mánudagur, september 29, 2014

Stimpill æðstu manna ríkis og kirkju á áróður gegn fóstureyðingum

Forsetinn og þjóðkirkjubiskupinn mættu og tóku þátt í furðulegri bænasamkomu um helgina. Nú þykist biskupinn ekkert hafa vitað fyrir hverju átti að biðja, en forsetinn lýsti því glaðbeittur yfir að það hefði hann engu máli skipt, hann hefði komið samt. Hann er auðvitað auðfúsugestur hjá ofsatrúuðu fólki sem trúir fremur „orðinu“ en því sem stenst raunveruleikann. (Ég ætla annars ekki að eyða púðri í að gagnrýna Ólaf Ragnar, það þarf ekki að hafa fleiri orð um hann eftir að Jónas Kristjánsson hefur pakkað honum snyrtilega í nokkra pistla.) Bæði hefðu þau mátt hafa í huga hve illa trúarsamkoman sem kölluð var Hátíð vonar fór í allan almenning, en það virtist ekki skipta þau neinu, um að gera bara að vera í liði með trúfólki sem fer allsérkennilegar leiðir í trúarlífi sínu. Hver leigir Hörpu til að biðja fyrir útgerðarmönnum? Og ef það á að biðja sérstaklega fyrir „þjóðum heims“ afhverju þá ekki einhverjum af hinum fjölmörgu stríðshrjáðu eða sveltandi þjóðum, sjúkdómshrjáðum þjóðum — en í staðinn er beðið fyrir Sviss og Þýskalandi?

Það kemur auðvitað ekkert á óvart í þessum galskap að fóstureyðingar beri á bænheita góma. Skv. bænaskránni var beðið „um breytt viðhorf til fóstureyðinga, hugarfarsbreytingu og endurnýjaða ábyrgðartilfinningu.“ Ath. ekki breytt viðhorf, hugarfarsbreytingu eða ábyrgðartilfinningu útgerðaraðalsins, frjálshyggjumanna, bankabófanna eða annarra þeirra sem véla með hag þjóðarinnar. Nei, það eru konur sem glyðrast til að verða óléttar sem þurfa að endurnýja hjá sér ábyrgðartilfinninguna. Og breytta viðhorfið til fóstureyðinga á auðvitað að vera það að það sé betra að gefa (eða selja gegn áföllnum kostnaði) einhverju góðu fólki barn sem konan gengi með í níu mánuði og fæddi í þágu kristilegs kærleika.* Í viðtali segir einn af skipuleggjendum hátíðarinnar að fimmtugar og sextugar konur alveg svoleiðis snarsjái eftir að hafa farið í fóstureyðingu, en minnist auðvitað ekkert á eftirsjá kvenna hafi þær gefið börn til ættleiðingar.

Það eru sannarlega til þjóðkirkjuprestar sem taka ekki undir áróðurinn gegn fóstureyðingum og höfnuðu þátttöku í bænasamkomunni, einmitt vegna þess að þær lásu prógrammið. En þegar biskupinn og forsetinn (ég er mest hissa á að SDG hafi ekki verið þarna) mæta og leggja þarmeð samþykki æðstu yfirvalda á svona samkomu, þá mega líklega raddir ungra og framsækinna presta sín lítils. Því einsog Silja Bára segir þá setur nærvera biskups „stimpil þjóðkirkjunnar á málefni samkomunnar í augum þeirra sem á horfa“. Áróðurinn af hálfu ofsatrúarfólksins er greinilega ekki á undanhaldi, hann fær hljómgrunn á æðstu stöðum. Það er ískyggilegt.___
* Ég hef skrifað um ættleiðingar og margt fleira sem tengist fóstureyðingaumræðunni. Og ég hef margvarað við áróðri trúmanna gegn þessum sjálfsögðu réttindum kvenna. Sjá yfirlit yfir helstu skrif mín um þetta efni.

Efnisorð: ,

sunnudagur, september 28, 2014

Hverjir fara ílla med dýrin?

Þorsteinn Erlingsson skáld lést þennan dag fyrir hundrað árum. Í gær var afturámóti afmælisdagur hans (27.september 1858 – 28.september 1914). Það er því gott tilefni til að minnast skáldsins en hann á alltaf sérstakan sess í hjarta mér. Hann var ekki bara skáld gott heldur mikill vinur smælingja, bæði manna og dýra.

