föstudagur, janúar 26, 2018

Ég stend með konum af erlendum uppruna

Konur af erlendum uppruna hafa birt sögur af kynferðisofbeldi, áreitni og mismunum sem þær hafa orðið fyrir vegna kyns síns, uppruna og húðlitar. Sögurnar bera meira og minna keim af útlendingahatri og rasisma. Hegðun gerendanna er í einu orði sagt ógeðsleg. Kjarninn skrifaði fréttaskýringu, birti allar sögurnar og #metoo áskorun kvennanna á íslensku og ensku. Fanney Birna Jónsdóttir skrifar í leiðara sínum að
„við skiljum ekki ein­semd­ina, von­leysið og varn­ar­leysið sem felst í því að verða undir í sam­fé­lagi þar sem tengsla­netið er veikt. Þar sem tungu­málið er fram­andi. Þar sem menn­ingin er fram­andi. Þar sem allir hinir virð­ast vera ein fjöl­skylda sem þú stendur utan við. Við getum ekki tengt með sama hætti við frá­sagnir kvenna af erlendum upp­runa af því þær eru ekki okkar sög­ur. Þær eru verri en okkar sög­ur.

Frá­sagnir kvenn­anna lýsa mansali, nauðg­un­um, and­legu og lík­am­legu ofbeldi, nauð­ung, mis­munun og nið­ur­læg­ingu. Þær sýna fram á algjöran van­mátt, varn­ar­leysi og úrræða­leysi.“
Fanney Birna spyr síðan og svarar spurningunni: Hvað ætlum við að gera?

Eydís Blöndal svarar því fyrir sitt leyti með svohljóðandi yfirlýsingu:
„Ég stend með konum af erlendum uppruna.

Forréttindi mín sem íslensk kona gefa mér rými í samfélaginu sem ég þarf að vera meðvituð um. Ég ber ábyrgð á því að þekkja mín forréttindi og að sjá þegar fólk sem hefur minni forréttindi en ég er beitt misrétti og ofbeldi. Ég ber ábyrgð á því að þetta fólk hafi jafn greiðan aðgang að tækifærum, frelsi og réttlæti og ég. Ég ber ábyrgð á því að líta í eigin barm.

Ég stend með konum af erlendum uppruna.“

Undir það tek ég heils hugar.Efnisorð: , , , , , , , ,

miðvikudagur, janúar 24, 2018

Vonarglæta

Hæpið var á dagskrá í kvöld, fyrri þáttur af tveimur um stráka. Hæpið er feiknalega góður þáttur (sem ég hef áður hrósað ) og umsjónarmennirnir Katrín Ásmundsdóttir og Unnsteinn Manuel Stefánsson voru semsagt að tala um stráka, við stráka og karlmenn á öllum aldri, og spurðu þá um karlmennsku og tilfinningar. Feðgar sem rætt var við í Kringlunni voru greinilega búnir að ræða um karlmennsku áður, það var gott atriði. Það var líka sérstaklega ánægjulegt að sjá litlu strákana tala af skynsemi og ígrundun (og voru meiriháttar góð auglýsing fyrir Hjallastefnuna). Eldri strákar voru líka spakir, en viðurkenndu svosem að þeir hefðu ekki alltaf verið það.

Í heildina tekið vakti þátturinn von um að nýjar kynslóðir karlmanna kunni ekki bara að tala um tilfinningar (sem er frábært) heldur verði (allavega ef marka má þessi eintök sem þarna töluðu) miklum mun betri en forfeðurnir.

Ég mæli með að skoða síðu Hæpsins á ruv.is, horfa á þáttinn á Sarpnum á netinu eða í þar til gerðum sjónvarpstækjum. Þetta eru extra mikið fínir þættir.


Efnisorð: ,

sunnudagur, janúar 21, 2018

Dagatöl með myndum af fáklæddum konum (nei takk)

Sambandsstjórn Samiðnar samþykkti ályktun í vikunni í tilefni #MeToo byltingarinnar. Í ályktuninni er lögð áhersla á samstillt átak stjórnvalda, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins til að ráðast gegn inngróinni menningu byggðri á mismunun kynjanna í samfélaginu, innan fjölskyldna og á vinnustöðum. Skorað er á aðildarfélög Samiðnar að hafa frumkvæði að virkri þátttöku í umræðunni gegn kynbundu ofbeldi og kynbundnum vinnumarkaði. (Segir í frétt Vísis.)

Samiðn - samband iðnfélaga, er landssamband stéttarfélaga sem varð til við samruna Málm- og skipasmiðasambandi Íslands og Sambands byggingamanna. Aðild að sambandinu eiga starfsfólk í bílgreinum, hársnyrtigreinum, málmtæknigreinum, tækniteiknun, byggingagreinum, garðyrkju og skipasmíðum.

En aftur úr frétt Vísis:
„Við erum í karllægu umhverfi og finnum áherslu á að við karlarnir stígum fram og við erum að beina því inn á við hjá okkur að við tökum þessi mál til skoðunar, í hreyfingunni og inni á vinnustöðum,“ segir Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar um tilefni ályktunarinnar.

Hann segir umhugsunarefni hve illa konur endast í iðngreinunum. „Þær sem fara í nám og byrja til dæmis í mannvirkjagerð og bifvélavirkjun, endast stutt. Það getur verið eitthvað í okkar vinnustaðamenningu sem konum fellur ekki við, við höfum ekki skoðað það en það er mjög áhugavert rannsóknarefni.”

„Það er mikil karlamenning á þessum vinnustöðum og það getur verið eitthvað í umræðumenningunni og svo náttúrulega þessi almanök af fáklæddum konum á veggjum víða. Allt getur þetta virkað neikvætt á konur,“ segir Þorbjörn.

