sunnudagur, september 30, 2007

Grunnatriði


Næstum öll erum við sammála um að konur eigi að fá sömu laun og karlar fyrir sambærilega vinnu (þó eru þeir til sem eru ósammála þessu og finnst meira segja í lagi að segja það upphátt).

Það blasir við að konur fá ekki sömu laun og karlar, hvernig svosem prósentuútreikningurinn er véfengdur.

Hvernig getur það þá verið svona óskaplega rangt og ósanngjarnt af feministum að hafa orð á því að konum sé mismunað í launum? (Og afhverju fer umræðan alltaf útí hártoganir um hve há prósentutalan sé?)

Og hvernig stendur á því að þeir sem hæst gala um frelsi – og þá ekki síst tjáningarfrelsi – séu þeir sömu og þola ekki að feministar tjái sig?

Efnisorð: ,

mánudagur, september 24, 2007

Árangur verkalýðsbaráttu að engu gerður

Er lausnin við skorti á hjúkrunarfræðingum að reka hluta þeirra og ráða útlendinga á lægri launum? Einhvernveginn hefði ég haldið að það væri nær að ráða sæg útlendinga á fullum launum til að bæta úr starfsmannaskortinum og reyna svo að hækka laun allra, auk þess að breyta vöktum og hverju því sem veldur því að Landspítalanum-háskólasjúkrahúsi helst ekki á starfsfólki. Útlenskar hjúkrunarfræðingar ættu allsekki að vera á lægri launum en íslenskar, ekki frekar en annað innflutt vinnuafl.

Til hvers var verkalýðsbarátta 20. aldar, barátta foreldra okkar og ömmu og afa, verkföll og milljón fundir með vinnuveitendum ef það á að kasta öllu því sem áður vannst, ráða fólk á verktakalaunum án veikindaréttinda eða launaðra sumarleyfa, og helst á lægri launum en íslenskt fólk getur sætt sig við og lifað af?

Þetta virðist gegnumgangandi í íslensku samfélagi, alltfrá uppsögnum hjá Flugleiðum (til að ráða erlendar áhafnir geri ég ráð fyrir) til hjúkrunarfræðinga. Restina á svo bara að einkavæða: leyfa fyrirtækjum að reka eigin leikskóla (börnin lenda laglega í súpunni verði foreldrum þeirra sagt um störfum hjá góða fyrirtækinu), einkavæða heilbrigðiskerfið og svo framvegis og framvegis.

Get ég fengið velferðarsamfélagið aftur, takk. Það virðist einhver hafa lagt það til hliðar og gleymt hvað það var mikilvægt.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, september 20, 2007

Rúður brotnar og migið á almannafæri

Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins virðist hafa lesið sömu bók og ég er að lesa. Í henni er fjallað um hvernig glæpum var fækkað í New York með því að ráðast gegn þeim sem ekki borguðu í lestarnar, máluðu graffiti (á lestarnar) og migu á almannafæri. Fyrst var þetta semsagt gert í neðanjarðalestakerfinu og árið 1994 var náunginn sem stjórnaði þessu fenginn til að vera lögreglustjóri New York og fækkaði þá glæpum til muna, m.a. vegna aðgerða í þessum dúr (fleira kom reyndar til, s.s. betra efnahagsástand).

Tengingin við glæpi var svo aftur sú að það þótti heldur lágkúrulegt að vera að handtaka menn fyrir að borga ekki í neðanjarðalestarnar en í ljós kom að í hverjum hóp handtekinna var einn af hverjum tuttugu vopnaður og sjöundi hver eftirlýstur fyrir glæpi og því fækkaði glæpamönnum á götunni. Þetta varð auk þess til þess að þeir héldu sig til hlés. Tekið-hart-á-smáglæpum aðgerðir geta því verið þáttur í því að öllum glæpum fækkar.

Ekki að ég haldi endilega að glæpir séu svo mikið fleiri í Reykjavík nú en áður (en þegar þessi herferð hófst í New York voru glæpir þar í sögulegu hámarki, um 2000 morð og 600.000 aðrir alvarlegir glæpir á ári) og ekki amast ég við graffiti né tel það rót alls ills. En pælingin bak við báðar þessar aðgerðir virðast þær sömu og byggjast á „brotinnar rúðu“ kenningunni. En hún fjallar um að sé rúða brotin í byggingu og enginn geri neitt til að lagfæra hana, munu fleiri rúður vera brotnar vegna þess að þá sjá grjótkastarar sem leið eiga hjá að þeir munu komast upp með að brjóta rúður þar og öllum sé sama því enginn skiptir sér af. Fyrir rest er engin rúða heil og síðan breiðist vandinn út til nærliggjandi húsa og um heilu hverfin. Á sama hátt gangi fólk illa um ef það sér að aðrir ganga illa um og komast upp með það. Og ég held að Stefán Eiríksson hafi tekið við sér eftir að hafa kynnt sér þetta.

