miðvikudagur, febrúar 29, 2012

Dulsmál

Ég er, eins og Jenný Anna, mjög ósátt við að konan sem réði nýfæddu barni sínu bana sé undir smásjá fjölmiðla meðan á réttarhöldum yfir henni stendur. Mér finnst algert hneyksli að helvítis vændiskúnnarnir hafi sloppið nafnlausir gegnum dómskerfið en réttað sé fyrir opnum tjöldum yfir þessari konu. Og ég spyr mig líka að því hvort það sé vegna þess að hún er útlendingur.

Mér finnst reyndar líka verulega sérkennilegt að saksóknari haldi því fram að ekki sé um dulsmál að ræða. Þó eru þau sakamál kölluð dulsmál „þar sem móðir deyðir barn sitt í fæðingu eða undir eins og það er fætt og ætla má að það sé gert vegna neyðar, ótta um hneisu eða sökum veiklaðs eða ruglaðs hugarástands móður við fæðingu.“ Án þess að ég viti nokkuð um hugsanir eða tilfinningar konunnar á þeirri stundu sem hún eignaðist barnið þá finnst mér líklegt að eitthvað af þessu eigi við.

Ég veit mjög lítið um dulsmál annað en það sem ég hef lesið um sögur aftan úr öldum. Konur báru þá út börn sín og ég held að flest nútímafólk leggi þann skilning á málin að þar hafi verið um neyð að ræða. Lengi vel var það dauðasök að eignast börn í lausaleik. Eftir að þau ólög voru lögð af voru börn sem þannig urðu til litin hornauga af húsbændum og öðru yfirvaldi. Allt þetta stuðlaði að því að konur gripu til þess óyndisúrræðis að fyrirkoma börnum sínum.

Undanfarin ár hafa borist fréttir utanúr heimi um konur sem, eins og þessi kona sem nú er fyrir dómstólum, segjast ekki hafa vitað að þær væru barnshafandi fyrr en allteinu að þær fæða barn. Þó manni þyki það óskiljanlegt þá virðist þetta koma þeim mjög á óvart og þær panikka og skilja barnið eftir á klósettinu þar sem það fæddist. Stundum finnst barnið lifandi, stundum ekki. Ekkert af þessu virðist vera af yfirlögðu ráði, heldur af ótta.

Hvernig sem á því stendur að þessi kona í þessu tilviki varð þess valdandi að vesalings barnið dó, þá er fullkomlega óviðeigandi að leyfa fjölmiðlum að smjatta á yfirheyrslum yfir henni, fullkomlega óviðeigandi að taka af henni myndir, lýsa svipbrigðum hennar og nafngreina hana. Ef einhverstaðar á við að nota frasann „mannlegur harmleikur“, þá er það hér.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, febrúar 28, 2012

Sjónvarpsviðtal vegna ummæla karla um konur

Hildur Lilliendahl hefur ekki bara sýnt þeim sem eru á facebook hvernig karlar tala um konur, heldur nú líka sjónvarpsáhorfendum.

Fyrir þau sem misstu af Kastljósinu, þá má sjá og heyra ummæli kvenhatarana hér og fínt fínt viðtal við Hildi að auki.

Efnisorð: , ,

mánudagur, febrúar 27, 2012

Karlar sem afhjúpa opinberlega hatur sitt á konum

Það er eins og að fylgjast með bílslysi í slow-motion að lesa athugasemdahalann við greinina um hið stórgóða skjáskotssafn Hildar Lilliendahl. Fyrstu athugasemdirnar voru nánast allar hneykslun á því að Hildur skuli hafa safnað athugasemdum sem anga af kvenfyrirlitningu og sett þær á einn stað undir yfirskriftinni Karlar sem hata konur.* Eftir því sem á líður umræðuhalann virðast menn gleyma að ummæli þeirra, sem sett eru á netið fyrir allra augum, segi sitthvað um þeirra innri mann. Og þeir gleyma því að fjöldi manns les það sem þeir segja, tekur jafnvel af því skjáskot og geymir eða birtir þar sem almenningur allur hefur aðgang að því svo lengi sem internetið lifir.

Því miður get ég ekki boðið upp á skjáskot,** þetta verður því að duga.

Kristján H. Tsiklauri · Vinnur hjá Sjálfstætt starfandi
Það er bara spurning hvort að þessi Hildur hafi fengið alvöru ást frá karlmanni. Hver kannast ekki við að vera búinn að sofa ekki hjá í smá tíma og fá svokallaða "brundstíflu". Er þetta ekki bara svona hjá henni vinkonu okkar :)

Hermann Knútur Sigtryggsson · Bifvélavirki hjá Bifvélarverkstæði Baugsbót
hef nu bara eitt að seigja að þú getur ekki ætlast til þess að allir þessir karlar hati konur eg held bara þar ad seigja að .þú hatir að vera kona og færð aldrei að ríða og blessud sahara eyðumork sé i klofinu á þér og ykkur feministum reynið að láta ykkur líða betur með þvi að kenna köllonum um það er frekar sorglegt af ykkur að gera orð þyða ekkkert hatur alltaf sko :D

Þeir eru of margir til að ég nenni að skrifa þá alla upp, en þessi hér fyrir neðan er í sérlegu uppáhaldi.

Gunnar Flóki Sigurðsson · Djúpivogur, Sudur-Mulasysla, Iceland
Senda þessa Helv Feminista úr landi

Gunnar Flóki Sigurðsson · Djúpivogur, Sudur-Mulasysla, Iceland
ég er að tala um öfga feminista gústa,ég er ekki á móti þeim sem tala um jafn rétti og nauðganir annað slíkt en sumt er of mikið


(Svo ekki sé nú talað um hve heimskt það er að átta sig ekki á að feministar „tala um jafnrétti og nauðganir“.)

Gunnar Flóki Sigurðsson · Djúpivogur, Sudur-Mulasysla, Iceland
Ef þeir myndu hata konur þá myndu þeir ekki date konur talað illa um eða eithvað slíkt á ekki við rök að styðjast,bæði ég og aðrir hafa sagt ýmislegt legt um konur það merkir ekki að ég hata konur langt frá því ég elska konur sértakleg rauðhærðar og svarthærðar og ég styð jafnrétti kvenna útí eitt en sumt er bara of mikið eins og við meigum ekki horfa á klám og fara á striðstaði til að njóta fegurðar sem kvenmaðurinn hefur er bara rugl

Gunnar Flóki Sigurðsson · Djúpivogur, Sudur-Mulasysla, Iceland
ég hef þekkt stelpur sem hafa unnið á striðstað*** og þeim var ekki þvingað inná þá til að strippa þær gerðu það að fúsum og frjálsum vilja og höfðu gaman af og ein bauð mér til að fylgjast á sínum tíma enda er hún flottur kvenmaður sem vildi sýna sinn flotta líkama og jú til eru kvenmenn sem næddar eru til að strippa og það er rangt og kvað klámið varðar þá eru um 70-80% kvenna sem gera þetta að fúsum og frjálsum vilja og hafa gaman af að RÍÐA
Við erum karlmenn og horfum á klám og svo eru líka til konur sem horfa líka á klám

Gunnar Flóki Sigurðsson · Djúpivogur, Sudur-Mulasysla, Iceland
heheheh ég horfi og mun alltaf horfa á klám heheh


Þeir eru reyndar ekki allir svona súrrandi heimskir, karlmennirnir sem skrifa á umræðuhalann, en viðhorfið er jafn ömurlegt í alltof mörgum tilvikum.

