laugardagur, september 29, 2012

Jóhanna og tilkynningin

Það er eiginlega ómögulegt að ræða um þá tilkynningu Jóhönnu Sigurðardóttir að hún ætli að hætta í stjórnmálum án þess að síðustu ár hennar sem forsætisráðherra yfirgnæfi allan þingmannsferilinn þar á undan. Jafn ómögulegt virðist vera að aðskilja forsætisráðherraferilinn frá störfum núverandi ríkisstjórnar.

En svo það sé á hreinu þá hefur Jóhanna alltaf verið framúrskarandi þingmaður og er greinilega í stjórnmálum af hugsjón en hvorki í hagsmunagæslu fyrirtækja né til að skara eld að eigin köku. Hún hefur haldið heilindum sínum alla þá áratugi sem hún hefur verið á þingi, en þar eru eins og kunnugt er þingmenn sem þessi lýsing á ekki við um. En þó Jóhanna standi styrkum fótum sem stjórnmálamaður hefur örugglega ekki verið auðvelt fyrir hana að taka að sér að stýra ríkisstjórn sem fyrirsjáanlegt var að yrði óvinsæl. Skítmokstur er ekki skemmtilegur og þeir sem er verið að þrífa upp eftir kunna greinilega ekki að meta hreinsunarstarfið.

Ríkisstjórninni, undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur hefur þó tekist fjandi margt og sumt framar vonum. Hver hefði til dæmis trúað að vinstristjórn hefði góð tök á fjármálum? Jón Steinsson hagfræðingur sagði t.a.m. nýlega að henni hafi gengið vel að koma hagkerfinu aftur á rétta braut eftir hrunið. Miðað við hve silkifóðrið í ríkiskassanum var illa farið og með snýtuförum, þá er merkilegt að sjá að hér er að mestu leyti allt í góðum gír.

Það er líklega rétt ákvörðun hjá Jóhönnu Sigurðardóttur að hætta. Hún tók við einhverju erfiðasta búi sem um getur og hefur staðið sig afar vel þrátt fyrir óvægna gagnrýni frá stjórnarandstöðu í tilvistarkreppu, kvótastyrktu málgagni ritstj. og öðrum hrunvöldum og hrunverjum. En nú er hún að verða sjötug og enda þótt hún hafi fullt starfsþrek og langlífi ættingja hennar bendi til þess að hún eigi mikið eftir, þá er skynsamlegt af henni að hætta núna. Hún er heldur ekki ómissandi fremur en aðrir (betur væri ef forsetinn gæti skilið þau einföldu sannindi).

Seta Jóhönnu í embætti er söguleg fyrir marga hluta sakir, hún hefur leitt fyrstu hreinu vinstristjórnina á Íslandi og er fyrsti forsætisráðherra (líklega í heimi) til að vera opinberlega samkynhneigð, auk þess sem hún er fyrsta konan til að gegna því embætti á Íslandi.

Þó Jóhanna hafi enn ekki látið af störfum er henni hér með þakkað allt hennar óeigingjarna starf sem þingmaður og nú síðast forsætisráðherra.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, september 27, 2012

Konur á söluskrá

Af mörgum ótíðindum þessarar viku er framboð Brynjars Níelssonar sínu verst. Í fréttatilkynningu um framboðið segir hann að sér sé „hugleikin baráttan fyrir réttarríkinu, frelsi einstaklingsins til orða og athafna, sem og hið opna frjálsa þjóðfélag. Að þessum grunnstoðum borgaralegs samfélags er vegið freklega nú á tímum.“

Það að þarf auðvitað einhver að taka að sér að verja réttaríkið fyrir feministum (öfug sönnunarbyrði!) Það þarf að verja fyrir þeim frelsi einstaklingsins til orða (það má alveg hóta feministum nauðgun!) og athafna (kallar hafa rétt á að kaupa sér drátt!) og hið opna frjálsa þjóðfélag (aðgengi að klámi!) — að þessum grundvallarþörfum karla vega feministar freklega.

Ekki að það hefði verið gæfulegt hefði hann verið ráðinn sem hæstaréttardómari, en komist Frelsisverðlaunahafinn Brynjar á þing má ljóst vera hvert hans fyrsta verk verður: að leggja til atlögu við lögin sem banna kaup á vændi. Hann mun róa að því öllum árum að karlar hafi óheftan aðgang að konum til að hjakkast á þeim að vild.

Næsta verk hans verður líklega að hjóla í lög um kynferðisbrot svo þau endurspegli hugarheim hans; að konum sé aldrei nauðgað, þær eru bara að ljúga, helvískar. Konur sem kæra karla fyrir nauðgun verði svo umsvifalaust dæmdar fyrir meiðyrði, lygi og lauslæti.

Baráttumál Brynjars á þingi verða: engir karlmenn dæmdir fyrir nauðgun og konur á söluskrá.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, september 23, 2012

Lof og last

LOF

Brynhildur Björnsdóttir fyrir pistil um Chris Brown og firringu samtímans þegar kemur að ofbeldi gegn konum.

Páll Ásgeir Ásgeirsson fyrir þarfa hugvekju um náttúruvernd.

Knúzfærsla þar sem haldið er áfram að kynna feministablogg. Lofsyrðin falla sérstaklega fyrir þessa athugasemd um „dómstólaáráttu“ í umræðu um nauðganir: „Eins og þetta snúist allt um réttarkerfi. En nauðganir eru ekki vandamál réttarkerfisins heldur okkar allra. “

Linda Pé fyrir að vekja athygli á því að réttindi dýra eru tryggð í þeirri stjórnarskrá sem kosið verður um 20. október. Dýraverndunarreglan hljóðar svo og er númer 36: "Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda í útrýmingarhættu." Það er góð áminning hjá henni og gefur sannarlega tilefni til að merkja já við „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Alþingisvaktin. Fyrir umfjöllun um viðskiptafortíð, hagsmunatengsl, hræsni og kjánaskap þingmanna.

Allir grunnskólar landsins munu fá eintak af stuttmyndinni FÁÐU JÁ ­– um kynlíf og samþykki. Það er lofsvert framtak sem nýtast mun sem forvörn gegn nauðgunum.

LAST

Sveitarstjórnarfulltrúar sem gera ekki grein fyrir hverjir studdu þá til valda. Sjálfstæðismenn þar fremstir, hafa líklega mest að fela, eins og venjulega.

Fangelsismálastofnun. Það er forkastanlegt að fólk sem hlotið hefur dóma sé látið vinna á lögfræðistofum, það hlýtur að flokkast sem óvenju grimmileg refsing í ómannúðlegu umhverfi.

Efnisorð: , , , , , , ,

föstudagur, september 21, 2012

Gengisfelling orða

Pistillinn „Ofbeldiskonur“ eftir Heiðu B. Heiðars vakti athygli mína en innihald hans reyndist annað en ég hélt. Hann fjallar semsé ekki um konur sem beita ofbeldi heldur konur sem meina barnsfeðrum sínum um að hitta börnin. Ástæður þess að þær leyfa ekki umgengni við börnin eru ekki ræddar (stundum er verið að forða börnunum frá því að vera hjá föður sem er í mikilli vímuefnaneyslu eða hefur beitt þau líkamlegu ofbeldi) en því hiklaust haldið fram að fái ekki faðir að ekki að hitta börn sín sé það ofbeldi. Hvernig hægt er að kalla það ofbeldi er mér fyrirmunað að skilja, kannski fá barnsfeðurnir marblett aðra hverja helgi.

Þegar talað er um ofbeldi á fólk oftast við líkamlegt ofbeldi; það er yfirleitt tekið fram þegar átt er við kynferðislegt ofbeldi eða andlegt ofbeldi. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða, en ofbeldi skal það heita samkvæmt greinarhöfundi, sem situr í stjórn Félags um foreldrajafnréttti (áður Ábyrgir feður).*

Í athugasemdakerfinu (úff, DV) ægir svo saman 'allskyns' ofbeldi. Sumir tala um andlegt ofbeldi kvenna gegn körlum, aðrir líkamlegt ofbeldi sem konur beita börn ogsvoframvegis. Fæstir líta sömu augum á ofbeldi og greinarhöfundur. Samkvæmt henni er ofbeldi að leyfa ekki einhverjum eitthvað. Þeirri skilgreiningu deili ég ekki með henni.

___

* Ég er ekki að mæla því bót þegar fólk beitir börnum fyrir sig til að hefna sín á fyrrverandi maka (þann leik leika bæði karlar og konur) en ég mun seint kalla það ofbeldi.

Viðbót: Talandi um félagsskapinn Ábyrga feður (nú Félag um foreldrajafnrétti) og ofbeldi. Hér er pistill um Bjarka Má Magnússon, einn þeirra sem sat í stjórn Ábyrgra feðra. Þeir eru nefnilega ekki allir engilbjartir sakleysingjar, karlarnir sem krefjast aukinnar umgengni eða forræðis yfir börnum sínum, og stundum er bara frekar skiljanlegt að mæðurnar vilji ekki láta börnin í hendurnar á þeim.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, september 20, 2012

Dómur yfir nauðgara og vændiskúnna

Það er ánægjulegt að Hæstiréttur þyngdi dóminn yfir Stefáni Þór Guðgeirssyni. Í héraði var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsisvist en fimm ár í Hæstarétti. Dómurinn hefði sannarlega mátt vera mun þyngri en fimm ár en er þó spor í rétta átt.

Stefán Þór er vændiskaupandi og nauðgari og á sannarlega skilið þá refsingu sem hann fær.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, september 19, 2012

Viðhorf Baldurs Hermannssonar til nauðgana

Stundum finnst mér að ég sé að verða ónæm fyrir öllu því kvenhatri sem allstaðar blasir við. En í gær las ég bloggfærslu Hildar Lilliendahl um Baldur Hermannsson og saup hveljur.

„Svo sannarlega tek ég undir það, þá þekktist ekki að tveir eða fleiri réðust á einn og yrði maður undir í slagnum þá voru ákveðin takmörk virt. Þá var drengskapur í hávegum hafður. Ég kynntist öllu þessu á eigin skrokki. Maður misþyrmdi ekki föllnum andstæðingi. Á hinn bóginn verður víst að segja hverja sögu eins og hún gerðist – það var mjög til siðs í Eyjum að serða blindfullar konur eða konur í ölsvefni, sem nú er kallað. Í þá daga var sagt að þær væru “dauðar”. Einn góður vinur minn, indælismaður og virtur maður í Vestmannaeyjum núna, dró þær sofandi inn í tjald og sarð snöfurlega. Eina sænska tók hann slíkum tökum. Að þessu höfðu Eyjamenn góða skemmtun. Veit ekki hvernig tískan er núna.“

Hildur bætir því við að í samskiptum þeirra Baldurs hafi komið fram „að það væri „mála sannast“ að Sóleyju [Tómasdóttur] dreymdi um nauðgun enda hefði hún upplifað það sem nauðgun að eignast son — og að vera mætti að langstærstur hluti nauðgunarmála væri hreinn uppspuni.

Baldur Hermannsson er ólýsanlegur viðbjóður.

Efnisorð: , ,

föstudagur, september 14, 2012

Stórfyrirtækjum allt!

Á leið minni eftir Miklubrautinni rak ég augun í nýstárlegar merkingar, skilti sem bentu til að undirgöngin við Lönguhlíð væru neðanjarðarlestastöð. Ég hugsaði með mér að þetta væri einhver listrænn gjörningur (Kjarvalsstaðir eru þarna í næsta nágrenni) og svosem sniðugt útaf fyrir sig. Vorkenndi þó túristum sem kannski myndu halda að þarna væri í rauninni hægt að ná lest.

Síðan sá ég auglýsingu í strætóskýli sem með sama neðanjarðarlestarmerki — og áttaði mig þá á að það sem ég hafði haldið að væri sprell á listrænum forsendum var í rauninni auglýsing fyrir Icelandair. Auglýsing sem sett er niður í borgarlandslaginu eins og hún eigi heima þar, eins og það sé ekkert sjálfsagðara en leggja almannarými undir dulbúnar auglýsingar.

Það er líklega flestum Reykvíkingum í fersku minni þegar borgarstjórn leyfði einkafyrirtæki (Vodafone) að setja mark sitt á 17. júní hátíðahöldin árið 2003 svo um munaði. Ég þekki ekki nokkra manneskju sem hafði ekki skömm á þessu tiltæki. Eftir hrun var þessi einkavæðing 17. júní talin ein af einkennum markaðsvæðingar stjórnmálanna, eða hvað það var nú kallað þegar peningamenn gátu svínbeygt allt þjóðfélagið til að sitja og standa eins og þeim sýndist.

Talandi um hrun, það er eins og mig minni að Icelandair (sem einu sinni hét Flugleiðir og svo FL Group) hafi komið þar nokkuð við sögu (FL Group átti hlut í Glitni og Glitnir átti hlut í FL Group), þá undir stjórn Hannesar Smárasonar. En nú hefur semsagt borgarstjórn, borgarráð eða hver það er innan borgarapparatsins sem vélar um almannasvæði, ákveðið að það sé nú bara gaman að leyfa stórfyritæki að setja upp auglýsingar á nýjum og óvæntum stöðum. Enda er fyrir mestu að greiða götu fyrirtækja svo þau græði sem mest. Því eins og við vitum þá hagnast allt samfélagið á svona góðum fyrirtækjum, bara ef þau fá að leika lausum hala.

Mikil er skömm þeirra sem leyfðu þetta.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, september 13, 2012

Lof og last

Lof

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra fær lof fyrir að gefa út reglugerð sem bannar að grunnskólar verði reknir í hagnaðarskyni.*

Vanda Sigurgeirsdóttir fyrir svar við skítakommenti karlkynsfótboltaþjálfara um að menn hans hafi spilað eins og „kellingar“. Eins og kunnugt er (þeim sem fylgjast með fótbolta) er karlalandsliðið afspyrnulélegt samkvæmt styrkleikalista, eða í 130. sæti, en kvennalandsliðið í 16. sæti á lista. Það er því fáránlegt af fótboltakörlum að tala á niðrandi hátt um getu kvenna á fótboltavellinum.

Sif Sigmarsdóttir fyrir fínan pistil þar sem hún líkir mannréttindabaráttu svartra og feminista saman — og viðbrögðum við þeirri baráttu.**

Ritstjórn Knúzzins fyrir samantekt og uppsetningu á hárbeittri ádeilu á hverjir eru skipaðir í nefndir og hverjir ráðnir á fjölmiðla og í Hæstarétt. Sláandi framsetning á kynjamisrétti.

Last

Sama dag og Knúzið birti myndasyrpuna þar sem karlar sátu við hvert borð og einokuðu fjölmiðla með nærveru sinni var tilkynnt að 365 miðlar hefðu ráðið karlmann í vinnu. Engum fréttum fer af því að konum hafi verið boðið starfið.

Björn Zoëga fyrir að nota gamla ég-get-fengið-betri-laun-annarstaðar aðferðina til að heimta hærri laun en háu launin sem voru hærri en hæstu laun ríkisforstjóra eiga að vera.

Og í framhaldi af því: Guðbjartur Hannesson, ráðherrann sem fannst upplagt að halda í svona góðan mann.

Karlanefndin undarlega sem hefur ákveðið að best sé að gera eins og LÍÚ segir.

___

* Reglugerðin er einnig í boði eiganda Menntaskólans Hraðbrautar sem greiddi sér 82 milljónir útúr rekstrinum og fór fram á sífellt hærri fjárframlög frá ríkinu — sem hann og fékk: 192 milljónir króna frá ríkinu umfram það sem honum bar —  á tímum ráðdeildar Sjálfstæðisflokksins í málum þjóðarinnar.

** Aldeilis kostuleg athugasemd er komin við stúf úr pistli Sifjar.

Efnisorð: , , , , , ,

miðvikudagur, september 05, 2012

Kristniboð

Trúleysingjum er oft núið um nasir — og þá ekki síst þeim sem eru í ónafngreinda félagsskapnum á netinu og félaginu sem stendur fyrir borgaralegum athöfnum — að þeir séu svo vantrúaðir að það jafngildi trú. Félagsskapur þeirra sé trúfélag. Þetta svíður trúleysingjum skiljanlega.

Það hindrar þó suma þeirra ekki í því að snúa sér að feministum (sem þeim er í nöp við) og nota sömu 'röksemdir' gegn þeim. Feminismi og tjáning feminista er kallað trúarafstaða og trúaryfirlýsing. Feminismi er sagður vera sértrúarhreyfing og trúarbrögð. Feministar eru samkvæmt þessu ofsatrúarfólk sem hittist á safnaðarheimilum feminista.

Kristinn segir 4.9.2012 kl. 17:08: […] Spurðu á næsta safnaðarheimili femínista áður en þú lætur þér detta í hug að skrifa bók um þínar eigin fantasíur eða annarra, því annars munu þeir afmyndaðir í framan af hneykslan hvetja samfélagið til að þvo hendur sínar af þér og brengluðum löngunum þínum. […]

Kristinn, 4. September, 2012 at 12:33: Þetta er aflestrar eins og trúaryfirlýsing. “Ég var villuráfandi guðleysingi, en svo fann ég guð – og nú sé ég að meintar “rökræður” þeirra og “gagnrýni” eru bara tuð sem stafar af skorti á skilningi”. […] Það er þessi háðslega meðferð femínista á andstæðum skoðunum sem bendir til þess að um sértrúarhreyfingu sé að ræða. […]

Kristinn, 4. September, 2012 at 14:50: Frábær staðfesting á því að “þið” skilgreinið einfaldlega andstæðar skoðanir og hugmyndir sem eitthvað sem þið frábiðjið ykkur. Lokuð hugmyndafræði. Trúarbrögð.

Kristinn, 4. September, 2012 at 18:26: […]En þegar samræðan er bara á þann veg að ofsatrúarfólk tjáir sig með einum fyrirfram ákveðnum hætti og sussað er á aðra er náttúrulega ekki um neina samræðu að ræða, né heldur hina einu sönnu jafnréttisstefnu, heldur er um trúarafstöðu að ræða sem heitir femínismi og er til hliðar við hitt dótið.

Þetta eru málefnaleg rök hjá Kristni og djúp og margslungin pæling, klöppum fyrir því.

___

* Einhver Guðjón Örn leggur Kristni lið í baráttunni fyrir málfrelsi karla, ekki veitir af. Hann segir m.a. þetta: „Slík “us against them” skilgreining er ein af 14 skilgreiningum sem Berkley Háskóli gefur út varðandi eiginleika sértrúarsöfnuða“ og „Self fullfilling prophecies eru líka oft notuð af sértrúarsöfnuðum sem “rök”. Ég veit reyndar ekkert um trúarskoðanir Guðjóns Arnar en þegar hann fer að tala um 'ad hominem', sem er frasi sem er í miklu dálæti hjá ónafngreinda trúleysisfélagsskapnum, þá þykir mér líklegt að hann sé einn þeirra.

Efnisorð: , ,

laugardagur, september 01, 2012

Lof og last

Stundum hef ég hvorki tíma né nennu til að skrifa um allt það ég vildi eða hef ákveðið að skrifa pistil um ákveðið málefni og hin liggja óbætt hjá garði. Undanfarið hef ég því ekki sagt orð um ýmsar fréttir, greinar og pistla þó ég hafi haft ástæðu til þess. Samt finnst mér ómögulegt að sleppa því alfarið. Þessvegna ætla ég nú að setja tengla á hitt og þetta sem ég hef skoðun á, án þess þó að rökstyðja það sérstaklega. Flokka það þó eftir því hvort mér líkar eða mislíkar efni og efnistök.* Ég hef gert það áður og geri eflaust einhverntímann aftur, þó efast ég um að það verði daglegur siður að birta bara stuttlega álit mitt.

Lof

Helga Þórey Jónsdóttir skrifaði frábæran pistil á Knúzið um hvað þyki þess virði að ræða. Þar koma Egill Helgason og margir karlar sem hata konur við sögu og Helga Þórey rekur hvernig þeir reyna að þagga niður umræðu um feminisma.

Nanna Hlín Halldórsdóttir og Finnur Guðmundarson Olguson gera miklar athugasemdir við hið súra samtal Snorra Páls og Steinunnar (sem ég hnýtti líka í en ekki svona vandlega).

Nanna Hlín og Finnur segja að mannskilningurinn sem kemur fram í viðtalinu „geri ekki ráð fyrir ólíkum styrk gerenda í hvers kyns valdatengslum og þá aðallega í samhengi kynlífssölu; hvernig sumar manneskjur eru undirokaðar/kúgaðar (hvort sem við köllum þær fórnarlömb eður ei) á meðan aðrar hafa dómínerandi stöðu í aðstæðum kynlífssölu í dag.“ Og þau spyrja: „Hvernig er til dæmis hægt að fordæma kapítalíska launavinnu og halda því fram að vændi sé nákvæmlega sömu lögmálum ofurselt í sömu grein og færð eru rök fyrir því að ekki sé nauðsynlegt að gagnrýna vændi eins og við þekkjum það í dag?“

Þá benda Nanna Hlín og Finnur á það að það sé rangt mat hjá Snorra Páli og Steinunni að fólk sem tekur „afstöðu gegn vændi finnist vændisfólk að einhverju leyti fyrirlitlegt eða óæðra okkur þar eð við fordæmum viðskiptin.“** Eins og ég vildi sagt hafa.

Last

Ögmundur Jónasson, ekki bara fyrir að ráða karl þegar kona var hæfari, heldur fyrir að rífa kjaft þegar hann spurður um málið.***

Finnur.is var borinn heim til mín í vikunni, það er nógu slæmt (þar er ráðhúsið lofað sérstaklega á bls. 2 og vitnað í 'spaugsyrði' þáverandi borgastjóra sem er nú ritstj. Finns, þó er auðvitað alger tilviljun hve hann er sýndur í jákvæðu ljósi í umfjölluninni). Verra var að þar er fjallað um bíómynd og bókina Lolitu undir yfirskritinni ">Barnunga tálkvendið (bls. 8). Þar er sagt að Humbert og hin 12 ára Lolita taki „upp samband“. Til hafi orðið „erkitýpan Lólíta sem táknar vafasöm og daðrandi tálkvendi á barnsaldri sem táldraga veikgeðja menn og steypa þeim í glötun“ (steypa körlum í glötun, það er nú það versta við það). Hinn ónafngreindi blaðamaður klykkir út með að segja: „hefur hin vafasama manngerð fengið kenniheitið Lolita“.

Síminn og önnur símafyrirtæki (a.m.k. Vodafone) sýndu kvenfyrirlitningu í verki þegar lögreglu var neitað um að fá númer sem hefðu getað útilokað eða bent á karlmann sem nauðgaði stelpu á Þjóðhátíð.

Busanir. Mikið hlýtur að vera ógeðfelld tilhugsun fyrir þau börn sem lögð hafa verið í einelti í grunnskóla að sjá framá að verða að gangast undir enn meiri niðurlægingu og ofbeldi þegar í nýjan skóla er komið. Böðlarnir jafnvel gamlir kvalarar þeirra. Hinn valkosturinn er að vera úthrópuð fyrir að taka ekki þátt í 'græskulausa gamninu sem hefð er fyrir og öllum finnst svo skemmtilegt'. Það ætti að taka fyrir busanir með öllu.****

Notkun á orðinu menn. Í Fréttablaði dagsins um tunglferðarsamsæriskenningar: „hópur manna og kvenna“. Auðveldlega hefði verið hægt að segja 'hópur karla og kvenna' eða 'hópur manna' (konur eru líka menn) eða 'hópur fólks'. En það eru semsagt enn til blaðamenn sem telja konur ekki tilheyra mannkyninu.

Þar með lýkur því sem átti — en tókst ekki — að vera stutt yfirferð í stikkorðastíl um nokkuð af því sem ég hef glaðst yfir eða látið pirra mig undanfarið.

___

* Svona dálkar geta haft yfirskriftina plús/mínus, húrra/bjakk, snillingar/fávitar, jákvætt/neikvætt, lof/last. Nú ætla ég að prófa það síðastnefnda, að hætti Vikublaðsins Akureyri. Því blaði ritstýrir karlmaður sem segist vera „femínískur fréttamaður“ (ég er svosem ekkert að draga það í efa), hann gaf út bók fyrir nokkrum árum um reynslu sína af því að vera heimavinnandi faðir. Sú reynsla varð til þess að hann sá allt kynjadæmið í nýju ljósi — sem er ágætt útaf fyrir sig en það er alltaf jafn merkilegt að fólk skuli ekki sjá misréttið fyrr en það rekur sig á það sjálft en hafni fram að því öllum feminima.

** Nú hætti ég að taka snilldardæmi úr grein Nönnu Hlínar og Finns en af nógu er að taka.

*** Þegar karl var ráðinn en ekki kona í Stjórnarráðið var það vegna þess að hann var metinn hæfari(matið hefur síðan verið véfengt en það var þó það sem farið var eftir) en konan. Það á ekki við um sýslumannsstöðuna á Húsavík. Jóhanna Sigurðardóttir varði ráðninguna í Stjórnarráðið en baðst þó afsökunar síðar. Hún fór ekki í Edit Piaf stellingar eins og Ögmundur.

**** Gísli málbein hefur bent á ömurleika busavígslna og fær yfir sig dembu af óþroskuðum krökkum sem finnst hann bara leiðinlegur að vera að tuða þetta.

Efnisorð: , , , , , , ,