föstudagur, september 30, 2016

September á síðustu metrunum

September bar með sér góð og vond tíðindi.Sem hér verður skipt í lof og last.

LOF

Réttindi fatlaðs fólks
„Alþingi hefur samþykkt að fullgilda Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og verður þar með 167. ríkið sem fullgildir samninginn. Þetta er mikilvæg réttarbót fyrir allt fatlað fólk á Íslandi … Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er nefnilega merkilegur mannréttindasamningur. Hann felur ekki í sér nein ný réttindi til fatlaðs fólks. Staðreyndin er hins vegar sú að þótt fatlað fólk hafi í orði kveðnu sömu mannréttindi og aðrir, hefur það ekki getað nýtt sér réttindi sín til fulls. Það sem Samningurinn gerir er að viðurkenna að mannréttindi fatlaðs fólks eru þau sömu og annarra og staðfesta um leið rétt fatlaðs fólks til að njóta mannréttinda.“
Þetta er afar ánægjulegt, en eins og Steinunn Þóra Árnadóttir þingkona bendir á í pistlinum sem ofangreint er tekið úr, þarf að breyta ýmsu í íslenskri löggjöf til þess að uppfylla Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Parísarsamkomulagið
Alþingi hefur einnig samþykkt fullgildingu Parísarsamningsins um loftslagsmál og Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra afhenti Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna fullgiltan samning á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
„Til að samningurinn öðlist gildi formlega þurfa að fullgilda hann 55 ríki sem láta samtals frá sér meira en 55 prósent af heildarlosun. Fyrir athöfnina í dag [21. septbember] höfðu 29 ríki sem saman standa að fjörutíu prósentum losunarinnar fullgilt samninginn. Bandaríkin og Kína hafa þegar fullgilt samkomulagið, en þau eru í hópi þeirra ríkja sem mest losa af gróðurhúsalofttegundum.“
Þetta er allt í áttina.

Og í framhaldi af því
Útvarpsþátturinn Samfélagið fékk fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
„Í rökstuðningi dómnefndar fjölmiðlaverðlauna segir að viðurkenningin sé veitt fyrir almenna umfjöllun Samfélagsins um mál sem snerta íslenska náttúru. Samfélagið á Rás 1 hljóti fjölmiðlaverðlaun ráðuneytisins fyrir að gefa íslenskri náttúru rödd á öldum ljósvakans með því að gera umhverfismál að þungamiðju í ritstjórnarstefnu sinni. Þáttarstjórnendur, ásamt sérfræðingum, sem þau hafa fengið til liðs við sig, hafi unnið framúrskarandi starf við umfjöllun um náttúruvernd í víðum skilningi, bendi á ógnir sem steðji að náttúrunni og tengi umfjöllun öðrum málefnum sem eru efst á baugi. Þá veki þátturinn hlustendur til vitundar um hve mikilvæg umhverfismál eru í daglegu lífi þeirra, segir í umsögn. Þáttastjórnendur Samfélagsins eru Leifur Hauksson, Þórhildur Ólafsdóttir og Björn Þór Sigbjörnsson.“
Eins og segir í frétt Ríkisútvarpsins þar sem þau starfa. Verðskulduð verðlaun!

Danir eru nú svo spes
Það virðist hafa gleymst að benda danska leikstjóranum Susanne Bier á þá staðreynd að konur hafa ekkert í kvikmyndagerð að gera. Eru fáar og hugsa smátt. Eða er það kannski bara á Íslandi? En allavega segir fréttavefur Ríkisútvarpsins að
„Danski leikstjórinn Susanne Bier bætt enn einni rósinni í hnappagat sitt þegar hún vann til Emmy verðlauna í gær. Þau hlaut hún fyrir leikstjórn sína í þáttunum um Næturvörðinn sem sýndir eru á RÚV. Hún varð þar með fyrsti Daninn til þess að eiga Óskarsstyttu, Gullhnött og Emmy verðlaun. Bier hlaut Óskar og Golden Globe fyrir bestu erlendu kvikmyndina árið 2011, Hævnen, eða Hefndin. Auk þess hlaut Hefndin verðlaun sem besta kvikmynd á evrópsku kvikmyndahátíðinni og kvikmyndahátíðunum í Róm og München. Ferill Bier er skreyttur fjölda verðlauna. Samkvæmt kvikmyndavefsíðunni IMDB hefur hún unnið til 37 verðlauna fyrir leikstjórn eða kvikmyndir sínar.“
Sko hana.

Börn og unglingar sem eiga við ýmsan vanda að etja
Í þjónustumiðstöð Breiðholts er gripið fyrr inn í en áður þegar grunur er um að börn glími við fjölþættan vanda, og gefur það góða raun.
„Hið svokallaða Breiðholtsmódel var tekið í gagnið í Breiðholti árið 2007 og hefur verið í stöðugri þróun síðan. Í kerfinu er brugðist við mismunandi þörfum barna áður, á meðan, og í sumum tilfellum í stað þess að senda þau í greiningarferli við ADHD og öðrum fjölþættum vanda. Sá tími er oft dýrmætur fyrir þroska barnsins en greingarferlið getur tekið allt að þrjú ár.

„Við erum að tala um börn með tilfinningavanda, hegðunarvanda, námsvanda hvort sem hann er sértækur eða ekki og úrræðin eru í takt við það. Við getum boðið upp á sálfræðiviðtöl og sérfræðiviðtöl, tengt fólk við kennsluráðgjafa og félagsráðgjafa. Það kemur upp vandi, skólinn hefur sanband og það er brugðist við tiltölulega fljótt“. segir Hákon Sigursteinsson sálfræðingur og deildarstjóri þjónustumiðstöðvar Breiðholts. „Milli áranna 2011 og 2015 fækkar börnum sem koma inn á göngudeild BUGL frá Breiðholti um 56 prósent.“

Í sama dúr má telja frásögn Þorsteins V. Einarssonar deildarstjóra unglingasviðs hjá Frístundamiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Hann skrifar um samstarfsverkefni sem fólst í því að
„finna lausn og mæta þörfum unglinga og ungmenna sem áttu það sameiginlegt að neyta vímuefna og vanrækja hversdagslegar athafnir sem teljast nauðsynlegar til eðlilegs þroska. Hópuðust þessir unglingar og ungmenni saman í miðbæ Reykjavíkur og höfðu ógnandi áhrif á umhverfi sitt. Komu þau víða að af stór-höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Sviðin fjögur enduðu á að búa til sex vikna prógram sem nokkrum unglingum og ungmennum var boðið að taka þátt í. 

