mánudagur, apríl 28, 2014

Meydómur til sölu — nýjar vörur daglega


* Varúð - eftirfarandi lestur gæti valdið vanlíðan *

Danska sjónvarpið sýndi ekki bara þátt um múslimska skóla í gær heldur líka heimildarmynd um vændi í Kambódíu, nánar tiltekið sölu á meydómi ungra stelpna. Það virðist vera hjátrú í Kambódíu að kynlíf með hreinni mey sé lykillinn að eilífri æsku, karlarnir lifi lengur og líti betur út. Einn karlmaðurinn sem talað var við sagði glaðhlakkalegur að fólk héldi að hann væri yngri en hann er því hann stundar að kaupa sér hreinar meyjar. Þá hefur hann stelpuna til afnota í viku og eftir það er hún seld á vændishús. Talað var við eina 19 ára stelpu sem hafði verið seld þannig árinu áður, til viku afnota fyrir einhvern kall og svo í vændi, og henni taldist til að hún væri búin að stunda kynlíf með 700 mönnum.

Í þættinum kom fram hvað kostar að kaupa stúlku með óskertan meydóm og hvað hún er svo seld á í vændishúsi fyrsta mánuðinn eftir hún kemur þangað og svo smápeningarnir sem hún vinnur fyrir eftir það. Einn viðmælandi frá hjálparsamtökum benti á að litið væri á kvenlíkamann sem neysluvöru og verðgildið er mest þegar konan er hrein mey. Eftir það missir konan verðgildi sitt og þá þarf nýja vöru í staðinn. Þessvegna eru alltaf fleiri og fleiri kornungar stelpur neyddar í vændi.

Það var semsagt talað við fjölda manns frá ýmsum hliðum málsins, embættismenn, mæður sem hafa selt dætur sínar (önnur vildi vara aðra foreldra við að selja dætur sínar, hin íhugaði leiðir til að kaupa dóttur sína aftur), fólk sem starfar fyrir félagasamtök sem hjálpa stúlkum sem seldar hafa verið mansali, einnig kúnna, nauðgara og vændiskonur.

Flestar vændiskvennanna höfðu sömu sögu að segja. Einhver úr fjölskyldu þeirra hafði selt meydóm þeirra og eftir það beið þeirra ekkert nema vændið. Þær voru hataðar heima í þorpinu ef þær reyndu að snúa þangað aftur. Sumum hafði verið lofuð vinna í verksmiðju, einhverjar voru að létta undir með bláfátækum foreldrum sínum (þaraf ein 13 ára), ein hafði sofið hjá kærastanum og eftir það var það bara vændið. Hún sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir að meydómurinn skipti svona miklu máli, þá hefði hún aldrei sofið hjá kærastanum, sem svo stakk auðvitað af þegar hann hafði fengið sitt. Hún var sú eina af viðmælendunum sem ekki hafði upplifað nauðgun sem sína fyrstu kynlífsreynslu.

Auk þess sem stelpurnar þurftu að selja sig og sáu ekki framá neitt annað líf (vitandi þaraðauki að þær verða ekki langlífar, u.þ.b. helmingurinn fær hiv/aids) er þeim oft og iðulega nauðgað. Ein sagði frá því að um tugir manna hefðu nauðgað sér og skilið sig eftir í skurði til að deyja, en hópnauðganir fara mjög í vöxt í Kambódíu. (Myndin er gerð 2009, ég veit ekki hvort þeim hefur fækkað eða fjölgað síðan.) Starfsmaður hjálparsamtaka sagði skelfilega sögu af stúlku sem hafði dáið eftir slíka hópnauðgun; sagan sú minnti ekki lítið á frásagnir af slíkum atburðum á Indlandi.

Hópur af ungum strákum ræddi frjálslega um kaup á vændi og að þeir kipptu stundum með sér vændiskonu sem þeir nauðguðu margir saman. Þeir sögðu frá þessu eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þeir sögðust fara á karókíbarinn þarsem þeir sjá klámmyndir þar sem margir menn eru um eina konu og þá vilja þeir prófa það allt með einhverri stelpu (vændiskonu). Henni er svo bara hótað ofbeldi ef hún ekki hlýðir, ef hún vill ekki þýðast alla viðstadda karla er henni nauðgað.

Margir viðmælenda, vændiskonur, kúnnar og starfsmenn hjálparsamtaka sögðu að klámmyndir væru orsök hópnauðgana. (Áhugasamir andfeministar um tölfræði geta farið til fjandans af því tilefni.)

Þessi mynd var mjög sláandi. Fram kom að það þyrfti að herða refsingar og kenna karlmönnum að virða konur. Og skilaboðin frá einum viðmælandanum voru skýr: Ef það er engin eftirspurn þá er ekkert vændi. Ef það er ekkert vændi er ekkert mansal og ekkert ofbeldi gegn konunum.

Aftur: ef karlar heimta ekki konur til að kaupa þá er ekkert vændi.

Ég ragmana stuðningsmenn vændis að réttlæta þessa meðferð á konum og stúlkubörnum.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, apríl 27, 2014

Kennsla í hatri og ofbeldi

Fyrir nokkrum árum var gerður sjónvarpsþáttur um trúarskóla múslima í Bretlandi og var myndefnið fengið með falinni myndavél í nokkrum skólum. Tvennt kom í ljós: ofbeldi gagnvart nemendum, og að nemendum var kennt að líta niður á önnur trúarbrögð, sem og múslima sem ekki hegða sér rétt. Þessar upplýsingar komu þvert á það sem þessir skólar þóttust gera þegar yfirvöld skoðuðu starfsemina og hafði einn þeirra hlotið lof og prís fyrir kennsluaðferðir sínar. En þegar enginn sá til var sparkað í nemendur og þeir slegnir (þetta voru börn niður í 6 ára gömul, að auki börðu eldri nemendur þá yngri) og þeim innrætt að þeirra trú væri ekki bara betri en annarra heldur væru aðrir Bretar viðurstyggilegir, þeir yrðu að gæta þess að aðlagast ekki samfélaginu að neinu leyti. Nemendur (sem mér sýndist vera eingöngu drengir) urðu að hafa viðurkennda klippingu og þeir varaðir við að klippa sig eftir tískunni, með tískunni er nefnilega hægt að ná tökum á huga fólks — sem er auðvitað hræðilegt nema um trúarinnrætingu sé að ræða.

Ekki langar mig sérstaklega að pönkast á múslimum umfram aðra trúarhópa, afstaða mín er einfaldlega sú að börn eigi ekki að vera send í trúarlega skóla (helst ekki sunnudagaskóla heldur). Hvort heldur það eru kaþólikkar eða aðventistar, mér er jafn illa við trúarinnrætinguna (sbr. fyrri skrif mín), án þess þó að vita hvort kaþólikkar og aðventistar eru beinlínis að innræta nemendum að hatast útí fólk sem aðhyllist önnur trúarbrögð. En eins og við þekkjum frá kaþólska skólanum hér þá grasseraði þar allskyns ofbeldi, og allt þaggað niður til í ofanálag.

Mér finnst því að það ætti að setja í lög að engir skólar séu reknir á vegum trúfélaga eða með hugmyndafræði trúar að leiðarljósi (þar sem börnum væri jafnvel innrætt andúð á samkynhneigðum; gætu allir hvítasunnumenn stillt sig um það fyrir luktum dyrum?), heldur séu þeir allir veraldlegir og á vegum hins opinbera. Í skólum á að kenna börnum um trúarbrögð heimsins en án þess að níða niður ein trúarbrögð eða hampa öðrum — jafnframt á auðvitað að segja börnunum frá trúlausum 'lífstíl' og hann kynntur sem eðlilegur valkostur. Það væri jafnframt mjög gott ef búið væri að setja lög gegn trúarskólum áður en hér verður reistur eða farið fram á að verði rekinn skóli fyrir börn múslima; enda mun öll sú umræða einkennast af rasisma og íslamófóbíu. Fólk einsog ég sem er á móti rasisma og íslamófóbíu mun þá finna sig knúið til að verja tilurð skólans, ekki síst á grundvelli jafnræðis; að múslimar megi reka skóla fyrir börn rétt eins og aðventistar og kaþólikkar. Áður en skólum á vegum trúfélaga fjölgar þarf að hætta alfarið að leyfa þá. Burtu með þetta allt saman, þetta er allt jafn skaðlegt.

Efnisorð: ,

sunnudagur, apríl 20, 2014

Greinargerð III

Nokkrar áhugaverðar greinar, bréf og bloggfærslur „um ýmislegt“ sem ég mæli með að fólk lesi sér til upplýsingar og stórskemmtunar.

Sveinn Arnarson spyr í pistli í Akureyrarblaðinu: „Er hægt með einhverri vissu að segja að íþróttir séu besta forvörnin? Hefur íþróttaiðkun og skipulagt íþróttastarf meira forvarnargildi en annað skipulagt tómstundarstarf barna og unglinga?“

Fyrir alvöru vísindaáhugafólk skal tekið fram að pistill Sveins er með tölfræði og súluritum — semsagt alvöru stöff!
Fyrir okkur hin má benda á að forvarnargildi bóklesturs kemur við sögu.

Enn nú um ýmislegt

Benedikt Sigurðarson skrifar um sorphirðu og horfin tré (reyndar á Akureyri en efnið er yfirfæranlegt á höfuðborgarsvæðið ef vill).

Meira um ýmislegt

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna er fyrsti flutningsmaður frumvarps um lögbindingu lágmarkslauna sem lagt var fram á Alþingi á dögunum. Hún ræðir frumvarpið hér, og guð láti gott á vita.

Um ýmislegt, er hefur gleymzt að framan

Sé gengið á smjörfjall sögunnar má lesa um æviminningar karla á Skarðsströnd (millifyrirsagnir hér eru fengnar úr einum pistlinum). Meðal annars er fjallað um endurminningar Steinólfs Lárussonar (1928-2012 bónda í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd, sem komu út á bók sem heitir Einræður Steinólfs í Ytri-Fagradal, en Finnbogi Hermannsson skráði. Ég hef ekki lesið bókina ennþá en víðfrægt er „Trjónukrabbabréf Steinólfs í Fagradal“.


Afskrifað tveimur dögum fyrir Mikjálsmessu 1984.

Herra Pétur Þorsteinsson sýslumaður.

Alúðar heilsan óskir bestu. Þar sem ég hef sannspurt að þú sért áhugamaður um sjávargagn og aðra aðskiljanlega náttúru, á, og hér framundan þessum veraldarinnar útnára sem Dalasýsla teljast má vil ég vekja athigli þína á eftirfarandi. Hér framundan láðinu bír ein sérkennileg sjókind bæði djúpt og grunnt, og virðist vera af stjarnfræðilegri stofnstærð
en meðal stærð þessa kvikindis sem einstaklings er svipað og eitt handsápustikki, sava de París, en þó fram mjókkandi og endar í trjónu búkurinn, augu á stilkum svo sem Marsbúar hafa og getur dírið horft aftur firir sig og fram, og haft ifirsín fyrir báða sína enda jafntímis, leikur frammsóknarmönnum mjög öfund til þessa hæfileika dýrsins
tvær tennur hefur dírið sína í hvoru munnviki og bítur saman tönnum frá hlið, tennur þessar eru ekki umluktar vörum heldur nokkurskonar fálmurum og brosir dírið þar af leiðandi sífelldlega, og þó heldur kalt
til að bera sig um, hefur skepnan 10 fætur og ber kné mjög hærra en kviðinn, það er mjög krikagleitt líkt og hestamenn sem lengi hafa riðið feitu

Ævinlega gengur dírið útá hlið ímist til hægri eða vinstri og virðist vera mjög pólitískt, einnig má það teljast mjög siðferðislega þróað skapnaðarlega þar sem spjald vex fyrir bligðun þess mjög sléttfellilega, einna líkast skírlífisbeltum
ekki verður dýrið kingreint af þessum sökum nema með ofbeldi
ef menn vilja hafa einhverjar nitjar af díri þessu er afkaplega örðugt að aflífa það snirtilega, þar sem það sökum síns skapnaðarlags fæst hvorki heingt né skorið, skotið eða rotað, því brinja hörð umlikur skepnuna gjörsamliga og er lífsseigla þessa dírs með ílíkindum, sé það geymt í haldi á þurru landi mun sultur einn ganga frá því dauðu að því er virðist.
bíður það þá örlaga sinna mjög stillilega en þegar því fer að eimast biðin, gefur það frá sér sladdandi hljóð, samskonar sladdandi hljóð mátti heira í baðstofum hér áður firr einkum firripart nætur þegar griðkonur feitar voru knúðar sem ákaflegast til frigðar

