þriðjudagur, maí 31, 2016

Samantekt maímánaðar

Maímánuður hefur alltof mikið einkennst af Davíð Oddssyni. Ekki hef ég enn séð sjónvarpsþáttinn þar sem hann réðst á Guðna Th, og ekki var Mogginn borinn út til mín í dag, en þennan síðasta dag mánaðarins var þetta málgagn útgerðarinnar og hrunverjenda sent á (næstum) hvert heimili með sömu árásum á Guðna. Skítkast á skítkast ofan, eins og við var að búast.

Annars voru líklega óvæntustu tíðindi mánaðarins þegar Tryggvi Gunnarsson tölti sér fram í sviðsljósið og sagðist hafa nýjar upplýsingar um einkavæðingu bankana og fer fram á rannsókn. Það er svosem ekkert nýtt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser sem á að hafa verið meðal kaupenda að gamla Búnaðarbankanum 2003 sé talinn hafa verið leppur. Fyrir það hefur hinsvegar margoft verið þrætt og ráðherrar þáverandi ríkisstjórnar þar staðið framarlega í vörn, ekki síst framsóknarráðherrar fyrir sína menn í kaupendahópnum. En nú er annað hljóð í strokknum og í stað þess að segja að allt hafi verið með felldu við kaupin á Búnaðarbankanum segir meira að segja Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi viðskiptaráðherra að það verði endilega að rannsaka þetta mál. Engu líkara er en fórna eigi (loksins) Finni Ingólfssyni fyrrverandi ráðherra og Seðlabankastjóra og Ólafi Ólafssyni sem nú afplánar dóm vegna Al Thani-málsins á milli þess sem hann býður viðskiptafélögum sínum í þyrluflug.

En fleira gerðist í maí.

Listasafn ASÍ
Talandi um einkavinavæðingu. Listasalur ASÍ við Freyjugötu var seldur rétt si svona. Afhverju var ekki tilkynnt um söluna með góðum fyrirvara svo ríki og borg eða samtökum myndlistarmanna gæfist kostur á að grípa inní eða jafnvel kaupa húsið? Enginn virðist hafa vitað um að ASÍ þyrfti að selja húsið fyrr en rétt í þá mund sem það var sett á sölu. Það virðist sem búið hafi verið að velja hverjir ættu að kaupa húsið því ekki var það hæstbjóðandi sem hreppti það. Afar undarlegt mál.

Alltaf sleppa þeir
Í áramótaskaupinu 2009 sem ég minntist á í síðasta pistli voru Björgólfsfeðgar áberandi, svo og Jón Ásgeir. Þeir hafa til þessa dags sloppið við fangelsisvist fyrir sinn þátt í bankahruninu, sem og margir aðrir sem því tengjast. Nú síðast ákvað saksóknari að ákæra ekki í svokölluðu Pace máli, þar sem þrír milljarðar runnu í vasa Jóns Ásgeirs, Pálma í Fons og Hannesar Smárasonar. Sloppnir eina ferðina enn.

Bað um skilnað og var drepin
Í ljós kom að konan sem var drepin á Akranesi í apríl hafði beðið um skilnað skömmu áður en eiginmaðurinn myrti hana og framdi sjálfsmorð í kjölfarið. Þetta er enn eitt morð á konu sem hafnar karlmanni.

Nauðgunardómur mildaður yfir einum og annar sýknaður
Tveir karlmenn sem saman voru sakaðir um nauðgun fengu þriggja og fjögurra ára dóma í héraði. Hæstiréttur sýknaði annan þeirra en mildaði dóm hins um eitt ár þannig að nú á hann að sitja þrjú ár í fangelsi. Eitt er nú að hafa komist að þeirri niðurstöðu að sýkna beri þann sem sakaður var um að hafa tekið þátt í nauðguninni — en afhverju fær maður sem sannað þykir að hafi nauðgað konunni afslátt þegar Hæstiréttur dæmir? Þetta er furðulegt og óþolandi.

En svo loksins að einhverju sem er hresst.

Sund og kraftlyftingar
Hrafnhildur Lúthersdóttir varð fyrsta ófatlaða íslenska sundkonan til að standa á verðlaunapalli á Evrópumóti. Hún fékk þrenn verðlaun á EM í London, þar af tvö silfur og eitt brons. Fyrri silfurverðlaunin fékk hún eftir að hafa lent í öðru sæti á eftir heimsmeistara í greininni, sem sýnir hversu öflug Hrafnhildur er. Síðan brá hún sér til Bergen þar sem hún vann til þrennra gullverðlauna.

Eygló Ósk Gústafsdóttir var einnig í Bergen og fékk þrenn silfurverðlaun.

Bryndís Rún Hansen fékk þar einnig ein silfurverðlaun.

Þá varð Fanney Hauksdóttir heimsmeistari í klassískri bekkpressu og setti að auki Norðurlandamet í síðasta mánuði.


Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

mánudagur, maí 30, 2016

Eldhúsdagsskaup

Um helgina sýndi Ríkissjónvarpið Áramótaskaupið frá árinu 2009. Þetta er sennilega besta Skaup sem gert hefur verið, og ég gladdist mjög að sjá það aftur. En á síðustu mínútum skaupsins hvolfdust yfir mig vonbrigði. Þessir fjárglæframenn, sem þar voru sýndir sitjandi við borð að skipta Nýja-Íslandi á milli sín, eru meira og minna enn stórir kallar í fjármálalífinu. Og hafa notað aflandsfélagapeningana sína (Björgólfur Thor sagði peningana hafa farið til „money heaven“ en átti kannski frekar við „haven“ [skjól]) til að kaupa upp Ísland — aftur.

Vonbrigði mín sneru ekki síst að þeim fjölda fólks sem stendur enn með Sjálfstæðisflokknum, fílar enn Bjarna Ben og Davíð Oddsson. En ekki síður samfélaginu í heild fyrir að ná ekki að koma í veg fyrir að þessir menn blekki okkur aftur, og þess í stað stýri viðhorf þeirra að miklu leyti þjóðlífinu.

Eldhúsdagsumræður kvöldsins fóru að mestu framhjá mér. Þó staldraði ég við ræðu Óttarrs Proppé, sérstaklega það sem hann sagði um Panamaskjölin.

„Íslendingar hefðu rétt verið farnir að draga andann eftir efnahagshrun og trúað því að þeir væru komnir vel á veg - afhjúpanir Panamaskjalanna hefðu verið eins og högg í magann.“
Afhjúpun Panamaskjalanna var jafnframt afhjúpun á gamalli sviðsmynd úr Skaupinu. Við virðumst föst þar. Og það er ekki fyndið.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, maí 25, 2016

Eftir urðu níu

Þá er orðið ljóst hvaða níu manneskjur eru í framboði í forsetakosningunum. Hér, undir „frambjóðendur“ má stöðluð viðtöl við þau næstum öll (einum frambjóðanda hugnast ekki að tala við ríkisfjölmiðilinn, þið megið giska á hver það er). Mér líst afar vel á tvo frambjóðendur en mun síður á hina, af ýmsum orsökum.

Skulu nú frambjóðendurnir níu afgreiddir snarlega í stafrófsröð.

Andri Snær Magnason
Andri Snær segir að forseti geti „vakið máls á málum sem brenna á fólki hverju sinni, hvort sem það eru húsnæðismál ungs fólks, framtíð menntunar eða málefni eldri borgara“. Hann „segist telja að forsetinn geti stuðlað að aukinni umræðu um náttúruvernd og stór hagsmunamál sem varða umhverfið - ekki síst málefni hafsins“.

Hann talar fyrir þjóðgarði á hálendinu og að klára stjórnarskrárferlið. Hann vill leggja rækt við íslenskuna og önnur móðurmál og berjast gegn ólæsi. „Góður lesskilningur og orðaforði eru mikilvægt veganesti til að takast á við lífið. Ísland á að vera land tækifæranna fyrir öll börn, ekki síst þau sem flytja til landsins.“

Svo má ekki gleyma að Andri Snær skrifaði hið magnaða Draumaland — sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð.

Mér finnst Andri Snær afar góður kostur í embætti forseta og tel að hann yrði okkur mjög til sóma.

Ástþór Magnússon
Enn einu sinni auglýsir Ástþór að hann á ekkert erindi við þjóðina. Síendurtekin framboð hans eru fyrst og fremst áminning um að það þarf að breyta skilyrðum til framboðs; að það þurfi ákveðna prósentutölu kosningabærra manna til að mæla með frambjóðandanum í stað þess að 1.500 undirskriftir dugi mönnum áfram í framboð eins og nú er. Enda þótt Ástþór tali fyrir friði þá hefur hann aldrei náð eyrum almennings, til þess er hann alltof galinn.

Davíð Oddsson
Davíð hefur verið formaður þáverandi stærsta stjórnmálaflokksins, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, Seðlabankastjóri, og ritstjóri fyrrum stærsta dagblaðsins. Honum þykir ekki nóg að gert og vill nú tróna efst í stjórnkerfinu, ráðskast með stjórnarmyndanir, stoppa allar tilraunir til að breyta eða koma á nýrri stjórnarskrá, og hafna öllum undirskriftalistum sem t.a.m. koma illa við stuðningsmenn hans í útgerðinni. Til allrar hamingju nýtur framboð hans lítils fylgis. Annaðhvort á hann eftir að finna sér tylliástæðu til að hætta við framboðið þegar nær dregur og hann sér fram á ekki bara tap heldur stórtap, eða þá að hann verður með skítadreifarann á lofti allt framá síðustu stund. Hann er þegar farinn að nota Moggann til að ata aðra frambjóðendur auri, varla skánar það úr þessu.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir
Elísabet skrifaði eina bestu ljóðabók síðustu ára, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett, sem hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta. Elísabet er líka skemmtilega öðruvísi, en hún stimplaði sig hinsvegar algjörlega út sem forsetaframbjóðandi í viðtali við Stundina með þessum ummælum.
Sér Elísabet til dæmis fyrir sér senuna þegar hún, sem forseti Íslands, hittir fyrirmenni í Evrópusambandinu og les þeim pistilinn. „Pútín og Margrét Danadrottning og þau öll, ég segi bara við þau „þið eruð öll helvítis skíthælar, að koma svona fram við flóttamenn. Og þú Pútín þarna, hvernig þú bombarderar Sýrland!“
Þetta átti kannski að vera fyndið, og auðvitað væri ágætt ef einhver læsi yfir hausamótunum á Pútín og fyrirmennum ESB (Margrét Danadrottning er þó líklega ekki rétta manneskjan til að skamma), en það er afar óþægileg tilhugsun að forseti landsins leyfði sér slíkt. Forsetaefni ætti ekki einusinni að gantast með svona.

Guðni Th. Jóhannesson
Guðni segir að forseti á að vera öllum óháður, mannasættir, málsvari landsins, og sameiningartákn. Forseti á að „tryggja að þjóðin eigi síðasta orðið í stærstu málum sem hana varðar.“

Guðni er utan trúfélaga (ekkert bendir þó til að hann sé trúlaus) og segir sína trúarjátningu vera „mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna: „Hver maður er borinn frjáls, jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku og ber þeim að breyta bróðurlega hver við annan.““ Þetta er besta trúarjátning sem ég hef heyrt.

Ef svo fer sem horfir verður Guðni næsti forseti. Það líst mér alveg hreint ágætlega á.

Guðrún Margrét Pálsdóttir
Það er skammarlegt en ég þurfti að rifja upp hvor er hvað, Guðrún og Hildur. En Guðrún er semsagt hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi formaður ABC barnahjálpar, og hefur fengið fálkaorðuna fyrir líknarstörf á alþjóðavettvangi. Það hljómar mjög vel, en svo versnar í því. Guðrún Margrét er nefnilega svo trúuð að hún vill halda bænastundir í Bessastaðakirkju, og ætlar að „standa fyrir Góð­gerð­ar­viku þjóð­ar­innar þar sem allir leita leiða til að verða öðrum til góðs og safna fjár­magni til að blessa aðra“, verði hún forseti. Sem ég leggst eindregið gegn.

Halla Tómasdóttir
Eins og ég vildi gjarnan að það hefði komið fram ‘sterk’ kona sem hægt hefði verið að kjósa, þá líst mér ekkert á Höllu. Jújú, hún virðist vera feministi, og margt sem hún segir er voða áferðarfallegt. En fortíð hennar hjá Viðskiptaráði er henni fjötur um fót, og ekki finnst mér Pepsi starfsreynslan vera neitt til að stæra sig af. Ef það er eitthvað sem Ísland þarf ekki á að halda er að einstaklingur úr viðskiptalífinu verði húsráðandi á Bessastöðum. Þar hafa áður allar gáttir staðið opnar fyrir allskyns ‘viðskiptajöfrum’ (sjá dómsmál yfir mörgum þeirra) og ekki á það hættandi að slíkt gerist aftur. Nei takk.

Hildur Þórðardóttir
Hildur er þjóðfræðingur að mennt, hefur skrifað leikrit og sjálfshjálparbækur (sem eru ekkert í átt við Draumalandið). Hún hefur verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og Samhjálp. Hún virðist vænsta kona og sósíalisti í þokkabót. En orkulíkamatal, fyrralífspælingar og allskonar heilunar-eitthvað á ekki uppá pallborðið hjá mér þegar ég kýs forseta.

Sturla Jónsson
Sturla er fulltrúi þeirra sem fóru illa úr hruninu, og virðist ætla að berjast fyrir sömu hlutum sem forseti og hann ætlaði sér þegar hann hugðist setjast á þing. Hann svarar spurningum um afstöðu sína til málefna ýmissa hópa fólks með vísun í 65. grein stjórnarskrárinnar (hann vill ekki nýja) sem segir að allir séu jafnir fyrir lögum. Eitthvað er það þröngur skilningur.

Hluti af forsetastarfinu felst í gestgjafahlutverki fyrir erlenda tignargesti. Ég sé ekki fyrir mér Sturla tækla það verkefni.


Læt staðar numið að sinni, en mig rennir í grun að ég eigi eftir að skrifa meira um einstaka frambjóðendur.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, maí 22, 2016

Óbreyttur eftir sjö vikna fjarveru (þetta er ekki hrós)

Eftir sjö vikna frí frá þingstörfum og viðtölum fór óbreytti þingmaðurinn Sigmundur Davíð í tvö viðtöl í dag. Fyrra viðtalið var í Sprengisandi hjá Páli Magnússyni á Bylgjunni, hið síðara við Björn Inga Hrafnsson á Eyjunni sem er dagskrárliður á Stöð 2.

Ég sá síðari hluta viðtalsins á Eyjunni/Stöð 2 sem Björn Ingi tók. Þar var ljóst að Sigmundur var mjög fúll útí Ólaf Ragnar fyrir að blaðra því sem gerst hafði þeim á milli á Bessastöðum (og sannarlega braut Ólafur Ragnar þar gamla hefð um að trúnaður ríki um samtöl forseta og forsætisráðherra) og vandaði honum ekki kveðjurnar. Það var viðeigandi að Björn Ingi tók viðtalið, maður með reynslu af hnífasetti í bakinu. Sigmundur mærði aftur á móti mjög Davíð Oddsson, hinn guðföður ríkisstjórnarinnar, og sagðist skilja það betur nú hvað sá maður hefði „mátt þola“ af illmælgi.*

Það var ekki á Sigmundi að skilja að hann hefði stundað neina naflaskoðun í fríinu. Hann var staffírugur að vanda og vill vera formaður áfram og aftur verða forsætisráðherra. Viðtalið við Sven og Jóhannes var fyrirsát, og aflandsfélagið er bara eign eiginkonu hans og hann hefur gefið upp allar upplýsingar um það. Sigmundur heldur sig semsagt við sömu rullu og fyrir sjövikna fríið: ég er ofsóttur, en vegna þess að ég er svo góður ætla ég að fórna mér fyrir þessa þjóð. Fyrrverandi forsætisráðherrann er semsagt aldeilis sannfærður um erindi sitt við þjóðina og stjórnmálin, og fann það eitt að ferli sínum að hann hefði lent í fyrirsát.

Svo staðfesti hann það sem allir vissu að það verða engar kosningar í haust. Starfandi forsætisráðherra hefur reyndar sagt annað og spurning hvort það er til að róa lýðinn, eða hvort Sigmundur er að spila sólóleik með því að ljóstra þessu upp. Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að kjósa, sagði Sigmundur er sú að Framsókn á eftir að koma í gegn öllum „góðu málunum“. SDG útlistaði einnig hvernig fjögurra ára plan ríkisstjórnarinnar hefði litið út, og hann vill greinilega allsekki sleppa fjórða og síðasta partinum; þessum sem á að tryggja Framsókn aftur það atkvæðamagn sem dugi til ríkisstjórnarsamstarfs. Við hin vonum auðvitað að enginn kjósi Framsókn sama hvað í boði er — en sagan sýnir að kjósendur eru auðginntir og fjölgleymnir.

Munnræpa Sigmundar Davíðs í dag sýnir að það er enn brýnna en áður að bola þessari ríkisstjórn frá, og var þó full ástæða fyrir. Það er hneyksli að fjármálaráðherra sé uppað öxlum í spillingu og fjárglæfrastarfssemi. Það er hneyksli að forsætisráðherra sem hrökklast frá völdum birtist aftur í þingsal eins og ekkert sé og láti lepp sinn stjórna ríkisstjórinni. Ekki nóg með að við verðum að viðundrum í augum umheimsins, heldur er óþolandi fyrir okkur sjálf ef við látum þetta yfir okkur ganga.

____
* Lesendur eru beðnir um að taka gæsalappirnar hæfilega alvarlega, svo og endursögnina alla, því ég nenni ekki fyrir mitt litla líf að hlusta aftur á viðtalið til að rifja upp hvað þetta leiða gerpi sagði nákvæmlega.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, maí 19, 2016

Bjarnabófinn

Cashljós gærkvöldsins var eiginlega of ömurlegt til að hægt sé að ræða það. Þó er vert að nefna það að sá sem þar var til umræðu hefur verið borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til margra ára.

Júlíus Vífill er horfinn af vettvangi borgarmálanna (hvað sem síðar verður) en enn situr flokksbróðir hans og formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson í stóli fjármála- og efnahagsráðherra. Margt hefur verið skrifað um vammir og skammir hans, má þar nefna yfirgripsmikla umfjöllun Stundarinnar, sem t.d. benti á að þetta væri yfirvofandi:

Átta árum eftir Vafningsfléttuna: Sjóvá hjá Bjarna og sala undirbúin
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ber nú pólitíska ábyrgð á fyrirhugaðri sölu á hlut ríkisins í Sjóvá. Fjármálaráðherra tengdist sjálfur þeim viðskiptagjörningum fyrir hrun sem leiddu til þess að tryggingafélagið fór á hliðina.“

Manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds, ekki síst þegar það er haft í huga að Bjarni skipar einn og sjálfur nefndina sem á að sjá um sölu Sjóvá og annarra ríkiseigna, þ.á m. bankanna.

Jónas Kristjánsson skrifaði fyrir nokkrum dögum lista yfir helstu afrek Bjarna í viðskiptalífinu til þessa, og eru þau ekki beinlínis traustvekjandi.

„Bjarni Benediktsson var stjórnarmaður, stjórnarformaður eða hluthafi í fjölda gjaldþrota fyrirtækja, sem fengu milljarða afskriftir:

BNT móðurfélag N1, 4,3 milljarða gjaldþrot.
Umtak fasteignafélag N1, 20 milljarða afskrift.
Máttur, 21 milljarða afskrift.
IAG Holding áður Naust, 3,5 milljarða gjaldþrot.
Földungur áður Vafningur, 48 milljarða tap.
Þáttur International, 24 milljarða afskrift.

Mér er ekki ljóst, hvernig slíkur 120 milljarða fjárglæframaður á kostnað okkar getur verið fjármálaráðherra. Og hvað þá átt aflandsreikninga í skattaskjólum og tafið fyrir skattrannsókn þeirra. Furðulegt er, að Bjarni Benediktsson hefur ekki enn sagt af sér.“

Enn furðulegra er það skuli ekki vera stappfullur Austurvöllur dag eftir dag að krefjast afsagnar Bjarna.


Efnisorð: , ,

þriðjudagur, maí 17, 2016

Sameinuðu þjóðirnar og „friðargæsluliðar“ þeirra

Fyrr á árinu skrifaði ég pistil um friðargæsluliða og framferði þeirra í Bosníu. Nú rakst ég á nokkurra daga gamlan pistil eftir Ruby Hamad sem skrifar í ástralska Daily Life um kaldhæðnina sem felst í því að kalla herlið Sameinuðu þjóðanna friðargæslusveit. Pistillinn fer hér á eftir, mjög styttur og þýddur í skyndingu (afsakið villurnar), algjörlega án leyfis.*

Friðargæsluliðar. Orðið kallar fram mynd af ‘góðum gæjum’ sem gæta viðkvæmra hópa af eintómri óeigingirni. Sameinuðu þjóðirnar eru svo stolt af mönnunum með bláu hjálmana að 29. maí er Alþjóðlegur dagur friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna.

En nú í ár krefjast aðgerðarsinnar að haldið verði upp á daginn með öðrum hætti: hundruð hermenn SÞ verði dregnir til ábyrgðar og kærðir fyrir kynferðisbrot.

Í mars kom í ljós að friðargæsluliðar í Mið-Afríkulýðveldinu höfðu, ásamt frönsku herliði, beitt tugi stúlkna kynferðisofbeldi. Að minnsta kosti 98 stúlkur urðu fyrir barðinu á þeim. Yfirmaður í franska hernum er sagður hafa neytt fjórar þeirra til að hafa kynmök við hund. Friðargæsluliði frá Kongó hefur verið sakaður um að hafa nauðgað 16 ára stúlku á hótelherbergi.

Að minnsta kosti 480 ásakanir komu fram um kynferðislega misneytingu og ofbeldi á árabilinu 2008 – 2013. Um börn var að ræða í þriðjungi tilvika.

í skýrslu em Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna birti kemur fram að á síðasta ári hafi komið fram 99 ásakanir í 21 mismunandi landi, þar á meðal Haiti, Marokkó og Suður-Afríku. Þar á meðal eru nauðganir á börnum niður í 13 ára aldur, flóttabörn neydd til að stunda kynlíf gegn því að fá mat, og rekstur á vændishring þar sem strákar og stelpur voru seld fyrir smápeninga.

Kynferðisofbeldi af þessu tagi á sér áratuga sögu. Í Kambódíu 1991-1992 voru á sveimi ótal ásakanir um kynferðislega áreitni og ofbeldi af hendi friðargæsluliða. 2003 var herlið SÞ sem var sent til Líberíu uppvíst að því að „stunda kynlíf“ með stelpum niður í 12 ára aldur. Einnig hefur herliðið verið sakað um að hafa rekið vændishús með mansalsfórnarlömbum frá Austur-Evrópu [eins og áður segir].

Enda þótt Sameinuðu þjóðirnar hafi allt frá árinu 2005 verið meðvitaðar um ítrekað ofbeldi sem friðargæsluliðarnir beita. Og þótt sagt sé í skýrslunni að þeim seku verði að refsa, hefur enn ekki einn einasti maður verið sóttur til saka.

Sameinuðu þjóðirnar studdu þó í mars síðastliðnum hálfvolgar tillögur um úrbætur, sem snúa að því að senda heim friðargæsluliða sem beita kynferðisofbeldi; en ekki hefur verið lýst yfir lögsóknum á hendur þeim seku.

Það er því engan vegin komist fyrir rót vandans: þá goðsögn að svokallaðir góðir gæjar séu ófærir um að fremja svívirðilega glæpi. Þegar þeir sem eru beinlínis ráðnir til að „gæta friðarins“ reka þess í stað ólögleg vændishús, nauðga án þess að vera refsað fyrir það, og neyða börn til að eiga kynmök við hunda, hafa orðin misst lögmæta merkingu sína.

Gagnrýnisraddir efast um að SÞ fylgi málum eftir, hvort þar sé ekki bara verið að lappa upp á ímyndina. Það rifjar upp orð Jennifer Clement rithöfundar sem talaði á kvennasamkomu fyrr á árinu. Hún sagði að svívirðilegt ofbeldi sem þetta héldi áfram „þar til líf kvenna og stúlkna fer að skipta meira máli“.

___
* Mælt er með fyrir þau sem það vilja og geta að lesa greinina á ensku, þar eru líka fjölmargir tenglar á heimildir og greinar um þetta efni.

Efnisorð: , , , ,

föstudagur, maí 13, 2016

Greinargerð V

Nú er komin ein af þessum þriggja daga helgum sem eru upplagðar til lesturs. Hér er bent á góðar greinar, sögur og pistla, sem stæla hnefann og hvessa brýrnar.

Byrjað er á Gauta Eggertssyni sem fjallar um sölu ríkiseigna sem er framundan.
„Ísland er dásamlegt land, með mikinn mannauð og ótrúlegar náttúruauðlindir. Ég held að Íslendingar séu í grunninn ærlegir og ákaflega vinnusamir. En mig grunar að landið gæti verið í svo miklu betri efnahagslegri stöðu ef að minna væri um frændhygli. Ef það væri ekki svona óskaplega mikilvægt að vera besti vinur eða frændi aðal. Því þegar þær aðstæður eru uppi, beinir fólk kröftum sínum í vitlausar áttir, bæði í pólitíkinni og þjóðfélaginu öllu. Og öll umræða litast af þessu, ekki síst fjölmiðlanna, því að svo miklir hagsmunir eru undir því komnir að eiga vini á réttum stöðum. Eða eins og Styrmir Gunnarsson orðaði það svo eftirminnilega, en hann er sá maður sem segja má að fylgst best með stjórnmálum íslenskum úr innsta hring: „Ég er búinn að fylgjst með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“ Þessi lýsing rímar vel við þjóðfélag þar sem rentusókn í gegnum stjórnmálalíf er ein megin leiðin til þess að verða ríkur.

Framundan eru gífurleg sala ríkiseigna svo nemur hundruðum milljarða í kjölfar uppgjörs þrotabús bankanna. Þetta er fordæmalaust. Við vitum hvernig bankarnir voru seldir síðast. Með grófri einföldun gerðist það svona samkvæmt Rannsóknarskýrslu Alþingis: Einn ríkisbankinn var seldur með láni frá hinum ríkisbankanum og öfugt. Og kaupendurnir voru nátengdir stjórnmálaflokkunum sem voru við völd.“
Pistill Gauta er hér í fullri lengd.

Blankheit kenndu Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur virði peninga á hátt sem hún hefði annars ekki lært. Hún veltir því fyrir sér hvort þeir sem þekkja ekki þann veruleika séu best til þess fallnir að taka ákvarðanir sem varða fjárhag okkar allra? (úr kynningu Stundarinnar á pistli Þórdísar.)
„Auðvaldsstjórnir víða um heim hafa einkavætt náttúruauðlindir og grunnþjónustu og úthlutað til útvalinna einstaklinga sem verða stjarnfræðilega ríkir, hvort sem kvótinn er í formi olíu, fjarskipta eða fisksins í sjónum. Til að drýgja hlutinn enn frekar hafa þeir ekki þurft að greiða í sameiginlega sjóði nema að takmörkuðu leyti. Vestanhafs hefur þróunin verið sú undanfarna áratugi að þingmenn tilheyra í vaxandi mæli ríkasta eina prósenti þjóðarinnar. Þá er ekki að undra að á sama tíma hefur samneysla dregist verulega saman, ríkasta eina prósentið hefur fengið ríkulegar skattaívilnanir og tennurnar hafa verið dregnar úr ríkisvaldinu með lögum og regluverki sem veikir eftirlit og tryggir jafnframt auð þeirra sem mest eiga.“

Enn er vitnað í Stundina. (Bráðum fer ég að rukka Stundina fyrir að mæla með pistlum sem birtast þar.) Þótt Ólafur Ragnar hafi dregið til baka framboð sitt og muni því líklega ekki sitja fleiri ár í embætti forseta, er vert að lesa fyrirtaks umfjöllun Jóhannesar Benediktssonar um siðareglur ráðherra og forseta Íslands. Ekki síst vegna þess að tildæmis í forsíðuviðtali Fréttablaðsins í dag (og ýmsum öðrum viðtölum um þessar mundir) er Ólafur Ragnar í óða önn að endurskrifa söguna um hversvegna hann hætti við (o.s.frv. ). Rétt eins og annar forsetaframbjóðandi sem hefur verið útí móa undanfarin ár að skrifa uppá nýtt söguna af því hvernig og afhverju íslenska bankakerfið hrundi, er Ólafur Ragnar að reyna að láta líta út fyrir að hann hafi bæði boðið sig fram og dregið sig til baka af allt öðrum ástæðum en þeim sem blasa við. Svo er líka hollt að rifja upp furðulega stæla hans við Jóhönnu Sigurðardóttur þáverandi forsætisráðherra þegar hún var að reyna að fá hann til að setja forsetaembættinu siðareglur.

Leiðari Jóns Trausta Reynissonar hjá Stundinni er skrifaður þegar Ólafur Ragnar var enn í framboði. Margt sem var skrifað á þeim tíma hefur úrelst (og margir góðir brandarar hafa farið forgörðum) en leiðarinn er enn verðugt lesefni.
„Eftir að Panama-skjölin leiddu í ljós að stór hluti efsta lags samfélagsins sótti í að losna við að borga skatta á Íslandi og ná fram leynd um viðskipti sín með því að stofna skúffufélög í frumskógarlöndum, hefur þessi hópur öðlast sameiginlega hagsmuni.

Nú hafa þau sameiginlegan hag af því að réttlæta eitthvað sem er skaðlegt heildarhagsmunum. Og áhrif þeirra teygja sig þvert yfir fjölmiðla, stjórnmál og viðskipti. Samsektin skapar sameiginlega hagsmuni, þvert á efsta lag samfélagsins, að standa gegn umbótaöflum og standa með ríkjandi ríkisstjórn.

Um leið er tvöföld kosningabarátta byrjuð. Meginefni þjóðmálaumræðunnar á næstu mánuðum mun snúast um að vara við breytingum. Takmarkið er að fullvissa okkur um að okkur stafi ógn af því að einhverjir aðrir taki ákvarðanir fyrir okkar hönd en þeir sem stýra núna.

Þetta er strax farið að virka. Ólafur Ragnar Grímsson mælist með stuðning meirihluta almennings fyrir forsetakosningarnar og bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn bæta við sig fylgi í skoðanakönnunum vegna alþingiskosninga.“

Skal þá tekið upp léttara hjal.

Sævar Finnbogason rekur sögu sem hann fékk ekki útgefna vegna þess hve ótrúleg hún þykir. Hefst hún á þessa leið:
„Stundum er sagt að hver einasti Íslendingar gangi með lítinn rithöfund í maganum og að hvergi í heiminum komi út jafn margar bækur á ári hverju miðað við höfðatölu. Ég ákvað því að láta til mín taka og sendi eftirfarandi hugmynd mína um pólitískan reyfara á til útgefanda í Reykjavík.“
Sagan öll er hér.

Af alls óskyldu tilefni er skemmtilegt að rifja upp grein um Davíð Oddsson eftir Hannes Hólmstein sem hann birti í Morgunblaðinu — nei ekki sú sem birtist um daginn — þessi er frá 1998 þegar Davíð varð fimmtugur. Þá var auðvitað gott tilefni til að rifja upp feril átrúnaðargoðsins.
„Þegar við flettum spjöldum Íslandssögunnar, virðist svo sem þeir Gissur biskup Ísleifsson, Jón Loftsson, Jón biskup Arason, Jón Sigurðsson, Hannes Hafstein og Ólafur Thors hafi allir fengið í vöggugjöf einhvern skammt af slíku náðarvaldi. Það hefur Davíð Oddsson líka fengið. Menn finna ósjálfrátt, að þar er foringi á ferð. Af honum stafar áhrifavald, myndugleiki. Þegar gengið er inn í sal, þar sem hann er staddur, er auðvelt að finna hann, þótt hann sé hvergi sjáanlegur: Hann er jafnan í miðjum stærsta hópnum, sem hefur einmitt orðið til í kringum hann! Það hefur líka oftar en einu sinni komið í ljós, að Davíð Oddsson hefur miklu meiri áhrif en hann hefur völd eftir settum reglum. Það er vegna þess, að menn taka mark á honum. Þeir vita, að hugur fylgir máli, þegar hann talar. Hann vill, að orð sín standi, og fátt fellur honum verr en ef hann fær ekki staðið við þau fyrir afskipti annarra. Orð Davíðs eru þess vegna dýr, en ekki aðeins skiptimynt á markaðstorgi stjórnmálanna.”


En úr því að Dabbi Grensás er til umræðu þá var í „Hisminu“, hlaðvarpi Kjarnans, rifjuð upp gömul saga af höfuðandstæðingum hans á sinni tíð: fjölmiðlaveldi Jóns Ásgeirs. NFS sjónvarpsstöðin (í eigu Jón Ásgeirs) ætlaði að vera með beina útsendingu frá Þingvöllum 5. júní 2006 þegar Halldór Ásgrímsson sagði af sér formennsku. Útsendingin klikkaði en allt var tekið upp, og til þess að koma upptökunni sem fyrst til Reykjavíkur var fengin þyrla til að sækja upptökuna.

Þyrluflugmaðurinn — hugsanlega uppá eigin spýtur en hugsanlega vegna skipunar frá leigutaka — lenti sisvona á þjóðargrafreitnum. Varð þetta til að flýta útsendingu fréttarinnar lítillega, enda ekki lengi verið að aka milli Þingvalla og Reykjavíkur. Fyrir gleymna lesendur er hægt að sjá nokkrar myndir af þessum fáheyrða viðburði á síðu Sivjar Friðleifsdóttur, (ég þori ekki að birta þær því hún stranglega bannar það). Svo hér eru 1, 2, 3, hlekkir á myndirnar.

Og er þar með helginni bjargað.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, maí 09, 2016

Forsetafíflið spilaði endanlega rassinn úr buxunum

Ólafur Ragnar Grímsson er hættur við að bjóða sig fram (í bili allavega). Enda þótt þetta hafi verið fyrirséð er þetta þvílík óvirðing við þau sem höfðu íhugað að bjóða sig fram eða drógu framboð sitt til baka vegna þess að hann ætlaði fram aftur. Svo ekki sé talað um kjósendur sem hugsanlega greiddu honum atkvæði sitt í síðustu viku utan kjörfundar.

Svo lýgur hann blákalt um ástæðuna, segir það ekki vegna skattaskjólseigna Dorritar og fjölskyldu, fylgishruns eða framboðs Davíðs Oddssonar (fyrir þremur vikum sagðist hann „taka ósigri í kosningunum vel ef þjóðin kysi einhvern annan“ sem hljómaði eins og hann ætlaði í kosningar en ekki hætta áður en til þeirra kæmi), heldur vegna þess að fram séu komnir menn sem hann treysti í embættið. Sem er auðvitað enn meiri óvirðing við það fólk sem boðið hefur sig fram til þessa. Fyrir utan að vera haugalygi.

Sá forseti sem hefur setið lengst allra á Bessastöðum hættir með skömm.

sunnudagur, maí 08, 2016

Hádegismóri hótar reimleikum á Bessastöðum

Lífsvilji minn minnkaði umtalsvert þegar ég frétti af forsetaframboði Davíðs Oddssonar.

Nú brestur á með viðtölum við hann, hann verður í sjónvarpsþáttum með öðrum frambjóðendum, fólk fer að skrifa lofgreinar um hann (fleiri; grein HHG var greinilega ætlað að undirbúa jarðveginn fyrir framboðið) og dásama á almannafæri.

Hugsanlega bauð Davíð Ólafi Ragnari þessa undankomuleið: Ólafur sleppi við að ræða fjármál Dorritar (konunnar sem er hvorki gift honum né í fjölskyldu við hann) gegn því að Ólafur styðji framboð Davíðs. Þeir eru báðir guðfeður núverandi ríkisstjórnar, og vilja hana áfram við völd og Davíð vill auðvitað halda áfram frjálshyggjustefnunni sem hann setti kúrsinn á fyrir löngu síðan (örlagaárið 1991 ef marka má HHG). Kannski töluðu þeir ekkert saman heldur sá Davíð sér leik á borði, vitandi að annaðhvort stykki ÓRG á tækifærið og hætti við að hætta við að hætta, eða mætti mjög skaddaður til leiks.

Ef Ólafur Ragnar notar sér svo þessa undankomuleið, eins og hann gefur í skyn (einhver sem getur stýrt þjóðarskútunni í gegnum óvissa tíma) þá gæti Davíð hreinlega átt séns í að verða forseti. Því þessi þjóð er vís til alls, jafnvel að kjósa Davíð Oddsson til forseta.

Tilhugsunin er hræðileg.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, maí 06, 2016

No, no, no, no, no Dorrit býr ekki hér

Árni Páll Árnason sá sitt óvænna viku eftir að hann sagðist áfram vilja vera formaður Samfylkingarinnar og dró til baka framboð sitt í formannskjörið.

Eitthvað segir mér að Ólafur Ragnar Grímsson eigi erfitt með að stíga það skref, þótt ærið tilefni sé til. Hann gæti auðvitað fundið upp eitthvað sem hljómar eins og sennileg skýring fyrir aðdáendur sína, tildæmis borið við heilsubresti; þeir gætu þá reiðst yfir því hvað allir væru búnir að vera vondir við fárveikan manninn sem hafi ætlað að fórna heilsu sinni til að bjarga þjóðinni á óvissutímum.

Ólafur verður allavega eitthvað að gera annað en þegja. Kosningar eru í næsta mánuði og hann hlýtur að vita að hann verður spurður út í no, no, no, no, no svör sín við ekki bara fyrsta tækifæri heldur við öll tækifæri fram til kosninga.

En þrátt fyrir að forsetahjónunum mætti alveg vera ljóst að það þýðir ekki að svara bara sumu af því sem spurt er um (það ætti sagan af forsætisráðherranum sem neyddist til að segja af sér vegna lyga og undanbragða að hafa kennt þeim) sendi Dorrit bréf sem svaraði næstum engum spurningum. Gat Ólafur ekki druslast til að skrifa sjálfur ítarlegar útskýringar eða halda blaðamannafund eins og maður? Hann er kannski svona brenndur eftir CNN viðtalið. Þar eins og nú hefur hann ekkert lært af vondu fordæmi Sigmundar Davíðs, heldur reyndi hann að ljúga þegar hann var spurður um aflandfélagaeign, enda þótt honum hefði mátt vera ljóst að bakvið spurninguna lá fullvissa spyrilsins.

En semsagt. Ástæðan fyrir því að Dorrit og getur verið með annað lögheimili en Ólafur er sú að þau hafa slitið samvistum, á pappírunum hið minnsta. Kallast það ekki skilnaður? Hversu mikil forsetafrú er þá forsetafrúin? Þar sem hún dvelst stærstan hluta ársins, í Bretlandi, hefur hún stöðu sem hér á landi kallast ‘óstaðsettur í hús’, en þannig eru utangarðsmenn merktir í kerfinu hér. Er þó Dorrit varla í kot vísað.

Dorrit notar auðvitað sömu vörn í bréfinu og allir aðrir (þar með talinn pabbi Bjarna Ben): að hún hafi ekki grætt á neinu, hafi gefið upp allt upp til skatts. Eða allavega sagt íslenskum yfirvöldum hvað hún gaf upp til skatts á Bretlandi — þar sem hún þarf litla skatta að borga. Hvað hún svo borgar í skatt í Ísrael, ef þá eitthvað, veit enginn.

Með öllum þessum snúningum á lögheimili má segja að Dorrit endurskilgreini skattaundanskot. Hún skýtur ekki bara undan skatti heldur skýst hún undan skatti.

sunnudagur, maí 01, 2016

Frumvarp til millifærslu þátttökukostnaðar notenda heilbrigðisþjónustu

85 þúsund undirskriftir þeirra sem vilja eflingu heilbrigðiskerfisins voru afhentar með viðhöfn í gær. Fundinn sátu fulltrúar allra stjórnmálaflokka á þingi og allir voru eða þóttust vera himinlifandi með framtakið. Bjarni Ben og Sigurður Ingi gerðu sig heilaga í framan og þóttust vera sammála því að auka framlög til heilbrigðismála, en Kári Stefánsson og allir þeir sem skrifuðu undir áskorunina um endurreisn heilbrigðiskerfisins fara fram á að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið í heilbrigðiskerfið. Einhverra hluta vegna segir mér svo hugur að það eina sem bætist við framlög til heilbrigðismála verði vegna byggingaframkvæmda við Hringbraut.

Á frídegi verkalýðsins — þegar heilbrigðisstarfsmenn mæta til vinnu eins og aðra daga, og fólk veikist og slasast alveg án tillits til hvaða dagur er — er mikilvægt að leggja áherslu á aðgengi allra án efnahags að heilbrigðiskerfinu, og er þá átt við bæði læknisþjónustu, rannsóknir og lyf.

Núverandi kerfi er svo íþyngjandi að 30% landsmanna sækja sér ekki nauðsynlega læknisþjónustu vegna kostnaðarins sem því fylgir. Helsti galli þess er að ekkert þak er á heildarkostnaði sjúklinga. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp um greiðsluþátttöku (sem heitir reyndar fullu nafni Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýring)) sem taka á þessum helsta galla núverandi kerfis.

Samkvæmt greiðsluþátttökukerfinu mun notandi (þ.e. sjúklingurinn) greiða að hámarki 95.200 á ári fyrir heilbrigðisþjónustu en þó aldrei meira en 33.600 á ári. Þá á viðkomandi reyndar alveg eftir að borga fyrir lyfin sín því lyfjakostnaður er ekki inni í þessu kerfi. Upphaflega var það þó verkefni nefndar sem núverandi heilbrigðisráðherra skipaði að „kanna hvort og hvernig megi fella læknis-, lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag.“ Niðurstaðan var sú að lyfjakostnaður verður ekki með í nýja greiðsluþátttökukerfinu, heldur er óbreyttur frá núverandi þrepakerfi þar sem notendur borga mest fyrst á árinu og svo lækkar kostnaðurinn.

Nefndin skoðaði líka „hvort heilbrigðisþjónusta barna skyldi vera gjaldfrjáls eða ekki. Meiri hluti nefndarinnar samþykkti gjaldtöku vegna barna í nýju greiðsluþátttökukerfi.“ Í frumvarpinu er reyndar gert ráð fyrir að hámarksgreiðsla verði lægri hjá öldruðum, öryrkjum og börnum (hámarkið fyrir lífeyrisþega og aldraða verður 63.500 krónur). Nýja kerfið hefur þær afleiðingar í för með sér að þeim sjúklingum sem greiða yfir 90 þúsund krónur í heilbrigðisþjónustu á ári fækkar en það fjölgar í hópi þeirra sem greiða þrjátíu til 89 þúsund krónur á ári. Þetta á einnig við um lífeyrisþega. Þeim fjölgar sem greiða á bilinu frá þrjátíu til 60 þúsund krónum á ári en þeim fækkar sem greiða yfir 60 þúsund krónur.

Þá hækkar gjald fyrir heimsókn til sérfræðilækna, og munu þeir sem ekki hafa áunnið sér rétt til afsláttar í nýja kerfinu greiða heildarverð fyrir komu til sérfræðilæknis samkvæmt gjaldskrá, þ.e. án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga.

- Núna greiðir sjúklingur almennt 6.576 krónur fyrir viðtal og skoðun hjá sérfræðilækni, t.d. meltingarlækni, lungnalækni, gigtarlækni og hjartalækni. Samkvæmt frumvarpinu hækkar verðið í 7.891 krónu.
- Viðtal, skoðun og krabbameinsstroksýni hjá kvensjúkdómalækni kostar nú 6.943 en hækkar í 8.808 krónur.
- Viðtal og skoðun hjá háls-, nef- og eyrnalækni kostar nú 7.530 en hækkar í 10.276 krónur.
- Viðtal og skoðun hjá krabbameinslækni kostar nú 7.677 en hækkar í 10.643 krónur.
- Klukkustundarviðtal við geðlækni hækkar úr 9.292 í 14.680 krónur.

Ekkert tillit er þó tekið til ráðstöfunartekna þeirra sem greiða eiga fyrir læknisþjónustuna, hvort sem leitað er til heilsugæslu eða sérfræðings. Þannig lendir tekjulágt fólk sem á við margvíslegan heilsufarsvanda að stríða eða langvinna sjúkdóma sem þarfnast mikilla eða stöðugra lyfja ekkert síður í vandræðum vegna fjárútláta en áður. Þá er sálfræðiþjónusta ekki innan kerfisins frekar en fyrri daginn, en mörgum sem eiga við heilbrigðisvanda að stríða getur reynst nauðsynlegt að fá sálfræðihjálp, og hefur t.a.m. félagsráðgjafi hjá Krabbameinsfélaginu bent á að sálfræðikostnaður geti reynst krabbameinsveikum þungur baggi.

Geðlæknar gera einnig athugasemdir við frumvarpið og segja að „samkvæmt frumvarpinu hækki fyrsta greiðsla á viðtali til geðlæknis um nærri sjö þúsund krónur. Millitekjufólk sé í töluverðum vandræðum með að greiða það núna, hvað þá lífeyrisþegar eða láglaunafólk“. Þeir eru, eins og aðrir, ánægðir með að sett sé þak á kostnað sjúklinga en að öðru leyti sé frumvarpið gallað.
„Það er í rauninni ekki hægt að sjá neina aðra jákvæða hluti við þetta frumvarp í sjálfu sér. Það er í sjálfu sér nauðsynlegt að hafa þetta greiðsluþak því fyrir ákveðinn hóp einstaklinga hefur myndast kostnaður sem er einfaldlega fráleitur vegna læknisþjónustu í samfélagi þar sem við viljum vera með samtryggingu fyrir borgara sem verða fyrir þungum og óbærilegum veikindum.“

Undir þetta taka fleiri, s.s. prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, sem bendir á að heilbrigðiskostnaður meirihluta landsmanna kemur til með að hækka. Hann hefði viljað sjá stjórnvöld fara aðra leið, setja aukið fjármagn inn í kerfið í stað þess að færa það til innan þess. Fjármunir séu færðir frá ákveðnum hópi sjúklinga til annars.

Gunnar Alexander Ólafsson, heilsuhagfræðingur sem var í góðu viðtali í Samfélaginu (sem er hægt að hlusta á hér) bendir á að
„frumvarpið geti bitnað á ákveðnum samfélagshópum sem séu illa búnir undir aukin kostnað og nefnir í því sambandi bæði lífeyrisþega og konur. „Konur nota hlutfallslega heilbrigðisþjónustu meira en karlmenn“, segir Gunnar. Þær séu líka tekjulægri en karlmenn.“
Gunnar vann skýrslu um greiðsluþátttökukerfið fyrir Öryrkjabandalagið. (Ellen Calmon formaður Öryrkjabandalagsins gagnrýnir að bandalagið hafi ekki fengið að koma að mótun frumvarpsins þótt tillögurnar séu skref í rétta átt. Þakið þurfi að lækka og fella þyrfti fjölbreyttari heilbrigðisþjónustu undir það.) Í skýrslunni kemur m.a. fram að á tuttugu ára tímabili, frá 1984-2014 jukust heilbrigðisútgjöld heimilanna um 275% á föstu verðlagi. Á sama tíma hækkuðu útgjöld hins opinbera vegna heilbrigðismála um 97%. Kostnaðurinn hefur færst frá hinu opinbera til almennings. Í frétt Stundarinnar segir jafnframt:
„Sá hópur aldraðra og öryrkja sem þarf sjaldan á heilbrigðisþjónustu að halda mun þurfa að borga hálfum milljarði meira fyrir þjónustuna á ári hverju ef fyrirhugaðar breytingar á greiðsluþátttökukerfinu í heilbrigðisþjónustu verða að veruleika. Hið opinbera mun ekki leggja nýja kerfinu til aukið fjármagn heldur flytja kostnað milli sjúklingahópa. Gert er ráð fyrir að kostnaður þeirra 15 prósenta sjúklinga sem nota þjónustuna mest muni lækka og að kostnaðurinn dreifist á hin 85 prósentin.“
Þarna liggur vandinn. Í stað þess að ríkið leggi meira fram til heilbrigðiskerfisins, er kostnaður við að nota kerfið færður frá einum hópi (þeim sem nota kerfið mest) til annars (þeir sem nota það minna) burtséð frá efnahagslegum aðstæðum hvers og eins. Réttlátara kerfi væri að allir skattgreiðendur borguðu eftir efnum og ástæðum skatt sem niðurgreiddi eða greiddi að fullu „þátttökukostnað“ þeirra sem þurfa á læknisaðstoð að halda.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna skrifaði reyndar pistil í helgarblað DV sem segir allt það sem segja þarf í þessu máli án nokkurra málalenginga. Hann hljóðar svo, með fyrirvara um ásláttarvillur.

„Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp um að þak verði sett á greiðsluþátttöku sjúklinga við lækniskostnað upp á 95 þúsund krónur. Lyfjakostnaður er ekki inni í þessari jöfnu en þar var innleitt svipað kerfi fyrir nokkrum árum og þak sett á lyfjakostnað upp á 65 þúsund krónur. Ætlunin er ekki að setja aukna fjármuni í þetta verkefni heldur jafna kostnaði á milli sjúklinga sem vissulega er þarft mál. Allir sem fylgst hafa með fréttum af óheyrilega háum kostnaði langveikra sjúklinga hafa skilning á þeirri meginhugmynd. Hins vegar hefur greiðsluþátttaka sjúklinga tvöfaldast á undanförnum þrjátíu árum og við því þarf að bregðast.

Nýleg skýrsla, sem unnin var fyrir Öryrkjabandalagið sýnir að ekki þarf mikla fjármuni í hinu stóra samhengi til að lækka þetta þak svo um munar. Fyrir sex og hálfan milljarð mætti gera þá þjónustu gjaldfrjálsa sem hinu nýja kerfi er ætlað að ná til. Það væri stórkostlegur áfangi því kostnaður við læknisþjónustu er raunverulegt vandamál fyrir allt of marga og það eru allt of mörg dæmi um að fólk fresti eða sleppi læknisheimsóknum vegna þess að það hefur ekki efni á þeim. Slíkt á ekki að þekkjast í einu af ríkustu samfélögum heims sem hefur lagt kreppu að baki.

Inni í kerfinu sem nú er til umræðu eru síðan ekki þættir sem tvímælalaust eiga heima þar eins og tannlækningar og sálfræðiþjónusta en hvort tveggja á að vera hluti af almennri heilbrigðisþjónustu. Aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu getur til dæmis skipt sköpum ef ná á árangri í geðheilbrigðismálum sem eru mikið áhyggjuefni, ekki síst hjá ungu fólki. Þá hefur lengi verið markmið að bæta tannheilsu Íslendinga og mikilvægt skref að því markmiði er að tannlækningar verði hluti af hinu almenna kerfi.

Einhver kynni að spyrja hvar ætti að taka fjármunina. Svarið er að það er vel gerlegt að afla tekna til að ná þessum markmiðum — til dæmis má endurskoða álagningu veiðigjalda sem hafa verið lækkuð um tugi milljarða á þessu kjörtímabili. Taka má upp auðlegðarskatt á nýjan leik en hann skilaði rúmum tíu milljörðum á ári hverju. Og þá er ekki minnst á skattaundanskot en embætti Ríkisskattstjóra áætlar að þau nemi 80 milljörðum á ári hverju. Með aukinni áherslu á skattrannsóknir og skatteftirlit má áætla að verulega sé hægt að auka tekjur ríkisins og tryggja um leið sanngjarna þátttöku allra í samfélaginu.

Heilbrigðismálin eru ofarlega í huga Íslendinga. Nægir þar að minna á að 86 þúsund manns hafa skrifa undir kröfu um aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar. Ljóst er líka að útgjöld til þessa málaflokks eiga eftir að aukast, þó ekki væri nema af lýðfræðilegum ástæðum. Því skiptir miklu máli að forgangsraða fjármunum vel sem renna til heilbrigðisþjónustunnar. Forgangsverkefni er að gera þjónustuna gjaldfrjálsa en verkefnin eru vissulega mörg. Meiri fjármuni þarf að leggja í rekstur Landspítalans og uppbyggingu húsnæðis. Þá skiptir máli að efla sjúkraflutninga um land allt. En fyrsta skrefið á að vera að allir geti sótt sér læknisþjónustu án tillits til efnahags. Það er eitt af því sem gerir samfélagið betra.“

Læknisþjónusta án tillits til efnahags ætti að vera ósk allra sem héldu frídag verkalýðsins hátíðlegan í dag.

Efnisorð: , , , ,