laugardagur, júlí 28, 2012

Frábið mér peningagutta hvaðan sem þeir eru

Ég hef ekki náð að æsa mig neitt verulega yfir fyrirhuguðum kaupum (nú leigu) Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum. Hef
verið frekar svona á móti þeim en ekki fundist sannfærandi þessar samsæriskenningar um hvað liggi að baki áhuganum á ákkúrat þessu landssvæði. Enn síður hefur mér geðjast að útlendingahatrinu eða hreinlega rasismanum sem skín í bakvið andúð sumra á Huang.

Það var ekki fyrr en ég las stórfróðlega samantekt Láru Hönnu að ég varð verulega mótfallin málinu. Þessi klausa hér gerði útslagið.

Zhongkun Grímsstaðir ehf. er félagið sem mun „leigja“ Grímsstaðajörðina af GáF ehf., félagi sem sex sveitarfélög stofnuðu til að skuldsetja sig upp í rjáfur. Ætlunin er nefnilega að fá lánaðan tæpan milljarð hjá Nubo Huang til að borga einkaaðila fyrir jörðina. Sveitarfélögin verða sem sagt skuldbundin Nubo Huang fjárhagslega, líka það sveitarfélag sem hefur skipulagsvald á svæðinu.

Þetta kallar Þorsteinn Pálsson að sveitarfélögin séu að leppa kaupin. Því hvað annað er það þegar þau fá lánað hjá sama manninum og þau ætla að leigja jörðina? Og þessa líka upphæðina! Það er líka ágætt hjá Þorsteini* að benda á rannsóknarskýrslu alþingis í þessu sambandi og spyrja þessarar spurningar um viðskipti Huangs: „Getum við verið viss um að það sem hér er að gerast feli í sér bót á viðskiptasiðferði, stjórnsiðum og vinnulagi? “

Nú er Lára Hanna með aðra samantekt** þar sem málið skýrist heldur betur. Huang*** er fyrst og fremst að ásælast allt þetta flæmi til þess eins að veðsetja það. Peningana sem hann fær að láni út á jörðina ætlar hann svo að nota í annað. Eða með orðum Guðmundar Andra Thorssonar: „Þetta er bara peningagutti að gíra sig upp.“

Svona fjármálagjörningar eru okkur ekki ókunnir því hér fór allt á hliðina fyrir fjórum árum með fulltingi manna sem stunduðu þá linnulaust (og ekki má gleyma að útgerðarmenn veðsettu óveiddan fisk). Hvað gerist ef bankar ganga að hinni veðsettu 300 ferkílómetra jörð? Það er vond tilhugsun.

Hafi verið óæskilegt í mínum huga að Huang Nubo nái yfirráðum yfir Grímsstaðajörðinni þá er það gjörsamlega óhugsandi nú.

___
* Afsakið að ég skuli vitna með jákvæðum hætti í Sjálfstæðismann. Mér er smá flökurt sjálfri.
** Lára Hanna hefur boðað að hún skrifi meira um þetta mál alltsaman. Miðað við hve vel hún hún hefur staðið sig í þessu er ég þegar orðin spennt.
*** Eitt sinn var ég að hlusta á 'málfarsmínútuna' í útvarpinu. Þá var nafn Huang Nubo til umræðu og bent á að nafn hans er ritað að kínverskum sið, sem er sá að hafa eftirnafnið á undan. Því ætti að tala um hann sem Huang. Svo var reyndar bent á að sumir Asíumenn hafa reynt að koma í veg fyrir misskilning (eins og þann að Huang Nubo var kallaður Nubo til skamms tíma) og þá snúið nafni sínu þegar þeir kynna sig á erlendum vettvangi — en ef þeir hitta fyrir fólk sem veit um nafnahefðina geti vel farið svo að þeir verði aftur kallaðir eiginnafninu. Þetta nefni ég því ég sé að Lára Hanna skrifað nafnið hans sem Nubo Huang til þess að við þessi vestrænu áttum okkur á að Huang sé eftirnafnið. Slíkt getur semsagt haft þveröfug áhrif.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, júlí 26, 2012

Feministar og jafnréttissinnar

Orðið jafnrétti hefur verið látið þýða margt og mikið í þjóðmálaumræðunni og sumir þeirra sem hatast útí feminista hafa samt talið sig jafnréttissinna. Ég veit aldrei alveg hvaða jafnrétti slíkir jafnréttissinnar vilja ef baráttumál ákveðins hóps sem beittur hefur verið misrétti frá örófi alda á ekki að teljast með.* Ekki þar fyrir, það er gott að fólk kalli sig jafnréttissinna, sannarlega væri verra ef það væri almennt á móti öllu jafnrétti.

