fimmtudagur, maí 29, 2014

Leggjum allstaðar en búum hvergi

Það er óþolandi að Framsóknarflokkurinn hafi náð að hertaka kosningabaráttuna. Þó auðvitað þurfi að ræða kosningaútspil Framsóknar þá er óþarfi af fjölmiðlunum að velta sér endalaust uppúr því (enda þótt það þýði fleiri smelli á hverja síðu Vísis og DV) hvað þá þegar fjölmiðlar sinna ekki öðrum málum eða framboðum. Þorleifur Gunnlaugsson heldur því fram að Dögun og Alþýðufylkingin hafi ekki fengið neina umfjöllun í Fréttablaðinu, og bendir á að „afstaða fjölmiðla getur skipt sköpum fyrir framboð til kosninga“. Það má til sanns vegar færa. Ég var hreinlega búin að gleyma að Alþýðufylkingin byði fram, Dögun mundi ég betur eftir enda sagði DV mér að skoðanir mínar færu best með VG og Dögun. Pírötum á ég þó enga samleið með, fremur en venjulega.

Fimm dögum fyrir kosningar eða þar um bil opnuðu Píratar nýjan vef til að auglýsa framboð sitt, framað því hafði vefur „flokksins sem hefur sett internetið á oddinn í sinni baráttu“ valdið vonbrigðumÁsta Helgadóttir varaþingmaður Pírata er í 6. sæti framboðsins í Reykjavík og er jafnframt kosningastjóri (ásamt Svani Kristjánssyni). Hún bregst við gagnrýninni með því að segja:
Fréttaefni að við séum með lélega vefsíðu og að skrifstofustjórinn okkar í Reykjavík hafi setið af sér dóm. Þegar maður setur markið hátt er allt sem telst ekki uppfylla væntingar fréttnæmt.“ 
Mér sýndist reyndar að þeir sem skrifuðu athugasemdir við fréttir DV um feril skrifstofustjórans (sem stundum er sagður umboðsmaður Pírata) væru bara ánægðir með hann, þrátt fyrir ofbeldisbrot og óvenjulega hústöku. Þeim, og væntanlegum kjósendum Pírata, finnst kannski innbrot og skemmdir á Ráðherrabústaðnum vera eins og hver önnur hústaka (en þá er yfirleitt verið að leggja undir sig niðurnídd og yfirgefin hús, ekki sögufræg og vel viðhaldin hús sem fjölmargir borgarbúar eru stoltir af) og hótanirnar gagnvart starfsfólki Vinnumálastofnunar sýna virðingu fyrir vinnu opinberra starfsmanna. 

Skrifstofustjórinn er reyndar ekki í framboði en einn frambjóðandi pírata, Þórlaug Ágústsdóttur sem er í 3. sæti á framboðslista í Reykjavík, virðist einmitt í herferð gegn starfsmönnum borgarinnar. Hún hefur skrifað tvær bloggfærslur gegn Bílastæðasjóði sem hafði gerst svo djarfur að sekta bíl vinar hennar en sá hafði lagt í stæði ætlað skólabílum. Sumt fólk má auðvitað leggja allstaðar og þó sum framboð í Reykjavík leggi áherslu á að fólk á bílum eigi ekki endilega að eiga allan forgang allstaðar og að hvert bílastæði sé dýrt, lítur þessi frambjóðandi Pírata svo á að hún og hennar vinir megi ekki bara leggja þar sem þeim sýnist heldur þurfi ekki að borga einsog aðrir þó Bílastæðasjóður krefjist þess (kostur að eiga marga bíla svo það muni ekki um að missa einn meðan í málastappi stendur). Ég finn sterka hvöt hjá mér til að kjósa fólk í borgarstjórn sem fer í stríð við stofnanir borgarinnar, hvað þá af svona góðri ástæðu, ég held að það hljóti að vera ákkúrat þannig fólk sem á að stjórna borginni. 

