fimmtudagur, mars 31, 2016

Tortóla skyggði á mars

Undanfarnar tvær vikur hafa verið lagðar undir hagrænar hagræðingar forsætisráðherra og nú síðast annarra ráðherra ríkisstjórnarinnar. Og kannski ekki allt upptalið enn af því aflandseyjafélagaliði.

En það var hitt og þetta annað sem gerðist í mars, áður en skattaskjólaumræðan heltók líf okkar (mitt) og hér skal gerð grein fyrir nokkru af því á síðasta degi mánaðarins.

Tryggingafélögin
Eitt af því sem gæti hæglega fallið í gleymsku og dá er að tryggingafélögin sem ætluðu að greiða skrilljónir í arðgreiðslur kiknuðu undan almenningsálitinu og lækkuðu arðgreiðslurnar talsvert (nema TM). Það segir okkur einfaldlega að aðhald fjölmiðla og viðbrögð neytenda/samfélagsins skiptir gríðarlegu máli – og getur haft áhrif.
En tryggingafélögin lækkuðu ekki arðgreiðslurnar með glöðu geði. Fyrst í stað héldu þau fast við fyrri ákvörðun en eftir að fjöldi viðskiptavina hafði horfið á braut (eða hótað því) létu þau undan.

En í dag birtist svo frétt um að greiningardeild Capacent héldi því fram að arðgreiðslurnar sem voru fyrirhugaðar hafi ekki verið of háar „út frá viðskiptalegum forsendum“. Það er nokkuð ljóst að tryggingafélögin pöntuðu þetta álit.
„Arðgreiðslurnar sem ákvarðaðar voru í byrjun árs, sem eru eina leiðin fyrir hluthafa að fá ávöxtun á sínu fé, voru ekki of háar út frá viðskiptalegum forsendum. Við ætlum ekki að leggja mat á það hvað fólki finnst og hvað sé rétt eða rangt pólitískt. En hreint og klárt viðskiptalega, þegar ekki er búið að greiða út arð í langan tíma og peningurinn er búinn að safnast upp inni í félaginu, þá geturðu tekið ákvörðun um að annaðhvort greiða arðinn út til eigenda eða til tryggingahafa,“ segir hinn aðkeypti sérfræðingur Capacent.

Hæfilegilegar launahækkanir hæfra manna
Laun forstjóra hafa hækkað umfram launavísitölu en Þorsteini Víglundssyni framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins segir að þeir (þ.m.t. hann sjálfur) hafi sýnt gott fordæmi í launahækkunum því hlutfallslega hækkuðu aðrir launahópar meira. Við þessu segir Óli Kristján Ármannsson í leiðara:
„En er það í raun svo að gangi upp að horfa á hlutfallshækkun launa og dæma launaþróunina út frá því? Prósentuhækkunin vegur nefnilega misþungt eftir því hvaðan er reiknað.Ef launamaður með 300 þúsund krónur í laun fær 6,5 prósenta hækkun fara laun hans í 319.500. Kallar slík hækkun á að laun stjórnanda með 1,8 milljónir króna taki sömu hlutfallhækkun? Hærri launin færu þá í ríflega 1,9 milljónir króna, hækkuðu um 117 þúsund krónur á meðan launamaðurinn hækkar um rúmar 19 þúsund krónur.

Við rúmlega sex prósenta hækkun á hvorum tveggja vígstöðvum eykst launamunurinn í þessu dæmi um 97.500 krónur, eða um fimmfalda þá hækkun sem launamaðurinn með þrjúhundruðþúsundkallinn fékk í sinn hlut.


Ætlar einhver í alvörunni að halda því fram að þarna sé um að ræða þróun sem ekki stefnir í óefni?“
Mér finnst þetta svo gott hjá Óla Kristjáni að minnir mig helst á eigin gagnrýni á hækkun matarskattar, sem er eitt af þeim verkum sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs getur stært sig af, og mun hann eflaust telja það upp sem eitt af sínum glæstustu afrekum, þegar rætt verður um vantraust á þingi.

Eðal hafnarverkamenn
Kjaraviðræður starfsmanna í álverinu í Straumsvík breyttu verulega um stefnu þegar skrifstofublækur gengu í störf hafnarverkamanna. Enn og aftur er verið að hygla auðvaldi á kostnað launamanna.

Áttu þeir að gjalda frændseminnar?
Fjármálaeftirlitið hefur nú staðfest það sem allir vissu, að Landsbankinn var í tómu tjóni þegar gullgæsin Borgun var seld til frænda Bjarna Ben. (Muniði eftir Bjarna Ben? Það er ágætt því það er ekki víst að hann muni eftir sér sjálfur, hvað þá hvar hann lagði frá sér skattaskjólin.)

Þrælahald undir jökli
Í febrúar komst upp um þrælahald í Vík í Mýrdal. Um miðjan mars kom í ljós að það mál fékk síður en svo farsælan endi því konurnar sem beittar höfðu verið þessum órétti fengu smánarlega meðferð af hendi yfirvalda og hrökkluðust úr landi. Það er svo auðvitað hneyksli útaf fyrir sig að viðbragðsteymi vegna mansals hafi boðið konunum að vinna sjálfboðavinnu – svona eins og þær væru ekki búnar að vinna nóg án þess að fá almennilega borgað. En innanríkisráðuneytið ætlar í framhaldinu að taka mið af ábendingum sem gerðar hafa verið vegna verklags í mansalsmálum.

Jafnréttisstofa getur ekki gert neitt rétt
Jafnréttisstofu leist ekki á nefnd sem innanríkisráðherra skipaði því í henni áttu að sitja þrjár konur og einn karl, en kynjajafnrétti á auðvitað að gilda í nefndum á vegum hins opinbera. Nefnd þessi á í ofanálag að undirbúa heimild fyrir skiptri búsetu barna, málefni sem margir karlar brenna fyrir
. Varð því úr, eftir afskipti Jafnréttisstofu, innanríkisráðherra tók sér aftur tak og bætti nú tveimur körlum við þessa nefnd. Átakanlegur skortur var á húrrahrópum karla.

Af níu athugasemdum við frétt um að jafnréttisstýra óskaði eftir skýringum innanríkisráðherra, voru átta neikvæðar, flestar gengu þær útá að kynjahlutfall hjá Jafnréttisstofu. (Ótrúlegt en satt: Friðgeir Sveinsson átti einu jákvæðu athugasemdina.) Þegar í ljós kom að innnaríkisráðherra hafði farið að ábendingu Jafnréttisráðs urðu hreinlega engin fagnaðarlæti heldur nöldruðu tveir þekktir andfeministar um kynjahlutföll í nefndum þar sem konur eru í meirihluta.

