mánudagur, júlí 30, 2007

Karlveldið er eins og mengun

Karlveldið er eins og mengun. Við mengum öll umhverfið, með því að aka bíl, með því að henda rusli, með því að kaupa hluti í umbúðum sem þarf að henda, með því að nota þvottaefni sem skolast útí sjó, við mengum endalaust og ekkert okkar er laust við að menga enda búum við öll í vestrænu neyslusamfélagi.

Við leggjum öll eitthvað af mörkum til að styðja karlveldið. Engin getur sniðgengið reglur þess og siði, hversu mjög sem hún er á móti því og vill afnema það. Kona sem málar sig eða gengur í háum hælum eða aðskornum fötum er að þjóna karlveldinu, geri hún það ekki myndu sumir saka hana um að reyna að vera kynlaus og afneita með því ‘konunni í sér’ eða að hún væri að líkja eftir karlmönnum því þeir væru merkilegri. Klámið, skærasta birtingarmynd karlveldisins, er eitthvað sem konur ættu þó að geta forðast að taka þátt í en það er líka erfitt. Hvernig veit kona að karlinn í lífi hennar hefur ekki fengið uppskriftina að kynlífi þeirra í klámmyndum? Ef hún er viljugur þátttakandi er litið svo á að hún samþykki klám, neiti hún kynlífinu er álitið að hún sé kynköld: allt mælt á mælikvarða karlveldisins. Kona sem velur sér hefðbundið kvennastarf er að ýta undir hugmyndir karlveldisins um að sum störf henti betur konum, velji hún hefðbundið karlastarf er hún að ‘reyna að sanna sig’ og spila eftir leikreglum sem karlveldið setur.

Hvort sem kona reynir að spyrna á móti eða lætur berast með straumnum, þá er hún alltaf þátttakandi. En það er samt engin ástæða til að hætta mótspyrnunni og vinna að betri heimi, ekki frekar en við látum stóriðjuáform átölulaus, a.m.k. ekki þau okkar sem viljum ekki mengun í lofti eða á láði og legi.

Efnisorð: , ,

mánudagur, júlí 23, 2007

Vér kvökum og þökkum

Oft heyri ég fólk, sem hefur dvalist langdvölum erlendis eða ferðast akandi í útlöndum, býsnast yfir því að umferðarómenningin á Íslandi sé engu lík. Það finnst mér alltaf svoldið fyndið, því ef svona mörg í umferðinni eru vön annarri hegðun í útlöndum, afhverju innleiða þau hana ekki hér í stað þess að hneykslast á heimalningunum sem vita ekki betur? Svo heyrði ég viðtal við konu í útvarpinu um daginn, og hún var einmitt ein þessara sem hafði búið erlendis og þekkti til betri umferðarmenningar. Hún sagði að hún og maðurinn hennar hefðu fyrstu tvö árin eftir heimkomuna verið mjög kurteis í umferðinni, gefið séns og látið vita að þau væru þakklát þegar einhver gaf þeim séns og svo framvegis. En svo urðu þau svo svekkt á undirtektunum – það var engin áberandi þakklát – að þau hættu því. Þau hættu að vera kurteis í umferðinni eftir tveggja ára reynslutíma útaf því að fólk var þeim ekki þakklátt!

Ég, eins og flest annað fólk, hef lært ýmsar kurteisisreglur um ævina; heilsa, ekki benda, ekki bora í nefið, fara úr skónum, ekki tala hátt í kirkju o.s.frv. Síðar bættust við óskráðar reglur um hegðun á dansgólfum, á fínum veitingastöðum, í umferðinni. Ekki held ég að eina ástæða þess að ég reyni að hegða mér skikkanlega á almannafæri sé að ég búist við stöðugu þakklæti fyrir að hegða mér eins og siðað fólk. Né heldur hef ég hætt að heilsa fólki sem ég er kynnt fyrir því mér var aldrei þakkað það sérstaklega. Ég skil ekki alveg hvernig hægt er að ætlast til þess af öðrum að þeir elti uppi bílstjórann sem gaf stefnuljós áður en hann skipti um akrein, bara til að þakka honum fyrir þessa svakalegu – en sannarlega sjaldgæfu – kurteisi.

Kannski er þessi skortur okkar hinna í samfélaginu á þakklæti ástæða þess að sjá má marga unglingsstráka hrækja í allar áttir og fullorðna karlmenn bora í nefið og éta afraksturinn þar sem þeir sitja undir stýri. Það hefur alveg gleymst að beita jákvæðri styrkingu og hrósa þeim þá sjaldan hráki og hor var ekki sýnilegur. Allt okkur hinum að kenna semsé.

Og vegna þess að þetta á ekki að verða neitt umferðarblogg, þá ætla ég að taka beygju (með stefnuljósum) og beina talinu að einu helsta umræðuefni mínu. – Getur verið að ef konur þakka karlmönnum nógu oft fyrir að hegða sér þannig að þeir skaði ekki aðra, að þá sé von til að nauðgunum linni? Þarf að hrósa hverjum og einum karlmanni fyrir að hafa ekki nauðgað í dag, beitt ofbeldi, skoðað klám? Flestir myndu líklega móðgast ægilega ef haft væri orð á þessu við þá, en afhverju, ættu þeir ekki að vera ánægðir með hrósið og halda áfram að vera ekki-nauðgarar, ekki-ofbeldismenn og ekki-klámneytendur?

Ég og mínar félagslegu tilraunir. Þær virka örugglega aldrei.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, júlí 18, 2007

Raunsæir umbótasinnar eða bitrar kellingar sem hata karlmenn?

Sumt fólk segir að konur sem eru feministar hati karlmenn og yfirleitt þá bara útaf því að einhver karlmaður hafi farið illa með þær eða svikið þær á einhvern hátt. Ekki ætla ég að efast um að slík reynsla sitji í konum, en yfirleitt þarf nú meira til en einhvern einn karlmann í eitt afmarkað skipti. Allflestar konur kynnast einum eða fleiri skíthælum á ævinni, en auk þess heyra þær og sjá vinkonur sínar líka lenda í mönnum sem svíkja þær, berja eða nauðga. Þegar svo við bætist að öll tölfræði hnígur í eina átt; að karlmenn beri ábyrgð á kynferðisofbeldi og öðrum líkamsmeiðingum, bæði gagnvart konum og öðrum körlum, hvernig er þá hægt að álykta öðruvísi en það sé eitthvað rotið í veldi karla?

Og þar sem konur sem eru feministar eru á móti klámi, vændi og nauðgunum, þá berjast þær gegn því og benda á í leiðinni að allt þetta séu birtingarmyndir valdbeitingar karla. Þetta finnst karlmönnum vera karlhatur. Hvernig er þá kvenhatur? Kannski það að vilja ekki sjá konur nema naktar? Vilja aldrei kjósa þær til ábyrgðarstarfa en heimta að þær fái sér sílíkon, er það ekki kvenhatur? Og að berja og nauðga, er það ekki kvenhatur? Eða kaupa sér afnot af líkama konu bara til að fá útrás á henni? Flestir feministar sem ég þekki gera allt hvað þær geta til að styggja ekki karlmenn, því þær hata þá allsekki, heldur reyna að tala við þá og um þá af virðingu. Getum við þá tryggt að þær verði aldrei fyrir barðinu á karlhatri? Vill einhver lofa að þær þurfi aldrei að sjá klámfengnar auglýsingar, verði aldrei hótað ofbeldi og geti alla tíð verið vissar um að verða aldrei nauðgað?

Í 98% tilvika eru það karlmenn sem nauðga konum, börnum og öðrum karlmönnum.
90% allra ofbeldisglæpa eru framkvæmdir af karlmönnum, hvort sem þeir beinast gegn konum, börnum eða öðrum karlmönnum.

Er skrítið að karlmenn séu gagnrýndir, tortryggðir, jafnvel hataðir? Er sérstök ástæða að gagnrýna feminista eða konur almennt fyrir að hafa orð á þessari hegðun?

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Slá í gegn - tíu árum síðar

Þegar ég fletti í gegnum öll þessi gömlu blöð sem tepptu eðlilega umferð um geymsluna, þá rak ég augun í allskyns umfjöllun um fegurðarsamkeppnir og stelpurnar sem tóku þátt í þeim. Þetta voru litlar keppnir eins og Ungfrú Tungl og líka sú stærsta, Ungfrú Ísland, auk ýmissa módelkeppna. Nöfn keppenda fylgdu með myndunum af þeim auk athugasemda um útlit þeirra og stöðu í samfélaginu („megagella“). Nú veit ég að oft fara stelpur í svona keppnir til að koma sér á framfæri og einhverjar eða flestar dreymir um frægð og frama í módelbransanum eða öðrum útlitstengdum greinum, s.s. kvikmyndum. Það sorglega við þetta er að ég kannaðist við nákvæmlega eitt andlit, og það var andlit konu sem síðar tók saman við gamlan skallapoppara. Allar hinar hafa fallið í gleymskunnar dá og þátttaka þeirra í keppnum þar sem líkamsvöxtur og andlitsfegurð skiptu mestu máli, varð þeim ekki til þess álitsauka sem þær líklega þráðu. Ég hef það reyndar fyrir satt, og hef það eftir konum sem ég kannast við og eiga feril að baki í slíkum keppnum, að þær líti á þátttöku sína sem vandræðalegt bernskubrek og vilji helst aldrei vera minntar á hana. Samt er því endalaust logið að stelpum að þetta verði þeim ómetanleg lífsreynsla og muni efla sjálfstraust þeirra gríðarlega, svona fyrir utan að gera þær frægar, ríkar og eftirsóttar.

Í Sirkus, fylgiriti Fréttablaðsins, 6. júlí síðastliðinn var viðtal við stelpu sem er að fara að taka þátt í einhverri svona keppni. Fyrirsögnin er: „Vonast eftir viðurkenningu fyrir fallegan vöxt.“ Ææææ.

Efnisorð: ,

mánudagur, júlí 09, 2007

Undirtónar – góðar minningar og slæmar

Eitt af því sem alltaf kemst á dagskrá á vorin er að taka til í geymslunni. Svo líða mörg vor og ekkert gerist. Nú hefur hinsvegar verið tekið hænuskref í þá átt að henda drasli og sortera það sem verður geymt áfram, en þá vonandi aðgengilegra og án þess að þurfi að klofa yfir það. Eitt af mörgum vandamálum geymslunnar er að þar eru merkilegar heimildir um blaðaútgáfu á Íslandi. Blaðastaflarnir innihalda meðal annars hið forðum stórgóða blað Undirtóna, sem út kom á árunum 1996 – 2003 (eða 2004).

Það er auðvitað ekki hægt að henda bara si svona menningarverðmætum og því fletti ég hverju blaði áður en dauðadómur er felldur. Einn helsti kostur Undirtóna voru plötudómarnir. Oftast þegar fjallað er um tónlist í dagblöðum er talað heilmikið um hljómsveitina og tónlistina og sándið og ég veit ekki hvað, en lesandinn er engu nær hvort á plötunni er að finna spænska gítartónlist, íslenska sveitaballatónlist eða diskó. Hjá Undirtónum var tónlistarstefnum skipt í skynsamlega flokka og því gat hver sneitt fram hjá leiðinlegri tónlist (að sínu mati) og lesið bara um það sem henni þótti skemmtilegt eða áhugavert. Flokkarnir voru ekki alltaf þeir sömu en meðal annars þessir: popp/rokk, drum+bass, metall/hardcore/punk, techno/experimental og hiphop/ funk/ bigbeat (sem seinna breyttist í hiphop/bigbeat/funk/triphop og eflaust breyttust flokkunin enn meir en ég hirði ekki um það hér) auk kvikmyndatónlistar. Hverjum disk var svo gefin einkunn auk þess sem nákvæmar lýsingar voru á gæði tónlistarinnar – og alltaf var mark á því takandi. Ég keypti mér ófáa diska bara útaf því sem ég hafði séð fá góða einkunn í Undirtónum og sumir þeirra hafa orðið mér mjög hjartfólgnir og eru spilaðir enn í dag.

