mánudagur, janúar 28, 2013

Icesave: lokaniðurstaða

Niðurstaða EFTA dómstólsins í Icesave málinu kom mér á óvart. Ég er auðvitað dauðfegin að við þurfum ekki að borga en hélt framá síðustu stund að það hefði verið afleikur að láta málið fara dómstólaleiðina. Ég á samt erfitt með að rífa mig upp í nein sérstök fagnaðarlæti nú þegar Björgólfur Thor hrósar sigri. Hann notar að auki tækifærið til að kveina undan óréttlæti sem honum finnst Landsbankamenn (hann og pabbi hans) hafi verið beittir. Þar fór hann alveg með það.

Yfirlýsingin sem Ólafur Ragnar er nú að semja í oflætiskasti verður ekki til að bæta úr. Ég ákvað að birta bloggfærsluna áður en yfirlýsingin kemur fyrir almenningssjónir; þá verð ég upptekin við að klæða mig í spennitreyjuna.



Efnisorð:

sunnudagur, janúar 27, 2013

Hælisleitendur gerðir tortryggilegir

Ummæli forstjóra Útlendingastofnunar voru ósmekkleg og ómakleg. En ef við gerum ráð fyrir að það sem hún sagði eigi e.t.v. við í nokkrum (örfáum) tilvikum — þá viljum við samt að allir hinir hælisleitendurnir njóti vafans. Orð forstjórans grófu hinsvegar undan trúverðugleika þeirra allra.

Svona málflutningur — að gefa til kynna að fórnarlömb (fólks eða aðstæðna) séu óheiðarleg — fellur gríðarvel í kramið hjá fordómafullu fólki. Þjóðernissinnar og rasistar gleðjast mjög þegar hælisleitendur eru gerðir tortryggilegir. Sömuleiðis kætast kvenhatarar þegar sagt er — ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur — að konur sem segja að sér hafi verið nauðgað séu bara að ljúga, að annarlegar hvatir séu að baki nauðgunarkærum.

En samt skirrist sumt af því fólki sem hefur áhyggjur af málefnum hælisleitenda ekki við að hamra á því að fórnarlömb kynferðisbrota séu meira og minna lygarar með vafasaman málstað. Sér þetta fólk ekki tvískinnunginn? Hvernig er hægt að taka málstað hælisleitenda í öllum málum (sem er gott útaf fyrir sig) en draga jafnframt sífellt í efa að konur segi satt til um að þeim hafi verið nauðgað og leggja sig fram um að draga úr trúverðugleika þeirra? Sá máflutningur andfeministanna er jafn ósmekklegur, fordómafullur og skemmandi og það sem vall uppúr forstjóra Útlendingastofnunar.

Efnisorð: , ,

föstudagur, janúar 25, 2013

Þessi tvö

Þessi tvö glöddu hjarta mitt í dag.

Hertha Richardt Úlfarsdóttir skrifar um hvernig ætlast er til að fórnarlömb kynferðisofbeldis hegði sér. Jafnframt útskýrir hún hvernig og hversvegna brotaþolar hegða sér ekki eftir uppskriftinni.

Magnús Þorlákur Lúðvíksson fjallar um kynferðisbrot gegn börnum sem hafa verið í fjölmiðlum undanfarið og ber þau saman við viðbrögð við ásökunum um kynferðisbrot gegn fullorðnum komast í fréttir.

Efnisorð:

fimmtudagur, janúar 24, 2013

Lof og last

LOF

Vilborg Arna Gissurardóttir fær lof fyrir að verða fyrst Íslendinga til að ganga einsömul á Suðurpólinn.

Lof fær átak um löglegt niðurhal. Þar má finna síður þar sem hægt er að hlaða niður bókum, kvikmyndum og tónlist á löglegan hátt. Mjög gott að hafa aðgang að því á einum stað. (Ég mæli reyndar líka með bókabúðum og verslunum sem selja dvd og geisladiska, fyrir þau sem eru ekki alveg dottin úr sambandi við hinn áþreifanlega heim.)

Stefán Pálsson fær lof fyrir að gagnrýna Gettu betur keppnina enda þótt hann hafi átt stóran þátt í að móta hana. (Fyrir þau sem halda að konur hafi gjörólík áhugamál en karlar er bent á þetta.)

Lof fær Agnar Kr. Þorsteinsson fyrir úttekt hans á nýjustu þvælunni sem rann upp úr ÓRG.

Ögmundur Jónasson fær lof fyrir að hefja upp raust sína gegn klámi (nánar tiltekið, hefur falið refsiréttarnefnd að vinna að frumvarpi til breytinga á hegningarlögum í því skyni að spyrna við klámvæðingu).

Lilja Rafney Magnúsdóttir fær lof fyrir úttekt á stöðu VG (áður en Jón Bjarnason gekk úr skaftinu) og hvatningu um samstöðu.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fær lof fyrir góða greiningu á stöðu VG (eftir að Jón Bjarnason virti hvatningu Lilju Rafneyjar að vettugi).

LAST

Last fær Edward H. Huijbens fyrir að finnast nægilegt að VG beri kennsl á þann vanda að færri konur en karlar eru á framboðslistum (og þ.a.l. á þingi) en vilja ekki að flokkurinn leiðrétti vandann í eigin röðum. Sú lausn sem hann stingur uppá, að stofnað sé sérstakt kvennaframboð í anda Kvennalistans, má teljast furðuleg af manni sem vill starfa fyrir VG á vettvangi stjórnmála.

HS Orka fær last fyrir að ræsa út mannskap til að rústa Reykjanesskaganum um leið og búið var að samþykkja Rammaáætlun.

Löggan fær last fyrir að taka ekki á kynferðisbrotamönnum í eigin röðum.

Last fær fólk sem agnúast út í hugmyndir um að nota tálbeitur til að koma upp um barnaníðinga. Þessir karlar eru engir hvítþvegnir englar sem hugsa aldrei eða gera neitt af sér fyrr en vont fólk leggur fyrir þá gildrur. Allt tal um hraðleið til fasisma er hlægilegt í þessu sambandi.

Efnisorð: , , , , , , , ,

mánudagur, janúar 21, 2013

Þriðji mánudagur í janúar

Þriðji mánudagur í janúar er lögboðinn frídagur opinberra starfsmanna í Bandaríkjunum því þá er Martin Luther King jr. dagurinn. Þegar Stevie Wonder samdi og söng lagið Happy Birthday árið 1981 til þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar svo þessi dagur yrði haldinn hátíðlegur grunaði hann líklega ekki að á þeim degi yrði þeldökkur maður svarinn í embætti Bandaríkjaforseta — og ekki bara í fyrsta sinn heldur annað sinn. Það má ekki gleyma því hvað þetta er mikill áfangi í sögu afrískra-ameríkana.

Ég grét reyndar ekki yfir embættistökunni í dag, kannski aðallega vegna þess að ég horfði ekki á athöfnina í beinni útsendingu eins og síðast.

Ég hef ekki verið eins ánægð með Obama og ég vonaði að ég yrði. Hann hefur ekki lokað Guantanamo (kannski ekki alveg honum að kenna því þingið stoppaði það mál*) og Bandaríkjaher er enn í Afghanistan. Þá er ég ekki í hópi þeirra sem hoppa hæð mína af gleði þegar menn eru teknir af lífi, jafnvel þó þeir heiti Osama Bin Laden. Svo virðist Obama vera undir hælnum á fjármálamönnum í stað þess að taka í lurginn á þeim.

Það sem Obama getur stært sig af að hafa gert er að skrifa undir lög um jöfn laun karla og kvenna og að hafa afnumið skilyrði sem Reagan setti upphaflega um að ekki mætti styðja fjölskylduráðgjöf ef hún fæli í sér jákvæða afstöðu til fóstureyðinga (e. global gag rule). Hann reyndi þó að loka Guantanamo fangabúðunum og er hættur stríðsrekstri í Írak. Hann afnám líka reglu að hermenn megi ekki vera opinberlega samkynhneigðir (hann styður hjónabönd samkynhneigðra sem er nýmæli af hálfu forseta). Honum tókst að berja í gegn heilbrigðislöggjöfinni þrátt fyrir mikla andstöðu. Það er líka mjög jákvætt hvernig hann virðist ætla að taka á brjálaðri byssumenningu Bandaríkjamanna. Ekki má gleyma að hann hvetur til jafnréttis, eins og reyndar kom fram í innsetningarræðu hans í dag þar sem lagði að jöfnu kvenréttindabaráttu, baráttu blökkumanna og baráttu samkynhneigðra fyrir réttindum sínum.