Úrræðið var mótað með unglingunum/ungmennunum og því var það í takt við þarfir þeirra. Foreldrar þeirra sem, eins og gefur að skilja, voru orðnir vonlausir og algjörlega úrræðalausir, tóku vel í verkefnið og sögðu eftir á að það hefði haft jákvæð áhrif á líf barna þeirra. Ekki nóg með að unglingarnir, ungmennin og foreldrarnir hefðu jákvæða upplifun af verkefninu, þá bentu kannanir (sem gerðar voru reglulega yfir tímabilið) til þess að verkefnið hafði jákvæð áhrif á viðhorf þátttakendanna. Og þeir sögðust allir vilja aftur taka þátt í samskonar verkefni, stæði það til boða. Enda veitti velferðaráð Reykjavíkurborgar þessu verkefni sérstök hvatningarverðlaun á vordögum 2016.“
Til þess að vita hvað gerðist næst verðið þið að lesa grein Þorsteins. (Og þá vaknar kannski spurningin afhverju þetta er ekki undir liðnum 'last'.)


LAST

Vopnahléið í Sýrlandi
Sýrlandsstjórn og þau ríki sem styðja hana virðast hafa litið á vopnahlé í Aleppo sem tækifæri til að skipuleggja enn andstyggilegri árásir á saklausa borgara jafnt sem andstæðinga sína. Fyrir, meðan og á eftir voru hryllilegar árásir. Flutningabílar með neyðarhjálp til íbúa Urum al-Kubrah í Aleppo-héraði voru sprengdir upp, loftárásir á íbúðahverfi, börn myrt.

Fyrir vopnahléið var staðan þessi í Aleppo:
„Síðustu læknarnir sem halda út í þeim hluta Aleppo, sem er á valdi uppreisnarmanna, biðla til Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, um að koma þeim 250.000 manns sem þar eru innilokuð til bjargar með því að koma á flugbanni yfir borginni til að koma í veg fyrir frekari loftárásir. 29 læknar undirrita bréfið. Þar segir að haldi loftárásir Sýrlandshers og Rússa á sjúkrastofnanir í þessum hluta borgarinnar áfram af sama offorsi og síðustu daga og vikur verði engar slíkar uppistandandi eftir mánuð.

Í bréfi læknanna segir að á þeim fimm árum sem liðin eru frá því að borgarastríðið í landinu hófst hafi þeir horft upp á óteljandi sjúklinga, vini og samstarfsmenn deyja ofbeldis- og kvalafullum dauðdaga. „Heimurinn hefur staðið hjá og talað um hve 'flókið' ástandið í Sýrlandi sé, en lítið gert til að vernda okkur. Nýleg tilboð frá stjórninni og Rússum um að yfirgefa borgina hafa hljómað eins og lítt dulbúnar hótanir í eyrum íbúa - flýja núna, en horfast ella í augu við hvaða örlög?"

Læknarnir fullyrða að sprengjum hafi verið varpað á 42 spítala og heilbrigðisstofnanir í Sýrlandi, þar á meðal á 15 sjúkrahús þar sem þeir hafi verið að störfum. „Fyrir tveimur vikum köfnuðu fjögur nýfædd ungabörn eftir að sprenging rauf súrefnisflæðið í hitakassa þeirra. Þau tóku andköf af súrefnisskorti og líf þeirra leið undir lok áður en það hafði í raun byrjað.“
Og svo loksins þegar átti að hjálpa þessu veslings fólki þá er ráðist á það með meira offorsi en áður.

Sýknudómar í kynferðisbrotamálum
Nauðgarar þessa lands hafa fengið stimpil dómskerfisins uppá að þeim sé heimilt að nauðga. Fimmmenningarnir sem nauðguðu 14 ára stelpu voru sýknaðir, einn þeirra er reyndar í smá veseni fyrir að hafa sýnt myndskeið sem hann tók af nauðguninni, hinir lausir allra mála.

Kannski hefði kynjakvóti bjargað kallaflokknum frá klúðrinu?
Sjálfstæðisflokkurinn reynir nú að bjarga sér fyrir horn með því að færa eina konu upp á framboðslista í Suðvesturkjördæmi þótt flokksmenn hafi valið eintóma karla í efstu sætin. Þungavigtarkonur úr hópi sjálfstæðiskvenna sýndu óvænt sjálfstæði sitt og sögðu sig úr flokknum vegna prófkjörsúrslitanna og þvergirðingsháttar þeirra sem neituðu, allt þar til í dag, að leiðrétta framboðslista svo liti út fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki bara fyrir og um karla.

Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans, og Þórður Snær Júlíusson ræddu prófkjörsmálin í hlaðvarpsþættinum Kvikunni, og þar kom fram að ýmsar sjálfstæðiskonur, sem löngum hafa hafnað öllum kynjakvótum, sjái nú (loksins) að flokkurinn kerfisbundið hafni konum. Ungar konur séu teknar inn (núna Áslaug Anna sem er 25 ára) en þegar þær eru orðnar reyndar og vilja meiri völd eða taka of mikið pláss er þeim vísað á dyr í prófkjörum eða flæmdar burt með öðrum hætti. Og í staðinn koma ungar konur, sem þá væntanlega er ætlast til að hressi uppá ímynd flokksins en séu um leið meðfærilegar og megi kasta burt gerist þær of uppivöðslusamar. (Ég umorða og bæti mjög frjálslega við orð Kjarnafólksins). Best er þó við þetta allt að konur sem hafa hafnað því að til sé kerfislegt misrétti gegn konum og þá jafnframt hafnað aðferðum á borð við fléttulista og kynjakvóta til að leiðrétta kerfislegt miðrétti vegna þess að þær aðhyllast einstaklingshyggju Sjálfstæðisflokksins skuli nú sjá kerfislæga misréttið svona skýrt — en bara vegna þess að það bitnaði á þeim sjálfum og konum sem þær þekkja. Næst hafna þær kannski Thatcher möntrunni „það er ekki til neitt samfélag“ og horfast í augu við feðraveldið.