Ég er auðvitað eindregin fylgiskona jafnréttis. Ég vil jafnrétti kvenna og karla en jafnframt jafnrétti óháð kynþætti, þjóðerni, kynhneigð, trúarbrögðum eða öðru því sem hefð er fyrir að mismuna fólki eftir. Ég vil líka að fólk njóti jafnrar stöðu hvað varðar möguleika sína til náms, að ungir sem aldnir hafi jafnan rétt á heilbrigðisþjónustu og hún sé ekki betri fyrir þá sem eru efnaðir, og ég vil að atkvæði allra vegi jafnt í kosningum. Svona mætti lengi telja.** En fyrst og fremst er ég feministi, kvenréttindakona. Sem róttækur feministi geri ég mér grein fyrir því að konur eru kúgaðar af körlum, og vil breyta því.

Ekki eru allir feministar róttækir feministar en allir feministar eru fólk sem gerir sér grein fyrir og vill breyta þeirri staðreynd að konur njóta ekki virðingar til jafns við karla, þær fá lægri laun en þeir og verða fyrir margvíslegri annarri mismunun auk þess sem þær eru beittar ofbeldi af körlum, allt vegna kyns síns.

Feministi getur vel verið jafnréttissinni og jafnréttissinni getur sömuleiðis verið feministi. En það er ekki hreint og klárt samasemmerki þar á milli.

___
* Sömuleiðis finnst mér skrítið að kalla sig jafnréttissinna ef aðgerðir fylgja ekki, það er til lítils að sjá óréttlæti en vilja ekki breyta neinu, hvort sem það eru laun kvenna eða áróður gegn nauðgunum sem fer mjög fyrir brjóstið á sumum 'jafnréttissinnum'.
** Vonandi vilja allir feministar víðtækt jafnrétti.

Efnisorð:

sunnudagur, júlí 22, 2012

Norðmenn mega vera stoltir af Stoltenberg

Ég treysti mér ekki til að horfa á alla dagskrá norska sjónvarpsins í dag en sá þó ræðu danska forsætisráðherrans Helle Thorning-Schmidt sem hún hélt á minningarathöfninni í Útey.* Hún sagði að Norðmenn mættu vera stoltir af Jens Stoltenberg og hvernig hann hefði tekið því áfalli sem hann og þjóðin öll varð fyrir 22. júlí í fyrra. Hann svaraði ofbeldi með kærleika, í stað þess að hóta hefndum grét hann með eftirlifendum.

Það er rétt að Stoltenberg brást við á óvenjulega hófstilltan hátt og hvatti til kærleika fremur en haturs. En öfugt við marga stjórnmálamenn, sem segja eitt og gera annað, þá hefur hann staðið við orð sín. Löggæsla er ekki orðin íþyngjandi fyrir Norðmenn. Það hafa ekki verið framkvæmdar húsleitir og fjöldahandtökur eða lýst yfir stríði gegn einum eða neinum bara til að gera eitthvað. Hryðjuverkamaðurinn var ekki pyntaður til sagna, hann fékk sanngjörn og opin réttarhöld. Hefði þó Stoltenberg verið í lófa lagið að láta ofsóknaræði, líkt og það sem greip Bandaríkjamenn eftir 11. september 2001, leiða för.

Ég er hjartanlega sammála danska forsætisráðherranum um Jens Stoltenberg.
___
* Það var ferlega krúttlegt að sjá hana ganga af sviðinu og setjast á grasflötina þar sem fyrir voru m.a. núverandi og fyrrverandi forsætisráðherrar Noregs, Jens Stoltenberg (sem hún hafði kallað 'Jens' í ræðunni) og Gro Harlem Brundtland. Svo sátu þau öll flötum beinum ásamt hinum meðan á athöfninni stóð. Þetta er alvörufólk.

laugardagur, júlí 21, 2012

Að rústa miðbæ með steypu


Árið 2008 var tilkynnt um úrslit í samkeppni um byggingu Listaháskólans sem rísa átti við Laugaveg. Samson/Björgólfur Guðmundsson hafði eignast lóðina (eins og skrilljón aðrar ásamt húsum sem átti að rífa eða voru rifin, sbr.Hampiðjuna — sem um skeið hýsti Klink og Bank, Björgólfi til upphafningar — en þar er enn flakandi sár og engin bygging hefur verið reist). Vektakalýðræði ríkti, lúffað var fyrir kröfum þeirra sem áttu peninga og vildu byggja.*