En svo hætti ég að lesa Undirtóna og það var vegna klámsins. Frá og með 15. tölublaði í ágúst 1998 hófst klámmyndaumfjöllun í blaðinu og var hún strax ógeðfelld* – en hét þó af hálfu blaðsins Elskendahornið.** Ég reyndi að líta framhjá þessu og hélt lengi ótrauð áfram að lesa plötudómana.*** Svo fór þó að ég neyddist til að gera upp við mig hvort ég vildi virkilega bera þennan sora heim í hús, góð tónlist eða ekki. Þar sem ég veit að ég hef fram til þessa dags ekki hent einu einasta eintaki af Undirtónum þá sé ég að síðasta blaðið sem ég tók til handargagns var 26. tölublað október 1999. Undirtónar dóu svo drottni sínum löngu seinna (ég fann á netinu að það hefði enn komið út í desember árið 2003 en hálfu ári síðar er talað um það í þátíð) - ekki að ég eigni mér heiðurinn af því. Reyndar sakna ég blaðsins mjög og vildi helst að það væri endurreist – en þó án helvítis klámsins.

–––
[„Varúð, eftirfarandi neðanmálsgreinar geta hrundið af stað óþægilegum hugrenningatengslum“.]
* M.a. var umfjöllun um mynd þar sem ‘Rocco’ er að hafa samfarir við konu aftan frá meðan hann heldur höfði hennar ofaní klósetti og sturtar niður, snýr henni svo við og lætur hana sjúga sig og kyngja sæðinu. Í annarri mynd eru hafðar samfarir við konu í endaþarm hennar „greinilega fyrsta skiptið hennar í súkkulaðinu“ – dreg ég þá ályktun að það hljóti að hafa verið vegna sársaukaviðbragða konunnar

**Frá og með 21. tölublaði 1999 hætti þátturinn Elskendahornið (þvílíkt öfugmæli!) en var tekinn upp undir nafninu „Taboo“ frá og með 23. tölublaði sama árs. Í Taboo þáttunum var orðalagið ekki eins gróft en klámið samt lofað hástöfum.

*** Ég las aldrei tölvuleikjaumsagnirnar á sínum tíma en þar var eflaust eitthvað um klám þar, nú í geymslu-yfirferðinni tók ég a.m.k. eftir einum frá því í maí 1998 sem var um leik sem gekk útá að selja kærustuna í vændi og framleiða ódýrarar klámmyndir. Umfjöllunin byrjar svona: „Hefur þig einhvern tímann dreymt um að stjórna kynlífsveldi þar sem þú framleiðir klámmyndir og annan subbuskap… “ Síðar kemur þessi setning: „Húmor spilar mikinn þátt í leiknum og mun koma öllum til að brosa.“ Það var nefnilega það.

Efnisorð: ,

sunnudagur, júlí 08, 2007

Góður leiðari í Fréttablaðinu

Ég les ekki Fréttablaðið nærri nógu oft til að lesa alla leiðara Kristínar Evu Þórhallsdóttur, en þó hef ég séð nóg til að vera mjög ánægð með þá. Í dag skrifar hún um sýknudóminn undir titlinum „Er þögn sama og samþykki?“ og er þar á sömu nótum og ég var í færslum sem ég skrifaði í júlí og desember á síðasta ári. En þar talaði ég bæði um það að ekki segja allar konur nei þó þær vilji ekki kynmök né heldur berjast allar konur á móti nauðguninni.

Það þarf einhvernveginn að koma þessu í hausinn á fólki, hvortsem það er dómarar eða almenningur sem leyfir sér að draga í efa sannleiksgildi orða þeirra kvenna sem kæra nauðgun, eða karlmenn sem þykjast ekkert vita muninn á því þegar kona vill stunda með þeim kynlíf og þegar kona vill það ekki.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, júlí 06, 2007

Og mennirnir sem verja þá

Eitt af því sem flest geta komið sér saman um, er að sá sem er dreginn fyrir dómstóla eigi rétt á sanngjarnri málsmeðferð og að hann fái hæfan verjanda sem beiti sér fyrir skjólstæðingi sínum í réttarsalnum. Sumir vorkenna lögmönnum að verja þá glæpamenn sem fremja ógeðslega glæpi, en hugga sig við framangreint og að ‘einhver þurfi að verja þá líka’. En sumir þessara lögmanna virðast ekki bara sérhæfa sig í glæpum á borð við kynferðisafbrot, heldur virðast í raun og sann trúa því að kvikindin sem þeir eru að verja séu heilbrigðir karlmenn til sálar og líkama (og þarafleiðandi með eðlilega og sterka kynhvöt) sem óvart rekist á harðsvíraða atvinnu-kærendur sem bíða færist að saka litlu greyin um nauðgun eftir vel heppnaðar samfarir sem báðir aðilar voru ægilega happí með. Þessir lögmenn eru svo sannfærðir um sakleysi skjólstæðinga sinna, að hvort heldur þeir eru sýknaðir eða dæmdir sekir, þá eru þeir tilbúnir að stíga fram fyrir skjöldu og ávíta almenning fyrir það glapræði að standa með fórnarlambi nauðgarans.

Þetta gerði Örn Clausen, þegar hann var verjandi nauðgara í fjölmörgum málum áratugum saman, og kom þá bæði í viðtöl í fjölmiðlum og skrifaði greinar. Ekki man ég orðrétt allt sem hann sagði, en meðal annars sagði hann að íslenskar konur hegðuðu sér alltaf eins og druslur, og var þá að tala um nauðganir. Fyrir ekki svo löngu skrifaði Jón Steinar Gunnlaugsson (sem nú er innmúraður og innvígður Hæstaréttardómari í boði Björns Bjarnasonar, Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde) í blöð til að verja sinn uppáhaldsnauðgara og var dyggilega studdur af sonum sínum frjálshyggjusnúðunum. Og nú í dag opnaði Sveinn Andri Sveinsson bloggsíðu til þess eins að hneykslast á „múgæsingu“ vegna þess að nauðgarinn hans fær að ganga laus (og er mest sár fyrir hans hönd að hann skuli hafa verið í gæsluvarðhaldi, enda mest gaman þegar menn fá að ganga lausir til að nauðga meira. Fyrirtaksdæmi er mál Jóns Péturssonar, sem misþyrmdi og nauðgaði enn einni konu meðan hann beið eftir að dómur félli í eldri málum hans af sama toga. Sveinn Andri varði hann líka).

Allir eiga þessir lögmenn það sameiginlegt að vera svo hlynntir nauðgunum að þeir geta ekki á sér setið að breiða út boðskapinn að konur séu druslur sem þarf að nauðga sem oftast. Og þeir hafa mennina til verksins.

Efnisorð: , , ,

Forvarnir

Aftur að sýknudómi gærdagsins.

Héreftir ætla ég (og hvet aðrar konur til hins sama) að garga á hvern þann karlmann sem ávarpar mig eða kemur nær mér en sem nemur armslengd. Ég mun öskra „NEI, ÉG VIL EKKI AÐ ÞÚ RÍÐIR MÉR HELVÍTIÐ ÞITT“ svo hátt að helst nokkur vitni heyri, enda ekki vanþörf á miðað við þessi orð dómaranna:

Þá er að einnig að líta til þess að X þykir, fram til þess að þau fóru inn á salernisklefann, ekki hafa gefið ákærða ástæðu til að halda það að hún væri honum andhverf. Þegar allt þetta er haft í huga álítur dómurinn að ákærða hafi ekki hlotið að vera það ljóst að samræðið og kynferðismökin væru að óvilja X.

Það verður semsagt að hafa það á hreinu í samskiptum við alla karlmenn, alltaf, að þeir álykta að sýni kona ekki fram á að vera þeim „andhverf“ í orðum eða gjörðum, þá megi þeir gera það sem þeim sýnist (og geta því skákað í því skjólinu að þeir hafi bara ekki fattað að það heiti nauðgun þegar bara annar aðilinn vill kynmök).