Skýrsla hin síðri
Vigdís Hauks ætlar að hætta á þingi en fer ekki baráttulaust. Hún notar síðustu daga sína til að birta margboðaða skýrslu sem hún skrifaði fyrst á meirihluta fjárlaganefndar, síðan á sig og skoðanabróður sinn frá helvíti, og nú situr hún ein uppi með skýrsluna sem enginn annar vill kannast við að sé skýrsla, hvað þá þingplagg eða nokkuð vit í. Þórunn og Þórður fóru einmitt líka yfir það mál í Kvikunni og sögðu að endurreisn fjármálakerfisins hefði gengið að mestu leyti vel og ekkert sem benti til að með öðrum aðferðum hefði þjóðarbúið staðið betur. Vigdísarskýrslan er því feilskot.

Svavar hinn viðræðugóði
Enginn er betri til hrútskýringa en framkvæmdastjóri Landssambands sauðfjárbænda. Þó hagaði Svavar Halldórsson sér meira eins og tuddi þegar hann áttist við Sigríði Maríu Egilsdóttur í útvarpsþættinum Vikulokin. Hann kallaði sífellt framí fyrir öðrum og heimtaði sannanir fyrir öllum fullyrðingum sem fram voru settar í þættinum, hvort sem þáttastjórnendur settu þær fram eða Sigríður — en þó aðallega ef hún vogaði sér að segja eitthvað sem honum líkaði ekki. Reyndar minnti þessi taktík mig verulega á ótal umræður um feminisma og málefni honum tengdum þar sem þokkahjúin Eva Hauksdóttir og Einar Steingrímsson heimtuðu endalaust heimildir, helst í formi tölfræði — og var það álíka gefandi og að hlusta á tuddaganginn í Svavari. Honum hefur líklega eins og þeim fundist hann hafa 'unnið' umræðuna. (Afskaplega varð ég fegin, þegar ég hlustaði á útvarpsþáttinn, að hann fluttist ekki að Bessastöðum.)

LOKAORÐ
Um helgina verður svo haldið flokksþing Framsóknarflokksins. Verður ekki örugglega bein útsending?


Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,

mánudagur, september 26, 2016

Eldhúsdagsumræður

Það kemur varla á óvart að mér fannst Katrín Jakobsdóttir standa sig best í eldhúsdagsumræðum — enda var hún best.

Bjarni Benediktsson sagði margt, ég man það fæst nema lokaorðin sem voru um það að klára lífeyrissjóðsmálin fyrir kosningar. Þau ganga í sem stystu máli útá að ríkisstarfmenn fái ekki lengur betri lífeyriskjör en aðrir á vinnumarkaði. Ólíklegt er að Sjálfstæðisflokkurinn beiti sér mikið fyrir því að þessir sömu ríkisstarfsmenn fái launahækkanir umfram aðra á næsta kjörtímabili (kannski er þetta eitrað epli sem bíður eftir næstu ríkisstjórn?) en þeir hafa sætt sig við lægri laun vegna betri lífeyriskjara.

Hvorki formaður Framsóknarflokksins né forsætisráðherra sem er varaformaður flokksins héldu ræðu. Þeir eru of uppteknir af því að kljúfa flokkinn. (Það væri ágætt ef einhver fjölmiðill tæki saman allt það sem framsóknarfólk og þá sérstaklega Sigmundur Davíð hefur sagt háðslegt um sundurlyndi í stjórnarflokkunum þegar Jóhanna var forsætisráðherra.) Þeirra í stað hélt Lilja Alfreðsdóttir utanþingsráðherra ræðu (má það?) og byrjaði á að tala um grunsamlegar ferðir Rússa við landið og ræddi síðan m.a. um vörumerkjadeilu bresku verslunarkeðjunnar Iceland við íslensk stjórnvöld (sem nú virðist hafa verið stofnað til eingöngu til að Lilja gæti rætt deiluna á Alþingi) og fylgir þannig í fótspor vinar síns Sigmundar Davíðs sem er einmitt drjúgur við að mála allt og alla upp sem óvini sína. Svo tók hún upp gamla myndlíkingu um að keyra útaf og rútur, og fórst það heldur óhönduglega því hún vildi meina að það þyrfti vanan bílstjóra. Varla er það traustsyfirlýsing á Sigmund Davíð, eða færi einhver sjálfviljugur upp í bíl hjá honum?

Annars var fyndið að hún nefndi rútur því Katrín Jakobsdóttir hafði sérstaklega nefnt rútubílstjóra í sinni ræðu. Óþægilegra var þegar Ásta pírati kom í pontu og hóf ræðu sína á að rifja upp af hverju ætti að kjósa í haust, svona eins og það hefði alveg gleymst í umræðunni, en nánast hver einasti þingmaður stjórnarandstöðunnar hafði áður nefnt það. Flokksfélagi hennar Helgi Hrafn tók sinn ræðutíma í að ræða hvernig Pírötum hefði gengið í skoðanakönnnum og sagði að minnsta kosti þrisvar um hvað það væri merkilegt að „litli flokkurinn með skrítna nafnið og fánann með svarta lógóinu og skrítna fólkinu“ hefði náð svona langt. Talaði svo að því er virtist til þeirra sem ættu að bjóða sig fram til stjórnmálaþátttöku en það er kannski full seint að hvetja fólk til þess fyrir þessar kosningar. Ja nema til standi hjá Pírötum að hræra meira í framboðslistunum hjá sér.

Eini þingmaðurinn sem ég öskraði á var Karl Garðarsson. Hann hélt því fram að heilbrigðiskerfið hefði verið nagað að innan í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og VG. Það er fullkomlega óþolandi þegar fólk sem er í eða aðhyllist núverandi ríkisstjórnarflokka lætur eins og fyrri ríkisstjórn hafi tekið við stjórnartaumunum árið núll og ekkert hafi gerst þar á undan. Og Jóhanna og Steingrímur hafi af einskæru mannhatri skorið niður í útgjöldum ríkisins, en þar hafi allt verið í blóma áður.

Það er margbúið að benda á — og það veit Karl Garðarsson líka sjálfur — að heilbrigðiskerfið hafði verið svelt árum saman áður en hrunið varð. Það var illa statt, og Landspítalinn var tæknilega gjaldþrota í hruninu. Það var ekki úr miklu að spila fyrir ríkisstjórnina sem tók við, þessi sem svo aftur á móti skilaði svo góðu búi til núverandi ríkisstjórnar, að þegar þeir Sigmundur og Bjarni þurftu að monta sig, þá gripu þeir til talna frá fyrri ríkisstjórn sem sýndi að jöfnuður tekna væri meiri á Íslandi en í öðrum Evrópuríkjum — áður en Bjarni og Sigmundur tóku við. En þetta framsóknarhyski þarf sífellt að ljúga. Og Karl Garðarsson ætti lítið að tala um hvað fyrri ríkisstjórn gerði lítið fyrir aldraða og öryrkja — því þegar hann hafði tækifæri til þá greiddi hann atkvæði gegn afturvirkum hækkunum til þeirra.*

En nú segjast allir flokkar ætla að laga heilbrigðiskerfið og rétta hlut öryrkja og aldraðra. Sá hljómur er holur þegar hann kemur frá ríkisstjórnarflokkunum. Öllu trúverðugri eru félagshyggjuflokkarnir.