Verðlaunatillagan gerði ráð fyrir að fjöldi húsa yrði rifinn og götumyndin myndi gjörbreytast en fáir settu sig á móti því (nema Ólafur F. borgarstjóri, sem endaði þó á að greiða gróðapungum margfalt verð fyrir Laugaveg 4-6, sem var kostur fyrir ásýnd Laugavegarins en galli fyrir pyngju borgarbúa — og ein ástæða þess að grassláttur er nöldurefni nú fjórum árum síðar). Byggingarmagnið í verðlaunatillögunni, hinu væntanlega húsi Listaháskólans, var langt umfram það sem deiliskipulag sagði til um og byggingin hefði orðið eins og „Berlínarmúr niður hálfan Laugaveginn“**

Þessa verðlaunatillögu teiknaði arkitektastofa með Pál Hjaltason í broddi fylkingar. Nú er þessi sami Páll formaður skipulagsráðs Reykjavíkur og sat í dómnefndinni um verðlaunatillöguna sem nýlega var kynnt*** og snýst um umbyltingu Ingólfstorgs, nýja byggingu við Kirkjustræti og sitthvað fleira.****

Páll Hjaltason hefur aðra sýn á Reykjavík en ég. Bara svo það sé á hreinu.

Ég er svona Torfusamtakatýpan, var á móti því að Fjalakötturinn yrði rifinn, þakkaði mínum sæla fyrir bankahrunið sem forðaði okkur frá Listaháskólabyggingunni á Laugaveginum og vil ekki sjá þessar breytingar sem nú á að gera á elsta hluta Reykjavíkur.

En það er auðvitað vitavonlaust að setja sig upp á móti þeim tilfæringum sem til standa. Okkur verður sagt að þetta komi okkur ekki við, því það er einhver kall sem á'etta og má'etta.

Þessu verður þröngvað í gegn — nema framsóknarskúnkurinn með peningana fari á hausinn.

___
* Það var Hjálmar Sveinsson sem vakti athygli mína á skipulags- málum í Reykjavík og nefndi fyrstur manna verktakalýðræði í mín eyru. Nú situr hann hinumegin borðsins og ver mistökin í miðbænum.
** Úr grein Hallgríms Helgasonar 26. júlí 2008.
*** Lóðirnar á Pétur Þór Sigurðsson, eiginmaður Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins. Hann var svo einstaklega vinsamlegur að láta samkeppni fara fram og sat sjálfur í dómnefndinni, ásamt hr. byggingarmagni.
**** Hér má sjá ágætar myndir af vinningstillögunni eins og hún snýr að Ingólfstorgi. Það þarf varla að taka það fram að ég er ósammála textanum sem fylgir. Það er þó vert að lesa um þetta.
Viðbót: Pétur H. Ármannsson skrifar fína grein um málið og talar þar um „óhóflegt byggingamagn inn í viðkvæmt umhverfi“. Hann hvetur til að samningsskilmálar um úthlutun byggingarréttar verði endurskoðaðir með það í huga að hann verði tímabundinn og með fyrirvara um rétt til endurskoðunar skipulags án fébóta. (Lesa meira hér.)

fimmtudagur, júlí 19, 2012

Íslands Hrafnistumenn

Fyrir nokkrum dögum var í fréttaskýringaþættinum Speglinum fjallað um nýja stefnu í starfsemi öldrunarheimila. Samvæmt þessari hugmyndafræði er lögð áhersla á lífsgæði íbúanna. Í því felst meðal annars að plöntur og gæludýr eru sjálfsögð en ekki útilokuð úr lífi aldraðra. Heppilegt þykir að leikskólar séu í grennd við heimili aldraðra og gamla fólkið geti fylgst með börnum að leik. Þetta hljómar einstaklega indælt og mikil breyting frá þeirri mannfjandsamlegu stefnu sem blasir við þegar öldrunarheimili og þjónustuíbúðir aldraðra eru skoðuð.

Lengi hefur tíðkast að hrúga gamla fólkinu í háhýsi með miklar umferðargötur á báða bóga, svo einangrun frá öðru mannlífi er alger. (Dæmi um þetta eru Árskógar sem standa gegnt Mjódd, þar eru þjónustuíbúðir og hjúkrunarheimili aldraðra). En nú á semsagt að fara að prufa (aftur) að hafa öldrunarheimili inni í byggð (elliheimilið Grund er sannarlega inni í miðju íbúðahverfi en það er þó að mörgu leyti orðið úrelt) og leyfa gamla fólkinu að vera innanum dýr, plöntur og börn.

Skrítnari er sú stefna að gera heimili aldraðra að vínveitingahúsi. Það flokkast undir atvinnustarfsemi* sem ekki á við inni á heimilum, því öldrunarheimili eru vissulega heimili, eins og vel kemur fram í viðtalinu við Brit J. Bieltvedt í Speglinum.

Fyrir nokkrum árum stóð mikill styr um bar sem settur var upp í almenningsrými í blokk sem ætluð er eldri (og efnaðri) borgurum. Einn íbúinn, sá sem bjó næstur barnum, var hreint ekki hrifinn af því renneríi og ónæði sem skapaðist af barnum og staðsetningu hans. Af þessu spruttu málaferli. Kannski var þessi karl bara kverúlant og allt annað aldrað fólk fagnar áfengissölu á öldrunarheimilnum eða þjónustukjörnum fyrir aldraða. SÁÁ hefur einmitt bent á áfengisvanda aldraðra sem bendir til að margir aldraðir séu sólgnir í áfengi.

En hvað þá um alla hina íbúana sem hvorki vilja vínveitingar almennt eða ónæðið sem því fylgir? Það verður kannski þannig að þeir sem kvarta fá framan í sig sömu rulluna og íbúar í 101 heyra sífellt: Ef þú þolir ekki djammið geturðu bara flutt!

___
* Viðbót: Hrafnista fær ekki vínveitingaleyfi, enda er hún á skilgreindu íbúðasvæði en ekki á þjónustu- og stofnanalóð.

Efnisorð: , ,

mánudagur, júlí 16, 2012

Annie Mist — heimsmeistari annað árið í röð

Annie Mist Þórisdóttir varð heimsmeistari í CrossFit núna um helgina, annað árið í röð. Sá frábæri árangur kom henni ekki á forsíðu Fréttablaðsins — þar var kálræktun mikilvægari. Ég óska Fréttablaðinu til hamingju með forgangsröðina.

Ef vel var leitað mátti finna örsmáa frétt um sigur Annie Mistar á bls. 2. Alveg svona litla.

Það er spurning hvort íþróttafréttaritarar Fréttablaðsins hafi ráðið því alfarið að þetta smælki birtist sem frétt um heimsmeistaratitil Annie Mistar eða hvort ritstjórnin sé eins og íþróttafréttamann samdauna ÍSÍ yfirgangnum.* ÍSÍ stjórnar því hvaða íþróttafólk kemur til greina í vali á íþróttamanni ársins. Það er fátítt að á íþróttasíðum blaðanna sé fjallað um aðrar íþróttir en þær sem eru innan vébanda ÍSÍ. Þannig er ekki fjallað um vaxtarræktarkeppnir, fitness eða crossfit því þær íþróttir eru stundaðar af fólki sem ekki er í ÍSÍ heldur sérsamböndum.** Svoleiðis íþróttir (sem sjá ekki sóma sinn í að vera boltaíþróttir) lenda á 'fólk í fréttum' síðum eins og skemmtiatriði á þorrablóti.

Ómar Ragnarsson, sem hefur ekki bara skemmt á ótal þorrablótum heldur verið íþróttafréttamaður, hefur efasemdir um að rétt sé að útiloka crossfitkeppendur frá því að koma til greina sem íþróttamenn ársins. En hvort sem sá titill er innan eða utan seilingar eftir því í hvaða íþróttagrein fólk keppir þá er fáránlegt að árangur á heimsmælikvarða tryggi ekki mikla umfjöllun — á forsíðu og á íþróttasíðum.

Það hefði verið nær að Fréttablaðið birti eitthvað í áttina að þessari mynd (sem ég stal samviskulaust). Það hefði verið mun meira viðeigandi en smælkið sem þeim þótti sæma sem frétt um heimsmeistaratitil.

___
* Ég held semsagt ekki bara að það sé verið þagga niður fréttina um Annie Mist vegna þess að hún er kona. Þó ég útiloki það auðvitað ekki. Kynið var þeim allavega ekki til framdráttar, evrópumeisturunum í fimleikum, þegar kom að því að velja íþróttamann ársins.
** Mér skilst að ástæða þess að ÍSÍ tekur ekki þessi sérsambönd inn sé ágreiningur um lyfjapróf. En eins og vitað er þá hefur aldrei nokkur maður innan ÍSÍ eða alþjóðlegra íþróttasambanda sem stunda lyfjapróf verið staðinn að ólöglegri lyfjanotkun — hvað þá þegar komið er á stórmót eins og Ólympíuleika —  sussu nei.

Efnisorð: ,

föstudagur, júlí 13, 2012

Þegar ég gerðist rannsóknarblaðamaður

Því er haldið fram sem staðreynd að það sé nánast útilokað fyrir flóttamenn að fá hæli á Íslandi. Lengst af trúði ég þessu gagnrýnislaust — en það var áður en ég fór í heimsókn til Útlendingastofnunar.