Kannski útafþví að „karlar“ eru ekki lengur í heitinu?
Jafnrétti eins og karlar hafa óskað eftir því hefur samt greinilega komist á dagskrá víðar (þótt þeir fagni aldrei slíkum áföngum) þá hefur meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar nú skipt um nafn – og heitir nú Heimilisfriður: Meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum vegna þess að það er einnig fyrir og á að höfða til kvenna sem beita ofbeldi. En eins og meðferðaraðilarnir segja:
„[Það] er rökrétt að þróunin hafi verið sú að fyrst er athyglinni beint að heimilisofbeldi þar sem karlar eru gerendur og konur þolendur og meðferðar- og stuðningsúrræði þróuð út frá þörfum þeirra, en síðan sé athyglinni beint að stuðningi við karla sem eru þolendur og meðferð fyrir konur sem eru gerendur.“
Engin athugasemd var skrifuð við greinina.

Valdabarátta innan kirkjunnar (fyrst núna)
Deilur innan þjóðkirkjunnar rötuðu í fréttir. Þrír lögfræðingar voru fengnir til að greina, skýra og gefa álit á ábyrgð biskups annars vegar og kirkjuráðs hins vegar. Ástæðan var deilur kirkjuráðs og biskups um völd innan þjóðkirkjunnar. Niðurstaða skýrslu þeirra er sú að „biskup teljist lægra sett stjórnvald gagnvart ráðinu, að minnsta kosti um þau verkefni kirkjunnar sem unnt er að bera undir kirkjuráð og falla undir úrlausnarvald þess“.
Ómar Ragnarsson kom með ágæta athugasemd af þessu tilefni:
„Spurning er hvort það sé eðlilegt að þegar kona er í fyrsta sinn biskup skuli það koma upp þá fyrst að vald biskups sé minna en kirkjuráðs.“
Ja eitthvað varð að gera við þessu skelfingarástandi.

Framsókn og umhverfið
Ómar segir annars áhugaverða sögu á bloggi sínu (eða ölluheldur í athugasemd við eigið blogg), sem liggur beint við að líma beint hér inn.
„Eina trúnaðar/einkasamtalið frá þessum tíma, sem ég get aflétt trúnaði af var einkasamtal við Finn Ingólfsson, sem ég vitna í í áttblöðungnum 2006, en hann sagði við mig að það yrði að halda uppi stanslausum virkjana- og stóriðjuframkvæmdum, af því að annars kæmi kreppa og atvinnuleysi. Ég spurði hvað ætti að gera þegar búið væri að virkja allt og ekkert væri eftir svaraði hann: "Það verður verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi."
Sem sagt, við báðir dauðir og allt í fína lagi.
Ég hitti Finn í afmælisveislu fyrir þremur árum og sagði honum, að ég hefði haldið trúnað við hann í öll þessi ár, af þvi að það væri prinsíp hjá blaðamanni. Þá sagði hann, að það væri alveg óþarfi fyrir mig, hann stæði við þessi orð sín og ég hefði allan tímann mátt hafa þetta eftir honum.“
Finnur er alvöru framsóknarmaður og iðrast einskis.

Nokkrar góðar greinar að lokum
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir skrifaði frábæra grein sem ber heitið „Stríðið gegn kærendum kynferðisbrota“, og fjallar um Villa Vill og Svein Andra.
„Sjaldan hefur verið jafn harkalega gengið fram gegn þeim sem kæra kynferðisbrot og undanfarið, þegar þeir hafa verið kærðir á móti fyrir rangar sakargiftir og jafnvel nauðgun. Gagnsóknin gegn opinni umræðu um kynferðisbrot er hafin og þar fara tveir lögmenn fremstir í flokki.“

Ólafur Grétar Gunnarsson fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi hefur skrifað tvær ágætar greinar gegn brennivín-í-búðir frumvarpinu. Sú fyrri snýr talsvert að félagslegum vandamálum í ákveðnu sveitarfélagi, hin síðari fjallar um heimilisofbeldi og afleiðingar þess á geðheilbrigði barna. Það er mikilvægt að þessum hliðum málsins sé velt upp og Ólafur gerir það vel.

Kristín Jónsdóttir skrifaði um klámskoðanir Siggu Daggar kynfræðings, og er pistill hennar á Knúzinu góður lestur.

Annað gott knúz er þýdd grein um Amnesty, vændi og mansal, þar sem kemur í ljós að ráðgjafi Amnesty, þegar verið var að taka umdeilda ákvörðun um afglæpavæðingu vændis, hefur verið dæmd fyrir mansal.

Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

þriðjudagur, mars 29, 2016

Eru þeir sem telja sig hafna yfir íslenska hagkerfið bestir til að stýra því?

Koma fréttir um að Bjarni Ben sé á lista yfir eigendur aflandseyjafélaga í alvöru á óvart? Og sjálfstæðismanna yfirleitt? Það verður auðvitað fróðlegt að sjá listann (og vonandi enginn sem ég þarf að missa álit á við lestur hans), og verður skemmtilegt að heyra hvern einasta skattaskjólsþingmann útskýra vandlega hvernig hann hafi í raun aldrei grætt á því og hafi alltaf borgað af því skatt og hafi barasta alveg gleymt í hvaða landi félagið sé skráð eða hann hafi átt skúffu á Tortóla.

Það eina undarlega er að þetta fólk hafi komist til valda. Þrátt fyrir augljós tengsl Bjarna við hrunvalda var hann kosinn til áhrifa. Hvað voru kjósendur að hugsa? Munu þeir aftur skila xD kjörseðli í næstu þingkosningum, eða xB? Slá striki yfir ekki bara aðdraganda hrunsins, heldur þetta kjörtímabil líka og láta þessa svívirðilegu eiginhagsmunaflokka enn einu sinni setjast að kjötkötlunum? Sem þó kæmi ekki á óvart heldur.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, mars 27, 2016

Öllum steinum velt við

Forsætisráðherrahjónin hafa nú endanlega velt steininum frá holunni þar sem þau földu sig, og birtu í dag pistil þar sem þau gera fullkomlega (innan gæsalappa) grein fyrir öllu því sem snertir ‘ekki aflandseyjafélagið’, og bæta enn í söguna um siðferðilegan hreinleika sinn og fórnfýsi. Undanfarið hefur verið hamrað á því hve ósanngjarnt sé að draga fjármál eiginkonu Sigmundar fram í dagsljósið — og það alltaf kallað persónulegar árásir. Að því er látið liggja að þar ráði öfund annarsvegar vegna auðæfa hennar, og hinsvegar sé tilgangurinn að koma höggi á leiðtogann.