___
* Hér stóð áður að hann hefði greitt atkvæði gegn hækkun í 300 þúsund, en skv. þessu er það ekki rétt, heldur að hann vildi ekki afturvirkar hækkanir. Sem hann iðrast nú sárlega, svona rétt fyrir kosningar.

Efnisorð: , , , , ,

Eldhúsdagsumræður

Það kemur varla á óvart að mér fannst Katrín Jakobsdóttir standa sig best í eldhúsdagsumræðum — enda var hún best.

Bjarni Benediktsson sagði margt, ég man það fæst nema lokaorðin sem voru um það að klára lífeyrissjóðsmálin fyrir kosningar. Þau ganga í sem stystu máli útá að ríkisstarfmenn fái ekki lengur betri lífeyriskjör en aðrir á vinnumarkaði. Ólíklegt er að Sjálfstæðisflokkurinn beiti sér mikið fyrir því að þessir sömu ríkisstarfsmenn fái launahækkanir umfram aðra á næsta kjörtímabili (kannski er þetta eitrað epli sem bíður eftir næstu ríkisstjórn?) en þeir hafa sætt sig við lægri laun vegna betri lífeyriskjara.

Hvorki formaður Framsóknarflokksins né forsætisráðherra sem er varaformaður flokksins héldu ræðu. Þeir eru of uppteknir af því að kljúfa flokkinn. (Það væri ágætt ef einhver fjölmiðill tæki saman allt það sem framsóknarfólk og þá sérstaklega Sigmundur Davíð hefur sagt háðslegt um sundurlyndi í stjórnarflokkunum þegar Jóhanna var forsætisráðherra.) Þeirra í stað hélt Lilja Alfreðsdóttir utanþingsráðherra ræðu (má það?) og byrjaði á að tala um grunsamlegar ferðir Rússa við landið og ræddi síðan m.a. um vörumerkjadeilu bresku verslunarkeðjunnar Iceland við íslensk stjórnvöld (sem nú virðist hafa verið stofnað til eingöngu til að Lilja gæti rætt deiluna á Alþingi) og fylgir þannig í fótspor vinar síns Sigmundar Davíðs sem er einmitt drjúgur við að mála allt og alla upp sem óvini sína. Svo tók hún upp gamla myndlíkingu um að keyra útaf og rútur, og fórst það heldur óhönduglega því hún vildi meina að það þyrfti vanan bílstjóra. Varla er það traustsyfirlýsing á Sigmund Davíð, eða færi einhver sjálfviljugur upp í bíl hjá honum?

Annars var fyndið að hún nefndi rútur því Katrín Jakobsdóttir hafði sérstaklega nefnt rútubílstjóra í sinni ræðu. Óþægilegra var þegar Ásta pírati kom í pontu og hóf ræðu sína á að rifja upp af hverju ætti að kjósa í haust, svona eins og það hefði alveg gleymst í umræðunni, en nánast hver einasti þingmaður stjórnarandstöðunnar hafði áður nefnt það. Flokksfélagi hennar Helgi Hrafn tók sinn ræðutíma í að ræða hvernig Pírötum hefði gengið í skoðanakönnnum og sagði að minnsta kosti þrisvar um hvað það væri merkilegt að „litli flokkurinn með skrítna nafnið og fánann með svarta lógóinu og skrítna fólkinu“ hefði náð svona langt. Talaði svo að því er virtist til þeirra sem ættu að bjóða sig fram til stjórnmálaþátttöku en það er kannski full seint að hvetja fólk til þess fyrir þessar kosningar. Ja nema til standi hjá Pírötum að hræra meira í framboðslistunum hjá sér.

Eini þingmaðurinn sem ég öskraði á var Karl Garðarsson. Hann hélt því fram að heilbrigðiskerfið hefði verið nagað að innan í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og VG. Það er fullkomlega óþolandi þegar fólk sem er í eða aðhyllist núverandi ríkisstjórnarflokka lætur eins og fyrri ríkisstjórn hafi tekið við stjórnartaumunum árið 0 og ekkert hafi gerst þar á undan. Og Jóhanna og Steingrímur hafi af einskæru mannhatri skorið niður í útgjöldum ríkisins, en þar hafi allt verið í blóma áður.

Það er margbúið að benda á — og það veit Karl Garðarsson líka sjálfur — að heilbrigðiskerfið hafði verið svelt árum saman áður en hrunið varð. Það var illa statt, og Landspítalinn var tæknilega gjaldþrota í hruninu. Það var ekki úr miklu að spila fyrir ríkisstjórnina sem tók við, þessi sem svo aftur á móti skilaði svo góðu búi til núverandi ríkisstjórnar, að þegar þeir Sigmundur og Bjarni þurftu að monta sig, þá gripu þeir til talna frá fyrri ríkisstjórn sem sýndi góða stöðu þjóðarbúsins áður en Bjarni og Sigmundur tóku við. En þetta framsóknarhyski þarf sífellt að ljúga. Og Karl Garðarsson ætti lítið að tala um hvað fyrri ríkisstjórn gerði lítið fyrir aldraða og öryrkja — því þegar hann hafði tækifæri til þá greiddi hann atkvæði gegn því að hækka laun þeirra í 300þúsund.

En nú segjast allir flokkar ætla að laga heilbrigðiskerfið og rétta hlut öryrkja og aldraðra. Sá hljómur er holur þegar hann kemur frá ríkisstjórnarflokkunum. Öllu trúverðugri eru félagshyggjuflokkarnir.

Efnisorð: , , , , ,

fimmtudagur, september 22, 2016

12 á palli

Fyrsta þingkosningakappræðufundinum í sjónvarpssal er lokið. Tólf manns mættu fyrir hönd þeirra flokka sem hyggjast bjóða fram til Alþingis. Sömu flokkar sendu átta karla og fjórar konur til að tala fyrir framboði sínu, yfirleitt formenn flokkanna. Þessi áberandi karlhygli var ekki það eina sem var eftirtektarvert. Nýi píratinn vakti athygli fyrir að vera klæddur eins og möppudýr og fer í sögubækur fyrir litlausa framkomu. Ríkissjónvarpið stóð sig illa í að birta nöfn og flokksheiti þeirra sem höfðu orðið hverju sinni og það var óheppilega auðvelt að rugla saman píratanum, þjóðernissinnanum og húmanistanum; í sjón voru þeir allir keimlíkir.

Klæðnaður karlanna var hefðbundinn: Óttarr Proppé í sínum gulu jakkafötum og Bjarni Ben í sínum bláu. Benedikt frændi hans gerir einnig tilkall til bláa litarins, enda næstum sami flokkur, og stóðu Engeyingarnir hlið við hlið. Ég gleymdi að horfa á Benedikt þegar Bjarni talaði um að selja bankana og tók því ekki eftir hvort fór um hann eftirvæntingarskjálfti, því Engeyingum er auðvitað ætlaður góður skerfur ef ekki heilu og hálfu bankarnir þegar útdeila á því góssi.

Albaníu-Valdi skammaðist yfir Samfylkingunni og Vinstri grænum sem var afar fyrirsjáanlegt. Sigmundur Davíð kom heldur ekkert á óvart, hann fór með nú löngu þreytta ræðu um ekki aflandseyjafélagið sem hann átti ekki en kona hans borgaði allt af. Hann neitaði í ofanálag að biðjast afsökunar á neinu (en lét það hljóma eins og hann þyrfti almennt að biðjast afsökunar á mörgu, sem er asnaleg aðferð við að koma sér undan að biðjast afsökunar á tilteknum hlutum) og var ekki til viðtals um siðferðilega breytni sína. Eitthvað var húmorinn bilaður líka því hann þóttist ekki muna nafn Kára Stefánssonar. (Hafi einhver hlegið vil ég að sá gefi sig fram.) Meðan á þættinum stóð virtist Sigmundur ekki hlusta á það sem fram fór heldur var í símanum, kannski að lesa leiðbeiningar frá Jóhannesi útskýrara, eða að fá knús og hvatningu frá Önnu Sigurlaugu.

Játning kvöldsins var dregin uppúr þjóðernissinnanum þegar hann var spurður um lítið fylgi Þjóðfylkingarinnar. Fylgismennirnir reynast nefnilega vera Íslendingar í útlöndum, aðallega innflytjendur á Norðurlöndum, ef marka má svar forsvarsmanns flokksins sem berst gegn innflytjendum. Íronían virðist alveg hafa farið framhjá honum.

Nýliði kvöldsins var Inga Sæland frá Flokki fólksins. Hún var með allt á hreinu og mjög skelegg. Ég ætla að fylgjast með þessum flokki, hann virkar efnilegur, ef marka má kappræðurnar.

Oddný G Harðardóttir stóð sig því miður ekki vel. Ef ég hefði ekki vitað betur hefði ég haldið að hún væri nýliði en ekki reyndur pólitíkus. Kata rokkaði hinsvegar — og þá á ég við þegar Katrín Jakobsdóttir útskýrði hvernig hún vildi fjármagna heilbrigðiskerfið. Hún benti t.d. á að 80 milljörðum er skotið undan skatti árlega. Og svo spurði hún Ghostbusters-spurningarinnar: hverjum treystiði til að takast á við skattaundanskotin?

Efnisorð: , , ,

mánudagur, september 19, 2016

Drepið sér til skemmtunar og tekið í vörina, þvílíkar framfarir

Elsa Blöndal Sigfúsdóttir, María Anna Clausen, Bára Einarsdóttir, Guðrún Hafberg og Harpa Hlín Þórðardóttir drepa dýr sér til skemmtunar. Þeim er hampað í Fréttablaðinu og á Vísi og myndaðar í skotveiðiklæðnaði með byssur í tilefni þess að þær eru á leið til útlanda að skjóta elgi.* Ekki mega þær koma með kjötið heim (ef þá elgur er étinn) þannig að þær ætla eingöngu að fá útrás fyrir ógeðið í sér á kostnað dýranna sem þær drepa.
„Við finnum fyrir miklum áhuga kvenna á að fara í veiðiferðir og margar sem hafa lengi hugsað um að taka skotvopnaleyfið eru að gera það um þessar mundir.“ segir Harpa Hlín Þórðardóttir, ein af fimmmenningunum.
Það var nú aldeilis hressandi. Ég fyllist barasta kvenlegu stolti þegar ég heyri að konur hafi í auknum mæli gaman af að drepa dýr sér til skemmtunar.

Einhverntímann skrifaði ég pistil þar sem ég velti vöngum um hvar mörkin séu milli þess að konur sæki inn á svið karla og þess að þær séu farnar að apa upp ósiðina eftir karlmönnum. Mér varð reyndar hugsað til þess pistils nokkrum dögum áður en ég las um morðvargana. Þá var fréttaflutningur um munntóbaksnotkun nemenda Kvennaskólans, og hafði skólastjórinn haft á orði að hann tryði því varla að stelpur væru farnar að nota munntóbak, en var nú samt svona almennt að biðja nemendur um að neyta ekki tóbaks eða nota rafsígarettur í ferðum eða samkomum á vegum skólans og á skólalóðinni.

Af einhverjum furðulegum ástæðum fannst nemendum hans það ámælisvert að hann tók það fram að hann hefði ekki átt von á því að stelpur væru í hópi ógeðslegra munntóbaksnotenda. Viðhorf skólastjórans virðist bæði hafa vera túlkað sem niðrandi fyrir stelpur og stráka.

Ég hef reyndar enn sloppið við að sjá kvenmann með bólgna efrivör en hef séð allmarga unga stráka – meira segja við afgreiðslu og öðrum þjónustustörfum – og ég sé fátt viðbjóðslegra (og dauðlangar að kvarta við yfirmenn þeirra).

En ef stelpur vilja vera jafn ógeðslegar um kjaftinn og strákarnir þá geta þær svosem gert það. Og vilji konur vera jafn miskunnarlausir morðingjar og karlar þá er ekkert hægt að banna þeim það. En manni getur blöskrað.