Ég tók mig semsagt til og heimsótti Útlendingastofnun nýlega. Mér var sýnt inní öll herbergi þar og vakti athygli mína að þau voru notaleg, með plöntum og þægilegum stólum. Við settumst svo í þessa góðu stóla, ég og einn starfsmanna Útlendingastofnunar og hann leiddi mig í allan sannleika um starfsemina þar. Fyrst sagði hann mér að til starfsmanna væru gerðar miklar kröfur. Það er enginn ráðinn nema hafa langa og víðtæka reynslu. Að auki fara þeir á námskeið til að læra að taka skýrslur af hælisleitendum.

Ég spyr fullt af gagnrýnum spurningum og þeim er öllum svarað ljúflega af starfsmanninum í þægilega stólnum. Minn stóll er líka þægilegur.

Starfsmaðurinn: Það er mjög sjaldgæft að hælisleitendur treysti okkur ekki. Enda erum við traustvekjandi. Flestir vilja bara ekkert vera hérna hvorteðer.

Ég, í þægilega stólnum: En getur verið að flóttamenn fái ekki nægar upplýsingar og það sé þörf fyrir meiri stuðning?

Starfsmaðurinn: Við teljum ólíklegt að ástæðan fyrir óöryggi þeirra og vanlíðan sé upplýsingaskortur. Við gerum allt rétt. Er stóllinn þinn nógu þægilegur? Viltu kaffi?

Ég: Já, takk. Þetta eru mjög traustvekjandi svör. En getur nokkuð verið að starfsmenn komi dónalega fram við flóttamennina? Nú ertu tildæmis ferlega kurteis við mig.

Starfsmaðurinn: Ég er alltaf kurteis og við öll sem hér störfum, þannig að það er ólíklegt að við séum dónaleg við hælisleitendur. Það myndi líka einhver grípa inní ef eitthvað væri óeðlilegt við vinnubrögðin. Finnst þér tildæmis kaffið ekki gott?

Ég: Júh! Geturðu sagt mér hvernig ferlið fer fram við skýrslutökur?

Starfsmaður lýsir því í löngu máli og ég dotta í þægilega stólnum. Ég rumska þegar hækkar róminn og segir:
Okkar hlutverk er bara rannsaka málið, taka skýrslur og safna öðrum gögnum.

Ég (útafþví að ég man eftir að ég er rosalega gagnrýnin): Er engin hætta á að starfsmenn í rasisma sínum og útlendingahatri komi þeim skilaboðum, leynt og ljóst, á framfæri við hælisleitendur að það þýði ekkert að vera að standa í þessu?

Starfsmaðurinn: Við höfum engin áhrif á hvaða ákvörðun er tekin um hælisleitendurna og við færum aldrei að láta skoðanir okkar á þeim í ljós.

Ég: Ég trúi þér alveg, þú ert svo traustvekjandi. Ferlega er þetta gott kaffi og stóllinn þægilegur. En heyrðu, ég hef heyrt að þið trúið ekkert sögum flóttamannanna og gerið ekkert til að sannreyna þær? Eru einhver takmörk fyrir hvað þið nennið að sitja á rassinum í þægilegum stólum allan daginn og drekka kaffi?

Starfsmaðurinn: Við drögum auðvitað ekki frásögn hælisleitenda í efa og við spyrjum að því sem okkur þykir koma málinu við. Við gerum allt eftir okkar verklagsreglum sem eru þaulreyndar og við líka. Hér er allt pottþétt.

Ég: Verðið þið vör við að flóttamönnum líði illa í samtölum við ykkur og samskiptum við stofnunina?

Starfsmaðurinn: Ég fullyrði að það líður engum illa hérna vegna framkomu okkar.

Ég, alveg orðin hissa á hve mjög þetta stangast á við skoðanir mínar framað þessu: Hafið þið einhverjar skýringar á afhverju allir tala svona illa um ykkur?

Starfsmaður: Nei, við skiljum ekkert í því. Reyndar verðum við miklu frekar vör við þakklæti. Enda erum við ferlega næs. Viltu meira kaffi?

Ég: Segjum svo að einn af þessum hælisleitendum væri ósáttur, getur hann snúið sér eitthvað annað til að leita réttar síns?

Starfsmaður: Hann getur kært okkur, en það yrði auðvelt að sjá að við gerum aldrei neitt rangt.

Ég: Mér finnst dálítið merkilegt að það séu svona fáir sem fá hæli hér á landi. Hversvegna gengur svona illa að hjálpa þeim?

Starfsmaður: Það er ekki viljaleysi af okkar hálfu. Stundum bara ber þetta engan árangur.

Ég: En þetta tekur voða langan tíma.

Starfsmaður: Það er mjög óvenjulegt að langur tími líði en þá er skýringin ástæður sem við ráðum ekki við. Við höfum ekki mannafla en við reynum að tryggja hælisleitendum greiðan aðgang að okkur. Þeir mega tildæmis alveg hringja í okkur.

Ég: Nú hafa menn farið í hungurverkfall og beitt öðrum örþrifaráðum til að vekja athygli á máli sínu, en það er bara það sem kemst í fjölmiðlana. Vitið þið um fleiri dæmi þess að menn séu mjög örvæntingarfullir?

Starfsmaður: Nei. Við vitum ekki um önnur mál en þessi.

Ég: Ég hef áhyggjur af því að svo virðist sem ætlast sé til af flóttamönnum sem aldrei áttu skilríki í heimalandi sínu að þið ætlist til að þeir sanni sögu sína með pappírum og þar standi hnífurinn í kúnni. Getiði ekki slakað svoldið á í sönnunarbyrðinni?

Starfsmaður: Það kemur fyrir að hælisleitandi sé pappírslaus og þá leikur vafi á uppruna hans, aldri eða hvort hann er sá sem hann segist vera, en það er engin greinileg aukning á slíkum málum.


Niðurstaða mín eftir þessa heimsókn til Útlendingastofnunar er sú að ef flóttamenn upplifa eitthvað slæmt af hálfu hennar þá er skýringuna ekki að leita hjá Útlendingastofnun. Þar er fullt tillit tekið til viðkvæmrar stöðu þeirra. Engar reglur koma í veg fyrir mannleg mistök en það er vissulega mögulegt að einhverjir flóttamenn vilji frekar drepa sig en þola meðhöndlun stofnunarinnar. Þeir ættu frekar að kæra, finnst mér, þó ég skilji reyndar ekki undan hverju þeir hafa að kvarta. Ég upplifði þetta fína viðmót hjá Útlendingastofnun, þægilega stóla, gott kaffi og traustvekjandi svör. Hér eftir trúi ég öllu sem stofnunin segir.

___
ps. Hvern hefði ég átt að spyrja um verklag Útlendingastofnunar ef ekki starfsmenn þar? Þeir eru fullkomlega trúverðugir, það hef ég sannreynt yfir kaffibolla.

miðvikudagur, júlí 11, 2012

Til hvers notar Ólafur Stephensen tjáningarfrelsi sitt?

Forsíða Fréttablaðsins er ekki undirlögð af dómi Mannréttinda- dómstóls Evrópu. Blaðsíða 2 er ekki lögð undir frétt um málið og heldur ekki blaðsíða 4. Það er ekki fyrr en á blaðsíðu 6 sem fyrirsögnin „Íslenskir dómstólar brutu á blaðakonum“ blasir við. Eins og fjölmiðlar eru nú yfirleitt uppteknir af sjálfum sér og sínu fólki, svo ekki sé nú talað um almennt fréttagildi málsins, þá er þetta í meira lagi undarlegt. Ekki vekur síður undrun að ritstjóri blaðsins Ólafur Þ. Stephensen eyðir engum orðum á þennan úrskurð tjáningarfrelsi blaðamanna í vil, heldur skrifar innblásinn leiðara um — grassprettu og njóla.

Nú held ég að það sé alveg orðið ljóst að þetta grasnöldur og njólatuð er sérlegt áhugamál Sjálfstæðismanna vegna þess að þeir þola ekki að vera í minnihluta í borginni, og ráði þeir fjölmiðlum þyki þeim af sömu ástæðu þeim mikilvægt forsíðuefni að berja á ríkisstjórninni. Alvarlegra er þó ef þeir eru svo sinnulausir um tjáningarfrelsi blaðamanna að þeim þykir varla orðum á það eyðandi.

___
Viðbót: Degi síðar skrifar Ólafur loks leiðara um málið.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, júlí 10, 2012

Áfellisdómur yfir Hæstarétti

Fjölmiðlar eiga að fjalla um meinsemdir í samfélagaginu. Strippstaðir eru meinsemd í samfélaginu. Þessvegna má fjalla um strippstaði í fjölmiðlum og afhjúpa fyrir lesendum hverskonar starfsemi á sér þar stað.

Þetta er kannski ekki bein þýðing úr dómi Mannréttindadómstóls Evrópu, en fer nærri lagi.

Til hamingju Björk Eiðsdóttir, Erla Hlynsdóttir og við öll!

Efnisorð: , , , ,

mánudagur, júlí 09, 2012

Allt er vænt sem vel er sprottið

Það er eitthvað sérlega mikið að hjá fólki sem grenjar yfir sameiningu leikskóla en nennir svo að kvarta yfir því að sjá grasflöt eða umferðareyju sem ekki burstaklippt eins og golfvöllur. Kannski kemur nöldrið frá firrtum golfspilurum sem halda eins og klámsjúkir unglingsstrákar að náttúruleg spretta sé afbrigðileg og sóðaleg.

Það er reyndar kona (hún er kannski golfari) sem talar um sprottið gras sem „sóðalegt“ í athugasemd við bloggfærslu Illuga Jökulssonar. Finnst fólki í alvöru gras sóðalegt ef það fær að spretta? Eru þá óslegin engi subbuskapur og hreinasta ullabjakk?

Án þess að ég sé stórkostlegur aðdáandi Jóns Gnarrs og núverandi borgarstjórnar,** þá finnst mér fáránlegt að heyra endalaust nöldur um að grasið sé ekki slegið nógu oft.* Hvar í andskotanum má spara ef ekki þar?
___
*Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugsað útí að fólk sem kvartar undan grasvexti í Reykjavík geti verið með ofnæmi. Veit því ekki hverju það skiptir að umferðareyjar og annað gras á almannafæri sé slegið ef um allan bæ eru húsagarðar sem eru misoft slegnir. En miðað við eina athugasemdina hjá Illuga þá andar fólk léttar í öðrum sveitarfélögum. Sé grasspretta heilbrigðisvandamál mun ég endurskoða afstöðu mína og heimta að malbikað verði yfir allt heila klabbið.
** Ekki er ég heldur ein þeirra sem vil fá ritstj. í Hádegismóum aftur sem borgarstjóra, sem er kannski (illa) dulinn draumur grashataranna.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, júlí 07, 2012

Framtíðin er björt


Í dag las ég tilvitnun í Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem varð til þess að ég get loksins komið orðum að tilfinningu minni gagnvart ofangreindri frétt.

„Við heilsum glaðar framtíðinni.“

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, júlí 04, 2012

Umskurður drengja

Það er auðveldlega hægt að segja að nýfallinn dómur í Þýskalandi þess efnis að bannað sé að framkvæma umskurð á sveinbörnum af trúarástæðum sé hreinar og klárar gyðingaofsóknir, gyðingar hafa jú haft þennan sið um ómunatíð. Jafn mikil söguleg staðreynd eru ofsóknir gegn gyðingum í Þýskalandi. Að bannið bitnar líka á múslimum er auðvelt að útskýra sem útlendingafordóma eða íslamfælni. En svo má líka horfa á það sem meira máli skiptir: lítil börn sem látin eru gangast undir ónauðsynlega aðgerð sem nemur brott hluta af líkama þeirra. Aðgerð sem er sársaukafull og getur valdið sýkingum. Aðgerð sem er, eðli málsins samkvæmt, óafturkræf.

Enda þótt gyðingar hafi stundað umskurð á drengjum frá ómunatíð varð siðurinn útbreiddur í Bandaríkjunum um aldamótin 1900 og öðrum enskumælandi löndum, Ástralíu, Kanada, Suður-Afríku, Nýja-Sjálandi og að einhverju leyti í Bretlandi (segir Wikipedia , sjá einnig kort yfir útbreiðslu). Á áttunda áratugnum voru 91% allra bandarískra karla umskornir. Nú er ekki lengur eins almennt að umskera sveinbörn og árið 2010 voru aðgerðin framkvæmd á 'aðeins' 54,7% nýfæddra drengja. Almenningur er því orðinn afhuga umskurði og fyrir því eru góðar ástæður.

Læknasamtök ýmissa landa (Ástralíu, Nýja-Sjálands, Kanada, Finnlands, Þýskalands, Hollands) hafa á síðastliðnum árum hvert í sínu lagi gefið út tilkynningar um að þau leggist gegn því að umskurður sé framkvæmdur á öllum þorra sveinbarna (semsagt nema læknisfræðilegar ástæður séu fyrir hendi).* Hollenskir læknar segja að rök mæli með því að banna umskurð.

Svíar settu lög árið 2001 sem banna umskurð nema læknir eða hjúkrunarfræðingur sé viðstaddur og deyfing sé notuð.** Þau lög munu vera þverbrotin. Hætt var að framvæma umskurði á ríkisspítölum í Ástralíu árið 2007 en engin lög voru sett varðandi einkarekin sjúkrahús. Og svo var það þýski dómstóllinn sem felldi þann dóm nýlega að umskurður, sem ekki er af heilbrigðisástæðum, flokkist sem alvarlegar líkamsmeiðingar.

Ástæður sem eru taldar upp fyrir því að umskurður sé heppilegur fyrir öll sveinbörn er hreinlæti og vörn gegn sýkingum. Það er auðveldara að þrífa tippi sem hefur enga forhúð og með auknu hreinlæti er minni hætta á sýkingum (þessu eru læknar semsagt ósammála).*** Svo er það trúarhefðin hjá gyðingum og múslimum (ég nenni ekki þeirri umræðu). Enn ein ástæðan er að pabbinn vill að tippi sonar síns líti eins út og hans eigið (engin aðgerð tryggir það). Af sama meiði er sú ástæða að ef allir hinir strákarnir eru umskornir sé ekki hægt að vera sá eini í sturtunni sem lítur öðruvísi út (færri eru nú umskornir þannig að einhverjir skólafélaganna eru umskornir, aðrir ekki). Svo á það að vera betra fyrir kynlífið að vera umskorinn (erfitt er að gera samanburðarmælingar á því) og að umskorið tippi sé á einhvern hátt meira sexý.****

Fólk skiptist mjög í tvö horn varðandi umskurð drengja. Annars vegar er þetta hefð (ekki endilega trúarleg) sem sumir vilja halda í heiðri, og telja svo upp allar hinar ástæðurnar fyrir að best sé að umskera litla drengi, hinsvegar er sú skoðun að þetta sé árás á líkama lítils barns sem finnur til. Veigamikil röksemd sem má ekki gleyma er sú að með þessu hafi hinn upprennandi karlmaður ekki val um hvort hann haldi sinni forhúð.***** Því þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um að brotið er á sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga sem geta ekki borið hönd yfir höfuð sér.

Það er ekkert sem bannar fullorðnum karlmönnum að láta umskera sig, vilji þeir það, af trúarástæðum eða til að líta betur út og standa sig betur í rúminu (eða líkjast pabba). En að taka af þeim það val er fáránlegt. Að framkvæma umskurð á nýfæddum drengjum getur varla verið réttur foreldranna, það er einfaldlega ill meðferð á börnum.

___
* Aftur á móti mælir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin með umskurði sem forvarnarleið gegn HIV smiti á þeim svæðum þarsem tíðni HIV er hæst. Bandarískir og breskir læknar eru klofnir í afstöðu sinni en niðurstaðan virðist vera sú að þeir vilji að allajafna ráði foreldrarnir.
** Hið sama viljum við að gildi um grísi sem eru geltir. Rökin sem notuð eru gegn deyfingu er að 'þeir eru svo nýfæddir að þeir finna ekki fyrir'. Er það ekki frekar að þeir (drengir og grísir) eru ómálga og geta ekki sagt frá sársaukanum?
*** Hin augljósa lausn er að kenna drengnum að þrífa sig almennilega.
**** Það er ansi magnað að fólk haldi á nýfæddu barni í örmum sér og sé um leið að íhuga hvernig kynferðisleg áhrif það hafi á aðra og hvernig það komi til með að standa sig í kynlífi.
***** Til eru fullorðnir karlmenn sem fara sjálfviljugir í umskurð, oft vegna þess að þeir hafa þrönga forhúð sem plagar þá. Reyndar er aðgerðin líka gerð á ungum drengjum sem eiga erfitt með að pissa eða fá sýkingar af þessari sömu ástæðu. Það flokkast þá undir læknisfræðilega aðgerð sem nauðsynlegt er að gera.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, júlí 01, 2012

Kjósendur eru klikk

ÓRG hélt embættinu. Það breytir í sjálfu sér engu, hann heldur bara áfram að delera og fara í taugarnar á manni eins og hann hefur gert um árabil. En það hefði nú verið fínt ef Íslendingar hefðu tekið á sig rögg og sýnt smá skynsemi einu sinni. En það er víst borin von.

Niðurstaða kosninganna er reyndar ein sönnun þess að þjóðaratkvæðagreiðslur eru vond hugmynd.

Verra er að þetta gefur vísbendingu um hvernig næstu alþingiskosningar fara. Kjósendur upp til hópa munu láta glepjast til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn til valda, dyggilega studdan af Framsóknarflokknum. Alltof margir kjósendur trúa því að hér sé allt í kalda koli vegna vinstri stjórnarinnar.

Minnisleysið algert, hæfileiki til að skilja orsök og afleiðingu enginn, mótstaða gegn lýðskrumi á núllpunkti.

Efnisorð: ,