Hvorki eru það þó starfsmaður framboðsins eða frambjóðandinn sem mér finnst skemma mest fyrir Pírötum. Ástæðunnar er að leita á vefsíðu framboðsins (og er þá bæði miðað við gömlu síðuna og þá nýju). Og þegar ég segi leita, þá meina ég: prófiði að leita að stefnu Pírata í húsnæðismálum. Hún finnst ekki. 

Í heilsíðuúttekt Fréttablaðsins á húsnæðismálum höfuðborgarinnar kom fram að Píratar hafa ekki gefið sér tíma til að móta heildstæða stefnu í málaflokknum“. 

Þetta er eitt helsta kosningamál allra hinna flokkanna, húsnæðisskorturinn, leigumarkaðurinn, á borgin að byggja og leigja út íbúðir eða láta verktaka um það, á að lækka lóðagjöld, þétta byggð og þá hvar og hvernig? Þetta eru mál sem skipta fjölmarga borgarbúa gríðarlega miklu máli.

En þetta er bara of erfitt umhugsunarefni. Og tímafrekt. 

Fyrir alþingiskosningarnar síðustu var kallað eftir jafnréttisstefnu Pírata, hana settu þeir ekki fram fyrr en eftir kosningar. Hún kom reyndar svo seint fram og fór svo hljótt að stuðningsmenn þeirra urðu hennar ekki varir fyrr en löngu síðar og ráku þá upp ramakvein. Þá hrukku Píratar í kút og buðust til að draga jafnréttisstefnuna til baka eða eins og það er kallað: „lýstu yfir einlægum vilja til stöðugrar endurskoðunar“

Ætli það fari eins fyrir húsnæðisstefnu Pírata — þegar þeir gefa sér loksins tíma í að setja hana fram?

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, maí 27, 2014

Þögnin rofin fyrir kosningar?

Framsóknarflokkurinn hefur lagt undir sig umræðuna nú þegar nokkrir dagar eru til sveitarstjórnakosninga. Eftir margra vikna vandræðagang með hver ætti að vera oddviti flokksins í Reykjavík (Óskar Bergsson stökk frá borði, Guðni Ágústsson tilkynnti áhuga en hætti við, Guðrún Bryndís Karlsdóttir sem var í öðru sæti vildi taka verkið að sér en flokkurinn hafnaði henni) var dubbuð upp kona til að leiða kosningabaráttuna og raunar settar konur í fjögur efstu sætin, og fannst þá mörgum augljóst að Framsókn væri að reyna að höfða til kvenkjósenda sem vonandi myndu flykkjast að flokknum úrþví hann væri orðinn svona frambærilegur, með konum og allt. En þá kom í ljós að Sveibjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sem sett var í efsta sætið hafði verið klónuð úr Vigdísi Hauks. Uppúr henni (einsog fyrirmyndinni) hefur runnið dæmalaus vitleysa sem var hægt að fyrirgefa henni fyrsta kastið, eða þar til hún beindi spjótum sínum að fyrirhugaðri byggingu mosku í borginni. Sveinbjörg er sátt við að kristnar kirkjur taki upp verðmætar byggingarlóðir um allan bæ en sér ofsjónum yfir að moska verði byggð á sömu forsendum, en skylt er að trúfélög fái ókeypis lóðir. Auðvitað hefur þetta ekkert með seldar eða gefins lóðir að gera, heldur andúð á öðrum trúfélögum en kristnum, og þá er líka augljóst til hverra Sveinbjörg er að höfða með því að tala gegn trúarbyggingu múslima. Enda hafa allrahanda rasistar kæst mjög og þeir sem halda úti mestum áróðri gegn moskubyggingu í Reykjavík hvetja sína menn til að kjósa Framsóknarflokkinn.

Og á meðan þegir Sigmundur Davíð, æðstistrumpur í Framsóknarflokknum. Nú hefur Sveinbjörg sagt að hún túlki þessa þögn þannig að henni sé óhætt að halda áfram á þessari braut. Það skal enginn segja mér að hún þurfi að lesa í þögn hans til að vita hvar hún stendur, því að öllum líkindum er þessi málflutningur hennar skipulagður á efstu stöðum. Eða hversvegna flúði Óskar Bergsson og afhverju var Guðrúnu Bryndísi ekki treystandi til að taka við oddvitastöðunni — var hún ekki nógu leiðitöm til að hægt væri að etja henni á foraðið og í staðinn er það sem Sveinbjörg sem vinnur skítverkin?

Nýjustu kannanir sýna að það sé mjög tæpt að Framsókn nái inn manni í Reykjavík (og það yrði þá Sveinbjörg) en þær kannanir voru gerðar áður en Sveinbjörg kastaði út múslimahatursönglinum til þessa vanrækta kjósendahóps. Ef kannanir síðar í vikunni sýna að fylgi flokksins hefur aukist nægilega til að ná inn manni, verður Sigmundur Davíð örugglega í þagnarbindindi framyfir kosningar. En ef fylgið dalar eða stendur í stað — rasistaorðræðan klikkar — þá verður fróðlegt að sjá hvort hann stígur fram til að segja frá umburðarlyndi Framsóknarflokksins og sussa niður í Sveinbjörgu. Það verður SigmundarDavíðsleg ræða, uppfull af leiðréttingum á misskilningi blaðamanna.

En það er sama hvort það er Sveinbjörg sem ákvað uppá sitt einsdæmi (sem ég hef enga trú á) að gera moskubyggingu að aðalmáli kosningabaráttunnar (en ekki flugvöllinn einsog hann á nú marga vini) eða hún er bara að gjamma að þeim sem henni er sigað á, þá leggur skítalykt af þessu máli öllu saman, einsog reyndar alltaf af Framsóknarflokknum.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, maí 20, 2014

Og tryggja með því trausta at­vinnu og byggð í land­inu

Sægreifar hafa reynt að láta líta út fyrir að „skeytingarlaust kaffihúsahyski úr Reykjavík“ sé óvinir fólks í sjávarplássunum en í raun eru það sægreifarnir sem eru óvinirnir, segir Illugi Jökulsson. Og hann segir að „sjaldan hefur þessi lygi verið auðsæ og þessa dagana“. Ég get tekið undir það. Fréttir síðustu daga um lokun fiskvinnslu á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík hafa vakið upp óþægilegar minningar um hvernig kvótakerfið hefur leikið landsbyggðina.
Á Austurlandi er staðan þannig að nánast öll bolfiskvinnsla er horfin af 150 km strandlengju.
Eskifjörður, Reyðarfjörður, Stöðvarfjörður, Breiðdalsvík — og nú er komin röðin að Djúpavogi.*
Aftur og aftur hafa útgerðarmenn, handhafar kvótans, selt kvótann, eða eins og í þessu tilviki, ákveðið að það sé ódýrara að fiskvinnslan fari öll fram á einum stað og segja starfsfólkinu að það geti bara flutt til Grindavíkur ef það vill halda vinnunni. Til að vekja athygli á þessari stöðu hefur Djúpavogshreppur látið gera áhrifamikið myndband (horfa hér) þar sem sýnt er framá að blómleg byggð þar verði fyrir mikilli blóðtöku ef fólkið flyst til Grindavíkur eða flæmist burt vegna yfirvofandi atvinnuleysis.
„Nytja­stofn­ar á Íslands­miðum eru sam­eign ís­lensku þjóðar­inn­ar. Mark­mið laga þess­ara er að stuðla að vernd­un og hag­kvæmri nýt­ingu þeirra og tryggja með því trausta at­vinnu og byggð í land­inu. Úthlut­un veiðiheim­ilda sam­kvæmt lög­um þess­um mynd­ar ekki eign­ar­rétt eða óaft­ur­kall­an­legt for­ræði ein­stakra aðila yfir veiðiheim­ild­um.“**
Fyrir réttum tveimur árum ólmaðist LÍÚ vegna þess að þáverandi stjórnvöld ætluðu að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Útgerðarmenn blésu til auglýsingaherferðar gegn þessari ósvinnu,*** og síðan blésu þeir í skipslúðra, og siguðu starfsfólki sínu á Austurvöll til að mótmæla. Þá áttum við öll að trúa því að útgerðarmenn væru bestu vinir sjávarþorpanna. Ákvörðun Vísis um að hætta fiskvinnslu á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík, ætti að hrista uppí þeim sem þó gleyptu agnið á sínum tíma.
 ____
* Úr myndbandinu.
** Fyrsta grein fiskveiðistjórnunarlaga.
** Auglýsingaherferðin varð mér tilefni til að taka saman nokkrar ágætar athugasemdir þar sem meðal annars sjávarplássin á Austfjörðum, þessi sem nefnd eru í myndbandi Djúpavogshrepps, bar á góma.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, maí 14, 2014