Nú verð ég allra síðasta manneskja til að aðhyllast lögregluríki en ég verð að segja að þessi tilraun með að reyna að koma böndum á „ástandið í miðbænum“ hugnast mér ágætlega, ekki síst ef hún tekst.

Efnisorð:

mánudagur, september 17, 2007

Og rigningin er blaut

Karlmaður, sem bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur voru sammála um að væri sekur um nauðgun, var dæmdur í þriggja og hálfsárs fangelsi í Hæstarétti.* Áður hafði Héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að nauðgarinn ætti að vera fjögur ár bak við lás og slá, fjórfalt skemur en refsiramminn leyfir. Semsagt; áfrýjunin borgaði sig fyrir nauðgarann, enda þótt allir væru sammála um að hann væri sekur.

En þetta er svosem partur af því að draga úr því að konur kæri nauðgarana. Fyrsta hindrunin er löggan, þar er flestum kærum vísað frá. Þær sem komast fyrir dómstóla lýkur yfirleitt með sýknudómi, hinar enda með hlægilegum dómum. Svo er nauðgurunum sleppt út aftur, ýmist eftir sýknudóminn eða eftir að hafa setið af sér hluta dómsins, sem þó var lágur fyrir, og þeir geta farið að nauðga aftur. Sem er sérdeilis hugguleg tilhugsun fyrir allar konur, en þó sérstaklega þær sem þegar hafa orðið fyrir barðinu á þeim.

Það tekur því varla að æsa sig yfir þessu. Það er eins og að tryllast yfir því að rigning sé blaut. Þetta-bara-er-svona.

___
* Eins og í öllum svona málum þá er lýsingin á nauðguninni mjög ógnvekjandi og fólk varað við að lesa hana. Tengingin er hér fyrst og fremst til að benda á niðurstöðu dómaranna, en þau eru: Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Efnisorð: ,

föstudagur, september 14, 2007

Óvinir óvinar míns vilja ekki vera memm
Réttindabarátta kvenna, eða sú bylgja hennar sem reis upp á sjöunda áratugnum á Vesturlöndum, hélst mjög í hendur við réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum. Í kjölfarið kröfðust svo samkynhneigðir einnig réttinda. Kvenréttindakonur þær sem á þessum tíma fóru að rífa kjaft, voru velflestar menntaðar millistéttarkonur (hvítar og gagnkynhneigðar) þó ekki allar. Þær litu svo á að rót allra vandamála og misréttis gegn konum væri að finna í karlveldinu og að völd kristinna, hvítra, gagnkynhneigðra karla (sem sumir eru kallaðir WASP eða White Anglo-Saxon Protestant, með vísun í evrópskar rætur þeirra) væru á kostnað allra hinna sem ekki væru karlkyns, hvítir og gagnkynhneigðir. Af þeim sökum hafa kvenréttindakonur staðið með baráttu svartra og samkynhneigðra alla tíð.

Og líklega er það af sömu ástæðu sem margar menntaðar konur á Vesturlöndum hafa gerst málsvarar múslima í þeim tilvikum þar sem hinir hvítu Evrópubúar hafa amast við því að þeir flytjist til Evrópu eða þegar Bandaríkin ráðast inní lönd þar sem múslimar eru í meirihluta íbúa (eða í tilviki Ísrael sem Bandaríkin styðja heilshugar í stríðinu gegn Palestínu). Þetta þykir mörgum fjarstæða, enda hægt að benda á margt afarslæmt sem viðgengst hjá múslimum í nafni islam; sæmdarmorð, umskurður, nauðungarhjónabönd, skerðing á ferðafrelsi, skylda að ganga með höfuðblæjur eða í búrku, o.s.frv. Og allt á þetta við um konur, þ.e. frelsi kvenna er skert og kynfrelsi þeirra fótum troðið. Ekki veit ég um nokkra konu sem segir að þetta sé í lagi eða vill ekki breyta þessu. En samt hafa velmeinandi menntaðar konur varið múslima gegn kristnum hvítum körlum.

Það er svosem ekki eins og það sé í fyrsta sinn sem konur (menntaðar kvenréttindakonur semsé) hafa varið þá sem vilja ekki veg þeirra mestan: ekki hefur mér sýnst karlkyns bandarískir blökkumenn hafi vandað konum kveðjurnar þrátt fyrir allan stuðninginn. Rapptextar eru t.d. uppfullir af kvenfyrirlitningu og svartar konur kvarta talsvert undan framkomu svartra karla við sig. Samkynhneigðir karlmenn eru ekki allir ‘bestu vinir’ kvenna (þó annað megi halda af sjónvarpsþáttum eins og Sex and the City og Will&Grace), heldur eru sumir þeirra haldnir megnri kvenfyrirlitningu, rétt eins og aðrir karlmenn.

Við, þessar velmeinandi kvenréttindakonur, sem erum svo gjarnar á að standa með öllum sem eiga við sama vanda að etja og við sjálfar (nú þori ég ekki að segja ‘eiga við sama óvin að etja’ því ekki líta nú allir feministar svo á, né heldur samkynhneigðir eða svartir) en fá vart nema skít og skömm í staðinn. Laun heimsins eru vanþakklæti.

En jú, kannski ætti kona að snúa sér að því að rækta bara sinn eigin evrópska garð og líta ekki upp þó homminn í næsta húsi sé barinn eða svarta konan í hinu húsinu verði fyrir ofsóknum eða músliminn sem er nýfluttur til landsins fái ekki að flytja í húsið á móti. Maður verður jú að rækta garðinn sinn.

___
[meðfylgjandi mynd er eftir Halldór Baldursson, tekin af bloggi hans (halldor2006.blog.is) og varð kveikjan að þessum hugleiðingum]

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, september 06, 2007

Er nekt eina leiðin?

Vonandi heldur engin að ég hafi átt við auglýsingaherferð Baðhússins þegar ég var að tala um „erótískar“ ljósmyndir. Mér vitanlega hefur engin sagt að þær eigi að vera erótískar, svo ekki urðu þær mér tilefni skrifanna. Ég vil nú síður gagnrýna þessar auglýsingar því ég skil vel meininguna bak við þær; að konur séu fallegar hversu mörg sem kílóin eru og burtséð frá hvernig þau dreifast. Ég veit að kvenlíkaminn sem við sjáum venjulega í auglýsingum er alltaf sá sami: stór brjóst, grannt mitti, langir grannir leggir, hvergi arða af fitu og allt mjög stinnt.

Auðvitað er fáránlegt að hugsanlega sé til fólk sem heldur að svona og ekki öðruvísi eigi konur að vera. Og fyrir konur sem ekki eru svona útlits (en það erum við fæstar) þá er vont að vera alltaf síðri en þessar í auglýsingunum. En það sem ég fer alltaf að hugsa þegar ég sé konur sem eru eldri en þær sem við sjáum venjulega í auglýsingunum, eða þyngri, er: hvar liggja mörkin?

Er vont fyrir allar konur að kona sem er tvítug og 48 kíló sjáist í auglýsingunum en frábært ef hún er sextug og 73 kíló? En fimmtug og 62 kíló? Eða þrjátíu og fimm og 53 kíló? Eða 47 og 59 kíló? Hvar liggja mörkin, svona nánar tiltekið? Hvenær er kona hætt að vera ung og staðalímynd og verður stoltur fulltrúi sinnar kynslóðar, eða ekki lengur slæm fyrirmynd í holdafari heldur ‘sátt við líkamann’? Er ekki helsta meinið það, að konur skuli þurfa að sækja sér sjálfsvirðingu í dóm annarra, á almannafæri? Mér þykir leitt að konur skuli vera naktar í auglýsingaherferðum fyrirtækja eru (á það jafnt við um Baðhúsið og Dove húðvöru-herferðina), hvernig sem þær svo eru vaxnar eða hversu gamlar eða ungar þær eru.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, september 05, 2007

Vantar starfsfólk í skóla og leikskóla

Alveg er óskiljanlegt þetta væl um að það vanti fólk á leikskólana og skólana og svoleiðis staði. Það á bara auðvitað að skikka konur til að vinna fyrir þau laun sem eru þar í boði, hvað ætla þær svosem að gera við hærri laun? Fá sér fleiri strípur? Vita menn ekki líka að ef laun þeirra eru hækkuð þá fer verðbólgan af stað? Þessvegna er algerlega nauðsynlegt að láta svona skóla-og spítaladjobb vera mjög lítið borguð, enda ófært að svona fólk hafi of mikla peninga milli handana, það veldur bara þenslu. Þá er nú skárra að hækka alltaf laun alþingismanna, ráðherra og Seðlabankastjóra ríflega af og til, og svo verða auðvitað allir sem eru að vinna í fjármálageiranum að vera vel borgaðir. Ekki veldur svona fínt fólk þenslu og verðbólgu.

Og svo þarf heldur ekkert allt þetta starfsfólk á leikskólana. Nær væru að börn fengju að vera heima hjá mæðrum sínum og þær hættu að flækjast þetta úti á vinnumarkaðinum. Best væri að allar konur færu inná heimilin aftur og sinntu þar börnum og öldruðum og sjúkum ættingjum sínum. Koma ekki líka alltaf tillögur um það afogtil frá velviljuðum stjórnmálaflokkum að gera þeim þetta kleift, borga konum fyrir að vera heima? Svo sætt.

Hætta þessu væli bara. Aumingja börnin, mamma alltaf úti að vinna. Uss.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, september 04, 2007

„Munurinn“ á klámi og erótík

Stundum snýst umræða um klám uppí skilgreiningar á hvað sé klám og þá er reynt að kalla einhvern hluta þess ‘erótík’. Þannig var t.d. stripp kallað ‘erótískur listdans’ eða eitthvað álíka fáránlegt fyrst þegar strippstaðirnir tóku til starfa. Mörgum finnst líka erfitt að viðurkenna að þeir fíli klám og vilja því kalla það sem þeir horfa á sér til ánægju erótík en það sem „hinir“ horfa á sé klám.

Stundum hafa mér verið sýndar svarthvítar ljósmyndir af nöktu fólki sem er í einhverjum stellingum sem fela ýmist eða sýna kynnæm svæði líkamans eða þau svæði sem hinu kyninu þykja hvað forvitnilegust. Er þá ætlast til að ég samþykki að um erótík sé að ræða en ekki klám. Ég svara því þannig að hafi fyrirsætan fengið greitt fyrir að koma nakin fram, ljósmyndarinn fái borgað fyrir að mynda hana, kaupandi sé að myndinni og fólk kaupi hana eða glápi á hana vegna kynþokka líkamans eða sér til örvunar – eitt þessara atriða og þá sé um klám að ræða. Ef þetta er ljósmynd (eða kvikmynd) sem karl tók af konu sinni (eða öfugt) sér til ánægju og skemmtunar – þá spyr ég hvað það eigi að þýða að blanda mér eða öðrum inní þeirra prívatlíf með þessum hætti og flokka myndina sem klám. Hið ‘listræna klám’ er gert af listamönnum (málað eða myndað) og sýnt og selt - oft undir formerkjum erótíkur - en alltaf hef ég nú efasemdir um heilindi þeirra listamanna sem hafa ægilega mikinn áhuga á að sýna naktar konur.

Á allmörgum kvikmyndahátíðum er ein eða fleiri myndir með klám sem meginefni, en þá er sagt að þær séu erótískar eða talað um listrænt gildi nektarinnar. Sé verið að sýna fólk í samförum, alveg sama þótt í hefðbundinni kvikmynd þar sem samfarasenan er bara ein og restin af myndinni fjalli um allt annað, þá er um klámsenu að ræða.

Sé efni myndarinnar BRJÓST, TIPPI, PÍKA, RÍÐA, þá er um klámmynd að ræða, alveg burtséð frá hve margir þátttakendurnir eru, á hvaða aldri þeir eru eða í hvaða stellingum.

Í stuttu máli sagt: ‘Erótískar myndir’ eru ekki til. Og því er enginn munur á erótík og klámi.

Það er enginn munur á kúk og skít.

Efnisorð: ,

laugardagur, september 01, 2007

Ruslaralýður

Umgengnin í miðbæ Reykjavíkur hefur verið mjög til umfjöllunar undanfarið og grein Fríðu Bjarkar og viðtal við hana í Kastljósi er mjög gott innlegg í umræðuna. Fríða Björk sagði að það ætti kannski að prófa að þrífa ekki upp ruslið og smúla burtu hlandið af götum og gangstéttum eftir einhverja helgina og athuga hvort borgarbúum myndi þá ekki ofbjóða. Mér finnst þetta frábær tillaga því segja má að með hinum öfluga þrifnaði á laugardags- og sunnudagsmorgnum sé hreinlega verið að sópa vandanum undir teppið. Mér hefur líka fundist sem það fólki sem ekki býr í miðbænum finnist sem allir íbúar miðbæjarins geti bara flutt þaðan ef þeim líki ekki lætin og umgengnin. Í öðrum hverfum eru miklar undirskriftir og hverfasamtök sem rísa uppá afturlappirnar þegar kemur í ljós í grenndarkynningum að raska eigi ró þeirra með einhverjum hætti (gott hjá þeim en þeim virðist sama um íbúa annarra hverfa, s.s. miðbæjarins). Sum þau sem búa í miðbænum eru þar fædd og uppalin og vilja þarafleiðandi hvergi annarstaðar vera, rétt eins og þau sem vilja ekki flytja úr Vesturbænum eða Hafnarfirði.

Auk þess snýst þetta ekki bara um fólk með fasta búsetu í miðbænum. Fjöldi hótela er á þessu svæði og þar búa grandalausir útlendingar (sem ekki koma allir til að taka þátt í skemmtanalífinu) og þeir þurfa að klofa yfir draslið og framhjá gargandi lýðnum til að troðast inní Flugrútuna sem kemur til að sækja þá og keyra þá í morgunflugið. Fólk hefur fengið menningarsjokk af minna tilefni.

Og hvað er með karlmenn og að míga sífellt utaní hús og veggi? Verður þeim meira mál en konum? Dettur engum þessara karlmanna í hug að pissa á klósettinu á veitingahúsinu sem þeir voru á? Ég geri mér það reyndar að leik að hía á þessa vitleysinga þar sem þeir standa með sprellann útí loftið og segja þeim hvað hann sé smár, en í raun er mér algerlega ofboðið yfir þessum ógeðslega sið þeirra sem veldur því að við hin þurfum að ganga gegnum þvagpollana eftir þá. Svo mætti einhver þeirra fjölmörgu vísindamanna, sem ekkert betra virðast hafa við tíma sinn að gera en reyna að finna ýmiskonar líffræðilegan mun á körlum og konum, útskýra fyrir mér þennan mikla mun á munnvatnsframleiðslu kynjanna – en það er eins og karlmenn framleiði alltof mikið munnvatn og hreinlega neyðist til að hrækja stórum slummum af umframframleiðslunni í þriðja hverju skrefi. Konur virðast ekki eiga við þetta vandamál að stríða. (Svo virðist sem munnvatnsframleiðsla sé líka meiri hjá knattspyrnumönnum en handboltamönnum, en þeir fyrrnefndu hrækja ótt og títt á fótboltavellina sem þeir renna sér svo á hnjákollunum eftir, en handboltamenn virðast allir geta kyngt sínu munnvatni sjálfir. Einnig rannsóknarefni.)

Nema hvað, þegar ég var að ræða þetta mál við ágæta konu og tók mjög málstað Fríðu Bjarkar, þá sagði sú kona að það þýddi ekkert að hætta að þrífa miðbæinn, fólk myndi alveg sætta sig við hann svona skítugan. Mér fannst þetta ekki líklegt þar til hún benti mér á hvernig ótrúlega margir ganga um bílana sína. Og þá rifjaðist upp fyrir mér ótal skipti sem ég hef þegið far með vinum, kunningjum og ættingjum og orðið málstola vegna ruslahaugsins sem mætti mér í framsætinu, aftursætinu og fljótandi á gólfum bifreiðarinnar (þetta sé ég líka oft þegar ég geng framhjá kyrrstæðum bílum á bílastæðum). Það fólk, sem svona gengur um bílana sína, lítur svo á það sem tiltekt að skrúfa hliðarrúðu niður til hálfs og moka mesta hroðanum út, beint á götuna. Nú eru mínir vinir, kunningjar og ættingjar allajafna mjög snyrtilegt fólk, sem á falleg heimili, gengur í hreinum fötum og er smekklega til fara, eyðir stórfé á hársnyrtistofum og er í stuttu máli sagt engar subbur – þó annað megi ráða af því hvernig það gengur um bílinn sem það eyddi í milljónum á milljónum ofan. Mér er þetta allt mjög óskiljanlegt en varð þó að samsinna konunni sem heldur því fram að Íslendingar hafi mjög mikið þol gagnvart rusli og drasli.

Efnisorð: ,