Tveimur árum eftir dauða Þorsteins birtist saga sem hann skrifaði sumarið 1914 og sendi tímaritinu Dýravininum. Í eftirmála sögunnar segir Tryggvi Gunnarsson ritstjóri (og hundraðkallinn) þetta:

„Margt orð fallegt hefir Þ.E. skrifað í Dýravininn í bundnu og óbundnu máli. Hann var sannur dýravin. En nú skrifar hann ekki lengur dýrunum til hjálpar. Þetta verður hans síðasta saga. Þakkir hefir hann fengið, og þakkir á hann skilið fyrir það, sem hann hefir ritað til að bæta kjör hinna mállausu.“

Síðasta saga Þorsteins heitir „Sigurður mállausi“ og er um heyrnarlausan dreng sem eignast dýrin á bænum að sálufélögum.

Þetta var jafnfram síðasta tölublað Dýravinarins sem út kom en saga tímaritsins hafði staðið frá 1885.

Fyrsta skiptið sem Þorsteinn lagði fram efni í í Dýravininn var fimmta tölublað árið 1893 en þá birtust tólf pistlar, sögur og kvæði samin og þýdd af cand.phil. Þorsteini Erlingssyni. Þaraf ein „Persnesk-spönsk þjóðsaga“, uppeldisráð þar sem varað er við því að leyfa ofbeldi gegn dýrum í návist barna eða beita börn ofbeldi, og raunaleg lýsing á aðstæðum íslenskra hesta í kolanámum Bretlands. Einnig eru birt kvæði, þ.á m. Hreiðrið mitt („Þjer frjálst er að sjá hve jeg bólið mitt bjó“), og kvæðið um Snata og Óla.

Vert er að lesa allt þetta en hér verður birt ein ádrepan frá Þorsteini úr þessari frumraun hans á síðum Dýravinarins.

Hverjir fara ílla med dýrin?
„Menn hafa tekið eptir því víða um lönd, að mjög fer saman meðferð manna á mönnum og dýrum og það þegar í æsku þeirra, menn hafa lika fundið að einkum tveir flokkar manna fara vest með skepnur, það eru fyrst þeir menn, sem eru illmenni að náttúrufari og hafa yndi af því, að pína menn og skepnur og gera þeim alt til skapraunar. Í hinum flokkinum eru þeir menn, sem ekki eru slæmir í eðli sínu, en hafa feingið ílt uppeldi og sjeð fyrir sjer hörku og miskunarleysi bæði við menn og málleysíngja. Ill umgeingni hefur gert tilfinníngu þessara manna svo sljófa, að þeir finna ekki hve ómannlegt það er og ósæmilegt að fara illa með dýrin. Þeim hefur líka ef til vill í bernsku verið refsað illa og órjettlátlega, því það eru fleiri foreldrar en menn halda, sem spilla börnum sínum í æsku með uppeldinu og gera þau jafnvel stundum að hrakmennum. Þau refsa þeim í reiði með barsmíð eða illyrðum í stað þess að hepta sjálf geðsmuni sína og venja svo börn sín á hið sama. Afleiðíngarnar verða því þær, að barnið lætur reiðina siga sjer á hvert ofbeldisverk sem því kemur í hug, við menn og dýr, þegar það eldist; þetta bitnar auðvitað eins á foreldrum þess síðar meir eins og öðrum, og sömuleiðis aptur á þess eigin börnum. Það er uppeldið, sem er aðalrótin undir illri meðferð bæði á mönnum og dýrum.

Gættu nú að því með sjálfum þjer, hverjir það eru sem hrekkja skepnur, bæði á heimili þínu og í nágrenninu við þig. Gættu líka að því uppeldi, sem þeir hafa feingið og eins að þeirri skynsemi, sem hver þeirra hefur haft til að laga sig sjálfan. Það mun optar vera heimska og ílt uppeldi heldur en bein illmenska, sem kemur þessum hálfsiðuðu greyum til að siga hundinum á köttinn, pína hann og sparka í hann, líka til að svelta hundinn og berja hann í reiði, eða misþirma hesti sínum með höggum og flugreið, slíkt gerir einginn siðaður eða góður maður, hvað drukkinn sem hann er, en þegar vínið hefur slökt þann skynsemis neista, sem oflátúngurinn á, þá er ekki annað eptir en heimskan og strákskapurinn, sem hann lætur þá koma niður á hverju sem fyrir verður, bæði mönnum og dýrum, sama gera manneigð naut og brjálaðir hundar.

Merkilegast er og auðveldasta að veita því eptirtekt, hvernig þessi mannvonskunáttúra gægist stundum út hjá börnunum og eins og hvíslar að manni örlögum þeirra. Vjer segjum bæði í gamni og alvöru, að það sje ólánsmerki, að fara illa með dýrin. Reyndar er þessu máltæki skipað sæti í þann heiðursflokk vísindanna, sem kallaður er kellíngabækur, en það þarf eingin kellíng að skammast sín fyrir hann eða roðna fyrir hans sakar á elliárum, því ekkert er eðlilegra, en að hin sama strákanáttúra, sem lætur únglínginn níðast á kettinum, hundinum, kindinni eða hverju sem hann ræður við, geri hann síðar að óþokka eða kann ske að glæpamanni, ef ekki er við gert. Þetta má því rjettilega kallast fyrirboði óláns og illra afdrifa, það mun og líka reynast svo, að sá maður sem fer strákslega með skepnur, er líka óhlutvandur við mennina.“

Sannarlega á Þorsteinn Erlingsson þakkir skilið fyrir það.

Efnisorð: , ,

laugardagur, september 27, 2014

Kannski ekki allir Íslendingar en sannarlega of margir og þeir hafa of mikil völd og ítök

Eitt af mörgu sem er andstyggilegt og ömurlegt í ríkisstjórnartíð Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben er niðurskurður á framlögum til þróunarmála. Til að bæta gráu ofan á svart stendur nú til að auka framlög til NATO (um 14,4 milljóna króna, til viðbótar við 104,2 milljónirnar í fyrra) en þar á bæ þarf nauðsynlega að byggja höfuðstöðvar sem munu kosta 115 milljarða íslenskra króna. Og auðvitað gengur skrifstofubygging hernaðarsamtaka fyrir þróunaraðstoð við fátæk ríki, þannig er nú bara þessi ríkisstjórn.

Að auki, eins og Jón Kalman Stefánsson rekur í grein undir titlinum „Eru Íslendingar kaldynd og sjálfhverf þjóð?“, þá vill Gunnar Bragi utanríkisráðherra leggja Þróunarsamvinnustofnun Íslands niður og sameina ráðuneyti sínu. Það er auðvitað í nafni einhverrar hagræðingar. En Jón Kalman afturámóti kemur með svo skuggalega skýringu á því hvað sé þarna á seyði að mann rekur í rogastans. Hann segir að fullyrt hafi verið í sín eyru að hér sé á ferðinni

„vilji til að nýta þróunarsamvinnu í því skyni að koma íslenskum fyrirtækjum á framfæri í Afríku, þar eru nefnilega mörg tækifærin. Ég verð nú að segja að þótt ég hafi sæmilegt ímyndunarafl, hafði mér ekki dottið í hug að íslenskur ráðamaður gæti upphugsað jafn kaldrifjaða áætlun.“

Ég segi eins og Jón Kalman, sem þó hefur sennilega fjörugra ímyndunarafl en ég, að mér hafði ekki dottið í hug að utanríkissráðherra ætlaði að nota uppbyggingu þróunarsamvinnu í þágu íslenskra fyrirtækja í útrás. En ef rifjaðar eru upp ránsveiðar Samherja við Afríkustrendur þá á þetta auðvitað ekki að koma manni á óvart.

Ef þessi kenning Jóns um ástæðu þess að leggja á ÞSSÍ niður og sameina utanríkisráðuneytinu, þá er Gunnar Bragi kaldrifjaðri en allur Sjálfstæðisflokkurinn og Vigdís Hauksdóttir til samans.

Efnisorð: , ,

föstudagur, september 26, 2014

IS er frátekið

Svo virðist sem samtök vígamanna sem vilja koma á íslömsku ríki í miðausturlöndum eigi sér mörg nöfn. Eða menn geta ekki komið sér saman um hvað á að kalla þau. Fyrst var talað um ISIS (Islamic State in Iraq and Syria) svo ISIL (Islamic State of Iraq and the Levant) og nú IS. Ég sé reyndar að erlendar fréttasíður tala enn ýmist um ISIS eða ISIL en íslenskir fréttamiðlar svo sem RÚV.IS og VÍSIR.IS er farnir að tala um IS eins og ekkert sé sjálfsagðara. Það er frekar óheppilegt.

IS er nefnilega frátekið fyrir okkur. Við merkjum bílana okkar með IS þegar við ökum salíglöð um Evrópu, við sendum tölvupósta til útlanda frá netföngum sem skarta .is endingu og að sjálfsögðu eru íslenskar vefsíður, þarmeð fréttamiðlarnir, með sama þjóðarlén: IS. Skammstöfunin IS er með öðrum orðum íslenskt vörumerki.

Ég myndi biðla til forsetans um að hlutast til um þetta mál, ef hann væri ekki álíka traustvekjandi og Sigmundur Davíð þegar hann opnar munninn. En kannski gætu fréttastofurnar beðið kollega sína erlendis að nota ekki IS sem heiti fyrir Íslamskt ríki? Ég skal ekkert stinga uppá að nota ÍR (íslamskt ríki) því það væri ljótt gagnvart einhverju íþróttafólki og myndi hljóma illa í fréttum að segja að ÍR hefði drepið fjölda manns þann daginn, og næst fréttir af víðavangshlaupi. En það hlýtur að vera lágmark að ekki sé verið að hvetja fólk til að tengja veiklaða ímynd íslensku þjóðarinnar við þessa skaðræðisgripi.

___
Viðbót 11. október: Lén vefsíðu ISIS, [reyndist] skráð á Íslandi. Síðunni var lokað af hálfu hýsingaraðila sama dag og það komst upp.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, september 25, 2014

Sykursæt skilaboð alþingis í þágu lýðheilsu

Það er frekar fyndið að lesa frétt um að Mjólkursamsalan telji að „til greina gæti komið að hætta að setja gervisykur í mjólkurvörur vegna óvissunnar um hollustu hans“. Ekki veit ég um hvort gervisykur er óhollur, um það hefur verið lengi deilt (hér má lesa stutta úttekt á nokkrum sætuefnum). En um langt skeið hefur verið rætt um sykur — þennan sem gervisykurinn átti að leysa af hólmi (en virðist í staðinn brengla sykurskynjun fólks og gera það enn brjálaðra í sykur enn áður). Sykur þykir svo óhollur að hann hefur verið kallaður „hvíta efnið sem drepur“. En sykur er í nánast öllum matvörum, alveg undarlegustu matvörum ef satt skal segja, honum er sprautað í kjúklingabringur (vonandi eftir dauða hænunnar), honum er bætt við haframjölið (þetta bráðholla frá ORA), hann er eiginlega í andskotanum öllu.

Og Mjólkursamsalan, sem nú hefur áhyggjur af hollustu gervisykursins, hún alveg mokar sykrinum oní flestallar umbúðir, sama hvort innihaldið heitir skyr eða jógurt. Og hefur lengi skellt skollaeyrum við ábendingum um að draga úr sykurmokstrinum. Við erum alin upp við að trúa því að mjólk sé góð og að jógúrt sé frábær morgunmatur og skyr frábær hádegisverður. Hvað ætli ársneysla á sykri sé mikil hjá manneskju sem neytti þessara sykurskreyttu mjólkurafurða væri, alveg burtséð frá öllum hinum sykrinum sem hún meira og minna óafvitandi setur ofaní sig, svo ekki sé nú talað um meðvitað sælgætisát? Þó hún héldi sig bara við afurðir merktar MS er spurning hvort hún færi ekki langt út fyrir öll mörk þess sem æskilegt er að innbyrða.

En það er nú samt ljós í myrkrinu. Eða þannig. Því sykurskatturinn sem síðasta ríkisstjórn kom á (vonda forræðishyggjan sem vildi minnka sykurneyslu útfrá lýðheilsusjónarmiðum) er afnuminn í nýja fína fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra stóð í pontu Alþingis og beinlínis auglýsti það að ABT mjólkin frá Samsölunni myndi lækka í verði þegar vörugjöld á sykri yrðu fellt niður.

Ráðherra sagði heildarhækkun matvöruverðs ekki nema fimm prósentustigum vegna mótvægisáhrifa vörugjaldaafnámsins. „Ástæðan er sú að vörugjaldið leggst á alla sykraða matvöru og vörur með sætuefnum og hækkar þannig verð á ýmsum algengum vörutegundum. Þannig bera til dæmis ýmsar algengar mjólkurvörur sykurgjaldið. Þetta eru innlendar framleiðsluvörur, viðulegur formaður Vinstri grænna, innlend framleiðsla. Kannast einhver við að hafa keypt ABT-mjólk úti í búð í mjólkurkælinum?“ Spurði Bjarni og játaði því einhver í salnum.

„Hún [ABT-mjólkin] ber þetta sama vörugjald og það verður fellt niður. Það verður því ekki fimm prósentustigahækkun, eins og hækkun virðisaukaskattsins gæti gefið til kynna, heldur milli tvö og hálft og þrjú prósent.“

Til gamans fletti ég upp á innihaldslýsingu ABT-mjólkur. Hér er um að ræða ABT-mjólk m/jarðarberjum og ávaxtamusli

INNIHALD:
ABT: Nýmjólk, jarðarber (6%), sykur, undanrennuduft, þrúgusykur, litarefni (rauðrófulitur), bragðefni, lifandi gerlar (S. thermophilus, L. acidophilus, B. bifidum, L. bulgaricus).

MUSL: Þurrkaðir ávextir, súkkulaðihúðaðar kornkúlur, hafraflögur, kornflögur, hveitiflögur, heslihnetur, hveitiklíð, jurtaolía, sykur, hunang, salt.

Glöggir lesendur taka eftir að í tenglinum er talað um „markfæði og bætiefnavörur“. Þær eru skilgreindar svona:
„Markfæði hefur margvísleg styrkjandi og jákvæð áhrif á heilbrigði fólks og dregur úr áhrifum neikvæðra áreita sem geta skaðað heilsuna.“ Svo sem sykur, þrúgusykur, súkkulaðihúðað drasl og meiri sykur. Innihaldið hlýtur að teljast meiri aðför að neytendum en verð til samkeppnisaðila Samsölunnar.

Ég veit sveimér ekki hvort mér hugnast betur sú fína auglýsing sem ABT-mjólk fékk í pontu þingsins eða innihaldslýsingin. Ætli mér finnist ekki bara best að Mjólkursamsalan telji að til greina gæti komið að hætta að nota gervisykur (núna þegar sykurinn verður ódýrari í innkaupum). En auðvitað bara vegna þess að Samsalan hefur áhyggjur af heilsu neytenda.

Efnisorð: ,

föstudagur, september 19, 2014

Stund hefndar og hvítþvotts

Þetta hefur verið merkileg vika.

Við komumst að því að lögga, sem var ráðin til sérstaks saksóknara og er kærð fyrir að leka upplýsingum í hinn vinnuveitandann sem er til rannsóknar hjá sérstökum, líkir rannsókn á fjárglæframönnum við Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Ekki hvað flækjustig varðar heldur eru það jakkafataklæddu forríku snekkjusiglandi snúðaétandi aflandseyjapeyjarnir sem eru bara alveg einsog Sævar Ciesielski og aðrir utangarðsunglingar sem einskis máttu sín. Undir þessa skoðun svikna löggimannsins (eða löggimannssvikarans)tók innmúraður leiðarahöfundur Fréttablaðsins sem birti viðtalið við hann. Sumum Fréttablaðslesendum fór reyndar að gruna að þetta viðtal við löggimanninn hefði beðið lengi birtingar og leiðarinn í kjölfarið, og kannski hefðu ritstjóraskiptin tengst því að það vantaði ritstjóra sem vildi hjóla með þessum hætti í sérstakan saksóknara.*

Sérstakur sætir nefnilega aðför úr annarri átt,** í fjárlagafrumvarpi Sjálfstæðisflokksins er greinlega verið að leggja drög að því að leggja embættið niður, enda er sífellt verið að ásaka bestu vini aðal um hitt og þetta misjafnt í aðdraganda bankahrunsins. Gott ef ekki ráðuneytisstjóri flokksins og sérlegur Eimreiðarmaður var dæmdur og sat inni, aðrir hafa verið misnærri snörunni en sloppið eftir mikla rannsókn. En sérstakur hefur verið þyrnir í augum fjárglæframanna og annarra Sjálfstæðismanna og nú er verið að skáka honum útaf sviðinu.

Fjárlagafrumvarpið er auðvitað mál málanna og verður næstu vikur og mánuði. Flest fólk sér hækkun virðisaukaskatts sem slæman fyrir pyngju þeirra sem hafa minna milli handanna en til eru hagfræðingar sem segja að því meira sem fólk borgi því minna hlutfall sé það af launum þess ef það hefur lág laun. Þannig að ef manneskja með 100þús útborgað eyddi áður 30 þús í mat á mánuði en þarf eftir hækkun matarskatts að borga 40 þúsund fyrir matinn,*** þá er auðvitað hlutfallslega hægt að nota 60 þúsund kallinn sem verður í afgang í mun meira en 70 þúsund kallinn dugði í áður. Það sér hver maður.

Hækkun á bókaskatti verður kannski líka til að auka lestur enda þótt einhverjir rithöfundar hafi allt á hornum sér við þá tilhögun. Illugi menntamálaráðherra er auðvitað alveg viss um að læsi hafi ekkert með aðgengi að bókum að gera og ég er viss um að allir skólabókasafnsfræðingar eru sammála, enda hefur minnkandi læsi fylgst að við minna fé til bókakaupa til skólanna. Háskólanemar þurfa líka að borga meira fyrir bækurnar sínar, en þeir eru auðvitað vel settir á háu námslánunum. En með dyggum stuðningi Illuga kemst fólk nú fyrr í háskóla því nú skal fólk skikkað til að klára framhaldsskólanámið sitt á styttri tíma, það verður ekki val, því frjálshyggja snýst ekki endilega alltaf um að allir hafi valkosti. Um tíma var framhaldsskóli sem bauð uppá styttra nám (flestir framhaldsskólar hafa reyndar leyft nemendum að klára námið á skemmri tíma en það hefur ekki verið skylda) en frjálshyggjumaðurinn sem rak skólann notaði opinbert fé til að braska með og greiða sér arð og skólinn fór á hausinn. Nú er hann í hefndarhug og hefur valið sér Katrínu Jakobsdóttur sem andstæðing og ætlar að kæra hana fyrir það sem hann segir að hún hafi lekið til fjölmiðla um starfsemi skólans. Honum finnst greinilega snjallt útspil að kæra fyrrverandi ráðherra vinstri grænna úr því að ráðuneyti Sjálfstæðismanna klofnaði vegna lekamáls og kæru. Kærur fyrir leka er hinn nýi valkostur.

Framsóknarmenn buðu afturámóti uppá gamlan valkost: áburðarverksmiðju ríkisins. Þeir sjá sjálfsagt í hillingum að síðar meir verði hægt að selja verksmiðjuna vildarvinum flokksins, gott ef ekki ættingjum forsætisráðherra, á vægu verði. Og svo er hægt að selja aftur. Þá kætast allir góðir Framsóknarmenn einsog vant er þegar skipta á gróðanum af góðri sölu.

Hitt er nýmæli að Sigurður Ingi sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra vill nú greiða hverjum starfmanni Fiskistofu**** þrjár milljónir fyrir að flytja til Akureyrar með stofnuninni. Það bætist ofan á ríkisútgjöld við flutning Fiskistofu sjálfrar. En það er engin hindrun fyrir Sigurð Inga ráðherra sem að öðru leyti virðist sáttur við niðurskurð hægri vinstri á fjárlögum. Ekki mjög stór sparnaðarliður í sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneytinu þessi flutningur.

En Sjálfstæðismenn vilja líka flytja, en bara einn kall og það dauðan. Þeim finnst Einar Ben eitthvað afskiptur — enda þótt þúsundir manna geti séð styttuna af honum frá Miklubrautinni á hverjum degi og Klambratúnið er ekki bara opið öllum heldur fjölsótt — og vilja nú flytja hann þar sem túristarnir sjái hann nú örugglega við Höbbdi House. Þá er hægt að hampa virkjunardraumum Einars og beintengja þá við virkjunargleði stjórnarflokkanna fyrr og síðar.

Allt miðar þetta að því að endurskrifa söguna, eins og gert hefur verið á síðum Morgunblaðsins frá því að núverandi ritstj. tók við og svo í Fréttablaðinu (meira og minna frá hruni en allverulega augljóslega undanfarið). Á Stöð 2 var svo í kvöld fallegur hvítþvottarþáttur um Björn Leifs í World Class. Hann hefði mátt vera fyrr á dagskrá, þá hefði ég getað sleppt því að elda kvöldmatinn.


___
* Og já það má vera að sérstakur hafi hlerað meira en hann þurfti.
** Eða sömu átt. Löggimanninn vann fyrir Milestone en núverandi fjármálaráðherra vafðist inní fjármálafléttur þess fyrir hrun.
*** Þetta eru augljóslega uppdiktaðar og tölur og hafa ekkert með 7 eða 12% að gera, hvað þá raunverulegt verð á mat.
**** Starfsmönnum Fiskistofu eru gefnir skrítnir valkostir sem ég skil ekki alveg. Þeir sem eru orðnir sextíu ára mega verða eftir í Hafnarfirði þegar stofnunin flyst norður en bara ef hinir starfsmennirnir samþykkja það? Mega þeir þá ekki bara samþykkja að verða allir eftir fyrir sunnan? Eða verða sextíu ára og eldri dregnir nauðugir norður ef hinir vilja hafa þá með sér í útlegðina?

[Viðbót] Guðmundur Andri Thorsson fjallar um sumt af því sem hér er fjallað um í pistli 22. sept.

Efnisorð: , , , , , , ,

mánudagur, september 15, 2014

EU, USA, AUS, BRA, ISR, MEX, MCO, NZL

Sigmundur Davíð mun auðvitað líta á það sem enn eina aðför útlendra skammstafana gegn íslenskri þjóð, og þeir Bjarni Ben geta sammælst um að þeir hljóti að vera á réttri leið úr því allir séu að tala illa um þá, en mikið er nú samt gott á þá að öll ríki Evrópusambandsins auk Bandaríkjanna, Ástralíu, Brasilíu, Ísrael, Mexíkó, Mónakó og Nýja Sjálands hafi sent ríkisstjórn Íslands formlegt erindi þar sem hvalveiðum Íslendinga er harðlega mótmælt.

Í tilkynningu vegna málsins er lýst yfir sérstökum áhyggjum vegna veiða Íslendinga á 125 langreyðum árið 2009, 148 langreyðum og 134 árið 2013, sem sé veruleg aukning miðað við þá sjö langreyði sem veiddir voru öll tuttugu árin fyrir árið 2009.

Kannski eru sumar þessar þjóðir fyrst og fremst að gjalda ríkisstjórninni rauðan belg fyrir gráan, fyrir að dissa ESB í hverju orði, fyrir að gagnrýna Ísrael (réttilega) og ég veit ekki hvað og hvað. En það er ekki á hverjum degi sem alþjóðasamfélagið gagnrýnir stefnu ríkisstjórnarinnar og þó þar sé misjafn sauður í mörgu fé þá ber að taka mark á gagnrýninni, og hætta hvalveiðum. Eins og tildæmis strax.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, september 10, 2014

Aðför að láglaunafólki, nú er lag

Ég dæsti þunglyndislega þegar ég sá fjárlagafrumvarp Bjarna Ben og Sigmundar Davíðs. Hækkun matarverðs í uppsiglingu, og að gamalli hefð verður hún eflaust hærri en virðisaukaskattsprósentan gefur til kynna því fæstir neytendur átta sig á þegar aukalega er smurt á verðið. Sama gildir með afléttingu vörugjalda, hún mun ekki skila sér til neytenda. Ekki að ég sé hlynnt verðlækkun á sykri, það var ein af skynsamlegu ákvörðunum síðustu ríkisstjórnar að reyna að draga úr neyslu sykurs. En já, hækkaður skattur á bækur. Það verður ekki beinlínis til að hvetja fólk til að gefa bækur í jólagjöf og barnafjölskyldur hafa enn síður efni á að halda bókum að börnunum.

Gamanaðí samt að barnafólk fær hærri bætur til að koma til móts við kostnaðinn við að gefa börnunum að borða, aðrir sem ekki hafa börn undir 18 ára aldri á framfæri fá enga slíka dúsu. Námsmenn, aldraðir, öryrkjar og aðrir láglaunahópar, svo ekki sé talað um atvinnulausa aumingja (þessir sem fá nú skemmri tíma til að fá sér vinnu eins og almennilegt fólk), geta bara étið minna.

Samtök atvinnulífsins, m.ö.o. talsmenn vellaunaðra, lýsa ánægju sinni með þetta enda hefur að þeirra sögn lengi staðið öllu viðskiptalífi fyrir þrifum hvað það er erfitt að reikna út virðisaukaskatt og tollgjöld ýmiskonar. (Í leiðara segir Óli Kristján Ármannsson að það ætti að vera hægt að ráða við dálítið flækjustig í kerfinu, en það er auðvitað bara kjaftæði. Það er alltof erfitt að hafa lægri virðisaukaskatt af mat og bókum. Þarf mannskap á launum við það, nú er hægt að reka marga!) En hærra matarverð kemur auðvitað líka illa við hálaunafólk, ekki spurning, því erlendir ostar eru allltof dýrir enda fáránlega hátt tollaðir, vonandi verður því breytt. Úrvalið verður líka að aukast og framboð dádýrakjöts tryggt. Það verður að hafa eitthvað að maula fyrir framan nýja ódýra feiknarflatskjáinn.

Okkur hinum líst ekki á blikuna. Eina vonin er að ríkisstjórnin verði gerð afturreka með fjárlagafrumvarpið. Þar má vona að almenningsálitið hafi áhrif (og þeir Framsóknarþingmenn sem ekki eru hlynntir hækkuðum vsk á mat; Sjálfstæðismenn eru auðvitað hlynntir frjálshyggju þar sem þeir ríkustu hafa það best) en mestar vonir bind ég þó við stjórnarandstöðuna.

Það hressti mig samt talsvert við þegar ég sá frétt Ríkisútvarpsins um þriggja ára gömul ummæli Sigmundar Davíðs sem þá var stjórnarandstöðuþingmaður og taldi sig hafa sönnun þess að hin vonda ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ætlaði að hækka matarskammtinn. Það þótti honum skelfileg hugmynd.

„Það er löngu sannað að skattahækkanir á matvæli koma verst við þá sem lægst hafa launin og þegar virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður á sínum tíma skipti það mjög miklu máli fyrir fjárhag heimilanna.
Að hækka virðisaukaskatt á matvæli í þeirri stöðu sem nú ríkir er hrein aðför að láglaunafólki. Þetta er rangt og þetta verður að stöðva.

Ef af slíkum skattahækkunum verður er algerlega ljóst að fyrsta verk Framsóknar í ríkisstjórn verður að afnema þær.“

Það verður mikil skemmtun að fylgjast með umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld þar sem Sigmundur Davíð þarf að horfa framan í þjóðina.

Efnisorð: , , , , , ,

fimmtudagur, september 04, 2014

Ekki raunverulega góðar fréttir

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, skrifaði grein í Fréttablaðinu í gær sem ber yfirskriftina „Góðar fréttir“. Þar segir hún að allt sé á uppleið, „viðskiptajöfnuður jákvæður, rekstur ríkissjóðs jákvæður“ og allt sé í besta lagi og fari batnandi undir styrkri stjórn núverandi ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben. Ef maður væri Framsóknarmaður eða jafnvel bara Sjálfstæðismaður þá væri þetta allt örugglega mjög trúlegt. Þá þætti manni þessar „góðu fréttir“ tilefni til mikillar bjartsýni.

En sá sem skrifar „Frá degi til dags“ dálkinn í blaðinu í dag (merktur jonhakon) segir, eftir að hafa bent á að Silja Dögg hafi stuðað mann og annan með greininni, að hið sanna sé að viðskiptajöfuður sé neikvæður um 2,7 milljarða og vöruskiptajöfnuðurinn neikvæður um 9,7 milljarða króna. (Þórður Snær Júlíusson ræðir neikvæðan viðskipta- og vöruskiptajöfnuð ítarlegar hér, sem og margar aðrar rangfærslur Framsóknarþingmannsins.)

Og það er ekki allt.

Því hugmyndafræði núverandi stjórnvalda stuðlar að ójöfnuði í samfélaginu, en ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms sem vék úr stjórnarráðinu í fyrra hafði aftur á móti jöfnuð að leiðarljósi í sinni hugmyndafræði. Um það fjallar grein Katrínar Jakobsdóttur þingmanns Vinstri grænna sem skrifar um fyrirhrunspólitíkina sem er gengin í endurnýjun lífdaga. Hún ræðir fyrirhrunstímann þegar rekin var „flöt skattastefna sem beinlínis stuðlaði að ójöfnuði en allir mælikvarðar sýna að ójöfnuður jókst hratt á síðustu árunum fyrir hrun.“

Katrín bendir á stöðuna sem blasti við ríkisstjórninni sem tók við eftir hrun sem „komst ekki hjá því að gera breytingar á skattkerfinu til að ná inn auknum tekjum eftir að hrunflokkarnir höfðu steypt ríkissjóði í stórfelldar skuldir. En samhliða því að sumir skattar hækkuðu voru aðrir skattar lækkaðir og eðli þeirra breytt með réttlætissjónarmið í huga. Sem dæmi má nefna að tekinn var upp þrepaskiptur tekjuskattur þar sem tekjulægri borga lægra hlutfall af sínum tekjum en hinir tekjuhærri.“

Katrín rekur svo hugðarefni núverandi ríkisstjórnar sem lýsa sér meðal annars í að lækka veiðigjöld og fyrirhuguðu afnámi auðlegðarskatts. Og fleiri skattabreytingar eru í farvatninu.

„Nú hefur fjármálaráðherra einnig gefið út að hann hyggist stórhækka virðisaukaskatt á matvæli, bækur og tónlist. Ljóst er að matarskatturinn leggst þyngst á þá sem eru með lágar tekjur, enda benti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á það í nýlegri skýrslu að ef matarskatturinn yrði hækkaður þyrfti að ráðast í aðrar aðgerðir til að mæta lág- og millitekjufólki. Ekkert hefur verið rætt um slíkar mótvægisaðgerðir, enda virðist skattastefna ríkisstjórnarinnar almennt byggjast á afturhvarfi til gamalla hugmynda um flatan skatt þar sem allir greiða sama hlutfall óháð tekjum og skattkerfið er ekki nýtt til jöfnunar. Slík ójafnaðarstefna er svo markaðssett sem einföldun.“

Eða með öðrum orðum:
„Nú þegar rúmt ár er liðið frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum bendir hins vegar allt til þess að gamla fyrirhrunspólitíkin ráði nú aftur för í stjórnarráðinu.“

Grein Katrínar er vissulega ekki jafn bjartsýn og glöð og grein Framsóknarþingmannsins, en hún fer öllu nær raunveruleikanum. Og það eru ekki góðar fréttir.

Efnisorð: ,