laugardagur, apríl 30, 2016

Apríl 2016 kemur á öllum söguprófum hér eftir

Er ekki apríl örugglega að verða búinn?

Allt gerðist í apríl. Panamalekinn og afsögn forsætisráðherra, nýr forsætisráðherra í gamalli og úr sér genginni ríkisstjórn, og framboð forsetans til sólkonungs.

Og ýmislegt annað gerðist, meðal annars þetta.

Vafasamir verktakar
Hjónin Hilmar Þór Kristinsson (fv. sjóðsstjóri hjá Kaupþingi) og Rannveig Eir Einarsdóttir eru stórtæk í hótelbyggingabransanum. Þau eru meðal eigenda að hótelinu sem rísa á við Skógafoss (og skyggja á fossinn) og hótelbyggingum sem er verið að reisa milli Laugavegar og Grettisgötu. Það er vegna þeirra byggingaframkvæmda sem silfurreynir lenti í lífshættu (og ekki er enn útséð með hann: „Tréð er allt laskað og þeir eru búnir að mölbrjóta það“), og byggingaverktakarnir hafa staðið í erjum við nágranna. Nú hefur lögregla og skattrannsóknarstjóri gert rassíu hjá Brotafli sem hefur unnið fyrir hjónin á Grettisgötunni, og einnig var gerð rassía hjá öðrum byggingaverktökum, en fyrirtækin Brotafl og Kraftbindingar eru í miðju rannsóknarinnar. Grunur leikur á peningaþvætti, mansali og þrælahaldi. „Lögreglumenn voru slegnir þegar þeir sáu hvar sumir verkamennirnir frá Austur-Evrópu bjuggu en sumstaðar voru aðstæðurnar nöturlegar, raflagnir í ólagi sem og hiti og salernisaðstaða.“* Eigandi Brotafls „hefur verið dæmdur fyrir skattalagabrot og komið við sögu í lögreglumálum, þar á meðal mansalsmáli á Suðurnesjum þar sem starfsmenn hans fengu dóm“. Það er þó gott að vita að hjónin sem réðu Brotafl til verka eru vel meinandi, en í silkihanska-viðtali** sagði Rannveig Eir frá því hvað þau hjónin bæru mikla virðingu fyrir sögunni og vilja þeirra til að hafa borgina aðlaðandi. Hún hefði kannski átt að gúggla betur?

Fleiri verktakar komust í fréttirnar
Meðan öll augu beindust annað í byrjun mánaðarins var friðað hús við Tryggvagötu jafnað við jörðu. Nú hefur Minjastofnun kært verktakann til lögreglu.

Siggi var úti að vaga um móa
Bankabófarnir fengu að yfirgefa Kvíabryggju eftir stutta dvöl til að fara á Vernd. Einn þeirra virðist varla hafa verið kominn suður (að því gefnu að myndband og frétt um þennan atburð hafi gerst eftir að Sigurður Einarsson var kominn á Vernd) þegar hann ákvað að brenna uppí Borgarfjörð til að vitja sumarhúss af sverustu gerð sem hann átti einu sinni en er ekki lengur skráður fyrir. Hegðaði sér þó eins og hann ætti pleisið og rak aðkomumenn á brott og hótaði að beita hnefunum. Fangelsismálastjóri sem hleypti hvorki bankabófunum fyrr í afplánum en öðrum, né sá í gegnum fingur sér við þá þegar þeir voru á Kvíabryggju, mun örugglega ekki líta á þetta sem agabrot eða brot á reglum um fanga á Vernd. Og Siggi fær að vera úti að vild.

Mér skilst að þegar dvölinni á Vernd lýkur fái bankabófarnir að afplána síðasta hluta fangelsisdómanna heima hjá sér með rafræn ökklabönd. Mætti ekki bjóða fólki að gefa þeim rafstuð gegnum ökklaböndin?

___
* Gunnar Smári Egilsson skrifar af þessu tilefni um sögulegan bakgrunn illrar meðferðar á verkafólki á Íslandi í Fréttatímanum (sem ég er að spá í að fara að lesa aftur eftir einbeitta sniðgöngu síðustu ára, enda held ég að nú sé blaðið ekki hið sama og áður). Aðrar fréttir af Brotafli og tengdasonarfyrirtækinu Kraftbindingum sem vitnað er í hér að ofan skrifuðu Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Þóra Tómasdóttir fyrir sama miðil. [Viðtbót:] Talandi um fjölmiðla. Mér er sagt að í Morgunblaðinu í gær hafi birst löng og ítarleg lofgjörð til ritstj. blaðsins, skreytt myndum af honum með ýmsum þjóðarleiðtogum. Fyrir handvömm vantar mynd af honum með Berlusconi, sem lengi var honum dyggur vinur og félagi.
** Þetta hefur samt pottþétt ekki verið keypt umfjöllun að þessu sinni hjá 365 miðlum.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, apríl 29, 2016

Góðu fréttirnar eru þó að tveir nauðgarar voru dæmdir í fangelsi

Tveir skjólstæðinga Vilhjálms H. Vilhjálmssonar yngri voru dæmdir í Hæstarétti í gær. Annar þeirra, Andri Karl Elínarson Ásgeirsson, var dæmdur til að sitja 2 ár í fangelsi fyrir nauðgun. Hinn, Magnús Óskarsson, var dæmdur til að sitja í fangelsi í 4 ár fyrir nauðgun.

Tveir aðrir skjólstæðingar Vilhjálms eru nú með fulltingi hans að hóta málsókn ef þeir fá ekki afsökunarbeiðni og skaðabætur frá þeim sem tjáðu sig um Hlíðamálið. Áður hafði Vilhjálmur kært konurnar sem sakað höfðu mennina um kynferðisbrot. Nú ætlar Vilhjálmur að ná því fram með fjárkúgun sem ekki tókst í dómssölum.

Erfitt á ég með að trúa að nokkur maður með sómakennd leiti liðsinnis Vilhjáms H. Vilhjálmssonar. Enda hefur hann alveg ákveðna gerð af skjólstæðingum.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, apríl 27, 2016

Fjlmðlr

Mánudagsleiðari Magnúsar Guðmundssonar í Fréttablaðinu var alveg hreint ágætur. Ekki sakaði að pistill Guðmundar Andra Thorssonar um sama mál — aflandseignir fyrirmenna — var prýðilegur að vanda. Hafði ég þó hálft í hvoru búist við að í stað pistils Guðmundar Andra yrði yfirklórsgrein eftir Jón Ásgeir.

En mánudagurinn var greinilega undantekningin sem sannar regluna sem höfð er í heiðri á Fréttablaðinu: tala um eitthvað annað, allt annað en fjármál eigendanna.