Svo er um að gera að sparka í punginn á þeim. Svona til öryggis.

Efnisorð: , ,

Nú skyldi ég hlæja

Nýlega las ég bloggfærslu frábærs feminsta þar sem hún býsnast yfir því að sífellt sé verið að ásaka feminista um að hafa ekki húmor. Hún benti á að feminismi væri mannréttindabarátta og enginn krefði annað fólk sem væri í mannréttindabaráttu um að sýna af sér kæti. Það gagnrýndi enginn að talsmenn Amnesty um að segja að það skemmtilegasta við að berjast gegn dauðarefsingum væru brandararnir sem flygju (og létu einn góðan fylgja) eða baráttan gegn pyndingum kitlaði mjög hláturtaugarnar. Afhverju ætti annað að gilda um baráttu feminista?

Þessi orð kættu mig. En það er nú bara minn húmor, ef húmor skyldi kalla.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Nauðgari sýknaður, afhverju er ég hissa?

Undanfarna daga hefur sólin skinið sem aldrei fyrr og hitastigið verið allt að því óraunverulegt. Landið skartað sínu fegursta og heimurinn virst vera góður. Lendingin verður því enn harkalegri þegar lesinn er sýknudómur yfir nauðgaranum sem nauðgaði konunni á Hótel Sögu. Nú langar mig mest til að skrifa bara röð af blótsyrðum og öskra svo. En vegna þess að mér finnst mikilvægt að skrá niður helstu afglöp íslenska réttarkerfisins þá ætla ég að halda aftur af mesta fúkyrðaflaumnum og segja þetta:

Sé litið á dóminn má lesa þar enn ein skilaboðin um að konum sé réttnauðgað hvar sem til þeirra næst. Kona sem er þaraðauki drukkin, sem þaraðauki á kurteisleg orðaskipti við ókunnuga karlmenn, sem þaraðauki æpir ekki á hjálp heldur vogar sér að vera frosin eða dofin – hvað er hún að væla?

Og enn einu sinni er gefið í skyn að konur sem eru drukknar og leyfa sér að ávarpa karlmenn (til að spyrja hvar klósettið sé!) eru auðvitað með því að bjóða uppá kynlíf, enda ekkert eins áhugavert og kynlíf á klósettgólfum með ókunnugum karlmönnum. Og eins og ekkert sé, er líka gefið til kynna, að konur sem þó vilja skyndikynni með ókunnugum karlmönnum inná klósettum séu einmitt þær sem svo bresta í grát að þeim loknum og séu fyrir einskæra tilviljun með blóðuga áverka eftir þessa stórkostlegu skemmtun.

Með góðum vilja þá má lesa útúr dómnum að dómararnir séu öll sammála því að nauðgun hafi verið framin en vegna fáránlegra laga og því að hefð sé fyrir því að fara eftir fáránlegum lögum – og þau geti nú ekki verið að setja sig uppámóti því – þá sýkni þau nauðgarann. Sbr. þetta:

Loks er þess að geta, sem fram hefur komið við sálfræðirannsókn á X, að hjá henni hafi greinst merki um áfallastreituröskun. Þykir þetta allt styðja svo þann framburð hennar, að hún hafi ekki viljað eiga samræði eða önnur kynferðismök við ákærða, að óhætt sé að slá því föstu.

Ef byggt er á frásögn X af því sem gerðist eftir orðaskipti þeirra inni á snyrtingunni lítur dómurinn svo á, að það að ákærði ýtti X inn í klefann, læsti klefanum innan frá, dró niður um hana, ýtti henni niður á salernið og síðan niður á gólf, geti, hlutrænt séð, ekki talist ofbeldi í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eins og það hugtak hefur verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd. Nægir þetta eitt til þess að ákærði verði sýknaður af ákærunni.



Niðurstaðan er samt þessi:

Nauðgarar: enn einn sigurinn - Konur: enn ein lamandi niðurlægingin.

Efnisorð: ,