mánudagur, maí 30, 2011

Léttbært

Þrátt fyrir snjóalög í upphafi mánaðarins, einstaka eldgos og almennan skort á hlýindum, hefur maímánuður verið mér óvenju léttbær.

Í fyrsta sinn síðan ég varð símtækis aðnjótandi hef ég ekki burðast heim með níðþunga símaskrá.

Þungu (eða ætti ég að segja 'þykku'?) fargi af mér létt.

Efnisorð:

föstudagur, maí 27, 2011

Íslenskt táknmál lögfest sem fyrsta mál

Það er mikið fagnaðarefni að frumvarp sem lögfestir táknmál sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra hafi verið samþykkt á alþingi. Við erum reyndar ekki nema þrjátíu ár á eftir Svíum, sem fyrstir urðu til að setja slík lög, en í maí 2011 hefur þingheimi loksins tekist að samþykkja frumvarp* þar sem kemur fram að íslenskt táknmál sé fyrsta mál þeirra sem þurfi að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra.

3. grein laganna um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls** hljóðar semsagt svo [með fyrirvara um að þingskjalið sé rétt]:
„Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja.
Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.“


Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra á hrós skilið fyrir að leggja þetta frumvarp fram og fá það samþykkt á þinginu.

Af því tilefni má búast við því að sjónvarpsfréttir verði textaðar í kvöld, svona í tilefni dagsins.

_____
* Áratugum saman hafa heyrnarlausir og heyrnarskertir á Íslandi barist fyrir að staða táknmáls yrði tryggð með lögum og ekki má gleyma því að Sigurlín Margrét Sigurðardóttir varaþingmaður Frjálslynda flokksins lagði fyrst fram frumvarp um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra árið 2003. Það tók þingheim átta ár að snúast á sveif með heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum.
** Þetta eru semsagt heildarlög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Fyrsta grein laganna hljóðar svo: Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Sumir þeirra sem buðu sig fram til stjórnlagaþings vildu einmitt fá ákvæði um að íslenska væri þjóðtunga og táknmál væri því jafnrétthátt í stjórnarskrána og er vonandi að af því verði þrátt fyrir lagasetninguna.

Efnisorð: , ,

mánudagur, maí 23, 2011

Enn um rökfasta karlmenn og öfgafeminista með hugsjónir

Um daginn skrifaði ég langan pistil um gagnrýni Hildar Lilliendahl á fréttaflutning um ásakanir á hendur Dominique Strauss-Kahn. Stór hluti pistilsins fjallaði síðan um hvernig karlmaður nokkur, sem skrifaði athugasemdir við málflutning Hildar á bloggið hennar, lagðist sjálfur í bloggskrif. (Hér er langi pistillinn minn.) Þegar ég skrifaði mína bloggfærslu þá var hann þegar búinn að skrifa tvær og síðan hefur hann enn bætt við og eru færslurnar orðnar sex talsins, þaraf er sú síðasta yfirlit yfir hinar. Leikurinn barst líka útá vefsvæði sem nú heitir Bland.is (en hét áður er.is og þaráður Barnaland*) eins og rökfasti karlmaðurinn bendir sjálfur á í bloggi sínu. Þar tekur einhver gaur upp hanskann fyrir hann gegn 'brjáluðu femínistunum' og hótar meiðyrðamálsókn hægri vinstri því honum þykir svo illa talað um rökfasta karlmanninn. Enda þótt sá grunur hafi læðst að einum lesandanum að sá rökfasti hafi tekið sér dulefni þar því svo mjög tekur hann upp þykkjuna fyrir hann, þá mun það ekki vera rétt, þeir eru bara svona sammála. Rökfasti karlmaðurinn sjálfur er afturámóti ekkert að kippa sér upp við þetta röfl kvennanna enda virðist hann líta á allt það sem konur almennt segja og þá feministar sérstaklega sé til þess að hafa af því „lúmskt gaman“ því það er hans vinkill á málin.

Allar bloggfærslurnar ganga útá að gera lítið úr málflutningi feminista, draga í efa sannleiksgildi tölfræði um framdar nauðganir** og benda feministum á að allt sem þær segja séu öfgar og skemmi bara fyrir þeim (en sjálfur þykist hann auðvitað ekkert hafa á móti feministum heldur er auðvitað bara að skrifa þetta allt af föðurlegri umhyggju). Verst af öllu þykir honum þó að feministar skuli stjórnast af réttlætiskennd og berjist fyrir hugsjónum. Það kallar hann rétthugsun og firringu.

Honum finnst hinsvegar skemmtileg sú aðferð, sem hann sjálfur notar, að segja eitt en meina annað.** Leiðinlegra er þegar fólk hefur sannfæringu fyrir skoðun sinni.
„Sjálfum finnst mér mun meira heillandi þegar fólk finnur leiðir til að láta skína í að það sé að segja eitt en meini annað, en þegar það virðist sjálft trúa bókstaflega á orðræðuna.“

Hann er auðvitað ekki einn um þessa afstöðu sína en mér þykir hún afar ógeðfelld.*** Mér finnst sérkennilegt útaf fyrir sig að skilja ekki að fólk hafi hugsjónir og berjist fyrir réttlæti en að líta svo á að Morfís umræðuhefðin eigi að vera rétthærri og best sé að enginn hafi sannfæringu fyrir því sem rætt er um, það er mér óskiljanlegt.