„Við þurfum að fara í að horfa á umhverfið okkar og spyrja okkur; er eitthvað hér sem misbýður konum? Við eigum að taka frumkvæði í þessu karlarnir.“

Og Þorbjörn segir: „Við karlarnir eigum að ganga í að fjarlægja þetta allt saman“.

Áður hefur verið sagt frá því hér á blogginu hve óþægilegt það er að reka augun í berar konur uppi á verkstæðisvegg. Þannig að þegar ég las um tillögu Þorbjarnar hrópaði ég „heyr, heyr!“

En það urðu ekki allir svo glaðir. Athugasemdakerfi Vísis logaði, og logar enn. Frá því að viðtalið við Þorbjörn birtist í gærmorgun og þar til núna rétt áðan voru komin 130 athugasemdir, og sýndist sitt hverjum. Sannarlega voru allmargar manneskjur hlynntar því að plaköt eða dagatöl með fáklæddum konum yrðu framvegis ekki á veggjum, og meirasegja voru sumir karlmenn hlynntir niðurrifinu. En margir karlmenn urðu æfir, sögðu að til væru dagatöl með slökkviliðsmönnum, töluðu um ritskoðun, að það þyrfti enginn að horfa á þetta sem ekki vildi, og hvort konur vildu hvoreðer ekki free the nipple.

Sérstaklega er gaman að sjá gamla kunningja sem hafa gegnum tíðina tekið þátt í umræðu um allskonar hluti tengda konum og kvennabaráttu, og eru enn þann dag í dag staðfastir í þvermóðskukarlrembunni sinni. Þetta eru tildæmis Haddi Gudmunds, Jarl Gunnar Ólafsson (sem stundum notar ‘Víking’ í stað jarl), Henry Bæringsson, Friðjón Árnason og Birgir Fannar. Sannkallaðir hörkukallar. Svo var líka einn sem lagði sig fram um að vitna í gamlan texta eftir Einar Ísfjörð, sem áður hefur verið vitnað til hér á blogginu.

Annars er ég að hugsa um að leyfa lesendum að sjá 'brot af því besta'. Þarna eru bæði rök með og á móti. Ég kippti út aukaatriðum eins og hvað klukkan var þegar athugasemdirnar eru skrifaðar, nafni sem einhver fjarstaddur er ávarpaður með, og líka starfsheitum fólks eða nafni vinnustaðar. Ja nema tvisvar. Í annað skipti vegna jákvæðs samhengis, hinu vegna þess að þá er um að ræða mann sem tengist íþróttarhreyfingunni, en það eru rétt örfáir dagar síðan íþróttakonur deildu sögum sínum af áreitni og ofbeldi af hálfu íþróttakarla.


Hefjum leika.

Haddi Gudmunds
[EN] okkur mönnunum er farið að leiðast þessi umræða all verulega.
Af hverju fara þessi dagatöl i taugarnar á fólki ?
Eigum við ekki að banna að brunavarnir taka myndir af sér og selja lika þar sem menn eru á forsiðum ?

Mér þykir þetta vera komið gott. og of langt. þegar að fara á i vinnu umhverfi fólks og skikka þvi til.

Ég get sagt það að mér var sama um þessi dagatöl og er ekki viss um að við vorum með eitt. en vegna þessara umræðu þá ætla ég mér að finna dagatal og setja upp i mótmælaskyni. og það fer ekki niður.

Bryndís Júlíusdóttir
Flestum konum er mjög illa við þessar myndir,hvað þá á vinnustað, því myndirnar eru niðurlæging fyrir konur. Ég veit um konu sem réð sig sem kokkur á sjó á níunda áratugnum. Þegar hún kom niður í eldhús, þá var það fyrsta sem hún sá uppi á skáphurð mynd, og hún horfði beint upp í nakið kvenmannsklof. Þessi kona sem var töffari reif myndina orðalaust niður og henti henni. En kokkurinn sem hún tók við af var karl.

Konur hafa yfirleitt tekið þessum myndum þegjandi, en hugsa sitt. Þorbjörn á mjög mikið hrós skilið fyrir að taka frumkvæði um þetta málefni, og benda á að það er ekki sjálfsagt af hafa myndir af nöktum konum t.d. á bifvélaverkstæðum. Það á ekki að neyða konur til að horfa á þessar myndir á opinberum stöðum. Það er hrein meðvirkni að verja þetta.

Rúnar Jóhannsson
Hvaða rannsókn ertu að tala um þegar þú segir að flestum konum séu mjög illa við þessar myndir. Síðan hvenær eru brjóst niðrandi fyrir konur, voru ekki flestar konur á Íslandi sem studdu frelsum geirvörtuna byltinguna. Bifreiðaverkstæði og vinnuskúrar eru ekki opinberir vinnustaðir einsog þú heldur fram, flestir af þessum stöðum sem eru með þessar myndir eru vinnusvæði sem eru eingöngu karlmenn.

Húnbogi Valsson
Bryndís Júlíusdóttir. Ég er svo sammála, hef alltaf fundist það með eindæmum hallærisegt að hafa myndir af bikiniklæddum stúlkum í auglýsingum fyrir smurningsolíur og kerti í bílvélar, hef unnið á bílaverkstæði með svona myndir á veggjum og fannst óþægileg tilhugsunin um að fólk héldi að ég hefði gaman af þessu og þegar ég hef ráðið mig á skip, þá er oft það fyrsta sem ég sé í klefanum, nektarmynd af stúlku á veggnum og þá verður það fyrsta sem ég geri, að rífa hana niður, því ég vil ekki að fólk haldi að ég sé svona hallærislegur að vilja svona myndir á veggjum.

