mánudagur, apríl 30, 2018

Stutt og hvalgott mánaðamótauppgjör

Leiðtogafundur á landamærum Norður-Kóreu og Suður-Kóreu
Tvær kenningar um sögulegan leiðtogafund Kim Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu og Moon Jae-in forseta Suður-Kóreu og (sem smullu svo vel saman að það mætti kalla þá Kimoon eða Moonkim).

Sú fyrri og krúttlegri er sú að kjarnorkuárásahótanir Kim Jong-un hafi verið athyglisleit einmana barns sem kunni sér ekki hóf í frekju, en þegar einhver sýnir honum vinsemd bráðni hann sem smjör og vilji ekkert frekar en eiga von á fleiri skemmtilegum stundum saman. Er meira segja til í að henda dótinu sem hann lék sér að áður.

Hin kenningin er sú að saman séu þeir Moon og Kim að undirbúa árás á Japan.

HVAL! HVAL! HVAL!
Hvalveiðiskip Kristjáns Loftssonar verða sendar á langreyðaveiðar í sumar, eftir 2ja ára veiðihlé. Markmiðið er að drepa 209 langreyðar, alveg burtséð frá möguleikanum á að koma kjötinu í verð, og í trássi við alþjóðasamfélagið. Yfirskin veiðanna er „rannsóknir á möguleikum þess að nýta langreyðarkjöt í járnríkt fæðubótarefni fyrir fólk sem þjáist af blóðleysi, auk þess sem gelatín úr beinum og hvalspiki verður nýtt til lækninga og í matvæli.“

Jóhann S. Bogason gagnrýnir í Kjarnanum þessar fyrirhuguðu hvalveiðar:
„Kristján Loftsson milljarðamæringur vill skjóta hvalina með sprengiskutlum. Til að breyta þeim í fæðubótarefni. Með sprengiskutlum! Þegar skutullinn lendir í spendýrinu þá springur hann. Þetta er ekkert annað en villimannsleg og viðurstyggileg aðferð til að bana spendýri. Hvaða bjánar telja réttlætanlegt að skjóta spendýr með sprengjum? Hvaða veiðimaður myndi stæra sig af því að skjóta hreindýr með sprengjuskutli? Kristjáni Loftssyni er einfaldlega skítsama. Hann á ógrynni af seðlum. Hann vill bara sprengja hvali. Sprengja þá í tætlur fyrir „fæðubótarefni“.“
Valgerður Árnadóttir skrifaði í Stundina um „Typpi, hvali og Kristján Loftsson“ og segir þar:
„Kristján Loftsson eigandi Hvals hf. hætti veiði á hval 2016 vegna þess að hann sat uppi með fryst hvalkjöt að verðmæti 3,6 milljarða. Hversu marga hvali drap hann með kvalarfullum hætti sem hann gat svo ekki selt? Kristján breytti hvalkjötinu í hvalmjöl og óskaði eftir leyfi frá Matvælastofnun að fá að selja það til dýrafóðurs en fékk synjun, hann kærði synjunina og fékk svo aftur endanlega synjun því hvalmjölið þótti ekki hæft í dýrafóður.
Kristján Loftsson dó þó ekki ráðalaus heldur fékk hann undanþágu hjá Sigurði Inga Jóhannssyni þáverandi umhverfis- og auðlindamálaráðherra til að brugga bjór úr hvalmjölinu. Mjöl sem áður var hafnað sem dýrafóður. Verði ykkur að góðu sem fenguð ykkur hvalbjór óafvitandi. Í hvaða öðru landi myndi ráðherra taka fram fyrir hendurnar á Matvælastofnun með þessum hætti?
Kristján Loftsson og velvild í hans garð heldur áfram því honum tókst að fá Nýsköpunarsjóð og Háskóla Íslands til liðs við sig og saman hófu þau vöruþróun á fæðubótarefni með þeim tilgangi að bjarga fólki sem þjáist af blóðleysi.
[…]
Morgunblaðið, málgagn Sjálfstæðisflokksins kynnir Kristján Loftsson til leiks eins og einhvern bjargvætt sem ætlar að leysa mest aðkallandi vanda þriðja heimsins í dag, eins og hann sé allt í einu að veiða hval í góðgerðaskyni. Ætlar Kristján Loftsson semsagt að gefa þróunarlöndum þetta fæðubótarefni? Og hvernig ætlar hann þá að flytja það til þeirra þegar ekki má sigla með hráefni úr hval um lögsögu fjölmargra ríkja og þegar afurðirnar eru í ofanálag bannaðar allstaðar nema í Noregi og Japan? Ekki einu sinni þriðja heims ríki vilja þiggja þetta fæðubótarefni.
[…]
Þessi farsi er svo absúrd að ég á erfitt með að trúa því að HÍ, Nýsköpunarsjóður, Morgunblaðið og Ríkisstjórn Íslands séu að taka þátt í honum.“
En aftur að hvalveiðunum sjálfum. Já og Kristjáni auðvitað, okkar eigin Ahab skipstjóra sem skal elta og drepa hvali(nn) fram í rauðan dauðann, haldinn sjúklegri þráhyggju. Ole Anton Bieltvedt skrifaði einmitt grein með yfirskriftinni „Á þráhyggja eins manns að ráða för?
„Hvalveiðar hafa verið bannaðar frá 1986 – þó Íslendingar, Norðmenn og Japanir hafi þráast við að hlíta banni – og er sala á hvalkjöti og öllum afurðum hvala bönnuð um allan heim, að undanskildum nefndum 3 löndum, skv. „Samningi um alþjóðaverzlun með tegundir í útrýmingarhættu“, nefndur CITES, en árið 2016 höfðu 186 þjóðir heims, þ. á m. Ísland, staðfest þennan samning.

Eru veiðiáformin réttlætt með því, „að vonir séu um að dregið verði úr innflutningshindrunum í Japan sem er helsta markaðsland hvalaafurða“, eins og segir í frétt í Morgunblaðinu, og, enn fremur: „Þá eru bundnar vonir við að hægt verði að þróa aðferðir til að vinna fæðubótarefni úr langreyðarkjöti?…“.

Hér á sem sagt að murka líftóruna úr allt að 209 langreyðum, en langreyðurin er næststærsta núlifandi dýrategund jarðar, út á VONIR.
[…]
Hvernig ætti líka að vera hægt að reka friðsama hvalaskoðun, dýrunum til dýrðar, annars vegar, og, hins vegar, murka úr þeim líftóruna, með hörmulegum og kvalafullum hætti?

Kristján Loftsson og bandamenn hans, utanríkisráðherra og sjávarútvegsráðherra, réttlæta veiðileyfi með því, að hvalveiðar hafi verið hér við lýði, en samt hafi ferðamannastraumurinn aukist. Þetta er villandi eða alröng tilvitnun, því hvalveiði hefur að mestu legið niðri síðustu ár, auk þess, sem ferðamenn munu gera á því mikinn greinarmun, hvort tveir tugir hrefna, smáhvela, eru veiddir, eða á þriðja hundrað stórhveli; næststærsta dýrategund jarðarinnar.“
Kristján Loftsson kemur líka við sögu í fréttum um kaup Brims á öllum hlutum hans í HB Granda. Kristján fékk 21,7 milljarð úr viðskiptunum og getur leikið sér að drepa hvali lengi lengi fyrir þann pening. En semsagt, aftur að kaupum Brims. Í Markaðnum 25. apríl var ítarlega fjallað um þessi viðskipti, og að auki skrifaði Stjórnarmaðurinn (nafnlaus penni blaðsins) pistil um málið:
„Eftir yfirtökuna eiga fyrirtæki tengd Brimi ríflega fimmtung alls kvóta í landinu. Athyglisvert verður að sjá hvað bæði Fiskistofa og Samkeppniseftirlitið hafa um kaupin aðsegja: Fiskistofa um það hve stór hluti kvótans safnast þarna á sömu hönd, og Samkeppniseftirlitð um hvernig svo viðamikið ítök í sjávarútvegi samræmist samkeppnis reglum.“
Fimmtungur alls kvóta í landinu, jahá. Viðamikil ítök í sjávarútvegi þýða jafnframt ítök í stjórnmálaflokkum og þarmeð stjórn fiskveiða, ákvörðun auðlindagjalds, svo fátt eitt sé talið. Viljum við að Guðmundur í Brimi hafi svo mikil völd?

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, apríl 26, 2018

Fréttir af þingmálum

Forsíðufrétt Fréttablaðsins tilkynnir að umskurðarfrumvarpinu verði vísað frá, og Silja Dögg Gunnarsdóttir segir að það geti verið heillavænlegt fyrir frumvarpið því allsherjar- og mentamálanefnd muni vísa því áfram til ríkisstjórnarinnar. Ekki deili ég bjartsýni hennar.

Hinsvegar varð annað þarft frumvarp loksins að lögum í dag. Frumvarp um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir hét það í meðförum Alþingis en er betur þekkt sem NPA frumvarpið, og snýst um notendastýrða persónuleg aðstoð.

Svona hljóðar kaflinn um markmið laganna (lokaskjal er ekki tiltækt en þetta er úr þingskjali þegar frumvarpið var lagt fram 15. desember 2017):
Markmið laga þessara er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði.
Þjónusta samkvæmt lögunum skal miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð o.fl.
Við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja að fatlað fólk, þ.m.t. hagsmunasamtök þess, hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þess. Skal ákvarðanataka byggjast á viðeigandi aðlögun þar sem aðgerða er þörf svo að fatlað fólk fái notið réttinda sinna. Þegar fötluð börn og fjölskyldur þeirra eiga í hlut skal einnig framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögum samkvæmt.

Í frétt Ríkisútvarpsins er dregið fram að „frumvarpið er afrakstur áralangrar vinnu og áratuga baráttu fatlaðra fyrir réttindum sínum“.

Vísir bætir við að „Landssamtökin Þroskahjálp hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þessari lagasetningu er fagnað því að með henni eru margvísleg mannréttindi fatlaðs fólks mun betur tryggð en í núgildandi lögum“.

Hér er ástæða til að samgleðjast.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, apríl 23, 2018

Fjölskyldutengsl stöðva ekki karla

#Metoo sögur kvenna sem hafa orðið fyrir andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi í nánu sambandi eða af hálfu ættingja voru birtar í dag.

Allar 52 reynslusögurnar má lesa hér. Viðvörun: þetta er einstaklega erfið lesning.

Það ætti að vera hætt að koma mér á óvart hvað karlmenn geta verið viðbjóðslegir. En mikið djöfull sem karlmenn geta verið viðbjóðslegir.___
[Viðbót] Magnús Guðmundsson skrifaði mjög góðan leiðara um þetta og segir meðal annars:
„Karlmenn sem beita konur ofbeldi eru ömurleg lítilmenni og rót vandans. Þeir eru vírusinn sem þarf að uppræta og það verður ekki gert með þeim vettlingatökum sem löngum hafa einkennt málaflokkinn. Til þess hljótum við að þurfa að horfa til hertra refsiheimilda og ekki síður lögbundinnar fræðslu fyrir þessa einstaklinga með það að markmiði að þeir geri sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna og snúi lífi sínu til betri vegar. Slíkar aðgerðir þola enga bið því hér geisar faraldur.“

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, apríl 22, 2018

Skáldastyrkir árið 1918

Allt þetta ár hefur Ríkisútvarpið daglega flutt örstutta þætti um líf Reykvíkinga á fullveldisárinu 1918.* Þetta er eitt sögulegasta ár síðustu aldar: frostavetur, eldgos, mannskæð inflúensa, fullveldi.** En þar sem þetta er upplestur úr bréfum, dagbókum, auglýsingum og þessháttar þá ber fleira á góma en þessir stórviðburðir. Þættirnir sem bera heitið R1918 varpa þannig ljósi á hugarheim og iðju hárra sem lágra.

Í einum þáttanna er lesin upp*** tilkynning frá stjórnarráðinu um skáldastyrk til skálda og listamanna. Þar eru þessir taldir upp sem styrkhafar (þeirra tíðar starfslauna listamanna) árið 1918.

Einar H. Kvaran rithöfundur
Einar Jónsson myndhöggvari
Guðmundur Magnússon rithöfundur [Jón Trausti]
Guðmundur Guðmundsson skáld [skólaskáld]
Jóhann Sigurjónsson rithöfundur [og leikskáld]
Valdimar Briem vígslubiskup***
Guðmundur Friðjónsson skáld
Jakob Thorarensen skáld
Sigurður Heiðdal sagnaskáld [fyrsti forstöðumaður á vinnuhælinu Litla-Hrauni]
Ásgrímur Jónsson málari
Jóhannes Kjarval málari
Ríkharður Jónsson myndasmiður.

Ekki eru nöfn allra þessara karla jafn kunnugleg***** en margir þeirra eru aftur á móti enn mjög þekktir og teljast meðal fremstu manna á sínu sviði enn þann dag í dag. Mættu fávísir menn sem mæla gegn opinberum fjárstyrkjum eða listamannalaunum íhuga þennan nafnalista og velta fyrir sér hvort þessum fjármunum hafi verið á glæ kastað.


___
* Hver þáttur er örstuttur, yfirleitt rúm mínúta, og enginn nær fullum þremur mínútum að lengd.

** Frostaveturinn hófst fyrir alvöru í janúar 1918. Kötlugosið hófst laugardaginn 12. október og því lauk mánudaginn 4. nóvember. Á meðan á gosinu stóð stakk spænska veikin sér niður, í lok október. Á Íslandi dóu á sjötta hundrað manns úr veikinni, rúmlega helmingur í Reykjavík. Þar lést fyrsti inflúensusjúklingurinn föstudaginn 1. nóvember og næstu vikur var bærinn í greipum dauðans. (Vísindavefurinn).

*** Á vefsíðu þáttarins eru lesarar hvers þáttar af R1918 kynntir (Reykvíkingar dagsins í dag ljá Reykvíkingum frá árinu 1918 rödd sína og lesa valda texta frá því ári), sú sem les Skáldastyrk heitir Kristín G. Ísfeld og er kennari á eftirlaunum.

**** Valdimar Briem vígslubiskup fékk sennilega ekki styrk í nafni embættis síns enda er það hann sem orti meðal annars Nú árið er liðið, Í Betleheim er barn oss fætt, og Kallið er komið sem er númer 271 í Sálmabókinni og er oft í minningagreinum merkt höfundinum sem Vald.Briem. eða V. Briem.

***** Tenglar við nöfnin vísa á frekari upplýsingar um styrkþegana. Þeir voru á aldrinum 30-70 ára, tveir þeirra létust úr spænsku veikinni: Guðmundur Magnússon (Jón Trausti) í nóvember 1918 og Guðmundur skólaskáld í mars árið eftir.

Efnisorð:

fimmtudagur, apríl 19, 2018

Sumardagurinn fyrsti

Skáldið Jóhann Gunnar Sigurðsson væri líklega öllum gleymdur ef Skólaljóðanna nyti ekki við. Þar er sagt frá því að hann hafi fæðst 1882 og alist upp á Snæfellsnesi en síðar tekið stúdentspróf og sest á skólabekk í prestaskólanum. „En þá veiktist hann af berklum, og dró það hann til dauða á skömmum tíma aðeins 24 ára gamlan. Flest beztu kvæði sín yrkir Jóhann, eftir að honum er ljóst, að hann á skammt ólifað.“
VORKVEÐJA
Ég veit þú ert komin, vorsól.
Vertu ekki að fela þig.
Gægstu nú inn um gluggann.
Í guðs bænum kysstu mig.

Þeir eru svo fáir aðrir,
sem una sér hjá mér.
Já, vertu nú hlý og viðkvæm.
Þú veizt ekki, hvernig fer.

Því það er annað að óska
að eiga sér líf og vor
en hitt að geta gengið
glaður og heill sín spor.

Já krakkar mínir, það þarf ekki alltaf að vera hopp og hí þótt það sé sumardagurinn fyrsti.

Efnisorð:

þriðjudagur, apríl 17, 2018

Trúfélög ræða umskurð drengja (aðrir mannréttindi barna)

Það er ekki fullt út úr dyrum á ráðstefnu Samráðsvettvangs trúfélaga og lífsskoðunarfélaga um umskurð drengja. Hefði ég vitað það fyrirfram hefði ég mætt á staðinn. Í staðinn fylgist ég æsispennt með streymi frá ráðstefnunni.

Ólafur Þór Gunnarsson læknir, sem er einn þeirra þingmanna sem lagt hafa frumvarpið fram, var fyrstur í ræðustól og kom með öll hin bestu rök í málinu. Ekki er víst að allir ræðumenn muni ræða af jafn mikilli skynsemi.

En nú þarf ég að einbeita mér að ræðu Salvarar Nordal.

Meira síðar.


Rétt í þessu:
Sænski rabbínin að tala. Segir Íslendinga öðruvísi en aðrar Norðurlandaþjóðir, og nefnir hlaðið grjót sem hún sá á leiðinni frá flugvellinum til Reykjavíkur. Ekki er ljóst hvort hún átti við vörður eða furðulegu skúlptúrana sem spruttu upp fyrir nokkrum árum. Var hún að giska á að þetta væru trúarleg tákn eða laug því einhver í hana? Ég er aldeilis hlessa.

Endalaust hamrað á því að bann við umskurði gangi gegn trúfrelsi. Fólk hafi rétt á að ala upp börn í trú; einsog það sé ekki hægt án þess að skera af þeim líkamsparta? Og eru þá stúlkur ekki aldar uppí neinni trú úr því ekkert er krukkað í þær? Meira ruglið.

Sveinn Svavarsson talaði fyrir hönd Intact Iceland, samtaka gegn umskurði. Hann eins og margir aðrir þurfti að tala hratt enda mælendaskrá löng og tíminn stuttur. En hafi mér ekki misheyrst því meir, var ég sammála öllu sem hann sagði.

Skellti hinsvegar uppúr þegar lesin voru upp skilaboð frá kaþólsku kirkjunni (sá sem átti að tala missti af fluginu) og þar var því haldið fram að kaþólska kirkjan hefði velferð barna í huga.

En já, allt trúaða liðið stendur saman, og í miðjum sal situr Agnes biskup. Öss.

Nú hefur fólk utanúr sal tækifæri til að tjá sig eða spyrja.

Bandarískur gyðingur er fyrstur í pontu til að styðja bannið. Mikilvæg rödd.

Ónei, Jón Valur Jensson. Segir eitthvað um að þótt kristnir stundi ekki umskurð banni Nýja testamentið það ekki. Þetta er punktur sem hann dregur ekki fram þegar hann ræðir fóstureyðingar. Hann er farinn að æpa.

Loka-lokaorð flutti einhver sem var óskaplega glaður með þetta samtal ólíkra trúarbragða. Það má svosem taka undir það (fyrir utan að þau voru ekki ósammála um neitt svo þetta tók varla mikið á). En úr því þau eru svona góðir vinir — er þá ekki næsta skref að þau leysi málefni Palestínu/Ísrael?

Hér lýkur því sem varð óvart bein lýsing á beinni útsendingu.

__
[Viðbót] Frétt og myndskeið frá ráðstefnunni.

Efnisorð: , ,

laugardagur, apríl 14, 2018

Engar áhyggjur, við erum bara að safna persónulegum gögnum um þig

Æsingurinn yfir misnotkun á persónulegum gögnum facebook-notenda er svosem skiljanlegur. Ýmsar leiðbeiningar gefnar út fyrir fólk svo að ekki sé hægt að safna gögnum þess, og sumum finnst öruggast að hætta bara allri notkun samfélagsmiðla og snjallsíma. Eða íhuga það.

En á sama tíma er í gangi rannsókn á áfallasögu íslenskra kvenna, þar sem skilyrði fyrir þátttöku er að Íslenskri erfðagreiningu sé að auki gefinn aðgangur að lífsýnum. Semsagt bæði sögur um erfiðar persónulegar upplifanir og lífsýni látin í té til sömu aðila.

Engar áhyggjur um að neitt af þessu verði misnotað eða lendi í röngum höndum, aldrei?


fimmtudagur, apríl 12, 2018

Hanyie og Abrahim Maleki hólpin

Gleðitíðindi:

Afgönsku feðginin Hanyie og Abrahim Maleki hafa fengið stöðu flóttafólks á Íslandi en Útlendingastofnun staðfesti stöðu þeirra á fundi í dag.

Vísir rifjar upp mál þeirra:
Hanyie og Abrahim komu hingað til lands í desember 2016. Þar áður höfðu þau verið á flótta og bjuggu m.a. í Íran, Tyrklandi, Grikklandi og Þýskalandi. Haniye fæddist í flóttamannabúðum í Íran árið 2005 og er ríkisfangslaus ... Mál feðginanna vakti mikla athygli í sumar en þá var haldin afmælisveisla fyrir Haniye á Klambratúni. Á þeim tímapunkti stóðu feðginin frammi fyrir því að vera send úr landi en í september síðastliðnum var brottvísuninni frestað. Þá var einnig samþykkt frumvarp á Alþingi um breytingar á útlendingalögum, sem fólu meðal annars í sér breytingar á dvalarleyfum í tilfelli barna, og í október var feðginunum tilkynnt að mál þeirra yrði tekið til efnismeðferðar.“
„Útlendingastofnun úrskurðaði í fyrra að þeim yrði vísað úr landi þrátt fyrir að Haniye, sem er ellefu ára, sýndi alvarleg einkenni áfallastreituröskunar og geðlægðar eftir flóttann.“ (RÚV)
Og nú er semsagt niðurstaðan komin.

En eins og þarna segir þá vakti mál feðginanna mikla athygli — ekki síst vegna þess að fjölmiðlar fylgdust með því.

Áslaug Karen Jóhannsdóttir blaðamaður Stundarinnar skrifaði áhrifamikla grein um hælisleitendur sem biðja fjölmiðla um umfjöllun, því þeir vita að ef birtast við þá viðtöl þar sem þeir segja frá öllu því erfiðasta sem fyrir þá hefur komið á lífsleiðinni, verður þeim síður vísað úr landi.
„Fólk hefur berskjaldað sig algjörlega fyrir þjóðinni, þó svo að fæstir kjósi að fara þá leið, og fengið ríkisborgararétt að launum.“
Blaðamaður nefnir tvö mál, þar af annað mál feðginana Abrahim og Hanyie:
„Í þessum tveimur tilvikum gripu stjórnvöld í taumana með umdeildri, tímabundinni lagasetningu eftir að fjölmiðlar vöktu athygli á málunum. Við vitum hins vegar að á sama tíma voru á landinu aðrar barnafjölskyldur í jafn viðkvæmri stöðu, en lagabreytingin náði ekki utan um mál þeirra, enda treystu þær sér ekki í fjölmiðlaviðtöl.

Það er ósanngjarnt að fjölmiðlar virki eins og þriðja áfrýjunarvaldið í málum hælisleitenda. Það er ósanngjarnt að þú þurfir að berskjalda þig gjörsamlega til þess að tekið sé á málinu af mannúð“.
Áslaug Karen bendir einnig á að fæstir hælisleitendur treysti sér í slík viðtöl þar sem slík umfjöllun sæti oft mikilli gagnrýni þar sem farið er hörðum orðum um hælisleitendur. Engu að síður eru fjölmiðlar „í augum margra hælisleitenda þriðja áfrýjunarvaldið í málum þeirra“.

Þessvegna eru Abrahim Maleki og Hanyie dóttir hans nú hólpin.

Takk íslenskir fjölmiðlar sem talað hafa máli hælisleitenda.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, apríl 08, 2018

Agnar krefst fyrir mína hönd

Mikið er það fantafín kröfugerð sem Agnar Kristján Þorsteinsson leggur fram á Stundinni í dag.

Ég krefst þess að alþingi biðjist afsökunar á fyrirlitlegri framkomu Njáls Trausta Friðbertssonar, Pawel Bartoszeks, Hildar Sverrisdóttir og Haraldar Benediktssonar í garð fórnarlamba Róbert Downeys þegar þau gengu út af fundi stjórnskipunar- og eftirlitnefndar. Ég krefst þess einnig að alþingi biðjist afsökunar á tilraunum Áslaugar Örnu Sigurbjarnardóttir þegar hún reyndi að koma í veg fyrir að þingmenn myndu spyrja dómsmálaráðherra frekar út í mál Róbert Downeys.

Öllu er ég sammála sem hann segir, en áttaði mig á að ég hafði næstum alveg gleymt þessu.

Takk, Agnar fyrir að rifja þetta allt upp, takk fyrir að vera reiður og koma því í orð.

Efnisorð: , , , , , , ,

mánudagur, apríl 02, 2018

Mannasiðir

[Ath: Hér á eftir verður kjaftað frá hvernig myndin endar]

Ákvað að segja ekkert eftir fyrri hluta Mannasiða sem var á dagskrá Ríkissjónvarpsins í gær (svo er líka góð regla að birta ekkert sem máli skiptir 1. apríl). Nú er búið að sýna seinni hlutann og ég get andað léttar.

Mér leist satt að segja ekkert á þegar ég sá Mannasiði á dagskrá — hélt að ætti að fara að sýna eitthvað bjakk eftir Egil Gillz Einarsson. En dagskrárlýsingin upplýsti að myndin væri eftir Maríu Reyndal en þessi lýsing vakti mér einnig ugg í brjósti:
Íslensk mynd í tveimur hlutum um menntaskólanema sem er ákærður fyrir að nauðga skólasystur sinni. Hann neitar sök en á sér ekki viðreisnar von innan veggja skólans þar sem stúlkan á sterkt stuðningsnet. En þegar stúlkan mætir í viðtal á sjónvarpsstöðinni þar sem mamma hans vinnur tekur sagan óvænta stefnu.
Ok, ég skal ekkert segja of mikið, en ég er augljóslega ekki jafn súr og þegar ég hélt að þarna ætti að færa nauðgaraverjendum vopn í hendur.

Má líka til með að hrósa öllum leikurunum, þetta var virkilega vel gert.

Best er auðvitað að svo gæti farið að aðdáendur Gillz horfi óvart á myndina fyrir misskilning. Því hefðu þeir gott af.Efnisorð: , , ,