Í gær skrifaði leiðarann Þorbjörn Þórðarson (sá hinn sami og tók geðþekkt viðtal við bankabófana á Kvíabryggju, rétt áður en þeim var sleppt út) og fókusar hann algjörlega á tengsl sitjandi forseta við aflandseyjafélög með mægðum sínum við Moussaieff fjölskylduna. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum væri þetta góður pistill, enda fullkomlega réttmætt að pönkast á ÓRG, ekki síst fyrir þá staðreynd að hann og Dorrit eru í því eina hjónabandi sem ég a.m.k. veit um þar sem annar aðilinn má vera með lögheimili í útlöndum — sem er auðvitað gert til að skattar séu hagstæðari fyrir forsetafrúna og þar með þau bæði.

En hafi Þorbjörn ætlað að tala svo lengi að enginn tæki eftir að hann minntist hvergi á Jón Ásgeir og Ingibjörgu þá mistókst það hrapallega. Undir lokin bendir hann á að um forsetann eigi að gilda það sama og um ráðherra Sjálfstæðisflokksins ef á annaðborð er verið að krefjast afsagnar einhverra. Leiðarinn endar svo á þessum orðum:
„Sú staða er komin upp í íslensku samfélagi að þú mátt helst ekki tengjast neinum sem átti einhvern tímann aflandsfélag ef þú ætlar að vera þátttakandi í stjórnmálum. Er það réttmæt og eðlileg krafa?“
Það liggur við að mann verki að sjá málsvörnina sem felst í þessum lokaorðum og spurningu Þorbjarnar.

Úr því ég er farin að tala um tangarhald eigenda á fjölmiðlum sínum og ærandi þögn fjölmiðlanna um fjármálaplott eigendanna sem þó öllum eru ljós er rétt að færa til bókar hvernig ástsæll fyrrverandi forsætisráðherra reyndi (og tókst?) að kúga fjölmiðla til að fjalla með mildilegri hætti um flokk sinn og ríkisstjórnina. Eða með orðum Illuga Jökulssonar:

„Og komið er endanlega í ljós að stjórnarherrarnir, undir forystu sjálfs forsætisráðherrans, stunduðu fjölmiðlakúgun. Núverandi forsætisráðherra tók líka fullan þátt í að gagnrýna fjölmiðla fyrir að vera ekki nógu hliðhollir sínum flokki og ríkisstjórninni. Tveir þingmenn lögðu nafn sitt við sama dreifbréfið með idjótískri gagnrýni á Ríkisútvarpið og hafi þeir ævarandi skömm fyrir.“

Sagt var frá þessum fjölmiðlamessum fyrrverandi forsætisráðherra í kjölfarið á fréttum um að Erdogan forseti Tyrklands hafi kúgað Angelu Merkel til að draga þýskan grínista fyrir dómstóla fyrir að móðga hans Erdógísku hátign. Erdogan hefur nefnilega megnustu ímugust á þeim sem skaða ímynd hans (hann ber greinilega ekki skynbragð á íróníu) og kærir hvern þann sem hallar á hann orði, auk þess sem hann hefur kúgað stærsta blað Tyrklands til að fylgja línu stjórnvalda.

Það er ekki eðlismunur á framferði framsóknarráðherra og tyrkjasoldáns því báðir misbeita valdi sínu til að kúga fjölmiðlafólk til hlýðni. Það er skammarlegt hvernig framsóknarmenn hafa opinberlega talað gegn Ríkisútvarpinu, hitt er ekki skárra að kalla á yfirmenn fjölmiðla og skamma þá fyrir að umfjöllun um flokkinn sé ekki nægilega jákvæð. Ýmislegt bendir reyndar til að Sigmundur Davíð hafi fengið góðar undirtektir þegar hann talaði við Kristínu Þorsteinsdóttur útgefanda og aðalritstjóra Fréttablaðsins, þótt hún þræti fyrir það. Ekki hefur það reynst henni erfitt að styðja ríkisstjórn ríka fólksins þar sem réttlæting auðmanna virðist beinlínis skrifuð í ritstjórnarstefnu blaðsins.

Enginn þeirra, Jón Ásgeir, Erdogan eða Sigmundur Davíð, eða nafni hans í Hádegismóum, má komast upp með að stýra fjölmiðlum í þá átt að fegra sinn hlut eða endurskrifa söguna. Allir hafa þeir þó reynt, Hádegismóra hefur líklega gengið best, og kemur því ekki á óvart að hann hefur réttlætt afskipti pólsku ríkisstjórnarinnar af ríkisfjölmiðlum þar í landi. En afskipti ráðandi afla af fjölmiðlun er sögulega séð einn helsti fylgifiskur fasismans. Illugi Jökulsson segir fasisma á uppleið í heiminum, því miður bendir margt til að það sé rétt. Það er ekki nóg með að fjármálaheimurinn hafi hunsað reynslu sögunnar af heimskreppum á borð við þá sem varð 1929, heldur virðumst við ekki horfast í augu við hættuna á að fasisminn sem þá fylgdi í kjölfarið geti einnig haldið innreið sína í lýðræðisríkjum.

En hvort sem við sjáum árásir framsóknarmanna sem fasíska tilburði eða bara rugl í einhverjum klikkhausum sem vonandi skolast út af þingi hið fyrsta, þá er aldrei eðlilegt að fjölmiðlar búi við hótanir og skoðanakúgun af hendi ráðamanna. Og heldur ekki að eigendur fjölmiðla noti þá til að ganga erinda sinna, þegja yfir sumu og verja annað.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, apríl 25, 2016

Taprekstur á Tortóla™

Kjarninn hefur verið í umtalsverðu uppáhaldi hjá mér frá fyrstu tíð. Það er því sérstaklega svekkjandi að sjá Vilhjálm Þorsteinsson fyrrverandi gjaldkera Samfylkingarinnar (hrökklaðist frá) setja blett á orðspor þess ágæta miðils. Afhverju játa menn ekki bara þegar þeir vita að komist hefur upp um þá? En nei, hann tók algjöran framsóknarmann á þetta: fylltist heilagri vandlætingu. Mætti í ofanálag á Austurvöll til að mótmæla spillingu ráðamanna sem voru með skúffufyrirtæki hjá sömu lögfræðistofu á Panama og hann. Vilhjálmi hefur sembeturfer verið sparkað úr stjórn Kjarnans. Vonandi verður hann einnig keyptur út.


Málsvörn Vilhjálms, lífeyrissjóðakóngana, Finns Ingólfssonar og yfirhöfuð allra sem þegar hafa verið afhjúpaðir í panamaskjölunum er þessi:


Ég man ekki til þess að hafa átt neitt svona félag.