Hér verður því farið í persónulegar árásir á Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur. Það er að segja, ef það að draga fram í dagsljósið hennar eigin orð og gjörðir teljast til persónulegra árása.

Ég fékk ábendingu um greinar sem hún skrifaði í Moggann 2006 og 2007, og ganga nú eflaust ljósum logum um internetið (þar skrifar hún nafn sitt sem Anna S. Pálsdóttir), en fyrir þau sem ekki hafa séð þessa miður skemmtilegu hlið á lífsförunaut forsætisráðherrans — þau voru þá þegar í sambúð — er réttast að gefa þeim kost á því hér.

Fyrri greinin birtist 12. júní 2006 og heitir „Kvenfyrirlitning femínista“, og snýst hún um hvað kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja séu galnir.
„Af ótal ástæðum, sem of langt mál er að tíunda hér, eru slík lög hvorki skynsamleg né raunhæf. Verst er þó að þau eru yfirgengileg móðgun við konur. Verandi ung kona sem setið hefur í stjórn nokkurra fyrirtækja frábið ég mér svona kröfur.“
Þessi síðasta setning er gullvæg.

Anna segir að feministar tali konur niður og „krefjast þess að þær fái hinar ýmsu stöður út á það eitt að vera konur“, en virðist finnast það allt annað en að fá stöður út á fjölskyldutengsl. Eða hvernig stendur annars á því að ung kona með mannfræðimenntun, þótt í viðskiptafræðinámi sé (eins og hún kynnir sig í greinunum), sat í stjórn ekki bara eins heldur fleiri fyrirtækja? Það skyldi þó ekki vera að þessi fyrirtæki hafi verið að hluta eða öllu leyti í eigu fjölskyldu hennar? Vonandi var þekking Önnu eftirsótt hjá ýmsum henni alls óskyldum fyrirtækjum og hún hafi ekki eingöngu fengið sæti í stjórnum vegna þess að hún eða fjölskylda hennar átti hagsmuna að gæta. En hún hlýtur allavega að hafa verið mjög fegin að hún settist ekki í stjórn fyrirtækjanna vegna einhvers kynjakvóta.* Það hefði nú verið ljóti bömmerinn að komast ekki þangað á eigin verðleikum.

Merkilegt annars að síðar þetta sama ár og hún ræðst gegn kynjakvótum og feminisma, fer hún í mál við föður sinn sem henni þótti, ef marka má fréttir, hafa látið bróður hennar njóta fjölskylduauðæfanna umfram hana. Svo virðist sem sátt hafi verið gerð í málinu því aldrei kom til kasta dómstóla, og hún fékk gríðarlegar upphæðir í fyrirframgreiddan arð (sem svo endaði á Tortóla). Einhver hefði haldið að þetta væri feminísk réttlætisbarátta gegn feðraveldinu sem hyglir körlum umfram konur, en Anna hefur kannski ekki litið þannig á það.

20. maí 2007 skrifar hún svo aðra grein gegn feminisma, sem heitir hvorki meira né minna en „Hættulegur femínismi“, og þetta er niðurlag hennar.
„Alvarlegasti löstur femínismans er þó ekki rangfærslurnar heldur sú staðreynd að hann er beinlínis skaðlegur konum. Sé raunin sú að konur sætti sig við lakari kjör en karlar ætti að sannfæra þær um að þær séu jafnokar þeirra og allir vegir færir (eins og flestar okkar vita fyrir). Í stað þess að reyna daglega að brjóta konur niður með endalausu tali um að staða þeirra sé næsta vonlaus því þær verði ekki metnar að verðleikum.

Skaðsemi femínismans liggur ekki hvað síst í fordómum í garð þess sem þykir kvenlegt og minnimáttarkenndarblandaðri aðdáun á því sem talið er til karlmannlegra einkenna. Á meðan öll áherslan er á að jafna hlut kynjana í „karlagreinum“ vanrækja feministar, og líta nánast niður á, konur í „kvennastéttum“. Heimavinnandi húsmæður verða verst úti en konur í kennarastétt og heilbrigðisþjónustu koma þar fast á eftir (verkakonur sjást ekki á radar femínista). Tekjur þessara undirstöðustétta samfélagsins, þar sem konur eru í meirihluta, eru alltof lágar og þ.a.l. meðaltekjur íslenskra kvenna. Þessu lítur femelítan framhjá.

Vissulega eru þeir til sem meta verðleika fólks eftir kynferði, aldri eða öðrum fæðingarþáttum. Hins vegar er fráleitt að halda því fram að til sé samsæri um að halda konum niðri í launum. Slíkt skaðar fyrst og fremst konur. Það er tímabært að jafnréttismál fari að snúast um jafnrétti allra fremur en viðhald og eflingu stofnana femínismans.“
Það er svo sérlega áhugavert í ljósi þessara skrifa Önnu að Sigmundur Davíð hefur verið „útnefndur einn fremsti karlfemínisti heims af breska dagblaðinu Financial Times“. Ekki að nokkur feministi á Íslandi hafi álitið hann feminista, og grein Áslaugar Karenar Jóhannsdóttur fer vandlega yfir feril hans til að sjá hvort útnefningin ætti sér nokkra stoð. Sem reynist ekki vera.**

En það hlýtur að vera stirð sambúðin milli yfirlýsts andstæðings feminisma og eins helsta karlfeminista heims. Nema auðvitað þegar þau sitja við eldhúsborðið og klóra yfir skítinn sinn skrifa skýringar á fjárreiðum sínum.

___
* Forstjóri Kauphallarinnar er nú samt ánægður með kynjakvótann.
** Rétt er að geta þess að þegar Alþingi samþykkti lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja 4. mars 2010 var SDG fjarstaddur og greiddi ekki atkvæði. Kannski var hann önnum kafinn.

