fimmtudagur, september 27, 2018

Fimm menn sýknaðir 38 árum eftir sektardóm

Sýknudómur Hæstaréttar í dag yfir fimmmenningum er mikið fagnaðarefni. Sævar Marinó Cieselski, Tryggvi Rúnar Leifsson, Kristján Viðar Júlíusson, Guðjón Skarphéðinsson og Albert Klahn Skaftason hafa loksins verið sýknaður af ákærum um að hafa orðið þeim Guðmundi Einarssyni og Geirfinni Einarssyni að bana árið 1974.

Loksins, loksins.

Samúð mín er þó með Erlu Bolladóttur, sem ein sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu situr enn eftir með óbreyttan dóm enda var hún eini sakborningurinn sem fékk mál sitt ekki endurupptekið.

Vinsamlega sýkna Erlu líka, takk.
Efnisorð: ,

þriðjudagur, september 25, 2018

Heiðursborgarar telja óverjandi að reist verði hótel í Víkurgarði

Það mun auðvitað engu breyta, en mikið er það gott hjá fjórum mikilsvirtum heiðursborgurum Reykjavíkur að afhenda Degi B. Eggertssyni áskorun um að stöðva fyrirhugaða hótelbyggingu í Víkurgarði.
„Við undirrituð, sem njótum þess trausts að hafa verið valin heiðursborgarar Reykjavíkur, teljum með öllu óverjandi að reist verði hótel í Víkurgarði, einum elsta kirkjugarði landsins og helgistað í höfuðborginni. Í grafreitnum, þar sem byggja á hótelið, var síðast jarðsett árin 1882 og 1883. Þarna átti hvílustað fólk sem breytti þorpi í bæ og lagði grunn að höfuðstað Íslands. Í þessum hópi eru ýmsir sem mörkuðu djúp spor í þjóðarsöguna. Enn ber byggðin í Kvosinni hið geðfellda yfirbragð sem þetta fólk ljáði henni og mikilvægt er að verja og vernda. Andi staðarins og saga má ekki týnast í hringiðu stundarhagsmuna.

Árið 2016 voru fluttar brott jarðneskar leifar fólks úr hvílustað þess í Víkurgarði til að rýma fyrir hótelinu. Fáheyrt er að jarðneskar leifar fólks í vígðum reit séu látnar víkja fyrir veraldlegri byggingu. Þetta er gróf vanvirðing við söguna og minningu forfeðra okkar. Ljóst er að skipulag og bygging hótels á þessum stað á sér rætur í vanþekkingu á sögu Víkurgarðs og mistökum við gerð deiliskipulags. Fram hjá því verður ekki litið að mannvirki, eins og hér um ræðir, í fornum kirkjugarði, samræmist ekki ákvæðum laga nr. 36/1993 um kirkjugarða.

Sagt er að í hótelinu verði 145 herbergi. Þarna ráða peningar gjörðum, ekki menning og saga. Hagnaðarvonin og stundarhagsmunir ryðja burt virðingunni og helginni. Og þá tekur óhjákvæmilega við uppblástur mennsku og menningar. Það skapar engum gæfu. Við skorum því á Reykjavíkurborg og byggingaraðila að láta þegar í stað af fyrirhuguðum áformum, sem mundu fyrirsjáanlega valda óbætanlegum spjöllum á þessum viðkvæma og söguhelga reit í hjarta höfuðborgarinnar. Við erum þess fullviss að afkomendur okkar muni um alla framtíð verða þakklátir ef svo giftusamlega tækist til að horfið yrði frá þessum áformum og Víkurgarði þyrmt.“
Það ætti auðvitað að hlusta á Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands, stórmeistarann Friðrik Ólafsson, Þorgerði Ingólfsdóttur kórstjóra, og Erró — en allar líkur eru þó á að hótelskrímslið rísi enda löngu löngu búið að gefa verktökum og eigendum hótelsins leyfi til að fara sínu fram. Engin mótmæli hafa dugað hingaðtil og þessi áskorun verður auðvitað látin sem vind um eyru þjóta.

En það verður vandræðalegt fyrir Dag og Hjálmar Sveinsson að hafa það á samviskunni að hafa hunsað áskorun þessa fólks.Efnisorð:

mánudagur, september 24, 2018

Þrír mánuðir þangað til og ekki endilega skemmtilegir

Rétt er að nota þennan dag, 24. mánaðarins, til að minna á að nú eru eiginlega síðustu forvöð að láta vita ef fólk ætlar að breyta útaf venjunni og halda íburðarminni jól, ódýrari jól, stressminni jól, eða bara allsengin jól, sbr. hugvekju hér á blogginu í sumar. Kannski nægir að segja í bili að þetta verði síðustu jólin með þessu sniði.

Fólk er þegar farið að ræða um að breyta þeirri áramótahefð að skjóta upp flugeldum, því ætti ekki að vera hægt að minnka jólabrjálæðið?

Efnisorð:

föstudagur, september 21, 2018

Borgum okkur frá þessari vitleysu

Vonandi verður almenningur allur gjafmildur nú þegar safnað er fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg. Því meira fé sem safnast því minna samviskubit þarf fólk að hafa um áramót þegar það sleppir því að kaupa flugelda af Landsbjörgu eða einstaka björgunarsveitum.

Samkvæmt nýrri rannsókn vill meirihluti Íslendinga setja strangari reglur um notkun flugelda, og fjórðungur þeirra vill banna almenna notkun með öllu. Það er heldur ekki vanþörf á, eins og kom fram fyrir síðustu áramót þegar Sævar Helgi Bragason lagði til að banna flugelda — og gerði fjölmarga tryllta. En nú sýnir þessi rannsókn að margir eru á sama máli og Sævar og enn fleiri vilja setja einhverjar hömlur á flugeldabrjálæðið og mengunina sem því fylgir.

Það er því full ástæða til að draga upp veskið og borga heldur björgunarsveitunum beint, og í kvöld er ágætt tækifæri til þess.Efnisorð:

fimmtudagur, september 20, 2018

Þessa dags hefur Hádegismóri beðið

Þorvaldur Gylfason skrifar fræðandi pistil um lýðheilsu í kjölfar fjármálahrunsins 2008, og ber þar saman stöðuna í Bandaríkjunum og Íslandi. Vert að lesa.

En það eru lokaorð Þorvaldar sem ég vil fyrst og fremst vekja athygli á:
„Meint lögbrot í Seðlabankanum 6. október 2008 – Kaupþingslánið skv. birtu símtali bankastjórans og forsætisráðherrans – fyrnist eftir röskan hálfan mánuð nema rannsókn málsins verði hafin fyrir þann tíma til að girða fyrir fyrningu og gera dómstólum kleift að fjalla um málið.“
Eftir hálfan mánuð eru Davíð Oddsson fyrrum Seðlabankastjóri, og Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra, lausir allra mála ef ekkert verður að gert! Þá þurfa ekki að svara til saka fyrir óráðsíu Seðlabankans sem „lánaði“ Kaupþingi stóran hluta gjaldeyrisvaraforða bankans, enda þótt Seðlabankastjórinn hafi vitað sem var, að Kaupþing gæti aldrei greitt lánið til baka. Tugmilljarða tjón varð af lánveitingunni. Eftir hálfan mánuð eru þeir félagarnir, og þá aðallega Davíð, sloppnir úr snörunni.

Þá verður fagnað í Hádegismóum.
Efnisorð:

sunnudagur, september 16, 2018

Dagur íslenskrar náttúru

Á degi íslenskrar náttúru er ágætt að rifja upp nokkrar hættur sem náttúru landsins stafar af manna völdum.

Virkjanir eru fyrirhugaðar í Hvalá á Ströndum, Þjórsá (Hvammsvirkjun; Skipulagsstofnun telur umhverfisáhrifin „áhrif á landslag verulega neikvæð og áhrif á ferðaþjónustu og útivist talsvert neikvæð“ en hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjun skella skollaeyrum við því og ætla bara víst að virkja) og síðast en ekki síst í annarri hverri sprænu sem er ekki innan rammaáætlunar. Ágætt er að lesa grein Ólafs Hallgrímssonar sem hann skrifaði [Frbl. bls. 26] í tilefni af tíu ára afmæli Kárahnjúkavirkjunar, og nefnist greinin: Höfum við gengið til góðs?

Dýrin
Fuglum landsins er bráður bani búinn næstu mánuði: gæsir og rjúpur verða drepnar í stórum stíl.
Hreindýraveiðar, þar á meðal á nýkelfdum kúm.
Hvalveiðar, þar á meðal á kálffullum kúm. Einnig eru drepin blendingsafkvæmi sem eiga annað foreldri sem er af þeirri tegund sem bannað er að veiða.

Laxeldi í sjókvíum
Áður hefur nokkuð verið skrifað um sjókvíaeldi hér á blogginu en um hríð var algerlega gefist upp á að færa allt til bókar (þ.e.a.s. bloggs) sem rætt og ritað er með og gegn því að norskur eldislax sé alinn í sjókvíum við Íslandsstrendur. Hér verða þó rifjaðar upp nokkrar fréttir undanfarinna mánaða og nokkur athyglisverð ummæli.

Í tilefni dagsins er þó viðeigandi að byrja á ársgömlum skrifum Ómars Ragnarssonar, en það er engin tilviljun að dagur íslenskrar náttúru er haldinn á afmælisdegi Ómars. Hann tekur þannig til orða:
„Það hefur margoft komið fram hjá andófsmönnum gegn hömlulítilli gróðafíkn innlendra og erlendra sjókvíaeldismanna, að málið snúist um það að rækta geldfisk og færa eldið úr sjókvíum þar sem sleppingar hafa reynst óviðráðanlegar.

Og að unnendur laxveiða séu ekki á móti laxeldi í samræmi við nýja tækni og kröfur, sem gerðar væru í staðinn fyrir hið skaðlega og úrelta sjókvíaeldi.

En sjókvíafíklarnir breiða kyrfilega yfir þetta atriði í málflutningi sínum.“
Dr. Kjetil Hindar rannsóknastjóri norsku Náttúrufræðistofnunarinnar í Þrándheimi birti pistil á þjóðhátíðardegi þarlendra og allt það sem hann sagði í þeim pistli er mikilvægt. Ekki síst vegna þess að rannsóknir hans á erfðablöndun milli eldislax og villts lax hafa verið rangtúlkaðar. Hið rétta er að
„Stýrðar tilraunir í náttúrulegum árkerfum í Noregi og Írlandi sýna að áhrif eldislaxa á villta stofna geta komið fram samstundis. Áhrifin geta falið í sér erfðafræðilegar og lífsögulegar breytingar og samdrátt í fjölgun viðkomandi stofna. Þetta gerist þrátt fyrir að hver eldislax hafi takmarkaða hæfileika til að komast af í náttúrunni.“ Lesið meira hér.
Þess má geta að í maí var sýnd heimildarmynd um reynslu Norðmanna og Skota af fiskeldi. Blogghöfundi tókst af einskærum klaufaskap af missa af sýningu myndarinnar og er því ekki dómbær á gæði hennar eða áhrifamátt, en hún hlaut ekki góða dóma hjá Einari K Guðfinnssyni formanni Landssambands fiskeldisstöðva.

Stundin fjallaði 22. júní um kaup á laxeldiskvóta í Noregi, þar sem Arnarlax keypti kvóta á 5 milljarða, en Arnarlax framleiðir 8.000 tonn á Íslandi og greiðir ekkert til íslenska ríkisins fyrir laxeldisleyfin. Þar segir:
„Ef Ísland myndi selja laxeldisfyrirtækjum á Íslandi leyfi á sama verði og á uppboðinu í Noregi þá myndi íslenska ríkið fá milljarða króna í kassann. Verðið fyrir 8 þúsund króna framleiðslu Arnarlax myndi til dæmis vera nærri 20 milljarða króna ef sama verð yrði greitt fyrir framleiðsluleyfin á Íslandi og í Noregi.“
Fyrirsögn í Fréttablaðinu 28. júní: „Laxeldisfyrirtæki þurfa að eitra fyrir laxalús í Tálknafirði og Arnarfirði. Laxalús er orðin svo mikil í Tálknafirði og Arnarfirði að nota þarf eitur til að drepa hana. Hitastig sjávar ekki eins mikil vörn gegn laxalús og talið var.“
Sagt er frá því í fréttinni að
„Á vef Landssambands fiskeldisstöðva (LF) kemur fram að í íslensku fiskeldi hafi aldrei verið notuð lúsalyf og að hin skaðlega lús eigi erfitt uppdráttar hér á landi vegna lágs hitastigs sjávar. Ljóst er að laxalúsin hefur lifað af síðustu tvo vetur og hefur valdið fyrirtækjum búsifjum.“

„Jón Örn Pálsson sjávarútvegsfræðingur segir þetta staðfestingu á því að hitastig sjávar að vetri til sé ekki nægileg vörn gegn laxalúsinni. „Þessar fréttir staðfesta þetta. Talning á lús staðfestir að lúsinni fækkar ekki. Hún hins vegar fjölgar sér ekki á köldum vetrum. Nú er hins vegar spurning hvað fiskeldisfyrirtækin gera til að hvíla staðina,“ segir Jón Örn.“ 
5. júlí skrifaði Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum í Vatnsdal áhugaverða grein um stofnun veiðifélag Vatnsdalsár og þá búbót sem útleiga lax- og silungsveiðihlunninda er í sveitum landsins, og segir hann árnar vera lífgjafa sveitanna. 5. júlí skrifaði Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum í Vatnsdal áhugaverða grein um stofnun veiðifélag Vatnsdalsár og þá búbót sem útleiga lax- og silungsveiðihlunninda er í sveitum landsins, og segir hann árnar vera lífgjafa sveitanna.
„Ég fullyrði að meirihluti þessara jarðeigna er í eigu þeirra sem búa í sveitunum. Bak við þessa jarðeigendur eru fjölskyldur sem lifa og starfa í sveitinni, á sama hátt og fjölskylda afa og ömmu gerði um og eftir árið 1930. Ég er ekki viss um að ég nyti þeirrar ánægju að sjá þrjú barnabörn vaxa úr grasi á bökkum Vatnsdalsár ef tekjurnar af veiðunum hefðu ekki ávallt skipt sköpum í búsetu í dalnum.“ Niðurlagið hljóðar svo: „Við óttumst að hömlulítið fiskeldi í sjókvíum geti spillt lífríki ánna og þar um leið lífi og búsetu í sveitum Húnaþings, Borgarfjarðar og raunar byggðum um land allt.“
Séra Gunnlaugur Stefánsson formaður Veiðifélags Breiðdæla skrifar 12. júlí um laxeldi í Berufirði sem er á vegum Fiskeldis Austfjarða en „í meirihlutaeigu norskra eldisrisa“. Full ástæða er til að lesa allan pistil Gunnlaugs en hér vænn skammtur:
„Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun var þar 1,1 milljón laxa í tíu opnum sjókvíum. Álitið er að hrygningarstofn villtra laxa sé um 100 þúsund fiskar á Íslandi. Eldisfiskarnir í Berufirði eru frjóir og af norskum stofni. Bannað er í Noregi að nýta framandi stofna í eldi.En Fiskeldi Austfjarða hefur enga heimild í leyfum í þessu eldi fyrir laxi af norskum uppruna. Það er klárt lögbrot og sambærilegt við að kúabændur færu að flytja inn norska erfðavísa án leyfis til að nýta í ræktun íslenskra kúa – og látið átölulaust. Sömuleiðis hefur Fiskeldi Austfjarða enga heimild í leyfum til að losa fosfór í sjóinn sem er uppistaðan í mengandi úrgangi frá eldinu. Þá hefur þessi eldisiðja aldrei farið í umhverfismat. Hvernig er hægt að taka mark á opinberum eftirlitsstofnunum sem láta þetta allt viðgangast eða er verið að hygla eldisiðjunni umfram aðra?

Laxeldið í Berufirði hefur orðið fyrir alvarlegum áföllum. Í desember gekk bálviðri yfir Austfirði með kuldatíð í kjölfarið og lagðist hart á eldið. Samkvæmt lýsingum Matvælastofnunar þá losnaði um festingar í einni kví, 285 tonn af laxi sýktust og var slátrað og voru urðuð að stærstum hluta á landi.Nú hefur það gerst eftir hvassviðri, sem gekk yfir Austfirði um miðjan júní, að stórar laxatorfur sáust á stökki í Hvítárvík 21. júní og aftur í Fossárvík 29. júní, en báðir staðir eru skammt innan við eldiskvíarnar í Svarthamarsvík í Berufirði. Reynslan staðfestir að eldisfyrirtækin tilkynna ekki um slysasleppingar fyrr en þær eru öllum ljósar seint og um síðir. Laxatorfur við strendur Berufjarðar hljóta að beina augum að eldiskvíunum og slysasleppingum þaðan. Þetta hefur verið tilkynnt Fiskistofu, en óhægt er um vik með eftiráeftirlit, þegar strokufiskur hefur dreift sér um allan sjó.“
Og Gunnlaugur segir það sama og margir aðrir:
„Alls staðar í veröldinni, þar sem laxeldi fer fram í opnum sjókvíum, sleppur fiskur. Það hefur reynslan líka staðfest hér á landi. Þess vegna vekur furðu hjá fagfólki á alþjóðavettvangi, að íslensk stjórnvöld skuli leyfa opnar sjókvíar með frjóum fiski af framandi stofni í nýju fiskeldi í stað þess að allt eldi fari í lokuð kerfi með geldfiski.“
Svo tóku veitingahús í Reykjavík sig til og tilkynntu að þau hygðust sniðganga lax úr sjókvíaeldi og taka þátt í baráttu gegn slíkri framleiðslu.

Talsmaður Landssambands fiskeldisfyrirtækja og fyrrverandi þingforseti Einar K Guðfinnsson „segir yfirlýsingar nokkurra veitingamanna ekki valda þeim áhyggjum“.

En í sömu frétt og Einar Guðfinnsson blæs á veitingamenn sem séu eiginlega lélegir kúnnar hvorteðer, allavega miðað við stórar verslunarkeðjur í útlöndum, kemur fram að það gengur illa fyrir Arnarlax að fá alþjóðlega vottun fyrir sjálfbæra samfélags- og umhverfisvæna sjávarvöruframleiðslu.
„Nú stendur yfir vottunarferli vegna eldisins í Tálknafirði og í kjölfarið fara hin eldissvæði fyrirtækisins í gegnum sama ferli.

Hinn 4. júlí síðastliðinn birti ASC skýrsludrög þar sem gerðar eru athugasemdir við ýmsa þætti í framleiðsluferli fyrirtækisins sem uppfylla ekki skilyrði vottunarinnar. Dauði fugla og annarra dýra í návígi eldisins er tíðari en staðlar vottunarinnar leyfa og engar upplýsingar liggja fyrir um viðbrögð eða fyrirbyggjandi aðgerðir fyrirtækisins til að koma í veg fyrir fleiri slík tilvik. Tíðni óútskýrðs laxadauða (22 prósent hjá Arnarlaxi) er einnig of há til að uppfylla skilyrði vottunaraðilans.

Þá fer umfang lúsavandans einnig upp fyrir leyfilegt viðmið og skortur er á að áhrif hans á villta laxastofninn hafi verið rannsökuð.

Öryggisáætlunum um borð í þjónustubátum við eldið er einnig ábótavant; þær ýmist ekki fyrir hendi eða ekki aðgengilegar.“
Og til að gera langa sögu stutta þá fékk Arnarlax í Tálknafirði ekki þessa alþjóðlegu gæðavottun. „Neikvæð staða lífríkis á botni Tálknafjarðar, tíðni laxadauða í kvíum og umfang lúsavandans eru helstu ástæður þess að sú kynslóð sem nú er alin í laxeldi Arnarlax í Tálknafirði fær ekki ASC-vottun.“ 

24. ágúst sagði Fréttablaðið frá því að auglýsingar gegn sjókvíaeldi hafi verið fjarlægðar úr Leifsstöð.

6. september. Þótt Einar Guðfinnsson hafi sagt að fiskeldisfyrirtæki kipptu sér ekki upp við sniðgöngu einstakra veitingastaða á eldislaxi var Arnarlax með ás uppi í erminni. Kokkar vöknuðu upp við vondan draum: Arnarlax var orðinn styrktaraðili kokkalandsliðsins. En matreiðslumenn sögðu sig úr klúbbi matreiðslumeistara (sem samdi við Arnarlax) og fjórtán landsliðsmenn ákváðu að hætta frekar í landsliðinu heldur en vera í samstarfi við laxeldisfyrirtækið, og svo fór að samningnum við Arnarlax var rift. Þetta er með snautlegri ímyndarhressingarherferðum.

8. september. Umhverfisstofnun bíður með áminningu á meðan Arnarlax sækir um undanþágu.
„Tveir landeigendur í Arnarfirði hafa ítrekað krafist aðgerða af hálfu Umhverfisstofnunar vegna meintra brota á starfsleyfi Arnarlax á svæðinu. Þeir hafa nú kvartað til umhverfisráðuneytisins vegna þeirrar málsmeðferðar sem brot Arnarlax á starfsleyfi hafa fengið hjá stofnuninni.

Arnarlax tæmdi sjókvíar við Hringsdal í Arnarfirði 7. mars síðastliðinn og hóf útsetningu seiða þar á ný þremur mánuðum síðar, 6. júní. Þetta fer í bága við starfsleyfi fyrirtækisins en í því segir að eldissvæði skuli hvíla milli eldislota að lágmarki í sex til átta mánuði. Hvorki virðist deilt um brotin af hálfu Umhverfisstofnunar né Arnarlax.“

„Ari Wendel, annar landeigendanna, hefur staðið í stappi við Umhverfisstofnun vegna málsins frá því seiðin voru sett út í vor. Þeir hafa krafist þess að starfsemin verði stöðvuð og seiðin verði flutt burt úr kvíum tafarlaust til að svæðið fái fullan hvíldartíma samkvæmt starfsleyfinu. Ari segir að eitt stærsta æðarvarp á Vestfjörðum sé nokkur hundruð metra frá kvíastæðinu og aukin botnmengun og brot á hvíldartíma geti haft neikvæðar afleiðingar fyrir æðarfuglinn, fæðu hans og annað lífríki á svæðinu.

„Það sem okkur finnst svo sérkennilegt er að eftirlitsstofnanir skuli ekki bregðast við heldur sýna þeim meðvirkni sem stofnunin á að hafa eftirlit með og vera í rauninni að hjálpa þeim við að finna svigrúm til að brjóta reglurnar og starfsleyfið,“ segir Ari en þeir hafa kvartað undan málsmeðferð stofnunarinnar til Umhverfisráðuneytisins en ekki enn fengið viðbrögð.“
11. september, frétt um laxalús: Dæmi um sáramyndun og slæm áhrif á velferð vegna lúsarinnar. Arnarlax og Artic Sea Farm hafa samtals í fjórum tilvikum frá árinu 2017 notað lúsaeitur, bæði til að baða laxfiska sem og að gefa þeim lyfjafóður. Dæmi eru um mjög lúsugan fisk og hefur lúsin haft neikvæðar afleiðingar á velferð dýranna.

Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar fiskeldisfyrirtækja um að fiskar sleppi næstum aldrei og ef þeir sleppa náist þeir strax og ef þeir nást ekki strax þá synda þeir ekki langt og lifa ekki lengi, syndi allsekki upp í ár og eignist enn síður afkvæmi. En samt er það svo að eldislax hefur veiðst á stöng í ám. Í Vatnsdalsá hafa veiðst eldislaxar, þar af einn sem veiddist í byrjun september (veiðimaðurinn var sá hinn sami og sagði sig úr klúbbi matreiðslumeistara), og í frétt 14. september segir frá því að tveir laxar sem bera öll merki þess að vera ættaðir úr sjókvíaeldi hafi veiðst í Eyjafjarðará. Eyjafjörður er, eins og segir í fréttinni, nokkuð langt frá sjókvíaeldi. Þess má geta að ein ástæða þess að laxeldiskvíarnar eru einkum á Vest- og Austfjörðum er að þá séu þær langt frá laxám og sé því bara allsengin hætta á að eldislax komist í kynni við villtan lax. Nema auðvitað kann eldisfiskur að synda, þótt uppeldi í sjókvíum gefi ekki mikið færi á löngum sundæfingum.

Ekki er allur eldisfiskur lax. Í gær birtist frétt um fyrirhugað eldi á regnbogasilungi í Fáskrúðsfirði. Náttúruverndarsamtök Íslands og veiðifélög eru á móti fiskeldinu því það muni stofna villtum stofnum í hættu, en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur gefið grænt ljós á starfsleyfi. Sérstaklega er skemmtilegt að sagt er að „ekki séu skilyrði fyrir því að laxalús þrífist á Austfjörðum“. Ekki frekar en á Tálknafirði, eða hvað?

Læt ég þá tali um fiska í náttúru Íslands lokið að sinni. Mæli hinsvegar með nýrri bók með úrvali greina um sambúð lands og þjóðar eftir Halldór Laxness, hvar má lesa hina stórgóðu grein Hernaðurinn gegn landinu.Efnisorð: , ,

miðvikudagur, september 12, 2018

Okkar allra bestu menn á staðnum til að standa vörð um hagsmuni ... Kristjáns

Fyrir sjö árum gengu fulltrúar Íslands, Noregs og Japans gengu út af fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins og komu með því móti í veg fyrir að greidd yrði atkvæði um tillögu Brasilíu og Argentínu um stofnun griðasvæðis hvala í Suður-Atlantshafi. Þetta þótti okkar fulltrúa á staðnum betra heldur en „spilla andrúmsloftinu í ráðinu“*, með svona asnalegri tillögu sem engar alvöru hvalveiðiþjóðir taka undir hvorteðer.

Fyrir þremur árum síðan var birtur pistill hér á blogginu um breska sjónvarpsþætti þar sem fjallað var um hvalveiðar í Suður-Íshafi. Án þess að ég hafi séð á korti hvar nákvæmlega þetta fyrirhugaða griðasvæði ætti að vera, þykir mér líklegt að það sé á svipuðum slóðum og sögusvið þáttanna.

Þessa dagana stendur yfir fundur Alþjóðahvalveiðiráðsins og í þetta sinn var kosið um tillöguna um griðasvæði sem Brasilía lagði fram, eins og það hefur gert á hverju ári síðan 2001. 39 ríki studdu tillöguna en 25 kusu gegn. Tillagan féll þar sem tvo þriðju hluta þarf til að samþykkja tillögur í alþjóðahvalveiðiráðinu. Ísland, Noregur, Rússland og Japan voru meðal þeirra sem kusu gegn griðasvæði fyrir hvali í Suður-Atlantshafi.

Japanir ætla síðar í vikunni að reyna að fá það í gegn að banni við hvalveiðum í atvinnuskyni verði aflétt. Og á þar eflaust dyggan bandamann hjá fulltrúum Íslands í ráðinu.

Íslensk stjórnvöld hljóta að skipa í þetta ráð, eða hvað?** Þessi sömu íslensku stjórnvöld sem eru undir forsæti flokksformanns sem leiðir flokk sem þykist í orði kveðnu vera á móti hvalveiðum. En stjórnvöld þessi eru samt tilbúin að horfa uppá (og jafnvel fagna) Kristján í Hval drepa hvern hvalinn á eftir öðrum — en ætla að skoða að loknum veiðum hvort þær hafi verið sjálfbærar og borgi sig fyrir Ísland að leyfa honum að halda þessu sporti áfram. Og nú er beinlínis komið í veg fyrir að hvalir verði látnir í friði í Suður-Atlantshafi.

Enn á að drepa. Enn á að standa með drápum. Enn á að standa að drápum.


___
* Það hefur ekki komið fram hver sé fulltrúi Íslands, hugsanlega er það enn forstöðumaður Hafréttarstofnunar Íslands.

** Hafréttarstofnun var stofnuð af Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu. Hafréttarstofnun Íslands er rannsókna- og fræðslustofnun á sviði hafréttar við Háskóla Íslands sem lýtur sérstakri stjórn og hefur sjálfstæðan fjárhag. Er fulltrúi Hafréttarstofnunar þá á vegum íslenska ríkisins eða kaupir Kristján Loftsson þjónustu af stofnuninni?
Efnisorð: , , ,

laugardagur, september 08, 2018

Umhverfisvænasta álið á sífelldri siglingu

Norðurál auglýsir þessa dagana íslenskt ál með heilsíðuauglýsingum og segir það umhverfisvænasta ál í heimi. Fyrir þremur árum kærði Landvernd auglýsingar Norðuráls sem þá sagði að íslenskt ál væri „einhver grænasti málmur í heimi“.* Sú staðhæfing var auðhrakin og það gerði þáverandi formaður Landverndar í grein sem hann kallaði „Ósvífin auglýsingaherferð Norðuráls“ og birt var 13. janúar 2016.

Nú þykist Norðurál hafa fundið leið til að höfða til samtímans með því að tala til þeirra sem hafa áhyggjur af kolefnisfótspori, og tilkynnir því hróðugt að losun álfyrirtækja á Íslandi sé allt að tífalt minni en hjá öðrum álfyrirtækjum víða um heim, því þau eru knúin að mestu af óendurnýjanlegum orkugjöfum eins og kolum og jarðgasi. Þetta er líklega satt, enda íslensk álver knúin rafmagni fengið úr vatnsaflsvirkjunum (enda þótt ekki séu allir sammála því að reisa virkjanir til að selja álfyrirtækjum ódýrt rafmagn), en þarna er verið að bera saman skítafyrirtæki við önnur skítafyrirtæki, og varla til að hreykja sér af.

Alltaf hefur verið augljóst að rafmagnið hefur verið selt mjög ódýrt til álfyrirtækjanna eins og sést á því að það hefur borgað sig fyrir þau að vera hér þrátt fyrir miklar vegalengdir frá upprunalöndum hráefnisins annarsvegar og áfangastöðum framleiðsluvörunnar hinsvegar (það má minna á að álvinnslan sjálf er mjög mengandi iðnaður**). Nú ætla ég ekki að ræða ódýra rafmagnið heldur benda á hvernig súrálið (áloxíð) kemst til Íslands og hvernig álið fer héðan: með skipum. Skipaflutningarnir eru eflaust stór kostnaðarliður, en það sem hér skiptir máli er þetta: Skip menga mjög mikið á ferðum sínum um heimsins höf. Það sem verra er:
„Engin markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir skip voru samþykkt á fundi umhverfisnefndar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar [árið 2016]. Samkvæmt bráðabirgðaáætlun þarf skipaiðnaðurinn, sem losar mikið af koltvísýringi, ekki að setja sér nein slík markmið næstu sjö árin.

Skipa- og flugsamgöngur eru að mestu undanskildar Parísarsamkomulaginu í loftslagsmálum sem þjóðir heims samþykktu fyrir ári, þar sem flugvélar og skip fara þvert um landamæri landa og um alþjóðleg loftrými og hafsvæði.

Á fundi umhverfisnefndar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO), sem er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna, átti að ræða hvernig skipaiðnaðurinn myndi axla ábyrgð í loftslagsmálum. Skip eru nú talin standa fyrir 2-3% af heildarlosun manna á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum á hverju ári og hefur IMO áætlað að losun iðnaðarins gæti aukist um 50-250% fyrir árið 2050.

Vegvísirinn sem samþykktur var á fundinum gerir ráð fyrir að bráðabrigðaáætlun til að draga úr losun skipa verði tilbúin eftir tvö ár. Fimm árum síðar, árið 2023, á að birta tímalínu um loftslagsaðgerðir sem skipaútgerðir og eigendur gætu þurft ráðast í. Eigendur stórra skipa eiga að skila Sameinuðu þjóðunum upplýsingar um eldsneytisnotkun sína en trúnaður mun ríkja um þær upplýsingar, samkvæmt frétt á vefnum Climate Central.

IMO frestaði einnig öllum ákvörðunum sem gætu neytt skipasmiði til þess að smíða eldsneytisnýtnari skip.

Þó að IMO hafi sjálf fagnað niðurstöðu fundarins sem „góðum fréttum fyrir umhverfið“ á Twitter-síðu sinni hefur hægagangurinn í að taka á útblæstri skipaiðnaðarins sætt harðri gagnrýni náttúruverndarsinna.“***
Það verður semsagt ekki fyrr en árið 2023 sem á að spá eitthvað í hvort og þá hvernig á að draga úr losun skipa, ja hérna hér. Á meðan sigla þau ótt og títt um höfin, þar af sum þeirra hlaðin súráli eða áli, og bæta á loftslagsvandann. Meðan svo er má teljast hæpið fyrir álver að hreykja sér af því að leggja „mikið af mörkum til að minnka losun á CO2 á heimsvísu“.

___
* Engu að síður blasir sama staðhæfing við á ensku á forsíðu Norðuráls: The World's greenest Aluminum.

** Kaflinn „Stundum þarf að skilja leiðinlega hluti“ í Draumalandinu: Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð, bls. 227-235, eftir Andra Snæ Magnason fjallar um hvernig súrál er unnið úr báxíti og segir þar að „súrálsvinnsla er einhver sóðalegasti iðnaður sem fyrirfinnst“, og jafnframt að „álvinnsla er einhver umhverfisfrekasti iðnaður í heimi“.

*** Afsakið en ég fann bara Moggafrétt um þetta. Hinsvegar er þar vísað á þessa frétt Climate Central.

Efnisorð: ,

sunnudagur, september 02, 2018

Lítil börn með skólatöskur

Þegar ég var í grunnskóla las ég ljóðið Nú haustar að eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur.

Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir
að tína reyniber af trjánum
áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið,
en það eru ekki þeir sem koma með haustið
það gera lítil börn með skólatöskur.

Mér fannst mjög ósanngjarnt að kenna börnum um að haustið kæmi, ég vildi síst vera ábyrg fyrir því. Hafði næstum jafn illan bifur á Vilborgu og hún hafði greinilega á börnum sem ekkert gátu að því gert að þurfa að fara í skólann.

Þegar Vilborg samdi ljóðið, árið 1960, byrjuðu skólar mun seinna en þeir gera núna og hættu fyrr á vorin. 8-9 ára börn áttu að mæta í fyrstu kennslustund mánudaginn 5. september, 7 ára börn (sem þá var yngsti bekkur í skyldunámi) daginn eftir (öll þurftu þau þó að koma í skólann 1. september því þá var skipt í bekkjardeildir). Krakkar í eldri deildum barnaskólans (10-12 ára) þurftu ekki að láta sjá sig fyrr en 1. október. (Morgunblaðið 3. sept. 1960).

Tíu árum síðar er tekin upp kennsla fyrir sex ára börn („forskóli“; sex ára bekkur varð ekki skylda fyrr en 1991) og áttu þau að hefja skólagöngu sína 1. október. Sjö, átta og níu ára börn áttu það ár að mæta í skólasetningu fimmtudaginn 3. september, og líklega hefur þá kennsla hafist mánudaginn 7. september. Það varð semsagt ekki breyting á því hvenær skólinn byrjaði á þessum tíu árum. Haustið byrjaði því seinna en nú, sé miðað við ljóð Vilborgar.

Nú í ár var skólasetning 22. ágúst og skólaslit verða 7. júní. Áður fyrr lauk skólanum í maí. Það ku hafa verið á því herrans ári 2008 sem skólinn var lengdur úr 170 dögum í 180 daga. Veslings börnin.

Þetta hefur áhrif á fleiri. Undanfarin ár hefur fullorðna fólkið talað eins og haustið byrji fljótlega eftir verslunarmannahelgi. Það helgast auðvitað af því að skólasetningin er seinna sama mánuð. Það er semsagt enn verið að kenna börnunum um að koma með haustið.

Auðvitað er það svo líka fullorðna fólkinu að kenna að börnin eru æ lengur í skóla; foreldrarnir æpa yfir að þurfa að sinna börnunum vegna verkefnadaga kennara, og vilja helst sem lengst skólaár. Það sama vill atvinnulífið. Ein slík uppástunga kom fram í pistli Davíðs Þorlákssonar, fyrrverandi formanns SUS og núverandi for­stöðumanns sam­keppn­is­hæfnisviðs Sam­taka at­vinnu­lífs­ins. Davíð vill ekki bara lengja skólaárið heldur stytta það (aftur) um eitt ár svo að grunnskólinn sé bara níu ár. Það er ekki langt síðan öðrum frjálshyggjumönnum tókst að stytta framhaldsskólana niður í þrjú ár. Allt er það til þess að flýta fyrir því að vinnuaflið fari að knýja hjól atvinnulífsins.

Ekki held ég að það sé stemning fyrir þessu enda nóg búið að hræra í skólakerfinu í bili. Enn meiri lenging skólaársins er varla í þágu krakkanna, þeir vildu eflaust eiga lengri sumur eins og þau sem fyrri kynslóðir ólust upp við. Og ekki vera kennt um árstíðaskiptin.
Efnisorð: , , , ,