Kristbjörn Árnason
Gott hjá ykkur byggingamenn, það eru a.m.k. 50 ár síðan að byrjað var að rífa þessar myndir niður á húsgagnaverkstæðum.

Auðvitað þola flestar konur þessar myndir sem vinna á svona stöðum og e.t.v. ekki önnur vinna í boði, en þetta er samt ótrúleg óvirðing sem þeim er sýnd. Þær sem ekki þola og eru með einhverja sjálfsvirðingu milli eyrnanna hætta strax störfum en hinar sem halda áfram eru stiplaðar ekki í lagi.

En þetta snýst að mestu leiti um sjálfsvirðingu karla eða fjölskyldufeður sem vinna á slíkum vinnustað þar sem sumir þeirra hengja upp svona fjölskyldumyndir sínar. Þessir karlar fá jafnvel konur sínar og börn í heimsókn á vinnustað.

Bæði er að inn á þessa vinnustaði koma bæði karlar og konur, sem eru viðskiptavinir fyrirtækjanna sem verða eðlilega mjög hikandi við svona myndasýningar. Nokkuð sem er algjörlega óviðeigandi. Þeir sem líma upp slíkar myndir oft með mjög lífræðilegum áherslum, sýna með þessu háttarlagi sínu hvaða mann þeir hafa að geyma.

Þeir karlar áðrir sem láta þetta yfir sig ganga, gera það einnig með aðgerðarleysi sínu. Þeir eru óhjákvæmilega stimplaðir af viðskiptavinum fyrirtækja sem láta slíkt óátalið. Það er einnig alveg augljóst að fyrirtæki sem láta svona lagað viðgangast missa viðskiptavini vegna slíks ófagnaðar.

Jarl Gunnar Ólafsson
Þetta er að fara út í öfgar og endar með því að karlmenn verða geldingar eða áhuga laus að vilja gera einhvað með sinar eigin konur í rúminu,. Þessu saklausu veggja myndir af nektum konum er svo saklaust miða við öllu þessu virkilega viðbjóði sem er í boði frá okkar simum og tölvum af virkilega ógeðfelt samfarir í öllum stellingum og af sömu kynni,. Svo eru folk að tala gegn um fallega nekta myndir af konum og eða karlmanni sem er bara kroppa mynd! Hvað með listina af nemendur að mála eða skulpura nekta konu eða karl sem er hafð fyrir framan sig? Hvað með þessi sem var í glerbúri nakin í einhvað tima er það viðbjóður? Er það lika að fara á bann lista að sjá svoleiðis myndlist? Þegar maður for til Grikklands og Romar og allar þesar styttur af fallegu kroppum gerð fyrir hundruðum jafnvel þusend árum er við hér á littla ísland með öfgar stefnu áróður að það megji ekki hafa fallegar myndir af fallegu líkama! "McCarthyism is the practice of making accusations of subversion or treason without proper regard for evidence" YouToo McCarthyism, Íslendingar eru ser kynstófn af heimskingum að geta stælt sig af einhverju og segja svo við erum bestir í heimi í þessu bananalyðveldi!

Ársæll Níelsson
Þarftu að skoða klám í vinnunni til að hafa áhuga á að fara í rúmið með frúnni?

Jarl Gunnar Ólafsson
[HHS] Á list að vera bara heima? Erum við íslendingar einhvað mjög viðkvæmir skælandi kannski ef við förum erlendis og sægjum nekta styttur af konum eða karlmönnum? Nekta málverkum eða bara nekt, er einhvað ógeðslegt við það? Er likama kvenna og karla einhvað viðbjóðslegt að sjá? Það er eitt að syna myndir af folki að stunda kynlifi upp á vegg vinnustaða en nekta myndir af konum og karlar er bara fallegt og mikið listræn ekkert annað.

Jarl Gunnar Ólafsson
Ársæll Níelsson Ég held flestir karlmenn og eða konur vilja aðins kveikja á sig með klam hugsanir og myndir til að jú gera einhvað svo síðar,. Ég held að margir lita á sína hjónabandi meira eins og vinir eða bróðir systir samband,. Við erum að sjá yfir 50% skilnaður milli folks vegna áhuga leysi á kynlyfi og er það eitt og aðal málið afhverju folk skilur í dag.

Henry Júlíus Häsler Bæringsson
Á mínum vinnustað vinnur ein kona. Í mörg ár hefur Würth komið með dagatal af fáklæddum konum um hver áramót. Eftir að [KAH] byrjaði hefur hann líka komið með mynd af fáklæddum körlum. Ég hef ekki séð né heyrt annað en þetta valdi bara kátínu og hlátri.

Jon Arnar
hahaha, rosalega fyndið að hún þurfi að þola þetta ein. Gott að þú nefndir Wurth þarna sem dæmi um forneskjulegt fyrirtæki, þá veit maður hvert á ekki að beina viðskiptunum. Það er sjálfsögð kurteisi að vera ekki að draga kynlíf og klof inn á vinnustaðinn, hvað þá að troða því í andlitið á gestum og gangandi með því að hengja neðanbeltishugsunarganginn upp á vegg. Rosalega mátt þú vera stoltur núna.

Henry Júlíus Häsler Bæringsson
Jon Arnar Ég á nú eftir að spyrja hana á betur út í þetta og líði henni eitthvað illa með þessar veggskreytingar verða þær að sjálfsögðu fjarlægðar. En ef myndirnar af stelpunum á dagatalinu vekja sömu tilfinningar í hennar brjósti og myndirnar af strákunum vekja hjá mér, hef ég nú ekki miklar áhyggjur af henni. Og ég veit ekki hvernig þú hefur vanist að horfa á þessi dagatöl, meina Würth, en ég gæti ekki, þó ég ætti líf mitt að leysa, sagt þér hvernig mynd janúarmánaðar er, né nokkurn undangenginna mánaða. Svo mikla athygli vekur þetta nú. En mér virðist að í þinum huga fari nekt og kynlíf saman, það er nú eitthvað sem þú ættir að láta athuga. Annars vona ég að þér gangi bara vel í skóla lífsins. Þar er fjölbreyttasta námsframboðið.

Friðjón Árnason
Fyrir nokkrum árum gerðu kvenfélagskonur á Suðurlandi almanak þar sem þær sátu sjálfar naktar fyrir við alls konar bústörf. Myndirnar voru svart-hvítar af glæsilegum fulltrúum kvenþjóðarinnar af öllum stærðum og gerðum á mismunandi aldri. Þegar þetta almanak kom fram hljóðnaði allt í einu umræðan um "verkstæðismyndirnar". Mig minnir að brautryðjendur þessara breytinga hafi verið íslenskir slökkviliðsmenn og á eftir komu alls konar útgáfur af almanökum m.a.s. bændur í Hörgárbyggð létu sig hafa það að gefa út dagatal með myndum af sjálfum sér, nöktum við hin ýmsu bústörf.

Mörg almanök frá erlendum vöruframleiðendum skarta listrænum ljósmyndum af "rándýrum", frægum fyrirsætum sem fá örugglega enga smápeninga fyrir vikið. Þá hafa ófáir listamenn fengist við sýna fólk eins og það er klæðalítið eða klæðalaust. Ekki get ég séð að það sem hér er upp talið hafi nein tengsl við klám þegar ekki er gripið til afskræmingar á framsetningu myndefnis né að það sé gert í þeim tilgangi að lítilsvirða fyrirsæturnar, annað hvort kynið eða bæði og alls ekki til að sjokkera þá sem verða fyrir þeim ósköpum að sjá þessi verk.

Móðursýkin og öfgarnar hér á landi eru hins vegar leiddar af bomsuklæddum, rytjulegum mussukellíngum af báðum kynjum og fáir þora að standa upp í hárinu á þeim af ótta við að verða kallaðir rasistar, perrar, dýraníðingar eða hvað annað ljótt sem hugnast ekki rétttrúnaðarhyskinu sem fylgir nefndum mussukellíngum í blindni af því að það heldur að það sé mainstream í dag.

Í öllum mannlegum samskiptum eru mörk sem almenn skynsemi kennir fólki að virða og það gildir jafnt í þessum málaflokki sem öðrum. Kannski væri rétt að leggja áherslu á þessi mörk í umræðunni og ekki síst við uppeldi barna og ætla þeim síðan að bera sjálfum ábyrgð á sér og sinni afstöðu í stað þess að fara um með "bókabrennur" í móðursýkiskasti forsjárhyggjunnar og sjálfbirgingshætti þeirra sem ævinlega þurfa að skipta sér af því hvað allir hinir vilja, segja eða gera, svo ekki sé nú minnst á lýðskrumara eins og þann sem fréttin er um sem greinilega eru eingöngu að slá sjálfa sig til riddara á kostnað vinsællar umræðu ...sem reyndar er að hluta á villigötum eins og aðrar öfgar.

Haukur Hauksson
..... og upp með plaköt frá Samtökunum ´78? Þetta hefur fylgt karlpeningnum lengi (og mun gera....) vonandi. Hætta þessari tískubylgju, hræsni og skynhelgi.

Birgir Fannar
Það fær engin stofnun né fyrirtæki umflúið metoo. Þar að auki ef það væri kona á vinnustaðnum sem líkaði ekki dagatölin heldur einhver virkilega að það myndi ekki vera tekið niður ef hún bæði um það ?

Jafnvel góðar líkur á að ef kona skyldi byrja að vinna þarna að mennirnir myndu taka myndirnar niður af sjálfsdáðum í virðingarskyni því það vill gleymast í öllu þessu metoo æði að menn eru líka heiðursmenn en myndin sem er búið að gefa hérna af okkur mönnum er að við séum bara slefandi kynlífsfíklar sem segja óviðeigandi hluti við hvert tækifæri.

Farið að hætta þessum bölvaða áróðri fyrir alla muni.

Guðni Rúnar Jónasson
Æ er þetta allt farið að taka á? Þessi áróður um virðingu og frið frá brotum á þeirra persónu. Alveg hræðilegt

Birgir Fannar
Guðni Rúnar Jónasson Vert þú bara geldingur áfram með þunna og ræfilslega kaldhæðni

Ingþór Theodór Guðmundsson · Football Referee hjá KSÍ - Knattspyrnusamband Íslands
Hvað með þær konur sem ég horfði á versla dagatal af fáklæddum slökkviliðsmönnum? Sleppur það er það ekki?

Tómas Skúlason
Þorbjörn Guðmundsson vinsamlegast lestu þetta og aðrir sem eru ekki á sama máli hvert þessi réttrúnaðarstefna er að siggla . [Vísar í texta eftir Einars Ísfjörð]

Björn Sigurðsson
Jæja, ekkert má nú í dag...... spurning að pistlahöfundur passi að þetta sé ekki uppi á vegg hjá sér og hætti svo að skipta sér af málum sem koma honum ekki við. Ótrúleg þessi feminista umræða í dag. Held að meirihluti fólks sé að fá sig fullsadda af þessum siðgæðislöggum ....... en hvað veit ég 🤔

Loftur Hjálmarsson
fordómar gegn nekt eru rótgrónir en það mun líklega breytast og fólk almennt ganga nakið í hlýju veðri niður laugarveginn og sýna sig í kynlífi opinberlega, ástæðan er hver, kristni hafði trúaróbragð á nekt, geðbilaðir vildu vera naktir stundum, konum var frekar nauðgað ef naktar td á fáförnum stað eða síðar klæddar búnar að kveikja áhuga.

Rúnar Jóhannsson
hummm, flestar af þessum myndum á þessum almanökum eru af brjóstaberum konum. VAR EKKI EINHVER BYLTING UM DAGINN SEM HÉT "FRELSUM GEIRVÖRTUNA" ÞAR SEM BRJÓST VORU TITLUÐ Á ENGAN HÁTT SEM EITTHVAÐ KYNÆSANDI EÐA NIÐRANDI FYRIR KONUR!!!!!!!
Hvað segið þið konur og karlar sem tóku þátt í þessari frelsum geirvörtuna byltingu um þessa grein?

Ingþór Theodór Guðmundsson · Football Referee hjá KSÍ - Knattspyrnusamband Íslands
Það hentar ekki núna sjáðu til

Brynjar Aðalsteinsson · Iðnskólinn á Akureyri
Þessi dagatöl hafa farið í ruslið hjá okkur, Vélvirkja bíladeild.

Logi Karakulin
Niður með slökkviliðsmannadagatölin, helvítis sóðaskapur og viðbjóður!

Egill Sveinbjornsson
Mai 2016 var flott. Ég hengdi hana upp á milli Samantha Fox og Madonna platgötunum.

Bjarni Halfdanarson
Mig grunar að konan hans sé búin að kúga þennan greyið mann aðeins of mikið um ævina.

Hreggviður Óli Ingibergsson
[HHS] alls ekki! Eg er bara að benda á það og það virkilega óskýrt hvað þetta er fáránlega tilgangslaust vandamál sem einhverjar hetjur réttlætisins eru búnar að búa til. Að hugsa sér, það er gert að mínu vandamáli að einhver annar er hneykslaður. Sjálfur er mér slétt sama hvort þessi dagatöl fá að hanga eður ei, internetið var fundið upp til þess að veita þessa þjónustu. En mér þætti vænt um það að fólk myndi hysja upp um sig og hætta að gera sín eigin vandamál, sínar eigin skoðanir að hugarangri fyrir aðra. Þetta er einhver mesta sjálfselska sem fyrir finnst. Að hugsa sér, hneykslist einhver á þessu sem ég skrifa þá breytir það lífi mínu ekki neitt. Þessu er ekki beint að þér, því rétt eins og fyrir öllum öðrum manneskjum þá ber ég virðingu fyrir þér.

Eiður Þórarinsson
allar kellingar í búrku ..og ekkert kjaftæði ,,

Guðjón Þór Pétursson
Af hverju er þetta svona viðkvæmt á verkstæðum en ekki í sundi????????????????????

Inger Østlund
Serdu mun a ad vera med uteglent klofid vid fædingu eda vid innpøkkunar bordid i Kringlunni? Ef svo er veistu svarid ef ekki tha get eg ekki svarad ther 🤡

Rúnar Jóhannsson
Inger Østlund 99,9999999% af þessum dagatölum eru af berbrjósta konum með fallegt landslag eða álíka í bakgrun, ég hef reyndar ekki séð dagatal með konum með útglent klofið. Samlíkingin þín er bara kolröng og á enganvegin við.
Varstu á móti frelsum gerivörtuna byltingunni?

Kristján Óskarsson
ÖLLU MÁ OFGERA HERRA ÞORBJÖRN!

Jón Hilmar Indriðason
Síðast þegar ég sá svona dagatal en það eru komin nokkur ár síðan, þá voru þetta gullfallegar léttklæddar konur sem voru á dagatalinu. Þessar konur fengu örugglega miklu meira borgað fyrir að sitja fyrir heldur en ég fékk fyrir 1 mánuð í vinnunni, og voru 100 % ekki neyddar í myndatökuna. Þegar ég horfði á þessar dagatalsmyndir þá voru engar ljótar hugsanir sem komu upp, heldur var það þvílík fegurð. Það er ekkert ljótt að finnast kvenlíkaminn fallegur. Common þetta er komið úr í öfgar.

Efnisorð: , , , ,

föstudagur, janúar 19, 2018

Skepnuskapurinn í garð Noru Mørk

Það er einstaklega ömurlegt að fylgjast með því stafræna kynferðisofbeldi sem norska handknattleikskonan Nora Mørk hefur orðið fyrir. Í haust var brotist inn í símann hennar og persónulegum myndum af henni í framhaldinu dreift á netinu. Hún hefur kært fimmtán karlmenn fyrir drefinguna, en með hverjum deginum sem líður kemur betur í ljós hve myndirnar hafa farið víða. Eða öllu heldur, hverjir það eru (meðal annarra) sem hafa geð í sér að skoða myndir af konu sem þeir vita fullvel að berst gegn dreifingu myndanna. Leikmenn norska karlalandsliðsins í handbolta hafa þannig skemmt sér við að skoða myndirnar af henni.
„Danska blaðið BT segir frá því að myndirnar af Noru hafi þannig verið að ganga í búningsherbergjum danskra handboltaliða í tvo mánuði. Í gær var einnig sagt að myndirnar hafi verið að ganga innan norska unglingalandsliðsins í íshokkí.

BT fékk það staðfest frá dönskum handboltmönnum að myndirnar væru út um allt þó að viðkomandi heimildarmenn þeirra hafi ekki viljað koma fram undir nafni eða segja með hvaða félagi þeir spiluðu.“
Það hlýtur að vera hræðileg raun fyrir Noru Mørk að fólk í hennar íþróttagrein, jafnvel einhverjir sem hún þekkir, séu svo níðingslegir að vilja skemmta sér við að skoða myndirnar og auka þannig á niðurlægingu hennar.
„Ég verð nakin og berskjölduð alla mína ævi. Ég mun aldrei vita hverjir hafa séð mig. Ég finn fyrir pressunni af því á hverjum degi, öll kvöld og allar nætur,“ segir Nora en hún endaði yfirlýsinguna síðan á þessari setningu:

„Ég hef samt ekki misst trúna á öllum karlmönnum,“ skrifaði Nora.
Það er sjálfsagt ágætt að hún hefur ekki misst trú á karlmönnum, en ekki eykur þetta trú mína á þeim.

Í öðrum #metoo fréttum er þetta helst: Ríkissjónvarpið hefur enn og aftur kvikmynd eftir Roman Polanski á dagskrá. Þarf ekki að fara að taka eitthvað til í hausnum á þeim sem kaupa inn efni fyrir Sjónvarpið?

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, janúar 17, 2018

Frekastur allra

Það var ekki hægt að komast hjá því að vita um sjötugsafmæli Davíðs Oddssonar, því það var á forsíðu Fréttablaðsins. Það ku vera regla hjá Mogganum að þar hættir fólk störfum þegar það verður sjötugt, en það Davíð hefur aldrei virt reglur sem hann setur ekki sjálfur. Kannski þarf að bera hann út, eins og þegar hann var rekinn frá Seðlabankanum eftir „svokallað hrun“. Því er reyndar haldið fram að ástæða þess að Davíð hættir ekki á blaðinu sé sú að hann sé enn að endurskrifa söguna sér í hag, og ljúki því ekki í bráð.

Hefði Davíð tekist að verða forseti hefði hann kannski látið það duga til að geta litið sáttur yfir ævistarfið. En úr því það tókst ekki þá ætlar hann líklega að halda áfram að djöflast í Hádegismóum þar til honum tekst að telja okkur öllum trú um að hann eigi vammlausan feril að baki sem borgarstjóri, forsætisráðherra og seðlabankastjóri.

Margt (ófagurt) er hægt að segja og skrifa um feril ritstj. en hér verður minnst á tvennt.

Árið 2002 lagði Davíð niður Þjóðhagsstofnun sem hafði verið starfrækt frá 1974. Tilgangur sérstakrar þjóðhagsstofnunar var að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum.
„Davíð Oddsson lagði niður Þjóðhagsstofnun þegar hún hafði ítrekað sagt hluti sem honum var ekki að skapi, enda Þjóðhagsstofnun sjálfstæð stofnun. Í framhaldinu var spárhluti hennar sett inn í Fjármálaráðuneytið, þannig að sú þjóðhagsspá sem fjárlagafrumvarpið byggir á, er gerð af framkvæmdavaldinu sjálfu.“ (Gestur Guðjónsson)

Í ágúst 2008, þegar var farið að syrta í álinn í íslensku efnahagslífi, skrifaði Þorvaldur Gylfason skrifaði pistil um lokun þjóðhagsstofnunar.

„Í fyrsta lagi virtist Þjóðhagsstofnun síðustu árin trufla ráðríka stjórnmálamenn og embættismenn, því að hún fór þá sínar eigin leiðir og lét ekki segja sér fyrir verkum

Í annan stað var sagt, að greiningardeildum viðskiptabankanna hefði vaxið svo fiskur um hrygg, að þær gætu að einhverju marki leyst Þjóðhagsstofnun af hólmi. Þessi skoðun er varhugaverð vegna þess, að höfuðhlutverk greiningardeildanna er að flytja góðar fréttir af afkomu bankanna og verðbréfasviðskiptum til hagsbóta fyrir hluthafa. Hlutverk greiningardeildanna stangast á við hlutverk Þjóðhagsstofnunar, sem var að flytja réttar fréttir af þjóðarbúskapnum, góðar eða slæmar eftir atvikum, og leggja út af þeim. Stjórnmálastéttin hefði trúlega áttað sig fyrr á eðli og umfangi efnahagsvandans nú, ef Þjóðhagsstofnunar hefði notið við og síbylja gleðifrétta greiningardeildanna hefði ekki ruglað grunlausa stjórnmálamenn og aðra í ríminu.“

Þó ekki væri annað, þá varð þessi aðgerð Davíðs Oddssonar afar afdrifarík, eins og Þorvaldur og við öll komumst að þegar hér varð „svokallað bankahrun“.

En það var ýmislegt annað, þó ekki tengdist það allt bankahruninu.
„Þegar Kárahnjúkavirkjun var í undirbúningi þá hafði Skipulagsstofnun úrskurðarvald og gaf út leyfi eða synjaði. Stofnunin veitti ekki leyfi fyrir virkjuninni. Það varð til þess að þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, viðhafði þau frægu ummæli að ekki ætti að láta kontórista úti í bæ ákveða það sem heyrði undir pólitíkina. Þá var þetta vald tekið af Skipulagsstofnun, sem nú er aðeins ráðgefandi og kemur með álit en er kannski máttlausari en áður var.“
(„Dýralæknirinn sem keypti kaupfélag“ viðtal Reynis Traustasonar við Ólaf Valsson, Stundin 12.-25. janúar 2018.)
Davíð, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hreinn Loftsson (sem var þá enn í liði Davíðs) fullyrtu hver í kapp við annan að úrskurður Skipulagsstofnunar væri ólöglegur og undir það tók umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, og leyfði virkjunina.

Einnig hefur verið bent á að Skipulagsstofnun hafi eftir ádrepur Davíðs hleypt umyrðalaust öðrum virkjunarkostum í gegn, og þannig hafi stofnunin sloppið við að vera lögð niður.

Meðferðin á Skipulagsstofnun og Þjóðhagsstofnun sýnir að Davíð Oddsson lét ekki stofnanir ríkisins þvælast lengi fyrir sér heldur kúgaði þær eða lagði niður. Hann er „frekasti karlinum af öllum sem hafa frekjast hér undanfarna áratugi“. 

Að lokum má benda á gamla grein eftir Ármann Jakobsson sem varpar nýju ljósi á afmælisbarn dagsins. Því þar er svoldið eins og verið sé að lýsa öðrum valdamanni, þeim sem nú situr (óverðugur) í Hvíta húsinu.

Efnisorð: , , , , , , ,

föstudagur, janúar 12, 2018

Konur sem verja rétt karla til kynferðislegrar áreitni, og ráðast á aðrar konur fyrir að segja frá

Aldrei hélt ég að ég ætti eftir að líkja Catherine Deneuve og Jónínu Benediktsdóttur saman. En sú fyrrnefnda, reynar í slagtogi við 99 aðrar franskar konur, ku hafa skrifað opið bréf þar sem þær vöruðu við púritanisma kjölfar #metoo. Þær frönsku eru ekki að segja eigin sögur heldur standa þær með körlum sem hafa verið ásakaðir um kynferðislega áreitni, og verja rétt karlmanna til að reyna við konur.
Þær harmi allar þær fordæmingar sem komið hafa fram í garð karla eftir að greint var frá ásökunum á hendur Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Að mati kvennanna skerða slíkar „nornaveiðar“ kynfrelsi.

„Nauðgun er glæpur en að reyna að draga einhvern á tálar, jafnvel oft eða klaufalega er það ekki. Það að karlmenn sýni af sér herramennsku er ekki heldur árás af hálfu feðraveldisins,“ segir í bréfinu.

Þá segir þar jafnframt að mönnum hafi verið refsað, og þeir jafnvel misst vinnuna „fyrir það eitt að snerta hnéð á einhverjum eða að reyna að stela kossi.“ Í bréfinu kemur fram að konurnar sem undir það skrifa telja það nauðsynlegt að tala um misnotkun af hálfu valdamikilla. Þær líta þó einnig svo á að fordæmingarnar séu orðnar „stjórnlausar“ og að þetta valdi því að konur séu álitnar vanmáttugar og eilífðar fórnarlömb. Þær segjast ekki finna sig í þessum femínisma.
(Umorðun og þýðing Vísis á efni bréfsins, og hefur eftir enskri þýðingu BBC)
Kannski hefur Catherine Deneuve alltaf verið illa upplýst og andfeministi, en sem ein frægasta leikkona Frakka er verulega óþægilegt að hún taki þessa afstöðu. Það hljómar þá eins og hún tali fyrir munn allra franskra kvenna. Franskir femininistar hafa reyndar svarað henni, eins og fram kemur í ofangreindum fréttum.

Jónína Ben birti reyndar ekki opið bréf heldur skrifaði á eigin Facebooksíðu, en sumir fjölmiðlar liggja yfir Facebooki íslenskra frægðarmenna, svo gera má ráð fyrir að slík skrif beri fljótlega fyrir augu almennings.

Nema hvað, Jónína er svona ansi óhress með nýjustu #metoo hrinuna sem kemur frá íþróttakonum. Hún þykist bera kennsl á eina konuna sem þar skrifar og segir að íþróttakonan hafi
„einfaldlega hafa verið ástfangna af giftum manni, og ekkert farið í felur með það. Henni hafi ekki verið nauðgað.“
Fyrir nú utan það að þetta er andstyggilega sagt (enginn ætti að segja slíkt við konu sem segir að sér hafi verið nauðgað), þá tekur Jónína ansi stórt upp í sig — hvernig getur hún fullyrt að aldrei hafi giftur maður nauðgað konu sem er ástfangin af honum — þá kemur í ljós að Jónína virðist halda að aðeins eitt handboltalandslið karla hafi starfað frá upphafi, en íþróttakonan var aðeins 3ja ára þegar landsliðið sem Jónína talar um var að æfingum fyrir Ólympíuleika. Tilgangur Jónínu virðist hafa verið álíka göfugur og frönsku kvennanna, að standa með karlmönnum sem liggja undir grun 'blásaklausir'.
„Konur bera líka ábyrgð á orðum sínum og gjörðum ekki bara karlar. Persónulega finnst mér svona hálkveðnar vísur aulaháttur. Ef einhver nauðgar þér kærðu hann til lögreglu en búðu ekki til angistarástand í fjölda hjónabanda. Fordæmum ofbeldi en látum ekki misnota okkur í Kastljósi aftur.“
Það eina sem Jónína gerði með þessu þusi var að vekja athygli allra á því að handboltalandslið karla árið 1984 hafi vaðið í kvenfólki. Þessi yfirlýsing hennar getur því hæglega „búið til angistarástand í fjölda hjónabanda“.

Við frétt Vísis eru fleiri en ein og fleiri en tvær athugasemdir um að Jónína virðist enn vera að verja Gunnar Þorsteinsson eiginmann sinn, fyrrum forstöðumanns hvítasunnusafnaðarins Krossins, sem einmitt var sakaður um kynferðislegt áreiti gagnvart sjö konum, sem sumar hverjar voru á unglingsaldri þegar hann var að djöflast í þeim.

Eða eins og ein þeirra skrifaði í athugasemdakerfið um þetta framlag Jónínu Ben til #metoo:
„þessi kona sagði nánast það sama um okkur konurnar 7 sem opinberuðu eiginmann hennar, allar yfir okkur ástfangnar af honum og auðvitað allar að ljúga.............. Ég segi nú bara hve oft er hægt að skjóta sig í fótinn og læra ekkert af því.........“
Það má vel vera að það séu ólíkar ástæður fyrir því að Catherine Deneuve og fylgifiskar annarsvegar og Jónína hinsvegar hafa fyrir því að ráðast gegn hinu ágæta #metoo framtaki með því að taka sér þétt stöðu með körlunum. En þá rifjast upp að fyrir margt löngu var skrifað hér á bloggið um styðjandi kvenleika, það er ekki örgrannt um að mér sýnist ofangreindar konur vera nokkuð skýrt dæmi um hann.

Eða hlýtur ekki vera til eitthvað nafn yfir þetta, annað en bara @#$%&?!

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, janúar 10, 2018

Hermaurinn og herforinginn ómissandi

Það gladdi mitt litla hjarta að sjá að loksins er kominn efnilegur kandídat í embætti borgarstjóra. Eyþór Arnalds býður sig fram í oddvitasætið fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og auðvitað með borgarstjórann í huga. Flestum sem heyra þessar fregnir verður fyrst hugsað til ljósastaura en mér varð hugsað til flokksfélaga Eyþórs sem hefur látið talsvert að sér kveða undanfarið. Það er engin önnur en hún Sirrý Hallgrímsdóttir, sem skrifar pistla í Fréttablaðið og hefur stundum látið ljós sitt skína í Silfrinu á sunnudögum.

Sirrý hefur mikið notað það stílbragð að setja pistla sína upp sem ímynduð viðtöl eða samtöl. (Mjög er það misvel heppnað.) Nú hlakka ég til að lesa næsta pistil Sirrýjar sem ég vona að fjalli um framboðsákvörðun Eyþórs. Sirrý hlýtur þá að stilla upp samtali milli Eyþórs, einum eigenda Morgunblaðins, og Davíðs Oddssonar, núverandi ritstj. blaðsins.

Í samtalinu gæti þá komið fram hvort Eyþór hafi sjálfur fjármagnað kaupin á fjórðungshlut í Mogganum eða hvort hann sé leppur fyrir einhvern (sama mætti upplýsa um ýmis stóriðju- og virkjunaráform sem Eyþór tengist), og hvort kaupin séu til þess gerð að fá stuðning Davíðs í framboðsbröltinu. Eða hvort allt þetta sé að undirlagi Davíðs. Og hvort þeir báðir telji öruggt að Eyþór verði borgarstjóri, með svo reyndan mann í aftursætinu að segja sér til. Því Davíð kann bæði að sigra í kosningum (ehemm) og svo kann hann auðvitað allra manna best að stjórna borginni.

Það væri auðvitað allra best ef Sirrý skrifaði það svo alþjóð geti lesið, hvaða hagsmunum Eyþór ætlar að þjóna (ekki að það sé erfitt að giska á það), og þá ekki síst hverjum er í raun ætlað að vera við stjórnvölinn.

Komaso, Sirrý!


Efnisorð: , , , ,

mánudagur, janúar 08, 2018

Oprah

Ræða Opruh á Golden Globe verðlaunaafhendingunni var frábær. Þegar sagt var frá því í kvöldfréttum Ríkissjónvarpssins að hún væri að velta forsetaframboði fyrir sér fékk ég hjartsláttartruflanir af spenningi við tilhugsunina. Það væri svo frábært!

Efnisorð: ,

sunnudagur, janúar 07, 2018

Er „í bili“ teygjanlegt hugtak?

Hallgrímur Helgason var í viðtali við Víðsjá af því tilefni að hann hlaut viðurkenningu rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins. Þar var hann spurður um þátttöku sína í þjóðmálaumræðu undanfarinn áratug. Hann sagði þá þetta.
„Stundum finnst mér þetta bara vera tímaeyðsla, því árangurinn er nánast enginn. VG fer í stjórn með Bjarna Ben, sama hversu mikið maður er búinn að hamast á honum og sýna hversu spilltur stjórnmálamaður hann er. Þetta ærir mann bara og maður hefur tilhneigingu til að gefast upp í bili, snúa sér að heimilissælunni og litla barninu.“
Mér finnst áhugavert að Hallgrímur talar um að „gefast upp í bili“. Sjálfri finnst mér einsog ég hafi gefist upp fyrir fullt og fast, fái aldrei áhuga á pólitík aftur.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, janúar 04, 2018

Orð ársins 2017

Orð ársins 2017 er epalhommi. Það á sér nokkra sögu, og auglýsingin sem Epal birti í framhaldinu var frábær. Líklega hefur auglýsingin ýtt undir að epalhommi varð fyrir valinu sem orð ársins, en fyrirfram hefði ég haldið að andstæðingar Hildar Lilliendahl hefðu reynt að kjósa gegn því, bara svona útaf því að hún 'á' það.

Sannarlega eru ekki allir glaðir með þetta val. Aðeins einn (þekktur andfeministi sem leggur fæð á Hildi Lilliendahl) er búinn að gera athugasemd við frétt Vísis um kjörið þegar þetta er ritað, og hann hefur þetta að segja:
„Hefði Egill Einarsson getað átt orð ársins með því að kalla Jóhönnu Sigurðardóttur Kolaportslessu?“
Mikið er leiðinlegt að Einar Steingrímsson varð ekki háskólarektor, svona vandaður maður og íhugull.


Efnisorð: ,

mánudagur, janúar 01, 2018

Nýtt ár, vonandi skárra en síðast

Leyniskyttan og laumubloggarinn óskar lesendum bloggsins gleðilegs árs.

Tilkynnist: Áramótapistillinn hefur verið birtur í fullri lengd.

Efnisorð: