi hjörtu“.

Helferðartúrismi er auðvitað herfilegt orð (og hugsunin sem liggur að baki því sturluð) en blæðandi hjörtu hef ég yfirleitt eingöngu rekist á í enskum texta. Það er áhugavert að sjá að blæðandi hjarta orðræðan á upp á dekk í Mogganum, það sýnir þráðbein tengsl við skoðanasystkin yst á hægri væng stjórnmálanna vestanhafs. Þá er samsetningin yfirleitt „bleeding heart liberal“ og sá sem talar eða skrifar er Repúblikani, stækur frjálshyggjumaður eða teboðstrúður. Þetta er alltaf meint í niðrandi skyni og er beint að vinstrisinnuðu fólki sem vill traust velferðar- og heilbrigðiskerfi, og allskonar réttindi handa fólki sem verður fyrir mismunun (konur, samkynhneigðir, fatlaðir). Og þetta orðalag – þegar ég sá það á íslensku – minnti mig meira en lítið á uppnefnið „góða fólkið“ sem er klínt á fólk sem berst fyrir kvenréttindum og ýmsu því sem íslenskum karlmönnum þykir vega að stöðu sinni í heiminum og kalla forræðishyggju. „Góða fólkið“ er líka ávallt notað í niðrandi skyni.

Efnisorð: , , , , ,