Mínu atkvæði var vel varið

Katrín Jakobsdóttir er ávallt kurteis og henni er treyst best allra stjórnmálamanna. Það og afstaða hennar til stjórnmála og samfélags, sem endurspeglast í orðum hennar í eldhúsdagsumræðum í kvöld, er ástæða þess að ég kaus hana í síðustu kosningum.
„Katrín sagði ríkisstjórnina hafa fallið á réttlætisprófinu og sagði það ekki tæknilega spurningu hvernig ákveðið væri að fjármagna samfélagið - það væri siðferðileg og pólitísk spurning. Það væri réttlátt að deila byrðunum.“
Og
„Hún sagði að í allri stjórnmálaumræðu væri mikilvægt að réttlætissjónarmið væru höfð að leiðarljósi. Í hennar huga væri réttlæti ekki pólitísk klisja sem hafi dáið á síðustu öld - réttlætið væri eina leiðin til að lifa af á nýrri öld.“

Efnisorð:

sunnudagur, maí 11, 2014

Menntun kvenna

Nýlega skrifaði ég um andúð mína á trúarskólum þar sem börnum og ungu fólki er kennt í anda ákveðinna trúarbragða. Eins og það sem ég fjallaði um í þeim pistli sé ekki nógu slæmt, eru til trúarhópar sem eru á móti menntun almennt, og þá sérstaklega „vestrænni menntun“. Nú beinast augu heimsbyggðarinnar að trúarbrjálæðingunum í Boko Haram sem hafa rænt rúmlega 200 skólastúlkum í Norður-Nígeríu. Um það mál fjallaði Friðrik Páll Jónsson í útvarpspistli, og fer hér á eftir útdráttur úr pistlinum (hægt er að hlusta á hann í heild hér.)
„Skólaganga stúlkna er eitur í beinum margra herskárra bókstafstrúarmanna múslima sem telja menntun stúlkna í andstöðu við íslam og Kóraninn. Talibanar í Afghanistan hafa kveikt í fjölda skóla, skotið kennara og skólastjóra, og skvett sýru í andlit stúlkna sem sækja skóla. Og þetta er víða gert. Nú síðast beinist athygli að Norður-Nígeríu. Boko Haram, herská samtök í norðurhluta landsins, hafa orðið þúsundum manna að bana á undanförnum árum. Þau kenna sig við salafisma, en salafistar telja sig eina færa um að túlka Kóraninn, og líta á hófsama múslíma sem villutrúarmenn. Stefna þeirra er því að refsa þeim sem þeir telja lina í trúnni, og tryggja salafismanum framgang. Flest fórnarlömb Boko Haram eru múslímar, þriðjungur fórnarlambanna er kristinn. Samtökin vilja stofna kalífaríki í Norður-Nígeríu með sjaría-lögum; fyrirmælum, boðum og bönnum úr Kóraninum. Nafnið, Boko Haram er úr Hausamáli sem talað er á svæðinu, og orðin þýða: 'vestræn menntun er synd', eða 'vestræn menntun er bönnuð'.
Menntaskóli í afskekktum bæ Chibok í Borno í norðausturhluta landsins, heimavistarskóli sem hafði verið lokað, var opnaður aftur til þess að framúrskarandi nemendur gætu lokið prófum. Stúlkur á aldrinum fjórtán til átján ára sem stefna að því að verða kennarar, læknar og lögfræðingar. Þetta gátu samtökin ekki sætt sig við. Fyrir þremur vikum, skömmu fyrir miðnætti þegar stúlkurnar voru farnar í háttinn, kom bílalest að skólanum með fjölda vopnaðra manna. „Við héldum að þeir væru hermenn,“ segir ein stúlkan sem komst undan. „Þeir voru í herbúningum og sögðust ætla að bjarga okkur. Við áttuðum okkur ekki á því fyrr en um seinan að þeir voru uppreisnarmenn. Þeir skutu öryggisverði skólans og kveiktu í skólanum.“ 
Á myndbandi sem frönsku fréttastofunni AFP barst í gær [5. maí] viðurkennir Abubakar Shekau leiðtogi Boko Haram að hafa rænt stúlkunum. Hann hótar að selja þær í þrældóm eða þvinga þær til þess að giftast. „Það á að gifta stúlkur níu ára. Það á að gifta þær tólf ára. Ég ætla að selja þær á markaði í nafni Allah,“ segir hann. „Ég var búinn að segja að það ætti að leggja niður alla vestræna menntun. Stúlkur, þið eigið að hætta í skólanum.“ Orðrómur er um að þær verði hugsanlega eða hafi þegar verið fluttar til grannríkja, til Chad eða Kamerún. Uppreisnarforinginn gagnrýnir enn fremur á myndbandinu lýðræðislega stjórnarhætti, og þá sem ekki aðhyllast íslam.“
Hér er sleppt úr pistlinum því sem fjallar um efnahag og íbúafjölda Nígeríu (175 milljónir) og samskipti nígeríska forsetans við bandarísk stjórnvöld um aðstoð við að finna stúlkurnar. Það sem á eftir kemur er hins vegar athyglisvert, ekki síst í ljósi þess að mörgum þykir ránið á stúlkunum og viðhorf Boko Haram alveg týpískt fyrir múslima.
„Mannránið minnir á annað rán í Úganda fyrir átján árum. Þá var 139 stúlkum á aldrinum 11 til 16 ára rænt af heimavist stúlknaskóla. Þar voru að verki samtök uppreisnarmanna sem sögðust berjast undir merkjum kristinnar trúar og vilja stofna ríki byggt á boðorðunum tíu. Skólastjórinn sýndi þá mikið hugrekki og fylgdi stúlkunum inn í skóginn og tókst að bjarga 109 þeirra. Þrjátíu þeirra voru þvingaðar til að verða eiginkonur foringja skæruliðahersins, en þeim tókst flestum að flýja um síðir. Herskáir bókstafstrúarmenn óttast menntun, vestræna menntun. Eitt besta ráðið til þess að berjast gegn þeim er að mennta fólk, ekki síst stúlkur. Það er lykillinn að framförum.“
Okkur Vesturlandabúunum með vestrænu menntunina þykir þetta auðvitað allt mjög svakalegt — sem það er — enda langt síðan við komumst af því stigi að álíta að konur eigi ekki að mennta sig. Okkur finnst andúð á menntun furðuleg og fæst okkar sjá nokkuð athugavert við hverja þá menntun sem stúlkur gætu viljað leggja fyrir sig. Þó ber talsvert á hópi fólks hér á landi sem finnur því allt til foráttu að konur (og karlar) sæki nám í kynjafræði, vilja helst að slík menntun verði ekki í boði og allsekki fyrir ungt fólk. Að baki liggur andúð og hræðsla við að konur fræðist of mikið um samfélag sitt og vilji í kjölfarið jafnvel breyta samfélaginu. Það er ekki svo ólíkt trúarbrjálæðingunum sem óttast „vestrænu áhrifin“, þótt baráttuaðferðir þessara afturhaldsafla séu ólíkar.

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, maí 08, 2014

Hvernig gengur söfnun lífsýna á Raufarhöfn?

Íslensk erfðagreining, áður óskabarn þjóðarinnar en nú í eigu bandarísks lyfjafyrirtækis, hefur sent pakka inná fjölmörg íslensk heimili og óskar eftir að fólk noti innihald pakkans til að bjarga smælingjanum (Íslenskri erfðagreiningu) um lífsýni. Til að fólki sé ljóst að hér er um einstætt björgunarafrek að ræða eru björgunarsveitarmenn sendir inná heimilin til að sækja lífsýnin og fá björgunarsveitirnar greitt fyrir þau lífsýni sem skilað er inn, en gangi björgunarsveitarmenn erindisleysu hús úr húsi fá þeir ekki neitt fyrir að berja dyra hjá óhjálplega fólkinu.

Við eigum auðvitað að vilja gera allt fyrir vísindin, sérstaklega Íslenska erfðagreiningu sem er alltaf næstum búið að lækna alla af krabbameini og allskonar. En vegna þess að ára Íslenskrar erfðagreiningar er talsvert löskuð (sjá hér fyrir neðan um Decode) þá hefur einhver ímyndar-markaðs-hópeflissnillingurinn áttað sig á því að með því að kaupa einhvern með betri ímynd til að taka þátt í lífsýnasöfnuninni þá stæðist fólk ekki mátið, og að velvilji í garð Landsbjargar er mikill. Því hver segir nei við góðlegum björgunarsveitarmanni sem við vitum að fórnar öllu til að bjarga okkur ef svo ber undir? Hver sendir hann eða hana burt án þess að hann fái borgað fyrir heimsóknina? (Svar: ég, jafnvel þótt hann eða hún dæsi mæðulega eða setji upp hvolpaaugun. Ég er reyndar ekki ein um að setja spurningamerki við þessa tilhögun, enda ætti „þátttaka í öllum læknisfræðilegum rannsóknum að vera sjálfviljug og án utanaðkomandi þvingunar eða samfélagslegs þrýstings“.)

Fyrir þau sem hafa gleymt sögu Íslenskrar erfðagreiningar (Decode) er ágætt að rifja upp að þegar það fór á hlutabréfamarkað urðu Íslendingar kátir því þarna sáu þeir tækifæri til að bjarga heiminum (frá öllum mögulegum sjúkdómum) – og auðvitað græða í leiðinni (þetta er gömul saga og ). Það voru reyndar ekki bara einstaklingar sem fjárfestu í fyrirtækinu — og fóru flatt á því — heldur tók Raufarhafnarhreppur sig til á árunum 1999 og 2000 og fór út í umfangsmikil hlutabréfakaup og keypti meðal annars hlutabréf í Decode (líka í Oz, sællar minningar, það fór líka voða vel). Raufarhafnarhreppur hafði verið með best stæðu sveitarfélögum landsins en varð næstum gjaldþrota við þessi viðskipti, rétt hékk á horriminni með yfirdráttarlánum á yfirdráttarlán ofan.

Áður en Raufarhafnarhreppur fór að braska með hlutabréf bjuggu 407 íbúar á Raufarhöfn. Þremur árum síðar hafði þeim fækkað niður í 296, nú búa þar 200 manns, hinir fluttu burt, kannski suður, kannski einhverjir beinlínis útaf því að sveitarfélagið var fjárhagslega í rúst. Og einhverjir núverandi Raufarhafnarbúar eða brottfluttir fyrir sunnan fá kannski björgunarsveitarmann heim til sín að sækja lífsýni fyrir það góða fyrirtæki Íslenska erfðagreiningu. Ætli þeir reiði glaðir fram pakkann til Kára, eða finnst þeim kannski lúalegt að vera settir í þá stöðu að þurfa að segja góðviljaða björgunarsveitarmanninum að hann hafi farið erindisleysu og hann fái hvorki lífsýni né greitt fyrir ferðina?

Hvort ætli verði ofaná, hjá Raufarhafnarbúum og Íslendingum almennt, velviljinn í garð björgunarsveitanna eða óbeitin á aðferðinni sem er notuð til að styrkja Íslenska erfðagreiningu — rétt eina ferðina?

Efnisorð: ,

sunnudagur, maí 04, 2014

Tvennt gjörólíkt mér

Verandi nú einstaklega vond manneskja þá hef ég oft talað illa um presta. Þeir eiga það flestir oftast skilið — en ég verð stundum að viðurkenna að sumir eiga það ekki alltaf skilið. Norðan heiða býr prestur sem virðist bara ágæt, ekki síst vegna þess að hún er bráðfyndin. Ég les alltaf pistla Hildar Eirar Bolladóttur í Akureyri vikublað (sem mér finnst asnalegt nafn og kalla það því Akureyrarblaðið), jafnvel þótt hún eigi það til að ræða ósýnilega vini sína, þ.e.a.s. Jesú og pabba hans, sem henni eru hugleiknir af frekar augljósum ástæðum. Oftar en ekki eru pistlarnir þó bara verulega fyndnir og ekki skaðar að henni er lagið að koma að þjóðfélagsgagnrýni af mikilli lipurð (dæmi). Nema hvað, í pistli dagsins minnist hún á þá báða plús Maríu Magdalenu en þó fjallar pistillinn að mestu leyti um enn bersyndugri náunga, upprennandi Íslandsvininn Jordan Belfort. Sérann hefur að sögn fengið hann á heilann, en hún hefur gengið fram fyrir skjöldu að gagnrýna það uppátæki að flytja hann til landsins til að spana enn upp siðblinduna í viðskiptalífinu (mín orð, ekki hennar), eða með hennar orðum: það verði ekki til að „efla siðferðisgrundvöll hins íslenska viðskiptalífs“. Hún hefur margt fleira um málið að segja, lesið bara pistilinn.

Nú þegar ég hef hrósað prestinum (og hvet fólk til að lesa pistlana hennar) þá ætla ég næst að snúa mér að því sem einnig er ólíkt mér: að hrósa framsóknarmanni. (Ég vildi gjarnan geta útdeilt ilmsöltum en læt mér nægja að ímynda mér svipinn á lesendum við þessa óvæntu vendingu). Til þess hef ég þó góða ástæðu. Það bar nefnilega til tíðinda í Kópavogi að Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi, lagði fram tillögu um að banna reykingar á almannafæri í Kópavogi. (Annars eiga Hildur Eir og framsóknarmaðurinn ekkert sameiginlegt svo ég viti, þau eru þetta gjörólíka í titlinum.)Ekki langar mig að flytja til Kópavogs, of all places, en ég öfunda þó Kópavogsbúa ef af þessu verður. Það væri nú munur að geta staðið eða setið á Austurvelli án þess að eiga á hættu að verða fyrir tóbaksreyk. New York búar hafa nú í nokkur ár verið lausir við tóbaksreyk í görðum og á torgum, og það hlýtur að vera tímaspursmál þar til sá siður verður tekinn upp hér á landi. Mér finnst full ástæða til að reykvískir borgarfulltrúar (núverandi og tilvonandi) taki málið upp og reyni að verða á undan nágrannasveitarfélaginu til að feta í fótspor heimsborgarinnar.

Prestum og framsóknarmönnum hrósað á einum og sama deginum. Ég held að ég leggi mig eftir þessi átök.

Efnisorð: , , , , ,