Ég sagði ekki frá félaginu því það er hætt starfsemi.

Ég borgaði skatta af félaginu (þrátt fyrir að muna ekki eftir tilvist þess) á Íslandi.

Það var enginn gróði af þessu, eingöngu tap.


Sem er svoldið merkilegt í ljósi þess að aflandsfélög eru stofnuð til þess að fela peninga fyrir skattayfirvöldum og/eða til að fjárfesta bakvið tjöldin og græða rosalega. En íslenskir ráðamenn og aðrir fjárglæframenn hafa greinilega eitthvað misskilið uppskriftina. Eða eru bara svona hrikalega lélegir í bissness. Eina sem þeir virðist kunna er að tyggja upp sömu varnarræðuna og hinir. Þetta er nú meira hyskið.

Efnisorð: ,

laugardagur, apríl 23, 2016

Fréttablaðið fellur á prófinu

Leiðari Fréttablaðsins í gær var skrifaður af Fanneyju Birnu Jónsdóttur og fjallaði um hjólreiðar. Nú voru hjólreiðar sannarlega ræddar í vikunni og margir sögðu frá hjólreiðamönnum sem virðast hafa það að markmiði sínu að hrella gangandi vegfarendur (sjá frétt og athugasemdakerfi hér) og að öllu jöfnu hefði ég verið býsna sátt við leiðara Fanneyjar, enda fara kappaksturshjólamenn verulega í taugarnar á mér. En þessi leiðari Fréttablaðsins var nú samt einstaklega illa tímasettur, og ég trúi varla að hjólreiðamál hafi brunnið svo á Fanneyju að hún hafi ekki getað skrifað nýjan leiðara um nýjustu afhjúpun panamaskjalanna.

Kannski er ástæðan sú að starfsfólk 365 miðla hafi ekkert verið varað við. Að Ingibjörg og Jón Ásgeir hafi ekki notað tímann frá því að kastljós-panamaskjalaþátturinn var sýndur til að skýra starfsfólki sínu frá því að nöfn þeirra væru einnig á skrá hjá Mossack Fonseca, þau hefðu farið í svipaðan strútsfeluleik og fyrrverandi forsætisráðherra sem vikum saman þagði yfir sjónvarpsviðtali sem hann vissi að myndi fletta ofan af honum og gera allt vitlaust. Fréttablaðið hefði getað verið tilbúið með stór viðtöl við Jón Ásgeir og Ingibjörgu, annaðhvort hreinskilin og iðrunarfull (hah!) eða með missennilegum útskýringum og undanbrögðum (öllu sennilegra), og prentað á forsíðu og fyllt blaðið. En eigendur blaðsins, samkvæmt þeirri einu frétt sem birt var í gær (sem var ágæt útaf fyrir sig) létu ekki ná í sig, „engin svör bárust“ við fyrirspurnum blaðamanns. Og nú er ekki lengur hægt að segja að starfsfólk 365 miðla viti ekki um skattaskjól eigenda sinna.

Svo kemur blaðið í dag. Leiðari Kristínar Þorsteinsdóttur, útgefanda og aðalritstjóra, er um landbúnaðarkerfið! Þvílík þrælslund, þvílíkt hneyksli.

Kaldhæðnislegast af öllu eru lokaorð leiðarans
„Það á að nota tækifærið og brjóta upp staðnað kerfi, sem enginn hagnast á — nema hugsanlega þeir sem lifa á því að viðhalda óbreyttu ástandi.“
Væri Kristín Þorsteinsdóttir þingmaður fengi hún eflaust mörg rauð spjöld á Austurvelli.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, apríl 21, 2016

Jón Ásgeir kannast líklega enn ekkert við Tortóla

Minnst hissavaldandi frétt aprílmánaðar hlýtur að vera sú sem hefur tröllriðið öllum fjölmiðlum í dag (nema 365 miðlum): að nöfn Jóns Ásgeirs og Ingibjargar Pálmadóttur sé að finna í panamaskjölunum. Það háttar reyndar eins um þau og fyrrverandi forsætisráðherrahjónin: hún er skráð fyrir öllu saman en hann með prókúru.

Til að kynna sér alla þá félaganafnaflækju sem Jón Ásgeir og Ingibjörg hafa reynt að fela sig bakvið er einfaldast að lesa grein Þórðar Snæs Júlíussonar á Kjarnanum sem nær að gera þetta allt mjög auðskilið. Þar segir m.a.:

„Þrátt fyrir að Ingibjörg hafi sjálf verið umsvifamikill fjárfestir fyrir hrun og tekið þátt í mörgum áhættusömum fjárfestingaævintýrum í slagtogi við eiginmann sinn eða ein síns liðs þá virðist hún hafi komið nokkuð vel utan hrunvetrinum. Að minnsta kosti hefur henni tekist að halda mörgum af sínum helstu eignum á Íslandi og í krafti auðs síns tekið yfir aðrar eignir, sem Jón Ásgeir átti áður en lenti í erfiðleikum með að halda vegna þrýstings kröfuhafa, rannsókna sérstaks saksóknara og uppþornaðs lánshæfis. Þar ber helst að nefna stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins, 365 miðla, sem Ingibjörg tók yfir eftir að Jón Ásgeir hafði tryggt sér áframhaldandi stjórn á því vikurnar eftir bankahrunið.“
Önnur grein sem vert er að lesa er leiðari Stundarinnar sem skrifaður er af Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur. Hún lýsir nýliðnum forsætisráðherraskiptum og framboði sitjandi forseta, og snýr sér síðan að ábyrgð fjölmiðla.
„Fjölmiðlum mistókst að veita nauðsynlegt aðhald í aðdraganda hrunsins, þegar þeir voru flestir í eigu hagsmunaaðila og tóku þátt í að móta jákvæða ímynd gagnvart bönkum sem síðan hrundu. Enda voru niðurstöður rannsóknarskýrslu Alþingis á þá leið að efla þyrfti sjálfstæði ritstjórna, setja eignarhaldi mörk og upplýsa um eigendur fjölmiðla.

Í því ljósi var vont að lesa leiðara aðalritstjóra 365, í víðlesnasta blaði landsins, sem dreift er frítt inn á hvert heimili, um að „dylgjur á Alþingi um að forsætisráðherra hafi leikið tveimur skjöldum“ væru „í besta falli hjákátlegar, og í versta falli sjúkdómseinkenni á fárveikri pólitískri umræðu“ þegar hann hafði orðið uppvís að óheiðarleika og hagsmunaárekstri.
[…]
365 miðlar eru í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannssonar, en þau hjónin földu sjálf eignir í skattaskjólum eftir aðkomu sína að efnahagshruninu, afskriftir og afsökunarbeiðni, auk fullyrðinga um að hann ætti nóg fyrir Diet Coke og ekkert á Tortóla.