___
* Ég er reyndar ein þeirra sem hiklaust flokka hatur á feministum sem hatur á konum, enda eru feministar (sem í langflestum tilvikum eru konur) að tala máli kvenna.
** Ekki hafa allir sem lesa þessa síðu aðgang að facebook og geta því ekki séð lista Hildar. Mér finnst samt ómögulegt að það fólk standi áfram í þeirri trú að umræða um konur almennt og feminista sérstaklega sé alltaf vönduð og smekkleg og einkennist af velvilja.
*** Eftir mikla yfirlegu hef ég komist að þeirri niðurstöðu að Gunnar sé að tala um strippstað.

Efnisorð: ,

sunnudagur, febrúar 26, 2012

Styrkjum staðalímyndirnar: Strákar eru klárari í tölvuleikjum

Seint verður sagt um mig að ég hafi mikinn áhuga á tölvuleikjum. Því ræður eflaust aldur minn fremur en kyn enda þótt ég geti auðvitað ekki vitað hvort ég yrði æsispennt að spila slíka leiki væri ég barn eða unglingur. En mér finnst samt sérkennilegt að tölvuleikir séu eyrnamerktir karlkyninu, að þeir séu þeir einu sem hafi áhuga. Ég skal ekkert efast um rannsóknir sem sýna að strákar hafi meiri áhuga á tölvuleikjum og séu líklegir til að spila þá fram eftir öllum aldri, en ég set spurningamerki við að stelpur og konur séu beinlínis útilokaðar.

Á Knúzinu var áhugaverð umfjöllun um tölvulæsi stelpna og stráka og fjallað um hvernig niðurstöður voru túlkaðar strákum í hag, sagt að strákar séu klárari að lesa úr upplýsingum á netinu og að stelpur eigi erfiðara með að vafra um netið. Svo kemur í ljós að þetta er ekki svona einfalt. En þó er reynt að halda því fram, í þessari grein sem gagnrýnd er á Knúzinu, að strákar standi betur að vígi, séu klárari á tölvur, upplýsingatæknin liggi betur fyrir þeim.

Afleiddar staðalímyndir þúsund ára verkaskiptingahefðar eru rótgrónar og vítahringurinn heldur áfram:

1. Upplýsingatækni er karlafag því það er tæknilegt.

2. Strákarnir eru styrktir í trú á eigin færni meðan stelpunum finnst þær sífellt minnimáttar. Frammistaða hvors hóps fyrir sig dregur dám af hinum (svokölluð pygmalion-áhrif).

3. Strákarnir leita inn á þessa braut og fá mögulega vinnu innan geirans í framhaldi af því. Stelpurnar eru mjög fáar innan upplýsingatækninnar. Annað hvort telja þær sig ekki eiga erindi í þessi störf eða þær hika við að vinna í þessum geira þar sem þeim finnst þær ekki velkomnar.

4. Af þessu er dregin sú ályktun að upplýsingatækni henti körlum betur.

Í stuttu máli sagt: framtíðin er þeirra.

Stórfyrirtæki sem selja tölvuleiki virðast einnig þeirrar skoðunar að karlmenn séu þeirra markhópur — ekki bara helsti markhópur heldur allur markhópurinn. Sumum þætti e.t.v. tilraunarinnar virði að reyna að selja kannski einhverju kvenfólki eitthvað svona tölvu-eitthvað, en þegar vitað er að framtíðin er karlmanna þá er það kannski óþarfi.

Stelpur eiga a.m.k. ekki auðveldara með að sjá fyrir sér framtíð sína á sviði upplýsingatækni eða tölvuleikjahönnunar sé þessi auglýsing skoðuð.


Viðbót. 2. mars birtist önnur heilsíðuauglýsing: á þeirri mynd var heil kona. Noh!

Efnisorð:

laugardagur, febrúar 25, 2012

Góð fyrirmynd

Í Fréttatímanum má lesa viðtal við unga konu sem er sannarlega góð fyrirmynd.

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir hefur unnið fjórtán Íslandsmeistaratitla í borðtennis og hefur nú um tveggja ára skeið verið yfirþjálfari stelpuhópa í borðtennis. Hún lærði á píanó frá átta ára aldri og tók þátt í spurningakeppni grunnskólanna og þegar hún kom í menntaskóla bauð hún sig fram í Gettu betur lið skólans. Í vetur hefur hún keppt í fullorðinskeppninni Útsvari auk þess að þjálfa lið gamla skólans síns í Gettu betur. Allstaðar hefur hún staðið sig vel.

