föstudagur, júní 30, 2017

Uppgjör júnímánaðar

Júnímánuður var furðulegur á margan hátt.

Innanmein virðast hrjá Stígamót, vonandi verður stjórnunarvandinn (ef það er vandamálið) leystur, en allra mikilvægast er þó að hinu góða starfi verði áframhaldið og Stígamót njóti eftir sem áður trausts þeirra sem á þurfa að halda.

Hjá skólum Hjallastefnunnar hefur starfsmaður (tveir starfsmenn?) orðið uppvís að því að beita börn ofbeldi.

Fjármálaráðherra kom með uppástungu um að hætta að nota fimmþúsundkróna og tíuþúsundkróna peningaseðla, dró það svo strax til baka.

Ekki er eins líklegt að menntamálaráðherra bakki með sínar áætlanir. Hann vill fækka nemendum á háskólastigi og þrengja inntökureglur í stað þess að auka fjárveitingar til háskóla. Ég man þá tíð að menntun var fyrir alla (og að fullorðinsfræðsla þótti sjálfsögð) en nú sér fyrir endann á því. Nám verður fyrir fáeina útvalda. Ætli þetta endi ekki á að skrefið afturábak verður tekið til fulls og aðeins synir embættismanna verða sendir til náms.

Kjararáð átti enn og aftur sterka innkomu og bætti hressilega í launaumslagið hjá þeim sem vel voru haldnir fyrir.

Ellert Schram, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, hafði þetta að segja um kjararáðsgjafagjörninginn:
„Því er ekki að neita að það rak marga í rogastans, þegar birtar voru ákvarðanir kjararáðs um hækkanir launa hjá alþingismönnum, ráðherrum, hæstaréttardómurum og öðrum vel launuðum starfsmönnum hins opinbera. Skýringarnar á þessum launahækkunum er rökstuddar á þeim forsendum að hrunið hafi dregið úr launum þessa fólks og nú sé verið að bæta þeim launatapið.

Gott og vel. Ef ég man rétt, þá neyddust stjórnvöld að draga úr greiðslum til eldri borgara, þegar hrunið skall á. En eldri borgarar og þeirra kjör heyra ekki undir kjararáð og tilraunir til að hækka grunnlífeyri og kjarabætur hafa hvorki fengið undirtektir né stuðning. Grunnlífeyrir meira segja felldur niður hjá fjölmörgum.

Kjör eldri borgara, sem búa við tryggingarbæturnar einar, hafa versnað ef eitthvað er og enn eru hámarksgreiðslur tvö hundruð áttatíu þúsund krónur á mánuði. Fyrir skatt. Á sama tíma er staðan núna sú, að þeir þjóðfélagsþegnar sem hafa hæstu launin og heyra undir kjararáð, fá hundruðir þúsund króna hækkanir á mánuði sem eru auk þess afturvirk um marga mánuði.“
Og Magnús Guðmundsson sagði í leiðara:
„En þrátt fyrir allt er það ekki stóra málið heldur sú siðferðislega afstaða sem þessar ítrekuðu afturvirku hækkanir fela í sér. Í þessum stóru afturvirku hækkunum er nefnilega fólgin lítilsvirðing við þá sem síst hafa kjörin á Íslandi og þá ekki síst fyrri kynslóðir sem byggðu upp þetta samfélag. Í þessu er aðeins fólgin staðfesting á því að á þessu landi búa tvær þjóðir, við gjörólíkar aðstæður og misjafnt jafnrétti til kjara og mannsæmandi lífs.“

Í beinu framhaldi af þessu liggur beint við að snúa sér að ofsaríku mönnunum sem eiga auð sinn að miklu leyti íslenskum almenningi að þakka, ekki síst lífeyrisþegum. Björgólfur Thor er á lista yfir ríkustu menn heims þriðja árið í röð og nú eru Bakkabræður orðnir meðal ríkustu manna Bretlands,
„Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir eru á nýjum lista yfir ríkustu menn Bretlands. Viðskiptablokk bræðranna var sú sem olli íslenska lífeyriskerfinu mestu tjóni. Þeir áttu fjölmörg félög á aflandseyjum og komu með háar fjárhæðir til Íslands í gegnum fjárfestingarleiðina.
[…]
Þeir sem standa uppi sem sigurvegarar eru Ágúst og Lýður Guðmundssynir. Þeir hafa endurheimt fyrirtækið sem þeir stofnuðu á Suðurnesjunum á níunda áratug síðustu aldar endurskipulagt, endurfjármagnað og án þess að upprunalegir kröfuhafar þess hafi fengið nema brotabrot af þeim peningum sem þeir lánuðu eða fjárfestu í félaginu til baka."
Það er óþolandi að horfa uppá hvernig þessir menn auðgast aftur og aftur á kostnað annarra.

Hér á landi eru þrautpíndir neytendur ofsaglaðir yfir nýju kjörbúðinni í Garðabæ. Nú er allt gleymt um nauðsyn þess að endurreisa kaupmanninn á horninu, nota reiðhjól og stilla mengun í hóf. Þess í stað brunar nú hver sem betur getur á bensínfák í uppsveitir Garðabæjar til að versla því það er svo hagkvæmt og bensínið (sem notað er í ferðirnar fram og til baka) svo ódýrt. Hagræðingin í kaupsýslulífinu er alveg í stíl; andsvar 'markaðarins' við múgsefjuninni kringum Kostakjör er að bensínfélög og verslunarkeðjur hafa runnið saman (Hagar sem á Hagkaup og Lyfju keyptu Olís, en N1 keypti Krónuna, Elko, Nóatún og Kjarval; Skeljungur ku ætla að kaupa matvöruverslanirnar 10/11 og Iceland), og auka þannig samþjöppun á markaði. Og herða takið á neytendum sem best þeir geta.

Það er kannski ekkert skrítið að Íslendingar þyrpist í verslun sem býður vöru á áður óþekktu verði, og kaupi jafnvel meira en til stóð. En sá sem keypti gíraffa á ríflega 300 þúsund sló þó einhverskonar 2007-met í sóun fjármuna uppá grín. Það er svo ákveðið áhyggjuefni að gíraffaeigandinn — sem sagði aðspurður um kaupin: „Ég hugsaði þetta ekki alveg til enda“ — er fjármálaráðgjafi. Um 2007 stemninguna sagði hann nokkrum árum síðar: „Mörg okkar sjáum eftir því í dag að hafa hrifist með skriðþunga tíðarandans.“ Nú er hann sjálfur birtingarmynd góðærisbrjálæðis.

Mogginn ku hafa dylgjað um að Kjarninn hefði tengsl við kröfuhafa föllnu bankana. Kjarninn leitaði til siðanefndar blaðamanna vegna þessa en málinu var vísað frá. Ritstjóri Kjarnans var ósáttur við frávísunina og sagði að þetta þýddi að „hann geti fullyrt að ritstjóri Morgunblaðsins sé með hala og vísað í „þrálátan orðróm“ því til stuðnings“, svona úr því Mogginn mætti átölulaust halda fram þessari sögu um Kjarnann. Stuttu síðar — og það má hafa verið tilviljun — voru blaðamenn á öðrum fjölmiðlum duglegir að flytja fréttir af dularfullum manni sem mígur í ruslafötur í húsnæði Morgunblaðsins við Hádegismóa. Fyrstu fréttum af fötusprænaranum fylgdi mynd af Davíð Oddssyni.

Það eru fleiri vinnustaðir með innanhússmein. Tékkneskum konum sem vildu komast í starfsnám í kjarnorkuveri var gefinn kostur á að spóka sig í bikiníi svo hægt væri að dæma um hver þeirra ætti starfið skilið. Úff.

Og meira frá útlöndum.

Fyrirmyndarfaðirinn Bill Cosby slapp við dóm því kviðdómur komst ekki að niðurstöðu (hann var því hvorki sýknaður né sekur fundinn). Svo virðist sem honum finnist það bæta málstað sinn að ætla nú í fyrirlestraferð til að fræða ungmenni um hvernig eigi að varast að vera sakaður um kynferðisofbeldi. Væri hann saklaus myndi honum varla detta önnur eins fjarstæða í hug.

Hatur á flóttamönnum sem reyna að komast til Evrópu er slíkt að stækum rasistum hefur hugkvæmst að koma í veg fyrir að fólkið nái að landi með því að þvælast fyrir björgunarskipum á Miðjarðarhafinu. Þvílíkur óþverrahugsunarháttur. Vonandi tekst þeim þetta ekki.

Hér á landi var maður drepinn fyrir framan fjölskyldu sína á hræðilegan hátt.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra nýtur þess að athyglin hefur beinst í allar áttir eftir að hún handvaldi rétta menn í Landsrétt. Sá umsækjandinn sem hún lagði allt kapp á að ryðja úr dómnum ætlar nú í mál, og hvern velur þá ekki Sigríður til að verja sig íslenska ríkið gegn málsókn hans — jú vini sína á LEX lögmannsstofu, hvar einn gullkálfurinn á eiginkonu sem er fyrrverandi yfirmaður Sigríðar (og reyndar var einn landsréttardómaranna upphaflegu líka frá þeirri stofu). — Þetta er allt í stíl. Það er von að Illugi Jökulsson segi svekktur: „Við börðumst fyrir Nýju Íslandi og fengum Sigríði Andersen“.

Ætli það hafi verið til að dreifa athyglinni frá LEXréttarmálinu sem Bjarni Ben litaði hætti að lita stökkbreyttist breytti um útlit? Það var allavega mjög heppileg tímasetning.

En svo er þetta kannski ekkert úthugsað. Eftilvill er forsætisráðherra að stökkbreytast og hann ræður ekkert við það — og hugsanlega er breytingarferlinu ekki lokið.


Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

miðvikudagur, júní 28, 2017

Íbúasamsetning, stjórmálaskoðanir og afætuhegðun í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu

Lesið fantafína pistilinn hans Þórðar Snæs ritstjóra Kjarnans. Hún fjallar um stéttskiptingu, elítuvæðingu og meintan tekjujöfnuð, og á sér upptökk í grein um sama efni eftir fjóra lektora og prófessora við félags- og mannvísindadeild, stjórnmálafræðideild, og viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
„Í grein­inni er sú mantra að á Íslandi sé meiri efna­hags­legur og félags­legur jöfn­uður en ann­ars staðar á meðal vest­rænna þjóða sprengd með vís­inda­legri fram­setn­ingu“, segir Þórður.
„Kerfi sem gengur út á betra aðgengi að upp­lýs­ing­um, tæki­færum og fjár­munum ann­arra og því að hinar miklu sveiflur sem ein­kenna íslenskt efna­hags­kerfi vegna örgjald­mið­ils­ins fái áfram að eiga sér stað. Þetta er nefni­lega hópur sem hagn­ast bæði í nið­ur­sveiflum og upp­sveifl­um. Á meðan að þorri lands­manna – launa­fólkið sem vinnur hjá elít­unni – tekur þær aðlag­anir út í gegnum veskið og lífs­gæð­in.“
Það sem segir um íbúasamsetningu Garðabæjar og Seltjarnarness og hvernig þessi sveitarfélög (sérstaklega Seltjarnarnes) notfæra sér nálægðina við Reykjavík er einnig eftirtektarvert.
„Garða­bær og á Sel­tjarn­ar­nes eru sveit­ar­fé­lög þar sem ríkt fólk býr. Og í báðum sveit­ar­fé­lögum hefur Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn alltaf haft hreinan meiri­hluta í sveit­ar­stjórn. Þau eru einu sveit­ar­fé­lögin á höf­uð­borg­ar­svæð­inu þar sem ekki er rukkað hámarks­út­svar. Það geta þessi sveit­ar­fé­lög gert vegna þess að þau taka ekki þátt í að veita sömu þjón­ustu og hin sveit­ar­fé­lögin á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Besta dæmið um þetta eru fjöldi félags­legra íbúða. Í Reykja­vík eru þær 1.901 eða 16 á hverja þús­und íbúa. Í Garðabæ eru þær 26 og á Sel­tjarn­ar­nesi eru þær tíu. Í báðum þessum sveit­ar­fé­lögum eru félags­legar íbúðir tvær á hverja þús­und íbúa. Til við­bótar fer átta sinnum meira af tekjum Reykja­vík­ur­borgar í félags­lega fjár­hags­að­stoð en hjá Sel­tjarn­ar­nesi. Reykja­vík greiðir að með­al­tali um 24 þús­und krónur í fjár­hags­að­stoð á hvern íbúa, á meðan Sel­tjarn­ar­nes greiðir að með­al­tali þrjú þús­und krónur og Garða­bær fjögur þús­und.“
Lesið greinina sjálfa ef þið viljið (26 bls.) en ekki missa af pistli Þórðar Snæs.

Svo legg ég til að Reykjavíkurborg taki Seltjarnarnes eignarnámi.

Efnisorð: ,

laugardagur, júní 24, 2017

Innsýn í hugarfar Fjalls

Hrikalega frásögn barnsmóður Hafþórs Júlíusar Björnssonar (Fjallsins) um ofbeldi sem hún sætti ítrekað af hans hendi mátti lesa í dag í Fréttablaðinu og á Vísi. Vísir auðvitað með athugasemdakerfið opið en hreinsaði þó eitthvað af því versta út (eða eyddu helstu fávitarnir eigin athugasemdum?).

Undir kvöld kom svo tilkynning frá frægðarmenninu sjálfu og þar er hann auðvitað saklaus af öllu en vondar konur að ljúga uppá hann. En það var viðbúið. Verra var að hann birti bréf sem barnaverndarnefnd sendi barnsmóður hans, þar sem kom fram fullt heimilisfang konunnar: götuheiti, húsnúmer og staðsetning íbúðar í húsinu.

Enda þótt þetta sé danskt heimilisfang er fullt af Íslendingum sem býr í Danmörku (eða ferðast þangað) og hefur því einhver vitleysingurinn nægar upplýsingar til að hafa uppá konunni og áreita hana. Það má líta á birtingu heimilisfangsins sem hverja aðra árás á konuna, að minnsta kosti á friðhelgi heimilis hennar. Hver sá sem þykist ætla að sanna sakleysi sitt og illan hug barnsmóður sinnar gerir það ekki með því að birta þessar upplýsingar opinberlega.

Þetta er þó ekki allt. Í bréfi barnaverndarnefndar kemur fullt nafn dótturinnar fram, og mannhelvítið lætur vera að hylja nafn dóttur sinnar í bréfinu. Það hefði verið hægur vandinn að eyða því út, rétt eins og heimilisfangi þeirra mæðgna, en nú verður þetta plagg með nafni barnsins um aldur og ævi á netinu. Það er hrikalegt af föðurnum að draga nafn dóttur sinnar inní þessi voðalegu mál, og ekki ber það honum fagurt vitni sem ábyrgs föður, hafi hann ætlað í mannjöfnuð við barnsmóðurina um hvort þeirra væri verra foreldri.

Og hvað er blaðamaður Vísis að hugsa, að birta þetta bréf óbreytt og með öllum þessum upplýsingum. Skammastu þín!


Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, júní 20, 2017

19. júní 2017 (jú víst) og bloggafmæli

Kvenréttindadagurinn (þið munið, þessi sem konur rændu af verkalýðskörlum) var í gær en vegna þess að í dag er bloggafmæli (11 ára) þá verða kvennabaráttumálum gerð skil hér og nú. Og vegna bloggafmælisins verður lítt hirt um að hrúga inn tenglum á hinar ýmsu fréttir, pistla og gvuðveithvað, heldur bara látið vaða á súðum.

1. súð
Þrjátíu konur voru kjörnar á þing í haust og eru konur því 48% þingmanna, og hafa aldrei verið fleiri. Það er afar jákvætt, alveg burtséð frá því hvaða flokkar fara með meirihlutavald á þingi (raunar eru aðeins fjórar konur ráðherrar á móti sjö karlmönnum, og er það mjög raunalegt). Ef ekki væri fyrir rétt kosningaréttinn, þennan sem (sumar) konur fengu 19. júní 1915 (ja, eða 19. janúar árið eftir, skv. nettröllum Kvennablaðsins) og rétt til kjörgengis þá væru auðvitað engar konur á þingi yfirleitt.

Seinni tíma kvennabarátta stuðlaði að því að kynjakvóti í stjórnun fyrirtækja var lögfestur (enn vantar þó nokkuð uppá að eftir því sé farið, rétt eins og lög um jöfn laun karla og kvenna sem sett voru 1961 hafa verið þverbrotin um áratugaskeið) og afleiðingin er meðal annars sú að stjórnmálaflokkar hafa ekki þorað annað en bjóða fram sæmilega jafn margar konur og karla (að undanskildum Sjálfstæðisflokknum auðvitað, sem missti í kjölfarið margar konur úr flokknum) og uppskeran er semsagt sú að konur á þingi eru næstum jafnmargar körlum. Það var ekki fyrir náð og miskunn karla sem konur settust fyrst á þing og það er heldur ekki körlum einum að þakka (þótt liðsinni þeirra hafi verið nauðsynlegt) að konur eru svona margar á þingi, heldur er það afleiðing þrotlausrar baráttu kvenna.

2. súð
Konur börðust líka fyrir frjálsum fóstureyðingum en hafa enn ekki haft fullnaðarsigur, því í stað þess að kona geti ákveðið uppá eigin spýtur að rjúfa þungun þá ber henni skylda til að tala við tvo aðila, þar af þarf a.m.k. annar að vera læknir og hinn þá félagsráðgjafi, og það er þeirra að kvitta uppá (vilji þeir svo; nú orðið er konum víst aldrei neitað um það) að þungunarrof sé framkvæmt.

Í Bretlandi standa nú yfir stjórnarmyndunarviðræður milli Íhaldsflokksins undir stjórn Theresu May og norður-írska DUP flokksins (Democratic Unionist Party). DUP er lengst til hægri í stjórnmálum og meðlimir eru flestir bókstafstrúarfólk sem fordæmir samkynhneigð og vill viðhalda banni við fóstureyðingum, en á Norður-Írlandi má aðeins rjúfa þungun ef líf konunnar er í hættu. Og Theresa May er tilbúin til að njóta þingstyrks þessa flokks þrátt fyrir þessi ömurlegu afturhaldsseggja viðhorf. Breskar konur mega þá líklega þakka fyrir ef DUP reynir ekki að hlutast til um hvernig fóstureyðingum er háttað á restinni af Bretlandseyjum.

Þessi furðulega staða í breskum stjórnmálum ætti að vera okkur hinum viðvörun um að réttindi okkar gætu líka verið í hættu, og að við þurfum alltaf að hamra á mikilvægi þeirra fyrir okkur sem einstaklinga og fyrir þjóðfélagið í heild.

3. súð
Áðan minntist ég á lög um jöfn laun. Nýsett lög um jafnlaunavottun eiga að draga fram mismun á launum karla og kvenna í fyrirtækjum sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri. Lögunum er ekki ætlað að jafna kjörin heldur upplýsa hvaða fyrirtæki mismuna kynjunum í launum og þá hve mikið, skilji ég lögin rétt. Það verður áhugavert að sjá í fyrsta lagi hvort fyrirtækin gangast undir þetta ferli og í öðru lagi hvort 'opinber smánun' verði til þess að þau stökkvi til og breyti launastefnu sinni. Í framhaldinu myndast svo kannski pressa á minni fyrirtæki, þessi sem lögin ná ekki til, að standa sig líka í launajafnréttinu. Það væri nú aldeilis frábært, en ég óttast þó að menn rífi bara kjaft og útskýri í drep nauðsyn þess að þessi og þessi einstaklingur — sem alveg óvart er karlmaður — fái hærri laun og sporslur og fríðindi en þessi alveg óvart lægra launaði kvenmaður. Og húrrakór andfeminista og þeirra sem eru á móti 'stjórnlyndi' verði þeim næg hvatning til að halda áfram að mismuna fólki eftir kyni. En samt, lögin eru jákvæð tilraun til að rétta hlut kvenna, og í allra besta heimi allra heima ganga þau upp.

En þá á samt eftir að jafna laun milli starfsstétta, svo að konur sem að meirihluta manna stöður í t.a.m. umönnunarstörfum, fái laun sem eru sambærileg öðrum stéttum þar sem karlar eru enn í meirihluta. En hér verður ekki farið útí svo bjartsýnar pælingar að sinni. Áfram með lög og rétt.

4. súð
Það líður varla sá dagur að konu sé ekki nauðgað eða hún barin á Íslandi, samkvæmt tölfræði frá bráðamóttöku, lögreglu, Kvennaathvarfi og Stígamótum. Samt er það í lögum að ekki megi berja, nauðga eða á annan hátt beita konur ofbeldi (lög um nauðgun eru þó meingölluð). Þeir karlar sem fremja verknaðinn eru fordæmdir hátt og í hljóði og karlmennska þeirra er dregin í efa því enginn almennilegur karlmaður lemur konur / nauðgar konu. En það á bara við meðan 'nauðgarinn' er óhlutbundið hugtak. Um leið og hann er nefndur á nafn þá á hann vini og ættingja sem verja hann, segja hann ekki vera þannig mann, hann myndi aldrei berja eða nauðga, þetta sé allt lygi, athyglissýki, geðveiki, peningagræðgi. Ef hann er fjallfrægur eða muscleboy vinsæll er enginn endir á fólki sem vill sýna hollustu sína við frægðarmennið. Enn er því talsverður munur á milli laganna hljóðan og viðhorfa, annað er (næstum) í lagi en hitt sveiflast eftir því hver á í hlut.

Ekki bætir úr skák hvernig lögregla og dómskerfi (og stundum ákæruvald) bregst þolendum allra handa ofbeldis, sinnir málunum ekki, sýknar seka eða í mesta lagi dæmir eins væga dóma og mögulegt er. Öll þess linkind og meðvirkni með glæpamönnunum er vanvirðing við andlega og líkamlega heilsu fórnarlambanna. Ofbeldismönnum (hvort sem þeir beita líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi) eru með þessu gefin þau skilaboð að konur séu þeim óæðri og það megi beita þær ofbeldi. Konum almennt er þá líka komið í skilning um að þær séu bara kjötskrokkar fyrir karla að fá útrás á, og að það þýði ekki að kæra; ofbeldi sé nokkuð sem konur verði að sætta sig við. Það eru vond skilaboð.


Hvað er þá alveg í lagi í jafnréttasta landi í heimi? Jú það virðist reyndar vera í lagi með ungu kynslóðina. Stelpurnar með átökin og opnu umræðuna: um áreiti, brjóst, geðveiki, kynferðislega mismunun, kynferðisofbeldi, og tíðablæðingar. Hvernig þeim tókst að verða svona frábærar er undrum líkast.

Ég vil þakka það feministum.

Efnisorð:

fimmtudagur, júní 15, 2017

Enn og aftur er staðið með kynferðisbrotamönnum og engu skeytt um fórnarlömb þeirra

Uppreist æra eins þýðir ærumissir annars. Nei, Jón Steinar missir ekki æruna (hefur enga) fyrir að vera lögmaður barnaníðingsins Róberts Árna Hreiðarssonar (er ærulaus), sem milli þess sem hann nauðgaði unglingsstúlkum sat í Barnahúsi og var viðstaddur skýrslutökur yfir fórnarlömbum barnaníðinga eins og hans sjálfs, og notaði starfsaðstæður sínar til að komast yfir fórnarlömb, heldur á ég við Guðna Th. Jóhannesson. Hver laug því að honum að það væri góð hugmynd að veita barnaníðingum uppreist æru?* Áttaði Guðni sig á því að næsta skref barnaníðingsins væri að heimta lögmannsréttindin sín aftur?

Nú hefur Hæstiréttur gefið honum grænt ljós á að byrja aftur að verja barnaníðinga og aðra nauðgara. Til hagræðis hefur Róbert Árni Hreiðarsson tekið upp nafnið Robert Downey (þykist hann kannski vera líkur junior-leikaranum?) svo að fólk sem gúgglar glæpum hans í framtíðinni fatti ekki tenginguna við þennan mjög svo endurhæfða lögmann. Jóni Steinari er mjög í nöp við fjölmiðla fyrir að rifja upp glæpi Róberts og finnst að hann eigi að fá annað tækifæri. Það er nú bara meinið: við óttumst að hann fái annað tækifæri.

Djöfuls ógeðs samfélag er þetta. Ógeðs kallar. Ógeðs samtrygging ógeðskalla.

___

* Guðni segist hafa skrifað uppá þetta óafvitandi um glæpi Róberts. Hann hefði kannski átt að gúggla betur.

[Viðbót] Í ljós hefur komið að Bjarni Benediktsson var starfandi innanríkisráðherra þegar plaggið um uppreist æru var lagt fyrir forsetann, en hann segir að innanríkisráðuneytið hafi unnið málið og hann bara tekið við „niðurstöðu sem hafði fengið sína hefðbundnu meðferð“. Það þvo því allir hendur sínar af þessu, en enginn veit þó enn hverjir þeir tveir einstaklingar voru sem mæltu með hvítskúrun barnaníðingsins við ráðuneytið. Jón Steinar er þó sterkur kandídat.

Fréttir, greinar og viðtöl (uppfært svo oft sem þurfa þykir):

Frétt á vef Ríkisútvarpsins 15. júní 2017 þar sem brot Róberts eru rakin.

Frétt Vísis 15. júní 2017, þar sem sjá má Kompásþátt frá árinu 2007 sem fjallaði um Róbert Árna Heiðarsson.

Viðtal við Jón Steinar: „Við viljum vera siðmenntað ríki sem þýðir að við gefum mönnum annað tækifæri“ 15. júní 2017.

Tvær af þeim stúlkum sem Róbert Árni Heiðarsson var dæmdur fyrir að brjóta á, hafa stigið fram og rætt viðbrögð sín við þessum fréttum. Önnur þeirra segir forseta Íslands hafa brugðist henni.

Pistill Illuga Jökulssonar, 16. júní 2017: Er réttlætismál að lögbrjótur fái að praktísera lög?

Viðtal 16. júní 2017 við Berg Þór Ingólfsson föður annarrar stúlkunnar, „Höfum reynt að græða sárin sem gróa aldrei“.

Fréttin þar sem Bjarni sagðist hafa tekið við málinu, með síðari tíma leiðréttingu: Bjarni: Mál Roberts fékk hefðbundna meðferð, 16. júní 2017, http://www.ruv.is/frett/bjarni-mal-roberts-fekk-hefdbundna-medferd

KÞBAVD: Áskorun til stjórnvalda um að endurskoða þá ákvörðun að veita Robert Downey/Róberti Árna Heiðarssyni uppreist æru.

Viðtal við Arnar Þór Jónsson, lektor í lagadeild Háskólans í Reykjavík, Mælti ekki með því að Robert fengi réttindi, 17. júní 2017, http://ruv.is/frett/maelti-ekki-med-thvi-ad-robert-fengi-rettindi

Illugi Jökulsson (bregst við ummælum Arnars Þórs Jónssonar), Það allra skrýtnasta, 17. júní 2017, https://stundin.is/grein/4308/thad-allra-skrytnasta/

Frétt (með sjónvarpsviðtali við forsetann): [Dómsmálaráðherra] Hefur skoðað hvort mögulegt sé að breyta frá áratuga framkvæmd á reglum um uppreist æru, 18. júní 2017, http://www.visir.is/g/2017170619041/hefur-skodad-hvort-mogulegt-se-ad-breyta-fra-aratuga-framkvaemd-a-reglum-um-uppreist-aeru-

DV með ítarlega úttekt 19. júní 2017 á ferli Róberts í fyrirtækjaeign, lögmennsku, og á síðum blaðanna, auk glæpaferilsins.

Frétt: [Dómsmálaráðuneytið] Mun ekki birta nöfn þeirra sem vottuðu um góða hegðun Roberts Downey, 22. júní 2017,
http://www.visir.is/g/2017170629592/mun-ekki-birta-nofn-theirra-sem-vottudu-um-goda-hegdun-roberts-downey

Frétt: Nöfn vottanna í máli Roberts Downeys ekki birt, 22. júní 2017, http://www.ruv.is/frett/nofn-vottanna-i-mali-roberts-downeys-ekki-birt

Bergur Þór Ingólfsson, Uppreist æra án iðrunar og ábyrgðar, 22. júní 2017, http://www.visir.is/g/2017170629754/uppreist-aera-an-idrunar-og-abyrgdar-

Frétt, Faðir stúlku sem Robert Downey braut á krefst svara: „Hér er allt á skakk og skjön“, 22. júní 2017,
http://www.visir.is/g/2017170629659/fadir-stulku-sem-robert-downey-braut-a-krefst-svara-her-er-allt-a-skakk-og-skjon-

Guðmundur Brynjólfsson, rithöfundur og djákni, skrifar um ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að upplýsa ekki um nöfn þeirra sem vottuðu um betrun kynferðisbrotamannsins Roberts Downeys, „NEI, við veitum ekki þessar upplýsingar“, 23. júní 2017, https://stundin.is/grein/4419/nei-vid-veitum-ekki-thessar-upplysingar/

Stundin 30. júní 2017: 10 ótrúlegar staðreyndir um mál Roberts Downeys.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir (mjög góður leiðari), Leitin að ábyrgðinni, 30. júní 2017, https://stundin.is/grein/5084/leitin-ad-abyrgdinni/

Viðtal við Nínu Rún Bergsdóttur, Við ætlum ekki að leyfa honum að vinna, 1. júlí 2017, https://stundin.is/grein/3726/vid-aetlum-ekki-ad-leyfa-honum-ad-vinna/

Viðtal við Höllu Ólöfu Jónsdóttur, Mér fannst lítið gert úr minni upplifun, 1.júlí 2017, https://stundin.is/grein/3722/mer-fannst-litid-gert-ur-minni-upplifun/

Myndbandsviðtal í fjórum hlutum: Jón Steinar segir Robert Downey eiga skilið fyrirgefningu: „Fólk á bara að láta manninn í friði“, 4. júlí 2017, http://eyjan.pressan.is/frettir/2017/07/04/jon-steinar-segir-robert-downey-eiga-skilid-fyrirgefningu-folk-a-bara-ad-lata-manninn-i-fridi/ [ný slóð: http://eyjan.dv.is/eyjan/2017/07/04/jon-steinar-segir-robert-downey-eiga-skilid-fyrirgefningu-folk-a-bara-ad-lata-manninn-i-fridi/]

Fréttaskýring Áslaugar Karenar Jóhannsdóttur (þ.á m. brotasagan frá 2001), „Það er nóg lagt á aumingja manninn“ Stundin, 2. júlí 2017, https://stundin.is/grein/3731/adferdirnar-thaulskipulagdar-og-einbeittar/

Guðmundur Andri Thorsson, Við berum það sem við gerum, 3. júlí 2017, http://www.visir.is/g/2017170709857/vid-berum-thad-sem-vid-gerum-

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir um viðtalið við Jón Steinar: Jón Steinar segir að þolendum Róberts myndi líða betur ef þeir fyrirgæfu brotin, 5. júlí 2017, https://stundin.is/grein/3746/jon-steinar-segir-ad-tholendum-roberts-myndi-lida-betur-ef-their-fyrirgaefu-brotin/

Magnús Guðmundsson (frábær leiðari), Höfum hátt, 5. júlí 2017, http://www.visir.is/g/2017170709603/hofum-hatt-

Frétt, Engin gögn fást varðandi mál Roberts Downey, 6. júlí 2017, http://www.ruv.is/frett/engin-gogn-fast-vardandi-mal-roberts-downey

Viðtal við Önnu Katrínu Snorradóttur, Robert Downey kærður aftur fyrir kynferðisbrot, 6. júlí 2017, http://www.ruv.is/frett/robert-downey-kaerdur-aftur-fyrir-kynferdisbrot

Frétt: Robert Downey kærður fyrir kynferðisbrot á ný, 6. júlí 2017, http://www.visir.is/g/2017170709281/robert-downey-kaerdur-fyrir-kynferdisbrot-a-ny

Helga Vala Helgadóttir, Æran fæst hvorki keypt né afhent, 10. júlí 2017, http://www.visir.is/g/2017170719993/aeran-faest-hvorki-keypt-ne-afhent-

Sr. Bjarni Karlsson, Þögnin er rofin – núna þarf að auka öryggið, 11. júlí 2017, http://www.visir.is/g/2017170719896/thognin-er-rofin-nuna-tharf-ad-auka-oryggid-

Bergur Þór Ingólfsson og Þröstur Leó Gunnarsson (feður), Í hvers konar samfélagi viljum við búa? 13. júlí 2017, http://www.visir.is/g/2017170719662/i-hvers-konar-samfelagi-viljum-vid-bua-

Viðtal við Þröst Leó Gunnarsson, „Okkur fannst að nú væri komið nóg“, 13. júlí 2017, http://www.ruv.is/frett/okkur-fannst-ad-nu-vaeri-komid-nog

Pétur og Arnþrúður á Útvarpi Sögu ræða Robert Downey: „Ungar stelpur og strákar sem eru á netinu að þvælast og láta tæla sig“ 13 júlí 2017, http://www.dv.is/frettir/2017/7/13/petur-og-arnthrudur-raeda-robert-downey-ungar-stelpur-og-strakar-sem-eru-netinu-ad-thvaelast-og-lata-taela-sig/

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir: Opið bréf til Jóns Steinars Gunnlaugssonar, 14. júlí 2017,
https://stundin.is/grein/5098/opid-bref-til-jons-steinars-gunnlaugssonar/

Magnús Halldórsson, Heiður lögmannastéttarinnar, 14. júlí 2017,
https://kjarninn.is/skodun/2017-07-13-heidur-logmannastettarinnar/

Frétt: Viðbrögðin hafa rétt við bakið á þolendum Róberts Downey, 15. júlí 2017,
http://www.visir.is/g/2017170719384/vidbrogdin-hafa-rett-vid-bakid-a-tholendum-roberts-downey-

Bloggpistill Jóns Steinars Gunnlaugssonar (þar sem hann býsnast yfir umræðunni), Undirheimafólkið, 15. júlí 2017,
http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Jon_Steinar/undirheimafolkid

Viðtal við Önnu Katrínu Snorradóttur sem er sjötta konan til þess að leggja fram kæru á hendur Roberti Downey, áður Róberti Árna Hreiðarssyni: Vonar að lögregla eigi enn gögn úr tölvum Roberts Downey, 16. júlí 2017,
https://stundin.is/grein/5122/vonar-ad-logregla-eigi-enn-gogn-ur-tolvum-roberts-downey/

Guðmundur Andri svarar pistli Jóns Steinars: „Viðbrögðin eru almenn ógleði; nokkurs konar uppreist ælu“, 17. júlí 2017,
http://www.dv.is/frettir/2017/7/17/gudmundur-andri-svarar-pistli-jons-steinars-vidbrogdin-eru-almenn-ogledi-nokkurs-konar-uppreist-aelu/

Þingnefnd ræðir reglur um uppreist æru á sérstökum sumarfundi, 17. júlí 2017, http://www.visir.is/g/2017170719199/thingnefnd-raedir-reglur-um-uppreist-aeru-a-serstokum-sumarfundi

Fréttaskýring: Lög banna að sagt sé frá afbrotum þeirra sem hafa fengið uppreist æru, 17. júlí 2017, https://stundin.is/grein/5128/uppreist-aera-og-aerumeidingar/

Frétt: Dómsmálaráðuneytið segir að: „Tegund brots eða fyrri sakarferill hefur engin áhrif um mat á hvort veita skuli mönnum uppreist æru. Einungis er gerð krafa um að umsækjandi um uppreist æru uppfylli tiltekin lögformleg skilyrði“.
Aðeins lögformleg skilyrði fyrir uppreist æru, 17. júlí 2017,
http://www.ruv.is/frett/adeins-logformleg-skilyrdi-fyrir-uppreist-aeru

Frétt: Benedikt Erlingsson um Robert Downey: „Hér geti verið um að ræða net barnaníðinga sem teygir sig gegnum stjórnsýsluna“, 17. júlí 2017,
http://www.dv.is/frettir/2017/7/17/benedikt-erlingsson-um-robert-downey-her-geti-verid-um-ad-raeda-net-barnanidinga-sem-teygir-sig-gegnum-stjornsysluna/

Frétt: [Benedikt Erlingsson] Segir æru ráðuneytisins vera í húfi vegna máls Roberts Downey, 17. júlí 2017,
http://www.visir.is/g/2017170719047/segir-aeru-raduneytisins-vera-i-hufi-vegna-mals-roberts-downey

Frétt í Grapevine: Uppreist Æru: Clearing The Reputation You Ruined Yourself, 17. júlí 2017,
https://grapevine.is/news/2017/07/17/uppreist-aeru-clearing-the-reputation-you-ruined-yourself/

Frétt: [Svandís Svavarsdóttir] Alþingingismaður segir samfélagslega kröfu að þingið skoði mál Róberts Downey, 18. júlí 2017, http://www.visir.is/g/2017170719044/althingismadur-segir-samfelagslega-krofu-ad-thingid-skodi-mal-roberts-downey-

Frétt og viðtal við Svandísi Svavarsdóttur: Óska eftir nöfnum meðmælenda Roberts Downey, 18. júlí 2017, http://www.ruv.is/frett/oska-eftir-nofnum-medmaelenda-roberts-downey

Viðtal við Svandísi Svavarsdóttur, Inngróið skilningsleysi í kerfinu öllu á afleiðingum kynferðisbrota, 18. júlí 2017, https://stundin.is/grein/5144/malid-endurspeglar-skilningsleysi-i-ollu-kerfinu-edli-og-afleidingum-kynferdisbrota/

Jón Steinar Gunnlaugsson svarar bréfi Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur [frá 14. júlí] til hans, Opið bréf til Þórdísar Elvu, 18. júlí 2017, kl. 10:13, https://stundin.is/grein/5143/opid-bref-til-thordisar-elvu/

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir svarar bréfi Jóns Steinars Gunnlaugssonar til hennar: Einkar lágt lagst, Jón Steinar, 18. júlí 2017, kl. 17:10, https://stundin.is/grein/5145/thordis-elva-einkar-lagt-lagst-jon-steinar/

Illugi Jökulsson, Hvar eru íslensku níðingahringarnir? 19. júlí 2017, https://stundin.is/grein/5146/hvar-eru-islensku-nidingahringarnir/

Illugi spyr hvers vegna svo fáir „fínir menn“ hafi verið dæmdir fyrir barnaníð: „Hvar eru hinir íslensku barnaníðingahringir?” 19. júlí 2017, http://www.dv.is/frettir/2017/7/19/illugi-spyr-hvers-vegna-svo-fair-finir-menn-hafi-verid-daemdir-fyrir-barnanid-hvar-eru-hinir-islensku-barnanidingahringir/

Viðtal við Berg Þór Ingólfsson: „Óréttlætið öskraði á okkur“, 20. júlí 2017, http://www.ruv.is/frett/orettlaetid-oskradi-a-okkur

Hanna Katrín Friðriksson, „Þegar lög ganga gegn réttarvitund“, 20. júlí 2017, 2017http://blog.pressan.is/hannakatrin/2017/07/20/thegar-log-ganga-gegn-rettarvitund/

Hildur Sverrisdóttir: „Vélræn“ stjórnsýsla er mikilvæg, 22. júlí 2017, http://www.visir.is/g/2017170729750/-velraen-stjornsysla-er-mikilvaeg

Frétt um grein Hildar Sverrisdóttur: Uppreist æru: Sama verklag í áratugi, þvert á pólitíska ráðherra og ríkisstjórnir, 23. júlí 2017, http://eyjan.pressan.is/frettir/2017/07/23/uppreist-aeru-sama-verklag-i-aratugi-thvert-a-politiska-radherra-og-rikisstjornir/

Nína Rún: „Af hverju er öll þessi leynd? Er eitthvað sem hann vill ekki að við komumst að?“ 1. ágúst 2017,
http://www.dv.is/frettir/2017/8/1/nina-run-af-hverju-er-oll-thessi-leynd-er-eitthvad-sem-hann-vill-ekki-ad-vid-komumst-ad/

Leiðari Magnúsar Guðmundssonar (sem leiddi til þess að Bjarni bar af sér að hafa skrifað uppá uppreistu æruna), Ekkert að fara, 2. ágúst 2017, http://www.visir.is/g/2017170809892/ekkert-ad-fara-

Frétt: Bjarni: Skrifaði ekki upp á uppreist Downeys, 2. ágúst 2017,
http://www.ruv.is/frett/bjarni-skrifadi-ekki-upp-a-uppreist-downeys

Frétt/viðtal: Fjölskylda brotaþola Roberts Downey ringluð eftir nýjar upplýsingar í málinu, 2. ágúst 2017, https://stundin.is/grein/5207/bjarni-segir-olofu-nordal-hafa-afgreitt-mal-roberts-downey/

Agnar Kr. Þorsteinsson, Reyksprengja Bjarna Ben, 3. ágúst 2017, https://stundin.is/blogg/Agnar-Kr-Thorseinsson/reyksprengja-bjarna-ben/

Gabríel Benjamin, „Trumpismi af Bjarna“ að banna gagnrýnisraddir, 3. ágúst 2017,
https://stundin.is/grein/5205/samfelagsmidlanotkun-bjarna-likist-trumpisma/

Friðrik Erlingsson: „Í efstu lögum samfélagsins eru karlmenn sem halda hlífiskildi yfir dólgum sem selja aðgang að börnum“, 3. ágúst 2017, http://www.dv.is/frettir/2017/8/3/fridrik-erlingsson-i-efstu-logum-samfelagsins-eru-karlmenn-sem-halda-hlifiskildi-yfir-dolgunum-sem-selja-adgang-ad-bornum/
Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, júní 14, 2017

Vopnuð lögregla innanum almenning; eigum við bara að sætta okkur við það og venjast því?

Það er sérkennilegt að stofna þjóðaröryggisráð — en hafa það svo ekki með í ráðum þegar ákveðið er að hafa vopnaða lögreglu á fjöldasamkomum. Það er óþolandi ef mannfæð og fjárskortur hjá lögreglunni hefur orðið til þess að senda á færri lögreglumenn á fjöldaviðburði en hafa þá vopnaða í stað þess að senda fjölmennara lið. Það er undarlegt að eftir allt havaríið hér um árið þegar löggan átti að fá norsku byssurnar — þá skuli aftur eiga að vopna lögregluna í kyrrþey — án þess að ræða það á þingi, án þess að setja málið í dóm þjóðarinnar. Hingað til hefur þessi þjóð nefnilega (með undantekningum) verið býsna stolt af því að eiga ekki her og hér sé lögreglan óvopnuð.

Líkurnar á að hér verði framið hryðjuverk eru litlar. Jú, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson skráðu okkur (óspurð) á lista þeirra þjóða sem studdu innrásina í Írak, en við höfum ekki sent vopnað lið til landa fyrir botni Miðjarðarhafs, og hafa því þeir sem styðja íslamska ríkið og fremja hryðjuverk í nafni þess ekki mikið uppá okkur að klaga, að minnsta kosti í samanburði við þau lönd sem sí og æ hafa skipt sér af málum þar um slóðir. Sú sýndarmennska að þykjast þurfa að hafa vopnað lið sprangandi um hér á landi er bara uppfylling blautra drauma Björns Bjarna fyrrverandi dómsmálaráðherra og Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra.

Haraldur Johannessen segir að vegna þess að vopnaðir lögreglumenn hafi áður sést á höfuðborgarsvæðinu sé vopnaburður lögreglu „engin nýlunda, það er engin stefnubreyting hvað það varðar.“ Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur segir aftur á móti að það felist „ákveðin eðlisbreyting í því fyrir íslenskt samfélag, að almenn löggæsla beri sýnileg vopn“. Þarna er ég sammála síðasta ræðumanni, og fleiru sem hann segir í sama viðtali.

En ríkislögreglustjórinn segist hafa fullt vald til að taka upp á eigin spýtur þá ákvörðun að láta sérsveitarmenn ganga vopnaða. Sem skýringu lætur hann hafa þetta eftir sér:
„Við erum með samfélag sem er samsett af miklum fjölda erlendra borgara, bæði þeirra sem starfa hér og dvelja hér, ferðamenn, hælisleitendur og svo framvegis. Þannig að samsetningin hér á hverjum tíma af því fólki sem er í landinu hefur breyst mjög verulega undanfarin tíu, fimmtán ár.“ 
Þetta er ömurlegur málflutningur sem elur á útlendingahatri.

Hér ætti þjóðaröryggisráð að taka fram fyrir hendur Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra. Eða Sigríður Andersen, varla leiðist henni að beita valdi sínu á Harald, því ekki leiddist henni valdníðslan þegar hún hlutaðist til um skipan dómara í Landsrétt. Nema henni finnist líka í lagi að það verði arfleifð hennar að í hennar tíð hafi Íslendingar orðið að sætta sig við að umgangast vopnaða lögreglu þegar eitthvað er um að vera í miðbæ Reykjavíkur.

Annars vil ég taka undir það sem Gísli Garðars varaþingmaður VG sagði um þetta mál, hann færði fram mjög góð rök gegn þessari stefnubreytingu á íslensku þjóðlífi.
„Í umræðunni um vopnaburð lögreglu er auðvelt að tala um tilfinningar. Sumum finnst vopnuð lögregla vekja hjá þeim öryggiskennd. Og það er í sjálfu sér skiljanlegt. Sjálfur fell ég hins vegar í hinn flokkinn. Ég hef líklega sjaldan upplifað mig óöruggari en í kringum tyrknesku lögregluna og mér fannst mjög óþægilegt að sjá vígbúnaðinn sums staðar á götum Rómar þegar ég var þar í fyrrasumar. En í dag langar mig ekki að tala um tilfinningar. Mig langar að tala um staðreyndir. Og þetta eru staðreyndirnar:

Á Íslandi hefur lögreglan skotið einn mann til bana. Ever. Enginn hefur látið lífið í hryðjuverkaárás. Nokkurn tímann.

Frá 2000 til 2015 dóu 90 manns í Bretlandi af völdum hryðjuverkaárása. Það eru um 6 manns á ári. Það er aðeins einum fleiri en dóu af völdum bresku lögreglunnar í fyrra.

Meðalfjöldi látinna á ári í hryðjuverkaárásum í Frakklandi frá 2010 til 2014 var 2 á ári. Árið 2012 dóu 4 af völdum lögreglu þarlendis.

Og í fyrra dóu 1092 Bandaríkjamenn í skotárásum lögreglu. Meðalfjöldi látinna í hryðjuverkaárásum erlendra aðila í sama landi frá 1975 til 2015 á ári var 74. Og það er með 11. september 2001. Síðan þá hafa hryðjuverkamenn, erlendir og innlendir, drepið um 6 manns á ári. 0.5% af fjölda þeirra sem dóu af völdum vopnaðrar lögreglu.

Nú er ég ef til vill bara einfeldningur, en ég held að ótrúlegur árangur okkar í að lögreglan drepi ekki fólk gæti mögulega ráðist af því að lögreglan gengur allajafna ekki um með morðvopn. Og ég er ekki til í að fórna þeim árangri til að koma í veg fyrir eitthvað sem hefur aldrei komið fyrir hérlendis og reynsla annarra landa sýnir að er síst meiri ógn en vopnuð löggæsla. Mér finnst að við eigum að byggja samfélagið okkar á staðreyndum, ekki tilfinningum.

Ekki síst af því að mér finnst ekkert skárra að lögreglumaður skjóti mig til bana en hryðjuverkamaður.“

___
[Viðbót] Það eru ekki bara afturhaldskommatittir sem agnúast útí vopnaburð lögreglu; Þórlindur Kjartansson skrifar hreint ágætan pistil gegn þessu fyrirkomulagi.

Efnisorð:

sunnudagur, júní 11, 2017

Skrafað og skrifað um sjóferðir og sjósókn

Sjómannadagur og í tilefni hans var viðtal í Fréttablaðinu sem Gunnþóra Gunnarsdóttir tók við tvær fyrrverandi þernur á hinum sögufræga Gullfossi, þær Rannveigu Ásgeirsdóttur og Svövu Gestsdóttur.

„Hvernig var vinnudagurinn hjá þernum?

Rannveig: Vinnudagurinn var langur. Við byrjuðum klukkan sjö og unnum til átta annað kvöldið og hálf tólf hitt en fengum tveggja tíma frí að deginum, milli tvö og fjögur eða fjögur til sex. Þær sem fengu fríið klukkan tvö tóku kvöldvaktina. Við vorum yfirleitt sjö í einu um borð og höfðum nóg að gera.

Svava: Við vöknuðum tímanlega því við þurftum að laga okkur til og greiða okkur svo við litum vel út. Það var krafa. Byrjuðum á að fara yfir gangana og taka til á bakka handa þeim sem vildu fá kaffið í klefana. Það varð að vera tilbúið klukkan átta, sumir voru duglegir á bjöllunum.

Rannveig: Ég hugsa að slík afgreiðsla væri ekki leyfð í dag. Það var í raun stórhættulegt að vera í alls konar sjólagi með sjóðheitt kaffi og te í þungum silfurkönnum á bökkum og bera þá frá kjallara upp á efsta dekk, svipað og að hlaupa upp á fjórðu hæð í blokk með hvern og einn bakka.

Svava: Já, þegar skipið hjó gat þrýstingurinn verið mikill ýmist upp eða niður. Það þurfti krafta og lagni til að missa ekki allt saman. En veitingarnar voru fínar. Það var bakað um borð, alltaf nýtt bakkelsi með kaffinu.“

Hér á eftir fer svo samtal farþega með öðru skipi, strandferðaskipinu Esju. Nema hvað samtal þetta er úr skáldsögunni Í sama klefa eftir Jakobínu Sigurðardóttur sem kom út 1981.

„Ég spurði: — Ert þú aldrei sjóveik?
— Nei, sjóveik er ég ekki, en ég er stundum sjóhrædd, ekki á vona skipi, en þessum litlu bátum hérna, sem maður hefur stundum flækzt með í kaupstað. Ekki það, mínar kaupstaðarferðir hafa ekki verið margar. Ég var aldrei hrædd á árabátnum, en trillunni og þessum mótorbátum, það er einhvernveginn allt öðruvísi. Nema maður getur hallað sér niðri í lúkar á mótorbátunum“ (bls. 30).

„Umhverfis Esjuna var haf og himinn, land hvergi sjáanlegt þessa stundina. Enginn á ferli, nema þá áhöfnin við sín störf, ósýnileg, dularfull, en vitneskjan um tilvist hennar áreiðanlegri til öryggis en handleiðsla guðs. Örlítið, svalandi kul í mildu vorloftinu“ (bls. 92-93).


Og þá nokkur bókarbrot um sjósókn úr Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson sem kom út 2007.

„Þeir vinna í þögn.

Bera það sem þarf að bera ofan í bátinn, seglbúnað, línurnar með beitunni, skinnstakkana, of milt veður til að klæðast þeim strax, skinnbuxurnar ná þeim undir hendur, ullin í peysunni svellþæfð og framundan stífur róður eða fjóra tíma. Hver maður með sitt ákveðna hlutverk í nóttinni, bara ef tilveran væri alltaf svona blátt áfram og auðlesanleg, bara ef við kæmumst undan óvissunni sem nær út yfir gröf og dauða“ (bls. 33).

„Menn Guðmundar eru fljótir að koma sér út. Velta bátnum sem er næstum heilum metra lengri en bátur Péturs, ferma hann, gleyma ekki að signa hvert handtak. Þeir hafa róið saman í tuttugustu ár, byrjuðu ungir á hákarlaveiðum á þeim árum þegar engin lög náðu yfir sjósjókn og þeir gátu farið á sjóinn þegar þeim hentaði, oft í svartasta skammdeginu, þegar myrkrið var svo þétt að það mátti bregða hnífa og rissa fangamark sitt í það, og sú nótt bar þá nafn þitt inn í morguninn“ (bls. 49-50).

„Þeir hafa róið lengi og það er farið að birta. Þeir hafa róið út úr nóttinni og inn í brothættan morgun. Búnir að losa sig við sjóhattana. Misstu smám saman sjónar á hinum bátunum sem dreifðust um víðáttur Djúpsins, sjórinn öldóttur og þeir róa dýpra en hinir og stefna á einhver djúpmið sem Pétur þekkir en hefur ekki sótt á í nokkur ár, þeir treysta honum, hann veit meira en þeir til samans þegar þorskur er annars vegar, hann hugsar eins og þorskur, sagði Bárður einu sinni og vont að vita hvort það var lof eða last, getur verið erfitt að reikna Bárð út en Pétur ákvað að líta á það sem hrós. Þeir leggjast á árarnar og fjarlægast landið. Það getur verið sárt að fjarlægjast land, það er eins og maður rói í átt að einsemdinni. Strákurinn horfir á fjöllin minnka, þau virðast sökkva í hafið. Fjöllin ógna okkur þegar við erum í landi, safna í sér illviðrum, drepa manneskjur með grjótkasti, þurrka út bæi með snjóflóðum og aurskriðum, en fjöllin eru líka verndandi lófi, þau fóstra okkur og halda utanum bátana sem róa inni á fjörðunum, en ekkert verndar sjómenn sem róa langt, nema bænin og hugvitið“ (bls. 51).

„Báturinn hefst og hnígur. Sjóveikin sem hefur lítið plagað strákinn í ferðinni, og hann blessað kínalífselixírinn margoft í huganum, snýr nú aftur, þó væg ennþá, flökurleiki sem hann ætti að geta unnið af sér þegar þeir byrja að draga lóðirnar, ef þeir byrja þá einhverntíma, ef tíminn hefur ekki yfirgefið þá, skilið þá eftir á Íshafinu. Pétur hristir sig, hann hristir sig eins og dýr, rífur sig undan doðanum, uppgjöfinni, óttanum, og segir: róum að duflinu“ (bls. 68).

Til hamingju með daginn, sjómenn.


Efnisorð:

laugardagur, júní 10, 2017

Engin hætta á að við gleymum hver þú ert

Andres Behring Breivik hefur breytt nafninu sínu í Fjotolf Hansen.

Það er skiljanlegt því hann hefur auðvitað fylgst með því að Chelsea Manning, annar frægur fangi, hefur verið sleppt lausri eftir að hún skipti um nafn, og er nú afar eftirsótt af fjölmiðlum auk þess sem almenningsálitið er henni í hag.

Breivik sér auðvitað fyrir sér glæstan feril sem frjáls maður eftir nafnbreytinguna, vinsæll og allir vilja tala við hann. Því varla fer neinn að erfa við hann banvæna sprengjuárás eða fjöldamorð á unglingum.

Góð tilraun Breivik. Góð tilraun.

Efnisorð:

föstudagur, júní 09, 2017

Meira segja þegar sannað er að nauðgarinn skipulagði glæpinn og fórnarlömbin eru fjórtán ára

Úr því að dómstólar njóta hvorteðer ekki trausts ákváðu hæstaréttardómarar að strjúka tvöföldum nauðgara* mjúklega um vangann, milda dóm héraðsdóm sem þó var vægur, og senda um leið fórnarlömbum hans — og reyndar öllum þolendum kynferðisofbeldis — fingurinn og hlæja að þeirri heimskulegu firru að einhver skuli halda að dómstólar álíti kynferðisbrotamenn hættulega og beri að gjalda gjörða sinna.

Og svo það sé fært til bókar þá heitir nauðgarinn Ingvar Dór Birgisson og verjandi hans var Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sérlegur nauðgaraverjandi.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, júní 08, 2017

Landsréttardómararnir

„Í dag, 8. júní, staðfesti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, skipun 15 dómara í Landsrétt. Tilkoma þessa nýja millidómstigs gjörbreytir íslensku réttarkerfi þegar dómstóllinn tekur til starfa um næstu áramót. Einnig er einsdæmi að svo margir dómarar séu skipaðir í einu.“
Á vef Ríkisútvarpsins má lesa allt um ættir og tengsl dómaraefnanna fimmtán við stjórnmál og viðskiptalíf. Nærri helmingur dómaraefnanna er með sterk tengsl inn í Sjálfstæðisflokkinn og sitjandi þingmenn og (núverandi og fyrrverandi) ráðherra hans. Klíkuráðningar þess flokks eru þekktar þegar kemur að því að manna stöður í embættismannakerfinu og dómskerfinu. Það ætti því ekki að koma á óvart að enn einn náinn ættingi Davíðs Oddssonar fær dómarastarf.
„Dómarar við nýjan Landsrétt hafa margir tengsl við íslenskt viðskiptalíf og stjórnmál. Lögregla gerði húsleit heima hjá einum þeirra eftir hrun. Sá sami er kvæntur stjórnarmanni í þremur stórfyrirtækjum. Einn dómari situr í stjórn fjármálafyrirtækis og stórrar heildsölu, á hlut í Klíníkinni í Ármúla og er kvæntur stjórnarformanni Klíníkurinnar, annar er giftur eiganda fjármálafyrirtækis og einn er giftur eiganda stórs verktakafyrirtækis.“

„Ein þeirra sem skipuð var landsréttardómari er frænka Bjarna Benediktssonar, önnur náskyld Davíð Oddssyni, þriðji er frændi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ritara Sjálfstæðisflokksins, fjórða er gift Brynjari Níelssyni þingmanni flokksins, fimmti kvæntur Ásdísi Höllu Bragadóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og sjötti er fyrrverandi varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og svili Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Sá síðastnefndi er sá eini sem hefur verið kjörinn pólitískur fulltrúi.

Einn dómari á son sem var í framboði fyrir Samfylkinguna 1999, einn á tengdaföður sem var á lista Viðreisnar í síðustu þingkosningum og móðursystir eins er ekkja fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins.

Einn landsréttardómari er meðal eigenda lögmannsstofu þar sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra starfaði um árabil og annar er kvæntur öðrum eiganda á sömu lögmannsstofu.“
Smæð íslensks þjóðfélags er reyndar slíkt að ekki ætti að koma óvart að allir eru tengdir einhverju eða einhverjum sem gæti verið óheppilegt þegar kemur að því að sinna dómarastörfum. En það er samt sem áður vert að lesa listann og fletta uppí honum síðar þegar dómar taka að falla í Landsrétti.
„Í ljósi þessa, og að nú eru í dómskerfinu umfangsmikil sakamál þar sem ólík tengsl og ummæli dómara hafa leitt til endurflutnings málanna, hefur fréttastofa gert óformlega úttekt á bakgrunni og stjórnmála- og viðskiptatengslum landsréttardómaranna. Þá fylgir líka lítilsháttar ættfræði.

Úttektin er meðal annars byggð á upplýsingum úr fyrirtækjaskrá og ársreikningum, úr umsögn hæfnisnefndar, af netinu og úr Lögfræðingatali, og á samtölum við alla 15 dómarana. Upptalningin er alls ekki tæmandi, til að mynda um tengsl við félög eða um fjölskyldubönd. Sumt er aðeins sett fram til fróðleiks og skemmtunar.“
Vegna þess að vefur Ríkisútvarpsins hefur ekki reynst varanleg heimild er hér brugðið á það ráð að afrita í næstum heilu lagi (án mynda) þessa úttekt Tryggva Aðalbjarnarsonar á landsréttardómurum:

Hér á eftir er fjallað um alla dómarana 15 í stafrófsröð.

Aðalsteinn E. Jónasson
Aðalsteinn Egill Jónasson er fimmtugur hæstaréttarlögmaður og einn af eigendum LEX lögmannsstofu,* þar sem hann hefur starfað með hléum frá því hann lauk lögfræðiprófi árið 1992. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra starfaði um árabil sem lögmaður hjá LEX. Aðalsteinn er með framhaldspróf í lögfræði frá Harvard-háskóla.

Hann gegndi fyrir hrun um tíma starfi framkvæmdastjóra lögfræðisviðs bæði hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, sem síðan sameinaðist Íslandsbanka, og hjá Straumi fjárfestingabanka. Hann var líka um tíma framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Gnúps fjárfestingafélags, sem var fyrir hrun einn af stærstu hluthöfum fjárfestingarrisans FL Group. Aðalsteinn var í mörg ár lektor og síðar dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og hefur líka kennt við lagadeild Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað tvær bækur um fjármálalögfræði.

Aðalsteinn er varaformaður stjórnar Persónuverndar og vann fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um fall bankanna. Hann er stjórnarformaður heildsölufyrirtækjanna Nathan & Olsen og Ekrunnar og tengdra félaga. Hann situr jafnframt í stjórn fjármálafyrirtækisins Fossa markaða. Hann sat einnig í stjórn Lögmannafélags Íslands um árabil og hefur setið í ýmsum nefndum.

Eiginkona Aðalsteins er Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ. Hún var um tíma framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Eftir að hún hætti sem bæjarstjóri var hún forstjóri BYKO. Ásdís Halla situr í dag í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.

Aðalsteinn og Ásdís Halla stofnuðu saman árið 2007 félagið EVA consortium hf. sem fjárfestir í velferðarþjónustu, og er meðal annars stór hluthafi í Klíníkinni við Ármúla. Ásdís Halla er stjórnarformaður Klíníkurinnar. Aðalsteinn og Ásdís Halla eiga samkvæmt nýjustu ársreikningum rúmlega þriðjungshlut í EVA consortium í gegnum félag sitt Gekka ehf.

Foreldrar Aðalsteins eru Jónas A. Aðalsteinsson lögmaður og Guðrún Ragnhildur Eiríksdóttir húsmóðir. Systir Aðalsteins er Lilja Jónasdóttir lögmaður.

Aðalsteinn var í 5. sæti í mati hæfnisnefndar um mat á umsækjendum um embætti dómara við Landsrétt.

Arnfríður Einarsdóttir
Arnfríður Einarsdóttir er 57 ára dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hún hefur starfað hjá ríkinu allt frá því hún útskrifaðist með lögfræðipróf frá Háskóla Íslands árið 1986. Hún vann hjá borgarfógetaembættinu og yfirborgardómaranum í Reykjavík og Héraðsdómi Reykjavíkur, og varð skrifstofustjóri dómsins 1999. Hún var skipuð héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness 2006. Frá 2010 hefur hún verið dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hún er jafnframt forseti Félagsdóms, sem dæmir í deilum stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda.

Arnfríður er með próf í opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Hún sat um árabil í málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Hún hefur líka setið í ýmsum ráðum og nefndum á vegum Þjóðkirkjunnar.

Eiginmaður Arnfríðar er Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Hann starfaði áður sem lögmaður og var um tíma formaður Lögmannafélags Íslands. Einn sonur Arnfríðar og Brynjars er Einar Brynjarsson, lögmaður á lögmannsstofunni Fjeldsted & Blöndal. Annar nýskipaður landsréttardómari, Jóhannes Sigurðsson, er meðal eigenda þeirrar lögmannsstofu.

Foreldrar Arnfríðar voru Henný Dagný Sigurjónsdóttir húsmóðir og Einar Þorsteinsson hárskeri.

Arnfríður var í 18. sæti í mati hæfnisnefndarinnar, og var því ekki meðal þeirra 15 sem nefndin taldi hæfasta.


Ásmundur Helgason
Ásmundur Helgason er 47 ára dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann lauk laganámi árið 1999. Áður en hann varð dómari vann hann meðal annars hjá umboðsmanni Alþingis og sem aðallögfræðingur Alþingis. Hann var skipaður héraðsdómari í Reykjavík vorið 2010 og hefur einnig setið í Félagsdómi frá 2014.

Ásmundur hefur meðal annars verið formaður fornleifanefndar, var formaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli Haga gegn Samkeppniseftirlitinu, og hefur kennt við lagadeild Háskóla Íslands. Áður en hann lærði lögfræði lauk Ásmundur prófi í sagnfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands.

Eiginkona Ásmundar er Sigurborg Sólveig Guðmundsdóttir, viðskiptafræðingur og leikskólakennari. Hún starfar sem fjármálastjóri Hostel LV 105 hf., rekstrarfélags hótelsins og farfuglaheimilisins Hlemmur Square í Reykjavík. Sigurborg sat einnig um tíma í stjórn félagsins. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru endanlegir eigendur hótelsins bróðir Sigurborgar, Auðun Már Guðmundsson fjárfestir, og breski lögmaðurinn Stephen David Jones.

Ásmundur er sonur Helga E. Helgasonar, fyrrverandi varafréttastjóra Ríkissjónvarpins og fréttamanns þar um áratugaskeið. Faðir Helga var Helgi Sæmundsson, skáld og ritstjóri Alþýðublaðsins. Móðir Ásmundar er Ásdís Ásmundsdóttir, dóttir Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara.

Ásmundur var í 17. sæti í mati hæfnisnefndarinnar, og var því ekki meðal þeirra 15 sem nefndin taldi hæfasta.


Davíð Þór Björgvinsson
Davíð Þór Björgvinsson er 61 árs prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Hann er settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem nú er á leið aftur fyrir Hæstarétt.

Davíð Þór lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1985 og síðan framhaldsprófi frá Duke-Háskóla í Norður-Karólínu. Davíð hefur meðal annars unnið á lögmannsstofum, hjá yfirborgardómara í Reykjavík og sem prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hann var dómari við Mannréttindadómstól Evrópu í níu ár og um tíma prófessor við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla.

Hann hefur tekið þátt í að semja lagafrumvörp og setið í refsiréttarnefnd. Hann var um tíma formaður mannanafnanefndar.

Davíð Þór hefur verið formaður Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og setið í vísindasiðanefnd. Hann hefur skrifað fjórar bækur um lögfræði og mikinn fjölda ritrýndra bókakafla og fræðigreina. Áður en hann lærði lögfræði lauk hann prófi í sagnfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í lögfræði frá háskólanum í Strassborg 2013.

Fyrrverandi eiginkona Davíðs Þórs er Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Foreldrar Davíðs Þórs voru Björgvin Ólafsson, vagnstjóri hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, og Guðfinna Guðlaugsdóttir, húsmóðir og verkakona. Systir Davíðs Þórs er Guðlaug Björgvinsdóttir, sem er gift Halldóri Halldórssyni, framkvæmdastjóra harðfiskframleiðandans Tradex, sem selur vörur sínar meðal annars undir merkjunum Gullfiskur og Gæðafiskur.

Davíð Þór var í 1. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Hervör Þorvaldsdóttir
Hervör Lilja Þorvaldsdóttir er 60 ára dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Eftir að hún lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1985 vann hún meðal annars hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík. Árið 1992 var hún skipuð dómari við Héraðsdóm Vesturlands. 1998 var hún skipuð dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Haustið 2012 var hún kosin varadómstjóri þar og hefur verið starfandi dómstjóri frá því í desember í fyrra.

Hervör stundaði framhaldsnám í lögfræði við Óslóarháskóla. Hún hefur verið formaður landskjörstjórnar og kennt við Háskólann í Reykjavík. Hervör er varaformaður dómstólaráðs og situr í gjafsóknarnefnd. Hún hefur setið í stjórn Dómarafélags Íslands og stjórn Lögfræðingafélags Íslands.

Fyrrverandi eiginmaður Hervarar er Örn Erlendur Ingason bæklunarskurðlæknir.

Systkini Hervarar eru Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari, Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna og Þórhallur Haukur Þorvaldsson lögmaður. Foreldrar þeirra voru Ásdís Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur og Þorvaldur Lúðvíksson lögmaður. Þorvaldur var móðurbróðir Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra. Davíð og Hervör eru því systkinabörn. Sonur Davíðs er Þorsteinn Davíðsson, dómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra, og eru Hervör og hann því skyld í annan og þriðja lið.

Skipun Ólafs Barkar sem hæstaréttardómara árið 2003 var umdeild, meðal annars vegna skyldleika hans við Davíð. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skipaði Ólaf Börk í embættið þótt tveir aðrir umsækjendur hefðu verið metnir hæfari.

Skipun Þorsteins Davíðssonar árið 2007 var líka umdeild. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði sig frá ráðningunni þar sem Þorsteinn hafði áður verið aðstoðarmaður hans í ráðuneytinu. Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, sá um skipunina. Hann skipaði Þorstein í embættið þótt þrír aðrir umsækjendur hefðu verið metnir hæfari.

Ráðning Hrafnhildar Ástu árið 2013 var jafnframt umdeild. Stjórn LÍN hafði metið þrjá umsækjendur hæfasta, þar á meðal Hrafnhildi Ástu. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra skipaði Hrafnhildi Ástu. Annar umsækjandi, sem stjórnin hafði raðað skör framar í hæfnismatinu, höfðaði dómsmál gegn ríkinu, en tapaði því, enda þótti ósannað að ráðningin hefði verið ómálefnaleg eða ólögmæt.

Dómnefnd hefur tvisvar metið hæfi Hervarar og í bæði skiptin hefur hún verið metin hæfust eða í hópi hæfustu. Þegar hún sótti um héraðsdómaraembætti á Vesturlandi var hún metin hæfust. Hervör var í 15. sæti í mati hæfnisnefndar um Landsrétt.


Ingveldur Einarsdóttir
Ingveldur Þuríður Einarsdóttir er 58 ára dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, en hefur starfað sem settur hæstaréttardómari frá ársbyrjun 2013. Eftir að hún lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1985 vann hún hjá yfirborgarfógetanum í Reykjavík og Héraðsdómi Reykjavíkur. Ingveldur var skipuð héraðsdómari haustið 1999, fyrst við Héraðsdóm Suðurlands, en frá 2004 við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Ingveldur hefur verið formaður barnaverndarráðs, kærunefndar barnaverndarmála, dómstólaráðs og Dómarafélags Íslands. Hún lauk framhaldsprófi í lögfræði frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð og hefur stundað framhaldsnám við Óslóarháskóla.

Eiginmaður Ingveldar er Ársæll Friðriksson, kennari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Sonur þeirra er Friðrik Ársælsson lögmaður. Friðrik og eiginkona hans, Rakel Eva Sævarsdóttir, eiga og reka ásamt vinahjónum sínum veitingahúsið Borðið við Ægisíðu í Reykjavík. Annar sonur Ingveldar og Ársæls er Eiríkur Ársælsson, fjármálaverkfræðingur hjá Arion banka.

Bróðir Ingveldar er Ingimundur, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur og fyrrverandi varalögreglustjóri í Reykjavík og bæjarstjóri á Siglufirði. Móðir þeirra var Erla Axelsdóttir húsmóðir. Föðurbróðir hennar var Haraldur Böðvarsson stórútgerðarmaður á Akranesi.

Faðir Ingveldar og Ingimundar var Einar Ingimundarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og sýslumaður og bæjarfógeti víða um land. Móðir Einars var Ingveldur Einarsdóttir, systir Eiríks Einarssonar þingmanns Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, og föðursystir Steinþórs Gestssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og söngvara í MA-kvartettinum og Þorgeirs Gestssonar læknis og söngvara í MA-kvartettinum.

Föðursystir Ingveldar landsréttardómara var Helga Ingimundardóttir, eiginkona Sveins Benediktssonar stórútgerðarmanns og föðuramma Bjarna Benediktssonar, núverandi forsætisráðherra. Ingveldur og Bjarni eru því skyld í annan og þriðja lið.

Ingveldur var í 6. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Jóhannes Sigurðsson
Jóhannes Sigurðsson er 57 ára hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi aðstoðarforstjóri Milestone. Hann útskrifaðist með próf í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1986 og framhaldspróf frá Virginíuháskóla í Bandaríkjunum árið eftir.

Hann hefur unnið á ýmsum lögmannsstofum og var meðeigandi Logos í um áratug. Hann kenndi jafnframt við Háskóla Íslands um árabil. Hann hefur unnið hjá Eftirlitsstofnun EFTA, verið prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og lögfræðingur hjá Actavis og skrifað tvær bækur um lögfræði.

Árið 2006 var Jóhannes ráðinn aðstoðarforstjóri Milestone, fjárfestingarfélags Karls og Steingríms Wernerssona. Eftir hrun hóf sérstakur saksóknari umfangsmikla rannsókn á málefnum Milestone og dótturfélags þess, tryggingafélagsins Sjóvá almennra, og var meðal annars gerð húsleit á heimili Jóhannesar. Mál Sjóvár voru síðar felld niður hjá saksóknara. Jóhannes bar vitni í einu máli sem tengdist Milestone.

Jóhannes hefur frá 2009 verið lögmaður og eigandi hjá Fjeldsted & Blöndal lögmannsstofu. Hann situr í stjórnum félaga á vegum orkufyrirtækisins Arctic Green Energy og í varastjórn Landsnets. Hann hefur í gegnum tíðina setið í stjórn fjölmargra fyrirtækja bæði á Íslandi og erlendis.

Eiginkona Jóhannesar er Heiðrún Jónsdóttir lögmaður. Hún situr í stjórn Símans, Íslandsbanka og Olíuverzlunar Íslands. Heiðrún sat um tíma í stjórn Gildis lífeyrissjóðs, auk þess að hafa setið í stjórnum fleiri einkafyrirtækja.

Sonur Jóhannesar og fyrrverandi eiginkonu hans, Valgerðar Andrésdóttur, er Sigurður Logi Jóhannesson lögmaður. Annar sonur þeirra er Andrés Már Jóhannesson, leikmaður Fylkis í knattspyrnu.

Foreldrar Jóhannesar voru Edda Guðjónsdóttir verslunarmaður og Sigurður Sigurðsson sjómaður.

Jóhannes og Kristín Steinarsdóttir, móðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ritara Sjálfstæðisflokksins og formanns allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, voru systkinabörn. Jóhannes og Áslaug Arna eru því skyld í annan og þriðja lið.

Jóhannes var í 9. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Jón Finnbjörnsson
Jón Finnbjörnsson er 59 ára dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1983 og síðan prófi frá Norrænu sjóréttarstofnuninni í Ósló. Jón hefur líka stundað framhaldsnám við Ludwig-Maximilians-háskóla í München.

Jón hefur unnið hjá borgarfógetaembættinu í Reykjavík, sem aðstoðarmaður hæstaréttardómara og hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Suðurlands árið 1998. Árið 2001 var hann skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem hann hefur unnið síðan.

Jón hefur meðal annars kennt við Stýrimannaskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands og setið í stjórn Lögfræðingafélags Íslands.

Eiginkona Jóns er Erla Svanhvít Árnadóttir, lögmaður og einn af eigendum LEX lögmannsstofu,* þar sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra starfaði um árabil. Erla Svanhvít sat um tíma í skilanefnd Glitnis.

Móðir Jóns er Guðrún Jónsdóttir, fyrrverandi gjaldkeri. Systir Guðrúnar, Ragnheiður Jónsdóttir, var eiginkona Björns Fr. Björnssonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Guðrún og Pálmi Jónsson í Hagkaup voru systrabörn, og er Jón því þremenningur við athafnasystkinin Ingibjörgu Pálmadóttur eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Lilju Pálmadóttur eiginkonu Baltasars Kormáks kvikmyndaleikstjóra, Sigurð Gísla Pálmason föður tónlistarmannsins Gísla Pálma, og Jón Pálmason.

Faðir Jóns Finnbjörnssonar var Finnbjörn Guðmundsson skipstjóri. Systir Finnbjörns er Sigríður Guðmundsdóttir, föðuramma Kristínar Völundardóttur forstjóra Útlendingastofnunar. Jón og Kristín eru því skyld í annan og þriðja lið. Finnbjörn og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, faðir Vilhjálms H. Vilhjálmssonar landsréttardómara, voru systkinasynir. Dómararnir Jón og Vilhjálmur eru því þremenningar. Jón er einnig þremenningur við Ólaf Helga Kjartansson, lögreglustjóra á Suðurnesjum.

Jón var í 30. sæti í mati hæfnisnefndarinnar, og var því ekki meðal þeirra 15 sem nefndin taldi hæfasta.


Kristbjörg Stephensen
Kristbjörg Stephensen er 51 árs og hefur verið borgarlögmaður í Reykjavík í tíu ár. Hún lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1991 og framhaldsprófi frá Gautaborgarháskóla 1993. Hún hefur unnið hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og skrifstofu borgarstjórnar. Hún gegndi ýmsum störfum hjá Reykjavíkurborg þar til hún varð borgarlögmaður 2007. Kristbjörg situr í stjórn félaga á vegum Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Eiginmaður Kristbjargar er Björn Hafsteinn Halldórsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Sorpu. Foreldrar Kristbjargar eru Guðbjörg Ingólfsdóttir Stephensen, fyrrverandi sölumaður, og Magnús Ó. Stephensen tæknifræðingur, sem er látinn. Bróðir Magnúsar er Þórir Stephensen, fyrrverandi dómkirkjuprestur og staðarhaldari í Viðey. Sonur Þóris er Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, og eru Kristbjörg og Ólafur því bræðrabörn.

Kristbjörg var í 8. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Oddný Mjöll Arnardóttir
Oddný Mjöll Arnardóttir er 47 ára prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Hún lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1994 og doktorsprófi í lögfræði frá Edinborgarháskóla 2002. Hún hefur unnið á lögmannsstofu, verið framkvæmdastjóri Reykjavíkurakademíunnar og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og verið sjálfstætt starfandi lögmaður.

Hún var aðjúnkt við Háskólann á Bifröst, prófessor við Háskólann í Reykjavík og frá 2012 prófessor við Háskóla Íslands.

Oddný Mjöll hefur meðal annars verið formaður Félags kvenna í lögmennsku, setið í vísindasiðanefnd, verið formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands og setið í yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis suður. Hún hefur tekið sæti sem varadómari Íslands í einu máli við Mannréttindadómstól Evrópu. Oddný Mjöll hefur skrifað eina bók um lögfræði, byggða á doktorsritgerð sinni, og mikinn fjölda ritrýndra bókarkafla og fræðigreina. Á námsárum sínum sat hún í háskólaráði fyrir Röskvu.

Eiginmaður Oddnýjar Mjallar er Gylfi Gíslason, rekstrarhagfræðingur og framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Jáverks. Hann á jafnframt 40% hlut í fyrirtækinu í gegnum félagið GG ehf. Oddný Mjöll hefur verið varamaður í stjórn Jáverks. Gylfi er einnig stjórnarmaður í ýmsum félögum.

Foreldrar Oddnýjar Mjallar eru Halla Mjöll Hallgrímsdóttir, fyrrverandi bókari, og Örn Harðarson rennismiður.

Oddný Mjöll var í 13. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.

Ragnheiður Bragadóttir
Ragnheiður Bragadóttir er 54 ára dómari við Héraðsdóm Reykjaness. Eftir að hún lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1989 vann hún hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík, hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og var aðstoðarmaður hæstaréttardómara. Árið 1999 var hún sett í embætti héraðsdómara til rúmlega tveggja ára og dæmdi við þrjá dómstóla. Frá 2002 til 2005 starfaði hún sem lögmaður. Hún var svo skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Austurlands haustið 2005 en fluttist til Héraðsdóms Reykjaness haustið 2008, þar sem hún hefur starfað síðan.

Ragnheiður stundaði framhaldsnám við Kaupmannahafnarháskóla. Hún var varamaður í óbyggðanefnd í sjö ár, hefur setið í samkeppnisráði, kennt við Háskóla Íslands, verið varaformaður Lögmannafélagsins og setið í stjórn Dómarafélagsins.

Eiginmaður Ragnheiðar er Eymundur Sigurðsson, rafmagnsverkfræðingur hjá Lotu verkfræðistofu.

Foreldrar Ragnheiðar eru Halla Bjarnadóttir húsmóðir og Bragi Þorsteinsson bóndi.

Ragnheiður var í 23. sæti í mati hæfnisnefndarinnar, og var því ekki meðal þeirra 15 sem nefndin taldi hæfasta.


Ragnheiður Harðardóttir
Ragnheiður Harðardóttir er 53 ára dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og fyrrverandi vararíkissaksóknari. Eftir að hún lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1989 fór hún í framhaldsnám í afbrotafræði við San Jose State University í Kaliforníu. Hún lauk svo framhaldsprófi í lögum frá London School of Economics árið 1994.

Áður en hún varð dómari var Ragnheiður fulltrúi hjá ríkissaksóknara, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu og saksóknari hjá ríkissaksóknara. Hún var vararíkissaksóknari frá 2005, en hætti að eigin ósk haustið 2008 og varð settur héraðsdómari í Reykjavík. Hún var skipuð dómari þar vorið 2010 og hefur starfað þar síðan.

Hún hefur meðal annars verið stundakennari við Háskóla Íslands og setið í fjölmörgum nefndum og starfshópum á vegum ríkisins. Þá hefur hún setið í stjórn Lögfræðingafélags Íslands og Ákærendafélags Íslands.

Foreldrar Ragnheiðar eru Hörður Vilhjálmsson, fyrrverandi fjármálastjóri Ríkisútvarpsins, og Hólmfríður Birna Friðbjörnsdóttir fyrrverandi fulltrúi á skrifstofu Kennaraháskóla Íslands. Tvær systur Ragnheiðar eru Margrét arkitekt og Hildur, framkvæmdastjóri hjá Ríkisútvarpinu.

Eiginmaður Ragnheiðar er Jón Scheving Thorsteinsson, framkvæmdastjóri, stofnandi og eini eigandi Arev verðbréfafyrirtækis. Jón starfaði áður hjá Hagkaupum og síðar Baugi, þar sem hann stýrði erlendum fjárfestingum fyrirtækisins til ársins 2003. Jón situr í stjórn ýmissa félaga.

Faðir Jóns er Davíð Scheving Thorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Smjörlíkis hf. og drykkjarvöruframleiðandans Sólar. Davíð var á lista Viðreisnar í Alþingiskosningunum síðasta haust. Ein systir Jóns er Guðrún Scheving Thorsteinsson, barnalæknir og stofnandi, stjórnarformaður og rúmlega fjórðungs hluthafi í félaginu Indira ehf., sem rekur verslunina INDISKA í Kringlunni. Bróðir Jóns er Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri eignarhaldsfélagsins Klakka, sem áður hét Exista. Helstu eignir Klakka eru eignaleigu- og fjármögnunarfyrirtækin Lýsing og Lykill.

Móðir Jóns var Soffía Jónsdóttir Matthiesen, en hún og Matthías Á. Matthiesen, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, voru systkinabörn. Matthías var faðir Árna Matthiesen, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Jón og Árni eru því þremenningar. Langafi Jóns í föðurætt var Gunnar Magnús Pétursson Hafstein, bróðir Hannesar Hafstein, skálds og fyrsta ráðherra Íslands.

Ragnheiður var í 3. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Sigurður Tómas Magnússon
Sigurður Tómas Magnússon er 56 ára prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og fyrrverandi héraðsdómari, saksóknari í Baugsmálinu og ráðgjafi sérstaks saksóknara. Eftir að hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1985 vann hann meðal annars hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík, á lögmannsstofu og sem aðstoðarmaður hæstaréttardómara. Hann hefur verið skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu og héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Sigurður Tómas hefur skrifað eina bók um lögfræði. Hann hefur meðal annars setið í Félagsdómi, verið formaður dómstólaráðs, setið í jafnréttisráði og setið í fjölda stjórnsýslunefnda, þar á meðal verið formaður kærunefndar jafnréttismála. Hann sat í endurupptökunefnd þegar hún fjallaði um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.

Eiginkona Sigurðar er Huld Konráðsdóttir, BA í frönsku, lýðheilsufræðingur og flugfreyja. Faðir hennar var Konráð Sigurðsson læknir. Systir Huldar er Sif Konráðsdóttir, lögmaður Landverndar.

Foreldrar Sigurðar voru Sigrún Tómasdóttir og Magnús Sigurðsson garðyrkjubændur.

Sigurður Tómas var í 2. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er 66 ára hæstaréttarlögmaður og einn af eigendum lögmannsstofunnar Landslaga. Eftir að hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1976 byrjaði hann að vinna á lögmannsstofu og hefur starfað nær óslitið á lögmannsstofu síðan, í hátt í 40 ár. Vilhjálmur stundaði framhaldsnám í lögfræði við Norrænu sjóréttarstofnunina í Ósló.

Vilhjálmur hefur verið dómari við Félagsdóm og dæmdi í landsdómsmálinu gegn Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, þar sem hann var í hópi meirihluta dómara sem dæmdu Geir fyrir að hafa ekki haldið ráðherrafundi um hættuna sem steðjaði að íslenska bankakerfinu í aðdraganda hrunsins, en sýknuðu hann af alvarlegustu ákæruatriðunum.

Vilhjálmur hefur meðal annars setið í yfirkjörstjórnum, í kjararáði og fjölmiðlanefnd. Hann hefur kennt við Háskóla Íslands, setið í stjórn Lögmannafélags Íslands og var um tíma eftir hrun stjórnarformaður Íslandsbanka. Hann hefur einnig verið stjórnarformaður Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Vilhjálmur situr í stjórn félaganna Fjalls ehf. og Þinghóls hf. Hvorugt þeirra er í rekstri.

Fyrrverandi eiginkona Vilhjálms er Fríða S. Kristinsdóttir textílkennari. Synir þeirra eru Ingi Freyr blaðamaður, Finnur Þór saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara og starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupum í Búnaðarbankanum, og Vilhjálmur H. lögmaður. Vilhjálmur yngri var fyrsti formaður Ungra jafnaðarmanna og var á lista Samfylkingarinnar í Alþingiskosningunum 1999.

Foreldrar Vilhjálms landsréttardómara voru Margrét Aðalheiður Sigurgeirsdóttir húsmóðir og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, heildsali í Reykjavík. Hálfbróðir Vilhjálms er Þorsteinn J. Vilhjálmsson sjónvarpsmaður.

Vilhjálmur var í 4. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Þorgeir Ingi Njálsson
Þorgeir Ingi Njálsson er 57 ára dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness og aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík. Eftir að hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1985 vann hann meðal annars hjá sýslumönnum og bæjarfógetum á Sauðárkróki og Selfossi og var settur sýslumaður í Strandasýslu.

Hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Suðurlands árið 1992 og við Héraðsdóm Reykjaness sex árum síðar. Frá 2008 hefur hann verið dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness. Þorgeir Ingi hefur tvisvar fengið leyfi frá störfum sem héraðsdómari til að starfa hjá umboðsmanni Alþingis og hefur einnig starfað sem settur umboðsmaður.

Þá hefur hann verið settur dómari í Hæstarétti, verið formaður nefndar um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, setið í yfirkjörstjórn Suðurlandskjördæmis og í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, stjórn Dómarafélags Íslands og í dómstólaráði.

Þorgeir Ingi sat á árunum 2010-2011 í rannsóknarnefnd sem kirkjuþing Þjóðkirkjunnar skipaði til að rannsaka viðbrögð og starfshætti kirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni, fyrrverandi biskupi Íslands, um kynferðisbrot.

Þorgeir Ingi var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Sauðárkróki 1986-1987 og varabæjarfulltrúi á Selfossi 1990-1992, einnig fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann sat um tíma í stjórn Handknattleikssambands Íslands og áfrýjunardómstóli þess og í aganefnd Körfuknattleikssambandsins.

Eiginkona Þorgeirs Inga er Kristjana Aradóttir, viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka. Hún er systir Kristjáns Arasonar, fyrrverandi landsliðsmanns í handknattleik og fyrrverandi framkvæmdastjóra viðskiptabankaþjónustu hjá Kaupþingi til ársins 2009. Kristján er nú starfsmaður og einn af eigendum Centra fyrirtækjaráðgjafar. Eiginkona Kristjáns er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þorgerður Katrín er því svilkona Þorgeirs Inga.

Foreldrar Þorgeirs Inga voru Guðríður Þórðardóttir hótelstarfsmaður og Njáll Þorgeirsson bifreiðaeftirlitsmaður. Bróðursonur Þorgeirs Inga er Njáll Þórðarson, hljómborðsleikari í hljómsveitunum Vinum vors og blóma og Landi og sonum. Systir Þorgeirs Inga er Jóhanna Sigríður Njálsdóttir sem á, ásamt eiginmanni sínum Ellert Vigfússyni, fiskútflutningsfyrirtækið ClearIce ehf.

Þorgeir Ingi var í 10. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.
(Lýkur þar með úttekt á landsréttardómurunum fimmtán.)

Kannski er öll lögmannastéttin svona og ekki hægt að finna neinn sem ekki hefur (vafasöm) tengsl. En ansi er þetta óheppilegt samt.


___
* Viðbót, síðar: Bjarni Benediktsson var eitt sinn meðal eigenda lögmannsstofunnar LEX.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, júní 06, 2017

Skeytingarlaust ofbeldisverk

Það hefði mátt fylgja aðvörun fréttinni sem var á RÚV í dag um hræðilegan atburð á Indlandi. (Og þetta var aðvörun mín til lesenda.) Fréttin snýst um viðbjóðslega karlmenn sem nauðguðu konu og drápu níu mánaða gamalt barn hennar. (Hér er fréttin, þaðan er yfirskrift bloggpistilsins komin.)

Þetta er með því ógeðslegasta sem ég hef heyrt. Þvílík kvenfyrirlitning, hvílíkt mannhatur.

Þetta er ógeðslegur heimur. Karlmenn eru ógeðslegir.

Djöfulsins helvíti.


Efnisorð: , ,

sunnudagur, júní 04, 2017

Að uppfylla eitt skilyrði er ekki nóg

Aðeins aldarfjórðungur er síðan samkynhneigð var ólögleg á Írlandi. Á síðasta ári var niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi að leyfa hjónabönd samkynja para eftir harðvítuga baráttu. Nú í mánuðinuum mun svo samkynhneigður sonur indversks innflytjanda verða næsti Taoiseach (írski titill forsætisráðherra). Sá sem gegnt hefur embættinu síðan 2011 og lengi verið formaður Fine Gael flokksins (sem er sambærilegur Sjálfstæðisflokknum) sagði af sér í maí og eftir stutta baráttu um leiðtogasætið varð niðurstaðan sú að Leo Varadkar tekur við af honum sem formaður og þ.a.l. sem forsætisráðherra, að því gefnu að þingið samþykki hann: í stuttu máli sagt er hann ekki kosinn í embættið frekar en Theresa May.

Leo Varadkar hefur verið þingmaður frá 2007, og gegndi starfi ráðherra samgöngumála-, ferðamála og íþrótta 2011–14, var heilbrigðisráðherra 2014-16, og hefur verið félagsmálaráðherra frá 2016. Og nú verður hann yngsti forsætisráðherrann.

Rétt eins og þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra er það fyrst og fremst erlenda pressan sem einblínir á kynhneigð tilvonandi forsætisráðherrans. Heimamenn kippa sér ekki upp við það (eða að hann á indverskan pabba) en eru því uppteknari af þeim málefnum sem hann stendur fyrir og hefur barist fyrir eða gegn.

Það er nefnilega ekki eintóm gleði vegna nýja forsætisráðherrans. Hann er nefnilega harðlínu íhalds- og frjálshyggjumaður.

Sem heilbrigðisráðherra skar hann hressilega niður í framlögum til geðheilbrigðismála.

Sem félagsmálaráðherra barðist hann gegn bótasvikum (við könnumst við slíka baráttu hér og hversu rakalaus sú herferð var) og er fyrir vikið átalinn fyrir að vera fjandmaður fátækra og þeirra sem minna mega sín.

Hvorki sem heilbrigðis- né félagsmálaráðherra lagði hann baráttu fyrir lögleiðingu fóstureyðinga lið enda er hann á móti þeim. Hann vill svosem leyfa þær ef fóstrið er ekki lífvænlegt og ef líf eða heilsa konunnar er í hættu eða henni hafi verið nauðgað, en allsekki að þær verði gerðar að hentugleika kvenna. Aðspurður sagðist hann hinsvegar nýlega (í aðdraganda leiðtogakjörsins) vilja setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hann er í stuttu máli enginn talsmaður félagslegs réttlætis eða þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu. Þessvegna eru fagnaðarlæti Íra afar takmörkuð við þessi fyrirhuguðu tímamót, en það hefur ekkert með kynhneigð hans að gera.

Mér finnst auðvitað jákvætt að konur verði ráðherrar. Feministar vilja að konur fái að gera það sem þær vilja og hafi þær áhuga á að klífa metorðastiga stjórnmálanna er það gott mál. En það er ekki þar með sagt að feministar verði að fagna öllum konum þegar þær komast í áhrifastöður. Mér finnst t.a.m. Sigríður Andersen fráleitt góður kostur og mér finnst hún vondur dómsmálaráðherra. Mér finnst heldur ekkert að mér beri nein skylda til að standa með henni bara vegna þess að hún er kona (ja nema ef ætti að gera aðsúg að henni fyrir það eitt að vera kona). Samt er það svo að feministum er oft brigslað um að taka konur fram yfir karla í öllum tilvikum. En svo erum við auðvitað líka skammaðar fyrir að halda ekki með konum sem hafna feminisma eða eru á öndverðu máli við okkur í pólitík.

Stuðningsmenn réttinda hinsegin fólks hafa heldur ekki allir ástæðu til að fagna því að Leo Varadkar verður forsætisráðherra Írlands. Eða innflytjendur að sonur eins þeirra komist til æðstu metorða. Þó viljum við auðvitað að innflytjendur, konur og hinsegin fólk eigi sömu möguleika og innfæddir hvítir gagnkynhneigðir karlar þegar kemur að menntun og vinnu. En þegar til kastanna kemur skiptir pólitísk afstaða og meðferð valds öllu máli.

Óskandi væri að þetta fari saman og við gætum fagnað heilshugar góðu fólki í mikilvæg embætti.

Efnisorð: , , , , , ,

fimmtudagur, júní 01, 2017

1. júní 2017

Í nótt var fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar samþykkt. Sveltistefna frjálshyggjuaflanna hefur verið lögfest. Það er uppskrift að áframhaldandi ójöfnuði í samfélaginu þar sem þeir verst settu varla skrimta, og einnig að erfiðum eða enn erfiðari rekstri opinberra stofnana.

Síðdegis í dag gerðist það svo að dómsmálaráðherra fékk samþykki stjórnarflokkanna fyrir að koma 'rétta fólkinu' í dómarastörf (engum sögum fer af því hvort Brynjar þurfti að kyngja ælunni þegar vinir hans samþykktu að eiginkona hans fengi starfið) — sumir líklega sér þvert um geð rétt eins og Brynjari var mjög á móti skapi að samþykkja jafnlaunavottunarfrumvarpið — en sérhagsmunaflokkar breyta ekki vana sínum.

„Um er að ræða umfangs­mestu skipun dóm­ara í Íslands­sög­unni, og afar mik­il­vægt að hún yrði óum­deild og nyti trausts.“* Landsréttur mun verða skipaður dómurum (sem eru hæfir og næstum jafn margar konur og karlar, samt passað að það sé einum karli fleiri en ekki einni konu fleiri) sem um alla framtíð hafa þann stimpil á sér að að hafa fengið vinnu útá flokksskírteini og til þess að fólk með rangt (eða ekkert) flokksskírteini kæmist ekki að. Virðingin fyrir réttinum hefur nú þegar minnkað, og hefur hann þó ekki tekið til starfa.

eftiráskýring (sem þingmenn Viðreisnar reyndu sérstaklega að halda á lofti) að dómsmálaráðherra hafi bara verið að jafna kynjahlutföllin heldur ekki vatni enda er hún hreinlega andsnúin handaflsstýrðum eða lögboðnum aðferðum við að leiðrétta kynjamun.

Þetta er ekki eina pólitíska ákvörðunin í dag sem mun draga óheillavænlegan dilk á eftir sér. Vart var atkvæðagreiðslu á Alþingi lokið þegar Trumpfíflið hélt ræðu þar sem hann lýsti því að aðrar þjóðir hefðu bara tekið þátt í Parísarsamkomulaginu til þess að pönkast á Bandaríkjunum í því skyni að velta því úr sessi sem mesta viðskiptaveldi heims. Og eitthvað fleira þusaði hann sem ganga átti í augun á kjósendum hans. Þetta með loftslagsbreytingarnar fékk minni athygli hjá honum. Reyndar sagði að hann að Bandaríkin væru hreinasta land í heimi og það skipti engu þótt mengunin væri aukin, hitastig jarðar myndi bara hækka örlítið. Þaraðauki fengi Kína að menga að vild en Bandaríkin mættu ekkert gera; og þetta væri orsök fátæktar og atvinnuleysis í Bandaríkjunum. Með því að hafna Parísarsamkomulaginu yrði allt gott á ný. Og svo bætti Trump því við að honum væri mjög annt um umhverfismál.

Dómsmálaráðherra og Alþingi sáu til þess að þetta var vondur dagur fyrir dómskerfið. Trump og hans vondu ráðgjafar sáu til þess að þetta var vondur dagur fyrir alla jarðarbúa.


___
* Þessari tilvitnun er viðbót, og er hún fengin úr öflugum pistli Þórðar Snæs Júlíussonar sem birtist 2. júní á Kjarnanum þar sem hann rekur málið og segir m.a.: „Það sem átti sér stað í gær er risa­mál. Það var sam­þykktur gjörn­ingur sem er ömur­legur og óheið­ar­leg­ur. Borð­leggj­andi er að rök­stuðn­ingur ráð­herr­ans gengur ekki upp heldur eru önnur sjón­ar­mið sem ráða ákvörðun henn­ar. Trú­verð­ug­leiki Lands­rétt­ar, dóms­kerf­is­ins og Alþingis hefur beðið hnekki.“
https://kjarninn.is/skodun/2017-06-01-flokkarnir-sem-gengu-hurd/

Efnisorð: , , , , , , , ,