Aðalritstjóri fyrirtækisins hefur lengi starfað náið með þeim hjónum og gagnrýnt rannsóknir á efnahagsglæpum, eins og Jón Ásgeir hefur sætt. Þegar hann tók til starfa hættu báðir ritstjórar Fréttablaðsins með varnarorðum um inngrip, en 365 miðlar hafa síðan verið leiðandi í gagnrýni á dómskerfið í efnahagsbrotamálum.

Reynslan sýnir að það er ekki umræðan um hagsmuni sem er fárveik, heldur hagsmunirnir sjálfir sem brengla umræðuna.“
Í dag hafa 365 miðlar verið þöglir um uppljóstrunina um aðaleiganda sinn og eiginmann hennar.* Ein skitin frétt, örstutt. Fróðlegt verður að sjá Fréttablaðið á morgun og hvort Kristín Þorsteinsdóttir skrifar leiðarann eða hvað hún segir.

___
* Ég hef skrifað nokkra pistla um hvernig Fréttablaðinu hefur verið beitt í þágu eigenda sinna. Vek nú sérstaklega athygli á tveimur þeirra. Sá fyrri er frá 2012, þar segir frá því er Ingibjörgu sjálfri var fagurlega lýst á síðum blaðsins. Hinn er frá 2014 og fjallar um Aurum málið en þar er einnig komið inn á leiðara eftir þáverandi ritstjóra Fréttablaðsins þar sem hann hrósaði syni Ingibjargar og auglýsir fyrirtæki hans í leiðinni. Fyrirtækið er Sports Direct — sem nú hefur komið í ljós að kemur við sögu í panamaskjölunum, því „eignarhald og fjármögnun á Sports Direct á Íslandi er að hluta til tengt Guru Invest í Panama. Eigandi þess félags er Ingibjörg Pálmadóttir“.

Efnisorð: ,

mánudagur, apríl 18, 2016

Hr. Ómissandi Ragnar Grímsson

Ég tryllist. Helvítis kallhelvítið.

Og helvítis ríkisstjórnin að hafa ekki sagt af sér svo andskotans prímadonnan getur notað „óvissuna“ og „ástandið í þjóðfélaginu“ sem afsökun fyrir að bjóða sig fram sem „kjölfestu“. Og bla bla bla.

HFF

sunnudagur, apríl 17, 2016

Eimskipshjálmar á hvern haus og hana nú

Bilast nú eina ferðina enn allir þeir frjálshyggjupésar sem finnst eðlilegt að börn gangi um með auglýsingar fyrir fyrirtæki. Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi og markaðsstjóri Eimskips kvartar ógurlega undan forræðishyggju Reykjavíkur í pistli á facebooksíðu sinni* og talar fjálglega um símtöl frá foreldrumm sem hringi til að þakka Eimskip fyrir það að barnið var með reiðhjólahjálm og slasaðist því ekki (eða minna en ef enginn hjálmur hefði verið notaður). Í næstu andrá segir hann að merktir hjálmar séu ekki markaðssetning eða auglýsing fyrir fyrirtækið.

Ólafur segir að Eimskip sé nauðbeygt til að merkja hjálmana vegna þess að „Það verður að vera hægt að rekja vöruna til þess er ber ábyrgð á henni.“ Það er hægur vandinn að hafa límmiða innaná hjálminum eins og er t.d. í íþróttaskóm. Einnig má benda á að ábyrgðarskírteini fylgja fjölmörgum vörum. Má ekki bara fylgja miði sem segir hver ber ábyrgðina? Eða skemmir það fyrir ímyndarherferð fyrirtækisins? Ólafur Hand er reyndar harður á því að þarna sé ekkert um neina markaðs- eða auglýsingabrellu að ræða.

„Eimskip otar ekki sölubæklingum að börnum og gerir ekki tilraunir til að selja þeim né foreldrum þeirra gámaflutning í tengslum við þessa gjöf. Það að halda því fram að þetta sé markaðs eða auglýsingabrella er fjarstæðukennt. Það vita allir sem eitthvað vita um markaðsmál að það eru til mun ódýrari og áhrifameiri leiðir til að markaðssetja skipafélag en að velja markhópinn sex ára börn á Íslandi.“
Málið er nú samt það að foreldrar barna sem lenda í hjólreiðaslysum og slasast lítt eða ekki, þökk sé hjálminum, telja sig vera í þakkarskuld við Eimskip.** Eru þeir þá ekki orðnir verulega hliðhollir fyrirtækinu? Velja jafnvel að skipta við það frekar en önnur fyrirtæki? Sömuleiðis eru líklega margir hinna foreldranna sem finnst ekkert athugavert við að börn þeirra hjóli með merkta hjálma, þakklátir fyrir að Eimskip spari sér útgjöldin við að kaupa hjálm. Hvernig er hægt að líta á þetta öðruvísi en svo að Eimskip komi vel út úr þessari ‘ekki markaðs- eða auglýsingabrellu'?

Almanntengillinn Andrés Jónsson er enda algjörlega ósammála Ólafi Hand. DV hefur eftir Andrési:

„Hann [Ólafur] lætur enn fremur eins og tilgangurinn með dreifingunni sé tóm góðmennska en ekki hluti af markaðssetningu fyrirtækis hans (ef svo væri af hverju dreifir hann þá ekki ómerktum hjálmum til barna og sendir svo fréttatilkynningu um það).“

Andrés segir að geta markaðssett til heimila í gegnum grunnskólabörn sé hið heilaga gral í markaðsmálum.

„Það er dreifileið sem kemur markaðsskilaboðum alla leið inn í innsta ból fjölskyldna og á hluti sem verða hluti af daglegu lífi þeirra […] Ég kem ekki auga á þetta óréttlæti sem þetta forríka fyrirtæki hefur orðið fyrir af hálfu borgarinnar að mati Ólafs Williams Hands.“

Mér sýnist Andrés algjörlega afhjúpa markmið Eimskips og handbendi þess með þessum orðum.

Annars tók ég eitt sinn saman pistil um notkunarmöguleika barna með sérstakri áherslu á endurskinsvesti, og svo annan um eimskipshjálmana.

___
* Það er tímanna tákn að upplýsingafulltrúi stórfyrirtækis skrifar innblásinn pistil á eigin síðu í þágu fyrirtækisins. Á að líta út fyrir að vera persónuleg tjáning, en minnir bara á forsætisráðherrafrúna og fjármálaráðherrafrúna að bera í bætifláka fyrir eiginmenn sína, í stað þess að þeir stæðu sjálfir fyrir máli sínu.

