þriðjudagur, ágúst 23, 2011

Hvalveiðar eru ekki hluti af þjóðararfinum

Það var fín upprifjun á hvalveiðisögu Íslendinga sem lesa mátti í grein Sigursteins Mássonar í dag. Hvalveiðisagan er nefnilega ekki eins löng eins og gefið er í skyn þegar reynt er að afsaka hvaladrápin, síst af öllu er hægt að halda því fram að þetta sé forn atvinnugrein sem hafi haldið lífi í þjóðinni gegnum aldirnar, en margir virðast haldnir þeim misskilningi.*

Mér finnst mikilvægt að halda þessu til haga:
„Þegar hvalveiðar hófust við Ísland um 1600, eftir að Baskar höfðu uppgötvað Íslandsmið á leið sinni norður að Svalbarða, og í þrjú hundruð ár þaðan í frá, til 1900 stunduðu Íslendingar engar hvalveiðar í atvinnuskyni. Danir komu á eftir Böskum ásamt Hollendingum. Svo komu Frakkar og síðar settu Norðmenn upp stórar hvalstöðvar á Vestfjörðum. Þetta voru því erlendar stórþjóðir sem stunduðu hér stórfelldar hvalveiðar en Íslendingar máttu heppnir heita ef þeir fengu íhlaupavinnu á planinu.“
Sigursteinn segir líka frá því að Íslendingar hafi á endanum bannað hvalveiðar útlendinga árið 1913 en sjálfir ekki farið að veiða hval fyrr en eftir seinna stríð.
„Í fjögur hundruð ára sögu hvalveiða við landið spannar samanlagður tími iðnaðarveiða Íslendinga aðeins tæplega fimmtíu ár. Aðrar þjóðir gerðu hér út á hval í nærfellt 350 ár. Á síðustu öld náðu gegndarlausar hvalveiðar hámarki og leiddu til víðtækra friðunaraðgerða sem langflestar þjóðir heims styðja.“

Um þessa stuttu sögu hvalveiða Íslendinga var líka fjallað í ágætri grein á Múrnum fyrir margt löngu. Og þar er einmitt bent á að:
„Það er því ekki hægt að segja að hvalveiðar séu á einhvern hátt hluti af þjóðararfinum þar sem þær voru ekki stundaðar af Íslendingum fyrr en fyrir tveimur kynslóðum.“

Sá áróður, sem haldið hefur verið að fólki, að það sé djúpt í þjóðarsálinni að veiða hval og að það sé spurning um að viðhalda sjálfsímyndinni, hann er byggður á sandi.

___
* Fólk hlýtur að vera að rugla hvalveiðum saman við hvalreka, sem er allt annað mál. Hvalreki er þegar dauðan hval rekur á land, hvalveiðar krefjast þess að mannskepnan sigli út og finni hval, drepi hann og komi að landi. Slíkt krefst burðugri farkosta en þeirra árabáta sem notaðir voru til fiskveiða hér öldum saman. Mér er reyndar alveg fyrirmunað að skilja að fólk skuli halda að árabátar hafi elt hval uppi og dregið að landi, jafnvel þó tólfæringar væru.

Viðbót: Í Sjónmálsþætti 23. júní 2014 er talað við Jón Þ. Þór sem segir frá tilhögun hvalveiða á fyrri tímum. Mér heyrist hann hrekja lýsingar mínar á árabátaveiðum að nokkru leyti, því hann segir að Vestfirðingar hafi skutlað smáhveli á nítjándu öld. En ég hafði reyndar ekki smáhveli í huga heldur búrhval, langreyði og sandreyði. Afturámóti segir Jón að Baskar hafi veitt stóra hvali úr árabátum við Jan Mayen. Hlustið endilega á viðtalið við Jón, það er mjög fróðlegt.

Efnisorð:

föstudagur, ágúst 19, 2011

Starfsemi lamast vegna þess að karlar snúa heim að sinna börnum

Ég hrökk við þegar ég hlustaði á fréttatíma Ríkisútvarpsins klukkan sex. Fréttin snerist um fyrirhugað verkfall leikskólakennara og þar kom fram að stjórnendur Landspítalans hefðu áhyggjur af því að það muni raska starfsemi spítalans. Ástæðan er sögð sú að 80% starfsmanna spítalans eru konur.

Jahá.

Allar þessar konur, þessi 80% starfsmanna spítalans, eiga semsagt börn á leikskólaaldri? Engin þeirra á börn sem eru eldri? Engin þeirra er barnlaus? Og öll þessi börn allra þessara kvenna, eru þau eingetin, eiga engan pabba?

Og hvað með þessi 20% starfsmanna spítalans sem eru karlmenn? Eru þeir allir ófrjóir? Eða sinnir bara enginn þeirra börnunum sínum? Er það í ráðningarsamningnum að þeir eigi ekki að skipta sér af barnauppeldi eða gæslu barna sinna?

Kannski var þessi 80% tala dregin fram til að ýta við samninganefnd sveitarfélaga, en ekki vegna þess að spítalinn ætlast til að konur sinni börnum en ekki karlar. Það má vona.

Ekki það, ég hef ekki séð karlmenn taka oft frí til að sinna veikum börnum, hætta fyrr í vinnunni til að sækja og skutla eða yfirleitt leggja hálft eins mikið á sig til að sinna börnunum og mæðurnar. Að minnsta kosti ekki þeir karlar sem búa með barnsmæðrum sínum; þá eru það þær sem bera hitann og þungann af allri umönnuninni. Sannarlega eru þeir flestir mun tengdari börnum sínum og taka meira þátt en kynslóð feðra þeirra gerði, en aðeins svo framarlega að það rekist ekki á vinnutímann eða áhugamálin.

Komi til verkfalls, þá sjáum við líklega hvort karlmenn séu í stórum stíl farnir að setja börnin sín ofar á forgangslistann, eða hvort þeir ætlast til að barnsmæður þeirra sinni barngæslunni.

Ég bíð spennt.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, ágúst 17, 2011

Þeir eru fyrirlitnir sem eiga það skilið, hinum er hampað

Ég er viss um að einhverjum þykir að ég sé haldin karlfyrirlitningu. Þeir um það. Ég tala reyndar illa um þá sem leggja sig fram um að gera lítið úr konum. Ég tala illa um karlmenn sem káfa á konum og líta á þær eins og kjötstykki. Ég tala illa um karlmenn sem kaupa konur til að svala fýsnum sínum á, og þeim sem kaupa aðgang að þeim þar sem þeir geta glápt á þær, hvort heldur er á strippstað eða á netinu. Ég tala illa um nauðgara og allra handa ofbeldismenn, líka þá sem meiða og drepa dýr. Ég tala illa um þá sem hata feminista. Og ég tala illa um þá sem verja nauðgara, hvort sem það er í réttarsal eða á netinu.

En það fólk sem hefur fylgst með, hefur eflaust líka tekið eftir að ég hef stundum hampað karlmönnum; nafngreint þá, sett tengil á það sem þeir hafa skrifað eða látið velþóknun mína í ljós með einhverjum hætti. Þeir þurfa reyndar að hafa unnið sér það inn; þeir sem hampa feminisma eru líklegri en aðrir að fá einhverskonar viðurkenningu frá mér (djöfull held ég að þeir séu glaðir með það).

Í dag fær Arngrímur Vídalín lof í lófa fyrir glæsilega framgöngu í mannréttindabaráttunni sem gengur undir nafninu feminismi.

Efnisorð: ,

mánudagur, ágúst 15, 2011

Vatnsberinn flutturÞá er Vatnsberinn kominn á nýja staðinn. Þetta er reyndar ekki staðurinn sem upphaflega var fyrirhugaður, en ég var eindregið á móti þeirri staðsetningu. Þessi virðist mun skárri og það er þakkarvert að fallið hafi verið frá því að nota höggmynd Ásmundar Sveinssonar eins og hverja aðra umferðarkeilu til að hindra bílaumferð um Austurstræti.Ég saknaði þó Vatnsberans síðast þegar ég ók Bústaðaveginn; holtið virðist berangurslegra án hans. Ég hélt reyndar alltaf að hann væri mun stærri en hann er, því hann tók sig svo vel út þar. Eins og Jón Karl Helgason hefur sýnt fram á, var listamaðurinn sjálfur hæstánægður með þá staðsetningu, ekki síst að verkið væri í óhreyfðri náttúrunni. Það er því ranglega tilkynnt í fyrirsögn á Vísi að nú sé Vatnsberinn loks á réttum stað, annað sagði Ásmundur sjálfur.Efnisorð:

laugardagur, ágúst 13, 2011

Allt og sumt sem konur hafa áhuga á (staðfest)

Það endar auðvitað á að ég þarf að éta ofan í mig þau orð mín að konur hafi áhuga á fleiru en fötum, karlmönnum, kynlífi, stefnumótum og snyrtivörum. Enginn má við margnum og nú á ég greinilega við ofurefli að etja; nú hefur bleikt.is og pjattrófum bæst liðsauki sem endanlega gerir út um málið.

Við munum fjalla um allt sem konur hafa áhuga á. Snyrtivörum, útliti, líkamsrækt og svo má auðvitað ekki gleyma kynlífinu.“

Ég sé reyndar ekki ástæðu til að draga í land með kenningu mína um hverskonar konur eru ráðnar til fjölmiðla; það eru þær sem m.a. hampa snyrtivörunotkun og lýsa yfir hve áhugasamar þær eru um kynlíf. Þær sem lýsa yfir feminískum skoðunum og tala gegn neysluhyggju og ofdekrun karlmanna eiga ekki upp á pallborð þeirra sem ráða konur til fjölmiðla.

Efnisorð:

fimmtudagur, ágúst 04, 2011

Mannsæmandi umhverfi fyrir fanga

Eins og forstöðumaður fangelsa á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri hefur sagt í ágætri grein, eru tíu ár síðan hugmyndavinna vegna fangelsis á Hólmsheiði hófst. Þá voru liðnir fjórir áratugir frá því að fyrst var unnin skýrsla um nýtt fangelsi sem leysa átti hegningarhúsið á Skólavörðustíg af hólmi. Það er enn í notkun og fangelsið í Kópavogi líka, en hvorugt uppfyllir neinar nútímakröfur til fangelsa. Konur sem dveljast í kvennafangelsinu í Kópavogi (ekkert annað fangelsi er ætlað konum) búa í húsi sem ekki var ætlað sem fangelsi og þar er fáránlega léleg líkamsræktaraðstaða og útivistin fer fram á lítilli grasflöt þar sem hvorki er skjól fyrir veðri og vindum né augum bæjarbúa, svo nokkuð sé nefnt af göllunum við Kópavogsfangelsið.

Styrinn stendur um hvernig eigi að fjármagna og framkvæma bygginguna, á ríkið að reisa og reka eða eiga einkaaðilar að byggja og ríkið að reka; á að setja verkið í útboð og þá alútboð? Þarf nýja fangelsið að vera á Hólmsheiði eða á frekar að byggja við Litla Hraun; er nægilegt að byggja gæsluvarðhaldsfangelsi á höfuðborgarsvæðinu en nýta fyrirliggjandi húsnæði og starfsmannakost á Eyrarbakka? Eins og forstöðumaður fangelsanna bendir á hafa álíka atriði þvælst fyrir mönnum síðastliðin tíu ár og „alltaf hafa stjórnvöld á einhverjum tímapunkti skipt um kúrs eða hætt við“, og segir nóg komið af þessari vitleysu.

Sannarlega hefði verið gott ef það hefði verið búið að leysa fangelsismálin fyrir löngu (tildæmis alla þá áratugi sem Sjálfstæðisflokkur stýrði landinu). Þá biðu menn ekki árum saman eftir fangelsisvistinni eftir að þeir hafa hlotið dóm. Hafi þeir framið nauðganir eða aðra ofbeldisglæpi er óásættanlegt að þeir gangi laus eina mínútu eftir að dómur fellur, hvað þá mánuði og ár.*

Ég er í hópi þeirra sem vona að einhverjir af öllum þeim hvítflibbaglæpamönnum sem settu okkur á hausinn fái fangelsisdóm, auk þess sem ég vona auðvitað alltaf að fleiri nauðgarar fái dóm en ekki bara klapp á kollinn frá skilningsríkum dómurum (lesist: nauðgaravinum). Og þá þarf fleiri vistunarpláss, fleiri fangelsi.

Sú hugmynd að nota hina feiknastóru Bauhaus-byggingu sem fangelsi, eða fyrrum verkamannavistarverurnar (gámana) frá Kárahnjúkum mega þó ekki verða að veruleika, ekki að ég telji að hætta sé á því. Núverandi ríkisstjórn er umhugaðra um fólk en svo að illmenni séu látin dúsa í gluggalausum helvítum eins og þeim sem kínverskum verkamönnum (eða hverrar þjóðar sem þeir voru) var boðið uppá með velþóknun góðærisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðis. Það eru litlar líkur á að núverandi ríkisstjórn setji glæpamenn, hvorki þá sem gengu í teinóttu né þá sem súpa rakspíra af stút, í annað húsnæði en það sem ætlað er til slíkra nota, og þar sem starfsfólk er sérstaklega valið og þjálfað til starfa.** Þessvegna þýðir lítið að bjóða fram sumarbústaði og bændabýli, jafnvel þó okkur hinum þætti það of gott fyrir glæponana.*** Það er skiljanlegt að okkur þyki sem mál sé að drífa menn bak við lás og slá sem þar eiga heima, og að þeim sé ekki of gott að dúsa þar sem þeir eru settir, en það er bara þannig að ef við ætlum að vera nútímaríki sem kemur sæmilega mannúðlega fram við alla, líka fanga, þá megum við ekki láta slíkt eftir okkur.

Framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslands hefur bent á að aðbúnaður fanga ætti að vera í fyrirrúmi þegar hugað er að nýju fangelsi:

Í allri þeirri umræðu sem hefur átt sér stað vekur furðu að lítið er talað um þann hóp sem málið varðar mest; fangana. Það er oft sagt að þjóð megi dæma á því hvernig hún hlúi að sínum veikustu þegnum og fangar tilheyra þeim hóp án vafa enda hafa grundvallarréttindi sem sterkur þegn býr yfir, verið tekin af föngum tímabundið og þeir þannig gerðir berskjaldaðir. Þetta eru eðlilegar ráðstafanir sem meirihluti fólks er sammála um hjá siðmenntuðum þjóðum.

Þegar þegnar komast upp á kant við samfélag sitt á þann hátt að rétt þykir að fangelsa þá, fyrirgera þeir meðal annars rétti til að ráða ferðum sínum, rétti til frjálsra samskipta, rétti til frelsis í vinnu, rétti til að haga lífinu á þann máta sem þeir helst kysu. En einn er sá réttur sem ekki skal af þeim hafa; að komið sé fram við þá eins og manneskjur. Í því felst meðal annars að skapa þeim mannsæmandi umhverfi, ekki síst í ljósi þess að skert réttindi takmarka lífsgæði þeirra en aukinheldur vegna þess að nú skulu þessir einstaklingar búa við þær óeðlilegu aðstæður að vera bundnir eina og sama staðnum um lengri eða skemmri tíma, dag og nótt. Það liggur því í augum uppi að sérstaklega þurfi að vanda til slíks staðar; staðar sem er rammi utan um allt líf fólks hvort sem því líkar það betur eða verr. Ef þessi staður er þannig gerður að hann sé heldur til tjóns fyrir skapgerð íbúa má jafnframt búast við því að hann, að meðtöldum öðrum umhverfisþáttum, skili þeim verri frá sér en þeir voru áður.


Við sjáum í bandarískum bíómyndum hvernig öryggisfangelsi þar eru; klefar með rimlum á einni hlið, menn í kojum, heragi í útivist og á göngum, ómanneskjuleg mötuneyti og sífellt yfirvofandi ógn um ofbeldi og nauðganir í sturtunum. Ég vona að enginn haldi að þetta sé mannúðlegt eða bæti nokkurn mann, sama fyrir hvaða glæp hann var dæmdur. Vonandi verður slíkt fangelsi aldrei hér.

___
* Þó ég hafi efasemdir um fangelsisvist sem slíka nema þegar um ofbeldisbrot er að ræða, þá hefur orðið um það samkomulag að fyrir suma glæpi eru menn dæmdir í fangelsi. Ég vil auðvitað að sumir þeirra sitji alltaf skilyrðislaust inni: nauðgarar, barnaníðingar og aðrir ofbeldismenn, þó ekki væri nema til að forða fórnarlömbum þeirra frá því að rekast á þá á götum úti. Sjálfir þurfa þeir tíma til að ná áttum, hafi þeir á annað borð áhuga á að breyta um hugsunarhátt og líferni. Sálfræðiþjónustu þarf auðvitað að stórauka í fangelsum, en það er þó ekki aðalmálið hér, heldur bygging fangelsis.

** Það er skiljanlegt að fólk stingi uppá að húsnæði sem áður var nýtt sem vistheimili eða sjúkrastofnun, s.s. Víðines , Arnarholt og Vífilsstaðir, verði notað sem fangelsi, og í sjálfu sér sjálfsagt að yfirvöld skoði alla slíka möguleika, en þau hús voru ekki byggð sem fangelsi — ekki frekar en Kópavogsfangelsið (sem áður hýsti unglingaheimili) eða Skólavörðustígur 9. Það lagar ekki ástandið að bæta við meira af húsnæði sem er óhæft til svo sérhæfðrar starfsemi sem fangelsi er.

*** Það er samt óþarfi af fjölmiðlum að draga upp lýsingar af einhverju „fyrirmyndarfangelsi“ í Noregi og láta sem Breivik fái slíka gistingu; ef svo er þá væri það vegna þess að hann muni aldrei gista neinstaðar annarstaðar um ævina. En að stilla því upp í miðri fangelsisumræðu hér er til að ala á þeirri skoðun að fangar hafi það bara gott í fangelsi, almennt og yfirleitt. Það er fjarri því; flestum þykir eflaust mjög erfitt að vera sviptir öllu sjálfræði og geta ekki hitt nema örfáa þeirra sem þeir þekkja og þá í afmarkaðan tíma í lokuðu herbergi; sjaldan og stutt.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, ágúst 02, 2011

Heilt yfir tókst Þjóðhátíð vel (hvað eru nokkrar nauðganir til eða frá?)

Ég reyndist ekki hafa rétt fyrir mér með Þjóðhátíð. Ég spáði því að þar yrði metaðsókn — en hún var aðeins sú þriðja aðsóknarmesta frá upphafi. Munurinn fólst líklega ekki í því að fólk sniðgengi hátíðina til að mótmæla viðhorfum þjóðhátíðarnefndarformannsins til nauðgana og Stígamóta.

En nú er Páll Scheving bara hress, þetta fór allt vel fram að vanda. Reyndar nokkrar nauðganir (jafnvel þótt Stígamót hafi ekki verið á staðnum til að æsa upp lýðinn) en samt bara fínt. Palli segir meirasegja hortugur: „telur þú að þessi brot hefðu ekki verið framin ef starfskona Stígamóta hefði verið á svæðinu?"

Steinunn Stefánsdóttir fjallar um ummæli Páls (og djammhaldara á Akureyri sem líka er hress þrátt fyrir eina nauðgun eða svo) í leiðara dagsins. Hún skrifar:
„Vissulega eru þessi ummæli klippt úr úr lengri samtölum við mennina og formaður Þjóðhátíðarnefndar í Vestmannaeyjum segir vissulega einnig að kynferðisbrot skyggi á gleðina yfir vel heppnaðri hátíð og að eitt slíkt sé einu of mikið. Engu að síður verður að segjast að skuggahliðar hátíðanna eru svo miklar og afdrifaríkar fyrir þau sem hlut eiga að máli að alls kostar óviðeigandi hlýtur að teljast að taka til orða eins og dæmin hér að framan sýna.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var vitað um sex kynferðisbrotamál í gærkvöld en þau höfðu komið til kasta heilbrigðisstofnana og/eða lögreglu. Fimm áttu sér stað í Vestmannaeyjum og eitt á Akureyri. Líklega eru málin enn fleiri. Eyrún Jónsdóttir, verkefnastjóri í Neyðarmóttöku, segir í frétt blaðsins að reynslan segi að fleiri mál geti komið upp á næstu dögum.“

Steinunn veltir líka fyrir sér afhverju þessar útihátíðir séu yfirleitt haldnar.
„Ekki er annað hægt en að velta fyrir sér hvers vegna lagt er upp í slíkar hátíðir ár eftir ár þrátt fyrir þann toll sem þær augljóslega taka. Hvers vegna skera forráðamenn hátíðanna ekki upp herör gegn kynferðisbrotunum í stað þess að skella við þeim skollaeyrum og leitast stöðugt við að breiða yfir þau? Af hverju eru það aðeins femínistar og talskonur Stígamóta sem hvetja til fjöldasamstöðu gegn nauðgunum? Af hverju taka forráðamenn útihátíða ekki höndum saman við femínista og Stígamótakonur um að stemma stigu við nauðgunum og öðrum kynferðisbrotum, senda skýr skilaboð um að kynferðisbrot séu ekki liðin?

Þetta ætti að gera fyrir hátíðarnar, í auglýsingum og allri umræðu. Meðan á hátíðunum stendur á að vera stöðugur áróður og virkt eftirlit og þegar málin eru gerð upp að lokum verður að greina hvað má betur fara.

Skilaboðin sem forráðamenn hátíðanna senda hins vegar með „allt gekk vel" yfirlýsingum sínum eru þvert á móti þau að kynferðisbrot séu liðin.“

Ekki nóg með það, heldur er forsvarsmaður Þjóðhátíðar í Eyjum enn á þeirri skoðun að Stígamótum sé ekki treystandi, Þegar hann er spurður hvort ekki megi gera betur í öryggismálum segir hann: „Jú, en þá þarf að ríkja gott og gagnkvæmt traust á milli skipuleggjenda og fagaðila.“ Vantraustið virðist allt hans megin.

Svarið við spurningunni um afhverju í ósköpunum svona útihátíðir eru haldnar — jú, alveg rétt: til að græða á þeim peninga.

Efnisorð: ,