Efnisorð:

fimmtudagur, mars 24, 2016

Af óskeikulum siðferðisáttavita og veðmáli sem ekki er hægt að tapa

Í tilefni dagsins fékk Jóhannes útskýrari frí, og Sigmundur Davíð forsætisráðherra kom í drottningarviðtal í Fréttablaðinu. (Auðvitað allsekki vegna þess hve silkimjúk áferðin er á leiðurum aðalritstjórans.) Einnig lét SDG móðinn mása á Útvarpi Sögu og hefur sjálfsagt sprengt ánægjuvogina þar.

Ekki er ástæða til að rekja allt viðtalið (sem er tekið af blaðamanni sem getur varla leynt aðdáun sinni), en í stuttu máli sagt finnst SDG hann ekki hafa gert neitt rangt og sér ekkert siðferðilega ámælisvert við að fela auðinn í aflandseyjafélaginu Wintris fyrir kjósendum sínum.

En, eins og Illugi Jökulsson segir,
„Þegar Sigmundur Davíð hóf þátttöku í pólitík 2009 og svo alveg sérstaklega fyrir kosningarnar 2013, þá bar honum skylda til að upplýsa þjóðina um eignir sínar og konu sinnar á Tortóla og kröfur þeirra á hendur íslensku bönkunum. Þetta skipti verulegu máli því stjórnmálabaráttan þessi misserin snerist að ótrúlega stórum hluta um samskipti við kröfuhafa. Ef Sigmundur Davíð hefði lagt spilin á borðið má vel vera að kjósendur hefðu samt treyst honum, en hann kaus að vera það ekki. Hann fór á bak við þjóðina í mjög mikilsverðu hagsmunamáli hennar – og sem snerti, eða gat snert, peningalega hagsmuni hans sjálfs.“
Framsókn fékk (fáránlegan) fjölda atkvæða í þingkosningunum 2013 út á loforð Sigmundar Davíðs um hörku gagnvart kröfuhöfum og skuldaleiðréttinguna, en þetta tvennt var samofið. Kjósendur gátu auðvitað ekki vitað að skuldaleiðréttingin endaði á að koma úr ríkissjóði, og það hefði kannski ekki skipt þá alla máli, en sannarlega suma. En hefðu allir þessir kjósendur merkt við Framsókn í kjörklefanum hefðu þeir vitað að SDG og eiginkona hans hefðu átt auðæfi í skattaskjóli? Og að eiginkona Sigmundar, sem þá var orðin einkaeigandi að aflandseyjafélaginu (það var ekki fært á hennar nafn fyrr en fyrr en Sigmundur hellti sér útí pólitík 2009) væri meðal kröfuhafa í slitabú föllnu bankana? Ef nú hún hefði fengið allt greitt í topp af sínum kröfum, hefði það ekki haft fjárhagsleg áhrif á hokrið í Hrafnabjörgum? Og hefur það ekki líka fjárhagsleg áhrif á stöðu þeirra hjóna, svo ekki sé minnst á félagslega stöðu þeirra og völd, að Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra 2013?

Mér sýnist að Sigmundur Davíð (eða þau hjónin) hafi veðjað á tvo kosti í einu:
A) fara í kosningabaráttu með loforðum sem gengu í augun á kjósendum en leyna jafnframt mikilvægum upplýsingum sem hefðu getað skemmt fyrir framboðinu,
B) láta auðæfin áfram liggja í sólbaði á Bresku jómfrúreyjum og reyna að ná sér í meiri pening með því að gera kröfu á bankana.

Ef A gengi ekki upp þá er alltaf nóg til af peningum (því ef marka má SDG hefðu kröfur verið greiddar til fulls ef hann hefði ekki verið í valdastöðu).

Ef A gengi upp en ekki B, þá er húsbóndinn á heimilinu samt orðinn forsætisráðherra.

Þetta plan gæti kallast win-win-trix.


Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, mars 22, 2016

Póstkort úr sólinni

Margir dálksentimetrar hafa verið skrifaðir um aflandseyjafélag forsætisráðherrahjónanna, og vart á bætandi. En vegna þess að framsóknarmenn hafa ekki bara æst sig yfir að yfirhöfuð sé verið að ræða það mál (skyndilega finnst þeim ekki „nauðsynlegt að taka umræðuna“) heldur hafa notað tækifærið til að leggjast í gamalkunnan ríkisútvarpshatursgír, finnst mér það gott tilefni til að taka saman nokkuð af því sem vakið hefur sérstaka eftirtekt mína (fyrir margra hluta sakir) undanfarið.*

Óumdeilt er að allir fjölmiðlar hafa fjallað um málið og líklega allir mikið. (Ókei, smájátning: ég fylgist í raun ekki með öllum fjölmiðlum og veit ekkert stöðuna hjá landshlutablöðum Binga eða hjá Útvarpi Sögu.) Fjölmiðlarnir reyna að fá viðbrögð sem flestra við Tortóla-reikningnum auk þess sem fastir starfsmenn skrifa fréttaskýringar. Í ofanálag er bloggað á mörgum vefmiðlum, og þar bætist í skoðanasarpinn.

Ein ásökun framsóknarmanna er semsagt sú að Ríkisútvarpið hafi bara talað við sérvalda andstæðinga hins mikla foringja, enda standi það „fyrir herferð gegn forsætisráðherra undanfarna viku og þar hafa allar reglur um hlutlægni látið undan.“ Það hefur Nútíminn ** reyndar afsannað með því að telja upp þá stjórnmálamenn úr ríkisstjórnarflokkunum sem hafa komið í hvaða þætti Ríkisútvarpsins, og minna á að þar að auki hafi forsætisráðherra sjálfum margsinnis verið boðið að tjá sig. (Hvernig er það, ætlar hann að þegja út kjörtímabilið?)

Karl Garðarsson framsóknarþingmaður, sem heldur á lofti þessari herferðarkenningu, er fyrrverandi fréttamaður og fréttastjóri sem starfaði hjá Bylgjunni og Stöð 2 í nærri 20 ár. Hann er kannski vanur því úr sínu starfi þar að fara í herferð gegn fólki, eins og hann sakar nú Ríkisútvarpið um, en virðist hinsvegar alveg laus við að hafa öðlast þann skilning á starfi fréttamanna við að veita valdinu, og þar með valdhöfum, aðhald.

Það er kannski ekki framsóknarmennska sem stýrir orðum og gerðum Kristínar Þorsteinsdóttur (sem er nú útgefandi og aðalritstjóri Fréttablaðsins sem er gefið út af því sama fyrirtæki og Karl starfaði hjá en kallast nú 365 miðlar) en þýlyndi við valdhafa virðist hennar aðalsmerki. Í leiðara, sem margir ráku upp stór augu yfir, sagði hún m.a.
„Í þessu samhengi eru dylgjur á Alþingi um að forsætisráðherra hafi leikið tveim skjöldum í þessum viðræðum í besta falli hjákátlegar, og í versta falli sjúkdómseinkenni á fárveikri pólitískri umræðu.“
Það er semsagt skoðun ritstjóra víðlesins fjölmiðils að það sé hjákátlegt, og gott ef ekki einkenni á fárveikri pólitískri umræðu að gagnrýna að ráðamenn þjóðarinnar eigi peninga í skattaskjólum. Ég er ekki ein um að furða mig á þessum ummælum Kristínar, Illugi Jökulsson skrifaði stutta hugleiðingu um þau, og þar nefnir hann reyndar annan leiðara sem einnig birtist í Fréttablaðinu og var skrifaður af Fanneyju Birnu Jónsdóttur sem „ skrifaði einmitt fínan leiðara um það efni“ en hann má lesa hér, svona til að sýna að ekki eru allir leiðarahöfundar blaðsins heillum horfnir. Kristín sjálf skrifaði svo annan leiðara í dag og virðist hann eiga að vera útskýring á orðalaginu „fárveik pólitísk umræða“ (segir raunar „helsjúk“ í nýja leiðaranum) en gagnrýnir þó framsóknarmenn fyrir að reyna að kveða málið niður, og Sigmund Davíð fyrir að gera ekki hreint fyrir sínum dyrum. Skárri leiðari, en fær mínusstig fyrir að hamra á að stjórnarandstaðan beri sök á umræðunni.

Og að lokum þetta. Agnar Kristján Þorsteinsson spyr í bloggfærslu áhugaverðra spurninga um eignarhald á aflandseyjafélaginu Wintris Inc:
„er ekki eitthvað skrítið við það að erlendur banki telji þau sjálfkrafa vera hjón nær þremur árum fyrir brúðkaupið þegar félagið var stofnað? Er ekki líka eitthvað skrítið við það að þau virðast ekkert taka eftir þessu eignarhaldi fyrr en á árinu sem Sigmundur hellir sér út í stjórnmálin á fullu? Er það ekki líka smáskrítið að hvorugt þeirra hafi tekið eftir þessu eignarhaldi á skjölum hins erlenda banka og hefði það ekki líka átt að sjást á skattframtalinu fyrir árið 2007 þegar það var stofnað í ljósi samsköttunar? Voru þau ekki einfaldlega að taka á því sem gæti komið fram í sviðsljósið og valdið stjórnmálaferli Sigmundar skaða? Ef svo er, leynist þá eitthvað meira?“

Það kæmi varla á óvart héðan af.
___

* Hér er ekki farið útí að rekja allar fréttir og greinar eða hver sagði hvað og hvað hefur komið í ljós; ég bíð eftir einhverri feitri fréttaskýringu sem tekur það allt saman, sem ég get svo vísað á mér til hægðarauka. Verandi nú í fríi með Gróu.

**Nútíminn hefur líka haldið til haga nokkrum atriðum sem forsætisráðherrafrúin sleppti að minnast á í játningu sinni.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, mars 18, 2016

Makalaust

Nú hefur það aftur gerst að eiginkona ráðherra skrifar að því er virðist upp úr þurru tilkynningu á facebook . Í vikunni sór eiginkona forsætisráðherra af sér nokkur fjárhagsleg tengsl við maka sinn, og ekki er langt síðan eiginkona fjármálaráðherra tilkynnti að maki sinn hefði ekki auglýst á framhjáhaldssíðu eftir konu til kynmaka. Ráðherrarnir hefðu kannski betur sjálfir séð um þessar tilkynningar (forsætisráðherra hefur reyndar afneitað hagsmunatengslum við maka sinn á síðum Alþingis), en aðstoðarmenn og almannatenglar hafa sjálfsagt ráðlagt þeim að setja eiginkonunum fyrir þessi verkefni; svo væri alltaf hægt að bölva gagnrýnisröddum fyrir að reyna að ná höggi á ráðherrana með því að ráðast á eiginkonur þeirra. Og það sé svíðingslegt athæfi.

Annars ætlum við Gróa á Leiti að taka okkur frí frá þessari umræðu, enda ekki öll kurl komin til grafar (við búumst við frekari uppljóstrunum þegar Jóhannes Kr. Kristjánsson o.fl. birta fréttir af eigum Íslendinga í erlendum skattaskjólum; þangað til mæli ég með því að hlusta á fyrstu níu mínútur Hismisins, á hlaðvarpi Kjarnans, þar sem þáttastjórnendur ræða við Þórð Snæ Júlíusson* ritstjóra sinn um þetta mál).

Þess í stað vil ég aðeins fá að tjá mig um forsetaframbjóðendur. Það eru bæði góðar og slæmar fréttir að Katrín Jakobsdóttir býður sig ekki fram. Ég hefði séð mjög eftir henni úr stjórnmálum en veit að hún hefði orðið frábær forseti. Að sjálfsögðu vildi ég helst sjá konu á forsetastól en auðvitað ekki hvaða konu sem er. Ég sé alls ekki Höllu Tómasdóttur fyrir mér á forsetastóli.

Halla var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs 2005-2007 og sat í stjórn 2008-2012. Við erum að tala um Viðskiptaráð sem hreykti sér af því að í um 90% tillagna ráðsins hefðu náð fram að ganga með því að stjórnvöld hefðu gert þær að sínum. Á sama tíma lagðist Viðskiptaráð „gegn hækkun sjómannafsláttar, íþyngjandi reglum um starfsmannaleigur“. Það sama Viðskiptaráð vildi að „Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum“, og stefndi með gölnum hætti að „Ísland, best í heimi“ — þá stefnu kynnti Halla (eins og sjá má af glærum hennar neðst á síðunni sem vísað er á).

Á LinkedIn síðu Höllu má lesa (á ensku) að starfsferill hennar hafi hafist í Bandaríkjunum þar sem hún starfaði hjá „M&M/Mars and Pepsi Cola“. — Sem er þrælmagnað í ljósi þess að Bæring Ólafsson tilkynnti framboð sitt í dag, en hann er fyrrverandi forstjóri og framkvæmdastjóri Coca Cola International.

Svona fyrir utan að þessi forsetaframboð hljóta að verða frjó uppspretta brandara um Pepsi-áskorunina, þá er lítið fyndið við tilhugsunina um að Halla eða Bæring setjist á Bessastaði. Bæði hafa þau unnið fyrir slíkra risavaxinna alþjóðafyrirtækja sem framleiða eingöngu óhollustu og gróðinn er fyrir öllu, og Halla var að auki innsti koppur í búri í þeim félagsskap sem hafði (og hefur) innleiðingu frjálshyggju í landslög að markmiði sínu. Með þessum líka eftirminnilegu afleiðingum. En þessi minnislausa þjóð gæti því miður samt eftir að kjósa fólk með slíkan bakgrunn.

___
* [Viðbót] Þórður Snær hefur skrifað fantagóða grein um trúnaðarbrot forsætisráðherra.

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, mars 15, 2016

Nálægð er teygjanlegt hugtak

Í síðasta pistli minntist ég á að frumvarp framsóknarráðherra sem fær engar undirtektir hjá sjálfstæðismönnum. Fleiri mál eru rakin á vef Ríkisútvarpsins um ágreining í stjórnarliðinu sem snýr m.a. að búvörusamningum. Einnig rekja fjölmiðlar þessa dagana uppnámið útaf hugmyndum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um staðsetningu Landspítalans á Vífilsstöðum. Þeir sem vilja sjá bútasaumsaðgerðirnar við Hringbraut verða að veruleika hugsa honum þegjandi þörfina og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra er æfur.

Kátlegast er þó að Sigmundur Davíð er með fabúleringum sínum ekki bara að hrella samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, heldur sína eigin flokksmenn og fótgönguliða í borgarstjórn. Framsóknarflokkurinn fór fram undir heitinu Framsókn og flugvallarvinir, og kjörnir fulltrúar flokksins í borgarstjórn eru með tryggt bakland hjá þeim sem vilja að flugvöllurinn verði kyrr (og allskonar mis-stækum rasistum reyndar líka) en kjörorð flugvallarvina er Hjartað í Vatnsmýrinni, sem vísar ekki síst til þess að (hjarta)sjúklingar komi fljúgandi með sjúkraflugi og lendi sem næst sjúkrahúsinu. Að formaður flokksins vilji nú flytja sjúkrahúsið í þarnæsta sveitarfélag setur því borgarfulltrúana í nokkra klemmu. Og það má næstum heyra Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur gnísta tönnum þegar hún svarar spurningum um staðarval fyrir sjúkrahúsið í ljósi orða formannsins hennar.
„Það er vel hægt að hafa flugvöllinn áfram á þessum stað þótt spítalinn verði annars staðar,“ segir Guðfinna. „Þetta snýst ekkert um það að flugvöllurinn þurfi að vera við hliðina á sjúkrahúsinu heldur þarf hann að vera nálægt sjúkrahúsinu.“
Mikla jákvæðni þarf til að kalla fjarlægðina milli Vífilsstaða og Vatnsmýrar nálægð. Allavega ef tekið er mið af sjúkrafluginu. Og einhvernveginn held ég ekki að Guðfinna hafi svarað þessu full jákvæðni.

Það vill til að vinnustaðasálfræðingar eru mikið teknir núna.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, mars 13, 2016

Vilji er ekki nóg ef hinir vilja ekki

Mig langar heilmikið að fagna 1.000 íbúða yfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Alþýðusambands Íslands. Ódýrar leiguíbúðir – eins og leigumarkaðurinn er – hljómar sannarlega afar vel. Endurreisn verkamannaíbúðakerfisins er líka gott framtak. En það dregur úr fögnuði mínum að ekki hefur verið útskýrt hvort íbúðirnar eigi að fylgja algildri hönnun (þ.e. taki mið af þörfum aldraðra og fatlaðra) eða hvort þær munu fylgja nýrri og markhópamiðaðri reglugerð og bara vera fyrir fullfrískt fólk. Að auki er ég hreint ekki bjartsýn á að frumvarp félagsmálaráðherra um „almennar íbúðir“ verði að lögum, en á því hangir viljayfirlýsingin.
„Viljayfirlýsingin sem hér er samþykkt verður unnin á grundvelli væntanlegra laga um almennar íbúðir, sem nú liggur fyrir Alþingi og er háð fyrirvara um samþykkt þess og samþykki stjórnvalda vegna stofnframlags ríkisins.“
Markmið laga um almennar íbúðir eru þessi:
„Að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu og tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.“
Burtséð frá örugglega mjög góðum vilja Eyglóar Harðardóttur til að bæta stöðu leigjenda og fjölga leiguíbúðum (sem leigðar eru án hagnaðarsjónarmiða), er vægast sagt lítil stemning fyrir því hjá samstarfsflokk hennar í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf haldið séreignastefnu á lofti og vill að allir búi í eigin húsnæði (byggingaverktakar og fasteignasalar eru dyggir stuðningsmenn flokksins), og þar þykja verkamannaíbúðir nógu óheppilegar þó svo ekki sé verið að lækka markaðsverð á húsaleigu í þokkabót við fasteignaverðshjöðnun. Líkurnar á að Eygló komist gegnum þingið með frumvarp sem hyglir þessum annars ágætu áformum, eru því litlar.

Það væri þá ekki nema einhver hrossakaup verði í ríkisstjórninni um eða uppúr áramótum, þar sem báðir flokkar bökkuðu með eitthvað af sínum prinsippmálum til að leyfa hinum flokknum að skella fram efnilegum kosningaloforðum. Því það verður kosið eftir rúmt ár, og allur dráttur á því að mál einstakra ráðherra séu kláruð, skulu skoðast í ljósi þess að hægt sé að stilla þeim upp sem nýunnum sigrum á kosningaári. Kannski verður Eygló voða mikið á ferð með skófluna þá?

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, mars 11, 2016

Hlægilegt eða nauðsynlegt húsmæðraorlof?

Föstudagsviðtal Fréttablaðsins og útdráttur sem því fylgdi á forsíðu vakti athygli mína þegar blaðið barst innum lúguna.* Þar segir Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks að konur þurfi að gefa eftir réttindi til húsmæðraorlofs og í forsjármálum, því að jafnrétti þurfi að ganga í báðar áttir.

Mér finnst sérkennilegt að þingmaðurinn taki sérstaklega fyrir húsmæðraorlof sem dæmi um málaflokk þar sem konur njóti forréttinda (og þá líklega að körlum sé mismunað).* Ekki síst vegna þess að fyrir þremur dögum var viðtal við Svanhvíti Jónsdóttur formann orlofsnefndar Gullbringu- og Kjósarsýslu** þar sem hún sagði enn vera þörf á sérstöku orlofi fyrir elstu kynslóðir kvenna. Viðtalið við hana var reyndar tekið í tilefni af því að frumvarp um afnám laganna bíður afgreiðslu. Frumvarp sem Unnur Brá lagði fram.***

Auðvitað hljómar „húsmæðraorlof“ einsog tímaskekkja, og auðvelt að gera grín að því, en einsog Svanhvít segir þá mætti alveg kalla þetta kvennaorlof. Unnur Brá veit hver sagan er á bakvið húsmæðraorlofið („konur voru heimavinnandi og nutu ekki réttinda til að fara í orlof“) en virðist halda að þær konur hafi allar dáið drottni sínum þegar konur flykktust á vinnumarkaðinn. Það er auðvitað ekki svo.„Eldri kynslóðir kvenna nutu ekki réttinda á borð við fæðingarorlof og dagvistunarúrræði“, segir í Fréttablaðinu. Auk þess sem „lög um orlof húsmæðra voru til að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa“.

Enda þótt margar og vonandi flestar konur komist í ferðalög innanlands og utan fyrir eigin rammleik og á eigin vegum, þá á það ekki við um allar konur.
„Það er rétt að tímarnir hafa breyst en við höfum samt bent á að það er mikið af konum sem eru einar, eða jafnvel með menn sem þær senda í hvíldarinnlögn til þess að komast frá … Margar eldri konur hafa einangrað sig félagslega, orlofsferðirnar eru hugsaðar til að rjúfa þessa einangrun. Þær fá í ferðunum félagsskap, öryggi og aðstoð.“
Annars finnst mér góð sú hugmynd Þóru Kristínar Þórsdóttur sem setti hana fram í Knúzgrein þar sem hún gagnrýndi húsmæðraorlof í núverandi mynd, „að grundvallaratriðið hlýtur að vera að niðurgreiðsla orlofs sé aðeins í boði fyrir þau sem þess þurfa, og niðurgreiðslan sé nægilega há svo að fólkið sjálft þurfi ekki að bera þungan kostnað.“
Eftir stendur að fjöldi kvenna þarf og vill fara í þessar ferðir á vegum orlofsnefndanna, og mér finnst alger óþarfi að taka þann möguleika af þeim, og rök Svanhvítar gegn því mjög góð.


___
* Útdrátturinn á forsíðunni hefst svona: „Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, vill rafrænt eftirlit með mönnum sem ekki fremja ofbeldisglæpi“. Í smástund íhugaði ég að fá mér umboð fyrir ökklabönd úr því fylgjast ætti með öllum þeim fjölda landsmanna sem aldrei hefur beitt ofbeldi, og sá fyrir mér stórgróða.

** Afhverju erum við alveg hætt að tala um Gullbringu-og Kjósarsýslu?

*** Samfylkingin hefur líka lagt fram slík frumvörp einsog kemur fram í grein Þóru Kristínar þar sem hún rekur einnig tilurð og ástæður húsmæðraorlofsins.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, mars 07, 2016

Fyrsta íbúð af mörgum

Kynningarblaði Íslensks iðnaðar sem kom út 3. mars var ætlað að auglýsa upp „stórsýninguna Verk og vit“ sem ku hafa lokið í gær. Ég er ekki farin að sjá niðurstöður ráðstefnunnar Mannvirkjagerð á Íslandi sem fór fram á opnunardegi sýningarinnar (sem jafnframt var útgáfudagur blaðsins), en viðtal (á bls. 4 í kynningarblaðinu) við Friðrik Á. Ólafsson forstöðumann byggingasviðs Samtaka iðnararins vakti athygli mína.

Friðrik flutti erindi á ráðstefnunni og ræðir efni þess í viðtalinu. „Þar fjalla ég um byggingarreglugerðina eins og hún blasir við okkur frá 2012 og þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á næstu dögum eða vikum.“ Friðrik reynist vera æsispenntur fyrir þessum breytingum (öfugt við mig) og vill að hver íbúð höfði til ákveðins markhóps. Honum finnst „allt of mikil forskrift í byggingarreglugerðinni“ [þeirri frá 2012] en „núna er verið að liðka til og gera þetta sveigjanlegra og hafa reglugerðina nær því að vera markmiðssetta.“ Hann talar sérstaklega um fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð njóti góðs af breytingum á byggingarreglugerðinni, því handa þeim verður þá hægt að framleiða ódýrara húsnæði.

Friðrik segir með breytingunum verði auðveldara að byggja „fjölbreyttara“ húsnæði. Verst að fjölbreytnin á ekki að ná til íbúanna, því húsnæðið virðist ekki eiga að uppfylla uppfyllir kröfur um rými og aðgengi fyrir hjólastóla, göngugrindur, og svoleiðis óþarfa, geri ég ráð fyrir. Þau eru alveg í sérmarkhóp, ekki þeim sem kallaður er „fyrstu-íbúðarkaupendur“. Það fer illilega í taugarnar á mér þegar gert er ráð fyrir að fólk sem er aldrað eða hreyfihamlað eigi að búa í sér blokkum með sínum líkum (sbr. pistil minn frá í fyrra) , en að þessu sinni hjó ég sérstaklega eftir orðalaginu „fyrsta íbúð“ og vil nú ræða það stuttlega.

Það er kannski ekkert séríslenskt fyrirbæri, en einkennir þó íslenskt þjóðfélag og hefur gert síðan ég man eftir mér, að fólki ber að stefna að því að búa í einbýlishúsi. Það má alveg byrja smátt – í fyrstu íbúðinni – og hún má jafnvel vera í kjallara eða undir súð. Eða kannski í blokk. En þaðan skal haldið strax og börn bætast við eða fólk hefur lokið langskólanámi. Þá tekur við stærri íbúð, ekki verra ef það er hæð í litlu fjölbýlishúsi, annars ný blokkaríbúð með sérinngangi eða raðhús. Enginn má þó láta hjá líðast að stefna að því að búa í einbýlishúsi, þessu helsta takmarki allra þeirra sem lifa í neyslukapphlaupssamfélagi. Þessvegna má „fyrsta íbúðin“ gjarnan vera bara fyrir fullfrískt fólk sem getur klifið stiga og stokkið yfir þröskulda og þarf ekki stóran beygjuradíus til að komast milli herbergja.

Það er auðvitað alltaf til misheppnað fólk sem finnst bara gott að búa í „fyrstu íbúðinni“ alla ævi, eða er ekki nógu duglegt að græða á daginn til að geta fikrað sig upp virðingarstiga íbúðareigenda, en slíkt fólk er dragbítar á allar kapítalískar framfarir og hagkerfið í heild. Því hvað verður um öll stóru einbýlishúsin ef enginn vill kaupa þau af fólkinu sem flyst í sérhannaðar íbúðir í blokk fyrir aldraða? Það skiljanlegt að fasteignamarkaðurinn og byggingarsvið Samtaka iðnaðarins hafi áhyggjur af því.

Efnisorð: , ,

laugardagur, mars 05, 2016

Réttlæting ofbeldis

Mér er álíka skemmt að heyra að BDSM-félagið hafi fengið aðild að Samtökunum 78 og þegar Amnesty lýsti yfir hamingju sinni með að konur væru söluvara. Nú á semsagt að normalísera það að berja fólk.

Ef ég ætti regnbogafána myndi ég flagga í hálfa stöng.

Efnisorð:

föstudagur, mars 04, 2016

Hafnarverkamenn á ofurlaunum

Það telst til tíðinda hve vel launaðir hafnarverkamennirnir í Straumsvík eru nú um stundir.
„Í síðasta tekjublaði Frjálsar verslunar var Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi með 6.349.000 krónur á mánuði. Samstarfsmaður hennar á bryggjunni Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsis var með 2.181.000 kr. á mánuði.“ Þær hafa unnið ásamt öðrum stjórnendum og stjórnarmönnum Rio Tinto Alcan við að skipa út áli, í því skyni að eyðileggja fyrir verkalýðsbaráttu starfsmanna álversins.

Í frétt Vísis um þetta framferði stjórnenda álfélagsins er vitnað í pistil eftir Guðmund Ragnarsson, formann félags vélstjóra og málmtæknimanna, sem ræddi meðal annars laun nýliðanna á hafnarbakkanum, eins og vitnað er til hér að ofan. Einnig segir Guðmundur:
„Ég velti fyrir mér hver sé sjálfsvirðing þess fólks sem nú starfar við útskipun í álveri auðhringsins Rio Tinto Alcan. Fólkið gengur lengra og lengra í að brjóta niður þau gildi sem hafa verið þróuð á íslenskum vinnumarkaði í áratugi.

Verður hægt að bera virðingu fyrir svona einstaklingum sem leggja sig svo lágt að ganga blint í að þóknast erlendum auðhring og brjóta niður íslensk gildi. Einhvertíma og einhversstaðar hefði fólk verið kallað leiguþý og jafnvel landráðamenn fyrir að vinna gegn hagsmunum eigin samfélags. Eins og gert er nú í Straumsvík.“

Það er sannarlega lágt lagst.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, mars 02, 2016

Arðgreiðslur tryggingafélaga

Frétt um arðgreiðslur tryggingafélaganna sem var á forsíðu Fréttablaðsins var fylgt eftir í Markaðnum, sérblaði sem fylgir blaðinu. Þar sem að mig grunar að lesendur bloggsíðunnar séu ekki fremstir í flokki þeirra sem lesa Markaðinn ætla ég að taka saman helstu atriði sem stinga í augu.

Tryggingafélögin – þessi sem við þurfum öll að eiga viðskipti við ef við eigum bíl eða húsnæði – hafa grætt alveg svakalega undanfarin ár og í stað þess að lækka iðgjöld viðskiptavina sinna ætla þau að greiða eigendum sínum 8,5 milljarða í arð.

Svona hljóðar undirfyrirsögn Markaðarins:
„VÍS, Sjóvá og TM [áður Tryggingamiðstöðin] hafa greitt 30 milljarða til eigenda sinna frá 2013 gangi áform um arðgreiðslur og endurkaup hlutabréfa eftir. Félögin drógu úr afsláttum og hækkuðu iðgjöld í fyrra.“
VÍS sendi viðskiptavinum sínum „bréf í lok nóvember þar sem tilkynnt var að iðgjöld yrðu hækkuð vegna slæmrar afkomu.“

Þessi sömu félög eru þau sem ætla nú að greiða eigendum sínum 8,5 milljarða í arð. (Tryggingafélagið Vörður greiddi sínum eigendum arð uppá 300 milljónir í fyrra, en hefur ekki enn tilkynnt um arðgreiðslur nú.) Framkvæmdastjóri Félags Íslenskra bifreiðenda bendir á að
til að mynda bifreiðatryggingar, brunatryggingar og fleiri tryggingar séu skyldutryggingar. „Þetta er eitthvað sem þú kemst ekkert undan að kaupa. Á okkar markaði ert þú bara með þessa fjóra aðila sem þú getur verslað við“.

Ef ég væri haldin fjármálalæsi (sem ég held að sé einhverskonar sjúkdómur) þá skildi ég kannski útskýringarnar í fréttinni, sem mér sýnist eiga að benda til þess að tryggingafélögin séu í raun ekkert svona vel haldin.* Stóra fréttin er sú að þau ætla að moka fé útúr fyrirtækjunum eigendum þeirra til góða, en kreista í staðinn hverja krónu sem hægt er útúr viðskiptavinunum.

Það skyldi þó ekki vera að tryggingafélögin séu að feta í slóð bankanna sem voru étnir að innan af eigendum sínum, sem væri þá enn ein sönnunin fyrir því að 2007 sé komið aftur — og að enn einu sinni eigi almenningur að borga brúsann.


___

* Bloggfærslunni verður snarlega breytt reynist þessar ályktanir mínar rangar. Eftir stendur þó að það er verið að níðast á viðskiptavinum til að geta greitt eigendunum hærri arð.

[Viðbót nokkrum dögum síðar] Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir hreinlega að eigendur tryggingafélaganna séu að tæma bótasjóðina, og bendir á að það sé í annað sinn á stuttum tíma (sbr. Wernersbræður og hvernig þeir fóru með bótasjóði Sjóvár). Jafnframt hvetur FBÍ fjármálaráðhera (um tengsl Bjarna Benediktssonar við þá Wernersbræður og Vafningsmálið má lesa í grein Hallgríms Helgasonar) til að skipa fjármálaeftirlitinu að skakka leikinn. Bjarni er nú aldeilis rétti maðurinn til þess!

Efnisorð: ,