___
* Viðbót, síðar: Morðleiðangrinum var gerð skil í Vísi þar sem má sjá þær stilla sér upp með dýrunum sem þeim finnst svo gaman að drepa. Jakob Bjarnar skemmtir sér svo við að spyrja þær hvort „þetta sé hápunktur kvenfrelsisbaráttunnar?“.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, september 15, 2016

Þriðji í landbúnaði

Nú hafa komið fram skýringar hjá stjórnarandstöðuflokkunum um hvers vegna þeir kusu ekki gegn búvörusamningnum. Samfylkingin segir það mjög algengt að sitja hjá, Píratar segjast ekki hafa verið með betra plan og ekki þekkt málið nógu vel, og svo er það þessi skýring Vinstri grænna:
„Við teljum eðlilegt að innlendur landbúnaður sé styrktur eins og alls staðar annars staðar er gert. Við vorum ekki ánægð með þennan samning en töldum breytingarnar sem voru gerðar á honum til bóta. Okkur fannst ekki fýsilegur kostur að núverandi samningur yrði bara framlengdur,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Hún segir að núgildandi samningur hefði verið framlengdur um eitt ár ef nýjum búvörusamningum hefði verið hafnað.
Ég er svosem líka hlynnt styrkjum til innlends landbúnaðar. En mér finnst þessi samningur sem stjórnarflokkarnir gerðu við bændur, til alltof langs tíma. Hefði verið svona slæmt að láta núverandi/gamla samninginn gilda í ár í viðbót og í staðinn hefði ný stjórn (vonandi samsett úr öðrum flokkum en núverandi stjórn) samið á annan hátt og búvörulögin orðið betri? Raunar hafa bændur jafnt sem neytendur verið mjög ósáttir við gamla samninginn, og það má vera að þessi nýi sé svona mikið betri þrátt fyrir ýmsa galla, og að því leyti sé þetta bara ágætt val hjá Katrínu, að styðja ekki samninginn með jái en hafna honum ekki alfarið með neii. Gallinn er auðvitað að svo margir þingflokkar tóku til sama bragðs (af mismunandi ástæðum) og eftir stendur hin fjarstæðukennda niðurstaða að aðeins nítján þingmenn samþykktu og gerðu samninginn að lögum.

Uppnám mitt vegna atkvæðagreiðslunnar var því minna vegna efnis samningsins (eins og ég hef áður sagt hef ég ekki hundsvit á þessu) heldur vegna þess að tillaga Lilju Rafneyjar var felld, og að svo fáa þingmenn þurfti til að samþykkja svona stóran og bindandi samning , og virðist svo vera um fleiri, þ.á m. Björn Val Gíslason sem skammaðist yfir málinu sama dag og atkvæðagreiðslan fór fram, en sagði svo þetta nú í kvöld:
„Stjórnarandstaðan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir það að stjórnarliðar staðfestu búvörusamninginn í vikunni. Fjölmiðlar hafa sagt stjórnarandstöðunni að skammast sín fyrir málið og jafnvel hvatt kjósendur sína til að kjósa ekki þessa flokka, nema þá Bjarta framtíð. Ég hef ekki séð þá hvetja fólk til að taka afstöðu til stjórnarflokkanna vegna þessa máls.“
Áður hafði Björn rakið hvernig Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Jón Gunnarsson höfðu hver með sínum hætti komið búvörusamningnum á koppinn, þar af þeir tveir fyrstu með undirskrift sinni í febrúar á þessu ári. Björn Valur segir svo það sem augljóst er:
„Það má margt segja um þá búvörusamninga sem Alþingi staðfesti á dögunum og margt er þar gagnrýnivert. En það er arfavitlaust að kenna Vinstri grænum um þá. Eða Samfylkingunni, Pírötum eða Bjartri framtíð. Ábyrgðin liggur öll hjá hagsmunagæsluflokkunum tveimur, sjálfstæðisflokki og framsókn.
Er ekki tilvalið að láta þá axla ábyrgðina þann 29. október.“


Lýkur þá búnaðarbálki, a.m.k. í bili.

___
* Eitt er samt hlálegt við þetta mál allt saman, og það er þegar látið er sem nýstofnaði stjórnmálaflokkurinn Viðreisn hefði staðið sig betur en stjórnarandstaðan gerði. Það er auðvelt að láta sem sá sem er ekki á staðnum hefði breytt á betri hátt en hinir. Ég leyfi mér sterklega að efast.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, september 14, 2016

Sjaldan hafa svo fáir kosið um svo stórt mál með svo lítilli andstöðu, og önnur andstyggilegheit

Búvörusamningur, búnaðarsamningur, búvörulög, búnaðarlagasamningur eða hvað þetta nú heitir. Það er allavega orðið að lögum. Og með þessari líka fjöldaþátttökunni!

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki gefið fullnægjandi skýringar á því hversvegna þeir ýmist sátu hjá eða voru fjarverandi þegar búvörusamningarnir voru samþykktir á þingi. Þó sögðu allir þingmenn Bjartrar framtíðar nei. „Sjö sögðu nei en aðrir sátu hjá eða voru ekki viðstaddir þessa gríðarlega mikilvægu og bindandi atkvæðagreiðslu sem mun móta eitt af lykilkerfum íslensks samfélags, hið ríkisstyrkta landbúnaðarkerfi, næsta áratuginn,“ eins og sagði í frétt Stundarinnar. Kjarninn benti líka á fjarveru þingmanna í frétt undir yfirskriftinni 30 prósent þingmanna samþykktu 132 milljarða króna búvörusamninga: „19 þingmenn greiddu atkvæði með þeim en sjö sögðu nei. Alls sátu 16 þingmenn hjá, sjö voru með skráða fjarvist og 14 voru fjarverandi án skýringar.“

Það voru semsagt aðeins 19 þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem kusu með því, og hefði því stjórnarandstöðunni átt að vera í lófa lagið að fella frumvarpið. Verði stjórnarskránni breytt þá má í leiðinni bæta við ákvæði um lágmarksfjölda þingmanna sem taki þátt í atkvæðagreiðslu til að hún teljist gild, hvað þá þegar um er að ræða stórkostlega kostnaðarsama samninga sem eiga að gilda til tíu ára.

Það má þó stjórnarandstaðan eiga, að þau sátu ekki hjá þegar kosið var um tillögu Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um að heimilt verði að fella niður greiðslur til þeirra sem brotið hafa gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga um velferð dýra. Þessi sögðu já við tillögu Lilju:

Árni Páll Árnason, Ásta Guðrún Helgadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall, Steinunn Þóra Árnadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson. (Alls 11 konur og 8 kallar.)

En þessir þingmenn skeyta ekkert um velferð dýra (eins og áður hefur verið fjallað um hér á síðunni) og finnst algjör óþarfi að það bitni neitt á buddunni þótt menn misþyrmi dýrum, og kusu því nei við tillögunni:

Ásmundur Einar Daðason, Ásmundur Friðriksson, Bjarni Benediktsson, Brynjar Níelsson, Einar K. Guðfinnsson, Frosti Sigurjónsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Haraldur Benediktsson, Haraldur Einarsson, Illugi Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Karl Garðarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Sigrún Magnúsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir. (Þetta eru 16 kallar og 4 konur.)

Flest þeirra höfðu áður verið á móti tillögunni (Bjarni Ben bættist við, Frosti, Illugi og Jóhanna María) en nú voru allmörg fjarverandi sem þá kusu með vondum bændum: Elsa Lára, Eygló Harðar, Jón Gunnars, Kristján Þór, Ragnheiður Elín, Sigurður Ingi, Silja Dögg, Valgerður Gunnars, og Vigdís Hauks.*

Breytingartillagan var semsagt felld með aðeins einu atkvæði en fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokks sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Þessir: Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigríður Á. Andersen.

Fyrir utan viðleitni Bjartrar framtíðar til að fella búvörusamninginn í heild, og stjórnarandstöðunnar almennt til að reyna að bæta inn skikkanlegu ákvæði sem sneri sérstaklega að velferð dýra, þá er atkvæðagreiðslan um málið í heild algjört hneyksli.

___

* Konur sem komu illa úr prófkjörum virðast hafa sleppt því að mæta í vinnuna þennan dag.

Efnisorð: ,

mánudagur, september 12, 2016

Það skiptir nefnilega máli hver velst til forystu

Það má ýmislegt segja og fátt fallegt um niðurstöður í prófkjörum þar sem þingkonum var bægt frá efstu sætum af samflokksfólki sínu. Öllu verri eru þó tíðindin um veikindi Hillary Clinton. Tilhugsunin um að hún geti ekki klárað kosningabaráttuna, og Trump eigi þar með greiða leið í forsetastól er vægast sagt skelfileg.

Nóg er að hafa einn klikkhaus sem sprengir kjarnorkusprengjur bara til að derra sig við umheiminn.Efnisorð: , , ,

laugardagur, september 10, 2016

Sýnishorn úr hugarheimi Sigmundar Davíðs

Er það rétt sem mér sýnist, að hvergi í lýsingum sínum á innbrotum í tölvuna, tilraunum til að lokka hann einan í afskekkta kofa og dularfulla menn sem elta hann um heiminn, hafi Sigmundur Davíð minnst einu orði á öll þau skipti sem geimverur hafa reynt að ræna honum? Það hlýtur hann að segja næst.

Efnisorð:

fimmtudagur, september 08, 2016

Þessum 26 þingmönnum er sama um velferð dýra

Það þýðir ekkert að reyna að ljúga því að ég hafi lesið nýja búnaðarsamninginn, hvað þá skilji hann. Það eru víst fáir sem skilja landbúnaðarlög (ég er ekki þar á meðal) svo ég reyni ekki einu sinni að þykjast vita neitt í minn haus þegar kemur að samningum við bændur. Eins og áður hefur komið fram þá er ég sveitarómantíker og vil hafa hér bændastétt – en þá auðvitað vandaða bændur en ekki framleiðendur verksmiðjuframleiddra dýraafurða.

En þótt ég viti nánast ekkert um búnaðarsamninginn sem Framsóknarmenn vilja ólmir koma gegnum þingið, nema það að samningurinn sem gerður var við bændur og lögin eiga að byggja á er almennt talinn vondur og verst af öllu hve lengi hann á að gilda, rak ég upp stór augu þegar Stundin birti frétt um atkvæðagreiðslu á þingi þar sem stjórnarliðar kusu nánast sem einn maður gegn því að refsa bændum sem verða uppvísir að því að misþyrma dýrum.

Eftir fyrstu umræðu á þinginu var búnaðarsamningurinn til meðferðar hjá atvinnuveganefnd og þar lagði Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna fram þá tillögu „að eftirfarandi málsgrein yrði bætt inn í lögin:
Heimilt er að fella niður greiðslur til þeirra sem brotið hafa gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga um velferð dýra, nr. 55/2013, með síðari breytingum.“
„Annarri umræðu um frumvarpið vegna búvörusamninganna lauk fyrir helgi og voru þá meðal annars greidd atkvæði um breytingartillögu Lilju. 21 þingmaður studdi breytingartillöguna; allir þingmenn Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem viðstaddir voru og einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Elín Hirst.“
Hjá sátu: Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Sigríður Á. Andersen úr Sjálfstæðisflokknum, ásamt Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins. (Hún er bóndi ef ég man rétt.)

26 þingmenn úr Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum greiddu hins vegar atkvæði gegn tillögunni. Þetta eru: Ásmundur Einar Daðason (bóndi), Ásmundur Friðriksson, Brynjar Níelsson, Einar K. Guðfinnsson, Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir, Geir Jón Þórisson, Gunnar Bragi Sveinsson, Haraldur Benediktsson (bóndi), Haraldur Einarsson (bóndi), Jón Gunnarsson, Karl Garðarsson, Kristján Þór Júlíusson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigrún Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson (dýralæknir), Silja Dögg Gunnarsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir (bóndi).

Þessir þingmenn vildu semsagt að menn gætu barasta alveg fengið að níðast á dýrum án þess að það kæmi neitt við pyngjuna (en eins og flestir vita, og ekki síst framsjallar þá er talsverður hvati fyrir flesta að gera ekki það sem þeir gætu verið sektaðir fyrir eða missa sporslur ef þeir verða uppvísir að).

Auðvitað á Matvælastofnun að hafa eftirlit með bændum og meðferð þeirra á skepnum en stofnunin sú er oft á tíðum svifasein þegar um er að ræða velferð dýra (kannski þekkja dýralæknar/dýraeftirlitsmenn bændur persónulega og hlífa þeim?) og það er því ekki úr vegi að hafa fleiri úrræði til að stöðva frekara ofbeldi gegn dýrum.

Í athugasemdakerfi Stundarinnar var sagt frá hvernig sumir bændur fara með nautgripi.
„kýr eins og öll önnur dýr á að umgangast með umhyggju og virðingu.. þeir bændur sem ég var hjá í sveit á sínum tíma umgengust þær með fyrirlitningu og miskunnarleysi.. einn er ógleymanlegur.. allar kýrnar 45 að tölu voru með margbrotna hala ...“

„Þekki þannig framkomu, bóndinn var viðbjóðslegur við nautgripina lamdi þá með stunguspaða svo úr blæddi og braut hala,“
Og fleiri en einn minntist á bóndann fyrir norðan sem var
„kærður fyrir dýraníð í fyrrasumar eftir að hann brá reipi um hálsinn á ungri kvígu og festi það aftan í jeppabifreið og dró hana liggjandi á eftir bílnum, þannig að hún drapst … bóndinn játaði fyrir héraðsdýralækninum að hafa gengið of langt, en málið var ekki rannsakað frekar og leyst með áminningu“.

Augljóslega voru þessir 26 þingmenn að fylgja flokkslínunni en það er samt magnaður andskoti að þeim hafi fundist í lagi að greiða atkvæði gegn tillögu sem gæti dregið úr illri meðferð á skepnum. Bara til þess að greiða götu búnaðarsamnings sem á að auka vinsældir Framsóknar hjá bændum. Bændasamtökin hafa nefnilega áður beitt sér gegn slíku fyrirkomulagi.
„Í upphaflegu frumvarpi til laga um velferð dýra, sem Steingrímur J. Sigfússon þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lagði fram árið 2012, var gert ráð fyrir að við brot á lögunum yrði Matvælastofnun heimilt að fella niður opinberar greiðslur til bænda að undangenginni áminningu.
Þetta ákvæði var fellt brott eftir að Bændasamtök Íslands höfðu tekið eindregna afstöðu gegn því, einkum á þeim grundvelli að slíkt fyrirkomulag væri á skjön við búvöru- og búnaðarlög.“
Og þess má geta að Steingrímur Joð, Kristján Möller og Björt Ólafsdóttir sem öll sitja í atvinnuveganefnd lögðu sig fram um að koma viti fyrir samþingmenn sína og fá þá til að sættast á ákvæði um að fella niður styrki til þeirra sem fara illa með húsdýr.

Sem betur fer tók Stundin málið upp og það var liðsinni sem munaði um því viðbrögðin í athugasemdakerfinu voru nokkurnveginn samhljóða fordæming á viðbjóðslegri afstöðu þingmannanna tuttugu og sex. Og viti menn, líklega vegna þess að það er stutt til kosninga, þá hreinlega sáu þingmennirnir í atvinnuveganefndinni að sér (eða öllu heldur sáu sína sæng útbreidda) og bættu ákvæði um niðurfellingu ríkisstyrkja vegna dýraníðs inn í frumvarpið um búvörusamninga.

Fari svo að frumvarpið verði að lögum (eða einhverjir partar úr samningnum; enn er óvíst hvaða vankanta velvakandi stjórnarandstaðan nær að sníða af honum og gera hann þannig geðslegri) þá verður þessi heimild um að fella niður greiðslur til dýraníðinga með í pakkanum.

Næst mætti beita sömu aðferð gegn meðferðinni sem svín og hænsni sæta á verksmiðjunubúum.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, september 07, 2016

Viðreisnarmannval gegn mannvali Sjálfstæðisflokks

Sífellt kemur í ljós hve Viðreisn er gríðarlega ólík gamla Sjálfstæðisflokknum. Nú ætlar tildæmis Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins að bjóða sig fram til að leiða lista Viðreisnar í suðvesturkjördæmi. Bjarni Ben fer fyrir Sjöllum í sama kjördæmi.* Hægri sinnaðir kjósendur geta því valið um kúlulánadrottninguna eða silfurskeiðaprinsinn sem hefur snatast fyrir Engeyingana frændur sína (tildæmis með Vafningnum sem endaði með því að ríkið varð að hlaupa undir bagga með Sjóvá eftir að Milestonemenn höfðu tæmt bótasjóðinn), svo ekki sé minnst á aflandsfélagseignina sem hann man bara ekkert eftir en hefur þó alltaf greitt skatta af.

Það eru því fjölbreyttir valkostir fyrir hægrimenn: kúlulán, skattaskjól, 7 hægri eða Milestone. Þetta er allt svo ferskt eitthvað.

En það er svosem tímanna tákn að Þorgerður telji sér óhætt að bjóða sig fram aftur. Það er blússandi gróðæriseftirspurn eftir gróðærisvönu fólki.


___
* Reykvíkingar eiga kost á að kjósa Ólöfu Nordal aftur á þing, hún kom einnig við sögu í Panamaskjölunum, sem sjöllum virðist viðeigandi hjá efstu mönnum í kjördæmum.

[Viðbót, síðar:] Kári Stefánsson skrifar pistil 9. september og segir m.a. um Þorgerði Katrínu: „Það gegnir öðru máli um hana Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem á að baki glæstan feril innan Sjálfstæðisflokksins sem endaði á því að hún þjónaði sem menntamálaráðherra Íslands. Hún hraktist úr pólitík vegna þess að hún flæktist á óbeinan hátt inn í málefni Kaupþings á sama tíma og hún sat í ríkisstjórn sem stóð fyrir misheppnaðri og óvinsælli tilraun til þess að bjarga bankanum.“

Efnisorð: , , ,

mánudagur, september 05, 2016

Aðförin að eyðibýlisoddvitanum

Elsku snúðurinn okkar allra hann Sigmundur Davíð verður nú enn fyrir árásum. Nú eru það Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir úr eigin flokki sem sækja að honum, og feta þar í fótspor Höskuldar hins tapsára. Samsæri þeirra nær langt út á landsbyggðina því þau ætla sér, hvert fyrir sig og öll saman, að fella Sigmund Davíð úr oddvitasætinu í Norðausturkjördæmi.

Aðförin hefur greinilega verið í undirbúningi mánuðum saman. Handritið er skrifað fyrirfram: þau ætla að reyna að koma í veg fyrir að hann setjist á þing aftur. Þau eru beinlínis að segja að hann hafi verra af ef hann nær kjöri. Það er ljótur leikur og þau eru greinilega útsendarar þeirra sem hafa verulegan hag í því að taka hann niður.

Áður hefur öll heimsbyggðin með fulltingi Saurons sjálfs og Ríkisútvarpið í fararbroddi ráðist gegn óflekkuðu mannorði Sigmundar og reynt að sverta hann í augum kjósenda sem eiga honum allt að þakka, og vilja ólmir fá hann aftur við stjórnvöl þjóðarskútunnar.

En þessari vanheilögu þrenningu er alveg sama um sannleikann: að Sigmundur Davíð er besti oddviti, nei besti formaður, nei besti forsætisráðherra í heimi.


Efnisorð: