laugardagur, júlí 28, 2018

Druslugangan

Einhverjum strákavitleysingum fannst viðeigandi að vera með steggjun meðan á Druslugöngunni stóð og fengu fyrir það orð í eyra frá Sóleyju Tómasdóttur. Ekki varð ég vör við neitt af þessu en fannst hinsvegar mjög miður þegar ég sá fólk með skilti (ég náði bara að lesa á eitt skiltið, sambærilegt því sem sést hér á mynd) þar sem stóð á ensku að kynlífsvinna væri vinna (eins og hver önnur, býst ég við að merkingin hafi verið). Mér finnst verulega óviðeigandi að tefla fram fótgönguliðum frjálshyggjumanna sem vilja frjálsan markað með konur, svona í miðri Druslugöngunni þar sem viðhorf til kvenna er eitt helsta viðfangsefnið.

Að öðru leyti var gangað mögnuð að vanda og afar áhrifaríkt að hlusta á ræðurnar á Austurvelli. Tvær af þolendum Aðalbergs Sveinssonar töluðu og sýndu með því ótrúlegan kjark, en þær hafa ásamt þeirri þriðju komið fram í fjölmiðlum fyrr á árinu og skýrt frá hvernig hann beitti þær kynferðislegu ofbeldi. Blaðamaður Stundarinnar sem fjallað hefur um þessi mál hefur fengið bréf frá lögmanni hans, honum Villa Vill, þar sem hann krefst 1,5 milljónir króna í miskabætur vegna (ónákvæms) orðalags. Kærum stúlknanna hafði verið vísað frá enda var Aðalbergur ekki bara lögga heldur varð formaður Lögreglufélags Reykjavíkur eftir að hann var kærður fyrir kynferðisbrot gegn barni (hann var aldrei látinn víkja frá störfum meðan á rannsókn málsins stóð) og framdi eitt brotið í sumarbústaðaferð með Páli Winkel fangelsismálastjóra.* Kerfið passar uppá sína.

Á tímum minnkandi blaðalesturs er ekki víst að allir hafi lesið greinar um málið eða viðtölin við stúlkurnar þrjár. En í dag, fyrir framan mannfjölda mikinn, stóðu Kiana Sif Limehouse og Helga Elín Herleifsdóttir á sviði og nefndu geranda sinn með nafni: Aðalbergur.**
Megi kerfið og vinir hans innan þess skammast sín fyrir að hafa tekið afstöðu gegn þessum hugrökku stúlkum. Baráttu þeirra er ekki lokið, saga þeirra mun ekki gleymast.


___
* „Eins og hefur komið fram í Mannlífi voru vinur lögreglumannsins, sem er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera, og eiginkona hans með í umræddu sumarbústaðarferðinni. Að sögn Halldóru Baldursdóttur, móður Helgu Elínar, tók skýrslutaka yfir vinahjónunum aðeins örfáar mínútur og fór fram á skrifstofu embættismannsins. Þau hjónin og eiginkona sakbornings báru fyrir sig minnisleysi vegna áfengisdrykkju og niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeirra vitnisburði. Við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í umræddri sumarbústaðaferð. Umrædd vinahjón voru aldrei spurð út í klámmyndaáhorfið og tölva sakbornings var ekki skoðuð. Þegar lögregla skoðaði sumarbústaðinn fór hinn meinti kynferðisafbrotamaður með á vettvang.“ (Mannlíf.)

** Villi hefur eflaust setið sveittur við í allt kvöld að skrifa allskyns hótunarbréf til þeirra sem voru á Austurvelli og klöppuðu stúlkunum lof í lófa fyrir hugrekkið.


Efnisorð: , ,

þriðjudagur, júlí 24, 2018

Ekki seinna vænna

Það er er farið að styttast til jóla. Réttir fimm mánuðir í dag. Síðustu jól eflaust orðin dauf í minningunni, en ef mér leyfist að rifja upp þá voru þau jól eins og mörg jól þar á undan ansi streituvaldandi. Ekki endilega aðfangadagskvöldið sem slíkt heldur allur desembermánuður, jafnvel nóvember líka. Allt sem þurfti að gera og kaupa, allt sem þurfti að vera tilbúið á réttum tíma og slá í gegn. Öll boðin og tónleikarnir og búðarferðirnar með linnulausri jólatónlist. Allan tímann samt mikil áhersla á að hafa gaman, njóta, finna stemninguna, samkenndina. Afleiðingin jafnvel sú að ekkert var eftir af jólaskapinu þegar jólin gengu í garð, bara spurning um að koma þessu frá, en brosa auðvitað fyrir hina.

Þá er ótalið álagið vegna útgjaldanna sem voru kvíðvænleg og of mikil, eins og alltaf. Ekki bara tónleikamiðar og matarkostnaður heldur jólagjafir til allra. Allra, og barnanna þeirra. Jólagjafir sem þótt valið sé eitthvað ódýrt (eða heimatilbúið: auka álag) þá safnast þegar saman kemur svo flest fólk stendur frammi fyrir enn einum alltof háum kreditkortareikning á komandi ári.

Ástæða þess að ég ræði þetta á miðju sumri er að nú er lag að breyta þessu. Ef jólin eru kvíðvænleg og einkennast af álagi og of mikilli peningaeyðslu en alltof lítilli ánægju, og fólk vill en hefur ekki þorað að ræða það upphátt, þá er núna besti tíminn. Viljinn til að breyta hvernig jólin eru haldin er nefnilega ekki nóg, það þarf að semja um það við aðra. Stórfjölskyldan, nánustu aðstandendur, vinir og samstarfsfólk eða hvaða fólk það er sem er á jólagjafalistanum eða er boðið eða býður á tónleika og uppákomur sem æskilegt er að fækka í framtíðinni; það þarf að segja öllu þessu fólki, eða að minnsta kosti til að byrja þeim sem næst standa, að svona verði jólin ekki í framtíðinni. Leggja upp með eigin óskir: vil svona en ekki svona. Vil hætta að gefa (allar þessar) jólagjafir, vil ekki fara á jólatónleika annarra manna barna, vil ekki þurfa að bjóða þessu fólki í mat, vil ekki þurfa að hafa/borða mat sem er ekki góður bara vegna þess að það er hefð — svona sem dæmi.

Kosturinn við að gera þetta núna er að það er langt frá síðustu jólum og langt til næstu jóla.* Fólk man ekki svo vel hvað 'gæti hafa komið uppá' um síðustu jól (hvort sem eitthvað kom uppá eða ekki) sem gæti hafa valdið þessum miklu straumhvörfum, og það er nægilega langt til næstu jóla til að þeir sem móðgast verða búnir að jafna sig þegar komið er fram í desember. Svo er bara spurningin um að standa fast við sitt og gá hvort það lifi það ekki allir örugglega af. Eftir að hafa upplifað aðdraganda jóla og jólin sjálf á eigin forsendum í eitt sinn er hægur vandinn að endurskoða á næsta ári (ágætt að gera það eftir að desemberkortareikningurinn hefur verið greiddur) hvort hverfa eigi aftur til fyrri hátta.

En meðan ég man. Þá mætti líka fljótlega taka upp þá erfiðu umræðu sem stóð yfir um síðustu áramót, en það er hvort skjóta eigi upp flugeldum. Ég set hér fyrir neðan slóðir á nokkrar greinar sem birtar voru** og vert er að hafa í huga þegar maður á miðju sumri vill undirbúa gamlárskvöld með góðum fyrirvara svo enginn geri sér væntingar um mengunarfylltan himininn.

____
* Það hefði verið viðeigandi að skrifa þennan pistil 24. júní en þá voruð þið öll að horfa á boltaleik og ekki viðræðuhæf.

** Mín eigin úttekt á umræðunni um síðustu áramót.

Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur og doktor í lýðheilsuvísindum, svarar spurningunni Er reykurinn af flugeldum skaðlegur?

Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor í umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands: Metmengun þrátt fyrir aðvaranir – hvað nú?

Eftir áramót voru nefnilega birtar niðurstöður mælinga sem gerðar voru við Grensásveg á fyrstu klukkustundum nýs árs. „Hæsta sólarhringsmeðaltal svifryks frá upphafi mælinga; hærra en í eldgosunum í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum. Það sem var sérstakt við nýársdag var að styrkur svifryks hélst hár nær allan sólarhringinn en venjulega fellur styrkurinn hratt þegar líða fer á nóttina. Ástæðan er samspil veðuraðstæðna og mikils magns ryks í andrúmsloftinu.“

Og pistill Sifjar Sigmarsdóttur frá því fyrir áramótin þar sem hún sagði meðal annars:
„Það eru áramót. Allir eru kátir. Það er borðað, drukkið, hlegið, horft á Áramótaskaupið og vonandi hlegið aðeins meira. Þvínæst halda allir út. Í næturkuli, laust fyrir miðnætti, taka landsmenn sig til og sýna fram á einstakan samtakamátt þjóðar er þeir fylla andrúmsloftið af ryki og þungmálmum sem fara upp í lofthjúpinn og síðan út í umhverfið. Efnin enda í vatninu, í æti lífvera og loks í lífríkinu sem við sjálf nærumst á. Fólk með astma og öndunarfærasjúkdóma er í hættu. Fólk slasast, húð brennur, augu eyðileggjast. Dýr ærast. Líkur eru á að flugeldarnir hafi verið framleiddir við bágbornar og hættulegar aðstæður. Kannski af þrælum.

Þurfum við að velkjast í vafa um hvaða augum framtíðin mun líta þessa andartaks skemmtun okkar á áramótum?“
Það er ekki seinna vænna að ræða hvort við viljum ekki, hvert fyrir sig, leggja okkur fram um að breyta þessu.


Efnisorð: , ,

fimmtudagur, júlí 19, 2018

Pia

Ég er sammála öllum um Piu Kjærs­gaard. Öllum þeim sem gagnrýna hana, öllum þeim sem sniðgengu hátíðahöldin vegna hennar, öllum þeim sem mótmæltu henni með einhverjum hætti — og ég er líka sammála þeim sem buðu henni. Mér finnst reyndar að danski sendiherrann hefði allteins getað verið fulltrúi danskra stjórnvalda, en ef það þótti svona nauðsynlegt að forseti danska þingsins væri viðstaddur þá skiptir það íslenska þingið varla máli fyrir hvaða skoðanir hún stendur. En aftur: það er fullkomlega eðlilegt að hafa óbeit á þessum skoðunum hennar og finnast það óeðlilegt að hún af öllum héldi ræðu við þetta tilefni.

Og það er auðvitað ömurlegt að Pia Kjærs­gaard hafi náð að skemma þennan atburð, og í ljósi þess var verulega vanhugsað að bjóða henni. Eða með orðum Fanneyjar Birnu Jónsdóttur:
„Til að geta notið þessa ótví­ræða merk­is- og hátíð­ar­dags í sögu lands­ins skiptir máli að varpa ekki stórum skuggum á hátíð­ar­höld­in. Nær­vera Piu Kjærs­gaard gerði gott betur en það; hún varp­aði myrkri á þau öll, skrum­skældi og eyði­lagði allan þann jákvæða boð­skap sem hefði verið hægt að draga fram á 100 ára afmæl­inu. Og eins ömur­legt og það er þá er ekki við neinn annan að sakast en afmæl­is­barnið sjálft, gest­gjafann sem bauð í afmæl­ið.“
Enda þótt Pia sé „frum­kvöð­ull og einn helsti hug­mynda­fræð­ingur meg­in­straumsút­lend­inga­andúðar á Vest­ur­löndum og ein þeirra sem náð hefur hvað bestum árangri í sinni hug­sjóna­bar­áttu á síð­ustu ára­tug­um“ þá finnst mér rétt að minna á að Sigríður Á Andersen framfylgir þeirri hugmyndafræði dyggilega hér á landi. Það mætti mótmæla Sigríði Á Andersen allan daginn alla daga fyrir mér.


___
[Viðbót] Baggalútur með sína ágætu útgáfu af þessu öllusaman.
[Viðbót] „Elísabet Ronaldsdóttir, einn farsælasti kvikmyndagerðamaður landsins, hefur ákveðið að skila fálkaorðunni sem hún var sæmd í janúar fyrir tveimur árum til að mótmæla því að Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, hafi nýlega verið afhentur stórriddarakross frá Íslendingum.“ [RÚV] Vel gert!
[Viðbót] Ágætur pistill Guðmundar Steingrímssonar um Piu og lýðræðið.


Efnisorð: , , ,

mánudagur, júlí 16, 2018

Kom ekki svo íþróttapistill eftir allt saman, og meira segja um fótbolta!

Loksins er fótboltamótið búið og þess bráðlega að vænta að fólk geti farið að tala um eitthvað annað. En þá ber svo við að einhverjir kallar fara að gagnrýna að litlir krakkar sem nýfarnir eru að æfa fótbolta fái allir þátttökuverðlaun fyrir að taka þátt í móti, og finnst köllunum það óþarfa aumingjadekur, því eingöngu þeir sem fara með sigur af hólmi eigi að fá verðlaunapeninga. Um þetta hafa víst verið umræður undanfarna daga, sem fóru alveg framhjá mér þar til í dag.

Það var semsé ekki fyrr en ég las afar frétt á Vísi um skoðun Daða Rafnssonar, doktorsnema í íþróttasálfræði og fyrrum yfirþjálfara Breiðabliks, á veitingu verðlauna fyrir þátttöku, að ég áttaði mig á þessari umræðu. Þurfti að bakka aftur í tímann og lesa mér til hér og þar til að skilja um hvað málið snýst.

Einn punktur sem sló mig fljótlega en ég hef ekki séð neinn nefna: þessi gagnrýni kom fram þegar Símamótið svokallaða hófst í síðustu viku (því lauk í gær) en þar kepptu 2200 stelpur í fótbolta. Athugið: stelpur að spila fótbolta og mótið þeirra er gagnrýnt frá fyrsta degi.

Kona spyr sig: Er verið að dreifa athyglinni frá kallalandsliðinu í fótbolta sem nýkomið er heim af stóru móti með öngulinn í rassinum, eða er þetta bara sama djöfuls kvenfyrirlitningin og venjulega?

Annars var ég mjög ánægð með allt sem Daði Rafnsson sagði, og fannst mikils vert að hann dró fram mismunandi aðstæður barna. Hann hefur mun óbrenglaðra viðhorf til íþróttastarfs barna en þeir sem finnst ótækt annað en mismuna börnum þannig að bara þau sem standa sig vel (oft með dyggum stuðningi foreldra á öllum sviðum) fá viðurkenningu en ekki öll þau sem æfa, mæta, (fara þvert yfir landið á mót) og keppa — eins og það sé ekki talsvert afrek útaf fyrir sig. Svo fá auðvitað líka þeir krakkar verðlaunapeninga sem vinna mótið.

En eins og einhver benti á: allir þeir sem taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu fá pening um hálsinn. Svo eru verðlaun fyrir sigurvegarana. Er það bara neikvætt ef um börn er að ræða?

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, júlí 12, 2018

Steypireyður og mýldir fyrrverandi andstæðingar hvalveiða

Hvaladráparar komu með dauðan hval að landi sem gæti verið steypireyður eða kannski afkvæmi steypireyðar og langreyðar. Hvergi í heiminum er leyfilegt að veiða steypireyði, sem er stærsta dýr jarðar og í útrýmingarhættu. Það er hinsvegar ekki stranglega bannað að drepa hval sem er 50% steypireyður og því heldur Kristján í Hval því fram að þetta hljóti að vera blendingshvalur sem ekki liggi blátt bann við að veiða.

Framkvæmd verður DNA-rannsókn á sýnum úr dýrinu í haust og því verður ekki skorið endanlega úr um hvaða tegund dýrið er fyrr en þá. Fær ekki Kristján örugglega að taka sýnið og geyma það heima hjá sér þangað til fjölmiðlar hafa gleymt öllu um málið?

Eins og það sé ekki nógu slæmt að hugsanlega hafi alfriðað dýr verið drepið, og heimspressan æf, þá eru viðbrögð íslenskra stjórnvalda ömurleg. Þegar ég segi stjórnvalda þá á ég við vinstrigrænu ráðherrana sem áður voru á móti hvalveiðum en vilja nú allsekki lýsa yfir andstöðu við þær eða hvessa sig þegar grunur leikur á að alfriðað dýr hafi verið drepið.

Umhverfisráðherra tjáir sig ekki um málið.

Forsætisráðherra — sem einnig var eitt sinn á móti hvalveiðum — þegar hún sjálf var á atkvæðaveiðum — tuðar eitthvað um mat á sjálfbærni veiðanna og ekki sé hægt að leggja mat á alvarleika þess að skjóta friðaðar tegundir fyrr en seinna.

Enda mega þau auðvitað ekkert segja á móti þessari óhæfu, hvalveiðunum yfirleitt eða þessari stöðu sem komin er upp. Ekki nóg með að Kristján Loftsson sé sterkur bakhjarl Sjálfstæðisflokksins heldur er Einar Sveinsson föðurbróðir Bjarna Ben orðinn stjórnarformaður Hvals ehf. Og þetta er nú einu sinni ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins þar sem Bjarni Ben ákveður hvað má segja og gera.Efnisorð: , ,

sunnudagur, júlí 08, 2018

Vefst ekki fyrir þeim appelsínugula að taka afstöðu gegn fólki

Geggjun bandarískra stjórnvalda undir stjórn Trump hefur á sér margar hliðar. Allar ógeðfelldar.
„Fulltrúar Bandaríkjanna á fundi Alþjóðaheilbrigðis- stofnunarinnar (WHO) í Genf lögðust gegn samþykkt þar sem hvatt var til brjóstagjafar.

Í samþykktinni, sem var unnin eftir niðurstöðum rannsókna sem hafa farið fram í mörg ár, segir að móðurmjólk sé hollasti valmöguleikinn fyrir ungabörn og að þjóðir skyldu vinna að því koma í veg fyrir villandi herferðir þurrmjólkurframleiðanda.

Búist var við því að tillagan yrði samþykkt vandkvæðalaust en fulltrúar Ekvador hugðust leggja hana fram.

Fulltrúar Bandaríkjanna voru ekki á sama máli og vildu að tillögunni yrði vísað frá og virtust taka afstöðuna vegna hagsmuna framleiðanda þurrmjólkur.

Þegar tillögunni var ekki vísað frá skiptu Bandaríkin um gír og hótuðu að leggja harða tolla á Ekvadora og að draga til baka hernaðaraðstoð sína í landinu.“ [Vísir]
Rússar enduðu svo á að leggja fram tillöguna enda lítt hræddir við hótanir Bandaríkjastjórnar — og engar hótanir komu reyndar úr þeirri áttinni enda ekki lengur við minnimáttar ríki að eiga.

Það þarf varla að taka það fram að Obama-stjórnin hafði stutt áherslur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar varðandi brjóstamjólkurgjöf. 800.000 færri börn myndu deyja í heiminum árlega ef brjóstagjöf væri alltaf fyrsti kostur.

Þessi átök voru nýjasta dæmið um að Trump-stjórnin tekur afstöðu með stórfyrirtækjum gegn almenningi í allskyns málum á sviði heilsu- og umhverfisverndar. Bandaríkjastjórn hefur t.a.m. reynt að draga úr möguleikum á að setja viðvörunarmerkingar á ruslfæði og sykraða drykki í Kanada, Mexíkó og Bandaríkjunum, svo fátt eitt sé nefnt af ömurlegri stefnu Bandaríkjastjórnar um þessar mundir, og lesa má um í frétt New York Times.

Lobbíistar frá barnamatariðnaðinum sóttu fundinn í Genf en staðan í þeim bransa er uggvænleg fyrir gróðapunga því eftir því æ fleiri konur sem búa í auðugum löndum kjósa að gefa brjóst fremur en fóðra börn á þurrmjólk, og hefur salan því allsekki verið nógu góð. En þeir kætast þó við tilhugsunina um aukna sölu í þróunarlöndum — þið vitið, þar sem vatnið sem á að blanda mjólkurduftinu saman við er oft óhæft til drykkju.

Það er hægt að draga þetta saman í nokkur orð: stjórn Trumps einkennist af mannhatri.

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, júlí 07, 2018

NÚNA! ÚTI! ÉG SVERÐA!

Í annað sinn í dag skín sól. Nú kvöldsól en í dag var svona milliskýjasól í smá stund. Ég var þá svo heppin að standa við glugga og sá þessvegna þennan merkisviðburð. Þetta stóð yfir í alveg þónokkrar mínútur.

Nú varð mér litið út og sá að aftur er sól — og hún skín meirasegja glatt! en ég veit ekki hvenær hún byrjaði að skína. Fyrir fimm mínútum, hálftíma?

Ægilegt að loftvarnaflautur Almannavarna hafi verið teknar niður, þær hefði átt að virkja í svona tilvikum og flauta hressilega svo allir geti hlaupið útí glugga.

Það er þungbær tilhugsun að missa af svona viðburði.

föstudagur, júlí 06, 2018

Kjaradeila ljósmæðra: stéttastríð

Ég ákvað að taka smá fréttarúnt áður en ég hæfist handa við að skrifa blogg um kjaramál ljósmæðra. Eða öllu heldur: það sem sagt er þessa dagana af misjafnlegu viti um kjaradeilu ljósmæðra.

Það flýtti ákaflega mikið fyrir mér að Eyjan fjallar um viðbrögð Gunnars Smára við skrifum Ólafar Skaftadóttur (sem er nýorðin ritstjóri Fréttablaðsins, tók við af Kristínu Þorsteinsdóttur móður sinni og útgefanda blaðsins) sem skrifaði leiðara blaðsins í gær, og í dag skrifaði Hörður Ægisson (sem sér um Markaðinn fylgirit Fréttablaðsins) einnig leiðara og bæði tóku þau afstöðu gegn ljósmæðrum. Ólöf endar sinn leiðara á þennan veg, eftir að hafa þusað mikið um hve vel ljósmæður séu í raun launaðar:
„Vonandi verður samið við ljósmæður sem allra fyrst. Að þessu sinni og héðan í frá verður skynsemin þó að trompa tilfinningar.“
Hvaða tilfinningar eru það sem þarf að trompa? Er það tilfinningasemi að draga fram mikilvægi starfs ljósmæðra? Hlut þeirra — tildæmis með meðgöngueftirliti, fæðingaraðstoð, og eftirfylgni í heimahúsum — í að minnka ungbarnadauða svo mjög á Íslandi að hann er hér lægstur í heimi? Eða er það tilfinningar sem þarf að trompa vegna þess að þetta er kvennastétt og barátta kvenna fyrir betri kjörum er bara tilfinningalegt upphlaup hýsterískra kellinga?

Leiðari Harðar var svo allur um ‘höfrungahlaup’ — að ef ein starfstétt hækki upp fyrir þá stétt sem áður var jöfn eða fyrir ofan í launum vilji sú stétt hækka sig yfir hina aftur, og sömuleiðis krefjist allar aðrar stéttir að hinar fari ekki fram úr sér; við þessu sé svo brugðist með „gengisfalli, aukinni verðbólgu og hærri vöxtum“. Um launakröfur ljósmæðra segir Hörður:
„Engin rök standa því til þess að samþykkja þær kröfur“, og síðar í leiðaranum segir hann: „þá telja sumir að nú sé rétti tíminn til að fara fram á stórfelldar nafnlaunahækkanir. Minna en engin innstæða er hins vegar fyrir slíkum kröfum.“
Hvergi í öllum leiðaranum minnist Hörður á laun forstjóra í einka- eða opinbera geiranum, hvað þá launahækkanir þeirra undanfarið (sjá t.d. greinar Fanneyjar Birnu Jónsdóttur og Þorvalds Gylfasonar). Ætti hann þó sem ritstjóri Markaðarins að hafa nokkuð glögga mynd af hreint ágætum launakjörum landsins útvöldu sona. En það hentar auðvitað ekki að ræða það, svona rétt á meðan verið er að pönkast á konum sem vinna raunverulega mikilvæg störf — og hafa umtalsvert betri árangri að státa sig af en margur forstjórinn.

En annars ætlaði víst ég bara að vísa beint á það sem Gunnar Smári sagði um leiðara Ólafar og Harðar.
„Með fréttaflutningi sínum gegn ljósmæðrum á undanförnum dögum og með tveimur leiðurum í röð, þar sem blaðið stillir sér upp við hlið klíkuforingja hinna ríku og ríkisstjórnar hans; hefur Fréttablaðið stillt sér upp við hlið hinna ríku í stéttastríði þeirra gegn almenningi.“
Já, alveg rétt, það eru ekki bara leiðararnir. Litli dálkurinn Frá degi til dags, sem er alltaf á leiðarasíðunni hefur í meðförum Jóhanns Óla Eiðssonar haft uppi talsverðan áróður gegn kjarabaráttu ljósmæðra. Í dag var pönkast á þeim fyrir að hafa orðað hlutina klaufalega (í stað þess að segjast ætla að leggja fram formlegar kröfur sögðust þær ætla að leggja fram kröfur sínar í bundnu máli)sem væri kannski í lagi ef sami blaðamaður hefði ekki á þriðjudaginn notað þetta tromp:
„Það er ekki laust við að um mann fari hrollur við það að fylgjast með ófæddum börnum vera brúkuð sem skiptimynt í slíkri baráttu.“
Hann var ekki að kenna ríkisvaldinu um að hætta lífi ófæddra barna, heldur ljósmæðrum.

En í blaðinu í dag var ekki bara Hörður með sínar hugmyndir um að kellingastéttir í einhverju gaufi eigi ekki að vera svona frekar. Kári Stefánsson skrifaði opið bréf til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Það var góð og þörf lesning. Tilefnið er að á vefsíðu fjármálaráðuneytisins hafði birst pistill sem átti „greinilega ætlað að sýna okkur fram á að við Íslendingar gerum býsna vel við ljósmæður.“

Í opna bréfinu fer Kári vandlega yfir þetta með ungbarnadauðann. Hér eru tölfræðilegu upplýsingarnar:
„Um miðja síðustu öld var ungbarnadauði á Íslandi með ólíkindum og einhver sá hæsti sem skráður hefur verið í mannkynssögunni eða 238 af hverjum þúsund börnum fæddum. Í dag er hann um það bil hundrað sinnum minni eða 2 af hverjum þúsund og er lægstur í heimi hér.“
Annars skrifaði líka Helga Gottfreðsdóttir prófessor og formaður námsbrautar í ljósmóðurfræði pistil í vikunni og útlistaði þar nánar störf ljósmæðra. Einn áhugaverðan og óþægilegan punkt kom hún með í lokin.
„Mikið hefur verið lagt í til að viðhalda góðri menntun heilbrigðisstétta hér á landi. Fjöldi klínískra kennara í ljósmóðurfræði hefur nú sagt starfi sínu lausu til að knýja á um bætt kjör. Það hefur áhrif víða. Í haust mæta ljósmæðranemar í skólann og ég veit ekki hverjir eiga að kenna þeim í klínísku námi.“
Í sama blaði birti Guðlaug Maria Sigurðardóttir ljósmóðir í kjaranefnd ljósmæðra svar við fjölmiðlaumfjöllun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um kjör ljósmæðra. Það mætti líka hafa svar hennar í huga þegar fólk vegur og metur hvort það ætlar að halda með forríka frjálshyggju-fjármálaráðherranum í þessari deilu.

Fer ekki annars að líða að barnaafmæli hjá honum svo hann geti bakað köku? Svo barngóður hann Bjarni okkar Ben.

Efnisorð: , , , , , , , , ,

þriðjudagur, júlí 03, 2018

Sagan af norska gámaskipakettinum

Það er afar mikilvægt að öll dýr sem flytjast hingað frá útlöndum séu bólusett í bak og fyrir og séu í einangrun eins lengi og þurfa þykir. Það yrði skaðræðislegt að fá hingað sjúkdóma sem innlend dýr — sem sum hver eiga sér rætur aftur í landnám eða jafnvel enn lengra aftur í tímann — hafa engar varnir gegn.

Að því sögðu þá gleður það mig óskaplega mikið að norska kisan sem óvart tók sér far með búslóðagám til Íslands — og lifði næringarleysið, veltinginn og einangrunina — fékk að snúa til síns heima. Á færri líf eftir af sínum sjö en var sem betur fer ekki svipt lífinu.Efnisorð:

sunnudagur, júlí 01, 2018

Ríkisstjórninni er sama þótt fimmtungur ljósmæðra á meðgöngu- og sængurlegudeild hætti störfum

Mikið hljóta Svandís og Bjarni Ben að vera ánægð með að losna við allar þessar ljósmæður af launaskrá. Þá er nú betra að hafa hækkað aðeins launin við hann Hörð okkar í Landsvirkjun, kallgreyið sem var bara með rúmar tvær millur á mánuði. Núna getur hann þó aðeins rétt úr kútnum.

Það má ekki gleyma því að ríkisforstjórar, og auðvitað forstjórar almennt, eru alveg sérstaklega mikilvægir fyrir samfélagið, og launin verða að endurspegla það. Áfram forstjórar!

Efnisorð: , , ,