laugardagur, október 31, 2009

Fé án hirðis

Það er sérkennilegt að fylgjast með umræðu um féð sem gengur villt í Tálkna. Röksemdin fyrir að smala því saman og drepa það er sú að annars fari það sér að voða.* Þetta er merkilegt útaf fyrir sig en einnig í ljósi orða Suðurnesjamanna um að fá hreindýr til að hressa uppá Reykjanesið. Þetta yrðu líklega að verða hreindýr sem hafa hlotið kennslu í að tipla yfir Keflavíkurveginn — allar fjórar akreinarnar — án þess að trufla umferð eða fara sér að voða.

Talandi um Suðurnesjamenn. Þeir vilja álver í Helguvík þó fjármagn vanti, höfn vanti og ekki sé útséð með hvaðan eða hvernig rafmagn eigi að komast til að knýja álverið. Umhverfisspjöll raflínanna, þ.m.t. á vatnsból höfuðborgarsvæðisins, skipta þá litlu og hvað þá af virkjunum sem ættu að framleiða rafmagnið. Efnahagslegt hrun þjóðarinnar sem á að borga fyrir þá höfnina, virkjanirnar og raflínurnar skipta þá enn minna máli (smávandamál eins og hver eigi að lána pening í það nú á þeim tímum sem þjóðin stynur undan skuldabyrði og Sjálfstæðismenn ærast yfir hækkandi sköttum), þeir vilja sitt álver og engar refjar. Atvinnuleysi enda mikið vandamál og þeir hljóta að líta til Austfirðinga með lausnir á því. Af Austurlandi berast reyndar helst þau tíðindi að á annað hundrað íbúða standi auðar því fólk flykktist ekki austur til að vinna í álverinu — svo ótrúlegt sem það hljómar. Álverið bjargaði ekki Austfirðingum og mun ekki bjarga Suðurnesjamönnum. Fjárhagslegri stöðu Reykjanesbæjar/Keflavíkur verður ekki bjargað með slíkri barbabrellu.

___
* Minnir helst á Pétur Blöndal að tala um fé án hirðis. Og niðurstaðan álíka efnileg — a.m.k. fyrir sauðféð. (Merkilegt annars að það hrapaði fyrir björg þegar farið var að skipta sér af því).

Viðbót: Helgarfréttablaðið skartar leiðara eftir Stefán Pálsson undir sama titli og þessi bloggfærsla. Eflaust hefur mörgum okkar dottið það sama í hug varðandi féð í Tálkna. Stefán talar líka um hreindýrin (þó ekki um Keflavíkurgöngur þeirra) og orðar það sem ég vildi sagt hafa um eignarrétt á dýrum en það virðist vera litið svo á að ef enginn á dýr eða nýtir þau þá séu þau tilgangslaus (sem kristallaðist í því að talað var um hvort féð væri hæft til átu).

Páll Ásgeir gerir svo grín að öllu saman. Ekki veitir af.

Efnisorð: , , , ,

föstudagur, október 30, 2009

RioTinto Alcan best í heimi?

Í Fréttablaðinu í dag er eldsúr heilsíðuauglýsing frá RioTinto Alcan Ísal-Straumsvík (ekki vildi ég vinna á símaskiptiborðinu og þurfa að þylja þessa runu mörgu sinnum á dag). Það er afar sérkennilegt af svona umdeildu fyrirtæki að hafa Skógarfoss í auglýsingunni, þetta er svo augljós fegrun á fyrirtækinu að tengja það við tignarlegan foss sem er eitt helsta kennileiti á Suðurlandi og á greinilega að milda hörðustu andstæðinga álvera og náttúruspjalla. En á sama tíma þykir náttúruverndarsinnum það ömurlegt að sjá nafn RioTinto Alcan við mynd af Skógarfossi og vekur upp þá spurningu hvort fyrirtækið hyggist næst beita sér fyrr að næst verði Skógarfoss virkjaður.

Svo ekki sé nú minnst á mærðarrulluna um að RioTinto Alcan sé svo umhverfisvænt.* Það lá nú við að morgunmaturinn færi uppúr mér sömu leið og hann kom.

___
* Og hvernig er það, er ekki bannað að nota hástig lýsingarorða í auglýsingum? Hér um árið þurfti að breyta kartöfluflöguauglýsingum þannig að í stað fullyrðingarinnar „best“ kom spurningin „best?“ Það væri nær fyrir RioTinto Alcan að gefa lesendum blaðsins tækifæri á að svara, hver fyrir sig, hvort það telji fyrirtækið best í heimi. Og þá fyrst fer nú að halla undan fæti því Rio Tinto á sér svarta sögu.

Efnisorð: ,

sunnudagur, október 25, 2009

Skýrsla um vændi á Íslandi

Ég ætlaði að hnýta fréttatenglum og slíku við bloggfærsluna hér á undan en datt þá ofan á skýrslu sem unnin var fyrir dómsmálaráðuneytið árið 2001 og heitir Vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess, sem unnin var að ósk Sólveigar Pétursdóttur, þáverandi dómsmálaráðherra. Þetta er hrollvekjandi lesning og furðulegt að nokkur sem þetta les geti haldið því fram að A) hér á landi hafi ekki verið stundað vændi, B) vændi á Íslandi sé ekki vandamál, eða C) vændi sé frjálst val einstaklingsins. Hvað þá að vændi eigi sér hvorki orsakir né afleiðingar heldur sé bara vinna eins og hvað annað.

Þarna er talað um vændi innan fíkniefnaheimsins, vændishús, fátækt, ofbeldi, karlmenn sem selja dætur sínar barnungar og vændi í kringum nektardansstaði svo fátt eitt sé nefnt. Ekki lesning fyrir viðkvæmt fólk.

Sjálf held ég að ég hressi mig við með því að lesa þingræður um Icesave. Getur ekki annað en verið upplífgandi í samanburði.

Efnisorð: ,

laugardagur, október 24, 2009

Meðan íslenskir karlmenn hafa lyst á að kaupa sér kynlífsþjónustu verður vændi og mansal við lýði

Mér finnst ástæða til að safna saman fréttum og góðum greinum sem skrifaðar eru um mansalsmálið en líka um mansal yfirleitt og vændi sem hluta af því. Steinunn Stefánsdóttir skrifar t.d. góðan leiðara í Fréttablaði helgarinnar. Hún segir m.a. þetta:
Það er auðvitað afleitt að starfsemi erlendra glæpahringja skuli vera farin að teygja anga sína hingað til litla Íslands. Því má þó ekki gleyma að mansal þrífst á Íslandi vegna þess að eftirspurnin eftir því er til staðar.

Einhver fyrirtæki eru tilbúin að kaupa ódýrt vinnuafl þrátt fyrir að ljóst sé að pottur sé brotinn varðandi réttindi fólksins. Sömuleiðis hljóta kaupendur kynlífsþjónustu á Íslandi fyrst og fremst að vera Íslendingar. Meðan íslenskir karlmenn hafa lyst á að kaupa sér kynlífsþjónustu verða alltaf einhverjir tilbúnir að hafa tekjur af slíkri starfsemi.

Mansal er þannig ekki bara óþægileg veira ættuð úr fjarlægu landi heldur bein afleiðing af siðferðisbresti í okkar eigin samfélagi.


Í tveggja ára gamalli Mannlífsgrein, sem því miður er ekki merkt höfundi, kennir ýmissa grasa, m.a. er talað við forstjóra Útlendingastofnunar, lögfræðing Alþjóðahús, framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu og talskonu Stígamóta, sem hver um sig kemur með áhugaverða nálgun á mansal. Þar er og fjallað um Palermo-sáttmála Sameinuðu þjóðanna.* Í honum segir:

Fimm atriði skal hafa í huga þegar skilgreining Palermoviðaukans er beitt til þess að bera kennsl á fórnarlömb mansals:

1. Það skiptir ekki máli hvort konan hefur farið yfir landamæri, því mansal getur lika átt sér stað innan landsins.

2. Ekki þarf að vera um skipulagðan glæp að ræða, það getur verið stakt tilvik.

3. Það er málinu óviðkomandi hvort konan var fús til, – þ.e.a.s. hvað konan gerði áður en hún varð fórnarlamb mansals.

4. Stig misnotkunar skiptir ekki máli, hvort um er að ræða blekkingu, hótanir eða þvinganir.

5. Konan er jafn mikið fórnarlamb mansals, þótt hún vilji ekki kæra þá sem standa að baki, né vinna með lögreglu og öðrum yfirvöldum.

Skilgreining Palermó-viðaukans: „Mansal“ merkir að fólk sé fengið, flutt, framselt, hýst eða við því tekið, með valdi eða hótun um valdbeitingu eða með annars konar nauðung, með mannráni, svikum, blekkingu, valdníðslu eða misnotkun á varnarleysi þess, eða ef látið er af hendi eða tekið við fé eða öðrum gæðum til þess að fá fram samþykki við því að einstaklingur öðlist vald yfir öðrum einstaklingi í hagnýtingarskyni. Hagnýting tekur til hagnýtingar á vændi annarra eða annarrar kynferðislegrar hagnýtingar, nauðungarvinnu eða nauðungarþjónustu, þrælahalds eða athæfis sem svipar til þrælahalds, ánauðar eða líffæranáms. Samþykki þess sem er fórnarlamb mansals skiptir engu máli í tilvikum þar sem einhverjum þeim aðferðum sem lýst er hér að ofan hefur verið beitt.“


Mér finnst reyndar ruglingslegt að ekki sé gerður greinarmunur á því þegar fólk er flutt meira og minna nauðugt milli landa og lendir í þrælavinnu (e. human trafficking) og kynlífsþrældómi kvenna (e. sex trafficking) en allt er það kallað mansal. Og það er alveg ljóst að ekkert af þessu gerist nema einhverjir telji sig græða á að selja þetta fólk, kaupa það og nota.

Mannlífsgreinin er vel þess virði að lesa hana alla.
___

*Palermo sáttmálinn er viðauki við sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi. Þessvegna er hann ýmist kallaður Palermo sáttmálinn eða Palermo viðaukinn. Ég sótti þessa skilgreiningu í í BA ritgerð Birnu Maríu Ásgeirsdóttur í mannfræði en hún nefnist Mansal í heimi karllægra yfirráða.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, október 19, 2009

Elskulegur eiginmaður minn, faðir, afi, tengdafaðir, bróðir, mágur og frændi

Svona byrja dánartilkynningar oft. En hvernig lifði nú þetta dánumenni lífi sínu? Barði hann konuna sína? Nauðgaði dætrum sínum eða barnabörnum? Var spenntastur fyrir dýraklámi? Stundaði vændishús í viðskiptaferðum í útlöndum? Karlmenn sem gera slíkt hljóta líka að deyja eins og aðrir. Og ekki bara það, meðan þeir eru lifandi þá ganga þeir um í samfélaginu og fæst okkar vita hvað þeir hafast að.

Eiginmenn, kærastar, sambýlismenn (fyrrverandi, núverandi eða tilvonandi), synir, dætrasynir og sonarsynir, vinnufélagar, yfirmenn, undirmenn, bræður, hálfbræður, mágar, svilar, frændur, kunningjar, vinir, skólafélagar, kennarar, nemendur, karlmenn sem þú verslar við eða sem þú þarft að tala við starfs þins vegna; allt gætu þetta verið karlar sem líta á konur sem misjafnlega gagnlega hluti, helst nýtanlegar til að fá kynferðislega útrás á hvort sem þeim líkar betur eða verr, útrás fyrir reiði eða mannhatur yfirleitt. Skoðanir kvenna, langanir og tilfinningar skipta þá engu, þær eru fyrst og fremst til að fá útás á: fyrir reiði með því að ógna þeim eða berja þær; kynferðislega hvort sem þeim líkar betur eða verr, hvort sem þær eru ókunnugar eða skyldar eða nákomnar.

Þessir karlmenn stunda (mismikið og misoft) strippstaði, klámsíður á netinu, að kaupa vændi af konum sem eru fátækar, fíklar eða hreinlega neyddar til að selja líkama sinn og þeir ýmist telja sér trú um að svo sé ekki eða er sama eða hreinlega fá kikk út úr því að vita að konan er ekki viljug.

Þessir karlmenn nauðga, ýmist fyrrverandi eða núverandi kærustum, vinkonum sínum, ókunnugum konum eða hverju því kvenkyns sem þeir koma höndum yfir í fjölskyldu sinni (og sumir drengjum og sumir börnum af báðum kynjum). Að ganga úti á götu, skreppa í sund eða setjast til borðs í fjölskylduboði er ávísun á að rekast á einhvern þessara karlmanna. Þeir bera þetta ekki utan á sér.

Eða hvernig á að skýra aukið vændi í Reykjavík? Það er vegna þess að það er nóg af viðskiptavinum.* Þeir biðu í röðum eftir litháensku konunni sem var flutt til landsins. Sjálfsagt einhverjir orðið enn spenntari að vita að hún væri óviljug — einhverjir fóru kannski og leituðu sérstaklega að henni.

Það er ekki rétt sem sagt er í frétt RÚV,** að erlendar vændiskonur valdi „margvíslegum vanda“. Vandinn er að karlmenn eru svo svívirðilegir að vilja hjakkast á þeim.

En æ, nú sagði ég eitthvað ljótt um karlmenn. Voðalega er ég vond.

___
* Sóley Tómasdóttir skrifaði í Fréttablaðið um helgina og sagði m.a. þetta: „Ástæðan fyrr mansali er jú viðskiptavinirnir Ef engir væru kaupendurnir væri mansal ekki þriðja umfangsmesta glæpastarfsemi heims“.
** Silja Bára segir þetta orðalag vera komið frá lögreglunni. Hvenær ætla fjölmiðlar að hætta að birta orðrétt allt það sem þær mannvitsbrekkur láta frá sér?

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, október 15, 2009

Vændi er smánarblettur og skepnuskapur

Páll Baldvin Baldvinsson skrifar leikdóm í Fréttablaðið í dag sem er lítið jákvæður fyrir leiksýninguna sem um ræðir. Mér er slétt sama um það enda hefði ég ekki farið á þessa sýningu. Hinsvegar segir Páll Baldvin margt skynsamlegt sem mér finnst ástæða til að birta hér:

Hin félagslega eymd margra landa Austur-Evrópu, Afríku norðanverðrar og landa Suður- og Mið-Ameríku hefur skilað bylgju eftir bylgju flóttafólks sem komist hefur norðureftir til ríkari landa þar sem þetta fólk safnast til óþrifastarfa í borgum og sveitum sem innfæddir vilja ekki sinna lengur. Í mörgum dæmum eru þetta hefðbundin störf farandverkamanna, í öðrum tilvikum er um hreint mansal að ræða, einkum á kornungum stúlkum sem eru sviknar norður eftir með loforðum um bærilegt líf og skárri kjör. Í sumum tilvikum kemst upp um glæpastarfsemina en uppljóstrun er þeim annmarka háð að fórnarlambið, niðurbrotið og smánað, er sent heim. Í öðrum tilvikum ílendast starfskraftar kynlífsiðnaðarins en halda áfram að vera í jaðri samfélagsins.

Örlög kvenna frá Eystrasaltslöndunum, Póllandi, Úkraínu, Moldavíu, Rússlandi og Balkanlöndunum gömlu hafa lengi lengi verið efniviður í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, misgrófum. Örlög Danguole frá Litháen urðu opinber þegar hún stökk fram af brú í Svíþjóð og Lukas Moodysson nýtti þau í dæmisögu um hvert hlutskipti þessara kvenna eru í Svíþjóð.

Ég á erfitt með efni sem þetta orðið: innrás glæpagengja að austan er oft notuð sem skýring á þessum smánarbletti vestrænna samfélaga, en vændishverfin í evrópskum borgum hafa um aldir verið fyllt af öreigum úr sveitum álfunnar. Það er erfiðara að finna haldbærar skýringar á þörfinni sem þessi skepnuskapur sinnir; lengi töldu menn skort á almennilegum getnaðarvörnum skýringu á því að karlmenn af öllum stigum sæktu sér kynferðislega fróun í hórukassa álfunnar. En sú skýring er ekki haldbær lengur. Víða er kynlífsiðnaðurinn inngróinn í borgarmenninguna og þrífst fyrir opnum augum stjórnvalda. Þannig er það hér.

... við látum þetta líðast hér og erum svo hræsnisfull að horfa upp á svívirðinguna á sviði frekar en stoppa hana af með aðgerðum. Þessar konur eru efnahagslegir flóttamenn, rétt eins og hámenntaðir starfsmenn ræstingafyrirtækjanna sem hér starfa.

Gernýting saklauss fólks, ævi þeirra og líkama, er virkur og verndaður hluti af efnahagskerfi heimsins, okkar heims. Menn geta sagt að sú saga sem [leikhöfundur] reynir að segja þurfi sífellda upprifjun, en það er til marks um að við neitum staðreyndum, eins og okkur virðist henta mikið um þessar mundir. Og maður skammast sín.


Efist enn einhver um að mansal sé stundað á Íslandi þá er hrollvekjandi frétt á öllum vefmiðlum í dag. Án þess að hér séu öll kurl komin til grafar þá virðist sem kona sem selja átti í kynlífsánauð á Íslandi hafi reynt að vekja athygli á því í flugvélinni á leiðinni til landsins eða hreinlega misst stjórn á sér af ótta við það sem biði hennar. Hún hafi þannig komist í hendur yfirvalda en virðist hafa verið rænt úti á götu. Hennar er nú leitað af lögreglu en hafi hún ekki nú þegar lent í höndum dólganna sem ætluðu að gera hana út, þá eru þeir sennilega líka að leita að henni.

Úff.

Efnisorð: , ,

föstudagur, október 09, 2009

Nú skyldi ég hætta að kaupa Kristal — ef mér þætti hann ekki vondur

Það virðist skipta litlu fyrir auglýsendur og auglýsingastofur hvað feministar segja um notkun kvenlíkama í auglýsingum, það breytist ekkert.

Nýjasta dæmið sem ég rak augun í er auglýsingin sem meðal annars er á vefmiðlum í einhverju hreyfimyndaformi sem ég kann ekki að nefna. En hreyfingin á myndinni gerir það að verkum að augun hvarfla að auglýsingunni þó það hafi ekki verið ætlunin. Þetta er Kristal auglýsing frá Ölgerðinni.* Það er nákvæmlega engin þörf á að hafa hálfbera konu í þessum auglýsingum.**

Mér þykir verst að ég skuli aldrei drekka Kristal því annars myndi ég sniðganga þá vöru hér eftir. En nú get ég allavega sagt að mér þyki Kristall vondur á fleiri en einn veg.

___
* Það vill svo til að Ölgerðin selur Nestlé vörur.
** Venjulega myndi ég setja tengil á auglýsinguna en ekki birta hana hér (það stóð aldrei til að „skreyta“ með hinum nakta eða hálfnakta kvenlíkama!) en þar sem þetta er hreyfimynd sem birtist stundum og stundum ekki þá varð þetta lausnin. Ég biðst forláts.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, október 07, 2009

Ósjálfráður lestur

Nýlega fór ég í heimsókn á hjúkrunarheimili og tók eftir að við dyrnar var auglýsing um varnir vegna svínaflensunnar. Ég las spjaldið og fór svo inn í herbergið þar sem aðrir gestir voru fyrir. Ég þóttist ekki vilja taka í hendur viðstaddra af ótta við smit og þegar fólk rak upp stór augu spurði ég hvort þau hefðu ekki lesið auglýsinguna frammi. Það hafði engin viðstaddra gert. Mér er það afturámóti ósjálfrátt að lesa texta sem er fyrir framan mig, jafnvel þó ég sjái hann bara útundan mér. Þyki mér hann forvitnilegur virðist ég hafa þörf fyrir að snúa mér að honum og lesa betur. Fari ég í lyftu veit ég strax hvort ég er í Schindlers lyftu (sem vekur alltaf kátínu mína) og hvenær hún var síðast skoðuð.*

Af sömu orsökum er mér ómögulegt að lesa gegnum blöð og tímarit án þess að taka eftir auglýsingum og slúðurfréttum, hversu mjög sem ég vildi losna við að lesa þær. Það þýðir ekkert að segja við mig að ef fréttir af Lindsey Lohan og fólki af hennar sauðahúsi fari í taugarnar á mér skuli ég bara sleppa því að lesa þær. Ef þær eru fyrir framan mig les ég textann, þó ekki nema fyrirsögnina í flestum tilvikum því fljótt fyllist ógeðsmælirinn. Mig langar ekkert til að fylgjast með drykkju, framhjáhöldum og holdafari fræga fólksins, hef engan áhuga á fólkinu sem slíku og óbeit á slúðurpressunni sem fjallar um það eins og sálarlaus dýr.**

Fréttamiðlar á netinu eru enn verri en þessi eini blaðsnepill sem ég les með morgunmatnum, því þar ægir öllu saman og erfitt að vita hvenær óhætt er að lesa lengra án þess að bera varanlegan skaða á siðferðiskenndinni. Lengi vel lét ég mér nægja RÚV vefinn til að fylgjast með fréttum en eftir hrunið fyrir ári dugði það ekki til. Fljótlega fannst mér Eyjan þægileg til að fylgjast með fréttum og umræðum en slúðrið og ruglið sem slæddist með truflaði mig gríðarlega, ekki síst vegna þess að myndum af þessu vesalings fræga fólki*** er þar troðið í andlitið á manni. Þegar fréttir voru færðar neðst á síðuna en allt slúðrið sett þar á undan (í dálknum „fólk“) þá gafst ég upp.


(Af Eyjunni 19. janúar).

Þá fór ég að fylgjast með Fréttagáttinni og ánetjaðist henni. Ekki séns að missa af neinu því allar fréttir eru uppfærðar á fárra mínútna fresti. En böggull fylgir skammrifi og hann ekki góður. Slúðurfréttir eru í bland við aðrar fréttir eins og ekkert sé og alloft eru þaraðauki miklar upphrópanir um mikilvæg tíðindi sem reynast eiga upptök sín í fótbolta eða öðrum íþróttum. Þá er nú betra að hafa myndir til að geta forðast frekari lestur og að íþróttir eigi sérsvæði (eins og í blöðunum) sem hægt er að sniðganga.

Ég veit vel að það er hægt að stilla Fréttagáttina þannig að einungis innlendar fréttir**** sjáist eða þá bara erlendar (í stað allra frétta þarmeð talið slúðurs og íþrótta) en þá er vandinn sá að ég get ekki gert upp við mig hvort ég eigi að einbeita mér meira að innlendu fréttunum eða þeim erlendu. Ég vil ekki vera svo þröngsýn að láta mig engu skipta náttúruhamfarir í útlöndum þó hér á landi sé allt í voða, né vil ég einbeita mér svo að erlendum fréttum að framhjá mér fari hvað gengur á í innanlandspólitík. En þó fréttir um Icesave og stjórnarsamstarf taki á þá er það ekkert á við þá lágkúru sem slúðurfréttir leggjast í þó velta megi fyrir sér hvort sé verra fyrir sálartetrið.

___
* Ég er ekki hrædd í lyftum og slíkar upplýsingar vekja mér hvorki ótta né öryggiskennd, þær eru einfaldlega oftast eina lesefnið á staðnum og því innbyrtar með hraði.
** Ég held reyndar að ef maðurinn (homo sapiens) hefur sál þá hljóti dýr líka að hafa sál, en það er önnur umræða.
*** Craig Ferguson bendir á — á sinn frábæra hátt í uppistandsatriði í þætti sínum — að það sé í lagi að gagnrýna valdhafa en óhamingja fólks sé ekki skemmtiefni enda þótt það sé frægt. (Þátturinn er ekki textaður en skoski hreimurinn hans er hvorteðer óþýðanlegur yfir á íslensku).
**** Þá sjást ekki „fréttir“ frá AMX lengur, en það er nú meiri ömurðin sem þar er skrifuð. DV sést hinsvegar þar, fréttin sem birtist þar í dag um atburðina í Hörðalandinu er svo yfirgengilega ósmekkleg að ég vildi að ég þyrfti aldrei að sjá DV framar. Og já, ég get sjálfri mér um kennt að hafa viljað lesa meira eftir að ég sá fyrirsögnina.

Viðbót: Um það leyti sem bloggfærslan var skrifuð blöskraði fleiri bloggurum þessar ósmekklegu slúðurfréttir og þrýstihópar voru stofnaðir. Arnar Eggert skrifaði líka ágæta grein og sýndi að fjölmiðlafólki er ekki skemmt frekar en okkur hinum.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, október 01, 2009

Kynjajafnvægi í ríkisstjórn — loksins

Í vor þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók til starfa náði ég ekkert að gleðjast. Fannst of svekkjandi að kynjahlutfallið væri ekki jafnt loksins þegar forsætisráðherra var þó kona. Nú eru jafn margar konur og karlar í ríkisstjórn en samt er ég ekkert glöð. Ekki það, mér finnst kynjajafnvægið jákvætt, en brotthvarf Ögmundar er sorglegt. Og svo er Icesave enn hangandi yfir hausamótunum á okkur. Hvernig er hægt að gleðjast við þær aðstæður?

Efnisorð: , ,