laugardagur, mars 31, 2018

Marsmánuður 2018

Hér er fyrst áríðandi tilkynning. Mánaðamótauppgjör fyrir janúar og febrúar hefur loksins verið birt. Afsakið töfina, tæknin var eitthvað að stríða okkur.

Kjarninn hefur gert oss stórgreiða með því að fara yfir helstu mál ársfjórðungsins. Í þeirri röð sem yfirlitin hafa birst:
1) Órói á vinnumarkaði
2) Vantraust á dómsmálaráðherra
3) United Silicon verður gjaldþrota og grunur um glæpi


Tekur þá við eigin samantekt að hætti bloggsins.

Valdakall hrökklast frá völdum
Spillingarmál felldu Zuma forseta Suður-Afríku. Suður-Afríska þjóðarráðið krafðist þess að hann segði af sér en hann þráaðist við þar hann sá fram á að atkvæðagreiðsla um vantraust yrði honum óhagstæð. Þá hrökklaðist tuttugu barna faðirinn frá völdum, afar ósáttur. „Það þarf að dæma mig eftir því sem ég hef gert. Enginn hefur sýnt fram á að ég hafi gert nokkuð af mér. Hef ég gert eitthvað af mér? Ef svo er, hvað? Enginn hefur getað svarað þessu,“ sagði Zuma. Aðförin að honum væri ósanngjörn.

Þegar hann varð fyrst forseti árið 2009 sagðist hann bara ætla að sitja eitt kjörtímabil en bauð sig svo fram aftur og aftur þrátt fyrir háværa gagnrýni um spillingu (t.d. í tengslum við milljarða Bandaríkjadala vopnasölusamning frá árinu 1999). Hann hefur að auki verið sakaður um nauðgun, fjárdrátt og peningaþvætti. Það er von að svona eðalmenni sárni að vera bolað frá.

Valdakallar til eilífðar*
Dæmi 1:
Pútín var kjörinn forseti Rússlands eina ferðina enn, en ekki hvað. Hann hefur verið við völd frá árinu 2000, fyrst sem forseti (en mátti ekki sitja lengur en til 2008: þá mátti bara sitja fjögur ár í einu og átta ár alls), svo forsætisráðherra (sem stýrði forsetanum), svo aftur forseti frá 2012, og þó búið sé að lengja kjörtímabilið í sex ár ætlar hann ætlar sér örugglega að vera lengur en til 2024. Pútín rígheldur um valdataumana og er ekkert á förum.

Dæmi 2:
Xi Jingping hefur ekki verið forseti Kína nema síðan 2013 en hann ætlar greinilega að verða einsog Pútín og fleiri valdasjúkir karlar sem vilja ríkja með einræðistilburðum til eilífðar. Persónudýrkunin á 'sterka manninum' veldur því að almenningur hrífst af leiðtogahæfileikum þeirra og þeir komast upp með að sitja í embætti lengur en góðu hófi gegnir. Þeir beita auðvitað til þess ýmsum brögðum, sveigja t.a.m. reglur sér í hag.

Í fyrra voru stefna og hugsjónir Xi Jingping festar í lög Kommúnistaflokksins. Fyrri leiðtogar flokksins höfðu fengið ýmsar hugmyndir og stefnur í stjórnarskrá flokksins en Xi er sá fyrsti síðan Maó Zedong var og hét sem fær nafn sitt og sérstaka hugmyndafræði festa í plaggið.

Tveggja kjörtímabila reglunni var komið á fót af Deng Xiaoping á tíunda áratug síðustu aldar. Var það meðal annars gert með það að markmiði að koma í veg fyrir að menn yrðu samgrónir forsetastólnum.“ (Vísir)
Nú er búið að breyta reglunum Xi í hag, og getur hann stýrt Kína til dauðadags, eins og Maó. Xi Jingping vill auðvitað ekki vera minni maður en hann í þeim efnum fremur en öðrum.

Dæmi 3:
Og það er ekki eins og Assad sé neitt að fara að segja af sér á næstunni. Hann virðist ekkert kippa sér upp við að tæp hálf milljón hafi fallið í stríðinu sem nú hefur staðið í sjö ár. Á þeim tíma hafa 6 milljónir Sýrlendingar flúið landið og eru á flótta, aðrar 6 milljónir eru á vergangi innanlands. Allt frekar en láta af völdum. Þetta er nú meiri helvítis skepnan.

Sýrland
Ástandinu í Sýrlandi verður ekki lýst í fáum orðum. Hér á eftir fara stikkprufur úr fréttum. Fyrst kemur frétt sem virðist við fyrstu sýn vera um sakleysislegri hluti en dráp á almennum borgurum en sýnir þó að þátttaka Tyrkja í stríðinu (sem beinist einna helst gegn Kúrdum) er síst til að bæta ástandið á nokkurn hátt.

30. janúar
Loftárásir tyrkneska hersins hafa eyðilagt stóran hluta Ain Dara-musterisins í Afrin-héraði Sýrlands. Frá þessu greindu sýrlenska ríkisstjórnin og bresku samtökin Syrian Observatory for Human Rights í gær. 

Myndum af rústunum hefur verið dreift á samfélagsmiðlum og má sjá á þeim að sprengigígur hefur myndast í miðju musterissvæðisins sem og rústir þar sem áður stóðu ljón, hoggin úr basalti. Talið er að Aramear hafi byggt hofið og gert stytturnar um þúsund árum fyrir Krist og er musterið því þrjú þúsund ára gamalt.

 Syrian Observatory segir um 60 prósent hofsins nú rústir einar og hafa verið frá því í loftárásunum á föstudag. Minnst 51 almennur borgari fórst í aðgerðum Tyrkja í Afrin.

„Í þessari árás kristallast hatur og villimennska ógnarstjórnarinnar í Tyrklandi gagnvart sýrlensku þjóðinni, fortíð hennar, nútíð og framtíð,“ sagði í tilkynningu frá þjóðminjastofnun Sýrlands. 

Borgarastyrjöldin hefur geisað í Sýrlandi frá 2011 og hefur valdið ómetanlegum skaða á fornminjum. Ber þar helst að nefna hina fornu borg Palmyra, sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki rústuðu þar meðal annars 2.000 ára gömlu musteri og fornu leikhúsi.Maamoun Abdulkarim, fyrrverandi framkvæmdastjóri þjóðminjastofnunarinnar, sagði við AFP í gær að eyðilegging Ain Dara væri jafnmikill harmleikur og það sem gerðist í Palmyra. Hann hefði jafnframt áhyggjur af fjölda fornra bæja nálægt víglínunni í Afrin.

Tyrkir herja nú á Kúrda í héraðinu og reyna að uppræta starfsemi hersveita þeirra, YPG, en svæðið á landamæri að Tyrklandi. Tyrkir telja YPG hernaðararm Verkamannaflokks Kúrda, PKK, en NATO og ESB líta á flokkinn sem hryðjuverkasamtök. Því neita Kúrdar og Bandaríkjamenn. 
(Vísir)

21. febrúar
Sprengjum fylgismanna Bashar al-Assad Sýrlandsforseta rigndi áfram yfir Austur-Ghouta, skammt frá Damaskus í Sýrlandi í gær og fórust tugir almennra borgara í árásunum. Aðgerðasinnar á svæðinu héldu því fram í gær að Assad-liðar hefðu varpað sprengjum á að minnsta kosti tíu bæi og þorp í Austur-Ghouta í gærmorgun.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sendi frá sér yfirlýsingu í gær um þann mikla fjölda barna sem farist hefur í átökum undanfarinna daga á Damaskussvæðinu. Þar sagði að engin orð gætu lýst hryllingnum. Í kjölfarið fylgdu tíu auðar línur og svo stutt útskýring. „UNICEF gefur nú út þessa auðu yfirlýsingu. Við höfum engin orð til að lýsa þjáningu þessara barna. Eiga þeir sem eiga sök í málinu einhver orð til að réttlæta þessa villimennsku?“ (Vísir)

22. febrúar
„Við erum bara að bíða eftir því að það sé komið að okkur að deyja. Meira hef ég ekki að segja,“ sagði Bilal Abu Salah við Reuters í gær. Salah er íbúi í Douma, stærsta bæ Austur-Ghouta í Sýrlandi þar sem sprengjum hefur rignt linnulaust yfir borgara undanfarna daga. Hann er 22 ára gamall og á von á sínu fyrsta barni með eiginkonu sinni sem er komin fimm mánuði á leið.

Að minnsta kosti 45 fórust og rúmlega 200 særðust í árásum fylgismanna Bashars al-Assad, forseta Sýrlands, í Austur-Ghouta í gær. Þýðir það að frá því á sunnudag, þegar Assad-liðar settu aukinn þunga í sókn sína, hafa rúmlega 300 farist.

Austur-Ghouta er síðasta stóra vígi uppreisnarmanna nærri höfuðborginni Damaskus. Svæðið er umkringt landsvæðum sem stjórnarherinn og bandamenn hans stýra og eru nærri 400.000 almennir borgarar innlyksa í Austur-Ghouta þar sem hjálparsamtök segja að matur, eldsneyti og lyf séu af skornum skammti. (Vísir)

23. febrúar
Staðan er sirka þessi: „Stríðið í Sýrlandi verður sífellt flóknara og fleiri aðilar dragast inn í átökin.“ (Fréttablaðið)

24. febrúar
Að sögn YPG, her sýrlenskra Kúrda, féll Íslendingur sem barðist með þeim, í loftárás tyrkneska hersins í Afrin í Sýrlandi þennan dag. Af því bárust engar fréttir lengi vel og enn er margt á huldu um afdrif hans.

27. febrúar
Á síðustu átta dögum hafa rúmlega 550 manns, stór hluti þeirra börn, verið myrtir í Ghouta-hverfi í útjaðri Damaskus. Hersveitir hliðhollar ríkjandi valdi í Sýrlandi hafa með stuðningi Rússa jafnað spítala við jörðu í hverfinu með ítrekuðum loftárásum. Hersveitirnar varpa tunnum, yfirfullum af sprengiefni, sprengjubrotum og jafnvel eiturefnum, úr þyrlum yfir hverfinu þar sem fjögur hundruð þúsund óbreyttir borgarar lifa milli vonar og ótta. Á milli þeirra leynast 580 uppreisnarmenn. Sýrlensk yfirvöld eru reiðubúin að fremja fjöldamorð á eigin þegnum til að útrýma þeim. (Vísir)

17. mars
Tugir þúsunda óbreyttra borgara á flótta. Óbreyttir borgarar flýja í dag tvö svæði, annars vegar Austur-Gúta og hins vegar Afrin. (Vísir)

25. mars
Óbreyttir borgarar og sýrlenskir uppreisnarmenn flýja hið stríðshrjáða svæði Austur-Gúta, sem er í útjaðri höfuðborgarinnar Damaskus í Sýrlandi. Svæðið var áður á valdi uppreisnarmanna. Hundruð neyðast til að flýja heimkynni sín þegar aukinn þungi færist í ásókn stjórnarhers Bashars al-Assad, forseta Sýrlands.

Sýrlenski stjórnarherinn hrifsar á ný til sín völdin eftir margra ára stríð. Síðustu vikur hafa einkennst af sprengjuregni af völdum stjórnarhersins en að því er fram kemur á vef Sky News hafa yfirvöld í Sýrlandi sett uppreisnarmönnum afarkosti; annað hvort að hætta að berjast og ganga til liðs við stjórnarherinn ellegar yfirgefa svæðið með fjölskyldum sínum.Um níu hundruð manns hafa yfirgefið Austur-Gúta í dag. Talið er að fólkið haldi norður til Idlib-héraðs í Sýrlandi.

Embættismenn hjá Sameinuðu þjóðunum haft hugtökin stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyninu um baráttuaðferðir stjórnarhersins. Verið sé að reka almenna borgara á flótta. (Vísir)

Vopnaflutningar Air Atlanta með samþykki íslenskra stjórnvalda
Eftir allar þessar hræðilegu fréttir frá Sýrlandi var sérlega óþægilegt að komast að því að með tilstuðlan íslenskra stjórnvalda hafa vopn verið flutt með flugvélum Air Atlanta til Saudi-Arabíu, sem bæði er (stuðnings)aðili að stríðinu í Sýrlandi og Jemen. Það er með tilstilli okkar sem þessi börn deyja, sem fullorðnir deyja, sem börn sjá foreldra sína deyja, og foreldrar sjá börnin sín deyja. Skömm okkar er mikil.

Það var hinn ágæti fréttaskýringaþáttur Ríkisútvarpsins Kveikur sem rannsakaði og fjallaði um málið.

Úr vopnum sem notuð eru gegn fólki yfir í eiturefnahernað ýmislegan
ESB ætlar að banna eitt algengasta skordýraeitur heims til að vernda býflugur
„Vísindamenn á vegum Evrópusambandsins hafa komist að þeirri niðurstöðu að algengasta skordýraeitur heims sé sérlega hættulegt hunangsflugum og villtum býflugum. Líklegt er talið að sambandið muni banna notkun á fundi í næsta mánuði.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (Efsa) segir í skýrslu sem birt var á miðvikudag að neonicotoid-efni sé alltaf skaðleg býflugum þegar það er notað utandyra. Lengi hefur verið varað við skaðlegum áhrifum skordýraeitursins. Þegar efsa skilað fyrst skýrslu um efnin árið 2013 var niðurstaðan sú að þau yllu „óásættanlegri“ hættu fyrir býflugurnar. Notkun efnanna var bönnuð að hluta í Evrópusambandslöndum í apríl það ár.

Býflugur fræva þrjár af hverjum [fjórum] nytjaplöntum og leika þannig lykilhlutverk í matvælaframleiðslu heimsins. Hrun í býflugnastofninum hefur verið skýrt með sjúkdómum, taps búsvæða og víðtækrar notkunar á skordýraeitri sem inniheldur neonicotoid-efni." (Vísir)

Tvö ágæt orð sem lýsa ástandi
Ásta Svavarsdóttir rakst á orðið vinfengisógnun þegar hún var að
„skoða siðareglur starfgreina sem hafa með fjármuni fólks og fyrirtækja að gera.

Vinfengisógnun er skemmtilegt og lýsandi orð og lýsir ákveðinni hættu sem getur skapast þegar tengsl aðila fara út fyrir hið viðskiptalega samband. Mörk vináttunnar og hinna viðskiptalegu tengsla geta orðið ansi óljós.“

Nepotismi hefur verið þýtt sem frændahygling eða frænddrægni, og til skýringar að orðið eigi við um það að draga taum ættmenna við stöðuveitingar og þvíumlíkt. Þorvaldur Gylfason var að fjalla um slíka spillingu í pistli og notaði þá nýtt orð um fyrirbærið: Nápot. Það þykir mér mikið snjallyrði.

(Með gúggli kemur reyndar í ljós að Þorvaldur hefur notað þetta orð áður.)

Tók 258 ár
Fyrsti landlæknir Íslands var skipaður árið 1760 og er landlæknisembættið eitt elsta samfellda embætti Íslandssögunnar. Alma Dagbjört Möller sem tekur við embættinu á morgun er fyrsta konan til að vera skipuð landlæknir í þessi 258 ár.


___
* [Viðbót] Jón Trausti Reynisson fjallar um þessa kalla og fleiri til í leiðara sínum „Uppgangur fáræðis“ í Stundinni 28. mars - 12. apríl 2018.


Efnisorð: , , , , , , ,

föstudagur, mars 30, 2018

Hjálparstofnanir sem bregðast trausti allra

Það er skaðræðislega vont að heyra að starfsmenn hjálparstofnana víða um heim stundi í stórum stíl að kúga konur til kynlífsathafna. Starfsmennirnir láta konurnar ekki fá mat eða lyf eins og til er ætlast af þeim, heldur neita konunum um þessar lífsnauðsynjar nema þær borgi með afnotum af líkama sínum. „Valkosturinn“ sem þær standa frammi fyrir er að þær og börn þeirra svelta ef þær ekki láta að vilja karlanna. Þetta er viðbjóðslegt.

Á þessum vettvangi hefur áður (febrúar 2016) verið skrifað um friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna, sem héldu barnungar stúlkur (12-15 ára stelpur) sem kynlífsþræla, og undirverkatakar hjá NATO hefðu tekið þátt í mansali.
„[Friðargæsluliðar] keyptu ekki aðeins kynlíf, heldur voru „vændiskonurnar“ ungar að árum; þeim hafði þaraðauki verið rænt og var haldið föngnum. Með öðrum orðum, þær voru kynlífsþrælar friðargæsluliðanna.“

„SÞ hefðu brugðist hvað varðar rannsóknir á brotunum. Einnig kom m.a. fram í skýrslunni að starfsmenn bandarísks verktakafyrirtækis, sem starfaði með sameiginlegu, fjölþjóðlegu herliði undir stjórn NATO á svæðinu, hefðu sætt rökstuddum ásökunum og rannsóknum um þátttöku í mansali.“

„Enginn var látinn sæta ábyrgð á þessum viðbjóði, og að undirverktakafyrirtækið starfar enn eins og ekkert hafi í skorist í alþjóðlegum verkefnum.“
Í mars 2016 „kom í ljós að friðargæsluliðar í Mið-Afríkulýðveldinu höfðu, ásamt frönsku herliði, beitt tugi stúlkna kynferðisofbeldi. Að minnsta kosti 98 stúlkur urðu fyrir barðinu á þeim. Yfirmaður í franska hernum er sagður hafa neytt fjórar þeirra til að hafa kynmök við hund. Friðargæsluliði frá Kongó hefur verið sakaður um að hafa nauðgað 16 ára stúlku á hótelherbergi.

Að minnsta kosti 480 ásakanir komu fram um kynferðislega misneytingu og ofbeldi á árabilinu 2008 – 2013. Um börn var að ræða í þriðjungi tilvika.“
Tilvitnanirnar eru úr grein sem þýdd var fyrir bloggbirtingu, og í greininni kom einnig fram að slíkt framferði friðargæsluliða eigi sér langa sögu, í Kambódíu, Haiti, Marokkó og Suður-Afríku.

Undanfarið hefur komið æ betur í ljós að friðargæsluliðar hafa ekki verið einir um að hegða sér eins og svín í garð kvenna á átakasvæðum eða þar sem mannúðarstarfs er þörf.

Sameinuðu þjóðirnar
Upp hefur komist að menn á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðlegra hjálparsamtaka í Sýrlandi hafi krafist kynlífs af konum fyrir aðstoð og mat, en slíka aðstoð áttu hjálparstarfsmennirnir auðvitað að láta konunum í té endurgjaldslaust.
„Athygli var vakin á málinu fyrir þremur árum síðan en þrátt fyrir það sýnir ný skýrsla að þessi háttur viðgengst enn í suðurhluta landsins.“

"Konur í Sýrlandi hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu þeirra sem flytja hjálpargögn í landinu fyrir Sameinuðu þjóðirnar og önnur alþjóðleg hjálparsamtök“. Konurnar voru krafðar um kynlíf í skiptum fyrir neyðaraðstoð.

Einn viðmælandi BBC sagði að sum hjálparsamtök leyfðu þessu að viðgangast vegna þess að samstarf við verktaka og sveitarstjórnir á svæðinu væri eina leiðin til að koma neyðaraðstoð til þeirra landshluta sem alþjóðasamtök hefðu ekki aðgang að.“
Ok, það eru semsagt ekki starfsmenn Sameinuðu þjóðanna heldur verktakar og starfsmenn sveitarstjórna sem misnota aðstöðu sína með þessum hætti. Niðurstaðan fyrir veslings konurnar er þó hin sama.

Oxfam
Einn af hæstráðendum bresku góðgerðasamtakanna Oxfam (sem starfa um allan heim) hefur sagt af sér eftir að komst í hámæli að starfsmenn samtakanna keyptu vændi á Haítí „ þegar þeir voru þar að störfum fyrir samtökin eftir jarðskjálftann 2010. Er meðal annars talið að starfsmennirnir hafi nýtt sér barnungar stúlkur en vændi er ólöglegt á Haítí.“ Sama mun hafa verið uppi á teningnum þegar samtökin voru að störfum í afríkuríkinu Chad.

Að því er fram kemur í skýrslu frá samtökunum frá árinu 2011 var þremur mönnum leyft að segja upp og fjórir aðrir voru reknir fyrir alvarlegt misferli í starfi í kjölfar rannsóknar á framferði starfsmannanna. Var meðal annars meint kynferðisleg misnotkun þeirra rannsökuð, niðurhal á klámi og misbeiting valds. 

Einn þeirra sem fékk leyfi til þess að segja upp án þess að það hefði nokkrar frekari afleiðingar var svæðisstjóri Oxfam á Haítí, Roland van Hauwermeiren. Hann viðurkenndi að hafa keypt vændi í villunni sem Oxfam leigði handa honum að því er fram kemur í umræddri skýrslu. (Vísir)

„Tuttugu og tvö hjálparsamtök gáfu út sameiginlega afsökunarbeiðni í gær á að hafa brugðist í meðhöndlun sinni á ásökunum um kynferðislegt misferli starfsmanna, þar á meðal voru Oxfam og Save the Children [Barnaheill]. Fyrrverandi framkvæmdastjóri síðarnefndu samtakanna sagði af sér sem aðstoðarforstjóri Unicef í vikunni vegna ásakana um óviðeigandi hegðun í garð ungra kvenna þegar hann starfaði fyrir hjálparsamtökin. (vísir)“
Rauði krossinn
Ekkert þekki ég til Oxfam umfram það sem ég hef lesið í fréttum, en öðru máli gegnir um Rauða krossinn, sem eru elstu mannúðar- og hjálparsamtök í heiminum, hafa fengið friðarverðlaun Nóbels þrisvar sinnum og hafa starfað með miklum ágætum á Íslandi allt frá árinu 1924. Fyrsti stjórnarformaður Rauða kross Íslands var Sveinn Björnsson hæstaréttarmálaflutningsmaður, síðar forseti Íslands. Allt hljómar þetta svo vel, svo virðulegt, svo gamalgróið og traust.

En í febrúar bárust þær fréttir að starfsmenn Rauða krossins hafi „greitt fyrir kynlífsþjónustu“.
Alþjóðaráð Rauða krossins segir að 21 starfsmaður hafi hætt störfum fyrir hjálparsamtökin vegna kynferðislegs misferlis undanfarin þrjú ár. Starfsmennirnir greiddu fyrir kynlífsþjónustu og sögðu ýmist af sér eða voru reknir.
Hafði þó verið reynt að koma í veg fyrir það:
Siðareglur samtakanna hafi bannað starfsmönnum sérstaklega að greiða fyrir kynlífsþjónustu frá árinu 2006.

Barnaheill
„Justin Forsyth, aðstoðarframkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Unicef, hefur sagt upp störfum vegna ásakana um óviðeigandi framkomu gagnvart samstarfskonum í fyrra starfi.

Aðalskrifstofa Barnaheilla í Lundúnum hefur upplýst að Forsyth, hafi sent þremur konum sem störfuðu hjá samtökunum óviðeigandi smáskilaboð þegar hann var þar yfirmaður. Þetta gerðist 2011 og 2015. Innanhússrannsókn á málinu hafi í öllum tilfellum lyktað með því að hann hafi beðið konurnar afsökunar.

Stjórn Unicef greindi frá því að þar hafi engar upplýsingar legið fyrir um þessi mál þegar Forsyth var ráðinn til samtakanna árið 2016.“ (RÚV)

Ok, hann var ekki að níðast á skjólstæðingum, hvorki hjá Barnaheillum né Barnahjálpinni — en er til of mikils mælst af körlum sem sækja í starf hjá mannúðarsamtökum að þeir hafi einhverskonar sómakennd og siðferði?