Bíldrykkur sá sem bensín kallast hefur mér reinst einna bestur til að aflífa þessa skepnu óskemmda í þeim tilgangi að þurka hana innvirðulega og gefa konum í Reykjavík ágætum og ærupríddum, sem ég hef kunningsskap við utanklæða,
þær stilla þessari skepnu upp við hliðina á Hallgrími Péturssyni ellegar mind af forsetanum og svo innan um plattana
tæplega mun vera vænlegt að veiða skepnu þessa í þeim tilgangi, en ef takast mætti að veiða hana í stórum stíl og upphugsa þokkalega aðferð tilað aflífa hana, vaknar sú spurning hvort ekki mætti verka þessa skepnu í dægilega krás tilað selja þjóðum
er mér fortalið að Job danskir kaupi og eti ólíklegustu kvikindi og borgi þeim mun meira firir sem skepnan er svipljótari, samkvæmt okkar smekk. í þessu skyni mætti eftil vill biðja dírðarmenn firir sunnan um rannsókn á þessu díri og fá plögg, með línuritum og prósentum, svo sem í eina stresstösku til að birja með.


Vertu blessaður
Steinólfur Lárusson

Efnisorð: , ,

föstudagur, apríl 18, 2014

Á Valhúsahæðinni er verið að krossfesta mann

Hugleiðing dagsins er eftir breska eðlisfræðinginn og nóbelsverðlaunahafann Paul Dirac (1902-1984).

„Ég skil ekki hvers vegna við sóum tíma okkar í að ræða trúarbrögð. Ef við erum heiðarleg — og vísindamenn verða að vera heiðarlegir — verðum við að viðurkenna að trúarbrögð eru hrærigrautur falskra fullyrðinga sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Hugmyndin um Guð er hugarfóstur manna. Það er mjög skiljanlegt að frumstætt fólk sem var mun berskjaldaðra fyrir yfirþyrmandi afli náttúrunnar en við erum í dag, skuli í ótta sínum hafa persónugert þetta afl. En á vorum dögum þegar við þekkjum gang náttúrunnar höfum við enga þörf fyrir slíkar lausnir. Ég fæ með engu móti skilið hvernig það getur hjálpað okkur að gera ráð fyrir almáttugum Guði sem forsendu alls. Það sem ég get séð er hvernig sú ætlun leiðir til ófrjórra vangaveltna um hvers vegna Guð lætur viðgangast svo mikla eymd og óréttlæti, arðrán hinna ríku á þeim snauðu, og allan þann hrylling sem Hann gæti komið í veg fyrir. Ef trúarbrögð eru enn kennd er það hreint ekki vegna þess að við séum enn sannfærð um kenningar þeirra, heldur einfaldlega vegna þess að sum okkar vilja þagga niður í lægri stéttunum. Það er auðveldara að stjórna þeim hljóðu en þeim óánægðu og háværu. Það er líka mun auðveldara að gera sér þá að féþúfu. Trúarbrögð eru eins konar ópíum sem hjálpar þjóðinni að hverfa inn í óskadrauma svo að hún gleymir óréttlætinu sem er framið á fólkinu. Þetta er ástæðan fyrir nánu hagsmunasambandi milli þessara tveggja öflugu pólitískra afla: ríkis og kirkju. Bæði þurfa tálmyndina um kærleiksríkan Guð sem umbunar — á himni ef ekki á jörðu — öllum þeim sem hafa sleppt því að rísa gegn óréttlætinu en gegnt skyldu sinni hljóðlega og möglunarlaust. Þetta er einmitt ástæða þess að sú hreinskilna fullyrðing að Guð sé einungis hugarsmíð mannanna er stimpluð sem verst af öllum dauðasyndunum.“

Efnisorð:

fimmtudagur, apríl 17, 2014

Gegnum glerþakið

Árið 1933 varð fatlaður maður Bandaríkjaforseti og gegndi hann því embætti í fjögur samfelld kjörtímabil á tímum kreppu og heimstyrjaldar.

Þetta sýnir algjört fordómaleysi og forréttindastöðu fatlaðra þar í landi. Og þar með hljóta allir fatlaðir Bandaríkjamenn alla tíð síðan að hafa það mjög gott og enginn þeirra hefur nokkurntímann orðið fyrir mismunun eða fordómum.

Árið 2009 varð sonur Afríkumanns forseti Bandaríkjanna og er nú á sínu öðru kjörtímabili. Kona hans er afkomandi þræla.

Þessu fylgir auðvitað að enginn þeldökkur Bandaríkjamaður, hvort heldur hann er afkomandi þræla eða á núlifandi ættingja í Afríku, þarf að þola mismunun eða fordóma og allir hafa þeir það gott og geta valið sér starfsvettvang.

Við erum auðvitað vel verseruð í bandarískri menningu eftir áratuga gláp á bandarískar bíómyndir. Þessvegna erum við auðvitað alveg jafn laus og Bandaríkjamenn við mismunun og fordóma í garð fatlaðra og þeldökkra. Við höfum reyndar bætt um betur.

Árið 1980 varð kona forseti Íslands.

Árið 1980 varð einstæð móðir forseti Íslands.

Árið 2009 varð kona forsætisráðherra Íslands.

Árið 2009 varð lesbía forsætisráðherra Íslands.

Enda er konum aldrei mismunað á Íslandi og þær njóta allar fyllstu virðingar í hvívetna. Einstæðar mæður hafa það allar gott og er aldrei hallmælt. Samkynhneigt fólk verður aldrei fyrir fordómum og enginn mismunar þeim eða níðir fyrir ástir þeirra.

Komist einhver gegnum glerþakið er öllum öðrum borgið og enginn hefur ástæðu til að kvarta yfir hlutskipti sínu eða þess hóps sem hann eða hún tilheyrir. Það sanna þessi dæmi algjörlega.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, apríl 13, 2014

365 í Aurum talið

Enn hefur komið út rannsóknarskýrsla, að þessu sinni um aðdraganda og orsök erfiðleika og falls sparisjóðanna. Ég hef ekki lesið hana en reynt að fylgjast með fréttum og umfjöllun um hana.

Ég fylgist einnig með Aurum málinu enda er það eitt af þeim málum sem tengjast falli stóru bankanna haustið 2008.* Þar er Jón Ásgeir á sakamannabekk einu sinni sem oftar. Ég vorkenni honum ekki neitt en mér þykir forvitnilegt að lesa hvernig Fréttablaðið og Vísir fjalla um réttarhöldin, en þeir fjölmiðlar eru báðir undir hatti 365 miðla, þar er Jón Ásgeir á launalista en Ingibjörg eiginkona hans eigandi.** Ég treysti mér ekki til (a.m.k. ekki á þessu stigi málsins) að sjá út hvort dreginn er taumur Jóns Ásgeirs í fréttaflutningi af réttarhöldunum en mér þykir áberandi skortur á því að bent sé á hvernig hann tengist þessum miðlum sem þykjast fjalla hlutlaust um málið. Hann er aðeins kynntur til leiks sem „Jón Ásgeir Jóhannesson, fjárfestir“.

Ein af niðurstöðum rannsóknarnefndar alþingis um bankahrunið var að fjölmiðlar hefðu brugðist. Í kjölfarið á skýrslunni var uppi sú krafa að þegar fjallað væri um eigendur fjölmiðlanna væri þess getið; þegar verið væri að ræða Jón Ásgeir þá væri þess jafnframt getið að hann væri ásamt konu sinni aðaleigandi 365 miðla.

En þessu virðast 365 miðlamenn alveg hafa gleymt.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem þeim verður á þessi yfirsjón. Í febrúar 2012 skrifaði ég um eitt dæmi um þetta. Það var nú samt væg yfirsjón miðað við leiðara sem Ólafur Stephensen skrifaði í desember 2013 þar sem hann hrósaði syni Ingibjargar eigenda 365 miðla og auglýsir fyrirtæki hans í leiðinni — án þess að geta um ætterni hans.

Kannski finnst blaðamönnum 365 miðla óþarfi að ræða tengsl Fréttablaðsins og Vísis við Jón Ásgeir, um þau hljóti allir að vita. En það hlýtur að vera öllu alvarlegra þegar ritstjóri útbreiddasta dagblaðs landsins auglýsir fyrirtæki sonar eigandans eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Það er því full ástæða til að lesa vandlega hvernig skrifað er um Aurum málið í Fréttablaðinu og á Vísi.

____
* Í Aurum málinu eru þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson, sem báðir voru starfsmenn Glitnis, ákærðir fyrir umboðssvik vegna sex milljarða króna láns sem Glitnir veitti félaginu FS38 ehf. sem var í eigu Pálma Haraldssonar, vegna kaupa á félaginu Aurum Holdings Ltd. Jón Ásgeir er ákærður fyrir hlutdeild í broti Lárusar með því að hafa með fortölum og hvatningu stuðlað að því að brotið var framið.
Sérstakur saksóknari telur að hlutabréfin í Aurum Holdings Ltd. hafi verið keypt á yfirverði. Þannig hafi stjórnendur og starfsmenn Glitnis misnotað aðstöðu sína hjá Glitni með lánveitingunni til FS38 ehf. Pálma og Jóni Ásgeiri til hagsbóta, en hluti endanlegrar lánveitingar til FS38 ehf. rann í vasa Jóns Ásgeirs samkæmt ákæruskjali, eða alls 702 milljónir króna, sem fóru í uppgjör á persónulegum yfirdrætti hans hjá bankanum. FS38 fór í þrot og peningarnir hafa ekki endurheimst með tilheyrandi tjóni fyrir Glitni.[úr fréttum á Vísi.]

** Þórður Snær Júlíusson skrifar hér um ýmsar vendingar Jóns Ásgeirs með 365 miðla á kostnað skattborgara.


Efnisorð: ,

miðvikudagur, apríl 02, 2014

Allir vondir við SDG algjörlega að ósekju

Undanfarinn sólarhring eða svo hefur fólk verið með almenn leiðindi í garð Sigmundar Davíðs forsætisráðherra. Þingmenn fárast yfir að finna ekki reiknivélar en tylliástæða margra leiðindapúkanna er sú að Sigmundur Davíð tjáði sig um afleiðingar loftslagsbreytinga og sagði að í þeim liggi „tvímælalaust mikil tækifæri fyrir Ísland“ því þá gætum við aukið útflutning, meðalannars selt hungruðum mat.

Eflaust leiðréttir Sigmundur Davíð það sem eftir honum var haft (og þá um leið leiðindapúkana sem allir eru meira og minna á mála hjá erlendum skammstöfunum) næst þegar hann fer í viðtal, og sver af sér að hafa sagt nokkuð í þá áttina að Íslendingar væru hreinn og göfugur kynstofn sem gæti hegðað sér einsog honum sýnist allt þar til heimurinn er á heljarþröm en þá noti hann tækifærið til að rétta út göfuga hjálparhönd gegn ríflegri greiðslu sem enn auki hagsæld þessarar merkilegustu þjóðar í heimi. Enda sagði hann það ekki þó auðveldlega mætti túlka orð hans þannig. Ég er auðvitað ekki þeirrar ánægju aðnjótandi að hafa aðgang að hugskoti forsætisráðherrans, enda á fárra færi og varla hans sjálfs, en ég býst þó fastlega við að þegar hann leiðréttir þessa dómadagsvitleysu þá segi hann:

„Látiði ekki svona, ég meinti auðvitað að við reynum einsog við getum að ganga í fararbroddi þeirra sem vilja snúa þessari óheillaþróun við, en ef það ekki tekst, og raunar löngu fyrr, þá bjóðum við allt það fólk sem hingað vill flytjast velkomið og þessþáheldur ef það flýr hungursneyð, flóð, og aðra eymd sem verður til vegna loftslagsbreytinga sem við berum sannarlega sök á eins og aðrar þjóðir. Og auðvitað finnst mér ekki að fleiri virkjanir leysi loftslagsvandann, það er stór misskilningur. Ég er stórlega misskilinn.“

Alveg er ég (næstum) viss um að Sigmundur Davíð segir þetta.

Efnisorð: , , , ,