** Hvar liggja annars mörkin um hver má auglýsa 'merkja af brýnustu nauðsyn' vörur sem börnum eru gefin og foreldrar þakka fyrirtækjum fyrir að gefa þeim? Eða skiptir það nokkru máli hvaða fyrirtæki það eru sem auglýsa á börnunum? Ekki mótmæltu foreldrar barnana þegar bankarnir gáfu merkt endurskinsvesti. Ætli foreldrarnir yrðu líka elskusáttir ef Mossack Fonseca gæfi merkta reiðhjólahjálma, endurskinsvesti eða gúmmístígvél? Auðvitað ekki í ímyndarbætingarskyni eða neitt svoleiðis, heldur bara vegna þess að þeim þykir vænt um börn og vilja að þau komist heil og þurrum fótum heim.

[Viðbót, síðar] Hér má sjá mynd af Eimskipshjálmi. Í ljós kemur að „framleiðsluaðili“ er Koma, en ekki Eimskip.

Efnisorð: ,

föstudagur, apríl 15, 2016

13. og 14. apríl

Hér verður stuttlega tæpt á þremur fréttum síðustu daga. Ein þeirra er hörmuleg, önnur veikir enn traust á dómstólum, og sú síðasta staðfestir það sem var löngu vitað.

1. Kona myrt
Karlmaður myrti konu sína með skotvopni og svipti sig síðan lífi.


2. Hæstaréttardómur gefur skít í brotaþola
„Hæstiréttur mildaði í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í mars í fyrra en dómurinn dæmdi þá 35 ára gamlan karlmann í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Hæstiréttur dæmdi manninn í dag í níu mánaða fangelsi en þar af eru sex mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára“ [ úr Vísi]. Hann á semsagt að sitja þrjá mánuði inni, labbar líklega út úr fangelsinu eftir einn og hálfan mánuð. Í stað nauðgunar er hann nú dæmdur fyrir kynferðislega áreitni.

„Í hinum áfrýjaða dómi var frásögn brotaþola af málsatvikum metin einkar trúverðug og jafnframt vísað til framburðar vitna og annarra gagna sem styddu að hún hafi orðið fyrir slæmri lífsreynslu að morgni 21. ágúst 2013 að [...], [...]. Einnig var þar tilgreint að skýringar og skynjun ákærða á aðstæðum umrætt sinn fengju á engan hátt staðist og var framburður hans um það atriði metinn með miklum óraunveruleikablæ. Til viðbótar þessu staðfesti ákærði framburð brotaþola um að hún hafi orðið ofsahrædd, en taldi það mega rekja til misskilnings hennar eða ímyndunar. Loks var frásögn ákærða varðandi tímasetningar ekki í innbyrðis samræmi.

Að þessu virtu og öðru því sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi verða ekki vefengdar forsendur héraðsdóms fyrir mati á trúverðugleika framburðar þar fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, um að ákærði hafi brotið gegn brotaþola umrætt sinn.

Við úrlausn máls þessa verður þó ekki framhjá því litið að brotaþoli og ákærði eru ein til frásagnar um það í hverju brot ákærða gegn henni var nákvæmlega fólgið. Hefur hann staðfastlega neitað sök.“
Enda þótt frásögn brotaþola af málsatvikum væri metin einkar trúverðug, og að framburður ákærða væri með miklum óraunveruleikablæ, stóðu hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson samt með karlmanninum.


3. Fyrirmyndarvændislandsfrétt
Í Þýskalandi, þar sem vændi er löglegt* og þessvegna allar vændiskonurnar þar enn glaðari en hinar hamingjusömu konurnar í sömu starfsgrein, sá lögreglan ástæðu til að gera rassíu hjá öðlingunum í Hells Angels sem alveg óvart reka stærsta vændishús Berlínar. Grunur leikur á mansali og að löglegu tekjurnar hafi ekki ratað rétta leið.
„Lögreglan handtók tvo yfirmenn og fjórar svokallaðar maddömmur sem eru taldar hafa stýrt daglegum rekstri. Þá var rætt við 117 vændiskonur og rúmlega hundrað kúnna sem voru á vændishúsinu þegar húsleitin var gerð. Húsið er fjórar hæðir og telur lögreglan að þar hafi fjöldi kvenna verið beittur harðræði, auk þess sem eigendurnir hafi skipulagt svikið undan skatti og ekki greitt í lífeyrissjóði.“
Auðvitað er þetta bara undantekning, susssususs, og ekkert sem bendir til annars (þrátt fyrir að annað megi lesa um annað á Knúzinu*) en að öll hin vændishúsin í Þýskalandi séu með allt uppi á borðum og konurnar hæstánægðar.

___
* Fjórar Knúzgreinar sem vert er að lesa: „Mansal og vændi eru óaðskiljanleg“, „Þrælahald nútímans“, „Markaðsvætt ofbeldi gegn konum“, fyrri og seinni hluti.

Efnisorð: , , , , , ,

miðvikudagur, apríl 13, 2016

Aukinn stuðningur við flokk skattamálaráðherra

Eftir allt það sem á undan er gengið er eins og kjaftshögg að komast að því að Sjálfstæðisflokkurinn stóreykur fylgi sitt. Hvað er eiginlega að þessari heimsku þjóð? Treystir hún í alvöru Bjarna Benediktssyni svona vel? Fyrir kjósendur með lélegt minni hefur Stundin rifjað upp afsakanir Bjarna sem hann notar þegar að honum er sótt, og kallar það „Allt það sem Bjarni vissi ekki“.
1. Vafningur: Vissi ekki hvað hann veðsetti

2. Borgun: Vissi ekki af fjárfestingu föðurbróður

3. Seldi hlutabréf í Glitni í febrúar 2008: Vissi ekki af innherjaupplýsingum þegar hann seldi hlutinn sinn

4. Lekamál í ráðuneyti Hönnu Birnu: Vissi ekki um lekann (þótt sérfræðingar í fjármálaráðuneytinu hefðu rannsakað hann)

5. Móaðist við að kaupa gögn um Íslendinga í skattaskjólum: Vissi ekki að hann ætti félag í skattaskjóli
Sagði þó:
„En það er aðalatriðið að fá í það niðurstöðu og vonandi getur þetta orðið að gagni við að uppræta skattsvik vegna þess að í mínu ráðuneyti, á meðan ég sit þar, verður ekkert skjól að finna fyrir þá sem ekki hyggjast standa undir sínum samfélagslegu skuldbindingum og greiða skatta.“

[Lengri útgáfa samantektarinnar er að sjálfsögðu á Stundinni, þar sem einnig er að finna þessa athugasemd lesanda: „‪Gleymdi hann því ekki líka að hann stofnaði aðgang á stefnumótasíðu?‬‬“]

Fyrir fólk sem heldur að það skipti engu máli hvar peningar eru geymdir, og að íslenskt samfélag muni ekki um milljónir hér og milljónir þar, eða þótt það séu milljarðar sem vantar í samneysluna (þ.á m. heilbrigðiskerfið), þá er hér opið bréf til þingmanna stjórnarflokkanna eftir Gunnar Skúla Ármannsson lækni. Kjósendur ættu líka að taka það til sín.
„Það virðist hafið yfir allan vafa að Bjarni ykkar hafi átt aflandsfélag. Það er staðfest að þið styðjið Ríkisstjórn þar sem Forsætisráðherranum ykkar finnst allt í lagi að fólk eigi aflandsfélag. Ykkur öllum finnst þá í góðu lagi að eiga aflandsfélag. Þar með hafið þið öll lagt blessun ykkar yfir starfsemi aflandsfélaga í heiminum og þær afleiðingar sem starfsemi þeirra valda.

Þessir tveir flokkar studdu innrás í Írak 2001 og það kostaði milljón manns lífið. Það er ekki síður alvarlegt að leggja blessun sína yfir aflandsfélög en að taka þátt í Íraksstríðinu.

Það er talið að 21-31 trilljón dollarar séu faldir í þeim 80 skattaskjólum sem finnast.

Á tímabilinu 1970-2008 hurfu 944 milljarðar dollara frá Afríku í skattaskjól. Á sama tíma voru skuldir Afríku “aðeins” 177 milljarðar dollara, það er fimm sinnum minna. Eingöngu 20% skattur hefði gert Afríku skuldlausa heimsálfu. Skattaundanskotin valda því að heimsálfan er stórskuldug.

Á svipuðu tímabili þá hurfu 7-9 trilljónir dollara frá 139 fátækari ríkjum heims meðan skuldir þeirra voru 4 trilljónir dollara.

Afleiðingarnar eru niðurskurður vegna skulda, sjúkdómar, fátækt, hungur, vanheilsa og dauði. Samkvæmt Unicef deyja 869 börn á klukkustund og flest að nauðsynjalausu. Flest öll þessi fátæku ríki væru í plús ef ekki væri fyrir skattaskjólin. Þau þyrftu enga þróunaraðstoð frá okkur. Þau væru sjálfbjarga og öll þessi börn væru ekki að deyja.

Ég get ekki treyst ykkur til frekari starfa á Alþingi meðan engin hugafarsbreyting á sér stað eða iðrun. Þið verðið að horfast í augu við alvarleika málsins. Þið styðjið stærstu meinsemd veraldarinnar með hegðun ykkar.“

Í öðrum pistli bendir Gunnar Skúli á nýlega rannsókn (hann birtir heimildaskrá, ein helsta heimildin er taxjustice.net) sem „sýnir að skattaundanskot með skattaparadísum er jafn mikil og helmingur allra útgjalda til heilbrigðismála í öllum heiminum. Að borga skatt er samfélagssáttmáli.“


Þetta mættu kjósendur hafa í huga. Já, og þessa mynd Halldórs Baldurssonar.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, apríl 10, 2016

Lesefni á sunnudegi í apríl, viku eftir afhjúpun siðferðishruns

Ég mæli sterklega með lestri pistla sem birtir voru í Stundinni í gær.

Annar þeirra er í raun ræða Illuga Jökulssonar sem hann flutti á Austurvelli í gær. Hann hvetur auðvitað til kosninga og ræðir feril ríkisstjórnarinnar og hvernig hún mun reyna að koma sér undan kosningum, og síðast en ekki síst hvernig Bjarni Benediktsson mun aftur reyna að koma sér í mjúkinn hjá þjóðinni.
„Við munum til dæmis ekki kaupa það ef Bjarni Benediktsson birtist nú allt í einu, nýpússaður af einhverjum spinndokturum, eins og gerðist fyrir síðustu kosningar, þið munið, og byrjar að tala um nauðsyn sátta og samlyndis, og viðurkennir meira að segja að ef til vill hugsanlega kannski hafi mögulega ef til vill verið gerð ein eða tvö mistök. Við kaupum það heldur ekki, ef Bjarni glennir upp augun til að virka einlægur og sáttfús og auðmjúkur, svo við fáumst til að gefa honum frið til að stinga í vasa frænda sinna eigum okkar.

Því við munum vel hvenær við sáum hann síðast glenna svona upp augun, einlægan í framan. Það var í Kastljósi fyrir ári síðan þegar hann þóttist aldrei hafa komið neitt nálægt aflandseyjum: sjálfur Mister Falson frá Seychelles-eyjum. Við skulum ekki kaupa þann Bjarna sem nú verður vafalaust dubbaður upp, gerður svona út af örkinni, vandlega leikstýrt, því við höfum séð hinn sanna Bjarna Benediktsson – þegar hann brunaði niður stigann í Alþingishúsinu til að kynna nýju ríkisstjórnina, með Sigurð Inga talhlýðinn á eftir sér – þar sáum við hinn sanna Bjarna Benediktsson – nánast frávita af hroka.“
Hinn pistilinn, eða öllu heldur leiðara, skrifar Jón Trausti Reynisson. Sá fjallar um komandi kosningar (hvenær sem þær verða) og fer enn dýpra en Illugi í hvernig reynt verður að blekkja kjósendur.
„Á næstu mánuðum verðum við sannfærð um það að krosstengdir meðlimir ríkasta eina prósentsins séu best til þess fallnir að gæta hagsmuna 99 prósentanna.“

Svo ég skipti algjörlega um umræðuefni og fjölmiðil þá vil ég líka mæla með að fólk hlusti á viðtal sem Leifur Hauksson í Samfélaginu tók við Kristinn Hauk Skarphéðinsson dýravistfræðing á fimmtudag um varp hrafna í borgarlandinu og þá staðreynd að þeir eru ekki friðaðir. Fyrir nú utan að þetta er allt mjög fróðlegt og að mestu leyti gremjulegt (s.s. að steypt sé undan hrafninum*), ekki síst það að framsóknarþingmenn skuli hafa gefið sér tíma í miðjum hamaganginum til að berja saman frumvarp til víkka út heimild til að skjóta álftir sem annars eru alfriðaðar. Og það er í framhaldi af því sem Kristinn Haukur segir stutta en mjög fyndna sögu, sem kætir vonandi fleiri en mig.___
* Eitt var þó rangt sem fram kom í þættinum: Hrafnshreiðrið á Kvennaskólanum hefur ekki fengið að vera í friði; það var fjarlægt í vetur.

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, apríl 09, 2016

Sagnfræðingar sjónvarpsstöðvanna

Mér er alveg að meinalausu sú frægð og upphefð sem Guðni Th. Jóhannesson hefur hlotið í kjölfar tíðra heimsókna sinna í sjónvarpssal undanfarna viku. Sem heiðursgestur Gísla Marteins í Vikunni naut hann mikillar hylli tvítóðra sjónvarpsáhorfenda (sem einnig hópglöddust yfir skemmtilegri samlíkingu Dóra DNA). En það vill nú bara svo til að Guðni Th er ekkert eini sagnfræðingurinn í sjónvarpi. Annar sagnfræðingur sem er tíður gestur á skjánum en þá hjá ÍNN (Íslands nýjasta nýtt) er Hallur Hallsson sem er fastagestur í Hrafnaþingi Ingva Hrafns.

Ég sé Hrafnaþingið ekki oft en þá er Guðlaugur Þór Þórðarsson styrkjakóngur og alþingismaður – sem í umróti vikunnar hefur komið fram sem íhugull og rólyndur skynsemismaður í sjónvarpsviðtölum – yfirleitt alltaf við borðendann. Nú var hann fjarri góðu gamni en gestur þáttarins var Björn Jón Bragason (ritstjórinn góðkunni), sem er sagnfræðingur eins og Hallur. Sá síðarnefndi kom þó ekki fyrr en langt var liðið á þáttinn og sjálfur þáttastjórnandinn talaði eins og guð úr vélinni frá Flórída.

Umræðuefni Hrafnaþingsins var auðvitað forsætisráðherraflanið en þátturinn var tekinn upp þegar vantrauststillagan var til umræðu. Mesta furða hvað þátturinn var æsingalaus, svona miðað við venjulega, og menn almennt sammála um að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hafi verið dauðadæmd eftir Panamaskjólsþáttinn á sunnudag. En svo hóf Hallur upp raust sína. Ég hef ekki lengri formála, hér eru nokkur dæmi.

„Í stóra heiminum , þá er búið að draga upp þá mynd í gegnum þessa vitleysu Ríkisútvarpsins, það er búið að draga upp þá mynd að Ísland sé einhver Tortóla glæpamanna og svikara.“

„Ríkisútvarpið glæpavæddi Sigmund Davíð.“

„Ríkisútvarpið er undirförull fjölmiðill“.

Muni fólk ekki eftir rödd Halls og áherslum í tali þá er nauðsynlegt að hlusta á a.m.k. þennan hluta þáttarins.* Í félagsskap þessa manns, og Ingva Hrafns, situr Guðlaugur Þór löngum stundum og unir sér vel.

Það er líka hægt að skemmta sér vel yfir Hrafnaþingi nú sem endranær. Það spillir þó heldur gleðinni tilhugsunin að til sé fólk sem finnst þessir menn spakir að viti.

Einhvernveginn hallast ég heldur að Guðna Th. og Ríkissjónvarpinu.**

___
* Þátturinn frá í gær er ekki enn kominn á vefsíðu ÍNN (ég mun setja þangað tengil til einföldunar þegar þar að kemur) en er í endursýningu í dag í sjónvarpinu og má eflaust sjá hann næsta sólarhringinn með tímaflakksaðferðinni.
Þátturinn byrjar kl. 18 og heldur áfram kl. 18:30. Það er í þeim hluta sem Hallur birtist og tilvitnuð orð hans hér byrja að streyma fram þegar 17 mínútur eru liðnar. Best er að hlusta til enda, því áður en lýkur upplýsir Hallur um „árásina að utan“. (Sjá einnig hjá Agli Helgasyni.)

** Það gæti annars verið sterkur leikur hjá Ríkisútvarpinu að útskýra fyrir Íslendingum að Jóhannes Kr. Kristjánsson ritstjóri Reykjavik Media er ekki starfsmaður Ríkisútvarpsins, og að útgönguviðtalið fræga var ekki Kastljósviðtal. Kannski gæti Guðni Th tekið það að sér; ekki eru aðrir sagnfræðingar sem ég hef talið hér upp líklegir til þess.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, apríl 07, 2016

Þetta var ekki það sem mótmælendur fóru fram á

Það er mér áfall að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur skuli hafa sammælst um að setja annan skúnk í embætti forsætisráðherra eftir að þessi með Messíasarkomplexinn hrökklaðist frá völdum.

Forystumenn hinnar ‘nýju’ ríkisstjórnar segja að kosið verði í haust en neita að gefa upp dagsetningu. Segja að það ráðist af því hvernig gangi að klára stór mál. Eða með öðrum orðum: ef stjórnarandstaðan vogar sér að samþykkja ekki allt umyrðalaust (eða þvælast ekki fyrir) því sem ríkisstjórnin ætlar sér þá fresta þeir kosningum út í það óendanlega.

Helvíti er annars hressandi að lesa í morgunsárið að nýi ráðherrann er dóttir Alfreðs Þorsteinssonar! Í alvöru, datt þeim engin manneskja í hug sem er ekki tengd spillingu?

Ein spurning að lokum. Er Sigurður Ingi hæfur til að taka við forsætisráðuneytinu? Þá á ég við: hefur hann áhuga á miðaldra grjótgörðum?

Efnisorð: ,

þriðjudagur, apríl 05, 2016

Á svo Framsókn bara að halda áfram í ríkisstjórn eins og ekkert sé?

Dagurinn hefur verið með ólíkindum. Nýjasta vendingin er sú að Sigmundur Davíð hafi ekkert sagt af sér heldur „stigið til hliðar um óákveðinn tíma“. Og ég sem hélt í morgun þegar hann keyrði til Bessastaða að hann væri að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Að setja Sigurð Inga Jóhannsson í sæti forsætisráðherra er fáránlegt, og ekki bara vegna þess að viðbrögð hans við lygaþvælunni úr Sigmundi um Wintris-málið var að segja að það væri „flókið að eiga peninga á Íslandi“ og „einhvers staðar verða peningarnir að vera“. Framsóknarflokkurinn hefur staðið grimmt með Sigmundi Davíð eftir að Tortólafélagið komst í hámæli. Þar hefur hver þingmaðurinn og ráðherrann stigið fram á fætur öðrum og borið blak af lygalaupnum. Nú síðast í dag var Sigrún umhverfisráðherra enn að mæra Sigmund. Þetta fólk þarf að sjálfsögðu að víkja úr stjórn landsins.

Ekki hefði verið skárra að Bjarni Ben tæki við stjórnartaumunum, Engeyjarprinsinn sjálfur með ættingjana í Borgunarmálinu og sjálfur með Vafning um hálsinn. Svo ekki sé talað um aflandseyjafélag sem hann var svo ansi heppilega búinn að gleyma að hann ætti. Eða vissi ekki hvar var.

Það hefur verið alveg verið ljóst frá fyrstu dögum þessarar ríkisstjórnar að þetta er ríkisstjórn ríka fólksins. Hún hefur hækkað matarskatt og lækkað auðlegðargjald. Þetta er ríkisstjórn þeirra sem vita ekki aura sinna tal eða hvar þeir eru geymdir, og ljúga þegar þeir eru spurðir.

Ríkisstjórnin þarf að víkja. Það er hreint ekki nóg að einstakir þingmenn eða ráðherrar skipti um sæti.

Það er með ólíkindum ef þeir komast upp með þetta.


Efnisorð: , ,

sunnudagur, apríl 03, 2016

Þriðjungur ríkisstjórnarinnar með panamahatt

Reykjavik Media, Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska blaðið Süddeutsche Zeitung réðust öll gegn Framsóknarflokknum og forsætisráðherra vorum í kvöld með gagnaleka frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca, með tilstilli Ríkisútvarpsins sem færði pólitíska áróðursþáttinn Stundina okkar sérstaklega til á dagskránni til að sýna Kastljós á sunnudegi, þátt helgaðan skattaskjólum.

Fyrirfram hefði mátt halda að ekkert nýtt kæmi í ljós í Panama-Kastljósþættinum. Það var öðru nær. Svo ítarlega var farið í aflandseyjafélagseign og félagaskipti forsætisráðherrahjónanna að öllum má vera ljóst að Sigmundur Davíð hefur logið margvíslega varðandi það mál. (Enn hefur þó ekki komið í ljós hvort í raun hafi verið greiddur skattur – og þá fullur skattur af peningunum á Tortóla — og verður kannski aldrei hægt að komast að því). Viðtalið þar sem hann áttar sig á að spyrjendurnir vissu allt um Wintris var afar áhrifamikið. Þar hjálpaði til að frá því að það viðtal var tekið hefur forsætisráðherra frúin ‘kosið’ að skýra frá aflandseyjafélaginu. Og þarna fengum við semsagt að sjá hvað varð til þess að ‘hreinskilna facebookfærslan’ var birt.

Styttri umfjöllun fengu lygar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem þrætti fyrir í Kastljósi í fyrr að hafa nokkurntíma átt aflandseyjafélag. Einnig var fjallað um Ólöfu Nordal og borgarfulltrúa úr Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki. Þorbjörg Helga er hætt í borgarstjórn en þar er Sveinbjörg enn (þótt í leyfi sé) en hún er lögfræðingurinn sem veit ekki hvort eða hvenær félagi er slitið. Svo var einnig fjallað um Júlíus Vífil sem er einn fárra sem fór útí aflandseyjabissness eftir hrun, eða svo seint sem 2014. Hann segir að þarna geymi hann„eftirlaunasjóð“ (eru ekki allir sem sanka að sér peningum meira og minna með það í huga að njóta þeirra á elliárum?), sem hann telur líklega að hljómi betur en að hann sé að koma fé í skjóli frá skattheimtu eða til að fela eignarhald sitt á fyrirtækjum, sjóðum eða félögum á Íslandi eða erlendis. Júlíus Vífill átti sterka senu þar sem hann reyndi að koma sér undan viðtali við Helga Seljan og sagðist vilja tala við hann síðar. Helgi bíður örugglega enn við símann eftir að Júlíus hringi í sig.

Einna magnaðast (fyrir utan alla SDG umfjöllunina) var einmitt viðtal við Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í skattarétti við Háskóla Íslands, sem „lýsti því yfir að ekkert skattalegt hagræði fælist í því að eiga félag í skattaskjóli. Hann sagði ákvæði í skattalögum koma í veg fyrir það. Í umfjöllun Reykjavík Media kemur fram að hann hafi verið milliliður Júlíusar Vífils um stofnun fyrrnefnds félags hans í Panama“ Og ekki nóg með það heldur virtist Kristjáni langa mjög til að reka útibú frá Mossack Fonseca á Íslandi. Það hlýtur að losna staða lektors í skattarétti á næstu dögum, ef Háskóli Íslands vill ekki verða fyrir enn meiri álitshnekki en orðið er.

Já og talandi um panömsku lögfræðistofuna Mossack Fonseca. Þótt hún sé ein sú stærsta í heimi aflandseyja, leynireikninga og skattaskjóla, þá er hún ekki sú eina. Það gæti þessvegna verið að fullt af öðru ‘mektarfólki’ á Íslandi feli peningana sína í skattaskjólum þótt það hafi ekki átt viðskipti við þetta fyrirtæki. Þetta var bara sýnishorn af því hvernig fólk sem hefur fæðst hér og gengið í skóla, notið heilbrigðisþjónustu og ekið eftir íslenskum vegum greiddum af íslenskum skattborgurum, telur sér ekki skylt að taka þátt í að reka þetta samfélag nema þá til að stýra eignum ríkisins í hendurnar á útvöldum vinum og ættingjum.

Og þetta á auðvitað ekki bara við um Ísland, heldur stunda allra þjóða kvikindi þennan leik. Sigmundur Davíð er í fríðum hóp þjóðarleiðtoga í Panamaskjölunum. Hinir eru frá Írak, Jórdan, Katar, Sádí Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Úkraínu. Pútín kom lítið við sögu en ég hafði haldið að þátturinn snerist ekki síst um hann og íslenski partur sögunnar væri einskonar aukaefni. Og hvar var Assad? Þessi listi fellur annars ágætlega að upptalningu DR1 á þeim sem nýta sér skattaskjól: auðmenn, harðstjórar, spilltir pólitíkusar, hryðjuverkasamtök og eiturlyfjabarónar. Þetta er félagsskapurinn sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar og borgarfulltrúar kjósa sér.

Í sjónvarpsfréttum eftir Panama-Kastljósþáttinn var talað við Guðna Th. Jóhannesson, sem virkaði sjokkeraður. Hann segir að uppgjörinu við hrunið sé ekki lokið.
„Bankahrunið varð magnaðra hér en annarstaðar, svo áttum við að hafa verið best í endurreisn. Núna virðist vera að koma á daginn að við höfum hér mörg verið betri að fela slóð en aðrir, og það hlýtur að hafa áhrif á það hvernig við stígum næstu skref.“
Það voru fleiri slegnir en Guðni Th., og næstu skref hljóta að vera sú að að koma þessari ríkisstjórn frá völdum.

Efnisorð: , , , ,