þriðjudagur, mars 30, 2010

Strípikóngar krefjast bóta

Kvenútgerðarmennirnir sem reka strippbúllurnar Goldfinger, Óðal* og Vegas munu vera á þeim buxunum að réttast sé að fara í mál við ríkið** vegna laga um bann við nektarsýningum sem taka gildi 1. júlí næstkomandi.

Í Fréttablaðinu eru þeir Ásgeir Davíðsson, Grétar Ingi Berndsen og Davíð Steingrímsson kallaðir „veitingamenn í nektargeiranum“ og segir sá fyrstnefndi að hann muni tapa allt að 800 milljónum króna vegna lagasetningarinnar.

Það verður frábært ef þeir leggja fram slíkar fjárkröfur. Þeir þurfa þá líklega að rökstyðja þær með því að gera nákvæmlega grein fyrir í hverju gróðinn er fólginn samkvæmt bókhaldi, sýna fram á laun og launatengd gjöld og annan kostnað. Ég geri auðvitað ráð fyrir að hver einasta kona sem hingað hefur komið glöð og sæl til að fá að sýna sig nakta fyrir íslenskum karlmönnum*** hafi fengið launaseðil og hægt sé að sýna fram á að þær hafi kvittað fyrir móttöku launa sinna eða millifærslur inná bankareikninga í þeirra nafni. Af því hafi svo verið greiddir skattar og skyldur hér á landi.

Allt þetta og miklu fleira sem ég kann ekki skil á en tilheyrir bókhaldi fyrirtækja sem eru með allt uppi á borðum og gegnsæjan rekstur (annað en undirheimastarfsemin sem sagt er að taki við eftir lagasetninguna) hlýtur að koma í ljós þegar þessir heiðarlegu herramenn gera grein fyrir skaðanum sem ekki bara þeir heldur karlasamfélagið allt hefur orðið fyrir við þessa svívirðilegu innköllun kvenútgerðarkvótans.

___
* Viðbót: Kaffi París mun vera rekið af sama eiganda og Óðal. Þar með bætist það því í hóp fyrirtækja sem ég sniðgeng því þar mun ég aldrei aftur setjast inn.
** Svo eru þeir að spá í að fara í mál við Steinunni Valdísi þingkonu Samfylkingarinnar vegna þess að hún vogaði sér að segja að mansal og önnur skipulögð glæpastarfsemi sé fylgifiskur kvenútgerðarinnar. (Sjá einnig neðanmálsgrein við þessa bloggfærslu hér á síðunni.)
*** Og erlendum ferðamönnum, ekki má gleyma þeim. Íslandsferðin verður hrikalega óspennandi upplifun hjá þessum greyjum þegar kvenskrokkasýningarstaðirnir loka; bara Gullfoss og Geysir og ekkert meir.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, mars 28, 2010

Saga nektardansstaða

Nú þegar hillir undir endalok nektardansstaða á Íslandi (húrra!) lagðist ég í rannsóknir á sögu þeirra. Geiri í Goldfinger hefur verið svo áberandi undanfarin ár að allir hinir staðirnir hafa nánast gleymst. Einhvernveginn grunar mig þó að það sé ekki vegna heilbrigðrar samkeppni sem hinir staðirnir hafi lagt upp laupana, enda virðist sem ofbeldi hafi einkennt samskipti eigendanna. — Svo ekki sé nú talað um eignarhaldið á konunum sem dansa á stöðunum en þær hafa yfirleitt verið innfluttar frá austantjaldslöndunum fyrrverandi; þar sem allt frá falli múrsins hefur verið erfitt efnahagsástand og erfitt að fá vinnu fyrir mannsæmandi laun. Og mörgum konum þar hefur verið boðið 'betra starf fyrir góð laun' í framandi löndum. Stundum hafa þær farið sjálfviljugar (án þess þó að vita hvað beið þeirra), jafnvel meðvitaðar um til hvers var ætlast af þeim en einnig algerlega nauðugar. — En hér stendur ekki til að fjalla um mansal eða kjör þessara kvenna yfirleitt, heldur skoða sögu nektarstaðanna í ljósi þess að henni sé að ljúka.

Ég skoðaði eingöngu umfjöllun dagblaðanna til að rifja upp þessa sögu. Eflaust eru svo ýmsar greinar í tímaritum, s.s. Veru, um þessa nektardansstaðavæðingu alla saman, nóg var um hana í dagblöðunum. Þar fór DV fremst í flokki við að auglýsa þetta upp sem heilbrigða skemmtun — enda finnst öllum gaman að horfa á fallegar stelpur. Helgarpósturinn sló á sömu strengi en leiðarar Moggans voru á móti þessari þróun enda þótt auglýsingar frá Bóhem og Vegas væru birtar í blaðinu.

Í mars 1995 birtist fyrst umfjöllun í fjölmiðlum um Bóhem sem þá virðist hafa starfað stuttan tíma á Vitastígnum og blaðamenn sendir í dulargervi á staðinn til að tékka á starfseminni.* Fram að því höfðu verið fluttar inn stakar nektardansmeyjar og þær kynntar undir nafni (sbr. Súsanna í baðinu) og svo hafði indverska prinsessan farið mikinn.

Í ágúst 1995 er Bóhem sagður eini nektardansstaðurinn, Geiri er ekki kominn með Goldfinger heldur rekur Hafnarkrána fyrir öreiga í fyllibyttustétt og Óðal er ennþá bara dansiballastaður.

Vegas opnaði svo 19. apríl 1996,** jafnskjótt eru eigendur staðanna tveggja komnir í hár saman og rúmlega það: dyravörður á Vegas réðist ásamt öðrum manni á eiganda Bóhem.*** Sama ár varð Óðal líka að nektardansstað.

1997 voru framin tvö morð sem tengdust Vegas, í fyrra skiptið var maður barinn til dauða þar innandyra af tveimur öðrum en í hinu síðara fékk einn gesta staðarins far með tvíburabræðrum sem óku með hann uppí Heiðmörk þar sem þeir rændu hann og drápu.

Í janúar 1999 er talað um að sex nektarstaðir séu starfandi í Reykjavík (ofangreindir ásamt Clinton, Club 7 og Þórscafé), sama ár er a.m.k einn staður búinn að opna á Akureyri, en alls urðu þeir þrír, ef ég man rétt.

Geiri opnaði svo súlustaðinn Maxims þann 13. desember árið 1998 í sama húsnæði og Hafnarkráin var áður.

Geiri opnaði svo annan súlustað, Goldfinger, í Kópavogi í desember árið 2000 og ári síðar lokaði hann í Hafnarstræti, en hann taldi sig hafa verið flæmdan úr miðbænum því honum hafi verið „talin trú um að þetta væri bannað þar.“**** Í miðbænum tóku við staðir eins og Strawberries sem aðallega varð frægur fyrir að Dabbi Grensás ásamt sonum Geira fór þangað til að berja eigandann, sem áður starfaði á Goldfinger (sagan frá Bóhem/Vegas endurtók sig). Hnefavaldi strípikónga ***** verður því síður beitt á næstunni,****** ætli Geiri haldi sig ekki bara við lögsóknir á hendur blaðamönnum og jafnvel ríkisvaldinu til að framfleyta sér í framtíðinni.

___
* DV voða duglegt að kynna sér málin, merkilegt hvað myndirnar af nöktum konum skreyttu alltaf umfjöllunina mikið. Tóku líka viðtöl við eigendur og dansara sem sammæltust um hvað þetta væri frábært. Þær voru líka allar útskrifaðar úr dansskólum, en umræðan um 'listdans' var mjög merkileg þó út í þá sálma verði ekki farið hér.
** Mogginn fylgdist glaður með opnun Vegas. Fyrst um sinn störfuðu þar kanadískar nektardansmeyjar, sendar af Hells Angels (það er semsé ekkert nýtt að Hells Angels teygi anga sína hingað). En eins og Garðar Kjartansson, þáverandi eigandi Óðals sagði: „ég vissi ekkert af því.“ Alltaf allt svo saklaust og gott hjá blessuðum mönnunum í kjötskrokkasölunni.
*** Haraldur Böðvarsson, sem nú er látinn og var sonur þáverandi lögreglustjóra var einn eigenda Vegas.
**** Á þeim tíma sem nektardansstaðir spruttu upp sem gorkúlur var Ingibjörg Sólrún Gíslsadóttir borgarstjóri í Reykjavík (1994-2003), fyrsta konan í 34 ár. Mér fannst alltaf sem opnun nektardansstaðanna, vinsældir þeirra og málsvörn þeirra sem kröfðust að staðir sem þessir væru reknir, væri andsvar karlveldisins við framgangi feminisma, svokallað backlash, sem kom auðvitað fram víðar en hér sem aukin áhersla á klám og nekt hverskonar. En hér setti þetta líka borgarstjórann í vanda því (að því er mér skilst) borgarstjórn hafði takmörkuð völd til að stoppa þessa þróun (þ.e.a.s. loka stöðum eða meina nýjum að opna) eða að minnsta kosti var því alltaf vísað til Alþingis að setja lög. Það tókst svo auðvitað aldrei meðan Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórn.
***** Erla Hlynsdóttir blaðamaður fékk á sig málsókn fyrir að skrifa um þetta mál. Hún hefur verið sérstakt skotmark þeirra sem vilja þagga alla umræðu um nektardansstaði. Viðbót: Lára Hanna fjallar um og vísar í grein um tjáningarfrelsi fjölmiðla og málsóknir gegn þeim.
****** Hér á vel við að taka sér Mörð Valgarðsson til fyrirmyndar og lýsa yfir að: „Þeir einir munu vera, að ég hirði aldrei þó að drepist.“

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, mars 24, 2010

Rúmlega fimmtungur þjóðarinnar kaus Vinstri græn til þess að standa gegn vondum hugmyndum

Æsingurinn vegna bannsins við að gera útá nekt kvenna varð til þess að bloggfærslan sem ég ætlaði að skrifa í gær varð að bíða. Þó var hún svotil fullbúin í hausnum á mér í gærmorgun eftir að hafa lesið leiðara Fréttablaðsins (en nú er ég búin að brjóta og týna). Ég sá svo að Ármann Jakobsson hafði skrifað einn af sínum góðu pistlum sem rímaði ágætlega við það sem ég hafði ætlað að segja, nema hann orðaði það betur.

Vildi þó segja þetta að auki.

Þegar Ólafur Stephensen segir, hálfhissa, að kannski hafi rúmlega fimmtungur þjóðarinnar kosið Vinstri græna til þess að segja nei við hugmyndum um einkarekið hernaðarfyrirtæki, einkaspítala, virkjanir og álver; þá er eins og hann hafi haldið að kjósendur Vinstri grænna hafi í raun viljað eitthvað allt annað. Eins og kjósendurnir hafi í raun viljað álver, virkjanir, einkarekið heilbrigðiskerfi og stríðsfyrirtæki, en bara ekki fattað útá hvað Vinstri græn standa fyrir?

Ég les stundum athugasemdir á Eyjunni þar sem einhverjir lýsa því yfir að „síðast hafi þeir kosið VG en sko aldrei meir“. Þar sem þetta eru yfirleitt nafnlausar yfirlýsingar þá er ómögulegt að vita hvort það er alltaf sami aðilinn sem skrifar þetta eða hvort það eru í raun margir sem kusu Vinstri græn síðast án þess að kynna sér stefnu flokksins og koma svo af fjöllum þegar hann reynist styðja feminisma og vera á móti virkjunum og hernaðarbrölti. Ég veit að fullt af fólki kaus Vinstri græn síðast vegna þess að sá flokkur einn flokka hafði hreinan skjöld í aðdraganda hrunsins — en héldu þessir kjósendur að það væri alveg óvart sem Vinstri græn studdu ekki við gróðærisgeggjunina og hefði ekkert með hugmyndafræði Vinstri grænna að gera? Að andstaða við frjálshyggju, stóriðju og eyðileggingu umhverfis í þágu skammtíma gróða, friðarbaráttan og feminisminn væri sérmál sem tengdust hvorki innbyrðis né neinu öðru?

Kannski vilja þessir „aðeins einu sinni kjósendur VG og aldrei aftur“ gera það sama og stjórnarandstaðan: ýta allri hugmyndafræði til hliðar annarri en þeirri að græða. Nú þarf að græða strax, áður átti að græða mikið (ekki svosem að í hinu fyrra felist ekki óskin um hið síðara). Og ef ekki Vinstri græn vilja stökkva á allar þessar góðu hugmyndir* (sem flestar tengjast Suðurnesjum en þó megum við nú allsekki detta í þá vondu gryfju að persónugera vandann með því að tala um óstjórn Sjálfstæðisforkólfans Árna Sigfússonar), það er að segja stríðsfyrirtæki, einkaspítala, stærra álver, fleiri virkjanir — þá er heimtað að einhverju öðru verði reddað og það strax. Og kemur þá aftur að pistli Ármanns um Draumalandið:

„ Meginhugmyndin er sú að það þurfi að bjarga þjóðinni og hún hefur reynst furðu sterk jafnvel í þenslu og góðæri, hvað þá í kreppu eins og núna. Þess vegna beri að taka öllum tilboðum um fjárfestingar fagnandi því að þeim fylgja alltaf störf, jafnvel þó að ávinningurinn sé óljós og fórnirnar miklar.“

„Í stuttu máli er kreppusöngur ársins 2010 nákvæmlega eins og góðærissöngur þenslunnar sem Andri lýsir í Draumalandinu. Hann er jafnvel enn ofstækisfyllri og enn sannfærðari um að allir sem eru á öðru máli séu pólitískir ofsatrúarmenn á meðan hans eigin trúboð sé sannleikurinn og lífið.“


HHG hefur orðað það þannig: „í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt.“ Á móti kemur að þetta fólk stimplar allar aðrar skoðanir sem öfga. Eins og það að vilja ekki halda áfram að taka öllum tilboðum um fjárfestingar til að halda partýinu gangandi.

___
* Nýlega skrifaði Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins grein þar sem hún átaldi ríkisstjórnarflokkanna fyrir „ýtrustu kröfur um vinstri áherslur“ og kallaði eftir sátt og samstöðu allra flokka (þ.e.a.s. að öllum uppátækjum á vegum stjórnarandstöðunnar sé tekið þegjandi og hljóðalaust). „Stífni og krafa um hörð vinstri sjónarmið ríkisstjórnarflokkanna“ væri orsök allra illdeilna á Alþingi. Hún virðist, eins og Ólafur Stephensen, vera algerlega forviða á vinstri áherslum vinstri flokka. Sem þó, í tilviki Vinstri grænna, eru algerlega skýr og hafa alltaf verið.

Efnisorð: , , , , , , ,

þriðjudagur, mars 23, 2010

Nektarsýningar bannaðar með öllu

Vúhú!

Alþingi samþykkti í dag fortakslaust bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða að gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru.

Frumvarpið var upphaflega lagt fram af Kolbrúnu Halldórsdóttur en nú studdu það flestir þeirra þingmanna sem viðstaddir voru atkvæðagreiðsluna.

Meira segja gegnheilir Sjálfstæðismenn á frjálshyggjuvængnum greiddu atkvæði með frumvarpinu, enda varla hægt að setja upp sakleysissvipinn lengur og láta eins og nektardans sé saklaust fyrirbæri þar sem allir aðilar koma jafnir að málum; dansarar, áhorfendur og þeir sem flytja inn stúlkurnar og reka staðina. Mansalsmálin* sem upp hafa komið hafa líklega opnað augu þeirra** sem þóttust fram að því halda að allar stelpur dreymdi um að dansa naktar og kæmu unnvörpum frá öðrum löndum kátar og glaðar til verksins.

Nú er ríflega fimmtán ára sögu nektardansstaða á Íslandi að ljúka. Húrra fyrir því.

___
* Burtséð frá mansali þá eiga næstum allar konur sem starfa á nektarstöðum hræðilega fortíð og varla hægt að tala um að þær séu þar vegna þess að þær hafi talið margt annað standa sér til boða. Þær eru ýmist í fíkniefnavanda fyrir eða verða háðar fíkniefnum eftir að hefja störf í klámbransanum; þetta eru ekki störf sem konum líður vel með að sinna. Konur með sterka og jákvæða sjálfsmynd sækja ekki í störf í klámbransanum, hvorki sem nektardansarar, klámmyndaleikkonur né vændiskonur.
** Tilburðir Hells Angels í þá átt að hasla sér völl hér á landi hafa eflaust átt sinn þátt í því að þingmenn hafa áttað sig á að á tími væri kominn að taka í taumana.

Efnisorð: ,

sunnudagur, mars 21, 2010

Val fólksins!

Lítið lát virðist vera á umræðunni um listamannalaunin og dugir sjálfsagt ekkert minna en útgáfa rannsóknarskýrslunnar til að draga athyglina frá þeim. Pétur Gunnarsson skrifaði góða grein (sem hann kallar „Hinn árlegi héraðsbrestur“) og fleiri hafa lagt sitt af mörkum til að reyna að skýra fyrir almenningi út á hvað listamannalaun ganga og hversvegna þau eru æskileg eða jafnvel nauðsynleg. Samt virðist sem skilaboðin komist ekki til skila og athugasemdir við t.d. blogg Egils Helgasonar eru mörg á þá leið að ekkert sé vitlausara og tilgangslausara, gott ef ekki siðlausara en að listamenn fái peninga fá ríkinu.

Í leiðara í Fréttablaði helgarinnar kallar Steinunn Stefánsdóttir þetta „árlega sönginn“ og nefnir ýmis góð rök fyrir því að listamenn fái starfslaun.* M.a. bendir hún á að listamannalaun skapi hagvöxt og störf, sem er eflaust mikilvægt atriði í huga margra þeirra sem andsnúnir eru að listamenn fái starfslaunin. Um þetta skrifaði Pétur Gunnarsson líka. Mér er reyndar slétt sama um þann þátt málsins því ég hef meiri áhuga á öðrum þáttum eins og þeim sem Steinunn nefnir reyndar líka þegar hún segir:
„Ekki þarf einu sinni svo lítið málsvæði eins og það íslenska til þess að óraunhæft geti talist að sala á skáldverki standi undir launakostnaði höfundar meðan á samningu þess stendur. Velta má fyrir sér hvort þessi 60 prósent þjóðarinnar sem segjast vera andvíg listamannalaunum myndu vilja búa í landi þar sem útkoma frumsamins skáldverks væri viðburður sem ætti sér stað á nokkurra ára fresti.
Sömuleiðis má spyrja hvort meira en helmingur þjóðarinnar væri sáttur við að búa í samfélagi þar sem ekki þrifist tónlistarlíf sem ekki stendur undir sér með aðgangseyri og sölu á útgefinni tónlist, utan Sinfóníuhljómsveitarinnar sem raunar verður reglulega fyrir barðinu á umræðunni um að ríkið eigi ekki að reka slíka sveit. Á sama hátt má velta fyrir sér hvernig myndlistarlífið væri í landinu án launanna. Líklegt er að einungis fáeinir myndlistarmenn gætu helgað sig þeim starfa.“


Starfslaun og heiðurslaun og munurinn þar á
Í fyrsta lagi rugla menn sífellt saman starfslaunum listamanna og heiðurslaunum listamanna en þau síðarnefndu eru veitt eldri listamönnum (og það er þeim sérlegur þyrnir í augum að Þráinn Bertelsson skuli þiggja þau síðarnefndu) sem virðist seint ganga að fá þá til að skilja að eru einskonar þakkir til fólks sem hefur eytt megninu af ævi sinnar til listsköpunar án þess endilega að bera mikið úr býtum (og hefur þ.a.l. ekki alltaf borgað reglulega í lífeyrissjóði). Þetta eru semsé ekki laun til starfandi listamanna, þó auðvitað séu engar kvaðir um að þiggjendur heiðurslauna þurfi að sitja með hendur í skauti það sem eftir lifir.

Starfslaunin eru afturámóti laun sem listamenn þurfa að sækja um sérstaklega ár hvert, leggja fram verkefnaáætlun og skýra frá því hverju þeir hafa verið að sinna undanfarið. Þau sem fá úthlutað starfslaunum (sem er bara brot af öllum þeim sem sækja um) þurfa svo að skila skýrslu um afraksturinn; t.a.m. sýningarnar eða samninga um sýningar sem eru í uppsiglingu. Skili þeir ekki skýrslu eða hún sýnir ekki fram á fullnægjandi árangur fær listamaðurinn ekki aftur starfslaun á næstunni.

Listamenn sem sækja um eru í fremstu röð en þó eru margir þeirra sem fá ekki starfslaun listamanna nema endrum og sinnum. Þurfa þau þá að leggja til hliðar þá launuðu vinnu sem þau kunna að hafa til að sinna listinni eingöngu; annars teljast þau ekki vera að nýta það tækifæri sem starfslaunin eiga að veita þeim til að sinna listsköpuninni. En flest fólk áttar sig á að þó listsköpun geti farið fram meðfram fullri vinnu þá er það slítandi til lengdar og ekki hægt að búast við að fólk þroski hæfileika sína eða nái að komast þangað sem hæfileikar þeirra standa til með slíku harki.

Markaðslögmál, framboð og eftirspurn
Vinsælt er að segja að listamenn sem séu að gera eitthvað af viti geti selt verk sín og lifað af því. Selji þeir ekki verk sé það til marks um að þeir séu lélegir listamenn eða eigi ekki að vera að framleiða list sem enginn vill kaupa. Aðrir eigi ekki að þurfa að borga þeim fyrir þetta áhugamál þeirra.

Margir virðast líta svo á að vegna þess að bækur Arnaldar seljist þá hafi allir rithöfundar það gott og séu þeir ekki að selja nógu margar bækur til að lifa af sölunni þá eigi þeir bara að skrifa söluvænlegri bækur. Markaðurinn eigi að ráða, ef spennubækur eru það sem fólk vill lesa, þá eigi að skrifa spennubækur. Óþarft sé að styrkja fólk til að skrifa eitthvað sem enginn vill lesa eða a.m.k. svo fáir að útgáfan borgi sig ekki. Þó hafa margir fremstu rithöfundar þjóðarinnar þegið þessi laun (sem lengi vel voru reyndar kölluð styrkur), s.s. Halldór Laxness.** Eða vill fólk meina að hann hefði betur fengið sér launaða dagvinnu og párað eitthvað í frístundum þegar færi gafst?

Smæð markaðarins hér á landi er slík að fæstir listamenn ná að selja svo mikið eða verðleggja verk sín þannig að þeir geti lifað af list sinni og þó það takist þá gæti það verið afar tímabundið, þ.e. þeir selja vel eftir margra ára basl. Ekki er heldur á vísan að róa þó vel seljist um tíma því fáir listamenn ná að lifa af list sinni jafnvel þó þeir hafi náð því að teljast virtir og þeir seljist, og skýrist það einmitt af smæð markaðarins.

Fái markaðurinn að ráða munu framsæknir myndlistarmenn sem ögra viðteknum gildum, nota nýja miðla — það er að segja listamenn sem ekki mála málverk í ramma — verða undir. Vídeóverk seljast ekki mikið, innsetningar eingöngu til stórra listasafna og gjörningar seljast alls ekki, svo dæmi séu tekin.

Krafan um að markaðurinn ráði, að þeir einir eigi að helga sig listinni sem skapa myndlist/tónlist/ bókmenntir sem fellur fjöldanum í geð og selst nægilega til að framfleyta þeim, og að engir styrkir eigi að fara til þeirra sem lítið selja en heldur ekki til þeirra sem selja mikið/eru vinsælir því þeir eigi að sjá um sig sjálfir, myndi takmarka mjög alla sköpun. Hún myndi staðna, verða einhæf, ekki þróast.

Landslagsmálverk
Myndlistarmenn hafa lengi legið undir ámæli fyrir að mála ekki almennileg málverk. Framanaf tuttugustu öldinni lögðu myndlistarmenn sitt af mörkum í sjálfstæðisbaráttunni með því að mála málverk af íslensku landslagi, fjöllum sem voru svo ólík hinu flata danska landslagi, og hafði svo greinilega yfirburði gagnvart flatlendi nýlenduherranna og því hefur verið grá-upplagt að núa danskinum því um nasir. Íslensk fjallasýn varð aðalsmerki sjálfstæðrar þjóðar.

Landslagið tilheyrði sjálfstæðisbaráttunni, frelsinu og manndáðinni, það var þess vegna séríslenskt og að hafna því jaðrar við landráð (sbr. háðungarsýning Jónasar frá Hriflu***). Þessi trú hefur aldrei síðan yfirgefið þjóðina.

Koma þá til sögunnar Komar og Melamid
Í upphafi árs 1996 var haldin sýning á Kjarvalsstöðum sem kölluð var Val fólksins! Sýningarstjóri var Hannes Sigurðsson listfræðingur sem þá var enn ekki orðinn forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri. Ári áður hafði hann, í samvinnu við Hagvang, látið gera könnun meðal íslensku þjóðarinnar á því hverskonar myndlist höfði mest til fjöldans. Skoðanakönnunin var hluti af alheimsúttekt rússnesku listamannanna Komars og Melamids sem gerð var í 14 þjóðlöndum, þar af hér á landi um hvernig málverk fólk vildi sjá. Var blái liturinn í mestu uppáhaldi aðspurðra (undantekning frá þessu var Rússland þar sem ljósblár var vinsælastur og í Úkraínu var hann jafnvinsæll og sá græni). Flestir vildu sjá landslagsmyndir og við nánari útfærslu kom í ljós að fólk átti líka að vera á myndinni, dýr og tré (mismunandi eftir löndum þó). Já og Íslendingar vilja auðvitað hafa fjall á sínu uppáhaldsmálverki.

Niðurstöðurnar voru gaumgæfðar og síðan máluðu Komar og Melamid málverk eftir þeim, málverk sem sýna hvað kemur útúr því þegar farið er eftir óskum fjöldans um það sem hann vill sjá.

Og þetta er semsagt val fólksins.

Ef tekið er mið af niðurstöðum skoðanakönnunarinnar — og meðfylgjandi mynd — get ég fullyrt fyrir mína parta að ég vil heldur að listamenn sem höfða minna til almennings fái styrki til að vinna að list sinni, jafnvel þó hún sé óskiljanleg, óseljanleg og falli fáum í geð.

___
* Góður punktur hjá Steinunni: „Starfslaun listamanna nema um 350 milljónum króna, eða 0,35 milljörðum svo notuð séu tölugildi sem eru tamari í umræðunni þessa dagana. Reykjavíkurborg ætlar að verja 230 milljónum í stækkun golfvallarins á Korpúlfsstöðum um níu holur, úr 18 í 27, á næstu fjórum árum svo tekið sé annað dæmi úr fréttum vikunnar.“ Merkilegt annars hvað fjárstuðningur opinberra aðila til íþróttaiðkunar ýmiskonar virðist hafinn yfir gagnrýni meðan sunginn er árlegi söngurinn um listamenn sem afætur á samfélaginu.

** Eftirfarandi fann ég og lími lítið breytt en mikið stytt hér inn:
Umræður um skáldalaun hefjast á Alþingi 1879, en tillögur um þau voru ekki samþykktar fyrr en 1891.
Þannig var, að aIlt frá 1875 var Benedikt Gröndal veitt nokkurt fé árlega (600 kr. frá byrjun 9. áratugarins) ,,til að halda áfram myndasafni yfir íslensk dýr og til að semja þjóðmenningarsögu Norðurlanda, og 200 kr. ,,til efna og áhalda til að varðveita náttúrugripi".
En líklega hafa menn smámsaman farið að líta þessa fjárveitingu sem skáldastyrk, enda var Benedikt kunnastur sem skáld. Og þá var fordæmið komið, 1891 bætast þau Matthías Jochumsson og Torfhildur Hólm við á 15. grein fjárlaga, en 1902 færist Matthfas yfir á 16. grein (sem síðar varð 18. grein), eftirlaun ríkisstarfsmanna, sem prestur á eftirlaunum, en í vitund manna var hann auðvitað fyrst og fremst skáld. Þetta varð afdrifaríkt, því á eftir fylgdu síðar ýmsir listamenn í þessa grein fjárlaga. Síðar var farið að skipa þeim í sérstakan kafla innan hennar, og hann kallaður heiðurslaunaflokkur listamanna.
1930 samþykkti Alþingi að tillögu Haralds Guðmundssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar að setja Halldór Laxness á fjárlög næsta árs með 2000 kr. styrk. Honum hélt hann nokkurnveginn óskertum síðan, og 1935 var hann færður yfir á 18. gr. með 5000 kr. árlega fjárveitingu, m. a. að tillögu Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Seinna á því ári birtist síðari hluti Sjálfstæðs fólks. Þetta var hámarksstyrkur, Halldór var þá gerður jafn Einari Benediktssyni, virtasta ljóðskáldi landsins og Einari H. Kvaran, sem þá var í einna mestum metum sem skáldsagnahöfundur.
Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins stóðu gegn þessum fjárveitingum til Halldórs, allt frá 1930, á þeim forsendum, að bækur hans myndu miður hollar siðferðislega, einkum börnum og konum!

** Það er ástæða til að benda á ágæta heimildarmynd Steingríms Dúa Mássonar um háðungarsýningu Jónasar.

**** Einnig kom út bók með niðurstöðum könnunarinnar, Val fólksins! Eftirsóttasta og síst eftirsóttasta málverk þjóðarinnar. Reykjavík: Kjarvalsstaðir, 1996.

Efnisorð:

fimmtudagur, mars 18, 2010

Það er ekki sama hvaðan peningarnir koma

Þegar ég heyrði að hernaðarfyrirtæki einhverskonar vildi fá aðstöðu hér á landi hugsaði ég með mér að þetta væri bara upphlaup í fjölmiðlum og ætti sér álíka stoð í veruleikanum og þegar Davíð Oddsson þóttist hafa fengið lán hjá Rússum — sem auðvitað ekkert varð úr. Nennti því ekki einu sinni að æsa mig yfir þessu. En á öllum fréttaflutningi í dag að dæma virðist vera einhver alvara í málinu og þingmenn hafi vitað af þessu máli í einhvern tíma, a.m.k. segjast tveir þeirra hafa fylgst með þegar það var í uppsiglingu. Sjálfstæðismenn eru auðvitað æstir sem fyrr að leggja land undir stríðsglaða aðila og sjá fyrir sér peningana sem streymi í kjölfarið. Og Samfylkingarfólk virðist vera þessu hjartanlega sammála.*

Einhverstaðar heyrði ég sagt að ekkert mál hafi klofið þjóðina eins mikið og hersetan á Miðnesheiði. Inngangan í Nató og samningurinnn við Bandaríkin um her hér á landi á friðartímum hleypti illu blóði í stóran hluta landsmanna og greri aldrei um heilt meðan herinn var hér.

Er sú áætlun að leyfa þessu fyrirtæki að hasla sér völl partur af samstöðu- og samræðustjórnmálum Samfylkingarinnar?

Og hvað er að í höfðinu á fólki sem finnst í lagi að eiga viðskipti við, greiða götu fyrir, og stuðla að framgangi fyrirtækis sem á einn eða annan hátt snýst um hernað? Er mannfall útí heimi í lagi bara ef Suðurnesjamenn fá vinnu? Lík kvenna, karla og barna aukaatriði, örkuml og aðrar skelfilegar afleiðingar stríðsátaka bara smotterís fórnarkostnaður til að hægt sé að lækka tölur um atvinnuleysi í ríki Árna Sigfússonar? Sjaldan blasir eins við gróðahyggjan, skeytingarleysið og mannfyrirlitning eins og að hlusta á málflutning þeirra sem styðja hernað einhverskonar. Það að drápið, pyntingarnar og limlestingarnar fari ekki fram á Reykjanesinu skiptir engu máli; fólk annarstaðar í heiminum á líka rétt á lífi sínu.**

Og hvað er með þetta fyrirtæki? Það virðist í hæsta máta vafasamt. Engar upplýsingar fást um eigendur þess og það gæti þessvegna verið á vegum Bandaríkjahers*** eða í eigu útrásarvíkinga eða álíka kóna sem einskis svífast í fjárplógsstarfssemi sinni. Það er verið að tala um að kæfa Hells Angels í fæðingu**** en á sama tíma er verið að ræða að hleypa hingað fyrirtæki sem gæti haft enn skuggalegri ráðagerðir í huga. Og hvað ef (eins og einhver skrifaði í athugasemd við frétt um þetta mál) þetta fyrirtæki bakar sér óvild útí heimi sem yrði til þess að á það yrði ráðist hér á landi? Svo getur það plantað virkum vopnum í þessar flugvélar sínar og leigt þær til árásarherja eða tekið beinan þátt í stríði hvenær sem er — og við sæl og glöð að telja peningana á meðan.

Fyrst og fremst er hugmyndin galin. Það stendur uppá Vinstri græn að koma í veg fyrir þessa geðbilun.
___
* Eflaust er til Samfylkingarfólk, bæði launaðaðir pólitíkusar og aðrir, sem ekki vilja neinskonar hernaðarumsvif hér á landi en ég hef a.m.k. ekki enn séð yfirlýsingar þeirra. — Viðbót: Jú, Steinunn Valdís hefur talað gegn þessu og Mörður segir að við gætum alveg eins leyft urðun geislavirks úrgangs.
** Það viðhorf að stríð hafi alltaf verið til sem réttlæging á því að hleypa þessu fyrirtæki hér inn er sérkennilegt, því morð hafa líka alltaf verið framin.
*** Svo gæti þetta verið fyrirtæki eins og Blackwater sem hefur ekki beinlínis geðslegt orð á sér. Agnar K Þorsteinsson veltir upp ýmsum flötum á því hverskonar fyrirtæki gæti verið um að ræða og virðist álíka spenntur og ég yfir að flytja þetta inn til landsins. — Viðbót: Hér er grein þarsem starfsemi einkarekinna hernaðarfyrirtækja er lýst, kostum þeirra og göllum. Fyrir mér er þetta lykilatriði: „Hernaðarfyrirtækin fá greitt fyrir að takast á við aðstæður tengdar hernaði og hafi því ekki hag af því að koma á friði. Þvert á móti hagnist þau mest á ófriði, hamförum og upplausnarástandi í samfélögum. Það sé þeim í hag að umsvif herja séu sem mest og framlög ríkisstjórna til hernaðarmála sem hæst.“
**** Ég styð alla viðleitni í þá átt að koma í veg fyrir að Hells Angels eignist lögheimili hér á landi.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, mars 16, 2010

Verstu tíðindin í uppsiglingu

Nú mun skýrsla rannsóknarnefndarinnar vera í prentun og fljótlega hlýtur að vera tilkynnt hvenær skýrslan verður birt. Páll Hreinsson formaður rannsóknarnefndarinnar sagði að nefndin myndi með henni flytja þjóðinni verstu tíðindi síðari tíma. Einhverra hluta vegna virðast margir hafa skilið það svo að í skýrslunni verði afhjúpuð einhver hneykslismál, lögbrot, svik, landráð eða þaðanaf verra, það séu þessi „verstu tíðindi“. Einn þeirra sem almennt er álitinn bera sök á hruninu mun nú halda því fram að það standi ekkert „svakalegt“ um sig í skýrslunni og það muni líklega svekkja þá sem er illa við hann almennt og yfirleitt.

Ég er nokkuð viss um að skýringin á orðum Páls Hreinssonar sé sú að verstu tíðindi skýrslunnar séu þau að hún sýni að útrásarvíkingarnir, bankamennirnir og aðrir fjárglæframenn sem tóku þátt í að koma þjóðinni á hausinn, hafi meira og minna starfað innan ramma laganna, aðeins séu örlítil frávik hér og hvar, ekkert sem varðar háar fjársektir eða fangelsisdóma. Ástæðan er sú að rammi laganna hafði verið færður útúr öllu korti og hér mátti nánast allt á sviði fjármálagerninga. Stjórnmálamennirnir sem fengu milljónir á milljónir ofan í beina og óbeina styrki fyrir sig prívat og flokkinn sinn og hlýddu síðan fyrirmælum Viðskiptaráðs og annarra sem 'ráðlögðu' þeim hátt og í hljóði, greiddu síðan götu lagabreytinga og reglugerðarniðurfellinga með þeim afleiðingum að ekki verður hægt að sækja auðrónana til saka. Skýrslan mun enn fremur segja með einhverjum hætti að ekki sé hægt að sanna mútuþægni stjórnmálamanna eða að þeir hafi sjálfviljugir tekið að sér þingsetu í boði stórfyrirtækja.*

Þegar þessi ónafngreindi auðróni segir að fólk verði fyrir vonbrigðum og Páll segir að skýrslan innihaldi verstu hugsanlegu tíðindi þá er það einmitt vegna þess að hún verður yfirlýsing um að þetta sé engum að kenna og að enginn verði sóttur til saka. Lætin sem munu brjótast út verða ekki vegna þess að við heyrum að stjórmálamenn séu spilltir, bankamenn og tryggingafélagsforstjórar hafi sóað peningum, útrásarvíkingar hafi keypt allt út á krít og ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Seðlabankastjóri flokksins hafi haldið uppi frjálshyggjuflagginu — heldur vegna þess að okkur verður sagt að við því sé ekkert að gera.

Það eru vondu tíðindin.

___
* Á sveitarstjórnarstiginu er eitthvað aðeins verið að hnýta í hreppsnefndir sem raka inn peningum fyrir að samþykkja virkjanir, bæði í Ölfusi og við Þjórsá, en það verður seint álitið lögbrot þó augljóst sé að það fólk þiggi mútur eða hafi jafnvel boðið sig fram til þess eins að greiða götu virkjana — og þiggi greiðslur fyrir.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, mars 15, 2010

Djöfull sem við ætlum ekkert að læra af þessu hruni

Ég er oft úrill á morgnana en þó allajafna ekki örvæntingarfull. Í morgun brá þó svo við að ég vældi „nei, nei, nei!“ þegar ég sá forsíðu Fréttablaðsins eftir að hafa sótt það í gin bréfalúgunnar. Getur í alvöru verið að ríkisstjórnin ætli að leyfa bónuskerfi í bönkum? Reynslan ætti að hafa sýnt okkur að slíkt hvatakerfi ærir óstöðuga bankastarfsmenn, hvar sem þeir eru staddir í launastiganum.

Ég örvænti fyrir hönd okkar allra hljóti þetta blessun og brautargengi. Þá stefnum við beint fram af helvítis bjargbrúninni — aftur.

Efnisorð: ,

laugardagur, mars 13, 2010

Meiri menningu, minna af fótbolta

Það er skemmtileg tilviljun, en eftilvill óheppileg fyrir RÚV, að í sömu vikunni og niðurstöður könnunar Félagsvísindadeildar á menningarneyslu eru birtar skuli vera skýrt frá því að Sjónvarpið hafi tryggt sér sýningarrétt á öllum leikjunum í heimsmeistarakeppni karla í fótbolta.

Líklega hefðu þessi „gleðitíðindi“ verið á forsíðu Fréttablaðsins í dag í stað þess að lenda í fingurbjargarstærð á innsíðum blaðsins ef ekki hefði verið fyrir niðurstöðurnar úr menningarneyslukönnuninni. Þar kom nefnilega í ljós að fleiri sækja menningarviðburði en íþróttaviðburði og fleiri sækjast eftir umfjöllun um menningu og listir en íþróttir í fjölmiðlum. Samt er fjármagni Ríkissjónvarpsins varið í endalausa knattleiki karla og tíma allra sjónvarpsáhorfenda sóað í sýningar á leikjum sem hlutfallslega fáir horfa á.* Menningarþættir í Sjónvarpinu eru afturámóti svo fáir að þeir rúmast í einu orði: Kiljan. Og er það þó fjarri því góður eða fjölbreyttur þáttur.

Ef ég tek ekki með þá sem sækja bíóhús og menningar-og útihátíðir (vegna þess hve forsnobbuð ég er), þá eru helstu niðurstöður þessar.

61% heimsækja sögustaði
60% fara í leikhús, óperur eða á söngleiki
59% á tónleika (ég geri ráð fyrir að klassískir tónleikar teljist með)
53% sækja listasöfn eða fara á aðrar myndlistarsýningar
46% fara á söfn af öðrum toga (t.a.m. Þjóðminjasafnið)

Enda þó álykta megi að þessir hópar skarist að einhverju leyti (sumt fólk fari bæði á listasöfn og í leikhús) þá er hver hópur um sig stærri en þau 38% sem sækja íþróttaviðburði.

Þetta sýnir að áhugi landsmanna á íþróttum er mun minni en á menningu — samt fá íþróttaáhugamenn endalaust að ráða sjónvarpsdagskrá allra landsmanna.

Nýr dagskrárstjóri Sjónvarpsins verður ráðinn á næstunni. Það er vonandi að það verði A) kona, B) manneskja sem metur myndlist, leiklist, óperur, sagnaarfinn og klassíska tónlist, C) láti ekki háværa minnihlutahópinn sem kallast boltaáhugamenn og samanstendur aðallega af frekum körlum, hafa áhrif á stefnumörkun sína. Það væri þó allavega tilbreyting.

___
* 46% áhorfenda eru boltaáhorfendur en 56,5% vilja sjá sjónvarpsefni um menningu og listir.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, mars 11, 2010

Fórnum ekki vatnsbólum

Það er fjarri því að Ólafur F. Magnússon, sem er einn margra borgarstjóra yfirstandandi kjörtímabils, hafi verið minn uppáhaldsborgarfulltrúi (eða 'okkar maður á staðnum' eins og þar segir). En í dag er ég svo hjartanlega sammála honum og get ekki annað en vonast til að tillaga hans um að bannað verði að leggja raflínur yfir Heiðmörk verði samþykkt.

„Reykvíkingum sem öðrum landsmönnum verður sífellt ljósara hvílík sóun á sér stað við ósjálfbæra nýtingu hitavatnsauðlindarinnar, þar sem aðeins orkan vegna gufuafls en ekki heita vatnið sjálft er nýtt. Heita vatnið sjálft fer til spillis og gengið er á auðlind þess með ósjálfbærum og einstaklega óhagkvæmum og óábyrgum hætti. Gufuaflsorkan er síðan nýtt til að selja raforku á undirverði til erlendra álbræðslufyrirtækja, sem hafa gífurlegan hagnað af starfsemi sinni án þess að skila tilsvarandi auð eða gjaldeyri til landsins. Þessa ósvinnu verður að stöðva og tryggja þarf að íslensk fyrirtæki og íslenskur almenningur hætti að niðurgreiða raforkuverð til orkufrekra erlendra málmbræðslufyrirtækja á sama tíma og gengið er hættulega nærri hitavatnsauðlind höfuðborgarborgarsvæðisins. Tillöguflytjandi hafnar alfarið þeirri græðgi og skammsýni ásamt vanþekkingu á umhverfis- og orkumálum sem einkennir störf meirihlutans í borginni og fjárhagslega óstjórn hans á orkumálum Reykvíkinga, að ekki sé talað um virðingarleysi meirihlutans fyrir framtíðarhagsmunum alls almennings á höfuðborgarsvæðinu. Of langt er þó gengið í þjónkun við erlent auðvald og mjög þrönga sér- og skammstímahagsmuni fáeinna íslenskra aðila, ef leggja á vatnsverndarsvæði Reykvíkinga í bráða hættu með stórframkvæmdum á borð við raflínulagnir yfir Heiðmörkina vegna t.d. óraunhæfra fyrirætlana um raforkusölu til fleiri álvera á suðvesturhorni landsins. Engar umhverfislegar eða efnahagslegar forsendur eru fyrir frekari orkusölu til orkufrekra málmbræðslufyrirtækja hér á landi.“

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, mars 10, 2010

Áhugamál karla — enda alltof mikið talað um konur og engin þeirra ber!

Margt hefði ég viljað minnast á í dag og megnið af því jákvætt. En rétt í þessu las ég blogg Jennýjar Önnu þarsem hún forundraði sig á Kastljósi kvöldsins, þannig að ég vippaði mér inná síðu RÚV og horfði á valda búta úr þættinum. Ég tek undir með Jennýju að það er furðulegt að sýna þessa ógagnrýnu mynd af Bandaríkjaher og magnað dómgreindarleysi af fréttamanninum íslenska að taka þátt í þessu — að því er virðist af lífi og sál.

En það var annað atriði Kastljóssins sem fór enn meir fyrir brjóstið á mér og það var umfjöllunin um ljósmyndasýningu sem ku vera á veggjum Listasafns Íslands. Ljósmyndarinn hafði semsé farið á karlavinnustaði og tekið myndir, ekki síst af myndum af mismunandi mikið nöktum konum* sem karlarnir hafa hengt upp hjá sér. Þetta kallaði ljósmyndarinn „venusardýrkun“ og sagði karlmennskuna eiga undir högg að sækja. Hörkukallar þurfi helst að fela sig. Jahá.

Það er greinilegt að það hefur verið fjallað of mikið um kvennabaráttuna undanfarna daga. Ársskýrsla Stígamóta, skýrsla Amnesty um kynferðisofbeldi og svo mansalsdómurinn þar sem kvenkyns dómsmálaráðherra verður fyrir svörum — þetta er greinilega aaaaaaallltof mikið kvennadekur og tími til kominn að helga áhugamálum karla svona eins og megnið af einum Kastljósþætti. Hermennska og berar konur til sýnis.** Anskoti flott bara.

Það vantaði reyndar að ljósmyndarinn segði hvar hann tók myndirnar. Ég vil helst fá nöfn vinnustaðanna svo ég eigi þar engin viðskipti. Það eru einhverjar ömurlegustu uppákomur sem ég lendi í þegar ég fer með bíl á verkstæði og kemst að því að þar eru konur álitnar rúnkfóður og eitthvað til að gera gys að við félagana, semsagt niðurlægðar endalaust. Nei, þetta er ekki Venusardýrkun, þetta er kvenfyrirlitning.

___
* Gatnúskeð að loksins þegar Kastljósið sinnir menningu og listasöfnum þá eru berar konur til sýnis.
** Þarf ég að minna á það eina ferðina enn að konur sem starfa í klámiðnaðinum — hvort sem starfið felst í að fækka fötum uppi á sviði, sitja fyrir á ljósmyndum, leika í klámmyndum eða stunda vændi — eru þolendur kynferðisofbeldis; konur með skerta sjálfsvirðingu sem jafnvel þekkja ekkert annað en að þurfa að skipta á líkama sínum og athygli, ástúð, mat? Frábært að klína þeim uppá vegg á skítugum vinnustöðum.

Efnisorð: , , , ,

mánudagur, mars 08, 2010

Skref í jafnréttisátt 8. mars

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Til hamingju með það!

Nú í morgunsárið bárust þær fréttir að kona hefði í fyrsta sinn hlotið Óskarsverðlaun fyrir leikstjórn. Það tók kvikmyndaakademíuna ekki nema 82 ár að veita konu þessa viðurkenningu. Hún þurfti auðvitað að leikstýra stríðsmynd, en slíkt fer alltaf vel í nefndarmennina bandarísku. En jæja, hún fékk þó óskarinn samt.

Skref í jafnréttisátt hér á heimaslóðum var stigið í síðustu viku þegar stjórnarfrumvarp um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga var samþykkt á alþingi.
Samkvæmt því verður skylt að sundurliða upplýsingar um hlutföll kynja í stjórnum í tilkynningum til hlutafélagaskrár. Í hlutafélögum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði, verður jafnframt skylt að sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna meðal starfsmanna og stjórnenda félagsins.

Samkvæmt nýju lögunum verður skylt að gæta að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra. Verður fyrirtækjum gert skylt að gefa hlutafélagaskrá upplýsingar í tilkynningum til skrárinnar um hlutföll kynjanna meðal framkvæmdastjóra.
Frumvarpið var samþykkt með atkvæðum 32 þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum. Ellefu þingmenn greiddu ekki atkvæði.

Ég ætlaði að setja hér tengla á ágætan pistil Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur um málið til mótvægis við sjónarmið frjálshyggjunnar sem sjá má í pistli Erlu Óskar Ásgeirsdóttur varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins. En svo sá ég karlrembudrulluna í athugasemdakerfinu hjá Steinunni Valdísi, þar sem öllu þessu íþyngjandi jafnrétti er mótmælt harðlega — en auðvitað mest af umhyggjusemi fyrir vellíðan kvenna sem munu skammast sín svo mikið fyrir að sitja í stjórnum fyrirtækja þar sem kynjahlutfallið er 50/50. Einn þeirra sem hafði mestar áhyggjur af velferð kvenna skrifaði þetta:
„Þið megið trúa því stelpur, að hér er ekkert í að físast. Þetta er ekki eins æðislegt og þið haldið. Langir og slítandi fundir, þeytingur um allan bæ, eða jafnvel út í lönd, afbrigðilegir vinnutímar, sundurslitið einkalíf, skellur þegar ábirgð fellur á ykkur þegar eitthvað kemur upp á, o.s.frv.“

Ekki veit ég hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna* af sömu umhyggjusemi, ætli það hafi ekki bara verið sama trúin á lögmál markaðarins sem réði gerðum þeirra eins og venjulega. Það hefur einmitt sannast svo hressilega að ef við látum fyrirtæki afskiptalaus þá hafi þau velferð allra í huga. Samkvæmt því þá er þeim auðvitað svo umhugað um að gefa konum tækifæri að það hvarflar ekki að þeim að bjóða bara eintómum karlmönnum úr kunningjahópi sínum að stjórna með þeim fyrirtækjum og taka ákvarðanir sem geta jafnvel haft áhrif á hag allrar þjóðarinnar. Svona eins og dæmin sanna.

— Viðbót: Því ber einnig að fagna að karlmennirnir sem fluttu inn litháeska stúlku í því skyni að selja hana í vændi voru dæmdir í dag og mun hver þeirra dúsa í fimm ár í fangelsi.

___
* Vefur alþingis sýnir að þessir þingmenn sátu hjá: Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Bjarni Benediktsson, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Illugi Gunnarsson, Margrét Tryggvadóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Viðbót: Auðvitað mótmæla ýmsir Sjálfstæðismenn (s.s. Pawel og Vilhjálmur Egilsson þessu opinberlega, finnst þetta mismunun og ég veit ekki hvað og hvað.

Efnisorð: , , , , ,

fimmtudagur, mars 04, 2010

Látum hann gera gagn

Ég er ekki ein þeirra sem mun sakna sjónvarpsþulanna af skjánum. Ekki frekar en ég sakna fréttalesturs Páls Magnússonar. Hinsvegar held ég að það hefði mátt fá einn starfsmann í störf þeirra allra og hann hefði líklega sætt sig við sjónvarpsþululaunin ein og sér, ekkert þurft jeppa. Sumt fólk er nefnilega svo athyglissjúkt að það gerir hvað sem er og vill öllu til kosta til að komast í sviðsljósið.

Mér sýnist nefnilega Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sakna gömlu góðu daganna þegar hann mætti til vinnu í Sjónvarpinu. Þar vill hann vera. Væri ekki nær að láta hann fá launað starf þar heldur en að þurfa að hlusta á hann (og röddina hans) í ræðustól alþingis og í fjölmiðlum að bera uppi endalausar mótbárur við öllu sem ríkisstjórnin gerir — meira segja þegar er lagt í samningaferðir og þjóðaratkvæðagreiðslur* sem hann hefur grenjað út?

Leyfum honum að kynna Bráðavaktina svo hann hætti að þvælast fyrir!

__
* Mér sýnist á öllu að Soffía og Hjörvar hafi skilgreint þjóðaratkvæðagreiðsluna einna best. Þaraf sá síðarnefndi með smellpassandi greiningu á Framsóknarafstöðu Sigmundar Davíðs.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, mars 02, 2010

Skoðanir fjölmiðlamanna og annarra fábjána á þeim sem helga líf sitt list og menningu

Það þurfti svosem ekki að koma á óvart að misvitrir einstaklingar* hæfu upp raust sína og fordæmdu úthlutun listamannalauna. Ég reyndi að leiða hjá mér bloggupphrópanir** og skammir í garð kvikmyndagerðarmannsins, rithöfundarins og þingmannsins sem átti að hafa verið dónalegur í garð þessara misvitru einstaklinga. Ég nennti þó ekki að kynna mér málið frekar fyrr en Gísli málbein vísaði á samtalið sem átti sér stað á Bylgjunni.

Nú hef ég hlustað á samtalið og þó ég hafi auðvitað búist við því að misvitru upphrópunareinstaklingarnir hafi afflutt og mistúlkað orð Þráins Bertelssonar þá fannst mér ánægjulegt að heyra hve málefnalegur hann var og hve þolinmóður hann reyndist vera þegar hann reyndi að útskýra tilgang listamannalauna og mikilvægi lista í samfélagi siðaðra þjóða. Hinir misvitru starfsmenn Bylgjunnar vildu greinilega meira fútt, því raus um menningu er náttúrulega ekki nógu hresst, svo þeir fóru að pikka í löngu auman blett sem eru heiðurslaun Þráins og sem bloggheimar loga reglulega útaf. Þá virðist Þráinn hafa séð hverskonar viðtal hann var kominn í og sagði Bylgjufólkinu til syndanna.

Þetta er í fyrsta sinn sem mig hefur langað til að senda Þráni aðdáunarbréf.

___
* Misvitrir eru allt frá því að vera illa upplýstir en blaðra samt; hafa pólitískar skoðanir sem ganga gegn öllu sem ríkið styrkir (uppáhaldsþjóðflokkurinn minn: frjálshyggjumenn) og allt til hreinræktaðra, eða jafnvel innræktaðra fábjána.

** Bloggupphrópanir komu líka fram í athugasemdum við annars skynsamleg blogg, eins og hjá Maríu og Jennýju Önnu.

Efnisorð: , , ,