mánudagur, desember 31, 2007

Fari það og veri

Árið 2007 var að mörgu leyti líkt árunum á undan:

Dómar féllu kynferðisbrotamönnum í hag: bæði þeim sem nauðguðu ókunnugum konum á salernum, misnotuðu traust skólabarna sem þeir höfðu umsjón með, nauðguðu dætrum sínum, eiginkonum og kærustum, fyrrverandi og núverandi og svo þeir sem nauðguðu vinkonum sínum

- svo hrósuðu aðrir nauðgarar sigri einfaldlega vegna þess að þeir voru ekki kærðir af fórnarlömbum sínum (enda tilgangslaust að kæra þá eins og dómskerfið er).

And-feministar áttu hauk í horni í Silfri Egils, en þáttastjórnandinn (sem einnig stýrir bókmenntaþætti með sömu áherslum) telur ekki þörf á að konur séu of áberandi í opinberri umræðu.

Auk þess:

Sýslumannsembættið á Selfossi beitti konu kynbundnu ofbeldi með þvaglegg.

Kvenhatarar fóru mikinn á bloggsíðum og boðuðu klám, vörðu nauðganir og hótuðu feministum – þeir sem þá ekki niðurlægðu feminista með að setja upp fegurðarsamkeppni þeim til höfuðs.

Sömuleiðis urðu kvenhatarar brjálaðir yfir því að ekki varð af klámráðstefnunni á Hótel Sögu – en þeim sverja einmitt af sér kvenhatur með því að benda á hvað þeim þykir gaman að sjá þegar sæði er slett í andlit kvenna.

Þetta var ár kvenhatara. Mikið helvíti er gott að það er búið.

Efnisorð: , , , , , ,

föstudagur, desember 28, 2007

Eru konur á Vesturlöndum víti til varnaðar?

Ég var að lesa vangaveltur á bloggi um afhverju konur hefðu ekki haft kosningarétt í Grikklandi til forna. Bent var á að kannski væri ekki hægt að lá forn-Grikkjum fyrir að meina konum um kosningarétt – þær voru jú bara í þeirra huga barneignamaskínur - því hvernig er hægt að hugsa sér eitthvað fjarstæðukennt þegar það hefur aldrei verið til?

En nú, þegar konur hafa haft kosningarétt í nálægt hundrað ár í flestum löndum Evrópu og Norður-Ameríku og alveg frá 1893 í Nýja-Sjálandi (þar sem Helen Clark er nú forsætisráðherra) og hafa menntað sig, unnið úti, ferðast – hvernig getur múslimum þá ekki dottið í hug að konur í löndum islam hafi rétt til þess sama? Hvað er það sem þeir sjá svona slæmt við að konur séu forsætisráðherrar, háskólakennarar, eða bara aki eigin bíl til vinnu sinnar, hver sem hún er? Varla er það vegna þess að þeir haldi að þær geti ekkert af þessu, því það er búið að sýna fram á annað.

Eina skýringin er sú að þeir vilja ekki missa vald sitt yfir lífi kvenna. Þeir vilja ráða við hverja konur tala, hvernig þær klæða sig, hvað þær gera og hvert þær fara. Mæður, dætur, systur, eiginkonur, þeir vilja hafa þær allar undir sinni stjórn. Það eru sannarlega líka til kristnir karlmenn og reyndar karlmenn af öllum trúarbrögðum (trúlausir líka!) sem vilja ráða yfir konum á þennan hátt. (Og klámiðnaðurinn er ein leiðin til að halda konum niðri, en það er önnur hlið málsins sem ég ætla ekki að ræða að sinni).

Merkilega sterkt þetta afl sem leiðir karla áfram, löngunin til að ráða yfir öðrum. Þeir nota til þess hnúa og hnefa, hnífa og kjarnorkuvopn. Endalaust stríð gegn öllum í kringum sig. Auðveldustu fórnarlömb yfirgangssemi þeirra eru konur. Þær hafa ekki vöðvastyrkinn til að berjast og í mörgum löndum ekki ferðafrelsi til að fara, og þó þær færu – ekki fé eða neinn grundvöll til að byggja nýtt líf á. Mikið hlýtur þessum mönnum að líða vel, að hafa konur undir hælnum. Þær sem ekki vilja vera þar, þær eru drepnar.