Undanfarið hefur Auður Tinna meðfram spurningakeppnum og íþróttaþjálfun unnið í verslun aðra hverja helgi en einnig sinnt háskólanámi því hún er komin í lögfræðinám („ákvað að verða lögfræðingur sem leggur eitthvað til samfélagsins“) og situr nú í menntamálanefnd Stúdendaráðs fyrir hönd Röskvu — og er þó enn ekki orðin tvítug. Auður Tinna var á nítjánda ári þegar hún lauk stúdentsprófi á þremur árum og þar að auki af þremur brautum: náttúrufræði-, tungumála- og félagsfræðibraut. Hún velti fyrir sér að fara í kynjafræði en lögfræði varð fyrir valinu, en Auði Tinnu finnst sjálfsagt að kalla sig feminista og er stolt af því að vera nörd.

Umhverfi Auðar Tinnu virðist líka vera jákvætt, styðjandi og hvetjandi: fjölskyldan er samheldin og hún á kærasta og góða vini. Sjálf er hún greinilega eldklár, einbeitt, skipulögð, jákvæð, traustur vinur, góður hlustandi og full af kærleika til umhverfis síns.

Fyrir ungar konur og þá sérstaklega stelpur undir tvítugu er Auður Tinna Aðalbjarnardóttir hin besta fyrirmynd sem hægt er að hugsa sér.

Efnisorð:

föstudagur, febrúar 24, 2012

Gott að eiga blað

Einu sinni í viku fylgir með Fréttablaðinu einhverskonar blaðkálfur sem kallaður er Lífið. Þetta er auðvitað enn eitt lífstílsblaðið ætlað konum og ber að lesa sem slíkt. Í síðustu viku var ein síða (bls. 14) lögð undir Flottar fyrirmyndir yfir fertugt og var þar átt við konur sem „hafa náð árangri á sínu sviði og lagt sitt af mörkum til samfélagsins“. Vigdís Finnbogadóttir lenti auðvitað ofarlega á listanum og ýmsar ágætar konur aðrar.

Það sem mér þótti aftur á móti áhugavert var að Ingibjörg Pálmadóttir var líka nefnd, mynd af henni birt og eftirfarandi texti með: „Ingibjörg er geislandi, með fallegt bros, stelpulega klædd eins og Lilja systir hennar og sjarmerandi. Hún er góð manneskja.“ Dómnefndinni sem valdi Ingibjörgu inn á lista yfir fyrirmyndir á forsendum árangurs og framlags til samfélagsins er það auðvitað frjálst, enda þótt mér þyki rökstuðningurinn sérkennilegur (með fallegt bros) en enn sérkennilegra finnst mér að blaðið skuli ekki hafa kippt Ingibjörgu af listanum — eða að minnsta kosti tekið fram að hún sé eigandi blaðsins.

Ein af niðurstöðum rannsóknarnefndar alþingis um bankahrunið var að fjölmiðlar hefðu brugðist. Í kjölfarið á skýrslunni var uppi sú krafa að þegar fjallað væri um eigendur fjölmiðlanna væri þess getið; þegar verið væri að ræða Jón Ásgeir þá væri þess jafnframt getið að hann væri ásamt konu sinni aðaleigandi 365 miðla, þ.m.t. Vísis og Fréttablaðsins. Ingibjörg hefur reyndar ekki legið undir svo mjög undir ámæli fyrir sinn þátt í hruninu — ekkert á borð við Jón Ásgeir (skiljanlega) — en hún telst þó varla stikkfrí, a.m.k telur slitastjórn Glitnis hana til sjömenningaklíkunnar sem mergsaug bankann.

Það var nú ekki til fyrirmyndar.

En ekki er öll sagan sögð. Í Lífinu í dag er forsíðuviðtal við konu sem er gift fjármálastjóra 365 miðla (og þar áður fjármalastjóri Baugs), án þess að það sé tekið fram. Ég veit reyndar ekki hvernig hans mál standa í dag en hann var a.m.k. lengi undir smásjá fjölmiðla fyrir gjaldþrot og yfirveðsetningu á húsi þeirra hjóna. Og konan hans á greiðan aðgang að fjölmiðlum til að hvítþvo ásýnd þeirra.*

Það er nú ansi fínt að fólkið sem tengist hruninu skuli hafa svona fína fjölmiðla til að halda þeirri hugmynd að lesendum hve venjulegt fólk það sé (með fallegt bros) og góða fjölskyldu. Og barasta eitthvað svo góðar manneskjur. Það eru ýmsar leiðir til að snúa almenningsálitinu sér í hag. Eigendur og stjórnendur 365 miðla beita fjölmiðlum sínum greinilega til þess. Og hvað er betra til þess en geislandi kona með fallegt bros?

___
* Yfirlýstur tilgangur viðtalsins við Friðriku er að bera til baka einhverjar slúðursögur um þau hjónin (sem ég hafði ekki heyrt, enda þekki ég engan sem nennir að ræða einkalíf þessa fólks), ekkert minnst á neitt fjármálatengt þar. Enda varla neitt til að tala um, langt um liðið og svona. Óþarfi að horfa of mikið í baksýnisspegilinn, það er bara neikvæðni.

Efnisorð: ,

laugardagur, febrúar 18, 2012

Hatursáróður og verjendur hans

Í dag birtist fínt viðtal við Sólveigu Önnu Bóasdóttur um hatursorðræðu í biblíunni. Hún segir að
„það sem í henni standi sé í ákveðnu félagslegu og menningarlegu samhengi og það verði að hafa í huga. Því sé ekki hægt að nota þau sem siðferðileg viðmið í dag, án gagnrýnnar skoðunar.“

Svo virðist sem hatursáróður Snorra í Betel* hafi þó glatt marga undanfarið. Þá á ég ekki við hommahatara heldur trúleysingja af ýmsu tagi sem fyllst hafa Þórðargleði yfir að Snorri hafi afhjúpað fyrir almenningi hatursfullt viðhorf biblíunnar til samkynhneigðra. Þeir veifa tjáningarfrelsi** eins og mest þeir mega, eingöngu til að koma höggi á kristið fólk, skítt með áhrifin á samkynhneigða(og samkynhneigða í hópi kristinna). Mannkærleikur þeirra er síst meiri en hjá Snorra: þeim er greinilega skítsama um níðingslega aðför að samkynhneigðum.

Vitað er að samkynhneigðir unglingar líða þjáningar í skóla vegna fjandsamlegrar afstöðu umhverfisins til samkynhneigðar.*** Að þurfa að deila skólastofu - sem er vinnustaður barna og þau hafa ekki val um að segja upp störfum — með andstyggilegum kallskúnki sem segir að þau eigi skilið að deyja — það er engum bjóðandi.

Afstaða trúleysisingjanna til hatursáróðurs er heldur ekki boðleg.

__
* Það er auðvitað óskiljanlegt að Snorri í Betel sé barnaskólakennari og furðulegt af skólayfirvöldum að A) ráða hann til starfa, B)grípa ekki í taumana fyrir löngu.
** Enda þótt ég sé yfirlýstur trúleysingi á ég ekkert annað sameiginlegt með þessum trúleysingjum. Ég hef útskýrt afstöðu mína til tjáningarfrelsis hér.
*** Það er víst mjög í tísku að segja að allir hlutir sem hallærislegir þykja séu „hommalegir“ eða „gay“. Ágæt myndasaga í Frb. dagsins sýnir það. Reyndar virðast flestar myndasögur dagsins valdar með sama efni í huga.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, febrúar 12, 2012

Rannsóknarblaðamennska Fréttablaðsins er greinilega öll að færast í aukana

Hér mun ég halda áfram þar sem frá var horfið (í viðbót við síðasta pistil) að bera blak af fjölmiðlum. Fjölmiðlamenn hafa verið sakaðir um að sinna ekki nógu vel einstaka málum, leggjast ekki í rannsóknir og í stuttu máli sagt ekki vinna vinnuna sína. Ég get bent á nýlegt dæmi um hið gagnstæða.

Í Fréttablaðinu á föstudaginn var stórfrétt sem ekki færri en tveir blaðamenn (kannski fleiri) voru settir í að sinna. Um er að ræða gríðarlega góða úttekt á ferðavenjukönnun sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Annar blaðamaðurinn (ÞJ) kemst að þeirri niðurstöðu að helmingur íbúa á höfuðborgarsvæðinu ferðast ekki með strætó, hinn (SHÁ) fullyrðir að þeir ferðist aldrei með strætó. Til þess að lesendur fari ekki að draga hlutleysi blaðamannanna í efa, því þeir túlka greinilega niðurstöðurnar eftir eigin geðþótta, þá er annarri fréttinni komið fyrir á bls. 6 en hinni á næstu opnu, á bls. 8.Enn sem komið er hefur ekki meira birst um þetta æsispennandi mál, en hugsanlega eru enn fleiri blaðamenn að rannsaka það. Burtséð frá því þá er greinilega ekki öll nótt úti enn um framtíð rannsóknarblaðamennsku á Íslandi.

Efnisorð:

föstudagur, febrúar 10, 2012

Það er svo erfitt að vera barnaníðingur

Karlmaður hefur verið dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa tvisvar haft kynmök við fjórtán ára gamlan pilt og greitt piltnum fyrir. Eins og þetta sé nú ekki nógu hneykslanlega lítil refsing þá er röksemdin fyrir henni ekki skárri.
„Óttar [Guðmundsson geðlæknir] segir jafnframt að maðurinn hafi freistast til að leita eftir samskiptum við aðra karlmenn í netheimum og hafi þetta orðið til þess að hann hafi verið afhjúpaður* með miklum afleiðingum fyrir hann og fjölskyldu hans og hafi hann misst starf sitt.“

Við erum að tala um kennarann á Akranesi er það ekki? Þennan sem umgengst unglingsdrengi daglega. Eymingjans greyið að fá það ekki áfram. Hann sem hefði alveg getað sigtað út fleiri drengi sem hægt var að níðast á.

En það er auðvitað rétt að vera ekkert að loka barnaníðinga inni, ef þeir eru ekki haldnir barnagirnd svona almennt, heldur finnst bara stundum gaman að níðast á börnum ef annað betra býðst ekki.

En um að gera að fara mildum höndum um svona menn. Virðulegir fjölskyldumenn og bannað að tala illa um þá.

___
* Ég skil reyndar ekki alveg hvernig glæpamenn lenda fyrir dómstólum ef þeir hafa ekki verið afhjúpaðir; á að virða öllum glæpamönnum það til refsilækkunar að upp um þá hafi komist?

Viðbót. Hrafnhildur Ragnarsdóttur skrifaði fínan pistil um þetta mál, þó ég sé ekki sammála henni um fréttaflutninginn. Ég tel ekki að sé við fjölmiðla að sakast að þessu sinni, það er fátt annað sem kemur fram í dómnum en röksemdir geðlæknisins um hve barnaníðingurinn sé gúddí gæi. Auðvitað hefðu fjölmiðlar mátt benda á að hve fátt kemur fram í dómsorði og taka fram að hinn dæmdi er þar ekki nafngreindur. Sjálf hafði ég gleymt að gera grein fyrir mikilvægum punkti í þessu öllu saman, en ein athugasemdin við pistil Hrafnhildar er mjög hnitmiðuð um það atriði: „Það hefði nú bara hægt að stytta þessa frétt í 1-2 setningar. Menntaskólakennari sakfelldur fyrir kaup á vændi hjá ósjálfráða dreng í neyslu punktur. Þá er fréttin komin.“

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, febrúar 09, 2012

Púum á konuna með hallærislega kynlífið!

Ég varð hissa á viðbrögðunum sem grein um klám og vændi fékk á Knúzinu í gær. Höfundurinn, Anna Bentína Hermansen, benti á að klám sé skrumskæling kynlífs. Því er ég sammála. Anna skipar engum að hætta að stunda kynlíf án ástar en hún talar þó greinilega þannig að það sé æðsta stig kynlífs. Má hún það ekki?

Hún talar um gefandi og nærandi kynlíf, en segir ekki að það sé eina kynlífið sem getur verið gott. En það er eins og það stuði fólk að upphefja kynlíf sem gengur út á tilfinningar og virðingu, eins og það sé eitthvað slæmt. Eða er það hallærislegt, úrelt?

Hafi verið erfitt fyrir lesendur Knúzzins að samþykkja grein Önnu hvernig fannst þeim fullyrðing Stefáns Mána um að „kynlíf án ástar sé klám“? Afhverju ruddist þetta fólk ekki fram á ritvöllinn og heimtaði að hann stytti greinina eða kvartaði undan því að hann upphefji eina kynferðisreynslu umfram aðra? Tók hann þó talsvert sterkar til orða en Anna. Bæði voru þau að skrifa gegn klámi (og Anna gegn vændi) og finnst mér greinar þeirra gott framlag, burtséð frá fyrrgreindum og umdeildum viðhorfum þeirra.

En sérkennilegt er að mega ekki stilla upp kynlífi í ástarsamböndum sem andstæðu kláms.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, febrúar 07, 2012

Skaðsemi áfengis

Í kvöld var á dagskrá þáttur á Skjáeinum þar sem fjallað var um áfengisvandamálið. Mér var bent á þáttinn (ég hef ekki áður séð hann og hef ekki aðgang að þessari stöð) enda hef lengi haft áhuga á skaðsemi áfengis og ákvað því að horfa á hann.* Ég var hálfhissa á vali á viðmælendum, missti reyndar af Lindu Pé, sem mér skilst að hafi verið í byrjun þáttar, en aðeins ein önnur kona var í þættinum. Jújú, ég tók eftir að karlar eru líklegri en konur til að vera alkahólistar en áfengisbölið snertir samt fleiri en bara þá sem drekka,** það snertir okkur öll. Eins og kom fram í þættinum hefur áfengisdrykkja mikil áhrif á samfélagið, svo ekki sé nú talað um einstaka fjölskyldur.

Það var gott að fá fram það sjónarmið hve varasamt það er að gefa börnum áfengi: þau eiga það til að ánetjast því. Og ágætt líka að benda á að sífellt er talað um eiturlyf sem skaðvald og uppsprettu glæpa þegar raunin er sú að glæpir sem framdir eru í ölæði eru mjög margir.***

Þátturinn var ágætur sem þörf áminning um skaðsemi áfengis.
___
* Mér fannst þátturinn reyndar svo stuttur og ágripskenndur að ég hef á tilfinningunni að ég hafi verið að horfa á stiklu úr heimildarmynd frekar en þátt sem tekur á ákveðnu málefni.
** Myndskeið af mjög drukknu fólki voru allmörg í þættinum. Ég efast um að þeir sem þar komu fram, og voru auðþekkjanlegir, hafi verið sáttir. Þarna var farið talsvert yfir strikið í myndbirtingum.
*** Ég sit ekki með glósubók við sjónvarpið og tók því ekki niður tölur. Minnir þó að Geir Jón hafi sagt að flestallir glæpir, þ.e.a.s. ofbeldisglæpir og kynferðisbrot séu framdir undir áhrifum áfengis (og auðvelt er að botna setninguna: af drukknum karlmönnum).

