sunnudagur, október 29, 2017

Karlþingi

Niðurstaða kosninganna er sú að kynjahlutföll á Alþingi hafa ekki verið verri í tíu ár. Er því farið að tala um Karlþingi.*Þetta er hrátt uppúr fréttum Ríkisútvarpsins:
Konum fækkar á þingi um sex eftir kosningarnar í gær og hefur staða kvenna ekki verið lakari frá því eftir kosningarnar árið 2007.

Píratar ná inn sex þingmönnum. Þar af eru fjórir karlar og tvær konur. 67 prósent karlar en 33 prósent konur. Samfylkingin fær sjö þingmenn; fjóra karla og þrjár konur. 57 prósent karlar og 43 prósent konur. Viðreisn er með jafnt hlutfall karla og kvenna í sínum fjögurra manna þingflokki.

Í ellefu þingmanna þingflokki Vinstri-græna verða sex konur og fimm karlar. Þar er kynjahlutfallið 54,5 prósent konur en 45,5 prósent karlar.

Mestur er kynjamunurinn í Miðflokknum, sem fékk sjö þingmenn. Þar eru sex karlar en ein kona. Hlutfall karla er 86 prósent karlar en kvenna 14 prósent. Hjá Framsóknarflokki er hinsvegar hlutfall kvenna mest. Þar eru fimm konur í átta manna þingflokki en þrír karlar. Kynjahlutfallið er 62,5 prósent konur en 37,5 prósent karlar.

Sjálfstæðisflokkurinn er með sextán þingsæti, í þingflokknum verða tólf karlar og fjórar konur. Kynjahlutfallið er 75 prósent karlar en 25 prósent konur.

Flokkur fólksins er með þrjá karla í sínum þingflokki og eina konu. Kynjahlutfallið er því 75 prósent karlar en 25 prósent konur.

Það er náttúrlega ömurleg afturhaldsstefna hjá Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins að bjóða fram lista með svona fáum konum, og fáum í oddvitasætum. Þar ber Sjálfstæðisflokkurinn mesta sök (hinir eru nýir og geta haft það sem afsökun að hafa haft stuttan fyrirvara) því flokkurinn hefur margsinnis verið gagnrýndur fyrir að hampa körlum á kostnað kvenna.

Það eina sem getur bætt upp fyrir þessa stöðu á Alþingi er að næsti forsætisráðherra verði kona. Má gjarnan heita Katrín og vera Jakobsdóttir.


___
*Hugsanlega varð Bragi Valdimar fyrstur með þessa nafngift.

Efnisorð: , ,

föstudagur, október 27, 2017

Níu klukkustundir í opnun kjörstaða

Skoðanakannanir hafa reynst óáreiðanlegar en þó er afar kvíðvænlegt að sjá Sjálfstæðisflokkinn skjótast yfir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð á síðustu metrunum fyrir kosningar.

Kvenréttindafélag Íslands gerði tékklista sem ber saman feminískar áherslur stjórnmálaflokkanna. Þar stendur Sjálfstæðisflokkurinn sig mun síður en flestir flokkar, VG kemur einna best út. Það skiptir einhverja kjósendur máli, trúi ég.

Fyrir lesendur sem hafa hingað til kosið til vinstri en hafa hlustað of lengi á áróður úr herbúðum sjálfstæðismanna um skattahækkanir VG, eða þurfa að svara vinum og ættingjum sem fjargviðrast yfir að einhver vilji kjósa yfir sig hærri skatta, þá skal hér bent á fantafínan pistil Andra Snæs Magnasonar sem kallast „Skattagrýlan og kosningarnar“. Andri Snær segir það sem við vitum auðvitað öll: Það þarf að fjármagna rekstur samfélagsins með sköttum.

Það er svona einfalt. En til nánari útskýringar:
„Við erum fámenn þjóð í stóru landi og við þurfum að leggja meira á okkur til að byggja upp innviði en víðast hvar. Það hlýtur að vera óraunhæft að búa hér og greiða lægri skatta en í Danmörku eða Noregi […]
Við erum lítil þjóð og óhagkvæm eining og viljum halda úti utanríkisþjónustu, eigin þingi, rannsóknum, landsliðum og löggæslu, menningu, landbúnaði, samgöngum, æskulýðsstarfi og heilbrigðiskerfi. Það vill reyndar svo til að við eigum mannauð og auðlindir sem gera okkur þetta kleift. Og ef allir innviðir eru í lagi þá vill fólk setjast hér að og þá skapast atvinnulíf. Ef innviðir eru í molum þá setjast frumkvöðlarnir að þar sem skólar, sjúkrahús og menningarlíf er í lagi. Panamaskjölin sýndu að málsmetandi fólk hérlendis vildi ekki einu sinni greiða lægstu mögulegu skatta til samfélagsins. Þeir sem eru þannig gerðir mega alveg fara.“

Fyrir þau okkar sem þekkjum fólk sem er rígneglt við Sjálfstæðisflokkinn þá er ágætt að benda þeim á pistil Illuga Jökulssonar sem heitir einmitt „Hæ sjálfstæðisfólk - má ég trufla ykkur aðeins?“

„Ef Katrín Jakobsdóttir hefði orðið uppvís að jafn dularfullum fjármálavafningum og Bjarni Benediktsson og ef hún hefði átt pening á aflandseyjum –

ef Logi Einarsson hefði verið gómaður í jafn óforskömmuðum og ósvífnum lygaflækjum og Bjarni Benediktsson hvað eftir annað –

ef Helgi Hrafn Gunnarsson hefði hrækt fyrirlitlega á niðurstöður heillar þjóðaratkvæðagreiðslu eins og Bjarni Benediktsson hefur gert –

þið getið þá rétt ímyndað ykkur hvað þið hefðuð brjálast.

Þið hefðuð auðvitað ekki tekið þetta í mál. Ekkert af þessu.

En þið látið bjóða ykkur þetta, af því þetta er flokkurinn ykkar, af því þetta er formaðurinn ykkar.

Eins og þið – venjulegt sjálfstæðisfólk – eigið í rauninni eitthvað sameiginlegt með silfurskeiðastrák úr Engeyjarklíkunni?“
Þetta er sannarlega ekki það eina sem Illugi segir í viðleitni sinni til að snúa Sjálfstæðismönnum frá fylgispektinni við Flokkinn. (Lesið pistilinn allan — og sendið hann áfram! Og líka skattapistil Andra Snæs!)

Það kemur svo í ljós aðra nótt hvernig til tókst.

Ég er hæfilega bjartsýn.

Efnisorð: , , , ,

mánudagur, október 23, 2017

Kosningar 2017: Píratar

Mér hefur verið uppsigað við Pírata frá upphafi. Frjálshyggjuviðhorf, andfeminismi (eða bara einfaldlega karlremba) og aðrar óþolandi skoðanir einkenndu flesta helstu talsmenn þeirra og þingmenn. Á þingi hafa þeir ótal sinnum setið hjá vegna þess að þeir hafa ekki skoðun á málum eða segjast ekki haft tíma til að kynna sér þau.

Í heilsíðuúttekt Fréttablaðsins á húsnæðismálum höfuðborgarinnarkom fram að „Píratar hafa ekki gefið sér tíma til að móta heildstæða stefnu í málaflokknum“. 

Þetta er eitt helsta kosningamál allra hinna flokkanna, húsnæðisskorturinn, leigumarkaðurinn, á borgin að byggja og leigja út íbúðir eða láta verktaka um það, á að lækka lóðagjöld, þétta byggð og þá hvar og hvernig? Þetta eru mál sem skipta fjölmarga borgarbúa gríðarlega miklu máli.

En þetta er bara of erfitt umhugsunarefni. Og tímafrekt. 

Fyrir alþingiskosningarnar síðustu var kallað eftir jafnréttisstefnu Pírata, hana settu þeir ekki fram fyrr en eftir kosningar. Hún kom reyndar svo seint fram og fór svo hljótt að stuðningsmenn þeirra urðu hennar ekki varir fyrr en löngu síðar og ráku þá upp ramakvein. Þá hrukku Píratar í kút og buðust til að draga jafnréttisstefnuna til baka eða eins og það er kallað: „lýstu yfir einlægum vilja til stöðugrar endurskoðunar“. 
(29.maí 2014)
Jón Þór Ólafsson og Smári McCarthy leituðu í smiðju til Sigmundar Davíðs og villtu á sér heimildir, þaðeraðsegja sögðust hafa háskólagráður sem þeir höfðu ekki og ekki varð það til að hækka þá í áliti hjá mér (þeir Jón Þór og Smári hafa þessar upplýsingarnar þó réttar á alþingissíðum sínum núna, því þar segir að þeir hafi stúdentspróf og hafi stundað háskólanám á tilteknu árabili, en ekkert um háskólagráður). Það voru aðallega Helgi Hrafn og Jón Þór sem fóru í taugarnar á mér (sjá hér dæmi um andfeminisma Helga Hrafns og Jóns Þórs, en þegar Ásta Guðrún Helgadóttir bættist við í hópinn og reyndist líka vera hlynnt klámi þá féll mér allur ketill í eld. Sembetur fer er hún að hætta en á móti kemur að Helgi Hrafn er að öllum líkindum á leið á þing aftur, því hann er efsti maður á lista í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefur hinsvegar komið ánægjulega á óvart. Hún hefur t.a.m. verið afar skelegg í öllu þessu subbulega máli í kringum uppreista æru. En þegar nánar er að gáð reynist hún að hafa verið innanbúðar hjá Kvennablaðinu, sem er verulegur ljóður á ráði hennar. Það að hún tengist Snarrótinni (sem styður lögleiðingu kannabis) er heldur ekki nógu gott en þó ekki eins slæmt og að hafa unað sér meðal andfeministanna á Kvennablaðinu.

Talandi um þá.

Það gleður mig umtalsvert að Einar Steingrímsson sem bauð sig fram í prófkjöri hjá Pírötum, lenti í níunda sæti á sameinuðum lista fyrir framboðin í norður og suður Reykjavík. Það hefði átt að skila honum í fjórða eða fimmta sæti í öðru hvoru kjördæminu en nú bregður svo við að hann sést hvergi á framboðslista. Semsagt: Einar Steingrímsson verður hvorki þingmaður né varaþingmaður. Húrra fyrir því.

Ekki að ég vilji að neinn kjósi Pírata, með eða án flugnahöfðingja andfeministanna.

En nú skal hætta rausi. Hér koma tenglar á nokkra vel valda pistla sem ég hef skrifað um Pírata gegnum árin. Ég mæli með að lesendur elti alla tenglana í textunum og sjái heimildirnar með eigin augum.

12. apríl 2013: Píratar

15. apríl 2013: Stefnur og skuldir

29. maí 2014: Píratar settu ekki stefnumál í mikilvægum málum á vefsíðu sína fyrr en seint og um síðir.

19. október 2014: Þegar Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata mótmælti því að vefsíðu Íslamska ríkisins var lokað

19. mars 2015: Skrifað í tilefni þess að fylgi Pírata hafði aukist mjög í vinsældakönnunum.

26. október 2016: Kosningapistill sem skrifaður var fyrir síðustu kosningar.

Hér er svo tengill á viðtal Knúzzins við Helga Hrafn í apríl 2013 þar sem m.a. er rætt um kynjakvóta, fléttulista og klám,

Efnisorð: , , ,

föstudagur, október 20, 2017

Kosningaprófið

Vika til kosninga og ekki seinna vænna að gera upp hug sinn. Alltaf hallast ég til vinstri en til öryggis tók ég kosningaprófið 2017 á vef RÚV.

Niðurstöðurnar voru þær að „minn frambjóðandi“, það er að segja sá frambjóðandi sem hefur skoðananir líkastar mínum er Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Frambjóðandinn sem er með næstlíkustu skoðanirnar er Andrés Ingi Jónsson, sömuleiðis þingmaður VG, þar á eftir kemur Álfheiður Ingadóttir fyrrverandi þingmaður, þingflokksformaður og heilbrigðisráðherra, einnig úr VG. Það er ekki fyrr en í fjórða sæti sem Katrín Jakobsdóttir lendir, og liggur við að mér finnist að ég þurfi að strika yfir hana, svona úr því að við eigum svona litla samleið í pólitík.

Það tilkynnist hérmeð að ég mun kjósa flokkinn sem greinilega fellur mér best í geð.


Efnisorð: ,

fimmtudagur, október 19, 2017

Gögnin gætu gert meira gagn en áður var talið

Nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki umfang gagnanna sem Stundin, Reykjavik Media og The Guardian hafa undir höndum. En ef marka má Vilhjálm Bjarnason fjárfesti og þingmann eru þetta gögn um þúsundir viðskiptavina Glitnisbanka. Vilhjálmi virðist finnast eðlilegt að setja lögbann á fréttaflutning — sem hingað til hefur mestmegnis eða eingöngu verið um Engeyjarfrændur og ættarlaukinn sem gegnir stöðu forsætisráðherra.

En ef nú þessir fjölmiðlar hafa öll gögn um þúsundir einstaklinga (og ætla ekki endilega að nefna hvern og einn á nafn) þá væri meira en fróðlegt ef hægt væri að skoða hvort fólk sem átti hlut í bankanum snemma árs 2008 hafi í stórum stíl selt hlut sinn í bankanum, fært í aðra sjóði, tildæmis sjóð 9 og náð síðan að flytja allt sitt úr sjóðnum áður en Geir bað guð að blessa Ísland. Ef marka má Bjarna Benediktsson þá voru allir að gera þetta, ekki bara hann, því öllum hafi verið ljóst hvert stefndi.

Það væri aldeilis gaman að sjá hvort gögn staðfesti það.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, október 18, 2017

Engar herferðir hafa áhrif á dómstóla

Mitt í #églíka og í kjölfar margra mánaða af #höfum hátt fellir Héraðsdómur Suðurlands þann dóm að það sé í lagi að fletta ofurölvi konu klæðum og troða fingrum í kynfæri hennar. Það er samkvæmt dómnum hvorki nauðgun né áreitni. Það dugði ekki til að hafa vitni, ljósmynd eða dna; maðurinn fékk aðeins þriggja mánaða skilorðsbundin dóm fyrir „blygðunarsemisbrot með því að draga buxur konunnar niður um hana“.

Þessum fjarstæðukennda dómi hlýtur að verða áfrýjað til Hæstaréttar þar sem Ósvaldur Freyr Guðjónsson hlýtur að fá dóm fyrir kynferðisbrotið sem hann framdi gegn varnarlausri konu.

Eða nei, hvernig læt ég, Hæstiréttur staðfestir örugglega eins og venjulega að karlmenn mega gera hvað sem þeim sýnist við konur. Það má ekki breyta gamalli dómahefð, semsé að láta karlmenn alltaf njóta vafans.

Djöfuls helvíti.


Efnisorð: , , , ,

mánudagur, október 16, 2017

Tjáning og þöggun á sama degi

Undanfarna daga og þá sérstaklega síðasta sólarhring hafa konur stigið fram og sagt frá kynferðisáreiti og kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, oft af hendi valdamikilla manna. Bandarískur kvikmyndaframleiðandi að nafni Harvey Weinstein hefur áratugum saman áreitt konur og nauðgað og nú hafa þær snúist opinberlega gegn honum. Hollywoodleikkonur hófu að segja frá, og í kjölfarið hafa þúsundir kvenna um allan heim, þar af íslenskar konur frægar sem ófrægar, tjáð sig í löngu eða stuttu máli og merkja yfirlýsingar sínar með #me too eða #ég líka, stundum að viðbættu #höfum hátt.

Tilgangurinn með því að segja frá, segjast líka hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi eða -áreiti, er að sýna umheiminum framá hve margar konur hafa þurft að þola þetta. Og það vill svo til að líklega næstum allar konur geta tekið undir: ég líka. (Öfugt við karla, sem vilja alltaf taka fram 'ekki allir karlar'.) En meginþunginn er meðal kvenna. Konur komast margar vart af barnsaldri áður en byrjað er að áreita þær með einhverjum hætti — og svo bara heldur það áfram. Nú standa auðvitað vonir til (eins og oft áður) að karlar átti sig á að hve víðtækt vandamál þetta er, hversu vond áhrif það hefur á líf kvenna, og hætti sjálfir eða hvetji aðra karla til að hætta að koma svona fram við konur. (Hér er rétt að geta þess að karlar og transfólk hafa stigið fram og sagt frá sinni reynslu svo það eru ekki bara konur sem verða fyrir þessu og ekki allir gerendur eru karlmenn.) Og vonandi breytir þetta einhverju.

Við höfum reynsluna af því að það getur breytt mjög miklu að segja frá. #Höfum hátt felldi heila ríkisstjórn. Nína Rún Bergsdóttir og faðir hennar Bergur Þór Ingólfsson höfðu hátt í allt sumar, linntu ekki látum fyrr en gögn um uppreista æru Roberts Downey/Róberts Árna Hreiðarssonar voru gerð opinber. Hliðarverkun af því var sú að gögn um uppreista æru annarra nauðgara og barnaníðinga urðu heyrinkunn og þar með að faðir forsætisráðherra hefði mælt með að barnaníðingur fengi uppreist æru. Það átti auðvitað að vera leyndarmál milli Sigríðar Á Andersen dómsmálaráðherra og Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, en frekjan í fjölmiðlum og Bergi Þór að fá upplýsingarnar urðu til þess að nú vita allir ekki bara um siðferðiskennd föður Bjarna Ben heldur að Bjarni í krafti stöðu sinnar kom því til leiðar að þingmenn stjórnarmeirihlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis neituðu að líta á skjöl um uppreista æru sem voru til umfjöllunar á nefndarfundi og gengu heldur út. Eftir sat formaður nefndarinnar, Brynjar Níelsson, sér vel meðvitaður um efni skjalanna(og líklegur stjórnandi útgöngunnar). Kom enda á daginn að hann þekkti til Róberts Downey en tjáði sig ekki um það fyrr en seint og síðar meir. Dómsmálaráðherra passaði sig líka á að þykjast ekkert vita, og reyndi allt hvað hún gat að koma í veg fyrir að fjölmiðlar fengu umbeðnar upplýsingar um málið. Það er þessi samtrygging og leyndarhyggja sem felldi ríkisstjórnina.

Víkur nú sögunni annað. Stundin, Reykjavík Media og The Guardian hafa undir höndum mikið af gögnum sem tengjast falli Glitnisbanka árið 2008, og þar með fjármálagjörningum Engeyinga, þ.á m. Bjarna Ben og föður hans barnaníðingsvininum. Gamli og bróðir hans áttu mikið í bankanum, en Bjarni var þá orðinn þingmaður og sat sem slíkur fundi í bankanum. Öllum tókst þeim að forða sér frá stórkostlegu tapi því þeir vissu á undan öðrum hvert stefndi hverju sinni. Stundin hefur semsé verið að fjalla um þetta undanfarið og örugglega ekki búin að birta öll gögnin. En í dag dró til tíðinda þegar lögbann var sett á frekari fréttaflutning. Þrotabú Glitnis er svona ægilega miður sín yfir öllum þessum engeyjarfréttum og þolir ekki við lengur. Vegna þess hve stutt er til kosninga, og Stundin hefur verið að dæla út fréttum sem varla gleðja Bjarna og föður hans eða Sjálfstæðisflokkinn yfirhöfuð, þá er erfitt annað en trúa því að bakvið þennan fráleita þöggunargjörning séu fingraför mektarmanna Flokksins. Lögbannið er því enn eitt dæmi um leyndarhyggjuna sem einkennir Sjálfstæðisflokkinn, Engeyingana og Bjarna Benediktsson forsætisráðherra. (Ja nema sú samsæriskenning, sem segir að andstæðingar Bjarna hafi farið fram á lögbannið til að skemma fyrir honum kosningarnar, sé rétt. Hún er þó heldur langsótt.)

Bjarni Ben staldraði stutt við brotþola barnaníðinga þegar hann hélt einræðu sína um stjórnarslitin. Í hans huga var vandamálið aðallega að smáflokkar gætu ekki staðið í lappirnar. Sjálfum finnst honum mikilvægast að halda völdum. Fyrir flokkinn, fyrir fjölskylduna. Til þess eru öll brögð notuð, líka þöggun og leyndarhyggja.

Kannski eiga þessi mál, uppreista æran og lögbannið á Stundina, ekkert sameiginlegt nema að nafn Bjarna Ben og föður hans kemur fyrir í báðum tilvikum, en leyndin um uppreista æru barnaníðinga var á kostnað fórnarlamba þeirra, og hafði reyndar áhrif á aðra brotaþola um leið. Leyndin um fjármálabrask forsætisráðherra er allt annars eðlis, en getur haft áhrif á kosningahegðun kjósenda í lýðræðisríki.

Ef ekkert sem fjölmiðlar og höfum hátt hafa afhjúpað um viðskiptasiðferði þingmannsins og stjórnunarhætti forsætisráðherrans Bjarna Benediktssonar hefur áhrif á kjósendur þá er það ills viti. Ef Bjarni Benediktsson verður aftur forsætisráðherra þýðir það að honum og fjölskyldu hans hefur verið fyrirgefið allt fjármálabraskið fyrir og eftir hrun, kúlulánin, fjármunina sem fluttir voru úr landi, aflandseyjareikningana, Borgunarkaupin. Áframhaldandi valdaseta Bjarna þýðir þá jafnframt að þöggunin og leyndarhyggjan, vörnin fyrir eiginhagsmunina og mannorð föður hans skipti kjósendur ekki máli; að stórum hluta almennings sé sama um sálarheill þeirra sem höfðu hátt.

Í Kiljunni í gær var spurt hvaða mál væri aðalmál kosninganna, um hvað væri kosið, og virtist sem það þvældist fyrir jafnt þáttastjórnanda og gestum. Fyrir nærri þremur vikum skrifaði Illugi Jökulsson einmitt pistil í Stundina um hvað kosningabaráttan eigi að snúast. Hann gerði þar fulllítið úr heilbrigðismálum, fannst mér, velferðarmálum og málefnum aldraðra. En það var samt skiljanlegt að því leytinu að honum var heitt í hamsi yfir því sem nú blasir við í kosningabaráttunni: það er ekkert verið að tala um málið sem felldi ríkisstjórnina. Það er enginn feminismi nefndur.

Um það erum við Illugi nokkuð sammála, að Bjarni Ben og margvísleg leyndarmál og spillingarmál hans eigi að vera þungamiðja kosningaumræðunnar. Því það er kosningamálið, það sem við kjósum um: Bjarni Ben eða ekki Bjarni Ben.Efnisorð: , , , , , , ,

fimmtudagur, október 12, 2017

Framabraut Sjálfstæðiskvenna

Framboðslistar Sjálfstæðisflokksins eru sem fyrr þéttsetnir körlum í efstu sætunum. Öllum að óvörum vék Brynjar Níelsson úr fyrsta sæti í sínu kjördæmi og lét Sigríði Á Andersen það eftir. Miðað við yfirlýsingar Brynjars um önnur mál sem gengu gegn sannfæringu hans má gera ráð fyrir að hann kyngi ælu fram að jólum hið minnsta.

Það er þó ekki svo að Sjálfstæðiskonum séu allar bjargir bannaðar þótt þær fái ekki brautargengi á framboðslistum, og nái aldrei að verða formenn í flokknum. Það er semsé hægt að hætta í Sjálfstæðisflokknum, ganga til liðs við næstum eins flokk, og grípa tækifærið þegar formaður þess flokks hefur komið sér í vandræði; láta þá kjósa sig sem formann.

Það er eina leiðin fyrir Sjálfstæðiskonu sem vill verða formaður.


Efnisorð:

miðvikudagur, október 11, 2017

Ekki liðinn mánuður og þeir láta eins og það hafi ekki gerst

Þeim ætlar að verða hált á sama svellinu Engeyingafrændum. Bjarni leit á það sem einkamál að faðir hans tengdist uppreistri æru kynferðisbrotamanns enda þótt allt þjóðfélagið æpti á að leyndarhjúp yrði létt af þeim sem legðu níðingum lið við að hvítskúra glæpaferilinn af sér. Samstarfsflokkur í ríkisstjórn leit á yfirhylmingu Bjarna sem svik og gekk úr ríkisstjórninni. Nú er allt í uppnámi í hinum fyrrverandi samstarfsflokknum því frændi Bjarna (og þarmeð náfrændi pabba Bjarna) blaðrar einsog óviti um stjórnarslitin:
„Þetta mál, sem þótti svo stórt að það væri ástæða stjórnarslita, það man varla nokkur hvað þetta er. Ef að þetta hefði verið stjórnarslitamál þá ætti þetta að vera eitt aðalkosningamálið núna,“
Slíkar orðsendingar eru sem kjaftshögg fyrir kynferðisbrotaþola barnaníðinganna með uppreistuæruna, aðstandendur fórnarlambanna og raunar allt fólk sem lætur sig kynferðisbrotamál varða.

Bjarni er þrátt fyrir teflonhúðina í mesta basli með að halda sjó í kosningabaráttunni, fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur minnkað mjög. Ekki bara vegna þess að hann þagði og laug um undirskrift föður síns á meðmælabréf Hjalta Sigurjóns Haukssonar heldur hvernig hann hefur tekið á því síðan. Flutti einræðu í Valhöll þar sem hann vék fáum orðum að fórnarlömbum kynferðisbrotamannanna (beitti leikhæfileikum sínum þar) en sneri svo strax spjótum sínum að Bjartri framtíð fyrir að fella ríkisstjórnina. Hefur ekki varðandi þetta mál né nein önnur hneykslismál honum tengd sýnt nema hroka; í gegnum tíðina hefur hann tekið upp þann sið að dæsa mæðulega eigi að rifja þau upp.

Benedikt frændi hans sem er enn starfandi fjármálaráðherra missti í dag formannsembættið í flokknum sem hann stofnaði. Flokksmenn voru æfir yfir því að hann missteig sig svona hrapallega þegar ræddi um orsakir stjórnarslitanna, og þótt hann hafi reynt að biðjast afsökunar, var hann settur af. Það kaldhæðnislega við nýja formanninn er að hún tengist, rétt eins og Bjarni Ben, einum af hneykslismálum bankahrunsins. Eiginmaður hennar var í stjórnunarstöðu hjá Kaupþing banka og þau fengu kúlulán sem þau þurftu ekki að borga til baka þegar bankinn féll. Þorgerður Katrín fór af þingi í nokkur ár vegna þessara mála en steig um borð í Viðreisn þegar sá flokkur varð til sem klofningur úr Sjálfstæðisflokknum. Fyrir hægriflokkunum fara því tveir (fyrrum) ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem báðir hafa sterka tengingu við fjármálasukkið sem leiddi til bankahrunsins. Gaman að því.

Það liggur við að mig langi til að Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur myndi ríkisstjórn eftir kosningar. Hún yrði kölluð 7 hægri Vafningurinn.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, október 07, 2017

Bláeygi Bjarni verður enn fyrir árásum fjölmiðla

Það var fyrir löngu vitað að Bjarni Benediktsson seldi snemma árs 2008 megnið af hlutabréfum sínum í Glitni (hér á blogginu hefur það t.d. verið rætt hér og hér). Stundin, Reykjavik Media og The Guardian hafa rannsakað fjármálagjörninga Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans út frá nýjum gögnum. Í úttekt Stundarinnar (sem verður aðalheimild hér) kemur meðal annars fram að 19. febrúar, tveimur dögum áður en Bjarni, sem þá var þingmaður, seldi hlutabréfin, sat hann fund með bankastjóra Glitnis og vissi því um vanda bankans. Þær upplýsingar hafði almenningur ekki (enda bankinn á fullu við að segja að allt væri í lagi) og gat því ekki losað sig við sín hlutabréf. Bjarni hafði semsagt upplýsingar sem aðrir höfðu ekki og notaði þær til að forða fé sínu.
„Gögnin sem Stundin hefur undir höndum varpa frekara ljósi á þessi viðskipti því þar kemur fram að Bjarni hafi selt bréf sín í Glitni dagana 21. til 27 febrúar. Þá seldi Bjarni hlutabréf í Glitni fyrir rúmlega 119 milljónir króna í fimm viðskiptum og hélt eftir bréfum sem voru rúmlega 3 milljóna króna virði samkvæmt viðskiptayfirliti hans. Í lok janúarmánaðar voru hlutabréf Bjarna tæplega 152 milljóna króna virði.

Í gögnunum kemur fram að Bjarni hafi notað hluta söluhagnaðar hlutabréfanna í Glitni til að kaupa hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 dagana 26. og 28. febrúar fyrir tæplega 90 milljónir króna. Í mars þetta ár átti Bjarni 165 milljónir króna í Sjóði 9 og var stofninn í eignasafni hans í bankanum en þá var hann með 213 milljónir króna í eignastýringu þar.“
(Þann 8. febrúar 2008, nokkru áður en Bjarni seldi og keypti öll þessi hlutabréf og hlutdeildarskírteini, var hann sendill í hinu margfræga Vafningsmáli, sem Stundin rekur einnig. Það var mikið að gera hjá Bjarna í febrúar!)

Fall Glitnis 29. september, Guð blessi Ísland 6. október
„Bjarni, sem á þessum tíma var meðal annars í efnahags- og skattanefnd sat fundi á þessum tíma þar sem erfið staða Glitnis var rædd.* Hann var einn þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem sat neyðarfund um framtíð Glitnis í höfuðstöðvum Stoða, stærsta hluthafa Glitnis, nóttina áður en íslenska ríkið fékk bankann í fangið þann 29. september 2008. Frá þessari aðkomu Bjarna var greint í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Á fundinum kom fram að staða Glitnis væri „gríðarlega alvarleg“ eins og haft var eftir einum fundarmanni í skýrslunni.“

Bjarni „seldi allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni dagana 2. til 6. október árið 2008. Þann 6. október miðlaði hann upplýsingum um störf FME [fjármálaeftirlitið] til framkvæmdastjóra hjá Glitni.“

Engeyingar forða fé
Fleiri fjölskyldumeðlimir forðuðu peningunum sínum enda bjuggu þeir yfir sömu upplýsingum og Bjarni (og fengu þær líklega hjá honum).
„Faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, og föðurbróðir hans seldu líka eignir sínar í Sjóði 9 í aðdraganda bankahrunsins á Íslandi. Benedikt seldi eignir í Sjóði 9 fyrir tæplega 260 milljónir króna … Einar Sveinsson seldi í Sjóði 9 sama dag og Bjarni, þann 6. október fyrir rúmlega 1020 milljónir króna í tveimur færslum … Þá kom fram í Fréttablaðinu í desember í fyrra að Benedikt Sveinsson hefði innleyst eignir í Sjóði 9 og millifært 500 milljónir af reikningi sínum í Glitni til Flórída þann 26. september 2008.“
„Slitastjórn Glitnis tók tvö mál tengd Benedikt Sveinssyni til skoðunar eftir hrun“, segir í Stundinni (þar sem einnig er fjallað um peningamál Einars bróður hans). Slitastjórnin leitaði til lögmannstofunnar LEX, þar sem Bjarni Ben vann áður, til að skera úr um vafaatriði varðandi brask Benedikts Sveinssonar, og góðvinkona Bjarna af stofunni sá til þess að slitastjórnin lét málið niður falla. Að tillögu Bjarna fékk góðvinkonan síðar sæti í bankaráði Seðlabankans.

Viðhorf Engeyinga til peninga (aðallega samt mismunandi viðhorf til þeirra sem eiga peninga og þeirra sem eiga þá ekki)
„Bjarni Benediktsson, aðspurður um hvort hann sjálfur hefði átt í Sjóði 9 og selt eitthvað sjóðnum dagana fyrir bankahrunið: „Ekkert sem skiptir máli. Ég átti á sínum tíma eitthvað í Sjóði 9 en ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvað sem mig rekur minni til að hafi skipt einhverju máli.“

Bjarni svaraði spurningunni því hvorki játandi né neitandi. Ljóst er hins vegar að hann seldi fyrir umræddar 50 milljónir.“
Hinn frændinn í (starfandi) ríkisstjórn sagði hinsvegar að 20 þúsund kall sé mikill peningur. En þá er hann að tala um að lífeyrisþegum á að þykja hellings nóg að fá 20 þúsund krónur ofan á bæturnar, en fyrir Engeyingum eru skiptir ekki máli hvort það bætast 50 milljónir í vasann eða ekki. Smápeningar.

Að hitta á réttu stundina
Hugsanlega biðu rannsóknarblaðamenn Stundarinnar, Reykjavik Media og The Guardian með að birta niðurstöður sínar, varla þó eingöngu til að ná að pönkast á Bjarna í kosningabaráttu (gat einhver vitað með löngum fyrirvara að það yrði boðað til kosninga?) heldur til þess að birtingin hitti á sömu dagsetningu og hrun íslenska bankakerfisins fyrir níu árum: 6. október.

Bjarni heldur því hinsvegar fram að þetta sé eingöngu til að skemma fyrir sér í kosningunum. Og vonandi skemmir þetta fyrir honum. En aðallega skiptir þó máli að þessar upplýsingar liggi fyrir svo að kjósendur geti skoðað þennan hluta af sögunni af Engeyjarprinsinum. Í ævintýrum bjargar prinsinn prinsessunni, en þessi prins (nei enga IceHot1 brandara hér) bjargar eigin fjármálum og fjölskyldunnar, en skeytir engu um almenning sem ekki var í sömu aðstöðu til að vita hvað var að gerast, og átti upp til hópa ekki slíkar upphæðir í bönkunum, en tapaði þó mestu.

Viðbrögð Bjarna við umfjöllun Stundarinnar og The Guardian voru þessi:
„Ég er auðvitað orðinn nokkuð vanur því að menn sæki að mér í aðdraganda kosninga og einmitt með einhver svona mál, þar sem er reynt að vega að minni persónu og mínum trúverðugleika. Ég tek þessu sem merki um að menn hafa ekkert í mig málefnalega“.
Það er öðru nær. Nóg er hægt að ræða um stefnumál Sjálfstæðisflokksins og hvernig gengið hefur að efna kosningaloforð síðustu kosninga.

En persóna formanns flokksins skiptir samt máli, sérstaklega þegar nafn hans tengist aftur og aftur og endalaust hneykslismálum. Vafningur, innherjaupplýsingar notaðar til að forða fjármunum úr fallandi banka, skattaskjólsfélag framhjáhaldsvefur, óþægilegum skýrslum stungið undir stól framyfir kosningar, Borgun seld ættingjunum, þagað yfir hlutdeild föðurins í uppreistri æru barnaníðings. Hér hefur eflaust eitthvað gleymst í upptalningunni, en sannarlega verður að ræða þetta þegar kjósendur velta fyrir sér hverjum er treyst til að stýra þjóðarskútunni.

Eða öllu heldur: í þágu hvers skútan siglir.


___
* Mikilvæg viðbót: Efnahags-og skattanefnd fundaði EKKI um stöðu Glitnis. Það er einsgott að leiðrétta þetta áður en Reiði-Bjarni kemur og skammar mig.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, október 04, 2017

Beggja blands ósk um brautargengi

Það er ánægjulegt fyrir Samfylkinguna að Guðmundur Andri Thorsson leiði listann í Kraganum, þ.e. suðvesturkjördæmi. Það verður vonandi til þess að auka líkurnar á því að Samfylkingin fái ágæta kosningu og setjist í ríkisstjórn með Vinstri grænum (og e.t.v. einum flokki í viðbót).

Hinsvegar sú tilhugsun erfið að framboð Guðmundar Andra og (hugsanleg) þingmennska verði til þess að hann hætti að skrifa mánudagspistilinn í Fréttablaðinu. Ekki hætta því!

Efnisorð:

mánudagur, október 02, 2017

Wintris enn einn ganginn

Sigmundur Davíð er eins og nettröll sem nærist jafnt á að afvegaleiða og vera skammaður. En ætli hann sjái aldrei eftir — tildæmis í dag — að vera sífellt með tilkynningar og upphrópanir sem fjölmiðlar reka ofan í hann jafnharðan?

Tveimur klukkutímum eftir að Vísir birti grein Sigmundar Davíðs var komin ítarleg úttekt á Kjarnanum þar sem Þórður Snær Júlíusson fer yfir öll samskipti Önnu Sigurlaugar og Sigmundar Davíðs við ríkisskattstjóra, og afsannar þannig eða dregur fram eyður, skalla og útúrsnúninga Sigmundar.