Mikill er máttur karlveldisins og mikið ganga þeir langt til að viðhalda því.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, desember 27, 2007

Benazir Bhutto

Ég veit eiginlega fáránlega lítið um pólitík Benazir Bhutto og stjórnmál í Pakistan yfirleitt. En það sýnir að mínu mati ótrúlegan kjark að bjóða sig fram til opinbers embættis í þessu fjölmennasta ríki múslima. Andstaðan er svo augljós. Enda þótt hún hafi tvisvar áður verið forsætisráðherra hafa bókstafstrúarmenn sótt í sig veðrið þar sem annarstaðar. Hefði hún átt möguleika á að komast til valda aftur, eða hefðu þeir þá bara drepið hana strax í kjölfarið?

Ég held ekki að þó satt væri að herinn hafi staðið að morðinu, jafnvel með stuðningi eða eftir fyrirskipun forsetans, að það verði nokkurntíman sannað. Það eina sem er öruggt er að þeir sem drápu hana voru karlmenn, valdasjúkir eða hræddir við völd konu, skiptir ekki máli.

Efnisorð: , ,

Áhyggjulaus svefn

Vegna þess að ég var nú aðeins að hnýta í moggabloggið þá þarf ég líklega að ræða eitt af því sem fer einna mest í taugarnar á moggabloggurum en það er nafnlaus blogg. Öfugt við það sem þau halda, þá hefur aldrei verið talin siðferðileg skylda að blogga undir fullu nafni. Fjölmörg þeirra sem blogga erlendis búa í samfélagi þar sem skoðanir þeirra eru svo óvinsælar að þau gætu átt á hættu að missa vinnuna, fá ekki vinnu eða vera ofsótt af stjórnvöldum ef upp kæmist hver skrifar. Ófá eru einnig hrædd um öryggi sitt, t.d. í landi þar sem morð eru tíð og byssueign mikil, þar er ekki endilega óhætt að segja hvað sem er um nágranna sinn á blogginu. Sú krafa sem veður uppi á þessum nýja íslenska bloggvettvangi, að allir skrifi undir nafni hljómar því fáránlega í mínum eyrum.

Vissulega er hægt að segja mun svæsnari hluti þegar hvorki fylgir nafn né mynd en nýleg dæmi sanna að sumir þjóðþekktir bloggarar eru nógu mikil fífl til að hóta fólki á bloggi sínu, auk þess sem nú hefur sannast að hægt er að framvísa kennitölu hvers sem er þegar blogg er stofnað á moggablogginu (þannig mun forsetinn vera skráður fyrir einu blogginu). Það að gefa upp nafn segir því ekki alla söguna.

Um tíma gældi ég við það að nota nafnleysi mitt hér til að afhjúpa nöfn karla sem nauðga, karla sem ég veit að hafa nauðgað en hafa ekki verið dregnir fyrir dómstóla. Ég veit nöfn allnokkurra slíkra. En eftir því sem tímar líða finnst mér ólíklegra að ég láti það eftir mér. Og sannast sagna hef ég ekkert sagt hér sem ég myndi ekki þora að segja opinberlega. Hinsvegar langar mig ekki til að nafn mitt lendi á lista yfir konur sem eiga refsingu skilda að mati ógeða þessa lands, né eiga á hættu að fá símtöl frá slíku hyski eða heimsóknir. Nafnleysi getur líka verið nauðsynlegt.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, desember 25, 2007

Hjólhýsablogg

Ekki alls fyrir löngu stofnaði mbl.is til bloggsvæðis fyrir lesendur sína og til að vekja athygli á því voru fyrirsagnir og upphafssetningar valdra blogga sýndar á forsíðu fréttavefjarins. Þetta varð til þess að fólk, sem áður hafði ekki hugmynd um hvað blogg væri eða ef það vissi um tilvist þess þá vissi það ekkert hvar það var að finna, hafði alltíeinu aðgang að bloggfærslum bláókunnugs fólks – nú eða þá gamalla kunningja sinna. Til þess að geta lagt orð í belg urðu lesendur sjálfir að stofna blogg. Þetta er í sjálfu sér skemmtilegt, að fólk uppgötvaði blogg, en það fyrirbæri var þó löngu orðið til og margir Íslendingar blogguðu fyrir þennan tíma en voru ekki eins víðlesnir einfaldlega vegna þess að fjöldinn vissi ekki hvar þau var að finna því Blogspot, Livejournal, Wordpress o.fl. hafði ekki orðið á vegi þeirra fram að þessu.

En svo gerist það auðvitað að það leynist misjafn sauður í mörgu fé – og var svosem vitað í bloggheimum fyrir, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Inná milli slæddist t.d. fólk sem hafði andstyggilegar skoðanir á innflytjendum og öðrum útlendingum sem hér eru til lengri eða skemmri tíma vegna vinnu sinnar. Þeir sem framað því höfðu kannski ekki verið vissir um skoðanir sínar eða voru líka á móti innflytjendum fundu þarna sett í orð eitthvað sem þeir voru sammála og áður en varði bergmálaði útlendingahatrið á bloggsíðum. Þar gátu þeir sem eru vitlausari eða óskipulagðari lært að koma orðum að ógeðfelldum tilfinningum sínum, jafnvel lagt á minnið‘röksemdafærslur’ og tvíefldust því. Og því fleiri blogg sem svona fólk les þar sem það sér skoðunum sínum hampað því fleiri bætast í hópinn. Þetta á líka við um þá sem fóru að skrifa gegn feminisma, þeim óx ásmegin eftir því sem þeir sáu fleiri skoðanabræður sína básúna kvenhatur sitt.

Þetta er semsé formálinn að því sem ég er að reyna að koma orðum að vegna árásanna á feminista að undanförnu. Ég efast ekkert um að feministar eru hataðir vegna skoðanna sinna. Ég efast ekkert um að karlmenn hati þær, bæði þeir sem eru þekktir í fjölmiðlum vegna athyglissýki sinnar og þeir sem eru ekki þekktir, hvort sem þeir skrifa undir eigin nafni, nafnlaust eða skáldi upp persónur til að skýla sér bakvið. Mér hefur oft orðið um og ó vegna þess sem hefur verið skóflað inná athugasemdakerfi nafnkunnra feminista – kvenna sem hafa gert kvennabaráttunni ótrúlega mikið gagn og eiga allar þakkir skildar – og veður uppi á bloggsíðum víðsvegar. Og það er alveg rétt að sumar gefast upp, kikna undan álaginu, eða neyðast í það minnsta til að loka fyrir athugasemdir á bloggum sínum. En til þess er auðvitað leikurinn gerður, til að ógna feministum og þagga niður í okkur.

Sumt af þessu er sett fram í nafni ‘gríns’ og ‘fyndni’. Það á að vera fyndið að kalla konur hrikalegum ónefnum, ræða kynlíf með konum á mjög ógeðfelldan hátt sem bendir til þess að þær séu bara ílát með notkunarmöguleika. (Þetta á svosem líka við um fleira en blogg, stundum er þetta í gamanþáttum í fjölmiðlum). Og nýleg dæmi eru um að konum sé hótað nauðgun.

Stundum finnst mér tjáningarfrelsi vera fullkomlega ofmetið.

Mér var eitt sinn sagt að til þess að halda bjartsýni á lífið sé gott ráð að hætta að lesa blöðin. Ætli ég geri það ekki að áramótaheiti mínu að draga úr blogglestri, að minnsta kosti hætta að elta tengla á ókunnugar bloggsíður og forðast að lesa ný blogg ef ég sé karlmannsnafn skrifað fyrir því. Þá mun ég hætta að lesa mbl.is (við hliðina á fréttum má sjá fyrirsagnir bloggara sem gera oft andstyggilegar athugasemdir um ýmislegt sem tengist konum, kynbundnu ofbeldi og feminisma) auk þess að hætta að fylgjast með Blogggáttinni vegna fyrirsagnanna (sem oft eru af moggablogginu); þar sést þegar feministum er sendur tónninn.

Heimurinn versnaði kannski ekki í kjölfar moggabloggsins, en það varð skyndilega mjög áberandi hvað mikið er til af ógeðfelldu fólki.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, desember 23, 2007

Babbi segir, babbi segir

Í Fréttablaðinu í dag, á bls. 2, er stutt viðtal (líklega unnið uppúr fréttatilkynningu) við formann Félags um foreldrajafnrétti þar sem hann kvartar undan jólaósk Femínistafélagsins, þar sem Askasleikir óskar sér að karlar hætti að nauðga. Formaður Félags um foreldrajafnrétti segir jólaóskina ekki hafa hagsmuni barna að leiðarljósi og félagið skorar á Femínistafélagið að viðurkenna að óskin hafi verið mistök, hún sé óábyrg og smekklaus.

Undanfarið hafa bloggheimar logað af enn einni vandlætingunni á helvítis frekjunni í feministum, nú vegna þessarar jólaóskar (sem mér skilst að sé ekki raunverulegt jólakort og því sé engin hætta á að börn fái þau send eða yfirhöfuð sjái þau – nema í Fréttablaðinu, þar sem kortið/óskin er birt). Sumir æpa að það sé ósmekklegt að tengja nauðganir við jólin, aðrir einblína á að aðeins 98% nauðgana séu framdar af körlum og vilja þá auðvitað að talað sé um þessi 2%, svona eins og þegar þeim er bent á að allt að 90% kvenna í kynlífsiðnaðinum séu þolendur sifjaspella og annars kynferðisofbeldis, þá vilja þeir alltaf tala um þau prósent sem hljóti þá að vera einstaklega hamingjusöm í starfi. Mistök Femínistafélagsins eru að mati þessara karlmanna eru líka að segja ekki að óskin sé að örfáir karlmenn, algerar undantekningar bara en enginn karlmaður sem þeir myndu vilja þekkja sko, nauðgi kannski pínulítið og þeir eigi að að hætta því en það sé mikilvægt að benda á að KONUR verði að passa sig – eða eitthvað álíka.

Ég nenni ekki alveg að elta ólar við þær úthrópanir á feministum sem í gangi eru í bloggheimum, hafði ætlað mér að ræða þær í einhverju heildarsamhengi en ekki enn komið því í verk. Nú langar mig afturámóti að fjalla aðeins um þetta ‘nýja’ félag, Félag um foreldrajafnrétti, en af frétt/viðtali Fréttablaðsins í dag að dæma er þetta afar jafnréttissinnað félag með hagsmuni barna að leiðarljósi og ætti því að vega þungt í allri umræðu um velferð barna og jafnrétti okkar allra.

Í blöðunum 11. nóvember síðastliðinn var auglýsing um ráðstefnu um foreldrajafnrétti.* Athygli vakti að aðeins tvær konur voru auglýstar sem frummælendur – en venjan er sú að karlar halda sig víðs fjarri þegar talað er um foreldrahlutverk og uppeldi barna. Kom enda á daginn að Félag um foreldrajafnrétti er nýtt nafn á félagsskap sem lengi hefur heitið Ábyrgir feður, en það er félag sem hefur verulegt horn í síðu feminisma. Konur eru, samkvæmt Ábyrgum feðrum, til óþurftar í stjórnkerfinu og vinna gegn hagsmunum karla. Ábyrgir feður hafa mestar áhyggjur af meðlagsgreiðslum og þykir ósvinna að þurfa að borga með uppihaldi barna sinna. Þá er sjaldan eða ekki talað um hversu ábyrgir feður ættu að vera meðan þeir eru í sambúð með barnsmæðrum sínum heldur snýst barátta þeirra um yfirráð yfir börnunum eftir að sambúð er slitið. Það er sem þeim finnist eignarréttur þeirra sé aðalmálið en það sé nægilegt að eiginkonan sjái um börnin meðan hennar nýtur við, eftir það snýst allt um að merkja börnin sem sína eign.

Ábyrgir feður eru mjög uppteknir af og vísa oft í bandarískar rannsóknir sem sýna hve illa fer fyrir börnum sem alast upp án föðurs, en líta um leið algerlega fram hjá því að í Bandaríkjunum geta menn stungið af frá konu og börnum og sleppt því að borga meðlag (öfugt við það sem tíðkast hér á landi sér hið opinbera ekki um að hlaupa í skarðið fyrir þá). En þá eru þeir iðulega komnir til annarra ríkja og sjá því börnin ekki aftur. Börnin alast því upp við þröngan kost og algera höfnun af hálfu föðursins. Það er það sem kippir undan þeim fótunum svo stundum verður ekki aftur snúið; ekki að barnsmóðirin hafi verið svo grimm að leyfa ekki föðurnum að hitta börnin.

Einhverju sinni birti Morgunblaðið grein frá Ábyrgum feðrum og var þar vísað í einhverja rannsókn sem sýndi fram á að karlar væru hæfari til að ala upp börn en konur vegna þess að karlar hefðu meiri tekjur! Ójafnrétti í launamálum er samkvæmt því helsti kostur karlmanna í forræðismálum.

Um tíma fylgdist ég með umræðum á heimasíðu félags ábyrgra feðra, en nú er langt síðan henni var lokað nema fyrir þeim sem greiddu félagsgjöld. Umræðan þar var þá með slíkum hætti að það var félaginu síst til framdráttar, svo ég er ekki hissa að þeir vildu ekki að aðrir læsu kvenfyrirlitninguna sem þar óð uppi. Þar voru t.d. umræður um hvort konur mættu fara í fóstureyðingu án leyfis karla og hvort karlmenn ættu ekki að mega neita að borga meðlög með börnum sem þeir hefðu ekki getið viljandi, en peningamálin brunnu iðulega heitast á mönnum.

Nú siglir semsagt þessi félagsskapur undir merkjum jafnréttis. Vart er hægt að hugsa sér meiri öfugmæli.

__
* Á ráðstefnunni flutti forseti Íslands ávarp, félagsmálaráðherra talaði og tveir varaþingmenn. Þetta hljómaði semsagt allt mjög vel - í auglýsingunni.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, desember 12, 2007

Jólin og skólinn

Þar sem ég er nú farin að tala um trúleysi þá langar mig að reifa nokkur atriði sem er talað um af misjafnlega miklu viti á íslenskum bloggsíðum þessa dagana. Og nú er eins gott að ég taki fram að ég tala hvorki í nafni húmaníska félagsskaparins né vefsíðunnar um trúmál (ég vil síður skrifa heiti þeirra hér, enda grunar mig að félagsmenn séu mjög gjarnir að fletta upp í google öllum þeim sem nefna þá á nafn) enda er langt í frá að ég sé sammála talsmönnum þeirra um alla hluti.

Að sjálfsögðu á að hætta kristniboði í skólum, og á ég þá við hina ofuráherslu á Biblíusögur sem vitað er að margir kennarar beita í skjóli kristnifræðslu og líka því að talað sé um sögurnar úr Biblíunni sem sögulega staðreynd. Áherslan ætti alltaf að vera á að það sé verið að tala um lífstíl og skoðanir en ekki sögulegar staðreyndir. Öll trúarbrögð ættu að fá jafnstóran hlut í kennslunni, enda þótt saga kristni á Íslandi ætti að sjálfsögðu að vera rakin – en helst í tímum þar sem er verið að kenna sagnfræði á annað borð.

Að prestar séu að mæta í skóla eða leikskóla til að fá krakkana á sitt band ætti alveg að banna. Ef fólki finnst bann við því svona óskaplegt þá ættu múslimar, gyðingar, búddistar, mormónar, vottar Jehóva, Krossinn og Vegurinn og síðast en ekki síst róttækir trúleysingjar að fá að boða sína lífssýn jafn oft og jafnlengi. Spái að kristnir foreldrar sætti sig þá strax við að þjóðkirkjuprestarnir hætti að mæta í skólana.

Litlu jólin eru partur af þessu jólakjaftæði sem tengist kristinni trú. Þar eru sungnir söngvar um „barn oss fætt“ og Adam sköpunarsögunnar – svo ekki sé nú minnst á Tíu litla negrastráka sem eru sungnir við raust sumstaðar. Það er ekki sanngjarnt að börn sem eiga foreldra sem kvitta ekki upp á kristna trú þurfi annaðhvort að vera með í þessu (gegn lífsskoðunum foreldra sinna) eða sitja heima og missa af þessu atriði sem mörgum börnum þykir svo skemmtilegt að þau tala um það hálfan veturinn. Litlu jólunum tengjast gjafir og slíkt sem börnum þætti leiðinlegt að missa af og því ósanngjarnt að setja foreldra í þá stöðu að leyfa þeim ekki að vera með. Það á ekki að mismuna börnum eftir trúarskoðunum – fyrir nú utan að það er auðvitað alveg rétt hjá Richard Dawkins að það er fáránlegt að flokka börn eftir trúarskoðunum foreldra þeirra. Af þeirri ástæðu vil ég ekki að börn séu send í Landakotsskóla (kaþólikkar) eða Suðurhlíðarskóla (aðventistar). Hvað á það að þýða að heilaþvo börnin svo gjörsamlega að þau fái ekki að kynnast öðrum skoðunum en skoðunum foreldra sinna? Í öðrum grunnskólum eru þó börn af ýmsum uppruna og frá allskonar heimilum.

Föstudagsmorguninn 7. desember steig alþingismaður sem jafnframt er prestur í pontu Alþingis og kvartaði undan því að kristilegt siðgæði eigi ekki lengur að kenna í skólum en bara umburðarlyndi, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.* Ég bjóst við að hann segði að þetta væri nú allt innifalið í kristilegu siðgæði og því væri það bara orðalagið sem færi fyrir brjóstið á honum en nei, hann minntist ekkert á það. Hinsvegar vildi hann bæta við orðinu ‘kærleikur’ og þá líklega á þeim forsendum að kristilegt siðgæði byggðist á kærleika. Við hin, sem erum trúlaus, teljum okkur alveg örugglega jafn fær um kærleik eins og þau sem þykjast hafa einkarétt á honum í nafni kristilegs kærleika. Auk þess held ég að þjóðkirkjan með biskup í broddi fylkingar og Gunnar í Krossinum sem háværan á kantinum hafi alveg afsannað fyrir okkur hinum að boðskapur þeirra í málefnum samkynhneigðra byggist á kærleik.

___
*Áður var semsagt í grunnskólalögum frá árinu 1974 að: „Kristilegt siðgæði eigi að móta starfshætti skólans.“ En nú á, gangi þessi breyting eftir, er hugtakið kristilegt siðgæði tekið út og í staðinn sagt að „umhyggja og sáttfýsi og virðing fyrir manngildi eigi að móta skólastarfið.“

Efnisorð: , ,

mánudagur, desember 10, 2007

Guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól

Hvernig stendur á því að yfirlýstir trúleysingjar halda jól, spurði einhver á bloggsíðu sem ég var að lesa. Þetta er ansi góð spurning enda hljómar það hálf ankannalega í eyrum flestra að aðilar sem gagnrýna kristna trú frá öllum mögulegum hliðum setjist svo niður á ammælisdegi leiðtoga kristinna og fagni með. Án þess að ég hafi fyrir því neinar tölulegar staðreyndir þá held ég að ég geti fullyrt að þau sem skilgreina sig sem trúlaus séu flest alin upp í samfélagi þar sem kristin trú er ríkjandi, eins og t.d. hér á Íslandi. Það þýðir að þau hafa alltaf fengið frí í skóla og frá vinnu í kringum jólin og þá hefur fjölskylda þeirra safnast saman til að hittast og snæða saman (kökur eða mat eftir atvikum, oftast bæði eins og flest verða vör við á vigtinni í janúar). Og það er mjög mikilvægt að átta sig á að trúlaust fólk á sér fjölskyldu sem er ekki endilega trúlaus og aðra ættingja sem halda jól og það væri í flestum fjölskyldum talið bera vott um óvirðingu við fjölskylduna ef fólk neitaði að mæta í jólaboð eða gefa t.a.m. systkinabörnum sínum gjafir. Þannig að trúlaust fólk á ekki margra kosta völ: annaðhvort gefur það skít í fjölskyldu sína með tilheyrandi afleiðingum eða það tekur þátt í Hrunadansinum.

Mörg skilgreina því jólin upp á nýtt – eða ölluheldur leita aftur í aldir og ákveða að þau séu að halda upp á að daginn sé farið að lengja, þ.e.a.s. vetrarsólstöður. Mér þykir þetta afar skiljanlegt, því þótt trúlaust fólk sé gagnrýnið á það hvernig kristni er haldið að okkur frá vöggu til grafar, þá lifa trúlaus í samfélagi við annað fólk og þarf að gera málamiðlanir, ekki síst innan eigin fjölskyldu. (Þetta hljóta feministar að skilja, því við sem erum stöðugt að gagnrýna karlveldið þurfum stundum að spila með. Þannig þarf þingmaður sem gagnrýnir að konur beri titilinn ‘ráðherra’ nú samt að ávarpa kvenráðherra með þeim titli, annars væri hún að brjóta gegn reglum Alþingis.)

Annars fara jólin í taugarnar á fleirum en trúlausum. Sumum leiðast jólin, láta þau fara í taugarnar á sér, finnst þeim fylgja allt of mikið umstang og bruðl og tauta jafnvel að nær væri að sleppa öllu þessu rugli. Ef allt þetta fólk sleppti því að halda jól væri fróðlegt að vita hve mörg myndu í rauninni halda jól. Trúlausa fólkið er ekki einu ‘hræsnararnir’.

Efnisorð: ,

föstudagur, desember 07, 2007

Hvataferðir

Nú býður Benedikt páfi þeim sem fara pílagrímsför til Lourdes næsta árið að tími þeirra í hreinsunareldinum verði styttur – enda verði allar syndir þeirra fyrirgefnar skreppi þeir til þessa helga staðar, sem líklega nýtur ekki nægilegrar hylli að mati páfa.

Ég held að þetta verði mjög vinsælt og næsta árið muni Lourdes vera vel sótt af barnaníðingum kaþólsku kirkjunnar sem koma munu til að fá netta fyrirgefningu – og svo auðvitað að efla tengslin við bræður sína í andanum.

Mikið er nú gott hjá páfa að koma með þessa lausn. Allir græða!

Efnisorð:

laugardagur, desember 01, 2007

Er Ríkissjónvarpið fyrir okkur öll eða bara karla sem þola ekki kerlingavæl?

Auðvitað á ekkert að tala við konur nema um þeirra sérstöku áhugamál. Matseld og barnauppeldi, eru það ekki það sem þær tala mest um. Æ, feministar, þær eru nú ekki almennilegar konur. Eru ekki feministar alltaf að tala um jafnrétti og klám og svoleiðis? Þá er auðvitað bara talað við þær um klám og jafnrétti, ja svona þegar það er gert að umtalsefni á annað borð (en þess þá auðvitað gætt að hafa einhvern eindreginn andstæðing feminista í öllum málum á móti þeim, það er nefnilega svo miklu meira gaman að rifrildum en rökræðum). Það er alger óþarfi að kalla til einhverja feminista þegar er verið að tala um utanríkismál (nema þessa einu sem beinlínis hefur þau á sinni könnu í ríkisstjórn) eða sjávarútvegsmál, eða skipulagsmál, efnahagsmál o.s.frv. Það kemur auðvitað ekkert feministum við, því varla eru konur að vinna við sjávarútveg eða kemur þeim við efnahagsstefna, vaxtaokur bankanna og skipulagsmál í borginni þar sem þær búa?

Þetta er eins og með heyrnarlausa. Alveg nægir þeim að það sé settur texti við fréttir sem fjalla um málefni heyrnarlausra (og svo nægir þeim að hafa sér fréttatíma klukkan 17:20 á daginn, þau þurfa ekkert myndskreyttar fréttir eða sjá viðtöl eða svoleiðis, hafa örugglega ekkert gaman að því, þau eru svo öðruvísi en við). Hafa þau hvorteðer nokkurn áhuga á neinu sem kemur ekki beinlínis þeim sjálfum við? Aldrei koma þau í sjónvarp til að tala um neitt annað – þessvegna getur ekki verið að þau hafi áhuga á að ræða hvað verður um skattanna þeirra eða hvernig haga eigi trúarbragðakennslu í skólum eða hvort orkufyrirtæki í eigu sveitarstjórna eigi að vera í útrás. Heyrnarlausir hafa nefnilega bara áhuga á að horfa á fréttir og taka þátt í þeim þegar einhver þeirra er að pata eitthvað útí loftið. Svona eins og feministarnir. Þær koma bara í sjónvarp til að kvarta yfir klámi, og eru þær þá ekki sáttar við það?

Í framhaldi af þessu má nefna að tveir karlmenn skrifuðu í Fréttablaðið í dag (en karlar mega hafa áhuga á hverju sem þeir vilja og segja skoðun sína hvar og hvenær sem er) um það hvort konur, þ.e.a.s. feministar, eigi að fá að tala í sjónvarpi og hvort þær megi kvarta yfir því að fá minna að tala í sjónvarpi en þær vilja. Ég verð að segja að Sverrir Jakobsson hélt algerlega stöðu sinni í mínum huga en afturámóti hrapaði Þorsteinn Joð verulega í áliti hjá mér.

Efnisorð: , , ,