Efnisorð: ,

mánudagur, febrúar 06, 2012

Klám er viðbragð við kvenfrelsi en stuðlar ekki að því

Eftir því sem konur ná jafnrétti og jafnri stöðu á fleiri sviðum vex klámiðnaðnum fiskur um hrygg. Þeir sem fyrirlíta konur og óttast aukin ítök þeirra fagna kláminu mest. Þeir eru margir, kvenhatararnir, og þeir framleiða, dreifa og horfa á klám. Ekki nóg með það heldur veifa þeir þeirri skoðun að klámið sé sjálfsagt og vændi sé nauðsynlegt, opinberlega og í einkasamtölum, reyna þannig að fá fleiri í lið með sér gegn konum.

Markmiðið er að niðurlægja konur, sýna þær í sem verstu ljósi og gefa til kynna að þetta sé þeirra eina rétta hlutverk. Klám leiðir ekki af sér aukin kvenréttindi heldur er viðbragð karlveldisins, með fulltingi kapítalismans, til að kúga konur til hlýðni.

Efnisorð:

sunnudagur, febrúar 05, 2012

Öskjuhlíðin, II

Hún hljómar svo sem ágætlega, tillagan um að Náttúruminjasafn verði í Perlunni, talsvert betur en að þar verði hótel sem breiði úr sér yfir Öskjuhlíðina.* Ég hef ekki sett mig inn í togstreituna sem mér skilst að sé milli safnsins og Náttúrufræðistofnunar, sem ku eiga að vera vísindalegur og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins, en samkvæmt Ríkisendurskoðun kemur til greina að sameina þessar stofnanir. Báðar eiga þær einhvern safnkost en hafa ekki komið sér saman um hvað er hvurs og hvurs er hvað.

En það er þetta með safnkostinn. Líklegt er að gerð verði krafa um að sýningarsalur og safngeymsla verði á sama stað. Er geymslupláss í tönkunum? Og er byggingin heppileg fyrir viðkvæma sýningargripi? Nú veit ég ekki hve kunnug þau sem skrifuðu greinina um að sýna náttúrugripi í Perlunni eru varðveislu safngripa, en mér þykir líklegt að það þurfi ákveðinn lofraka og hita sem megi ekki sveiflast mikið. Er hægt að stjórna því með góðu móti í Perlunni? Það er nú engin smá lofthæð þar inni. Og birtan, það er varla hægt að stjórna henni nema sett verði þak yfir sýningarsvæðið, ja eða sýningin verði inni í tanki, eins og sögusýningin.

Samt er gott að komi fram hugmyndir um nýtingu Perlunnar, og ef þessi er ekki nothæf þá verður sú næsta kannski betri.

___
* Nú á að halda hugmyndasamkeppni um framtíð útivistar- og skógræktarsvæðisins í Öskjuhlíð. Hvernig væri að gera frekar könnun á því hversu margir Reykvíkingar geta hugsað sér að við Keiluhöllina bætist hlussu hótel utan í Öskjuhlíðinni, hve margir vilji steypuklessu ofan á Öskjuhlíðinni og á hve mörgum fingrum annarrar handar sé hægt að telja þá sem eru himinlifandi með staðsetningu Háskólans í Reykjavík?

Efnisorð: ,

miðvikudagur, febrúar 01, 2012

Rasistasíðan

Þegar ég fór inn á rasistasíðuna á mánudag sá ég vefsíðu með myndum. Engir tenglar virtust vera á henni og en nokkrar myndir og eitthvað um að senda ætti nafngreindan mann til Afríku (ég áttaði mig ekki á nafni mannsins og vissi ekki hver konan með börnin var).

Ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki alveg afhverju fólk varð svona rosalega reitt yfir síðunni og afhverju löggan var komin í málið. Svo skoðaði ég aftur í gær og þá sá ég tenglana og las ég allan viðbjóðinn. Mér varð illt.

Mikið djöfull getur fólk verið klikkað og ógeðslegt.

Efnisorð: