föstudagur, apríl 30, 2010

Gjöfin sem var seld (og veðsett)

Ég hef alltaf tengt taflmennsku við gáfur. Kannski vegna þess að ég kann bara mannganginn en skil ekki nóg til að kunna að tefla. Verð heimaskítsmát æ ofan í æ þá sjaldan sem ég læt plata mig að skákborðinu. En svo er ég líka alin upp við að skák sé mikil andans íþrótt, svona eins og flestir Íslendingar.

Það hefur samt eitthvað mikið geigað þegar Helgi Áss Grétarsson fékk stórmeistaranafnbótina. Ef marka má grein sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag og kallar „Norræna ofveiðisamfélagið“ þá hefur alveg farið framhjá honum afhverju Íslendingum er upp til hópa illa við kvótakerfið. Hann virðist halda að það sé vegna þess að við skiljum ekki að það þurfi að „stuðla að virkari fiskvernd og aðlaga afkastagetu fiskiskipastólsins að afrakstursgetu nytjastofna“ því annars sé fiskurinn ofveiddur. Það er nú bara ekki það sem um er deilt.

Ég á erfitt með að ná utanum þá hugsun hjá honum að óánægja með kvótakerfið snúist um ofveiði, því það er ekki eins og tildæmis síðastliðið eitt og hálft ár hafi ekki stundum verið gefið til kynna að kvótinn hafi gengið svo kaupum og sölum og gert suma svo óstjórnlega ríka á kostnað byggðarlaga þar sem mannlíf fór nánast í rúst, og að ofaní kaupið hafi kvótinn verið veðsettur — óseldur fiskur verið veðsettur — til þýsks banka. Það er ekki takmörkun fiskveiða sem hefur verið svona óvinsæl heldur það að kvótinn var gefinn þeim sem svo máttu selja hann (og veðsetja) að vild; almenningur horfði svo uppá ósköpin án þess að fá rönd við reist. En hefur leyft sér að röfla. Röflið varð reiðiblandnara eftir hrunið þegar þetta með veðsetninguna kom í ljós.

En ekkert af þessu fattar Helgi Áss, hann er bara svo hissa á að við viljum ekki að fiskveiðar séu takmarkaðar. Ég held sveimér þá að það væri vafamál hvort okkar yrði heimaskítsmát ef við settumst að tafli.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, apríl 29, 2010

Bjarni Ármanns græðir þegar þú grillar á kvöldin

Mikið hlýtur það að hafa verið hressandi í morgunsárið fyrir alla grillmeistara landsins að lesa sér til fróðleiks * að Bjarni Ármannsson á fyrirtækið sem flytur inn allt gas til landsins. Í hvert sinn sem hin mikilvæga og karlmannlega utandyra-eldamennska er stunduð er það aur í vasa Bjarna Ármanns. Það hlýtur að gleðja alla grillara (hvort sem þeir græða á daginn eða ekki), enda fékk Bjarni ótrúlega snautlegan starfslokasamning hjá Glitni banka hér um árið — ekki nema 900 milljónir auk þess að vera á launum í eitt skitið ár á eftir — og það eftir að hafa skrimt á lúsarlaunum í bankastjórastólnum (rétt marði 43 milljónir á mánuði undir það síðasta) og fleygt í hann einhverjum 100 milljónum í bónus fyrir árið 2007, svo dæmi sé tekið.

Þennan öðling styrkja allir góðir grillarar.

___
* Fréttablaðið á hrós skilið fyrir að taka út fyrir sviga aðalatriði málsins, semsagt að Bjarni eigi gasið (eins og Pútín á gasið í Rússlandi). Annars hefði fréttin bara verið um verð á gaskútum.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, apríl 27, 2010

Heimavarnarlið

Ég fékk óbragð í munninn þegar ég sá að einn þeirra sem hvetja til mótmæla fyrir utan hjá Steinunni Valdísi er ógeðsfyrirbærið Geiri í Goldfinger. Hann hatar auðvitað alla feminista og hún hefur sannarlega lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að uppræta starfsemi nektarstaðanna.

Nú þyrfti að stofna heimavarnarlið og standa varðstöðu fyrir utan heimili Steinunnar Valdísar.

Efnisorð: , , , ,

föstudagur, apríl 23, 2010

Miseinlæg afsökunarbréf

Hið eina góða við afsökunarbréf Björgólfs Thor var að það var fyrsta skipti sem einhver útrásarvíkinganna sýndi vott af vilja til að þykjast vera leiður yfir því sem hann hafði leitt yfir íslensku þjóðina.*

Afsökunarbréf Jóns Ásgeirs, sem næstur skrifaði (enn hefur enginn annar bæst í hópinn), átti eflaust að virka enn einlægara en var það auðvitað ekki.** Hann þykist í bréfi sínu hafa „misst sjónar á góðum gildum og mörgu því sem mestu skiptir í lífinu“ — en aldrei hef ég heyrt nokkuð það um Jón Ásgeir sem bendir til að hann hafi á ævi sinni vitað hver hin góðu gildi eru en hinsvegar alla tíð stjórnast af fégræðgi. Þessi maður var ekkert afvegaleiddur; hann markaði sér sína braut sjálfur. Þessi setning fannst mér þó best í bréfi Jóns Ásgeirs: „Fyrstur manna skal ég þó sjálfur viðurkenna, hversu margt mátti betur fara í þessu ferli.“ Fyrstur manna! Í eitt og hálft ár hefur allur þorri íslensku þjóðarinnar bent á þennan mann sem einn aðalleikenda í hruninu, það er ekkert sem kom í ljós bara eftir birtingu rannsóknarskýrslunnar.***

Þó fólk hafi viljað að þessir menn (og allir hinir sem sök eiga á hruninu) bæðust afsökunar og játuðu sök sína og ábyrgð (sem þessir tveir ofangreindir gera að afar takmörkuðu leyti) þá leyfir fólk sér að hnussa yfir þessum aumu bréfaskriftum sem þessir menn bera á borð fyrir almenning. Samt fær Björgólfur Thor plús í kladdann fyrir að hafa þó — einu og hálfu ári eftir hrun — druslast til að biðjast að einhverju leyti afsökunar.

Öllu betra bréf las ég á síðu Egils Helgasonar. Það er ekki skrifað af útrásarvíkingi eða leigupenna fyrir hans hönd heldur af nafnlausum einstaklingi.**** Ég ætla að birta það hér því það gleður mig svo mikið meira heldur en 'gjörið svo vel að taka mig í sátt' bréf hinna raunverulegu fjárglæframanna.

Uppkast að bréfi frá útrásarvíkingi
„Ég missti mig í sjúklegri græðgi. Ég ætlaði að verða svakalega ríkur með því að spila á sífellt hækkandi hlutabréfagengi. Ég vissi að þetta var ekkert annað en stórkostlegt fjárhættuspil, en mér var skítsama vegna þess að ég tók peninga að láni til að leggja undir. Ég tók enga persónulega áhættu.

Ég notfærði mér gott orðspor Íslendinga til að blekkja útlenda banka til að lána mér fáránlega mikla peninga. Ég vissi auðvitað allan tímann að ef spilaborgin mundi hrynja, þá væri allt tapað. Ég passaði því upp á að fela hluta af peningunum.

Ég fékk mikilmennskubrjálæði með allt þetta lánsfé undir höndum. Mér fannst eins og ég væri hrikalega klár fjárfestir, jafnvel þótt ekkert af fjárfestingunum skilaði hagnaði. Þetta mikilmennskubrjálæði skýrir hvers vegna ég þurfti að ferðast um á einkaþotu og eignast hús í fínustu auðmannahverfum stórborga erlendis. Þetta skýrir líka hvers vegna ég stráði gulldufti út á grjónagrautinn.

Ég vissi auðvitað að allt færi til fjandans nema hlutabréfin héldu áfram að hækka í verði. Til að tryggja það laug ég hverju sem var að hverjum sem var. Ég keypti mér velvild þar sem hún var föl og ég hótaði þegar þess þurfti. Ég óð á skítugum skónum yfir allt og alla, oftar en ekki blindfullur eða útúrdópaður með vændiskonur í eftirdragi.

Mér var skítsama um afleiðingar gerða minna á íslenskt þjóðfélag, því að ég var bara að hugsa um hvað ég ætlaði að verða ofsalega ríkur. Ég þóttist vera klárasti bísnissmaður í heimi og neitaði að horfast í augu við hvert ég stefndi.

Núna geri ég mér grein fyrir því hvað ég hef gert íslensku þjóðinni. Ég get ekki lýst því hvað ég skammast mín mikið. Ekki minna skammast ég mín fyrir þá eyðileggingu sem ég hef valdið fjölskyldu minni. Þau þurfa daglega að líða fyrir heimsku mína og græðgi, útskúfuð úr íslensku samfélagi.

Ég geri mér grein fyrir því að þótt ég játi þessar yfirgengilegu syndir mínar, þá verður mér ekki fyrirgefið, vegna þess að ég mun aldrei bæta það tjón sem ég hef valdið. Ég ætla heldur ekki að skila neinu af þeim peningum sem ég skaut undan, því ég þarf á þeim að halda til að lifa góðu lífi erlendis. Smán mín er nefnilega svo mikil að ég treysti mér ekki til að horfa framan í nokkra manneskju hér á landi. Ég er sjálfdæmdur til útlegðar það sem eftir er. Það er í raun mesta refsing sem ég get hugsað mér.

Ætla ég að biðjast afsökunar? Ég held ekki. Til hvers? Ég á ekki skilið fyrirgefningu eins eða neins. Ég gerði þetta vitandi vits. Ég brenndi allar brýr að baki mér í taumlausri græðgi. Ég skil vel þegar fólk veitist að mér á almannafæri, hendir í mig rusli og horfir á mig hatursfullum augum.“


Nú geta allir hinir fjárglæframennirnir skrifað undir þetta bréf. Gjörsvovel!

___
* Björgólfur Thor minntist reyndar ekkert á Icesave, sem hann ekki bara leiddi yfir íslensku þjóðina heldur líka Breta og Hollendinga.
** Af öllu því sem Jón Ásgeir og Björgólfur Thor eru grunaðir um þá dettur ekki nokkrum manni í hug að þeir hafi sjálfir skrifað bréfin.
*** Ef hann átti við að hann væri fyrstur manna til að 'biðja afsökunar' þá var Björgólfur Thor búinn að stela því forskoti af honum.
**** Svo skrifaði Stuðmaðurinn Tómas Tómasson afsökunarbréf sem útlistaði nákvæmlega hans eigin syndir og segir m.a.: „Það var ég sem sló taktinn. Það er mín ábyrgð, það er minn harmur, það ör mun ég bera. Að minnsta kosti fram að 17. júní, eða jafnvel verzlunarmannahelgi.“ Þetta er alvöru hreinskilni.

Efnisorð:

fimmtudagur, apríl 22, 2010

Flæmum konur burt stefnan

Án þess að ég ætli að bera blak af Steinunni Valdísi og hennar háu styrkjum og án þess að ég vilji fordæma rétt fólks til að mótmæla því sem því sýnist hvar og hvernig sem því sýnist — þá er orðið svolítið merkilegt hve Steinunn Valdís er tekin út fyrir sviga og að henni sótt. Væri ekki nær að banka uppá hjá Bjarna Ben? Guðlaugi Þór, Illuga Gunnars? Eða eru konur sérlegt skotmark þessara mótmælandi heimsækjara?

Efnisorð: , ,

sunnudagur, apríl 18, 2010

Sniðgangan sem gekk til baka

Fyrir mörgum árum síðan hætti ég að kaupa eldsneyti af Skeljungi vegna klámblaðanna sem blöstu við þegar gengið var inn á stöðina sem ég verslaði oftast við. Ég kvartaði ítrekað undan þessu og sagði að mér þætti óþægilegt að vera minnt á stöðu mína í heiminum (kjötstykki karlmönnum til skemmtunar) í hvert sinn sem ég gengi þarna inn og hvort ekki væri gert ráð fyrir því, svona á ofanverðri tuttugustu öld, að konur keyptu bensín á bílinn, hvort þetta væri bara bensínstöð fyrir karla? Eftir að hafa tuðað um þetta nokkurn tíma þá hætti ég alveg viðskiptum við Skeljung og sneri mér að Olís, ef ég man rétt.

Nokkrum árum síðar var ég í vinnu þarsem tekin var upp sú nýbreytni að hafa „Skeljungskort“ í fyrirtækisbílunum til að greiða fyrir eldsneytið (þ.e. kreditkort merkt bílnúmeri og gilti bara hjá Skeljungi). Það var því ekki annað að gera en rölta inná næstu Skeljungstöð næst þegar eldsneytistankurinn var tómur (nema ég hefði viljað borga úr eigin vasa). Þá kom í ljós að klámblöðin voru á bak og burt — eða voru a.m.k. ekki sýnileg. Þau höfðu verið pökkuð inní ógegnsætt plast og viðskiptavinum því hlíft við forsíðumyndinni. Eftir það fór ég sjálfviljug að versla við Skeljung og geri enn* enda hef ég ekki orðið vör við nein klámblöð þar lengi, þau blasa a.m.k. ekki við.

Vona samt að þessi játning mín á að hafa hætt sniðgöngu þessa fyrirtækis sé ekki álitin auglýsing fyrir það eða velþóknun á allri þess starfsemi í bráð og lengd.

Ég hef sömu afstöðu til bensínstöðva og banka, tryggingafélaga og símafyrirtækja; þetta er allt tengt einhverjum fjárglæframönnum og skítabisness og ef ég ætla að nota síma/bíl þá neyðist ég til að skipta við þó þetta fyrirtæki. Tekur því allavega ekki að rjúka burt bara til að lenda í fanginu á næsta fjárglæframanni. Kannski verður seinna hægt að eiga viðskipti við banka, símafyrirtæki og bensínstöðvar sem tengjast engum þeirra, en hér og nú nenni ég ekki að æsa mig yfir ákkúrat þessu.


___
* Hélt reyndar að Engeyjarættin ætti Skeljung eða þartil að Bjarni Ben varð formaður Sjálfstæðisflokksins og farið var að tala um hann í sambandi við N1. Einhverntímann var nú Engeyjarættin ímynd alls hins illa, en nú finnst manni að það slekti hafi í þá daga verið ósköp venjulegt hyski í þeim dansi sem nú lítur út sem skottís miðað við hrunadansinn síðar. En auðvitað lagði Engeyjarættin ekkert upp laupana, eins og sést á N1 og Vafnings braskinu öllu saman.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, apríl 16, 2010

Sjálfstæðisflokksfávitar III

Ég skil ekki alveg kröfuna um afsögn þingmanna í kjölfar birtingu rannsóknarskýrslunnar. Fátt eða nokkuð sem kom fram í henni varpaði nýju ljósi á hegðun þessara þingmanna. Tökum sem dæmi Þorgerði Katrínu. Fyrir þingkosningar í fyrra var vitað um snúning fjármálastjóra heimilis hennar með kúlulánið í Sjö hægri. Það sem meira er, flokksbundnir Sjálfstæðismenn kusu Þorgerði Katrínu varaformann á landsfundi seint í mars en þá var löngu vitað um gróðabrask hennar og handboltahetjunnar.* Rúmum mánuði fyrir landsfund var þessi athugasemd skrifuð á „endurreisnarsíðu“ Sjálfstæðisflokksins:

Ef litið er á hvað gerist í XD nú um stundir, sé ég ekkert annað en valdatafl og fyrirslátt þeirra sem ábyrgð bera. Þetta er mannlegt að reyna að komast hjá ábyrgð. En flokkurinn verður sjálfur r að draga ábyrga flokksmenn til reikningsskila ef hann á að njóta míns trausts til endurreisnar. Hér vil ég nefna nöfn eins og:

Árna Mathiesen, sparisjóðir og varnarsvæðið
Þorgerður Katrín, Hægri sjö
Pétur Blöndal, Sparisjóðir landsmanna
Illugi, Peningamarkaðssjóður "tapaði sjálf"
Kjartan Gunnarsson, Landsbankinn
Davíð Oddson, einkavæðing og valdaafsal til Halldórs og Finns.


Þrátt fyrir þá vitneskju sem þarna lá fyrir, kusu Sjálfstæðismenn Þorgerði Katrínu (og hina) til að fara fyrir flokknum og í þingkosningum 25. apríl 2009 voru Þorgerður Katrín, Pétur Blöndal og Illugi Gunnarsson kosin á þing.

Þau sitja á þingi í boði Sjálfstæðisflokksins með fulltingi kjósenda flokksins. Krafa um að Þorgerður Katrín (eða þeir hinir) segi af sér núna er því frekar furðuleg. Kjósendur hennar eru hæstánægðir með hana, hennar störf og hennar fjármál. Látum hana dingla þarna inni áfram.

Og af sjálfsögðu á Ólafur Ragnar líka að sitja áfram.

Það er mikið betra að hafa þetta fólk þar sem við getum híað á það (heldur en t.d. Halldór Ásgrímsson sem hlaupinn er í felur og svarar ekki fyrir afglöp og glæpamennsku Framsóknarflokksins sem á svo ríkulegan þátt í gróðærinu og hruninu). En auðvitað ætti enginn að taka mark á þeim framar. Það munu þó dyggir sauðir Sjálfstæðisflokksins gera eins og alltaf: krossa við xD.

___
* Í gær skýldi handboltahetjan hugumprúða sér bakvið barn sitt þegar mótmælendur börðu dyra. Í fyrra gerði eiginkona hans hið sama þegar hún talaði um veikindi barns þeirra þegar öll spjót stóðu á henni vegna sukksins. Bæði leituðu þau skjóls fyrir skuldir sínar í Sjö hægri sem svo hamingjusamlega fór á hausinn með skuldirnar þannig að þau hjónin eru laus við skuldirnar. Og þar sem handboltahetjan var nú svona frekar vel haldin í launum í Kaupþingi meðan bankastjórarnir þar höfðu hag af því að mylja undir varaformann Sjálfstæðisflokksins þá eru þau hjónin varla á flæðiskeri stödd, svona skuldlaus og sæt.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, apríl 15, 2010

Sniðgöngur og önnur útivist

Þau eru ýmis eldgosin. Snemma í morgun gaus ég vegna auglýsingar Cintamani í Fréttablaðinu. Velja á útivistarmann ársins og í dómnefnd eru eingöngu karlar. Þeir gætu alveg eins auglýst að konur geti sleppt því að taka þátt. Áður en morgunverði var lokið var ég búin að senda tölvupóst til Cintamani þar sem ég tilkynnti þeim að héreftir myndi ég ekki kaupa af þeim vörur.* Á þegar eina flík frá þeim en hyggst ekki kaupa fleiri.

Ég var reyndar að vona að karlmenn væru farnir að átta sig á að það er ekki hættulegt að hafa konur með í nefndum, ráðum og stjórnum. En þessir hjá Cintamani eru greinilega of mikil karlmenni fyrir svoleiðis nýtísku viðhorf.

___
* Uppfæri hérmeð listann minn yfir vörur sem ég sniðgeng.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, apríl 13, 2010

Lýðræðistilraunin var mistök

Ég man eftir fólki sem talaði mjög niðrandi um stjórnarfar í Afríkuríkjum eftir að þau sluppu undan nýlenduveldunum. Þetta fólk sagði að hver sá svarti Afríkumaður sem komst til valda virtist líta á það sem skyldu sína að raka að sér fé á kostnað annarra landsmanna, jafnvel svo að vestrænar hjálparstofnanir þurftu að bregðast við ætti þjóðin ekki að svelta í hel. Þetta þótti vera sönnun þess að svartir menn væru ófærir um að stjórna sér sjálfir og hefðu verið betur settir undir stjórn nýlenduherranna.

Það er munur en hvað okkur hefur gengið vel, skjannahvít sem við erum.

Efnisorð: , ,

mánudagur, apríl 12, 2010

Allir sekir

Bækur Agöthu Christie enda flestar á sama veg. Miss Marple eða Hercule Poirot safna öllum þeim sem grunaðir eru um morð saman í eina stofu þar sem saga glæpsins er reifuð og eftir að allir eru farnir að gruna alla hina um að vera morðinginn — enda höfðu þeir ástæðu og tækifæri til að fremja glæpinn —  er flett ofan af þeim seka.

Undantekning á þessu er bókin Austurlandahraðlestin. Þar kemur í ljós að allir viðstaddir höfðu ástæðu og tækifæri en í stað þess að Hercule Poirot bendi á einn morðingja afhjúpar hann svívirðilegt plott: Þau frömdu öllsömul glæpinn!

Eftirköst hrunsins hafa m.a. verið þau að fylgismenn Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins hafa verið uppteknir af að kenna útlendingum um hrunið (fall Lehman Brothers) milli þess sem þeir benda á Jón Ásgeir sem aðalglæponinn í bankakerfinu hér. Sé einhver ósammála þessu fær viðkomandi stimpilinn Baugspenni, Baugsmiðill, á mála hjá Baugi o.s.frv. Í liði Jóns Ásgeirs er bent titrandi fingri á Davíð sem þjóðnýtti Glitni* og farið í mál við alla þá sem reyna að reita æruna af blessuðum sakleysingjanum sem aldrei hefur heyrt minnst á Tortóla. Framsóknarmenn frýja sig sök með því að benda á að síðasta árið fyrir hrunið hafi þeir ekki verið í ríkisstjórn heldur Samfylkingin,** Samfylkingin bendir á Framsókn og Davíð. Sjaldnast er minnst á Landsbankann nema í tengslum við Icesave og Björgólfarnir hafa næstum alveg sloppið en minnist einhver á þá er strax bent á Jón Ásgeir. Kaupþing var svo mikið í fréttum á tímabili að engin eyðir orðum á það hræ meir.

Í stuttu máli sagt, allir hafa bent á alla og gert það að megininntaki málsvarnar sinnar að hinir séu ekkert betri. Nú gerist það óvænta að rannsóknarskýrslan áfellist alla ofangreinda jafnt (og fleiri til).*** Ráðherrar og embættismenn (þ.m.t. Davíð Oddsson í hlutverki Seðlabankastjóra) hafi sýnt af sér vanrækslu, stjórnendur og eigendur bankanna hafi farið óvarlega, notað innherjaupplýsingar í eigin þágu og — án þess að það hafi beinlínis verið orðað þannig — rænt bankana innanfrá.**** Hugmyndafræði stjórnvalda sem lækkuðu skatta á þenslutímum (sem var rangt af þeim) og hækkuðu lánhlutfall Íbúðalánasjóðs gerði illt verra en upphaf klúðurs þeirra sé þó að rekja til einkavæðingar bankanna. Semsagt, aftur: allir ofangreindir áttu hlut að máli í falli bankanna, enginn er saklaus.

Samt lýsti enginn ráðamanna því yfir við rannsóknarnefndina að hann hefði sýnt af sér vanrækslu í starfi***** og enginn af öllum þeim sem siðfræðinefndin talaði við tók siðferðilega ábyrgð.

Vonandi verður eitthvað af þessu liði dregið fyrir dómstóla og dæmt til refsingar. Kannski kviknar þá á perunni og einhver ljósglæta kemst í skúmaskot heilastarfseminnar þar sem samviska er hjá venjulegu fólki.

___
* Skv. Páli Hreinssyni var það ekki endilega góð hugmynd að þjóðnýta Glitni, a.m.k. var það ekki gert að vel ígrunduðu máli.
** Skv. rannsóknarskýrslunni voru bankarnir feigir áður en Samfylkingin settist í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og á hún því ekki að því leytinu sök á hvernig fór. Það á Framsókn hinsvegar, þó það sé kannski ekki tekið fram.
*** Hér má minna á magnaða bloggfærslu Hnakkusar þar sem hann nefnir marga þá sömu og rannsóknarskýrslan fjallar um.
**** Það var dásamlegt að sjá Bjarna Ben hneykslast á því hvernig bankarnir voru notaðir sem féþúfa í þágu eigenda sinna; ekki finnst honum neitt athugavert við að meðferðin á Sjóvá hafi verið alveg sú sama.
***** Og Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra þykist nú auðmjúkur með því að segja af sér þingflokksformennsku. Ekki þingmennsku, heldur bara þessu hlutverki inná þinginu. Sumum er ekki við bjargandi.

PS. Ágætur lesandi benti mér á að Hercule Poirot hefði sjálfur verið í Austurlandahraðlestinni en var auðvitað ekki einn þeirra sem framdi glæpinn. Rétt eins og ekki voru allir stjórnmálaflokkar meðsekir því sem gerðist í aðdraganda hrunsins. Einn flokkanna reyndi meira segja að koma í veg fyrir að glæpurinn væri framinn. Rétt eins og Hercule Poirot þá þurfti ekki annað en að nota gráu sellurnar til að sjá gegnum plottið.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, apríl 11, 2010

Þar sem ég skamma loksins Fréttablaðið fyrir kvenfjandsamlega afstöðu

Það var hressandi að hlusta á Vilhjálm Bjarnason í Silfri Egils þar sem hann ræddi viðleitni sína við að sniðganga fyrirtæki þeirra sem rændu bankana innanfrá. Svona sem fyrirbærið „formaður samtaka fjárfesta“ þá held ég ekki að ég eigi margt sameiginlegt með þessum manni og mig grunar að auki að hann hafi alla tíð (eða a.m.k. fram að hruni) stutt Sjálfstæðisflokkinn en þó náði ég held ég að vera sammála hverju orði hans í þættinum. Ekki síst þessu með að vera í vanda með símnotkun því öll símafyrirtækin eru í eigu útrásarvíkinganna og með því að versla við eitthvert þeirra er alltaf verið að styrkja einhvern þeirra.

Ég hef, eins og margoft áður hefur komið fram, sniðgengið ákveðin vörumerki eða fyrirtæki um langt skeið. Þegar ég horfði á viðtalið við Lilju Skaftadóttur, sem nýorðin er eigandi að DV (í félagi við aðra), þá fór mig hinsvegar að langa til að prófa til að kaupa DV, þrátt fyrir að sá snepill hafi aldrei verið mér hugnanlegur. Eftilvill er dekur þeirra við klámiðnaðinn eitthvað á undanhaldi og því hægt að fjárfesta í einu og einu eintaki, nú eða jafnvel gerast áskrifandi ef blaðið reynist gott.

Það hljómar e.t.v. furðulega að ég skuli hafa sett DV útaf sakramentinu fyrir það sem Fréttablaðið hefur komist upp með tiltölulega átölulaust af minni hálfu; þ.e. klámefni í blaðinu.* En það hefur ekkert farið framhjá mér (þó ég hafi alltaf flett mjög hratt yfir þær blaðsíður) að smáauglýsingarnar hafa verið af vægast sagt misjöfnum toga. Símalínur** og einkamáladálkar virðast vera dulmál fyrir vændisstarfsemi auk þess sem auglýsingar um nudd virðast á köflum vafasamar. Verstar hafa mér þó þótt auglýsingar um rúnkáhöld fyrir karlmenn sem auglýst voru með frasanum: „Gefðu konunni frí“ eða einhverju álíka geðslegu, svona eins og gúmmíhlutur kæmi fullkomlega í staðinn (og þarafleiðandi konur líka hlutir sem hægt er að skipta út fyrir aðra hluti).

Þetta hefur mér þótt mjög óþægilegt að sé í Fréttablaðinu og alltaf vonast til að fyrir þetta yrði tekið, en jafnframt gert mér grein fyrir að blaðið er rekið í hagnaðarskyni og eigendurnir hafa hingað til ekki vílað neitt fyrir sér sem kemur þeim til gróða. Fréttablaðið berst til mín ókeypis gegnum bréfalúguna og líklega meira mál að afþakka það*** en nota það sér til afþreyingar meðan morgunmaturinn er maulaður. Eða það er allavega afsökun mín fyrir að lesa blaðið og hunsa hinar ógeðfelldu auglýsingar sem rekstraraðilar þess sjá sóma sinn í að hagnast á.

Helst vildi ég auðvitað að til væri dagblað (sem prentað er út og borið í hús) sem væri með ítarlegar fréttaskýringar, vettvangur samfélagslegrar umræðu og sinnti menningu auk þess að vera skemmtilegt og fræðandi á annan hátt og að það blað væri hvorki rasískt**** né fullt af kvenfjandsamlegum áróðri eins og þeim að konur séu söluvara sem þaraðauki sé hægt að skipta út fyrir gúmmíhluti hvenær sem er. Ég myndi gerast áskrifandi að slíku blaði og þá væri allteins líklegt að Fréttablaðið kæmi ekki framar inná mitt borð.

___
* Munurinn á blöðunum er/var þó sá að DV var með mikla og jákvæða umfjöllun um klám og sífellt með klámfengnar myndir af konum. Fréttablaðið hefur ekki verið laust við þetta (Jakob Bjarnar Grétarsson er jú blaðamaður þar og hann virðist vera blaðafulltrúi Goldfinger) en þó hefur það ekki verið eins svæsið.

** Símalínurnar eru jú allavega símasex og eru kannski notaðar til að panta tíma fyrir eitthvað fleira.

*** Á tímum hinna fríblaðanna, Blaðsins og 24 stunda, var ég með stærðar miða á bréfalúgunni þar sem ég afþakkaði öll þessi blöð en samt var þeim iðulega troðið inn í óþökk minni. Ég varð voða fegin þegar ég tók þá tilkynningu niður, fannst alltaf asnalegt að það sæist varla í hurðina fyrir útskýringum mínum á því hvað ég vildi að bærist inn á heimili mitt og hvað ekki.

**** Nei, ég er ekki að segja að neitt dagblaðanna sé rasískt, það væri svo fáránlegt að það væri það. Jafnfáránlegt er samt að kvenfjandsamlegur áróður sé svona ríkjandi eins og hann reynist vera, meira segja í blaði þar sem ég hrósa margsinnis leiðurum fyrir feminísk viðhorf. (Mér telst til að leiðarar Steinunnar Sigurðardóttir hafi a.m.k. níu sinnum orðið mér tilefni til jákvæðra yfirlýsinga af því tagi).

Efnisorð: , , , , , , ,

laugardagur, apríl 10, 2010

Blóðugur uppað öxlum

Það er ekki af honum Pútín stórvini mínum skafið. Skreppur í leiðangur til Póllands til að kanna aðstæður, setur upp sýndarsamúðarsvipinn* (sem er lygi; hann hefur bara einn freðýsusvip sem hann skartar við öll tilefni). Og svo ... deyr fjöldi háttsettra Pólverja sem hann átti við þessi skrítnu samskipti.

Nú stjórnar hann rannsókn á flugslysinu. Aldrei mun neitt koma þar í ljós sem bendlar hann við dauða forseta Póllands og hátt í hundrað háttsetra Pólverja annarra.

Einu sinni KGB, alltaf KGB.

___
* Verið var að minnast þess að um 22 þúsund pólskum liðsforingjum, foringjaefnum og öðrum pólskum leiðtogum var slátrað að skipan Jósefs Stalíns, þáverandi einræðisherra Sovétríkjanna og helsta átrúnaðargoðs Pútíns. Glætan að Pútín sætti sig við að Pólverjar séu eitthvað að hnýta svona í Stalín, blessaðan gamla manninn.

Efnisorð:

föstudagur, apríl 02, 2010

Mikilvægir áfangar

Steinunn Stefánsdóttir skrifaði enn góðan leiðara í Fréttablaðinu og er ástæða til að birta hann hér til að minnast feminískra áfangasigra.


„Þeim sem láta sig jafnrétti kynjanna varða þykir oft sem baráttan sækist seint. Og ekki bara seint því ýmis teikn eru um að það sem ætti að ganga áfram virðist fara aftur á bak.

Dæmi um þetta er að svo virðist sem staðlaðar og gamaldags kynjaímyndir séu jafnvel sterkari nú en þær voru fyrir svo sem áratug. Klámvæðingin sem hefur orðið í vestrænu samfélagi ýtir undir þessar gömlu kynjaímyndir þar sem karlinn er gerandinn, sá sem valdið hefur, og konan fyrst og fremst andlag í höndum hans, ekki vitsmunavera með frjálsan vilja og þarfir.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að langt er í land að launajafnrétti náist og í áhrifastöðum flestum hallar mjög á hlut kvenna.

Skref fram á við í átt til kynjajafnréttis er ótvírætt að hlutfall kvenna í sölum Alþingis hefur aukist til muna. Undir lok síðasta þings höfðu þó nokkrar konur tekið sæti á þingi í stað karla sem hætt höfðu þingmennsku þannig að kynjahlutfallið hafði jafnast verulega miðað við 31 prósent sem var hlutur kvenna á þingi eftir kosningarnar 2007. Eftir kosningarnar sem fram fóru fyrir 11 mánuðum er kynjahlutfall á Alþingi Íslendinga hærra en nokkru sinni fyrr þegar 43 prósent þingmanna eru konur.

Ætla má að bein tengsl séu milli kynjahlutfalls í þingsölum og þeirra mikilvægu skrefa sem stigin hafa verið í átt til kynjajafnréttis í lagasetningu undanfarið ár.

Fyrsta skrefið var samþykkt á breytingu á almennum hegningarlögum þar sem kaup á vændi eru gerð refsiverð. Fyrsti flutningsmaður þess frumvarps var stjórnarþingmaðurinn Atli Gíslason.

Annað skrefið var samþykkt breytingatillögu minnihluta viðskiptanefndar á frumvarpi til laga um hlutafélög og einkahlutafélög sem varðaði hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja.

Þriðja skrefið var svo samþykkt laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald en þar var um að ræða þingmannafrumvarp þar sem fyrsti flutningsmaður var stjórnarandstöðuþingmaðurinn Siv Friðleifsdóttir.

Í frétt Fréttablaðsins af samþykkt frumvarps Sivjar lét hún þau orð falla að sér þætti sem ferskur blær kynjajafnréttis léki nú um Alþingi. Sömuleiðis sagði hún að sér fyndist lýðræðislegri áherslur einkenna starf þingsins og að þingið væri farið að taka af skarið gagnvart framkvæmdavaldinu. Sem dæmi nefndi hún að ákvæðið um kynjakvóta hefði ekki verið í upphaflegri gerð frumvarps til laga um hlutafélög og einkahlutafélög heldur bæst við í meðförum þingsins. „Þingið er að efla sig, að taka svona róttæka stefnu í jafnréttismálum,“ sagði Siv í samtali við blaðið.

Breytingar á lögum sem lúta að jafnrétti kynjanna eru ævinlega umdeildar. Svo hefur einnig verið um þær þrjár lagabreytingar sem hér er getið.

Jafnréttissinnar fagna þó flestir að löggjafinn skuli hafna þeirri birtingarmynd kynbundins ofbeldis sem vændi og nektardans eru. Sömuleiðis stuðningi löggjafans við að auka jafnræði kynja í stjórnum fyrirtækja.“

Efnisorð: , , , ,