Það er best að taka það fram að auk þeirra karlmanna sem greinilega ráku upp húrrahróp fyrir rökfasta karlmanninum, voru tveir karlmenn sem skrifuðu fjölmargar athugasemdir við blogg hans og ráku ofan í hann ýmsar heimskulegar staðhæfingar. Annar þeirra sagði reyndar í niðurlagi einnar athugasemdarinnar að hann tryði því ekki að rökfasti karlmaðurinn væri „með karlrembu bein“ í sér. Þar skilur algerlega með okkur.

___
* Það eina sem ég lærði nýtt á allri þessari ritræpu rökfasta karlmannsins var að Barnaland heitir núna Bland.is, því ekki hafði ég hugmynd um það áður.
** Reyndar held ég að rökfasti karlmaðurinn hafi meint hvert orð sem hann sagði.
*** Hann hefur mestar áhyggjur af því hve margir karlmenn séu ranglega ásakaðir um nauðganir og gefur sér að það sé í 5% tilvika. Allar tölur sem ég hef heyrt hingað til í þá átt hafa verið 1-2 % (sem er það sama og í öðrum sakamálum, s.s. kærur um innbrot) en það finnst honum greinilega of lítið og notar því margfalt hærri tölu.
Sá rökfasti er líka mjög upptekinn af því að til séu misalvarlegar nauðganir, þær séu flóknar og afstæðar og sumar þeirra verði meirasegja alveg óvart og leggur þær til jafns við að rekast utaní fólk. Sbr. þetta: „Ef þú ert að snúa þér við með bjórkönnu á skemmtistað og lemur óvart könnunni í hausinn á mér, þá er það ekki líkamsárás, er það nokkuð? Það skiptir engu máli hvernig mér líður með það að ég hafi fengið könnu í hausinn, ég varð fyrir slysi, ekki líkamsárás.“ Það er með ólíkindum að einhver skrifi bloggfærslu eftir bloggfærslu um málefni sem hann hefur svona brjálæðislega lítinn skilning á.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, maí 19, 2011

Strauss-Kahn „þarf ekki“ að nauðga og þessvegna er hann ekki nauðgari

Nauðgunarkæran á hendur Dominique Strauss-Kahn vekur miklar umræður um heim allan um líkurnar á sekt hans og sakleysi.* Enda þótt hann hafi áður verið borinn sömu sökum (alveg burtséð frá því hvort það varð lögreglumál eða ekki) og líkurnar á því að hann hafi enn gerst sekur um sömu háttsemi — nauðgunartilraun í það minnsta — hljóti því að vera allmiklar, er fjöldi manns á annarri skoðun. Aðallega þó karlmenn. Sumir karlmenn virðast líta svo á að ef þeir berjast ekki fyrir mannorði allra karla sem sakaðir eru um nauðgun, þá komi bara að því einn daginn að einhver frenjan ljúgi uppá þá sjálfa nauðgun. Til að vera öruggur sé því best að álíta allar ásakanir um nauðgun vera lygi, kvenfólk er hvorteðer barasta alltaf að ljúga til um svona hluti.

Svo eru þeir sem álíta að vegna þess að Dominique Strauss-Kahn er valdamikill maður þá geti ekki verið að hann 'þurfi' að nauðga konum. Eða eins og einn karlmaðurinn skrifaði í athugasemdakerfi Silfur Egils:
„Hefði haldið að maður eins og Kahn í hans stöðu þyrfti ekki að ráðast á herbergisþernur.“ (Sami maður ver gjörðir Strauss-Kahn reyndar ítrekað í athugasemdakerfinu.)

Þetta er athyglisverður útgangspunktur sem ég hef reyndar áður heyrt haldið fram, að ríkir, frægir, valdamiklir eða myndarlegir menn eigi svo mikinn séns í konur að þeir 'þurfi ekki' að nauðga konum. Hugsunin hjá þeim sem halda þessu fram hlýtur þá að vera sú að allar konur hljóti að vilja sofa hjá svo ríkum, frægum, valdamiklum eða myndarlegum mönnum. Þeir hafi úr svo miklu úrvali að moða að þeir þurfi ekki að leggja lag sitt við þær sem ekki vilja þá en þó aðallega það að engin kona segi nei.

Þeir sem halda þessu fram virðast standa í þeirri trú að nauðgari sé sá sem fær hvergi kynhvöt sinni útrás og grípi því til þess 'örþrifaráðs' að nauðga.** Þessvegna þurfi þeir sem fá nóg að ríða ekki að nauðga. (Þetta er líka notað sem réttlæting fyrir aðgengi karla að vændiskonum og klámi, og því haldið fram að þá fækki nauðgunum.) Svo framarlega sem allir karlmenn fá sitt þá þarf enginn þeirra að grípa til þess 'óyndisúrræðis' að nauðga.***

Valdamiklir karlmenn eru auðvitað ekkert einir um að nauðga konum. En það er heldur ekki hægt að halda því fram að vegna þess að þeir eru valdamiklir þá nauðgi þeir ekki.**** Margir karlmenn virðast einmitt þrá völd og auðævi vegna þess að þeir trúa því að þá liggi allar konur flatar fyrir þeim. Þeim sem er svo neitað taka ekki alltaf allir nei sem gildu svari: „Hvernig dettur þessari í hug að hafna mér?“ Karlmenn, hvort sem þeir eru valdamiklir, frægir eða myndarlegir eiga sumir (vonandi ekki allir) erfitt með að skilja að það finnst ekki öllum frægð þeirra eftirsóknarverð, útlit þeirra aðlaðandi og ekki vilja allar konur hlýða þegar valdamiklir menn skipa fyrir. Eitt er samt að þeir eigi erfitt með að skilja þetta (eða neiti að trúa því og fari því sínu fram), annað er að fólk verji gjörðir þeirra á þeim forsendum að „hann þarf ekki að nauðga því allar konur vilja hann“ röksemdinni. Það að karlmaður er 'meiriháttar maður' er engin ástæða til að draga strax í efa að nauðgunarkæra eigi rétt á sér.

Samt virðist vera litið svo á, sé nauðgarinn valdamikill eða frægur, að konan sem kærir hljóti að vera athyglissjúk og fégráðug (en aldrei að henni hafi verið nauðgað). Nema auðvitað að hún sé útsendari CIA eða eitthvað álíka eins og í rausað er um vegna kærumála á hendur Julian Assange og Dominique Strauss-Kahn. Á þeim forsendum — að konur eru alltaf að ljúga og karlmenn nauðga aldrei, sérstaklega ekki þessir frægu — hafa menn eins og Mike Tyson hnefaleikari, Kobe Bryant körfuboltamaður og Roman Polanski rétt eins og Assange og Strauss-Kahn verið afsakaðir í bak og fyrir af vinum sínum, aðdáendum og öðrum hverjum karlmanni á hnettinum.

Þetta á ekki bara við um ríka, fræga og valdamikla menn að þeim þyki þeir eiga rétt á kynlífi með hvaða konu sem þeim sýnist. Myndarlegir íslenskir strákar eru líka varðir af sama offorsi af vinum sínum, og sagt að þeir 'þurfi' nú ekki að nauðga vegna þess að þeir eigi svo mikinn séns, séu svo hrikalega myndarlegir að engin stelpa standist þá. Strákur sem sefur hjá mörgum stelpum eða sá karlmaður sem getur valið úr mörgum konum er ekkert ólíklegri en aðrir til að nauðga. Sú vissa að allar konur liggi flatar fyrir þeim getur staðið í vegi fyrir því að þeir virði neitun þeirrar sem sannarlega vill ekki þýðast þá. En vinir þeirra sem nauðga eru þó ansi oft sannfærðir um að það geti ekki hafa gerst þannig og hlaupa í vörn fyrir þá, jafnvel þótt allar líkur (áverkar, framburður) bendi til annars. Svona eins og þeir sem verja gjörðir Polanski, Strauss-Kahn og annarra þeirra sem hér hafa verið taldir upp.

Sé tillit tekið til tölfræði um hve mörgum konum er nauðgað, hér á landi, í Frakklandi eða í Bandaríkjunum, þá er ljóst að margir karlmenn eru nauðgarar. Það er því miður ekki hægt að þekkja nauðgarana úr því sumir þeirra eru frægir, valdamiklir, ríkir, myndarlegir, standa sig stórkostlega í starfi sínu, eru vinamargir eða sjúklega sætir.

___
* Dominique Strauss-Kahn er nú sagður ætla að játa að hafa átt kynmök við hótelþernuna, en í fyrstu hélt hann því fram að hann hefði allsekki átt kynferðisleg samskipti við hana. Séu þær fréttir réttar þá virðist hann strax byrjaður að bakka með framburð sinn og samræma hann sönnunargögnum. Afhverju laug hann þá í upphafi? Vegna þess að hann vildi ekki vera dæmdur fyrir nauðgun. Samt virtist fólk um allan heim vera sannfært um að hótelþernan væri að ljúga. Afhverju ætti konan að ljúga? Afþvíbara? Eða vegna þess að hún er útsendari keppinauta DSK um forsetaembættið í Frakklandi, er athyglissjúk, fékk ekki nógu mikið útúr kynlífinu (helsta ástæðan fyrir kærum að mati margra) eða hvaða ástæða sem það nú á að vera sem rekur hana áfram? Það sem hún 'hefur uppúr því' að ljúga til um atburði er svo margfalt veigaminna en hann hefur uppúr því að ljúga til um atburði. Hann missir starfið, framboðsmöguleikana og hugsanlega frelsið. Hún græðir nákvæmlega ekki neitt. Í þessu máli má ekki gleyma að Strauss-Kahn hefur áður verið borinn sömu sökum (alveg burtséð frá því hvort það varð lögreglumál eða ekki) og því hljóta líkurnar á því að hann hafi enn gerst sekur um sömu háttsemi — nauðgunartilraun í það minnsta — að vera allmiklar.

** Mér skilst að karlmenn eigi það margir hverjir til að finna hjá sér kynlífslöngun við hin ýmsu og óviðeigandi tækifæri: við jarðarfarir, yfir matarborðum, á vinnustaðnum eða á biðstofu hjá tannlækni. Flestum virðist þó takast að hemja löngun sína á þessum stöðum og við þessi tilefni alveg burtséð frá því hvenær þeir stunduðu síðast kynlíf með konu. Það hefur því ekkert sérstaklega mikið með óuppfyllta kynþörf að gera að menn nauðga, heldur viðhorf þeirra til kvenna almennt og til þeirrar konu sem þeir hafa á valdi sínu hverju sinni. Nauðgun snýst ekki um hvenær karlmanninum varð síðast sáðfall.

*** Sumir halda því líka fram að ástæða þess að kaþólskir prestar nauðgi börnum sé skírlífið sem þeir annars lifa: það bara myndist svo mikill þrýstingur! Ég spurði einn kunningja minn sem hélt þessu fram hvort hann myndi fara að níðast á dætrum sínum ef hann myndi ekki fá neina konu til að sofa hjá sér í kannski tvö þrjú ár. Hann varð forviða og þótti það hreint ekki líklegt en skildi svo hvað ég átti við, semsagt það að nauðgun hefur ekkert með skort á kynlífi að gera.

**** Fyrrverandi forseti Ísrael var nýlega dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir fyrir nauðgun og aðra kynferðisglæpi. Hann hafði í tíð sinni sem ferðamálaráðherra tvívegis nauðgað konu og meðan hann gegndi embætti forseta Ísraels hafði hann ítrekað áreitt konur kynferðislega.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, maí 17, 2011

Konur sem eru blindaðar af hugsjón og rökfastir karlmenn sem vita betur

Það hefur lengi tíðkast hjá fjölmiðlum að láta að því liggja að allar kærur um nauðganir séu uppspuni. Orðalagið „meint nauðgun á að hafa verið framin“ er notað um glæpinn og vitnisburður brotaþolans er dreginn í efa með því að nota orðalag á borð við „konan ber að sér hafi verið nauðgað“. Fátt dregur jafn mikið úr alvarleika nauðgana eins og að draga sífellt í efa að þær eigi sér stað og fátt gerir jafn lítið úr trúverðugleika fórnarlambanna eins og að láta sem þær ljúgi. Á þetta hefur oft verið bent en fjölmiðlar jafnan skellt skollaeyrum við gagnrýni á fréttaflutning sinn sem er vægast sagt mjög vilhallur nauðgurum.

Ein þeirra sem hefur verið mjög iðin við að benda fjölmiðlum á að það skipti máli hvaða orðalag sé notað um nauðganir, nauðgara og fórnarlömb þeirra, er Hildur Lilliendahl. Hún hefur skrifað bréf til fjölmiðla og jafnframt deilt þeim með lesendum á bloggsíðu sinni. Í gær skrifaði hún bréf til blaðamanns á Vísi.is vegna orðavals hans þegar hann skrifaði um framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðins, Dominique Strauss-Kahn sem kærður hefur verið fyrir nauðgun. Blaðamaðurinn talaði um að málið væri „áfall fyrir Strauss-Kahn“ og að hann hefði „áður lent í vandræðum vegna samskipta sinna við konur “ — en fíni framkvæmdastjórinn hefur áður verið uppvís að því að reyna að nauðga konum.*

Það er auðvitað frekar sérkennileg sýn á nauðganir að þær séu samskiptavandræði og þá ekki síður að það sé áfall fyrir karlmann að hafa nauðgað eða reynt að nauðga konu, þó það sé kannski áfall fyrir hann að hafa ekki komist upp með það og vera því handtekinn. Hildur hjólaði semsagt í blaðamanninn fyrir þetta orðalag og kallaði hann 'nauðgaravin' í fyrirsögn á bloggi sínu. Nú skil ég það svo að með þessu eigi hún við að nauðgarar eigi hauk í horni þar sem svona blaðamenn stinga niður penna og að þeir sem taki að sér að bera blak af nauðgurum séu þeim hliðhollir, jafnvel vinveittir (án þess þó að halda því fram að milli þessara tveggja, blaðamannsins og framkvæmdastjórans, sé vinátta).**

En jafnánægð og ég varð með það framtak þá uppskar Hildur mikla óvild annarra fyrir vikið. Og viti menn, það eru fyrst og fremst karlmenn sem sjá ofsjónum yfir umkvörtunarefnum hennar og orðavali. Þeir tala um 'aðför' að blaðamanninum og krefjast afsökunarbeiðni honum til handa.

Einn þeirra sem skrifar athugasemdir á bloggið hennar hefur sjálfur skrifað tvær bloggfærslur um málið og hafa við þær verið skrifaðir langir athugasemdahalar. Þar fer hann mikinn í viðleitni sinni til að koma Hildi fyrir sjónir (hann talar reyndar iðulega við hana í fleirtölu og álítur sig greinilega vera að tala við alla feminista eða félaga í Femínistafélagi Íslands) hve rangt hún hefur fyrir sér og hve hún skemmi málstað feminista. Með reglulegu millibili spyr hann svo hvort hún sé ekki enn búin að skipta um skoðun og innir hana og aðra sem leggja orð í belg eftir því hvort þau taki ekki undir vangaveltur sínar (og segir þá tildæmis: „Um það hljótum við að vera sammála. Er það ekki?“), líklega til að fá staðfestingu á sannfæringakrafti orða sinna.

Ein þeirra sem skrifa athugasemdir hjá honum lýsir því yfir að hún þekki þolendur líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis og ræðir skoðun sína á málinu útfrá því. Karlmaðurinn rökfasti segir hve leitt honum þyki að vinkona hennar og ættingi hafi orðið fyrir ofbeldinu og er allur hinn skilningsríkasti — en það sama gildir ekki í samskiptum hans við Hildi þó hún hafi sagt frá því í athugasemdakerfinu að hún hafi sjálf orðið fyrir nauðgun.*** Óbeit hans á Hildi er slík að henni er engin miskunn sýnd og þegar einhver kunningi hans segir að hún sé sjálf nauðgari (vegna orðalagsins að blaðamaðurinn sé nauðgaravinur; það er semsagt nauðgun að segja að einhver sé nauðgaravinur) þá deplar rökfasti karlmaðurinn ekki auga en finnst það greinilega fínt innlegg í umræðuna, þakkar vininum meirasegja sérstaklega fyrir.

Honum finnst hinsvegar að hin umrædda frétt „fylgi nokkurn vegin þeim þræði sem við eigum að venjast í þessum efnum og af ýmsum menningarlegum ástæðum sem fæstar hafa neitt með kvenfyrirlitningu að gera.“ Hann útskýrir ekki hverjar þessar ýmsu menningarlegu ástæður eru en þær eru þá líklega þessar: Hin algeru völd karla yfir öllum fjölmiðlum og öllum samfélögum. Hvernig rökfasta karlmanninum sést yfir tenginguna við kvenfyrirlitningu er mér reyndar hulin ráðgáta. Heldur hann að kvenfyrirlitning sé blóm sem vex sjálfsprottið við lækjarbakka? Nei, hún þrífst í þessum samfélögum, á þessum fjölmiðlum. Vex, dafnar og blómstrar.

Karlmennirnir sem ryðjast fram til að mótmæla þeim sem leyfa sér að gagnrýna hið algera vald karla — og hvernig þeir misbeita því, ýmist með því að beita líkamlegu eða kynferðislegu valdi eða með því að skrifa fréttir sem gera lítið úr þeirri valdbeitingu — þeir eru partur af vandamálinu. Það mætti kalla þá 'nauðgaravini' mín vegna.

___
* Hildur Lilliendahl er reyndar ekki ein um að gagnrýna þetta orðalag í fréttinni um Dominique Strauss-Kahn. Steinunn Rögnvaldsdóttir skrifaði líka bréf til Vísis vegna fréttarinnar og Björg Eva Erlendsdóttir birtir það og gerir að umtalsefni í hvassyrtri grein á Smugunni. Þar veitir hún félögum sínum í blaðamannastétt harðar átölur og segir að hiklaust að „Skoðanabræður [framkvæmdastjóra AGS] á fjölmiðlum uppi á Íslandi gera engar athugasemdir við lífssýn Strauss-Kahn. Þeir vorkenna honum.“ Hún segir jafnframt: „Það hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvort ritstjórnir viti ekki að kynferðisbrot ber að fjalla um eins og aðra glæpi? Svarið er nei. En eru fréttaritstjórnir þá á eftir sinni samtíð? Svarið er já. Fjölmiðlar hafa ekki breyst í ofbeldisumfjöllun sinni. Þeir eru of gamaldags, karllægir og huglausir þjónar afla sem þeir telja valdamest hverju sinni.“

** Reyndar fara vinir nauðgara oft mikinn á vefsíðum ýmiskonar til að bera af þeim sakir og má þar sjá hliðstæðu við orðfæri blaðamannsins. Karlmenn í umræðunni gæta þess alltaf að taka það fram að þeir séu á móti nauðgunum (varla gætu þeir sagt hið gagnstæða enda þótt sú væri raunin) en ganga hinsvegar eins langt og hægt er að verja nauðgarana: þeir hafi bara misskilið aðstæður (samskiptavandi), þeir hafi í raun ekki nauðgað heldur sé verið að ljúga uppá þá. Í tilviki Strauss-Kahn er þá verið að ljúga uppá hann til að losna við hann úr stóli AGS eða svo hann eigi ekki möguleika á að verða kosinn forseti Frakklands; í tilviki Julian Assange er það í hefndarskyni fyrir að hafa afhjúpað glæpi bandaríska hersins; í flestum öðrum tilvikum eru konur að ljúga nauðgun uppá karlmenn afþví að þær eru konur og konur eru eins og allir vita hefnigjarnar, ómerkilegar og lygnar framúr hófi.

*** Karlmaðurinn rökfasti virðist líta á samskiptin við Hildi sem hvert annað skemmtiefni og upplyftingu í líf sitt. Hann ávarpar hana í athugasemdakerfinu og segir þetta: „ Vonandi ertu nú að hafa af þessu lúmskt gaman, því það er minn vinkill á þetta mál: að spjalla og derra mig til að fá svörun frá greindu fólki sem getur sagt mér sitthvað nýtt og skemmtilegt, opnað augu mín og fleira í þeim dúr.“ Það er sérkennilegt að halda að Hildur, eða feministar almennt, berjist gegn kvenfyrirlitningu og ýmsum birtingarmyndum hennar vegna þess að þær hafi af því 'lúmskt gaman'. Þetta sýnir kannski meira en nokkuð annað hve skilningsleysið er mikið og fyrirlitningin á málstað feminista er alger.

Viðbót: Svo skrifar rökfasti karlmaðurinn bloggfærslu — svona til að bæta gráu ofan á svart — um nauðganir og hve algengt það sé að karlmenn séu saklausir ákærðir fyrir þær, hversu mikið verra það sé fyrir þá heldur en að verða fyrir nauðgun, umræðu á villigötum, pólitískan rétttrúnað … og klykkir út með að segja: „En kannski skal land einmitt byggja með lygum en ekki lögum.“

Enn önnur viðbót: Ég ætti auðvitað að skrifa sér færslu um varnarræðu rökfasta karlmannsins, sem með hverju orðinu sýnir betur og betur hve honum er annt um mannorð nauðgara, en læt duga að vitna í orð hans hér: „Oðræðan um að nauðgun sé alltaf nauðgun, ekkert sé óskýrt og svo framvegis er að stórum hluta undarlegt bull sem viðgengst vegna þess að spilað er á réttlætiskennd fólks.“ Já, það er vond kennd, réttlætiskenndin. Og andskoti hart að feministar skuli stjórnast af henni. Ussususs.

Efnisorð: , , , ,

mánudagur, maí 16, 2011

Þú skalt ekki voga þér

Eyrún Björg Jónsdóttir á Neyðarmóttökunnar segir að það færist í vöxt að nauðgarar hóti fórnarlömbum sínum til þess að reyna að tryggja að þeir verði ekki kærðir. Þetta er auðvitað ekki nýtt en er semsagt æ algengara. Eina svarið við því er auðvitað að kæra, segjum við hin, en það hlýtur að vera vond tilhugsun fyrir fórnarlambið að fjölskylda hennar verði eftilvill fyrir líkamsmeiðingum.

Annað sem ekki er til þess fallið að bæta líðan þolenda nauðgana er að eiga von á því að lýsingin á verknaðnum rati í fjölmiðla. Eyrún segir að þær upplifi það oft sem annað áfall. „Konurnar hafa jafnvel ekki einu sinni sagt sínum nánustu frá eðli atburðarins og þær upplifa það sem algjöra berskjöldun og ógn við sjálfsmynd þeirra að hægt skuli vera að japla svona á þessum málum.“ Þetta mættu DV og Eyjan hafa í huga — með sín opnu athugasemdakerfi þar sem lesendur hella úr skálum kvenfyrirlitningar sinnar — en ekki síður dómstólarnir sem setja nákvæma lýsingu á nauðgunininni og líka lýsingar á tilfinningalegum og líkamlegum viðbrögðum brotaþola, sem teknar eru úr vitnisburði og skýrslum frá Neyðarmóttöku.

Dómstólar og fjölmiðlar telja sig líklega vera að afhjúpa hvað á sér raunverulega stað og hverjar eru afleiðingar nauðgana, og auka þarmeð skilning almennings á því hvers eðlis þessi glæpur er. Og sannarlega ætti það að verða til þess að fleiri sýndu þessum málum skilning og hætti að draga í efa hverja einustu nauðgunarkæru eins og sumir virðast alltaf gera. En það verður líka að sýna aðgát í nærveru sálar. Nóg er nú samt.

Eyrún bendir einmitt á að þessi umfjöllun fæli konur frá því að kæra. Er það markmiðið?

Efnisorð: , , ,

föstudagur, maí 13, 2011

Vatnsberinn verði ekki klifurgrind fyrir fyllibyttur

Mér líst afar illa á þá hugmynd að flytja Vatnsbera Ásmundar Sveinssonar í Austurstrætið. Verkið er auðvitað á furðulegum stað og mætti vera flutt annað, en Austurstræti er vondur staður fyrir listaverk. Fyrir nokkrum áratugum síðan var brjóstmynd af Tómasi Guðmundssyni skáldi sett upp þar en verkið varð fyrir sífelldum árásum um helgar og á endanum brotið niður af stalli sínum og eftir það flutt burt. Það er nú geymt innandyra í aðalsafni Borgarbókasafnsins í Grófarhúsinu, þar sem fyllibyttur komast ekki að því með góðu móti.

Verði Vatnsberinn þar staðsettur þar sem fyllibyttur safnast saman um nætur verður migið utan í hann, stöpullinn verður notaður til að leggja frá sér bjórdósir og glös, og eflaust verður hrækt á hann, krotað á hann og hvað það er nú allt sem fólki dettur í hug að gera í ölæði sínu og dópvímu. Það verður að minnsta kosti ekki betur farið með Vatnsberann en með Tómas Guðmundsson á sínum tíma.

Vatnsberinn er stór höggmynd og ávöl. Nógu há til að fyllibyttum mun þykja gaman að reyna að klífa hana og nógu ávöl til að það verður erfitt að finna fótfestu. Auðveldara verður að renna niður, detta og slasa sig. Fari svo að Vatnsberinn verði settur niður í Austurstræti verður höggmyndin af Vatnsberanum líklega fjarlægð eftir að einhver fyllibyttann hefur dottið á hausinn og örkumlast eftir að hafa reynt að standa á höfði hennar. Kannski dugir það ekki til og beðið verður þar til tveir hafa örkumlast og einn drepist. Þá má vera að einhverjum borgarfulltrúanum blöskri loksins og sjái hve fáránleg hugmynd það var í upphafi að setja þetta ágæta listaverk upp á þessum miðpunkti næturdrykkjunnar.

Mér er svosem sama um fyllibytturnar, en að setja Vatnsberann í Austurstrætið er vanvirðing við höggmyndina, fyrirmyndirnar og Ásmund Sveinsson myndhöggvara.

Efnisorð:

miðvikudagur, maí 11, 2011

Litlu greyin, svona hræddir og skjálfandi á beinunum

Ég finn svo mikla samúð í hjartanu þegar ég heyri viðbrögð LÍÚ við fyrirhuguðu frumvarpi til breytinga á fiskveiðistjórnunarlöggjöfinni. Kvótaeigendum, þessum með þyrlurnar sem hafa veðsett kvótann til þýska bankans, finnst breytingar algjör hryllingur. Þetta er auðvitað alveg hræðilegt og von að þeir séu hræddir. Kannski fá þeir samt góða þingmenn til að berjast af alefli gegn þessari hræðilegu lífskjaraskerðingu (ég hef reyndar ekki séð frumvarpið frekar en aðrir en held að það sé ekkert gert ráð fyrir þyrlueign!) og fá þá til að muna hversvegna þeir voru kostaðir á þing (sem handlangarar hagsmunaaflanna).

Aumingjans kvótaeigendurnir sem kannski fá ekkert að eiga kvótann sem þeir aldrei áttu. Aumingjans LÍÚ sem er svo hrætt.

Ég græt inní mér.

Efnisorð: ,

föstudagur, maí 06, 2011

Eyjamenn standa með Páli sem sagði bara sannleikann

Frá því að ég minntist örstutt á fávitaskapinn í Páli Scheving Ingvarssyni formanni þjóðhátíðarnefndar Vestmannaeyja, hefur hann stigið fram til þess að bæta olíu á eldinn. Hann birti reyndar einhverskonar afsökunarbeiðni, sem var hvorki fugl né fiskur, en fátt bendir til að hann hafi séð eftir orðum sínum því síðan hefur hann komið fram í fjölmiðlum og ítrekað afstöðu sína. Fylgismenn hans — sem eru semsé ósáttir við Stígamót — hafa skrifað greinar í blöð og tekið til varna fyrir nauðgara og Pál („sem situr eftir ærulaus fyrir það eitt að segja sannleikann“) í hinum ýmsu athugasemdakerfum.*

Á sama tíma er að hefjast forsala aðgöngumiða á Þjóðhátíð.

Það ætti því að skýrast hversu mörgum ofbýður málflutningur og hugmyndaheimur forsvarsmanna Þjóðhátíðar og hve margir telja hann vera fínan baráttumann fyrir því að nauðgarar fari sínu fram án þess að þessar Stígamóta-kéllingar séu að þvælast fyrir.

Mín spá er sú að það verði metaðsókn á Þjóðhátíð. Hér á landi hefur lengi þótt og þykir enn í lagi að nauðga konum. Það hefur ekkert breyst.

____
* Eftirtektarverðar undantekningar frá þessu eru blogg eftirfarandi einstaklinga sem hafa gagnrýnt Pál Scheving Ingvarsson, viðhorf hans og veru hans í Þjóðhátíðarnefnd:
Lára Hanna Einarsdóttir. Á bloggsíðu hennar má m.a. lesa blaðagreinina frá 1994 sem á að vera upphaf þess að Stígamót urðu versta fyrirbæri heims að mati Þjóðhátíðarnefndar.
Agnar Kristján Þorsteinsson skrifar einmitt um þetta sautján ára gamla mál og greinina í Eyjafréttum sem er nokkurskonar varnarræða fyrir Pál og Þjóðhátíð, og bendir Agnar á það að allt sé þetta sprottið af fégræðgi Eyjamanna: „Og þegar Mammon hefur náð yfirráðum í huga fólks þá vill það oft líta á að fylgifiskar hákarlsins: misþyrmingar og kynferðisofbeldi, sé eitthvað sem sé betra að líta framhjá eða gera lítið úr“.
Magnús Sveinn Helgason á bloggsíðunni Frelsi og franskar skrifar um það sama og Agnar. Í ansi góðri athugasemd við færslu Magnúsar (sem er líka góð) kemur þetta fram: „Auðvitað eru Stígamótakonur ekkert yfir gagnrýni hafnar. Ég hef bara ekki enn vitað til þess að það hefur eitthvað þurft að gagnrýna þær, hvaða ummæli eru það sem á að gagnrýna þær fyrir?“ Magnús bendir líka (eins og ég gerði í fyrri færslu) á samlíkinguna við ummæli Björgvins Björgvinssonar yfirmanns kynferðisafbrotadeildar Ríkislögreglustjóra „sem lýsti því yfir að margar konur sem væri nauðgað gætu nú kannski barasta kennt sjálfum sér um.“
Jón Trausti Reynisson skrifaði leiðara um málið í DV.
Kristín I. Pálsdóttir skrifaði grein á Smuguna þar sem hún segir m.a. þetta: „Fólk sem stuðlar að því að nauðganir fari fram í kyrrþey vegna markaðssjónarmiða á ekki að stjórna íþróttastarfi eða útihátíðum og það er svo sannarlega ekki til fyrirmyndar fyrir neinn.“
Jenný Anna Baldursdóttir leggur til að fólk sniðgangi Þjóðhátíð: „Vonandi sýnir fólk skoðun sína á ummælum Páls í verki og fer annað.“

Efnisorð: , , ,

mánudagur, maí 02, 2011

Hvernig verður þetta réttlætt?

Hornstrandir eru einstakt landsvæði nyrst á Vestfjörðum. Hornstrandir voru friðaðar árið 1975 og síðan þá hefur gróður og dýralíf blómstrað, fjarri ágengni manna.*

Nema þegar þeir mæta á svæðið með byssur.

Nema þegar drepa á dýr í útrýmingarhættu sem eru friðuð hér á landi.

Hingað til hefur verið notuð sú afsökun að fólki stafi hætta af ísbjörnum.

Hornstrandir hafa fyrir löngu lagst í eyði. Þar býr andskotann enginn.

Það stafaði engin hætta af ísbirninum.

Helvítis drápsglöðu fávitarnir ykkar.

____
* úr túristabæklingi

Efnisorð:

sunnudagur, maí 01, 2011

1. maí er alþjóðlegur en það virðast réttindi verkamanna ekki vera

Fyrir nokkrum dögum mátti lesa ansi nöturlega úttekt á síðu Guardian á aðstæðum verkafólks í Asíu. Þar segir að nú, rúmum áratug eftir að í hámæli komst hverskonar þrældómi það var látið sæta, hafi aðstæður verkafólksins síst batnað. 76% allra þeirra sem vinna í verksmiðjum þar sem föt og skófatnaður er búinn til fyrir fyrirtæki sem selja þekkt vörumerki er konur. Þær sæta allskyns mismunun vegna kynferðis síns ofan á hörmuleg kjör og langan vinnudag sem alþjóðlegum stórfyrirtækjum þykir greinilega við hæfi að bjóða þeim.

Í greininni, sem byggð er á skýrslu alþjóðlegra samtaka starfsmanna í textíl og leðuriðnaði,* segir að þrátt fyrir fögur fyrirheit eftir að upp komst um aðstæður verkafólks í Asíu þá hafi ekkert breyst. Til dæmis brjóti Adidas, Nike, Slazenger, Speedo og Puma** allar reglur varðandi réttindi verkafólks. Ástandið virðist í raun fara versnandi. Fólk er neytt til að vinna yfirvinnu í allt að 40 tíma á viku án þess að fá sérstaklega fyrir það greitt, nái það ekki framleiðslumarkmiðum sætir það jafnvel ofbeldi.

Í engum af verksmiðjunum 83 sem lágu til grundvallar rannsókninni fékk starfsfólk laun sem duga til lágmarks framfærslu.

Af þessu tilefni, og vegna þess að í dag er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, er gott að rifja upp ágætan pistil sem þáverandi Múrpenninn Katrín Jakobsdóttir skrifaði á Múrinn (þar sem líka er hægt að lesa þennan pistil um þrælapískun í verksmiðjum) fyrir svo mörgum árum síðan að þá var ennþá góðæri. Niðurlagið hljómar svona.
„Hver býr til fötin mín? Eru það verkamenn á lúsarlaunum í Kína? Eru það börn sem eru látin þræla í verksmiðjum þar sem fyrir utan standa menn með vélbyssur og passa að halda þessari þrælkun leyndri? Og hvað kosta fötin? Skórnir sem ég greiddi 10.000-kall fyrir — hvað kostaði að framleiða þá? Ég þykist viss um að það sé lágmarksfjárhæð. Hins vegar hefur markaðssetningin kostað hönd og föt og fyrir hana er ég að borga. Með öðrum orðum, ég er að borga fyrir lífsstílinn sem fylgir því að ganga í Nike-skóm.

Á nýrri öld er kominn tími til að hugsa hnattrænt. Á síðustu öld hófst hnattvæðing fjármagnsins. Nú er kominn til að hnattvæða hugarfarið. Hugsa um mannkynið sem eina heild og átta sig á orsakasamhenginu í heiminum. Það er ekki seinna vænna.“___
* Skýrslu alþjóðlegra samtaka starfsmanna í textíl og leðuriðnaði má lesa hér (í pdf skjali á ensku) en hún ber heitið Yfirlit um vinnuaðstæður í verksmiðjum sem framleiða sportfatnað (sportfatnaður er víðtækt hugtak á ensku) í Indónesíu, Sri Lanka og á Filippseyjum. Þar kemur fram listi yfir þau fyrirtæki sem eiga viðskipti við þessar 83 verksmiðjur (sjá mynd sem hægt er að stækka sé smellt á hana).
— Mér varð um og ó þegar ég sá listann, ég hef tiltölulega nýlega verslað við fyrirtæki á listanum, enda þótt ég hafi lengi sniðgengið Nike.
** Í athugasemdum við greinina eru gagnlegar umræður þar sem margir af viti skrifa (að því undanskildu að frjálshyggjumenn reyna að fá fólk til að samþykkja að það sé í raun verið að gera fátæku fólki greiða með því að leyfa þeim að vinna í þessum verksmiðjum). Þar er tildæmis bent á að þó fólk forðist að kaupa þessi þekktu vörumerki þá geti vel verið að rennilásinn, sem er í flík sem er búin til af fólki sem fær sæmandi laun, geti verið framleiddur við vafasamar aðstæður.

Efnisorð: , , ,