Ég held ég verði að endurtaka (en jafnframt umorða) það sem ég sagði í fyrri pistlinum um friðargæsluliðana fyrir tveimur árum:
„Ekki auka þessar fréttir álitið á karlpeningnum, svo mikið er víst.“Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, mars 29, 2018

Kerfið sýnir sitt rétta andlit

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sú frábæra blaðakona, skrifaði magnaðan pistil á Stundina í dag.

Kona sem ver dóttur sína með hótun er ákærð*, en engin ákæra er komin eftir hrottafengna árás á konu í Vestmanneyjum.
Lesið.___
* Viðbót, þjálfarinn hefur verið ákærður.Efnisorð: , , , , , , , ,

laugardagur, mars 24, 2018

Árásarvopn og friðsöm vopn sem bíta

Skotárás var framin í Bandaríkjunum 14. febrúar, og enn einu sinni var skóli vettvangur vopnaðs vitleysings. 17 manns féllu ( þrír starfsmenn og fjórtán nemendur á aldrinum 14-18 ára) og jafnmargir særðust í Marjory Stoneman Douglas gagnfræðaskólanum í Parkland í Flórída. En nú brá svo við að nemendur skólans, sem sumir höfðu staðið í skothríðinni miðri, mótmæltu hástöfum fáránlega slökum reglum um vopnakaup.

14. mars gengu svo nemendur Marjory Stoneman Douglas skólans út til að minnast skólafélaga sinna sem féllu í skotárásinni, og eins og áður gerðu gerðu fjöldi nemenda um öll Bandaríkin það einnig. Stóð minningarstundin í sautján mínútur, eina mínútu fyrir hvern fallinn nemanda í Parkland.

Áður hafa verið gerðar mannskæðar skotárásir í skóla, en þetta er í fyrsta sinn sem fórnarlömb árásarinnar snúa vörn í sókn með svo áberandi hætti og krefjast athygli yfirvalda.

Kröfur nemenda til bandaríska þingsins eru þrjár. Að árásarvopn verði bönnuð, að þeir sem kaupi vopn fari í bakgrunnstékk og að lög verði samþykkt sem geri dómstólum kleift að taka vopn af þeim sem sýnt hafa af sér ofbeldishneigð.

Í dag fóru nemendur og fólk sem er þeim sammála um herta vopnalöggjöf í fjöldagöngur víða um Bandaríkin, þar af gengu hundruð þúsunda í höfuðborginni. Samstöðugöngur fóru fram víða um heim, þar á meðal í Reykjavík. Bandarísku mótmælendurnir gengu undir slagorðinu March for Our Lives eða Göngum til að bjarga lífi okkar.

Nemendurnir hafa einnig verið óþreytandi að tala um atburðinn og tengja hann við sambærilega atburði, og hvernig koma mætti í veg fyrir slíkt með hertum reglum um vopnakaup. Einnig hafa þau hvatt fólk til að sniðganga fyrirtæki sem selja AR-15 árásarriffla (þannig morðvopn notaði skotárásarmaðurinn, eins og margir aðrir kollegar hans á undan honum) og beint spjótum sínum mjög að NRA, samtökum byssueigenda og þeim sem þjónusta þau á einhvern hátt. Til þess hafa nemendurnir notað alla tiltæka samfélagsmiðla.

Og það ótrúlega hefur gerst. Verslanir sem selja byssur (þ.m.t. stórverslanakeðjur á borð við Walmart) hafa tekið AR-15 árásarriffla úr sölu eða hert upp á eigið einsdæmi reglur um hver getur keypt slík vopn. Ein verslunarkeðjan ákvað að „hætta sölu á sérstökum magasínum sem gera það mögulegt að skjóta fleiri skotum úr byssunum á skemmri tíma auk þess sem enginn undir 21 árs aldri mun geta keypt skotvopn í verslunum keðjunnar“. Þá mun verslunarkeðjan „hætta sölu á sérstökum magasínum sem gera það mögulegt að skjóta fleiri skotum úr byssunum á skemmri tíma auk þess sem enginn undir 21 árs aldri mun geta keypt skotvopn“. Einnig hafa fyrirtæki, þar með talin bílaleigur, hótel og flugfélög, hætt að veita félögum í byssusamtökunum NRA afslætti, og bankar og kortafyrirtæki slitið viðskiptum við þau. Máttur sniðgönguhótana er mikill.

Það skyldi þó aldrei vera að skólakrakkar yrðu til þess að umbylta skotvopnalögum í Bandaríkjunum. Þetta eru alltént ferlega flottir krakkar.

Efnisorð: ,

föstudagur, mars 23, 2018

Samþykkisfrumvarpið

Á bloggheimilinu ríkir fögnuður yfir nýsamþykktu frumvarpi um breytingu á skilgreiningu nauðgunar í kynferðiskafla almennra hegningarlaga. Samkvæmt nýju lögunum eru öll tvímæli tekin af um að samþykki sé forsenda kynmaka.

Hér á eftir er það helsta sem kom fram í fréttum um samþykkisfrumvarpið.

Samkvæmt nýju lögunum eru öll tvímæli tekin af um að samþykki sé forsenda kynmaka.

Í umsögn Ragnheiðar Bragadóttur, prófessors í refsirétti við Háskóla Íslands, um frumvarpið sagði meðal annars að lögfesting skilgreiningar nauðgunar út frá samþykki sé eðlilegur þáttur í þróun réttarins og þar sé leitast við að tryggja að lögin séu í samræmi við réttarvitund almennings. Þá kom fram í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands að um nauðsynlega breytingu hafi verið að ræða til samræmis við Istanbulsamninginn og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. (Kjarninn)
Í lögunum er nú samþykki gert að skilyrði, en áður vísuðu lögin eingöngu til ofbeldis, hótana eða annars konar ólögmætrar nauðungar, sem forsendu fyrir að samræði teldis til nauðgunar. „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum,“ segir í lögunum nú.

„Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef það er fengið með ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung, eða með því að beita blekkingum eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“ (Stundin)
Um er að ræða 194. grein laganna sem nú hljómar svo:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun.

Í eldri útgáfu laganna kom orðið samþykki ekki fyrir heldur var greinin svona:

Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun. (Vísir)

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.*
Jón Steindór sagði í umræðum um málið að frumvarpið sé liður í því að breyta viðhorfum sem feðraveldi fortíðar hefur skapað og eru enn ríkjandi eða eimir sterkt af á ýmsum stöðum. Með frumvarpinu sé horfið frá þeim karllægu sjónarmiðum sem endurspeglast víða að við tilteknar aðstæður eigi karlmaður næstum rétt á kynlífi með konu. Þá sé þau viðhorf lífseig að þegar fólk er í sambandi, hvort sem það er innan hjónabands eða utan, ryðji það með einhverjum hætti úr vegi kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti þegar kynlíf á í hlut.(Kjarninn)
„Við þurfum að breyta lögunum til samræmis við réttarvitund almennings og beita þeim til þess að breyta viðhorfum og hafa áhrif til hins betra á þessu mikilvæga sviði mannlífsins.“ (Stundin)
Von [Jóns Steindórs] er sú að breytingin verði til þess fallin að fólk hugsi betur um þessa hluti. Gengið sé úr skugga um að samneyti við annað fólk sé með vilja beggja, eða allra. Þetta muni hafa fræðslu og forvarnargildi. (Vísir)
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir það fagnaðarefni að Alþingi hafi ákveðið að breyta ákvæði almennra hegningarlaga er snýr að nauðgun. Hún segir fyrst fremst um táknræna breytinga að ræða sem sendi mikilvæg skilaboð út í samfélagið.


„Ég held að þetta sé fyrst og fremst táknræn breyting og hún er jákvæð. Mitt embætti tók undir þessa breytingu og lagði til að þetta yrði samþykkt. Þetta eru ákveðin skilaboð sem að löggjafinn er að senda út í samfélagið. Það er nauðgun að hafa samfarir eða kynferðismök við einhvern án hans samþykkis,“ segir Kolbrún. (Vísir)
Í öðrum hvorum sjónvarpsfréttatímanum var viðtal við ríkissaksóknara og þar minntist hún á að þessa nýju áhersla í lögunum á að það teljist ekki samþykki ef blekkingum sé beitt eða það sé fengið með því að hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður. Um slíkt blekkingarmál hefur verið skrifað hér á blogginu, og einnig birtur pistill Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur. Sömuleiðis var leiðari Steinunnar Stefánsdóttur um skilgreiningar á nauðgun birtur ásamt eigin hugleiðingum blogghöfundar um þann galla á áðurgildandi skilgreiningu á nauðgun að um líkamsmeiðingar og hótanir yrði að vera að ræða.**

Það er eðlileg niðurstaða á margra ára skrifum um þetta efni, að blogghöfundur fagni því ákaft að nú sé það skýrt samkvæmt lögum að það sé ekkert annað en nauðgun að hafa samfarir eða kynferðismök við einhvern án hans samþykkis.

______

* Þess má geta að frumvarp Atla Gíslasonar og Þuríðar Backman sem þau lögðu fram á 138. löggjafarþingi 2009–2010 gekk út á að gera skort á samþykki að þungamiðju kynferðisbrota.

** 22. ágúst 2008, Nauðganir í skjóli blekkingar
Skrif Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann. Blekkingarmálið.
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2009/08/nauganir-i-skjoli-blekkingar.html

28. nóvember 2009, Nauðgun án frekari valdbeitingar
Leiðari Steinunnar Stefánsdóttir, skilgreining á nauðgun.
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2009/11/naugun-frekari-valdbeitingar-leiari.html

29. nóvember 2009, Lög senda skilaboð.
Blekkingarmálið.
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2009/11/log-senda-skilabo.html

2. febrúar 2013, Ætlun, vilji og nautn karlsins skiptir öllu.
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2013/02/ja-ef-kallinn-verur-ekki-stur-er-ekki.html

6. febrúar 2016, Ásetningur eða samþykki, verknaðaraðferð eða sálarháski
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/02/asetningur-ea-samykki-verknaarafer-ea.html

Efnisorð:

fimmtudagur, mars 22, 2018

Alþjóðlegur dagur vatnsins

Mikið uppnám varð fyrr á árinu þegar drykkjarvatn á höfuðborgarsvæðinu reyndist mengað. Það voru þó sárasaklausir jarðvegsgerlar (var okkur sagt) sem höfðu skolast útí vatnsból þegar hlánaði og engin hætta á ferðum, en í vissum hverfum var viðkvæmu fólki ráðlagt að sjóða neysluvatn. Í smástund leið manni þó eins og ástandið væri orðið ískyggilega líkt og í Flint, Michican, og vatn-úr-krananum væri liðin tíð, og þar með ein helsta forsenda þess að þykja Ísland byggilegt. Það var samt ágætt að við fengum að upplifa þetta ástand (enn betra hvað það stóð stutt) því þá getum við kannski eitthvað betur sett okkur í spor þess stóra hluta mannkyns sem á þess ekki kost að drekka ómengað beint úr krananum að vild.

Einsog við vorum nú hvekkt á þessu óhagræði að þurfa hugsanlega að sjóða vatn er furðulegt sinnuleysi margra fyrir þeim áformum að leggja háspennulínu yfir vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Ómar Ragnarsson hafði sitthvað um þetta alltsaman að segja:
„Nú er sótt að flestum undirstöðum ímyndar Reykjavíkur og nágrennis sem auglýst hafa verið sem "hreinust í heimi" á öllum sviðum.
Innan við ár er síðan 40 ára ófremdarástand sjávar í Skerjafirði birtist á ný, sem var kannski ekki aðalatriðið, heldur það að þrjóskast var í lengstu lög við að leyna ástandinu.
Nýslegið er met í svifryksmengun, þrítugfalt yfir heilsuverndarmörkum með arsen, kvikasilfur, blý og brennisteini, og nú eru það gerlar í kalda vatninu í Reykjavík. 
Þessi nýjasta kemu frá vatnsverndarsvæði borgarinnar, en Landsnet lýsir yfir einbeittum vilja til að vaða sem stærstu gerð af nýrri háspennulínu í gegnum öll vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins með tölu með öllu því raski og mengunarhættu sem því fylgir. [breið- og skáletrun höfundar] 
"Virkjanaæðið" sem forstjóri Orku náttúrunnar kallaði það, birtist meðal annars í því að á sama tíma sem virkjanamenn telja alltof dýrt að fara með línur í jörðu á skárri leið en yfir vatnsverndarsvæðin öll austan höfuðborgarsvæðisins og líka alltof dýrt að leggja línur í jörð á leið Vesturlínu til Ísafjarðar og Bolungarvíkur, telja þeir að leikur einn sé að leggja línur í jörð yfir þvert Vestfjarðahálendið og um alla firði Ísafjarðardjúps á leiðinni frá nýrri virkjun í Ófeigsfirði á Ströndum alla leið vestur á Ísafjörð.“ 
Fyrir þau sem vilja rifja upp þessar hugmyndir um (eða aðallega gegn) raflínulögn og vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins, má lesa tíu ára gamla tillögu þáverandi borgarfulltrúa um að bannað verði að leggja raflínur yfir Heiðmörk; og ársgamalt bréf sem Hraunavinir ásamt Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands sendu kjörnum fulltrúum bæjarstjórna á höfuðborgarsvæðinu og skipulagsstjórum, þar sem „vakin er athygli á þeirri hættu sem steðjar að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins vegna fyrirhugaðar lagningar háspennulína um vatnsverndarsvæði“.

Margar hættur steðja að vatnsbólunum. Heilsíðuauglýsingar Veitna, sem birtar voru í dag í tilefni af alþjóðlegum degi vatnsins, minntu á að vatnsbólin eru á ábyrgð okkar allra. Á vefsíðu er ítarlegri texti og þar segir meðal annars:
„Vatnsbólin sem við sækjum vatnið okkar í eru á vatnsverndarsvæði og það er mjög mikilvægt að þessi svæði mengist ekki t.d. með rusli, olíu, skólpi eða öðrum efnum því þessi efni geta komist í gegnum jarðlögin og í vatnið sem rennur neðanjarðar inn í vatnsbólin.“
Einnig þetta:
„Við hjá Veitum höfum dálitlar áhyggjur af vaxandi umferð um vatnsverndarsvæðið og sérstaklega því þegar verið er að flytja olíu í miklu magni um Suðurlandsveg sem er í útjaðri vatnsverndarsvæðisins.“
Sannarlega er olíumengun áhyggjuefni. Það má þó ekki gleyma því að mikil mengunarhætta myndi fylgja lagningu raflínu gegnum eða í nálægð við vatnsverndarsvæðið.

Stöndum ávallt vörð um vatnsbólin, leyfum aldrei slíka framkvæmd.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, mars 14, 2018

14. mars

Greindarvísitala jarðarbúa lækkaði umtalsvert í dag því Stephen Hawking féll frá.

Illugi Jökulsson smalaði saman nokkrum af fleygustu orðum eðlisfræðingsins heimskunna, segir í inngangi Stundarinnar, og eru það góð dæmi um kímnigáfu Stephen Hawking. Þetta á sérstaklega vel við á dánardegi hans:

 „Ég lít á heilann sem tölvu sem mun hætta að starfa þegar hlutirnir í henni fara að bila. Það er ekki til neitt himnaríki eða framhaldslíf fyrir bilaðar tölvur; það eru ævintýri fyrir myrkfælna.“

Er ekki annars magnað að hann dó ekki aðeins á π daginn (Pí-daginn) heldur á afmælisdegi Alberts Einstein? Sævar Helgi Bragason segir að Stephen Hawking hafi verið bundinn Einstein og Galileo Galilei órofa böndum því hann hafi dáið á fæðingardegi annars og fæðst á dánardegi hins.

Verst að Hawking var ekki forlagatrúar, því það hljómar eins og þetta hafi verið skrifað í stjörnurnar.fimmtudagur, mars 08, 2018

8. mars 2018

Konur hér heima og um allan heim fögnuðu, kröfðust og lögðu niður vinnu (ríflega fimm milljón spænskar konur fóru í kvennaverkfall að íslenskum hætti) í dag á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.*

Baráttukona var kjörin formaður verkalýðsfélags nú í vikunni. Efling er næst stærsta stéttarfélagið á Íslandi, og verður Sólveig Anna Jónsdóttir í forsvari fyrir fólk í fjölbreyttum störfum.

Starfsmenn með félagsaðild að Eflingu vinna almenn störf verkafólks á sviðum flutninga, byggingarvinnu, við vegagerð og hafnarvinnu, landbúnaðarstörf og ýmsa vélavinnu sem tengist verklegum framkvæmdum. Einnig umönnunarstörf þ.á m. í heimaþjónustu, á leikskólum, í sjúkrahúsum og stofnunum, þvottahúsum og saumastofum sjúkrastofnana.

Starfsmenn í mötuneytum, störf við ræstingar og hvers konar hreinlætisstörf, í efnalaugum og þvottahúsum. Almenn störf á veitinga- og gististöðum. Öryggisvarsla og fjármagnsflutningar. Almenn störf í iðnaði og verksmiðjum, við vinnslu sjávarafurða og landbúnaðarafurða í Eflingu. Bensínafgreiðslu og við olíu, bón, ryðvarnarstöðvar og á dekkjaverkstæðum. Bifreiðastjórar á vörubifreiðum eiga félagsaðild að Eflingu.

Efling, samtök verkafólks, er ekki nema tæplega tuttugu ára gamalt félag sem
„varð til við sameiningu Dagsbrúnar & Framsóknar-stéttarfélags við Starfsmannafélagið Sókn og Félag starfsfólks í veitingahúsum. Við sameininguna varð til næst stærsta stéttarfélag á landinu með um 14.000 félagsmenn. Félagið sameinaðist Iðju, félagi verksmiðjufólks í Reykjavík um áramótin 1999-2000. Við það urðu félagsmenn um 16.000. Frá og með 1. janúar 2009 sameinaðist Verkalýðs- og sjómannafélagið Boðinn Eflingu-stéttarfélagið“.

Þetta er láglaunafólkið. Fólkið sem ber minnst úr býtum (af þeim sem þó vinna ekki sem þrælar, eins og því miður á alltof oft á við um erlenda starfsmenn hér á landi) og fyrir það fólk ætlar Sólveig Anna að vinna. Langt er síðan einhver hefur talað fyrir hönd þeirra lægst launuðustu eins og hún hefur gert í kosningabaráttunni til kjörs formanns Eflingar.

Eitt af félögunum sem rann saman við Eflingu var Sókn. Sóknarkonur voru „stúlkurnar sem vinna í ræstingunum, í heimahjálpinni, á sjúkrastofnununum, stundum í vaktavinnu, stundum ekki. Þær sem framkvæma það sem aðrir hafa skipulagt við skrifborðið“. Þetta voru minnst metnu og lægst launuðu störfin í heilbrigðiskerfinu. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, sem síðar varð þingmaður, var í forsvari fyrir Sóknarkonur árum saman, en áður var hún í Snót, verkakvennafélagi í Vestmannaeyjum.** Hér uppi á fastalandinu barðist hún fyrir réttindum og launum kvenna og láglaunafólks yfirleitt. Hún hélt mikla eldræðu á kvennafrídaginn 1975 og þótt nú sé ekki kvenréttindadagurinn 19. júní eða kvennafrídagurinn 24. október,*** þá er alþjóðlegur dagur kvenna ekki síðri til að rifja upp ræðu Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur, enda talar hún um málefni sem snerta jarðarbúa alla, þá — og því miður enn nú.

„Kæru baráttusystur!

Fyrsta fundarsamþykkt sem ég veit um að gerð hafi verið um að konur legðu niður vinnu einn dag var gerð á ráðstefnu rauðsokka og láglaunakvenna í Lindarbæ í vetur og önnur á Neskaupstað í sumarbyrjun. Á stóru Loftleiðaráðstefnunni í júní skeði undrið: Konur úr öllum stéttum og flokkum mynduðu hóp og báru fram tillögu um að allar konur á landinu tækju sér frí á degi Sameinuðu þjóðanna, kæmu saman og ræddu sín vandamál. Þær gerðu meira þessar konur. Þær héldu hópinn, unnu að hugmyndinni og höfðu samband við félög og einstaklinga. Fyrsti fundur um framkvæmdir var haldinn í Hamragörðum í haust og annar í Norræna húsinu. Áhugi reyndist ótrúlegur. Alltaf þéttist hópurinn og hér erum við svona margar.

Hvað veldur þessum mikla áhuga á deginum? Án efa er það óréttlæti sem mætir konum á vinnumarkaði og vanmat á störfum þeirra yfirleitt. Ég tala hér sem verkakona og mín sjónarmið eru þessi:

Lán laun kvenna og annarra láglaunahópa tel ég stafa af því að síðustu tvo áratugi hefur samningagerð milli vinnuveitenda og verkalýðshreyfingarinnar verið hagað þannig að raunverulega er samið um yfirvinnuna. Þó hefur keyrt um þverbak á seinni árum. Á borðinu liggur útreiknað af ríkisstofnun hvað venjuleg fjölskylda þarf til að lifa, hins vegar upplýsingar um svokallaðar rauntekjur. En svo er samið um kaup sem er fjórðungi eða 1/2 lægra en sannað er að þurfi til lífsviðurværis, sem sagt samið um þennan langa vinnudag sem gerir fólkt óvirkt í stéttarfélögum og félagslífi yfirleitt. Annað er þó öllu verra: Félögunum er skipt upp í einingar. Þú færð 25%, þú 15 o.s.frv. og alltaf er bitinn í öfugu hlutfalli við þörfina. Hvar eru gömlu hugtökin okkar „einn fyrir alla og allir fyrir einn“? Hvar er kyndillinn sem lýsti upp verkalýðshreyfinguna fyrr á árum þegar sjálfsagt var að sá sterki lyfti þeim veika. Hvar eru gömlu hugsjónirnar okkar? Vonandi liggja þær líka á borðinu næst þegar samið verður. Og á hverjum bitnar þetta verst? Á konunum auðvitað. Við verslunar- og skrifstofustörf hafa þær 73% af launum karla og verkakonan hefur 30 þús. kr. minna í mánaðarlaun en verkamaður.

Til þessa liggja ýmsar ástæður. Hér koma tvær: Konur eru varavinnuafl. Þær eru kallaðar til vinnu eða sendar heim eftir því sem hentar vinnuveitanda og það sem verst er: Eins og fram kom hjá konum í frystihúsum þá vinnur kona enn sama verk við sama borð og karl en þau eru í sitt hvorum launaflokki. Og svo er það sveitakonan. Henni eru ætlaðir 2 tíma á dag í vinnu við búið og kaupið er áætlað 175 þúsund krónur á ári eða öllu minna en þingmenn ætla sér á mánuði. Ég á ekki önnur orð um þetta en að það sé þjóðarskömm. Konur fá þessu ekki breytt fyrr en þær sækja sinn rétt og láta ekki fara svona með sig.

Ég hef orðið þess vör að sumir karlmenn og fáeinar karlhollar konur halda að við þessar konur sem eru að halda fram skoðunum viljum reka karlmenn út í horn og svipta þá öllum völdum, jafnvel kyrrsetja þá í eldhúsi eða yfir börnum. Ekkert er fjær okkur en að kúga karla. Við viljum jafnrétti. Hvorki meira né minna. Við þurfum að leysa flest ef ekki öll mál í félagi við karla.

Okkur Íslendingum ætti að vera þetta ljóst þessa daga þegar við erum að berjast fyrir lífshagsmunum okkar, 200 mílna landhelginni. Þar verðum við öll að standa saman og ef hvergi brestur hlekkur erum við dæmd til að sigra.

Við íslenskar konur bárum gæfu til þess að verða fyrstar kvenna í heiminum til að ná samstöðu um þennan dag. Ég er stolt af því. En fleiri koma á eftir. Konan er að vakna. Hún veit að karlmenn hafa ráðið heiminum frá því sögur hófust. Og hvernig hefur sá heimur verið? Hann hefur löðrað í blóði og logað af kvöl. Ég trúi því að þessi heimur breytist þegar konur fara að stjórna honum til jafns við karla. Ég vil og ég trúi því að þið viljið það allar, að heimurinn afvopnist. Allt annað eru stjórnmálaklækir og hræsni. Við viljum leysa ágreiningsmál án vopna. Við viljum ekki byggja fangelsi heldur opna þau í hvaða landi sem er þar sem fangar eru lokaðir inni og kvaldir vegna skoðana sinna. Við tökum undir við alþjóðafangahjálpina:„Kvöl þeirra er samviska vor.“ Við viljum mannúðina í öndvegið en grimmdina og græðgina á dyr.

Vísindamenn í öllum heiminum segja heiminn á heljarþröm. Svo gálaust hefur verið gengið á jörðina, svo fast sótt í auðlindir hennar, svo miskunnarlaust eru náttúrulögmál brotin að mannkynið er að kafna úr mengun. Er ekki mál að linni? Nú gerast hlutirnir hratt. Ég trúi að eftir 10 ár hittumst við á Lækjartorgi mikið fleiri og þá verði sú stund komin þegar orð sem við sjáum nú í hillingum eru orðin töm í talmáli. Orð eins og þau sem við göngum undir í dag: Jafnrétti - framþróun - friður.“

Það ætla ég rétt að vona að Sólveig Anna verði arftaki Aðalheiðar í ekki bara í baráttu fyrir mannsæmandi launum og réttindum verkafólks, heldur haldi merkjum friðar-, umhverfis-, og kvennabaráttu á lofti.

Til hamingju með daginn, allar!

__
* THe Guardian var með ítarlega og afar yfirgripsmikla umfjöllun sem spannaði að mér sýnist allan hnöttinn jafnóðum og og hlutirnir gerðust, svo og ótal greinar og áhugavert lesefni í tilefni dagsins og frá fyrri árum.
** Verkakvennafélög árið 1944, áhugaverð lesning.
*** Það eru líkur á að þessi pistill verði endurbirtur þessa daga, jafnvel árlega, hér eftir. Svona eru konur nú alltaf að auðvelda sér verkin.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, mars 06, 2018

Syndaaflausn Sigríðar

Þrátt fyrir yfirlýsingar um að vera hætt að fylgjast með stjórnmálum, fór ekki framhjá mér að í dag var lögð fram vantrauststillaga á þinginu. Sigríður Á Andersen stóð þó af sér vantraustið, með dyggum stuðningi samflokksmanna sinna úr Sjálfstæðisflokki, svo og samstarfsflokksmanna úr Vinstri grænum og Framsóknarflokki.

Vantrauststillagan var lögð fram vegna Landsréttarmálsins en það er ekki eina málið sem hefði átt að fella Sigríði úr ráðherrastól(eða koma í veg fyrir að hún yrði aftur ráðherra), enda ferill Sigríðar Á Andersen í dómsmálaráðuneytinu heldur óþokkalegur.

Landsréttarmálið
„[Landsréttarmálið snýst] um það að matsnefnd um hæfi umsækjenda um dómaraembætti við Landsrétt, nýtt millidómstig, lagði fram tillögu um 15 hæfustu einstaklinganna í fyrravor til að taka við 15 stöðum.

Sigríður ákvað að breyta þeirri tillögu og færa fjóra af lista matsnefndarinnar en setja fjóra aðra í staðinn. Í desember 2017 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum með athæfi sínu í málum sem tveir mannanna sem höfðu verið færðir af listanum höfðuðu. Hinir tveir hafa síðan höfðað bótamál á hendur ríkinu, og má gera ráð fyrir að þau mál fari alla leið í dómskerfinu.“

(úr fréttaskýringu Magnúsar Halldórssonar 6.3.2018)

Meðferðin á flóttafólki og hælisleitendum sem æði oft eru reknir úr landi undir yfirskini Dyflinarreglugerðarinar
„Með hrokafullum og hryssingslegum yfirlýsingum sínum hefur Sigríður sýnt að hún hefur ekki þann félagsþroska og þá mannlegu samkennd með öðru fólki sem ætti að vera skilyrði þess að fá að fara með vald.“

(Illugi Jökulsson í september 2017 í pistlinum „Ætti að vísa Sigríði Andersen úr landi?“ um enn eina brottvísun barna úr landi)

#höfumhátt

„Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá mörgum hér á landi að brotaþolar Roberts Downey börðust á síðasta ári við dómsmálaráðuneytið um að fá birt gögn um nefndan barnaníðing eða þar til Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra var gerð afturreka með þá ákvörðun sína að slíkar upplýsingar skyldu fara leynt. Þegar steinum var velt kom í ljós annar níðingur sem hafði verið studdur til uppreistar æru af föður flokksformanns dómsmálaráðherra. Varð leyndin í kringum það mál ríkisstjórninni að falli og boðað var til kosninga. Að þeim loknum fékkst sú áhugaverða túlkun á lýðræðinu að téðri Sigríði skyldi aftur lyft upp í ráðherrastól sinn.

[Anna Katrín Snorradóttir, sem hefur lagt fram kæru á hendur Robert Downey fyrir kynferðisbrot, getur] ekki reitt sig á dómsmálaráðherrann eða samflokksmenn hennar enda virðist dagskipunin þar vera að tala niður baráttu brotaþola Roberts Downey sem sást skýrt þegar Páll Magnússon kallaði á dögunum fall ríkisstjórnarinnar „garg og atgang út af litlu“ um leið og hann krafði fólk um að vanda orð sín.“

(úr grein eftir Berg Þór Ingólfsson og Evu Völu Guðjónsdóttur, 25.1.2018)

Auðvitað stóðu ríkisstjórnarflokkarnir saman (fyrir utan tvo stjórnarliða) og hrundu vantrauststillögunni. Til marks um hverjum það hugnaðist best eru ummæli Björns Bjarnasonar forvera Sigríðar í starfi:
„Vinstri græn sönnuðu að þau eru stjórnhæfur flokkur. Berið saman VG og Bjarta framtíð? Þingmenn Bjartrar framtíðar frömdu pólitískt harakiri að næturlagi að ástæðislausu og urðu að engu.“
Sannarlega finnst Sjálfstæðismönnum enn að það hafi verið ástæðulaust að gera veður útaf uppreistaræru málum og leynimakki Sigríðar. Óþægilegra er hve mörgum öðrum þingmönnum fannst ástæða til að lýsa yfir trausti á hana og styðja hana í dag.

Nú er hún með vottorð um að mega allt.

Efnisorð: , ,

mánudagur, mars 05, 2018

Óskarsverðlaun metoobyltingarinnar fær ...

Óskarsverðlaunahafar og tilnefnd verk voru held ég óvenju fjölbreytt. Mynd um trans með transkonu í aðalhlutverki, myndir um með og eftir fólk af öðrum litarhætti en hvítum, myndir um og eftir samkynhneigða. Tvær sögupersónur töluðu táknmál, hvor í sinni myndinni, þaraf var önnur leikkonan (barn að aldri) ekki að leika heyrnarleysi sitt. Hlutur kvenna var mjög dreginn fram en þó varð kona ekki leikstjóri ársins. Kynnirinn ræddi öll baráttumálin og umdeildu málin, en framanaf voru verðlaunahafar ekkert á þeirri línu. Verðlaunahafar úr hópi innflytjenda, ekki síst af mexíkóskum uppruna, héldu pólitískar ræður og var vel fagnað. En það var svo ræða Frances McDormand sem var hápunktur baráttukvennaandans.

En það var ekki allt gott og jákvætt þessa löngu nótt.

Fyrirfram hafði ég ekkert kynnt mér óskarsverðlaunatilefndar bíómyndir eða einstaklinga. Vissi jú um nokkrar helstu myndir og að Gary Oldman og Meryl Streep (að vanda) væru tilnefnd en varla mikið meir. Það kom mér því gríðarlega á óvart þegar Kobe Bryant fékk óskarsverðlaun fyrir stutta teiknimynd (6 mínútur) sem hann framleiddi og skrifaði handritið að, og fjallar um feril hans, hann er því sjálfur rödd sögumanns í myndinni. Disney-teiknari var fenginn til verksins og John Williams gerði tónlistina, greinilega ekkert til sparað enda Kobe Bryant vellauðugur.

Kobe Bryant, fyrir þau sem ekki vita, er bandarískur körfuboltamaður sem var kærður fyrir nauðgun í júní 2003, en unga konan sem var hótelstarfsmaður á hóteli sem hann gisti á, hætti við að vitna fyrir rétti svo að málið var fellt niður. Síðar fór hún þó í einkamál við hann, sem hann svo samdi sig útúr. Hann játaði aldrei að hafa nauðgað henni en sagði allt hafa gerst með hennar samþykki.* (Konan skildi aldrei við hann, þrátt fyrir 'framhjáhaldið'.) Hann fékk auðvitað mikinn stuðning aðdáenda sinna en hún úthrópuð sem gráðug þið-vitið-hvað. En hann náði sér fljótlega á strik og körfuboltaferli hans lauk ekki fyrr en 2016. Nú er áætlað að hann eigi 350 milljónir dollara (35 milljarðar króna). Svona svo dæmi sé tekið um hve 'falskar nauðgunarkærur' geta eyðilagt líf karla.

Nema hvað. Kobe Bryant stökk glaður í bragði á sviðið til að taka við Óskarnum — og salurinn fagnaði ákaft. Sama fólk og stendur að #metoo, sama fólk og skreytti sig með Time's up barmmerkjum. Þvílík hræsni. Þvílíkt bjakk.


___
* Hann skrifaði afsökunarbeiðni þar sem hann hálfpartinn játar.

Það má líka alveg nefna annað atriði sem truflaði mig á Óskarsverðlaunahátíðinni, þótt ólíkt væri. Það var undarlegt að verða vitni að fagnaðarlátum þegar leikari tilkynnti stoltur að hann hefði barist í Víetnam. Alveg einsog allir væru sammála og hefðu alltaf verið um að Víetnamstríðið væri besta mál. Ég hefði viljað sjá framan í Jane Fonda á þeirri stundu.
Svo súrnaði þetta atriði enn þegar hann kynnti stríðsmyndir sem sýni þá sem hafi „barist fyrir frelsi“ um allan heim, og eftir samklipp margra stríðsmynda birtist setningin „Óskarsverðlaunahátíðin vill þakka og heiðra þá karla og konur sem gegnt hafa hermennsku um allan heim.“ Sem er auðvitað alveg óumdeilanlega alltaf mjög jákvætt, og fer vel í heimsbyggðina.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, mars 03, 2018

Ólík vinnubrögð fjölmiðla

Ritstjórn Stundarinnar fékk blaðamannaverðlaun ársins fyrir umfjöllun um uppreist æru og ljósmyndari Stundarinnar var verðlaunaður fyrir myndaröð ársins af samfélagi heimilislausra í Laugardalnum og portrait mynd ársins.

Svo segir á vefsíðu Stundarinnar í dag. Það er auðvitað fullt tilefni til að óska Stundinni til hamingju með verðlaunin, en það er þó ekki tilefni bloggfærslunnar að þessu sinni. Heldur litla klausan neðst við fréttina:
Fyrirvari við umfjöllun: Stundin fjallar hér um atburði þar sem fjölmiðillinn sjálfur er viðfangsefni.
Þetta hlýtur eiginlega að vera skrifað í hálfkæringi og sigurvímu, því varla getur þetta atriði hafa farið framhjá lesendum.

Nema hér sé verið að fylgja ágætri vinnureglu út í æsar.

Svipaða klausu má lesa nefnilega neðan við úttekt Stundarinnar á því hvort tilefni sé til þess að framfylgja þingsályktunartillögu frá 2012 um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Þar er talað við Tryggva Gunnarsson, umboðsmann Alþingis, og Finn Þór Vilhjálmsson lögfræðing, sem starfaði bæði með rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið og rannsóknarnefndinni um þátt þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003.

Í lok greinarinnar stendur:
Fyrirvari: Finnur Þór Vilhjálmsson, sem hér er vitnað í, er bróðir Inga Freys Vilhjálmssonar, blaðamanns á Stundinni.
Víkur þá sögunni að leiðarar leiðara sem birtist fyrir nokkrum dögum í Fréttablaðinu eftir Kristínu Þorsteinsdóttur. (Bloggið hefur áður birt úttekt á leiðaraskrifum Kristínar.) Pistill þessi er um væntanlegar breytingar á smásölumarkaði vegna þess að stórfyrirtæki í verslunarrekstri vilja eignast/sameinast fyrirtækjum á eldsneytismarkaði. Þannig vilja Hagar (sem þegar eiga Hagkaup, Bónus og Útilíf) sameinast Olís. Í leiðaranum talar Kristín um örmarkað, takmarkaða stærðarhagkvæmni, háan flutningskostnað til Íslands, og vaxtakostnað:
„Það skýrir meðal annars að vöruverð er eins hátt á Íslandi og raunin er.“
Svo eru það erlendu keppinautarnir (netverslun) og Costco, segir Kristín.
„Af þessum sökum er auðvelt að færa rök fyrir því að Samkeppniseftirlitið eigi að heimila innlendum fyrirtækjum sem eru í harðri samkeppni við þá erlendu að sameinast.“
Og svona ræðir Kristín þetta alltsaman án þess að minnast á nokkurn hátt á þá smávægilegu staðreynd að Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson eiga helling í Högum (870 milljónir við síðustu talningu), þessu fyrirtæki sem Kristín eyðir heilum leiðara í að rökstyðja að Samkeppniseftirlitinu eigi barasta alveg endilega að leyfa að stækka meira og afla enn meiri fjár fyrir eigendur sína. Sem eru líka eigendur Fréttablaðsins og vinnuveitendur Kristínar Þorsteinsdóttur.

Vinnubrögð Stundarinnar við að skýra frá tengslum sínum við umfjöllunarefnið eru til fyrirmyndar. Um vinnubrögð Kristínar verða að þessu sinni ekki höfð fleiri orð, en ljóst er að hún fylgir ekki sömu vinnureglum og verðlaunablaðamenn.


Efnisorð:

fimmtudagur, mars 01, 2018

Strætókattagæluhúskaffi

Gleðileg dýratíðindi dagsins:

Gæludýr mega nú ferðast með strætó (með allskonar skilyrðum*).

Kattakaffihús hefur opnað á Bergstaðastræti. (Má klappa.)

Bjartur og fagur dagur í fleiri en einum skilningi.


___
* Meðal skilyrða:
- Sá sem ferðast með dýr kemur í framdyrnar til að greiða fargjald og fer síðan með gæludýr inn um aftari/miðdyr vagnsins. Gæludýr skulu vera í aftari hluta vagnsins. Farþegi sem ferðast með gæludýr skal tilkynna vagnstjóra um gæludýrið um leið og fargjald er greitt.
- Hundar mega ekki vera í útdraganlegum taumi.

Hmm. Þarf hundurinn að bíða úti bundinn við ljósastaur meðan eigandinn er inni í vagninum að borga?

Efnisorð: