sunnudagur, ágúst 27, 2017

Hæfileg ágengni

Aðalmeðferð í svokölluðu Birnumáli fór fram fyrri part vikunnar og þá eins og venjulega stigu misvitrir einstaklingar fram og tjáðu sig í athugasemdakerfum fjölmiðla. Einn þeirra vakti sérstaka athygli fyrir hugmyndir hans um hvernig hægt væri að tryggja öryggi kvenna. (Hann verður ekki nafngreindur hér en auðveldlega er hægt að sjá hver það er með því að lesa fréttina.)

Fyrst segir hann þetta (og já hann byrjar setninguna í miðjum klíðum):
„sumir amk menn vilja ekki reyna of mikið eða spjalla við ungar konur á skemmtistöðum kannski , gefa þeim frið af kurteisi, en ef menn gerðu það meira færu færri einar heim kannski sem væri öruggara, bjóða að ganga með þeim eða redda fari eða ..kurteisin er þá minna viðeigandi en maður hélt, hæfileg ágengni eykur öryggi“
Næst segir hann og er þá að svara manni sem segir að sumir þeirra sem bjóðist til að fylgja konum heim eða skutla hafi illt í huga:
„já auðvitað en sumar vilja fara með einhverjum og þá er betra að sem flestir skárri bjóði far eða hvað“
Og að lokum, sólarhring seinna, er hann enn við sama heygarðshornið:
„enda er ég ekki að hvetja til þess að td konur leyfi ókunnugum að fylgja sér heldur að segja að sumar velja samt að gera það vegna kæruleysis vímunnar og leigubílar kosta mikið og þægilegra að fá bílfar en að ganga og því fleiri skárri menn sem bjóða fylgd og far eykur líkur á að þær lendi með þeim í bíl frekar en verri mönnum . en þeir skárri vilja kannski sjaldan byrja spjall og bjóða far , finnst það ósiðlegt , truflun, hún kannski mikið yngri , ofl ofl , en þeir skárri ættu kannski að átta sig á því að þessi hæverska minnkar öryggi kvenna.“
Eflaust meinar hann vel, en samt, skilningleysið er hrópandi.

Önnur bókin í bókaflokknum um Basil fursta hefst á kafla þar sem lýst er nokkuð vel hvað við er að etja.

Sveitastúlkan Alice er komin til höfuðborgarinnar og kynnist samkvæmislífinu og fer í veislu hjá Stanley bankastjóra. Sagan hefst þar sem Alice flýr veisluna eftir að dansherra hennar hafði dansað með hana út úr danssalnum og í annan mannlausan sal þar sem hann slekkur ljósið og ræðst að henni með kossum, hneppir frá henni kjólnum og kyssir brjóst hennar. Alice sleppur frá honum og vill heim. En leigubíllinn sem var pantaður fyrir hana kom aldrei og hún gengur af stað heimleiðis í roki og rigningu, strætisvagnar aka framhjá henni en eru fullir af fólki. Komið er miðnætti þegar hún rekst á mann sem er svo bráðalmennilegur að bjóða henni að ganga með sér og samnýta regnhlíf hans.

Hún leit þakklátum augum til hans. Fötin hennar voru mjög blaut.
„Þakka yður kærlega fyrir, þetta er fallega gert af yður,“ og þetta meinti hún einlæglega, því hún var þessari hjálp sárfegin.
„Eigum við ekki að reyna að ná okkur í bíl,“ spurði hann, „þetta er hvort sem er ekki veður fyrir kvenfólk.“
„Því yrði ég feginn. Ég er búin að bíða hér mjög lengi, og mér hefur enn ekki tekizt að ná í neina bifreið.“
„Þá kem ég eins og ég væri sendur, gerið svo vel, hérna er regnhlífin,“ sagði hann og gekk út á götuna, og það var eins og tilviljunin hefði gengið í lið með honum, því í sömu andránni kom bíll þjótandi eftir veginum.
„Halló, stoppaðu karlinn,“ næstum öskraði maðurinn og bifreiðastjórinn virtist vera öldungis forviða, að hann skyldi vera stöðvaður á þessum stað og það í þessu veðri.
Bifreiðastjórinn lauk upp hurðinni. „Hvert á ég að aka?“ spurði hann.
„Til Hyderwood nr. 16,“ svaraði ókunni maðurinn, svo sneri hann sér að Alice, „þér hafið vonandi ekkert á móti því að koma með mér heim?“
Hún starði fyrst forviða á hann. Svo skildi hún hvað hann var að fara. En án þess að segja nokkurt orð, rétti hún honum regnhlífina, og þegar hann tók við henni, tók hún á rás, og gekk eins hratt og hún gat, án þess að skeyta hið minnsta um regnið.
„Bíðið þér svo litla stund,“ sagði maðurinn við bifreiðastjórann, en flýtti sér svo eins og hann gat á eftir Alice. Þegar hann komst á hlið við hana, sagði hann:
„Blessaðar, látið þér ekki eins og kjáni, hvað haldið þér að það þýði fyrir yður að vera með þessa stórmennsku.“
Hún virti hann ekki svars, en hraðaði sér eins og hún gat. „Þér megið ekki halda að ég sé að horfa í nokkrar krónur. Ég skal gjarnan borga og eyða yðar vegna, segið þér bara hvað þér viljið. Kannski við förum fyrst í „Stjörnuklúbbinn“, og fáum okkur eitthvað að borða?“
Hún lét sem hún heyrði það ekki, en hraðaði sér allt hvað af tók. Hann fékk betra tækifæri til að skoða hana. Þetta var ljómandi falleg stúlka. Sjá þennan spengilega vöxt og þessa fallegu fætur. Það jók á áfergju hans að miklum mun, að virða fyrir sér hinn fagra vöxt hennar.
„Ég skal ekki spara neitt. Jafnvel nokkur sterlingspund, sem fyrirfram greiðslu.“
Alice barðist við grátinn. Slík smán hafði henni aldrei verið sýnd. Hún fór að hlaupa við fót, þá hætti hann og nam staðar, en lét hin óþverralegustu orð fylgja henni.
Alice hljóp lengi og þorði ekki að líta um öxl, fyrr en hún var komin langt í burtu. Þá fyrst leit hún við, og sá að hann var hættur að elta hana, og að hann sást ekki. Það var eins og þungum steini væri létt af henni, og rétt í því fór framhjá henni strætisvagn, en hann var yfirfullur eins og allir hinir.
„Góða kvöldið, litla vina mín. Það segir sig sjálft, að við tvö verðum samferða eitthvað út í lífið.“
Maðurinn sem ávarpaði hana að þessu sinni, var ungur og ekki við fyrstu sýn ógeðslegur. Hann var í gráum regnfrakka. Hann leit á Alice frekjulega og hélt áfram í ósvífnum tón:
„Það er synd og skömm að því, að svona lítil telpa skuli vera ein á gangi og auðvitað hlýtur þér að leiðast gæzkan mín.“
Hún leit þannig til hans að honum fannst eins og hún væri að gefa undir fótinn. „En hvað þú ert falleg, sæta vina mín. Þetta er alveg eins og ég vil hafa það. Býrðu langt frá þessum stað?“
„Þér ættuð að skammast yðar. Þér hafið engan rétt til að tala við mig.“
„Nei, það er sjálfsagt alveg satt. En þennan rétt hlýt ég að fá innan skamms,“ sagði hann hlæjandi. „Mér sýnist á yður, að þér séuð einmana og af þeirri ástæðu liggur illa á yður. Nú og sama máli gegnir um mig. Ég er einn og mér leiðist, og því ekki að slá sér saman og létta okkur eitthvað upp?“ Hann greip um axlir hennar og sneri henni að sér, hún reyndi að slíta sig af honum. „Þú ert ljómandi snotur, telpa mín. Við skulum bara koma og skemmta okkur.“
„Sleppið mér, leyfið þér mér að halda áfram, heyrið þér það ekki?“ hrópaði hún.
„Jú auðvitað heyri ég það. En hvers vegna á ég að sleppa yður? Þér eruð ljómandi falleg. Komið þér nú. Við förum in í einhverja knæpu, og ræðum þar í bróðerni um hlutina, og þegar við erum orðin sammála, förum við heim og þá byrjar aðal skemmtunin.“
„Ég hrópa á hjálp, ef þér ekki sleppið mér tafarlaust,“ sagði hún örvingluð.
Það var eitthvað í rödd hennar, myndugt og skipandi, og því sleppti hann henni, en það var ekki þar með lokið. Hann vildi ekki láta fuglinn fljúga strax, og breytti hann um aðferð. Hann talaði nú í virðulegri tón, en þó mátti finna hrottaskapinn og ruddaháttinn. Hann tók af sér hattinn og mælti:
„Afsakið náðuga ungfrú, mér þykir þetta slæmt, en ég hélt að þér væruð úti til þess að skemmta yður. Þér megið alls ekki vera reið. Mér hefur skjátlast, það viðurkenni ég fúslega. Viljið þér ekki samþykkja, að ég verði yður samferða dálítin spotta. Við eigum hvort sem er leið saman. Ég lofa því að óvirða yður ekki framar.“
„Þakka yður fyrir það. En ég vil ekki þiggja fylgd yðar. Þér eruð jafn ógeðfeldur, þótt þér játið nú að fyrri framkoma yðar hafi byggst á misskilningi. Mér finnst því, að bezt sé fyrir yður að fara einn og láta mig afskiptalausa.“
„Hvers vegna? Ég er búinn að segja yður, að mér þyki fyrir því að hafa egnt yður til reiði, og mér þykir það mjög leitt.“
„Ef það gæti glatt yður eitthvað, þá skal ég gjarnan fyrirgefa, og ef það gæti huggað yður, þá er ég ekkert reið við yður,“ svo hneigði hún sig og gekk leiðar sinnar.
En þótt hún væri laus við þennan árásarmann, þá var langur vegur frá því að hún væri örugg. Þetta hvort tveggja var hundrað sinnum verra, en að sem hafði komið fyrir á heimili Stanleys. Hún var bæði reið og hrygg, og nagaði sig í handarbökin fyrir að hafa ekki snúið aftur upp, og beðið um aðra bifreið.
London hafði sýnt henni inn fyrir fortjaldið, sem dregið er á milli þess, sem í ljósinu býr, og hins er hylur sortann og myrkraverkin. Hún var næstum sturluð, þegar hún hélt áfram. Í hvert sinn, sem hún mætti einhverjum á götunni, hrökklaðist hún undan.
Og nú kom þarna á móti henni eldri maður, mjög feitur og ógeðslegur. Hún vék sér úr vegi, en hann misskildi tilgang hennar, og kallaði með drafandi tungu:
„Hikk-hikk, þú þarna hóra. Komdu, ég skal borga þér vel fyrir stutta en eftirminnilega gleðistund,“ svo þreif hann til hennar, og hún fann vínþefinn frá honum.
„Hjálp!“ hrópaði Alice af öllum kröftum.
„Heimska ókind,“ umlaði í fyllibyttunni, svo sleppti hann henni, en slangraði leiðar sinnar.
Tveir lögregluþjónar komu aðvífandi.
„Hvers vegna eruð þér að öskra þetta?“ spurði annar þeirra.
Alice leit upp og sá þessa tvo þjóna réttvísinnar, stóra og allt annað en blíðlega. Hún gat rétt stunið upp, en slitrótt:
„Þessi maður stöðvaði mig,“og hjartað barðist í brjósti hennar.
„Þú hefur auðvitað verið á veiðum, götustelpan þín. Þú ættir að skammast þín og koma þér heim, og það hið fyrsta,“ sagði annar þeirra önugur.
„Ég hef ekki gert hina minnstu tilraun til þess sem þér segið. Þetta er þriðji maðurinn, sem hefur stöðvað mig á leið minni,“ sagði hún og það kenndi harms og reiði í rödd hennar.
„Hvern fjandan sjálfan ertu að slæpast hér? — Reyndu að snauta heim til þín. Þú þykist vera að leika engil. Svei.“
Svo héldu þessir heiðursmenn áfram göngu sinni, eins og þeim kæmi þetta ekkert við. Alice stóð því jafn ráðlaus eftir á götunni, og nú fyrst missti hún kjarkinn. Hún grét. Allt sem hafði hent hana, hafði komið svo snöggt og óvænt.“
Henni hafði skjátlast hrapalega. Hún hafði búizt við að allt væri svo glæsilegt í höfuðborginni, en nú var eins og hún væri að vakna af löngum, en slæmum draumi.“

Saga þessi í bókaflokknum um Basil fursta kom fyrst út á íslensku árið 1939. Höfundur hennar hefur — jafnvel á þeim tíma — verið sér ágætlega meðvitaður um hversdagsleika kynferðislegrar áreitni, og að konur geti ekki, sérstaklega ekki síðla nætur, gengið óáreittar um göturnar. Þeir sem þykjast vera að bjóða fram hjálparhönd hafa ýmislegt misjafnt í huga. Hafi höfundurinn vitað þetta á fjórða áratug síðustu aldar, hversu sérkennilegt er það þá að karlmenn á 21. öld, sem hafa allar upplýsingar heimsins við höndina, skuli vera svona illa upplýstir? Og að þeirra eina uppástunga sé að karlmenn eigi hver um annan þveran að sýna „hæfilega ágengni“?

Til að árétta að konur eru ekki óhultar fyrir karlmönnum og ættu helst aldrei að treysta þeim: Fyrir mánuði komst það í fréttirnar að fimmtán ára stúlku í Birmingham var nauðgað af manni sem hún leitaði ásjár hjá eftir að annar maður hafði nauðgað henni.

Hún fór, eins og Alice, úr öskunni í eldinn. Nema Alice var skálduð persóna meðan þessi stelpa á allt lífið framundan en á líklega aldrei eftir að treysta nokkrum karlmanni framar. Eflaust finnst þó einhverjum að karlmenn eigi bara samt að vera með „hæfilega ágengni“ við hana í framtíðinni. Hennar vegna sko.

Efnisorð: ,

föstudagur, ágúst 25, 2017

Raðuppreist æra barnaníðinga

Það var ekki bara barnaníðingurinn Róbert Árni Hreiðarsson sem nú notar nafnið Robert Downey sem fékk æru sína uppreista með uppáskrift frá dómsmálaráðuneyti og forseta, heldur einnig annar barnaníðingur sama dag. Sá heitir Hjalti Sigurjón Hauksson og hann nauðgaði stjúpdóttur sínu næstum daglega í tólf ár, frá því að hún var um það bil fimm ára.

Það má gjarnan koma fram hér að uppreisti barnaníðingurinn Hjalti Hauksson horfist svo ærlegur í augu við afbrot sín að hann kærði vefsíðuna Stöndum saman fyrir að birta mynd af sér og dóminn, eins og segir frá í frétt Stundarinnar. Nánar um afbrot Hjalta má lesa í annarri frétt Stundarinnar, á síðu Hæstaréttar, og á vefsíðu Stöndum saman þar sem einnig má sjá mynd af ógeðinu.

Nú langar mig að vita eitt. Þegar ráðið er í störf í grunnskólum og stofnunum fyrir fatlað fólk er það gert að skilyrði að fólk hafi hreint sakavottorð. Einstaklingar sem eru ráðnir í störfin verða semsagt að hafa hreinan skjöld og er það gert til þess að vernda skjólstæðinga stofnananna. Börn, sjúka, fatlaða.

En sæki nú um slíkt starf barnaníðingur með margra ára fangelsisvist að baki, einstaklingur sem hefur um árabil beitt barn kynferðislegu ofbeldi — og flestum finnst þá líklega að teljist óhæfur í samskiptum við varnarlausa einstaklinga — getur hann þá bara fengið vinnuna útá uppreistu æruna og hreina fína sakavottorðið sitt?

Finnst kannski fleirum en mér það vera algjör óhæfa?

Tilhvers er þá verið að reyna að láta sakavottorð vera aðgöngumiða að ákveðnum störfum, ef menn geta látið strika út syndir sínar með þessum hætti? Og vitum við nokkuð nema einhver helvítis barnaníðingurinn með hvítþvegna æruna sæki um starf — eða sé þegar kominn í vinnu í grunnskóla?

Það er sturlað þjóðfélag sem hvítþvær svona menn og sendir þá útí grunlaust samfélagið.

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, ágúst 23, 2017

Hennes & Mauritz og sjómaðurinn sem hvarf


Eins og það er nú auðvelt að finna samfélagsmiðlum, og reyndar fjölmiðlum líka, allt til foráttu þá er aðhaldið sem þessir miðlar veita kjörnum fulltrúum, embættismönnum og fyrirtækjaeigendum (svo dæmi séu tekin) algerlega ómetanlegt. Asnalegi innkaupapokinn fékk ekki lengi að standa á Lækjartorgi áður en hann var púaður burt. Embættismenn og borgarstjórn hrukku við þegar almenningur jafnt sem háskólaprófessorar gagnrýndu að auglýsing á ensku skuli hafa verið stillt upp á þessum miðpunkti miðbæjarins. Mér fannst reyndar að gagnrýnin hefði ekki síður mátt beinast að þessum sífellda undirlægjuhætti Reykjavíkurborgar við stórfyrirtæki. Rétt eftir aldamótin fékk símafyrirtæki að leggja sautjánda júní undir sig, og kókakólalestin er af einhverjum annarlegum ástæðum orðin fastur liður fyrir jólin. Núna er tískuverslun að fara að opna búð (í öðru bæjarfélagi) og þá finnst engum í borgarapparatinu neitt athugavert við það að auglýsa það (á ensku) á besta stað.

Ekki hef ég átt erindi um miðbæinn og því ekki séð téðan innkaupapoka. En þegar ég sá myndir af ferlíkinu þá hitnaði mér í hamsi. Hugsanlega hefði ég skrifað tölvupóst eða hringt í Reykjavíkurborg til að kvarta ef sjómannamyndin hefði ekki verið víti til varnaðar. (Tek það fram að mér fannst sjómannamyndin, þótt hún væri ekki glæsilegt listaverk, afar viðeigandi á húsgafli sjávarútvegsráðuneytisins sem er steinsnar frá Reykjavíkurhöfn. Sakna myndarinnar þarafleiðandi en vísa annars á Godd því ég er sammála því sem hann segir.)

Það er svo merkilegt með sjómannamyndamálið að það snýst að mestum hluta um það að einn maður tók sig til og kvartaði undan myndinni, og það nægði til að hún var tekin niður. Nú væri ég svosem alveg til í að í hvert sinn sem eitthvað fer í taugarnar á mér dugi til að ég hringi eða skrifi tölvupóst nokkrum sinnum og þá verði mér að ósk minni. En ég hefði samt haldið að það þyrfti meira til, margir þyrftu að kvarta eða málið færi fyrir fund, þetta varðaði jú risastóra mynd sem skiljanlega margir hafa skoðun á, og manni finnst að einn eða tveir embættismenn eiga ekki að taka ákvarðanir um slíkt. En það sem verra er að þegar fjölmiðlar fóru að grafast fyrir um hversvegna myndin var tekin þá var ákveðið að nafngreina manninn sem kvartaði — og senda fjölmiðlum tölvupóstana frá honum! Fyrr má nú vera opin stjórnsýsla.

Það var auðvitað einstaklega heppilegt að sá kvartgjarni reyndist vera landsþekktur maður og allaballi í þokkabót. Í allt sumar hefur samfélagið logað stafna á milli, fyrst vegna ráðningar sjálfstæðismanna í Landsdóm og svo vegna þagnarhjúpsins sem sjálfstæðismenn hafa varpað yfir meðmælendur barnaníðingsins innmúraða og innvígða. Allaballanum var því kastað fyrir ljónin: Þetta viljið þið er það ekki, nafngreina menn!

Og skyndilega varð sjómaðurinn raunamæddi orðinn tákn fyrir kommúnískar ofsóknir, gott ef ekki hatur vinstrafólks á sjómannastéttinni í heild. Ekkert um að borgarbúum sé fullkomlega frjálst að kvarta undan því sem gerist í nærumhverfi þeirra (hversu asnaleg sem kvörtunin er) og hvað það eigi að þýða að siga fjölmiðlum á fólk fyrir að kvartanir þess beri árangur. Eða hvað embættismönnunum gekk til að vísa á allaballann.

En heppileg var smjörklípan.

Þetta tengist svo aftur innkaupapokanum, og löngun minni til að kvarta undan þessu kapítalistadekri borgarinnar, á þann hátt að ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að hringja og kvarta. Hvað þá skrifa tölvupóst sem gæti endað á vefsíðum fjölmiðla, virkum í athugasemdum að leik. Þannig snýst opna upplýsingasamfélagið uppí andstæðu sína því óttinn við að gera sig að fífli með því að vera opinberaður sem kverúlant getur þaggað niður í jafnvel kvartsárustu sálum.


Efnisorð: , , , ,

föstudagur, ágúst 18, 2017

Með leyfi MAST

Það eru bara örfáir dagar síðan hér var skrifað um kaldranalegt viðmót hrossaeigenda í garð góðhesta sinna. Ekki er frétt dagsins um meðferð á hestum fyrir norðan til að bæta álitið á hestaeigendum eða yfirvöldum sem eiga að fylgjast með aðbúnaði hrossa.

Hrossabændur á Skriðulandi í Hörgársveit við Eyjafjörð, fóðruðu graðhesta sína svo illa að þeir flúðu sveltið og til fjalla að leita sér matar. Þar flugust hestarnir á (við aðra hesta og/eða innbyrðis) og voru stórslasaðir á eftir, ofan á illu meðferðina af hendi bændanna. Þá var gripið til þess bragðs — með leyfi yfirvalda í gervi MAST — að skjóta fjóra þeirra því þeim væri ekki við bjargandi. Í stað þess að fara að dýraverndarlögum um hvernig lóga skal skepnum þá var notuð einhver villidýraveiðiaðferð og hestarnir skotnir í bóginn. Allt bendir til að þeir hafi ekki drepist strax heldur hlaupið um helsærðir, en MAST segir að þeir hafi drepist en hræin verið dregin út og suður til að hinir hestarnir sæju þau ekki; merkilegt að færa þau þá ekki á einn stað í stað þess að dreifa þeim um allt.

Eftirlifandi fimm graðhestar í eigu bændanna eru taldir í góðum höndum — þ.e.a.s. MAST lítur greinilega svo á — og þessvegna fá dýraníðingarnir — sem MAST hefur þó áður þurft að hafa afskipti af vegna aðbúnaðar — að halda hross áfram.

Það er hreinlega ekkert í þessari sögu —eða neinni þeirri sögu sem viðkemur MAST — sem bendir til þess að forstjóri eða yfirdýralæknir séu starfi sínu vaxin. Það er óeðlilegt að fólk sem á að framfylgja ströngustu reglum hverju sinni um dýrahald og aðbúnað dýra leyfi illa meðferð á skepnum árum saman og láti bændur (eða verksmiðjuframleiðendur sem höndla með dýr) alltaf njóta vafans. Og þessi meðferð á lifandi og dauðum hrossum þarna fyrir norðan gerir útslagið.

Það verður að reka forstjóra og yfirdýralækni MAST úr starfi strax.
Efnisorð: ,

þriðjudagur, ágúst 15, 2017

Hér er talað um breskar hjúkkur og fleira

Breski hlaðvarpsþátturinn The Guilty Feminist* er alltaf tekinn upp fyrir framan áhorfendur og er grínaktugur mjög. Undirliggjandi þema er feminismi en allskonar málefni eru tekin fyrir, og svo eru þáttastjórnendur og jafnvel gestir þáttarins með uppistand. Stundum er þó brugðið útaf vananum og ákveðið málefni er tekið föstum tökum og minna er um glens og grín.** Þátturinn sem tekinn var upp 21. júlí og sendur var út í síðustu viku var til styrktar Royal College of Nursing Foundation, sem er styrktarsjóður Konunglega hjúkrunarskólans og er ætlaður fyrir hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, sjúkraliða og nema í fræðunum.

Þátturinn var mjög áhugaverður. Breska heilbrigðiskerfið (National Health Service, skammstafað NHS) er fjársvelt rétt eins og það íslenska, og af sömu ástæðu: pólitískum ákvörðunum stjórnvalda. Gestir þáttarins voru hjúkrunarfræðingar (allt konur eins og yfirleitt alltaf í þáttunum og þáttastjórnendur eru líka konur) og sögðu þær frá vinnuaðstæðum sínum og hvernig þær/og eða vinnufélagar þeirra eru smátt og smátt að brenna út í starfi. Laun breskra hjúkrunarfræðinga hafa lækkað um 14%, auk þess sem vinnuálagið eykst endalaust því æ færri leggja hjúkrunarstarfið fyrir sig; ekki bætir úr skák að þegar Bretland gengur úr ESB verður ekki lengur hægt að fá erlent vinnuafl. Í þættinum eru dregin fram viðhorf hjúkrunarfræðinga til starfs síns en einnig hvernig sjúklingar og aðstandendur hafa upplifað viðmót hjúkrunarfólks. Þetta var á köflum mjög átakanlegur þáttur (mikið fjallað um dauðann), en líka mjög fallegur því ástríða hjúkrunarfræðinganna fyrir starfinu er einstök.

Margt sem kom fram í þættinum rímar mjög við ástand mála á Landspítalanum þar sem álag á starfsfólk er gríðarlegt og æ færri fást til að sinna störfunum, mennta sig til að vinna við þær aðstæður og á afar lágum launum (hvað þá miðað við vinnuframlag og ábyrgð í starfi). Öll spjót standa nú á geðdeild Landspítalans vegna hörmulegs atburðar þar um helgina þegar sjúklingur stytti sér aldur. Í ljósi þess er vert að hlusta á þennan ágæta þátt. Fjársvelti, undirmönnun og endalaust álag á sama fólkið árið út og inn hlýtur að leiða til — og við vitum að það leiðir til — mistaka af ýmsu tagi, hvort sem það er í formi rangrar sjúkdómsgreiningar, lyfjagjafar eða að einstaklingar fá ekki þá umönnun sem þeir ættu að fá.

Það þarf að stórauka það fé sem ætlað er til reksturs Landspítalans. Það þarf að hækka laun og fjölga starfsfólki svo það flýi ekki til útlanda eða í einkageirann (þennan sem núverandi stjórnvöld eru að hlaða undir) og umfram allt að losa sig við ríkisstjórn sem lætur fara svona með gott fólk.

___
* The Guilty Feminist er fyrir alla (samviskubitna) feminista og aðra sem hafa gaman af breskum húmor.
Hér er síða þáttarins og hér er þátturinn sem um ræðir.
** Dæmi um það er þáttur sem var viðbragð við kjöri Trumps til forseta (sá þáttur fór í loftið 11. nóvember, og síðar annar (fór í loftið 8. febrúar) þar sem fjallað var um múslimaferðabannið sem hann reyndi að setja.Efnisorð: , , , , ,

sunnudagur, ágúst 13, 2017

Iss, skiljum bara skynlausa skepnuna eftir eins og hvern annan úrgang

Heimsmeistaramóti í frjálsum íþróttum lauk í dag þar sem frægasta íþróttafólk heims vann glæstra sigra og þurfti að horfast í augu við óvænta ósigra. Íslenskum keppendum gekk ekki sérlega vel en það er sárabót að Fanney Hauksdóttir kraftlyftingarkona fékk silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu í klassískri bekkpressu í Finnlandi.

Öðru svokölluðu íþróttamóti var að ljúka í Hollandi og er það heimsmeistaramót íslenska hestsins (það er flokkað með íþróttum hjá fjölmiðlunum). Þar rigndi inn verðlaunum til íslenskra knapa. Hestunum stendur líklega á sama um verðlaunin en það eru þó þeir sem sjá um allt erfiðið: þeir eru íþróttagarparnir en ekki knaparnir. (Já ég veit að knaparnir sjá oft um alla þjálfun hestsins en það að knapinn fær verðlaun en ekki hesturinn er einsog þjálfarar frjálsíþróttamannanna fengju einir verðlaun.)

Það sem hestunum myndi hinsvegar varla lítast á — ef þeir vissu eitthvað um hvað biði þeirra — er að þeir eiga ekki afturkvæmt til heimahaganna að loknu meistaramótinu. Reglur um innflutning dýra banna að hestar sem hafa farið til annarra landa megi koma aftur til Íslands. (Ég er hlynnt þessum reglum og öllum ströngum innflutningsreglum bæði á lifandi dýrum og hráu kjöti — já og í ljósi eggjaskandalsins á meginlandi Evrópu megum við þakka fyrir að hrá egg eru ekki flutt inn.)

Hestur sem er búið að leggja á þrotlausar æfingar jafnvel árum saman og stendur sig svo vel að hann er talinn líklegur til að gera góða hluti á alþjóðlegu móti — honum er refsað með útlegð. Aldrei má hann aftur upplifa íslenska sumarið. Hestar sem hann hefur þekkt alla ævi eru honum að eilífu horfnir. Hestar eru félagsverur (rannsóknir hafa sýnt að að hestar velja sér vini í hrossahóp, og það er tekið fram í reglugerð að hrossahald skuli taka mið af félagslegum og líkamlegum þörfum hrossa) og þeir geta orðið þunglyndir, en til þess er ekki tekið tillit þegar þeir eru seldir burt. Á erlendri grund mega þeir búast við að smitast af sjúkdómum sem hér eru óþekktir (og þessvegna má ekki flytja þá heim aftur) og þjást því einnig líkamlega í nýjum heimkynnum; sumarexem er velþekkt vandamál sem hrjáir íslensk hross í útlöndum.

Varla er ég ein um að hafa fundið skömm og reiði þegar ég heyrði um sölu íslenskra hesta í kolanámur Bretlands á 19. öld. Hvernig gátu íslenskir bændur verið svona grimmir? Að láta hestana sem vanir voru að hlaupa frjálsir strita í kolanámum til dauðadags og sjá aldrei aftur dagsljósið.

Hversu miklu betri er sú hugsun íslenskra hestamanna sem eru svo kappsamir og metnaðargjarnir að þeir selja undan sér hestinn sem er forsenda þess að þeir geti yfirhöfuð keppt á fína mótinu í útlöndum? Og svo ota fjölmiðlar „árangri íslensku keppendanna“ að lesendum eins og þetta sé fagnaðarefni?

„Þetta er ólýsanleg tilfinning … ég hef unnið að þessu markvisst í tvö ár,“ sagði sigurvegarinn eftir verðlaunaafhendinguna.
Þú hefur unnið markvisst að því að upphefja sjálfan þig á kostnað lifandi tilfinningaveru. Það er ekkert til að hreykja sér af.

Mér liggur við að skæla þegar ég hugsa til veslings hestanna sem fá aldrei að koma heim aftur.

Efnisorð: ,

föstudagur, ágúst 11, 2017

Smælki í snemmágúst

Fyrirsagnir í Fréttablaðinu í dag voru furðulegar.

Á blaðsíðu 4 mátti finna stutta frétt um uppsagnir á frystitogara þar sem 54 skipverjar missa vinnuna. Fyrirsögnin var: Hetjum hafsins kastað fyrir borð. Þetta hefði einhverntímann kannski verið flott fyrirsögn, sannarlega ekki hlutlaus en mjög dramatísk og eftirtektarverð. En í ljósi þess að flóttamannasmyglarar hafa undanfarna daga kastað flóttafólki fyrir borð og látið það drukkna þá er þessi fyrirsögn alveg svakalega ósmekkleg. Á blaðsíðu 8 í blaðinu var einmitt nýjasta fréttin um slíkan voðaverknað og fyrirsögnin þessi: Var kastað fyrir borð og drukknuðu.

Spurningin er hvort fólkið með blaðsíðu 4 hafi aldrei átt samtal við fólkið sem sér um blaðsíðu 8, eða lesið fréttir víðar að. Þarf ekki að leyfa einhvern samgang þarna á milli?

Það var reyndar líka á blaðsíðu 4 sem fyrirsögnin rímaði allsekki við innihald fréttar um baráttu bónda í Hvalfirði við Norðurál á Grundartanga. Þar segir að frá tveimur rannsóknum á veikindum hesta í eigu bóndans og varð niðurstaða fyrri rannsóknarinnar (á vegum MAST) að hestarnir hefðu bara verið of feitir. Seinni rannsóknin sýndi að útilokað væri að veikindin væru vegna offitu en flúormengun hefði afturámóti verið fjórfalt meiri en í hrossum á „ómenguðum svæðum“. Niðurstaðan er því vægast sagt umdeild (og líklegra en ekki að flúormengun sé orsökin og að MAST hafi klúðrað krufningunum eins og svo mörgu öðru), en fyrirsagnasmiðurinn segir blákalt: Offita olli veikindum hrossanna. Hvaðan sem honum kom svo leyfi (eða fékk til þess fé) að fullyrða það. Eða náttúrlega viðkomandi er almennt ólæs á fréttir. En fréttin var svo birt á Vísi með breyttri fyrirsögn.
— Þess má geta að bóndinn benti meðal annars á í lagarökum sínum að MAST hafi engar rannsóknir á hrossum, innlendum eða erlendum til að styðjast við en láti tilgátur byggðar á mælingum í norskum dádýrum duga.

MAST reyndist algjörlega gagnslaust apparat þegar kom að aðbúnaði hænsna og fölskum fullyrðingum eggjaframleiðenda en nú hefur komið í ljós kollegarnir hjá hollensku matvælastofnuninni eru sennilega lítt skárri. Þeir eru grunaðir um að hafa vitað síðan í fyrra að hollensk egg hafi verið seld til manneldis á meginlandi Evrópu og á Bretlandi þrátt fyrir að vera menguð af skordýraeitri sem bannað er að nota.

Hvernig er það með matvælaiðnaðinn annars. Gengur hann almennt útá svindl, sóðaskap, frjálslega notkun eiturefna og svikna vöru? Um daginn var frétt um að innihald í kanadískum pylsum innihéldu iðulega allt aðrar tegundir af kjöti en gefið væri upp á umbúðum. „Sjö af 27 nautapylsum, sem skoðaðar voru, innihéldu svínakjöt. Ein af 38 svínapylsum innihélt hrossakjöt. Af 20 kjúklingapylsum, sem rannsakaðar voru, innihéldu fjórar kalkúnakjöt og ein nautakjöt. Og fimm af þeim 15 kalkúnapylsum, sem skoðaðar voru, innihéldu engan kalkún, einungis kjúkling.“ Alls innhéldu 20% af pylsunum innihéldu kjöt, sem ekki kemur fram í innihaldslýsingu. Það er sagt vera „lágt miðað við það sem gengur og gerist í Evrópu. Þar sé hlutfallið allt að 70% samkvæmt rannsóknum“.

Á Íslandi skemmtir pylsuframleiðandi sér við að auglýsa undir SS-heitinu á skiltum sem blasa við ferðamönnum sem leið eiga um höfuðborgina. Ég sá túrista sem voru nærri búnir að míga á sig af hlátri og tóku myndir af skilti við Hlemm í gríð og erg. Enda þótt engum hér á landi detti í hug að SS standi fyrir annað en Sláturfélag Suðurlands þá er útlendingum gefið undir fótinn með að Íslendingar séu of vitlausir til að fatta tenginguna við þýsku SS-sveitirnar. Og svo hlægja túristarnir að heimsku Íslendingunum. Sem þeir mega auðvitað alveg gera, en það er ekkert hlægilegt að forstjóri Sláturfélagsins láti eins og enginn þar innanhúss hafi rennt grun í að einhver gæti misskilið auglýsinguna.

Talandi um misskilning, ja eða bara vanþekkingu.

Eins og dyggir lesendur bloggsíðunnar vita stendur yfir stríð um kosti og galla sjókvíeldis. (Reynt er að bæta við heimildaskrá pistils um það efni eftir föngum, en það þyrfti að ráða sérstakan ritara í það verkefni, og sömuleiðis til að bæta við greina-og fréttasafnið um uppreista æru lögmannsins og barnaníðingsins Robert Downey sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson.)

Framkvæmdastjóri fiskeldisstöðva skrifaði semsagt seint í júlí svar við pistli séra Gunnlaugs í Heydölum um nokkrum dögum áður og umfjöllunarefni beggja var að sjálfsögðu laxeldi í sjókvíum. Svargreinin bar heitið „8. boðorðið“, sem framkvæmdastjórinn gerði líklega ráð fyrir að almennir lesendur þekktu jafnvel og presturinn. En sú sem bloggið ritar þurfti nú samt að fletta því upp hvert boðorðanna er það áttunda. En viti menn: íslenska Wikipedia segir að 8. boðorðið sé „þú skalt ekki stela“! Var framkvæmdastjórinn að dylgja um að sérann stundi ólöglegar netaveiðar á laxi? Þetta krafðist frekara gúggls. Niðurstaðan var auðvitað sú augljósa: áttunda boðorðið segir að „þú skalt ekki bera ljúgvitni“. Ekki ætla ég að treysta íslensku Wikipediu framar til að bæta úr vanþekkingu minni.

Að endingu aftur að fjölmiðlum. Að þessu sinni um mikilvægi þeirra. Appelsínugula erkifíflið í Hvíta húsinu (sem er þessa dagana á barmi þess að steypa heiminum í kjarnorkustyrjöld) hefur að hætti einræðisherra gert harða hríð að fjölmiðlum því hann þolir ekki að þeir gagnrýni sig og fletti ofan af skruminu, bullinu og vanhæfninni. Öfgahægrimenn (sem sumir eru hreinir fasistar) og aðrir aðdáendur hans taka hjartanlega undir með honum og skrækja að fjölmiðlar flytji falsfréttir. Markmiðið er auðvitað að almenningur hætti að treysta fjölmiðlum (en lesi bara heimskulegu yfirlýsingatístin frá þeim appelsínugula) og fjölmiðlarnir hverfi af vettvangi. Hér á landi hamast Björn Bjarnason með sama hætti á Ríkisútvarpinu, finnur því allt til foráttu og vill að það sé lagt niður. En það eru auðvitað ekki allir hægrimenn á þeirri skoðun að fjölmiðlar séu hættulegir, síður en svo. Þannig segir Þórlindur Kjartansson í pistli (sem að öðru leyti heldur leiðinlegur og að mestu helgaður því baráttumáli margra á hægri kantinum að pönkast á landbúnaðarkerfinu):
„Aðgangsharðir blaðamenn sem velgja valdhöfum og hagsmunasamtökum undir uggum eru mikilvægari fyrir lýðræðið heldur en flestir alþingismenn. Þess vegna er mikilvægt að fólk sé duglegt við að kaupa, lesa og styrkja fjölmiðla; jafnvel þá sem það er ósammála.“
Tveir ágætir íslenskir fjölmiðlar, Kjarninn og Stundin, bjóða lesendum að styrkja starfsemi sína með frjálsum framlögum eða áskrift. Lesendur bloggsíðunnar eru hvattir til að þekkjast það boð, eigi þeir aur afgangs.


Efnisorð: , , , , ,

þriðjudagur, ágúst 08, 2017

Litli prinsinn

Tímaritsgreinar, aðallega í kvennatímíritum, hafa oft fjallað um hvort karlmenn geti hugsað sér að vera giftir konum sem hafa hærri laun en þeir. Viðhorfið virðist lengi vera í þá áttina að körlum þyki það óþægilegt, það sé hlutverk karlmannsins að brauðfæða fjölskylduna. Með tíð og tíma á þetta að hafa breyst, ungir karlar séu sáttari við að eiginkonan hafi hærri laun, aðalmálið sé að ráðstöfunartekjurnar séu nægilega háar til að geta lifað þægilegu lífi.

Þetta rifjast upp nú þegar franski greifinn sem giftist vinsælasta þjóðhöfðingja Norðurlanda er að ybba gogg. Hann hefur notið allra þeirra lífsins lystisemda sem hægt er að hugsa sér á fimmtíu ára ferli sínum sem eiginmaður Danadrottningar, og fær að vera kallaður prins að auki. En hann verkjar í karlrembuna. Hann vill ekki vera síðri en drottningin (sem erfði hlutverkið að fornum sið) og svo er það svo ægilega ósanngjarnt að hann sé bara drottningarmaður og fái ekki að heita kóngur. Til þess að undirstrika hvað honum finnst það ósanngjarnt vill hann vera andstyggilegur við fjölskyldu sína og heimtar að fá að vera grafinn annarstaðar en hjá eiginkonu sinni, semsagt neita afkomendum sínum um að geta vitjað grafa konungshjónanna saman.

Það er svosem ekkert nýtt að karlmenn sætti sig ekki við að vera bara makar ríkjandi drottninga. María Stúart Skotadrottning giftist Darnley lávarði sem sótti það fast að verða kóngur og geta erft ríkið ef hún félli frá. Ekki tókst honum það (og ekki varð hann langlífur; ekki frekar en María hefði líklega orðið hefði hann fengið ósk sína um að verða kóngur uppfyllta) en handan landamæranna hafði Elísabet Englandsdrottning hin fyrsta rænu á því að vera ekki að giftast einhverjum framagosanum sem ásældist ekki bara ágætan félagsskap hennar heldur ríkidæmi hennar og völd líka.

En Margrét Þórhildur hefur kannski haldið að greifinn franski væri nútímamaður þegar hún giftist honum. Og hann myndi eða hefði — þegar konur almennt tóku sér meira pláss í vestrænum samfélögum og konur á Norðurlöndum voru í fararbroddi kvenfrelsisbaráttu — gengist fús við því að kona sín væri sér fremri og æðri í stjórnskipan landsins og í augum umheimsins. En nei. Hann bara delerar. Og kannski er það bara málið, að hann sé orðinn elliær*, eða sé súrrandi alki sem er fullur í viðtölum.

En kannski er bara ekki mikill munur á viðhorfum franska greifans og konungsdæminu: bæði jafn mikil tímaskekkja.___

* Viðbót, tæpum mánuði síðar. Læknisrannsókn hefur leitt í ljós að hann er með heilabilun af því tagi sem stundum er kölluð elliglöp. Er því það sem er sagt um hann hér fyrir ofan verulega ósmekklegt og er beðist velvirðingar á því.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, ágúst 04, 2017

Hinn bróðirinn, enn verri

Fyrir rúmum hálfum mánuði var birt hér smáræði um Brynjar Níelsson. Gústaf bróðir hans ákvað í dag að tjá sig um Róbert Árna Hreiðarsson sem nú er kallaður Robert Downey. Gústaf er þekktur fyrir að vera hlynntur vændi og nektardansstöðum* og hefur lengi viðrað hómófóbískar og rasískar skoðanir sínar. Í dag tók Gústaf sig til og blandaði sér í umræðu sem Guðmundur Brynjólfsson stofnaði til á Facebook (hér er aftur á móti notast við endursögn DV) og sagði þá þetta:
„Hefurðu lagt það á þig, Guðmundur, að lesa dóminn? Mér dauðbrá. Af honum má draga þá ályktun að fórnarlömbin hafi spilað á veikleika Róberts og gert hann sér að féþúfu. Ég ætla ekki að hirða um að velta mér upp úr heimilis- og uppeldisaðstæðum þessara stúlkna. Þetta er komið nóg.“
Auðvitað eru þetta svívirðileg ummæli og auðvitað verður uppi fótur og fit þegar einhver verður uppvís af því að hafa þessa skoðun og vera svo sannfærður um ágæti hennar að hann er tilbúinn að viðra ruglið úr sér á almannafæri.

En.

Gústaf er ekkert einn um þessa skoðun. Strax í athugasemdakerfinu við fréttina eru menn sem verja þessar skoðanir. Og sannarlega eru til menn — hvort sem þeir eru sjálfir barnaníðingar eða ekki — sem sýna öllum kynferðisbrotamönnum (þeir myndu líklega segja „meintum kynferðisbrotamönnum“) mikinn skilning. Sjá sökina hjá fórnarlambinu. Hugsa alltaf útfrá þörfum/hvötum/réttindum karlsins en aldrei útfrá skorti fórnarlambsins á löngun, áhuga eða rétti á að vera látin í friði. Rétt eins og vændiskonur táldraga kynsvelta karla, að mati Gústafs og skoðanabræðra hans, eru barnungar stelpur með því einu að vera ungar og sætar „að spila á veikleika“ karla. Konan frá barnsaldri er klækjakvendi og karlar saklaus fórnarlömb þeirra.

Í athugasemdakerfinu er ein kona sem ver Gústaf sem best hún getur: „Gústaf Níelsson er klárlega ágætis manneskja“ segir hún og fer svo að fabúlera um að barnaníðingar séu ekkert vondir, „nema aðeins þegar það snýr að misnotkun á börnum“. Hún vorkennir reyndar barnaníðingum hvað allir eru reiðir útí þá: „Heiftin er líka svo yfirgengileg að mér blöskrar hve stór orð eru notuð því barnaníðingar eiga líka aðstenendur, börn og foreldra.“
Róbert Árni notaði reyndar nafn sonar síns þegar hann var að ljúga sig inn á unglingsstelpur svo hann hefur líklega litlar áhyggjur af áhrifum alls þessa á börnin sín. En Bergljót hrekkur í gamalkunnuga vörn; hún er systir Geira í Goldfinger, og hefur ekki eytt fáum stundum í að verja hann (hún þreyttist einmitt ekki á að segja hvað hann væri góður maður) og nektarstaðina sem hann rak. Og þá eins og nú er hún í liði með köllum sem telja allt kvenkyns vera nytjaskepnur körlum til afnota með einum eða öðrum hætti.

Burtséð frá Bergljótu þessari þá eru það yfirleitt karlar sem viðra þessar skoðanir. Það er að vissu leyti jákvætt að Gústaf skuli vera svo heimskur (eða siðblindur) að hann er tilbúinn að segja upphátt skoðun sína í þessu máli. Það er mikilvægt að vita að það er til fólk (yfirleitt karlmenn) sem verja allar gerðir annarra karla sama hvaða sakir eru bornar á þá — sama hvað sannast á þá. Sama þótt þeir hafi verið dæmdir. Hvort sem það eru menn sem berja eiginkonur sínar, nauðga konum eða börnum — þeim er alltaf fundið eitthvað til afsökunar. Í þessu tilviki að unglingsstúlkur hafi í röðum „spilað á veikleika“ manns sem hafði í fórum sínum myndbandsspólur og ríflega hundrað ljósmyndir á tölvu sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Voru kannski börnin á þessum myndum líka að gera sér Róbert Árna Hreiðarsson að féþúfu?

Gústaf er samt rakið ógeð, bara svo það sé nú alveg á hreinu.


___
* Í athugasemdum við DV-fréttina mátti finna slóð á grein sem Gústaf skrifaði þegar hann var starfsmaður strípistaðarins Bóhem. Gunnar Waage sem vísar á greinina kynnir hana með þessum orðum: „Gústaf er gamall áhugamaður um eitthvað sem hann kallar; réttindi karla til að kaupa vændi. Á sínum tíma sem starfsmaður Bóhem mælti hann svo í grein í Morgunblaðinu:
"Hinn rauði þráður í röksemdafærslu hinna femínísku grillufangara er sá, að vændiskonur séu tilneyddar til starfans; Þær séu fórnarlömb melludólga og því sé rétt að refsa þeim sem vill greiða fyrir blíðu kvenna og draga þannig úr eftirspurninni, jafnvel þótt sá karl sem í hlut á eigi engan annan kost til að njóta kynferðislegra blíðuhóta, en að greiða fyrir."

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, ágúst 02, 2017

Bláeygur og hissa, að vanda

Afhverju í fjandanum hefur Bjarni Ben ekki gubbað því útúr sér fyrr að það hafi ekki verið hann sem starfandi innanríkisráðherra þegar gengið var frá plöggum um uppreista æru Róberts Árna/Roberts Downey í innanríkisráðuneytinu?* Var hann að hlífa mannorði þeirrar manneskju sem nú er látin og var ráðherra á þessum tíma? Og hversvegna veifar hann nafni hennar þá núna? Það fór varla framhjá honum að almenningur og fjölmiðlar hafa haft 'rangar upplýsingar' um hver stýrði ráðuneytinu þegar tillagan um uppreista æru barnaníðingsins var send til forseta til undirritunar.** Var það ekki rétta fólkið sem heimtaði svör af Bjarna, fannst honum ekki þess virði að svara fórnarlömbum níðingsins og foreldrum þeirra?

Leiðari Magnúsar Guðmundssonar í Fréttablaðinu virðist hafa verið dropinn sem fyllti mælinn, því kannski þurfti einmitt það til, að honum væri bent á að þetta mál væri ekkert að fara: „þetta er vandamál sem er ekki að fara að gufa upp, þvert á móti vex það með degi hverjum“. Afleiðingin er semsagt sú að Bjarni hrokaðist fram á sjónvarsviðið til að segja að það sæti furðu að kallað sé eftir því að hann svari fyrir þessa ákvörðun, og býsnast yfir að það sé undarlegt að hann sé sagður forðast umræðu um málið. Helvítis maðurinn hefði getað losað sig úr snörunni fyrir löngu.

Hann er svo vanur að svara engu sem hann er spurður og ljúga rest að hann áttar sig ekki á alvöru málsins. Hann áttar sig aldrei á alvöru neins máls.

Eru þeir sem kusu þetta manngerpi og leiddu hann til valda virkilega sáttir við þetta?___

Viðbót daginn eftir:
*Agnar Kr. Þorsteinsson skrifaði fínan pistil þar sem hann kallar þetta útspil Bjarna „reykprengju“ og bendir á að opinbera þurfi öll gögn „um hina uppreistu æru“.

** Fréttastofa Ríkisútvarpsins spurði Bjarna 3. ágúst „um aðkomu hans að málinu í júní síðastliðnum. Þá sagðist hann ekki hafa haft aðkomu að ákvörðuninni, en hinsvegar tekið við niðurstöðunni þegar málið hafði fengið hefðbundna meðferð í ráðuneytinu. Mátti þá skilja hann sem svo að hann hafi verið starfandi innanríkisráðherra, enda hafði hann áður leyst Ólöfu Nordal af vegna veikinda hennar. Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu átti Bjarni við í viðtalinu að hann hafi tekið við niðurstöðunni á ríkisstjórnarfundi eins og aðrir ráðherrar.“ Og æ síðan — í sjö vikur — hefur hann þagað þótt hann hafi vitað mætavel að allir skildu það sem svo að hann hefði verið starfandi ráðherra.

Efnisorð: ,