Margt fleira væri hægt að telja upp Obama til lofs eða lasts, en ég læt staðar numið. Ég held enn að hann sé góður forseti á mælikvarða annarra forseta Bandaríkjanna, og líklega mun aldrei á minni ævi verða manneskja í því embætti sem ekki mun — af illri nauðsyn eða með glöðu geði — lúta fjármálaöflum og standa í hernaði utan landssteinanna.

Vonandi fer Obama þá leið, sem er auðsóttari nú á seinna kjörtímabilinu þegar hann þarf ekki að ganga í augun á kjósendum til að ná endurkjöri,** að standa loksins við stóru orðin og að minnsta kosti loka þessu andstyggilega Guantanamo fangelsi.

___
* Þingið stoppaði hann af í því góða máli eins og það hefur reynt í mörgum öðrum. Það vandamál er líka við að stríða á alþingi.

** Silja Bára Ómarsdóttir benti á í ágætu viðtali hjá Ríkisútvarpinu að Obama geti sniðgengið þingið með því að stjórna með tilskipunum.

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, janúar 15, 2013

Kynjahlutföll í teiknimyndum

Það er ágætt hjá Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur að benda á „hróplegan skort á kvenfyrirmyndum í teiknimyndum“. Hún sýnir mynd með tölfræðilegum upplýsingum (sem alltaf fellur vel í kramið á mínu heimili) þar sem kemur skýrt fram hve hlutur (teiknaðra) kvenna er rýr í Disneymyndum.

Ég skrifaði smá pistil um þetta fyrir löngu og var þá ekki með neina tölfræði heldur ræddi hvernig hlutverkum þó þessum kvenpersónum væri úthlutað í myndunum — og var ekki ánægð. Prósentuhlutfallsmynd Þórdísar telur upp mun fleiri myndir en ég gerði og þar er Disney aðalmálið en hjá mér laumaðist með ein mynd sem Disney gerði ekki (Shrek), enda var ég almennt að tala um teiknimyndir en ekki útfrá framleiðendum þeirra.

Ég hef litlu við pistil minn að bæta enda hef ég ekki séð nærri allar myndirnar sem taldar eru upp í Disneyprósentumyndinni en læt duga að taka undir með Þórdísi og ítreka spurningu mína úr pistlinum: Þarf nauðsynlega að halda áfram að sýna karla í öllum aðalhlutverkum, að þeir ráði og séu merkilegir en stelpurnar séu bara uppá punt?

Efnisorð: ,

mánudagur, janúar 14, 2013

Náttúruverndarstöð 2

Á dauða mínum átti ég von en ekki því að rammaáætlun yrði samþykkt si svona. Ég horfi ekki oft á fréttir núorðið en nú fannst mér vefmiðlarnir ekki duga til svo ég ákvað að horfa á fréttatíma beggja stöðvanna og hlammaði mér í sófann. Eftir að hafa horft á fréttatíma Stöðvar 2 var ég hálf ringluð. Hafði ég misst af fréttinni um samþykkt rammaáætlunarinnar? Ég horfði svo aftur á allan fréttatíma Stöðvar 2 á netinu (eftir að hafa séð fréttir Ríkissjónvarpsins) og sá ekki betur en ég hafi haft rétt fyrir mér: í fréttum Stöðvar 2 er ekki einu orði minnst á þessa mikilvægu atkvæðagreiðslu eða að allir þingmenn (nema auðvitað Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn) samþykktu rammáætlun sem sker úr um vernd og orkunýtingu landsvæða á Íslandi.

Ómar Ragnarsson segir að „samþykkt rammaáætlunar á þingi í dag var einhver stærsti áfangasigurinn í sögu náttúruverndar á Íslandi“ og Landvernd fagnar henni (og ég líka) — en fréttastöð annarrar helstu sjónvarpsstöðvar landsins steinheldur kjafti. Það þykir mér fréttnæmt útaf fyrir sig.

Efnisorð: , ,

föstudagur, janúar 11, 2013

Ráðgáta

Fyrir þremur dögum síðan skrifaði Teitur Atlason áhugaverða bloggfærslu. Hann fjallaði þar um orðalag fjölmiðla þegar þeir segja frá nauðgunarmálum. Hann hafði semsé rekið augun í að orðið ‘meint’ skýtur oft upp kollinum þegar fréttir eru fluttar af því þegar konur leita til lögreglu eftir að hafa verið nauðgað, en það orð er ekki að finna í fréttum fjölmiðla af hópnauðgun sem karlmaður kærði.

Nú vil ég fyrst taka fram að það er ánægjulegt að þekktur og vinsæll bloggari eins og Teitur veki máls á þessu. Hann er reyndar ekki fyrstur til þess, eins og hann hlýtur að vita (enda þótt hann nefni það ekki) því fjölmiðlar hafa verið gagnrýndir fyrir þetta orðalag mikið og lengi — með þeim afleiðingum að svo virðist sem sumir þeirra, stundum, eru farnir að birta fréttir sem innihalda ekki þessa ‘meintu’ fyrirvara. Fréttin sem Teitur vitnar í gæti einmitt verið laus við þetta orðalag vegna þessarar baráttu. Ekki að ég vilji gera lítið úr þeirri kenningu Teits að fórnarlambið í þeirri frétt er karlkyns.

Það er samt annað sem mér finnst athyglisvert við þessa bloggfærslu Teits, og það eru athugasemdirnar sem skrifaðar hafa verið við hana. Nú eru semsagt þrír dagar síðan færslan var birt og umræðurnar eru — athyglisverðar. Komnar eru um þrjátíu athugasemdir sem eru af ýmsu tagi — en engin þeirra snýst um skort Teits á kynlífi eða hvernig eigi að bæta úr því. Enginn segir að Teitur eigi að grjóthalda kjafti, þetta séu óþolandi öfgar eða hvort hann geti ekki gert mannkyninu greiða og drepið sig. Nei, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hellir enginn svívirðingum yfir Teit þegar hann fjallar um þetta feminíska málefni, heldur eru bara allir kurteisir við hann. Það þykir mér í sjálfu sér jákvætt en jafnframt furðulegt því að þegar sumir aðrir bloggarar — t.d. Hildur Lilliendahl — hafa rætt feminísk málefni er talsverður skortur á kurteisi og hófstilltu orðalagi í athugasemdakerfum.

Nú spyr ég ykkur, hver getur verið ástæðan fyrir því að enginn er dónalegur við Teit? Er einhver með uppástungu?



Efnisorð: , ,

þriðjudagur, janúar 08, 2013

Að bregðast eða bregðast við

Það er hrikalegt að enn og aftur komi í ljós að barnaníðingar hafa komist upp með brot sín árum og áratugum saman. Allir þeir sem vissu þögðu, börnin sem urðu fyrir kynferðisofbeldinu höfðu í engin hús að venda og sátu ein uppi með sálarkvalirnar. Það er ekki bara kaþólska kirkjan og Breiðavík þar sem ofbeldið virðist hafa verið bundið við stund og stað heldur hafa menn eins og Karl Vignir Þorsteinsson sem Kastljósið afhjúpaði í gær (og DV hafði fjallað um áður) farið milli vinnustaða þar sem hann hafði aðgang að börnum. Hve mörg svona mál eru enn óupplýst?

Ein ástæða þess að þó þessi mál hafa komist upp er opnari umræða. Fyrir nokkrum áratugum þótti fjarstæðukennt að til væru barnaníðingar á Íslandi, slíkt gerðist bara í útlöndum. Annað ofbeldi var einnig oft þaggað niður, innan fjölskyldna eða stofnana, og þolendur áttu að líta á það sem sitt einkamál. En með tilkomu kvennahreyfingarinnar, sem benti á að hið persónulega er pólitískt og að pólitík á að taka á samfélagslegum vandamálum eins og ofbeldi, þá smám saman opnaðist umræðan. Hún opnaðist í allar áttir en mishratt og það fólk sem fyrst steig fram fyrir skjöldu og tjáði sig um lífsreynslu sína sætti óvæginni gagnrýni og sögur þess jafnvel dregnar í efa. En núna, eftir að hafa heyrt margar sögur, eigum við flest auðveldara með að trúa. Stofnanir eiga líka að vera hæfari til að takast á við þessi mál heldur en á þeim tíma sem heilt bæjarfélag brást Thelmu og systrum hennar.

Lengi vel var blinda auganu snúið að börnum sem urðu fyrir einelti. Einelti var fyrir ekki svo löngu talið einkamál þeirra krakka sem lentu í því að skólafélagar þeirra útskúfuðu þeim, meiddu og hæddu. Ótrúlega margir fullorðnir hafa sagt frá einelti sem þeir urðu fyrir í æsku og hvernig áhrif það hefur haft áhrif á líf þeirra. Og núna trúum við því ekki lengur að börn eigi sjálf sök á því þegar þau eru lögð í einelti. Samt virðist vera tregða til að bregðast við, hvort sem tregðan er innan einstakra skóla, hjá einstökum kennurum eða fjölskyldum þeirra barna sem standa fyrir og taka þátt í eineltinu. Undanfarna mánuði hefur margt ungt fólk, nýskriðið úr skóla sagt frá skólagöngu sinni sem helvíti á jörð. Þau eru enn of ung til að hafa unnið úr sársaukanum en eru þó tilbúin að segja frá. Það ætti að vera þeim skólastjórnendum sem ennþá muna eftir nemendunum með nafni íhugunarefni að heyra hvernig þessum börnum hefur liðið í þeirra umsjá.

Í gær las ég frásögn grunnskólastelpu sem er á fimmtánda ári. Hún skrifaði um skólagöngu sína fram til þessa dags, það er sorgarsaga. Hún hefur verið lögð í einelti frá 2. bekk og segir núna að engin tali við hana í bekknum hennar og hún sé „alltaf ein núna“. Og þrátt fyrir alla fræðslu um einelti þá virðast bekkjarsystkini hennar ekki láta deigan síga.
„Ég er búin að reyna að spyra hvað hef ég eiginlega gert, þá fæ ég þau svör: „þú varðst til“ og „hvernig nenniru að vera til?“. Ég verð svo sár að augun fyllast af tárum og ég kom ekki upp orði, mig langaði svo að segja eitthvað en ég gat það bara ekki.

Ég kvíði alltaf fyrir að fara í skólan því ég veit að þetta verði ömurlegur dagur ég fer að sofa öll kvöld með hnút í maganum út af því að ég kvíði svo rosalega mikið til að fara í skólann.“
Hugsanlega gerir það illt verra fyrir stelpuna að skrifa opinberlega um þessa óbærilegu stöðu sem hún er í. Kannski magnast óvildin í hennar garð í stað þess að bekkjarsystkini hennar sjái að sér. En vonandi verður saga hennar, og annarra sem segja frá meðan á ofbeldinu stendur, til þess að fullorðna fólkið bregðist við. Það á ekki að þurfa að bíða eftir að þeir sem lifað hafa af opni sig mörgum áratugum síðar. Við eigum að vera komin lengra. Viðbragðstíminn verður að vera styttri, það verður að bregðast strax við sálarháska barna.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, janúar 06, 2013

Afsökunarbeiðni

Fyrir um ári síðan skrifaði ég pistil þar sem ég baðst afsökunar á mistökum sem ég gerði en þá hafði ég gagnrýnt mann fyrir málvillu, sem reyndist ekki vera málvilla. Þá tók ég fram að í framtíðinni myndi ég viðurkenna ef ég hefði aftur rangt fyrir mér. Og nú er aftur þörf á afsökunarbeiðni.

Í pistli sem ég skrifaði nýlega fullyrti ég að Eva Hauksdóttir hefði verið í herferð til varnar Hauki Má Helgasyni vegna vinskapar þeirra. Nú hefur mér verið bent á að það sé enginn fótur fyrir þeirri fullyrðingu minni að þau séu vinir. Ég hef því spyrt þau saman að ósekju, það var minn misskilningur og ég biðst afsökunar á því að hafa sett hann fram sem sannleika.

Jafnframt dettur botninn úr samlíkingu minni á viðbrögðum mínum annarsvegar og Evu hinsvegar þegar upp kemst um ofbeldi í vinahópnum. Verra er að ég bjó til úr þessum misskilningi kenningu sem ekki stenst. Kenning mín um ástæður Evu fyrir herferð hennar á hendur kynferðisbrotaþolum er því úr lausu lofti gripin. Eftir stendur að ég hef ekki glóru um afhverju hún kýs að verja málstað kynferðisofbeldismanna svo ákaft.